Færsluflokkur: Menning og listir

Mannfræðin er furðuleg grein, enda er maðurinn furðuskepna

hond_bjorns.jpg

Í dag, 15. nóvember 2014,opnaði í Kaupmannahöfn, nánar tiltekið á Nordatlantens Brygge, hin frábæra ljósmynda- og konceptlistsýning Museé Islandique, sem einnig var haldin fyrir fáeinum árum í Reykjavík, líkt og hinn framandi titill gæti ef til vill gefið til kynna.

Sýndar eru ljósmyndir, sem Ólöf Nordal listakona lét taka, af safni afsteypna sem gerðar voru af Íslendingum árið 1856. Ólöf uppgötvaði að þær væru til á El Museo Canario í Las Palmas á Gran Kanaríeyju, þangað sem þær höfðu í eina tíð verið keyptar af Musée de l´Homme í París. 

800px-bjorn_gunnlaugsson_by_sigur_ur_malari_1249575.jpg

Dannebrogmaðurinn og stærðfræðingurinn með barnshjartað, Björn Gunnlaugsson, eins og Sigurður Guðmundsson málari sá hann árið 1959, og eins hann leit út er afsteypa var gerð af fasi hans árið 1856. Stór og þunglamaleg hönd Björns sést efst.

x400x400_olofnordal_bjorngunlassen_282_29_jpg_pagespeed_ic_rfkpazlga2_1249537.jpg

Björn Gunnlaugsson (1788-1876) í sólbaði í Las Palmas. Ljósmynd Gunnar Karlsson.

Afsteypurnar, sem voru gerðar árið 1856, voru teknar af mönnum í leiðangri Jérômes prins Napoleons, sem sótti landið heim. Jérôme var bróðursonur Naflajóns keisara. Afsteypa af að minnsta kosti einum Íslendingi hafði einnig verið gerð fyrir 1856, eða árið 1839, af leiðangri Gaimards til Íslands árið 1839. Hún er varðveitt á Mannfræðisafninu í París.

olofnordal_bjarnijonsson.jpg

Bjarni Jónsson (Johnsen) rektor Lærða skólans (1809-1868). Ekki er laust við að það sé einhver Framsóknarsvipur á Bjarna, því fyrir utan rauða hárið er Bjarni ekki ósvipaður Guðna Ágústssyni stjórnmálamanni með hausverk í bland við Halldór Jónatansson fyrrverandi forstjóra Landsvirkjunar. Eða kannski eru Íslendingar bara einsleitur massi?

Á sýningunni eru einnig ljósmyndir af uppstillingum Ólafar af ýmsu rannsóknarefni sem Jens heitinn Ó.P. Pálsson (1926-2002) líkamsmannfræðingur lét eftir sig er hann lést i Þýskalandi árið 2002, og sem nú er varðveitt er í Háskóla Íslands. Ég missti af sýningunni í Reykjavík, og sá hana í fyrsta sinn í gær, þar sem mér hafði verið boðið til opinberrar opnunar sýningarinnar fyrir sérstaklega mikilvæga gesti.

Þetta er frábær sýning, sem ég mæli með að allir sjái, ef þeir eru staddir í Kaupmannahöfn eða nágrenni, eða ætla að skella sér í jólainnkaupin til Kaupmannahafnar.

Ljósmyndirnar eru líklegast áhrifameiri og dramatískari en ef frummyndirnar hefðu verið til sýnis í sýningaskápum. "Touch" listamannsins í ljósmyndunum færir áhorfandann nær viðfangsefninu en glerkassi safnamannsins og hinn upphaflegi gripur inni í honum.

Á sýningunni í Kaupmannahöfn, eru umfram sýninguna í Reykjavík, 3 ljósmyndir af 5 Grænlendingum sem aðstoðarmenn Napóleons prins gerðu eftir að þeir höfðu yfirgefið Ísland og komu við á Grænlandi. Mér þykja þær "myndir" fallegri en Íslendingamyndirnar, líkast til vegna þess að frumafsteypurnar eru litaðar og að Grænlendingarnir eru kannski fallegra fólk í mínum augum en Íslendingarnir sem afsteyptir voru.

Sýningunni í Reykjavík, og nú Kaupmannahöfn, fylgir áhugavert hefti, þar sem Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur skrifar mjög góða grein þar sem tekið er á viðfangsefninu út frá listfræðilegu sjónarhorni.

Grein Gísla Pálssonar um líkamsmannfræði

Sömuleiðis er í sýningarskránni grein eftir Gísla Pálsson mannfræðiprófessor við Háskóla Íslands, sem einnig birtist í lengri gerð í límariti Máls og Menningar árið 2012. Hún er frekar lauslegt yfirlit yfir líkamsmannfræði á Íslandi.

Í grein Gísla er því gert skóna, að íslensk líkamsmannfræði hafi haft tengsl við Þýskalands nasismans og eru í því sambandi nefndir til sögunnar Jens Pálsson og Eiður Kvaran.

Eiður Kvaran, sem ég hef ritað um hér á Fornleifi (sjá hér), og sem ég veit ef til vill meira um men flestir aðrir sem hafa verið að skrifa um hann, var vissulega nasisti, en hann var ekki líkamsmannfræðingur (hvorki það sem sumir kalla physical anthropolgist eða antropometríker), jafnvel þótt hann hefði sótt einhverja kúrsa hjá dularfullum "vísindamönnum" við þýska háskóla. Doktorsritgerð Kvarans var einnig afar léleg sagnfræðileg úttekt á íslenskum miðaldaritum, líklega meira í stíl við vangaveltur sem maður sér oft í nútíma menningarmannfræði, ef nokkuð skal segja.

Jens Pálsson vann vissulega með fólki sem hafði á yngri árum starfaði við háskóla í Þriðja ríkinu og stundaði kynþáttarannsóknir að hætti nasista, kynbótafræði, kynþáttafræði (Rassenkunde) og jafnvel rannsóknir á líkamsleifum fórnarlamba nasista úr fanga- og útrýmingarbúðum. Þar með sagt er ekki hægt að tengja Jens við nasisma. Margir aðrir en nasistar stunduðu sams konar rannsóknir og Jens Ó.P. Pálsson. Antropometría,(mælingar á lifandi fólki) Jens Pálssonar voru fræði sem voru samt miklu eldri en nasisminn í Þýskalandi, og engan þarf a furða að nasistar hafi heillast af henni. Með flokkun á fólki var komið tilvalið verkfæri til að lýsa þeim "óæðri kynstofnum" sem nasistar kenndu um ófarir Þjóðverja og hinna svo kölluðu "aría". En ekki er mér kunnugt um að Jens Ó.P. Pálsson hafi stundað neitt slíkt.

visindastofnun_islands.jpg

Brot úr ævistarfi Jens Ó.P. Pálssonar. Nærmynd af einni ljósmyndanna á sýningu Ólafar Nordal.

Greinin sem gleymdist

Mér til mikillar furðu sá ég strax, að prófessor Gísli Pálsson hefur í mjög götóttri yfirreið sinni yfir íslenska líkamsmannfræði, sem hann gefur mest lítið fyrir og stimplar allar rannsóknir á sviði antrópómetríu, sem eins konar nasisma og þjóðernisrembing, misst af riti, sem þannig er skráð á Gegni: +

Populations of the Nordic countries Human population biology from the present to the Mesolithic : proceedings of the Second Seminar of Nordic Physical Anthropology Lund 1990 / editors Elisabeth Iregren, Rune Liljekvist ; scientific advisors Jesper L. Boldsen, Elisabeth Iregren, Berit J. Sellevold ; [front drawing by Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson]. Lund : University of Lund, Institute of Archaeology and the Historical Museum, [1993].

Ég gaf Þjóðarbókhlöðu þetta rit og Þjóðminjasafni Íslands, þar sem ég starfaði á tímabili. En nú virðist sem það sé nú aðeins til á Þjóðminjasafninu en sé tröllum gefið í Þjóðarbókhlöðunni. Líklega var það svo mikið lesið af stúdentum að það eyddist upp að kili. Fyrir utan gamanmynd eftir mig á forsíðu bókarinnar, er reyndar lærð grein eftir mig í bókinni, sem hafði áhrif á feril Jens Ó.P. Pálssonar. Þessa grein mína hefur Gísli Pálsson því miður ekki þekkt.

Fyrsta opinbera gagnrýnin á íslenska líkamsmannfræði

Ég var fyrsti íslendingurinn sem opinberlega gagnrýndi Jens Ólaf Pál Pálsson (sjá hér). Þá sjaldan að hann hélt fyrirlestur komu fáir og hlustuðu, en í Lundi árið 1990 var 200 manna hópur. Okkur, tveimur Íslendingunum, hafði báðum veið boðið á ráðstefnuna í Lundi en hvorugur vissi að hinn myndi mæta. Ég var með gagnrýninn fyrirlestur, sem m.a. fjallaði um rannsóknir Jens, en Jens var með sömu tugguna sem hann hafði oft flutt á þýsku, en nú hélt hann fyrirlesturinn á eins konar ensku.

Áður en Jens hélt fyrirlestur sinn talaði ég við hann í fyrsta skipti. Ég þekkti hann aðeins af umtali fornleifafræðings sem ég vann fyrir. Hún lýsti Jens með glettnum sögum sem afar sérstæðum manni. Vissulega var hann það. En að mínu mati en íslensku þjóðfélagi og akademísku umhverfi fyrri tíma til hróss að það hafði "bás" fyrir menn eins og Jens, þó svo að fæstir vissu hvað hann væri að bauka, því ekki gaf Jens mikið út af greinum eða bókakyns. Það kom þó verulega á óvart að hann fékk prófessorsnafnbót árið 1995.

Jens flutti fyrirlestur sinn í Lundi og það var í einu orði sagt, slys.

Allt sem úr lagi gat farið, fór úr lagi. Myndaskyggnur, sem hann hafði með sér í Lundi, snéru rangt, komu í rangri röð ellegar voru svo ógreinilegar að enginn hafði ánægju af. Þar að auki átti fólk erfitt með að skilja allt sem Jens sagði vegna meðfædds málgalla hans. Til að kóróna allt, mismælti hann sig mikið í enskunni og ruglaðist á síðum og hafði týnt blaðsíðum i fyrirlestri sínum. Hann fór einnig fram yfir tíma sinn og bað um að fá að halda lokaorð síðar um daginn. Í salnum í Lundi voru menn farnir að flissa og ganga út.

Svo kom kaffihlé og ég fór til Jens og talaði við hann og aðrir komu þar að og spurðu nokkuð efins um þessa "kynstofna" í Noregi sem Jens heimfærði yfir á "týpur" á Íslandi. Jens taldi engan vafa á þessu og benti á, að hann hefði fundið allar "fenótýpur" á Íslandi í Noregi og á Bretlandseyjum. Svo benti hann á mig og tjáði sig um að hann gæti bent á hvaðan ég væri ættaður í Noregi. Þá hlógu menn. Og ég spurðu háðskur:"getur þú sagt mér hvar góssið mitt í Noregi er, því ég mun gera tilkall til þess við norsku krúnuna?" en bætti við spurningunni um hvort allir sem væru af sömu "týpu" og ég  í Noregi ættu föður frá Hollandi, sem ætti víða ættir að rekja eins og faðir minn. Þeir sem stóðu og töluðu þarna við okkur hlógu dátt. Hvort Jens varð leiður yfir þessu "fræðilega" afhroði í kaffihléinu, eða að hann hafi drabbast niður eftir að að hafa hlustað á fyrirlestur minn sem ég flutti síðar um morguninn, veit ég ekki.

Ég kom inn á tilgangsleysi rannsókna eins og þeirra sem Jens stundaði, án þess að tengja það beint við nasisma og Þýskaland eins og aðrir hafa gert á mjög ómaklegan hátt. Jens lét sig hverfa af ráðstefnunni. Síðar um kvöldið tjáði Elisabet Iregren mannfræðingur, einn af umsjónamönnum ráðstefnunnar, mér að Jens hefði farið á hótel sitt og hefði drukkið. Hafði hann hringt i hana og verið í öngum sínum yfir fyrirlestri mínum, sem hann vildi svara í ráðstefnuritinu. Hún taldi það af og frá og bað hann um að senda sinn fyrirlestur. Ég varð leiður yfir því að heyra þetta og bauðst til að tala við Jens, en Iregren sagði mér ekki að hafa neinar áhyggjur. Jens sást ekki meira á ráðstefnunni, kom ekki á galla-kvöldverðinn í forngripasafninu Kulturen og sendi aldrei ritstjórum fyrirlestur sinn eða grein.

Jens, sá ég tvisvar sinnum í Reykjavík eftir þetta. Eitt sinn gengum við báðir á gangbraut við Suðurgötuna. Ég var að fara heim til mín á Neshagann. Þegar ég sé Jens, bý ég mig undir að kasta kveðju á hann. Þá snýr hann skyndilega af leið svona 5 metrum áður en við mætumst og nánast hleypur rakleitt þvert yfir götuna. Ég sá greinilega að Jens vildi ekkert af mér vita, og taldi best að láta hann þá lönd og leið. Annað skipti sneri hann upp á súluna í Björnsbakaríi á Hringbrautinni er ég reyndi að heilsa honum. Hann mundi greinilega eftir minni "týpu".

En á gagnrýni Gísla Pálssonar rétt á sér?

to_be_or_not_to_be.jpg

Það leiðist mér, þegar stórlax í samfélagsmannfræðinni í HÍ eins og Gísli Pálsson er, setur Jens Ó.P. Pálsson í sama bát og gamla nasista og skrifar:

"Mestalla tuttugustu öld, frá fyrstu rannsóknum Guðmundar Hannessonar og Eiðs S. Kvarans til loka ferils Jens Ó. P. Pálssonar, höfðu tengslin við Þýskaland sterk áhrif á líkamsmannfræði Íslendinga".

Þetta er of djúpt í árina tekið. Það rétta er, að Jens var að vinna við "rannsóknir" sem voru af svipuðum meiði og þær rannsóknir sem stundaðar voru í Þýskalandi nasismans. Jens er alls ekki hægt að spyrða við nasisma, þótt hann hafi unnið með Ilse Schwidetzky (1906-1997) sem hafði verið í hirð Egon Freiherr von Eickstedt sem var einn af þekktari kynþáttaspekúlöntum Hitler-Þýskalands. Hann gaf út tímaritið Zeitschrift für Rassenkunde. Því apparati kom Jens ekkert nálægt og ekkert úr mannvalskjaftæði þeirra fræða birtist í því litla sem Jens gaf út um ævina.

Maður fær á tilfinninguna að þjóðfélagsmannfræðingurinn Gísli Pálsson sé ekki alveg á þvi hvað líkamsmannfræði sé. Enn er stunduð líkamsmannfræði, sér í lagi mælingar á beinum, sem eru mun öruggari heimild um uppruna þjóða og þjóðflokkadreifingu en DNA-rannsóknir. Gísli heldur þessu fram í enskri gerð greinar sinnar:

"With the emergence of genetics in the 1940s, and the new genetics from the 1960s (Gísli Pálsson 2007), bones and and texts are more or less obsolete as a subject of study, doomed to give way to DNA (Sommer 2008). Only DNA, som say will permit researchers to grapple in any useful way with the history of humans. However, while the methods and theories of genetics and biological anthropology have proved productive and opened new perspectives, it is probable that, like older methods, they too will undergo change - not least in view of growing criticism of gene-centered discourse."

Þó síðasta vangaveltan í þessari setningu sé réttmæt, spyr maður sig hvað Gísli Pálsson hafi verið? Mælingar á fornum beinum (Ostemetría) hafa verið, og eru enn stundaðar, og veita miklar upplýsingar. DNA-niðurstöðum er hins vegar andmælt fáeinum árum eftir að "stórtíðindi" eru tilkynnt. Maður hefur ekki við að fylgjast með DNA-kenningum sem reynast rugl og misskilningur þegar upp er staðið.

Gísli afgreiðir mælingar á beinum sem liðna tíð. Hann minnir mig á bandaríska konu sem bandarískir kollegar mínir sögðu mér frá, sem alltaf stóð upp á ráðstefnum beinasérfræðinga og hrópaði "racist !", er hún heyrði að menn mældu bein, sama hvort það voru bein manna eða dýra. Líklega er Gísli bara of einangraður í menntaumhverfi sínu á Íslandi, þar sem enginn hefur stundað neitt á milli þeirrar "Dürkheimsku", "socialstrúkúralístísku" mannfræði sem hann vinnur með, og því litla sem Jens Pálsson áorkaði í úreldum og ónothæfum fræðum sínum.

gisli_palsson_madurinn_sem_stal_sjalfum_ser.jpg

Að halda því fram, sem Gísli Pálsson gerir, að fyrir hefði verið einhver sérstakur áhugi allra líkamsmannfræðinga á hreinleika Íslendinga og að halda að öll þessi mannbótastefna i líkamsmannfræðinni hafi átt rætur að rekja til Þýskalands er hreinn kjánaskapur, fáfræði og fordómar.

Kristian Emil Schreiner i Noregi, og síðar læknirinn Tage Kemp í Danmörku, eða Anders Retzius í Svíþjóð, voru allt vísindamenn sem höfðu sömu áhugamálin, sem var etnósentrísk mannfræði og "rassenkunde!. Þetta áhugamál, oftast með innbyggðan rasisma, var tímans tákn. Inn í þetta blandaðist gjarna mannhreinsunarstefna/mannkynbætur (eugenik). Í dag, þegar menn mæla útlimbein og bera þau saman við bein annarra manna, eru þeir ekki að reyna að sýna fram á gæði ákveðinna þjóða fram yfir aðrar. Þetta veit Gísli vonandi.

Ef menn hafa áhuga á að sjá hve heltekið samfélag menntamanna gat orðið af þeim ófögnuði get menn lesið stutt yfirlit yfir stofnun þá sem kölluð var Statens Institut för Rasbiologi í Svíþjóð.

Var Jens Pálsson gyðingahatari?

Það tel ég ólíklegt, en hann var haldinn sömu fordómum og margir Íslendingar eru enn í garð gyðinga. Í viðtali við Vikuna árið 1966, segir hann:

Einhvern veginn fannst mér Arabar og Gyðingar leiðinlegir þarna [Kaliforníu]. Þeir gátu aldrei á sárs höfði setið hvar sem þeir komu saman. Það var eins og þeir sæju aldrei önnur vandamál í heiminum en þeirra eigin. Ég minnti þá stundum á sameiginlegan uppruna en þeir urðu kindarlegir við. Um Gyðinga eina vil ég annars segja það að flestir þeirra sem ég hef kynnzt hafa verið ljóngáfaðir menn og lifandi í andanum en með vissri tortryggni og viðkvæmni skapa þeir vegg í kringum sig eins og ýmsir menn.

Já, margur heldur mig sig. Íslendingar eru t.d. heimsmeistarar í sjálfsmeðaumkvun og hafa á síðari tímum óspart líkt óförum sínum við Auschwitz og aðra álíka staði. Munið þið 2008? Ég man líka hegðan Jens gangvart mér. Hvekktur var hann, en gyðingahatari og nasisti? Varla. Hann var kynlegur kvistur í hinum akademíska heimi.

DNA-rannsóknir og The Brave new World?

Hins vegar leyfi ég mér að halda því fram, að vissar yfirlýsingar úr DNA rannsóknum nútímans á Íslandi og hin staurblinda umræða um hvort Íslendingar voru frá Bretlandseyjum eða Skandínavíu, sé álíka út í hött og nasísk misnotkun líkamsmannfræðinnar, þó svo að menn séu ekki að fegra "stofninn" nema í því auglýsingasjónarmiði þar sem básúnað er að íslendingar henti vel til rannsókna sem leyst gæti allan vanda sem herjar á þjóðir heims.

Íslendingurinn er orðinn að "guðinum" sem lokar öskju Pandóru. DNA á líka samkvæmt nýlegum íslenskum rannsóknum að sýna, að kvenþjóðin á Íslandi í öndverðu hafi fyrst og fremst komið frá Bretlandseyjum og karlar frá Skandinavíu. Það eru vafasamar niðurstöður og vart tel ég að þær munu standast með áframhaldandi rannsóknum. DNA-heimurinn mjög hverfull, ef menn hafa ekki enn tekið eftir því.

Að rannsaka erfðamengi Nútímaíslendinga til að tjá sig um uppruna þeirra er langtum langsóttari leið en að mæla hlutföll í t.d. lengd útlimabeina elstu Íslendinganna sem varðveitt eru í Þjóðminjasafninu.

Dr. Hans Christian Petersen (f. 1959) mældi í samstarfi við mig elstu bein á Þjóðminjasafni árið 1993. Hans, sem er virtur líffræðingur og líffræðitölfræðingur (biostatistiker) í Danmörku. Hann er prófessor við Syddansk Universitet (SDU) í Óðinsvéum. Í rannsókn sinni á Íslandi á varðveittum beinum elstu Íslendinganna í kumlum og grafreitum, sýndi hann fram á að flestir einstaklingarnir ættu ættir að rekja til Skandinavíu/Noregs (sjá hér).

Hans Christian Petersen sá með samanburðarmælingum sínum ákveðna prósentu fólks sem hlaut að koma frá Bretlandseyjum, bæði á meðal karla og kvenna. Hann færði einnig að því gild rök, að Íslendingar í öndverðu hafi verið blandaðir frumbyggjum Skandinavíu, Sömum. Mítókondríið (hvatberar??) í Íslendingum í dag sannar á engan hátt uppruna formæðra þeirra á Bretlandseyjum. Mælingar á útlimabeinum formæðra þeirra sýna hins vegar glögglega að ca. 15. % þeirra mælast líkt og konur á Bretlandseyjum á sama tíma. Þetta hlusta þeir DNA-sérfræðingar sem fóru á spenann hjá deCode/Íslenskri Erfðargreiningu ekki ár, eftir að hafa í upphafi "DNA-byltingarinnar" á Íslandi fyrst gagnrýnt fyrirtækið og framsetningu þess í DNA-sölumennskunni.

Enginn vafi leikur á að Samar, eða fólk blandað þeim, settust að á Íslandi, en samt hefur engum af fræðimönnunum fyrir og eftir hinn meinta "þýska tíma" í íslenskri líkamsmannfræði, dottið í hug að Samar væru meðal á þeirra. Þeir sem unnu með ritaða arfinn útilokuð þó ekkert um slíkt, enda er greint frá sömum og afkomendum þeira í Íslendingasögum.

Þjóðflutningamannfræðin í auglýsingaefni DNA-sölumannsins Kára Stefánssonar hefur heldur ekki gert ráð fyrir Sömum. Hverju veldur? Aðferðafræðileg skekkja, eða sú óniðurbrjótanlega skoðun margra kynslóða íslenskra fræðimanna að annað hvort séu þeir og þjóðin komnir af konungum í Noregi, eða konungum á Írlandi?

Samar, sem Svíinn Retzius niðurlægði, urðu fórnarlömb þessarar þjóðrembumannfræði í Noregi og Svíðþjóð. Með hjálp "líffræðilegra raka" svo sem að Samar væru ekki langhöfðar, voru þeir taldir óæðri Stórsvíum. Skyldu tilgátur Retziusar enn gerjast á meðal íslenskra fræðimanna, sem geta greinilega ekki hugsað sér að frumbyggjar Skandinavíu hafi verið á meðal landnámsmanna? Þeir finna ekkert DNA sem bendir til þess, en hafa þeir leita að því?  Eins og allir sem hafa flett sögubókum vita, þá er DNA-ið á landnámsöld ekki það sama og í dag. Viðkoma annarra en þeirra sem námu land, hlýtur að vera töluverð. Til þess eins að þjóðin úrkynjist ekki þarf meira en 3% "nýtt blóð" í einangraðn stofn manna. Á vondum degi dettur manni í hug að það hafi ekki alveg tekist, en ég tel þó svo vera.

Við vitum af öllum þeim hópum útlendinga sem höfðu samband við Íslendinga í gegnum aldirnar, og kannski sér í lagi við íslenskar konur. Þær bættu kynstofninn í frístundum sínum og hjáverkum, því þær sáu kannski hvert stefndi með afdalahátt og skyldleikaræktina.

LENGI LIFI ÍSLENSKA KONAN,

þótt menn hafi misskilið hvatberana í henni.


Altaristaflan í Miklaholti

miklaholt2_1249368.jpg

Flestir Íslendingar kannast við Vor Frelsers Kirke, Kirkju Frelsara Vors á Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn. Sumir hafa jafnvel gengið upp í turnspíruna á henni, eins og ég gerði með föður mínu sumarið 1971. Maður gengur upp tröppur utan á turnspírunni. Síðan þá hef ég þjáðst af mikilli og ólæknandi lofthræðslu og dreymir stundum enn um það þegar ég þurfti að setjast niður á koparþrepin þegar einhverjir plássfrekir þýskir túristar og sænskar fyllibyttur gengu framhjá okkur utan á helv... spírunni.

Kirkja Frelsara Vors var reist á árunum 1682-1696 eftir teikningum norsks byggingarmeistara af hollenskum ættum. Hann hét Lamberts van Haven. Kirkjan var ekki upphaflega hugsuð með þann turn og turnspíru sem við þekkjum í dag. Spíran var fyrst vígð árið 1752 og var gerð eftir teikningum danska arkitektsins Lauritz de Thurah.

kbh-300705-159-001-600x387.jpg

Vor Frelsers Kirke á 18. öld.

6754180-26magdetgamlekbenhavnjpg.jpg

Kirkjan í lok 19. aldar.

Þegar skrifað var um kirkjuna í stórverkinu Danmarks Kirker í byrjun 7. áratugar síðustu aldar, kannaðist listfræðingurinn Jan Steensberg (1901-1971), sem um kirkjuna fjallaði, vitaskuld ekki við altaristöfluna í Miklaholtskirkju i Fáskrúðabakkasókn á Snæfellsnesi. Hefði hann gert það, hefði löng greinargerð hans um kirkjuna orðið öðruvísi en sú sem má lesa (sjá hér). Nú vitum við, hvernig turn kirkjunnar var, áður en hann var hækkaður til  muna um 1740 og áður en spíran sem nú er kirkjunni var loks reist. Þetta var dæmigerð hollensk kirkja, líkust Nýju kirkju (Nieuwe Kerk) í den Haag í Hollandi, enda byggð af hinum hollenskættaða Norðmanni van Haven.

lambert_van_haven.jpg

Lambert van Haven, byggingarmeistarinn.

vor_frelsers_kirke_copenhagen_portal_west_2_1249371.jpg

Prestur gefur ljósmynd

Af einhverjum ástæðum mér ókunnugum kom séra Jónas Gíslason (1926-1998) með ljósmynd af altaristöflunni á Þjóðminjasafns Dana árið 1967 og gaf safninu. Jónas var þá prestur Íslendinga í Kaupmannahöfn, en síðar var hann útnefndur prófessor í trúarbragðasögu við guðfræðideild Háskóla Íslands, og enn síðar vígslubiskup í Skálholti. Engar upplýsingar hafa Danir um þessa ljósmynd sem þeir fengu. Myndin varð hins vegar til þess að ég hóf dauðaleit af töflunni. Leitin stóð yfir í um það bil sólarhring. Ég fullvissaði mig um að taflan, sem ekki er nefnd í Kirkjum Íslands, væri heldur ekki á Þjóðminjasafni Íslands. Loks kom í ljós að hún hafði lengst af verið í kirkjunni eftir að hún fékk andlitslyftingu hjá Frank heitnum Ponzi listfræðingi fyrir mörgum árum síðan.

Mönnum þótti kirkjan í Miklaholti orðin mjög hrörleg á seinni hluta 20. aldar og var ákveðið að endurbyggja hana og enn var bætt við árið 1961. Fáskrúðabakkakirkja var sömuleiðis gerð að sóknarkirkju í stað Miklaholtskirkju. Það var gert þegar árið 1936. Ýmir gripir í gömlu kirkjunni fóru í aðrar kirkjur t.d. í nýju sóknarkirkjuna. Fáskrúðarbakkakirkju. En ekkert hefur farið á Þjóðminjasafn Íslands. Kurt Zier, Þjóðverji sem hafði verið í útlegð á Íslandi á stríðsárunum, og sem síðar hafði snúið aftur frá Þýskalandi til Íslands árið 1961 til að stýra Myndlista- og Handíðaskólanum Reykjavík, var fenginn til að mála nýja altaristöflu fyrir Miklaholtskirkju.

Gamla altaristaflan var hins vegar send til viðgerðar hjá Frank Ponzi og kostaði Guðríður heitin Magnúsdóttir, dóttir Magnúsar Sigurðssonar í Miklaholti það, en Magnús bjó í Miklaholti fram til 1939. Við jörðinni tók Valgeir Elíasson og kona hans Guðlaug Jónsdóttir. Núverandi ábúandi í Miklaholti, Gyða Valgeirsdóttir, sem séra Páll Ágúst Ólafsson benti mér á að hafa samband við, sagði mér hvar altaristaflan væri niður komin. Taflan kom aftur úr viðgerðinni og hefur síðan þá hangið yfir kirkjudyrum, þar sem fáir veita henni athygli, því aðeins er messað í kirkjunni einu sinnu á ári, á Nýársdag.

Afkáraleg altaritafla?

Myndin á altaristöflunni úr Miklaholti er líklega gerð árið 1728 líkt og fram kemur á töflunni, Hún er kannski ekki mikið listaverk, en í einfaldleika sínum er hún að mínu viti bæði falleg og einlæg. 

engill_1249373.jpgengill.jpg

Í kirknaskrá sinni skrifaði Matthías Þórðarson þetta árið 1911 er hann heimsótti kirkjuna: 7.VII.1911.              Kirkjan orðin gamalleg og fúin, fremur lítilfjörlegt hús. Altaristafla afkáraleg, ofantekin, stendur frammi í horni. Umgjörðin með allmiklu verki, máluð með ýmsum litum. Myndin sjálf sýnir kirkju, fyrir framan er Kristur með flokk postula, Jóhannes skírari og ýmislegt fólk, sem flest baðar höndunum út í loptið. Fyrir ofan er letrað: „Johannes og Johannis Babtistæ Kirkia epter honum so køllud.“ Fyrir neðan myndina stendur á sjerstökum fleti: Hr. Peder Einersen: M.[:] Christin Siverdsda[a]tter. Ao 1728. "

Altaristöfluna gömlu í Miklaholti gaf séra Pétur Einarsson (1694-1778) sem alla tíð var prestur í Miklaholti. Hann fór utan eftir nám í Hólaskóla 1720. Árið eftir fékk hann brauð í Miklaholti og hefur líklega pantað þessa þessa töflu af Vor Frelsers Kirke og beðið um að nafn sitt og konu sinnar yrði sett á hana. Myndin er þó þess leg að ekki verður útilokað að íslenskur maður hafi gert hana, einhver nákvæmur naívisti, en þar verða þó aðeins vangaveltur.

Þegar efst á myndina er ritað að kirkjan fái nafn sitt eftir Jóhannesi og Jóhannesi skýrara er vitanlega átt við kirkjuna í Miklaholti sem taflan var gefin. Þar var kirkja allt frá því á miðöldum helguð Jóhannesi skírara.

Matthías Þórðarson greinir myndmál myndarinnar rangt. Þarna er margt að gerast. Skegglausi engillinn með geislabauginn er enginn annar en Gabríel, og fólk baðar út höndum því Biblían greinir frá því að allir menn, t.d. María mey og Zakarías hræddust Gabríel er þau sáu hann. Jesús og lærisveinarnir horfa á. Gabríel var boðunarengill þegar í Gyðingdómi. Einnig má greina á málverkinu mann með hjálm, sem snýr baki í okkur, en það er hundraðshöfðinginn Kornelíus. Honum birtist engillinn Gabríel líka.

Ef einhver fróður maður getur skýrt út fyrir mér, hvernig stóð á því að séra Jónas Gíslason fór með ljósmynd af altaristöflu frá Íslandi á Þjóðminjasafn Dana, væri mér mikil akkur í að fá upplýsingar um það. Ég held að hann hafi kannski leitað upplýsinga fyrir Frank Ponzi og að Frank hafi tekið myndina. Hef ég því haft samband við Tómas, son Franks Ponzi, sem var nokkurn veginn samtíma mér í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Taflan sem hafði staðið í friði og spekt yfir altari í Miklaholti síðan um 1728, var reyndar orðin hornkerling árið 1911. Hún er þó sannarlega þess virði að minnst sé á hana því hún leysir ráðgátu um byggingasögu einnar merkilegustu kirkju Kaupmannahafnar, borgar sem í eina tíð var höfuðborg Íslands. Í Vor Frelsers Kirke hangir til dæmis ljósahjálmur sem Íslandskaupmaðurinn Jacob Nielsen gaf árið 1695.

Ritið Fornleifi á fornleifur@mailme.dk ef þið hafið frekari upplýsingar um altaristöfluna í Miklaholtskirkju.

frelser_spir.jpg


Furðufréttavertíðinni bjargað

herjolfsbaer_vefur.jpg

 

Ég var að verða alveg vonlaus eftir furðufréttum úr fornleifafræðinni árið 2014. Sigmundur Davíð hefur víst svelt allar fornleifarannsóknir eftir að hann gerðist yfirfornvörður landsins með hjálp einhverjar framsóknarpíu af Þjóðminjasafninu.

En í haustbyrjun var skemmtanariðnaðinum bjargað. Steinunn Kristjánsdóttir, sem hefur skemmt okkur mikið gegnum árin með "eskimóum" og "fílamönnum" sem hún hélt um tíma fram að hefðu verið sjúklingar á Skriðuklaustri, sagði nýlega frá "hálfgerðum þorpum" við klaustur á Íslandi. Þar hafa líklega búið hálfgerðir þorparar, eins og oft síðar á Íslandi.

50_thorp.jpg


Nú bætir Bjarni Einarsson um betur, þegar hann heldur því fram að hann hafni niðurstöðu Margrétar Hermanns-Auðardóttur um að byggð hafi hafist í Vestmannaheyjum á sjöundu öld. Hann er reyndar ekki sá fyrsti sem það gerir.

Bjarni segir. " Áður hafa verið leiddar að því líkur að fólk hafi búið í Vestmannaeyjum á tímabilinu 600-800, meðal annars svokallaðir papar, sem voru írskir og skoskir munkar." Þetta er ekki alveg rétt eftir Margréti Hermanns-Auðardóttur haft.

Bjarni segist hins vegar sjálfur með aðstoð jarðsjár og Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings geta sagt að byggð hafi hafist örlítið fyrr í Herjólfsdal en um 871. 

Það þarf ekki veðurbarinn jarðfræðing með sandpappírsbarka og jarðsjá til að sjá það. Um það hefur þegar verið ritað. Sjá t.d.  hér.  En gaman er að fleiri rústir hafi fundist umhverfis tætturnar sem Margrét rannsakaði í Herjólfsdal (sjá efst) á sínum tíma. Hún hefði örugglega líka fundið þær hefði hún haft aðgang að jarðsjá og yfirlýsingaglöðum sargbarka úr jarðfræðingastétt.

Afætuháttur íslenskra fornleifafræðinga er orðinn afar leiðgjarn. Geta menn ekki gert neitt frumlegt?


Var Danmörk hnattvædd á bronsöld ?

kul_perler_884837y.jpg
 

Danmark var globaliseret i oldtiden - Danmörk var hnattvædd á fornöld. Svo hljóðar fyrirsögn greinar í danska dagblaðinu Politiken i dag sem fjallar um ca 3500 ára gamlar perlur ættaðar frá Egyptalandi, Sýrlandi og Írak. Danskir höfðingjar báru þessar framandi perlur er þeir voru heygðir á bronsöld.

Ungur og föngulegur fornleifafræðingur, Jeanette Varberg, sem vinnur við forngripasafnið á herragarðinum Moesgård í útjaðri Áróss í Danmörku, og þar sem ritstjóri Fornleifs hlaut menntun sína í forneskju, fann perlur í gamalli öskju í kjallara safnsins áður en safnið flutti í nýjar og glæsilegar byggingar. Þessar og aðrar perlur, fundnar í bronsaldarsamhengi í Danmörku, lét Varberg efnagreina með leysitækni á Þjóðminjasafni Dana og Orleans í Frakklandi. Niðurstaðan sýnir á mjög afgerandi hátt, að perlurnar eru úr gleri sem unnið var í löndum við botn Miðjarðarhafs. Sumar perlurnar sýndu til að mynda sömu efnagreiningu og turkísblátt gler í gullgrímu Tutankhamuns.

ancient_egyptian_pharaoh_92s_mask.gif

Af 293 perlum sem greindar voru, og sem fundist hafa í eikarkistum eða í duftkerjum í 51 haugum í núverandi Danmörku og Slésvík-Holstein, reyndust þó aðeins 23 vera það sem Varberg og Politiken kalla perlur frá Miðausturlöndum sem sýna eiga "hnattvæðingu á bronsöld".

Hnattvæðing er nú einu sinni allt annað fyrirbæri en frumstæð vöruskipaverslun, og þegar fornleifafræðingar nota slík orð eru þeir komnir með of sterk, ný gleraugu, sem líklegast eru búin til úr plasti en ekki eðalgleri. Perlurnar í Danmörku sýna fyrst og verslunarleiðir og hvernig framandi gripir gátu endrum og eins borist mjög langt. Fólk sem byggði Danmörku á bronsöld gat boðið upp á raf sem barst jafnvel til Egyptalands og fengu í staðinn perlur frá framandi löndum. Hvar slík vöruskipti hafa átt sér stað er ómögulegt að vita. Perlurnar gætu hafa borist mann frá manni og milliliðirnir gætu hafa verið töluvert margir.

Við vitum einnig að gler frá Egyptalandi var verslunarvara sem siglt var með til t.d. Litlu-Asíu (núverandi Tyrklands) á 14. öld fyrir Krists burð. Flak skips með dýrindis farm hefur fundist undan suðurströnd Tyrklands. Skipið sem fornleifafræðingar kalla Ulu Burun hefur líklega siglt frá Ugarit í Kanaanslandi, hafnarborg sem var þar sem nú kallast Sýrland eða síðar meir "IS-land". Meðal varningsins var hrágler sömu tegundar og glerið í sumum hinna 23 framandi perlna sem greindar hafa verið í Danmörku. Perlurnar gætu því alveg eins vel hafa verið búnar til í Litlu-Asíu.

4951989205_8543de50d2_z.jpg
Gler"gjall" frá Sýrlandi frá þeim tíma að þar var sumar og sól.
 

En suma fornleifafræðinga dreymir meira en aðra. T.d. Flemming Kaul, sem einnig er nefndur til sögunnar í greininni í Politiken í dag. Hann er sérfræðingur út í trúarbrögð í Danmörku á bronsöld. Hann hefur bent á mikil líkindi á milli sólskipa Fornegypta og sólskipa sem þekkjast í bronsaldarlist Danmerkur sem oft sjást á mjög stílfærðu skreyti á rakhnífum. Kaul tengir perlurnar og sólskipin saman, en gleymir í hita leiksins að í Danmörku voru einnig til sólvagnar. Sólvagnatilbeiðendur voru líkast til villutrúarmenn og öfgamenn.

Ég lít vitaskuld öfundaraugum til þessarar merku uppgötvunar í danskri fornleifafræði, sem ég hefði þó túlkað á örlítið annan hátt. Fjölmiðlagleði sumra fornleifafræðinga getur leitt af sér undur og stórmerki. Við þekkjum það frá Íslandi.

Ég veit að grein um þessa merku uppgötvun átti innan skamms að birtast í ritinu SKALK í Danmörku, sem ég skrifa stundum fyrir. Ritstjóri ritsins var búinn að tjá mér, að mikið "skúp" væri í vændum í næsta tölublaði tímaritsins og að SKALK yrði fyrstur með fréttirnar. Hann vildi ekki segja mér hvað greinin fjallaði um, enda Fornleifur lausmælskur mjög

En nú er dagblaðið Politiken búið að hirða "skúpið" og líklega fyrir fjölmiðlagleði fornleifafræðingsins snoppufríða, sem lét greina perlurnar bláu og sem sér hnattvæðingu alls staðar líkt og kollegar hennar sem trúa því að dönsk stílfærð sólskip geti ekki hafa þróast nema fyrir bein áhrif frá egypskum musterisprestum sem hafa heimsótt danska flatneskju skreyttir bláum perlum.

Hlutir geta vitaskuld borist um langa vegu án þess að menn neyðist í frumleika sínum til að kalla það hnattvæðingu. Að lokum er hér mynd af hinum efnilega danska fornleifafræðingi Varberg, som gør dansk arkæologi dejligere (men måske ikke meget bedre end den har været):

forsker_jeanette_varberg.jpg

Fornleifafræði eða fjölmiðlafrygð, eða bara þjóðfélagið í dag?

Aðeins meira af ropvatni

1899947_10204725576603009_7247314184298357617_n.jpg

Egill Helgason, stærsti bloggari landsins, segir stundum sögur af sér og syni sínum, sem er eins og snýttur út úr nefi föður síns. Nýlega sagði gossérfræðingurinn Egill hjartnæma sögu um sykurlausa gosið Valash sem blandað var í verksmiðju Sana á Akureyri um tíma. Egill skrifaði í inngangi "Ég var um daginn að segja Kára frá því að til hefði verið drykkur sem kallaðist sykurlaust Valash. Hann trúði mér eiginlega ekki." 

Fært í búninginn

Sama dag og Egill birti Valashssögu sína á Eyjunni tók Egill þátt í umsögn við færslu á skemmtilegri smettiskruddu sem ber heitið Gamlar Ljósmyndir, þar sem Þorvaldur Gunnarsson minnti á drykkinn Valash snemma morguns þann 11. október og þar sem Egill gerði athugasemd síðar um daginn: "Fyrsti íslenski sykurlausi drykkurinn, ekki satt?".  Tveimur klukkustundum áður en Egill skrifaði þá athugasemd, hafði hann á Silfrinu ritað um gosdrykkjafræðslu sína gagnvart Kára litla. Gaman að sjá hvernig Egill færir hugdettur "sínar" í búninginn.

egill_valash.jpg
 

Ritskoðun á Eyjunni

Ég veit ýmislegt um Valash, sem upphafalega var danskt ropvatn sem framleitt var við Limafjörð, svo ég fór að skrifa athugasemd við Silfur Egils. Æi, ég gleymdi að ég er ritskoðaður á Eyjunni. Þar get ég hvorki gert athugasemdir undir eigin nafni, né af fasbók Fornleifs. Fornleifur reyndi að senda Agli eftirfarandi línur honum og öðrum til fræðslu, en þar sem Eyjan situr mig og aðra? í bann birtist ekkert. Ég hef haft samband við Eyjuna fyrir nokkrum vikum síðan vegna þessarar ritskoðunar, en þeir svara ekki. Ég hef enga skýringu fengið á útilokuninni. Þetta var það sem ég vildi upplýsa Egil um. Það er svo hættulegt, að það er ritskoðað. Hér fær hann það sykurlaust.

"Drykkurinn varð til á fjórða áratug síðustu aldar í gosdrykkjarverksmiðju A. Bach & Søn í Nørresundby, sem er næsti bær við Álaborg. Verksmiðjur voru síðar í Gentofte og Skovlunde við Kaupmannahöfn og í Árósum. Gosið ver selt Brugghúsinu í Faxe árið 1969 og fékk Faxe Bryggeri Pepsi og 7Up með í kaupunum. Hinn þekkti auglýsingateiknari Ib Antonis hannaði merki Valash. Íranskir konungar klæddust forðum appelsínugulum klæðum. Þaðan er nafnið líklega til komið. Ég hef drukkið sykurlaust Valash á Íslandi. Það var sakkarín í og bragðið því svo sem svo. Má maður kannski bjóða Agli Pepsi Anno 1943: http://www.fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1462137/"

Þegar Egill er með svona tilburði tel ég víst að hann hafi líka mikla þekkingu á gosdrykkjum í DDR eins og Club Cola.


Fiskisaga Lemúrsins

eisenhower-fishing.jpg

Nýverið hoppuðu sumir íslenskir fjölmiðlar hæð sína af gleði yfir visku undarlegs apakattar frá Madagaskar sem matar söguna ofan í auðtrúa Íslendinga með myndasögum og ævintýrum. Íslenski lemúrinn, sem að hluta til er kominn af breiðhöfða apakyni sem hefur sérleyfi á réttar og sannar skoðanir, er nokkuð glöggur að ná sér í svart hvítar myndir af fortíðinni, og ber þess merki að heimurinn er hjá honum svarthvítur eins og hann sjálfur. Sagnfræði hans er ekki alltaf upp á marga fiska, þótt hann finni einstaka áður óþekkt skjal á vefsíðum skjalasafna (nema í Moskvu), bara vegna þess að það stendur "Iceland" á skjalinu. Eins og aðrir apakettir á Íslandi, sem lesa sér og ættingjum sínum til gamans upp úr biflíunni, gyðingum og kristnum til háðungar, þá vinsa Lemúrar alltaf úr og sjá ekki samhengið fyrir trjánum í frumskógi sínum.

Fiskisögur fljúga árið 1954 og 1947

Um daginn komst einn af sérfræðingum vefsíðunnar Lemúrsins að því að Bandaríkjamenn hafi ætlað að kaupa allan fisk af Íslendingum, svo við værum ekki að selja hann Rússum. Um þetta geta menn lesið hér . DV, Eyjan og aðrir ritskoðaðir miðlar á Íslandi sýndu þessu vitanlega mikinn áhuga, enda er þetta ófullkomin sagnfræði af því tagi sem þeir miðlar hafa ýkja oft í hávegum.

Það sem sagnfræðilemúrinn sem leitar að skjölum um Íslands, þegar BNA opna skjalasöfn sín, fann í þetta sinn gat hann ekki vitað að væri gamalt vín. En það setti hann á nýjar flöskur og bjó til "turban myth" um að Dwight D. Eisenhower, sem var áhugamaður um marhnútaveiðar, hafi verið að velta fyrir sér árið 1954 að kaupa allan fisk af Íslendingum sem svo átti að fara í þróunarhjálp til Ísraela og Spánverja. Þessu trúa auðtrúa íslendingar nú eins og nýslegnum túskildingi. Allir virðast hafa gleymt tómum dósum af gaffalbitum sem Rússar keyptu af Íslendingum og hraðfreðnum ævintýrum vestan hafs.

En þetta gjálfur um allsherjar fiskkaup Bandaríkjamanna var nú eitthvað eldra en 1954. Þegar árið 1947, eða nánar tiltekið 2. september, var sendiherra Dana á Íslandi C.A.C. Brun, sem við Íslendinga getum þakkað hve auðveldlega sambandsslitin gengu fyrir sig, í einkaerindum í Stokkhólmi. Hann ritaði í dagbók sína:

"Vi var i Stockholm meget sammen med vor gamle Ven fra Washington Hugh Cumming [Hugh S. Cumming jr.], som allerede flere gange har besøgt os paa Island, hvor han forhandler Basespørgsmaalene  og gav mig Oplysninger, der danner Grundlaget for meget værdifulde Depescher til U-M.  i Sommeren og Efteraaret 1946. Han sagde mig, at USA ikke vil oftere [sic] tolerere Kommunister i Islands Regering og for at afværge det, vil USA til syvende og sidst aftage den Fisk som Island ikke kan faa solgt anderledes." *

brun_in_new_york.jpg
C.A.C. Brun (heldur á pípu) í New York á stríðárunum þar sem hann segir frá björgun gyðinga í Danmörku í útvarpi (sjá hér). Þó hann væri sendiráðsstarfsmaður í Washington eftir að hann yfirgaf sendiráð Dana i Reykjavík 1941, þá varð hann óbeint valdur að því að Svíar ákváðu að leyfa dönskum gyðingum að fara til Svíþjóðar. Þegar C.A.C. Brun, sem sat í brúnni í  sendiráði /ríkisstjórn Dana í Washington meðan að sendiherrann Henrik von Kauffmann var að leika golf, hafði sent símskeyti til Svía um að Danir myndu borga fyrir vist gyðingana í Svíþjóð, ákváðu Svíar fyrst að taka á móti þeim. Þetta mikilvæga smáatrið hefur enn ekki komist inn í sænskar eða danska kennslubækur en má finna hér og í heild sinni á í bókinni Medaljens Bagside, sem er til á betri bókasöfnum á Íslandi.
 
bandungconference1955-01-oa.jpg
Hugh S. Cumming jr. varð síðar sendiherra BNA í Indónesíu, þar sem þessi mynd var tekin.
 

Kanar voru "kommúnistabanar" eins og við vitum. Ekkert annað en hræðsla þeirra við kommúnismann olli því að þeir töldu það skyldu sína að kaupa fisk af Íslendingum. Keimlík loforð heyrðu menn líka í öðrum löndum.  Bandarísk utanríkisþjónusta, herinn og leyniþjónustan CIA voru með handbækur þar sem mönnum var kennt að segja það sem best líkaði í hverju landi, en einnig til þess að menn vissu hvaða landi þeir væru staddir í og uppljóstruðu ekki hver illa Kanar voru að sér í landafræði. Það eru ekki bandarískir diplómatar sem lesa sér til gangs, því nýsettur sendiherra BNA í Noregi hélt því fram á gáfnaprófi sem hann var settur í að Noregur væri lýðveldi. Nýr sendiherra BNA á Íslandi, sem enn hefur ekki sést, vissi þó vel að Ísland væri bananalýðveldi (sjá hér).

Skjall og fagurgali hefur ávallt þótt góður síður í BNA og sumir falla flatir fyrir slíku ef peningar fylgja með (sjá ESB). Að gera sér eitthvað annað í hugarlund en kommúnistahræðslu í sambandi við hugleiðingar um að kaupa allan fisk af Íslendingum, og blanda því við græðgi á Íslandi 2000-2008 er út í hött og ekkert annað en lemúrafimi og apastrik. Sagnfræði byggist ekki á því að detta ofan eitt skjal í BNA á vefnum. Hlutina þarf að sjá í samhengi. Sem sagt: Kanar voru farnir að velta fyrir sér stórinnkaupum á fiski Íslendinga árið 1947, sjö árum áður en Eisenhower var haldinn órum um að kaupa fiskinn okkar og senda hann til Ísraels og á Spán. Hann var reyndar vel kunnugur Hugh S. Cumming.

Þess má til viðbótar, geta að vinur minn, sem er einn fróðastur sagnfræðinga Íslands, hefur tjáð mér að hann hafi séð pappíra í Þjóðskjalasafninu sem vörðuðu þá hugmynd að fá Þjóðverja til að kaupa fisk á Íslandi til að senda til gyðinga í Ísrael. Hvað var meira við hæfi en að fita aðeins fórnarlömbin sem lifðu helförina af? Þetta mun hafa verið til tals um það leyti sem Ísraelsríki var stofnað.

* (Þennan texta er því miður ekki hægt að finna á vefnum eins og Top secret fiskisögu Eisenhowers, því frændur okkar Danir eru því miður ekki eins opnir í allar gáttir og BNA, þegar kemur að opnun skjalasafa).


Afar sérstakur saksóknari

malverkin_tvo.jpg

Ég ritaði hér um daginn um nýja málverkafölsunarmálið, þar sem tvö málverk eftir Svavar Guðnason voru tekin í hald lögreglunnar í Kaupmannahöfn sama dag og bjóða átti upp málverkin hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen.

Það sem Bruun Rasmussen var ekki tjáð nákvæmlega hvaðan ákæran kæmi, samkvæmt upplýsingum Niels Raben yfirmanni uppboða nútímalistar, og eigandi eins málverksins K.O. hefur heldur ekki fengið upplýsingar um hver hafi sett fram ákæruna, hafði ég samband við Ríkislögregluna á Íslandi. Þar sagði mér lögfræðingur, að Embætti sérstaks saksóknar að Skúlagötu 17 í Reykjavík væri það embætti sem sæi um þetta mál og hefði sett fram kæruna sem leiddi til þess að lögreglan í Kaupmannahöfn lagði hald á tvö málverk.

Er ég hafði samband við Sérstakan saksóknara í dag var mér tjáð að Ólafur Þór sérstakur saksóknari sæi um þetta fölsunarmál ásamt embættismanni hjá embættinu sem heitir Sveinn. Þeir voru fara á fund og gátu því ekki svarað erindi mínu, sem ég býst við að þeir svari skriflega og hafa þeir fengið erindið.

Spurning mín til embættisins er einfaldlega sú: Hvernig ákæra frá forverði við Listasafn Íslands, sem séð hefur málverk á netinu og slær því fyrirvaralaust út að það sé falsað, verði mál sem sérstakur saksóknari og Lista Sveinn starfsmaður hans taka að sér að kæra í og krefja lögregluyfirvöld í Danmörku gegnum NORPOL að gera upptæk. Ég fæ alls ekki séð af lögum nr. 135/2008, að það sé í verkahring Sérstaks saksóknara að rannsaka meintar málverkafalsanir. Sjá hér.

Hvað kalla menn rannsókn ?

Samkvæmt nýjum lögum (2014) um ráðstafanir gegn málverkafölsunum hefur Alþingi ályktað að fela "mennta- og menningarmálaráðherra að setja á laggirnar starfshóp skipaðan fulltrúum Listasafns Íslands, Myndstefs, Bandalags íslenskra listamanna, Sambands íslenskra myndlistarmanna, embættis sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, og mennta- og menningarmálaráðuneytis sem geri tillögur að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum og skilgreiningu á ábyrgð hins opinbera í lögum gagnvart varðveislu þessa hluta menningararfsins. Þá fái hið opinbera frumkvæðisskyldu til að rannsaka og eftir atvikum kæra málverkafalsanir."

Þess ber að geta að slíkur starfshópur hefur ekki komið saman. Hins vegar hljóp embætti Saksóknara til nú eins og að verk látins íslensks listamanns væru í verðflokknum Picasso plus, og sala á meintri fölsun á verki hans (sem dæmt var falsað eftir að Ólafur Ingi Jónsson forvörður sá það á netinu/það var ranbsókn) væri brot sem setti efnahag Íslands í vanda. Það er eins dæmalaust vitlaust og þegar Bretar settu Íslendinga á hryðjuverkalistann. Vita menn hvað áætlað verð var á málverkinu á uppboði Bruun Rasmussen sem K.O. á Jótlandi setti á uppboð? Það eru skitnar 5350 € (40.000 DKK/825.000 ISK) Er ekki mikilvægara fyrir sérstakan saksóknara að setja bankafalsarana og bankaellurnar undir lás og slá?

Hvað haldið þið lesendur góðir? Er rétt að nota embætti sérstaks saksóknara til að eltast við hugsanlega fölsun í Danmörku, þegar embættinu ber fyrst og fremst að lögsækja menn sem settu Ísland á hausinn? Verk í eigu manns á Jótlandi, sem erfði verkið eftir foreldra sína sem voru þekktir listaverkasafnarar, sem keyptu málverkið árið 1994, getur vart hafa sett Ísland á hausinn árið 2008. En hvað veit ég?

Hvenær endar hin sér íslenska vitleysa? Vonandi verður sérstakur saksóknari eins duglegur við að lögsækja bankabófana og hann hefur verið í þessu nýupptekna fölsunarmáli. Fyrir nokkrum árum síðan var málverkafölsunarmálið talið eitt mesta og dýrasta mál landsins. Nú eru slík mál bara peanuts bæði hvað varðar stærð og kostnað.

bf6c200b165df26bf08deb3f0725afad.jpg

Tvær falsanir af 900 ?

766301.jpg

Fyrr í ár var samþykkt þingsályktunartillaga um ráðstafanir gegn málverkafölsunum. Ég skrifaði skömmu áður lítillega um málið hér á Fornleifi.

Í fyrradag kom svo upp enn eitt fölsunarmálið. Forvörðurinn Ólafur Ingi Jónsson hafði frétt af tveimur málverkum eftir Svavar Guðnason á uppboði hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn. Hann taldi sig þegar sjá, að um falsanir væri að ræða. Hann sendi um það greinargerð eða eitthvað þvíumlíkt til embættis Ríkissaksóknara, sem svo glæsilega tókst að klúðra fyrri fölsunarmálum með lagatæknilegu rugli. En nú átti greinilega að sýna röggsemi svo embættið sendi lögreglunni í Kaupmannhöfn tafarlaust beiðni um að koma í veg fyrir sölu málverkanna, því þau voru talin fölsuð.

Að morgni þess dags sem uppboðið átti að vera hafði lögreglan í Kaupmannahöfn samband við uppboðsfyrirtækið sem tók myndirnar af skrá, allt fyrir orð sérfræðings sem aðeins hafði séð ljósmyndir af málverkunum en ekki skoðað þær hjá uppboðsfyrirtækinu eða rannsakað. Þess verður þó að geta, að danska lögreglan vildi ekki gefa Bruun Rasmussen upp, hverjir hefði kært í málinu og hver héldi því fram að málverkin væru fölsuð. 

_lafur_forvor_u.jpg
Ólafur Ingi Jónsson forvörður Listasafns Íslands.

 

Íslenskir fjölmiðlar hafa nokkrir greint frá málinu og út frá þeim fréttaflutningi má ætla að málverkin séu m.a. talin fölsuð, þar sem þau eru máluð með alkyd litum (akryl) og er því haldið fram í fjölmiðlum að slík málning hafi ekki verið framleidd fyrr en eftir dauða listamannsins, Svavars Guðnasonar (1934-1988).  Í fyrri málum hefur einnig verið haldið fram að undirskriftin, signatúrinn, sé ekki Svavars sjálfs og að myndirnar séu viðvaningslegar. Þar að auki var því fleygt fram í fjölmiðlum nú að málverkin sem síðast voru á uppboði Bruun Rasmussens væru líklega máluð eftir fyrirmyndum.

Málverkin keypt árið 1994

Af uppboðsgögnum, sem því miður voru dregin til baka, má sjá úr hvaða safni ein myndanna var. Það voru hjón á Jótlandi sem voru þekkt fyrir listaverkasafn sitt. Dönsk listasöfn höfðu haldið sér sýningar á hlutum þess safns.  Sonur þeirra erfði öll listaverkin að þeim látnum. Eins og einn sýnandi verka foreldra hans sagði, þá var hann dreginn með á sýningar og listasöfn allan sinn barndóm, settur á baksætið í bílnum með bunka af Andrés Andarblöðum, meðan foreldrarnir keyptu inn listaverk og þræddi öll listsöfn hins siðmenntaða heims með hann á aftursætinu. Hann selur nú þessi verk sem hann hefur engan persónulegan áhuga á.  

Ég hafði samband við K.O. son hjónanna og hann var undrandi að heyra að mynd hans hefði verið tekin af uppboðinu og að hún væri nú í vörslu lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Hann á kvittun fyrir kaupum málverkanna og voru þau keypt af foreldrum hans af galleríi í Grønnegade í Árósum 1994.

Vilhjálmur Bjarnason veit eitthvað sem Bruun Rasmussen veit ekki

Vilhjálmur Bjarnarson alþingismaður, einn þeirra sem setti fram þingsályktunartillöguna sem fyrr er nefnd, hélt því fram við RÚV í gær (24.9.2014) að honum væri "kunnugt um það að Bruun Rasmussen hafði vísbendingar um það áður að verkin væru fölsuð. Þannig að það var ósköp einfalt að leita þessara leiða. " Þetta bar ég í morgun undir Niels Raben hjá Bruun Rasmussen, sem sagði það af og frá. Hann hefði ekki vitað né haft neinar vísbendingar um að verkin væru hugsanlega fölsuð fyrr en hann fékk erindi frá Kaupmannahafnarlögreglunni, sem ekki vildi gefa upp hver á Íslandi kærði myndirnar sem falsanir.

Vilhjálmur Bjarnarson verður að skýra þessi orð sín, og nú er líklega komið að því að framkvæma aðrar "rannsóknir" en að dæma út frá ljósmyndum á vefsíðum. Það stenst einfaldlega ekki fræðilega og maður leyfir sér að lýsa furðu á vinnubrögðum Ríkissaksóknara, þó það sé greinilega komið í tísku af öðrum sökum.

Þáttur Ríkissaksóknara

Ég á mjög erfitt með að skilja, hvernig hægt er að fá Ríkissaksóknara að aðhafast nokkuð í máli nema að fyrir liggi einhvers konar rannsókn, t.d. ferð Ólafs Inga til Uppboðshúss Bruun Rasmussens í Bredgade í Kóngsins Kaupmannahöfn, þar sem hann hefð getað skoðað myndirnar gaumgæfilega. En það eru greinilega ekki venjulegar aðferðir Ólafs Inga eða stofnunar þeirrar sem hann vinnur fyrir. Eins má furðu sæta, að sú deild lögreglunnar í Kaupmannahöfn sem gerði verkin upptæk sl. þriðjudag hafi ekki viljað upplýsa hver hafi sett fram ákæru og á hvaða grundvelli. Þar með hefur danska lögreglan líklegast brotið dönsk lög segir mér lögfróður vinur minn.

Lesendur Fornleifs muna kannski eftir furðumyndunum 24 sem Ólafur Ingi sagði hollenskar og frá 17. öld. Þær voru nú ekki hollenskar og eru frá 18. öld og eru líklegast málaðar af Sæmundi Hólm, fyrsta Íslendingnum sem gekk á listaakademíu. Ólafur hélt meira að segja lærðan fyrirlestur á Listasafni Íslands um hollensku málverkin áður en ég sýndi fram á annað og meira, sjá hér og hér.

Enn er ég ekki búinn að sjá neinn rökstuðning frá Ólafi Inga Jónssyni fyrir yfirlýsingum hans um að 900 falsanir séu í umferð. Vissulega hafa verið falsanir í umferð á Íslandi, og dreg ég það ekki í vafa, en það gefur mönnum ekki "veiðileyfi" á listaverkasala og uppboðshús ef haldbærar sannanir liggja ekki fyrir. Enn hef ég ekki séð efnagreiningar eða lærðar greinar eftir Ólaf forvörð. Er ekki komin tími til fyrir Listasafn Íslands að gefa það út?  Er hægt að tjá sig um málverkafalsanir án þess? Er nóg að mæta með sjónvarpsmenn í gallerí, eins og Ólafur hefur gert í Reykjavík, og heimta að fá að rannsaka verk í beinni útsendingu. Hvað varð um hinn undirbyggða grun, svo ekki sé talað um grunninn?


Spurning á 400 ára fæðingarafmæli Hallgríms

hallgrimur_p2.jpg

Margrét Eggertsdóttir, einn helsti sérfræðingurinn á sviði starfs og lífs Hallgríms Péturssonar, hefur haldið því fram að það sé ekki að finna tangur né tetur af gyðingahatri í Passíusálmum hans. Hún hefur þó ekki sett fram nein haldbær rök fyrir því, utan að sveifla sérfræðingskortinu. Margrét er vitaskuld ekki gyðingur og leggur allt annað mat á illa orðræðu um gyðinga en gyðingar sjálfir, sem lesið hafa Passíusálmana og undrast það sem vel má kalla dýrkun þeirra og Hallgríms á Íslandi.

Hverjir aðrir en gyðingar hafa bestan skilning og dómgreind á því hvað gyðingahatur er? Þeir verða fyrir því hatri, og hafa orðið fyrir því síðan að frumkirkjan hóf að stunda skipuleg leiðindi og ofsóknir gegn þeim, ofsóknir sem leiddu til annars og verra og að lokum leiddi það af sér helförina og ofsóknir í garð Ísraelsríkis, sem til varð vegna afleiðinga hatursins í Evrópu og annars staðar.

Árið 2011 gagnrýndi Stofnun Símon Wiesenthals, SWC, dýrkun á Passíusálmunum á Íslandi, því stofnunin telur sálmana andgyðinglega. SWC freistaði þess að fá RÚV til að láta af árlegum lestri sálmanna. Margrét Eggertsdóttir sagði þá í raun rabbínum stofnunar Simon Wiesenthals, sem berjast gegn gyðingahatri, að þeir vissu ekki hvað gyðingahatur væri. Páll Magnússon útvarpsstjóri vitnaði í sérfræðiþekkingu hennar ákvörðun sinni til stuðnings. Passíusálmarnir verða lesnir um ókominn tíma á RÚV og eru jafnöruggur dagsskrárliður og hatur sumra fréttamanna RÚV í garð Ísraelsríkis. Á Íslandi vega orð Íslendinga meira en útlendinga og vitaskuld eru Íslendingar langtum meiri sérfræðingar í gyðingahatri en gyðingar. Þarf að spyrja að því?

En af hverju er þetta gyðingahatur í Passíusálmunum ekki að finna í þeim guðspjöllum sem  Hallgrímur orti upp úr, eða telur Margrét bara að gyðingahatur sé óþarfa hársæri?

Fornleifur og fjöldi manna sem lesið hafa Passíusálma Hallgríms Péturssonar telja þá innihalda svæsið, guðfræðileg gyðingahatur (Anti-judaisma) 17. aldar,  sem  bæði er tímaskekkja og smekkleysa, sér í lagi ef sálmarnir eru taldir uppbyggilegir og jafnvel mikil list sem á erindi til fólks á 21. öld. 

Til dæmis vekur það furðu manna erlendis, að dæmigert trúarlegt gyðingahatur 17. aldar, sem er mjög ríkt í Passíusálmunum, sé enn vinsælt og í hávegum haft á Íslandi á 21. öld. Menn undrast einnig að yfirlýstir guðleysingjar og trúleysingjar úr röðum íslenskra þingmanna og annarra stjórnmálamanna flykkjast í kirkjur fyrir páska til að lesa upp úr sálmunum (síðast hér). Helgislepjan er þá mikil, líkt og tvískinnungurinn. Þetta einkennilega trúaræði trúleysingjanna virðist reyndar vera bundið við Passíusálmana. Einhver fullnæging hlýtur að fylgja þessari fíkn yfirlýstra atheista eftir sálmalestri í kirkjum. Ég hef vitaskuld velt því fyrir mér, hvort það sé í raun gyðingahatrið í sálmunum um manninn sem þetta fólk trúir alls ekki á, sem gerir trúleysingja að sálmaáhugafólki?

Persónuleg lífsreynsla Hallgríms og gyðingahatur

Margrét Eggertsdóttir sagði um daginn við opnun nýrrar sýningar um Hallgrím á 400 ára afmælishátíð hans, að "persónuleg lífsreynsla Hallgríms skíni í gegnum margt af því sem hann hefur ort og gert."

Réttmæt þykir mér í því sambandi þessi spurning :

Hvaða lífsreynsla síra Hallgríms gerði það að verkum að hann er svo illur í orði gagnvart gyðingum, svo mikið að hvergi finnst annað eins í varðveittum trúarlegum kveðskap frá 17. öld?

Hér skal reynt að svara því:

Marteinn Lúther

Eins og allir vita ritaði Lúther, guðfræðingurinn með harðlífið, rætinn og sviksamlegan bækling um gyðinga  Von den Jüden und i[h]ren Lügen sem út kom árið 1543. Hann bætti um betur og gaf sama ár út ritið Vom Schem Hamphoras und vom Geschlecht Christi, sem skreytt var með myndum af gyðingum í miður siðlegum atlotum við gyltu (sjá neðar), sem var vel þekkt minni úr kaþólskri list.  Þrátt fyrir "siðbót" tók Lúther það versta upp úr kaþólskri "guðfræði".

Líkt og sumir Íslendingar hatast út í múslíma í dag og t.d. halal-slátrað kjöt þeirra, sagðist Lúther hafa borðað kosher mat, það er kjöt af gripum sem slátraðir voru schechíta (slátrað að hætti gyðinga), og hafa orðið illt af. Lúther taldi gyðinga hafa reynt að byrla sér eitur. Þau rit þar sem Lúther greindi frá þessu hatri sínu voru til í Kaupmannahöfn og hafa verið aðgengileg manni sem lærði til prests í Kaupmannahöfn. Þess ber einnig að geta að nasistar notuðust óspart við þessi rit Lúters sér til halds og gagns, og lúterska kirkjan hefur enn ekki beðist afsökunar á framferði sínu eins og t.d. sú kaþólska hefur verið að myndast við að gera. Í litlu lútersku landi á hjara veraldar þykir enn fínt að þylja andgyðinglega, lúterska sálma.

wittenberg_judensau_grafik.jpg

 

Sumir guðfræðingar lútersks siðar hafa afsakað þessi rit meistara síns með því að halda því fram að gyðingahatrið í Lúther hafi mest verið í nösunum á honum og hafi raun verið "hluti af stefnu hans gagnvart kaþólsku kirkjunni". Það er vitaskuld dómadags rugl. Bábiljan lifir sem sagt enn, og er varin af lúterskum trúfræðingum og líka kaþólskum. Þá er ekki að furða að menn dáist af Passíusálmunum, sem endurspegla andgyðinglega guðfræði Lúthers. En samt afneita "fræðimenn" og útvarpsstjóri Íslandi, og auðvitað Egill Helgason sá er allt veit, að það sé gyðingahatur í Passíusálmunum. 

Gyðingahatur Lúthers, sem þjóðkirkja Íslendinga kennir sig við, hefur með sönnu mótað gyðingahatrið í Passíusálmunum. Hið trúarlega gyðingahatur voru helstu fordómar Norðurevrópumanna á 17. öld. Undantekningu var þó að finna í hluta samfélagsins í Hollandi.

Gyðingahatur var ríkt á tímum Hallgríms

Er Hallgrímur dvaldi í Kaupmannahöfn gekk bylgja af gyðingahatri yfir Danaveldi, fyrst og fremst ættuð úr Þýskalandi. Gyðingahatur var þó engin ný bóla, heldur löng hefð úr kaþólskum sið, sem Lúterstrúarmenn létu ekki af og gagnrýndu ekki. Gyðingahatrið var eins og elexír fyrir kristna trú á þessum tíma. Lúterskir biskupar Danmörku vildu fyrir enga muni leyfa gyðingum að setjast að í Danmörku þegar það kom til tals. Gyðingar voru hins vegar afar fáir í Danaveldi og þeir sem til Kaupmannahafnar komu og ætluðu sér að vera þar eða að halda til Íslands, var skipað að taka kristna trú. Það gerðist t.d. árið 1620 er Daniel Salomon, fátækur gyðingur frá Pólandi var skírður í Dómkirkju Kaupmannahafnar að viðstöddu margmenni og konungi. Síðar, árið 1625, fékk hann 6 ríkisdali frá konungi til að halda til Íslands. Þá hét hann ekki lengur Daniel, heldur Jóhannes Salómon.

Glückstadt

En leiðum hugann að veru Hallgríms í Danaveldi. Sagan segir, að áður en Brynjólfur Jónsson (síðar biskup) kom Hallgrími til náms við Frúarskóla í Kaupmannahöfn, hafi Hallgrímur hugsanlega verið járnsmíðasveinn bænum Glückstadt í Suður-Slésvík (Ekki Lukkuborg eins og sést hefur í ritum íslenskra sérfræðinga um Hallgrím; Lukkuborg eða Glücksburg er allt annar staður en Glückstadt).

Brynjólfur mun hafa heyrt Hallgrím bölva húsbónda sínum á íslensku. Portúgalskir gyðingar voru þá farnir að setjast að í Glückstadt, bæ sem Kristján 4. stofnaði árið 1616. Hugsast gæti að Hallgrímur hafi verið í vist hjá gyðingakaupmönnum sem hann bölvaði, eða verið nágranni þeirra, t.d. Samuel Jachja, sem einnig kallaði sig Albert Dionis (einnig Anis eða Denis og jafnvel Jan Didrichs; Portúgalskir Gyðingar notuðu oft mörg mismunandi nöfn allt fram á 20. öld; Þessi nafnafjöldi var oft til þæginda og til að koma í veg fyrir gyðingahatur), sem þekktur var fyrir myntfölsun og þrælaverslun og var einmitt beðinn um að setjast að í Danaveldi vegna þess, Samuel Jachja og auður hans og sá auður sem beindi til Glückstadts byggði bæinn upp. Hins vegar gæti Hallgrímur allt eins hafa verið vinnumaður Danans Hans Nansen, guðhrædds lúthertrúarmanns, sem settur var yfir Íslandsverslunina, Islandske Kompagni, sem frá 1628 hafði sínar bækistöðvar í Glückstadt. Auður Íslands var einnig notaður til byggingar bæjarins. Nansen var hins vegar einn versti arðræninginn sem "verslað" hefur á Íslandi í einokuninni. Hann varð síðar borgarstjóri Kaupmannahafnar, vellauðugur af viðskiptum sínum á Íslandi. Albert Dionis (Anis, Denis, Didrichs) setti ásamt öðrum gyðingum í Glückstadt einnig fjármagn í Íslandsverslunina og lagði til skip þegar fáir sigldu til Íslands.

gavnoe_anti-semitism.jpg
Háðungsleg mynd af gyðingum að deila um ritninguna. Málverkið (olía á fjöl) hangir í höll Thott ættarinnar á Gavnø á Suður-Sjálandi og er greinilega frá síðari hluta 16. aldar og þýskt að dæma út frá textanum í bók sem gyðingarnir eru að bera saman við sinn Tanach (Nevi´im Aharonim) og stendur bókin opin við Jesaja 4:18 : Höret, ihr Tauben, und schauet her, ihr Blinden, daß ihr sehet!. Fjallað var fyrir nokkrum árum síðan um málverkið í tímaritinu Rambam sem ég var ritstjóri fyrir í nokkur ár. 

 

Tíðarandinn var andgyðinglegur trúarlega séð, þó svo að konungur byði gyðingum fríhöfn í Glückstadt. Í Danmörku var öðrum en Lútherstrúarmönnum bannað að búa eða setjast að. Vinátta og gestrisni Kristjáns 4. við gyðinga af portúgölskum uppruna, sem hann leyfði að setjast að i Glückstadt kom sömuleiðis aðeins til af því að konungur sá sér fjárhagslegan ávinning í því. Hallgrímur gæti hafa kynnst gyðingahatrinu í bænum Glückstadt (ef upplýsingarnar í þjóðsögunni um veru hans þar eru réttar) og hann gæti einnig hafa kynnst því meðal guðfræðinganna sem kenndu honum í Frúarskóla í Kaupmannahöfn.

Það var ekkert í lífi Hallgríms, sem við þekkjum sem réttlætt getur hatrið í píslarlýsingum hans. Þetta hatur finnst, eins og áður segir, alls ekki í nýja Testamentinu nema ef það er túlkað á hatursfullan hátt, líkt og öfgamúslímar hafa túlkað Kóraninn til að myrða með honum og aflima fólk. Sálmarnir eru því afurð þess tíma sem Hallgrímur lifði á. Ef menn telja þann tíma eiga listrænt og siðferðilegt erindi  við fólk á 21. öld, er kannski eitthvað mikið að í því landi sem slíkt gerist, eða hjá því fólki sem slíkt boðar. Þetta hatur var hluti af þeim tíma sem hann lifði á.

Passíubókmenntir 16. og 17. aldar

Fólk sem kallar sig sérfræðinga í lífi og verkum Hallgríms,  og sem segir lífsreynslu hans hafa mótað list hans verða að kynna sér líf hans og tíðarandann í Danmörku og Glückstadt betur. Þeir verða að þekkja guðfræðilegt hatur kennara hans við Frúarskóla og hatrið í ritum Lúthers, hatrið í ritinu Soliloquia de passione Jesu Christi , píslarsögu eftir þýska skáldið Martin Moller (1547-1606) sjá hér, (Soliloquia de passione Jesu Christi ) sem greinilega hafa haft mikil áhrif á Hallgrím og sem var það sama og í Passíusálmum hans. Píslarsagan eftir Martein Moller, sem reyndar er ekki lesin upp í útvarpi í Þýskalandi, var gefin út á íslensku fram á miðja 18. öld í þýðingum Arngríms lærða og einnig Péturs Einarssonar lögréttumanns. Greinilegt er að eftirspurn hafi verið eftir slíkri afurð meðal Íslendinga í trúarhita 17. og 18. aldar.

Önnur íslensk skáld, sem uppi voru á sama tíma og Hallgrímur, voru ekki ekki eins hatrömm í garð gyðinga og hann. Jón Þorsteinsson prestur í Vestmannaeyjum, sem var veginn í Tyrkjaráninu skrifaði t.d. og fékk prentaða Genesis-sálma á Hólum, þar sem ekki var að finna snefil af illyrðum um gyðinga. Það hlýtur að hafa verið eitthvað í lífsreynslu Hallgríms sem gerði hann örðuvísi en t.d. Jón Píslarvott í Eyjum.

Meðan Passíónsbók Marteins Mollers er að mestu gleymd og grafin í Þýskalandi eru Íslendingar, og jafnvel örgustu trúleysingjar á hinu háa Alþingi, á kafi í dýrkun Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Þegar menn gera sér grein fyrir því að Hallgrímur var ekkert öðruvísi en samtími hans, sjá þeir kannski hatrið sem skín út úr sálmum hans.

Það er frekar frumstætt hatur 16. og 17. aldar sem ekkert erindi á til okkar á 21. öld frekar en hatursrit Marteins Lúthers, safarík passíón Mollers eða þá Öfgaíslam. 


Fiskveiðimaskína Sæmundar Magnússonar Hólm

saemundur_fornleifur.jpg

 

Ekki alls fyrir löngu skrifaði ég um 24 olíumálverk frá Íslandi sem Þjóðminjasafninu áskotnaðist árið 1928 úr dánarbúi dansks baróns. Þau eru nú geymd í Listasafni Íslands. Myndirnar áttu að sýna ýmsa staði á Ísland, en sýna miklu heldur ímyndunarafl listamannsins sem málaði myndirnar. Ég tel nokkuð víst, að Sæmundur Hólm (1749-1821) hafi verið höfundur myndanna og að hanni hafi selt þær Otto Thott greifa. Færði ég fyrir því ýmis rök (sjá hér og hér).

Otto Thott greifi skildi eftir sig meira sem Sæmundur hafði gert og selt honum. Greifinn hefur ugglaust verið velunnari margra stúdenta á listaakademíunni í Kaupmannahöfn, en þar var Sæmundur fyrsti Íslendingurinn sem stundaði nám. Otto Thott var líka mikill bóka og handritasafnari og safnaði m.a. ritum upplýsingaaldar. Eftir hann liggur eitt merkilegasta safn pólitískra ritlinga á franska tungu, sem margir hverjir varðveittust í Danmörku en ekki í ringulreið byltingar í Frakklandi fallaxarinnar. Thott greifi var afar upplýstur maður. Hann safnaði sömuleiðis bókum og ritum um alls kyns atvinnubætur og nýjungar í anda upplýsingaaldarinnar. Hann unni sömuleiðis mjög myndlist og fornum fræðum, þó svo að hann hefði ekki hundsvit á þeim efnum. Í höll Thotts á Gavnø á Suður-Sjálandi hangir fjöldi málverka af þekktum persónum sögunnar. Myndirnar eru greinilega málaðar eftir prentmyndum og koparristum. Gæðin eru ekki mikil og það læðist að manni sá grunur að Thott greifi hafi látið mála þessar myndir fyrir sig á akademíunni. Vel get ég ímyndað mér að Sæmundir ætti þar einhver verkanna.

Machina Sæmundar Hólm

Sæmundi var meira til listanna lagt. Hann úthugsaði líka vélar, Machinu, til fisk og selveiða. Hann settist niður og handritaði lítinn ritling á kynvilltri dönsku og myndskreytti, þar sem hann lýsti tillögum sínum að veiðiaðferðum á fiski og selum sem honum hafði dottið í hug. Ritlinginn kallaði hann Nogle Tanker om Fiske og Laxe Fangsten.

Ég tel næsta víst að verkið Traité général des pesches, et histoire des poissons qu'elles fournissent  (Almennar frásögur af fiskveiðum, og saga af fiski þeim sem þær færa) hafi haft einhver áhrif á Sæmund. Höfundar verksins voru Henri-Louis Duhamel du Monceau (1700-1782), sem var einn af risum upplýsingaaldarinnar í Frakklandi, og Jean-Louis De La Marre. Byrjað var að gefa út ritið, sem var í þremur bindum, í París árið 1769. Hér er hægt að fletta verkinu góða.

silungar.jpg
Teikning af laxfiskum í bók  Duhamel du Monceau og de la Marre

 

Ugglaust hefur þetta verk verið til í einkabókasafni Thotts greifa, og einn þeirra 120.000 titla sem eftir hans dag voru seldir hinu Konunglega Bókasafnsins. Eins tel ég nokkuð öruggt að Sæmundur hafi komist í þetta verk og hugsanlega hjá greifanum. Það var ekki langt að ganga frá Listaakademíunni yfir í Kaupmannahallarslot Thotts, sem kallað var Det Thottske Palae, sem á okkar tímum hýsir franska sendiráðið í Danmörku. Svo tilgátusmíðum og vangaveltum sé haldið fjálglega áfram, þykir mér allt eins líklegt að Sæmundur hafi, líkt og íslendinga er siður, sniglast í kringum fyrirmenn og fengið að skoða og lesa í þessu merka franska verki um fiskveiðar og fiskirækt.

Ljóst þykir mér af öllu, að Sæmundur hafi verið okkar fyrsti Georg gírlaus, en greinilega var hann einnig haldinn vægum átisma. Hann gat ekki lært dönsku sér til gagns, og latína var ekki hans sterka hlið ef dæma skal út frá fleygum orðum á latínu á forsíðunni. En hann sá hins vegar smáatriði í eldgosum og úthugsaði vélar í smáatriðum til að efla veiðar. Ekki ætla ég að dæma um notagildi fiskivélar Sæmundar, en skemmtileg er hugmyndin.

tabula_vii_skarp_c.jpg
 
tab_iii_karlar_1245452.jpg
Hugmyndir Sæmundar Hólm
 
part_2_section_2_plate_17_b.jpg
Úr bók  Duhamel du Monceau og de la Marre 
 

Hvort Sæmundur hefur hugsað sér ritkorn sitt til útgáfu, er ekki hægt að segja til um með vissu, en það þykir mér þó líklegt. Greinilegt er út frá lýsingum á staðháttum að Sæmundur hefur haft íslenskt umhverfi í huga, enda hvergi neitt landslag í núverandi Danmörku sem líkist því sem hann lýsir í ritlingnum. Handritið komst í safn Háskólabókavarðarins, guð og sagnfræðingsins Abrahams Kall, sem var einnig mikill safnari í samtíð sinni. Safn hans var síðar selt Konunglega bókasafninu. Handritið með þönkum Sæmundar um fisk og laxveiðar fékk handritaeinkennisstafina Kall 628 b 4to.

Hér skal ráðin bót á þekkingarleysi Íslendinga á þessu framtaki Sæmundar Hólm. Fornleifur gefur hér með út lýsingu Sæmundar Magnússonar Hólm á fiskveiðimaskínu hans. Bókina er ekki hægt að kaupa.

Hér er hægt að lesa ritling Sæmundar Hólms Nogle Tanker om Fiske og Laxe Fangsten og hér má betur skoða myndir ritlingsins.

Hér er síðan hægt að lesa afritun mína af af textanum í ritlingnum með myndum Sæmundar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband