Dummheit ist: Glauben, genug zu wissen
2.1.2016 | 18:25
Þegar útlendingar voru fáir á Íslandi, sáu sumir Íslendingar gyðinga í hverju horni. Þó gyðingar væru löngum ekki velkomnir á Íslandi, frekar en flóttafólk í dag, töldu margir Íslendingar sig snemma vita hverjir væri gyðingur og hverjir ekki. Íslendingar vissu þannig allt um alla, jafnvel þó þeir töluðu ekki við útlendingana - og það hefur greinileg ekkert breyst að því er ég best fæ séð.
"Gyðingurinn" Tierney
Þannig kom t.d. til landsins á seinni hluta 19. aldar kaupmaður frá Leith á Skotlandi sem Tierney hét sem seldi Íslendingum gamla garma. Tierney þessi var baptisti, en á hann var strax settur gyðingastimpill. Menn töldu víst að engir aðrir en gyðingar seldu fátæklingum "gömul pestarföt" frá Evrópu. Ég sagði frá þessum manni á bloggi árið 2013 og öðrum sem fengu gyðingastimpilinn á Íslandi, og hef nú frétt að hinn mikli maður Thor Jensen hafi verið bölvanlega við "gyðinginn" Tierney og að Tierney sé afgreiddur sem gyðingur í sögu Borgarness. Fróðari menn hafa einnig sett gyðingastimpilinn á Thor Jensen, þótt albróðir hans Alfred Jensen Raavad í Danmörku (sjá hér og hér) hafi verið gyðingahatari og afkomendur systkina hans hafi barist fyrir Danmörku í SS. Alfred Jensen hefði einnig verið liðtækur í hirð núverandi forsætisráðherra Íslands í að teikna hús í gömlum stíl til að friðþægja þjóðernisminnimáttarkenndina í sumum Íslendingum.
Hriflu-Jónas hittir Anítu sumarið 1934
Einn helsti forsvarsmaður hreinnar, íslenskrar menningar var Jónas frá Hriflu. Hann vildi líkt og Hermann Jónasson, flokksbróðir hans, helst hafa hér hreint og skyldleikaræktað blóð. Líklega hefur hann heldur ekkert skinbragð borið á "óvininn" þótt hann stæði við hliðina á honum. Reyndar veit ég þó ekki til þess að Jónas hafi látið út úr sér óyrði um gyðinga, líkt og ýmsir aðrir menn á Íslandi gerðu á 4. áratug síðustu aldar - og síðar.
Á myndinni hér fyrir ofan, (sem má stækka til muna ef menn kunna það), má sjá Jónas með föngulegri konu, sem heimsótti Ísland árið 1934. Kona þessi var fædd í Rúmeníu árið 1902 og hét Anita Joachim (síðar Anita Joachim-Daniel).
Anita var gyðingur. Hún vann sem blaðamaður í Þýskalandi fyrir stríð og var á ferð á Íslandi fyrir Associated Press ásamt hinum heimsfræga hollenska blaðaljósmyndara Wim van de Poll sem tók frábærar myndir á Íslandi sem nú má sjá á vef Þjóðskalasafns Hollands í den Haag.
Mogginn eys af eitri sínu haustið 1934
Líklega hefur Hriflu-Jónasi þótt unga konan æði fönguleg og ekkert haft á móti því að vera eilífaður með henni fyrir framan Héraðskólann að Laugarvatni. Nokkrum mánuðum síðar þótti hins vegar ritstjóra Morgunblaðsins það við hæfi að líkja Framsóknarmönnum við gyðinga og ritaði þessi leiðindi í leiðara blaðsins þann 25. október: "
"Oftast er málið sett þannig fram, að þeir, sem orðið hafa fyrir ,,grimdaræði nazistanna" sjeu dýrðlingar einir, sem ekkert hafi til saka unnið annað en það að vera af öðrum þjóðflokki en nazista-,,böðlarnir". Nú er það vitað að þýska þjóðin stendur í fremstu röð um mentun og alla menningu. Þess vegna verður Gyðingahatur þeirra mönnum algerlega óskiljanlegt, ef því er trúað að hinir ofsóttu hafi ekkert til saka unnið. Hjer er ekki tilætlunin að bera blak af þýskum stjórnvöldum hvorki fyrir meðferðina á Gyðingum nje á pólítískum andstæðingum sínum. En hafa þá Gyðingarnir í Þýskalandi ekkert unnið til saka? Jú, þeir væru öflug hagsmunaklíka í landinu, ríki í ríkinu, ,,aðskotadýr, nokkurskonar ,,setulið", sem hafði lag á að ota sínum tota altaf og alstaðar þar sem feitt var á stykkinu Hatrið á þjóðflokknum stafar af því, að einstakir menn af Gyðingaætt höfðu misbeitt á ýmsan hátt þeirri aðstöðu, sem þjóðfélagið veitti þeim. Það er í rauninni hatrið á klíkuskapnum, sem hjer er orðið að þjóðhatri."
Fyndið, þegar maður hugsar út í eðli Sjálfstæðisflokksins. Ritstjóri Morgunblaðsins árið 1934 lauk þessari frumstæðu haturstölu sinni með þessum orðum:
,,Þýska Gyðingahatrið er sprottið af því, að einstaki menn þess þjóðflokks, þóttu hafa rangt við í leiknum. - Það er erfitt að fyrirbyggja það, að andúðin snúist til öfga, ef því fer fram að ranglátir menn og óþjóðhollir vaða uppi í þjóðfjelögunum. Og í því efni skiftir það engu máli, hvort þeir eru ættaðir frá Jerúsalem eða Hriflu." (Sjá hér).
Skyldi það vera svo að íslenska íhaldið hafi alltaf verið verstu gyðingahatararnir á Íslandi?
Heimskonan Anita borðar afdaladesertinn skyr. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Anitu með Guðmundi Finnbogasyni og Jóni Leifs á Þjóðminjasafninu í Safnahúsinu við Hverfisgötu (nú Þjóðmenningarhúsinu). Vart hefur maður séð glæsilegri mynd úr gamla Safnahúsinu.
Dummheit ist: Glauben, genug zu wissen
Anita blessunin flýði tímanlega til Bandaríkjanna, því líkt og vitgrannir vinstri menn og öfgamúslímar gera gyðingum lífið leitt í dag, þá hamaðist Hitler í þeim á þeim árum. Í Bandaríkjunum hélt hún áfram ritstörfum þar til hún andaðist í því stóra landi möguleikanna árið 1978 - Hún ritaði og gaf út fjölda ferðabóka í ritröðinni "I am going to" sem komu út á ensku og sumar á þýsku í Basel í Sviss. Á seinni árum hefur hún, þökk sé veraldarvefnum, orðið þekkt fyrir þessa fleygu setningu, mottói sem ég hef lengi fylgt: "Dummheit ist nicht: wenig wissen. Auch nicht: wenig wissen wollen. Dummheit ist: glauben, genug zu wissen."
Þegar greint var frá myndum Wim van de Poll á hinni ágætu vefsíðu Lemúrnum og einnig Reykjavík.com árið 2012 hefðu blaðmennirnir nú mátt fylgja ofangreindu mottói Anítu. Myndir hollensk listaljósmyndara heilla Íslendinga því þeir sjá Íslendinga, en þeim er djöfuls sama um útlendingana sem á mörgum myndanna voru. Þannig hefur "What do you think about Iceland-afstaða Íslendinga alltaf verið. Ekkert bitastætt var því skrifað um Anitu Joachim eða Wim de Poll þegar fólk komst fyrst í myndirnar frá frá heimssókn þeirra á Íslandi árið 2012.
Til dæmis er þessi mynd af stúlku lýst svona á Reykjavik.com af breskri konu sem lítur á málið úr sínum sínum þrönga menningarkassa: "I wonder what this young lady pictured below was listening to; perhaps it was the golden age classic My Baby Just Cares for Me by Ted Weems and his Orchestra. We may never know, but it does make for a cracking soundtrack to go with these fabulous photos!"
Stúlkan á myndinni kallaði sjálfa sig Daisy og var ekki hætishót íslensk og gæti alveg eins hafa verið að hlusta á þýska eða danska slagara á ferðagrammófóninum frekar en eittvað engilsaxneskt raul.
Fyrst þegar þýskur rithöfundur, Anne Siegel, las um ferðir de Polls og Anitu Joachim til Íslands, var farið aðeins dýpra í efnið en pennar Lemúrsins, en Siegel er hins vegar fyrirmunað að greina frá uppruna Anitu Joachims líkt og hún í athyglisverðri skáldsögu sinni um þýskar konur á Íslandi eftir stríð fer kringum það eins og köttur um heitan grautinn af hverju þær þýsku komu yfirleitt til Íslands. Mætti halda að þær hafi allar verið að leita að afdalarómantík. Það er enn óskrifuð saga og fer í gröfina með þeim flestum ef fjölskyldur þeirra kunna ekki því betri deili á forsögu þýsku mæðranna og ættingja þeirra í gamla landinu sem rústaði Evrópu. Íslendingar hafa líklegast miklu frekar áhuga á því hvað þeim fannst um Ísland, frekar en að vilja vita einhver deili á þeim.
Ach so, þar sannast aftur gæði orða Anitu: Dummheit ist: Glauben, genug zu wissen.
Blessuð sé minning Anitu Joachim-Daniels! Hún vissi sko sínu viti.
Anita Joachim og Willem van de Poll á Íslandi.
Meistari Willem van de Poll (1895-1970) var að taka mynd af þér, án þess að þú vissir af því. Hún verður birt hér að neðan í athugasemdum, nema að þú hafir verið að lesa bloggið mitt nakin/nakinn.
Meginflokkur: Gamlar myndir frá Íslandi | Aukaflokkur: Gyðingar á Íslandi | Breytt 6.11.2019 kl. 07:36 | Facebook
Athugasemdir
Engir naknir í kvöld - Gleðilegt ár!
FORNLEIFUR, 2.1.2016 kl. 18:45
Ditto.
Halldór Egill Guðnason, 3.1.2016 kl. 01:20
Ertu alveg viss um að Jónas jónsson hafi verið skólastjóri Samvinnuskólans á Laugarvatni? Eða að myndin sýni hann framan við Samvinnuskólann á Laugarvatni? Eða að Samvinnuskólinn hafi verið á Laugarvatni?
Er Jónas ekki bara fyrir framan hús Héraðsskólans á Laugarvatni þar sem Bjarni Bjarnason var skólastjóri árið 1934?
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 5.1.2016 kl. 15:59
Þakka þér fyrir Þorvaldur. Ég er enginn sérfræðingur í Framsóknarmömmum, en las á Lemúrnum að Jónas hefði verið skólastjóri Samvinnuskólans. Auðvitað hefði ég ekki átt að trúa því, því Lemúrar eru hrekkjusvín og kunna ekki að skrifa og hugsa fremur lítt. Ég leiðrétti.
FORNLEIFUR, 6.1.2016 kl. 10:18
Að sönnu var Jónas skólastjóri Samvinnuskólans. Og ég sé núna að sennilega hef ég misskilið þig þar sem þú skrifaðir að hér mætti sjá Anítu og Jónas skólastjóra Samvinnuskólans á Laugarvatni. Þetta mætti skilja sem svo að skólinn hafi verið á Laugarvatni, eða að þau hafi verið stödd á Laugarvatni, sem tilfellið var, þegar myndin var tekin.
Svona er að vinna í fljótfærni. En ág tek undir að svona aðskotadýr eins og lemúrar séu hrekkjusvín.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 7.1.2016 kl. 11:17
Þú skilur Deadline og álíka shit, og mikið að gera. Setningin var skilin eftir ófullkláruð og gleymdist. En þetta kemur ekkert að sök. Það lásu aðeins nokkrar sálir þetta. Einn nærri Öskjuhlíðinni gerði gerði athugasemd og tveir fussuðu á bæjum sínum til fjalla. Menn vilja annar helst lesa um flóttamenn, nauðgara, forsetaflón og skaup og fá það á stikkpillu í rectum á FB.
FORNLEIFUR, 7.1.2016 kl. 16:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.