Hinn mikli samruni Fornleifaráðherrans
24.2.2016 | 11:44
Þann 22. febrúar 2016 var í fréttum Sjónvarps greint frá skýrslu sem Forsætisráðuneytið og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fornleifaráðherra hafa keypt dýrum dómum hjá Capacent. Forsætisráðuneytið hefur upplýst mig að þeir Capacentmenn hafi ætlað 5,7 milljónir í verkið (sjá hér), og þykir mér það mjög dýrt fyrir 42 síður af stikkorðum og frekar miklu orðagjálfri (jargon). Skýrslan var pöntuð í desember á sl. ári. Það er því svo sem ekki löng vinna sem liggur að baki þessu plaggi Arnars Pálssonar og Arnars Jónssonar, sem um daginn var einnig kynnt af samverkamanni þeirra Þresti Frey Gylfasyni á Þjóðminjasafni Íslands.
Hvergi á byggðu bóli, nema í einræðisríkjum eins og t.d. Norður-Kóreu, eru leiðtogar eða þaðan að síður forsætisráðherrar, að vasast í fornleifa-, minja- og safnamálum þjóðar sinnar. Ísland er þó ekki skrýtið land, lesendur góðir, heldur eingöngu þeir sem stjórna þar og þeir sem græða á vitleysunni. Virtutem corrumpit.
Ákvörðun hefur greinilega verið tekin
Ein af þessum einkennilegu, furðulegu - ja, stórfurðulegu hugdettum núverandi forsætisráðherra hefur nú hoppað fullmynduð út úr höfðinu á honum rétt fyrir vorþing. Hann hefur beðið fyrirtæki fullt af hálfmenntuðum sérfræðingastrákum að skrifa skýrslu - sem er út í hött. Enda er það grunur minn, að það sem stefnt sé að með skýrslunni sé greinilega þegar ákveðið.
Skýrslan fjallar um fyrirhugaðan samruna Þjóðminjastofnunar og Minjastofnunar Íslands. Skýrslan er sett fram án þess að starfsmenn stofnananna hafi haft möguleika að tjá sig um innihald hennar og má af slíkum vinnubrögðum sem eru vítaverð, ólýðræðisleg og frumstæð, glögglegast sjá, að það er búið að taka ákvörðunum um sameininguna.
Getur það því engan furðað, að allir utan Þjóðminjasafns Íslands og jafnvel innan séu í alla staði undrandi á skýrslu þessari og telji hana hrákasmíði hina verstu. Capacent hefur tekið að sér pólitískt níðingsverk, sem ekki verður fyrirtækinu til mikils sóma.
Séð á vefsíðu Capacents fyrirtækis með mottó og stikkorð á Íslandi. Menn fá varla ferska sýn með því að sækja skoðanir til tveggja deiluaðila. En mottóið úr Hálsaskógi á þó vel við.
Mikill hluti starfsmanna og hagsmunaaðila telja samrunatillöguna út í hött
Það ríkir alls engin jákvæð skoðun meðal annarra en örfárra starfsmanna Þjóminjasafns Íslands eins og skilja mætti af máli Þjóðminjavarðar. Hagsmunahópar, fornleifafræðingar og aðrir, eru almennt mjög á móti þessum samruna, sem aðeins mun hafa í för með sér ólýðræðisleg og þóttakennda stjórnsýslu sem stangast á við Stjórnsýslulög. Samruninn mun skapa óendalega mörg vandamál, sem kallaði á breytingar á stjórnsýslulögum. Samruninn Þjóðminjasafn og Minjastofnunar er afturhvarf til ófremdarástands fortíðar og áratuganeyðar minjaverndar á Íslandi.
Ég er búinn að lesa skýrsluna og sé ekki neinar haldbærar röksemdir í stikkorðum hennar fyrir því að leggja stofnanirnar saman. Mér hefur reyndar lítil þótt til starfa Minjastofnunar og forvera hennar Fornleifaverndar Ríkisins koma. En starfsvið Minjastofnunar og aðskilnaður á honum frá Þjóðminjasafni var nauðsynlegur. Öll rökin fyrir því að taka málaflokka af Þjóðminjasafninu á sínum tíma, sem safnið réð aldrei við með óhæfum og of fáum starfsmönnum eru hunsuð í skýrslu Sigmundar Davíðs.
Rökin eru einnig fjárhagsleg, en heildarsparnaður á ári yrði ekki verulegur og slagar kostnaður við gerð þessa lélegu skýrslu Capacents óefað hátt upp í sparnaðinn fyrsta árið. Svo kemur kostaður við starfslok fólks sem á að jarða og svo framvegis. Þetta verða dýr mistök ef boltanum verður spyrnt áfram.
Tækifærissinnarnir skipta um skoðun
Grátbroslegt er að sjá heiðursmenn og sannleiksvitni eins og Guðmund Lúther Hafsteinsson, sem eitt sinn barðist fyrir eflingu húsaverndunar utan Þjóðminjasafnsins, standa nú sem auman embættismann og umboðsmann starfsmanna Þjóðminjasafns sem fæstir eru sérfræðingar og snúa aftur á reit 0. Nýlega var hann starfsmaður Minjastofnunar og fór þaðan í fússi. Nú snýr hann sér miður glæsilega á bárunni. "Baráttumenn" sem svo snúa seglum eftir vindi hljóta að skynja að ekki sé hægt að slökkva eldinn. Baráttuandinn er horfinn. Menn gefast upp rétt fyrir ellilífeyrisaldurinn.
Erum við að upplifa hefndaraðgerð?
Mér sýnist á öllu að Margrét Hallgrímsdóttir hafi aldrei borið barr sitt eftir að minjavarslan var tekin af Þjóðminjasafninu um aldamótin. Hún hefur unnið leynt og ljóst að því að koma Minjastofnun fyrir kattarnef. Þetta hefur mér alltaf þótt afar fyndið því eitt sinn voru þær tvær konur sem stjórna stofnunum tveim miklar perluvinkonur. Síðan slettist upp á vinskapinn eins og gengur. En á kattarslagur að skapa áratugavanda í íslenskum minjamálum? Slíkar erjur batna auðvitað ekki við að barnssálin stórlimaða í Forsætisráðuneytinu hafi áhuga á öllu gömlu og hafi fallið fyrir eldmóði og Framsóknaranda Margrétar Hallgrímsdóttur. Hann réði hann hana tímabundið til sín í Forsætisráðuneytinu til að undirbúa allsherjarvaldatöku sína í minjamálum.
Spurð um það í fréttunum, af hverju starfsmenn Minjastofnunar Íslands hafi ekki fengið að gefa umsögn um skýrsluna, svaraði hún ekki spurningu eins elsta fréttamanns landsins, en hóf að tala um allt aðra hluti. Er það ósk Margrétar að stjórna ein öllum minjamálum á Íslandi með forsætisráðherrum landsins? Það verða að mínu mati endalokin, ef þessi skýrsla verður ekki stöðvuð. En lítið þykir mér Margrét hafa til borðs að bera til þeirrar ábyrgðar sem hún vill bera - nema logandi frekju. Það er ágætur eiginleiki þegar maður best við stjórnvöld, en ókostur í stöðu Margrétar. Óeðlilegt þykir mér einnig í alla staði að yfirmenn stofnananna tveggja sem sameina á hafi komið beint að gerð "hlutlausrar" skýrslu í stýrihópi. Slík vinnubrögð eru út í hött.
Einnig er það einkennilegt sending á forn en góð loftnet mín að aðalhöfundur stikkorðaskýrslunnar er formaður félags Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi, sem berst fyrir gegnsæi, mannréttindum og eðlilegum stjórnarháttum um heim allan. Í því félagi situr einnig í stjórn Bogi Ágústsson, glansandlit Fréttastofu Sjónvarps síðan 1977, sem bauð Þjóðminjaverði í fréttirnar þar sem hún komst upp með að svara ekki spurningum hans. Bogi var ekki að hafa fyrir því að bjóða talsmönnum þeirra sem telja skýrslu Þrastar Freys Gylfasonar, samfélagsmanns Boga hjá félagi SÞ, vera hrákasmíð. Hvernig getur verið að eins reyndur fréttamaður og Bogi leyfi þjóðminjaverði að komast upp með því að svara ekki spurningum og bjóði ekki þeirri hlið sem þykir að sér vegið? Svarið er einfalt: RÚV.
Prófessor Margrét?
Margrét Hallgrímsdóttir, sem bendluð hefur verið við sameiningu Þjóðminjasafns við HÍ, og krafist prófessorsnafnbótar fyrir þann samruna (en hún er ekki með doktorspróf), verður líklega af þeim bitlingi við þessa sameiningu, nema að slíkum nafnbótum verði einnig úthlutað úr Forsætisráðuneytinu í framtíðinni. Hún reddar titlinum örugglega á einhvern annan hátt er ég viss um. Prófessor í brottrekstri starfsmanna væri líklega betri bitlingur enda Margrét orðin sérfræðingur í slíku. Eldhugar fá alltaf það sem þeir vilja því allt hefst með logandi frekjunni. Að lokum þurfum við kannski ekki ráðuneyti á Íslandi og látum okkur nægja nokkra einræðisherra á sandkassastiginu til að stjórna landinu.
Hvað getur stjórnarandstaðan gert
Vona ég innilega að stjórnarandstaðan og einnig Sjálfstæðisflokkurinn beiti sér kröftuglega geng þessu gæluverkefni SDG og fyrrum fulltrúa hans í Fornleifamálaráðuneytinu. Þegar fumvarpssmíðin byrjar er nauðsynlegt að vera vakandi. Þetta frumvarp verður að stöðva. Það er út í hött og algjört afturhvarf til fortíðar með endalausan vanda og klíkuskap í minjageiranum. Minjavernd og fortíðaráhugi fjallar ekki um afturhvarf, heldur um hvernig við getum skýrt fortíðina fyrir komandi kynslóðum. Ekki er tekið tillit til þess í skýrslu Capacents og Sigmundar Davíðs fornaráðherra. Þetta útspil Sigmundar Davíðs er tímaskekkja eins og flest að því sem blessaður maðurinn tekur fyrir sér hendur. Hann virðist þó ávallt ánægður með hugdettur sínar, en það var Neró einnig þegar hann brenndi Róm (sjá hér).
Ítarefni:
Fýsileikagreining á breyttri stofnanaskipan í málaflokki menningarminja
Fréttir Sjónvarps 22.2.2016. (6,39 mínútur inni í þáttinn)
Meginflokkur: Minjavarsla | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.12.2016 kl. 08:16 | Facebook
Athugasemdir
Það eru nú margir prófessorar ekki með doktorspróf, t.d. margir á menntavísindasviði
Torfi Kristján Stefánsson, 24.2.2016 kl. 12:44
Ég var nú bara að tala af þekkingu minni frá siðmenntuðum löndum.
FORNLEIFUR, 24.2.2016 kl. 13:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.