Fortíðarsyndir á 150 ára afmælinu
16.2.2013 | 11:25
Nýverið var hér á blogginu greint frá því hvernig Þjóðminjasafnið vill koma skikki á varðveislumál sín og afhendingu fornleifa sem finnast við fornleifarannsóknir til safnsins (sjá hér og hér). Kannski var líka kominn tími til þess á 150 ára afmæli safnsins? Sumir telja hins vegar að Þjóðminjasafnið sé að fara inn á starfssvið nýrrar stofnunar, Minjastofnunar Íslands, en ekki ætla ég að dæma um það.
Í sambandi við tillögur að drögum að nýjum reglum sem Þjóðminjasafnið vinnur að um afhendingu gripa til safnsins hafði ég samband við Þjóðminjavörð með skoðanir mínar. Þjóðminjasafnið leitaði til fornleifafræðinga um tillögur. En um leið og ég gaf álit bað ég einnig um skýringar á því hvað varð um forngripi úr járni sem fundust við rannsóknir á Stöng í Þjórsárdal sem afhentir voru Þjóðminjasafni Íslands til forvörslu árið 1984. Sjá enn fremur hér.
Ég hef margoft bent á, að hvarf gripa og sýna er staðreynd á Þjóðminjasafni Íslands (sjá t.d. hér), og víst er að þar á bæ vilja menn sem minnst ræða um það mál. Sérstaklega nú á 150 ára afmælinu. Safn sem glatar og týnir einhverju er vitaskuld ekki gott safn. Söfn eiga að varðveita. Það liggur í orðinu. Lilja Árnadóttir safnvörður, sem týnt hefur sýni sem hún sjálf lét taka við mikilvæga rannsókn á varðveisluskilyrðum silfurs á Íslandi, vill ekki einu sinni svara fyrirspurnum um það hvað varð um sýnið. Því verð ég víst að biðja Menntamálaráðuneyti um að sækja svör fyrir mig. Hver veit, kannski þarf rannsóknarlögregluna í málið?
Alls fundust 50 gripir við tveggja vikna rannsókn á Stöng í Þjórsárdal sem fór fram 11. ágúst til og með 2. september 1984. 33 gripanna voru úr járni. Árið 1993, er ég hóf störf á Þjóðminjasafni Íslands, uppgötvaði ég mér til mikils hryllings að járngripirnir sem fundust á Stöng árið 1984 lágu allir undir skemmdum. Ég fann aðeins ryðguð brot og járnryk í kössunum. Kristín Sigurðardóttir, núverandi yfirmaður Minjastofnunar Íslands (einnig kallað pólska spilavítið), sem ber ábyrgð á því að svo kölluð Þorláksbúð hefur verið reist í Skálholti og sem ætlar sér að fara að reisa suðræna villu ofan á órannsökuðum rústum á Stöng í Þjórsárdal, hafði ekki gert neitt við forngripina. Árið 1984 var hún forvörður á Þjóðminjasafni Íslands og tók að sér að forverja gripina 50 sem fundust.
Hnífur þessi með leifum af tréskafti fannst þann 22.8. 1984 í svæði SC, í torfvegg skálans sem er undir rústinni sem nú liggur undir skemmdum vegna aðgerðaleysis Þjóðminjasafns, Fornleifaverndar Ríkisins og Minjastofnunar Íslands síðan 1996. Hvernig ætli fundur Stöng84:40 líti út í dag? Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1984.
Teikningar af forngripum í rannsóknarskýrslu frá 1984. Teikn. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1984.
Fyrir rannsóknarskýrslu fyrir rannsóknina, sem ég sendi þjóðminjasafninu, hafði ég teiknað og ljósmyndað suma járngripina og eru það einu heimildirnar, fyrir utan fundarstað og mælingu á þeim og lýsingu, sem til eru í dag um þá fornmuni sem látnir voru grotna niður á Þjóðminjasafni Íslands. Ekki teiknaði ég alla gripi eða ljósmyndaði. Þá var maður ekki með stafrænar myndavélar eða skanna og maður nýtti tímann frá því að maður lauk rannsókninni þar til maður fór af landi brott til náms mjög vel og teiknaði það sem maður gat og ljósmyndaði. Forverðirnir og Þjóðminjasafnið stóðu hins vegar ekki við skyldur sínar. En rannsóknarleyfið fyrir rannsókninni á Stöng hafði Þjóðminjavörður gefið og þar með skyldað rannsakendur til að afhenda forngripi að rannsókn lokinni.(þetta var fyrir daga fornleifanefndar) og skuldbatt safnið sig til að forverja gripina.
Ég hef beðið Þjóðminjavörð um skýringar á þessu, en hún svarar engu um þetta mál. Hún trúir nefnilega á hugskeyti, því þegar ég minnti hana um daginn á erindið, þá segist hún hafa fengið hugskeyti, en hún svaraði samt ekki spurningum. Ég sendi reyndar ekki hugskeyti, mér að vitandi, og hef ekki móttakara fyrir slíkar sendingar frá öðrum. Reynið ekki einu sinni. Veffangið er öruggara vilhjalmur@mailme.dk
Ég hef einnig beðið Þjóðminjavörð um að leita skýringa hjá Kristínu Sigurðardóttur á því sem hún var að gera árið 1984. Skýringar hef ég enn ekki fengið. Bið ég hér með opinberlega forstöðumanns Minjastofnunar Íslands að skýra af hverju hún lét forngripi frá Stöng í Þjórsárdal grotna niður og eyðileggjast árið 1984. Ætlar hún að sýna ferðamönnum þetta afrek sitt í 700.000.000 kr. yfirbyggingu á Stöng sem hún ætlar að reisa yfir frekjulega valdníðslu sína án þess að hafa nokkra samvinnu við þann fornleifafræðing sem rannsakað hefur á Stöng í Þjórsárdal? Það held ég. Því hann hefur ekkert heyrt.
Meginflokkur: Eyðilegging fornleifa | Aukaflokkar: Forynja, ómenning og óminjar, Menning og listir, Saga íslenskrar fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 12:18 | Facebook
Athugasemdir
Ekki mjög traustvekjandi þessi nýi formaður. Kannski ekki heldur battatíið sem hún stýrir. Hljómar dálítið eins og hún sé föst í 2007, en það mun vera nokkuð í að slíkir gripir eigi að falla í verndarflokk.
Ragnhildur Kolka, 17.2.2013 kl. 17:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.