Vanhæfni á Þjóðminjasafni, enn og aftur

Mynd_1438568

Enn einu sinni sýnir Þjóðminjasafnið vanhæfni starfsmanna sinna opinberlega. Nú síðast voru það litlir fræðilegir burðir Lilju Árnadóttur sem landsmenn fengu sýnishorn af í fréttum ríkisfjölmiðilsins ótrúverðuga. Nýlega hreppti Lilja Árnadóttir rannsóknarstöðu í nafni Kristjáns Eldjárns fyrir framan nefið á 16 öðrum umsækjendum. Sú stöðuveiting átti sér stað eftir að Ástráður Erlendsson bókmenntafræðingur og forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands gerðist skyndilega álitsgjafi í ráðningarmálum Þjóðminjasafnsins. Menn spyrja sig nú, hvaða vit prófessor Ástráður hafi yfirleitt á þess háttar. Svörin verða eins sauðaleg og fá og þegar þjóðminjavörður segir alþjóð að það sé í himnalagi að spara næturvarðmanninn yfir handritaarfinum í Þjóðmenningarhúsinu. Þetta er skammarlegt fyrir Þjóðminjasafnið.

Greinilega er það þó einhvers konar bókmenntafræði sem Lilja Árnadóttir stundar, því hún hafði greinilega ekki hundsvit á því sem hún talaði um fyrir framan alþjóð í 10-fréttum Sjónvarps í gær (16.10.2013; Sjá einnig hér) og slettir út þeirri ævintýralegu skoðun sína að sylgja ein, sem fannst í Borgarfirði, hafi verið borin af höfðingja.

Lilja sylgja

Lilja Árnadóttir og forvörður með sylgju úr Húsafelli

Hringjan sem fannst í Húsafelli og sem "sérfræðingurinn" Lilja segir vera frá 13. öld og jafnvel frá 15. öld, til að hafa allan varann á, er skreytt með höfðaletri. Höfðaletur er íslensk leturgerð, stílfærðir höfuðbókstafir (svokallaðir majúsklar) 16. aldar, og eru þeir ekki þekktir fyrr en á 16. öld. Allt þvaður um 13. öld og að Snorri Sturluson hafi verið eigandi þessa grips er út í hött. Gripurinn er án vafa gerður á Íslandi. Það þekkjast fleiri málmgripir með slíku letri á Íslandi eða einhverju kroti sem líkist höfðaletri, og þar sem ekkert stendur að viti.

Þar að auki er þetta ekki nein venjuleg sylgja eða hringja sem fannst í Húsafelli, heldur skreyti af reiðtygjum, hugsanlega af hnakki eða söðli.

leifar leðurs

Höfðinginn, sem Lilja sér fyrir sér, hefur greinilega verið í leðurfötum.

 

Bakhlið

Hjóllaga hringur er hnoðaður á þorninn.

Gripurinn uppfyllir ekki þau skilyrði sem venjulega sylgja eða hringja þarf að uppfylla. Á sylgjum, hringjum og hringlaga spennum er þorn (standur). Þorni spennunnar er stungið í gegnum eitthvað, t.d. auga á leðri eða í klæðnað/vefnað til að halda saman hlutum. Á þessari "sylgju" er það ekki hægt, því á það er negldur (hnoðaður) hjóllaga, flatur hringur ofan á þorninn, sem gerir að verkum, að ekki er hægt að stinga honum gegnum eitt eða neitt. Þetta er því næsta örugglega skrautsspenna af reiðtygjum og er líklega frá 16. öld og jafnvel þeirri 17.

Þetta ætti  "sérfræðingur" Þjóðminjasafnsins að vita. Lilja hefur reyndar tekið þátt í samnorrænu verkefni sem Norræna ráðherranefndin borgaði dýrum dómum og sem á sænsku kallaðist Föremålsnomenklatur för nordisk medeltid (og þegar fínt átti að heita upp á latínu Nomina Rerum Mediævalium) þar sem tekið var saman orðasafn á lausblaðaörkum fyrir heiti á forngripum frá miðöldum. Þetta verkefni gekk afar seinlega vegna skussaháttar sumra þátttakendanna í því, og voru áskrifendurnir sem borguðu vel fyrir þessi blöð farnir að kalla það Nordisk Valium. Lilja sem tók við verkefninu af Gísla Gestssyni safnverði var ein þeirra sem til vandræða var í þessu verkefni, skilaði illa af sér og undir lokin var mér greitt sérstaklega af verkefninu til að ljúka því sem hún hafði ekki haft tíma til að sinna. Á blaði um hringjur og spennur í þessu orðasafni, sem ég geng út frá því að Lilja þekki, kemur fram, hvernig sylgjur eru notaðar og hvað einstök atriði á sylgju heita. En aldrei hefur verið til sylgja, þar sem ekki var hægt að stinga þorninum í gegnum eitthvað (sjá hér á vef HÍ hvernig á að spenna belti).

belti_sylgja_thorn

Háskóli Íslands kennir mönnum að spenna beltisólar og nota sylgjur. Ef þorninn væri eins og á sylgjunni í Húsafelli á þessu belti, er víst að menn misstu niður um sig buxurnar. Ég geri mér í hugarlund að myndin sé líkast til af belti og sylgju Ástráðs Eysteinssonar, sem hann gleymdi á Þjóðminjasafninu.

Ástæðan fyrir því að leðurleifar finnast á þessari skrautsylgju, er að þorninum hefur verið stungið í gegnum leður og síðan hefur verið lokað fyrir frekari not með því að hnoða hjólið ofan á þorninn. 

Að Lilja Árnadóttir haldi að höfðingjar landsins hafi veið hross og gengið vel girtir með risavaxnar hrossasylgjur, er hins vegar ekki alveg út í hött.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Fornleifur.

Bestu þökk fyrir fróðlegan og skemmtilegan pistil!

Þetta fer að minna á þá Gullfaxa og Ljóma
sem heigðir eru í túni Rauðsgils en átti konan
Sigríður Jónsdóttir, - sú hin eina sem metin hefur verið
opinberlega að virði eins og heils síðutogara.

Gnegg fyrrgreindra hrossa um miðnæturskeið
eilíft á síðustu dögum kann að stafa af
skrauti þessu nema ef vera skyldi að þar
endurómi 12tónaröð Sörla, Húsafells í túni,
þar sem hann grátgneggjar hið horfna skraut.

Veldur hver á heldur; þér er lagið að gera
þetta efni áhugavert!

Húsari. (IP-tala skráð) 18.10.2013 kl. 09:07

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afköstin á þessu sviði geta stundum verið mjög mikil. Þannig kemur fram í gögnum um Gálgahraun, að fornleifanefnd nægði að skreppa dagstund í hraunið til þess að gefa nauðsynlega umsögn um það áður en það yrði tekið í nefið fyrir vegi þvers og kruss.

Á bloggsíðu og fésbókarsíðu minni í gær má sjá hvert umfangið hefur verið á þessu verkefni og hvað stendur til að gera í hrauninu.

Ómar Ragnarsson, 18.10.2013 kl. 09:59

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Ómar, nú er fornleifanefnd ekki lengur hluti af Þjóðminjasafni, en ný lög um fornleifavörsluna, sem verða til á ca 10 ára fresti, hafa gefið okkur Fornleifavernd Ríkisins og nú síðast arftakann Minjastofnun Íslands. Hringtorg og þvervegir hafa þannig myndast í fornleifavörslunni og ekki alltaf til góðs. Á Minjastofnun Íslands ræður ríkjum enn ein mad-amman í fornleifaverndinni (Kristín Sigurðardóttir), sem er afar af þæg í viðskiptum við pólitíkusa og "mektarmenn" og er þekkt fyrir að gefa mönnum leyfi til að byggja sumarbústaði í trássi við lög og Þorláksbúð. Hún vill helst reisa steinsteypuminnisvarða um störf sin ofan á fornminjum (á Stöng). Ég býst við því að stjórnmálamönnum sem dýrka steinsteypu og malbik þyki það bara fallegt og glæsilegt fyrir þjóðararfinn.

Þar sem ég skráði hluta af fornleifum í Gálgahrauni í fyrstu skráningu fornleifadeildar Þjóðminjasafns (í gráu skráningarbækur Guðmundar Ólafssonar), þá þykir mér mjög vænt um þetta svæði og skil ekki þessa eyðileggingu á þeirri náttúruperlu sem hraunið er. Ég man sérstaklega eftir mjög fornri hringlaga rúst sem ég skráði. Það er eins og Íslendingar séu haldnir sömu áráttu og lélegir listamenn á miðöldum sem þurftu að bæta alls kyns hlutum inn á annar góða mynd til að fylla upp í eyður. Kallar maður það Horror vacui. Að fylla upp í eyður, þar sem náttúran er enn til í borgarmyndinni, með vegum "kruss og tvers" og steinsteypu er furðuleg ónáttúra

FORNLEIFUR, 18.10.2013 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband