Færsluflokkur: Saga íslenskrar fornleifafræði

Af félagslegu lýðræði meðal íslenskra fornleifafræðinga

Archaeo
 

Í síðustu færslu gerði ég athugasemd við drög að nýjum reglum sem Þjóðminjasafnið vinnur að um afhendingu gripa til safnsins. Mig hafði ekki órað fyrir því að saklausar athugasemdir mínar skyldu hafa í för með sér hótanir um limlestingar og heimsóknir leigumorðingja.

Þar sem ég fékk þessi drög til umsagnar frá félagi sem ég er meðlimur í, Fornleifafræðingafélagi Íslands, þá sendi ég athugasemd mína til félagsins og reyndar til allra félagsmanna. Þar fyrir utan birti ég athugasemdir mínar á Fornleifi í gær.

Mér var sagt af formanni félagsins, að athugasemdum mínum yrði bætt inn í athugasemdir félagsins. Fundurinn var svo haldinn í gær á Fornleifafræðistofunni á Ægisgötu í Reykjavík, sem dr. Bjarni Einarsson rekur. Í bítið í morgun fékk ég svo athugasemd félagsins, en sá hvergi það sem ég hafði til málanna að leggja. Ég innti formann félagsins eftir því í dag og hann greindi mér frá því að hann "hefði ekki alræðisvald" og að meirihlutinn hefði verið á móti því að bæta athugasemdum mínum við.

Ekki nóg með það, „reyndir félagar" í Fornleifafræðingafélaginu, svo notuð séu orð formannsins, félagskap sem ég hef verið félagi í mjög lengi, töldu sig fullvissa um að ég væri ekki félagsmaður, að ég hefði gengið úr félaginu, og að ég hefði ekki greitt félagsgjöld árið 2012 og 2013. Mér hefur ekki nýlega verið tilkynnt að ég væri ekki félagi og hef fengið tölvupósta frá félaginu, sem setur hlekk í bloggið Fornleif á heimasíðu sinni.

Skoðun mín á drögum Þjóðminjasafnsins að nýjum vinnureglum, sem mér þykja á flestan hátt ágætar, féll svo mikið fyrir brjóstið á einum fornleifafræðingi, að rétt fyrir fundinn skrifaði hann mér m.a. eftirfarandi svödu vegna þess pósts með athugasemdum sem beðið var um, og sem ég leyfði mér að senda til allra félagsmanna svo þeir fengju þær tímanlega fyrir fundinn:

Þú gerir þér grein fyrir því að þessar endalausu tölvupóstsendingar þínar fara að jaðra við ofsóknir og þú gætir mögulega átt von á kæru frá mér vegna þessa.  Því leyfi ég mér að segja að ég þekki fólk í Danmörku sem getur vel tekið að sér það verkefni að heimsækja þig - sofðu með annað augað opið!  

Í SÍÐASTA SINN VILTU DJÖFLAST TIL AÐ TAKA MIG ÚT AF ÖLLUM JÁ ÖLLUM TÖLVUPÓSTUM SEM ÞÚ SENDIR OG BIDDU FYRIR ÞVÍ AÐ ÞÚ EIGIR EKKI LEIÐ TIL ÍSLANDS ÞAÐ SEM EFTIR ER ÞVÍ AÐ OKKAR FUNDIR VERÐA EKKI FAGRIR!!

Þetta var nú heldur hressilega til orða tekið og sýnir að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Kristján Eldjárn var fornleifafræðingur. En mig langar strax að taka fram, að ég sendi hvorki endalausa tölvupósta til félagsmanna í Fornleifafræðingfélaginu, né öðrum. Ég er ekki "spammari" og sendi mjög fáa pósta daglega. En hunsun „reyndra félaga" og þeirra sem mættu á fundinn í félaginu í Reykjavík í gær, sem ég gat ekki mætt á þar sem ég bý erlendis, sýnir nú heldur betur nauðsyn þess að ég sendi umbeðnar skoðanir mínar til allra félagsmanna í Fornleifafræðingafélaginu. Einn fór hamförum og hinir fóru að gera því skóna að ég væri ekki félagi. Mér fundust svalir Moskvuvindar fjúka mér í móti. Það er komin Kremlfýla af þessu félagi sem ég er í.

Þegar ég var búinn að fá vitneskju um að "reyndir félagar" í Fornleifafræðingafélaginu hefðu lokað fyrir skoðanir mínar á opinberu skjali, sem opinber stofnun hafði beðið um álit á, leyfði ég mér einnig í dag að senda þessa skoðun til formanns Fornleifafræðingafélagsins:

Sæll Ármann,

þegar ummæli, sem beðið er um hjá félagsmönnum í félagi, eru ekki nýtt í umsögn sem félagið sendir frá sér, vegna þess að reyndir félagar telja sig vita "hitt og þetta" um félagsmanninn sem kemur með athugasemdina, þá kalla ég það ekki beint "persónulegan tilgang" að nýta sér netföng félagsmanna og senda skoðun sína til þeirra allra, sér  í lagi ef félagið vill ekki miðla minnihlutaáliti.

Þótt allir hinir í félaginu séu hugsanlega á þeirri skoðun, að fornt silfur geti fundist óáfallið í jörðu á Íslandi og það sé í fínasta lagi fyrir Þjóðminjasafnið að týna sýnum sem safnið hefur látið taka, þá tel ég það félagslegan rétt minn að segja öllum í félaginu, að ég hafi aðra skoðun á því máli. Varðveisla gripa og sýna, fyrr og nú, tengist auðvitað ósk Þjóðminjasafnsins um að ráða því hvernig gengið er frá sýnum og forngripum á Íslandi áður en þau eru afhent á Þjóðminjasafnið. Hvað á að gera við silfur sem finnst óáfallið í jörðu? Það kemur einfaldlega ekki fram í drögunum sem Þjóðminjasafnið sendi út fyrir áramót. En slíkt silfur hefur reyndar fundist.

Ef Þjóðminjasafnið vill að varðveislumál séu í lagi, er líkast til ekkert sjálfsagðara en að Þjóðminjasafnið skýri, hvað varð um sýni sem tekin voru fyrir safnið árið 1994, eða t.d. hvaða gripir týndust hér um árið, en komu svo sumir að sögn aftur í leitirnar eftir að blásaklaust fólk utan safnsins hafði verið þjófkennt. Það lýsir ekki sérstaklega traustu ástandi í 150 ára sögu safnsins, og það verður að vera öruggt að slíkt ástand sé ekki enn við lýði og endurtaki sig. Mér er mikið til sama hvað öðrum félögum í félaginu finnst um að gripir sem ég afhenti til forvörslu á Þjóðminjasafni hafi verið látnir grotna niður.  Það var einfaldlega eyðilegging á rannsókn minni, framin af einum af reyndustu félagsmönnunum í okkar félagi. Það var einnig brot á Þjóðminjalögum, og eftir þeim eigum við að starfa.

Ég get alls ekki tekið undir þá skoðun meirihlutans og háttvirtra "reyndra félaga" félagsins, sem í gær söfnuðust saman á Fornleifafræðistofunni, að varðveislumál og frágangur fornminja sem finnast við rannsóknir eigi að vera á könnu Minjastofnunar Íslands. Þá verður að breyta Þjóðminjalögunum, því þau segja okkur að fara með það sem við finnum á Þjóðminjasafnið. Þjóðminjasafnið á auðvitað að taka við því í góðu ásigkomulagi.

Mér sýnist ekki betur en að meðan meirihlutinn og "reyndir félagar" í pólítbyrói félagsins vilja ekki hlusta á rök mín, þá gangi þeir kinnroðalaust erinda nýstofnaðrar Minjastofnunar Íslands, sem einn félagsmaður okkar er forstöðumaður fyrir.

Þjóðminjasafnið hefur einnig skuldbindingar samkvæmt lögum. Það er alls ekki nógu gott að á stofnun, sem á að taka á móti jarðfundnum menningararfi samkvæmt lögum, geti ekki gert grein fyrir því sem þar hefur komið inn af sýnum og forngripum, eða horfið. Ég geri vissulega ráð fyrir því að mest af þessum hvörfum og týnslum sé fortíðarvandi, sem hvarf fyrir fullt og allt með núverandi þjóðminjaverði. En hún neitar þó staðfastlega að svara fyrirspurnum um slík hvörf og lætur það líðast að starfsmenn sem bera ábyrgð á hvarfi menningararfsins á sínum tíma svari ekki spurningum frá sérfræðingum utan safnsins.

bestu kveðjur,

Dr. Vilhjálmur  Örn Vilhjálmsson

 

Afsakið það er einhver að banka

tumblr_m7k5zvbcxW1r5ijn2o1_500

... Þá er einum dönskum leigumorðingja færra Smile


Nýir tímar, breyttir siðir

Artifacts-From-The-Silver-007
 

Nýverið bárust mér drög að Leiðbeiningum um umhirðu forngripa. Skjal þetta er upprunnið á Þjóðminjasafni Íslands. Það lýsir óskum safnsins, á 150 ára afmæli sínu, um hvað gera skal við jarðfundna forngripi úr fornleifarannsóknum, sem allir eiga að varðveitast á Þjóðminjasafni Íslands, nema ef annað sé tilgreint og ákveðið.

Ég fékk þessa umsögn frá félagi sem ég er meðlimur í, Forleifafræðingafélagi Íslands, sem er eitt af tveimur félögum fornleifafræðinga á Íslandi. Ég fékk skjalið harla seint, finnst mér, því það á að ræða um það á morgun (29.1.2013), og félagið á að skila áliti til Þjóðminjasafns þann 1. febrúar nk.

Í fljótu bragði sýnast mér drögin vera ágæt, þótt vanda mætti íslenskuna og varast endurtekningar. Nú á 21. öld verðum við að lúta fremstu kröfum um frágang á fornleifum og syndir forfeðranna má ekki endurtaka.

Mér er óneitanlega hugsað til frágangsins á ýmsu því sem ég sá koma til Þjóðminjasafnsins þegar ég vann þar frá 1993 til 1996. Ég uppfyllti langt frá þær reglur sem nú er ætlunin að setja, þegar ég afhenti fornleifar úr rannsóknum sem ég stýrði, en ég gerði það eftir bestu getu og vitund. Það gerði líka Mjöll Snæsdóttir, er hún afhenti þjóðminjasafni Íslands merka forngripi sem fundist höfðu við fornleifarannsóknir á Stóru-Borg sem fóru fram í fjölda ára undir hennar stjórn og á vegum Þjóðminjafans Íslands. Því miður hefur mikið magn forngripa þaðan eyðilagst á Þjóðminjasafninu,  eftir að þeir voru afhentir þangað. Þar var um tíma enginn forvörður og þegar þeir hófu loks störf var skaðinn skeður. Það var menningarsögulegt stórslys.

Ég afhenti kassa af járngripum til forvörslu á Þjóðminjasafni íslands árið 1984, í þar til gerðum fundakössum sem ég hafði fengið afhenta af forvörðum Þjóðminjasafns Íslands, þar sem mér hafði verið lofuð forvarsla á gripunum. Þegar ég hóf þar störf árið 1993, kom í ljós að járngripirnir sem fundust á Stöng árið 1984 lágu allir undir skemmdum. Ekkert hafði verið gert síðan 1984. Árið 1984 var einn forvarða Þjóðminjasafnsins Kristín Sigurðardóttir, nýútnefndur forstöðumaður Minjaverndar Ríkisins.

Gripir sem finnast sýningarhæfir 

Stundum er maður bara svo heppinn, að forngripir finnast svo að segja forvarðir.  Það gerðist t.d. á Miðhúsum árið 1980. Silfrið, sem fannst þar, var óáfallið og forverðir þurftu aðeins að bursta óhreinindi af gripunum. Kristján Eldjárn var mjög undrandi yfir þessari ótrúlegu varðveislu og spurðu finnendur í þaula út í það. Þór Magnússon Þjóðminjavörður hefði örugglega fallið á prófinu ef hann hefði afhent silfursjóðinn á Þjóðminjasafnið í dag, ef hann hefði gert það eins og hann gerði þá. Samkvæmt ströngustu reglu Þjóðminjasafnsins nú, hefði hann alls ekki mátt setja sjóðinn í plastpoka ofan í stresstösku sína eins og hann gerði samkvæmt því sem hann upplýsti. En hvað á maður að halda þegar maður finnur óáfallið silfur. Hvað á maður yfirleitt að gera þegar maður finnur óáfallið silfur í jörðu á Íslandi? Hingað til hefur það þótt við hæfi að stinga höfðinu í sandinn í stað þess að spyrja spurninga.

Skýringar á því hvað gjöra skal ef maður finnur ááfallið silfur í jörðu vantar tilfinnanlega í nýjar leiðbeiningar Þjóðminjasafns Íslands. Er ekki ósköp eðlilegt að hafa allan varann á, ef það sem gerðist árið 1980 á Miðhúsum gerðist aftur. Ég hef því beðið félag mitt að beina þeim breytingartillögum til Þjóðminjasafns, að upplýst verði hvað gera skuli finni maður óáfallið silfur í jörðu.

Eyðublöð fyrir afhenta gripi og sýni 

Hvað varðar eyðublað yfir afhenta gripi og sýni sem Þjóðminjaafnið sendi einnig fagfélögum fornleifafræðinga í nóvember sl., þykir mér það vera til sóma. En ég hafði samt búist við einhverju öðru en einfaldri Excellskrá. Í því sambandi leyfi ég mér vinsamlegast að benda á, að jarðvegssýni sem þjóðminjasafnið lét taka af jarðvegi á Miðhúsum árið 1994 eru nú týnd - ekki til - og ekki skráð inn í safnið. Excell var reyndar til á þeim tíma er sýnin voru tekin og er því engin afsökun fyrir því að sýni sem Þjóðminjasafnið lét taka séu horfin. Týndu jarðvegssýnin, sem voru frá Miðhúsum í Eiðaþinghá, höfðu aldrei verið rannsökuð. Grunur leikur á því, að það hafi verið notað sem pottamold á Þjóðminjasafni Íslands, en ekkert finnst heldur um það á skrá eða skjölum. Einn fremsti sérfræðingur safnsins um silfur, þjóðfræðingurinn Lilja Árnadóttir vill þó ekki enn tjá sig um málið.

Vitandi af slíku hvarfi, getum við fornleifafræðingar nokkuð fullvissað okkur um, að Þjóðminjasafnið varðveiti það sem afhent er til safnsins? Getur safnið yfirleitt kastað því á glæ sem það safnar, án þess að stafkrókur sé til um það á safninu? Samkvæmt nýjustu yfirlýsingum þjóðminjavarðar á 150 ára afmæli safnsins er það hægt, án nokkurra frekari skýringa.

Safn verður aldrei betra en það fólk sem vinnur þar.

Dæmi um nýlega og nokkuð athyglisverða forvörslu 

Á síðasta ári greindi ég frá fundi silfurbaugs í svonefndum Alþingisreit í Reykjavík. Á vefsíðu Þjóðminjasafns er einnig greint frá þessum fundi . Í myndasögu Þjóðminjasafni er fyrst sýnd mynd af því er ungur fornleifafræðingur er að grafa fram gripinn í felti.

Forleifauppgroftur-a-Althingisreit

Tekin hefur verið ákvörðun um að halda áfram uppgreftri á forvörsluverkstæði Þjóðminjasafns Íslands, og þess vegna hefur gripurinn verið tekinn upp með undirliggjandi mold, svo hægt væri að halda áfram nákvæmri rannsókn á honum. Svo sýnir Þjóðminjasafnið tvær myndir af moldarkögglinum sem starfsmenn safnsins tóku með sér í hús og bætir við þessari upplýsingu:

"Myndir sem sýna annars vegar moldarkökkinn og svo hins vegar þegar búið er að hreinsa lausa mold ofan af honum, áður en armbaugurinn var losaður úr honum. (Ljósm: Sandra Sif Einarsdóttir)."
armbaugur-2armbaugur-3

Takið hins vegar eftir því hvernig gripurinn leit út áður en hann var tekinn upp sem "preparat". Var mikill jarðvegur ofan á honum þá? Nei, ekki samkvæmt þeim ljósmyndum sem hafa birst í fjölmiðlum.

Einnig má glögglega sjá á báðum myndunum, að köggullinn hefur brotnað eftir að hann var tekinn upp og færður á Þjóðminjasafnið, og er það greinilega vegna þess að preparatið hefur ekki verið styrkt með gifsi, eins og tíðkast t.d. hér í Danmörku og á flestum öðrum stöðum í heiminum - nema á Þjóðminjasafni Íslands.

Röntgenmynd af kögglinum sýnir að gripurinn hefur greinileg brotnað þar sem köggullinn hefur brotnað.

Armbaugur Alþingi
Efst í þessari færslu má sjá armbauga af sömu tegund og sá hringur sem fannst í Reykjavík. Þeir fundust á Bretlandseyjum og eru frá því um 900 e.Kr.
Hér gleymdi forvörður Þjóðminjasafnsins að steypa sýnið í gifs. Líklegast brotnaði hann þess vegna, en gripurinn er í dag límdur saman.  Sjáið hér varðveisluna á silfri í Reykjavík. Hún er greinilega allt öðruvísi en fyrir Austan þar sem silfur finnst óáfallið.

Moldin milda frá Miðhúsum er horfin

Mid 2

Rétt fyrri áramótin greindi ég frá einstökum varðveisluskilyrðum Miðhúsasilfursins. Margir höfðu undrast þau á undan mér og árið 1994 var fornleifafræðingur einn sérstaklega og leynilega beðinn um að taka sýni af jarðveginum á Miðhúsum til rannsókna. Menn grunaði náttúrulega, að hin einstaka varðveisla silfursins gæti tengst moldinni sem silfrið fannst í.

Eins og ég greindi frá í desember, voru þau sýni aldrei rannsökuð og nýlega bað ég um að fá upplýst, hvar þau væru niður komin. Eins og ég hef áður greint frá, hafa gripir oft annað hvort horfið og týnst á Þjóðminjasafni Íslands. Moldin frá Miðhúsum er nú einnig glötuð og hefur reyndar aldrei verið skráð inn í bækur Þjóðminjasafns Íslands að því er þjóðminjavörður upplýsir (sjá hér; Ég ítrekaði fyrirspurn mína um moldarsýnin þann 13.12. 2012 við Lilju Árnadóttur safnvörð í erindi til hennar þann 3. janúar 2013 um moldina, en Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður svaraði fyrir Lilju, sem nú er víst hætt að geta svarað).

Hvar er moldin? 

Ég ætla ekki að fara að skapa neitt moldvirði vegna þess uppblásturs sem átt hefur sér stað á sjálfu Þjóðminjasafninu. Hugsið ykkur ef geimfarar NASA kæmu með nokkur kíló af ryki frá tunglinu, og að það týndist. Moldin frá Miðhúsum er kannski ekki eins einstök og mánaryk, en í henni varðveitist silfur eins og það hefði verið pússað í gær. Er mér barst svar þjóðminjavarðar um að Miðhúsamoldin væri ekki lengur tiltæk á Þjóðminjasafninu, datt mér eitt andartak í hug, að Lilja Árnadóttir hefði kannski notað þessa forláta mold fyrir pottaplöntu á skrifstofu sinni.

Í sama bréfi og þjóðminjavörður svarar fyrir starfsmann sinn Lilju Áradóttur, sem kemur ekki lengur upp orðum, vill þjóðminjavörður, Margrét Hallgrímsdóttir selja mér ljósmyndir af gripum sem eitt sinn voru týndir á Þjóðminjasafni Íslands. Fyrirspurn mín um myndirnar af týndum gripum er reyndar alls endis óskyld moldarsýnum frá Miðhúsum, en ég ritaði tilfallandi til þjóðminjavarðar um það sama dag og ég sendi fyrrgreint erindi til Lilju Árnadóttur um moldina frá Miðhúsum.

Ég greindi einnig nýlega frá sumu því sem horfið hefur og týnst á Þjóðminjasafninu (sjá hér og hér). Vandamálið er bara, að ég var alveg sérstaklega tekinn fyrir og spurður út í hvarf nokkurra innsiglishringa á Þjóðminjasafninu árið 1989. Ég vissi ekkert um þessa gripi og af hverju þeir höfðu týnst. Síðast kom í ljós að hringar þessi höfðu færst til í skáp og að menn höfðu ekki leitað nógu vel í skápnum áður en þeir höfðu samband við mig þar sem ég var í doktorsnámi á Englandi. Ekki var hóað í mig vegna hæfileika minna til að finna hluti og sjá, heldur vegna þess að verið var að þjófkenna mig.

Nú eru svo upplýsingar um endurfund týndu hringana glataðir og í ofanálag er moldin frá Miðhúsum horfin. Ég á að borga fullt verð fyrir ljósmyndir af gripum sem menn hafa greinilega glatað upplýsingum um á Þjóðminjasafni Íslands? Ég ætlaði að birta þær myndir hér á blogginu til að gera almenningi, sem borgar fyrir fornleifarannsóknir, innsýn í starfshætti Þjóðminjasafns Íslands hér áður fyrr.

Ætli séu yfirleitt til myndir af moldinni frá Miðhúsum? Maður þorir vart að spyrja, því í ljós gæti komið að þær væru líka týndar.

Hvarf gagna sem safnað er við fornleifarannsóknir varðar vitanlega við Þjóðminjalög og á því verður að taka. Ef rannsóknarefni ef vísvitandi kastað á glæ er um sakhæft atferli að ræða.

Axlar núverandi þjóðminjavörður virkilega ábyrgð á gerðum forvera sinna í starfi?

Núverandi þjóðminjavöður axlar í bréfi sínu til mín (sjá hér) ábyrgð á gerðum og orðum forvera sinna í starfi, sem og undirmanna sinna. Við það sýnist mér, að hugsanlega sé núverandi þjóðminjavörður líka farinn að týna sér. Vona ég að svo sé þó ekki, því hún ber enga ábyrgð á skussahætti fyrri tíma á Þjóðminjasafninu.

Án marktækra niðurstaðna á rannsóknum á silfursjóðnum frá Miðhúsum, og í ljósi þess að mikilvæg sýni eru horfin, er ljóst að enginn fótur er fyrir því sem ég var rekinn frá Þjóðminjasafninu fyrir hafa skoðun á og tjá mig um opinberlega. Ég vona að forsvarsmenn Þjóðminjasafns Íslands og þeir sem bera ábyrgð á því ævarandi atvinnubanni sem atvinnuskussinn Þór Magnússon setti mig í árið 1996, geri sér grein fyrir því að þið hafið framið glæp gangvart einstaklingi.

Myndin efst sýnir Kristján Eldjárn, Þór Magnússon (bograndi) og heimafólk á Miðhúsum á moldinni góðu. Myndin er úr frétt Sjónvarps frá 1980, af VHS spólu sem ég keypti af RÚV á sínum tíma, sem ég afhenti Menntamálaráðuneyti meðan rannsóknir fóru fram á silfursjóðnum á Miðhúsum 1994-95. Menntamálaráðuneytið getur núna ekki fundið spóluna. Vona ég að ráðuneytið gangi í það skjótt að fréttin verði send mér í nútímahorfi á DVD, fyrst gögn týnast líka í ráðuneytinu eins og á Þjóðminjasafninu. Hver veit kannski er fréttin nú líka týnd á RÚV?


Tvær frásagnir af finnskum fornleifafræðingi

Voionmaa 2

Jouko Voionmaa (1912-1991)

Fyrri sagan af Jouko Voionmaa

Einn þátttakenda leiðangurs fornleifafræðinganna frá Norðurlöndunum í Þjórsárdal og í Borgarfirði sumarið 1939 var ungur, finnskur fornleifafræðingur, Jouko Voionmaa að nafni. Það kom í hlut Voionmaas að rannsaka fornleifar á Lundi Lundareykjadal og þar sem heitir Stórhólshlíð í Þjórsárdal. 

Voionmaa var af fræðimannakyni kominn, sonur Väinö Voionmaa (1869-1947) sagnfræðiprófessors við háskólann í Helsinki, sem um tíma sat í ríkisstjórnum Finnlands fyrir sósíaldemókrata. Hann var í tvígang utanríkisráðherra Finnlands 1926-7 og í skamman tíma árið 1938. Móðir hans var Ilma Voionmaa.

Jouko Voionmaa tók árið 1937 þátt í norrænu fornleifafræðingaþingi í Danmörku, þar sem rannsóknirnar á Íslandi byrjuðu á gerjast. Þegar þær rannsóknir voru skipulagðar var ákveðið að hann tæki þátt í rannsóknunum fyrir hönd Finnlands. Þetta bréf ritaði hann Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði þann 6. júní 1939 og í lok ágústmánaðar sama ár þakkaði hann fyrir sig með nokkrum línum sem hann sendi frá Hótel Borg.

Að mínu mati var Jouko Voionmaa líklegast fyrsti fornleifafræðingurinn sem starfaði á Íslandi sem beitti nákvæmnisvinnubrögðum við fornleifarannsóknir. Voionmaa hélt dagbók yfir rannsóknir sínar á Íslandi árið 1939 eins og allir hinir stjórnendur uppgraftanna. Dagbók hans, sem hann merkti með finnska fánanum, og sem i dag er varðveitt í Helsinki, geymir ýmsar upplýsingar um að það gat verið örlítið lævi blandið andrúmsloft milli norrænu fornleifafræðinganna, að minnsta kosti í dagbókum þeirra.

Í bók Steffen Stummanns-Hansen um sögu fornleifarannsókanna í Þjórsárdal árið 1939, Islands Pompeji (2005), reynir höfundur í fremur langlokulegum köflum, að gefa mynd af því hvað hinir ýmsu þátttakendur hugsuðu. Þetta hefur ekki tekist sem skyldi, eins og margt annað í bók Stummann-Hansen. Höfundurinn hefur greinilega ekki skoðað eða haft aðgang að öllum tiltækum heimildum. Í bókinni er t.d. ekki getið dagbókar Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar, sem reyndar til er á Þjóðminjasafni Íslands (og sem ég á til í ljósriti). Hana hefur Stummann-Hansen að einhverjum ástæðum ekki fengið aðgang að er hann var að afla heimilda á Íslandi fyrir hálfmisheppnaða bók sína.

Dagbók Voionmaas

Dagbók Voionmaas frá rannsóknum hans á Íslandi.

Margir þátttakendanna í rannsóknunum árið 1939 voru vegna einhvers þjóðernisrembings - eða  minnimáttakenndar - með horn í síðu hvers annars, og sumir í garð Voionmaas, þar sem þeim þótti hann ekki kunna að grafa. Ef til vill var eitthvað baktjaldamakk í gangi. Voionmaa gróf hins vegar nákvæmlega eins og flestir fornleifafræðingar myndu gera í dag. Þeir sem voru af gamla skólanum, t.d. arkitektinn Aage Roussell, sem var frábær að mæla upp rústir/byggingar, sem var og eina áhugamál hans, eða Aage Stenberger frá Svíþjóð, létu aftur móti hjálpardrengi sína moka fjálglega upp úr tóftum þeim sem þeir stjórnuðu rannsóknum á.Matthías Þórðarson hafði lítið yfirlit yfir það sem hann var yfirleitt að gera og rannsókn hans var ekki vísindaleg. 

Það kom einnig fljótt í ljós að Aage Roussell hafði valið sér vænstu rústina, það er að segja rústina að Stöng. Aðrir en Roussell höfðu fúlsað við staðnum í upphafi. Ákveðin öfund kom í ljós hjá hinum þátttakendunum yfir „heppni" Roussells.

Dómharður Dani

Aage Roussell var ýkja dómharður um menn í bréfum sínum til vina sinna sem varðveist hafa. Hann sendi eftirfarandi baktal til kollega síns og mentors, Poul Nørlunds:

Þórðarson er forfærdelig flink, men ganske uninteresseret i saavel udgravningerne som vore personer, men der er intet samarbejde. Han ved det hele i forvejen, for han kan læse det i sagaerne. Han interresser sig heller ikke for at deltage i vore aftensamtaler, som særlig Stenberger elsker. Sidstnævnte herre virker meget nervøs og deprimeret og lader is slaa ned af den mindste modgang. Voionmaa er en flink gut, men gangske uden kendskab til bygningsarkæologi, hans opmaaling er et mareridt. Han er stenaldermand. Jeg er glad for den lille Eldjárn, som Stenberger misunder mig inderligt. ...".

Dagbók Matthíasar Þórðarsonar er að sama skapi upplýsandi, en einhvers konar minnimáttarkennd hans leiddi til einangrunar hans í verkefninu. Hann hafði áður verið orðinn tengiliður fyrir verkefni nasískra „fræðimanna" í Þýskalandi sem vildu rannsaka fornleifar á Íslandi, en sem ekkert varð úr.

Voionmaa, hins vegar, var maður að mínu skapi og beitti sömu aðferðum og ég hef notað í Þjórsárdal við rannsóknir mínar þar. Hann fann greinilega fyrir hnýtingum gömlu karlanna í sig, og skrifaði: 

„Satan, jeg gjorde fel den förste dagen. I. hade grävt fandens [finsk: perkele]mycket mera än jag. T. återvände redan klockan fem efter at ha funnit ett hus med fem rum. Min egen grävningsteknik have väckt uppmärksamhed bland turisterna och de bereättade att I. och jag använde olika metoder. Utan att säg ett ordgick I2 till sen egen plats och återkom därifrån tigande. Att jag själv åstadkommit såpass litet berodde också på att två män röjde bort björkbuskaget varför enast 2´grävde. Det är derfor klart at jeg i viss mån ger efter, emedan skiktgrävning är onödig i lager just från tiden före det sista utborttet. Det stämmer nog att man lika bra kan iakttage de olika skikgten i profilen, men det är tots det interessant att följa de olika skikten i plan, ty då kan man se hur huset har förandrat då väggarna strörtat umkull och taken brakat samman.  Man kunne skriva en hel artikel om S., så underlig och umöjlig är han. Kippelgren [orðaleikur Voionmaa og á hann við fyrrverandi þjóðminjavörð Finna, Hjalmar Appelgren-Kivalo] hade mere rätt i då han i Helsingfors talade om honom. En fullständig rövaslickare .. Min egen metod visade sig vara rigtig, ty genast under yttertorven fanns skiktet med Heklas utbrott 1793 og under det den hela väggen. ..."

Það er erfitt að átta sig á þessum árekstrum milli manna, og vita við hvern er átt þegar Voionmaa kallar t.d. einn af þátttakendunum landshöfðingjann og annan sósíalíska félagsmálaráðherrann. Þann síðastnefnda telur höfundur bókarinnar Islands Pompeji vera Kristján Eldjárn.

Það er þó ljóst að hinn ungi finnski fornleifafræðingur var enginn steinaldamaður. Hann gróf með tækni og aðferðum sem nútímafornleifafræðingar myndu flestir samþykkja. Líklegast átti Roussell við að Voionmaa græfi eins og fornleifafræðingar á hans tíma grófu upp steinaldaleifar. 

En þessi rembukeppni á milli fornleifafræðinganna á Íslandi árið 1939 hefur maður svo sem séð hjá síðari tíma fornleifafræðingum. Sumir fornleifafræðingar gera víst ekkert annað í frítíma sínum.

Lundur 3 litil

Voionmaa og samstarfsmenn hans rannsökuðu m.a. þessa rúst að Lundi í Lundareykjadal árið 1939.

Voionmaa fann líklega, þrátt fyrir aðferðafræðina sem fór í taugarnar á grófgerðari mönnum, besta fund sumarsins í Þjórsárdal. Í dalinn kom ung finnsk kona Liisa (Alice) Tanner, sem hélt upp á lokapróf sitt við háskólann í Helsinki með því að ferðast með vinkonu sinni alla leiðina til Íslands. Tveimur árum síðar kvæntist Jouko henni og þau eignuðu síðar saman sjö börn. En kannski varð það bara Liisa sem fann Jouko sinn - hver veit? Börn þeirra eignuðust fornleifafræðinga sem guðforeldra. Því er haldið fram í bókinni Islands Pompeji, að íslenskt fornleifafræðingapar hafi verið guðforeldrar barna Joukos og Liisu Voionmaa. Það hlýtur að byggja á einhverjum misskilningi, því á þessum tíma höfðu engir íslenskir fornleifafræðingar látið pússa sig saman. Eitthvað held ég að það sé orðum aukið eins og svo margt í bókinni Islands Pompeij.

Eftir síðara stríð var Voionmaa einn fremsti myntsérfræðingur Finna og vann sem yfirmaður myntsafna Þjóðminjasafns Finna og Háskólans í Helsinki. Hann skrifaði nokkrar mikilvægar bækur á því sviði. 

 

Síðari sagan af Jouko Voionmaa

Annar kafli í ævisögu þessa merka finnska fornleifafræðings, er sótti Ísland heim árið 1939, er minna þekktur en sá fyrri. Þekkja fróðir menn sem ég hef hitt og sem unnu með Voionmaa á Þjóðminjasafni Finna ekki einu sinni þá sögu. Það er saga Voionmaas í Síðari heimsstyrjöldinni, eða í Framhaldsstríðinu 1941-44, eins og Finnar kalla stríðið, því þeir háðu skömmu áður Vetrarstríðið við Sovétríkin eins og kunnugt er.

Þegar Jouko Voionmaa sneri aftur til Finnlands haustið 1939, var styrjöld skollin á í Evrópu og hann fór eins og flestir Finna ekki varkosta af því. Finnar þurftu að þola miklar hörmungar í Vetrarstríðinu svokallaða 1939-40. Voionmaa var kallaður í finnska flotann árið 1941. Þetta kemur meðal annars fram í þeim bréfaskrifum sem hann átti við Mårten Stenberger sem hafði fengið það hlutverk að smala saman niðurstöðunum úr rannsóknunum á Íslandi sumarið 1939. Niðurstöðurnar komu að lokum komu út í bókinni Forntida Gårdar i Island, (Munksgård; København 1943/ bókin var hins prentuð í Uppsölum í Svíþjóð).

Forntida Gårdar I Island 2

Forntida Gårdar i Island.

Heimildir sem Steffen Stummann-Hansen hefur birt í bók sinni Islands Pompeji sýna, að Voionmaa átti í erfiðleikum með að skila af sér og lesa próförk fyrir bókina um Íslandsverkefnið fyrr en um miðbik 1943, en þá fyrst lauk herþjónustu hans. Ekki er þó greint nánar frá þessari herþjónustu í bók Stummann-Hansens.

  OmakaitseTartu1941

Eistar flykktust undir fána Omakaitse-sveitanna, illræmdra vopnabræðra Þjóðverja, árið 1941. Myndin er tekin í Tartu.

EstonianNavyjoyningOmakaitseTartu1941

Myndin sýnir við nánari athugun, að undirforingjar í eistneska flotanum gengu í raðir Omakaitse-sveita, heimavarnarliðsins, sem einnig hjálpaði dyggilega til við að framfylgja Helförinni í Eistlandi.

Starf Juoko Voionmaas í finnska flotanum, Merivoimat, sem útsendur undirforingi, var að vera sendifulltrúi Finnska flotans hjá Þýska flotanum í Tallinn, Marinebefehlshaber Ostland.

Hann skrifar ekki mikið um starf sitt í bréfi til Mårten Stenbergers dags.12 maí 1943:

„Ett halvt år var jag som förbindelsesofficer vid den tyska staben i Reval, blev tillbakakommenderad efter nögonslags gräl me tyskarna på grund af deras inbillade anklagelser för politisk arbete. I själve verket vill tyskarna att så få människor som möjligt se deras regim i Estland, som annos står oss nära. Allt hvad Finland angår: finsk historia och kultur ända till små saker. Mannerheims bilder o.s.v., äro där forbjudna, efter varje finne går SS-män, våra samtal och sällskap åhöras. Undan totala mobilisationen fly hundratals ester över viken till Finland, alla vilja kämpa mot bol^vismn [sic í Islands Pompeij] men ej för Tyskland. Estland som gått igenom bol^svistisk [sic í bókinni Islands Pompeij] terror väntar och får ej någonting bättre av tyskarna. ... Och nu är jag "under damm" och sammlar historik över krigshändelser i våra Sjöstridskrafter." ....(Bréfið er að finna á Antikvariks-Topografiska Arkivet väd Riksantikvarieämbetet í Stokkhólmi og er hér ritað af eftir rithætti í bókinni Islands Pompeji).

Varð Voionmaa vitni að Helförinni?

Í október 1947, frammi fyrir rannsóknarnefnd, sem stofnuð var til að rannsaka mál landráðamanna og samverkamanna nasista í Finnlandi eftir stríð, sagði gyðingurinn og þingmaðurinn Santeri (Alexander) Jakobsson frá því, að faðir Jouko Voinomaas, Väinö, sem lést árið 1947, hefði greint sér frá því að Voinmaa hefði með Gestapomönnum og finnskum lögregluforingjum séð fjöldagrafir gyðinga í Eistlandi. Sjá nánar hér í bók Hannu Rautkallios (1988) um það sem Jakobsson hafði eftir Väinö Voionmaa.

Juoko Voionmaa var kallaður fyrir rannsóknarnefnd þann 20. október 1947, og neitaði alfarið frásögn Jakobsson og sagði hana byggja á misskilningi. Jouko Vioonmaa sagðist hins vegar hefði verið í boðinu í foringjaklúbbnum á Domberg í Tallinn sem Jakobsson hafði sagt frá, en að hann hefði ekki farið með hinum í yfirmannaboðinu, þ.e. Arno Anthoni yfirmanni finnsku Ríkislögreglunnar, VALPO, og SS Standartenführer og yfimanni Einsatzkommando 1a of Einsatzgruppe Martin Sandberger til að sjá gyðingagrafir. Móðir Juokos, Ilma, var þá einnig kölluð fyrir rannsóknarnefndina árið 1948 (22. október), og var tekin gild frásögn hennar um að maður hennar, prófessor Väinö Voionmaas, hefði jafnan sagt sér allt að létt úr starfi sínu en að hann hefði aldrei sagt sér það sem Santeri Jakbosson hafði greint frá og talið sig heyra Jouko segja frá upplifelsi sínu í Eistlandi.

Santeri Jakobsson var ekki kallaður frekar til yfirheyrslna og þar við sat. Það forðaði Jouko honum örugglega frá frá vandræðum því málið var hið óþægilegasta fyrir sósíaldemókrata. Hvaða nálægð og samvinna sem einhver maður hafði haft við við Þjóðverja í stríðinu var slæmt mál fyrir hann, sér í lagi rétt eftir stríðið, þegar VALPO hafði fengið nýja stjórnendur sem ekki voru lengur samverkamenn nasistaböðla heldur trúir hinum ysta vinstri væng stjórnmálanna.

Ekki dreg ég frásögn Jouko Voionmaas fyrir rannsóknarnefndinni í efa, enda engar heimildir til sem geta leyft mér það, en furðulegt þykir mér þó samt misminni Jakobssons og sú aðferð rannsóknarnefndarinnar finnsku að spyrja ekkju Vainö Voinmaa, Ilmu, um sannleiksgildi lýsinga Jakobssons, sem Jakobsson hafði að sögn eftir Vainö Voionmaa.

Þær nafngreindu persónur, þýskar sem eistneskar, sem Jouko þurfti á einn eða annan hátt að umgangast í embætti sínu í Eistlandi, báru hins vegar sannanlega ábyrgð á fjöldamorðum og útrýmingu gyðinga í Eistlandi og Finnlandi. Þeir fengu aldrei þau maklegu málagjöld sem menn höfðu vænst. Ættingi eins fórnarlamba lögregluforingjans Arno Anthonis vildi ekki mæla með dauðadómi yfir Anthoni, og dauðadómur yfir Martin Sandberger var felldur úr gildi í Vestur-Þýskalandi og hann dó sem vel efnaður öldungur á lúxuselliheimili í Stuttgart árið 2010. Hann hló að fórnarlömbum sínum alla leið í gröfina. Hér má lesa frásögn af viðtali sem tekið var við hann árið 2010.

sandberger og anthoni

Arno Anthoni (annar frá vinstri í fremstu röð) og Martin Sandberger (þriðji frá vinstri) voru menn sem fornleifafræðingurinn Voinmaa neyddist til að umgangast er hann gegndi þjónustu fyrir land sitt í Finnska flotanum.

Enginn vildi hafa verið í sporum Voionmaas í Eistlandi, en mikið hefði verið gott fyrir síðari tíma og skilning manna á stríðinu hefði hann sagt umheiminum aðeins meira frá störfum sínum í Eistlandi þessi örlagaríku ár 1941-43 og frá því hvernig hann umgekkst fjöldamorðingja.

Helförin i Finnlandi 

Í Finnlandi fóru rannsóknir þegar í gang á því í hve miklum mæli finnska Ríkislögreglan VALPO hafði samvinnu við að koma gyðingum og öðrum frá Finnlandi fyrir kattarnef með samvinnu við útrýmingarsveitir (Einsatzgruppen) Þjóðverja í Baltnesku löndunum. Til Finnlands höfðu 500 gyðingar flúið fyrir stríð. Mörgum tókst að flýja áfram í einhvers konar frelsi en aðrir hrökkluðust aftur til landa þar sem þeir voru í hættu. Fjjöldi gyðinga faldi sig einnig í skógum Lapplands. Nýlega hefur finnski sagnfræðingurinn Oula Silvennoinen sýnt fram á, að þýskar Einsatzgruppen hafi einnig starfað í Finnlandi til að leita uppi kommúnista og gyðinga.

Fljótlega eftir stríð var sýnt fram á að yfirmaður ríkislögreglunnar/VALPO, Arno Antoni, hafði mikið og náið samband við morðapparat Þjóðverja og eistneskra aðstoðarmenn þeirra. Hann hafði sýnt einbeittan vilja til að aðstoða Þjóðverja við að útrýma gyðingum í Finnlandi.

Átta flóttamenn af gyðingaættum höfðu meðal annarra verið sendir þangað frá Finnlandi af finnsku lögreglunni og síðar til Auschwitz. Til samanburðar má nefna, að ég uppgötvaði að líkt ástand hafði ríkt í samstarfi ríkislögreglunnar og annarra yfirvalda í Danmörku við þýska innrásarliðið og greindi ég frá samstarfinu í bók minni Medaljens Bagside (2005). Danskir embættismenn í tveimur ráðuneytum og í ríkislögreglunni báru ábirgð á morðunum á ríkisfangslausum gyðingum, sem Danir vildu ólmir senda til Þýskalands eða Póllands. En Danir héldu því leyndu, meðan Finnar tóku strax á málunum. 

Meðal þeirra gyðinga sem Danir vísuðu úr landi fyrir stríð og áður en Danmörk var hersetin af Þjóðverjum var Hans Eduard Szybilski, þýskur gyðingur, kventískufatasölumaður, sem reynt hafði að setjast að í Svíþjóð árið 1936. Honum var vísað úr landi í Svíþjóð árið 1938 og sama ár frá Danmörku. sem síðar var sendur til Eistlands af finnskum yfirvöldum. Þar var hann dæmdur til dauða og ásamt hinum gyðingunum sem fangaðir voru af VALPO sendur til Auschwitz-Birkenau, þar sem hann var skotinn til bana við flóttatilraun (ég ritaði lítillega um Szybilski í bók minni).

Finnska lögreglan hitti Evald Mikson 

Finnskur lögreglumaður, Olavi Vieherluoto, sem vitnaði gegn yfirboðurum sínum árið 1945, lýsti m.a. fundi sínum með eistneska lögreglumanninum Evald Mikson í október 1941, sem greindi frá því hvernig Mikson hafði myrt gyðinga. Viherlouto upplýsti:

"Because I did not see a single Jew in Tallinn, I asked the gentlemen of the Sicherheitspolizei, where all the Jews had vanished from Tallinn. They told me, that the Jews are allowed to sojourn only in the inland, 15 kilometers from the coast. When I had heard from my Estonian guide, that the Jews had been placed in concentration camps, I asked the matter also from a couple of officials of the political police, a.o. from Mikson. They explained that there were practically no Jews in Estonia any more. Only a group of younger Jewish women and children is closed in a concentration camp situated in Arkna. All the male Jews have been shot. After the conquest of Tartu 2600 Jews and communists were shot. In Tartu a great number of even very small Jewish children starved to death.

A couple of days before my return to Finland Mikson told me that the next day they would bring several tens of elderly Jewish women to the central prison on Tallinn and another official who was there, said that they will be given "sweet food". Both of them explained that such Jewish old women had nothing to do in the world any more. They did not tell me more precisely what they meant by "sweed food", but I think that those Jews were shot a couple of days later. Mikson namely told me that on the same morning when I last time visited the central prison, they had taken 80 Jews on trucks to the woods, made them to kneal on the edge of a pit and shot them from back." (Sjá m.a. Silvennoinen 2010).

Mikson þekkja Íslendingar vitaskuld best sem Eðvald Hinriksson (1911-1993), nuddarann sem lést á Íslandi eftir að íslensk yfirvöld höfðu, í dágóðri samvinnu við eistnesk yfirvöldum, dregið að rannsaka ásakanir á hendur honum um stríðsglæpi. Hann fór eins og margir aðrir böðlar í baltnesku löndunum hlæjandi að fórnarlömbum sínum yfir móðuna miklu.

KGB vildi vita meira 

Þess má geta, að sonur Joukos, Kaarlo Voionmaa, sem starfar sem málvísindamaður við háskólann í Gautaborg, hefur upplýst mig, að er faðir sinn hafi eitt sinn verið staddur í Sovétríkjunum sálugu á 7. áratug síðustu aldar, líklegast á einhverri ráðstefnu, þá mun KGB hafa tekið hann afsíðis og yfirheyrt hann um þann tíma sem hann þjónaði í finnska flotanum í Eistlandi. Kaarlo Voionmaa og systkini hans vita því miður ekki meira um þá yfirheyrslu, eða hvað faðir þeirra upplifði meðan hann dvaldi sem flotafulltrúi í Tallinn á stríðsárunum. Sum þeirra vilja reyndar ekki ræða málið. Nýlega minntust börn Joukos Voionmaas100 ára árstíðar hans. Sjá hér.

Gaman hefði verið að fá aðgang að gögnum KGB um Voionmaa ef einhver eru. Það yrði líklega það sem menn kalla Mission impossible, því þrotabú Sovétríkjanna er svo spillt, að maður þarf að vera milljónamæringur til að fá að ganga að slíkum gögnum, það er að segja ef leiðtoginn í Kreml leyfir slíkt, en Pútin sleit eins og allir vita ballettskónum í KGB. Líklegt er þó að Voionmaa hafi sýnt Rússum þegjandi þögnina og að "mappan" hans sé tóm. En kannski...

Þakkir

færi ég Kaarlo Voionmaa málvísindamanni í Göteborg, sem er áhugaverður bloggari og persónuleiki, og sonur Jouko Voionmaas, sem og til Oula Silvoinainens prófessors í Helsinki fyrir veittar upplýsingar og hjálp.

Ítarefni:

Rautkallio, Hannu 1988. Finland and the Holocaust: The Rescue of Finland's Jews. (Holocaust Library, New York. 

Silvennoinen, Oula 2010. Geheime Waffenbruderschaft: Die sicherheitspolizeiliche Zusammenarbeit zwischen Finnland und Deutschland 1933-1944. Wissenschaftliche Buchgesellschaft, Darmstadt.

Stummann Hansen, Steffen 2005. Islands Pompeji; Den Fællesskandinaviske Arkæologiske Ekspedition til Þjórsárdalur i 1939, [PNM Publication from the National Museum, Studies in Archaeology & History Vol. 11,] Copenhagen. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2005. Medaljens Bagside; Jødiske Flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945. Vandkunsten 2005. (Finnið hana á Gegni).

Weiss-Wendt, Anton 2009. Murder without Hatred; Estonians and the Holocaust. Syracuse University Press.


Hvar er húfan mín?

thor_m

Hvar er húfan mín?
Hvar er hempan mín?
Hvar er falska gamla fjögra gata flautan mín?
Hvar er úrið mitt?
Hvar er þetta og hitt?
Hvar er bláa skyrtan, trefillinn og beltið mitt?
Ég er viss um að það var hér allt í gær.

Höfund þessarar vísu þekki ég ekki, en ég söng hana gremjulega innra með mér árið 1988. Ég veit aftur á móti hver skrifaði þessi vísu orð: Týndur hlutur er ekki alltaf glataður. Þau skrifaði fyrrverandi þjóðminjavörður, Þór Magnússon. Hann átti nefnilega í stökustu vanræðum með hve oft hlutir hurfu á Þjóðminjasafninu, eins og greint hefur verið frá áður á Fornleifi. Þjóðminjasafnið staðfesti loks opinberlega árið 2012, að einstæðir gripir úr íslenskum kumlum hefðu horfið erlendis.

Vegna tíðra hvarfa forngripa á Þjóðminjasafninu þótti Þór Magnússyni ástæða til að skrifa mér langt bréf í febrúar árið 1988, þegar ég stundaði hluta af doktorsnámi mínu við Durham University á Englandi. Í bréfinu skrifaði Þór m.a.:

Fyrir um tveimur árum eða þremur tók ég eftir því , að í skápinn þar sem sýnd eru gömul innsigli og hringir, þar á meðal bréf Jóns Arasonar, vantaði nokkra gripi. Þeir höfðu verið teknir án þess að nokkurt spjald væri sett í staðinn, eins og við reynum þó að gera að fastri venju, og voru skörðin auð og ófyllt eftir. Þetta eru gersemar, en eitt er innsigli (frekar en hringur með rauðum steini og grafin í vangamynd af manni, sagður kominn upp úr leiði Sigurðar Vigfússonar Íslandströlls á Kvennabrekku, og svo virðist, eftir plássinu að dæma, vanta tvo hringi í viðbót, en enginn texti hefur verið við þá.

Vegna misminnis starfsmanns safnsins taldi Þór að ég hefði sagst sjá hringana heima hjá dr. Kristjáni Eldjárn á Sóleyjargötunni.

Allt bréfið, sem mér þótti hið óþægilegasta, vega illa að heiðri mínum og þjófkenna mig, má lesa hér.

Eins og menn sjá má af bréfinu, hafði Þór Magnússon að vanda litla stjórn á hlutunum, ef nokkra, en hann mannaði sig þó upp í að hafa samband við mig og spyrja mig um horfna gripi á Þjóðminjasafninu. Ég var ekki einu sinni starfsmaður Þjóðminjasafnsins.

Handritað svar mitt má lesa hér. En ég heyrði ekki meira um þessa gripi eftir þetta svar mitt til Þórs.

Ný fyrirspurn - ný aðför - um týnda innsiglishringa 

28. maí árið 1997 ritaði ég Þjóðminjasafni bréf frá Kaupmannahöfn,  þar sem ég bað um upplýsingar um þá týndu gripi sem Þór Magnússon leitaði að árið 1988. Ég bað m.a. um ljósmyndir af þessum gripum (sjá hér). Þór Magnússon svaraði og sagði gripina fundna og bauð mér að panta ljósmyndir af þeim gegn kostnaði. Ég gat hins vegar af góðum ástæðum ekki skrifað og beðið um eitthvað sem ég vissi ekki hvað var og sem Þór þekkti ekki einu sinni safnnúmerin á. En ég bjóst auðvitað við því að Þjóðminjavörður hefði skráð það hjá sér þegar gripirnir fundust aftur.

Þór Magnússon skrifaði aldrei til annarra en mín varðandi týndu innsiglishringana. Engin bréf þess efnis fann ég í bréfasafni Þjóðminjasafns Íslands er ég vann þar. Ég fann reyndar aldrei svar mitt til Þórs, bréf hans til mín eða önnur gögn um þetta hvarf í bréfasafni Þjóðminjasafns. Þar áttu þau að vera því Þjóðminjavörður sendi þessar fyrirspurnir á vegum stofnunar sinnar.

Týndur hlutur er ekki alltaf glataður skrifaði Þór. Þrír innsiglishringar voru þó tröllum gefnir árið 1988, og þegar þeir voru komnir í leitirnar og reyndust hafa orðið óreglu að bráð frekar en að hafa týnst, átti ég að fara að borga fyrir myndir af þessum gripum.

Fordómar og hatur Þórs Magnússonar í garð minn fékk útrás í ýmsum gjörðum hans. Ég lá einn manna undir grun um að vita um gripi sem Þjóðminjasafni þekkti ekki einu sinni safnnúmerið á. Hann rak mig síðar frá Þjóðminjasafni Íslands árið 1996 fyrir að segja sannleikann um ýmsa hluti. Sannleika sem hann vildi ekki heyra, en sem loks kom honum í koll þegar hann var rekinn vegna óhóflegrar framúrkeyrslu á fjárlögum Þjóðminjasafnsins - sem hann reyndi auðvitað að kenna öðrum um með glapræðislegum aðferðum. Ég var ekki rekinn vegna Miðhúsasilfurs eins og illa gefnir og enn verr upplýstir menn halda fram.

Beiðni

Langar mig nú að biðja Þór að senda mér myndir af týndu gripunum sem ekki glötuðust. Hann hefur öll tök á því og getur greitt fyrir slíkt, þar sem hann hefur lengstum eftir að hafa misst embætti setið uppi á kvisti hjá Þjóðminjasafninu, meðan ég hélt áfram í ævilöngu Berufsverbot sem hann setti mig í árið 1996 fyrir að spyrja opinberlega spurninga um lélega stjórnunarhætti á vinnustað mínum.

Taka ber fram, að Þjóðminjasafnið er í dag allt önnur stofnun, sem tók stakkaskiptum eftir að Þór Magnússon var settur í leyfi snemma á 10 áratug 20. aldar eftir að unnin hafði verið skýrsla sem sýndi óhæfi hans til að stjórna Þjóðminjasafninu. Ég þurfti að knýja þá skýrslu út úr Menntamálaráðuneyti árið 1997 og kærði það álit ráðuneytis (Þórunnar Júníönu Hafstein) að þetta væru vinnuskjöl einvörðungu ætluð ráðuneytinu.  Úrskurðarnefndar um Upplýsingamál var ekki sammála ráðuneytinu og ættarlauknum þar.

Svo fór Þór í leyfi til að skrifa um silfur 

Þór fékk leyfi frá störfum árið 1992 til að skrifa sögu Silfurs á Íslandi fyrir Iðnsögu Íslands á fullum launum Þjóðminjavarðar og þar að auki 8 mánaða laun frá Iðnsögu Íslands (sjá hér). Enn er þó ekki farið að bóla á þessu verki. Guðmundur Magnússon sagnfræðingur og starfsmaður Sjálfstæðisflokksins var settur Þjóðminjavörður í apríl 1992 til mikillar óánægju fyrir þá starfsmenn á Þjóðminjasafninu sem gengið höfðu sjálfala. En Þór kom aftur til starfa eftir rúm tvö ár og Guðmundur var látinn hætta þrátt fyrir góð störf. Þór var hins vegar rekinn frá störfum fyrir óhóflega framúrkeyrslu, og sannaðist þá aftur það mat sem skýrslan frá 1991 gaf. Þór reyndi, þegar hann gat ekki gert grein fyrir framúrkeyrslunni, að kasta skuldinni á saklausan fjármálastjóra safnsins. Starfsmenn þeir sem Þór hafði haldið uppi í lystisemdum í áraraðir, jafnvel án lokaprófa í þeim greinum sem þeir sögðust vera menntaðir í, voru hins vegar fljótir að snúa bakinu við meistara sínum, eins og þeir höfðu sumir einnig gert þegar skýrslan um Þjóðminjasafnið var unnin árið 1991.

Þjóðminjasafnið má nú vinsamlegast skrá bréfaskriftir þær sem hér eru opinberaðar í bréfabækur safnsins. Þær eru ekkert einkamál og því birtar hér til að kasta ljósi á mjög dökkan kafla í sögu fornleifavörslunnar á Íslandi.

Fleiri þjófkenningar

Árið 1996, þegar Þór Magnússon rak mig frá störfum á Þjóðminjasafninu og setti mig þar að auki í ævilangt atvinnubann á safninu, var mér skipað að pakka mínar föggur og yfirgefa safnið með eins dags fyrirvara! Hvaða glæp ætli menn fremji til að fá slíka meðferð? Ég hafði m.a. lýst sömu skoðun og skýrslan frá 1991 sem ég fékk fyrst árið 1997.

Þegar ég fór að setja eigur mínar í 4 pappakassa, lét Þór Magnússon, með leyfi menntamálaráðherra og Sturlu Böðvarssonar formanns Þjóðminjaráðs, húsvörð safnsins og Guðmund Ólafsson fornleifafræðing (einn þeirra starfsmanna sem starfaði án lokaprófs í fornleifafræði í áraraðir og kallaði sig samt fornleifafræðing) standa og fylgjast með því.

Ég kallaði þá til vin minn til að verða vitni að þessum aðförum. Ekki var nóg með að Þór léti varðhunda sína standa og athuga hvern einstaka hlut sem ég setti ofan í kassana. Þegar þeir voru komnir niður á jarðhæð og stóðu við bakdyrnar, þar sem ég ætlaði að bera pappakassanna inn í rauðu Löduna mína, þá kemur Þór Magnússon í eigin persónu og fer sjálfur í kassana. Hann tók möppur og annað upp úr þremur kassanna og fletti eins og hann væri í hlutverki Herr Flicks í Allo Allo sjónvarpsmyndaröðinni bresku. Ég held að hann hafi fyrst og fremst hætt við það verk, þar eð þarna voru staddir iðnaðarmenn sem þótti þetta mjög furðulegt athæfi og einblíndu á það sem var að gerast. Einnig var þar staddur vinur minn, lögfræðingur.

Hver veit, kannski var Þór Magnússon enn að leita týndu innsiglishringanna? Þeir reyndust, eins og hann skrifaði árið 1997 "ekki hafa horfið. Þeir höfðu farið, sennilega við tilfærslu, á bak við aðra hluti í sýningaskáp og sáust ekki fyrr en þeir hluti voru hreyfðir". Já, svo vel leituðu menn (sem voru menntaðir í því að leita) af sér allan grun.

Hatur og fordómar Þ.M. leiddi hann til ómerkilegra ásakana. En hann er ekki eini Íslendingurinn sem stundað hefur þá iðju. Langar mig að nefna dæmi, því þau sanna frekar málið en það sem mönnum "finnst" og "þykir". Eitt sinn skrifaði ég klausur í Morgunblaðið, þar sem ég mótmælti því að helfararafneitari fengi að skrifa hatursræðu í blaðinu. Morgunblaðið vildi heimfæra mig og setti á mig nafn vinnustaðar míns, þó ég hefði ekki skrifað hann í innsendum texta. Helbláir fingurnir á bak við menn eins og Þór Magnússon í íslenska stjórnkerfinu, skipuðu Þór að banna mér að nota nafn Þjóðminjasafnsins, þegar ég skrifaði um helfararafneitendur. Ég greindi Þór frá því að ég hefði ekki skrifað annað en fornleifafræðingur í aðsent bréf til Morgunblaðsins. Einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að Þór væri þeirrar skoðunar að helfararafneitun ætti rétt á sér "eins og önnur gagnrýni", og við frekari samræðu kom í ljós Þór taldi að það hefði verið gerð aðför að saklausum manni þegar stofnun erlendis bað um rannsókn á högum Eðvalds Hinrikssonar, sem yfirvöld í Eistlandi hafa skilgreint sem stríðsglæpamann, með semingi þó.

Myndir af hringunum takk 

Þess vegna bið ég nú Þjóðminjasafn Íslands og Þór Magnússon um að senda mér myndir af þessum týndu gripum mér að kostnaðarlausu, svo ég ég geti birt myndir af þeim hér á blogginu. Hér hjá Fornleifi týnist ekkert.

Staða mála 17/7 2020:

Nú erum við í júlímánuði 2020 og ekki hef ég enn fengið myndir af gripunum sem Þór Magnússon taldi að væru týndir.

 


Finnur Magnússon (1781-1847), fyrstur íslenskra fornleifafræðinga

Finn Magnusen 2

Fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn var óefað Finnur Magnússon (Finn Magnusen) prófessor í Kaupmannahöfn. Finnur var kannski ekki með próf í fornleifafræði, því hún var einfaldlega ekki kennd þegar hann var í námi. Hann gróf, svo vitað sé, heldur aldrei. Hann var líka dálítill draumóramaður og skýjaglópur eins og margir íslenskir fornleifafræðingar. Hér er ég auðvitað að hætti fornleifafræðinga kominn í hrópandi mótsögn við það sem ég sagði í færslunni hér á undan, þar sem ég hélt því fram að maður án prófs og uppgraftar gæti ekki verið fornleifafræðingur. Ég tek það hér með aftur.

nordisk Archaeologie 2
Titilsíða Nordisk Archæologie eftir Finn Magnússon (1820). Karl faðir minn gaf mér bókina er ég fékk pungapróf (Ph.D.) í fornleifafræðinni við háskólann í Árósum árið 1992

 

Finnur var fyrsti Íslendingurinn sem ritaði um norræna fornleifafræði og hélt hann marga fyrirlestra um hana við Hafnarháskóla. Árið 1820 gaf hann út litla bók, Bidrag til nordisk Archæolgie meddeelte i Forelæsninger.

Finnur var reyndar uppgjafarlögfræðistúdent sem gerðist fornleifafræðingur. Árið 1833 fór hann með tveimur öðrum fræðimönnum til Runamo í Blekingehéraði í Svíþjóð, þar sem er að finna mikla ristur. Finnur réði upplýsingar þeirra og innihald á nokkrum klukkustundum. Dellu-Íslendingurinn kom upp í honum og ári síðar gaf hann út ekki meira né minna en 750 blaðsíðna verk um hvað risturnar geyma af upplýsingum þegar maður les þær aftur á bak, þ.e.a.s. frá hægri til vinstri. 

Lögfræðinám og ævintýri í Reykjavík

Hvernig hefur slíkurr fornaldarsnillingur ævi sína. Jú, Finnur sem fæddist í Skálholti, fékk stein í hausinn þegar hann var tveggja ára. Það gerðist í miklum jarðhræringum sem hann og fjölskylda hans komust lífs úr. Nokkru síðar fékk hann hlaupabólu og var vart hugað líf. Bólan skaðaði sjónina í Finni og var hann að eigin sögn ávallt mjög nærsýnn eftir það, þótt ekki sjáist gleraugu á myndum af honum. Ég hef oft heyrt um höfuðáverka sem aðrir fornleifafræðingar fengu í æsku, og sem menn telja rótina að fræðilegum heiðri sínum. Aðrir snillingar hafa t.d. dottið á hausinn.

Auðsýnt þótti á 19. öld, að menn sem fengu stein í hausinn, voru af góðum ættum og með lélega sjón væri til einskis annars nýtir en að sigla til Hafnar og leggja stund á guðfræði eða lélegt handverk. Finnur valdi handverkið og sigldi til Hafnar til að lesa lög, en tíminn fór mest í verklega þætti hennar, drykkju, dufl, spil og hraðskreiðar konur, sem eru lestir sem við þekkjum enn meðal lagastúdenta á okkar tímum.

Slippur og snauður og án gráðu sigldi Finnur aftur heim til Íslands árið 1806 fyrir síðustu skildingana sem hann hafði kríað út hjá veðlánaranum. Lífið næstu árin á Íslandi var ekki minna óreglulegt en Hafnarárin, en hann hélt þó stöðu sem ritari sem hann fékk fyrir góð tengsl og klíku sem alltaf hefur verið mikilvægt afl á Íslandi og hefur bjargað mörgum aumingjum frá glötun.

Talið er að Finnur hljóti að hafa veri  „hirðmaður" Jörundar Hundadagakonungar, þótt hann hafi eins og flestir hirðmenn Jürgensens svarið það af sér. En Jörundur greiddi honum morðfé fyrri einhverja ómerkilega bók sem Finnur útvegaði honum áður en konungstíð Jörunds lauk.

Önnur tilraun 

Er Finnur eða Finn Magnusen, sem hann kallaði sig lengstum, var rúmlega þrítugur, gerði hann aðra og heiðvirðari tilraun til náms í Kaupmannahöfn, enda karlinn búinn að hlaupa af sér hornin. Hann lagði nú stund á fornnorrænar bókmenntir og á mettíma var hann orðinn prófessor við Hafnarháskóla árið 1815.

Árið 1918 var honum falið að halda fyrirlestra um fornnorrænar bókmenntir og goðafræði og er bók hans um fornleifafræði frá 1820 m.a. afraksturinn af því. Árið 1823 hlotnaðist honum staða sem Gehejmarkivar, þ.e. einkaskjalavörður hins konungslega skjalasafns og 1829 var hann orðinn forstöðumaður safnsins. Í skjalavarðarstöðunni, sem ekki gaf mikið í aðra hönd, gat hann unnið að rannsóknum og 1836 var honum veittur doktorstitill við Hafnarháskóla. Finnur var sömuleiðis einn af stofnendum Hins Íslenzka Bókmenntafélags, og gaf út Íslenzk sagnarblöð, sem voru fyrsti vísirinn að Skírni. Með öðrum stofnaði hann Det Kongelige Nordiske Oldskriftselskab árið 1825 og hann þýddi Eddu hina eldri og helsta verk hans var líklegast Eddalæren og dens Oprindelse sem út kom 1824. Það rit var fullt af bulli og fræðilegum þvættingi og álíka spekúlasjónum og íslenskir bókmenntafræðingar hafa verið með allar götur síðan.

Eina verk Finns fyrir íslenska fornleifafræði var að senda spurningalista Oldsagskommissionarinnar, Den kongelige Commission til Oldsagers Opbevaring, sem stofnuð var árið 1807, til Íslendinga. Fornleifanefndin var stofnuð árið 1807 til að safna upplýsingum um fornleifar í danska konungsríkinu. Árið 1817 var röðin komin að Íslandi. Fyrstu listarnir voru sendir prestum á Íslandi er Finnur gerðist nefndarmaður. Í spurningalistanum voru menn beðnir um að upplýsa um fornleifar, jarðfastar og lausar, sem þeir þekktu í nágrenni sínu. Afraksturinn var merkilegur en hann kom ekki út á Íslandi fyrr en árið 1983, þegar prófessor Sveinbjörn Rafnsson og Guðrún Ása Grímsdóttir gáfu hann út í tveimur bindum: Frásögur um fornaldarminjar 1817-1823,  I-II. (Stofnun Árna Magnússonar, Rit 24) Útgáfan er stórvirki fyrir sögu fornleifafræðinnar á Íslandi.

Sveinbjörn Rafnsson skrifaði einnig fyrir fáeinum árum ágæta grein um Finn Magnússon í Aarbøger for Nordisk Oldkyndighed og Historie, forna ritröð danska, sem Finnur gaf upphaflega út með öðrum. Það er grein sem allir áhugamenn um íslenska fornleifafræði verða að þekkja og lesa. Það furðar mig þó, þrátt fyrir góða grein, að Sveinbjörn minnist hvergi á að Finnur Magnússon hafi skrifað bókina Nordisk Archæologie, og að hann hafi haldið fyrirlestra um fornleifafræði. Bókin er trúlega ekki til á Landsbókasafninu? Páll Valsson hefur einnig sýnt Finni áhuga og skrifað áhugaverða grein: "En runologs uppgång och fall" í Scripta Islandica: Isländska Sällskabets årsbok 48 for 1997.

Misheppnaður rúnafræðingur 

Rúnafræði Magnússonar, sem fyrr var nefnd, orkaði tvímælis er hann var enn uppi. Menn vildu ekki alveg meðtaka túlkun hann ristunum í Runamo í Blekinge, sem hann las reiprennandi afturábak og afrám. Árið 1844 gaf 21 ára upprennandi fornleifafræðingur, Jens Jacob Asmussen Worsaae að nafni, út bækling þar sem hann sýndi fram á að risturnar í Runamo væru náttúrfyrirbæri. Margar aðrar rúnaskýringar Finns á manngerðum rúnum hafa síðar reynst vera rangar eða dellukenndar. Finnur var einn um að bera skömmina vegna uppgötvunar J.J.A. Worsaae, sem síðar varð einn að fremstu fornleifafræðingum Dana. Aðrir sem höfðu verið samsinnis Finni um "rúnirnar" í Runamo voru ekki áreittir vegna þessarar fræðilegu skammar.

Worsaae's Runamo
Teikning af náttúrufyrirbærunum í Runamo í bók Worsaaes

Finnur hafði slegið um sig með illa ígrunduðum skýringum, líkt og sumir íslenskir fornleifafræðingar gera enn í dag á sumarverðtíðinni. Þrátt fyrir Runamo-ævintýri Finns verður ekki af honum skafið, að hann var afkastamikill og merkur fræðimaður - síns tíma. Við getum ekki dæmt hann í dag eins og samtíminn gerði, við getum í mesta lagi brosað dálítið í kampinn yfir því að einhver hafið gefið út 750 blaðsíðna bók um sænskt náttúrufyrirbæri. Bækur Finns um fornleifafræði og rúnirnar í Runamo, bera öll einkenni þess að Finnur hafi nú verið hálfgerður skýjaglópur með mikinn sannfæringarkraft. Hann verður því örugglega að teljast til fornleifafræðinga, annars hefði hann ekki fengið stein í hausinn, svo tekin sé snúin skýringatækni hans sjálfs að láni.

Síðustu árin 

Síðustu ár ævinnar barðist Finnur í bökkum fjárhagslega. Konan var farin frá honum, eins og hendir marga góða menn sem ekki eru öðrum sinnandi vegna fræðimennsku og peningaleysis. Runamo- rúnirnar voru orðnar af Guðs rúnum og karlinn orðinn hálfgert aðhlátursefni í Kaupmannahöfn. Finnur leysti þá sín verstu fjárhagsvandamál með því að selja íslensk miðaldahandrit á ýmis erlend bókasöfn, þar sem þau varðveittust líkast til betur en í saggalegri íbúð hans í Kaupmannahöfn.

Þegar Finnur Magnússon andaðist árið 1847 í Klampenborg, var hann greftraður á Assistens-kirkjugarðinum í Kaupmannahöfn. Hvorki var reistur bautastinn eða ristar rúnir yfir leiði hans og líklega var það sökum þess að engir peningar voru lengur til í skuldabúi fræðimannsins. Steinn var þó settur yfir Finn 34 árum eftir andlát hans. Sá steinn hvarf um 100 árum síðar þegar breytingar voru gerðar á kirkjugarðinum. Árið 2006 sá áhugafornleifafræðingurinn Rud Kjems um að setja nýjan legstein yfir yfir jarðneskar leifar fyrsta íslenska fornleifafræðingsins með þátttöku Det Kongelige Nordiske Oldskriftselskabs. Nokkru síðar gaf Rud Kjems út skemmtilega skáldsögu um Finn, sem hann kallar Runamo  og hægt er að lesa þanka Kjems um Finn Magnússon hér, hér og hér 

Runamo Kjems

Þeir sem vilja votta Finni Magnússyni virðingu, næst þegar þeir eru staddir í Kaupmannahöfn, finna jarðneskar leifar hans undir nýjum legsteini í Assistents kirkjugarði, Deild C, gröf 181.

Blessuð sé minning Finns fornleifafræðings

Assistents gravskænderi

Nýlega var mikið rask í Assistent kirkjugarði, því neðanjarðarlestarstöð á að rísa í einu horni hans. Jarðneskar leifar þeirra sem lágu á svæðinu þar sem grafarfriðurinn var rofinn voru rannsakaðar af fornleifafræðinemum frá ýmsum löndum. Að mati ýmissa manna var ekkert því til fyrirstöðu að hafa stöðina handan við götuna þar sem hús hafa hvort sem er verið rifin nýlega. Þetta var afar umdeild framkvæmd.


Hver var fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn ?

Eldjárn

Margir telja að dr. Kristján Eldjárn hafi verið fyrsti gjaldgengi fornleifafræðingurinn á Íslandi. Því fer fjarri. Eldjárn var ekki fyrstur til að stunda fræðin og hafði aðeins lágmarksmenntum í fornleifafræði frá Hafnarháskóla. Ekki þekki ég vel námsárangur Kristjáns, en hann fór á kostum sem fyrirsæta á Hafnarárunum. Kristján var ekki eins limalangur og þungbyggður eins og margir danskir samstúdentar hans. Fornaldabúningar sátu því afar vel á Kristjáni. Eldjárn telst óefað til okkar fremstu fornleifafræðinga fyrir sitt ævistarf og þekkingu, m.a. doktorsrit sitt Kuml og Haugfé í heiðnum sið á Íslandi. Síðari tíma fornleifafræðingum tókst svo til ekkert að betrumbæta í endurútgáfu á því verki fyrir nokkrum árum (sjá hér). Nei, aðrir fornleifafræðingar en Kristján verða víst ekki forsetar úr þessu.

Kveðja frá Kristjáni

Smá snobbgrobb. Kristján Eldjárn gaf mér mörg sérrit er hann bauð mér í heimsókn til sín í byrjun 9. áratugar 20. aldar. Hann var afar ritfær fornleifafræðingur. Þessa tileinkun ritaði hann á sérrit sem hann gaf mér. Þap bar heitup "Skriftlige og arkæologiske vidnesbyrd om Islands ældste bebyggelse", sem var heiti heiðursfyrirlesturs sem hann flutti við Háskólann í Óðinsvéum í maímánuði árið 1974.

Ólafía Einardsdóttir
Ólafía Einarsdóttir

Margir hafa einnig verið á þeirri skoðun, að dr. Ólafía Einarsdóttir hafi verið fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn. Þess vegna er eitt af tímaritum fornleifafræðinga á Íslandi kallað Ólafía. Ólafía lauk gjaldgengu prófi í greininni. Hún stundaði nám í Lundúnum og í Lundi. Ekki gróf Ólafía þó mikið á Íslandi, og hvort það var karlremba í Kristjáni Eldjárn eða kvenremba í Ólafíu, þá var Ólafíu ekki stætt á Þjóðminjasafni Íslands, þar sem Kristján réði ríkjum. Ólafía meistraði í staðinn sagnfræðina og tímatal í fornbókmenntum og er ekki síðri fornleifafræðingur fyrir það. Fornleifafræðingar eru færir um margt. Ólafía er með vissu fyrsta íslenska konan sem varð fornleifafræðingur. Ólafía heillaðist af fornleifafræðinni þegar hún kom í heimsókn í Þjórsárdalinn með föður sínum árið 1939 og minntist Matthías Þórðarson þjóðminjavörður stúlku í stígvélum með regnhatt sem horfði á fornleifafræðingana grafa. Þetta sagði Ólafía mér og konu minni  fyrir langalöngu, þegar við heimsóttum hana í íbúð sem hún hafði á leigu á Stúdentagörðum í Reykjavík. Má einnig lesa um það hér í ritgerð í fornleifafræði við HÍ, þar sem því er m.a. haldið fram að konur séu minnihlutahópur. Segið mér eitthvað nýtt. Fyrir utan það er mikið af villum í ritgerðinni, en þær eru gjarnan álíka algengar, sama hvort það eru konur eða karlar sem skrifa - humanum errrare est.

Nei, við þurfum að fara öllu lengra aftur í tíman, en þó ekki alla leið aftur til þess tíma að menn grófu upp bein að Mosfelli og hjuggu í þau þar sem menn töldu víst að þau væru úr Agli Skallagrímssyni. Leit að beinum Egils Skallagrímssonar getur reyndar ekki talist fornleifafræði (eins og hér hefur verið lýst og hér) og þeir sem leita að slíku eru ekki fornleifafræðingar.

Sumir vilja veita Jónasi Hallgrímssyni heiðurinn, því hann gróf í rústir. En gröfturinn einn gerir menn ekki að fornleifafræðingum. Þá geta þeir alveg eins stundað kartöflurækt. Jónas var kannski fyrsti áhugamaðurinn um fornleifauppgröft á Íslandi. Hann fékk vafalaust þursabit er hann velti steinum í hringi á Þingnesi við Elliðavatn árið 1841 með fjórum verkamönnum. Hætti hann öllum greftri eftir það. Gylltir hnappar áttu það líka til að falla af jökkum í uppgreftri. Síðari tíma fornleifafræðingar hafa grafið þar sem Jónas var á ferðinni með vöskum sveinum. Þeir skildu ekki upp né niður í neinu og töldu hann afleitan fornleifafræðing. Kannski var Jón valdur að menningarslysi? Rannsóknum er enn ekki lokið á Þingnesi við Elliðavatn, þar sem hann gróf.

Jónas

Í dag þurfa menn helst að vera með prófgráðu og tilheyrandi titlatog til að geta kallað sig fornleifafræðing, en ekki er það þó verra ef maður fæðist inn í ætt þar sem menn eiga vélgröfur og kunna almennilega uppmælingu. Sumir fornleifafræðingar á síðari tímum eru því miður ekkert annað en verktakar, grafarar, með mjög takmarkaða þekkingu á fortíðinni úr frekar takmörkuðu námi. Það sýnir sig því miður í allt mörgum glannalegum yfirlýsingum og á opinberun á vanþekkingu í sumarvertíðinni, þar sem menn blaðra alls kyns vitlausu í fjölmiðla. Sem dæmi má nefna Keltabyggð í Dölunum, „verstöð fyrir landnám"???, eskimóa í íslenskum klaustrum, fílamenn og aðrar sensasjónir. Fornleifafræðin er orðin aðalsirkus sumarsins. Ef menn  grafa meira en þeir skrifa, er glansinn fljótt farinn af fornleifafræðigráðunni.

Að mati Fornleifs geta menn verið fornleifafræðingar þó þeir grafi ekki. Það er vitaskuld gott að tengja þetta tvennt saman og í fágætum tilvikum þykir mér eðlilegt að kalla menn fornleifafræðinga þó þeir hafi ekki numið fræðin eða grafið upp rúst. Að mínu mati er einn fremsti núlifandi fornleifafræðinga landsins Þórður Tómasson í Skógum. Honum hefur tekist að gera fortíðina vinsælli en mörgum fornleifafræðingnum með meistarabréf upp á vasann.

Þórður Tómasson

Mynd af Þórði Tómassyni fornleifafræðingi við orgelið

Í færslu Fornleifs á morgun verður greint frá þeim manni sem að mati Fornleifs var fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn, en ef einhverjir hafa hugmynd um hvaða mann ég tel réttast að kalla fyrsta íslenska fornleifafræðinginn, geta þeir komið með tilgátur í athugasemdunum.


Slysin eru mörg

orri

Orri Vésteinsson er í dag (19. júní 2012) í Morgunblaðinu með heilmikla orrahríð í garð Menntamálaráðuneytisins vegna nýrra þjóðminjalaga, Laga um menningarminjar, sem hafa verið til umræðu á Alþingi. Kallar Orri grein sína Menningarslys.

En slysin eru að mati Fornleifs ærið mörg, ekki aðeins í gerð skriffinna á lögum til að þjónka við önuga og deilukennda stétt, þar sem siðferðið hefur ekki alltaf verið upp á marga fiska.

Kannski mætti Orri hafa stílað ádeiluna á fleiri en hið illa mannaða ráðuneyti, sem og aðra þætti sem valda því hægt er að deila á þessi nýju lög. Miðað við breytingartilögur á breytingartillögur allsherjar- og menntamálanefndar sjálfrar og umræðuna, sem hægt er að hlusta á á vef Alþingis, eru lögin illa unnin og gerð í litlu samráði við þá sem vinna eiga eftir þeim og af greinilegu áhugaleysi stjórnmálamanna, sem flestir hafa litla burði og getu til að vinna með þennan málaflokk.

Áhyggjur prófessors Orra, sem reyndar er sérfræðingur í sagnfræði, (sem er nú líka gamalt slys móðgun við stétt fornleifafræðinga), eru skiljanlegar. Deild sú við HÍ, sem hann stýrir, hefur pungað út fjölda fornleifafræðinga sem lítið eða ekkert fá að gera ef skráninga fornleifa falla nú að mestu á sveitarfélögin, misjafnlega illa efnuð. Sjá hér

 

Getur verið of mikil gróska í grein? 

Vegna þeirra óhemjumiklu og í raun óeðlilegu grósku í íslenskri fornleifafræði, sem er meiri en annars staðar miðað við íbúafjölda landsins, þá munu stúdentarnir hans Orra ekki fá vinnu við skráningu í eins miklum mæli og hingað til. Víða er þegar búið að skrá fornleifar í ríkari sveitarfélögum landsins. Annars staðar er ekki til stök króna til slíkra verka.

Þannig verða fyrirtæki, sem lifað hafa af fornleifaskráningu, af fjármagni, t.d. það fyrirtæki sem Orri tengdist og tengist á vissan hátt enn, Fornleifastofnun Íslands. Sú „stofnun", sem er reyndar bara sjálfsbjargarviðleitnisfyrirtæki úti í bæ, notar nafn eins og væru um opinbert apparat að ræða. Fyrirtæki þetta hefur notið mest allra góðs af því góðæri sem hefur ríkt í stuðningi til íslenskrar fornleifafræði og af framkvæmdagleðinni fyrir 2008-hrunið. Fornleifastofnun Íslands hefur notið ríkulegs stuðnings frá ríkinu, sem undrar miðað við stapp sem þetta fyrirtæki hefur átt í við ráðuneytið, Fornleifavernd Ríkisins og svo keppinauta sína. Fornleifavernd Ríkisins er einnig afar umdeild "stofnun", eins og málin með Þorláksbúð sýna best. Fornleifavernd á nú að setja undir einn og sama hatt með Húsafriðunarnefnd og er skálmöldin og slagurinn um stöður við þá stofnun þegar hafin að mér skilst. Það mun ekki verða friðsamlegt ferli.

Það er þó ekki eins og fornleifarnar séu allar að hverfa vegna skráningarleysis ef ríkið borgar ekki skilyrðislaust fyrir endalausar fornleifaskráningar. Þær munu hvort sem er verða skráðar og rannsakaðar ef til framkvæmda kemur á ákveðnum svæðum og svæðið fer í umhverfismat eins og vera ber.

Það sem nýju lögin hefðu átt að innihalda voru miklu frekar greinar um skipulega skráningu fornleifa í hættu vegna landbrots og skógræktar, svo eitthverrjar af hættunum séu nefndar. Það gætu flest sveitarfélög kostað og ríkið jafnvel líka, þótt það eyði frekar fé í ESB-ferlið. Í ESB hafa fornleifafræðingar það alls ekki eins gott og hin litla klíka sem hrifsað hefur til sín öll verkefni á Íslandi, jafnvel með aðstoð risavaxins prófessors úti í heimi, sem reyndi að neyða íslenskan stúdent úr doktorsnámi hér um árið til að hjálpa samstarfsaðilum sínum hjá Fornleifastofnun Íslands að komast yfir „arðbær" verkefni á fornleifamarkaðnum. Sami prófessor lofaði mér að koma í veg fyrir að ég fengi nokkurn tíma vinnu í íslenskri fornleifafræði og að fjármagni frá BNA sem hingað til hafði runnið til fornleifaævintýra hans á Íslandi yrði beint "to the Soviets" eins og hann orðaði það.

 

Fyrst og fremst verktakar, svo fornleifafræðingar  

Verktakaæðið í íslenskri fornleifafræði, þar sem margir voru undir pilsfaldi eða til reiðar við stóra prófessorinn í New York, er líklega að líða undir lok. Fornleifafræðin er vonandi að verða að fræðigrein, þar sem menn básúna sig aðeins minna í fjölmiðlum á sumrin en þeir hafa gert hingað til, um grænlenska sjúklinga, fílamenn, verstöð fyrir landnám og aðrar innihaldslausar sensasjónir og rugl.

Kennsla í fornleifafræði á Íslandi er kannski ekki eins nauðsynleg og halda mætti. Nám við erlenda háskóla í þeim löndum sem Ísland hafði menningartengsl við, er mun farsælli leið til að læra um fyrri aldir á Íslandi, en heimalningsfornleifafræði sú sem mér sýnist hafa verið kennd við HÍ. Í HÍ hafa skoðanir ákveðinna manna voru kenndar meðan aðrir fengu ekki rit eftir sig á lestralista deildarinnar. 

Ef maður skoðar sumar ritgerðir í fornleifafræði við HÍ, sem hægt er að sjá á netinu er furðulegt hve lítil þekking er á menningarleifum og forngripafræði Norðurlandanna og annarra nærliggjandi landa. Það hlýtur að endurspegla kennsluna og leiðsögnina. Menn eru t.d. að skrifa um ákveðna gerð gripa en vantar helstu heimildir frá öðrum löndum. Menn geta ekki látið sér nægja nám við HÍ í fornleifafræði og ættu að leita út fyrir landsálana.

Fornleifafræðin á Íslandi gæti með tímanum orðið eins og Íslenskudeildin, þar sem menn voru fram eftir öllu að spá í hluti sem litlu máli skiptu, svo sem hver hefði skrifað Íslendingarsögurnar. Á meðan voru fræðimenn erlendis að nýta sér íslenskar miðaldabókmenntirnar á allt annan og frjósamari hátt. Einnig má nefna blessaða jarðfræðideildina (skorina), þar sem orð ákveðinna manna voru boðorð og trúarbrögð, og menn voru lagðir í einelti ef þeir dirfðust að andmæla.

Það þurfti t.d. jarðfræðing frá skoskum háskóla til að skilja og sjá að tilgátur mínar um að gosið í Heklu árið 1104 hefði ekki lagt byggð í Þjórsárdal í eyði. Fram að því höfðu flestir íslenskir jarðfræðingar og fornleifafræðingar með þeim ekki tekið það í mál. Þeir höfnuðu því án rannsóknar, að leirkersbrot frá 13. öld sem fundist hefur á Stöng í Þjórsárdal væri frá þeim tíma, eða aðrir gripir sem greinileg gátu ekki verið frá því fyrir gosið 1104. Menn þögnuð svo þegar kolefnisaldursgreiningarnar komu og kirkjan á Stöng og kirkjugarðurinn, sem ekki átti að vera það. Þegar 1104-gjóskan fannst undir mannvistarlögum fóru að renna á mennt tvær grímur.  En þegar kom í ljós við rannsóknir annarra, að ég hafði á réttu að standa um endalok byggðar í Þjórsárdal, tók maðurinn sem hrópar nú á síðu 17 í Mogganum um Menningarslys, það að sér í vísindagreingrein sem hann léði nafn sitt líkt og stóri prófessorinn í New York, sem lofaði mér útilokun frá íslenskri fornleifafræði, að reyna að hylma yfir það sem ég hafði skrifað um endalok Þjórsárdal. Ein aðferðin var að vitna aðeins í elstu greinarnar eftir mig, sjá hér.

Prófessorar í fornleifafræði geta því einnig, að mati Fornleifs, hæglega valdið menningarslysum á Íslandi og ekki tel ég víst að þeir séu að hugsa um hag greinarinnar þegar þeir deila á ný lög. Hagur fyrirtækis vinanna á Fornleifastofnun Íslands liggur að mínu mati miklu nær  hjarta Orra Vésteinssonar.


mbl.is Orri Vésteinsson: Menningarslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er konan til vinstri ?

Beinin heilla 3bb

Beinin heilla, og konan hér á myndinni er engin undantekning frá þeirri reglu. Ljósmynd þessi, sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands, var tekin sumarið 1939 í Þjórsárdal, nánar tiltekið í kirkjugarðinum að Skeljastöðum, sem var nærri þar er Þjóðveldisbærinn stendur í dag.

Ég á fórum mínum ljósrit af dagbók Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar frá rannsókninni, sem hefur farið framhjá ýmsum sem telja sig hafa gert rannsóknum í Þjórsárdal skil. Ekki kemur þar fram hvaða heimsókn þessi kona tengdist. Sumir, sem séð hafa mynd þessa hjá mér, létu sér detta í hug dr. Ólafíu Einarsdóttur, sem var fyrsti viðurkenndi fornleifafræðingur Íslands. Það þykir mér sjálfum ólíklegt, þar sem ég man eftir Ólafíu sem mun breiðleitari konu af Mýrarkyni með allt öðruvísi nef en konan sem skoðaði og kjassaði beinin í Þjórsárdal sumarið 1939. En hver veit?

Myndirnar sem teknar voru í garðinum þann dag sem konan lagðist með beinunum, eru einar af þeim fáu sem teknar voru af rannsókninni að Skeljastöðum, þar sem Matthías Þórðarson sem gróf að Skeljastöðum tók ekki ljósmyndir.

Hver er konan
Konur eru svo hverflyndar, hér er ungfrú fornleifafræði 1939 til hægri

 

Til fræðslu fyrir þá sem alltaf eru halda því fram að beinin í Skeljastaðagarði hafi legið í gjósku frá Heklugosinu árið 1104, t.d. jarðfræðingur nokkur sem aldrei kom til Skeljastaða þegar verið var að grafa þar, þó svo að hann væri með í rannsókninni í Þjórsárdal árið 1939, þá má vera augljóst af myndunum , að svo er ekki. Þótt myndin sé svarthvít, get ég séð, að askan sem liggur undir konunni og beinunum er H3 gjóskan, sem er forsögulegt lag sem Hekla spjó yfir Þjórsárdal og víðar fyrir einum 2900 árum síðan, en gjóska þessi hefur víða blásið upp og flust mikið til, enda mjög létt. Flest mannabein í kirkjugarðinum lágu á uppblásnu yfirborðinu og höfðu bein sést þar í langan tíma og verið tekin af læknastúdentum og nasistum. Mun ég greina frá því betur síðar.

Allar upplýsingar um konuna til vinstri á myndinni (til hægri á þeirri neðri) væru vel þegnar. Einhver sonur eða dóttir þekkir kannski móður sína í hlutverki hinnar ungu og glaðlegu konu, sem greinilega hafði áhuga á fornum leifum og skjannahvítum beinum.


Kjósum Kristján

Kjósum Kristján

Þegar ég var í Ísaksskóla (1968) hélt ég að ég myndi fá að kjósa í forsetakosningum. Þegar svo kom í ljós að það var ekki hægt, varð ég vitaskuld afar vonsvikinn. Ég hafði þetta á orði við Svenna vin minn í sandkassanum á róluvellinum okkar í Hvassaleitinu. Hann "kaus" Gunnar Thor eins og flestir í götunni, en ég ætlaði svo sannarlega að kjósa Kristján, meðal annars vegna þess að altalað var, að Gunnar væri bytta, en þó fyrst og fremst vegna þess að Kristján var ÞJÓÐMINJAVÖRÐURINN, og hjá mér var það það sama og vera í guða tölu.

Svo ég skríði nú aftur í sandkassa minninga minna, þá var ég leiður yfir því að geta ekki kosið. Ég vissi ekki alveg hvað það gekk út á, en ég var staðráðinn í því. Ég borgaði meira segja hundraðkall, sem ég átti, í stuðningssjóð Kristjáns Eldjárns, og á enn kvittunina, sem ég ætla að láta innramma við tækifæri. Sýni hana hér sem jarteikn.

Svo þegar Kristján sigraði í kosningunum, fór ég til að hylla hann á tröppum Þjóðminjasafnsins. Þar komst ég upp á tröppur. Þar biðu mín líka vonbrigði. Ég hrasaði á tröppunum og það kom gat á buxurnar mínar. En ég stóð þarna og hyllti forsetann fyrir aftan risavaxinn mann og sá lítið annað enn bakhlutann á honum, sem lyktaði frekar óþægilega. Ég sá ekki einu sinni forsetann.

Ég beit þetta þó í mig ... og loks sumrin 1981 og 1982 komst ég eins nálægt átrúnaðargoði mínu eins og hægt var. Þá var ég byrjaður í námi í fornleifafræði og það hafði Kristján frétt og boðaði mig á fund sinn, tvo sunnudagsmorgna, og talaði um heima og geima og þáði af mér mína fyrstu fræðigrein um fornleifar fyrir Árbók Hins íslenzka Fornleifafélags, félag sem ég hafði gerst félagsmaður í undir "lögaldri". Ég hef því miður ekki verið í félaginu síðan 1995, og veit ekki af hverju, en ætti líklega að ganga í það aftur við tækifæri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband