Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021

My Daddy was a Soldier Boy

IMG_20210529_0002 b

But only for a very short while. Og eiginlega þyrfti þessi saga ekki að vera mikið lengri. Herskylda föður míns var afar stutt. Hann sagði mér að hann hefði óttast mjög að vera sendur til Indónesíu. En þar sem hann var sonur ekkju og hafði þolað ýmislegt óþægilegt á árunum 1940-45, var hann undanþeginn því að verða sendur í stríð í nýlendum Hollendinga.

IMG_20210529_0007 dFaðir minn henti gaman að herskyldu sinni. Hann gat, að eigin sögn, ekki gengið í takt, var einstaklega léleg skytta og tókst að laska trukk sem var verið að reyna að kenna honum að aka. Hann bakkaði út í skurð, eyðilagði skurðinn, trukkinn og sitthvað fleira. Mannfall varð sem betur fór ekki. Þá var hann settur inn á skrifstofu, því hann var góður að leggja saman og deila og gat vélritað eins og hríðskotabyssa. Síðar var hann í lok herskyldunnar sendur til Parísar þar sem hann var skrifstofublók og frímerkjasleikir hjá hernaðarsendifulltrúanum í hollenska sendiráðinu, því hann var að sögn góður í frönsku.

Pabbi i Paris b

 

800px-Bouche_de_métroGóð vinkona mín í París, og fyrrverandi samstarfskona, sendi mér þessa mynd af stöðinni Chaussée d´Antin – La Fayette.

Afi minn (sjá s.l. hérna), sem meldaði sig í herinn með metnaði, eftir meira en þúsund ára hernaðarandstöðu í fjölskyldunni, hefði ekki verið stoltur af hermennsku pabba. Þeir voru afar ólíkir feðgarnir að því er sagan hermir.

WILLEM FLOKKUR A færdigreduceret mindre skærpet

Litli karlinn með háa hattinn er afi. Hann stóð á tánum.

Fornleifur er hins vegar afar herskár og það mun ekkert minnka með árunum, nema síður sé. Vopnabúrið er stórt.

IMG_20210529_0009 f

Hérna er pabbi í friðsamlegri pósisjón, nærri öndum í díki.


Erlendur aftur genginn

193315880_10225666637510904_1084081600680305205_n

Hulda Björk Guðmundsdóttir fornleifafræðingur, kennari og hundasérfræðingur hefur undanfarnar vikur verið að grafa sig niður í bæjarhauginn á Árbæjarsafni. Á fasbók sinni sýnir hún fólki myndir af áhugasömu sauðfé, sem horfir furðu lostið upp á mannfólkið grafa ofan í jörðina í stað þess að bíta hina safaríku tuggu sem þarna vex ofan frjósamri torfunni.

Meðal glápandi sauðpeningsins er Erlendur afturgenginn, athyglissjúkur þríhyrndur hrútur með mórauðan sauðasvip. Ég leyfi mér að rupla mynd Huldu af Erlendi.

Hraðskreitt og ólygið andaglas Fornleifs, sem eitt sinn átti amma dr. Bjarna F. Einarssonar, segir mér ítrekað að þarna sé genginn aftur hrúturinn Erlendur sem Fransmenn keyptu og fluttu úr landi á 18. öld ásamt ánni Vigdísi (með ærinni fyrirhöfn) og hundinum Snata, sem síðar breytti nafni sínu í Seppý. Erlendur endaði líf sitt í París og lenti í mikilli kássu sem borin var fram í Bastillunni, eftir að hann hafði verið frægur pinup-hrútur í dýrafræðibókum í Frakklandi. Endalok Vigdísar voru, samkvæmt nýjustu rannsóknum mínum, meira á huldu, enda var hún heldur engin kótiletta lengur, þegar hún sneri aftur í Sauðlauksdal eilífðarinnar eftir farsæl fyrirsætustörf í Frans.

Myndin hér fyrir neðan er úr hrútakofa Fornleifssafns, ásamt öðrum fornum dýrafræðimyndum af Íslendingum og fé þeirra. Sjá enn fremur hér.

Hruturinn Erlendur b


Tímasetningar "biblíuumslags" og "biblíubréfs"

Biblíufréfið

Þjóðskjalasafnið gaf í dag frá sér þessa yfirlýsingu, því safnið hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að verðmætt og margumtalað umslag, sem jafnan er kallað Biblíubréf, sé ríkiseign. Eiginlega er Biblíubréfið umslag, en Þjóðskjalasafnið telur sig hafa bréfið sem í því var undir höndum. Safnið hefur komist að þeirri niðurstöðu að umslagið hafi hugsanlega verið tekið ófrjálsri hendi.

Þessi skýrsla Þjóðskjalasafnsins stendur aðeins í hálsinum á mér og sendi ég því eftirfarandi fyrirspurn til Þjóðskjalasafni, nánar tiltekið þeirra starfsmanna sem manni var bent á að hafa samband við í tilkynningu safnsins.

Sæl verið þið Hrefna og Njörður

Ég var að hlusta á fréttir í dag í Útvarpinu og heyrði frétt um yfirlýsingu Þjóðskjalasafns varðandi Biblíubréf svokallaða, í framhaldi af þætti sem nýlega var sýndur á RÚV - sem ég hef því miður ekki séð, þar sem ekki er hægt að horfa á hann erlendis.

Ég las aftur á móti mjög vel það sem Þjóðskjalasafnið hafði til málanna að leggja. Mig langar þess vegna að spyrja, hvernig stendur á því að bréfið sem þið teljið hafa verið inni í Biblíuumslaginu er dags. 30. september 1874, en bréfið sem þið viljið tengja því er er póststimplað þann 22. október 1874.

Ef þið skoðið Alþingisbréfið (sjá hjálög mynd) er ljóst að frímerkið var stimplað 22. október 1874. Bréfið sem sérfræðingar Þjóðskjalasafns telja að hafi verið í því umslagi er dagsettu 30. september 1874.

Getið þið skýrt þessa seinkun á sendingu bréfsins sem er undirritað 30.9. 1874. Beið Landsfógeti með að senda 2. sendingu í 22 daga eða voru stimplar pósthússins í ólagi? Ja, kannski var Óli Peter Finsen póstmeistari á fylleríi.

Með góðri kveðju,

Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ritstjóri á Fornleifi https://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/

Ég lofa að skýra fyrir lesendum Fornleifs, það sem Þjóðskjalasafnið skýrir út fyrir mig, um umslag sem er stimplað 22. október 1874, meðan að bréfið sem Þjóðskjalasafnið telur að hafi verið í umslaginu er frá 30. september 1874.

Kannski hafa lesendur Fornleifs góðar skýringar? Kannski er önnur Pfizer sprautan eitthvað að rugla mig í ríminu? Fjandakornið nei, það er meira hálfur mánuður síðan að ég fékk hana og ég hef ekkert fundið fyrir heilatöppum.

Viðbót 14.5. 2021

Þjóðskjalasafnið hefur vinsamlegast svarað erindi mínu:

Heill og sæll Vilhjálmur

Til að svara fyrirspurn þinni. Samkvæmt bréfadagbók sýslumannsins í Árnessýslu barst bréfið frá landfógeta dags. 30. september 1874 til sýslumannsins 30. október sama ár. Samkvæmt bréfadagbókinni virðast 28 bréf hafa borist þennan dag til sýslumanns og eru þau dagsett frá 14. september til 27. október 1874. Þessi bréf eru skráð á þrjár blaðsíður í bréfadagbók sýslumanns. Ég læt fylgja með ljósmynd af síðunni sem bréfið frá 30. september 1874 er skráð á (nr. 526) og aðra mynd þar sem betur má lesa færsluna fyrir bréfið frá 30. september 1874. Þú sérð að í dálki lengst til vinstri er móttökudagsetning bréfanna en í dálki lengst til hægri er dagsetning bréfanna. [Sjá myndir hér og hér]

Rétt er að benda á að samkvæmt athugun Þjóðskjalasafns er hið svokallaða „Biblíubréf“ ekki umslag heldur er það hluti af bréfi til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 30. september 1874 frá landfógeta. Sá hluti sem hefur verið nefndur „Biblíubréfið“ hefur verið klipptur eða skorinn af bréfi landfógeta. Venjan var að bréf voru skrifuð á sambrotnar arkir þar sem innihald bréfsins var skrifað á fremra blað arkarinnar og utanáskrift bréfsins, þ.e. nafn móttakanda, aftan á síðari hluta arkarinnar. Síðan var bréfið brotið saman á tiltekinn hátt, það innsiglað með lakki og þrykkt á það skjaldarmerki embættisins sem sendi bréfið og frímerki síðan límt á þá hlið eftir atvikum. Á bréfi landfógeta til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 30. september 1874 má enn sjá brot í bréfinu og hvernig það hefur verið brotið saman. Til samanburðar birti Þjóðskjalasafn mynd af sambærilegu bréfi frá landfógeta til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 24. október 1874 þar sem sést vel hvernig sambrot voru á þessum tíma.

Með kveðju,

Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri skjala- og upplýsingasviðs

Þjóðskjalasafn Íslands

Laugavegur 162, 105 Reykjavík

Sími 590 3300 / 590 3322

 


Mont seint á mánudegi

Cover_vind_41_600px 

Ég leysti nýlega þíðan vind i Hollandi. Að því tilefni langar mig að benda lesendum Fornleifs, sem geta lesið hollensku, á tímaritið VIND, sem kemur út 4 sinnum á ári hverju.

VIND (sem borið er fram Find) er tímarit um listir, sögu og fornleifar og hefur það mikla útbreiðslu og vinsældir í Hollandi. Greinar í ritinu er jafnt um efni frá Niðurlöndum sem öðrum löndum. 

Ritið er í mjög háum gæðum, enda er prentverk í sérflokki í Hollandi eins og margir vita. Ritið er heldur ekki dýrt, eða 12.50 evrur út úr búð. Fyrir 1893 ISK fær maður nú með VIND 41, 210 blaðsíðna rit í hágæðum. Ritið er 950 grömm að þyngd. Það er því sums staðar orðið dýrara að senda slíkt rit stakt í pósti á hinum mikla hnignunartíma eðlilegra póstsamgangna en að kaupa það. Það eina sem kannski letur Íslendinga til kaupa á þessu ágæta riti er að það er á á hollensku. En sífellt fleiri Íslendingar eru meira en mellufærir á því góða tungumáli og sagt er að Íslendingar séu með eindæmum listrænir og góðir tungumálamenn. VIND er tilvalið rit fyrir fagurkera, sem nenna að hafa fyrir því að stafa sig fram úr 2-8 blaðsíðna greinum á niðurlensku.

Ritstjóri Fornleifs hefur tvisvar skrifað grein í ritið um efni sem tengja Ísland, Norðurlönd og Holland saman. Þriðja greinin er á leiðinni, fjórða er í forvinnslu og fimmta greinin er farin að gerjast í höfðinu á mér. Svo er einnig í frásögur færandi að titstjóri Fornleifs var nefndur í ritstjórnargrein ritsins um daginn (sjá hér). 

Ég set hér hlekk á heimasíðu VIND ef einhver aðdáandi lista hefur áhuga á góðu riti og að læra nýtt tungumál, t.d. ef menn stefna að því með tíð og tíma að verða menningarlegir íslenskir embættismenn í Brussell. Nýjasta grein mína (rétta próförk) í ritinu getið þið lesið hér, en síðutölin eru röng; í lokaútgáfu ritsins er greinin á blaðsíðum 50-57, en annars er greinin á allan hátt sú sama.


Faðirvorið á 1. maí

Faðirvorið Fornleifur

Ritlingurinn, sem þið sjáið hér fyrir ofan, ber titilinn Faðirvorið og fleiri Sögur úr "Þriðja Ríkinu".

Í tilefni dagsins getið þið flett honum hér eða lesið, því þetta er nefnilega nokkuð merkilegur pési.

Ekki er bæklingur þessi, nú orðið, mjög algengur í íslenskum bókasöfnum samkvæmt Gegnir.is. En þótt furðulegt megi virðast er hann til í erlendum bókasöfnum, t.d. á háskólabókasafninu í Leeds á Englandi ásamt fjölda ritlinga kommúnista á Íslandi. 

Góður vinur minn sagði mér frá pésanum nýlega og ég náði þegar í eintak hjá bókabjörgunarmanninum Bjarna Harðarsyni á Selfossi.

