Færsluflokkur: Tónlist
Skírteini lífsins
5.11.2019 | 14:32
Seinni partinn í september var ég í algjörri kurteisisheimssókn á Íslandi, þar sem ég fæ enn að búa hjá aldraðri móður minni.
Móðir mín var einn daginn með óþarfa áhyggjur og vangaveltur út af einhverri endurgreiðslu sem Tryggingastofnun krafðist vegna skekkju stofnunarinnar í útreikningum á ellilífeyri. Ég þekki ekkert á "kerfið" á Íslandi, enda mestmegnis utan allra kerfa, og hafði því ekki vit til að hjálpa henni - en bað hana að biðja systur mína um að skoða málið þegar hún kæmi heim úr sínu sumarleyfi.
Þegar við töluðum um þessar áhyggjur sá ég glitta í gamalt skírteini mitt úr Barnamúsíkskólanum undir öllu pappíraflóðinu sem veldur níræðri konunni svo miklu hugarangri. "Engu skal hent" virðist vera viðkvæðið hjá henni í dag andstætt því sem áður var, þegar hún henti helst öllu gamla konan. Einhver nostalgía virtist nú vera komin í mömmu á efri árum og hún var farin að nota skírteinið mitt sem bókamerki. "Þú mátt alveg taka það", sagði hún þegar hún sá að ég hafði margar minningar tengdar plastinu.
Ég man nefnilega þegar ég kom með ávísun til að borga ársgjaldið. Stefán Edelstein skólastjóri var á "kennarastofunni" með velyfirgreiddan skallann í tweedjakka með bótum á olnbogum og í rúllukragapeysu. Hann gekk oft með derhúfu með dúski á þeim tíma.
Þetta var allt eins og það hefði gerst í gær, en gerðist samt á efstu hæðinni í Iðnskólanum fyrir nærri hálfri öld. Skrifstofan var lítil og full af reykingasvælu. Stefán fór upp á upphækkunina við gluggann, þar sem skrifborð hans var; settist við ritvélina og pikkaði inn nafn mitt, heimilisfang og símanúmer á miða sem hann setti inn í plastið og færði mér það svo með pípuna í munnvikinu um leið og hann sagði: "Svakalegt nafn er þetta sem þú hefur, maður". Ég svaraði bara "já" eða jafnvel engu, enda hafði ég heyrt hve strangur Stefán var. Annars kunni ég vel að svara í stíl við "Veit ek vel, Sveinki", en tók ekki sjens í Stebba.
Aldregi var þetta Ausweis mitt notað til neins og það gulnaði bara í veski mínu til fjölda ára. Það gaf hvorki afslátt í verslunum né fyrirgreiðslu á flugvöllum eins og platínukort Hannesar Hólmsteins. Maður þurfti ekki að sýna þetta skírteini til að komast inn í skólann. En skírteini þurfti maður samt alltaf að hafa. Aginn lét ekki að sér hlæja.
Nýlega fór ég með skírteinið í heimssókn í Tónmenntaskóla Reykjavíkur við Lindargötu, sem er arftaki Barnamúsíkskólans. Ég var að reyna að hafa upp á kennsluefni í sambandi við hljóðfærasmíði barna í skólanum á sínum tíma (sjá hér), og sér í lagi vegna smíða nemanda á langspilum. Ég lofaði skólastjóranum að skrifa henni sem fyrst, en geri það loks í dag. Hún ætlaði að spyrjast fyrir um námsefnið fyrir langspilssmíðar. Ég sýndi henni skírteinið, sem var hætt að nota er hún var í skólanum töluvert síðar en ég. Hún trúið vart sínum eigin augum.
Í gær fór ég svo í skjalsafn Fornleifs gagngert til að finna afrit af prófskírteinum aðalritstjórans er hann var í Barnamúsíkskólanum og kemur þá í ljós að ég lauk hvorki meiru né minna en "Burtfararprófi í tónfræði og hljóðfræðaleik úr framhaldsdeild skólans". Þuríður Pálsdóttir og Stefán Eldjárn gáfu mér "ágætt", sem varð ekki betra, og svo fékk ég næstbestu einkunn "gott" fyrri píanóleik minn og mátti víst vel við una, maður sem níddist á Bach, Bartok, Beethoven, Brahms, Beatles, BB King, og Bí-bí og Blaka. Umsögnin fyrir hljóðfærið 1971-1972 var því: Framfarir hægar. Mætti æfa meira (sjá Ausweis HÉR). Ég tók þegar mið af því, enda ætlaði ég mér ekki að verða undirleikari fyrir eihverja kerlingu í gulum kjól og enn síður píanókennari. Ég sá bæði og heyrði hve leiðinlegt það var í Barnamúsíkskólanum.
Menntunin og burtfararprófið gaf mér hins vegar ákveðna innsýni í heim tónlistar. Ég hlusta mest, en skemmti stundum sjálfum mér með einleik í höfðinu, tek af og til aríur í baði eða trommusóló á potta og pönnur þegar ég syng ekki bakraddir með Björk í útvarpinu. Það er meira en nóg fyrir mig. Maður þarf ekkert skírteini upp á það.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fornleifur óskar Gleðilegrar Hátíðar - 2018
19.12.2018 | 07:30
Nú þegar þið eruð að hugsa um hátíðarhumar, hamborgarahrygg og annan helberan hégóma sem blessað Jesúsbarnið mátti ekki einu sinni borða, er mér hugsað til blessaðrar þjóðarinnar minnar, þar sem hún í sýndarveruleika norpar yfirgefin í fáránleikanum og fönninni við heimskautsbaug.
Þið eruð öll sleginn af svínslegu orðbragði dæludóna og furðulegu háttalagi þeirra sem sitja á hinu háa Alþingi og á börum vinnustaðar síns. Mér er síst af öllu öfund í huga. Þið hafið náttúrulega ekki kosið ÞETTA greðjugræðgispakk yfir ykkur. Réttast væri að þið fengjuð öll sanngirnisbætur fyrir að lifa undir öllum hörmungum sem á ykkur ríða. En þið megið ekki fara í jólaköttinn út af vitleysunni.
Fornleifur gaukar hér að ykkur uppbyggjandi jólaefni eins og honum er einum lagið. Það er ljósmynd frá jólunum 1943 sem nýlega áskotnaðist Herminjasafni Fornleifs.
Myndin var tekin á Bessastöðum er Sveinn Björnsson var þar ríkisstjóri. Einn daginn bönkuðu upp á hjá honum bandarískir hermenn sem vildu syngja fyrir fyrir hann jólasálma:
"Dear Mr. President, we want to present you with some Christmas carols."
"Yes, yes", ríkisstjórinn leyfði það umsvifalaust og hann og frú Georgína hlustaði greinilega hugfangin á hermennina syngja um blessuð jólin á ameríkönsku. Hann Bjössi, sonur þeirra, var nú einu sinni líka hermaður. En reyndar var hann í röngum búningi - Bjössi bolla var óvinurinn sem barðist gegn alheimsgyðingnum, kommúnismanum og innflytjendum, líkt og svo margir sem haldnir eru Soros-óþoli (les gyðingahatri) gera þann dag í dag á Íslandi. Segið svo að þetta jólakort eigi ekki erindi til einhvers.
Starfsmenn Fornleifs óskar ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar við að koma dónum og drullusokkum frá völdum, svo ný kynslóð geti tekið völdin frá ykkur aftur og kafsiglt ykkur á annan hátt. T.d. með skrifborðsfargi frá 10. hæð í ljótu húsi í Brussell. Starf BjöSSa ríkisstjórasonar er sko ekki unnið fyrir gýg. Herrafólkið hefur tekið völdin, bæði í Brussell og Washington og syngur sem hæst gamla slagarann Hver sá mömmu myrða Jólasvein, með sveðju sinni í eldhúsinu í gær.
Dátar á Íslandi voru andstætt Íslendingum mjög gefni fyrir að syngja jólasálma úti í hríðarveðri. Þeim var nefnilega sjaldan boðið inn, nema að þeir hétu Rockwell. Ef einhver á vinstri vængnum hefur velt fyrir sér, hvar Heklu-úlpan er upprunnin, skoðið þá vel þessa mynd.
Myndin efst er fréttamynd sem send var út til dagblaða og tímarita í Bandaríkjunum í janúar 1944 og telex-textinn sem fylgdi myndinni hljóðaði svo:
Tónlist | Breytt s.d. kl. 07:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Woody og ég á Amákri
13.7.2017 | 06:31
Fornleifur og Woody Allen eru samanlagt langt yfir íslenskum fornleifaaldri. Friðaðir og friðlýstir og náttúruminjar að auki. Þess vegna tel ég mig hafa ærna ástæðu til að blogga um Woody. Hér verður þó ekkert ritað um Rosemary´s Baby eða annað sem gleður Íslendinga sem vilja drepa fólk sem þegar hefur verið dæmt eða hefur verið borið er ósönnuðum ásökunum. Leggist út í rennusteininn eða syndið í Skituvík Dr. Dags til að leita frétta af slíku. Þið munuð örugglega finna blóðugt bindi eða skitið blað við ykkar hæfi.
Foto. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2017.
Ég var svo heppinn hér um daginn að hljóta bestu afmælisgjöf sem ég hef fengið í langan tíma og það fyrirfram. Kona mín bauð mér fyrr í vikunni á tónleika með Woody Allen og Eddy Davis New Orleans Jazz Band. Hún hafði keypt sæti á besta stað í Amager Bio, þar sem Woody og félagar léku á Jazzhátíðinni í Kaupmannahöfn.
Foto. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Tónleikarnir voru frábærir, ég var í sæluvímu í að minnsta kosti tvo daga eftir tónleikana, og eins og ég skrifaði á FB mína: What an evening! Finally, I discovered that Woody is taller than I thought. He might not play like Benny Goodman, and even at times he plays like Elmer Fudd on the goose flute. But what a night. The guys in the band gave Jazz relief. They love what they are doing and everyone loves them. This was the best Birthday present (in advance) in ages. Kiss mmmah Irene.
Já maður verður svo sentímental þegar árin líða. Þið þekkið þetta. Hér deili ég með ykkur sneið af afmæliskökunni minni, fyrirfram (ég er alltaf að heiman á deginum) og nokkrar myndir sem ég tók á tónleikunum.
Ég gat því miður ekki spurt Woody, hvort hann myndi taka upp næstu mynd sína á Íslandi en ég tel það mjög sennilegt. Titillinn verður A Summer in Shitvik.
Tónlist | Breytt 18.8.2017 kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Þeir eru öfundsverðir sem afskektir eru"
11.10.2013 | 15:04
Nýverið renndi ég augum yfir ágæta B.A. ritgerð eftir ungan og upprennandi sagnfræðing, Óðin Melsteð.
Eins og mér er tamt, finn ég gjarnan villur og geri aðfinnslur ef ástæða er til. Ég setti mig því í samband við Óðinn og greindi honum frá því að í ágætum lista hans yfir erlenda tónlistarmenn á Íslandi í ritgerðinni hefði að mínu mati vantað tvo áhugaverða einstaklinga, sem ef til vill báru höfuð og herðar yfir flesta þá sem músíseruðu sig um Ísland á 20. öld.
Annan þeirra, dr. Dennis Zakal, hef ég ritað örlítið um á öðrum vettvangi. Hinn var öllu merkilegri og leitt er að hann hafi ekki haft lengri viðkomu á Íslandi en í þau tvö skipti sem hann heimsótti landið.
Hann hélt þrenna tónleika á Íslandi í apríl árið 1935 og fimm tónleika í október árið 1938. Hann hét Ignaz Friedman en upphaflega Soloman Isaac Freudman. Hann var fæddur Podgorze-hluta Krakow í Póllandi árið 1882 og sáu menn snemma að í honum bjó undrabarn við slaghörpuna.
Friedman var tvímælalaust snillingur og meðal fremstu túlkenda Chopins fyrr og síðar. Hlustun er sögu ríkari, klikkið hér inn á YouTube og njótið þessa snillings. Hlustið einnig á hann tala um Chopin hér.
Friedman bjó um tíma í Kaupmannahöfn, en ferðast víða um heiminn, allt til Íslands og Hawaii. Á Hawaii var hann baðaður blómum, en í Reykjavík ákvað úrval arískra pilta sem sáu framtíð sína með Hitler og Stórevrópu að sletta fúkyrðum um hann í öfundarkasti í málgagni sínu Íslandi.
Þegar Friedman kom fyrst til Reykjavíkur hafði hann með sér flygil frá Hornung & Møller í Kaupmannahöfn. Fyrir utan nasistana, sem voru lítilmenni, þó þeir yrðu síðar lögreglustjórar og seðlabankastjórar, voru allir á Íslandi í skýjunum af hrifningu yfir leik Friedmans. En mikið er stundum furðulegt hve vel menn með verkamannahendur og smiðsputta geta leikið.
Í merkisviðtali sem F tók við við Ignaz Friedman, og sem birtist í Morgunblaðinu þann 27. apríl 1935 kom þetta fram (sjá hér);
"Þeir eru öfundsverðir sem afskektir eru....
En eitt get jeg sagt ykkur, að þið eruð öfundsverðir hjer á Íslandi. Þið hafið enn sem komið er komist hjá mörgum þeim erfiðleikum, sem aðrar þjóðir hafa við að stríða. Og eins og nú horfir við í heiminum er gott að vera afskektur og hafa úthaf fyrir nágranna á alla vegu. - En meðal annarra orða, segir Ignaz Friedman. Jeg hefi heyrt að þið eigið hjer merkilegt þjóðminjasafn, þar sem m. a. er sýnishorn af gömlum vefnaði. Er slíkur vefnaður gerður hjer enn - og er hægt að fá hann? Og hvar eru merkustu handritin af sögunum ykkar?
Þegar blaðamaður Morgunblaðsins "F" og Páll Ísólfsson gengu á fund Friedmans á Hótel Borg, sat hann og las í símaskránni. Það var lengi siður gyðinga, því þeir gerða það oft þegar þeim var ljóst að á matseðlinum á Hótelum var svínaschnitzel í öll mál. Gyðingar leituðu hvorn annan uppi eða reyndu að kynna sér hvort í bænum væri gyðingasöfnuður.
Friedman var stoltur af gyðingdómi sínum og hann skilgreindi sjálfan sig sem gyðinglegan píanóleikara. Erfitt var að fá kennslu í Póllandi fyrir undrabarn af gyðingaættum vegna fordóma , en pólski píanókennarinn Leschetizky í Vín tók hann í tíma. Leschetizky hélt því fram, að þrír þættir gerðu menn að snillingi; Maður yrði að vera slavneskur, gyðingur og undrabarn. Lechetizky bætti því við, er hann heyrði Friedman í fyrsta sinn, að fyrir gyðing að vera ætti drengurinn að spila betur en hann gerði. Aðalsmaður nokkur í Vín bauðst til að borga fyrir alla menntun Friedmans ef hann kastaði trú sinni. Því svaraði móðir hans: "sonur minn er ekki til fals".
Blómum skrýddur Friedman á Hawaii
Eitt sinn var Friedman á hljómleikaför í Egyptalandi og ritaði fjölskyldu sinni: Svæðið sem við sjáum frá bátum okkar [á Níl], er sendið, þurrt og einstaklega leiðinlegt. Nú veit ég af hverju gyðingar ílentust hér aldrei. Skopskynið vantaði greinilega heldur ekki.
Friedman byggði sér snemma á 20. öldinni mikið hús í Bolzano á Ítalíu, sem hann kallaði Villa Friedman, þar sem hann bjó með konu sinni og dóttur, er hann var ekki á ferð og flugi um heiminn. Honum tókst að flýja til Ástralíu í stríðinu og þar andaðist hann helsjúkur árið 1948.
Alan Evans hefur skrifað bók um þennan merka mann, þar sem munu vera upplýsingar um hann á Íslandi. Barnabarn Friedmans, Nina Walder, hefur einnig skrifað bók um hann á frönsku sem út kom árið 2010. Sjá vefsíðu hennar til heiðurs Ignaz Friedman.
Tónlist | Breytt 12.10.2013 kl. 06:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allen die willen naar Island gaan
18.9.2013 | 09:28
Ísland hefur lengi verið hugleikið erlendum mönnum. Fyrr á tímum sóttu þeir í fiskinn og hvalinn kringum landið, og fáir eins mikið og lengi og Hollendingar. Þeir voru oft meiri aufúsugestir en t.d. Englendingar sem gátu verið til vandræða og leiðinda. Hollendingar voru ef til vill nógu líkir Íslendingum til að koma í veg fyrir að verða myrtir eins og Baskarnir sem voru brytjaðir niður af skyldleikaræktuðum stórmennum á Vestfjörðum.
Hollendingar stunduðu mikla verslun við Íslendinga sem kom sér oft vel fyrir Íslendinga, þegar Danir, í sínum endalausu stríðum við Svía, höfðu ekki tíma eða getu til að sinna þeirri einokun sem þeir komu á árið 1602.
Um það bil 30 kg. af leirkerum fundust við frumrannsókn á flaki hollenska kaupfarsins de Melckmeyt (Mjaltastúlkunnar), sem sökk við Hafnarhólma við Flatey á Breiðafirði árið 1659. Breiðafjörður kemur einmitt fyrir í hollenska þjóðkvæðinu Allen die willen naar Island gaan. Hér má sjá brot A hollensks fajansadisk með kínversku mynstri, B franskrar skálar með bylgjuðum börmum frá Nevers eða Rouen í Frakklandi, C portúgalskrar grautaskálar og D hollensks disks með skjaldamerki . Nú eru fyrirhugaðar nýjar rannsóknir á flakinu undir stjórn Ragnars Edvardssonar og Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Hingað sóttu Hollendingar hina verðmætu fálka, sem aðallinn í Evrópu sóttist mjög eftir til veiða.
Íslendingar geta þakkað þessum gestum af ýmsu þjóðerni fyrir að vera ekki afdalafífl, þótt einhverjir hafi nú ekki sloppið undan þeim örlögum, t.d. þeir sem vilja gefa landið og auðlindir hafsins stórsambandi gráðugra, hungraðra og skuldsettra menningaþjóða í suðri. Hér áður fyrr var ekki siður greindra manna að gefa hinum ríku.
Sá guli, sem sungið er um í hinni gömlu niðurlensku þjóðvísu (sem hugsanlega er frá 16. öld), sem þið getið heyrt hér, og annað silfur hafsins er enn í hávegum haft og Evrópuþjóðir nútímans eru tilbúnar að beita smáþjóðir bolabrögðum til að ná í fiskinn.
Hér fylgir lausleg íslensk þýðing á vísunni Allen die willen naar Island gaan og hér eða hér má sjá textann á hollensku og hér nótur með góðri útsetningu. Efst syngja spilamennirnir í hópnum Aija frá í Norður-Hollenska, þau heita Leo, Titia, Herman og Greetje. Neðst syngur frábær kór ungra Flæmingja vísuna.
Allir vilja Íslands til
Í hinn gula þorsk að ná,
og að fiska þar af þrá.
Til Íslands til Íslands,
Íslands til
eftir þrjátíu og þrjár ferðir
erum við enn þá til.
Rennur upp tími sem líkar oss vel,
við dönsum af sálargleði
og setjum ekkert að veði.
En svo kemur, já svo kemur
að því að halda á haf,
þá drjúpum við höfði
áhyggjum af !
Þegar vindur úr norðri þýtur
höldum við á krár
og drekkum þar af kæti.
Við drekkum þar og drekkum þar
í góðra vina böndum,
uns okkar síðasti eyrir
horfinn er úr höndum
Þegar austanvindur blæs af landi
"vindurinn er á okkar bandi"
segir skipper glaður í bragði
"og best er, já best er
jú allrabest er,
að beita fyrir hann þvert
þá á Ermasundi þú ert."
Fram hjá Lizard point og Scilly eyju
og þaðan allt til höfðans Skæra [Claire höfða á Írlandi]
Sá sem ekki þekkir þessa leið skal nú læra,
því hér kemur, já hér kemur hann
stýrimaðurinn okkar
sem gefur okkur stefnu rétta
beint á Ísland setta.
Hjá Rockall eyju við siglum svo
allt til Fuglaskerja [Geirfuglaskers],
eins og hver og einn mun ferja.
Og þaðan, já og þaðan
inn til Breiðafjarðar
þar köstum við netum
á landi grænu Njarðar.
Loks erum við Íslandsálum á
þorskinn til að fanga,
og fiska þar af þrá.
Til Ísalands, Til Ísalands,
já Íslands það,
eftir þrjátíu og þrjár ferðir
erum við ennþá að.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Langspilið á 20. og 21. öld
10.5.2013 | 12:43
Langspilseign Íslendinga hefur líklega farið hríðminnkandi þegar á leið 19. öldina, m.a. vegna þess að Íslendingar kynntust betur öðrum hljóðfærum. Menn voru einnig að selja gömlu hljóðfærin sín eða gefa erlendum mönnum þau. Líklega hefur þetta verið eins og með torfbæina, þegar menn fóru yfir þá með jarðýtum. Íslendingar voru farnir að skammast sín fyrir það gamla. Mörg þeirra langspila sem fóru erlendis hafa sem betur fór varðveist á söfnum ytra, eins og ég hef greint frá (sjá hér).
Á 20. öldinni var samt áfram töluverður áhugi á hljóðfærinu, kannski dulítið rómantískur, og reyndu ýmsir að hefja það aftur til vegs og virðingar. Nú á síðustu árum hafa margir smíðað sér hljóðfæri. Þau eru af mjög misjöfnum gæðum, en á meðal eru hljóðfæri sem hljóma mjög vel og fallega - en ekki endilega eins og langspil hljómuðu fyrr á öldum, enda vitum við aðeins lítið um hljóðgæðin frá tveimur heimildum. Sumum þótti hljóðfærin hljóma fallega, en öðrum þóttust þeirra óttalegt gargan, sbr. lýsingar MacKenzies og hins vegar John Baines sem var með í leiðangri John Thomas Stanleys baróns af Alderley til Íslands árið 1789 (sjá hér).
Ég er nær fullviss um að sérhvert langspil hafi haft sína sál og sinn hljóm, og að engin langspil hafi verið alveg eins. Þetta voru ekki hljómsveitarhljóðfæri. Það sjá menn besta af því yfirliti því sem ég hef tekið saman yfir elstu hljóðfærin sem varðveist hafa. Ég tel að hljóðfærið endurspegli dálítið eðli Íslendinga sem ávallt hafa fyrst og fremst verið einstaklingshyggjumenn, sólistar, og neiti því menn ef þeir vilja. Væntanlega eru jafnmargar skoðanir á því og Íslendingar eru margir.
Þegar fram á 20. öldina kemur, ræða menn í riti mest um langspil í minningunni, sem hljóðfæri sem látnir menn höfðu smíðað á unga aldri. En eftir síðara stríð hefst "endurreisnartímabilið" með Önnu Þórhallsdóttir og síðar öðrum áhugamönnum um hljóðfærið. Þá söfnuðu hin ágætu hjón Jón Samsonarson og Helga Jóhannsdóttir miklum fróðleik um langspil, sem er hægt að hlust á hér.
Ég hef tekið saman dálítinn lista yfir ritheimildir um langspilið, þegar það er ekki nefnt í ljóðmáli. Ég vinsaði þetta út á timarit.is:
1898
Langspil voru auglýst sem jólagjafavarningur á 25 aura í Edinborgarverslun fyrir jólin árið 1898.
Mig grunaði lengi að þetta herði verið eitthvað annað annað en hljóðfærið langspil, hugsanlega borðspil. En í kvæði sem birtist í Ísafold stendur: "Helst á langspil Mummi argar", svo ég verð að gera ráð fyrir því að einhverjir hafi verið að smíða hljóðfæri sem seld voru í versluninni Edinborg. Allar upplýsingar um þessi langspil í Edinborgarverslun væru vel þegnar. Orðið "stundanegri" þarfnaðist einnig skýringa.
1910
Í minningargrein í Skólablaðinu (4. árg., 7. tlb. 1910) um Eggert Helgason barnakennara (1830-1910) sem fæddist í Húnaþingi, segir:
Hann var á flesta lund vel gefinn, hugvitsmaður mikill og jarðræktar maður með afbrigðum, en ekki síður pennafær; sönglaginn var hann og spilaði á langspil og flautu. Smíðaði sér víst hvortveggja sjálfur.
1913
Í Hljómlistinnni (1. Árg. 5. tlb. 1913) eru bréfkalfar um hljóðfæraeign Strandamanna:
Einstakir menn eiga harmonium heima hjá sér, t. d. eru 2 í Óspakseyrarhreppi, 1 í Kollafirði, 1 i Hrófbergshreppi og 4 i Árneshreppi. Önnur hljóðfæri eru eigi nema harmonikur og grammófónar og svoleiðis gargskjóður. Langspil eru nú alveg fallin úr sögunni, síðan menn fóru að venjast harmonium.
Fyrsta harmoniið kom hingað í miðsýsluna að Heydalsá til Sigurgeirs Ásgeirssonar, árið 1897; síðan hafa þau verið að smátínast inn í sýsluna.«
Í Eimreiðinni (19. árg. 1. tlb. 1913) er að finna minningargrein um Gunnstein Eyjólfsson (1866 - 1912):
"Í æsku Gunnsteins voru eigi fremur hljóðfæri en skólar eða önnur menningarfæri í byggðarlagi hans [Hjaltastaðaþinghá]. Einhversstaðar gróf hann þó upp langspil hjá fornbýlum náunga, og lærði hann að þekkja nótur og tóna með þess tilstyrk. Er hann líklega eini nútíðar íslendingur, sem hafið hefir sönglistabraut sína við þetta úrelta og ófullkomna hljóðfæri."
1929
Í grein um austfirska ættfræði í Óðni, (25. árg. 1929, 1.-8. tölublaði), er greint frá Birni Skúlasyni sem smíðaði sér langspil:
Björn faðir Gróu var sonur Björns Skúlasonar, er bjó hjer og þar í fjörðunum austan Fljótsdalshjeraðs. Var hann að ýmsu allmikill hæfileikamaður, smiður góður og vel skurðhagur. Hann var söngmaður og smíðaði sjer langspil,til að spila á, því að lítið var þá um hljóðfæri. Hann dó nærri níræður á Kóreksstöðum 24.des. 1872.
1930
Þann 27. júlí 1930 andaðist Halldór Bjarnason bóndi á Stórutjörnum i Ljósavatnsskarði, tæpra 67 ára gamall. Í Degi er þann 10. september 1930 er hægt að lesa þetta um tónlistariðkun Halldórs:
Halldór var ágætlega vel hagur bæði á tré og járn. Mundi hann þó hafa orðið mikið fremri i þeirri grein ef notið hefði tilsagnar við smíðar. En hennar naut hann engrar; átti þess ekki kost. Halldór hafði hina mestu unun af söng og hljóðfæraslætti. Ekki gafst honum þó tækifæri til að læra f æsku neitt, er að slíku lýtur. En það sýnir áhuga hans og löngun til þess, að hann á unglingsaldri smíðaði sér langspil og lék á það í tómstundum.
Anna lætur hér 6. áratuginn mæta 18. öldinni, að því er virðist í skarpri stemmu. Hann er einnig virðulegur faldbúningurinn sem hún klæðist á myndinni hér ofar.
Anna Þórhallsdóttir og Guðrún Sveinsdóttir
Ekki verður með neinu móti gengið framhjá áhuga tveggja merkiskvenna sem reyndu að efla áhugann á langspilinu og hefja það til vegs og virðingar. Þetta voru söngkonurnar Guðrún Sveinsdóttir og sér í lagi Anna Þórhallsdóttir (1904-1998). Anna, sem var nokkuð sérstæð kona, sem lærði m.a. söng í Kaupmannahöfn og á Juilliard í New York, lifði og hrærðist fyrir langspilið. Hún lét árið 1960 gera eftirlíkingu af hljóðfæri frá 18. öld, sem í dag er að finna á Musikmuseet í Kaupmannahöfn.
Þegar ég smíðaði hljóðfæri mitt með Auðuni Einarssyni, leitaði ég upplýsinga hjá Önnu og Guðrúnu og man ég að Önnu þótti mjög merkilegt að ég væri að fara að smíða mér hljóðfæri og vildi vita af framvindu þess verkefnis, en eins og gengur og gerist hringir stráklingur ekki í gamlar konur, svo ég sýndi því aldrei þessari öndvegiskonu langspilsins hljóðfæri mitt.
Anna gaf m.a. út tvær hljómplötur erlendis á eigin kostnað. Ég festi kaup á einni þeirra nýverið Folk Songs of Iceland, sem út var gefin var út árið 1969 hjá Lyricord Discs Inc. í New York. Langplatan var tekin upp af Ítalanum Mario de Luigi og gefin út af Roberto Leydi, sem var þekktur prófessor í tónlistarfræðum í Milano. Svipuð plata fyrir Ítalíumarkað, sem bar heitið Canti popolari d'Islanda, og kom út hjá fyrirtæki sem hét Albatros á Ítalíu árið 1974. Vona að ég að ég brjóti engin upphafsréttarlög með því að leyfa lesendum Fornleifs að heyra nokkur dæmi af plötu Önnu hér í tónlistaspilaranum til hægri.
Önnu þótti greinilega að sér vegið, þegar David Woods og íslenskir aðstoðarmenn komust í fréttir árið 1981, þegar Woods var staddur á Íslandi við rannsóknir á langspilinu. Skrifaði hún grein í Velvakanda Morgunblaðsins til að minna á sig sem fumkvöðul endurvakningar langspilsins. Enginn tekur það frá henni, þótt menn geti vel haft ýmsar skaðanir á söng Önnu.
Plötuumslag fyrir Folk Songs of Iceland með Önnu Þórhallsdóttur. Hlustið á hljóðdæmi í tónlistaspilaranum hér ofar til hægri
Síðustu vitneskju um langspilin safnað
Þegar saga langspilsins 20. öld er skoðuð, er ef til vill mikilvægasta starfið sem unnið var í tengslum við langspilið. að hjónin Jón Samsonarson og Helga Jóhannsdóttir, og síðar aðrir, söfnuðu upplýsingum hjá rosknu fólki um hljóðfærið. Mikið að viðtölum var tekið upp á segulband. Flest þessara viðtala má nú nálgast á http://www.ismus.is/search/langspil og er þar mikill, skemmtilegur og ómetanlegur fróðleikur inn á milli.
Iðnir langspilssmiðir
Áður en menn helltu sér út í langspilasmíðar eftir 1970, líkt og höfundur þessara langspilspistla hér á Fornleifi þegar hann var 10-11 vetra höfðu margir sem höfðu stundað smíði á þessu hljóðfæri eftir eigin höfði og minninu.
Á fyrri hluta 20. aldar voru nokkrir menn mjög afkastamiklir langspilssmiðir.
Þann 22.9. 1961 greini Bragi Jónsson frá því í Tímanum í lesendabréfi þar sem hann leiðréttir upplýsingar í grein Önnu Þórhallsdóttur fyrr það ár og segir frá langspilssmíðum föður síns Jóns G. Sigurðssonar. Bragi skrifar:
Telur frúin að þeir muni ekki svo margir á íslandi, sem séð hafi langspil. Enn fremur að enginn muni hafa kunnað að leika á langspil á þessari öld. Þetta er ekki rétt. Langspil voru allalgeng fram á síðari hluta síðustu aldar og eru enn til á nokkrum stöðum, bæði söfnum og í eigu einstakra manna. Langspil er t. d. í byggðasafni Rangæinga að Skógum undir Eyjafjöllum og eins í byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. Langspilið í Skógasafni er smíðað af föður mínum, Jóni G. Sigurðssyni bónda í Hoftúnum (d. 1950), og gefið safninu. Hvort langspilið í Glaumbæjarsafni er smíðað af honum, veit ég ekki, en tel það ekki ólíklegt, þar sem hann var Skagfirðingur að ætt. Hann var hagur vel og hljóm- og sönglistaunnandi. Hann lærði ungur að leika á langspil og smíðaði þau mörg. Fyrsta langspilið, sem ég sá, smíðaði faðir minn 1911 eða 12 og lærði bæði ég og flest systkini mín að leika á það. Eftir að ég lærði að þekkja nótur, lærði ég mesta fjölda af fallegum lögum á langspil þetta. Á efri árum sínum smíðaði faðir minn mörg langspil og seldi sem minjagripi. Eitt slíkt langspil er í eigu Þórðar Kárasonar, lögregluþjóns í Reykjavík og sá ég það fyrir stuttu síðan. Annað langspil smíðað af föður mínum á Eyvindur Friðgeirsson frændi minn í Reykjavík. Hvar ýmis önnur langspil, sem faðir minn smíðaði, eru niður komin, veit ég ekki, en þau munu flest vera í Reykjavík. Langspil eru því ekki jafn fáséð og frú Anna heldur. Á langspil hef ég ekki leikið í áratugi og á það því miður ekki. Þætti samt gaman að taka lagið á langspil, ef svo bæri undir og myndi fljótt æfast í listinni, og sjálfsagt eru einhverjir fleiri en ég, sem kunna með langspil að fara. Annars á frú Anna Þórhallsdóttir þakkir skilið fyrir að kynna í öðrum löndum þetta alíslenzka hljóðfæri. Bragi Jónsson.
Einnig mun Jón Stefánsson á Dalvík hafa smíðað um fimm langspil sem til voru er David Woods rannsakaði langspil árið 1981.
Á Akureyri bjó lengi niður við höfn, Friðgeir Sigurbjörnsson hljóðfærasmiður sem frá 1950 smíðaði ófá langspilin. Árið 1977, er Árni Johnsen, síðar kenndur við Þorláksbúð, heimsótti þennan merka hljóðfærasmið, voru langspilin orðin 128 að tölu. Þá var Friðgeir nýorðinn áttræður. Friðgeir smíðaði m.a. hljóðfæri fyrir Guðrúnu Sveinsdóttur söngkonu (sem var barnabarn Matthíasar Jochumssonar).
Áður en drengurinn á myndinni, (síðar síðuhaldari á Fornleifi), gerðist yngsti langspilssmiðurinn á Íslandi með góðri hjálp Auðuns H. Einarssonar (sjá hér), voru menn að búa sér til langspil í sitthvoru horninu. Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld og Njáll Sigurðsson smíðuðu sér langspil á námskeiði út í Bayern (Bæjaralandi), þegar þeir stunduðu nám við Orff-Institut-Mozarteum í Salzburg, en teikningu fyrir hljóðfærin fengu þeir hjá Freiðgeiri Sigurbjörnssyni. Jón sagði mér nýlega að hljóðfæri hans sé ekki lengur spilahæft og hangi upp á vegg sem stofustáss.
21. öldin
Eftir aldamótin 2000 virðist hafa verið mikil gróska í spilamennskunni og langspilaeign Íslendinga eykst nú aftur. Hljóðfæri þau sem smíðuð hafa þó verið eru afar misjöfn að gæðum og tónlistin sem töfruð er fram er það líka. Sumt að því sem maður sér er afar illa smíðað og helstu vankantar eru að þau eru með of þykka veggi (borð).
Stundum sér maður langspil sem skera úr hvað varðar smíð og gæði. T.d. þetta forláta hljóðfæri sem Sigþór Sigurjónsson smíðaði á námskeiði hjá Erni Sigurðssyni tréskurðarmeistara. Ég hef einnig skoðað hljófæri eftrir Jón Sigurðsson, ungan smíðakennara á Þingeyri. Þau hafa mjög fallegan hljóm.
Þvílík gersemi er hljóðfæri Sigþórs Sigurjónssonar, og það er bláklukka á sniglinum, stillingarpinnum og hljóðopin eru í laginu eins bláklukkan góða, enda er Sigþór ættaður að austan. Boginn er úr íslenskum reynivið og hárin í boganum eru af tagli fylfullrar merar. Það ku gefa skarpari tón að hafa migin hár í boganum að sögn fróðra manna. Hvernig ætli það sé svo að músísera á þetta hljóðfæri? Ég get ekki ímyndað mér annað en að það sé fallegur hljómur sem úr því kemur, enda byggt eftir skabelóni sem ég teiknaði hjá Auðuni Einarssyni forðum, sem síðar var notað í langspilspakka, sem útbúinn var í Kennaraháskóla Íslands (sjá frekar hér).
Ég tel ekki að tónlistalærðum mönnum sé stætt á því að gagnrýna langspilslist annarra eins og hér er gert. Ég er eins viss um að sumt að því sem hljómar best í dag, og sem er hægt að hlusta á á YouTube og á disklingum, hefur aldrei heyrst úr langspilum forfeðranna. Þeir sem í dag spila á langspilið íslensk þjóðlög með "keltnesk-írskum" áhrifum, og að gefa þá tónlist út fyrir að vera íslenska, eru á hálli braut.
Jafn mismunandi og langspilin eru, jafn misjöfn er listin. Þannig á það líka að vera, allir spila með sínu nefi og þannig var það líklega alltaf með langspilið. Hér fyrir neðan getið þið notið tóna mismunandi listamanna og fræðaþula sem spila á langspilið - hver með sínu lagi, eða eins vel og hljóðfæri þeirra leyfa. Sum hljóðfæranna eru rafmögnuð. Langspilið hefur greinilega endanlega tekið í sátt af nútímanum. Mig minnir að Sigurrós hafi jafnvel notað langspil, og ef niðursetningarnir í þeirri sveit eru ekki búin að því, er ekkert til fyrirstöðu. Einnig er hægt er að hlusta á marga menn, íslenska og erlenda, spila á langspilið á YouTube
og magister Þórður Tómasson spilar hér og syngur eftir sínu eyra:
Tónlist | Breytt 1.9.2019 kl. 06:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Langspil á Íslandi og í erlendum söfnum
28.3.2013 | 10:52

Er bandaríski tónmenntafræðingurinn David G. Woods rannsakaði langspil og íslensku fiðluna árið 1981 skoðaði hann 21 eintök af langspilum í eigu safna og einstaklinga á Íslandi. Sum þeirra hljóðfæra sem hann skoðaði voru reyndar ekki sérlega gömul, nokkur meira að segja smíðuð á síðari hluta 20. aldar (sjá hér).
Hér verða sýnd og safnað saman upplýsingum um hljóðfæri sem flest eru smíðuð fyrir aldamótin 1900. Flest þeirra eru frá 19. öldinni en nokkur eru með vissu frá þeirri 18.
Þetta er enn ekki tæmandi skrá, því ekki er búið að hafa samband við öll söfn sem eiga langspil og hugsanlega eru til hljóðfæri í eigu einstaklinga sem eru eldri en frá aldamótunum 1900.
Mig langar þess vegna að biðja fólk, sem veit um gömul langspil sem ekki eru enn með í þessari skrá, að hafa samband við mig, sér í lagi ef langspil í þeirra eigu eru frá því fyrir aldamótin 1900. Fréttir af hljóðfæri Sigurðar Björnssonar á Húsavík, Guðrúnar Sveinsdóttur Reykjavík og Herdísar H. Oddsdóttur, Reykjavík væru t.d. vel þegnar.
Upplýsingarnar um þessi hljóðfæri, sem safnað verður saman hér, vonast ég að gagnist mönnum sem vilja smíða sér þetta merka hljóðfæri, annað hvort með bogadreginni hlið, eða langspil með beinar hliðar. Vonast ég til að menn hafi þá eitthvað annað en og einskis nýtar vefsíður og með hljóðfæri misjafnlega góðra spilimanna á YouTube sér til fyrirmyndar.
Í næstu færslu um langspilin verður greint frá heimildum um langspil á 20. og 21. öld.
Ísland
Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði
Þetta fagra hljóðfæri er erfðastykki Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts í Reykjavík, en hún hefur lánað það til Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði.
Fyrsti eigandi þess, og jafnvel smiður, er talinn hafa verið Stefán Stefánsson bóndi á Heiði í Gönguskörðum (1828-1910), sem var langafi Guðrúnar. Sonur hans var Stefán Stefánsson (1863-1921), kennari við gagnfræðaskólann á Möðruvöllum og síðar skólameistari á Akureyri. Dóttir Stefáns skólameistara var Hulda, fyrrum skólastjóri húsmæðraskólans í Reykjavík og móðir Guðrúnar. Frá Heiði kom hljóðfærið að Möðruvöllum árið 1890.
Að sögn Huldu Stefánsdóttur var það fyrsta verk Stefáns afa hennar á hverjum morgni að taka langspilið ofan af vegg og leika á það. Hann notaði vinstri þumalfingurinn á laglínustrenginn og gripbrettið, og var vinstri höndin sveigð yfir strengina. Boganum var haldið með hægri hendi og strokið yfir strengina nærri enda hljóðfærisins. Þetta langspil var notað til að læra sálmalög sem sungin voru á heimilinu en ekki var það notað við kirkjuathafnir.
Þetta fallega hljóðfæri hefur 4 strengi og eru tveir þeirra strendir úr sniglinum en þeir tveir sem lengst eru frá gripbrettinu eru styttri en meginstrengirnir og mislangir og eru festir með höldum sem skrúfaðar hafa verið í kassa hljóðfærisins. Þetta fyrirkomulag strengjanna er líklega ekki mjög frábrugðið því sem var á hljóðfæri sem John Baine einn af ferðafélögum Stanleys á Íslandi árið 1789 lýsti í dagbók sinni: When Mr. Stanley came on board, he shewed us an Icelandic Instrument of music called Langspiel. It is a frustrum of a rectangular pyramid 5½ in by 3 and 1 sq at the top. height 39 in with 6 Strings of thick brass wire the longest about 37 inches and the Shortest 12½ inches with stops like those of the Guitar .. (sjá frekar hér)
Í gripbrettið, háls og fót hafa verið innlagðar beinþynnur sem gegna hlutverki gripa og brúa. Hljóðopið er hringlaga með skreyti umhverfis. Erfitt er að átta sig á viðnum sem notaður hefur verið í kassann. David G. Woods taldi kassann vera smíðaðan úr furu, en það getur vart verið. Ef til vill er þetta viður ávaxtatrés, einna helst kirsuberjatré, en kannski reynir sem hefur verið litaður. Það er þó sagt með með miklum fyrirvara. Verð ég að fara norður á Siglufjörð til að sjá gripinn, áður en ég get slegið nokkru föstu um það.
Minjasafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn
Í Árbæjarsafni (Minjasafni Reykjavíkur) eru tvö langspil, eitt rauðmálað með bogadreginni hlið og hitt blámálað langspil með beinni hlið.
Ábs 28
Þetta langspil kom á safnið árið 1952. Það var í eigu Þorbjargar Bergmann (1875-1952). Þorbjörg safnaði gömlum gripum. Dóttir hennar Hulda Bergmann og eiginmaður hennar Einar Sveinsson afhentu safninu 399 gripi þegar Þorbjörg lést árið 1952. Ekkert er vitað um uppruna langspilsins. Það (stokkurinn) er 86 sm að lengd og rauðmálað. Það er með fætur á kraga og botni og er fóturinn á botninum brotinn.
Þetta fallega og litríka langspil var keypt til safnsins og er sagt vera smíðað eftir skagfirskri eftirmynd. Engar upplýsingar er um smið eða aldur. Gefandi er einnig óþekktur sem og koma langspilsins í safnið, en það var tölvuskráð þar árið 1993 löngu eftir að Lárus Sigurbjörnsson hafði upphaflega skráð það. Engar upplýsingar eru heldur um stærð. Líklega er þetta 20. aldar smíði, sem byggir á eldra hljóðfæri, en engu skal slegið föstu um það enn
Byggðasafn Skagfirðinga, Glaumbæ
Á byggðasafninu í Skagafirði hef ég séð langspil, en aldur þess þekki ég ekki enn. Beðið er eftir upplýsingum frá Byggðasafninu.
Minjasafn Akureyrar
Tvö langspil tilheyra Minjasafni Akureyrar. Eitt í safninu sjálfur og annað í Davíðshúsi, en það langspil tilheyrði Davíð Stefánssyni skáldi. Langspilið í Davíðshúsi virðist mjög fornt. Samkvæmt upplýsingum safnsins er kassinn er 65 sm að lengd og snigillinn 20 sm. Kassinn er 10 x 10 sm neðst en 8,0 x 8,0 sm efst. Þetta hljóðfæri hefur upphaflega verð með 4 strengi, tvo sem strekktir voru efst í sniglinum og tveir styttri sem strekktir voru með stillingarpinnum neðst en festir á höld á kassanum.
Langspilið í sjálfu Minjasafninu er vandaðri smíð en langspilið í Davíðshúsið og líklegra yngra. Það er málað rautt og svart. Kassinn er 63,5 sm og snigillinn 10 sm. Kassinn er 10 x 6 sm neðst og 5,3 x 5.5 efst, mjórri strengjamegin.
Byggðasafn Árnesinga
Í Byggðasafni Árnesingar eru til tvö langspil með safnnúmerin 680 og 1326. Beðið er eftir fyllilegri upplýsingum um þau.
Eitt langspil safnsins ber númerið 1326 og svipar mjög til langspils á Musik/Teatermuseet í Stokkhólmi með safnnúmerið M1890 (sjá neðar).
Byggðasafnið Görðum, Akranesi
Langspilið að Görðum hefur safnnúmer 1959/1077. Litlar sem engar upplýsingar eru til um upphaf og komu þessa langspils í byggðasafnið að Görðum. Aldursgreining þess er því ekki alveg örugg, en út frá lagi og tækni er líklegt að það sé smíðað á seinni hluta 19. aldar.
Mesta lengd: 86 sm; Hæð snigils: 17 sm; Breidd snigils efst: 4,2 sm: Breidd framhlið efst: 5,4 sm; Breidd framhlið við botn: 14 sm; Þykkt hliðar efst: 6,7 sm og neðst 9,1 sm.
Þjóðminjasafn Íslands
Þjóðminjasafnið á þrjú langspil af mismunandi gerðum. Beðið er eftir nánari upplýsingum um hljóðfærin.
Eitt langspila safnsins, sem mjög svipar til hljóðfæris Stephensens fjölskyldunnar á Innra-Hólmi, sem Sir George Steuart Mackenzie fékk og lýsti í bók sinni um Íslandsför sína árið 1811 (hljóðfæri sem nú er kannski að finna í Edinburgh, sjá neðar), er skráð með safnnúmerið Þjms. 635 og upplýst er í aðfangabækur að það hafi verið gefið á Fornminjsafnið af Katrínu Þorvaldsdóttur árið 1868. Það mun vera Katrín Þorvaldsdóttir úr Hrappsey sem var kona Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara. Langspilið er ekki lengur til sýnis í Þjóðminjasafninu, heldur má sjá það í Tónlistarstofu Þjóðmenningarhússins.
Þjms. 635
Danmörk
Musikmuseet, København
Er nú hluti af Þjóðminjasafni Dana - Nationalmuseet.
Í Kaupmannahöfn er að finna fimm merk langspil og eina fiðlu íslenska. Allt mjög merkileg hljóðfæri.
Ljósmyndir: Musikmuseet/Nationalmuseet.
Safnnúmer: D 50
Smiður: Óþekktur; Uppruni: Gefið safninu af Kammerådinde enkefrue Emilie Johnsson (f. Mayer). Sagt er í safnaskrá, að Emilie Johnson hafi verið ættuð frá Íslandi. Langspilið var sent frá Íslandi til South Kensington Museum (Hér er átt við Museum of Musical Instruments) í Lundúnum, en hafnar að óþekktum ástæðum í Kaupmannahöfn; Aldur: Sennilegast miðbik 18. aldar; Lengd: 78,4 sm; Mesta breidd: 13 sm neðst og efst 5,8 sm: Mest þykkt hliðar neðst: 11.8 sm; Mesta þykkt hliðar efst: 8,2 sm; Hljóðop: Í laginu eins og einhvers konar Þórshamrar. Grip: Er úr tré og stillanlegt. Frekari upplýsingar hefur Fornleifur.
Safnnúmer: X 13; Saga: (áður N 117 í Þjóðminjasafni Dana í byrjun 20. aldar; Þar á undan (árið 1891) X 175; Smiður: Óþekktur; Uppruni: Staðarhraun í Mýrarsýslu; Aldur: Sennilegast miðbik 18. aldar; Lengd: 93,3 sm; Mesta breidd: 16,2 sm; Hljóðop: Í laginu eins og einhvers konar Þórshamrar; Grip: Upplýsingar hefur Fornleifur.
Anna Þórhallsdóttir söngkona lét smíða eftirlíkingu af þessu hljóðfæri, sem hún lék á. Eftirlíkingin var gerð um í lok 6. áratugar síðustu aldar af hljóðfærasmið í Kaupmannahöfn.
Safnnúmer: D 68
Mjög ónógar upplýsingar um skráningu og uppruna þessa langspils eru til í safninu. Svo virðist sem þær upplýsingar hafi týnst einhvers staðar frá því að hljóðfærið kom í safnið og þar til að safnvörður skoðar það og dæmir árið 1972. Þetta er tveggja strengja langspil
Efni: "Mahogni" samkvæmt skrásetjara safnsins og er það rangt; Smiður: Óþekktur; ; Uppruni: óþekktur; Aldur: Safnið telur langspilið smíðað um aldamótin 1900 Sennilegra er að hljóðfærið sé frá 19. öld. Langspil D 50 kom á safnið árið 1899 og er því líklegt að langspil D68 hafi komið litlu síðar og miðað við slit, er greinilegt að hljóðfærið er gamalt þegar það kemur á Musikmuseet í Kaupmannahöfn; Lengd: 78 sm; Lengd án snigils: 63,7; Breidd kassa efst: 6,7 sm; Mesta breidd: 18,4.; Þykkt hliða efst 4,9 sm; Þykkt hliða neðst: 5 sm; Hljóðop: Hjartalaga (hjarta á hvolfi); Grip: Upplýsingar hefur Fornleifur; Strengir: 2
D 130
Safnnúmer: D 130
Þriggja strengja hljóðfæri. Efni: Smiður: Óþekktur; Uppruni: Hljóðfærið var keypt af skolebetjent Lyum, Larslejestræde 9 í Kaupmannahöfn, Sjálendingi sem hefur engin sjáanleg tengsl haft við Ísland; Aldur: Sennilegast fyrri hluti 19. aldar; Hljóðop: Hjartalaga; Lengd: 86,1 sm; Mesta breidd: 16,4 sm; Breidd kassa við snigil; 6,5 sm; Þykkt hliða efst og neðst: 5,2 sm: Lengd kassa: 37 sm; Grip: Upplýsingarnar hefur Fornleifur; Strengir: 3.
Safnnúmer: D 165
Efni: Smiður: Óþekktur; Saga: Langspilið var keypt á Det Kgl. Assistenthus, sem var hið opinberlega
danska veðlánahús frá 1688-1974. Langspilið er keypt og kemur á safnið 22/1 1942; Aldur: 19 öld;
Lengd með snigli: 77,5 sm; Lengd kassa: 63,5 sm; Mesta breidd 15,3 sm; mesta breidd við snigil: 6.7 sm; Hljóðop: S-laga: Grip: Upplýsingar hefur Fornleifur.
Svíþjóð
Musik / Teater Museet, Stokkhólmi
Í Stokkhólmi er að finna 3 gömul langspil og eitt sem líklegast er frá 20. öld.
(Ljósm. Hans Skoglund)
Safnnúmer: N35179;
Smiður: Óþekktur; Aldur: Óþekktur, en sennilegast er hljóðfærið frá 19. öld. Langspilið kom árið 1882 á Nordiska Museet i Stokkhólmi; Lengd: 83,5 sm; Strengir: Upphaflega 3.
Safnnúmer: N35180, upphaflega í Norsiska Museet, að láni þaðan;
Smiður: Óþekktur; Aldur: Óþekktur, sennilegast miðbik 19. aldar: Lengd: 97 sm; 3 strengir; Grip: Úr messingvír; Strengir: 3.
N38855 (Ljósm. Hans Skoglund)
Safnnúmer: N38855, Upphaflega komið úr Nordiska Museet. Að láni þaðan;
Smiður: Óþekktur; Aldur: Óþekktur, sennilegast frá fyrri hluta 19. ald; Lengd: upplýsingar vantar; Strengir: Hafa upphaflega verið 3.
Í Musik / Teater Museet í Stokkhólmi er einnig að finna langspil, (M1890), sem búið var til á Íslandi og kom á Nordiska Museet árið 1934. Það er með einn streng (einn stillingarpinna) og hjartalaga hljóðopi. Ég tel mjög líklegt að þessi smíð sé frá 20. öldinni og að hugsanlega séu einhver tengsl á milli þessa hljóðfæris og hljóðfæris nr. 1326 á Byggðasafni Árnesinga (sjá ofar). En allar upplýsingar væru vel þegnar. Sjá hér.
Tækniteikningar af íslensku hljóðfærunum er hægt að kaupa í verslun Musik/Teater Museet.
Skotland
Edinburgh University
Collection of Historic Musical Instruments
Langspilið kom upphaflega í desember árið 1858 á the Edinburgh Museum of Science and Art. Það var upphaflega í eigu R.M Smith í Leith. Upphaflega fékk hljóðfærið og meðfylgjandi bogi safnnúmerin 3385 og 3386. Síðar lánað af Trustees of the National Museum of Scotland (NMS A301.26). Á miða á botninum stendur hins vegar "INDUSTRIAL MUSEUM / of Scotland /No. 301 26".
Hljóðfærið var endurskráð þann 30.8.2011 með þessari lýsingu:
Technical description: Instrument built of pine, the soundboard and back overlapping the ribs by 3mm. There are 4 strings, one bowed and three drones, one of the drones possibly tuned an octave higher, going through a hook in the soundboard 468mm from the nut. The hitchpins are attached to the bottom of the instrument. The tuning pegs go into a scroll, similar to that on a hurdy gurdy, the bowed string peg of stained beech, an unoriginal drone peg of oak. Iron plate on the nut and bridge for the strings to run over. Sound-hole at the widest part of the soundboard, 40 diameter, marks on the soundboard to indicate that the rose was 48mm. Distance of frets to the nut 749, 666.5, 630, 564, 501.5, 473, 420.5, 374, 333.5, 316, 282.5, 252, 238, 211.5, 187.5, 168, 159.5. Repair History: Of
the three tuning-pegs present, one has an ivory button matching those on the scroll; the remaining two are presumably replacements.
Sjá frekar hér.
Verið er að rannsaka í Edinborg, hvort hljóðfærið geti verið sama hljóðfæri og Sir George Steuart Mackenzie fékk að gjöf á Íslandi árið 1810 (sjá hér), og að bæti hafi verið einum streng í það hljóðfæri.
Belgía
Musée des Instruments de Musique/
Muziekinstrumenten-museum
Það er : 4. deild Musées royaux d'Art et d'Histoire, Bruxelles | Koninklijke Musea voor Kunst en
Geschiedenis, Brussel.
1520
Safnnúmer 1520, aldur óþekktur, en langspilið er eldra en 1883, en þá er hljóðfærið komið á safnið í Brussell. Lengd: 88,9 sm.
Langspil þetta er óneitanlega mjög líkt langspili því sem Mayer teiknaði í hlóðaeldhúsinu á Grímsstöðum á Fjöllum árið 1836.
Kanada
Candian Museum of Civilization
Ljósm: © CMC/MCC, 69-62 Canadian Museum of Civilizations
"A 1962 survey by Kenneth Peacock of Icelandic settlement in Manitoba noted only one traditional instrument, the langspil, a narrow rectangular box about a metre long, fitted with two metal strings and frets. This instrument was made shortly after 1900 by a farmer south of Gimli. It is housed in the Canadian Museum of Civilization folk instrument collection." (Sjá hér). Hljóðfærið er tveggja strengja.
Tónlist | Breytt 31.8.2019 kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Stradivarius íslenskra langspila
9.3.2013 | 21:32
Drengurinn á þessari ljósmynd er enginn annar en ritstjóri Fornleifs, Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, dekraður drengur úr vel stæðu raðhúsahverfi í austurhluta Reykjavíkur. Myndin var tekin vorið 1972. Ég er að leika á langspil sem ég smíðaði í skólanum með mikilli hjálp smíðakennara míns, Auðuns H. Einarssonar heitins.
Þessi grein er fyrsti hlutinn í safni upplýsinga um langspilið, sem ég mun setja hér á síðuna svo allir hafi aðgang að þeim upplýsingum.
Hvers konar börn smíða langspil?
Snemma beygðist hugur minn til flest þess sem gamalt er. Eftir því var tekið og drengurinn talinn frekar undarlegur. Hvaða 8 ára barn fer með eintak af gamalli og slitinni skólaútgáfu af Hávamálum upp í Öskjuhlíð í nestistösku sinni, og fer að lesa þau undir heitavatnstönkunum í sólinni án þess að skilja aukatekinn staf? Það gerði ég. Kennarinn tók af mér Hávamál og þetta einkennilega uppátæki kom til umræðu á næsta foreldrafundi. Ég varð snemma, allavega á 7. ári, heimagangur á Þjóðminjasafninu. Þangað fór ég tvisvar, stundum þrisvar í viku yfir vetrarmánuðina og hékk og skoðaði allt og las alla miða og alla bæklinga og ræddi við gömlu gæslukonurnar, sem þótti gaman að tala við þennan fróðleiksfúsa strák, sem hafði Kristján Eldjárn í guða tölu. Gæslukonurnar á Þjóðminjasafninu, sem sumar hverjar voru ævafornar, urðu verndarenglar Fornleifs.
Einn þeirra, sem tók eftir því hve undarlegur þessi drengur var, var smíðakennarinn minn í barnaskóla, sá ágæti maður Auðun H. Einarsson (1941-2009) en honum og minningu hans er þessi grein tileinkuð. Auðun kenndi mér smíði í Æfinga- og tilraunadeild Kennaraskóla Íslands, sem í dag heitir Háteigsskóli. Þar kenndi Auðunn mér smíði frá haustinu 1969 til barnaprófs árið 1973. Auðun, sem margir þekkja fyrir smíðakennarastörf sín og vandaða smíðavinnu, sem og torfbæjabyggingar, var líka áhugamaður um allt fornt og sögu Íslands. Þar að auki var hann með hagari mönnum á Íslandi. Betri smíðakennara og smið gat maður ekki fundið.
Hin listagóða ljósmynd af Auðuni hér fyrir ofan er birt með leyfi fjölskyldu hans.
Gert upp á milli nemenda
Þótt að Auðun væri frábær kennari, varð honum einu sinni á í messunni. Hann gerði upp á milli drengjanna og bauð mér einum að smíða langspil og ekki öðrum. Líklega var það vegna þess að hann taldi mig geta valdið verkefninu. Hann þekkti hinn mikla forneskjuáhuga og teiknihæfileika, og hafði þar fyrir utan heyrt mig tala um langspil af miklum móð. Hann reyndi að haga því þannig til, að ég ynni eitthvað að verkefninu í skólanum, stundum á eftir tímum, en mest heima. Ég fór líka heim til hans vestur í bæ um helgar, þar sem hann var með lítinn bílskúr sem var fullur af smíðaefni.
Vitanlega hjálpaði Auðun mér mikið með smíðina á langspilinu. Hann treysti mér samt fyrir óhemjumiklu og það gerði þetta smíðaverkefni okkar afar ánægjulegt. En þetta skapaði auðvitað einnig öfund meðal sumra skólafélaganna. Einn bekkjafélaga minna, sem í dag er lögfræðingur, reyndi meira að segja að koma langspilinu fyrir kattarnef, þegar það var að mestu klárað.
Ég fór á Þjóðminjasafnið og fékk þar með leyfi þjóðminjavarðar að mæla langspil með bogadregnum hljómkassa sem þar var varðveitt og sem hefur safnnúmerið Þjms. 635. Ég fór í eitt skipti á safnið með bekkjafélaga mínum Eggert Pálssyni, sem nú er páku- og slagverkmeistari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það var fyrsta eiginlega rannsóknarferð mín í fræðunum.
Ég hafði einnig samband við Önnu Þórhallsdóttur söngkonu sem lengið hafði reynt að efla áhugann á langspilinu og það gladdi hana, að heyra að strákpjakkur í barnaskóla væri að smíða sér slíkt hljóðfæri og ætlaði að leika eftir henni listina. Sjálf hafði hún látið smíða fyrir sig langspil eftir hljóðfæri frá 18. öld sem varðveitt er á Musikmuseet í Kaupmannahöfn (sem nú er hluti af Þjóðminjasafni Dana). Oft var Anna látin kyrja með sinni hástemmdu rödd og strjúka strengi langspilsins rétt fyrir hádegisfréttir í útvarpinu hér á árum áður. Ég mun brátt gefa lesendum mínum hljóðdæmi af hennar list.
Ég mældi lengd og bil milli þverbandanna á gripbrettinu. Límingar, sögun, heflun og pússun hliðanna í hljómkassanum sá ég alfarið um, en Auðun hjálpaði náttúrulega með að líma saman gott tré í snigilinn og skera hann út, skeyta saman og líma allt hljóðfærið. Eins og í fiðlu og gítar var hornlisti límdur til styrktar í innanverðum langspilskassanum. Auðuni og að útvega mahóní í gripbrettið. Ég náði í íbenholt fyrir lyklana (sem sumir kalla skrúfur eða stillingarpinna) og raspaði þá, þjalaði og pússaði eftir að Auðun hafði rennt sívalningana sem fara inn í snigilinn. Ég sá svo um lökkun og pússun. Eitt af því skemmtilegasta við þetta verkefnið, fyrir utan að heyra hljóminn þegar strengirnir voru komnir í, var að beygja eina hliðina. Það gerðum við heima hjá Auðuni yfir tvær helgar. Hliðin var mýkt með gufu og sett í koparklædda pressu sem Auðun hafði smíðað. Hliðin var svo lögð í pressu til að fá lags sitt.
»Eins og mjúkt selló«
Þegar langspilið mitt var tilbúið, fór ég með móður minni í hljóðfæraverslunina RÁN og keypti ýmsa strengi til að reyna í langspilið. Ég man þegar ég hrindi í Auðun til að láta hann heyra í gegnum símann hvernig hljóðfærið hljómaði. Auðun varð hinn ánægðasti og sagði kátur, »þetta hljómar eins og mjúkt selló«. Síðar fékk hann að heyra betur í hljóðfærinu.
Ég lék við tækifæri á langspilið, með fingrum og boga sem ég fékk að láni, en þó mest fyrir sjálfan mig. Ég spilaði þjóðlög og miðaldasmelli eftir eyranu en sjaldan fyrir áheyrendur. Hljómurinn í langspilinu var fallegur og dýpri og þýðari en í langspilinu á Þjóðminjasafninu sem var fyrirmyndin. Mér fannst sjálfum betra að heyra tóninn í mínu langspili en t.d. því sem Anna heitin Þórhallsdóttir spilaði öðru hvoru á í útvarpið. En það hljóðfæri var líka með bogadregnum kassa og var gert eftir hljóðfæri sem var frá 18. öld og sem nú er varðveitt á Musikmuseet í Kaupmannahöfn.
Svo varð maður eldri og það var ekki beint í lagi að vera kvæðamaður og sólisti á langspil í Menntaskólanum í Hamrahlíð, þar sem allir voru annað hvort að dansa í takt við Travolta eða Þursaflokkinn. Ég fór svo árið 1980 erlendis til náms og langspilið góða hékk áfram á veggnum í gamla herberginu mínu, þar sem það hangir enn móður minni til augnayndis. Engin tónlist hefur því miður komið úr langspilinu í langan tíma. Úr þessu ætla ég að bæta við fyrsta tækifæri og stend nú í að semja fornleifafræðingarímur og McGoverns-bálk um skálmöld í íslenskri fornleifafræði, sem henta örugglega vel i flutningi við undirleik mjúks sellós.
David G. Woods finnur besta hljóðfærið
Árið 1981 dvaldist á Íslandi bandarískur sérfræðingur í tónmennt, David G. Woods. Á Fullbright-styrk rannsakaði hann íslenska langspilið og íslensku fiðluna, sögu þessara hljóðfæra og eiginleika. Hann rannsakið þau langspil forn sem hann hafði spurnir af og fékk sér til hjálpar ýmsa menn sem þekktu til hljóðfærisins og gátu smíðað það. Þeirra á meðal var heiðursmaðurinn Njáll Sigurðsson sem kennt hafði mér um tíma í Barnamúsíkskólanum þegar hann var nýkominn úr námi (og sem líklegast smitaði mig upphaflega af langspils-bakteríunni), og Auðun H. Einarsson sem tók Woods í smíðatíma.
Woods, sem síðar varð m.a. prófessor við háskólann í Connecticut í Bandaríkjunum lét smíða nokkur hljóðfæri, sem ég mun sýna ykkur síðar þegar hann er búinn að senda mér myndir. Þau voru smíðuð með gömul hljóðfæri að fyrirmynd. Auðun smíðaði eintak af því hljóðfæri sem ég mældi upp á Þjóðminjasafninu (þótt það hafi ekki að lokum orðið alveg eins).
Meira en áratug eftir dvöl Woods á Íslandi kom út frekar stutt grein eftir hann í Árbók hins islenzka Fornleifafélags árið 1993 sem Njáll Sigurðsson hafði þýtt. Árið 1993 hóf ég störf á þjóðminjasafninu og þá ræddi ég einmitt við Auðun um þessa grein dr. Woods. Woods greinir frá langspilsgerð, sem var að sögn Auðuns smíðuð eftir móti Auðuns og teikningu minni. Sú eftirlíking á hljóðfærinu (Þjms. 635) á Þjóðminjasafni reyndist samkvæmt tónmenntafræðingnum Woods vera það langspil sem hefði fegurstan tóninn.
Nýlega skrifaði ég prófessor emerítus David G. Woods í Connecticut tölvupóst og sagði honum frá fyrsta langspilinu með bogadreginn kassa sem Auðunn og ég smíðuðum eftir Þjms. 635. þessa góða langspils sem honum líkaði betur en mörg önnur. Þetta "Stradivaríus íslenkra langspila" var ekkert annað en samstarfsverkefni mitt og meistara Auðuns H. Einarssonar.
Woods greindi einnig frá því í grein sinni í Árbók Fornleifafélagsins, að gerður hafði verið pakki fyrir kennslu í smíði langspila. Því miður hef ég ekki séð þessi gögn og þætti vænt um ef einhver gæti útvegað mér þau.
Auðun kenndi fleiri börnum að smíða langspil
Ekki get ég útilokað að Auðun hafi smíðað langspil með öðrum nemanda áður en hann leyfði mér að smíða mitt hljóðfæri. En ef svo var, var það hljóðfæri ekki með bogadregnum hljómkassa. Tíu árum eftir að ég smíðaði mitt hljóðfæri með Auðuni, kenndi hann 14-15 ára krökkum að smíða ýmis konar hljóðfæri. Kennslan fór fram í kvöldtímum í Tónmenntaskóla Reykjavíkur við Lindargötu.
Á myndinni, sem birtist í Þjóðviljanum sáluga vorið 1982, má sjá fólk sem síðar hafa orðið þekktir tónlistarmenn og á sviði stærðfræði. Á þessu námskeiði ungra hljóðfærasmiða var til að mynda Jóhann Friðgeir Valdimarsson, síðar söngvari, og Katarína Óladóttir fiðluleikari, en í þessum hópi var einnig mjög svo efnilegt fólk sem því miður féll allt of snemma frá af ýmsum ástæðum, líkt og Auðun, sem snemma varð Alzheimer sjúkdómnum að bráð. Blessuð sé minning þess völundarsmiðs.
Í þarnæstu færslu skal sagt frá ýmsum þeim
heimildum sem til eru um
langspilið fyrir
aldamótin
1900
Tónlist | Breytt 3.2.2021 kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)