Getur einhver lesið á japönsku kassana mína ?
20.7.2018 | 13:15
Ég segi eins oft og ég get: Ég er með heppnari mönnum, og það er fyrst og fremst vegna betri helmingsins. Mín elskulega ektakvinna, hin síunga Irene, dekrar mjög við manninn sinn. Til að mynda nýlega, þegar hún gaf mér afmælisgjöf. Ég fékk gjöfina nokkrum vikum fyrir afmælið, alveg eins og í fyrra er hún bauð mér á eftirminnilega tónleika með Woody Allen og hljómsveit hans.
Í ár fékk ég hins vegar japanskan kassa fyrir afmælið mitt sem er 22. júlí ár hvert - en stundum skömmu áður eða í áföngum.
Eina sólríka helgi fyrir skömmu, (síðan hefur sólin brunnið á himninum hér í Danmörku), brugðum við okkur í stórbæinn og fórum meðal annars inn í litla verslun í Nágrannaleysu (Naboløs), sem selur verðandi japanska forngripi. Verslunin er rekin af nokkrum ungmennum á þrítugsaldri sem ferðast mikið til Japan vegna brennandi áhuga síns á landinu. Þar kaupa þau einnig góða gripi sem þau leggja örlítið á í Kaupmannahöfn og reyna svo að lifa af því sem þau þéna með námi eða til að greiða fyrir frekari ferðir til Japans. Mig grunar þó að þau hafi aðgang að búðarrýminu fyrir lítið, þar sem verslunin er á afar góðum stað.
Kona mín sá strax að ég slefaði eins og krakki yfir bambuskassa einum í búðinni sem og loki af minni kassa. Þetta var eini slíki gripurinn í versluninni. Kassinn og lokið eru frá byrjun 20. aldar og bera áletranir ritaðar með japönsku tússi. Ég keypti mér lokið fyrir lítið. Konan mín sá líka að mér langaði óhemjumikið í kassann svo hún keypti hann sísona og gaf mér í fyrirframafmælisgjöf.
Kassar sem notaðir voru fyrir postulín eða lakkvörur
Kassar sem þessir voru jafnan smíðaðir úr bambus utan um dýrmætan varning svo sem postulín eða lakkvöru, þegar slíkir eðalgripir voru seldur á fyrri öldum. Konan mín, sem lagði stund á japönsku með námi sínu í stjórnmálafræði í Árósi á síðustu öld, gat ekki lesið áletrunina á kössunum. Hún sá strax að þetta var að miklu leyti skrifað með kínverskum táknum sem kallast kanji.
Mynd II
Ég spurði þá verslunareigendurna sem voru til staðar, hvort þau gætu lesið japönsku, en það gerði aðeins ein þeirra, sem er hálfur Japani. Hún gat hins vegar heldur ekki lesið áletrunina. Hún tók þá myndir og sendi föður sínum, sem er japanskur, og hann varð líka að gefast upp, en upplýsti að þetta væri gömul japanska frá því yfir leturbreytingu á 20. öld. Þegar hætt var að nota ýmsa kínverska bókstafi og hljóðkerfi annarra stafa breyttist alfarið. Í dag er þessi japanska ekki kennd nema í háskólum, og afar fáir geta lesið texta með kínverskum táknum og gamla hljóðkerfinu.
Ég hafði þá samband við Toshiki Toma prest innflytjenda á Íslandi, og síðar prófessor einn í Kaupmannahöfn, en báða skorti aldur og þekkingu til að geta lesið þennan gamla kanji-texta. Til þess þarf maður víst helst að vera orðinn rúmlega 90 ára eða sérfræðingur. Ekki þýðir heldur að biðja Kínverja að lesa textann, því þó þeir þekki táknin, þýða þau og hljóða oft á tíðum allt öðruvísi á gamalli japönsku en á kínversku.
Í kassanum á myndinni efst voru japönsk dagblöð frá 3. áratug síðustu aldar. Það gæti vel gefið hugmynd um aldur kassans.
Geta lesendur hjálpað með ráðningu textans?
Mynd IV
Vera má að lesendur Fornleifs séu sleipir í japönsku og geti lesið fyrir mig hvað stendur á
(I) kassanum (á myndinni efst),
(II) innan á loki hans (mynd IV)
(III) báðum hliðum loksins af litla kassanum (myndir II og III)
Kassinn er listavel smíðaður og ekki er notaður einn einasti járnnagli. Hann er einnig mjög vel nothæfur. Ég nota hann eftir hreinsun og vöxun til að hylja snúrur og leiðslur sem hrynja í tugatali af tækjum sem á okkar tímum fylla öll skrifborð. Leiðslur frá tölvu, lömpum, hátölurum, hleðslutæki og skánskri myndavél, fara allar ofan í kassann og sem felur svarta spaghettíið sem lekur ofan af skrifborðinu mínu. Kassinn og áletranir hans sjást vel undir borðinu, en mig vantar enn skýringu á áletrunum til þess að vera alsæll. Ég tek fram að það stendur hvorki Honda, Toyota, Mishubishi, Nissan, Suzuki, Daihatsu eða Datsun á kassanum.
Þýðingarnar á áletrun kassanna minna þarf ég helst að fá ekki miklu síðar en á morgun, sem minnir mig á það hvernig vörumerkið Datsun varð til:
Framleiðendum Datsun vantaði fangandi, erlent nafn á fyrstu bifreiðina sem þeir framleiddu. Þeir leituðu til helsta ráðgjafa um fangandi bílanöfn á sínum tíma. Hann bjó í New York, sem hét vitaskuld Cohen. Cohen spurði útsendara japanska bílframleiðandans hve fljótt þeir þyrfti að fá hið nýja nafn. "Aooh, Helst á morgun" sagði sá japanski. Cohen svaraði þá uppvægur á brooklensku "Dat soon?" Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Munir og Minjar, Nýlegar fornleifar | Breytt 17.2.2021 kl. 16:09 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Villhjálmur. Áletrunin á kassanum á efstu myndinni sýnist mér ekkert vandamál. Næstum að ég geti lesið hana sjálfur. Þetta er púra kínverska.
Ekki er skortur á Kínverjum neinstaðar. Google skilur þetta ef þú hefur forrit til að skrifa þetta inn sem texta (og kannt það).
Hinar fjalirnar eru erfiðari, bæði óhreinar og letrið mér framandi.
Kveðja, Guðmundur
Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 20.7.2018 kl. 16:49
Guðmundur, þetta eru vissulega kínverskir bókstafir (kanji) sem Japanar fengu að láni líkt og svo margt annað frá Kína og kölluðu kanji. En táknir þurfa ekki endilega að þýða það sama eða hljóða eins. Kassinn er japanskur. Google skilur ekki kanji, en það eru til ýmis forrit til að vinna úr kanji , en þau krefjast þekkingar á kínversku letri sem ég hef ekki. Áletrunin á minna kassalokinu er handskrift meðan að áletrunin á stór kassanum er epígrafísk og sá sem skrifað hefur á stóra kassann (I og IV) hefur verið að vanda sig. Ég hef sýnt Kínverja táknin, en hann gat ekki áttað sig á samhenginu.
FORNLEIFUR, 20.7.2018 kl. 18:30
https://samnytt.se/sverige-landet-dar-det-finns-goda-och-onda-judehatare/
Fornleifur - Ég má endilega senda þér sænska grein sem lýsir andlegri fátækt stjórnmálamanna í því landi.
Þú veist örugglega sjálfur hversu ömurlegt sænska samfélagið er orðið í dag, Það er óhætt að segja að Svíþjóð brennur í pólitík sem öðru.
valdimar jóhannsson (IP-tala skráð) 21.7.2018 kl. 13:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.