Ritlingur þessi var kostaður af Sovétríkjunum til að upplýsa fólk um eðli nasismans. Hann var gefinn út á ýmsum tungumálum. Í kverinu er að finna 5 örsögur og hlutar úr frásögnum eftir 4 höfunda/frásagnarmenn; þá Johannes R. Becher, Peter Conrad, G.P. Ulrich og S. Gles.

soviet-flag-11

 

csm_10886x_ba2c5dae26Peter Conrad var betur þekktur sem Anna Seghers (1900-1983), sem var reyndar einnig dulnefni konu sem upphaflega hét Anna (Netty) Reiling. Hún var af gömlum þýskum gyðingaættum frá Mainz í Þýskalandi. Sjá meira um þá merku konu hér. Um Johannes R. Becher og S. Gles (Samuel Gleser) getið þið lesið neðst, en ég verð að viðurkenna að ég veit enn ekki hver G. P. Ulrich var, en nafnið er vafalaust höfundarnafn.

stefan_ogmundssonBæklingurinn var líklega gefinn út árið 1935 á Íslandi, en það vantar ártal. Prentsmiðjan Dögun í Reykjavík er sögð hafa prentað bókina og útgefandi er Baráttunefndin gegn Fasisma og Stríði.

Stefán Ögmundsson (1909-1989) prentari stofnaði Prentsmiðjuna Dögun í Reykjavík og rak hana árin 1933-1935. Hann seldi þá prentsmiðjuna til hlutafélags er hætti störfum skömmu síðar en Prentsmiðja Jóns Helgasonar keypti vélarnar.

Prentsmiðjan Dögun prentaði ýmsa bæklinga og blöð fyrir vinstri væng verkalýðsstéttarinnar á Íslandi,svo sem Rauða fánann og Sovétvininn. Síðar var Stefán einn af stofnendum Prentsmiðju Þjóðviljans og vann þar 1944-1958 og var prentsmiðjustjóri frá 1948. Stefán var formaður Hins íslenska prentarafélags um tíma og varaforseti Alþýðusambands Íslands 1942-1948. Hann var einnig formaður Menningar- og fræðslusambands Alþýðu sem gaf út ýmis merk rit. Sjá nánar um Stefán hér.

EInar OlgeirssonBaráttunefndin gegn Fasisma og Stríði var líkast til hluti af Kommúnistaflokki Íslands á 4. áratug síðustu aldar. Það upplýsir að minnsta kosti háskólabókasafnið í Leeds á Englandi, sem einhverra hluta vegna er betur búið af ritlingum íslenska Kommúnistaflokksins en blessuð Þjóðarbókhlaðan (sjá hér).

Mig grunar að félagi Einar Olgeirsson (hér til vinstri) hafi haft eitthvað með þetta rit að gera, en þigg allar upplýsingar um það, ef svo er ekki.

Hér á baráttudegi okkar alþýðumanna (byltingin er á næsta leyti) er við hæfi að minnast tveggja þeirra höfunda sem rituðu smásögurnar í ritlingi Baráttunefndar gegn fasisma og stríði:

167096155_855015991714051_4827647388414356739_nS. Gles hét réttu nafni Samuel Glesel (1910-37) og var gyðingur fæddur í Chrzanów syðst í Póllandi, en ólst upp í borginni Gotha í hjarta Þýskalands. Ungur að árum gerðist hann rithöfundur og bjó um tíma í Berlín, en árið 1932 flutti hann ásamt sambýliskonu sinni til Sovétríkjanna. Í trú um að hann myndi gera heiminn betri ætlaði hann að búa þar og hjálpa til við uppbyggingu landsins. En Adam var ekki lengi í Paradís. Árið 1937 féll Glesel í ónáð í Moskvu. Honum var bannað að vinna og varð að lokum fórnarlamb þeirra hreinsana Stalíns sem kallaðar voru "Þýska átakið" (Deutche Operation). 

Þann 5. nóvember 1937 var Glesel tekinn af lífi ásamt 98 öðrum kommúnistum ættuðum frá Þýskalandi. Flestir þeirra voru reyndar gyðingar enda Stalín gyðingahatari.

Margir þeirra voru af gyðingaættum. Líkum þeirra var varpað í fjöldagröf í Lewaschowo í grennd við Leningard (Sankti Pétursborg). Fjölskylda Glesels lenti þrælavinnubúðum. Sonur hans Alexander að nafni, sem lifði ódæði Stalíns af, fékk árið 1956 skýrslu um dauða föður síns í hendur. Þar hafði dánarorsökin verið fölsuð. Það var ekki fyrr en 1990 að hið rétta kom í ljós. Glesel hafði orðið fyrir barðinu á þeirri byltingu sem hann brann fyrir. En Byltingin étur stundum börnin sín eftir að glæpamenn hafa stolið byltingunni.

Johannes R BecherJohannes R. Becher (1891-1958) var heppnari en Glesel. Hann slapp lifandi úr hreinsunaræði Stalíns og félaga. Becher fæddist í München og var sonur dómara.

Becher var vægast sagt mjög dramatískur ungur maður. Árið 1910 ákvað hann að binda enda á líf sitt með vinkonu sinni Fanny Fuss, sem hann hafði kynnst fyrr það ár. Becher skaut hana og sjálfan sig, en hann lifði skotið af. Faðir hans, dómarinn, bjargaði honum frá aftöku með því að láta hann lýsa yfir geðveiki. Hann losnaði samt fljótt úr haldi og hóf nám við háskólann í Jena í læknisfræði og heimsspeki árið 1911. Hann losnaði undan herskyldu vegna heróínfíknar og sálrænna vandamála, en fór að gæla við kommúnisma og gerðist félagi í fjölda samtaka, meðal annars í flokki Óháðra Sósíaldemókrata. Síðar (1918) varð hann meðlimur Spartakistahreyfingarinnar í Óháða Sósíaldemókrataflokkun (USPD), en sú hreyfing hvarfaðist að lokum við Kommúnistaflokk Þýskalands (KPD). Um skeið yfirgaf hann flokkinn, óánægður með tök hans á "Þýsku byltingunni", en meldaði sig svo aftur í KPD árið 1923.

Becher var settur á svartan lista eftir Reichstags-brunann árið 1933 og yfirgaf Þýskaland. Hann hélt til Zurich og Parísar og ól manninn í umhverfi byltingarsinnaðra listamanna. Árið 1935 flutti hann búferlum til Sovétríkjanna eins og margir meðlima KPD.

Í Moskvu fékk hann vinnu sem ritstjóri innflytjendablaðsins Die Internationale Literatur-Deutcsche Blätter og varð meðlimur í Miðnefnd KPD í útlegð. En það var aðeins skammlífur vermir, því skyndilega varð hann fyrir barðinu á Stalín og kumpánum hans, sem ásökuðu hann um að hafa sambönd við engan ófrægari en Leon Trotsky.

Sumir telja að Becher hafi lifað af "hreinsanir" Stalíns, þar sem hann hafi gerst uppljóstrari um aðra meinta pólitíska samsærismenn gegn Stalín. Ég þekki ekkert sem styður þær skoðanir sumra höfunda. Honum var árið 1936 bannað að yfirgefa Sovétríkin. Hann lagðist í þunglyndi og reyndi að fyrirfara sér. Hann var sendur í útlegð til Tashkent árið 1940, en var kallaður aftur til Moskvu þar sem hann varð einn af stofnendum Landsnefndarinnar fyrir Frjálst Þýskaland.

Eftir stríðslok hélt hann aftur til Þýskalands með stjórn KPD og settist að í Berlín. Þar stundaði hann ritstjórn og útgáfu, en reis samtímis til æðstu metorða í þýska Kommúnistaflokkunum.

Stofnun í bókmenntafræðum var opnuð í nafni hans við háskólann í Leipzig og hann var settur Menntamálaráðherra Austur-Þýskalands árin 1954-1956. En sól hans settist skjótt bak við rauðu tjöldin í Berlín. Hann var settur af, því hann var í ellinni farinn að hallmæla blessuðum sósíalismanum. Hann skrifaði handrit að bók um þær skoðanir sínar og reit þar um sósíalisma sem grundvallarvillu (Grundirrtum meines Lebens) vegar í lífi sínu. Bókin sú var ekki prentuð fyrr en 1988, 30 árum eftir dauða hans. Þannig var nú kommúnisminn í DDR, sem dó hægum dauðdaga, þar sem gráðugir kommísarar höguðu sér eins og kommísarar (les: þjófar) gera alls staðar, líka þar sem kapítalisminn er við völd. Það þarf ekki nema rotið eðli glæpamanna til að eyðileggja hina bestu isma... ja bæði trúarlega og þá hugsjónarlegu.

Þannig er það nú.

Baráttukveðjur á degi alþýðu, og þeir mættu nú alveg vera fleiri!

thumb_large_79f44771d3f000a7b3d0


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband