Íslendingar í hjarta Þriðja ríkisins
7.8.2018 | 18:15
Fyrir síðara heimsstríð, og fram til 1940, fylgdist danska utanríkisþjónustan grannt með fólki frá Íslandi, sem nasistar höfðu boðið til ýmis konar mannfagnaða í Þýskalandi nasismans. Hér skal þó ekki ritað um Ólympíuleikana árið 1936 sem er kapítuli út af fyrir sig, heldur um Íslendinga sem dáðust af Þriðja ríkinu, og sömuleiðis þá sem boðið var þangað til að umgangast háttsetta nasista. Íslendingar létu nota sig, eins og svo oft áður, en margir þeirra voru einnig rétttrúaðir nasistar, sem heilluðust að Hitler og nasismanum.
Í þessum pistli, sem er í lengri kantinum, leyfi mér hér að nefna nokkur dæmi um hve vel áhyggjur dönsku utanríkisþjónustunnar sjást í skjölum frá þessum tíma. Þessar áhyggjur komu til vegna mjög náinna samskipta sumra Íslendinga við Þriðja ríkið, sem og umfjöllun nasískra fjölmiðla um Ísland og Íslendinga.
Gunnar Gunnarsson
Í færslunni hér á undan á Fornleifi, kom ég lítillega inn á hinn gráa kött á meðal Íslendinga sem sóttu Berlín og Þýskaland nasismans heim. Það var vitaskuld Gunnar Gunnarsson skáld. Þann 21. júlí 1936 hafði danska sendiráðið í Berlín t.d. samband við utanríkisráðuneytið í Kaupmannahöfn og lýsir ferðum Gunnars Gunnarssonar á vegum nasistafélagsins Die Nordische Gesellschaft. Því var m.a. stýrt af nokkrum af sömu einstaklingum sem einnig úthugsuðu gyðingaofsóknir nasista.
Gunnar í Köngigsberg (Kaliningrad) árið 1940.
Fyrir þessa heimsókn Gunnars árið 1936 var búið að veita honum frekar innihaldslausa nasistaprófgráðu og Gunnar gat nú titlað sig Dr.phil. h(onoris).c(ausa), þ.e heiðursdoktor, í Heidelberg, þar sem nasistar réðu nú lögum og lofum í háskólanum. Sporin eftir Gunnar eru mörg á þessum slóðum, og furðu sætir að Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri sé beinlínis iðin við að fjarlægja alla vitneskju um samskipti Gunnars við háttsetta nasista í Þýskalandi. Slíkt er ekkert annað en gróf sögufölsun og vægast sagt nokkuð furðuleg hegðun á okkar tímum.
Gunnar var og enn mikið skáld í margra augum, og sumir ímynda sér í ofanálag, að hann hefði átt Nóbelsverðlaunin skilin - Gunnarsstofnun á Héraði hefur meira að segja klínt mynd af Nóbelsmedalíu á nýa vefsíðu sína (sjá hér og sömuleiðis smælkið þar um þýsk samskipti hans). Í því sambandi má kannski nefna að stofnun Knut Hamsuns í Noregi leynir því ekkert, að Hamsun hafi verið hinn argasti gyðingahatari, þegar um slíkt hefur verið rætt. Heimalningarnir á Skriðuklausti eiga margt enn ólært.
Sigurbjörn Gíslason og dóttir hans
Nokkru eftir að Gunnar gerði hosur sínar grænar í Berlín, eða 28. júlí 1936, ritaði sendiherra Dana, Herluf Zahle til ráðuneytis síns í Kaupmannahöfn og segir frá ferðum Sigurbjörns Gíslasonar cand. theol., sem stofnaði elliheimilið Grund. Sigurbjörn var með dóttur sinni í Berlín, þar sem þau voru m.a. gestir des Deutschen Frauenwerks (NS-Frauenwerks) í Berlín, þar sem þau hittu "Helgu allra Helgna". Hún hét Gertrud Scholtz-Klink, og var eftir stríð yfirlýst glæpakvendi og fór huldu höfði og kallaði sig Maríu Stuckebrock.
Íslenskur guðfræðingur og dóttir hans hittu þessa konu sem framleiddi sex börn fyrir Þýska Ríkið. Hún hét Gertrud Scholtz-Klink, sem var helsta talskona þess að þýskar konur fæddu sem flest börn í þeim tilgangi að fjölga Þjóðverjum og hinum "aríska stofni", og auka þar með yfirráð Þjóðverja. Slík kynni eru álíka smán og þegar nútímafólk á Íslandi mærir og sækir heim hryðjuverkasamtök sem hefur sömu skoðun á hlutverki kvenna sem framleiðsludýr á fallbyssufóður. Þrátt fyrir þungan fangelsisdóm var Scholtz-Klink ávallt nasisti meðan hún hafði rænu til.
Árið 1938 fórst kona Sigurbjörns, Guðrún Lárusdóttir, alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og tvær dætur þeirra með henni, þær Sigrún Kristín og Guðrún Valgerður í sviplegu dauðaslysi, þar sem bíll síra Sigurbjörns hentist bremsulaus í Tungufljót. Sigurbjörn var sem kunnugt er faðir Gísla Sigurbjörnssonar, sem síðar var forstjóri Grundar en einnig landsþekktur nasisti og oft uppnefndur Gitler.
Eiður Kvaran
Kvaran, sem var berklasjúkur nasisti (sjá hér), var einnig undir smásjá danska sendiráðsins í Kaupmannahöfn, og t.d. upplýsir sendiráðið ráðuneytið í Kaupmannahöfn um að út sé komin ritgerð eftir Eið í tímaritinu RASSE, sem bar titilinn Die rassischen Bestandteil des isländischen Volkes.
---
Áhugi Herluf Zahles
Herluf Zahle sendiherra Dana í Berlín varð með árunum í Berlín sífellt betur ljóst, að nasisminn var mikið mein. Hann ritaði einnig ráðuneyti sínu bréf varðandi heimsókn þýska konsúlsins Timmermanns í Hamborg, þar sem Günther Timmermann ræðismaður Þjóðverjar í Reykjavík sat fyrir svörum í nasistableðlum sem birtu viðtal við hann undir fyrirsögninni "Draumar og Veruleiki". Timmermann sem var ekki harðlínunasisti var giftur íslenskri konur. Hann var fuglafræðingur að mennt. Timmermann sagði frá því sem fyrir bar á Íslandi, jafnvel hreinskilningslegar en Íslendingar sjálfir, og Zahle lýsti skoðu sinni á viðtalinu við Timmermann á eftirfarandi hátt:
Drømmen var det nordgermanske Sværmeri, Virkeligheden en "Venstre-Instilling", som endogsaa har kommunistiske Reklameplakater mod Tyskland at opvise. Saavel herimod som mod Gæstevvenskabet misbrugende tyske Eventyrer, paakalder Konsul Timmermann den gode Vilje, den taktfulde gensidige Anerkendelse af hinandens særlige Ejendommeligheder.
Vart er hægt að skrifa þetta betur á þeim tíma er Íslendingar flykktust til Þýskaland Nasismans, og héldu var vatni yfir ágæti hans og Foringjans. Og í leiðinni baunuðu þeir á Danmörku við hvert tækifæri sem þeim gafst. Fyrir sumt fólk var nasisminn vel þegið "vopn" í frelsisbaráttunni - en Þjóðverjar hlustuðu lítt á slíkt, því þeir vissu hvaða ríki Ísland tilheyrði á þessum tíma.
Ýmsar aðrar heimssóknir Íslendinga voru til athugunar í sendiráði Dana, allt frá mönnum sem sóttu í námskeið í leirkerasmíði til karlakóra. Yfirgengilegur stíll Jón Leifs fór einnig fyrir brjóstið á Dönum, eins og áður hefur verið sagt frá á öðru bloggi mínu sjá hér).
Allt þetta og meira er hægt að lesa um í gögnum í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn, sem íslenskir sagnfræðingar, sem rannsaka Íslandi í síðari stríði, hafa alls ekki nýtt sér sem skyldi - eða yfirleitt komið þangað, nema kannski eina dagsstund. Þess vegna "myrti" t.d. íslenskur sagnfræðingur ungan þýskan gyðing sem vísað var úr landi á Íslandi. Samkvæmt bókum og greinum íslensk sagnfræðings fórst maðurinn í helförinni, þó maðurinn hefði dáið úr krabbameini í bænum Horsens eftir stríð.
Sumum íslenskum sagfræðingum var reyndar meira annt um að halda þeim stjórnmálasamtökum sem þeir tilheyrðu flekklausum, en að skrifa söguna sem sannasta. Það hefur reyndar lengi verið vandi sagnfræðinga jafnt til vinstri og hægri á Íslandi - með nokkrum undantekningum þó.
Hér skulu til tekin nokkur dæmi um Íslendinga sem Danir fylgdust með í Þýskalandi nasismans, sem ég hef ekki ritað um áður á Fornleifi:
María Markan
María hélt sinn fyrsta konsert í Berlín laugardaginn 16 desember. Hún var rómuð mjög í Völkischer Beobachter, og margir nasistar komu til að hlusta á íslenska söngfuglinn. Fyrir konsertinn hafði Markan mætt í danska sendiráðið með íslenska ræðismanninum Jóhanni Þ. Jósefssyni ræðismanni Þjóðverja á Íslandi. Zahle skrifaði yfirboðurum sínum í utanríkisráðuneytinu í Kaupmannahöfn að hann hafi Frk. Markan mismundandi ráð og boðið henni nauðsynlega hjálp að sendiráðsins hálfu.
Hann bætti síðan við:
"Derefter har Gesandskabet overhovedet ikke hørt nogetsomhelst til hende, hvilket er saa meget mærkeligere, som to af dettes Medarbejdere turde være kendt som Islandsinteresserede."
Vart hefur Zahle gefið Markan ráðleggingar varðandi söng og sviðsframkomu. Ég vænti þess að ráðleggingar hans hafi gegnið út á umgengni við nasista, sem ung kona gæti misskilið. Þetta var skömmu áður en María Einarsdóttir Markan var ráðin að Schiller-óperunni í Hamborg. Nasistum líkaði hún og söngur hennar.
Karlakór Reykjavíkur
Kórinn og kom til Berlínar í nóvember 1937, og hélt þ. 12. þess mánaðar konsert í mjög fámennum Bach-salnum á Lützowstraβe 7 (áður kallaður Blüthner-salurinn), undir stjórn Sigurðar Þórðarsonar en einsöngvari með kórnum var Stefán Íslandi. Zahle var mættur á tónleikana með dóttur sinni og nokkrum öðrum starfsmönnum sendiráðsins og skrifaði skýrslu til Utanríkisráðuneytisins. Zahle upplýsir að kórinn hafi einvörðungu sungið þýska "þjóðernissálma" fyrir hlé, þótt staðið hafi í söngskránni að einungis íslenskir söngvar yrðu sungnir utan tveir; Annar eftir F.A. Reissiger sem telst vera norskt tónskáld þó hann hafi fæðst í Þýskalandi og hinn eftir prins Gustaf Oscar af Svíþjóð og Noregi (1827-52). Zahle og og aðrir kröfðust þá úr salnum íslenskra söngva. Zahle var einstaklega hrifinn af Ave Mariu eftir Sigvalda Kaldalóns, og það varð dacapo.
Þjóðverjar (eða huganlega Guðbrandur Jónsson) hafa greinilega breytt dagsskránni og sett þýska þjóðernissöngva (nasistamúsík) á dagsskrána.
Tvennt fór mest fyrir brjóstið á Zahle varðandi kórinn, en var það alls ekki söngurinn sem hann rómaði mjög í löngu bréfi sínu til Kaupmannahafnar: Annars vegar var það hið algjöra skipulagsleysi ferðarinnar. Kórinn kom of seint til lofaðs söngs og hann hafði ekki haft samband við t.d. sendiráðið um aðstoð. Fámennið í Bach-salnum má fyrst og fremst skrifa á fararstjóri ferðarinnar, sem var annað aðalvandamálið samkvæmt Zahle. Það var enginn annar en Guðbrandur Jónsson (sem kallaður var prófessor um tíma). Zahle lýsir honum þannig í bréfi sínu til yfirboðaranna í Kaupmannahöfn:
".... Guðbrandur Jonsson, som under Koncerten gjorde mig sin opvartning, kjoleklædt og medalje-dekoreret, men hvis Egnethed til Hvervet dog vistnok turde være Tvivl underkastet."
Karlakórinn hélt áfram frægðarför sinni til Prag og síðar til Vínarborgar, Leipzig, aftur til Berlínar - og loks til Hamborgar, en þegar danska sendiráðinu í Berlín barst frásögn af konsert karlakórsins í Hamborg sem birtist í Hamburger Tageblatt, hnaut Zahle ekki um söngdóminn sem var ágætur, heldur um frásögn af titlum þeim sem Guðbrandur "vitlausi" veifaði um sig. Hann var orðinn íslenskur Archaeologe, Professor und Doktor og ofan í kaupið Protockolchef Islands.
Ekki má heldur gleyma Þýskalandsferð alþýðuflokksmannsins!! Guðbrands Jónssonar til Berlínar og Þýskalands árið 1936, þar sem hann talaði í þrígang í útvarp. Þjóðverjar buðu gerviprófessornum með sér til fangabúðanna Dachau í Bæjaralandi (vegna óska frá Guðbrandi sjálfum), sem hann lét víst vel af. Stórfurðulegt er hvernig að íslenskur "krati" og kaþólikki hafði ánægju af að umgangast nasista og sjá skoðanabræður sína í fangabúðum fyrir skoðanir sínar. Þór Whitehead sagir frá því í Þýskalandsævintýri Himmlers (2. útg. 1998). Sjálfur tók Guðbrandur, sem sumir menn uppnefndu síðar sem Bralla, fram, að hann væri sósíaldemókrati. Árið 1938 ritaði hann er hann fann fyrir óánægju flokksfélaga sinna í Alþýðuflokknum:
Ég ætla hér að taka fram ... að ég er alþýðuflokksmaður, og að ég er því andvígur stjórnmálastefnu Natíónalsócíalista eða Nazista, eins og þeir eru nefndir í daglegu tali. Það má því enginn ætla að ég aðhyllist þær skoðanir, þo að mér þykir Þjóðverjar ágætir menn, og skylt, að andstæðingar stefnunnar beitist gegn henni með þeim rökum sem þeir ráða yfir. (Sja bók Guðbrands: Þjóðir sem ég kynntist : minningar um menn og háttu, Reykjavík: Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, 1938).
Síðar skrifaði íslenskur sjálfstæðismaður þetta til bresks nýnasista og helfararafneitara. Lausar skrúfur? Kannski eru menn bara svona á íslandi. Lögmaðurinn og sjálfstæðismaðurinn sem ritaði breska helfararafneitaranum bætti við: I am not saying, that I always agree with you, Dear Sir, but I like your books very much.
Líkt og áður fyrr eru nasistar nútímans fljótir að taka höndina, þegar litli fingurinn er réttur út. Lögmaðurinn bjóst líklegast ekki við því að helfararafneitarinn Irving myndi birta bréf sitt.
Kratinn, kaþólikkinn og nasistaaðdáandinn Guðbrandur Jónsson, tók síðar beinan þátt í ritun texta sem notaður var við brottvísun gyðinga frá Íslandi.
Hér má lesa um annan krata sem á margan hátt var skoðanabróðir Guðbrands.
Heimsóknir rektora Háskóla Íslands til Berlín
Nasistum þótti allra vænst um að fá íslenska menntamenn í heimsóknir til Berlínar. Þar vantaði heldur ekki viljuga meðreiðarsveina. Meðal þeirra var prófessor Alexeander Jóhannesson sem var rektor Háskóla Íslands á árunum 1939 til 1942.
Nordisches Gesellschaft og SA (Sturmabteilung, sem var á ýmsan hátt forveri SS) hélt honum kvöldverð til heiðurs á Hótel Adlon, þar sem mættir voru glæpamenn eins og Diedrich von Jagow. Áður hafði Alexander Jóhannesson haldið fyrirlestur við háskólann í Greifswald. Viti menn, Danir voru fljótir að senda upplýsingar um það til Utanríkisráðuneytisins í Kaupmannahöfn ( í bréfi dagsettu 7. Febrúar 1939). Vegna færni sinnar í þýsku, þar sem Alexander hafði menntast í Leipzig og Halle, þá sagði hann margt og sumt sem betur hefði verið ósagt. Meira um það síðar.
Síðar varð Alexander líklega frægari sem frímerki þar sem minnst var hlutverki hans í flugsögu Íslands; Menn sem þurftu mikið að skreppa til Berlínar voru vitaskuld miklir áhugamenn um flug:
Níels P. Dungal prófessor í læknisfræði, var á ferð í Berlín árið áður, nánar tiltekið í maímánuði 1938. Það ár var hann rektor Háskóla Íslands. Mánudaginn 30. maí hélt hann fyrirlestur með skyggnum um Ísland á 20. öld (Island im 20. Jahrhundert) sem var haldinn á Hótel Adlon fyrir samansafn háttsettra nasista. Friedrich Wilhems Universität zu Berlin hafði boðið Dungal að halda fyrirlesturinn.
Professor Dr. Niels Dungal
Dungal var hins vegar þegar í janúar sama ár mættur í Berlín, og ætlaði sér að tala við engan annan en Alfreð Rosenberg, sem þá starfaði í einni af deildum þýska utanríkisráðuneytisins, Ausvärtiges Amt. Rosenberg var einnig helsti hugmyndafræðingur þýskra nasista um gyðinga og síðar stríðsglæpamaður, og var tekinn af lífi fyrir stórfellt hlutverk sitt í helförinni gegn gyðingum. Hans málefni voru á tímabili í sér deild í ráðuneytinu, Aussenpolitische Amt der NSDAP (sem stytt var APA) sem í daglegu tali var einnig kölluð Amt Rosenberg. Fékk hún síðar heitið Einsatzstab Reichsleiter Rosenberg. APA hafði lengi til húsa í hliðarbyggingu við hið margfræga og glæsilega hótel Adlon, sem nasistar gerðu fljótlega að sínu hóteli og ballsal SS.
Alfred Rosenberg stjórnaði einnig Die Nordische Gesellschaft, andlegri taug Gunnars Gunnarssonar í Þýskalandi, sem sumir sögulausir menn á Íslandi hafa leyft sér að kalla Norræna Félagið í þýðingum.
Fanginn Alfred Rosenberg bíður dóms
Die Nordische Gesellschaft bauð Dungal í hádegisverð á hinu dýra Adlon-hótelinu í Berlín og þangað mætti Zahle sendiherra Dana, en ekki mjög fjálgur. Fyrir utan að Zahle segði yfirboðurum sínum í Kaupmannahöfn frá þessum hádegisverði sem Dungal var heiðursgestur í, var sagt frá honum í einu helsta blaði nasista Völkischer Beobacther þann 23. janúar 1939. Þannig notuðu nasistar Íslendinga, og þeir voru greinilega upp með sér rektorarnir af þessum tengslum sínum.
Fljótlega rann upp fyrir Zahle sú staðreynd að Níels Dungal hefði með kynnum þeirra fyrst og fremst áhuga á að tala máli öfganasistans Friedrich Walterscheids, sem stundað hafði nám við Háskóla Íslands. Stúdentinn Walterscheid, þótti ræðismaður Þjóðverja í Reykjavík, Günther Timmermann, ekki standa sig nógu vel í stykkinu og réðst því líkamlega á Timmermann á fundi sem haldinn var í Germaníu, vinafélagi Þýskalands og . WalterscheidÍslands taldi að Timmermann hefði ekki kynnt nægilega vel eðli þrælkunarbúða nasista sem þeir kölluðu þá "þegnskylduvinnubúðir". Nasistar völdu alltaf vel nöfn á skítverk sín. Waltersceid gerði sér lítið fyrir og sló Timmermann. Þessu fúlmenni, sem hafði numið við HÍ, var vísað til Þýskalands fyrir bragðið eftir að Timmermann kærði athæfi hans til sendiherra Dana í Kaupmannahöfn.
Zahle upplýsir 24. janúar 1938, að hann teldi að Dungal væri nú búinn að gefa þau áform sín upp á bátinn að aðstoða Walterscheid. En aldeilis ekki - Dungal rektor ritar Zahle aftur frá Reykjavík 10. febrúar 1938 Í því bréfi kemur í ljós að Dungal er einn þeirra Íslendinga sem hve mest vilja losna við hinn "gagnrýna Timmermann". Reyndar voru það flestir félagsmenn í félaginu Germaníu, sem kröfðust þess. Dungal skrifar m.a. í stuttu bréfi sínu til Dungals:
"Vi har stadig noget vrövl med vor tyske Konsul som vi alle gerne vil vere fri for og forhaabentlig ogsaa snart bliver, men den sag skal jeg ikke yderligere betynge dem med."
En áður en Zahle fékk þetta bréf frá Dungal, sem kenndi í brjósti um öfgapiltinn sem sló Timmermann utan undir, og sem hafði gefið Walterscheid sín bestu meðmæli, ritaði Zahle utanríkisráðuneytinu í Kaupmannahöfn bréf, þar sem hann skýrði hvernig hann hafði ráðlagði Dungal að láta málið kyrrt liggja.
En hafði Dungal samband við Auswertiges Amt, eða aðrir íslenskir Þýskalandsvinir? Það er mjög líklegt. Ólíklegt er að Dungal segi satt frá í bréfi sínu til Zahle. Mjög líklega hefur hann einnig velt þessu máli við aðra valdamenn í Berlín en Alfred Rosenberg, því skömmu síðar var Timmermann hrakinn úr embætti sínu á Íslandi og kallaður heim og varð að þola erfið ár í herþjónustu á stríðsárunum. En til Íslands erkinasisti, SS-maðurinn Gerlach, sem lítt var rómaður, og ekki syrgður þegar Bretar tóku hann til fanga árið 1940.
Svo vinsæll var Dungal í Berlín, að hann var aftur kominn til borgarinnar í maímánuði 1938, eins og áður greinir, og hélt nú skyggnuljósmyndasýningu um Ísland á 20. öld. Herluf Zahle sendiherra fann sér gilda ástæðu til að fara ekki á fyrirlesturinn og sendi Helga P. Briem, íslenska sendiráðunaut (verslunarfulltrúa) í sinn stað.
Dungal fór svo heim til íslands og hélt áfram sínu daglega amstri við Háskóla Íslands og í frítímum sínum ræktaði hann brönugrös (orkídeur).
Óskandi væri að Háskóli leiðrétti ófullnægjandi ævisögur fyrrverandi rektora háskólans. En af þekkingu minni af þeirri stofnun, hef ég samt á tilfinningunni að seint muni svo fara. Feluleikurinn kringum hinn Nóbelsrúna verðlaunagrip Gunnar á Skriðuklaustri er nefnilega nokkuð algengt fyrirbæri í íslensku þjóðfélagi eins og flestum er nú kunnugt um.
*Ítarefni um íslenska nasista, sjá dálkinn til vinstri.
*Áhugverð lesning fyrir þá sem hafa áhuga á íslenskum nasistum: Rannsökum nasistana í Sjálfstæðisflokknum!
Meginflokkur: Íslenskir nasistar | Aukaflokkar: Sagnfræði, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 2.5.2020 kl. 10:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.