Færsluflokkur: Sagnfræði

Samsætið á Mjóna var hjá Mini - ef það var þar

a_porta.jpg

Um daginn frétti ég af áhugaverðri grein í Morgunblaðinu um fund 32 Íslendinga með Joseph Paul Gaimard lækni, sem m.a. er þekktur fyrir stórverk sitt um Ísland. Nú er ég búinn að verða mér út um þessa góðu grein í Helgarmogganum, en hún er eftir vin minn Guðmund Magnússon sagnfræðing, blaðamann m.m.

Hinir 32 Íslendingar héldu samsætið fyrir Gaimard. Þetta gerðist þann 16. janúar árið 1839. Grein Guðmundar er mjög áhugaverð, en eitt skyggir á til þess að ég geti leyft mér að kalla hana frábæra:

Á upphafssíðu greinarinnar er mynd af veitingastaðnum Café a Porta eins og hann leit út fyrir nokkrum árum (sjá efst). Guðmundur heldur því fram (eða er með vangaveltur um) að samsætið hafi verið haldið á Café a Porta, en það fær ekki staðist. Undir myndinni upplýsir Guðmundur:

"Veitingastaðurinn Cafe a Porta í Kaupmannahöfn. Íslendingar sóttu hann mikið á 19. öld og kölluðu þá staðinn mjóna. Ekki er kunnugt hvar samsætið til heiðurs Gaimard var haldið 1839, en vel má vera að það hafi verið þarna"

Rangfærsla um samsæti

Þarna var samsætið fyrir Gaimard ekki, því innréttingin er í Jugendstíl og þar að auki í húsi sem ekki var byggt fyrr en árið 1857.

Saga Café a Porta og þess staðar, sem Íslendingar kölluð Mjóna, eða réttara sagt hjá Mjóna er þessi:

Árið 1792 opnaði Svisslendingur, Johan Soltani að nafni, kaffihús í gömlu húsi á horni Lille Kongensgade 1-3 og Kongens Nytorv 17. Þetta var tvílyft hús líklega frá fyrri hluta 18. aldar. Það er húsið, þar sem sem Íslendingarnir héldu Gaimard samsæti árið 1839. Þegar þeir gerðu það var húsið í eigu Jacobs Minis eldra, sem einnig var ættaður frá Sviss. Hann kallaði kaffihúsið Kaffehus for galante Folk, þ.e.a.s. kaffihús fyrir fólk eins og mig og Guðmund Mangnússon, eða þá sem rumpulýðurinn kalla Latte lepjandi 101 lið. En venjulega var staðurinn kenndur við Mini.

Nafnið Mjóni er greinilega dregið af nafni Jabobs Minis (Mini/Mjóni). Sonur Minis, Jacob Mini yngri, var einnig mjög þekktur í kaffihúsa- og veitingastaðabransanum í Kaupmannahöfn um miðbik 19. aldar og stofnaði m.a. hinn þekkta stað Divan í Tivoli, Síðar stóð fjölskyldan í innflutningi á líkjörum og víni.

Viðbót 7.5.2015: Jacob Mini var ítalskrar ættar og kom frá Graubünden í Sviss. Hann opnaði Kaffehus for Galante Folk. Árið 1802 opnaði í sama húsi Svissneskt kaffihús (Schweizercafé) sem rekið var af Geremia Mini (sem líklegast var ættingi Jacobs Minis en hugsanlega sami maður og Jacob), Lorenzo Gianelli, Tomaso Lardelli og Carlo Palmani. Geremia Mini rak staðinn síðastur, áður en hann var seldur Stephan a Porta (Viðbótar upplýsingar frá Københavns Museum). Samkvæmt annarri heimild áreiðanlegri kölluðu Íslendingar Jacob Mini Mjóna, og Gianelli kölluðu þeir Njál. Á 18. og 19. öld var retorómanska algengasta tungumálið í Graubünden, alpakantónunni sem Mjóni og félagar komu frá. Kantónan heitir á heitir Grischun á retórómönsku og upp á ítölsku Grigioni, sem úttalast næstum því eins og Grísajóni.

Löngu eftir samsæti Íslendinga fyrir Gaimard árið 1839, eða árið 1857, opnaði annar Svisslendingur, Stephan A Porta, kaffihús og kökuhús (Konditori) á sama stað og Mini eldri hafði veitt heiðursfólki þjónustu sína.

Það vakti mikla athygli þegar A Porta opnaði og dagblaðið Fædrelandet skrifaði:

"Endelig har hovedstaden fået en Café så smagfuld og rigt udstyret, at den ikke behøver stå tilbage for de eleganteste i Europa."

A Porta keypti kaffihús "Mjóna" og lét umsvifalaust rífa bygginguna og byggði stórt múrteinshús sem enn stendur.

Salur sá sem Guðmunur birtir mynd af er hins vegar ekki innréttaður fyrr en á 20. öld og er í Júgendstíl. (Viðbót: Frekari vefrannsókn leiddi í ljós, að McDoanld nauðgaði jugend-innréttingunni).

Var það svo hjá Mjóna, að fundurinn var haldinn? Það vitum við ekki með vissu. En miðað við hve rómaður sá staður var meðal Íslendinga, þá er það alls ekki ólíklegt, og held ég að Guðmundur Magnússon sé ekki fjarri sannleikanum hvað það varðar.

mcdoni_a_kgs_nytorv.jpg

McDóni við Kgs. Nytorv er nú enginn Mjóni.

Mjóni verður að borgarabúllu

Nú heitir staðurinn McDonald. Mikil mótmæli urðu fyrir ca. 3-4 árum, þegar að það fréttist að Café a Porta eða Porta sem staðurinn hét þá ætti að víkja fyrir McDonald. McDonald frændi gerðist mjög menningarlegur og gaf út þetta rit í tilefni af ómenningalegum hryðjuverkaáformum sínum á Kongens Nytorv. Ekki borða ég oft á McDonalds og hef ekki komið á þennan stað til að athuga hvort Jugendstíll ræður þar ríkjum eða einhver lágkultúrleg plastinnrétting frá villimannþjóðfélaginu í Vestri.

Það verður ljótt, þegar þeir fornvinirnir Guðmundur Magnússon og Ögmundur Skarphéðinsson bókasafnari biðja um að fá skilti á McDonalds til að minnast fundar 32 Íslendinga með Gaimard. I wouldn´t be loving it. Þeir Guðmundur og Ögmundur mega heldur ekki við því að fá sér borgara á þessum stað. En þeir gætu yfir kaffitári og salati látið hugann reika aftur til hrákalds janúardags árið 1839, þegar aðrir menningarlegir Íslendingar sátu í öðru húsi, hugsanlega á sama stað, og drukku kaffi og borðuðu flan með Monsieur Joseph Paul Gaimard. Ég kem og fæ mér Mjónu-borgara þeim til samlætis.

Hvað hefðu Jónas og Jón gert?

Ekki er ég viss um að Jónas Hall eða Jón Sigurðsson þæðu að samsætast okkur á McDóna. En stutt er yfir á Hvids Vinstue þegar viðskiptum við ameríska bautabóndann er lokið. Við mætum þar allir í bláum tvíhnepptum rykfrökkum með gyllta hnappa.

Viðbót 1. desember 2019 - Samsætið var á Ferrini!

Vangaveltur Guðmundar Magnússonar um að samsætið hafi verið á Mjóna (kaffihúsi Mini), eiga alls ekki við rök að styðjast, líkt og mig grunaði er ég rýndi í grein hans. Í nýrri bók Árna Snævarr um Gaimard, sem bert titilinn Maðurinn sem Ísland elskaði, er gátan leyst. Árni sýnir fram á að samsætið hafi verið á Ferrini. Og það er allt annar handleggur.
 
Mini, sem eftir 1857 var orðið að enn fínna kaffi- og kökuhúsi og þá kallað Cafe a Porta (þá var eigandi Stefano Porta), var til húsa á Kongens Nytorv 17, en Ferrini var til húsa á Kongens Nytorv 5. Eigandinn þar var sonur skóara sem settist að í Kaupmannahöfn á 19. öld. Hann var að öllum líkindum ekki Ítali, þrátt fyrir suðrænt nafnið.
 
Ég sé á Mediastream-Aviser, þar sem menn geta lesið gömul dönsk dagblöð, að samsætið til heiðurs Gaimard er tengt við Ferrini eins og Árni Snævarr segir réttilega í bók sinni. Hann bætir við að restaurant Ferrini hafi verið á Slotsholmen en það er hins vegar leið villa sem er ættuð úr bók eftir Pál Valsson. Á Slotsholmen voru engar krár að því er ég best veit. Á Ferrini var H.C. Andersen fastagestur. McDonalds var sem betur fer ekki til í þá daga. H.C. hefði hlaupið í spik og aldrei skrifað neitt almennilegt.

 


Gyðingarnir í Glückstadt og Íslandsverslunin

imgp6687_b.jpg

Í októbermánuði síðastliðnum (2014) fór ég í stutta reisu suður til Þýskalands. Það land er vissulega ekki í uppáhaldi hjá mér til ferðalaga, fyrir utan að ég dvelst oft með ánægju í Berlín með konu minni og börnum. En í október var ég í rannsóknarferð sem lengi hafði verið í bígerð. Á heimleiðinni að loknu aðalverkefninu ók ég til bæjarins Glückstadt á Holtsetalandi til að sjá þá gömlu dönsku borg, sem alls ekki ætti að vera í eigu Þjóðverja - að mínu mati. Glückstadt er ekki ýkja gömul borg. Hún var stofnuð á valdatíma Kristjáns 4. Danakonungs. Árið 2017 verður því haldið upp á 400 ára afmæli borgarinnar.

imgp6769_b.jpg

Ég kom m.a. við í bænum Glückstadt til að skoða söguslóðir Hallgríms Péturssonar, sem vann þar í smiðju er Brynjólfur biskup kom við forðum og heyrði Hallgrím ragna vinnuveitanda sínum. Hugsanlega var vinnuveitandinn Det Islandske Kompagni, en útibú þess var stofnað i Glückstadt árið 1619. Hallgrímur gæti þó einnig hafa unnið hjá einhverjum hinna gyðingalegu þegna í bænum. Hjá mönnum sem einnig tóku þátt í Íslandsversluninni. Bara ef maður vissi, hver var atvinnuveitandi blótsama sálmskáldsins.

giesshaus_gluckstadt.jpg

Gießhaus í Glückstadt forðum og nú.

imgp6714.jpg

Brynjólfur biskup kom eins og kunnugt er Hallgrími Péturssyni til náms við Frúarskóla í Kaupmannahöfn, náms sem hann aldrei lauk, eins og siður margra Íslendinga var vegna fátæktar og stundum óreglu. Hálf menntun var ávallt vænlegri til embætta og metorða á Íslandi eins og allir vita, og er enn.

imgp6672_b_guckstadt_2014.jpg

Ég kom einnig við í Glückstadt til að skoða bæinn sem Kristján IV Danakonungur stofnaði árið 1617. Hann bauð gyðingum fríhöfn þar í von um að það myndi verða viðskiptalífinu til gangs og efnahag Danmerkur til framdráttar.

Maður, líklega gyðingur, málaður á verkstæði Rembrandts líklega af nemanda hans Govært Flinck

Í Glückstadt bjuggu í fyrstu fjölmargir gyðingar af portúgölskum, frönskum ítölskum ættum, sem komu frá Hollandi, Hamborg og Selé í Marokkó, en upprunalega frá Portúgal eftir að gyðingar voru hraktir þaðan á 15. og 16. öld. Leiðir þeirra lágu eftir það um Norður-Afríku, S-Frakklands eða t.d. til Livorno (Leghorn) á Ítalíu, Jafnvel til Tyrklands, Palestínu og allt austur til Indlands. Þeir og afkomendur þeirra tilheyrðu þjóðinni sem Hallgrímur, í anda samtíma síns, hataðist svo mikið út í í höfuðverki sínu, Passíusálmunum. Sálmum, sem enn eru í miklum metum hjá Íslendingum, jafnvel hjá trúlausum þingmönnum lengst til vinstri, sem þykir heiður af því að fá að standa við grátur í kirkju og þylja sálma Hallgríms sem eru uppfullir af fordómum 17. aldar. Þessi vinstri menn í trúarfári 17. aldar bera líklega við tjáningarfrelsinu til varnar þessu undarlegu óeðli sínu, sem ég leyfi mér nú einfaldlega að kalla gyðingahatur til vinstri.

rembrandtwoburn.jpg

Sérfræðingar í Hallgrími Péturssyni við heimalningaakademíu Íslands (HÍ) hafa löngum ruglað Glückstadt við Glücksburg-kastala, sem er allt annar staður á hinu gamla Suður-Jótlandi (Slésvík). Hefur Glückstadt þannig verið kölluðu Lukkuborg í ritum þessara "sérfræðinga". Mér þótti því orðið tímabært að heimsækja hinn rétta bæ, þar sem Hallgrímur ól manninn og bölvaði mönnum í sand og ösku.

Efri myndin af gyðingunum frá Hollandi er eftir  nemanda Rembrandts, Govaert Flinck, en gamli rabbíinn sem hangir á herrasetri á Englandi fékk Rambrandtsfullgyldingu árið 2012.

imgp6655_1253033.jpg

AQUI REPOVZA
O EXELENTISSIMO VARAO
DOVTOR DANIEL NACHIMIAS
CVIA BENDITTA ALMA GOZA
DIANTE SEV CRIADOR
O FRVTO DE SVAS OBRAS
FALESEV EM SEST FEIRA
5 DE ROSHEDES ADAR
ANNO 5419

GRAFSTEINN DOKTORs DANIEL NACHMIAS
SEM DÓ FÖSTUDAGINN 5. ROSHODES ADAR ÁRIÐ 5419
(28. FEBRÚAR 1659)

imgp6650_b.jpg

Ég heiðraði minningu gyðinga Glückstadts með því að heimsækja grafreit þeirra í bænum. sem fyrir tilviljanir og hreina heppni voru ekki eyðilagðir í síðari heimsstyrjöld.

Því miður vantar mig enn heimildir um veru Hallgríms í Glückstadt. Til málamynda heimsótti ég það hús sem hýsti hina konunglegu smiðju, sem reist var eftir að Hallgrímur var farinn frá Glückstadt. Hún hefur væntanlega, að sögn fróðra manna, ekki staðið fjarri þeim stað þar er eldri smiðjan hafði verið. Bölvaði ég og ragnaði Hallgrími Péturssyni til heiðurs og þók mynd af húsinu sem hefur veri afmyndað af einhverjum lélegum arkitekt á 20. öld.

privilegia_1633b.jpg

Prentsmiðja var strax stofnuð í Glückstadt, og þetta leyfisbréf gyðinga í bænum var prentað í henni. Prentsmiðja er enn á sama stað í bænum og heimsótti ég hana og segi kannski frá henni bráðlega.

Eftir að gyðingum hafði verið boðið að setjast að í Glückstadt var útibú af Det Islandske Handelskompagni einnig stofnsett í bænum. Það var félag einokunarkaupmanna á Íslandi, sem upphaflega hafði aðeins stundað útgerð frá Kaupmannahöfn og í Helsingjaeyri (Helsingør). Á fyrri hluti 17. aldar naut íslenska verslunarfélagið m.a. góðs af skipakosti aðfluttra gyðinga í Glückstadt til Íslandssiglinga. Meðan Kristján IV mátti ekki vera að því að sinna þegnum sínum á Íslandi sáu gyðingar Glückstadts Íslenska Verslunarfélaginu fyrir skipum til þess að Íslenska þjóðin gæti fengið nauðsynjar. Íslandskompaníið hefur verið ásakað fyrir margt illt, en á stundum var þetta einokunarfyrirtæki hins vegar þess valdandi að hægt var að halda lífi í Íslendingum og tryggja nauðsynlegar vörusendingar til landsins. Ástæðan til þess að Brynjólfur biskup kom við í Glückstadt var vitanlega aðeins vegna þess að vorskipin sigldu til bæjar í danska konungsríkinu, þar sem mest gróska var í Íslandsversluninni. Ætli Hallgrímur hafi ekki einnig starfað þar í bæ vegna Íslandsverslunarinnar?

Myndirnar af legsteinum í grafreit gyðinga í Glückstadt tók höfundur.

Steinninn efst sýnir skjöld á legstein Moses de Joshua Henriques sem andaðist árið 1716. Myndin sýnir, hvar Móses laust stafnum og fram spratt lind úr kletti*: steinninn hér fyrir neðan er steinn konu hans sem hét Hava, þ.e. Eva, Henríques. Hún andaðist árið 1694. Myndmálið vísar einnig greinilega til fornafns hennar.

Í garðinum voru einnig steinar einstaklinga af ættinni Coronel, sem tengist inn í ættir forfeðra minna í Hollandi.

imgp6690_b.jpg

*Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka. Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: "Gef oss vatn að drekka!" En Móse sagði við þá: "Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?" Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: "Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?" Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: "Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig." En Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað. Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka." Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: "Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?"


Gamlar kvikmyndir: Flugsaga

faxi.jpg

Danir líta á þennan kvikmyndabút, sem lýsir flugvélakosti Íslendinga árið 1958, sem danskan menningararf. Kannski hefur skrásetjari ekki frétt af sambands- slitum ríkjanna og stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944.

ar-120529658.jpg

Myndbúturinn, sem hægt er að sjá hér, var tekinn af Frank Poulsen og er úr safni DR (Danmarks Radio). Hugsanlega hefur þessi mynd verið sýnd í danska sjónvarpinu.

Frábært er að sjá lendingu Catalinu flugbátsins TF-Skýfaxa á Skutulsfirði og farþega að fara um borð á Gunnfaxa TF-ISB, DC-3 flugvél FÍ á Egilsstöðum. Það er ekki langt síðan þetta var, en samt virkar þetta eins og svipmynd aftan úr fornöld.

faxi_3.jpg

Stoltur faðir gengur um borð á Reykjavíkurflugvelli, og efst má sjá farþegum hjálpað í bát sem sigldi með þá í land á Ísafirði.

Takið eftir að blessaður Mogginn var helsta róandi meðalið um borð líkt og í dag. En hvað var fólk að lesa? Greinilegt er að þetta var í miðju þorskastríðinu árið 1958. Þegar Íslendingar hótuðu t.d. að fara úr NATO og fengu styrki frá Moskvu. Ugglaust hafa blaðamenn frá Danmarks Radio verið sendir til að fylgjast með málinu. faxi4.jpg

Maðurinn hér á myndinni til hægri er að lesa Morgunblaðið þann 26. nóvember 1958, þegar landhelgismálið var í algleymingi. Bretar voru auðvitað ósvífnir og ruddalegir að vanda.

Fyrirsögnin var svo eftir því í Mogganum: "Afsýra verður voðanum að ofbeldi Breta".

faxi2.jpgMisfínir karlar fljúga frá Egilsstöðum.


Meira um Gunnar Gunnarsson í Þýskalandi

reichenber_a_lille_bb_1254254.jpg

Ekki á eg einungis í fórum mínum gamlar (nasista)myndir af Gunnari Gunnarssyni hjá Hitler og að halda fyrirlestra á nasistasamkomum i Þýskalandi. Það eru myndir sem sumir menn þola víst ekki að sjá.

Ég á líka rituð gögn í fórum mínu, sem þeir sem hafa hreinsað nasismastimpilinn af Gunnari hafa ekki haft rænu eða jafnvel vitsmuni til að finna er þeir skrifuðu stórverk sín um skáldið eða gáfu honum syndaaflausnarvottorð sín.

gunnar_koenigsberg_1_a_lille_1254233.jpg

Dönsk yfirvöld höfðu miklar áhyggjur af samskiptum Gunnars við Þriðja ríkið og var fylgst grannt með honum. Konsúlar sendu upplýsingar um ferðir Gunnars í Þýskalandi til sendiráðsins í Berlín og utanríkisráðuneytisins í Kaupmannahöfn.

Herluf Zahle sendiherra Dana í Berlín, sem ekki kallaði allt ömmu sína í samskiptum við nasista, var þó ekki hrifinn af fyrirlestrum Gunnars hjá Nordische Gesellshaft í ársbyrjun 1940. Þó Zahle hafi oft verið ásakaður um veikgeðja afstöðu til nasista, þá var hann alfarið á móti gyðingahatri þeirra - svona oftast.

Vegna þess vildi hann ekki heiðra Gunnar Gunnarsson, fimmtudaginn 1. febrúar 1940, þegar Gunnar hélt fyrirlestur í Berlín. Hann tók fram í bréfi til Utanríkisráðuneytisins í Kaupmannahöfn, að hann myndi ekki mæta á fyrirlestur Gunnars, vegna þeirrar stjórnmálalegu starfsemi sem Nordische Gesellschaft var farin að sýna í ritum sínum. Þetta ætlaði hann að tilkynna Gunnari við hádegisverð í sendiráðinu áður en Gunnar átti að halda fyrirlesturinn.

Zahle skrifaði:

     Herved tillader jeg mig at indberette, at den islandske Digter Gunnar Gunnarsson í Morgen Torsdag paa Foranstaltning af Nordische Gesellschaft holder Oplæsning her i Berlin og derefter vistnok i en Række tyske Byer. Jeg giver ikke personligt Møde for paa denne Maade overfor Nordische Gesellschaft at antyde, at jeg ikke er indforstaaet med den politiske Virksomhed, det i den senere Tid har indaugureret i sine Tryksager, Gesandtskabet vil blive repræsenteret af en af sine Medarbejdere. Jeg skal forklare Hr. Gunnarsson, der spiser Lunch paa Gesandtskabet i Morgen, dette.  (Sjá frumheimild hér).

zahle_um_gunnar.jpg

Gunnar hélt ótrauður áfram fyrirlestrarferð sinni og heimsótti loks Hitler í óþökk Dana. Þó Danir vildu heldur ekki gyðinga, líkt og Hermann Jónasson og Co, vildu þeir ekki umgangast gyðingahatara. Það gerði Gunnar. Hann var í félagsskap þeirra í samtökum sem Himmler og Alfred Rosenberg vernduðu. Svo segja menn að hann hafi ekki verið nasisti, heldur saklaus sauðbóndi uppi á Íslandi og að menn þurfi að drepa til að kallast nasistar.

Mikla furðu mína vekur sú aðferðafræði sumra íslenskra ævisöguritara Gunnars, að taka barnabörn og jafnvel barnabarnabörn hans gild sem heimildamenn um forföður þeirra, en sneiða síðan hjá samtímaheimildum.

Barnabarnabarn Gunnars hefur t.d. upplýst að afi hans hafi verið í danska heimavarnarliðinu. Það er út í hött. Hann (Gunnar Björn Gunnarsson) hefur einnig haldið því fram að Hitler hafi æst sig við Gunnar á fundi þeirra vegna meintra ummæla Gunnars um Finnland. En hvað sagði Gunnar sjálfur?. Í Fálkanum var föstudaginn 19. apríl 1940  viðtalsgrein við Gunnar um Þýskalandsför hans:

Nú fer jeg að fara í kringum það við Gunnar, að marga langi til að forvitnast eitthvað um fundi hans og Hitlers ríkiskanslara.

Gunnar brosir við.

- Jæja, einmitt það. Annars hefi jeg svo sem ekki margt að segja um það.gunnar_gunnarsson_meets_hitler_detail.jpg

- Þið hafið væntanlega eitthvað minnst á íslensk efni.

- Já, meðan annars sagði jeg Hitler frá því, að nú væru 37 ár liðin síðan íslenskur bóndi bar fram á Alþingi frumvarp um þegnskylduvinnu. En ekki var Hitler kunnugt um það. Kvaðst hann hafa fengið ýmsar hugmyndir að þýsku þegnskyldunni frá Búlgaríu.

- Hefir Hitler ekki mikinn persónulegan kraft til að bera, eða sýndist yður hann vera þreytulegur?

-Kringum slíka menn er auðvitað aflsvið. - Nei hann sýndist ekki vera þreyttur. En hann sagðist ekki hafa búist við stríði. Hefði hann verið byrjaður á mörgum stórvirkjum víðsvegar um landið, en nú yrði þau að bíða vegna ófriðarins. Hitler sagðist í raun rjettri ekki mega vera að því að standa í stríð, hann væri orðinn fimmtugur og hefði nógum öðrum störfum að sinna." (Sjá hér)

Gunnar var sem sagt nasisti. Það er enginn ástæða að fara ofan af þeirri skoðun minni og það er sæmd að láta ritskoða sig af glansmyndasöfnurunum á fasbókinni Gamlar Ljósmyndir fyrir að vera á þeirri skoðun. Gunnar vildi ræða um þrælslund sumra Íslendinga og þegnskylduvinnuhugmyndir Hermanns Jónassonar frá Þingeyrum, sem aldrei urðu að neinu eftir að Páll J. Árdal (1857-1930) orti svo glæsilega, og hjálpaði vísa hans í þjóðaratkvæðagreiðslu um máli árið 1916. Hitler sótti hugmyndir um þegnskylduvinnu til Búlgaríu en Gunnar var greinilega hallur undir slíkar fasískar hugmyndir:

Ó, hve margur yrði sæll
og elska mundi landið heitt,
mætti hann vera í mánuð þræll
og moka skít fyrir ekki neitt.

.


Þjóðum líka þínir haukar (1. hluti)

tapet_3_1250642.jpg

Allvaldr, dýrkask út með Serkjum
innan lands af mildi þinni.
Þjóðum líka þínir haukar
þaðra allt með Blálands jaðri.
Víða hrjóta veglig mæti
vægðarlaust af yðrum frægðum.
Hollar prýða heiminn allan
hnossir þínar, mærðar tínir.

Þannig orti Sturla Þórðarson (1214-1284) lögsögumaður og skáld mjög fleðulega í hrynhendu sinni til Hákons konung gamla Hákonarson (1204-1263). Hans bestu haukar voru íslenskir og gaf Hákon einnig öðrum konungum Íslandsfálka í tækifærisgjafir, jafnvel sultaninum í Túnis á Blálandi (Afríku). Íslenskir fálkar þóttu fyrir utan að vera einstaklega góðir veiðifálkar (geirfálkar) og bera af í fegurð.

tapet_2.jpg

Íslandsfálkinn, (einnig nefndur valur, geirfálki, fjörsungur, forseti og gollungur), er annálaður fugl. Við þekkjum hann öll af gömlu skjaldamerki Íslands, af fálkaorðunni, og hugleikinn er hann ákveðnum stjórnmálasamtökum, knattspyrnuliði , sem og þjófum sem stundað hafa eggjatöku á Íslandi um langan aldur.

 

Íslandsfálkinn (Falco rusticolus islandicus) er ein deilitegund fálka, náskyldur hvítfálkanum (Falco rusticolus candidans), sem m.a. verpir á Grænlandi en á stundum á Íslandi, þar sem hann hefur blandað geði við íslenska fálka. Samkvæmt Skúla fógeta var það þannig að á stundum voru einstaka ungar í hreiðrum hvítari en íslenskir fálkar. Munu "flugfálkar" frá Grænlandi hafa borið ábyrgð á því ástandi, sem ekki þótti leitt, því miklu hærra verð fékkst á miðöldum fyrir hvítan fálka en þau afbrigði sem grárri voru. (Hér má til dæmis lesa meira um dýrafræðilega atriði). En hér í áframhaldinu skal grafið dýpra í sögu íslenska fálkans að hætti Fornleifs.

Útflutningur eða höfðingjasleikjuháttur?

Við vitum lítið um útflutning á fálkum frá Íslandi frá því að land var numið og sumir segja fyrr, þar til á 12. öld. En voru fálkar aðeins gefnir sem konungagjafir, eða var útflutningurinn stórtækari? Tillaga Einars Eyjólfssonar Þveræings, sem stakk upp á því á Alþingi að senda fálka til Ólafs Konungs Haraldssonar hins helga(995-1030) sem seildist eftir Grímsey, gæti bent til þess að menn hafi verið farnir að flytja út fálka frá Íslandi löngu fyrir 12. öld. Það gera líka ákvæði Grágásar um að menn megi ekki veiða fálka á jörðum annarra manna. Slíkt bann var reyndar líka við veiðum á gæs og álftum.

Fyrsta örugga heimildin sem við höfum um íslenska fálka er hins vegar skrif Giraldus Cambrensis, öðru nafni Gerald de Berry (frá Wales), sem í riti sínu Topographia Hibernica (frá því um 1185) upplýsir þetta: Haec terra girofalcones et accipitres grandes et generosos gigmit et mittit/Þetta land gefur og sendir okkur stóra og gjöfula veiði fálka og hauka.

Árið 1223 og 1225 sendir fyrrnefndur Hákon gamli, sem þá var ungur maður á konungsstóli, Heinreki III Englandskonungi fálka. Fyrst fékk Heinrekur 6 fugla en í síðari sendingunni voru þeir 13 talsins, þar af 3 hvítir. Í bréfum kemur fram, að Hákon haf sent menn sína fyrir tveimur árum til Íslands til þess að veiða þar fugla handa Heinreki konungi. Hafi menn þessir orðið að þola ótrúlegt hungur og kulda í íshafinu, og séu þeir nýlega komnir aftur með fugla þá, sem þeir hafi veitt. Hákon biður Hinrik að taka á móti þessum fálkum með sömu vinsemd og þeir væru gefnir og bætir við í bréfi sínu - og nú upp með latínuorðabækurnar: si aliquam hujusmodi cuam habueritis, sicut pater vester et predcessores vestri habuerunt, qui aves Islandiccas carias quam aurum et argenum amplexari dicebantur. Þeir sem eikki eiga latínuorðabækur geta atað músinni blítt á textann og þá birtist þýðingin: "Ef þér metið þetta á líkan máta og faðir yðar og fyrirrennarar gerðu það, en um þá hefur sagt verið að þeir teldu íslenska fugla dýrmætari en en gull og silfur". Þessi upplýsing gæti bent til þess að fálkar hefðu borist frá Íslandi til Noregs og þaðan til annarra landa í langan tíma og verið sumum Íslendingum góð tekjulind, þegar norskir veiðimenn konungs voru þá ekki að stunda ólöglegar veiðar í landinu eins og þær sem Hákon lýsti fyrir Heinreki konungi. Það er ekki rétt sem sumir íslenskir sagnaþulir, t.d. Árni Óla, hafa haldið fram, að Hákon konungur hafi sent fálkaveiðimennina til Íslands þegar hann var konungur Íslands. Það varð hann ekki fyrr en einu ári áður en hann dó árið 1263, ári eftir að Gamli sáttmáli varð til. Fálkaveiði Hákons á Íslandi átti sér hins vegar stað á 3. ártug 13. aldar.

vatican_1249461.jpg

Úr De Arte Venendi cum Avibus, fálkabók Friðriks 2.

Friðrik II Þýskalandskeisari (d. 1250) og jafnframt konungur Jórsala og Sikileyjar var einnig hrifinn af íslenskum fálkum og ritaði um þá lofsorðum í bók sinni De Arte Venandi cum Avibus, "Listin að veiða með fuglum". Í handriti Friðriks, sem ritað var á Sikiley og myndskreytt, er greint frá íslenskum fálum sem bestum allra fugla/sunt meliores omnibus aliis. Friðrik II náði sér einnig í önnur dýr af Norðurslóðum eins og kunnugt er, t.d. Hvítabjörn. Einn slíkan fékk hann að gjöf árið 1230 og hann gaf sultaninum af Egyptalandi Malik al-Kamil (sem var Kúrdi) björn. Hann var líklega sá sami sem Serklendingur sem Sturla Þórðarson orti um í dróttkvæði sínu handa Hákoni gamla. Dýrið kom til Damaskus árið 1233 eða 1234 samkvæmt annálaritaranum Kitab al-Wafi, sem einnig var þekktur sem Safadi. Fyrir hvítabjörninn fékk Friðrik keisarinn gíraffa. Sultaninn á Egyptalandi hafði einnig í byrjun 13. aldar fengið forláta skinn af hvítabjörnum samkvæmt annálaritaranum og ljóskáldinu Ibn Said al Maghribi. Makalaus var þessi áhugi á dýrum meðal heldri manna fortíðarinnar. Heinrekur III Englandskonungur sem einnig fékk Íslandsfálka átti líka hvítabjörn samkvæmt heimildum góðum og mun sem Hákon Noregskonungur hafa gefið honum björninn. Björn og fálki hét konungspakkinn í þá daga.  Heinrekur III tjóðraði björninn í Tower of London og á tyllidögum fékk björninn að synda í Thamesá og veiða sér fisk (hlekkur). Henry var mikill "dýravinur" og átti líka fíl.

kupa_pals_1250643.jpg

Páll Biskup Jónsson í Skálholti (d. 1211) (sjá mynd t.v.) mun einnig hafa verið ötull við að senda fálka til vina sinna erlendis, t.d. erkibiskupsins í Niðarósi.

Eftir að Íslendingar glopruðu frelsi sínu í hendur norskra konunga, má sjá af ritheimildum að eftirspurnin eftir fálkum hélt áfram að vera mikil. Jónsbókarákvæði endurspegla það líka: Konungur má láta veiða vali á hvers manns jörðu, er hann vill ok leggja verð eptir, utan á kirkjueignum. Var lengi deilt um þetta og annað sem auðtrúa Íslendingar misstu í hendur konungsvalds, en endanlega var þessum lögum þröngvað upp á íslenska landsölumenn og aðra minnst megandi árið 1277.

Síðan þagnar fálkasaga Íslendinga um tíma eins og svo margt annað sem tínst hefur og gloprast niður, og ekkert heyrist af Íslandsfálkum fyrr en í tollaskjölum í bænum Kings Lynn í Norfolk árið 1518: pro uno Geffaucon cust xii d./fyrir einn veiðifálka 12 d. tollur). Þetta þýðir þó ekki að fálkar hafi ekki verið útflutningsvara frá Íslandi eins og fyrr og síðar.

Líkur hér fyrsta hluta fálkasögu Fornleifs.

Nokkrar heimildir:

Árni Óla 1967. Fálkahúsið og Fálkaverslun Koungs. Lesbók Morgunblaðsins 42. tbl. 19.11.1967, bls. 6-7;12.

Björn Þórðarson 1924: Íslenzkir fálkar og fálkaveiðar fyrrum. Iðunn VIII, 4, bls. 266-295. (Sjá hér).

KL: Kulturhistorisk Leksikon for Nordisk Middelalder, bd. 4: Falkar, dálkur 142-154.

Handritið: Pal. lat. 1071: Friðrik II (1194-1250): De Arte Venandi cum Avibus ca. 1258-1266. Biblioteca Apostolica Vaticana. (Sjá hér).

Vilhjálmur Þ. Gíslason 1947: Bessastaðir; Þættir úr sögu höfuðbóls. Bókaútgáfan Norðri Akureyri.

 
Örlítill fróðleikur um fornleifafræði fálkaveiða og fálkahalds á miðöldum: hér og hér.
falenbuch_friederich_ii.jpgMynd úr fálkabók Friðriks 2.
Tvær efstu myndirnar sýna fálkaveiðar á Bayeaux reflinum sem saumaður var af nunnum á Englandi fyrir Odo biskup í Bayeaux sem var bróðir Vilhjálms sigursæla. Refillinn er nú varðveittur í Bayeaux í Frakklandi.

Fiskisaga Lemúrsins

eisenhower-fishing.jpg

Nýverið hoppuðu sumir íslenskir fjölmiðlar hæð sína af gleði yfir visku undarlegs apakattar frá Madagaskar sem matar söguna ofan í auðtrúa Íslendinga með myndasögum og ævintýrum. Íslenski lemúrinn, sem að hluta til er kominn af breiðhöfða apakyni sem hefur sérleyfi á réttar og sannar skoðanir, er nokkuð glöggur að ná sér í svart hvítar myndir af fortíðinni, og ber þess merki að heimurinn er hjá honum svarthvítur eins og hann sjálfur. Sagnfræði hans er ekki alltaf upp á marga fiska, þótt hann finni einstaka áður óþekkt skjal á vefsíðum skjalasafna (nema í Moskvu), bara vegna þess að það stendur "Iceland" á skjalinu. Eins og aðrir apakettir á Íslandi, sem lesa sér og ættingjum sínum til gamans upp úr biflíunni, gyðingum og kristnum til háðungar, þá vinsa Lemúrar alltaf úr og sjá ekki samhengið fyrir trjánum í frumskógi sínum.

Fiskisögur fljúga árið 1954 og 1947

Um daginn komst einn af sérfræðingum vefsíðunnar Lemúrsins að því að Bandaríkjamenn hafi ætlað að kaupa allan fisk af Íslendingum, svo við værum ekki að selja hann Rússum. Um þetta geta menn lesið hér . DV, Eyjan og aðrir ritskoðaðir miðlar á Íslandi sýndu þessu vitanlega mikinn áhuga, enda er þetta ófullkomin sagnfræði af því tagi sem þeir miðlar hafa ýkja oft í hávegum.

Það sem sagnfræðilemúrinn sem leitar að skjölum um Íslands, þegar BNA opna skjalasöfn sín, fann í þetta sinn gat hann ekki vitað að væri gamalt vín. En það setti hann á nýjar flöskur og bjó til "turban myth" um að Dwight D. Eisenhower, sem var áhugamaður um marhnútaveiðar, hafi verið að velta fyrir sér árið 1954 að kaupa allan fisk af Íslendingum sem svo átti að fara í þróunarhjálp til Ísraela og Spánverja. Þessu trúa auðtrúa íslendingar nú eins og nýslegnum túskildingi. Allir virðast hafa gleymt tómum dósum af gaffalbitum sem Rússar keyptu af Íslendingum og hraðfreðnum ævintýrum vestan hafs.

En þetta gjálfur um allsherjar fiskkaup Bandaríkjamanna var nú eitthvað eldra en 1954. Þegar árið 1947, eða nánar tiltekið 2. september, var sendiherra Dana á Íslandi C.A.C. Brun, sem við Íslendinga getum þakkað hve auðveldlega sambandsslitin gengu fyrir sig, í einkaerindum í Stokkhólmi. Hann ritaði í dagbók sína:

"Vi var i Stockholm meget sammen med vor gamle Ven fra Washington Hugh Cumming [Hugh S. Cumming jr.], som allerede flere gange har besøgt os paa Island, hvor han forhandler Basespørgsmaalene  og gav mig Oplysninger, der danner Grundlaget for meget værdifulde Depescher til U-M.  i Sommeren og Efteraaret 1946. Han sagde mig, at USA ikke vil oftere [sic] tolerere Kommunister i Islands Regering og for at afværge det, vil USA til syvende og sidst aftage den Fisk som Island ikke kan faa solgt anderledes." *

brun_in_new_york.jpg
C.A.C. Brun (heldur á pípu) í New York á stríðárunum þar sem hann segir frá björgun gyðinga í Danmörku í útvarpi (sjá hér). Þó hann væri sendiráðsstarfsmaður í Washington eftir að hann yfirgaf sendiráð Dana i Reykjavík 1941, þá varð hann óbeint valdur að því að Svíar ákváðu að leyfa dönskum gyðingum að fara til Svíþjóðar. Þegar C.A.C. Brun, sem sat í brúnni í  sendiráði /ríkisstjórn Dana í Washington meðan að sendiherrann Henrik von Kauffmann var að leika golf, hafði sent símskeyti til Svía um að Danir myndu borga fyrir vist gyðingana í Svíþjóð, ákváðu Svíar fyrst að taka á móti þeim. Þetta mikilvæga smáatrið hefur enn ekki komist inn í sænskar eða danska kennslubækur en má finna hér og í heild sinni á í bókinni Medaljens Bagside, sem er til á betri bókasöfnum á Íslandi.
 
bandungconference1955-01-oa.jpg
Hugh S. Cumming jr. varð síðar sendiherra BNA í Indónesíu, þar sem þessi mynd var tekin.
 

Kanar voru "kommúnistabanar" eins og við vitum. Ekkert annað en hræðsla þeirra við kommúnismann olli því að þeir töldu það skyldu sína að kaupa fisk af Íslendingum. Keimlík loforð heyrðu menn líka í öðrum löndum.  Bandarísk utanríkisþjónusta, herinn og leyniþjónustan CIA voru með handbækur þar sem mönnum var kennt að segja það sem best líkaði í hverju landi, en einnig til þess að menn vissu hvaða landi þeir væru staddir í og uppljóstruðu ekki hver illa Kanar voru að sér í landafræði. Það eru ekki bandarískir diplómatar sem lesa sér til gangs, því nýsettur sendiherra BNA í Noregi hélt því fram á gáfnaprófi sem hann var settur í að Noregur væri lýðveldi. Nýr sendiherra BNA á Íslandi, sem enn hefur ekki sést, vissi þó vel að Ísland væri bananalýðveldi (sjá hér).

Skjall og fagurgali hefur ávallt þótt góður síður í BNA og sumir falla flatir fyrir slíku ef peningar fylgja með (sjá ESB). Að gera sér eitthvað annað í hugarlund en kommúnistahræðslu í sambandi við hugleiðingar um að kaupa allan fisk af Íslendingum, og blanda því við græðgi á Íslandi 2000-2008 er út í hött og ekkert annað en lemúrafimi og apastrik. Sagnfræði byggist ekki á því að detta ofan eitt skjal í BNA á vefnum. Hlutina þarf að sjá í samhengi. Sem sagt: Kanar voru farnir að velta fyrir sér stórinnkaupum á fiski Íslendinga árið 1947, sjö árum áður en Eisenhower var haldinn órum um að kaupa fiskinn okkar og senda hann til Ísraels og á Spán. Hann var reyndar vel kunnugur Hugh S. Cumming.

Þess má til viðbótar, geta að vinur minn, sem er einn fróðastur sagnfræðinga Íslands, hefur tjáð mér að hann hafi séð pappíra í Þjóðskjalasafninu sem vörðuðu þá hugmynd að fá Þjóðverja til að kaupa fisk á Íslandi til að senda til gyðinga í Ísrael. Hvað var meira við hæfi en að fita aðeins fórnarlömbin sem lifðu helförina af? Þetta mun hafa verið til tals um það leyti sem Ísraelsríki var stofnað.

* (Þennan texta er því miður ekki hægt að finna á vefnum eins og Top secret fiskisögu Eisenhowers, því frændur okkar Danir eru því miður ekki eins opnir í allar gáttir og BNA, þegar kemur að opnun skjalasafa).


Spurning á 400 ára fæðingarafmæli Hallgríms

hallgrimur_p2.jpg

Margrét Eggertsdóttir, einn helsti sérfræðingurinn á sviði starfs og lífs Hallgríms Péturssonar, hefur haldið því fram að það sé ekki að finna tangur né tetur af gyðingahatri í Passíusálmum hans. Hún hefur þó ekki sett fram nein haldbær rök fyrir því, utan að sveifla sérfræðingskortinu. Margrét er vitaskuld ekki gyðingur og leggur allt annað mat á illa orðræðu um gyðinga en gyðingar sjálfir, sem lesið hafa Passíusálmana og undrast það sem vel má kalla dýrkun þeirra og Hallgríms á Íslandi.

Hverjir aðrir en gyðingar hafa bestan skilning og dómgreind á því hvað gyðingahatur er? Þeir verða fyrir því hatri, og hafa orðið fyrir því síðan að frumkirkjan hóf að stunda skipuleg leiðindi og ofsóknir gegn þeim, ofsóknir sem leiddu til annars og verra og að lokum leiddi það af sér helförina og ofsóknir í garð Ísraelsríkis, sem til varð vegna afleiðinga hatursins í Evrópu og annars staðar.

Árið 2011 gagnrýndi Stofnun Símon Wiesenthals, SWC, dýrkun á Passíusálmunum á Íslandi, því stofnunin telur sálmana andgyðinglega. SWC freistaði þess að fá RÚV til að láta af árlegum lestri sálmanna. Margrét Eggertsdóttir sagði þá í raun rabbínum stofnunar Simon Wiesenthals, sem berjast gegn gyðingahatri, að þeir vissu ekki hvað gyðingahatur væri. Páll Magnússon útvarpsstjóri vitnaði í sérfræðiþekkingu hennar ákvörðun sinni til stuðnings. Passíusálmarnir verða lesnir um ókominn tíma á RÚV og eru jafnöruggur dagsskrárliður og hatur sumra fréttamanna RÚV í garð Ísraelsríkis. Á Íslandi vega orð Íslendinga meira en útlendinga og vitaskuld eru Íslendingar langtum meiri sérfræðingar í gyðingahatri en gyðingar. Þarf að spyrja að því?

En af hverju er þetta gyðingahatur í Passíusálmunum ekki að finna í þeim guðspjöllum sem  Hallgrímur orti upp úr, eða telur Margrét bara að gyðingahatur sé óþarfa hársæri?

Fornleifur og fjöldi manna sem lesið hafa Passíusálma Hallgríms Péturssonar telja þá innihalda svæsið, guðfræðileg gyðingahatur (Anti-judaisma) 17. aldar,  sem  bæði er tímaskekkja og smekkleysa, sér í lagi ef sálmarnir eru taldir uppbyggilegir og jafnvel mikil list sem á erindi til fólks á 21. öld. 

Til dæmis vekur það furðu manna erlendis, að dæmigert trúarlegt gyðingahatur 17. aldar, sem er mjög ríkt í Passíusálmunum, sé enn vinsælt og í hávegum haft á Íslandi á 21. öld. Menn undrast einnig að yfirlýstir guðleysingjar og trúleysingjar úr röðum íslenskra þingmanna og annarra stjórnmálamanna flykkjast í kirkjur fyrir páska til að lesa upp úr sálmunum (síðast hér). Helgislepjan er þá mikil, líkt og tvískinnungurinn. Þetta einkennilega trúaræði trúleysingjanna virðist reyndar vera bundið við Passíusálmana. Einhver fullnæging hlýtur að fylgja þessari fíkn yfirlýstra atheista eftir sálmalestri í kirkjum. Ég hef vitaskuld velt því fyrir mér, hvort það sé í raun gyðingahatrið í sálmunum um manninn sem þetta fólk trúir alls ekki á, sem gerir trúleysingja að sálmaáhugafólki?

Persónuleg lífsreynsla Hallgríms og gyðingahatur

Margrét Eggertsdóttir sagði um daginn við opnun nýrrar sýningar um Hallgrím á 400 ára afmælishátíð hans, að "persónuleg lífsreynsla Hallgríms skíni í gegnum margt af því sem hann hefur ort og gert."

Réttmæt þykir mér í því sambandi þessi spurning :

Hvaða lífsreynsla síra Hallgríms gerði það að verkum að hann er svo illur í orði gagnvart gyðingum, svo mikið að hvergi finnst annað eins í varðveittum trúarlegum kveðskap frá 17. öld?

Hér skal reynt að svara því:

Marteinn Lúther

Eins og allir vita ritaði Lúther, guðfræðingurinn með harðlífið, rætinn og sviksamlegan bækling um gyðinga  Von den Jüden und i[h]ren Lügen sem út kom árið 1543. Hann bætti um betur og gaf sama ár út ritið Vom Schem Hamphoras und vom Geschlecht Christi, sem skreytt var með myndum af gyðingum í miður siðlegum atlotum við gyltu (sjá neðar), sem var vel þekkt minni úr kaþólskri list.  Þrátt fyrir "siðbót" tók Lúther það versta upp úr kaþólskri "guðfræði".

Líkt og sumir Íslendingar hatast út í múslíma í dag og t.d. halal-slátrað kjöt þeirra, sagðist Lúther hafa borðað kosher mat, það er kjöt af gripum sem slátraðir voru schechíta (slátrað að hætti gyðinga), og hafa orðið illt af. Lúther taldi gyðinga hafa reynt að byrla sér eitur. Þau rit þar sem Lúther greindi frá þessu hatri sínu voru til í Kaupmannahöfn og hafa verið aðgengileg manni sem lærði til prests í Kaupmannahöfn. Þess ber einnig að geta að nasistar notuðust óspart við þessi rit Lúters sér til halds og gagns, og lúterska kirkjan hefur enn ekki beðist afsökunar á framferði sínu eins og t.d. sú kaþólska hefur verið að myndast við að gera. Í litlu lútersku landi á hjara veraldar þykir enn fínt að þylja andgyðinglega, lúterska sálma.

wittenberg_judensau_grafik.jpg

 

Sumir guðfræðingar lútersks siðar hafa afsakað þessi rit meistara síns með því að halda því fram að gyðingahatrið í Lúther hafi mest verið í nösunum á honum og hafi raun verið "hluti af stefnu hans gagnvart kaþólsku kirkjunni". Það er vitaskuld dómadags rugl. Bábiljan lifir sem sagt enn, og er varin af lúterskum trúfræðingum og líka kaþólskum. Þá er ekki að furða að menn dáist af Passíusálmunum, sem endurspegla andgyðinglega guðfræði Lúthers. En samt afneita "fræðimenn" og útvarpsstjóri Íslandi, og auðvitað Egill Helgason sá er allt veit, að það sé gyðingahatur í Passíusálmunum. 

Gyðingahatur Lúthers, sem þjóðkirkja Íslendinga kennir sig við, hefur með sönnu mótað gyðingahatrið í Passíusálmunum. Hið trúarlega gyðingahatur voru helstu fordómar Norðurevrópumanna á 17. öld. Undantekningu var þó að finna í hluta samfélagsins í Hollandi.

Gyðingahatur var ríkt á tímum Hallgríms

Er Hallgrímur dvaldi í Kaupmannahöfn gekk bylgja af gyðingahatri yfir Danaveldi, fyrst og fremst ættuð úr Þýskalandi. Gyðingahatur var þó engin ný bóla, heldur löng hefð úr kaþólskum sið, sem Lúterstrúarmenn létu ekki af og gagnrýndu ekki. Gyðingahatrið var eins og elexír fyrir kristna trú á þessum tíma. Lúterskir biskupar Danmörku vildu fyrir enga muni leyfa gyðingum að setjast að í Danmörku þegar það kom til tals. Gyðingar voru hins vegar afar fáir í Danaveldi og þeir sem til Kaupmannahafnar komu og ætluðu sér að vera þar eða að halda til Íslands, var skipað að taka kristna trú. Það gerðist t.d. árið 1620 er Daniel Salomon, fátækur gyðingur frá Pólandi var skírður í Dómkirkju Kaupmannahafnar að viðstöddu margmenni og konungi. Síðar, árið 1625, fékk hann 6 ríkisdali frá konungi til að halda til Íslands. Þá hét hann ekki lengur Daniel, heldur Jóhannes Salómon.

Glückstadt

En leiðum hugann að veru Hallgríms í Danaveldi. Sagan segir, að áður en Brynjólfur Jónsson (síðar biskup) kom Hallgrími til náms við Frúarskóla í Kaupmannahöfn, hafi Hallgrímur hugsanlega verið járnsmíðasveinn bænum Glückstadt í Suður-Slésvík (Ekki Lukkuborg eins og sést hefur í ritum íslenskra sérfræðinga um Hallgrím; Lukkuborg eða Glücksburg er allt annar staður en Glückstadt).

Brynjólfur mun hafa heyrt Hallgrím bölva húsbónda sínum á íslensku. Portúgalskir gyðingar voru þá farnir að setjast að í Glückstadt, bæ sem Kristján 4. stofnaði árið 1616. Hugsast gæti að Hallgrímur hafi verið í vist hjá gyðingakaupmönnum sem hann bölvaði, eða verið nágranni þeirra, t.d. Samuel Jachja, sem einnig kallaði sig Albert Dionis (einnig Anis eða Denis og jafnvel Jan Didrichs; Portúgalskir Gyðingar notuðu oft mörg mismunandi nöfn allt fram á 20. öld; Þessi nafnafjöldi var oft til þæginda og til að koma í veg fyrir gyðingahatur), sem þekktur var fyrir myntfölsun og þrælaverslun og var einmitt beðinn um að setjast að í Danaveldi vegna þess, Samuel Jachja og auður hans og sá auður sem beindi til Glückstadts byggði bæinn upp. Hins vegar gæti Hallgrímur allt eins hafa verið vinnumaður Danans Hans Nansen, guðhrædds lúthertrúarmanns, sem settur var yfir Íslandsverslunina, Islandske Kompagni, sem frá 1628 hafði sínar bækistöðvar í Glückstadt. Auður Íslands var einnig notaður til byggingar bæjarins. Nansen var hins vegar einn versti arðræninginn sem "verslað" hefur á Íslandi í einokuninni. Hann varð síðar borgarstjóri Kaupmannahafnar, vellauðugur af viðskiptum sínum á Íslandi. Albert Dionis (Anis, Denis, Didrichs) setti ásamt öðrum gyðingum í Glückstadt einnig fjármagn í Íslandsverslunina og lagði til skip þegar fáir sigldu til Íslands.

gavnoe_anti-semitism.jpg
Háðungsleg mynd af gyðingum að deila um ritninguna. Málverkið (olía á fjöl) hangir í höll Thott ættarinnar á Gavnø á Suður-Sjálandi og er greinilega frá síðari hluta 16. aldar og þýskt að dæma út frá textanum í bók sem gyðingarnir eru að bera saman við sinn Tanach (Nevi´im Aharonim) og stendur bókin opin við Jesaja 4:18 : Höret, ihr Tauben, und schauet her, ihr Blinden, daß ihr sehet!. Fjallað var fyrir nokkrum árum síðan um málverkið í tímaritinu Rambam sem ég var ritstjóri fyrir í nokkur ár. 

 

Tíðarandinn var andgyðinglegur trúarlega séð, þó svo að konungur byði gyðingum fríhöfn í Glückstadt. Í Danmörku var öðrum en Lútherstrúarmönnum bannað að búa eða setjast að. Vinátta og gestrisni Kristjáns 4. við gyðinga af portúgölskum uppruna, sem hann leyfði að setjast að i Glückstadt kom sömuleiðis aðeins til af því að konungur sá sér fjárhagslegan ávinning í því. Hallgrímur gæti hafa kynnst gyðingahatrinu í bænum Glückstadt (ef upplýsingarnar í þjóðsögunni um veru hans þar eru réttar) og hann gæti einnig hafa kynnst því meðal guðfræðinganna sem kenndu honum í Frúarskóla í Kaupmannahöfn.

Það var ekkert í lífi Hallgríms, sem við þekkjum sem réttlætt getur hatrið í píslarlýsingum hans. Þetta hatur finnst, eins og áður segir, alls ekki í nýja Testamentinu nema ef það er túlkað á hatursfullan hátt, líkt og öfgamúslímar hafa túlkað Kóraninn til að myrða með honum og aflima fólk. Sálmarnir eru því afurð þess tíma sem Hallgrímur lifði á. Ef menn telja þann tíma eiga listrænt og siðferðilegt erindi  við fólk á 21. öld, er kannski eitthvað mikið að í því landi sem slíkt gerist, eða hjá því fólki sem slíkt boðar. Þetta hatur var hluti af þeim tíma sem hann lifði á.

Passíubókmenntir 16. og 17. aldar

Fólk sem kallar sig sérfræðinga í lífi og verkum Hallgríms,  og sem segir lífsreynslu hans hafa mótað list hans verða að kynna sér líf hans og tíðarandann í Danmörku og Glückstadt betur. Þeir verða að þekkja guðfræðilegt hatur kennara hans við Frúarskóla og hatrið í ritum Lúthers, hatrið í ritinu Soliloquia de passione Jesu Christi , píslarsögu eftir þýska skáldið Martin Moller (1547-1606) sjá hér, (Soliloquia de passione Jesu Christi ) sem greinilega hafa haft mikil áhrif á Hallgrím og sem var það sama og í Passíusálmum hans. Píslarsagan eftir Martein Moller, sem reyndar er ekki lesin upp í útvarpi í Þýskalandi, var gefin út á íslensku fram á miðja 18. öld í þýðingum Arngríms lærða og einnig Péturs Einarssonar lögréttumanns. Greinilegt er að eftirspurn hafi verið eftir slíkri afurð meðal Íslendinga í trúarhita 17. og 18. aldar.

Önnur íslensk skáld, sem uppi voru á sama tíma og Hallgrímur, voru ekki ekki eins hatrömm í garð gyðinga og hann. Jón Þorsteinsson prestur í Vestmannaeyjum, sem var veginn í Tyrkjaráninu skrifaði t.d. og fékk prentaða Genesis-sálma á Hólum, þar sem ekki var að finna snefil af illyrðum um gyðinga. Það hlýtur að hafa verið eitthvað í lífsreynslu Hallgríms sem gerði hann örðuvísi en t.d. Jón Píslarvott í Eyjum.

Meðan Passíónsbók Marteins Mollers er að mestu gleymd og grafin í Þýskalandi eru Íslendingar, og jafnvel örgustu trúleysingjar á hinu háa Alþingi, á kafi í dýrkun Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Þegar menn gera sér grein fyrir því að Hallgrímur var ekkert öðruvísi en samtími hans, sjá þeir kannski hatrið sem skín út úr sálmum hans.

Það er frekar frumstætt hatur 16. og 17. aldar sem ekkert erindi á til okkar á 21. öld frekar en hatursrit Marteins Lúthers, safarík passíón Mollers eða þá Öfgaíslam. 


Hvað á þetta fólk sameiginlegt?

jan.jpg
 

Myndin sýnir Humphrey BogardJacqueline Kennedy-Onassis, Black Jack Bouvier og Cornelius Vanderbilt. Þið þekkið vitaskuld öll hann Bogie. Hin snoppufríða Jackie var eins og allir vita bara gift honum JFK og síðar skipakónginum Onassis, en Jack Bouvier var faðir hennar. Cornelius Vanderbilt var frægur athafnamaður og miljarðamæringur og forfaðir trilljónamæringa. Nokkrir Íslendingar hafa ugglaust búið á hótelum sem kennd eru og voru við þá ætt.

Allt á þetta fólk á það sameiginlegt að hafa verið afkomendur eins manns, Anthony Janszoons van Salee sem flutti til Ameríku frá Hollandi árið 1629. Antonius Jansen (1607-1676), eða Anthony Jonson eins og enskumælandi samtímamenn kölluðu hann, var meðal fyrstu hollensku íbúa Nýju Amsterdam (New York). Í skjölum frá þessum frumbyggjatíma Long islands og Manhattan er ritað að hann hafi verið mulatto og síðar er einnig vísað til hans sem The Turk, The Terrible Turk, van Fez og Teunis.

peterpaulrubens.jpg
Stúdía Pieter Paul Rubens (1577-1640) af negra. Musées Royaux Des Beaux-Arts, Brussel.

 

Komin af sjóræningja

Öll þessi viðurnefni voru engar tilviljanir. Anthony var sonur Jans Janszoons frá Haarlem í Hollandi (ca. 1570-1641). Jan Janszoon var enginn annar en sjóræninginn Murat Reis (yngri) sem talinn er hafa staðið á bak við Tyrkjaránin á Íslandi árið 1627.

Jan Janszoon var kaupmaður og skipstjóri sem gerði út frá Cartagena á Spáni, en síðar hóf hann að  herja á Spánverja og gerðist að lokum sinn eigin herra í hinni síðarnefndu útgerð. Hann var tekinn höndum af sjóræningjum í Alsír og gekk í þjónustu þeirra og tók nafnið Murat Reis og gerðist múslími. Ekki má rugla honum við sjóræningja með sama nafn sem kallaður var Murat Reis eldri, en sá var ættaður frá Albaníu.

Jan Janszoon/Murat Reis átti margar konur, og var önnur kona hans  þeldökk og múslími frá Cartagena á Spáni. Hún var móðir Antons og einnig bróður hans Abrahams, sem síðar fluttu báðir til Hollands og þaðan áfram til Ameríku. Talið er að þeir bræður hafi báðir verið múslímar. Talið er að Anthony hafi fæðst í Salé í Marokkó, eða að minnsta kosti alist þar upp. Þess vegna tók hann sér nafnið van Salee.

fvansalee5.jpg Anthony Janszoon hefur vart verið skrifandi. Hann undirritaði skjöl með A[nthony] I[anszoon] og greinilega með viðvangslegri rithönd.

Anthony Janszoon, sem var víst afar dökkur á brún og brá og risi af manni, gekk að eiga Grietje Reyniers (Grétu Reynisdóttur), þýska konu sem hafði skandalíserað ærlega í Hollandi fyrir saurlifnað sinn og vergirni. Þau voru gefin saman á skipinu á leið til Nýju Haarlem. Með henni átti Anthony fjórar dætur: Evu, Corneliu, Annicu (sem er formóðir Vanderbiltanna) og Söru og af þeim er fyrrnefnt frægðarfólk komið.

Vegna ósæmilegrar hegðunar hvítrar eiginkonu sinnar í Nýja heiminum neyddist Antonius van Salee að flytja frá Manhattan og Long island yfir á Coney Island (sunnan við Brooklyn í dag). Coney Island, var allt fram á 20. öld einnig á tíðum kölluð Turk's island eða Tyrkjaeyja, og líklegast með tilvísunnar til Antons van Salee

Prófessor einn, Leo Hershkowitz við Queens University, taldi að Anthony van Selee hafi aldrei snúið til kristinnar trúar. Kóran, sem talið er að hann hafi átt, mun hafa verið í eigu eins afkomenda hans þangað til fyrir tæpum 90 árum síðan. Því miður veit enginn hvar kóraninn er niður komin nú. En ætli Anthony van Salee hafi getað lesið Kóraninn, ef hann gat ekki skrifað nafn sitt með rómverskum bókstöfum?

Jackie Kennedy vildi ekki vera negri

Þegar Jackie Kennedy var eitt sinn beðin um að koma fram og segja frá "afrískum rótum" sínum, þ.e. forfeðrum sínum i Sale í Marokkó og Cartagena á Spáni, til að vera manni sínum innan handa í baráttu hans gegn kynþáttamismunun, mun Jackie hafa krafist þess að vitnað væri til van Salee-ættarinnar sem gyðinga. Frúin vildi ekki vera af blökkukyni - þá var nú betra að vera gyðingaættar.

Þá vitið þið það. Fína fólkið í Ameríku eru afkomendur þýskrar portkonu, sem og sjóræningjahöfðingja sem réðst á Íslendinga árið 1627 og sem olli því að Vestamanneyingar voru með PTS (post traumatic stress) í 200 ár þar á eftir, og sumir enn.

Play it again, Sam, eins og afkomandi sjóræningjans sagði í Casablanca. Það verður víst að setja Árna Johnsen í að krefjast bóta fyrir Tyrkjaránin.

Skyld færsla: Mínir bræður, víðar er fátæktin en á Íslandi


Logið að Páfanum í Rómi

olafur_ragnar_grimsson_pope_benedict_xvi_meets_uhfnnytup7el.jpg
 

Það vekur athygli mína, að forseti Íslands er sjálfur farinn trúa þeirri sögu að Guðríður Þorbjarnardóttir hafi verið fyrsta hvíta og kristna móðirin í Ameríku, og að íslensk kona hafi því skákað Kólumbusi í víðförli. Þótt Bill Clinton geti ekki lesið Njálu ætti Ólafur Ragnar að geta lesið sér til gagns.

Guðríður Þorbjarnardóttir var ekki fyrsta "hvíta" konan í Vesturheimi. Þótt hún hafi samkvæmt sögunum eignast Snorra son sinn og Þorfinns Karlsefnis þar, og einnig lýst því yfir að hún væri kristin, er hún ekki nauðsynlega fyrsta hvíta móðirin í Vesturheimi. Forsetinn segir í ræðu sinni, að Snorri hafa verið skírður á Vínlandi. Það stendur hvorki í Grænlendinga sögu eða Eiríks sögu rauða. Heldur ekki að Guðríður hafi farið til Rómar. "Hún gekk suður", en það er ekki þar með sagt að hún hafi verið í Róm. Reyndar var það ekki orðið sérlega algengt að menn gengu til heilagra staða á 11. öld. Sérstaklega ekki frá Norður-Evrópu. Sagan um Guðríði er vitanlega að mestu leyti tilbúningur.

En fyrir þá sem trúa bókstaf fornsagnanna okkar má upplýsa, að fyrsta hvíta konan í Ameríku var Freydís Eiríksdóttir, mikill vargur sem drap indíána og alla þá sem í vegi hennar urðu. Hún gæti vel hafa verið kristin og átt börn á Grænlandi.

Ég hef því miður aðeins skrifað um málið á ítölsku, svo Páfastóll gæti fengið innsýn í hvernig menn reyna að fegra landafundasögu íslenskra kvenna. Setjið ítölskuna í google translate og lesið (best er að þýða yfir á ensku).

Kvenvargurinn sem var fyrst hvítra kvenna í Ameríku var Freydís, og hún var líka morðingi.

Freydís, dóttir Eiríks rauða var einnig fyrsti rasistinn á Vínlandi. Hún myrti einnig "norrænar" kynsystur sínar þar vestra með öxi. Samkvæmt Eiríks sögu rauða þótti henni lítið koma til varna karlpeningsins gegn skrælingjum:

Freydís kom út og sá er þeir héldu undan. Hún kallaði: "Hví rennið þér undan slíkum auvirðismönnum, svo gildir menn er mér þætti líklegt að þér mættuð drepa þá svo sem búfé? Og ef eg hefði vopn þætti mér sem eg mundi betur berjast en einnhver yðvar." Þeir gáfu öngvan gaum hvað sem hún sagði. Freydís vildi fylgja þeim og varð hún heldur sein því að hún var eigi heil. Gekk hún þá eftir þeim í skóginn en Skrælingjar sækja að henni. Hún fann fyrir sér mann dauðan, Þorbrand Snorrason, og stóð hellusteinn í höfði honum. Sverðið lá hjá honum og hún tók það upp og býst að verja sig með. Þá koma Skrælingjar að henni. Hún tekur brjóstið upp úr serkinum og slettir á sverðið. Þeir fælast við og hlaupa undan og á skip sín og héldu á brottu. Þeir Karlsefni finna hana og lofa happ hennar.

freydis.jpg

Þannig var nú fyrsta, hvíta mamman í Ameríku. White trash ættuð frá Íslandi og morðóð þegar hún var á túr.

Mér þykir ólíklegt að Vatíkanið sé búið að viðurkenna Guddu, eins og Ólafur Ragnar telur, fyrst þeir eru ekki enn búnir að viðurkenna að Kólumbus hafi verið gyðingur. En kannski hafa þeir nú góða átillu til að gleyma Busa og kenna íslenskri herfu, Freydísi Eiríksdóttur, um allt sem miður hefur farið í Ameríku að völdum kirkjunnar og hvíta ma... hvítra kvenna.

Ítarefni og aukaupplýsingar til gamans:

Sjá einnig þetta. Margfrægt er einnig orðið að Dorrit Moussaieff mætti í Vatíkanið með kaþólskan prestahatt þegar Ólafur var að vinna í PR fyrir styttu Ásmundar Sveinssonar af Guddu, sjá hér. Nú má einni telja víst að frumgerð styttu Ásmundar sem sýnd var á Heimssýningunni í New York árið 1939 hafi verið komið fyrir kattarnef af Mafíunni. Mafían dýrkar, eins og kunnugt er, mjög minningu Kristófers Kólumbusa, sem þeir telja ítalskan. Get ég mér til að styttan liggi sundurskotin á botni Hudsonflóa, eða bundin um ökkla Albano Mozzarellos, mafíósa sem kastað var út af Brooklyn Bridge.


mbl.is Clinton réði ekki við Njálu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er það svart maður

african-presence-02.jpg

Málverk frá miðöldum, endurreisnartímanum og verk hollenskra gullaldarmeistara sem sýna þeldökkt fólk hafa alltaf heillað mig gífurlega mikið.  Ég hef einnig skrifað örsögu negra á Íslandi (sjá hér, hér og hér), sem fór í fínu taugarnar á forpokuðum Íslendingum sem telja það ljótt að skrifa svartur og negri, en notar sjálft pempíuleg orð eins og þeldökkur yfir þann hluta mannkyns sem Íslendingar hafa löngum kallað ýmist blámenn, svarta, svertingja eða negra.

2012-2014 var haldin merkileg sýning í Walters listasafninu í Baltimore, þar sem sýnd var list, þar sem svartir menn koma við sögu. Sýningin bar heitið Revealing the African Presence in Renaissance Europe.

Sérfræðingarnir í Baltimore vissu af lítt þekktu málverki á listasafni milljónamærings í Portúgal (Museu Berado/sem mestmegnis er nýlistasafn) sem þeir fengu lánað til sýningarinnar. Mikið hefur verið síðan rætt og talað um þetta málverk. Málverkið, sem talið er vera eftir hollenskan málara, er málað á árunum 1570-80 og sýnir götulíf við Chafariz d´el Rey (við Konungsbrunn) í Alfama hverfinu í Lissabon. Myndina fyrir ofan er hægt að stækka.

Alfama, eða réttara sagt Alhama-hverfið, var lengi fjölþjóðadeigla og nafnið sjálft er t.d. arabískt. Á 16. öld bjuggu í hverfinu margir gyðingar. Í dag er þarna allt öðruvísi umhorfs en á 16. öld, því hverfið eyðilagðist mjög í jarðskjálftanum mikla í Lissabon árið 1755.

blacks_and_jews_16th.jpg

Lögregla Lissabongyðinga (með rauða hatta) handsama þræl sem hlaupið hefur á brott

african-presence-02b.jpg
Svartur þræll dansar við hvíta þjónustupíu, meðan svartur vörður ríður hjá.

Málverkið sýnir vissulega marga negra, sem flestir voru væntanlega húsþrælar og þjónar. Það sem listfræðingarnir í Baltimore gerðu sér hins vegar ekki grein fyrir, en sérfræðingur einn í sögu gyðinga benti á, var að annar minnihlutahópur var einnig ríkulega til staðar á myndinni, þ.e. gyðingarnir, sem voru oft vel stæðir kaupmenn (sem tóku beint og óbeint þátt í þrælaversluninni). Síðustu gyðingarnir, sem ekki beygðu sig á bálkesti Rannsóknarréttarins, voru flestir flæmdir frá Portúgal nokkrum áratugum síðar en þetta málverk var málað. Þeir flýðu til Niðurlanda, Ítalíu, Grikklands og víðar og er margt gott fólk komið af þeim sem og og negrunum.

Myndin sýnir fjörugan dag við brunninn, þar sem þjónar og þrælar, vatnsberar, sækja sér vatn. Það er líf og fjör  í tuskunum. Fólk dansar og daðrar meðan yfirvaldið, og þar með talið gyðingalögreglan sækir þræla sem ekki var treystandi eða höfðu farið á fyllerí. Meira að segja má sjá svartan lögreglumann ríðandi svörtum hesti, líklega á vegum kirkjunnar eða einhvers greifa. Skoðið og látið heillast.

Svona málverk er einfaldlega á við ferð aftur í tímann.

african-presence-02c.jpg

Ljóst er að Dom Aharon de Castro y Costa ætlaði sér ekki kristinn mann fyrir Leu sína, sama hvað það kosta þyrfti. Aharon mundar byssu sína. Stækkið til að sjá dramaið.

Fornleifur mælir með: Áhugaverðu bloggi Dr. Miröndu Kaufmanns sagnfræðings.

Fyrri færsla Fornleifs um negralistfræði: Negrinn á fjölinni

 

african-presence-02d.jpg
Hvað þessi þeldökki maður gerði til að verðskulda svona meðferð ætla ég mér ekki að velta mikið fyrir mér, en hann hefur kannski orðið dálítið "fresh" við brunninn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband