Embættismannafornleifarannsóknarferðar- skandallinn 1987

hraunthufa87_1263577.jpg

Í ágúst 1987 hélt hópur íslenskra embættismanna og eiginkvenna þeirra í helgarferð að Hraunþúfuklaustri í Vesturdal í Skagafirði.

Þór Magnússon þjóðminjavörður gaf út rannsóknarleyfi til fornleifafræðings eins með sænskt pungapróf í fornleifafræði, og bauð svo vinum hans og kunningjum í helgarrannsókn norður í land til að grafa nokkrar holur í rústirnar í Vesturdal. Þátttakendur í helgarrannsókninni töldu m.a. sendiherra, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra, deildastjóra og hjúkrunarforstjóra. Þetta glæsilega lið klæddist bláum æfingagöllum líkt og að ferðinni væri heitið á diskótek. Aldrei áður hafði farið fram fornleifarannsókn á Íslandi sem um leið var tískusýning fyrir forljótan útilegufatnað.

Hvorki meira né minna en hálft tonn af hafurtaski blýantsnagaranna var flutt norður að Gilhaga í Skagafirði og þar beið þyrla Landhelgisgæslunnar eins og auðmjúkir þjónar embættismannanna og flutti pjönkur þeirra síðasta spölinn inn að Hraunþúfuklaustri. Hljómsveit Rúnars Gunnarssonar, Geimsteinn, hjálpaði einnig með að flytja pinkla og drykkjarföng ferðalanga í Skagafjörð. Rúnar heitinn var alltaf sami öðlingurinn.

Næstu tvo daganna gróf þetta fína fólk eins og það hefði etið óðs manns skít og árangurinn lét vitaskuld heldur ekki leyna á sér. Í Lesbók Morgunblaðsins birtist árið eftir hin ýtarlegasta ferðalýsing eftir Hrafn Pálsson deildarstjóra í heilbrigðisráðuneytinu. Þar eru góðar myndir að aðförunum og lýsandi mynd þar sem Þór Magnússon er sagður útskýra stein sem búið er að finna - En hvenær fær almenningur og skattborgarinn sem borgaði þyrluflugið útskýringar?

Niðurstöður?

Þetta gerðist allt meðan fornleifar frá rannsókninni á Stóru Borg eyðilögðust á Þjóðminjasafni Íslands vegna vanrækslu og áhugaleysis helgarfornleifafræðingsins Þórs Magnússonar. Annað eyðilagðist einnig (sjá hér).

Hvað kom svo út úr þessu helgarkrukki skrifstofublókanna? Svarið er: EKKERT. Engin skýrsla hefur birst og engin gögn virðast hafa verið skráð frá þessu helgarverkefni í ágústmánuði árið 1987. Engin sýni hafa verið tekin til kolefnisaldursgreininga, þó svo að grafið hafi verið niður á fornt eldstæði.

Reyndar hafði Þór Magnússon farið þarna um áður. Það var í ágúst 1973. Afraksturinn var líka rýr í það skiptið. Til að mynda tók Þór með sér í bæinn nokkra leggi og bein og túlkaði herðablað bein úr kind sem mannabein (sjá hér). Það eru þau greinilega ekki, og hefur sá sem skráði beinin einnig átt erfitt að leyna fyrirlitningu sinni á ruglinu er hann skrifaði þetta í aðfangabók Þjóðminjasafnsins:

Mannabein úr Hraunþúfuklaustri. Minjar sem Þór Magnússon þjóðminjavörður afhenti 29/8 1973 sem fundust  við rannsókn þar. Herðablað og tveir beinhlutar. Fannst í rúst 1, skála. Mér sýnist þetta nú vera herðablað úr stórgrip, líklega nautgrip. Beinið neðst fyrir miðju er fjærendi af lærlegg líklega af kind/geit og beinið lengst til vinstri er líklega fjærendi af sveif úr kind/geit.

Fáeinar ljósmyndir, vitagagnlausar, frá rannsóknum Þórs á Hraunþúfuklaustri árið 1973 eru síðan skráðar á Sarpi. Sannast sagna er mestur fengur af vísu Kristjáns bónda Stefánssonar í Gilhaga um hina grafandi embættismenn.

Fornar götur gengið, riðið

geyst er stefnt í hlað.

Þannig herjar Henson-liðið

helgan klausturstað.

hraunthufa87b.jpg

Sigurður Þórarinsson hafði einnig grafið holur í rústir á Hraunþúfuklaustri árið 1972. Holur jarðfræðinga gefa hins vegar mjög takmarkaðar upplýsingar um jarðlagaafstöðu sem fornleifafræðingar sækjast eftir, en Sigurður greindi þó frá því að hann í botni einni holunnar hafi fundið ljósa gjóskulagið úr Heklugosi árið 1104 yfir gólflagi. Fyrst var greint frá því í Morgunblaðinu árið 1972 (sjá hér).

Kristján Eldjárn ritaði síðan ágætt yfirlit, Punktar um Hraunþúfuklaustur, í Árbók fornleifafélagsins árið 1973, þar sem hann fer yfir rannsóknarsögu rústa og tilgátur um eðli rústanna að Hraunþúfuklaustri í Vesturdal.

Embættismannahelgarsportgröfturinn árið 1987 bætti engu við þá sögu, nema því að embættismenn gátu farið í helgarfornleifarannsókn í Henson-göllum í boði þjóðminjavarðar til að raska rústum engum til gagns og ánægju nema sér sjálfum.

Quo vadis?

Nú er öldin önnur. Jarðsjá, radarar og jafnvel vinsældalistar fréttastofa eru notaðir til að finna klaustur nú á dögum, og þau voru greinilega stærri á Íslandi en víðast hvar á Ítalíu, ef trúa má nýjustu niðurstöðum frá Þykkvabæjarklaustri. Ef rétt verður haldið á spöðum og skeiðum finnst líklega embættismaður í bláum Henson-galla á Hraunþúfuklaustri, sem er vel á við "fílamann" og tvær eskimóakonur að Skriðuklaustri, þó þau hafi blessunin reynst vera frekar þunnur þrettándi þegar upp úr holunni var staðið.

En ef aldursgreining Sigurðar Þórarinssonar sumarið 1972 voru réttar hefur nú vart verið klaustur í Vesturdal og líklegast hafa rústirnar dregið nafn sitt af þeim lokaða (Lat. claustrum) dal sem bæjarstæðið er í.

hraunthufa87c.jpg

Auxiliator archaeologorum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband