Færsluflokkur: Bloggar
My Daddy was a Soldier Boy
31.5.2021 | 06:32
But only for a very short while. Og eiginlega þyrfti þessi saga ekki að vera mikið lengri. Herskylda föður míns var afar stutt. Hann sagði mér að hann hefði óttast mjög að vera sendur til Indónesíu. En þar sem hann var sonur ekkju og hafði þolað ýmislegt óþægilegt á árunum 1940-45, var hann undanþeginn því að verða sendur í stríð í nýlendum Hollendinga.
Faðir minn henti gaman að herskyldu sinni. Hann gat, að eigin sögn, ekki gengið í takt, var einstaklega léleg skytta og tókst að laska trukk sem var verið að reyna að kenna honum að aka. Hann bakkaði út í skurð, eyðilagði skurðinn, trukkinn og sitthvað fleira. Mannfall varð sem betur fór ekki. Þá var hann settur inn á skrifstofu, því hann var góður að leggja saman og deila og gat vélritað eins og hríðskotabyssa. Síðar var hann í lok herskyldunnar sendur til Parísar þar sem hann var skrifstofublók og frímerkjasleikir hjá hernaðarsendifulltrúanum í hollenska sendiráðinu, því hann var að sögn góður í frönsku.
Góð vinkona mín í París, og fyrrverandi samstarfskona, sendi mér þessa mynd af stöðinni Chaussée d´Antin La Fayette.
Afi minn (sjá s.l. hérna), sem meldaði sig í herinn með metnaði, eftir meira en þúsund ára hernaðarandstöðu í fjölskyldunni, hefði ekki verið stoltur af hermennsku pabba. Þeir voru afar ólíkir feðgarnir að því er sagan hermir.
Litli karlinn með háa hattinn er afi. Hann stóð á tánum.
Fornleifur er hins vegar afar herskár og það mun ekkert minnka með árunum, nema síður sé. Vopnabúrið er stórt.
Hérna er pabbi í friðsamlegri pósisjón, nærri öndum í díki.
Bloggar | Breytt 26.4.2022 kl. 07:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tímasetningar "biblíuumslags" og "biblíubréfs"
12.5.2021 | 19:12
Þjóðskjalasafnið gaf í dag frá sér þessa yfirlýsingu, því safnið hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að verðmætt og margumtalað umslag, sem jafnan er kallað Biblíubréf, sé ríkiseign. Eiginlega er Biblíubréfið umslag, en Þjóðskjalasafnið telur sig hafa bréfið sem í því var undir höndum. Safnið hefur komist að þeirri niðurstöðu að umslagið hafi hugsanlega verið tekið ófrjálsri hendi.
Þessi skýrsla Þjóðskjalasafnsins stendur aðeins í hálsinum á mér og sendi ég því eftirfarandi fyrirspurn til Þjóðskjalasafni, nánar tiltekið þeirra starfsmanna sem manni var bent á að hafa samband við í tilkynningu safnsins.
Sæl verið þið Hrefna og Njörður
Ég var að hlusta á fréttir í dag í Útvarpinu og heyrði frétt um yfirlýsingu Þjóðskjalasafns varðandi Biblíubréf svokallaða, í framhaldi af þætti sem nýlega var sýndur á RÚV - sem ég hef því miður ekki séð, þar sem ekki er hægt að horfa á hann erlendis.
Ég las aftur á móti mjög vel það sem Þjóðskjalasafnið hafði til málanna að leggja. Mig langar þess vegna að spyrja, hvernig stendur á því að bréfið sem þið teljið hafa verið inni í Biblíuumslaginu er dags. 30. september 1874, en bréfið sem þið viljið tengja því er er póststimplað þann 22. október 1874.
Ef þið skoðið Alþingisbréfið (sjá hjálög mynd) er ljóst að frímerkið var stimplað 22. október 1874. Bréfið sem sérfræðingar Þjóðskjalasafns telja að hafi verið í því umslagi er dagsettu 30. september 1874.
Getið þið skýrt þessa seinkun á sendingu bréfsins sem er undirritað 30.9. 1874. Beið Landsfógeti með að senda 2. sendingu í 22 daga eða voru stimplar pósthússins í ólagi? Ja, kannski var Óli Peter Finsen póstmeistari á fylleríi.
Með góðri kveðju,
Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Ritstjóri á Fornleifi https://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/
Ég lofa að skýra fyrir lesendum Fornleifs, það sem Þjóðskjalasafnið skýrir út fyrir mig, um umslag sem er stimplað 22. október 1874, meðan að bréfið sem Þjóðskjalasafnið telur að hafi verið í umslaginu er frá 30. september 1874.
Kannski hafa lesendur Fornleifs góðar skýringar? Kannski er önnur Pfizer sprautan eitthvað að rugla mig í ríminu? Fjandakornið nei, það er meira hálfur mánuður síðan að ég fékk hana og ég hef ekkert fundið fyrir heilatöppum.
Viðbót 14.5. 2021
Þjóðskjalasafnið hefur vinsamlegast svarað erindi mínu:
Heill og sæll Vilhjálmur
Til að svara fyrirspurn þinni. Samkvæmt bréfadagbók sýslumannsins í Árnessýslu barst bréfið frá landfógeta dags. 30. september 1874 til sýslumannsins 30. október sama ár. Samkvæmt bréfadagbókinni virðast 28 bréf hafa borist þennan dag til sýslumanns og eru þau dagsett frá 14. september til 27. október 1874. Þessi bréf eru skráð á þrjár blaðsíður í bréfadagbók sýslumanns. Ég læt fylgja með ljósmynd af síðunni sem bréfið frá 30. september 1874 er skráð á (nr. 526) og aðra mynd þar sem betur má lesa færsluna fyrir bréfið frá 30. september 1874. Þú sérð að í dálki lengst til vinstri er móttökudagsetning bréfanna en í dálki lengst til hægri er dagsetning bréfanna. [Sjá myndir hér og hér]
Rétt er að benda á að samkvæmt athugun Þjóðskjalasafns er hið svokallaða Biblíubréf ekki umslag heldur er það hluti af bréfi til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 30. september 1874 frá landfógeta. Sá hluti sem hefur verið nefndur Biblíubréfið hefur verið klipptur eða skorinn af bréfi landfógeta. Venjan var að bréf voru skrifuð á sambrotnar arkir þar sem innihald bréfsins var skrifað á fremra blað arkarinnar og utanáskrift bréfsins, þ.e. nafn móttakanda, aftan á síðari hluta arkarinnar. Síðan var bréfið brotið saman á tiltekinn hátt, það innsiglað með lakki og þrykkt á það skjaldarmerki embættisins sem sendi bréfið og frímerki síðan límt á þá hlið eftir atvikum. Á bréfi landfógeta til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 30. september 1874 má enn sjá brot í bréfinu og hvernig það hefur verið brotið saman. Til samanburðar birti Þjóðskjalasafn mynd af sambærilegu bréfi frá landfógeta til sýslumannsins í Árnessýslu dags. 24. október 1874 þar sem sést vel hvernig sambrot voru á þessum tíma.
Með kveðju,
Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri skjala- og upplýsingasviðs
Þjóðskjalasafn Íslands
Laugavegur 162, 105 Reykjavík
Sími 590 3300 / 590 3322
Bloggar | Breytt 14.5.2021 kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mont seint á mánudegi
10.5.2021 | 21:41
Ég leysti nýlega þíðan vind i Hollandi. Að því tilefni langar mig að benda lesendum Fornleifs, sem geta lesið hollensku, á tímaritið VIND, sem kemur út 4 sinnum á ári hverju.
VIND (sem borið er fram Find) er tímarit um listir, sögu og fornleifar og hefur það mikla útbreiðslu og vinsældir í Hollandi. Greinar í ritinu er jafnt um efni frá Niðurlöndum sem öðrum löndum.
Ritið er í mjög háum gæðum, enda er prentverk í sérflokki í Hollandi eins og margir vita. Ritið er heldur ekki dýrt, eða 12.50 evrur út úr búð. Fyrir 1893 ISK fær maður nú með VIND 41, 210 blaðsíðna rit í hágæðum. Ritið er 950 grömm að þyngd. Það er því sums staðar orðið dýrara að senda slíkt rit stakt í pósti á hinum mikla hnignunartíma eðlilegra póstsamgangna en að kaupa það. Það eina sem kannski letur Íslendinga til kaupa á þessu ágæta riti er að það er á á hollensku. En sífellt fleiri Íslendingar eru meira en mellufærir á því góða tungumáli og sagt er að Íslendingar séu með eindæmum listrænir og góðir tungumálamenn. VIND er tilvalið rit fyrir fagurkera, sem nenna að hafa fyrir því að stafa sig fram úr 2-8 blaðsíðna greinum á niðurlensku.
Ritstjóri Fornleifs hefur tvisvar skrifað grein í ritið um efni sem tengja Ísland, Norðurlönd og Holland saman. Þriðja greinin er á leiðinni, fjórða er í forvinnslu og fimmta greinin er farin að gerjast í höfðinu á mér. Svo er einnig í frásögur færandi að titstjóri Fornleifs var nefndur í ritstjórnargrein ritsins um daginn (sjá hér).
Ég set hér hlekk á heimasíðu VIND ef einhver aðdáandi lista hefur áhuga á góðu riti og að læra nýtt tungumál, t.d. ef menn stefna að því með tíð og tíma að verða menningarlegir íslenskir embættismenn í Brussell. Nýjasta grein mína (rétta próförk) í ritinu getið þið lesið hér, en síðutölin eru röng; í lokaútgáfu ritsins er greinin á blaðsíðum 50-57, en annars er greinin á allan hátt sú sama.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Faðirvorið á 1. maí
1.5.2021 | 06:31
Ritlingurinn, sem þið sjáið hér fyrir ofan, ber titilinn Faðirvorið og fleiri Sögur úr "Þriðja Ríkinu".
Í tilefni dagsins getið þið flett honum hér eða lesið, því þetta er nefnilega nokkuð merkilegur pési.
Ekki er bæklingur þessi, nú orðið, mjög algengur í íslenskum bókasöfnum samkvæmt Gegnir.is. En þótt furðulegt megi virðast er hann til í erlendum bókasöfnum, t.d. á háskólabókasafninu í Leeds á Englandi ásamt fjölda ritlinga kommúnista á Íslandi.
Góður vinur minn sagði mér frá pésanum nýlega og ég náði þegar í eintak hjá bókabjörgunarmanninum Bjarna Harðarsyni á Selfossi.
Ritlingur þessi var kostaður af Sovétríkjunum til að upplýsa fólk um eðli nasismans. Hann var gefinn út á ýmsum tungumálum. Í kverinu er að finna 5 örsögur og hlutar úr frásögnum eftir 4 höfunda/frásagnarmenn; þá Johannes R. Becher, Peter Conrad, G.P. Ulrich og S. Gles.
Peter Conrad var betur þekktur sem Anna Seghers (1900-1983), sem var reyndar einnig dulnefni konu sem upphaflega hét Anna (Netty) Reiling. Hún var af gömlum þýskum gyðingaættum frá Mainz í Þýskalandi. Sjá meira um þá merku konu hér. Um Johannes R. Becher og S. Gles (Samuel Gleser) getið þið lesið neðst, en ég verð að viðurkenna að ég veit enn ekki hver G. P. Ulrich var, en nafnið er vafalaust höfundarnafn.
Bæklingurinn var líklega gefinn út árið 1935 á Íslandi, en það vantar ártal. Prentsmiðjan Dögun í Reykjavík er sögð hafa prentað bókina og útgefandi er Baráttunefndin gegn Fasisma og Stríði.
Stefán Ögmundsson (1909-1989) prentari stofnaði Prentsmiðjuna Dögun í Reykjavík og rak hana árin 1933-1935. Hann seldi þá prentsmiðjuna til hlutafélags er hætti störfum skömmu síðar en Prentsmiðja Jóns Helgasonar keypti vélarnar.
Prentsmiðjan Dögun prentaði ýmsa bæklinga og blöð fyrir vinstri væng verkalýðsstéttarinnar á Íslandi,svo sem Rauða fánann og Sovétvininn. Síðar var Stefán einn af stofnendum Prentsmiðju Þjóðviljans og vann þar 1944-1958 og var prentsmiðjustjóri frá 1948. Stefán var formaður Hins íslenska prentarafélags um tíma og varaforseti Alþýðusambands Íslands 1942-1948. Hann var einnig formaður Menningar- og fræðslusambands Alþýðu sem gaf út ýmis merk rit. Sjá nánar um Stefán hér.
Baráttunefndin gegn Fasisma og Stríði var líkast til hluti af Kommúnistaflokki Íslands á 4. áratug síðustu aldar. Það upplýsir að minnsta kosti háskólabókasafnið í Leeds á Englandi, sem einhverra hluta vegna er betur búið af ritlingum íslenska Kommúnistaflokksins en blessuð Þjóðarbókhlaðan (sjá hér).
Mig grunar að félagi Einar Olgeirsson (hér til vinstri) hafi haft eitthvað með þetta rit að gera, en þigg allar upplýsingar um það, ef svo er ekki.
Hér á baráttudegi okkar alþýðumanna (byltingin er á næsta leyti) er við hæfi að minnast tveggja þeirra höfunda sem rituðu smásögurnar í ritlingi Baráttunefndar gegn fasisma og stríði:
S. Gles hét réttu nafni Samuel Glesel (1910-37) og var gyðingur fæddur í Chrzanów syðst í Póllandi, en ólst upp í borginni Gotha í hjarta Þýskalands. Ungur að árum gerðist hann rithöfundur og bjó um tíma í Berlín, en árið 1932 flutti hann ásamt sambýliskonu sinni til Sovétríkjanna. Í trú um að hann myndi gera heiminn betri ætlaði hann að búa þar og hjálpa til við uppbyggingu landsins. En Adam var ekki lengi í Paradís. Árið 1937 féll Glesel í ónáð í Moskvu. Honum var bannað að vinna og varð að lokum fórnarlamb þeirra hreinsana Stalíns sem kallaðar voru "Þýska átakið" (Deutche Operation).
Þann 5. nóvember 1937 var Glesel tekinn af lífi ásamt 98 öðrum kommúnistum ættuðum frá Þýskalandi. Flestir þeirra voru reyndar gyðingar enda Stalín gyðingahatari.
Margir þeirra voru af gyðingaættum. Líkum þeirra var varpað í fjöldagröf í Lewaschowo í grennd við Leningard (Sankti Pétursborg). Fjölskylda Glesels lenti þrælavinnubúðum. Sonur hans Alexander að nafni, sem lifði ódæði Stalíns af, fékk árið 1956 skýrslu um dauða föður síns í hendur. Þar hafði dánarorsökin verið fölsuð. Það var ekki fyrr en 1990 að hið rétta kom í ljós. Glesel hafði orðið fyrir barðinu á þeirri byltingu sem hann brann fyrir. En Byltingin étur stundum börnin sín eftir að glæpamenn hafa stolið byltingunni.
Johannes R. Becher (1891-1958) var heppnari en Glesel. Hann slapp lifandi úr hreinsunaræði Stalíns og félaga. Becher fæddist í München og var sonur dómara.
Becher var vægast sagt mjög dramatískur ungur maður. Árið 1910 ákvað hann að binda enda á líf sitt með vinkonu sinni Fanny Fuss, sem hann hafði kynnst fyrr það ár. Becher skaut hana og sjálfan sig, en hann lifði skotið af. Faðir hans, dómarinn, bjargaði honum frá aftöku með því að láta hann lýsa yfir geðveiki. Hann losnaði samt fljótt úr haldi og hóf nám við háskólann í Jena í læknisfræði og heimsspeki árið 1911. Hann losnaði undan herskyldu vegna heróínfíknar og sálrænna vandamála, en fór að gæla við kommúnisma og gerðist félagi í fjölda samtaka, meðal annars í flokki Óháðra Sósíaldemókrata. Síðar (1918) varð hann meðlimur Spartakistahreyfingarinnar í Óháða Sósíaldemókrataflokkun (USPD), en sú hreyfing hvarfaðist að lokum við Kommúnistaflokk Þýskalands (KPD). Um skeið yfirgaf hann flokkinn, óánægður með tök hans á "Þýsku byltingunni", en meldaði sig svo aftur í KPD árið 1923.
Becher var settur á svartan lista eftir Reichstags-brunann árið 1933 og yfirgaf Þýskaland. Hann hélt til Zurich og Parísar og ól manninn í umhverfi byltingarsinnaðra listamanna. Árið 1935 flutti hann búferlum til Sovétríkjanna eins og margir meðlima KPD.
Í Moskvu fékk hann vinnu sem ritstjóri innflytjendablaðsins Die Internationale Literatur-Deutcsche Blätter og varð meðlimur í Miðnefnd KPD í útlegð. En það var aðeins skammlífur vermir, því skyndilega varð hann fyrir barðinu á Stalín og kumpánum hans, sem ásökuðu hann um að hafa sambönd við engan ófrægari en Leon Trotsky.
Sumir telja að Becher hafi lifað af "hreinsanir" Stalíns, þar sem hann hafi gerst uppljóstrari um aðra meinta pólitíska samsærismenn gegn Stalín. Ég þekki ekkert sem styður þær skoðanir sumra höfunda. Honum var árið 1936 bannað að yfirgefa Sovétríkin. Hann lagðist í þunglyndi og reyndi að fyrirfara sér. Hann var sendur í útlegð til Tashkent árið 1940, en var kallaður aftur til Moskvu þar sem hann varð einn af stofnendum Landsnefndarinnar fyrir Frjálst Þýskaland.
Eftir stríðslok hélt hann aftur til Þýskalands með stjórn KPD og settist að í Berlín. Þar stundaði hann ritstjórn og útgáfu, en reis samtímis til æðstu metorða í þýska Kommúnistaflokkunum.
Stofnun í bókmenntafræðum var opnuð í nafni hans við háskólann í Leipzig og hann var settur Menntamálaráðherra Austur-Þýskalands árin 1954-1956. En sól hans settist skjótt bak við rauðu tjöldin í Berlín. Hann var settur af, því hann var í ellinni farinn að hallmæla blessuðum sósíalismanum. Hann skrifaði handrit að bók um þær skoðanir sínar og reit þar um sósíalisma sem grundvallarvillu (Grundirrtum meines Lebens) vegar í lífi sínu. Bókin sú var ekki prentuð fyrr en 1988, 30 árum eftir dauða hans. Þannig var nú kommúnisminn í DDR, sem dó hægum dauðdaga, þar sem gráðugir kommísarar höguðu sér eins og kommísarar (les: þjófar) gera alls staðar, líka þar sem kapítalisminn er við völd. Það þarf ekki nema rotið eðli glæpamanna til að eyðileggja hina bestu isma... ja bæði trúarlega og þá hugsjónarlegu.
Þannig er það nú.
Baráttukveðjur á degi alþýðu, og þeir mættu nú alveg vera fleiri!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sóttkví og sagan
20.4.2021 | 17:53
Árið 1628 var séra Ólafur Egilsson fluttur úr Barbaríinu á skipi frá Salé í núverandi Marokkó til Livorno á Ítalíu. Tilgangurinn með því að skila síra Ólafi úr þrælakistunni var nú ekki vegna þess að hann var sínöldrandi í vistinni eða óbrúklegur til þrælavinnu. Ætlunin var að láta hann vinna að því að kría út lausnargjaldi fyrir landa sína sem enn voru í prísund sinni í Norður-Afríku. Mannrán gengu oft út á það.
Siglingin til Livorno var ævintýraleg og Ólafur lýsir henni vel í reisubók sinni (sem áður hefur verið rætt um hér á Fornleifi).
Séra Ólafur segir meðal annar frá sóttkví um borð á því skipi sem flytur hann til Livorno (Legor/Leghorn; sjá efst á málverki Abrahams Storcks)
Ólafur lýsir þessu svo:
Nokkrum dögum þar eftir komum vér undir þá ey, sem nefndist Malta, í hverri s(ankti) Páll var um stund. En þá þar er nokkrum dögum komum vér undir Italia, þar sem kapteinninn átti heima, og staður nefnist Legor, og þar mátti þeir allir úti bíða á skipinu í 6 daga, og enginn af þeim sinn fót á land setja fyrr en þeir væru skoðaðir af einum þar til settum meistara. En að landinu máttu þeir fara, og þeirra kvinnur, sem þar heima áttu, máttu sjá þá og tala við þá, en ekki nærri þeim koma. En þá strax var mér af einum Italinus gefið vín að drekka, epli og ostur að eta, svo þá var mér hjálpar von, hefði það svo lengi staðið. Ég má svo segja sem Job sagði: Guðs andlit hefir gert mig og andi þess almáttuga hefur haldið mér við lífið. Ég er að sönnu drottins.
Greinargóð lýsing Jóns á sóttkví þeirri sem hann var settur í á skipi á ytri höfninni í Livorno er ein sú fyrsta sem til er frá Evrópu, þótt fyrirbærið sé þekkt miklu fyrr. Livornobúar reistu mikla sóttvarnarstöð um 1648, skammt frá borginni, þar sem sjúklingar og grunaðir urðu að hafa viðkomu eftir að þeir voru komnir í land. Það hefur vafalaust ekki verið nein lúxushótelvist.
Sóttkví Ólafs árið 1628 er frábær fyrsti kafli í sögu Íslendinga sem þurfa að taka tillit til fjöldans (annarra en sjálfs síns og reksturs) þegar þeir koma frá svæðum, þaðan sem pestir og veikindi geta borist. Ólafur stóð sig vel en það er því miður ekki hægt að segja um suma í seinni köflum sóttkvíarsögu Íslands.
Borgari stórþjóðar einnar í Evrópu flýr úr sóttkví á Íslandi árið 2021.
Árið 2021 talar íslenska þjóðin einna mest um eldgos en nú er mikið talað um smitin á leikskólanum Jörfa í Reykjavík, sem bárust þangað, að sögn, frá erlendum manni, búsettum á Íslandi. Sá braut reglur um sóttkví og varð valdur að smiti barna með hegðun sinni eftir að hann kom frá mesta smitasvæði í Evrópu um þessar mundir. Það brot sýnist mér nálgast glæp.
Því miður telja fáeinir landar þessa pólska einstaklings, er braut sóttvarnalögin á Íslandi, að gagnrýni Íslendinga á erlent fólk sem vinnur á Íslandi í lengri eða skemmri tíma á Íslandi, og sem brýtur íslensk lög, sé í ætt við áróður nasista gegn gyðingum.
Ungur Pólverji tók upp hanskann fyrir landa sinn sem braut sóttkví á Ísland eftir komu frá dvöl í Póllandi, með því að birta hatursteikningu/smáplakat úr dagblaði á pólsku, Nowy Kurjer Warszawski. Hann birti þetta á visir.is .
Nowy Kurjer gefið var út í síðara stríði í stóru upplagi og líkaði mörgum Pólverjum vel. Blaðið var rekið og gefið út af þjóðverjum og örlitlu broti Pólverja sem unnu með þeim á einn eða annan hátt í anda þess fólks sem leggst undir stórveldi og eins og lóða tíkur.
Plakat sem fylgdi dagblaðinu Nowy Kurjer Warszawski árið 1942. Pólverji einn á Íslandi birti myndina við athugasemd sína á visir.is til að líka gagnrýni Íslendinga á Pólverja, sem brjóta lög á Íslandi, við ofsóknir Þjóðverja gegn gyðingum. Þetta er ein versta smekkleysa sem ég hef séð nýlega á Íslandi.
En hvað fær ungan, og sýnilega gagnrýninn Pólverja, búsettan á Íslandi, til að setja samasemmerki milli gyðingahaturs í Póllandi í seinni heimsstyrjöld, og Íslendinga sem eru óánægðir með að Pólverji á Íslandi brjóti sóttkví og valdi þannig smiti meðal barna á leikskólanum Jörfa í Reykjavík?
Kannski getur pólska sendiráðið skýrt fyrir okkur slíkt hegðunarmynstur einstakra þegna sinna á Íslandi? Sannast sagna ber sendiráðinu að tjá sig um málið.
Fylgjum reglunum eins og Séra Ólafur Egilsson gerði á skipinu við Livorno árið 1628, og berum virðingu fyrir þeirri þjóð sem við höfum ákveðið að búa á meðal. Gagnrýni er holl og Pólverjar á Íslandi eiga að láta í sér heyra. En eitruð samlíking, þar sem Pólverji með brenglaða sögusýn líkja örlögum sínum á Íslandi, þegar þeir eru teknir í brjóta sóttkvíarlög, við örlög gyðinga í Póllandi er afar ósmekkleg og yfirgengisleg.
Ég mæli að lokum með þessari grein, ef menn vilja lesa um sóttkvíar á 17. öld. En til vara geta menn lagst í íhugun og spurt sjálfa sig, hvernig á því stendur að þegnar ESB-ríkis, þar sem sumt fólk telur sig í alvöru hafa orðið verr út síðari heimstyrjöld en gyðingar, hafi eflst svo mikið að þeir sjái sig til neydda að brjóta lög smáríkis á hjara veraldar sem hefur veitt þeim vinnu sem ekki stendur til boða í stórríkinu sem þessir ESB-stórborgarar koma frá? Er mögulegt að hluti vinnuaflsins frá Póllandi fyrirlíti þá þjóð sem þeir vinna fyrir? Ég hef engin svör, en það verður að spyrja spurninga til að fá svör.
Bloggar | Breytt 21.4.2021 kl. 04:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Uppruni dótsins
16.4.2021 | 08:00
Fyrir um það bil mánuði síðan kom sonur minn á 19. ári til mín með lítinn koparpening sem hann hafði fundið á gólfinu á herberginu sínu við tiltektir. Peningurinn er frá 1790.
Ekki má skilja þennan fund þannig að sonur minn stundi fornleifauppgröft á herberginu sínu, enda er það ekkert sóðalegra en gengur og gerist hjá ungmennum á hans aldri, nema að síður sé. Húsið er frá 1990, svo ekki er peningurinn frá byggingu þess. Sonur minn ályktaði réttilega að myntin hefði komið úr samskeytum í skúffum í skúffumublu sem hann er með tvær af á herberginu sem bera uppi borðplötuna hans. Þetta heimatilbúna og hentuga "skrifborð" samansetti ég ásamt konu minni á stúdentagarðsárum okkar saman 1984-1993, þegar við bjuggum saman í "hjóna" íbúð á tímabilinu 1987-1993. Skúffedaríu þessu hafa svo fylgt okkur til Íslands á Nesahagann, og þaðan til Vandkunsten í miðborg Kaupmannahafnar og síðan út í úthverfið þar sem við búum nú. Lengi var ég með þetta aukaskrifborð og þessar tvær skúffumublur í "helli" mínum undir loftinu. Ég var með skúffu neðst með alls kyns dóti, m.a. voru þar gamlar myntir í litlum kassa og þ.á.m. þessi hollenski peningur sem faðir minn hafði eitt sinn gaukað að mér í barnæsku. Nú á sonur minn peninginn, því sá á fund sem finnur. Aur þessi er víst orðinn aðeins meira virði í dag heldur en hann var í á 18. öld.
Peningurinn (sjá efst) er svokallaður Duit, sem sleginn var af af VOC (Sameinaða Austurindíafélaginu, borið fram FOK) árið 1790 í borginni Utrecht. Duit var mynteining í Hollandi sem var notuð fram til 1815 þegar myntbreytingin átti sér stað og Hollendingar tóku upp gyllini (Holl: Gulder / Enska: Guilder) og cent.
Fyrst var farið að nota duit í Hollandi árið 1573. Duit svaraði í verði til koparpeninga í Frakklandi sem kallaðir voru gigot. Áður en tugakerfið var innleitt í Hollandi árið 1816 var 1 duit lægsta mynteiningin. Upphaflega voru 8 duit það sama og einn Stuiver, og 20 Stuivers, eða 160 duit, fékk maður fyrir 1 gyllini. Duit-myntin sem slegin var fyrir og í nýlendum Hollendinga var hins vegar lengst af meira virði. Á því græddu Hollendingar, en almúginn í löndunum var hlunnfarinn á tæknilegan hátt.
Hollendingar notuðu duit í ýmsum orðatiltækjum sem gáfu til kynna að eitthvað var lítils virði eða lítilsiglt:
- Een duit in het zakje doen; bókstaflega: Að setja eina duit í pokann að láta smáræði af hendi rakna.
- Hij is een duitendief ; bókstaflega: Hann er duitþjófur Hann er mjög gráðugur
- Hij heeft veel kak, maar weinig duiten / hann hefur mikið af skít en minna af duit, sem merkir hann er grobbari / oflátungur.
- Moed hebben als een schelvis van drie duiten; bókstaflega: Að vera eins og ýsa sem kostar 3 duit að vera raggeit
Nú skal haldið til upp til Íslands, landsins með álkrónuna sem kom með myntbreytingunni árið 1981. Hún var svo lítils virði að hún flaut á vatni og fauk þegar unglingar reyndu að nota hana í hark við skólavegginn. Hún var notuð í landinu þar sem loddarar og töframenn stjórnuðu bönkum í áraraðir og töldu þjóðum, sem í aldaraðir höfðu talið einskis virði duit sín, trú um að íslenskir bankar ávöxtuðu fé manna betur en nokkrir aðrir.
En fyrst skal komið við á Þjóðminjasafninu.
Þar sem álkrónan flaut á vatni
Eitt sinn, 5-6 árum fyrir síðustu aldamót, hélt starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands fyrirlestur á ársfundi Hins íslenska Fornleifafélags. Fornleifafræðingurinn sá, sem aldrei hafði lokið námi á eðlilegan hátt þó hann á góðum degi þýddi starfsheiti sitt við safnið á þýsku sem Reichsarchäologe, hélt tölu um fornleifarannsóknir sem honum hafði verið boðið að taka þátt í á Grænlandi.
Fyrirlesturinn var haldinn á vegum Hins íslenska Fornleifafélags. Meðal áheyrenda var t.d. heimsþekktur nasisti (nema á Íslandi, þar sem hann var aðeins þekktur sem garðyrkjumaður í kirkjugörðum Reykjavíkur) og fornleifaþjófur á vegum SS, Úlfur Friðriksson, sem ég ritaði um nýlega (sjá hér).
Uppgröfturinn var hinn merkilegasti og undir stjórn Dana. Rannsóknin fór fram á bæjarrústum sem hafði farið undir sand í flóðum á miðöldum. Þá bráðnuðu oft jöklar, ekkert síður en nú.
Starfsmaður safnsins, sýndi góðar ljósmyndir frá dvöl sinni á Grænlandi, þótt erindið sjálft væri nokkur stirt, stubbótt og hálfstamandi á köflum. Fyrirlesturinn er mér þó ferskur í minni, því starfsmaður safnsins talaði ávallt um "dót", þegar hann sýndi myndir af forngripum og húsaviðum, sem fundust ótrúlega vel varðveittir undir sandinum. Ólíkt því sem gerðist við t.d. rannsóknir Stóru-Borgar undir Eyjafjöllum, eru gripir þessir enn vel varðveittir, forvarðir og til sýnis á Grænlandi og í Danmörku. En starfsmaður Þjóðminjasafnsins kallað slíka gripi dót, sem kannski sýnir álit hans á gildi forngripa eða vanþekkingu á orðinu dót. Það fer hins vegar óendanlega mikið í taugarnar á ekta fornleifafræðingi, þegar safnamaður notar orð eins og dót um forngripi.
Dót er skýrt á eftirfarandi hátt á Íslensku Orðaneti :
dót hlutir, drasl
dót leikföng
dót farangur
Þessar skýringar eru einnig þær sem ég legg í orðið dót, en í Íslenskri orðsifjabók má einnig lesa eftirfarandi:
dót h. (19. öld) munir, hlutir; leikföng, samtíningur; farangur; hyski; kynfæri (sbr. þing); dóta s. dunda, dútla, d. sig (sér) laga sig til; rísla sér; eðla sig (um hænsni): haninn dótar hænuna. Sbr. nno. dota dútla, smáhagga við, dot k. dundari; sbr. og fno. aukn. dótafinnr k. sem líkl. heyrir hér til; dót vísast to. og úr e-m mlþ. víxlmyndum við doond, sbr. dont, dund og dút (s.þ.). Samkv. F. Holthausen er dót to. úr mlþ. doten þvaðra. Ólíklegt.
Er dót komið af duit?
Hér skal sett fram önnur skýring á orðinu dót, sem sumar orðabækur segja að sé ekki mjög gamalt í íslensku máli.
Einn seðill er varðveittur fyrir orðið daut í íslensku orðsifjasafni. Á honum stendur þetta:
daut h. (18. öld) ögn, vitund: ekki d. ekki minnstu ögn. To., líkl. úr d. døjt < holl. duit verðlítill, hollenskur koparpeningur, svarar til fnorr. þveit smámynt, eiginl. afhöggvinn bútur; sbr. þveita (1 og 2), þveit(i), þveitur og þviti.
Ég tel næsta líklegt að dót sé íslensk afbökun á døjt í dönsku (døyt á norsku) og upphaflega duit á hollensku. Danskir kaupmenn voru margir á Íslandi á 18. og 19. öld og hafa líkast til sagt við Íslendinga að varningur þeir sem þeir vildu selja væri:
ikke en Døit værd, eða að þeir vildu ekki give en døjt fyrir eitthvað (sjá hér ; Ordbog over det danske sprog).
Þegar dót er skýrt sem "drasl" á íslensku, er ekki ólíklegt að við séum að nota orð sem komið er af døjt á dönsku og duit á hollensku. Íslendingar versluðu mikið við Hollendinga á 17. og 18. öld, löglega og ólöglega, og gætu Mörlandar jafnvel hafa heyrt Hollendinga nota orðið um eitthvað sem mjög lítils virði var, og jafnvel setið inni með slíkar hálfverðlausar bronsmyntir.
Dót í þýðingunni leikföng, er vitanlega orð sem notað er um eitthvað lítils virði fyrir börnin sem endar í dótakassa, meðan börnin og jafnvel mamma geymdi gullin (gyllini) þeirra eins og segir í kvæði Jóhanns Sigurjónssonar; Mamma geymir gullin þín, gamla leggi og völuskrín.
Duit / Døjt / Toy / Dót
Svo er ekki svo langt frá orðinu dót (duit) yfir í toy á ensku, sem Wikipedia skýrir þannig: The origin of the word "toy" is unknown, but it is believed that it was first used in the 14th century. Allt er líka á huldu þar. En www.etymonline.com hjálpar kannski:
toy (n.)
c. 1300, "amorous playing, sport," later "piece of fun or entertainment" (c. 1500), "thing of little value, trifle" (1520s), and "thing for a child to play with" (1580s). Of uncertain origin, and there may be more than one word here. Compare Middle Dutch toy, Dutch tuig "tools, apparatus; stuff, trash," in speeltuig "play-toy, plaything;" German Zeug "stuff, matter, tools," Spielzeug "plaything, toy;" Danish tøj, Swedish tyg "stuff, gear." Applied as an adjective to things of diminutive size, especially dogs, from 1806. Toy-boy is from 1981.
Þetta leynda verðmat Evrópukapítalismans, sem lætt var að íslenskum börnum um að draslið væri dót (nær verðlaus koparpeningur) - meðan að góðu leikföngin voru gull (gyllini) er mín skýring á uppruna orðsins dót. En menn voru vitanlega misfátækir. Á sumum heimilum á fyrri öldum gat ómerkilegt dót verið skíragull.
Ef einhver vill þvertaka fyrir þessa smáræðis tilgátu mína, sem líklega er ekki fimm aura virði, verða þeir að færa nokkuð góð rök og gullin fyrir máli sínu, því hingað til hefur ekki verið til vitræn skýring á uppruna orðsins dót. Og vart hefur dótið dottið af himnum ofan - eður hvað?
Bloggar | Breytt 6.4.2025 kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Grófur plattfiskur og spilletittlingar: Nokkur brot úr skreiðarsögunni
12.4.2021 | 09:05
Yfirfiskmatsmaður rannsóknarsviðs fornleifadeildar Fornleifs hefur um langt skeið verið að leita uppi gamla skreið í útlöndum, fyrst enginn annar gerir það og skreiðarbækur hafa birst án myndskreytinga. Með hanska og í hvítum slopp leitar matsmaðurinn að öllum heimildum um skreið sem hann kemst í. Stundum kemur fyrir að 350 ára skreiðarleifar finnist í ruslagryfjum stórborgum útlanda, og þá gleðst auðvitað yfirfisksmatsmaðurinn hér á ritstjórn Fornleifs.
Helst er það skreið og harðfiskur sem fyrir löngu er kominn yfir sölutíma, og sem gæti átt ætti sínar að rekja til Íslandsmiða, sem kitlar matsmanninn. Það er nefnilega hægt að leita fiskjar og veiða ýmislegt bitastætt í listasögunni á veraldarnetinu.
Í Hollandi nútímans er skreiðin þó frekar lítilfjörleg. Ég fann t.d. 350 grömm af einhverri tittlingsskreið fyrir 21 evru. Látið það nú ekki lokka ykkur af votum draumi inn í ESB. Í Evrópu vilja þeir fiskinn ókeypis til að græða sem mest á honum og þar að auki ótakmarkaðan aðgang að Íslandsmiðum, sem er og verður ófrávíkjanleg krafa ESB.
Ef menn kafa niður í listasögu Niðurlanda er marga skreiðina hægt að finna. Myndin efst, sem hangir á Puskín listasafninu í Moskvu, er frá 1616. Hún er máluð af Frans Snijders (nafnið var einnig ritað Snyders). Frans (Franciscus)Snijders fæddist í Antwerpen árið 1579 og starfaði þar lengst af, fyrir utan nokkur ár í byrjun 17. aldar er hann dvaldi á Ítalíu. Frans þótti gaman að mála mat sinn eða annarra líkt og mörgum í Niðurlöndum, þannig að nóg var að gera fyrir hann í listinni sem hann efnaðist betur á en meistari Rembrandt í Amsterdam. Málverkið hér fyrir ofan í Moskvu var alls ekki eina matarverkið sem Frans Snyders málaði af fiskverslun. Hann var harla stórtækur útgerðarmálari og þótti á allan hátt næsta frábær í stillebenslist (uppstillingum) sinni.
Málverkið er ágæt heimild um þá skreiðarpakka sem fluttir voru út frá Noregi og Íslandi. Nú skulum við ekki fara að rífast um hvaðan skreiðarpakkinn hjá Snyders er ættaður. Það gæti frændum okkar leiðst og þeir farið að gráta og þvælst út í málaferli og bætt því við eignarhaldskröfu sína á Snorra og annað íslenskt sem gnæfði yfir hæstu tinda norskrar afdalamenningar. Við á Íslandi vitum örlítið um hvernig menn pökkuðu skreiðina fyrr á öldum. Furðanlega hafa Norðmenn ekki eins mikla vitneskju, enda var skreiðin ávallt mikilvægari Íslendingum en þorra Norðmanna.
Takið eftir stærð skreiðarbaggans! Hann virðist girtur með tágargjörðum og sérfræðingur einn af norðan, sem er borgarbarninu Fornleifi oft innan handar um fornar venjur, skrifaði er hann sá málverkið: Það hefur verið tveggja manna tak að flytja svona bagga til, en líklega hefur fiskurinn varðveist vel þegar svona var gengið frá honum.
Rýnt í málverkið í Moskvu
Fyrir utan fisksölukonuna í Antwerpen? með allar fiskiafurðirnar sínar, er lítill drengur með rauða skó á málverki Snyders. Snáðinn er kannski sonur hennar. Hvað ætli hann tákni eða rauðir skórnir sem hann heldur á? Allt táknaði eitthvað í list Niðurlanda. Kannski ætti ég að "kvíra" (queer) málverkið eins og var í tísku hér um árið: Sá litli er hugsanlega að segja að hann vilji verða ballettdansari en ekki sjómaður. Að vonum er harðkaþólsk móðir hans ekki ánægð með slíkt : Aðrar túlkanir eru auðvitað möguleikar, þótt sú fyrsta sé vitaskuld raunhæfur möguleiki eins og allt fjas og orðflúrið í listfræðinni. Kannski langaði þeim litla einfaldlega ekki að starfa í slori með skreiðarfýlu fyrir vitunum dagana langa. Menn hafa farið í viðskiptafræði fyrir minni ástæðu.
Ýmsar aðrar myndir af fiskkaupmönnum og fisksölum eru til frá hendi Snyders og á nokkrum þeirra bregður skreiðinni fyrir í for eða bakgrunni. Njótið skreiðarinnar hér fyrir neðan.
Falleg skreið (stokvis/rondvis) í Andvörpum. Á Ítalíu supu þeir hveljur yfir þessum girnilegum Stoccafissum, sem sumir Íslendingar vilja helst ekki heyra um, lykta né sjá. Menn eru farnir að reisa skreiðartrönur á fjöllum til að verja þorpara lykt af peningum. Aðrir eru alveg hættir öllu veseni með skreið. Hvað varðar úrvalið á fiskbúðin Hafberg ekki sjans í þetta fiskival. Hefur Hafberg haft skjaldbökur á boðstól? Æi nei!
Skreið fannst í tunnu í flaki skips
Hér um árið greindi Fornleifur frá leifum af fiski, hugsanlega plattfisksskreið (Malflattri skrið), sem fundust í flaki hollensk skips (sjá hér) sem sökk árið 1593 í miklu skipsskaðaverði við eyjuna Texel. Texel komst einnig í fréttirnar hér um árið, þegar eyjaskeggjar sumir fóru nokkuð illa út úr klónum á íslenskum bankaræningjum.
Þeir sem vel eru að sér skreiðarmálum vita að ekki var öll skreið/harðfiskur verkaður á sama hátt. En það vita sumir fornvistfræðingar nútímans ekki allir. Þeir hafa líkast til aldrei bragðað útvatnaða og soðna skreið og rugla oft saman saltfiski og skreið.
Leifar þeirrar skreiðar sem fannst í SO1 flakinu við Texel, er líklega það sem hér fyrr á öldum var kallaður malflattur fiskur á Íslandi, eða plattfiskur á Hansaramáli (danska: Platfisk). Malflattur fiskur var einnig kallaður kviðflattur eða reithertur harðfiskur á Íslandi. Í einu fremsta skreiðarlandi Evrópu, Noregi, var malflattur fiskur kallaður rotskjær, råskjær eða splittfisk á dönsku. Á þessu sést að ekki var menningarheimurinn alveg sá sami í Noregi og á Íslandi þegar kom að skreið.
Kaupendur settu kröfur og löngum var það erfitt fyrir Íslendinga að skilja að verð fór eftir gæðum.
Skreiðin íslenska eins og við þekkjum hana í dag, þar sem tveir fiskar eru eftir afhausun, slægingu og hreinsun, bundnir saman við sporðinn og þurrkaður á trönum. Það verður því miður æ sjaldséðara á Íslandi og lyktin maður, minnumst ekki á lyktina. Skreiðarfýlu hefur verið úthýst á Akranesi, því íbúarnir voru farnir að ilma af sápu.
Trönuþurrkaðan fisk kalla menn í Evrópu Stockfish/Stokvis/Stokfisk/Stoccafisso. Norðmenn kölluðu þá skreið stokkfisk eða rundfisk. Heitið rondvis notuðu Hollendingar einnig um skreið en þó mest orðið stokvisk. Þvílíku ástfóstri tóku menn í Hollandi og Belgíu við þennan vinsæla innflutta fisk að þeir tóku sér ættarnafnið Stokvis. Margar ættir í Hollandi báru þetta eftirnafn, og mörgum tilfellum voru Stokvis ættirnar gyðingar, sem voru öflugir sem fisksalar í Amsterdam upp úr miðri 18. öldinni.
Einn helsti skreiðarsögusérfræðingur Íslands, áður en Gísli Gunnarsson var og hét, var Jón Aðils. Jón talaði jafnan um harðfisk en ekki skreið. Hann skýrði margt í bók sinni um Einokunarverslun Dana á Íslandi 1602-1787 sem út kom árið 1919 (sjá bls. 480-484). Jón heldur því fram að Malflattur fiskur hafi fyrst og fremst verið verkaður á Suðurlandi og við Ísafjarðardjúp. Jón taldi einnig að flatti fiskurinn hafi verið hertur á rám í trönum eða hjöllum og kallaður ráskerðingur, sem er íslenskun á dansknorska orðinu fyrir plattfisk. Jón Aðils skýrir þetta á þennan hátt:
Hann hefur stundum að því er virðist verið þaninn út með spelkum eins og lax í reykingu til þess að hann legðist ekki saman og harðnaði fyrr og var þá kallaður Spillefisk eða Spilefisk á dönsku. Jón Aðils upplýsir einnig að Snæfellingar hafi tekið upp á því á árunum 1680-90 að hnakkfletja fiskinn og herða hann síðan á rá. "Varð hinn mesti úlfaþytur út af því, og hvernig sem á því hefur verið staðið, þá fekk þessi hnakkaflatti fiskur, eða Hængefisk sem Danir kölluðu, hið versta orð á sig erlendis".
Aðils upplýsti, að þar fyrir utan væru aðalharðfisktegundirnar flokkaðar eftir stærðinni; Þannig var vertíðarþorskur jafnan kallaður Grov Platfisk af dönskum einokunarkaupmönnum eða Grov Hængefisk, stútungar voru kallaði Middel-Platfisk og Middel-Hængefisk og þyrsklingurinn var kallaður Plat-Titlinger, Hænge-Titlinger eða Spil(l)e-Titlinger. Svo var varan; Ef fiskurinn var ekki þorskur, þá var hann einnig tilgreindur í heimildum eftir fisktegundinni og verkunaraðferðinni: T.d. Plat-Kuller (ýsur) og Plat-Langer (löngur). Ég hef hér flysjað skán úr verki Jóns Aðils svo að menn geti sjálfir melt hans mikla fróðleik um skreiðarverkun á einokunaröldinni sem hann lét okkur í té.
Þegar fiskurinn var kviðflattur, voru ákveðin bein bols þorskfisksins fjarlægð þegar hann hafði verið hausaður og slægður, eins og sjá má á efri teikningunum hér fyrir ofan. Neðri myndin sýnir hvernig aðgerðin að þorskinum hafði skilið eftir merki í beinin í skreiðarinnar í flakinu SO1 við eyjuna Texel.
Tvær gerðir af harðfiski/skreið á 16. og 17. öld. Til vinstri er venjuleg skreið (stokkfiskur) á innsigli Íslands, Sigillum Insulae Islandiæ frá 1593 (Þjms. 4390) og til hægri er hinn dýrari plattfiskur á prentmóti frá Hólum sem fyrst var notað til prentunar í sálmabók árið 1589 (Þjms. 445).
Fyrir nokkrum árum síðan var hér á blogginu í fyrsta sinn á Íslandi birt mynd af málverki sem líklega er er elsta málverkið sem málað hefur verið af þessari verðmætu útflutningsvöru. Á málverkinu heldur hollenskur kaupmaður í Björgvin á skreið, og ekki er um að villast að það sem hann heldur á er greinleg ekki meira en meðal skreið/stokkfiskur, jafnvel norskur tittlingur.. Fræðist um myndina hér. Stokkfiskinn var einnig hægt að finna í innsigli Lýbiku-kaupmanna, enda skreiðin ein af mikilvægustu innflutningsvörum Hansa-bandalagsins. Skreiðin kemur einnig síðar fyrir í innsiglum Björgvinjarkaupmanna og víðar, t.d. innsigli á Tromsö, Færeyjum og jafnvel í borginni Deventer suður í eystri hluta Hollands.
Hér fyrir neðan: Málverk frá því um 1595, málað af flæmska meistaranum Lucas von Valkenborch (1535-1597). Á veggnum fyrir aftan konuna, sem er innanbúðar hjá fisksalanum (hún er líklega atvinnurekandi hans), hangir veglegur grófur plattfiskur úr norðurhöfum,sem ég er viss um að frúrnar í Brabant (Brabant er hérað á landamærum Hollands og Flæmingjalands og þaðan mun þessi kvenbúningur vera) hafi verið sólgnar í, þegar kom að löngu föstu og þær komnar í trúræktina og algjért kjétbann. Mér sýnist að eigandi verslunarinnar sé að taka saman kippu af reyktri síld fyrir fínu konurnar.
Þegar menn máluðu skreið á 16. og 17 öld er erfitt að segja til um hvaðan skreiðin sem máluð var var ættuð. Skreiðin á myndum í þessu greinarkorni gæti jafnt verið frá Noregi sem Íslandi eða Færeyjum, en líklega hafa Norðmenn þegar eignað sér hana.
Hér geta hinir áhugasömustu lesið grein um rannsóknir á fiskibeinum frá Hansabæjum eftir Hans Christian Küchelmann, þar sem hann vitnar m.a. í grein eftir dr. Guðbjörgu Ólafsdóttur á HÍ-setrinu á Bolungarvík et al. (inter al. est etiam dr. Ragnar Edvardsson, sem er eiginmaður Guðbjargar) sem lesa má hér.
Flattur, hertur fiskur teiknaður á spássíu handritabrots íslensks, sem er varðveitt í Konunglegu Bókhlöðunni í Stokkhólmi. Handritið fjallar um reglur varðandi kirkjuhald og er talið vera frá því um 1360.
Bloggar | Breytt 27.12.2021 kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fíflshraun við fjallið Eldhuga í Égveitbestlandi
21.3.2021 | 08:26
Ef Ísland hefði ekki orðið nafnið á eyjunni okkar, hefði líklega mátt kalla hana Égveitbestland. Því á eyjunni býr bjartsýnasti bláeygingahópur á Norðurhveli jarðar.
Til hvers þurfa Íslendingar yfirleitt yfirvald, lög, tilmæli ráð eða reglu, þegar allt er brotið og fyrirlitið, jafnvel af þeim sem framfylgja eiga tilmælum yfirvalda?
Hér eru nokkrir rammar úr drónamynd ungs Íslendings (sem kallar sig Fridriksson), sem virti að vettugi öll tilmæli frá yfirvöldum lands síns. Hann þjösnaðist, illa klæddur, út í náttúruna á jeppa foreldra sinna, á bleikum strigaskóm, og fór að fljúga drónanum sem hann fékk í fermingargjöf rétt undir flughæð þyrlu Landhelgisgæslunnar. Það er ungt og leiku.. hugsar ekki.
Helstu fíflin við Eldhuga í gær
Sjáið Hjálparveit skáta (efsta mynd), minna en 100 metra frá gossprungunni. Beindi hún ekki tilmælum til fólks í gær um að halda sér fjarri? ... Og braut síðan þau tilmli sjálf, og það me snilld. Eða var hún að selja flugelda meðan hún er að skaffa dótið.
Maður skammast sín dálítið - Eeen auðvitað er smáöfund í þessu hjá mér.
Ég efast þó um að ég hefði um tvítugt farið á Pumaskónum mínu gegn vilja Almannavarna að eldstöðvum. En ég er heldur enginn víkingur eins og lavaprinsinn á bleiku skónum.
Við gátum ekki skorað stúlkur með beinni útsendingu í dentíð. Þá var þjóðleg glíma það eina sem dugði. Þá voru heldur ekki til Júmbókjúklingarúllur, sem munu vera ágætar að hrauna í sig með heilsugosi og hraunmola á eftir á meðan maður snöggþurrar vatnssósa strigaskó, bleika. Þessir piltungar og taðskegglingar eru auðvitað ekki farnir að drekka brennisteinssterkt kaffi enda vart komnir af volgri brjóstamjólkinni.
Aðalfrétt liðinnar viku. Það láðist að nefna að allar andlitsgrímur og vírusvarnir brunnu af mönnum við Eldhuga.
Að lokum langar mig til að minna á eldgosavakt Fornleifs sem reyndist sannspárri í hinni miklu fræðilist að spá fyrir um atburði, en t.d. færustu jarðeðlisfræðingar. Spákúlur þeirra brugðust heldur betur þann 19. mars 2021.
"Ja, maður finnur þetta bara á sér", sagði eldfjallasérfræðingur Fornleifs. Og svo setjum við á okkur kvikuskó og syngjum: Take on your pink shoes and dance.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvert í hálogandi
19.3.2021 | 12:56
Þessi ósköp er svo dómsdagsmynd skjálftavaktar Fornleifs fyrir helgina.
Ég átti erindi við Þjóðminjasafnið í dag, en enginn svaraði í símann. Það er auðvitað svo mikið að gera á stofnun sem hefur verið megruð (leaned) niður í yfirsetukonu og hreingerningarfólk.
Enn einn af greiðviknu starfsmönnunum, fyrir utan Þjóðminjavörð, er nú líka hætt. Komin á aldur eins og það heitir, svo hún getur ekki reddað mér lengur. Nú, án árangurs fyrir allt erfiðið, var mér hugsað til ánægjulegrar heimssóknar minnar í safnið haustið 2019, þar sem ég vann með hollenskum kollega í nokkra daga. Mér leist vel á húsakynnin og andann á stofnuninni, þótt flestir starfsmenn væru við hausthreingerningar við Suðurgötuna.
Þá fór ég að velta fyrir mér staðsetningu geymslu- og vinnuhúsnæðis safnsins. Það er í miðju sögulegu hrauni. Þegar allt fór að hristast fyrir nokkrum vikum síðan, hélt ég áfram með þráhyggjuhugsunina um þennan stað við hliðina á Icelandair söluveri og gríðarstórri heilsuræktarstöð. Þarna í fegurri hluta lagerbyggðarinnar á Gaflinum, er mikilvægasti þjóðararfurinn geymdur, og kannski beint ofan á sprungu eða í hættu vegna hraunflæðis úr t.d. Brennisteinsfjöllum, sem átt hafa það til að renna eftir landnám, hvenær sem það nú var.
Nú er það svo, að sagt er að atómsprengjur geti aldrei grandað Ráðhúsinu í Reykjavík. En ætli nokkur vilji sprengja það. House of Icelandic mun víst einnig vera "reddí" í "kvað sem vera"; Jafnvel þotu sem flogið yrði lóðrétt og beint niður í það allra heilagasta í húsinu. Það kæmi ekki skráma á Flateyjarbók. Ekki seinna vænna þegar handritaarfurinn er í flóðahættu í klóakkerfi Háskóla Íslands, og þar skall hurð nærri hælum. Klósettpappír fannst gær inni í Grágásarhandriti í fólíóstærð. En kannski var þetta nú eldhúsrullan sem Stefán heitinn Karlsson týndi eitt sinn?
En enginn hugsar neitt um mikilvægasta þjóðararfinn sem er á lager suður í Hafnarfjarðarhrauni. Hann gæti runnið undir hraun, bráðnað ofan í sprungu og þjóðararfinum þar með komið endanlega fyrir kattarnef, þótt köttum sér ekkert um að kenna.
Vill ekki einhver, og það hátt í kerfinu, t.d. fornminjaráðherra, segja mér hvað áætlun Þjóðminjasafnið hefur, þegar hraun fara kannski að fljóta ofan í hinn fína Hafnarfjörð, ryðjandi fornleifum og menningararfi #1 á undan sér?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það sem mörgum Íslendingum er kært?
16.3.2021 | 07:50
Er þjóðin enn í hlekkjum hugarfarsins?
Ég er á því að margir Íslendingar séu það enn og hafi taugar til yfirgangs sveitaaðalsins og hagi sér í samræmi við það, þó svo að þeir kalli sig sósíalista, kommúnista eða frjálshyggjumenn. Þið hafið örugglega ykkar skoðun á því alveg eins og ég. Ykkur er velkomið að hafa hana og ég æsi mig ekki upp ykkar vegna.
Einhverjir muna örugglega eftir ágætri þáttaröð, Þjóð í hlekkjum hugarfarsins. Þetta voru fjórir þættir eftir Baldur Hermannson eðlisfræðing, sem settu sannast sagna allt á annan endann vorið 1993. Margir urðu vondir og voru það lengi. Svipuð viðbrögð höfðu vart sést síðan Þórbergur móðgaði vini Hitlers eða kvikmyndin Ágirnd var sýnd, en hún lýsti presti sem rændi hálsnisti af kvenlíki. Sýning kvikmyndarinnar móðgaði svo margar prestsmaddömur að það leiddi til lögregluaðgerða og sýningarbanns. Síðar kom i ljós að brestir klerkastéttarinnar voru jafnvel stærri en skartgripastuldur af líkum.
Textinn og þættirnir fóru fyrir brjóstið á mönnum. Það er kannski besti mælikvarðinn á ágæti þáttanna. Baldur Hermannsson bjó, eins og fyrr segir, til þættina, en dr. Gísli Gunnarsson, sem andaðist á sl. ári, var fræðilegur ráðgjafi. Baldur byggði einnig á fræðilegu góssi frá Ólafi Ásgeirssyni og dr. Kirsten Hastrup.
Heiftin var enn mikil árið 1997
Árið 1997 leyfði ungur mannfræðingur, Sigurjón Baldur Hafsteinsson sér, hálfgrænn á bak við eyrun að rita grein í Lesbók Morgunblaðsins. Sigurjón er í dag prófessor við HÍ, svo ekki hefur upphlaupið skaðað hann. Sigurjón Baldur kallaði grein sína Goðsögur sem réttlæting og hægt er að lesa hana hér (bið ég menn að lesa allar greinarnar sem vísað er hér í texta mínum, áður en þeir taka þátt í hugsanlegri umræð hér að neðan - sem vonandi verður engin, því ég held hreinlega að allir séu sammála mér.
Árni Björnsson vildi halda fast í sína glansmynd
Grein Sigurjóns, sem birtist 1. mars árið 1997, fékk Árna Björnssonar þjóðháttafræðing á Þjóðminjasafni Íslands til að grípa í beittan penna sinn. Hann reit grein sem hann kallaði Goðsögn um glansmynd (sjá hér) og sendi inn til Moggans. Þar kom svo augljóslega fram, hvernig yfirlýstir menn á margbrotna íslenska vinstri vængnum eru fullir af erfðagóssi úr framsóknarfílósófíunni. Sigurjón kom með andsvar í grein sem hann kallað Goðsögur sem réttlæting (sjá hér og lesið nú).
Ég leyfði mér einnig að taka þátt í umræðunni og Mogginn birti eftir mig grein sem ég kallaði "Pirringur dansks blaðamanns" (sjá hér). Ég kom þar inn á skrif dansk blaðamanns sem farið höfðu fyrir brjóstið á Árna Björnssyni og einhverjum öðrum.
Þó ég nefndi það ekki í grein minni árið 1997, bar ég smá ábyrgð á því sem blaðamaðurinn Ulrik Høy skrifaði. Vinur minn einn, sem einnig var blaðamaður á Weekendavisen, sigaði Ulrik á mig. Mig minnir þó að Ulrik hefði verið búinn að mynda sér nokkuð líkar skoðanir og ég hafði um sjálfsmynd Íslendinga, og sem svipaði til þeirra sem lýst var í Þjóð í hlekkjum hugarfarsins. Því var grein danska blaðamannsins og bókmenntafræðingsins Høy eins og hún var og krydduð þeim öfgum og alhæfingum sem Høy lét oft vaða með sig í gönur, þangað til að hann var sem betur fer settur af af ritstjóranum Martin Krasnik, sem þótti Høy fara yfir strikið í endalausum árásum á minnihlutahópa í kjallaragreinum sínum.
Høy var sjálfur á Íslandi og oplevelsi hans þar og viðmælendur sumir, staðfestu aðeins þá gagnrýnu skoðun sem ég hafði gaukað að honum í símma - og sem margir aðrir af minni kynslóð höfðu af sjálfsmynd Íslendinga um þessar mundir. En í augum sumra af kynslóð Árna Björnssonar var skoðun okkar ekkert minna en guðlast og árás gegn því sem helgast var á Íslandi.
Síðar svaraði Árni mér, Sigurjóni og Baldri Hermannssyni á einu bretti (sjá hér) , sem einnig hafði tekið þátt í að gleðja meistara Árna með svörum sem voru heldur hvöss og persónuleg að mínu mati (sjá hér), og svo held ég barasta að umræðan hafi lognast út af eins skyndilega og hún byrjaði eins og æsingur gerir oft á Íslandi.
Ómaklegt svar Árna Björnssonar
Stutt svar Árna til mín (sjá hér) þótti mér miður smekklegt og færði Árni engin rök fyrir því sem hann skrifaði. Þannig hljóðaði það í durtslega þjóðlegum stíl mannsins sem taldi dagana langa á fullum launum hjá Þjóðminjasafni Íslands.
Hinn 9. apríl sendi Baldur [Hermannsson] mér nokkur hjartnæm blessunarorð sem engu er við að bæta. En söguskýringar hans fá sömu einkunn og áður. Daginn eftir birti svo Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson greinina Pirringur dansks blaðamanns þar sem hann tekur undir ýmislegt í greinum Sigurjóns, auk þess sem hann ítrekar gamalkunna og rótgróna andúð sína á ýmsu því sem mörgum Íslendingum er kært.
»Já, það er bara þannig«, hugsaði ég, er ég las þetta á sínum tíma. Hvað ætli ég hafi skrifað eða sagt til að Árni Björnsson teldi mig hafa gamalkunna og rótgróna andúð sína á ýmsu því sem mörgum Íslendingum er kært? Mig langar enn að vita það, og tel að Árni hafi aðeins verið uppfullur af palladómum um mig. Eins var gaman að sjá að Árni svaraði ekki grein Baldurs Hermannsonar eðlisfræðings, sem var að mínu mati ca. 100 sinnum hvassari í garð persónu Árna Björnssonar og sams konar Íslendinga en ég var í minni grein.
Ég veit með vissu að sitthvað af pirringnum í Árna var til komið vegna þess að Árni taldi mig vera rótgróinn Sjálfstæðismann. Þá villu hafði hann fengið i kollinn vegna þess að ég fékk stöðu við Þjóðminjasafnið (1993), vinnustað Árna, á tíma Guðmundar Magnússonar þjóðminjavarðar (sem íhaldið hefur aldrei treyst fyllilega). Árni gerði ráð fyrir því að allar starfsveitingar væru pólitískar, flokkapot eða klíkuskapur.
Ég hef reynda aldrei verið í nánd við Sjálfstæðisflokkinn og aldrei í Valhöll komið, enda hvorki kominn af bændaaðli og ættarmafíum. Ég fékk stöðuna á Þjóðminjasafninu út á menntun mína og reynslu en heill hópur í þjóðfélaginu, með Hriflunga í fararbroddi, vildi fá einhverja konu úti í bæ í stöðuna, sem hafði um langan tíma kallað sig fornleifafræðing án þess að vera það eða að hafa lágmarks fullnaðarpróf í fornleifafræði eins og annars var beðið um í starfsauglýsingu Þjóðminjasafnsins.
Venjan á Íslandi þá (1993) var að veita stöður með skyldleikapoti og klíkuskap, en ekki vegna verðleika manna. Framsóknarmenn eru enn að eins og við vitum, og aðrir líka, sem hugsa eins og frekjur aftan úr fornöld, sem fyrir alla muni vildu halda völdum sínum og sérréttindum til alls andskotans annars en eðlilegt má þykja.
Þessi setning Árna um mig var nú alveg eins og tekin úr Pravda í miðjum Stalínismanum eða fyrr í málgögnum nasista, þegar menn með andóf, sama hve lítið það var, voru ásakaðir fyrir að hafa andúð á því sem þjóðinni þótti kært - eins og t.d. að furða sig yfir silfri sem fannst óáfallið í jörðu austur á landi. Á vantaði aðeins, að ég hefði sett glerbrot í smjör alþýðunnar og notað blóð lítilla íslenskra sveitapilta í hin ósýrðu brauð.
Nei, annars, ég tek hann Árna ekki allt of alvarlega og gerði heldur ekki á þessum uppgangstímum þjóðernisrembings fyrir aldamót. Það á maður alls ekki að gera. Fólk frá frjálsu landi sem ótilneytt hafði hafði haft sinn daglega gang í DDR, er að mínu mati ekki hægt að taka harla alvarlega.
Eru Íslendingar lausir úr hlekkjunum?
En losnuðu Íslendingar svo úr þessum meintu hlekkjum, sem Árni Björnsson sá ekki og vildi ekki vita af?
Ekkert bendir til annars en að þeir hafi enn verið pikkfastir um ökkla og úlnliði Íslendinga vel fram yfir aldamótin og af og til finnst mér ég heyra og sjá þessi heilkenni á mörgum Íslendingum enn.
Efnahagshrunið er vissulega ekkert annað en óbein afleiðing þess hugarfars og glansmyndar sem Árni afneitaði að væri til. Fyrir hrun höfðu menn gríðarlegt "hlutverk á meðal þjóðanna" og stjórnmálamenn voru stoltir af körlum sem síðar sýndu okkur að þeir voru aðeins krimmar sem ætluðu sér að verða verulega loðnir um lófann vegna þess hver landar þeirra voru auðtrúa um eigið ágæti.
Þessum kúkalöbbum, sem allir voru aldir upp á fjallkonumýtunni um ofboðslegt ágæti þjóðar sinnar og öllu því sem henni er kært, tungunni - vatninu - fallegu konunum og og tungunni, hafði með aðferðum sem kenndar voru í háskólum tekist að selja einhverjum útlendingum trú um að vextir í alíslenskum bönkum þeirra yrðu himinháir á sparnað almúgans og miklu betri en hjá fyrrverandi kamelhirðingjum sem flutu ofan á olíulindum heimsins suður í Arabíu. Allir vita hvernig fór með sjóferð þá.
Annar Íslendingur sem líkt og Árni hafði alið manninn í DDR, var fenginn til að gera upp reikningana og við vitum líka hvernig það endaði. Þá loks áttuðu menn sig á því að skyssur framdar af fáeinum pörupiltum undir fána alls þess sem Íslendingum er kært, voru vegna þess að þeir hugsuðu aðeins um sjálfa sig. Því var réttast að þeir borguðu skuldir sínar. En Fjallkonuriðlar áttu heldur ekki innistæðu fyrir syndum sínum, svo almúginn og allt það Íslendingum er kært tapaði mestu í lokin.
Fyrirtæki eins eins og Íslensk Erfðagreining var einnig byggð upp á glansmyndum sem ættaðar var af fjóshaugum fortíðarhyggju margra Íslendinga og á óbilaðri trú á eigið ágæti og hreinleika erfðarefnis síns.
Það síðasta er nú einu sinni hálfgerð veila sem á annarri öld eða t.d. í sjálfstæðisbaráttunni hefur bjargað þjóðinni. En þessi sjálfsmynd er ekki lengur til mikilla heilla fyrir Ísland og tvær helstu þjóðirnar sem byggja Ísland, Íslendinga og Pólverja. Tímarnir breytast og mennirnir með.
Þessi stórfína mynda efst er af Árna Björnssyni að auglýsa íslensk gæðaúr - jæja, kannski ættum við frekar að segja: úr sem smellt var saman úr erlendum einingum af íslenskum úrsmið með gott viðskiptavit. Trúin á Fjallkonuna veldur því líka að föndur úr erlendu hráefni er hægt að kalla íslenska framleiðslu og selja svo dótið eins vel og fjallkonan hefur alltaf selt sjálfa sig, síðan hún varð til varð að samnefnara fyrir ímyndunarveiki heillar þjóðar. Úr þessi - fyrir Íslendinga - eru nefnilega frá alveg sérstæðu landi, þar sem býr alveg sérstök þjóð, sem furðuauðvelt er að elska, þótt hún sé óþekk, sjálfselsk, ófyrirleitin og ímyndunarveik og á endalausri undanþágu undan öllum reglum og lögum sem hún segist fylgja, þó svo að hún geri það í raun og veru alls ekki. Þjóðin hefur nefnilega verið of einstök fyrir fína takta og nákvæm klukkuverk. Hennar helsta vandamál er að hún lifir of mikið á fornri frægð og glímir við bullandi minnimáttarkennd, sem af og til brýst út sem sturlað mikilmennskubrjálæði þar sem gert er út á afrek einstakra dugnaðarforka eða einhverra sem skara fram úr. En jafnoft fyrir verk svikara og loddara sem gera út á einkennin í þjóðarsálinni. Og vitaskuld hata menn eins og ég þjóð sína og allt sem henni er kært, þegar þeir láta hlutina flakka. Minni getur glæpur boðberans ekki orðið í landi endalausrar sjálfróunar og ímyndaðs ágætis.
Horfið aftur
Horfið aftur á þætti Baldurs Hermannssonar, Í hlekkjum hugarfarsins I, II , III og IV sem byggja á hugsun margra á undan honum, en sem fjórum árum eftir sýningu setti enn í gang harðorða orðasennu á síðum íslensks dagblaðs.
Ég býst við að fáir séu enn eins æstir og þá eftir að hafa horft á þættina.
Enn sér maður þó einstaka nasista skrifa á bloggum svo skínandi fortíðarhyggja leiftrar, og framsóknarráðherrar eru enn að gera það sem venjan segir þeim að þeir getir einir. Þeir halda sig enn hafna yfir samþykkt landslög. Miðflokkurinn klónaðist nýlega úr móðurflokki fortíðarhyggjunnar og varða að heimili fólks með allt veganestið úr sveitinni í einni sýrutunnu með hreppstjóra sem vildi láta reisa gerviðþorp úr fortíðinni þegar hann var enn FORSÆTISRÁÐHERRA! Hann vildi fá fornþorp og platfortíð, sem hann hafði t.d. séð í Dresden, sem fyrst og fremst höfðar til þorpara. Um leið sagði hann almenningi að éta það sem úti frýs, meðan að hann faldi ættarauð undan skatti í sandi á Pálmaeyju við miðbaug.
Meðan menn eins og Árni Björnsson trúðu fortíðarruglinu sem væri það hans óbilaða barnatrú, þá kom fram ný kynslóð sem fór að gera út á ruglið. Báðar gerðirnar nýtast Íslendingum af mismunandi uppruna, frumbyggjum og Pólverjum ásamt öðrum, harla lítið á okkar tímum.
Hræddur
Mest er ég hræddur við að ný gerð af íslenskum nasisma láti kræla á sér í kjölfarið á Covid 19, nokkrum eldgosum og hruni fiskistofna. Þegar margar mótbárur skella á þjóðarskútunni er erfðasilfrið oft pússað, kuskið plokkað út úr sveitanöflunum, og fjallkonan er aftur blásin upp.
En aftur á móti hef sem betur fer tröllatrúa á ungu kynslóðinni, sem þrátt fyrir að hafa lesið eintómar erlendar myndabækur í stað Íslendingasagna (eins og Árni vildi að þau gerðu), er ekki haldið eins mörgum fordómum og þær kynslóðir sem lifðu í ímyndaðri baðstofu og tiplaði um sem sveitaómagar á sauðskinnskóm og hlakkaði til lesturs upp úr alls kyns friðþægingarritum og jafnvel Das Kapital meðan baðstofa þeirra hafði til húsa í DDR. Heldur var nú lesturinn á Marx og félögum gloppóttur, því fæstir komust að því að hann og félagi Engels taldi einnig Íslendinga í hlekkjum Hugarfarsins.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, mest hataði prófessorinn á Íslandi, þó hann sé einnig hlekkjaður í fortíðarhyggju sveitaaðals Íslendinga, sagði eitt sinn frá því í Mogganum, hvernig Marx og Engels höfðu árið 1848 sneitt að Íslendingum í ómerktri grein Engels í Neue Rheinische Zeitung, en á því blaði var Marx ritstjóri um skeið. - Og nú með orðum þeirra kammeratanna HHG, Engels og Marx beint upp úr Morgunblaðinu, og ég vona að ég megi vitna rétt í þá, þótt textinn sé í neðanmálstærð:
Norðurlandahugsjónin er ekkert annað en hrifning á hinni ruddalegu, óþrifnu, fornnorrænu sjóræningjaþjóð, skrifaði Prússavinurinn Engels um vopnahlé Dana og Prússa, en rætt hafði verið um það, að aðrar Norðurlandaþjóðir kæmu Dönum til hjálpar gegn ofureflinu. Íslendingar töldu allar þjóðirnar þrjár úrkynjaðar, enda er sú þjóð auðvitað mesta Norðurlandaþjóðin, sem er frumstæðust og líkust hinni fornnorrænu í öllum siðum og háttum. Árni Bergmann svaraði því til í Þjóðviljanum , að Halldór Laxness lýsti Íslendingum svipað í Gerplu .
Óskar Bjarnason gróf síðan upp nokkur ummæli Marx og Engels um Íslendinga, sem ekki höfðu birst á prenti að þeim lifandi. Í lok fyrsta kafla Þýsku hugmyndafræðinnar skrifuðu þeir kumpánar veturinn 1845-1846 um ýmsa nýja siði, sem landnemar flytji með sér, áður en þeir hafi rutt eldri siðum úr vegi. Þetta gerist í öllum nýlendum, nema þær séu einvörðungu bækistöðvar hers eða verslunar. Dæmi um þetta eru Karþagó, grísku nýlendurnar og Ísland á 11. og 12. öld. Hér minntust þeir fremur vinsamlega á Ísland. En í desember 1846 skrifaði Engels einum vini sínum frá París, að ekki væri hann hrifinn af Norðurlandaþjóðum. Svíar lítilsvirða Dani sem þýsk-mengaða, úrkynjaða, rausgjarna og veikgeðja. Norðmenn fyrirlíta fransk-mengaða Svía með sinn aðal og gleðjast yfir því að í Norge sé einmitt þetta sama fávísa bændaþjóðfélag og á tímum Knúts ríka. Þeir eru aftur á móti svívirtir af Íslendingum, sem enn tala alveg sömu tungu og þessir subbulegu víkingar frá anno 900, súpa lýsi, búa í jarðhýsum og þrífast ekki nema loftið lykti af úldnum fiski. Ég hef oftsinnis freistast til þess að vera stoltur af því að vera þó ekki Dani, hvað þá Íslendingur, heldur bara Þjóðverji. Þessa skoðun endurtók Engels síðan í blaðagreininni, sem ég rifjaði upp 1979.
Loks er þess að geta, að Bruno nokkur Bauer heimsótti Marx í Lundúnum 12. desember 1855. Þegar Bauer sagði, að enska hefði spillst af frönsku, svaraði Marx, eins og hann skrifaði síðar Engels: Ég tjáði honum þá til huggunar, að Hollendingar og Danir segðu það sama um þýskuna og að Íslendingar væru hinir einu sönnu ómenguðu piltungar. Og þá vitum við það. (Sjá minningar Hannes hér)
Já, er nema von að menn hati prófessor HHG, þegar hann dregur sannleikann fram á jafn ruddalegan hátt um það sem mönnum er kærast - og jafnvel honum sjálfum líka?
En mér þykir þó líklegt, að hvorugur þeirra Marx og Engels hafi haft alltof mikið vit á því sem þeir voru að skrifa um, líkt og stundum vill henda bestu menn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)