Dýrð Drottins

Vindskeiðar MúliNú skulu ræddar vindskeiðarnar hér til vinstri sem varðveittar eru á Þjóðminjasafninu, en þær koma af vesturgafli kirkju í Múla í Aðaldal. Kirkja er ekki lengur í Múla, og hefur engin verið þar síðan 1890. Öllum er kannski hundssama um hvað upp á henni snýr eða niður. En sem betur fer ekki alveg öllum.

Múlakirkja var til að mynda til tals um daginn hér á Fornleifi, þegar sagt var frá 13. aldar  Maríumynd sem verður fram á haust á Spáni er hún snýr aftur til Kaupmannahafnar þar sem hún á fastan bústað (sjá hér og hér). Þá fæ ég að klappa henni.

Vindskeiðar af kirkjunni að Múla í Aðaldal, sem löngu er rifin, hafa verið til umtals í verkum fjölmargra manna sem látið hafa íslenskan útskurð fyrr á tímum til sín taka. En enginn þeirra hefur hins vegar leyst gátu þá og jafnvel vandamál sem þeim þótti myndmálið á vindskeiðunum vera.

Ástæðan fyrir því að merking útskurðarins hefur vafist fyrir sjálfskipuðum sérfræðingum í íslenskri listfræði er væntanlega sá (að mínu mati), að menn höfðu ekki þann skilning á fyrri alda fólki, að mikill hluti heimsmyndar þeirra hafi stýrst af einnig bók allt fram á 18. öld. Sú bók var Biblían. Til að skýra alþýðulist verða menn að hafa sæmilega þekkingu á sögum gamla og nýja testamentisins, eða vera fært um að leita uppi atburði í þeim bókum. Aldrei hefur það verið auðveldara en nú með veraldarvefinn og skýringar á fjölda tungumála.

Myndmál vindskeiðanna úr Múla er í raun mjög einfalt og vísar í Gamla Testamentið sem menn höfðu lesið og hötuðust ekki út í eins og margir gera í dag. Í spjaldtexta Þjóðminjasafnsins eru þessar  upplýsingar veittar:

Vindskeiðar af torfkirkju í Múla í Aðaldal með fangamarki séra Gísla Einarssonar sem þar var prestur 1692–1723. Neðst er engill sem heldur á stöng með vængjuðu hjóli, tákni hamingjunnar. Síðan gengur jurtastöngull upp eftir fjölunum, sem upphaflega hafa verið nokkru lengri.

Vindskeið Múla 1Þetta og annað sem skrifað stendur um hjólin á tveimur af vindskeiðunum frá Múla er flest út í hött. Hugsanlega var listamaðurinn Þórarinn Einarsson sem fyrrum merk samstarfskona mín á Þjóðminjasafni Þóra Kristjánsdóttir greinir frá í merku riti sínu Mynd á Þili (2005). Það er vegna þess að líkindi er með vindskeiðanna og öðrum þekktum verkum eftir Þórarinn. En þau líkindi eru samt ekki mjög sterk að mínu mati og rökstuðningur Þóru ekki nægilegur í bókinni (bls. 87 í bók Þóru). Þórarinn, eða sá alþýðulistamaður sem skar út vindskíðin í Múla, var vafalítið einnig betur að sér í Biblíusögum en starfsmenn Þjóðminjasafnsins og aðrir sérfræðingar sem brotið hafa heilann yfir hjólunum á fjölunum frá Múla.

 

Hjólin og englarnir á vindskeiðunum frá Múla eru Kerúbar eða réttara sagt sú gerð að englum gyðinga sem flokkuðust undir ophanim. Í grísku þýðingunni var englunum breytt í kerúba en eins og fróðir menn vita hafa helgar bækur gyðinga oft orðið illa út út þýðingum kristinna manna, en þessi kafli er nokkuð réttur.  Til að skýra myndmálið sem vafist hafa fyrir fyrri tíma sérfræðingum er best er að vísa í 10. kafla Esekíels í Gamla testamentinu, þar sem segir frá heimssókn engla í Musterið í Jerúsalem:

Múla Vindskeið 2Dýrð Drottins:

Undir vængjum kerúbanna sást eitthvað sem líktist mannshendi. Ég horfði á og sá fjögur hjól við hlið kerúbanna, eitt hjól  við hlið hvers kerúbs. Hjólin voru á að líta eins og ljómandi krýsolítsteinn [kristall]. Öll hjólin litu eins út og virtust þau vera hvert innan í öðru.  Þegar þau hreyfðust gátu þau snúist í allar fjórar áttir og breyttu ekki um stefnu þegar þau hreyfðust. Þar sem þau hreyfðust í sömu átt og fremsta hjólið stefndi í breyttu þau ekki um stefnu á ferð sinni.  Allur líkami þeirra, bak, hendur, vængir og öll fjögur hjólin voru alsett augum [í hebresku útgáfunni stendur alsett litum] allt um kring.  Hjólin voru nefnd Galgal í mín eyru.  Hver vera hafði fjögur andlit. Fyrsta andlitið var kerúbsandlit, annað mannsandlit, þriðja ljónsandlit og fjórða arnarandlit.  Og kerúbarnir hófu sig upp. Það voru sömu verur og ég hafði séð við Kebarfljót.  Þegar kerúbarnir gengu snerust hjólin við hlið þeirra og þegar kerúbarnir lyftu vængjum sínum til að hefja sig upp frá jörðinni sneru hjólin ekki burt frá hlið þeirra. Þegar þeir námu staðar staðnæmdust hjólin einnig og þegar kerúbarnir hófu sig upp hófust hjólin með þeim því að andi veranna var í þeim.  [í upphaflega textanum stendur: vegna þess að vilji lifandi veru var í þeim].

Þessi óhemju undur gerðust í draumi Esekíels við Chebarflót (Kebar) sem rennur nærri Nippur í Babýlon. Í dag heitir fljótið Chebur og er nærri Nuffar (Nippur) í Afak héraði í Írak. Þessi texti í helgum ritum gyðinga hefur vitaskuld vakið ýmsar vangaveltur og jafnvel drauma hjá þeim sem lesa bókstaflega í drauma Esekíels.

Nú á tímum ganga um fleiri delludólgar en nokkru sinni fyrr. Ef þeir telja ekki hjól vera lukkuhjól (hamingjukringlur) telja þeir þetta lýsingu á geimverum á ferð í himnavögnum í baráttu sinni við hin illu öfl.

Slíkt dómadags rugl verður auðvitað ekki flúið, meðan að meirihluti mannkyns er enn á kuklstiginu. Þórarinn Einarsson, eða sá sem skar út vindskeiðarnar í Múla, var aðeins að lýsa því sem hann las í helgri bók kirkju sinnar, sem honum hafði verið kennt að trúa á. Hann hafði enga þörf á því að blanda geimverum inn í frásögn sína, sem hentaði á vinskíði. Frásögnin um Dýrð Drottins hentaði vel sóknarbörnum sem til kirkju komu í Múla.

Aðrir listamenn en Þórarinn Einarsson (ef hann á þá nokkuð heiðurinn af vindskeiðunum frá Múla) reyndu að lýsa því sem þeir lásu á mjög mismunandi hátt: 

Screenshot_2020-05-24 (1) Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Hugsanlega er draumsýnin lýsing á því sem gyðingar sáu í listsköpun máttugra hervelda sem leiddu þá í þrældóm fyrr á öldum.

main-qimg-4eda65f995a6783395670058f86886e8

 

images Margt er hægt að skýra áður en gullvagninum er ekið út úr bílskúrnum hjá menningarsnauðu fólki í Vesturheimi sem sér geimverur í draumsýn Esekíels og jafnvel Elvis á háaloftinu. Og þegar út í það er farið, getur dýrð Drottins, líkt og henni er lýst i draumi Esekíels, verið hreinræktað hamingjuhjól eins og Þjóðminjasafnið kallar hjólin á vindskeiðunum í dag. Dýrð og hamingja vanþekkingarinnar er vitaskuld engu lík.

Ljósmyndir af vindskeiðum frá Múla tók meistari Ívar Brynjólfsson, Þjóðminjasafni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þú gætir verið búinn að leysa gátuna.

Hún verður samt áfram áleitin spurningin hvort þjóðminjasafnið hefur ekki rétt fyrir sér varðandi myndskurðinn á vindskeiðunum frá Múla. Og þá hvort Þórarinn Einarsson, eða sá sem skar þær út, hafi ekki hreinlega ruglast inn á gúggúl á tímaflakki? 

Lengi hef ég reikað þennan refilstig.

Rökkvar senn og þreytan er að buga mig.

Hvar fæ ég að halla mínu höfði nú.

Herra, enginn getur bjargað nema þú.

 

Ég bið þig, sendu nú vagninn þinn að sækja mig.

Já, herra, sendu nú gullvagninn að sækja mig.

Gættu mín, geymdu mig, gefðu mér friðinn.

Langt hef ég farið og mig langar heim.

Magnús Sigurðsson, 24.5.2020 kl. 18:51

2 Smámynd: FORNLEIFUR

 Já, að hugsa sér: Sannur Samfylkingarmaður, Jón Friðrik Guðnason orti þennan fallega brag. Þeir eru oft trúaðri en maður mætti halda miðað við það sem út úr kjaftinum kemur. Ætli Jónas hafi haft draumsýn um jeppa eða apparat líkt og spámaðurinn sá í sínum Babýloníudraumi? Kannski var Esekíel berdreyminn og sá bara einn af þessum gulllituðu jeppum sem íslenskir burgeisar þjóta um á þegar þeir eru búnir að fela gullið sitt í sandinum. Hann var að lýsa fjórhjóladrifi. Og er þetta ekki í raun Gvöðs útvalda þjóð sem lifir á þangrótseyjunni í Ballarhafi? Það held ég. Hann hélt t.d. yfir ykkur verndarhendi þótt afvegaleiddir og ragir gemlingar í hinni útvöldu hjörð hafi látið ættingja Hitlers sprauta beint upp í sig pestinni í ergibar í Austurríki.

FORNLEIFUR, 25.5.2020 kl. 05:10

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Nú gefst ég alveg upp á að leysa Babýlonundrin á vindskeiðunum frá Múla, það var nóg komið hjá þér þegar þú komst inn á "Elvis á háaloftinu" þó þú sért ekki kominn með Hitler í gátuna líka.

En það lá nokkuð ljóst fyrir að annaðhvort hafði Þórarin Einarsson með einhverum hætti komist á gúggúl eða villst inn á langbylgju íslenska ríkisútvarpsins, ef vísbendingar þínar í upprunalega pistlinum eru skoðaðar á gúggúl.

Ég læðist oft upp á háaloft

til að hnýsast í gömul blöð

þegar sit ég þar koma upp minningar

og atburðarás verður hröð.

Allir strákarnir voru í támjóum skóm

og bstelpur með túperað hár.

Já, á sunnudögum var rekstrasjón,

- en síðan eru liðin mörg ár.

Þeir greiddu í píku,

á þessum dögum þeir

greiddu í píku,

undir Presley lögum.

Magnús Sigurðsson, 25.5.2020 kl. 06:23

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Já, Forleifur er ekki svona helvíti poppaður. Hvað kemur næst, kannski: A skíðum skemmti mér tra lalala?  Vindskíðum.

FORNLEIFUR, 25.5.2020 kl. 17:44

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Þú skrifar svo mikið hér á Fornleif (og takk fyrir það), að það mætti halda að þú værir áhangandi eða einhvers konar grúpí.

FORNLEIFUR, 25.5.2020 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband