Færsluflokkur: Bloggar
Skyggnumyndasýning Marks Watsons - nú í boði Fornleifs
7.6.2022 | 07:50
Nýjasti safnauki Fornleifasafns er lítill en all verklegur kassi.
Kassi þessi er svo rammgerður, að erfitt er að granda honum nema með einbeittum vilja. Loki kassans er lokað með tveimur spöngum og einnig þykkri leðuról.
Ég keypti kassann á eBay, en ekki vegna þess að ég safna litlum kössum og öllum eins, eins og segir í kvæðinu. Innihald kassans vakti þegar forvitni mína og ég keypti hann nánast án upplýsinga um innihaldið. Þó upplýsti seljandinn á Englandi, að um væri að ræða heila röð mynda og tilheyrandi minnispunkta yfir skyggnuljósmyndir, 8x8 cm. að stærð. Röðin ber heitið A Journey to Iceland.
Í kassanum ramma eru 35 skyggnumyndir, svokallaðar laterna magica myndir, frá 4. áratug síðustu aldar, þegar slíkar myndir voru reyndar að syngja sitt síðasta vers.
Ég var sem betur fór einn um hituna á netuppboðinu. Ásættanlegt verðið rauk því aldrei upp. Svo kom kassinn seint og síðar með sænska póstfyrirtækinu (sem blóðsýgur Dani) og rannsóknir hófust á innihaldinu við fyrsta tækifæri sem gafst:
Tvær eða þrjár myndanna eru eldri en hinar, og eru teknar úr eldri Íslandsmyndaröð. Þær myndir voru framleiddar af fyrirtækinu Newton & Co á 37 King Street í Covent Garden. En meginþorri myndanna eru merktar framleiðandanum Church Army á 14 Edgeware Road W.2 í London, sem voru góðgerðar- og trúboðsamtök (sem enn eru til) sem útveguðu fátæklingum Lundúnaborgar alls kyns vinnu, m.a. við að útbúa glerskyggnur fyrir ríka viðskiptavini, sem margir hverjir studdu starfsemi samtakanna mjög ríkulega fyrir skattaívilnanir. Þorri myndanna í kassanum er tekinn á síðari hluta 4. áratugarins af breskum ferðalangi sem hafði verið á Íslandi að sumarlagi.
Eigandinn
Kassanum fylgdu minnispunktar fyrir fyrirlesarann sem notaði þessar myndir í fyrirlestrarhaldi á Heimssýningunni í New York (sjá hér).
Fljótlega kom í ljós við lesturinn á minnispuntunum, að höfundur þeirra var mikill dýravinur og sömuleiðis mikill Íslandsvinur.
Á meðal nýrri myndanna í kassanum voru margar dýramyndir og einnig mynd af húsakynnum Dýraverndunarfélagsins í Reykjavík. Mig grunaði að sá sem tekið hefði myndirnar væri enginn annar en endurreisnarmaður og verndari íslenska hundsins, hinn eini og sanni Mark Watson. Í íslenskum dagblöðum var greint frá því að Watson hefði verið á Íslandi sumrin 1937 og 1938.
Einhverjar pöddur hafa farið á beit í minnispunktum Watsons og þegar skjalið komst í hendur þess er þetta ritar var það sett í poka og beint í frystinn í nokkra daga og síðan var allt lauslegt hrist á svarta plötu til að athuga hvort einhverjar dýraleifar væru enn á kreiki eða á lífi. Svo var ekki, en kannski er ég komin góð sýnishorn af flösu úr höfði Watsons. Beðið er frekari rannsókna á því.
Ég greindi sérlegum agent Fornleifs á Íslandi frá grun mínum um að myndirnar hefðu tilheyrt Mark Watson. Hann sendi mér nokkrum mínútum síðar grein Önnu heitinnar Snorradóttur (1920-2009), sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1988(sjá hér). Grein Önnu skýrði mörg vafamál og lausa enda í rannsókn minni. Anna hafði sem ung stúlka ásamt bróður sínum, Hauki Snorrasyni (1916-1058), síðar ritstjóra Dags og enn síðar Tímans, verið Mark Watson innan handar á ferðalögum hans um landið árin 1937 og 1938. Lesið vinsamlegast grein Önnu til að fá sem mest út úr myndunum.
Þess ber þó að geta, að greint var frá því í Morgunblaðinu 31. mars 1939, að til væri kvikmynd í lit sem Watson á að hafa tekið á Íslandi. Val stóð á milli fjögurra Íslandskvikmynda, en eina átti að sýna í New York. Litmynd Watsons var að lokum ekki ekki sýnd í New York, heldur hélt hann þar í húsi Íslands fyrirlestra með skyggnumyndum sínum sem teknar voru á Íslandi 1937-38. Honum innan handar við þær sýningar var einnig Haukur Snorrason, sem var Watson mikill harmdauði er Haukur dó um aldur fram árið 1958.
Watson hélt einnig sýningu á ljósmyndum sínum í Lundúnum (Wertheim Gallery), síðla hausts 1937. Sýninguna heimsótti Krónprins Friðrik og Ingrid spúsa hans. Færði Watson þeim tvær ljósmyndir að gjöf líkt og Alþýðublaðið greindi frá þann 1. desember 1937.
Fólk í fréttum: Ekkert launungarmál er það lengur á okkar upplýstu tímum, að Watson þótti, fyrir utan Ísland og smalahundinn okkar, einnig vænt um unga hali, þó svo að hann hafi mest hrifist af hinum íslenska seppa. Þess má einnig geta að amma David Camerons fyrrum forsætisráðherra Breta var systir Marks Watsons. Þá vituð þér það.
Ekki ætla ég heldur að útiloka að kvikmynd Watsons sé týnd og tröllum gefin. Ef einhver veit meira um hana eða hvar hún gæti verið niður komin, þætti mér fengur í að fá vitneskju um hana. Þangað til annað kemur í ljós, geng ég út frá því að myndirnar í kassanum góða séu þær sem Watson sýndi á heimssýningunni New York árið 1939 - þar sem einnig var til sýnis mynd af Fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku eftir Ásmund Sveinsson (sjá skýrslu Fornleifs um styttuna hér).
Fjölskylda Watsons var forrík. Langafi hans, Joseph Watson, hafði auðgast á ýmis konar efnaframleiðslu og sápugerð í Leeds og Yorkshire og afi hans, George, byggði þann iðnað frekar upp. Faðir hans, Joseph, sem síðar þekktur sem the First Baron Manton, græddi á tá og fingri og framleiddi einnig sprengiefnið Amatol fyrir breska herinn. Sjálfur átti Mark Watson hús í London, íbúð í Boston og aðgang að ættarsetri í Austurríki.
Þar sem Watson bjó í Nicasio i Kaliforníu, ca. 30 km. norður af San Francisco, og stundaði þar hreinræktun á íslenska hundinum, var aðeins lítillátur bústaður hans sem hann dvaldi í er hann hafði tíma til að sinna hundarækt sinni í sveitasælunni. Þar hélt hann einnig margfrægar "sígaunaveislur" fyrir sérstakt og listrænt fólk frá Castro-hverfinu í San Francisco.
Vegna alls ættarauðsins, þurfti Watson svo sem ekkert að vinna sér til framfærslu, en hann lærði fornleifafræði, var í breska hernum, og var síðar diplómat í Washington (1930-32) og einnig forngripasali í New York svo eitthvað sé nefnt. Ræktin á íslenska hundinum lá nærri hjarta hans. En alltaf gat hann borgað aðstoðarfólki vel, svo lífsstíllinn væri á pari við það sem jafnan gerðist á meðal lágaðalsins á Bretlandseyjum. Watson var þó fyrst og fremst gullaldarrómantíker, sem hafði minni áhuga á verslun, iðnaði og auði en menningu og listum. Sumir safna og aðrir eyða.
Íbúðarhús eða búgarður í augum Íslendinga, en réttara sagt sumarbústaður Watsons í Nicasio í Kaliforníu. Jörð hans þar getur ekki flokkast undir "búgarð" líkt og sumir Íslendingar töldu að býli hans þar væri.
Ég átti þeirrar ánægju að njóta, að vera kynntur fyrir Watson á barnsaldri. Hann kom eitt sinn heim með föður mínum og keypti af föður mínum gamalt landakort af Íslandi. Watson var boðið í kaffi og kökur. Hann var meðal hærri manna og var með sýnu hærra höfuð en faðir minn, og eftir slíkum hausum þurfti oft að leita lengi á Íslandi.
Sjón er sögu ríkari
En höfum ekki fleiri orð um þetta. Blogglesendur eru latir og Lesendur Fornleifs geta nú litið í kassann og horft á skyggnumyndasýningu Watsons með því að klikka á skyggnumyndasýninguna efst, sem Fornleifur hefur sett á YouTube-síðu sína, eða klikkað hér.
Mynd Watsons af einum af samferðarmönnum Watsons með hund.
Mynd 33 í myndaröð Watsons frá Íslandi. Watson kallaði myndina Going Aboard og það sem hann ritaði í sýningartextann sýnir mikinn kærleika til dýra:
LAST ONE GOING ABOARD
94 ON SHIP
ROUGH PASSAGE BACK; but they had 4 legs
I WENT INTO THE HOLD EVERY DAY
DRY, COZY, HAY, PUZZLED
WOULD SEE SEAMEN TAKE THEIR OWN BREAD
AND BUTTER DOWN TO THEM
Misjafnt er mat manna. Íslenskum hrossapröngurum hefði ugglaust þótt það heldur betur út í hött að gefa hrossum smjér. En blessaðir Íslendingarnir komust fyrst á mann- og dýragæskustig Viktoríutímans eftir aldamótin 2000, þá er menn fóru fyrst að elska hundinn sinn meira en mannskepnuna og eta hráan bauta úr plastumbúðum úti í móa. Þær hefðu nú hlegið að því í þvottalaugunum þær Guðný og Jónína sem sjörmuðu Tjallan með uppistandi sínu. Watson ályktaði: WOMEN WORK HARDER (one of these not keen on me). Hann Mark þekkti greinilega lítið á konur.
Bloggar | Breytt 10.6.2022 kl. 07:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Euro Ethnofeast 2022
14.5.2022 | 09:06
Samanlögð ritstjórn Fornleifs samgleðst yfir góðu gengi lappalöngu kúrekanna frá Íslandi sem nú gera garðinn frægan í Graðþjórsþorpi á Ítalíu. Söngur þeirra og lag er mun betra en smalasöngur úkraínsku stepputataranna sem allir spá sigri, þar sem áhugamenn um Eurovision hafa vitaskuld sterkari samkennd en hinn venjulegi, litli heterókarl eða enn vesælli Pútín-inn í Moskvuborg.
Nú vill svo til að Fornleifur þekkir frændgarð íslensku smalanna nokkuð vel. Ungur að aldri var Fornleifur sendill hjá RÚV og kynntist því langafa, ömmu og afa kúrekanna þriggja. Pétur Pétursson var mikill öðlingur, og Ragnheiður Ásta gaf sendlum oft súkkulaði, þegar maður fór með skilaboð frá fréttastofu upp til hennar á 6. hæð í beinni útsendingu. Fyrrverandi eiginmaður Ragnheiðar, Gunnar Eyþórsson hafði einnig sinn sjarma, þótt hann væri þurr og sarkastískur. Listaverk hans á herraklósettinu á Fréttastofunni á Skúlaötu 4 heilluðu ungan sem aldinn hal, þar sem þeir gerðu stykki sín gegnt skrifstofu móður fráfarandi forsetaritara. Já, heimurinn er svo lítill.
Svo var Fornleifur í skóla með föðurbróður kúrekanna okkar í Torino. Pétur heitinn var hinn mesti öðlingur og góður drengur. Faðir kúrekanna kom einnig við sögu, því hann stal eitt sinn hjólinu mínu. Ég hlustaði því ávallt með mikilli varúð á Mezzoforte og þurfti oft að gera Dönum grein fyrir því að þeir voru nú altså Íslendingar - og þá seytlaði danska öfundin út úr þeim eins og brún sósa þegar þeir diskuðu áfram í Carlsbergvímu og polkamúsík sem dönum virðist einfaldlega í blóð borin.
Í kúrekunum þremur sé ég ættareinkenni allra í frændgarðinum sem ég hef mætt á ferlinum og það án þess að fá raðgreiningu á þeim systrum hjá Kára.
Kannski vinna kúrekasystur ekki Evru-þjóðernissöngvakeppnina í ár, þó sumir veðmangarar í London og Berlín séu fyrir langa leggi í stígvélum eins og ég.
Það hefðu þær hins vegar örugglega gert hefðu þær brugðið sér í gervi hvítingjanna (albínóanna) sem langafi þeirra, Eyþór - og alnafni föður þeirra - kærði á sínum tíma til þýskra og danskra yfirvalda fyrir að þykjast vera Íslendingar. Gervi-Albínóarnir (sjá hér og hér á ensku) í Þýskalandi voru í álíka sviðsbúningum og framlag Úkraínu treður upp í í dag í Fíatborg á Stígvélalandi. Það var nokkrum árum fyrir Helförina... ég segi ekki meira.
Bloggar | Breytt 4.6.2022 kl. 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýrðlingurinn í græna bolnum talar við Alþingi
6.5.2022 | 08:36
Volodimyr Zelenskij talar við Íslendinga í dag. Aðstoðarmaður Volodimyrs, Fedir M., sem stendur honum miklu nær en Volodimyr getur nokkurn tíman ímyndað sér, greindi mér frá því sem Volodimyr lét út úr sér þegar hann var búinn að lesa lofræðu sína til danska þingsins - sem Dönum þótti vitanlega afar vænt um.
Volodimyr spurði Fedir, hvort það sem hann hefði sagt um Dani væri nú allt saman rétt og satt. Volodimyr sagðist hafa lesið á netinu, að Danir hefðu haft nána samvinnu við Nasí-Þjóðverja, stefnu sem sumir kalla Samarbejdspolitikken en raunsærri menn kalla einfaldlega meðreiðar (kollaboration).
Volodimir hafði lesið að margar þúsundir Dana hefði gengið í Waffen-SS með blessun dönsku ríkisstjórnarinnar - og sumir þeirra myrt gyðinga; Volodimyr hafði einnig lesið að Danir hefðu vísað ríkisfangslausum gyðingum á flótta úr landi á tímabilinu 1940-43 og sent þá beint til Þýskalands.
Hann hafði séð að danskur forsætisráðherra, sem síðar varð yfirmaður NATÓ, hefði vorið 2004 beðist afsökunar á gerðum fyrrverandi stjórnmálamanna og yfirvalda í Danmörku. Hann hafði einnig lesið að danskar ríkisstjórnir á hernámsárunum hefðu hvatt atvinnuleysingja til að halda til Stórþýskalands og vinna þar á lúsalaunum. Einnig var ljót saga af því að Danir hefðu selt Þjóðverjum ógnina alla af matvöru í stríðinu og að 95% þeirrar vöru hafi verið notuð til að fæða heri Þriðja Ríkisins, m.a. þá hermenn sem myrtu meinta ættingja Zelenskijs sem börðust í Rauða hernum og milljónir annarra gyðinga. Hann hafði lesið í rúminu, þar sem hann dvaldi kvöldið áður, að danskir sjómenn hefðu hætt lífi og limum til að færa Þjóðverjum síld og danskir bændur hefðu grætt vel á svínakjöti og smjöri sem fyrrum var selt til Bretlandseyja en sem nú var selt Þjóðverjum a góðum kjörum
Að vonum var Zelenskij á báðum áttum og spurði, hvort rétt væri fyrir hann að líkja Rússum við Nasí-Þýskalandi. Samstarfsmaður Fedirs, Oleh K., sem einnig var staddur hjá Volodimyr, sagði það í fínum málum, því að Danir vildu flestir gleyma óþægilegum minningum úr síðara stríði; flestir vissu hvort sem er ekki neitt, þar sem sögukennsla hefði verið í mýflugumynd í Danmörku í marga áratugi. Taldi hann víst að Danir væru einnig flestir undir undir áhrifum hvítþvottameistarans B. Lidegaards, sem segir að Grænland hafi aldrei verið nýlenda. Zelenskij svitnaði nú heldu betur í græna bolnum.
Læknir Zelenskijs gaf honum því smá róandi og Volodomyr svaf þangað til í gær, er hann fór yfir það sem hann átti að segja við starfsmenn Gaggó-Vest á útvarðareyju frelsisins á hjara veraldar.
Fornleifur er farinn að kvíða því sem Zelenskij segir um Ísland, með hjálp CIA, en furðulegt þótti mér að hann hefði ekki nefnt LEGO, þegar hann talaði svo fallega til Dana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Með hvítan fíl um hálsinn
30.4.2022 | 08:15
Þrír núlifandi Íslendingar njóta þess þunga heiðurs að geta kallað sig handhafa hinnar konunglegu dönsku fílaorðu, Elefantordenen.
Þeirri einstöku æru fylgir steindur skjöldur sem með tíð og tíma verður hengdur upp í riddarakapellunni á Friðriksborgarhöll á Sjálandi, svo hinir ódauðlegu sem ekki drattast með hvítan fíl um hálsinn geti dáðst að þessum mikla heiðri. Um daginn fór ég með góðan vin frá Íslandi í höllina og sýndi honum m.a. skildi íslenskra fílaorðuþega. Mikið var um dýrðir.
Nú vill svo til að danska krúnan var sparsöm á fílana fram á embættistíð Margrétar 2. sem tók að hengja fílinn um háls annarra en konunglegra gesta sem komu við í Dannevang.
Mynd efst: Elefantur sem Napóleón keisari fékk árið 1809. Það var uppi á honum typpið. Ljósmynd Emanuelle Macron.
Þannig vill það til, að Sveinn Björnsson fékk aldregi fíl, þó það gæti hafa verið vegna óvildar Friðriks 9. í garð Íslendinga.
Friðrik sagði við framkvæmdastjóra danska utanríkisráðuneytisins, sem um tíma var sendiráðsritari á Íslandi og síðar sendiherra, að Sveinn Björnsson væri ekki velkominn hjá sér í höllinni. Diplómatinn reyndi að megni að eyða fordómum konungs í garð Íslendinga. Kannski var þetta vegna þess að Sveinn var þekktur sem "ham med Nazi-sønnen".
Fyrrnefndur diplómat ók vítt og breytt um Kaupmannahöfn er Kristján 10. lést til að biðja Kaupmannahafnarblöðin um að minnast ekki á nasistasoninn er Sveinn Björnsson kæmi í útför Kristjáns konungs.
Ef Danir hefðu fyrr gleymt nasistum, eins vel og sumir þeirra hafa því miður gert í dag og oft vegna þess að forfeður þeirra dönsuðu fjálglega við Þjóðverja fyrir um 80 árum síðan, hefði kannski verið við hæfi að hengja hvítan fíl á Svein þó einkunnarorðin á skildi hans yrðu ekki eins ósvífin og:
Vir Honestus cum Filio inconuenienti
Sem betur fór var ekki hlaupin verðbólga í danska fílinn á þeim árum og dönsku blöðin sögðu ekkert ljótt um Svein.
Ásgeir Ásgeirsson var kosinn forseti áður en danska skrautið varð ódýrt, en hann fékk þó fíl frá Friðrik 9. þann 5. apríl árið 1954. Eigi fann ég skjöld Aske Askesens (eins og hann var kallaður er Margrét 2. gekk í hjónaband). Ég leiðaði annars vel í höllinni um daginn. Einkunnarorð fyrir ímyndaðan skjöld hans hef ég hér með í bakljósum minninganna:
Cum Deo in Piscina sine Trunco
Uppáhaldsforseta mínum, Kristjáni Eldjárn, var strax íþyngt með hvítum fíl. Það vantar því miður einkunnarorð á skjöldinn og gætu þau vel hafa verið:
Ferrum in Officio Fortis in Antiquitate.
Kristján hefði skilið það, en hann var sparsamur maður. En svo urðu hvítir fílar ekki eins sjaldséðir og áður. Glingur gerðist hræódýrt.
Vigdís Finnbogadóttir fékk hvíta fílinn þann 25. febrúar árið 1981. Ekki fundum við ferðalangar skjöld hennar í Riddarakapelluna í Friðriksborgarhöll um daginn, kannski vegna þess að hún er kona og við erum bara karlar.
Vigdís hefur þó örugglega fengið skjöld í Svíþjóð, sem mér þykir mjög smekklegur. Ekki veit ég hvort Svíar setji einfaldlega engin einkunnarorð á skildi til að standa við hið margfræga hlutleysishlutverk sitt, en ef slík orð vantar fyrir peningablómið á skildi Vigdísar, sem örugglega táknar endalausar gróðursetningar hennar, þá má notast við:
Una Arbor in Agro sterili mox Silva fiet
Og þýðið nú.
Ólafur Ragnar Grímsson fékk líka hvítan fíl með glans. Það gerðist 18. nóvember 1996. Skjaldamerki hans er að mati Fornleifs forljótt og afa illa málað. Einkunnarorðin á skildi Ólafs í Höllinni eru
Vires Islandiae
Sem kannské má útleggjast sem Kraftar Íslands.
Það finnst mér heldur betur tekið upp í sig, þó svo að Ólafur væri á stundum á við túrbínu, bullandi kver eða jafnvel Geysi gamla. Hefði þarna frekar mátt standa Vir Islandiae (Íslandsmaður eða eyjaskeggi). Nei, það má víst líka misskilja, og heldur illilega ef maður er á þeim skónum.
Skjöldur Ólafs Ragnars Grímssonar í Friðriksborgarhöll er lítil prýði.
Þá er komið niður í sokk, eða rosinen i pølseenden líkt og Danir orða það.
Þann 24. janúar 2017 var hengdur hvítur, danskur elefantur á Guðna Th. Jóhannesson og hefur það sligað hann æ síðan. Um svipað leyti, eða nokkrum mánuðum áður, drukkum við elefant (og ég kók) á penu öldurhúsi nærri Jónshúsi ásamt öðrum heiðursmönnum.
Engan sá ég skjöld fyrir Guðna í höllinni á Sjálandi, en kannski er enn verið að hann´ann. Hugsast getur að skjöldurinn væri þegar kominn, ef ekki stæði að forsetafrúin héti Reid á sumum Wikipedium, en Klein á öðrum (sjá danska Wikipediugrein um Guðna).
Hér er núverandi forsetafrú af einhverjum ástæðum nefnd til sögunnar sem Eliza Klein. Fyrir nokkrum árum ærðist sjálfútnefndur verndari Ísraelsríkis á Íslandi við mig á FB, ragnaði og hótaði mér öllu illu vegna þess að ég sagði honum að upplýsingar sem hann dreifði á alþjóðavettvangi um að Aliza Reid væri gyðingur líkt og Dorrit okkar allra væru staðlausir stafir. Kannski vita menn ekki að ættarnafnið Klein er ekki aðeins notað af gyðingum.
Ef ekki er búið að mála skjöldinn fyrir Guðna, legg ég til að einkunnarorðin hans verði:
Pluralis in Socculo - Assens in Populo
En til vara geta þau orðið: Uxor Parva et Irata est - Sicut Natio, sem útleggja má: Eiginkonan er lítil og reið eins og þjóðin. Og nú held ég að Guðni sé nokkuð sammála mér.
Mikið er nú gott að Tommi borgari hafi aldrei orðið forseti. Þá hefði eftirfarandi þurft að standa á skjöldum snobbliðsins: In Officio dormit, in Meretricibus evigilat. Þú þýðið þetta bara sjálf, þú litla dónaþjóð. En það kemur sem betur fer engum við hvað Tommi gerir í frítíma sínum austur í Asíu, ef hann brýtur ekki nein lög eða alþjóðasáttmála. Látum hann bara sofa og dreyma um allt yfir lögaldri. En Fýlsorður eru líklegast framtíðin.
Bloggar | Breytt 10.5.2022 kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Frá allt annarri öld - og betri
22.4.2022 | 06:55
Á 20 öld voru líffærin í Fornleifi mun skarpari en þau eru nú, og sum hver næsta ónotuð, t.d. heilinn. Nú hallar undan og allt gránar, stirðnar og fellur jafnvel af, en heilinn virkar vel og hefur líklegast aldrei verið skarpari, þó maður sjálfur segi frá í lítillæti sínu.
Árið 1979 skrifaði ég smásögu fyrir íslenskutíma í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Ég kallaði hana: Leskafla fyrir fólk með engar skoðanir. Þið getið lesið söguna hér.
Kennaranum í áfanganum, sem einnig var landsfrægur júdókappi og austantjaldsfari, líkaði sagan svo vel, að hann las hana upp í tíma og sagðist ætla reyna að fá hana birta í Þjóðviljanum. Hvort hún birtist þar veit ég nú ekki, en aðalmálgagn vinstri manna í MH, sem á þessum kaldastríðsárum gekk undir því ágæta nafni Skyggnir, tók greinina og birti með mínu samþykki.
Á Skyggni sálugum ríktu menn eins og Þorvarður Árnason, síðar líffræðingur, sem um daginn var tekinn í því að hafa sopið sjóinn austur á Höfn í Hornafirði, og svo fjálglega að yfirborðið hefur lækkað til muna þarna kringum Hornafjörð samkvæmt hans eigin mælingum. Það gefur svo sannarlega eitthvað af sér í rannsóknarfé gæti mig grunað. Annar snillingur í ritstjórn Skyggnis var FB-vinur minn, heiðursmaðurinn Sveinn Ólafsson, sem menntaðist til að sinna bókum og skjölum og gerir það betur en flestir.
Mér sýnist að Skyggnir sé til í nokkrum bókasöfnum en blaðið er ekki hægt að lesa á Timarit.is. Úr því verður að bæta; ég á að minnsta kosti 1. árg. 2. tbl. Nóvember 1979. Ég teiknaði myndir af stuttbuxnaliði Sjálfstæðisflokksins í MH sem voru með í blaði Þjóðmálafélags MH árið 1979. Mig langar til að sjá þær myndir aftur.
Bloggar | Breytt 23.4.2022 kl. 04:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Styttan sem átti að senda út í himinngeiminn
16.4.2022 | 06:03
Myndin hér að ofan er tekin árið 1940 og er af listaverki Ásmundar Sveinssonar, sem bar titilinn Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku.
Verkið var til sýnis á 1939 New York World´s Fair og stóð í garði á sýningarsvæðinu fram til 1941. Styttan Ásmundar í New York var steinsteypt og stækkuð eftirmynd af verki Ásmundar, sem nú er dreift víða um heim í bronsafsteypum.
Þessi saga fjallar einnig um tvær vígreifar konur í nútímanum, sem kinnroðalaust hafa viðurkennt fyrir alþjóð að þær fjarlægðu afsteypu af styttunni af Guðríði Þorvarðardóttur af stalli sínu vestur á Snæfellsnesi. Listakonurnar notuðu slípirokk og önnur groddaverkfæri við verknað sinn. Þær eru næsta upp með sér af þessi skemmdarverki sínu. En af eftirfarandi má vera ljóst að þær hafa enga ástæðu til þess að vera það.
Gudda í Vatíkaninu
Ég ritaði örlítið um eina af afsteypum af styttu þessari hér um árið, en á ítölsku (sjá hér og þýðið með google translate).
Það var um það leyti er fyrrverandi forseti lýðveldisins Ólafur Ragnar Grímsson gaf þýska páfanum í Rómi afsteypu af uppkasti Ásmundar Sveinssonar að styttunni af Guðríði. Okkar ástkæra frú Dorrit Grímsson bar við það tækifæri kaþólska prestshúfu sem vakti mun meiri athygli í Vatíkaninu (sjá hér) en rasistabílætið frá Íslandi.
Eftir sýninguna í New York árið 1939 hvarf styttan af Guðríði Þorvarðardóttur af yfirborði jarðar. Hún er enn á lista Interpol yfir stolinn þjóðararf Íslands.
Stoltir listamenn og skemmdarvargar tjá sig á RÚV
Listakonurnar fóru um daginn í viðtal á RÚV, þar sem þær skýrðu gjörning sinn. Þær söguðu einfaldlega Guddu af stalli með slípirokki eins og þær væru nánustu ættingjar keðjusagarmorðingjans í BNA. En um leið gáfu þær, og líklegast án þess að vita það, nasaþefinn af hinu dæmigerða viti skroppna samfélagi sem Ísland er að þróast í, þar sem dellur, dillur og fáviska ættaðar frá Vesturheimi ná heljartökum á fólki.
Listamennirnir héldu því fram, að Íslendingar hefðu verið valdir að fyrstu nýlendustefnunni á Grænlandi. Þar brást skólakerfið á Íslandi heldur betur eins og oft áður, nema að listakonurnar sé því vitlausari.
Kennsla um nágrannaþjóð Íslendinga á Grænlandi hefur ávallt verið í mýflugumynd á Íslandi vegna fordóma í garð Inúítanna/Grænlendinga, sem nú berjast fyrir sjálfstæði sínu undir hæl Stórdana.
Því er kannski ekki nema von að listakonurnar viti ekki að þegar norrænir menn (Íslendingar) settust að á Grænlandi var engin föst byggð Inúíta á þeim svæðum sem norrænir menn settust að á, hvorki í Eystribyggð né í Vestribyggð. Vankunnátta listakvennanna með slípirokkinn er skammarleg, en vankunnátta Íslendinga endurspeglar einfaldlega almennt áhugaleysi Íslendinga á Grænlendingum. Íslendingar hafa, eins og vel er kunnugt, ekki viljað vera settir í bás með Grænlendingum.
Nýr óvinur búinn til í þætti á RÚV: Rasistinn Moses
Brussurnar tvær með slípirokkinn héldu því einnig stoltar fram í útvarpsviðtalinu að stytta Ásmundar Sveinssonar á Heimssýningunni hefði síðar verið í vörslu "alþekkts bandarísks rasista" sem þær nefndu til sögunnar sem Robert Moses.
Þar kemur enn í ljós afburðarheimska slípirokkaranna, sem skáru Guddu af stallinum vestur á Snæfellsnesi, vegna þess að hún var "hvít" (afsakið litgreininguna). Hugsanlega kunna þessar konur ekki að afla sér heimilda.
Robert Moses (1888-1981) var gyðingur, sem er vitanleg ekki í frásögur færandi í Bandaríkjunum og alls ekki í New York.
En eins og gengur með marga meðlimi ofsóttra þjóðflokka vaxa fljótt á suma þeirra hjólsagir á olnboganum. Moses gegndi fjölda embætta í tengslum við borgarskipulag New York-borgar og var því ekki vinsælasti maðurinn í borginni fyrir að leyfa sér sem gyðingi að vera framagjarn.
Moses fékk fyrst rasistastimpil á sig, þegar blaðamaður einn, Robert Caro að nafni ritaði bók um hann árið 2007, sem fjallaði um borgarskipuleggjandann Moses.
Caro hélt því m.a. fram í bókinni að Moses hefði fyrirskipað að vatnið í sundlaugum sem hann lét byggja til að bæta hag New York-búa ætti að fylla með vatni á ákveðnu hitastigi, svo svartir (afsakið vinsamlegast orðalagið) færu ekki í sund, þar sem þekkt væri að blökkumenn (afsakið aftur orðalagið) þyldu ekki svo kalt vatn.
Þessi hugmynd varð reyndar algjörlega til í höfðinu á Robert Caro og fyrir henni er hvorki fótur né heimildir. Heimildir sýna annað en Caro heldur fram í bók sinni um Moses. Út úr höfði Caros kom einnig sú staðhæfing að vegabrýr út til almenningsstranda borgarinnar hefðu verið hafðar svo lágar að undir þær gætu ekki ekið strætisvagnar, og þar með ekki negrar. Í dag er vitað að þessar ógeðfelldu greiningar Caros eru vægast sagt uppspuni og versti blaðamannatilbúningur sjá t.d. hér. Reyndar var það svo að strætisvagnar komust alla tíð auðveldlega til stranda New York, en svartir þrælar borgarinnar voru ávallt að þræla fyrir lúsalaunum og gátu ekki veitt sér þann munað að fara út á strönd fyrr en síðar á öldinni. Þannig er það í BNA þar sem margir vilja helst greiða fyrir stríð og óöld trúða í Evrópu.
En Íslendingar eru aftur á móti mataðir af söguníðingum með slípirokk á RÚV. Þeirra útlegging er að gyðingurinn Moses hafi verið rasisti og hafi stolið styttu hins saklausa íslenska listamanns Ásmunds Sveinssonar. Alvísu spunakonurnar með rokkinn hafa spunnið á RÚV og hin auðtrúa þjóð segir "Hallelúja". Þjóðin verður kannski aldrei betri en útvarpið hennar?
Afkomendum Moses hefur nú verið kynnt sú alvarlega ásökun sem sett hefur verið fram á ríkisfjölmiðli á Íslandi á hendur afa þeirra. Afkomendurnir, Solomon og Sue U. Moses munu hafa samband við íslensk yfirvöld vegna ófyrirleitlegra ummæla íslensku skemmdarvarganna um Robert Moses. Listakonurnar verða að sanna að Moses hafi stolið verki Íslenska listamannsins, sem kallaði það "Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku" og það örugglega undir þrýstingi frá Kananum.
Fjarskyldur ættingi Robert Caros, reyndi að komast til Íslands. Hann hét Berthold Caro (f. 1990, mynd til vinstri). Honum var hafnað árið 1937 og svarið fékk hann frá sendiherra Dana í Berlín (dags. 27. januar 1937), því hann sendi fyrirspurn sína um búsetu á Íslandi til hans. Herluf Zahle sendiherra hafði hins vegar fyrirmæli um hvernig honum bæri að svara gyðingum varðandi Ísland. Kynþáttahatur leynist víðar en í henni Ameríku, þar sem hin mjallhvíta Gudda fæddi Snorra litla Þorfinnsson. Reyndar komst Bertold Caro til S-Ameríku, n.t. til Bólivíu, þar sem hann andaðist 25. ágúst árið 1948, aðeins 58 ára að aldri.
Þess má geta að í útvarpsþætti á RÚV nýlega, þar sem gerð var grein fyrir furðulegum rannsóknum bandarísks listakennara á flóttamönnum á Íslandi, var því haldið fram að nokkur nöfn, þar með tali Caro, sem ég nefndi í grein fyrir mörgum áratugum, væru uppspuni, þar sem Bandaríkjamaðurinn hafði ekki fundið þessi nöfn í þjóðskalasafninu í Reykjavík. Aumingja Kaninn var svo illa að sér, að hann vissi ekki að fæstir gyðingar sem leituðu eftir landvist á Íslandi gerðu það ekki hjá íslenskum yfirvöldum. Þeir leituðu fyrst og fremst til sendiráða og konsúlata í Evrópu, líkt og Caro. Megi Bertold Caro hvíla í friði fyrir fávitum og loddurum sem rekur að ströndum landsins.
Legsteinn Bertolds Caro í La Paz í Bolivíu
Gudda var ekki sú fyrsta sem fjölgaði hvíta manninum í Ameríku
En hún var reyndar ekki fyrsta hvíta móðirin í Ameríku. Það var Freydís Eiríksdóttir hins rauða, sem var mágkona Guðríðar um tíma. Freydís var alveg á pari við verstu rasista Ameríku síðar meir. Freydís átti sér leynivopn sem fáir myndu fúlsa við í daga í baráttu við "óæðra fólk" sem um tíma var forsetamarkað sem Bad People af löglega kosnum en kexrugluðum forseta BNA.
Freydís sletti einfaldlega brjóstum sínum á sverði til að hræða líftóruna úr "skrælingjum", en tók einnig þátt í fjöldamorðum þar Westra.
Mér þykir reyndar ekki ólíklegt að Freydís, fyrsta "hvíta" mamman í Vesturálfu, hafi talið brandinn sinn álíka stórfenglegt vopn og kynsystur hennar, skemmdavargarnir tveir, telja titrandi slípirokkinn sinn vera í dag. Það er einnig greinilegur ættarsvipur með þeim og Freydísi í Sögusafninu.
The "Missing Nipples" og pólitísk rétthugsun
Ólíklegt þykir mér að hin hreinlynda Guðríður hafi haft drápstæki eins og Freydís og listavargarnir, en þegar hún var afhjúpuð í Nýju Jórvík árið 1939 hafði Ásmundur gefið henni attrébút sem að mati sérfræðinga Fornleifs voru engu síðri.
Gudda Americana var með þessar gríðar brjóstvörtur sem kíktu út gegnum serk hennar eins og íslenskur þjóðarsómi. But Now these famous nipples are just a Saga.
Pólitískt kórrétt Gudda, án brjóstvarta. Ofar má sjá brjóstvörtur þær sem Ásmundur Sveinsson skapaði Guðríði með fyrir sýninguna í Nýju Jórvík árið 1939. Töluverður munur er á styttunni sem var í New York og víðförlu styttunni af Guðríði nútímans. Greinilegt er, að einnig hefur verið framið eins konar "nose job" á Guðríði síðan hún póseraði stolt með batteríin í Nýju Jórvík. Ekki er heldur laust við að tyllinn á Snorra hafi verið stærri í New York en þegar hann var sendur til Vatíkansins, og það kannski ekki alvitlaus varnaraðgerð. Hér fyrir neðan sést að frummynd Ásmundar sem mynd birtist í Fálkanum árið 1939, er í engu lík hinni brjósvörtulausu hvítu Guddu sem er orðin útflutningsvara frá Íslandi. Styttan í New York var mjög trú frummynd Ásmundar Sveinssonar
En á nýjustu útgáfunum af Guddu, sem Ásmundur Sveinsson hefur ekkert komið að - og sem sendar hafa verið til Kanada, Vatíkansins, Laugarbrekku, að Glaumbæ í Skagafirði og jafnvel víðar - hafa brjóstvörturnar á Guddu augsjáanlega verið sargaðar af. Kannski tottaði Snorri Þorfinnsson þær svona harkalega í Vesturheimi, enda annálaður brjóstakall? En líklegra þykir mér nú að einhver náhvítur siðapostuli nútímans hafi fjarlægt þær með slípirokk. Siðvendni Íslendinga er greinilega ekki við bjargandi og er jafnvel heldur meiri en í BNA, þar sem brjóstvörtur eru ekkert mál, nema að maður sé svartur.
Niðurstaða
Guðríður Þorvarðardóttir var kannski fyrsta hvíta móðirin í Ameríku, en Íslendingar eiga enn heimsmet í vitleysum.
Á sýningunni í New York árið 1939 var Leifi heppna gert mun hærra undir höfði en Guðríði Þorvarðardóttur. Hann var hafður úti fyrir húsi Íslands á sýningunni. Leifur setti Guddu í samband við fyrsta eiginmann hennar, sem dó úr sótt. Annar maður hennar Þorsteinn Eiríksson Rauða, bróðir Leifs, dó úr farsótt. Þriðji maðurinn sem kvæntist Guðríði var Þorfinnur Karlsefni. Eignuðust þau soninn Snorra ca. árið 1004. Sumir vindhanar fræðanna og dellumakarar á Íslandi hafa haldið því fram að Snorri Þorfinnsson hafi fæðst á eyjunni Manhattan. Ja, það er ekki nema von að Íslendingar séu herslausir í NATÓ. Þeir berjast sökum fornar frægðar og brjóstaskaks á Vínlandi.
Bloggar | Breytt 17.4.2022 kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Eitt sinn var útsýnið gott úr Grjótaþorpinu
10.4.2022 | 17:20
Fornleifssafni vex fiskur um hrygg. Nýlegur safnauki kúnstkammers Leifs er Laterna magica myndskyggna frá 19. öld - nánar tiltekið frá 1882 eða 1883. Myndin er vafalaust ein af fyrstu "litljósmyndunum" sem til eru af Reykjavík. Myndin er vitaskuld handmáluð. Ég hef áður lýst einni slíkri mynd sem einnig er í Fornleifssafni en hún sýnir Austurvöll, Dómkirkjuna og Alþingishúsið (sjá hér).
Mynd þessi er gefin út af Riley Bræðrum (sjá frekar um þá og starfssemi þeirra til að kynna Ísland hér), og var gefin út með númerinu 4 í Standard V seríu fyrirtækisins árið 1893.
David Francis safnvörður á Kent Museum of the Moving Image hefur upplýst Fornleifssafn að safnið í Kent eigi sömu skyggnuna úr Standard V seríunni en ekki handlitaða. Eldri myndir af höfuðborgum og þorpum Evrópu sem til voru á lager úr eldri seríum Riley bræðra var safnað í nýja seríu, sem kölluð var Standard V. Þetta upplýsir Mr. Francis:
The slide you illustrate is the same as no 4 in the Standard V set. The Museum has the complete Standard V set. Riley Brothers "Standard" Series were made up of odd slides they had in stock which were then worked into meaningful sets.
Meira um Mr. Francis hér.
Myndin var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og hægt var að kaupa þessar myndir hans á ljósmyndastofu hans í Reykjavík. Á ljósmyndastofu Sigfúsar lá frammi albúm sem menn gátu pantað myndir úr og er það albúm á Þjóðminjasafni Ísland. Safnið hefur verið spurt um hvort mynd þessi sé í albúmi ljósmyndastofu Eymundssonar. Sumar myndir hans bárust til Bretlandseyja og voru notaðar við gerð Laterna Magica skyggnumynda. Meira má lesa um þá iðn í þessari grein Fornleifs, þar sem farið er ítarlega yfir Íslandsseríur Riley-bræðra og annarra skyggnumyndaframleiðenda á Bretlandseyjum.
Nýja myndin í safni Fornleifs er tekin úr vestri. Fúsi karlinn hefur staðið fyrir ofan Aðalstræti og eilífað höfuðstaðinn. Lóðirnar þrjár sem sjást fremst á myndinni eru neðst í Grjótahverfi. Litla húsið lengst til hægri var þar sem Túngata og Kirkjustræti mætast. Ingó á Horninu bjó þarna miklu fyrr.
Austar í Kirkjustræti var númer 10 risið (1879), sem og Alþingishúsið, en við austanverðan Austurvöll, þar sem Hótel Borg er í dag, má sjá elsta pósthúsið í Reykjavík. Styttan af Thorvaldsen var komin á stallinn árið 1874. Allt smellur þetta vel við dagssetninguna 1882-83.
Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.
Árið 1943 voru sumar af borgarmyndum Eymundssonar gefnar út á prentuðum einblöðungum sem ferðamenn gátu keypt sér. Það væri álíka og ef Rammagerðin færi í dag að selja ljósmyndir frá æsku ritstjóra Fornleifs. Menn söknuðu greinilega gamla tímans í Reykjavík árið 1943. Hvenær fara menn að fjöldaframleiða myndir af núverandi borgarstjóra?
Það voru oftast konur sem sátu og lituðu skyggnur sem framleiddar voru á Bretlandseyjum. Einnig var hægt að fá skyggnurnar ólitaðar, en þær lituðu þóttu fínni. Ef maður hefur í huga, að flöturinn sem litaður var, var innan við 8x8 sm., þá er hefur kona sú sem litað hefur þessa mynd tekist mjög vel við himininn austan við læk. Það er næstum því van Gogh-handbragð á penslinum og bleiki liturinn samofinn við þann ljósbláa og hvíta á himnum líkt og maður sér á ýmsum málverkum Vincent van Goghs frá því um 1888, þegar hann í ófá skipti málar sama ferskjutréð í Arles. Van Gogh var að sögn undir áhrifum frá japanskri list og drakk staup af grænum absinth þess á milli.
Þannig lítur himininn út á skyggnu 4 úr Standard V seríunni, þegar ekki er lýst í gegnum hann. Ljósmynd V.Ö.V. 2022.
Bloggar | Breytt 11.4.2022 kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vigdís, eina dökka barnið í bekknum
5.4.2022 | 14:23
Umfjöllunin um Vigdísi Häsler framkvæmdastjóra Bændasamtakanna fellur mjög að áhugamálum Fornleifs og sérfræðinga hans.
Stundum er hættulega skammt á milli sagnfræði og mannfræði annars vegar, og kynþáttafordóma hins vegar. Lýsingarorð geta líka verið hættulega eitruð í notkun eins og allir vita. Líkt og menn varast eftir bestu getu að nota rangan lit af skóáburði þegar þeir bursta skó sína, þarf að vanda val sitt á orðum þegar maður lýsir öðru fólki. Ég segi t.d. að allar konur séu gullfallegar, og hef enn ekki verið skammaður fyrir að smyrja of þykku lagi af hróskremi á hin ýmsu sköpunarverk Guðs á Íslandi.
Ég stal þessari ágætu mynd úr Bændablaðinu af Vigdísi Häsler, gullfallegri og myndarlegri konu sem hefur tekist að fá Íslendinga til að gleyma litla Volodimyr eitt andartak og stríði hins frjálsa heims við vonda, illgjarna og dvergvaxna morðingjann í austri.
Vegna þráláts orðróms um að sumir menn á Íslandi sjái svart þegar þeir sjá Viggu yfirbónda, leyfði mér í gær að setja Vigdísi í litgreiningarforrit sem ég á í tölvunni.
Aðeins 17% myndarinnar reyndust svört. Það er mun minna en t.d. hjá Will Smith sem talinn er vera "black American", án þess að slá mann kinnhest í beinni fyrir að halda því fram.
Ég setti þvínæst nafnið Häsler í annað forrit sem gaf þá niðurstöðu, að það væri alþýskt nafn og fjarskylt Hitzler og álíka nöfnum. Vigdís leynir því greinilega á sér. Í lokin kom ALERT, óhljóð og eftirfarandi tilkynning: This individual is most likely a lawyer, beware she might sue you. Það mun vera nokkuð góð greining.
Bændablaðið upplýsti á sínum tíma, að stórbú Vigdísar væri í Garðabæ, en blaðið greindi því miður ekki frekar frá búskap hennar. Mér þykir líklegt að það sé einhvers konar fjárbúskapur, en það kann að vera rangt og byggja á fordómum mínum.
Lengi hafa menn vitað að að Framsóknarflokkurinn notar Rígsþulu til að lit- og kyngreina fólk, því það er öruggara en nútímalitgreining og eftirnafnakukl.
Ég hef persónulega lent í þessum fordómum flokksins. Í stað gargandi rifrildis í fjölmiðlum ritaði ég einfaldlega grein um galla sérútvalda Íslendinga þegar kemur að útlendingahatri, fordómum og sjúklegri sjálfvæntumþykju.
Svarti liturinn er líklegri, en aðrir annmarkar á fólki, til að menn freisti málsóknar gegn bleikbelgjuðum barónum Íslands, en gyðingahatur hafa aftur á móti ávallt verið talin grundvallarmannréttindi meðal félagsmanna flestra stjórnmálaflokka á Íslandi. Á okkar tímum er slíkt hatur eðlilegt athæfi í ýmsum flokkum á vængbrotna vinstri vængnum, nema að menn séu að tala um litla Volodimyr í Kív.
Sem dæmi um hvað ístruvaxnir, rauðbirknir framsóknarjarlar tönnlast lágmæltir á, fyrir utan svarta litinn, eru hér nokkur heilræði úr Rígsþulu um hvaða kyn heldri menn eins og Rígur eiga að varast er þeir leggjast í tilfallandi rekkjur á yfireiðum sínum um lendur:
Þar var hann at þat
þríar nætr saman,
gekk hann meir at þat
miðrar brautar;
liðu meir at þat
mánuðr níu.
Jóð ól Edda
jósu vatni,
hörvi svartan,
hétu Þræl.
Hann nam at vaxa
ok vel dafna;
var þar á höndum
hrokkit skinn,
kropnir knúar,
fingr digrir,
fúlligt andlit,
lotr hryggr,
langir hælar. ...
Þar kom at garði
gengilbeina,
aurr var á iljum,
armr sólbrunninn,
niðrbjúgt er nef,
nefndisk Þír.
Þessi hálærða framsóknarkona fékk verðskuldaðan doktorstittling í Uppsölum, fyrir rannsóknir sínar á svarta litnum í íslenskum miðaldakveðskap.
Nú síðast fann ég ágætt íslenskt forrit sem ég tróð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna með herkjum inn í. Forritið spýtti henni þó umsvifalaust út með þeim ummælum að hún væri með 96,7% líkum "Tæja". Ég hef einu sinni heyrt eldri hjón tjá sig um "gráðugar Tæjur", sem hópuðust fyrir framan kjötborðið í Hagkaupum í Kringlunni, því svínakjöt var á sértilboði þann daginn. Mikill hamagangur var í öskjunni og gekk það fram af gamla fólkinu sem einnig vildi komast í eitthvað feitt hjá SS. Ég gafst upp á slagnum um grísakjötið, því ég var aðeins á höttunum eftir lambakjöti. Verðið á heilögu lambinu hafði vitaskuld verið sett upp í tilefni lækkunarinnar á svíninu. Hélt ég rakleiðis í Nóatún. Ekki gef ég því mikið fyrir forritið sem gerði Vigdísi að Tæju, því nú veit ég vegna svartagallsraussins í Sigurði Inga, að Vigdís er vitaskuld frá Indónesíu.
Frændur okkar í Indónesíu eru ekki svartir. Sigurður Ingi þarf að fá sér betri gleraugu vegna þessarar myrku siðblindu sinnar sem nálgast algjöra nethimnulosnun. En kvilli þessi og hræðsla hans við allt sem virðist meira framandi en Massey Ferguson dráttarvél er nú ekki bara landlægur í Framsóknarflokknum.
Má segja að maður sé dökkur að lit þegar hann er það, þótt svart sé bannað?
En dökk er hún Vigdís sannarlega, og ekki er hægt að reka mig fyrir að segja það. Þannig var henni einmitt lýst í viðtali í Morgunblaðinu á því herrans ári 2012. Kannski á nú líka að banna Morgunblaðið eins og Illuga Jökulsson dreymir þrálátlega um, og um leið samtökin Íslenska Ættleiðingu sem einnig birti hina dökku lýsingu Moggans á Vigdísi Häsler?
Mikið er heimurinn nú bjartur hjá því fólki sem veltir sér upp úr svartagallsrausi íslenskra sérleyfishafa á allar hreinar hugsanir og kórréttar. Á það fellur sjaldan skuggi, nema helst skuggi hárreistrar heimsku. Hafa menn engar aðrar ólar að eltast við?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Rauða Torgið: Cut and Paste kemur til Íslands
30.3.2022 | 09:32
Er ritstjóri Fornleifs var miklu, miklu yngri en hann er i dag, var hann ekta sjónvarpsbarnastjarna og það langt á undan Boga Ágústssyni.
Stundin Okkar hét og heitir mikil menningaþáttaröð í Sjónvarpi á Sunnudögum, sem óefað er sá þáttur í Sjónvarpi sem lengst hefur gengið fyrir utan Bogafréttir. Þetta var á þeim árum að fólk leiddist út á hálar dráttarbrautir glæpa vegna þess að það var akkúrat ekkert í Sjónvarpinu á fimmtudögum.
En um sexleytið á Sunnudögum horfðu allir á Stundina Okkar. Einnig ykkar einlægur, sem bæði horfði á RÚV og Kanann, enda upp alinn á heimili, þar sem lengstum voru tvö svokölluð sjónvarpsviðtæki.
Ég brilleraði hálfgert í spurningaleik fyrir krakka sem öðlingurinn Pálmi Pétursson stýrði. Hin landselskaða Kristín Ólafsdóttir stjórnaði Stundinni og menningardúkkan Fúsi Flakkari var helsta viðnámið gegn Roy Rogers og týnda kjötfarsinu í Herstöðvarsjónvarpinu frá Vellinum, sem enn var erfitt fyrir Menntamálaráðuneytið að ráða niðurlögum á um 1970. Sögusagnir herma, að Fúsi Flakkari og Bogi Ágústsson séu ein og sama persónan. Einhver tengsl eru líka við Hrannar Björn Arnarsson, þótt óljós séu.
Pálmi Pétursson hafði verið bekkjarkennari minn í 4. bekk (9. ára bekki) í Æfinga og tilraunaskóla Kennaraskóla Íslands, sem í dag ber hið borgaralega nafn Háteigsskóli.
Pálmi tók nokkra krakka úr gamla bekknum sínum og var með spurningakeppnir 1970-71. Það var eins og Pálmi hefði aldrei gert annað. Hefði hann verið upp á sitt besta síðar á öldinni hefði hann ekki haft undan því að stjórna skemmtiefni í Sjónvarpi.
Pálmi hvarf langt fyrir aldur fram yfir í annan heim Alzheimerssjúkdómsins. Ég var eitt sinn, snemma á 9. tug 20. aldar, á leið heim úr miðbænum í vagni nr. 3. Ég var í vetrarleyfi á Íslandi, en þá bjó ég í Danmörku. Ég sé Pálma og geng til hans og heilsa á hann. Hann þekkti mig ekki og ég sá þegar að eitthvað var að. Sambýliskona hans, að því ég tel, skýrði í fljótheitum hvers kyns var og ég sagði bara að Pálmi hefði eitt sinn verið kennarinn minn. Hann var frábær karl í alla staði og kunni sitt fag, sem ekki var hægt að segja um suma aðra kennara í fyrrnefndum tilraunadýraskóla.
Fólk tók fljótt eftir hvolpafeitum og hrokkinhærðum dreng, sem ekki var kominn yfir í hina hræðilegu bítlatísku. Á kvenfélagsfundum um land allt var mikið talað um þennan vel klædda og kembda dreng: "Bara að öll börn væru eins og hann" heyrðist sagt á bestu bæjum. "Vertu eins og strákurinn í Stundinni okkar" heyrðist oft í Vesturbænum.
En svo breyttist allt á einum sunnudegi rétt eftir kl. 18. Idealkrakkinn, pattaralegi drengurinn í P&O fötunum frá C&A og SÍS féll af stjörnuhimnum því hann vissi hvar mynd sem liðunum var sýnd, var tekin. Upp fór armurinn og litla gáfnaljósið setti upp lítillætissvipinn og másaði næstum af gleði með byltingarglóð í aguum: "Rauða torgið í Mosku".
Í Velvakanda var vart ritað um annað í tvær vikur. Drengur í Stundinni okkar var svo heilaþveginn að hann vissi hvað Rauða Torgið var. Hannes Hólmsteinn Gissurarson helgaði síðar þessari spurningakeppni heilum kafla í einni af bókum sínum um Hættur Kommúnismans. Ég hafði reyndar aðeins séð Rauða Torgið á forsíðu Moggans.
Ég lifði lengi á frægðinni úr þessum þætti. Það var tekið eftir þessu hjá Alþýðubandalaginu, og Þjóðviljinn rómaði þessa spurningaleiki Pálma Péturssonar, enda voru þeir góðir.
Langt fram yfir fermingaaldurinn var ég spurður, hvort það hefði ekki örugglega verið ég sem vissi hvað Rauða Torgið í Moskvu var; Og eins og þið sjáið var ég enn nokkrum árum síðar mjög upp með mér af því að vita það og lítillætissvipurinn var algjörlega farinn. Ég lifði lengi á Rauða Torginu. Reyndar verður að viðurkennast, að besti heilinn meðal krakkana sem Pálmi Pétursson sérvaldi í Æfinga- og tilraunaskólanum fyrir þáttinn sinn var hún Olga heitin Harðardóttir, sem ég var lengi hálfskotin í vegna þess að hún var svo svakalega klár. Olga bjargaði alltaf okkar liði með hugarreikningi einum saman. Hugarreikningur í sjónvarpssal þótti góð og holl skemmtun fyrir börn í þá daga.
Jón Atli Benediktsson, í daglegu tali kallaður Beni Speni, núv. rektor HÍ, komst með í aðra umferð hjá Pálma Péturssyni í Stundinni. Jón brosti bara og sagði aldrei neitt og gat ekkert reiknað. En það skipti engu máli, þegar við höfðum Olgu Volgu. Jón Atli vildi bara komast í návígi við Fúsa Flakkara og var afar lukkulegur með að hitta hann í eigin persónu og talaði vart um neitt annað í heilt ár.
Fyrir fjölmörgum árum síðan, þegar einhver nostalgía færðist yfir ritstjóra Fornleifs, líkt og oft gerist þegar menn gerast eldri og virkum líffærunum þeirra fækkar, hafði ég samband við RÚV og spurði hvort að hugsanlega væru til einhverjir þeirra þátta sem ég trauð upp í án þess að fá greitt fyrir. "Bla,bla,bla ekkert var varðveitt, því þetta var tekið upp á fjölnota spólur og da dí da". Sem sagt - allt komið á öskuhauga sögunnar.
Því kemur sér vel fyrir íslenska sjónvarpssögu, að móðir vatnskembda drengsins í nælonskyrtunni með gáfumannabindið, lengst til vinstri á ljósmyndinni efst, var duglegur áhugaljósmyndari.
Fyrir daga Vídeós og Windows datt henni það snjallræði í hug að taka ljósmynd af sjónvarpstækinu í svefnherberginu. Hún skaut nokkrum sinnum, og með flassi sýnist mér.
Útkoman var því miður ekki góð, en Erla Vilhelmsdóttir (nú á 93. aldursári), gafst aldrei upp. Hún framkvæmdi Cut & Paste og það löngu á undan sinni samtíð.
Þetta afrek mömmu litla kommúnistans á Rauða Torginu hefur varðveist fram á okkar daga. Efst sjáið þið andartak úr spurningakeppni barna í Stundinni Okkar árið 1970.
Ef einhver á betri myndir, hafið endilega samband.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gullskipið enn eina ferðina
14.3.2022 | 15:50
Í gær var frumsýnd heimildakvikmynd um leitina að Het Wapen van Amsterdam, gullskipinu sem sumir kalla svo. Sú leit er víst enn í gangi vegna misskilnings ævintýramanna sem ekki hafa fyrir því að lesa heimildir. Þessir ævintýramenn geta greinilega fengið í lið við sig auðtrúa fólk sem ekki hefur heldur hænuvit á því hvað heimildir og heimildarýni gengur út á.
Mér til mikillar furðu voru mér færðar þakkir í rúllutexta síðast í þættinum. Ja, fyrir hvað, er mér spurn?
Fundur minn með Jóni Ársæli Þórðarsyni í Kaupmannahöfn 2019
Ég hélt fund yfir nokkrum kaffibollum og bakkelsi á listasafni í Kaupmannahöfn með Jóni Ársæli Þórðarsyni, sem ólmur vildi fá mig með í þáttinn þennan, þó hann þekkti afstöðu mína til allra leita að skipinu fram á okkar dag. Um skoðanir mínar er hægt að fræðast hér á blogginu Fornleifi.
Ég benti Jóni Ársæli á það sem ég hef skrifað um skipið (hér, hér og hér) og sé ég að lítið af því hefur komist til skila í þættinum. Svo vart er mér þakkað fyrir það. Ég heyrði aldrei frekar í Jóni eftir fund þennan, enda hefur honum örugglega skilist á mér að ég hefði lítinn áhuga á því að ræða dagdrauma fjársjóðaleitarmanna og furðudýrafræðinga.
Jón blessaður veiktist svo eins og alþekkt er orðið, og það mjög illilega af Covid-veirunni. Ég heyrði ekki meira frá Jóni um þáttinn fyrr en ég sé hann nú í gær. Nafn mitt á ekkert erindi í rennitextann á eftir þættinum. Það er enn verið að skapa eitthvað ævintýri, og skáldskap. Mig grunaði að það væri tilgangurinn með þættinum og þess vegna er ég feginn að ég tók ekki þátt í því að veita leitinni gæðastimpil forleifafræðings.
Aðrir meistarar nálarinnar í sandinum
Hinn látni meistari Þórður Tómasson í Skógum kemur fram í þættinum og fer því miður með rangar upplýsingar um kistuspjöldin. Hann hefur greinilega lesið greinar mínar en aðeins munað hluta úr því sem ég skrifaði. En gaman var að sjá Þórð, þarna á 100 ára afmæli sínu.
Þór Magnússon var einnig fyllingarefni, en hafði að vanda frekar lítið að segja. Áhugaverðara hefði verið að fá að vita, af hverju hann fór að trúa að því að skipið væri fundið skömmu áður en þýski togarinn birtist holunni miklu á sandinum.
Ómar Ragnarsson var þá nokkuð merkilegri til viðræðu og sagði það sem hann hefur áður haft eftir heimamönnum: Að leitað hafi verið á röngum stað á söndunum, þ.e.a.s á Svínafellsfjöru, en ekki á Skaftárfellsfjöru sem heimamenn tengja strandinu. Ómar benti einnig réttilega á breytileika árfarvega á söndunum og hvernig staðfræði sandanna hefði ef til vill breyst gegnum tíðina við það.
Fyrst mér er þakkað í heimildamyndinni, leyfi ég mér að setja hér hlekki (hér, hér og hér) í greinar sem ég hef skrifað um skipið Het Wapen van Amsterdam hér á Fornleifi, svo fólk geti lesið um vitleysuna sem hefur verið í gangi um áratuga skeið.
Upphaflegu gullskipaleitamennirnir höfðu engan áhuga á að vita hvað hollenskumælandi menn sögðu þeim og sýndu þeir samt þeim mönnum sem samband var haft við hroka og útlendingafyrirlitningu. Hér á ég við föður minn, sem þeir höfðu samband við, en vildu ekki hlusta á skýringar hans og þýðingu.
Síðar var notast við mann sem síðar var fréttamaður hjá RÚV, sem Gullskipsmenn vildu heldur trúa en þeim sem gátu lesið hollenskan texta. Það var Þorvaldur Friðriksson, sem var með í þættinum. Sem dæmi um þýðingartilburði hans á 17. aldar hollensku var að hann þýddi orð sem notað var yfir rauða himnu múskatblómunnar, foelie, sem "kylfur" (sjá hér).
Rauða himnan utan um múskatblómuna (hnetuna) er það sem Hollendingar kölluðu á 17. öld foelie. Hún var þurrkuð og þótti besti hluti Múskatávaxtarins. Þegar Íslendingar kaupa hana í dag malaða, er hún í umbúðum með enskum texta, og kallast Mace. Sérfræðingurinn Þorvaldur Friðriksson þýddi foelie sem "kylfur".
Er ekki frekar kominn tími til að íslenska ríki gefi upp þá heildarupphæð sem íslenska ríkið setti í gullgrafaraverkefnið á Skeiðarársandi, vegna þess að stjórnmálamenn létu líka glepjast og létu sig dreyma um gull og geimsteina? Það var mikið fjármagn, sumir tala um 50 milljónir, aðrir segja að það hafi verið hærri upphæð. Það var fjármagn sem aldrei var greitt til baka í ríkissjóð. Ríkisstjórn notaði almannafé í fíflaskap og ævintýri leikbræðra úti á stærsta sandkassa landsins.
Það hefur því miður lengi verið ævintýrafólk í íslenskum stjórnmálum og því verður Alþingi aldrei betra fley en þeir sem sigla því. En Het Wapen van Amsterdam er löngu sokkið og í sjónvarpsþætti Jóns Ársæls var ekki minnst einu orði á skýrslu sem rannsóknarstofnun Bandaríska flotans í Maryland ritaði á sínum tíma og sem lengi var að finna á skrifstofu starfsmanns eins á Þjóðminjasafni Íslands, Guðmundar Ólafssonar. Guðmundur er ekki þakkað í rennitextanum við þáttinn í gær, og því býst ég við að ekki hafi verið haft samband við hann. Er ekki kominn tími til þess að Þjóðminjasafnið taki skán af skýrslu þessari og setji hana á netið, svo gullleitarmenn framtíðarinnar, sem læsir eru, geti fræðst. Skýrlan er til í Þjóðarbókhlöðunni.
Ég sagði Jóni Ársæli frá þessari bandarísku skýrslu (sem ég á nokkur ljósrit úr) á Cafe Polychrom á den Frie i Kaupmannahöfn í september 2019, og Jón fékk einnig að vita, hvar hann gæti náð í hana. Skýrslan segir allt sem segja þarf um strauma og krafta í sandinum, sem taka ætti af allan vafa um að nokkuð sé eftir af skipinu góða sem sumir kalla "Gullskip" - vegna þess að þeir lifa í draumalandi, þar sem menn vilja ekki taka sönsum eða þroskast.
Krydd varðveitist ekki vel í sandi og leit að ímyndun er heldur ekki nógu sterkt krydd fyrir mig. Ómar Ragnarsson taldi sig aftur á móti finna furðulega lykt í sandinum þegar þýski togarinn var að birtast. Lyktin var að minnsta kosti ekki af karrýpylsum (Currywurst) frá Berlín, því þær komu fyrst til sögunnar þegar stríðshrjáðir Þjóðverjar fengu óhemjumagn af karríblöndu frá velunnurum sínum í BNA árið 1949.
Hér rekur Ómar Ragnarsson nefið í togaraleifar og telur sig finna kryddlykt. Svo fleygði hann barasta sönnunargagninu í sandinn eins og einhverjum sora. Kannski var þetta fnykur af kylfum Þorvalds Friðrikssonar.
Gísli Gíslason gullgrafari 21. aldar. tjáir sig í upphafi þáttarins, þannig að ljóst má vera að fræðilegur tilgangur með leitinni er ekki meiri eða merkilegri en hann var á 20. öld. hjá Björgunarkörlunum, sem ekki vildu, eða gátu, lesið sér til gagns.
"Við erum ekki að þessu til þess að auðgast; við erum að þessu til að taka þátt í ævintýri og auðvitað væri gott að finna eitthvað þarna til að koma einhverju í ríkiskassann - ekki veitir af og fá einhver verðlaun, það væri gaman."
Fullorðnir karlar þurfa stundum að leika sér eins og smápollar, og af og til kostar það nú skildinginn. Það er alltaf gaman að því þegar menn koma upp um sig í sömu setningu og þeir neita öllu. Svo er Gísli Gislason einnig kominn í bullandi samvinnu við Rússa sem verður að teljast mjög vafasamt á þessum síðustu og verstu tímum. Kannski dreymir karlana þá um að verða olígarkar, þegar gulli og gersemum verður dælt upp úr sandinum.
Gull var reyndar ekki grafið úr jörðu eða unnið í Indónesíu á 17. öld (þó svo að það sé gert í dag í hinni risavöxnu námu í Papúa-hluta eyjanna) og það gull sem lestað var í skipalestina, sem Het Wapen van Amsterdam sigldi með frá Indónesíu/Suður-Afríku, var sett í lestar annarra skipa í Suður-Afríku.
Myndin efst: er málverk af skipi VOC deildarinnar í Amsterdam. Þarna er mjög líklega komið skipið Het Wapen van Amsterdam, þar sem skjaldamerki Amsterdamborgar (Het Wapen van Amsterdam) er listilega útskorið og steint á skut skipsins. Þar stendur einnig Banda, sem var heimahöfn Het Wapen van Amsterdam í Indónesíu. Í upphafi sjónvarpsþáttarins um leitina að gullskipinu er akrílmynd af skipi sem ekki einu sinni er með skjaldamerki Amsterdamborgar á skutnum. Það hefði nú verið við hæfi, þar sem skipið dregur nafn sitt af því.
Bloggar | Breytt 15.3.2022 kl. 02:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)