Færsluflokkur: Menning og listir

Meira um garðahúfuna

DMR-160996

Hér á Fornleifi hefur áður verið skrifað um garðahúfuna (sem einnig var kölluð kjólhúfa og tyrknesk húfa). Það var gert út frá myndskyggnu frá lokum 18. aldar í safni hans sem sýnir slíka húfu borna af Reykjavíkurmeyju.

Þetta höfuðfat fær ekki náð fyrir tískudrósunum í Þjóðbúningaráði, sem er vitaskuld mjög mikilvægt fyrirbæri í landi þar sem fólk segist ekki vera þjóðernissinnað.

Í byrjun þessa árs uppgötvaði ég fleiri heimildir um garðahúfuna, sem aldrei fékk náð fyrir sjónum þjóðbúningasérfræðinga á Íslandi.

Danski liðsforinginn, landkönnuðurinn, fornfræðingurinn og Íslandsáhugamaðurinn Daniel Bruun sýndi þessari húfu nokkurn áhuga og teiknaði hana í þrígang. Teikningar hans eru varðveittar í Danska Þjóðminjasafninu. Ég birti þessar myndir hér í von um að einhverjar þjóðernissinnaðar konur geri þessu pottloki hærra undir höfði, því það getur allt eins verið eldri hefð fyrir en t.d. skúfhúfunni. Garðahúfan gæti jafnvel haft miðaldarætur (sjá hér).

Fornleifur er á því að menn hafi hugsanlega farið að kalla húfu þessa garðahúfu, eftir garderhue, dönskum hermannahúfum í lífvarðaliði konungs.

GardereBjarnarskinnshúfur voru ekki einu höfuðföt lífvarðar konungs. Teikningin er frá 1886.

DMR-161026 b

DMR-161021 b


Sambandinu endanlega slitið í Kaupmannahöfn í gær

Gudni

Áhöfn Fornleifs eins og hún leggur sig, bæði mús og menn, mætti í gær á ráðstefnu um íslenska Fullveldið, sem haldin var á nýbyggingu lagadeildar Hafnarháskóla á eyjunni Amákri.

Veðrið var eins og það er alltaf í Danmörku, 20 stiga hiti og sólskin, og sáu íslenskir gestir á ráðstefnu þessari, hvers þeir fóru á mis við með því að kveðja kóng sinn að mestu árið 1918.

Fyrirlestrarnir voru misjafnir og ýmislegt meira hefði mátt segja. En þegar menn hafa ekki nema 20 mínútur hver, er erfitt að segja allt sem manni langar og öllum líkar. Þeir sem ekki eru sérfræðingar, fengu hins vegar góða innsýn í aðdraganda sambandsslitanna árið 1918.

Líkt og ég greindi frá á þessu bloggi mínu í fyrradag fannst mér vanta danska hlið málsins sagnfræðilega séð, en þeir tveir dönsku sagnfræðingar sem töluðu og einn þeirra af hálfgerðum vanefnum, snertu ekki á því. Fyrirlestur sagnfræðilektors frá Hafnarháskóla sem ég nefndi hér um daginn var þó með ágætum.

Lagalegu hliðunum (þær eru alltaf margar) voru hins vegar gerð góð skil af afar nákvæmum, samviskusömum og einstaklega hæfum konum frá tveimur háskólum á Íslandi og þeirri þriðju frá Hafnarháskóla sem var hreint út sagt séní í ensku. Rektor Kaupmannahafnarháskóla sem var karlpungur á mínum aldri talaði um Surtsey, Heimaey og Eyjafjallajökul með sínu nefi, en virtist mest hrifinn af Íslenskri Erfðagreiningu, sem lá ef til vill næst hans þekkingu, sem er matvælaöryggi.

Kaffihlé og snittur

Guðni forseti heilsaði á mig í kaffihléi. Framsaga hans var því til sóma, persónuleg og fyndin að auki. Eins ræddi ég við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing, þegar komið var að snitteríinu og Rínarvínum í boði Íslenska lýðveldisins eftir ráðstefnuna. Gunnar Þór sagði mér og öðrum frá bók um sambandsslitin sem brátt kemur út eftir hann. Í henni mun hann kannski fyrstur sagnfræðinga framreiða eitthvað um danska þáttinn í ferlinu fyrir sambandsslitin, sem ég hef líka skoðað lítillega og undrast mjög að engin hafði birt eitthvað úr þeim skjölum sem ég hef lesið. Nú ræður Gunnar Þór bót á því með jólabókinni í ár, hann hefur farði í Ríkisskjalasafnið í Kaupmannahöfn. Danir undirbjuggu ýmislegt árið 1918, enda voru þeir hluti af þessu máli.

Í Köben í gær var líka mætt frú Vigdís fyrrv. forseti, Steingrímur forseti Alþingis (og enginn gekk á dyr þótt hann sæist á svæðinu). Utanríkisráðherrann okkar var þarna líka, enn og aftur í of þröngum jakkafötum (það verður einhver að fara að segja honum að þau passi honum ekki lengur). Honum hefur greinilega ekki tekist að ná af sér bumbunni sem hann reyndi að slétta þegar ég og hann hömuðumst á gólfinu hjá Hrafni og Ágústu í gamla daga. Þarna var meira að segja ræðismaður Íslands í Færeyjum, Pétur jr. Thorsteinsson, en samkoma þessi verður að hluta til endurtekin í Þórshöfn á dag. 

Það var einstaklega vel að þessu staðið. Þingið var íslenska sendiráðinu og Hafnarháskóla til mikils sóma.
Vjer Christian hinn TiundiFullvalda Fornleifi ekki boðið

Ritstjóra Fornleifs var hins vegar ekki boðið á gala-viðburðinn í dönsku drottningalegu Óperunni í gærkvöld, þó ég hafi búið undir oki dönsku krúnunnar lengur en flestir Íslendinga - og þykir boðleysan furða þar sem ég er eini maðurinn í þessu landi, og þó lengi væri leitað, sem hefur tekist að ná út úr danskri ríkisstjórn afsökunarbeiðni fyrir löngu liðna atburði, þó það hafi aldrei nokkurn tíma verið ætlun mín. Það mál varðaði ekki Ísland og venjulega gefa Danir engar afsakanir fyrir mistök sín. Og þessi var sínu áhugaverðari, þar sem ég hafði ekkert farið fram á slíkt. Ég hjólaði bara með eintak bók eftir mig í danska forsætisráðuneytið því þáverandi ráðherra, Anders Fogh Rasmussen, hafði heyrt af henni og látið ráðgjafa sína segja sér að Símon Wiesenthal stofnunin væri farin að láta illa út af niðurstöðum í henni. Núverandi forsætisráðherra hefur hins vegar greinilega aldrei lesið bók mína, og er hún því komin í röð flestra bóka sem hann hefur átt við. Nýlega er hann minntist björgunar fólks undan nasistum og elskulegri samvinnu Dana við setuliðið þýska, nefndi hann ekki aukatekið orð um að danskir stjórnmála- og embættismenn á 5. áratug 20. aldar vísuðu flóttafólki úr landi og oftast beint í dauðann - sem forveri hans í starfi hafði beðist afsökunar á árið 2005.


Forsætisráðuneytið danska og þingið bauð 900 gestum á þessa skemmtum og íslenska sendiráðið fékk að afhenda lista yfir 500 íslendingum eða fólki i dansk-íslensku samstarfi, og þar að auki 80 sérvöldum ásamt maka. 

Ég kemst líklegast aldrei á svo fína samkomu og það gerir svo sem ekkert til því jakkafötin mín standa mér meira á beini en James Bond dress Gunnlaugs Þórs Þórðarsonar.

Casino Royal mit Black Jack und Rasy Pia

Forsætisráðherrann danski kom ekki á ráðstefnuna á Hafnarháskóla í gær. Hann valdi að fara á tækniháskólann, þar sem kona mín vinnur, og þar sem miklu þjóðhagslegri atriði en löngu liðin sambandsslit við vitaómögulega þjóð voru díluð.

En hann var þó gestgjafi í óperunni í gærkvöld. Þar var líka mætt Pia Kjærsgaard sem fékk að heyra það á Íslandi í sumar vegna þess að hún vill losna við flóttamenn í dag. Margrét drottning og sonur hennar og tengdadóttir létu sig heldur ekki vanta. Svo flóttamönnum sé enn einu sinni blandaði í málið líkt og gerðist í sumar á Íslandi, þá hjálpaði afi Margrétar drottningar aldrei flóttamönnum, því embættismenn hans komu í veg fyrir slíkt og týndu viljandi bréfum frá fólki í vanda til hans. Frá því er m.a. greint með nokkrum dæmum í bók minni Medaljens Bagside (2005). Öll fögnuðu þau í gær að losna friðsamlega við Íslendinga fyrir 100 árum síðan, jafnvel þó þeir væru ekki helvítis flóttamenn.

Mig grunar eftir þennan fræðandi gærdag, að Danir hafi fyrst og fremst reiknað út, hvort það væri hagkvæmt fyrir Danmörku að veita sambandsslitin. Danir gera, eins og kunnugt er ekkert nema að þeir græði á því eða að dæmið fari að minnsta kosti ekki í mínus. Danir viðurkenna þetta sjálfir. Ég held að menn hafi reiknað það út árið 1918, að Ísland yrði Danaveldi aðeins til vansa og endalaus dragbítur á alla þróun. Kannski var það þess vegna að menn voru svo glaðir að losna við Ísland að mestu leyti árið 1918. Það var það sem menn kalla win-win situation í bönkunum í dag, áður en allt fer á hausinn.


Next stop, Hawaii Club

Hawaii Club Miðnesi

Fornleifur hefur í síðustu færslum sínum verið að sýna verk ónafngreinds hollensks meistara sem kom við á Íslandi árið 1957. Þessa mynd telur Þjóðskalasafn Hollands vera frá því 1940 en áður sagði safnið hana vera frá 1957.

Breyting færslu 30.1. 2019: Rétt skal vera rétt

Myndin er ekki frá 1940, heldur fréttamynd sem send var vítt og breytt til bandarískra fjölmiðla í síðara stríði. Myndin var tekin árið 1942.

Myndin er líklegast tekin í Nauthólsvík Nauthólsvík að sögn Tryggva Bluensteins rafvirkja, en hann hefur safnað ýmsu fróðleik um hernámsárin á Íslandi sem hann birtir á skemmtilegri vefsíðu sinni sen kölluð er FBI.is .

Kanar voru með marga klúbba og þetta mun hafa verið Officers Club í Camp Kwitcherbelliakin (Quit-Your-Belly-Aching)í Nauthólsvík og hann kostaði örugglega ekki 750 milljónir á Dagsvirði. Þetta eru líka fínir pálmar fyrir hið nýja Vogahverfi.

Þessi pálmaklúbbur var mikið menningarbæli, þar sem offiserar og gentílemenni komu virðingarlega fram við konur úr íslenskum plássum sem vildu dansa og dufla við dáta. Hawaii var greinilega vinsælt þema og dreymdi menn um að Sámur frændi sendi þá þangað í stað veðurblíðunnar á Rosmhvalsnesi eða í Nauthólsvík. Hér má lesa um rosa Hawaiipartí á vellinu árið 1967. Það var löngu áður en Trúbrot spilaði graðhestarokk og íslenskar gógó píur dönsuðu á Midnight Sun klúbbi verndaranna. Sjón er sögu ríkari.

Það er líklega til of mikils mælst að biðja um minningar manna frá þessum pálmum skreytta bragga. Konurnar segja barasta ekkert, og muna enn minna. Íslensk börn sem urðu undir í nánd flugvalla vita það flest ekki. Menn fóru dálítið mannavillt við feðrunina á þeim.


Braggadrengirnir og Halli-stæl

Iðnskólinn Braggar 2

Árið 1957 kom ónafngreindur Hollendingur, fljúgandi alla leið til Íslands. Hann var liðtækur ljósmyndari, líklega fagmaður. Bölvanlegt að vita engin deili á honum. Hér er mynd sem hann tók á Skólavörðuholtinu. Iðnskólinn hafði verið reistur, en braggar voru enn á holtinu. Í þeim bjó fátækt fólk, og nú voru útlendingar meira að segja farnir að hafa áhuga á þeim.

Tveir strákanna á myndinni eru enn í fótbolta, í strigaskóm og gallabuxum, alveg eins og væru þeir klipptir út úr mynd frá yfirgefnum kolabæ í Bandaríkjunum. Hinir eru í pásu að skoða leikara,að tyggja tyggjó og stæla um hvort þeir séu indíánar eða kábojar. Kannski bjuggu þeir í bröggunum, eða í nágrenninu?

Þjóðviljinn kallaði fólk sem þarna bjó "þetta fólk" árið 1946, þegar fyrst kom til tals að flytja íbúana í aðra bragga í Fossvogi til að reisa minningarkirkjuna um Hallgrím gyðingahatara. Samkvæmt öðlingnum "Bæjargesti", sem skrifaði Bæjarpósti Þjóðviljans línu, því merka alþýðuvinablaði, þá "forpestaði" fólkið í bröggunum andrúmsloftið í Reykjavík með útikömrum. Árið 1957 var "þetta fólk" greinilega enn þarna, góðvinum öreiganna á Þjóðviljanum til lítillar gleði.

Jónasistar í Framsóknarflokknum voru hins vegar fremri Þjóðviljamönnum í hatri sínu á bröggum og fólkinu sem í þeim þurfti að húka. Forfeður fátæklinganna hafði verið barðir í sveitum landsins og nú átti "þetta fólk" ekki að vera fyrir kirkju heilags Hallgríms gyðingahatara. Braggar fóru alla tíð mjög í taugarnar á þeim sem voru svo vel í álnum að þeir þurftu ekki að búa í þeim sjálfir.

Halli StyleAllt í einu stekkur einhver spjátrungur í nýjustu, ammrísku rokktískunni inn í myndina. Við skulum kalla hann Halla. Hann hafði greinilega stúderað myndir með James Dean og Elvis. Hann er í hvítum sokkum, mokkasínum, vel straujuðum sjínóbuxum og college-jakka, líkt og hann hafði labbað inn í settið við skólavörðuna, beint frá Sunset Búlevard með smástoppi í Vinnufatabúðinni.

Ísland var á góðri leið með að verða 51. ríki Bandaríkjanna. Halli hafði greinilega uppgötvað að útlendingur var að taka af honum myndir þar sem hann var að leika sér við yngri drengi. Það mátti Halli ekki.

Ef einhver kannast við söfnuðinn þarna við klappirnar efst á holtinu, þætti ritstjórn Fornleifs kært að fá upplýsingar. Ef Halli er á lífi, er hann kominn vel yfir áttrætt. Þetta eru næstum því fornleifar.

Eitthvað held ég þessi braggar myndu kosta í endurgerð í dag, en þarna hefði ef til vill verið tilvalið að hafa Hallgrímsbar. 700 milljónir, án samninga á Dags gengi.


Vovehals-buxur koma til Íslands árið 1911

Vovehals Buxer

Sumarið 1911 pantar Geir Zoëga (1830-1917) verslunar og útgerðarmaður Vovehals-Buxur, eða efni í þær, frá Jydsk Kjole-Klædehus á Købmagergade 48. Þessar buxur voru saumaðar úr ullarefni, sem spunnið var af Ullarjótum á Jótlandi. Efnið var rómað fyrir styrkleika. Það var Jóska Kjóla og Fathúsið sem hóf að kalla efnið Vovehals Cheviot og Vovehals bukser, sem sem er hægt er að þýða sem ofurhuga buxur. Þannig var þetta efni selt á Íslandi í um áratug eftir að greint var frá því fyrst í íslenskum blöðum.

Nýlega fann ég umslag hjá frímerkjakaupmanni í Danmörku. Í því hafði Jydsk Kjole-Klædehus sent Geir Zoëga prufur af efninu í júlí 1911 eins og kemur fram á framhlið umslagsins. Aftan á umslaginu (sjá efst) er hinsvegar auglýsing fyrir þessar níðsterku buxur, sem verstu villingar gátu fyrir enga munu slitið gat á, sama hvað þeir reyndu.

Vovehals Buxer 2Fyrst þessar buxur voru eins níðsterkar og látið var að, svo sterkar að "Deres Riv ihjel Drenge" gátu ekki á þær sett gat, sama hvað þeir rembdust, gæti vel hugsast að einhver kynni enn að leyna á einu pari. Lítið upp á háaloft og takið til. Ef þið finnið slíkar brækur farið þá endilega með þær á eitthvað safn í nágrenninu.

DP035615 Geir Zoega bGeir Zoëga var afar fjölbreyttur karakter, sama hvað hann tók sér fyrir hendur. Hann var einn helsti atvinnurekandinn í Reykjavík um langt skeið. Upphaflega varð þessi rauðhaus þekktur úti í heimi sem leiðsögumaður ferðalanga, því hann var allvel fær á ensku, og önnur tungumál ef hentaði. Menn rugla honum því iðulega við nafna hans Geir Tómason Zoëga sem var rektor Latínuskólans í Reykjavík. Sá Geir gaf út ensk-íslenska orðabók, eins og kunnugt er, og síðar íslenskt-enskt orðasafn.

22869r

Hér ber Geir hundinn sinn Brussu (eða Brúsu) árið 1862.

Fornleifur hefur áður minnst á Geir kaupmann hinn fyrsta (sem einnig var kallaði Geir gamli), t.d. hér, og í grein um langafa minn íslenskan, Þórð Sigurðsson (hér). Tengdasonur Þórðar, afi minn Vilhelm, hafði mikið yndi af því að segja söguna af Þórði sem vann lengi fyrir Geir sem stýrimaður á skipum hans. Þórður langafi minn var afar feiminn maður; Svo mjög að eitt sinn sagði Geir við hann: "Snúðu nú að mér andlitinu Þórður, svo ég þurfi ekki að tala við afturendann á þér". Þessi saga fór víst víða um Reykjavík. Afi sagði stundum þessa sögu til að stríða ömmu minni. Afi hefur hugsanlega gengið í níðsterkum Vovehals-buxum á yngri árum. (Sjá minningar um hann hér, hér og hér).

Ef einhver veit, hvernig stendur á því að safn af umslögum sem send voru til Geirs Zoëga hafa lent á frímerkjasölu í Danmörku, þar sem er verið að selja þau nú, mættu þeir láta mig vita. Verslunarsaga Íslendinga má ekki gloprast niður með því að henda öllu eða gera sér hana að féþúfu fyrir smáskildinga. Umslagið getur verið miklu meira virði fyrir söguna en skitið frímerki með Friðriki VIII, sem andaðist á hóruhúsi í Hamborg og vann aldrei ærlegt handtak á ævileiðinni. Menn eins og Zoëga voru hins vegar konungar Íslands.


Þegar Stöng komst í íranska annála

Stöng Taharan

Hér um árið (2015), þegar fólkið í minjavörslunni á Íslandi var sumt ekki enn búið að losna undan því andlega brjálæði og mikilmennskubrjálæði, sem geisaði á Íslandi fyrir hið margtalaða hrun, Tilkynntu tilheyrandi yfirvöld að það myndi kosta 700.000.000 kall (þið lesið víxilinn rétt, sjöhundruðmilljónirkróna -/) að gera hinni merku rúst í Þjórsárdal hærra undir höfði en henni hafði lengi verið gert.

Meira að segja var efnt til samkeppni um byggingu "skýlis" yfir rústina. Þá keppni vann ungt, upprennandi arkitektapar frá Íslandi og Íran. Tillaga þeirra var því miður algjör della, ef notað skal hlutlaust orð, sem ekki er hægt að byggja á þeim náttúrulega hól sem Stangarbærinn var reistur á. Tillögunni fylgdi teikning sem sýndi hólinn og hugsýn þeirra, þar sem sólin skein í heiði - úr Norðri

Þessi samkeppni komst meira að segja í heimsfréttirnar, ef svo má segja. Í blaði (sjá hér) í Teheran í Íran var sagt frá verðlaununum og þar birtist heilsíðuljósmynd af íslenska helmingi verkefnisins, en ættingi hans vann einnig um tíma í Þjórsárdal á 4. áratug síðust aldar og fyrir þjóð sem enn stundar sóðaleg viðskipti við Íran.

Í írönsku greininni um Stangarskýlið var kreddunni um að Stöng hefði farið í eyði árið 1104 vissulega haldið hátt á lofti. Í Íran Ayatollanna sætta menn sig ekki við neinar breytingar á orðum spámanna og 1104 aldursgreiningin var eins og kunnugt sett fram af margfrægum íslenskum spámanni.

Síðan glerhúsið, sem einna helst líktist auðmannsvillu við Miðjarðarhaf, eða bílskúr olíusheiks við Persaflóa, vann verðlaunin - og eftir að sólin í Fornleifaráðuneytinu, Sigmundur Davíð, hætti að skína úr norðri, eru áform um viðgerðir og viðhald á Stöng komnar aftur í meira raunsætt horf. Þakið á núverandi skála verður bætt en ekki stagað og verkefninu lýkur árið 2020 hef ég fengið upplýst. Það eru miklu betri skilyrði en menn höfðu áður í viðgerðum, þegar maður var að reyna að bjarga því sem hægt var að bjarga fyrir lítið fé með meistaralega góðan arkitekt og hleðslumann (sjá hér).

Karl Kvaran TaheranÍranska tímaritið hafði aðeins mynd af unga íslenska arkitektinum, sem sneri á áttirnar fyrir sunnan land. D&G gleraugu voru í tísku þá. Líklega hefur mynd af betri helmingi hans þótt í við of djörf til prentunar í Íran Ayatollanna. Menn vilja helst ekki nota of mikla prentsvertu í myndum í hönnunartímaritum þar í landi.

Minjastofnun varð fljótlega ljóst að loftkastalar forstjóra Minjastofnunar eru byggðir á sandi. Að lokum hentu menn gaman að öllu og í Aprílgabbi stofnunarinnar var greint frá því árið 2015, að sótt hefði verið um að flytja skálann á Stöng til Selfoss. Gárungar telja víst að þetta hafi verið pilla handa Fornleifaráðherra sem varð nískur er hann tók núverandi þjóðminjavörðinn í vinnu sem ráðgjafa um tíma. Ekkert var hins vegar skrifað um það í írönsk dægurblöð, þótt það væri hálfgert hreðjuverk.

Er það ekki skrýtið, og í raun geðveikislega öfugsnúið, að í öfgaríki eins og Íran, sem í áraraðir hefur staðið á bak við hryðjuverk og morðöldur, og þar sem prestaveldi hvetur til eyðileggingu þjóða og menningar þeirra, séu menn að dást að eyðileggingu/varðveislu fornminja á Íslandi.

Fúuuhuhúh, það fer um mann hrollur. Svona lagað gerir menn bara voða reiða. Eitt sinn lagði þjóðminjavörður til að vandamálin við varðveislu Stangar yrðu leyst með því að rústin yrði grafin aftur niður. Hann vissi ekki frekar en núverandi Minjavörður Ríkisins að rústirnar eru orðnar aðeins fleiri nú en í hans hugarheimi, t.d. hefur fundist eldri skáli (eða tveir), kirkja og smiðja undir kirkjunni. Rannsókn þeirra er alls ekki lokið. Suma hluti er ekki hægt að fela, þótt menn geri sér far um það.

Doddi í Dótasafninu


Trupulleikarnir á Velbastað

Hringur frá Velbastað
Fornleifafræðin í Færeyjum er ekki eins hástemmd og greinin er á Íslandi. Í Færeyjum eru t.d. ekki 40 fornleifafræðingar á ferkílómetra líkt og á Íslandi. Samt finna frændur vorir, fornfrøðingarnir hjá Tjóðsavninum í Færeyjum, sem áður hét Føroya Fornminnissavn, oft mjög áhugaverðar minjar. Stundum svo áhugaverðar að þær setja alla á gat.

Árið 2016 fannst t.d. á Velbastað (Vébólsstað) á Streymoy (Straumey) einstakur gripur, sem hefur valdið miklum heilabrotum á meðal frænda okkar í fornleifafræðingastéttinni í Færeyjum. Gripurinn sem um ræðir, er forláta hringur úr silfri sem hefur verið logagylltur.  

Þrátt fyrir að færeyskir fornfrøðingar hafi sett sig í samband við sérfræðinga á söfnum í Noregi, Bretlandseyjum (þar með töldu Írlandi)  og víðar (þó ekki á Íslandi), hefur enginn hringasérfræðingur á söfnum þessum getað hjálpað við að leysa gátuna um þennan merka hring. Því því er haldi fram að enginn hringur eins, eða nærri því líkur, hefur fundist í þeim löndum sem leitað hefur verið til. Aldursgreiningin er einnig samkvæmt helstu söfnum enn óviss. Við sama uppgröft fannst einnig silfurmynt, silfur-penny frá tíma Engilsaxakonungsins Eðvarðs hins Eldra í Wessex og mun myntin hafa verið slegin á tímabilinu 910-15.

Hvort hringurinn er eins gamall og myntin, er enginn fræðimannanna sem Tjóðsavnið hefur haft samband við tilbúinn að tjá sig um. Einn þeirra hefur gefið aldursgreininguna 1100-1300, en án nokkurra haldbærra raka. Einn ágætur fornleifafræðingur og fyrrverandi safnstjóri Þjóðminjasafns Írlands, Ragnall O´Floinn, telur hæpið að uppruna hringsins skuli leitað á Bretlandseyjum. Því er höfundur þessarar greinar ekki alveg sammála.

Hér má lesa grein eftir fornleifafræðinginn Helga D. Michelsen hjá Tjóðsavninu sem hann ritaði í tímaritið Frøði (sama og fræði, en borið fram "fröi") og kallar Helgi ágæta grein sína Gátuførur fingurringur

Eins og lesa má er Helgi fornfrøðingur í Færeyjum í miklum vandræðum, eða trupulleikum eins og það er kallað hjá frændum okkar. Trupulleikar er reyndar orð ættað frá Bretlandseyjum, komið af orðinu trouble. Ég held að hringurinn frá Velbastað sé líka þaðan. Það er svo minn "trupulleiki". En nú geri ég grein fyrir skoðun minni á baugnum:

Fornleifur ákveður að hjálpa frændum sínum

Þegar ritstjóri alþjóðadeildar Fornleifs frétti af einum helsta trupulleik Færeyinga á seinni tímum, þ.e. hringnum forláta frá Velbastað, ákvað hann að hjálpa frændum sínum sem urðu sjóveikir á leiðinni til Íslands. Hann notaði um það bil eina klukkustund á netinu og á bókasafni sínu uppi undir þaki. Hér kemur mjög stutt skýrsla um niðurstöður gruflsins:

Þar sem myntin sem fannst á Velbastað er vel aldursgreind og uppruni hennar þekktur, datt Fornleifi fyrst í hug að leita uppruna hringsins á sömu slóðum og myntin er frá.  Færeyjar eru, þrátt fyrir allt jafn langt frá Bretlandseyjum og þær eru frá Íslandi og Noregi.

  Tel ég nú mjög líklegt að hringurinn sé undir mjög sterkum Engilssaxneskum stíláhrifum með áhrifum frá Meróvingískri list í Frakklandi. Lag hringsins frá Velbastað er einnig þekkt á frægum hring með engisaxískum stíl, sem fannst á 18. öld. Einn helsti sérfræðingur Breta í engilsaxneskri list, dr. Leslie Webster, telur vera frá fyrri hluta 9. aldar (sjá hér). Hringurinn, sem hér um ræðir, fannst í Berkeley í Mercíu (Midlands) á Englandi, þar sem er greint frá klausturlífi þegar árið 759 e.Kr.

_48957730_ring

Berkley ring 2  Króna af öðrum hring, sem talinn er örlítið eldri en hringurinn frá Berkeley í Mercíu, er hringur sem fannst í Scrayingham í Reydale i Norður-Jórvíkurskíri (sjá nánar hér,þar sem hægt er að lesa um aðra hringa með sama lagi, sem tímasettir eru til 8. og 9. aldar). Krónan af hringnum frá Scrayingham er sömuleiðis meistaraverk með filigran-verki (víravirki)en  með sama lagi og krónan á hringnum frá Velbastað.

Hringur frá Liverpool

  Líklegt má telja, að hringurinn sem fannst í Berkley í Miðlöndum hafi verið hringur geistlegheitamanns, ábóta eða biskups. Hringurinn er vitaskuld skreyttur með annarri aðferð en hringurinn frá Velbastað, og er gott dæmi um það allra besta í gullsmíðalist á Bretlandseyjum á 9. öld. En lagið á hringnum, eða réttara sagt krónu (höfði) hans, er það sama  Þetta krosslag, sem báðir hringarnir hafa, er hins vegar frekar sjaldgæft en þó samt vel þekkt á fyrri hluta miðalda. Þetta er sams konar kross og maður sér t.d. á gylltum altörum í Danmörku (gyldne altre). Líklegt þykir mér einnig, að hringurinn frá Velbastað hafi verið borinn af kirkjunnar manni. Af hverju hann tapaði honum í Færeyjum er alfarið hans einkamál.

The_Tamdrup_Plates_Detail_1 b

Frontal_Ølst_Church_Randers b
58943119_1_xÉg fann fljótt hringa líka þeim hér til hliðar, sem hafa álíka krossmynd í auga hringsins og Velbastaðarhringurinn, þ.e. vígslukross (hjólkross/Eng. Consecration Cross), eftir mjög stutta leit á veraldarvefnum. Þeir eru vitaskuld alls ekki eins og hringurinn fornfái frá Velbastað, en ef svo má að orði koma, frá næsta bæ.

Ef maður lítur á stóru silfurkúlurnar, eða stílfærðu vínberin beggja vegna hringlaga flatarins með vígslukrossinum á miðju krónu hringsins frá Velbastað, minna silfurkúlurnar mjög á hringa frá Frakklandi frá 6.- 9. öld. Hér eru nokkur dæmi um, hvernig þannig vínberjaklasar (vínberið táknar blóð Krists) voru settir beggja vegna hringkrónunnar, eða þar sem baugurinn mætir krónunni.

Dæmi um Merov hringa

 

cluny-museum-ring-by-thesupermat-wikipedia-commons-800-2x1

Ef trúa má Leslie Webster, helsta sérfræðingi Breta í Engilsaxískri list, varðandi aðra hringa með svipuðu lagi og Velbastaðarhringurinn, er hringurinn að mínu mati líklegast smíðaður á 9. eða  10. öld, þegar engilsaxneskur stíll í gullsmíðalist var enn í miklum blóma. Hringurinn er því að mínu mati frá Bretlandseyjum, en ber einnig áhrif frá hringum á Meginlandi Evrópu, helst frá hringum í Frakklandi, en einnig sjást býsantísk áhrif.  

Ég vona að þetta leysi vandamálið með hringinn frá Velbastað. Reikninginn sendi ég síðar til Tjóðsavnsins í Færeyjum, en Fornleifur er vitaskuld rándýr í allri fræðilegri þjónustu við söfn og örn að senda stofnunum reikninga. 

Góðar stundir og allt í lagi.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 

Ljósmyndin efst birtist í Frøði og er tekin af Finni Justinussen

Version in English (pdf)

Version in English (word docx), please see "Skrár tengdar þessari bloggfærslu" below.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Getur einhver lesið á japönsku kassana mína ?

Fig 1b
Ég segi eins oft og ég get: Ég er með heppnari mönnum, og það er fyrst og fremst vegna betri helmingsins. Mín elskulega ektakvinna, hin síunga Irene, dekrar mjög við manninn sinn. Til að mynda nýlega, þegar hún gaf mér afmælisgjöf. Ég fékk gjöfina nokkrum vikum fyrir afmælið, alveg eins og í fyrra er hún bauð mér á eftirminnilega tónleika með Woody Allen og hljómsveit hans.

Í ár fékk ég hins vegar japanskan kassa fyrir afmælið mitt sem er 22. júlí ár hvert - en stundum skömmu áður eða í áföngum.

Eina sólríka helgi fyrir skömmu, (síðan hefur sólin brunnið á himninum hér í Danmörku), brugðum við okkur í stórbæinn og fórum meðal annars inn í litla verslun í Nágrannaleysu (Naboløs), sem selur verðandi japanska forngripi. Verslunin er rekin af nokkrum ungmennum á þrítugsaldri sem ferðast mikið til Japan vegna brennandi áhuga síns á landinu. Þar kaupa þau einnig góða gripi sem þau leggja örlítið á í Kaupmannahöfn og reyna svo að lifa af því sem þau þéna með námi eða til að greiða fyrir frekari ferðir til Japans. Mig grunar þó að þau hafi aðgang að búðarrýminu fyrir lítið, þar sem verslunin er á afar góðum stað.

Kona mín sá strax að ég slefaði eins og krakki yfir bambuskassa einum í búðinni sem og loki af minni kassa. Þetta var eini slíki gripurinn í versluninni. Kassinn og lokið eru frá byrjun 20. aldar og bera áletranir ritaðar með japönsku tússi. Ég keypti mér lokið fyrir lítið. Konan mín sá líka að mér langaði óhemjumikið í kassann  svo hún keypti hann sísona og gaf mér í fyrirframafmælisgjöf.

Kassar sem notaðir voru fyrir postulín eða lakkvörur

Kassar sem þessir voru jafnan smíðaðir úr bambus utan um dýrmætan varning svo sem postulín eða lakkvöru, þegar slíkir eðalgripir voru seldur á fyrri öldum. Konan mín, sem lagði stund á japönsku með námi sínu í stjórnmálafræði í Árósi á síðustu öld, gat ekki lesið áletrunina á kössunum. Hún sá strax að þetta var að miklu leyti skrifað með kínverskum táknum sem kallast kanji.

Fig 3 b

Mynd II

Fig 4 b Mynd III


Ég spurði þá verslunareigendurna sem voru til staðar, hvort þau gætu lesið japönsku, en það gerði aðeins ein þeirra, sem er hálfur Japani. Hún gat hins vegar heldur ekki lesið  áletrunina. Hún tók þá myndir og sendi föður sínum, sem er japanskur, og hann varð líka að gefast upp, en upplýsti að þetta væri gömul japanska frá því yfir leturbreytingu á 20. öld. Þegar hætt var að nota ýmsa kínverska bókstafi og hljóðkerfi annarra stafa breyttist alfarið. Í dag er þessi japanska ekki kennd nema í háskólum, og afar fáir geta lesið texta með kínverskum táknum og gamla hljóðkerfinu.

Ég hafði þá samband við Toshiki Toma prest innflytjenda á Íslandi, og síðar prófessor einn í Kaupmannahöfn, en báða skorti aldur og þekkingu til að geta lesið þennan gamla kanji-texta. Til þess þarf maður víst helst að vera orðinn rúmlega 90 ára eða sérfræðingur. Ekki þýðir heldur að biðja Kínverja að lesa textann, því þó þeir þekki táknin, þýða þau og hljóða oft á tíðum allt öðruvísi á gamalli japönsku en á kínversku.

Í kassanum á myndinni efst voru japönsk dagblöð frá 3. áratug síðustu aldar. Það gæti vel gefið hugmynd um aldur kassans.

Geta lesendur hjálpað með ráðningu textans?

Fig 2

Mynd IV

Vera má að lesendur Fornleifs séu sleipir í japönsku og geti lesið fyrir mig hvað stendur á

(I)   kassanum (á myndinni efst),

(II)  innan á loki hans (mynd IV)

(III) báðum hliðum loksins af litla kassanum (myndir II og III)

Kassinn er listavel smíðaður og ekki er notaður einn einasti járnnagli. Hann er einnig mjög vel nothæfur. Ég nota hann eftir hreinsun og vöxun til að hylja snúrur og leiðslur sem hrynja í tugatali af tækjum sem á okkar tímum fylla öll skrifborð. Leiðslur frá tölvu, lömpum, hátölurum, hleðslutæki og skánskri myndavél, fara allar ofan í kassann og sem felur svarta spaghettíið sem lekur ofan af skrifborðinu mínu. Kassinn og áletranir hans sjást vel undir borðinu, en mig vantar enn skýringu á áletrunum til þess að vera alsæll. Ég tek fram að það stendur hvorki Honda, Toyota, Mishubishi, Nissan, Suzuki, Daihatsu eða Datsun á kassanum.

Þýðingarnar á áletrun kassanna minna þarf ég helst að fá ekki miklu síðar en á morgun, sem minnir mig á það hvernig vörumerkið Datsun varð til:

   Framleiðendum Datsun vantaði fangandi, erlent nafn á fyrstu bifreiðina sem þeir framleiddu. Þeir leituðu til helsta ráðgjafa um fangandi bílanöfn á sínum tíma. Hann bjó í New York, sem hét vitaskuld Cohen. Cohen spurði útsendara japanska bílframleiðandans hve fljótt þeir þyrfti að fá hið nýja nafn. "Aooh, Helst á morgun" sagði sá japanski. Cohen svaraði þá uppvægur á brooklensku "Dat soon?" Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti.


Catwalk með íslenska hundinn

Dorrit á Alþingi mynd Alþingis

Hin glæsilega, fyrrverandi forsetafrú bjargaði uppistandinu á Þingvöllum í gær. Að vanda kom Dorrit, sá og sigraði.

Hún  Dorrit fullkomnar nefnilega listina að vera alþýðleg. Hún gerði sér lítið fyrir, líkt og oft áður, og talaði við hinn almenna mann þegar hún var komin niður Almannagjá.  Hún fékk lánaðan íslenskan hund í sömu litum og hún sjálf og saman tóku Mússa og Seppi catwalk á Þingvöllum.

Að núverandi forsetfrú ólastaðri, þá sakna ég dálítið Dorritar. Hún var algjör hrádemantur. Það var svo gaman á Íslandi þegar hún var á Bessó.

Ég þakka skrifstofu Alþingis fyrir að birta þessa mynd, sem er frábær. Loks hafa menn þar á bæ lært að taka almennilegar ljósmyndir. Ég þakka fyrir hönd pöpulsins sem fylgdist með úr fjarska.

... og Pía hvað...


Brjánslækjarkonur ota sínum tota

Valgerður Briem NM Kobenhavn 3
Ég er farin að halda að kvenleggur Briemsættarinnar (borið fram Brím en ekki Breim) sé sérstaklega lagið við að ota sínum tota.

Fornleifur greindi fyrr á árinu frá Ingibjörgu Briem, sem komst í franska upptöku, þ.e.a.s hún varð fyrst Íslendinga til þess að komast á hljómplötu og þar með að eilífa undurfagra rödd sína. 

Frummóðir Briemsættar, frú Valgerður Briem á Grund í Eyjafirði, kona Gunnlaugs sýslumanns Guðbrandssonar Briem frá Brjánslæk í Barðastrandasýslu (Briem er, af því er sagt er, afbökun á Brjánslæk) ættföður Briemsættgarðsins valdamikla.

Valgerður sem fæddist árið 1779 er talin vera sá Íslendingur sem fæddist fyrst allra þeirra sem ljósmynd var tekin af á Íslandi. Því hélt Mogginn fram er Þjóðminjasafnið opnaði eftir breytingar hér um árið og birti ljósmynd af Valgerði. Og ekki lýgur Mogginn. Er safnið opnaði aftur eftir dýrar endurbætur "breyttist allt" nema þjóðminjavörður, því miður, en ekki ætla ég að daga upplýsingar Þjóðminjasafnsins um Valgerði í efa án rökstuðnings. 

Ljósmyndina af henni sem Morgunblaðið birti, var sögð vera tekin af barnabarni hennar, Trggva Gunnarssyni trésmiði, sem síðar gerðist bankastjóri (f. 1835). Tryggvi var í minni æsku betur þekktur sem "hundraðkallinn". Þessi ljósmynd af frú Valgerði mun þó ekki vera á meðal elstu ljósmynda af Íslendingi, heldur er því haldið fram að hún sé af þeim Íslendingi sem fæddist fyrst þeirra sem ljósmyndir voru fyrst teknar af.  Ljósmyndin á enduropnunarsýningu Þjóðminjasafnsins, sem Morgunblaðið upplýsti að væri tekin af Tryggva Gunnarssyni, hlýtur þá að vera frá því fyrir 1872, en það ár andaðist Valgerður Briem. 

Akne Hustergaard ??

Sama mynd og sýnd var á Þjóðminjasafninu eftir viðgerð þess, er til á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn (sjá hér og efst). Á síðastnefnda staðnum standa menn algjörlega á gati hvað varðar módelið. Í skráningu á myndinni er því haldi fram að þarna sér komin "Akne Hustergaard". Já ég sel það ekki dýrara en ég keypti.

Akne Hustergaard er vitaskuld einhver furðuleg afskræmin eða mislestur illa menntaðs safnafólks í Kaupmannahöfn. Það er víðar til en í Reykjavík. Gæti verið að það standi Høstergaard?  Myndin í Höfn er úr safni Íslandsvinarins Daniels Bruuns, sem ferðaðist mikið um Ísland og skrifaði merkar bækur um þær ferðir. Þjóðminjasafn Dana telur þá mynd af Valgerði vera tekna af Bruun. En það getur vart  verið, því hann hafði ekki enn komið til Íslands fyrir 1872 er Valgerður deyr. En ef myndin er tekin af Bruun, þá er þetta allt önnur kona en Valgerður Briem.

Málið er greinilega flókið. Tryggvi lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn. Þaðan sneri hann ekki aftur frá Danmörku og Noregi fyrr en 1865. Þá var Valgerður amma hans á níræðisaldri. Hann gæti því vel hafa tekið myndina.  En ef Daniel Bruun hefur tekið myndina, þá er konan greinlega ekki frú Valgerður Briem.

Valgerður Briem Umbreytt Minjasafn Akureyrar
Til er önnur ljósmynd (greinilega prentmynd frá 20. öld) af Valgerði í Minjasafninu á Akureyri (sjá hér). Á þeirri mynd sýnist hún miklu yngri. En næsta víst tel ég að sú mynd sé retúsering af ljósmyndinni sem fyrr var rædd. Myndinni hefur verið breytt af ljósmyndara, þannig að gamla konan liti yngri út að árum. En þetta er samt sama ljósmyndin að mínum dómi. Módelinu hefur ekki verið gerður greiði með því að yngja hana upp.

Eiríkur BriemÞað sem ég trúi því að hvorug ljósmyndin sé af Valgerði Eiríksdóttur Briem, læt mér detta í hug að konan á myndinni sé móðir Tryggva Gunnarssonar. Hún hét Jóhanna Gunnlaugsdóttir Briem (1813-1878). Mér er þó reyndar einnig ófært að sjá að Eiríkur Briem (1811-1894; Sjá mynd til vinstri), sonur Valgerðar og Gunnlaugs, geti hafa verið sonur konunnar á myndunum sem taldar eru vera af Valgerði. Ef svo er, þá hefur eiginmaður hennar, Gunnlaugur Guðbrandsson frá Brjánslæk, sá er tók sér nafnið Briem, verið mun snoppufríðari en stórskorin kona hans. En nú má ekki gleyma að önnur myndin af henni er umbreytt. Þar hefur ljósmyndarinn ekki gert gömlu konuna fríðari.

Látum meistara Dylan ljúka þessari ljósmyndakrufningu Fornleifs með laginu Girl from the North Country sem hann syngur í gegnum nefið með Johnny Cash, þó að Brownsville Girl hafi einnig verið viðeigandi. Í Brownsville Girl hlýtur Dylan að vera að syngja um stúlku af Briemsætt. Brjánslækur og Brownsville eru ekki ósvipuð örnefni. Cash kemur þessu hins vegar ekkert við, nema að því leyti að Briemsættin hefur ávallt átt nóg af því og því mikið látið með þetta fólk, langt fram um efni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband