Ísland í töfralampanum: 2. hluti

db_hoedafnemen.gif

Sælt veri fólkið. Fornleifur bíóstjóri tekur ofan hattinn fyrir þeim sem nenna að lesa og fræðast. (Sjá 1. hluta þessarar vefgreinar hér).

Fáir vita líklega, að löngu að fyrir aldamótin 1900 fóru fram Íslandskynningar með hjálp Laterna Magica skuggmyndasýningavéla eða töfralampa. Það var þó ekki einungis erlendis að menn gátu séð Ísland úr lömpum. Reykvíkingar stóðu, að því er virðist, í biðröðum til að sjá skuggamyndir.

Myndasýningar með Íslandsmyndum hafa líklega hvatt einhverja útlendinga til Íslandsferða. En slíkar sýningar myndu væntanlega ná skammt gegn þeim apparötum og töfratækjum sem hafa valdið því að vart er á Íslandi nútímans hægt að þverfóta fyrir erlendum ferðamönnum, að ógleymdum amerískum óraunveruleikastjörnum sem látið hafa stækka á sér barminn og rasskinnar. Nú þykir víst mest virði að vita hvað "fylgjendur" rassstórra Ameríkana finnst um okkar volaða, en tvímælalaust frábæra, land.

Laterna Magica, í sem fæstum orðum

En hvað er Laterna Magica, eða töfralampi? Töfralampinn er talinn er hafa orðið til á 17. öld og var notaður vel fram á 20. öld. Hann er til í margs konar gerðum og stærðum. Venjulega samanstendur lampinn af eldföstum kassa eða öskju, þar sem í er settur ljósgjafi, kerti, olíulampi, gasljós og síðar rafmangspera. Einnig voru í kassanum speglar. Fyrir framan ljósgjafann inni í kassanum er brugðið eða rennt glerskyggnu, handmálaðri mynd, síðar ljósmyndum og jafnvel handlituðum  ljósmyndum. Linsa eða linsur sjá um að safna myndinni og henni er varpað upp á vegg eða tjald. Til að nota ekki of mikinn tíma í hinar tæknilegur hliðar og gerðir laterna magica skyggna og sýningavéla, sem eru mikil fræði og fróðleg, þykir mér viturlegast að benda mönnum á að lesa sér allt til um það á hollenskri vefsíðu, sem er sú besta í heimi um þetta fyrirbæri, fyrirrennara skyggnusýningavéla og kvikindasýningavélanna. Vefsíðan ber heitið de Luikerwaal og er síðan einnig á ágætri ensku. Henni er stjórnað af Henc R.A. de Roo, áhugamanni og safnara töfralampa og skyggna. 

kirchers_bog_1280887.jpgTöluverð skoðanaskipti hafa verið um hinn eiginlega upphafsmann þessarar uppfinningar. Þjóðverjanum og Jesúítanum Athanasius Kircher hefur lengi verið eignaður sá heiður, en nú má þykja alveg víst að hann hafi aldrei notað slíkt tæki. Hann lýsir Laterna Magica í bókinni Ars Magna Lucis et Umbrae sem út kom í Amsterdam með myndum árið 1671 (sjá mynd). Skýringar í bókinni sýndu að Kircher var rúinn skilningi á því hvernig töfralampinn virkaði. Hann fullvissaði menn þó á afar sannfærandi hátt, líkt og góðum jesúíta sæmir, um að apparatið væri ekki uppfinning djöfulsins og illra afla.

Aðrir höfðu lýst þessu tæki og notað það miklu fyrr en Kircher. Til dæmis danski fræðimaðurinn Thomas Walgenstein, sem sýndi myndir með Laterna Magica í Rómarborg árið 1665. Enn fyrri til var hollendingurinn Christiaan Huygens sem þegar árið 1659 hafði teiknað dæmigerða Laterna Magica sýningavél sem ekki var mjög frábrugðin þeim sem þekktust á 19. öld. (Sjá frekar hér).

Áður en eiginlegar ljósmyndir voru fundnar upp, voru allar laterna magica-skyggnur handmálaðar teikningar. Efni myndanna var fjölþætt og stundum var leikið á áhorfandann með einföldum sjóhverfingum þannig að fólki sýndist persónur eða hlutir á myndunum hreyfa sig.

db_hemelvaart2_1280719.gif

Laterna Magica varð vitaskuld mjög fljótt vinsælt leikfang í Vatíkaninu.

Þess vegna voru sýningar á Laterna myndum mjög vinsælar, eða allt þar til þær dóu drottni sínum, en bæði í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum voru þær lengi notaðar við kennslu og alls kyns áróðursstarfsemi, eða allt fram yfir 1970.

209390.jpg

Áður en að ljósmyndir voru færðar yfir á glerskyggnur, þekktust líka skyggnur með handmáluðum myndum af "íslenskum stöðum". Þessi mynd frá síðari hluta 19. aldar á að sýna Heklu. Myndin er greinilega undir sterkum áhrifum af mynd úr útgáfu af riti þjóðverjans Dithmars Blefkeníus Scheeps-togt na Ysland en Groenland, sem út kom árið 1608 í Leiden í Hollandi. 

blefkenius_b.jpg

Hrúturinn "Erlendur", sem er nú forystusauður í hjörð Fornleifs bónda (sjá hér), varð einnig að stjörnu á töfralampatímabilinu. Myndin er frá fyrri hluta 19. aldar og er handmáluð á gler. Hann er nú kominn í hrútakofa Fornleifs og líður vel.

erlendur_a_glerinu_c_1287499.jpghruturinn_erlendur.jpg

Laterna Magica sýningar í Reykjavík á 19. öld

Orðið skuggamynd, þ.e. í þýðingunni skyggna eða ljóskersmynd, kemur fyrst fyrir í íslensku máli árið 1861. Áður höfðu tvö nýyrði litið dagsins ljós: Ljósmynd árið 1852 og sólmynd árið 1854. Nútíminn sigldi nú hratt að Íslands ströndum.

Árið 1861 birtist þessi frétt í Íslendingi um turnreiðarhátíð í Berlín þar sem ­þýskir vopnabræður minntust Þriggja ára stríðsins eða 1. Slésvíkurstríðsins gegn Dönum á mjög hatursfullan hátt. Danir unnu það stríð:

Í Berlinni stóð slík hátíð fyrir skemmstu með hinum mesta veg og viðhöfn. Við leikinn í »Viktoríuleikhúsinu« var sunginn og sleginn hergöngusöngur »Sljesvíkur-Holtseta«; sló þá í óþrjótandi lófaskelli með heyrendum. Söngurinn var endurtekinn, en því næst sýndur í skuggamyndum bardagi Kílarstúdenta við Flensborg (1848), þar er margir af þeim fjellu eptir drengilega vörn. Þá stóð upp maður frá »Sljesvík-Holtsetu«, er barizt hafði móti Dönum, og mælti nokkur »hjartnæm« orð til þeirra, er við voru staddir. Af því, er þýzk blöð segja hjer um, má marka, eins og af öðru, hve rík hefndarfýsin og hatrið við Dani er meðal manna á Þýzkalandi.

Árið 1874 birtist auglýsing í blaðinu Víkverja. Hún hljóðaði svo:

Til hagnaðar fyrir Sunnudagaskólann verða í Glasgow 1. mars sýndar skuggamyndir og nokkrar sjónhverfingar."

Hvort þarna hafa verið sýndar ljósmyndir eða handmálaðar myndir sem sögðu t.d. biblíusögur, er ekki víst. Stórhýsið Glasgow sem reist var árið 1863 af skoskum mönnum í Grjótaþorpinu við Vesturgötuna (en brann því miður árið 1903) hafði sal sem gat tekið allt að 200 manns í sæti. Margir Reykvíkingar gætu því hafa séð skuggamyndir á þessum árum. Líklegast tel ég að Sigfús Eymundsson hafi séð um þessar sýningar, en hann sýndi fyrstur Íslendinga myndir árið 1870.

glasgow1885.jpgStórhýsið Glasgow í Reykjavík. Ef til vill fyrsti staðurinn á Íslandi þar sem myndir voru sýndar með töfralampanum.

Þorlákur Ó. Johnson

Árið 1883 hélt Þorlákur Ó. Johnson kaupmaður (f. 1838), sem var lærður í verslunarfræðum á Skotlandi og í London, „panóramasýningar" á Hótel íslandi. Þorlákur hafði dvalið 17 ár erlendis og lengst af á Bretlandseyjum. Hann kynntist töfralampasýningum erlendis, og er hann sneri heim árið 1875, hóf hann slíkar sýningar með Sigfúsi Eymundssyni. Þess má geta, að Þorlákur var náfrændi Jóns Sigurðssonar. Síðar á skyggnusýningaferli sínum lauk hann jafnan sýningum og fyrirlestrum með mynd af þeim hjónum Jóni forseta og Ingibjörgu.

Á árunum 1883-1892 stóð Þorlákur fyrir skuggamyndasýningum sem hann nefndi einatt "skemmtanir fyrir fólkið". Hann bauð eitt sinn 400 börnum til slíkrar kvöldskemmtunar og gaf þeim mjólk, kökur og fleira. Þá héldu hinir velmegandi í Reykjavík, að hann væri af göflunum genginn. Þeir ríku á Íslandi tóku sér líkt og í dag væna sneið af kökunni áður en þeir fóru yfirleitt að hugsa um fátæklinga og börn. En í börnum voru góðir viðskiptavinir á töfralampasýningar Þorláks. Þorlákur var nú ekki eins vitlaus og burgeisarnir héldu.

Skemmtanalíf Reykvíkinga var að sögn fremur lítilfjörlegt á síðari hluta 19. aldar. Margar sögur fara af drykkjuskap meðal verkafólks og sjómanna - já og skálda og menntamanna. Þorlákur vildi vinna gegn þeirri eymd (um leið og hann flutti inn vín og whisky) og stofnaði ásamt Matthíasi Jochumssyni og öðrum góðum mönnum Sjómannaklúbbinn í október 1875, "hollan griðastað til menntunar og endurnæringar, þegar þeir væru í landi og annars hefðu lítinn þarflegan starfa með höndum". Þorlákur var sömuleiðis fyrstur Íslendinga til að auglýsa varning sinn í blöðunum. Myndasýningar sínar auglýsti hann einnig. Hann flutti t.d. inn "Eldspýturnar þægilegu og Þjóðfrelsis whisky fyrir fólkið". Þegar hann var ekki að kenna Vesturförum Lundúnaensku.

Ef Fornleifur hefði verið samtímamaður Þorláks hefði hann líklega verið nýjungagjarnari en hann er nú, og þegið glas af Þjóðfrelsiswhisky og tvær syrpur úr töfralampanum hjá Þorláki Ó. Johnson. Sjómannaklúbburinn varð hins vegar ekki langlífur, enda þóttu vín og whisky Þorláks betri skemmtun en "fjörið" í klúbbnum.

_orlakur_johnson_1280890.jpg

Skuggamyndakonungur Íslands, Þorlákur Ó. Johnson, á yngri árum.

Þorlákur hóf skuggamyndasýningar í samstarfi við Sigfús Eymundsson ljósmyndara, en Sigfús sýndi fyrstur manna svo vitað sé skuggamyndir á Íslandi. Það var árið 1870. Samvinna þeirra stóð ekki lengi, eða innan við ár, en Þorlákur hélt síðan áfram sýningum nokkur ár. Myndir Sigfúsar og annarra frá Íslandi voru hins vegar notaðar til gerðar myndasyrpa með ljósmyndum frá Íslandi, eins og fram kemur í síðari köflum þessa raðbloggs um Töfralampasýningar á Íslandi.

hotel_sland.jpg

Hótel Ísland (það fyrsta) var staðurinn þar sem "fólkið í Reykjavík", fór á Panórama-sýningar í salnum með lokunum fyrir gluggana. Loka þurfti fyrir stóra gluggana á Stóra Salnum til að hafa gott myrkur við sýningarnar. Myndin er rangt feðruð og aldursgreind af Þjóðminjasafninu en sauðakaupmaðurinn John Coghill sést á myndinni ásamt fríðu föruneyti.

1883 Skuggamyndasýningar Þorláks voru fyrst auglýstar í Ísafold þ. 19. desember 1883:

"Fyrir sveitamenn og aðra, er koma til Reykjavíkur um jólin og nýárið - ­ þá verða sýndar á Hótel Ísland fallegar skugga myndir eða Panorama ­ í allt 150 myndir  -­ bæði frá London -­ Ameríku -­ Edinborg - ­ Sviss -­ París -­ Ítalíu ­ Afríku og fleiri löndum."

Veturinn 1884 hélt Þorlákur nokkrar sýningar í félagi við Sigfús. Lúðvík Kristjánsson segir svo frá í bók sinni um Þorlák:

Veturinn 1884 hélt Þorlákur allmargar sýningar í félagi við Sigfús Eymundsson. Innlendu myndirnar, sem þeir sýndu voru frá ellefu stöðum á Suðvesturlandi, en auk þess allmargar úr Reykavík. Þá er Þorlákur frétti á sínum tím til Englands um stofnun Þjóðminjasafnsins, hafði hann látið þá ósk í ljós við Jón Sigurðsson, hve nauðsynlegt væri fyrir Íslendinga að eignast "fallegt Museum". Hann vildi vekja áhuga Reykvíkinga og annarra landsmanna á Þjóðminjasafninu, og í því skyni lét hann tala myndir af ýmsum munum þess til að kynna samkomugestum sínum safnið".

1884 Í Þjóðólfi þ. 15. nóvember 1884, sagði svo um sýningar Þorláks:

"Það eru skriðbyttumyndir með litum (landterna-magica-myndir) af fögrum mannaverkum, borgum, stórhýsum, einnig af viðburðum, sömuleiðis fagrar landslagsmyndir. Nokkrar myndir eru einlitar aðeins, og eru þær af innlendum byggingum eða landslagi ... Í vorum skemmtanalausa bæ er þetta fyrirtæki mjög þakkarvert og mun vafalaust fá aðsókn almennings eins og það á skilið."

1885 Í blaðinu Fréttir frá Íslandi  birtist í 11. árgangi þess árið 1885 grein sem bar titilinn Frá ýmsu, framförum og öðru. Þar mátti m.a. í lok greinarinnar lesa eftirfarandi klausu um skemmtanalífið í Reykjavík:

"Aðrar skemtanir voru litlar, aðrar enn það, að panórama-myndir voru sýndar þar, og helzt af útlendum mannvirkjum og stöðum og innlendum landstöðvum (sjá hér).

1890 Þorlákur sem ferðaðist að jafnaði einu sinni á ári til Englands. Þar náði hann 5036500a.jpgsér í myndasyrpur. Árið 1890 keypti hann litaða myndasyrpu um "Ferðir Stanley í gegnum hið myrka meginland Afríku". Á frummálinu hét syrpan, sem taldi 29 myndir, Stanley in Africa og var gefin út af York & Son í Lundúnum (syrpan er að hluta til varðveitt í dag sjá hér). Þorlákur flutti einnig skýringafyrirlestur um Henry Stanley og sömuleiðis lét hann yrkja og sérpenta kvæði um hetjudáð kappans, sem jafnan var sungið þegar myndirnar voru sýndar. Drápan var einnig skrautritað og sendi Guðbrandur hana til Stanleys sem þakkaði honum með því að senda af sér áritaða ljósmynd: Drápan hljóðar svo:

henry_stanley_1280767.jpg

5036473a.jpg

Stanley var aðalhetjan skuggafólksins í Reykjavík árið 1890. Svona sigli hann gegnum tjaldið inn í huga fólks á Hótel Íslandi í umboði Þorláks Ó. Johnson. Kannski hefur Þorlákur einnig boðið upp á Livingstone, get ég gert mér í hugarlund. Hér er mynd af seríu með honum. Svona gætu myndir Þorláks hafa litið út, þegar þær bárust frá Englandi.

liv_box04.jpg

Skemmtanir fyrir fólkið

1891 Víða var farið í þessum sýningum Þorláks. Í auglýsingu í Ísafold fyrir sýningar Þorláks árið 1891 má lesa:  

„Skemmtanir fyrir fólkið":..Vjer höfum farið í kring um hnöttinn . . . Vjer höfum komið og sjeð orustur og vígvelli í egipzka stríðinu . . . ferðast víðsvegar um vort söguríka og kæra föðurland . . . Og nú, kæru landar, opna jeg fyrir yður enn nýja veröld, með nýjum myndum..." Skugginn í speglinum Kenn mér.

Tilgangur Þorláks með myndasýningunum sínum var að skemmta og fræða, enda var það hugsunin á bak við framleiðslu þeirra á Bretlandseyjum. Þorlákur lýsti þessu einni í annarri auglýsingu þann 2. desember 1891:

"Víða um hinn menntaða heim er nú farið að sýna (eins og ég geri) myndir af borgum, löndum, listaverkum, merkum mönnum, dýrum o.fl. Er slíkt nú að fara mjöð í vöxt, einkum á Englandi, Frakklandi og í Ameríku. Í flestum landfræðifélögum og öðrum menntafélögum til fróðleiks og skemmtunar, þar sem iðulega eru haldnir fyrirlestrar um alls konar fróðleik. Eru slíkar fyrirlestrar um alls kyns fróðleik. Eru slíki fyrirlestrar skýrðir með skuggamyndum, er hlýtur að gera efnið bæði fróðlegra, skemmtilegra og minnisstæðara í hugum manna. Fæstir af oss hafa ráð á að ferðast um heiminn og sjá alla þess undrahluti, en flestir hafa ráð á að afla sér slíks fróðleiks fyrir fáeina aura með því að sækja slíkar myndasýningar. Ég hef nú um nokkur undanfarin ár flutt landa mína, er sótt hafa slíkar sýningar, víðs vegar ... ... Hver getur neitað því, að í þessu sé talsverður fróðleikur og það svo ódýr, að flestir geti veitt sér hann; að verja fáeinum stundum á hinum löngu vetrarkvöldum til slíks ferðalags borgar sig vel fyrir hvern þann, sem kann að meta þetta rétt. Og nú, kæru landar, opna ég fyrir yður enn nýja veröld með nýjum myndum, sem koma með Lauru og sem ég sýni í stóra salnum á Hótel Ísland. Föstud. og laugard. 4. og 5. des. kl 81/2.

Fyrst

Keisaradæmið Kína og Kínverjar, [21 mynd víðs vegar úr Kína og úr Þjóðlífi Kínverja.] Hinn frægi hershöfðingi, Gordon, ævi hans og lífsstarf. [12 myndir og þær víða að, þar sem Gordon hefur verið.] Enn fremur í undirbúningi nýjar myndir frá London og hin skemmtilega ferð frá London til Rómarborgar og ferðir til Egyptalands í gegnum Súesskurðinn til Kaíró. Hver sýning endar með tveimur myndum af Ölfusárbrúnni.

5048105a.jpg

Gordon allur. Þetta þótti Reykvíkingum örugglega merkilegt að sjá. Nokkrar myndir eru enn varðveittar úr álíka syrpu frá York & Son(sjá hér)

Nokkru áður eða 18. nóvember 1890 má lesa auglýsingu frá Þorláki:

Stór myndasýning af Íslandi. Hið stærsta myndasafn, sem nokkurn tíma hefur verið sýnt af landinu ... er ég með miklum kostnaði hef látið búa til - alls um 80 myndir."

Jólamyndir smáfólksins

Fyrir Jólin 1889 sýndi Þorlákur margar nýjar syrpur ætlaðar börnum eða smáfólkinu, eins og Þorlákur kallaði börn. Syrpurnar báru titla eins og Þrándur fer að veiða Björninn og þeirra hlægilegu aðfarir, Sólmundur gamli og Sesselja kelling hans að næturþeli að reyna að ná músinni sem hélt fyrir þeim vöku, Rakarinn og hundurinn hans Snati; Gvendur Ferðalangur, Hreiðrið hans Krumma og Tannpína. Þetta voru allt þýskar syrpur framleiddar af Wilhelm Busch.

Nú getur Fornleifur og þær barnalegu sálir sem lesa fræði hans séð það sem krakkar í Reykjavík horfðu á í Hótel Íslandi árið 1889. Upphaflega báru þessar syrpur þýska titla ein og Die wunderbare Bärenjagd, Die Maus, Der gewandte, kunstreiche Barbier und sein kluger Hund, Rabennest, (eða Raben-Nest) Der hohle Zahn

Það hefur nú verið eftir krökkunum í Reykjavík að hafa gaman að því að sjá rakara skera nefið af viðskiptavini sínu, og það rétt fyrir jólin.

650-skillfull-barber09.jpg

Um Jólin 1898 sýndi Þorlákur einnig börnunum það sem hann kallaði "hreyfanlega mynd" Ekki voru það kvikmyndir eins og við þekkjum þær síðar, heldur skuggamyndir með ýmsum búnaði á myndinni eða við útskiptingu á líkum myndu, þannig að út leit fyrir að hreyfing væri á myndinni. Hann sýndi hreyfanlega mynd sem hann kallaði Grímuball barnanna í Mansion House í London og Björgunarbátinn.

Þorlákur hætti sýningum sínum 1892. Heilsu hans fór hrakandi um það leyti og var þessi glaði maður að mestu óvinnufær vegna einhvers konar þunglyndis til dauðadags árið 1917.

Þær myndaskyggnur sem Fornleifur festi nýlega kaup á á Cornwall, sem eru úr tveimur syrpum eru að öllum líkindum sams konar (ef ekki sömu) myndir frá Íslandi og Þorlákur Ó. Johnson var að sýna Reykvíkingum á 9. áratug 19. aldar. Myndasyrpur með ljósmyndum frá Íslandi voru seldar af minnsta kosti tveimur fyrirtækjum á Bretlandseyjum á 9. og 10. áratug 19. aldar. Í næstu færslum verður saga skyggnanna sögð, mynd fyrir mynd. Því miður hafa ekki allar þeirra fundist enn. En hugsast getur að allar myndirnar frá Íslandssyrpunum komi einhvern daginn í leitirnar. Hægt er að biðja, vona og jafnvel leita.

Er nema von að Beinólfur á Þjófminjasafninu gleðjist? Við segjum ekki meira - að sinni. 3. hluti kemur þegar hann er lagstur í gröfina.

db_skelet_ani_1280714.gif

Höfundur og sýningarstjóri: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (og Fornleifur)

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ítarefni:

Lúðvík Kristjánsson: Úr heimsborg í Grjótaþorp: Ævisaga Þorláks Ó. Johnson. Fyrra bindi. Skuggsjá.

http://www.luikerwaal.com/

http://www.magiclantern.org.uk/

http://www.slides.uni-trier.de/index.php

http://www.dickbalzer.com/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þakka kærlega fyrir fróðlegan pistil. 

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 2.5.2016 kl. 01:08

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka þér fyrir innlitið Halldór. Menn geta nú farið að hlakka til sýninganna á Íslandsmyndunum.

FORNLEIFUR, 2.5.2016 kl. 07:15

3 identicon

"og Þorvaldur Ó. Johnson var að sýna Reykvíkingum á 9. áratug 20. aldar."

Á þetta ekki að vera 19. aldar?

Jón (IP-tala skráð) 2.5.2016 kl. 09:01

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Jú, þakka þér fyrir Jón. Hefur verið leiðrétt.

FORNLEIFUR, 2.5.2016 kl. 12:25

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Annars mætti halda að karlinn væri mættur á skyggnilýsingar og farinn að sýna myndir í gegnum miðilsfjanda.

FORNLEIFUR, 2.5.2016 kl. 12:27

6 identicon

Hét Þorvaldur þessi sýningarmaður ekki örugglega Þorvaldur? Einkar fallegt nafn. Ekki hét hann Þorlákur? Eða voru þeir Þorvaldur og Þorlákur kannski bræður?

Og að öðru: Í minni sveit var látið duga að taka ofan og vissu allir hvað við var átt þar til menn, hugsandi á ensku, fóru að tíðka að taka ofan höfuðið. Síðan þarf sennilega að taka fram, til að forðast misskilning, hvort menn taka ofan hattinn eða höfuðið.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 2.5.2016 kl. 15:33

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Leiðréttingin fór greinilega ekki í gegn um daginn áður en ég birti þetta. Happ í óhappinu er hins vegar að lektor einn í Öskjuhlíðinni sem heitir Þorvaldur S hefur líka lesið greinina. Það er æðri skýringar til á öllu. Þess vegna er Þorvaldur S að lesa próförk fyrir mig að kostnaðarlausu. Þvílíkur lúxus. Þorlákur hefði örugglega þegið slíka þjónustu.

Þetta með hattin lærði ég af RÚV http://www.ruv.is/frett/taka-franskir-serhljodar-ofan-hattinn. Því hlýtur þetta að vera rétt.

FORNLEIFUR, 7.5.2016 kl. 23:05

8 Smámynd: FORNLEIFUR

... Og ég er mjög svipaður Mond, en held þó rostungsmússtassinu betur snyrtu. Þú, Þorvaldur, ert líkur Karli, og er ekki leiðum að líkjast.

FORNLEIFUR, 7.5.2016 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband