Umslagahirðar fortíðarinnar
29.8.2017 | 08:33
Það virðist sem mér hafi skjátlast ærlega varðandi nýtni og endurvinnsluhæfileika hjá hinu opinbera á Íslandi hér á árum áður. Ég hélt í algjöru sakleysi mínu að öllu hefði verið hent á haugana, þegar þar var orðið nokkurra ára gamalt og smá slit var farið á sjást.
Nei, svo var nú aldeilis ekki. Hérna áður fyrr endurnýttu menn allt í ráðuneytum og hjá háum embættum og stofnunum sem ekki höfðu mikið á milli handanna. Grisjur af sárum holdsveikra, syffilista og berklasjúkra voru dauðþvegnar og endurnotaðar; Súr rjómi í matstofu Útvarpsins á Skúlagötunni var til að mynda notaður í pönnukökur, sem gerðu pönnsurnar nú bara betri fyrir bragðið, og Ráðuneyti voru þekkt fyrir að hafa á launalista sínum menn sem losuðu af frímerki sem ekki höfðu verið stimpluð. Merkin voru svo endurnotuð. Mikill sparnaður varð vitaskuld af slíkri nýtni og mættu menn læra sitthvað af slíku í eyðsluæði nútímans, þar sem oft er eytt milljón til að spara hálfa, meðan að götur eru málaðar.
En alltaf finnast veilur í svona vel virkandi þjóðfélögum, þar sem endurvinnslukerfið smellvirkar. Fjallar þessi færsla, sem er ekki sönn nema að ákveðnu marki, um einn slíkan brest.
Fiktsjónin í færslunni er um umslagahirða kjörstjórna sem sáu um brúnu umslögin sem innihéldu utankjörstaðakjörseðla. Þeir embættismenn áttu að sjá um að lítil brún umslög, sem voru utan um utankjörstaðakjörseðla, væri komið fyrir kattarnef. Á ákveðnu stigi á 20. öld var farið að leyfa Íslendingum sem bjuggu erlendis að hafa áhrif á kosningar í eigin landi. Þeir gátu kosið í sendiráðum lands síns á erlendri grundu eða hjá kjörræðismönnum. Útbúin voru sérstök umslög sem Íslendingar erlendis gátu lagt kjörseðil sinn í og sent hann til Íslands. Á umslagi þessu bar manni að skrifa nafn sitt, heimilisfang á Íslandi áður en maður flutti eða ferðaðist til útlanda, og einnig nafnnúmer/kennitölu, þegar þau voru tekin upp.
Þetta brúna umslag varð maður svo að sjá um að fara með á pósthús sjálfur og senda heim til Fróns - þar sem það var opnað, listastafurinn lesinn og skráður og umslaginu hent - eða það héldu menn að minnsta kosti.
En hjá kjörstjórninni Reykjavík vann starfsmaður, sem við getum kallað "Garðar". Hann tók endurvinnslu og nýtni mjög alvarlega. Það hafði hann alist upp við á uppvaxtarárum sínum í kreppunni í Skuggahverfinu. Þó svo að hann fargaði kjörseðlunum í stórum miðstöðvarofni eftir ákveðinn tíma, þ.e. þegar menn voru öryggir um að enginn rausaði um að talning hefði verið röng og ólögmæt, taldi hann ekki við hæfi að farga ágætisumslögum með fallegum frímerkjum frá framandi löndum. Garðar hafði lesið það í Æskunni sem ungur, að maður gæti orðið stórríkur, jafnvel milljónamæringur, á því að safna frímerkjum. Þessi stafsmaður kjörstjórnarinnar vissi mætavel að á þessum umslögum voru persónuupplýsingar um fólk, sem engum kom við, en samt ákvað hann að geyma þessi umslög til eigin vinnings.
Garðar varð þó aldrei ríkur maður, enda kennari svona dags daglega. Hann lést nokkrum árum eftir að vera kominn á eftirlaun og frímerkja- og umslagasafn hans uppfylltu aldrei drauma þessa manns um að verða milljónamæringur. Ættingjar, tóku til í íbúð Garðars sem var piparsveinn, og fundu 20 hillumetra af frímerkjasöfnum og umslögum og þar að auki nokkur kassafylli af ósorteruðu. Þau komu þessu í verð á einu bretti. Fjölskyldan fékk töluvert fyrir nokkur mjög fágæt frímerki sem frændi þeirra átti og allir gátu vel við unað. Frímerki mannsins fóru svo kaupum og sölum og bárust til útlanda, þar sem Íslendingar voru alfarið búnir að gefast upp á að verða ríkir á frímerkjum. Þeir höfðu fundið mun betri aðferð. Þeir stofnuðu banka og töldu fólki trú um að þeir gætu gefið betri lánakjör og vexti en bankar í eyðimerkum Arabíu.
Umslögin, sem þessi uppdiktaði starfsmaður Kjörstjórnarinnar í Reykjavík hafði stungið í tösku sína og farið með heim til sín, seljast nú grimmt á frímerkjasölum erlendis. Ekki er laust við að þessi umslög séu orðin álíka mikils virði og þegar þau voru send fyrir rúmum 25 árum síðan og fyrr. Nú geta menn í útöndum keypt sér umslög með nöfnum Íslendinga, kennitölum þeirra og hvaðeina.
Það gerði ég einmitt, og ég hringdi í einn af þeim sem sent höfðu slíkt umslag til Borgarfógeta árið 1991. Það var hinn ágæti Ólafur Ragnarsson stýrimaður og skipstjóri (f. 1938) sem nú er búsettur í Vestmannaeyjum, vel þekktur sem bloggari, einnig hér á moggablogginu og hann skrifar einnig í Heima er best og Sjómannablaðið. Hann hefur helgað sig vinnu við að skrá sögu farskipa og unnið ómetanlegt starf. Hér t.v. fáið þið mynd af Ólafi frá sokkabandsárum hans, eða þar um bil, ekki ósvipaður breskum leikara. En nú situr hann í Vestmannaeyjum og undrast arfavitleysuna á meginlandinu. Svo á hann líka afmæli í dag, eins og menn geta séð á umslaginu. Til hamingju Ólafur!
Ólafur var árið 1991 kominn í þjónustu dansks skipafélags sem hét H. Folmer og Co, sem enn siglir um höfin sjö, og væntanlega oft með eitthvað grunsamlegt og vafasamt. Ólafur var staddur í Piræus hafnarborg Aþenu, þegar hann fór þar á fund ræðismannsins í Aþenu, sem þá var frú Emelía Kristín Kofoed-Hansen Lyberopoulos, dóttir lögreglustjórans sem menn höfðu svo miklar mætur á í Berlín á tímum Hitlers. Kosningar voru í nánd á Íslandi og menn verða að gera skyldu sína, þó svo að þeir séu í suðlægum löndum. Ólafur ætlaði nú ekki að láta helvítis ... komast til valda.
Aftan á umslagi Ólafs hefur einhver skrifað bókstafinn D með blýanti. Hvað það þýðir, væri gaman að fá upplýsingar um. Kannski þýddi það bara að í umslaginu hefði legið kosningarseðill íhaldsmanns?? Ólafur, er þetta rétt athugað?
Ólafur varð vitaskuld afar undrandi á að heyra umslagið utan um kjörseðil hans frá 1991 hefði verið til sölu, og sagði:
jah maður, er maður nú til sölu á netinu?.
Ég jánkaði því, og sagði honum að ég hefði keypt hann og borgað 60 krónur danskar (þ.e. 1015,oo/- freðnar ískrónur) fyrir umslagið - og nafnnúmerið hans í kaupbæti.
Hver assgotinn, sagði Ólafur og þótti þetta nokkuð fyndin frétt að fá og minntist þess um leið að skipverjar á Írafossi hefðu einnig verið í Piræus um svipað leyti og hann árið 1991.
Eru til einhver umslög með nöfnum þeirra?, spurði Ólafur. Mestar áhyggjur hafði hann af því, hvort kjörseðill hans hefði lent í réttum höndum. Þar varð mér svara vant, en upp í huga mér kom upp annar möguleiki á plottinu í eftirfarandi frásögn Fornleifs:
Hún er um póststarfsmanninn (póstinn/póstmanninn) sem hirti umslög kjósenda sem hann taldi öruggt að kysu ekki rétt.
Eins og vitum öll voru eintómir kommar og óferjandi óþjóðalýður í námi erlendis, en þessi póstur var eins og allir vita enginn allaballi og tíður gestur í Valhöll. Kannski misminnir mig. Hét hann kannski "Þorgeir" og var argasti steinsteypustalínisti sem sögur fara af; Fór á jólaskemmtanir MÍR og taldi Alþýðubandalagið vera svikara? Það geta allir sem þekktu Geira Póst vitnað um. Í frístundum sínum var hann einnig mikill umslagasafnari og sömuleiðis esperantisti. Hann flautaði Nallann falskt þegar hann skoðaði ekki takka á frímerkjum sínum með stækkunargleri, og á sölufundum hjá Frímerkjasafnarafélaginu tautaði hann klæmna brandara á esperantó og hló dátt af því sjálfur. Hann átti eitt besta safn rússneskra frímerkja vestan járntjalds, jafnvel fyrstadagsumslög sem send höfðu verið úr Gúlagi. ... En eins og alla Íslendinga, þá dreymdi hann einnig um að verða milljarðamæringur á frímerkja- og umslagasöfnun. Hann gerði mér kleyft að kaupa persónugögn um Íslendinga á frímerkjasölum í útlöndum.
Þökk sé Þorleifi og Garðari fyrir söfnunargleðina.
Hér er umslag utan um kjörseðli starfsmanns Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussell til margra ára. Enginn sem ekki setti kosningarumslagið í annað umslag áður en þeir sendu það borgar- og bæjarófétum var óhultur fyrir umslagahirði kosningarstjórnarinnar í Reykjavík.
Aðrir möguleikar gætu einnig verið á plottum í sögu þessari:
A) Umslögunum unan af utankjörstaðaseðlum úr kosningum 1991 hefur hugsanlega verið hent á haugana, þar sem einhver máfur hefur fundið þau og síðan selt, eða til vara...
B) að póststarfsmaður erlendis hafi gerst fingralangur. En það sem mælir gegn síðasta "kostinum" er að einnig var nýlega selt umslag undan af kjörseðli sem einn starfsmaður Ríkisútavarpsins hafði útfyllt í Kaupmannahöfn og sent til Bæjarfógetans í Kópavogi. Það var í maí 1970, eða 21 ári áður en að umslag Ólafs Ragnarssonar fór í endurvinnsluferlið.
Gunnvör Braga, sem ég sendist stundum fyrir þegar ég var sendill hjá RÚV á Skúlagötunni, sendi kosningarseðil sinn ekki bara í ábyrgð, heldur einnig EXPRES. Svo sendi hún einn fyrsta ESB áróður sem barst að Íslands ströndum á frímerkjum. Var þessu umslagi stolið af íhaldspósti?
Þurfa yfirvöld ekki að skýra betur út fyrir lesendum Fornleifs og ritstjóra bloggsins, hvernig í pottinn er búið. Hvernig í ósköpunum var hægt að koma kosningagögnum, umslögum með kennitölu (nafnnúmeri) manna í verð og það erlendis? Svör óskast, og helst ekki þessi loðnu. Allt á borðið!
Ítarefni um frímerki og því sem var hent á haugana:
Þegar Matthíasi var hent á haugana; Þegar Þjóðminjasafnið kastaði safngripum á haugana.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Frímerkjasöfnun, Gamlir glæpir, Gamlir og góðir skandalar | Breytt 3.9.2021 kl. 14:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.