Færsluflokkur: Menning og listir

Stórnefjur í Amsturdammi

huge_nose_house_in_amsterdam_2.jpg

Fyrir réttu ári síðan heimsótti ég Holland í rúma tvo daga, m.a. til að skoða sýningu á Gemeendtemuseum í den Haag sem ég hafði lagt til upplýsingar og skrifað örlítið í risavaxna og glæsilega sýningarskrá fyrir sérsýningu. Ég heimsótti daginn áður Amsterdam til að ganga á fund prófessors Joost Schokkenbroeks sem m.a. er forstöðumaður rannsóknardeildar Siglingasögusafns Hollands, en einnig til að hitta Ninu Jaspers fornleifafræðing og sérfræðing í keramík sem ég skrifaði nokkrar línur með í sýningarskrána, sem hún var ein af aðalhöfundunum að. Ninu og prófessor Schokkenbroek hef ég fengið til að vera með í stóru verkefni sem nú er reynt að koma á laggirnar undir yfirstjórn dr. Ragnars Edvardssonar. Meira um það síðar, ef úr verður.

restaurant.jpg

Meðan ég beið eftir því að hitta Ninu og samstarfsmann hennar Sebaastian Ostkamp í litlu sérfræðifyrirtæki sem þau reka í miðborg Amsterdam, fór ég á elsta kínverska veitingastaðinn í Amsterdam, sem ég hef fyrir sið að fara á í hvert skipti sem ég er staddur í borginni. Hann er í dag kallaður Oriental City (sjá mynd hér til hægri). Mér var vísað til borðs við glugga á 2. hæð, þar sem ég hafði aldrei setið áður. Meðan að ég er að bíða eftir matnum, er mér litið yfir síkið (díkið/dijk) og sé léttklædda konu í glugga í húsi á hinum bakkanum. Þótt þessi kínverski staður sé ekki alllangt frá helstu rauðljósgötum Amsterdam, þá var konan í glugganum alveg örugglega ekki ein af þessum léttklæddu portkonum eða dækjum sem baða sig rauðu ljósi til að auglýsa kjöt sitt við díkin (síkin). Hún bjó nefnilega á þriðju hæð. Konan sem ég sá í glugganum var greininga heiðvirð, ung kona sem var nýkomin úr baði.

huge_nose_house_in_amsterdam_1254311.jpg

Ég leit því blygðunarlega undan ofan í matinn sem kominn var á borðið. Hann bragðaðist vel að vanda. En vitaskuld leit maður aftur yfir síkið til að gæta að því, hvort konan væri nokkuð í hættu. Ástríðglæpur, Rear window ... þið vitið hvað ég er að fara. Þannig var því sem betur fer ekki háttað. Engar blóðslettur voru sjáanlegur.

En þá tók ég eftir öðru efst á gafli hússins sem unga, léttklædda konan bjó í. Þar er mikið skjaldamerki, sem mér þótti áhugavert. Þar sem unga, allsbera konan var löngu farin úr glugganum, tók ég upp myndavél mína, Pentax Optio E80 vasamyndavél, og með aðdrætti ríkulegum sá ég betur þetta einstaka skjaldamerki. Á því sjást þrír mjög stórnefjaðir menn og stytta, brjóstmynd af stórnef einum, er efst á mæninum.

Um daginn var ég að skoða myndir ársins 2014 og staldraði aðeins við skjöldinn á húsi nöktu konunnar sem stendur á Oudezijds Voorburgwal númer 232. Eftir örlitla leit á vefnum fann ég skýringuna þessu skjaldamerki. Árið 1625 byggði Pieter nokkur Parys þetta hús, en í byrjun 18. aldar bjó kaupmaðurinn Jan-Frederik Mamouchette (Mamouchet) og spúsa hans Catherina van Heusden í húsinu og settu á það nýjan gafl. Þessi skjöldur á að tákna tengsl ætta þeirra hjónanna.

mamouchette_1254316.jpg

Margar kenningar hafa verið settar fram um "Húsið með stóru nefin" eins og húsið er kallað í daglegu tali. Sumir segja stórnefirnir séu vísun í eftirnafnið Mamouchette, það er "ma mouchette" - stóra trýnið mitt. Það þykir mér sjálfum ólíkleg skýring. Aðrir benda á að myndin sýni múslíma eða Saracena, en Mamouchette verslaði einmitt fyrir botni Miðjarðarhafs. Mouchette getur einnig þýtt neftóbaksdós eða sá sem tekur í nefið en sá siður ruddi sér til rúms í byrjun 17. aldar (Sjá hér). Þá eru þetta kannski bara neftóbakskarlar. Hver veit? Líka má ímynda sér að þetta séu gyðingar, en stór nef hafa löngum loðað við þá, segja fróðir menn.

Kannski veit nakta konan í húsinu eitthvað meira. Hér kemur svo myndin af henni. ........

........

Æi nú, hún reyndist ekki alveg í fókus. Ég spyr hana um sögu hússins þegar ég er næst í Amsturdammi. Vona ég að hún stökkvi ekki upp á ættarnefið, en sannast sagna tók ég ekkert eftir nefinu á henni. Svona í bakspeglinum minnir mig að hún hafi verið snoppufríð stúlkan sú. En þegar maður er bara með Pentax Optio E80 í vasanum, er ekki hægt að búast við góðu minni og smáatriðum.

_gugavert.jpg


Meira um Gunnar Gunnarsson í Þýskalandi

reichenber_a_lille_bb_1254254.jpg

Ekki á eg einungis í fórum mínum gamlar (nasista)myndir af Gunnari Gunnarssyni hjá Hitler og að halda fyrirlestra á nasistasamkomum i Þýskalandi. Það eru myndir sem sumir menn þola víst ekki að sjá.

Ég á líka rituð gögn í fórum mínu, sem þeir sem hafa hreinsað nasismastimpilinn af Gunnari hafa ekki haft rænu eða jafnvel vitsmuni til að finna er þeir skrifuðu stórverk sín um skáldið eða gáfu honum syndaaflausnarvottorð sín.

gunnar_koenigsberg_1_a_lille_1254233.jpg

Dönsk yfirvöld höfðu miklar áhyggjur af samskiptum Gunnars við Þriðja ríkið og var fylgst grannt með honum. Konsúlar sendu upplýsingar um ferðir Gunnars í Þýskalandi til sendiráðsins í Berlín og utanríkisráðuneytisins í Kaupmannahöfn.

Herluf Zahle sendiherra Dana í Berlín, sem ekki kallaði allt ömmu sína í samskiptum við nasista, var þó ekki hrifinn af fyrirlestrum Gunnars hjá Nordische Gesellshaft í ársbyrjun 1940. Þó Zahle hafi oft verið ásakaður um veikgeðja afstöðu til nasista, þá var hann alfarið á móti gyðingahatri þeirra - svona oftast.

Vegna þess vildi hann ekki heiðra Gunnar Gunnarsson, fimmtudaginn 1. febrúar 1940, þegar Gunnar hélt fyrirlestur í Berlín. Hann tók fram í bréfi til Utanríkisráðuneytisins í Kaupmannahöfn, að hann myndi ekki mæta á fyrirlestur Gunnars, vegna þeirrar stjórnmálalegu starfsemi sem Nordische Gesellschaft var farin að sýna í ritum sínum. Þetta ætlaði hann að tilkynna Gunnari við hádegisverð í sendiráðinu áður en Gunnar átti að halda fyrirlesturinn.

Zahle skrifaði:

     Herved tillader jeg mig at indberette, at den islandske Digter Gunnar Gunnarsson í Morgen Torsdag paa Foranstaltning af Nordische Gesellschaft holder Oplæsning her i Berlin og derefter vistnok i en Række tyske Byer. Jeg giver ikke personligt Møde for paa denne Maade overfor Nordische Gesellschaft at antyde, at jeg ikke er indforstaaet med den politiske Virksomhed, det i den senere Tid har indaugureret i sine Tryksager, Gesandtskabet vil blive repræsenteret af en af sine Medarbejdere. Jeg skal forklare Hr. Gunnarsson, der spiser Lunch paa Gesandtskabet i Morgen, dette.  (Sjá frumheimild hér).

zahle_um_gunnar.jpg

Gunnar hélt ótrauður áfram fyrirlestrarferð sinni og heimsótti loks Hitler í óþökk Dana. Þó Danir vildu heldur ekki gyðinga, líkt og Hermann Jónasson og Co, vildu þeir ekki umgangast gyðingahatara. Það gerði Gunnar. Hann var í félagsskap þeirra í samtökum sem Himmler og Alfred Rosenberg vernduðu. Svo segja menn að hann hafi ekki verið nasisti, heldur saklaus sauðbóndi uppi á Íslandi og að menn þurfi að drepa til að kallast nasistar.

Mikla furðu mína vekur sú aðferðafræði sumra íslenskra ævisöguritara Gunnars, að taka barnabörn og jafnvel barnabarnabörn hans gild sem heimildamenn um forföður þeirra, en sneiða síðan hjá samtímaheimildum.

Barnabarnabarn Gunnars hefur t.d. upplýst að afi hans hafi verið í danska heimavarnarliðinu. Það er út í hött. Hann (Gunnar Björn Gunnarsson) hefur einnig haldið því fram að Hitler hafi æst sig við Gunnar á fundi þeirra vegna meintra ummæla Gunnars um Finnland. En hvað sagði Gunnar sjálfur?. Í Fálkanum var föstudaginn 19. apríl 1940  viðtalsgrein við Gunnar um Þýskalandsför hans:

Nú fer jeg að fara í kringum það við Gunnar, að marga langi til að forvitnast eitthvað um fundi hans og Hitlers ríkiskanslara.

Gunnar brosir við.

- Jæja, einmitt það. Annars hefi jeg svo sem ekki margt að segja um það.gunnar_gunnarsson_meets_hitler_detail.jpg

- Þið hafið væntanlega eitthvað minnst á íslensk efni.

- Já, meðan annars sagði jeg Hitler frá því, að nú væru 37 ár liðin síðan íslenskur bóndi bar fram á Alþingi frumvarp um þegnskylduvinnu. En ekki var Hitler kunnugt um það. Kvaðst hann hafa fengið ýmsar hugmyndir að þýsku þegnskyldunni frá Búlgaríu.

- Hefir Hitler ekki mikinn persónulegan kraft til að bera, eða sýndist yður hann vera þreytulegur?

-Kringum slíka menn er auðvitað aflsvið. - Nei hann sýndist ekki vera þreyttur. En hann sagðist ekki hafa búist við stríði. Hefði hann verið byrjaður á mörgum stórvirkjum víðsvegar um landið, en nú yrði þau að bíða vegna ófriðarins. Hitler sagðist í raun rjettri ekki mega vera að því að standa í stríð, hann væri orðinn fimmtugur og hefði nógum öðrum störfum að sinna." (Sjá hér)

Gunnar var sem sagt nasisti. Það er enginn ástæða að fara ofan af þeirri skoðun minni og það er sæmd að láta ritskoða sig af glansmyndasöfnurunum á fasbókinni Gamlar Ljósmyndir fyrir að vera á þeirri skoðun. Gunnar vildi ræða um þrælslund sumra Íslendinga og þegnskylduvinnuhugmyndir Hermanns Jónassonar frá Þingeyrum, sem aldrei urðu að neinu eftir að Páll J. Árdal (1857-1930) orti svo glæsilega, og hjálpaði vísa hans í þjóðaratkvæðagreiðslu um máli árið 1916. Hitler sótti hugmyndir um þegnskylduvinnu til Búlgaríu en Gunnar var greinilega hallur undir slíkar fasískar hugmyndir:

Ó, hve margur yrði sæll
og elska mundi landið heitt,
mætti hann vera í mánuð þræll
og moka skít fyrir ekki neitt.

.


Gamlar Ljósmyndir: Konungssýningin 1921

konungssyningin_fyrir_fornleif.jpg

Því miður var maðurinn sem hefur höndina inni í fingrabrúðunni Fornleifi, settur út af sakramentinu á smettiskruddubók "Gamalla Ljósmynda", því hann birti "ljótar" myndir af Gunnari Gunnarssyni í nasistastellingum. Gunnar er sumum Íslendingum eins og Múhameð spámaður er flestum múslímum. Höfuð fljúga ef maður leyfir sér að birta myndir af Gunnari eins og hann var. Gömlum ljósmyndum er sýnilega stjórnað af einhverjum gömlum DDR-kommum eða framsóknardraugum sem þykjast vera kratar.

Frá Konungskomunni 1926

konungskoman_1921.jpg

Áður en mér var mjög ódrenglega varpað út af glansmyndafeisbókinni Gamlar Ljósmyndir, sem er undir stjórn Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings og kynlegra kvista Þormars ættarinnar, sem seldi Gunnari Gunnarssyni Skriðuklaustur, leitaði ég þar upplýsinga um kvikmynd Bíó-Petersens og Magnúsar Ólafssonar, sem þeir tóku við konungskomuna árið 1921.

Mig langar mjög að sjá kvikmyndina, til að athuga hvort ég gæti séð afa minn sýna fimi sína fyrir konung og frítt föruneyti hans. Afi minn var í fimleikaflokki ÍR sem gerði æfingar við Konungssýninguna árið 1921.

1921_konungssyningin_2_1254174.jpg

Afi stökk yfir hest og sýndi listilegar sveiflur á tvíslá. Fyrir það fékk hann medalíu sem afi gaf mér þegar ég var um það bil 12 ára gamall. Medalían hafði verið útbúin úr dönskum silfurpening frá 1916. Á myndinni efst er fimleikahópur ÍR og afi, Vilhelm Kristinsson er sá lágvaxni og sæti, 4. frá vinstri í efri röðinni.

vilhelm_afi_vilhjalms.jpg

Afi varð síðar einn elsti kratinn á Íslandi og keypti manna lengst bleðil þann sem bar nafnið Alþýðublaðið. Honum leist ekkert á þá krata sem komu fram á sjónarsviðið eftir Eið Guðnason. Hálfsystur hans, Sigríði Jensen í Kaupmannhöfn, tókst einnig það afrek að verða krati lengst allra í Danmörku. Kratar í Danmörku urðu ekki gamlir, því þeir reyktu allir. Tante Sigga, eins og Sigríður frænka var kölluð í fjölskyldunni á Íslandi, varð hins vegar 102 ára, ef ég man rétt. Ég og kona mín heimsóttum hana stuttu eftir 100 ára afmælið. Kratar í Danmörku böðuðu hana blómum, svo hún gat vart verið í litlu íbúðinni sinni í Gladsaxe. Mektarmenn á við Anker Jørgensen heimsóttu hana á afmælisdaginn, sem tók tvo daga.

Ef einhver getur útvegað mér kvikmynd Bíó-Petersens og Magnúsar Ólafssonar, eða hefur vitneskju um ljósmyndir frá Konungssýningunni árið 1921, þá þætti mér vænt um að heyra frá ykkur.

Morgunblaðið fjallaði um komuna og upplýsir að fimleikasýningin hafi farið fram á íþróttavellinum (Melavellinum).


Út skulu þeir...

sendira_i.jpg

Margumtöluð kynþáttahyggja/útlendingahræðsla Framsóknar-flokksins á sér dálitla sögu, þótt hún sé líkast til ekki samhangandi:

Í nóvember 1938 skrifaði ríkisstjórn Hermanns Jónassonar til sendifulltrúa Íslands í Kaupmannahöfn, Sveins Björnssonar, og ítrekaði fyrri yfirlýsingar sínar: "Ríkisstjórnin principielt mótfallin að veita þýzkum Gyðingum dvalarleyfi Íslandi."

Hermann Jónasson hafði áður, í nóvember 1937, skýrt þetta út fyrir sendifulltrúa í sendiráði Dana í Reykjavík, C.A.C. Brun: "Island har altid før været et rent og nordisk Land, frit for Jøder, og de der er kommet ind de sidste Aar skal ud igen". Þessi ljósmynd var tekin í sendiráðinu við Hverfisgötu sama kvöldið og Hermann Jónasson (Framsókn) lýsti þessu yfir.

Lesið meira í bók minni Medaljens Bagside. Á vefsíðu forlagsins Vandkunsten er pdf-skrá með kaflanum sem segir frá afrekum Hermanns Jónassonar


Forvarsla með lími

ok---tutankhamun-1.jpg

Kaíró er nú aftur í heimsfréttunum. Nú er það ekki blóði drifið vor og bræðralag friðsamra manna sem angrar þá, heldur skeggið á Tút.

Skeggið fléttaða á helgrímu Tutankhamuns féll af við hreingerningar og var það límt á aftur. Í stað fínna aðferða forvarða á lokuðu verkstæði, sóttu menn bifvélavirkjann Abdalla sem er meistari í boddýmeiki. Forvörður safnsins var nýlega orðinn embættismaður og mátti ekki veraaðessu, því hún var að vinna að áætlun um að byggja yfir pýramídana. Bifvélavirkinn límdi skeggið á með epoxýlími. Dýrt var vitaskuld að fá iðnaðarmann til að redda þessu, en það heldur.

Svo vel vildi til að túrhestur, Jaqueline Rodriques að nafni, tók ljósmynd af þessari björgunaraðgerð á einum frægasta forngrip Egyptalands. Einnig má nú sjá merki um þessa forvörslu, því límslettur og rispur eru greinilegar.

Þessi aðgerð minnir mig á sögu af Listasafni Íslands, sem ratað hefur í annálana, en því miður eru ekki til myndir af þeim atburði:

Sigga gamla sá um hreingerningar á Listasafninu þegar það var á efstu hæð Þjóðminjasafnsins. Eitt sinn sveiflaði hún sópnum svo harkalega að hann slóst í typpið á styttu Ásmundar Sveinssonar sem kallast Nakinn Maður. Typpið brotnaði af. Sigga varð miður sín og nú voru góð ráð dýr. Sigga sótti túbu af UHUi og límdi typpið aftur á. Daginn eftir kom Kristján Eldjárn til starfa og sá sér til mikillar furðu, að eitthvað var snúið á styttunni sem stóð ekki langt frá dyrum að skrifstofu hans. Typpið var nú með reisn en hafði lafað þegar Ásmundur hjó það. Kristján og Selma listasafnsvörður kölluðu Siggu til sín á fund og spurðu hana, hvort hún kannaðist eitthvað við þetta. Hún viðurkenndi slysið og viðgerðina. Þá spurðu Eldjárn: "En Sigríður mín, af hverju límdir þú þetta svona?" Sigga svaraði: "Hvernig á það að vera öðruvísi en svona?Mörg typpi hef ég séð um ævina, og þannig voru þau öll".

Sigríður var sómakær kona, og það eru þessar nunnur líka:


Landnámskonur Íslands voru ekki kynlífsþrælar frá Bretlandseyjum!

dyflinarvitleysan.jpg

Nýjar rannsóknir Eriku Hagelberg prófessors í Osló og samstarfshóps hennar sýna greinilega, að íslenskar landnámskonur voru ekki sóttar af norskum körlum til Bretlandseyja, gagnstætt því sem DNA rannsóknir á vegum Íslenskrar Erfðagreiningar (deCODE) hafa talið okkur trú um í 14 ár (sjá hér). 

Hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var leit af þjóðar- og /þjóðernisímynd, sem féll að kröfunni um fullveldi og sambandsslit frá Danmörku. Hinn íslenski "Kelti" varð þess vegna til á 20. öld sem hluti af þjóðarbyggingu (nation building) Íslendinga. Sumir fundu hjá sér þörf til að skapa þjóðarímynd og þjóðerni sem var allur öðruvísi en það sem maður sá í Skandínavíu, og sér í lagi Danmörku. Þannig var leitað til frásagna af írskum konungaafkomendum í Íslendingasögum og öðrum heimildum. Í stað norrænna konunga var nú reynt að skýra nýfundin séreinkenni Íslendinga með áhrifum frá landnámsmönnum af göfugum ættum sem jafnvel voru konungabörn frá Írlandi, þótt þeir hefðu komið sem þrælar og ambáttir til Íslands.

heim_til_dublin_1252228.jpg

Árið 1993 buðu Samvinnuferðir-Landsýn Íslendingum heim til Dublin.

Með uppblómstrun þjóðrembulíkamsmannfræði 20. aldar jókst þessi áhugi til muna. Vantrúaðri menn kölluðu þetta Kelta- eða Írafár. Þeir sem töldu sig hafa séð ljósið hófu dauðaleit að hinum íslenska Kelta. Blóðflokkafræðin reyndist í árdaga geta bent til uppruna Íslendinga á Bretlandseyjum, frekar en í Skandínavíu. Allar slíkar vangaveltur voru loks skotnar niður. Það varð mörgum manninum erfitt að kyngja, og áfram héldu þeir hörðustu að leita "keltneskra", gelískra og írskra áhrifa frá Bretlandseyjum í fornbókmenntum okkar. Mestur hluti slíkra fræða var raus og langsóttur andskoti. Gætu minni í frásögnum, nöfn og annað vera áhrif sem alveg eins gætu hafa borist til landsins á tólftu öld frekar en á þeirri tíundu.

Sumir rauðhærðir menn á Íslandi töldu sig vera ekta "Kelta", þótt rauða hárið á Írlandi og í Skotlandi sé óalgengara en t.d. á Jótlandi og Noregi, og hefur að öllum líkindum að ákveðnu marki skilið eftir sig lit á Bretlandseyjum vegna veru norrænna manna þar á síðasta hluta Járnaldar. Rautt hár er reyndar ekki bara erfðaþáttur. En rauða hárið tóku menn mjög alvarlega. Einstaka menn snerust til kaþólskrar trúar vegna litarhafts síns og nýfundins skyldleika við írska konunga. Eitt sinn heyrði ég frásögn af íslenskum lækni, sem lifði sig svo innilega inn í gelískt eðli sitt að hann réðst á búfræðing og líffræðing á veitingastað í Reykjavík, vegna þess eins að líffræðingurinn hafði leyft sér í grein að benda á að val gæti hafa orðið í blóðflokkakerfinu ABO á Íslandi í tengslum við farsóttir, þannig að O blóðflokkurinn, sem lengi var tengdur "keltakenningum", hafi orðið algengur, þar sem fólk með A og AB blóðflokka dó frekar í ákveðnum farsóttum sem herjuðu á Íslandi. "Írski" Íslendingurinn var á síðasta áratug 20. aldar nærri því að syngja sitt síðasta vers.

En þá kom Kári O'Clone Stefánsson og deCODE til sögunnar. Ein af þessu ósögulegum staðreyndum. Þó svo að greindustu líffræðingar Íslands væru í upphafi margir mjög gagnrýnir á Íslenska Erfðagreiningu, þá lokkaði fjármagn, frægð sem meðhöfundaréttur að innihaldslausum greinum suma unga menn og lélega tölfræðinga inn í hirð Kára Stefánssonar. Einn þeirra var Agnar Helgason. Ég kynntist Agnari lítillega árið 1998 þegar við sóttum báðir mannfræðiráðstefnu í Kaupmannahöfn og héldum þar báðir erindi, og var hann ekki svo lítið gagnrýninn á keltafárið í íslenskum mannfræðirannsóknum. Skömmu síðar (2001) birti hann hins vegar, ásamt öðrum, greinar þar sem niðurstaða samanburðarrannsóknar á erfðamengi núlifandi Íslendinga var borðið saman við þær upplýsingar sem menn höfðu safnað annars staðar.

"Iceland goes Mitochondrial"

Það voru sér í lagi niðurstöður á hvatberum (mitókondríum) Íslendinga, sem vöktu athygli. Agnar Helgason og Kári Stefánsson, sem eru báðir menn afar norrænir að útliti og atgervi, svo notuð séu fornar og ófræðilegar skilgreiningar, töldu nú víst, að flestar konur sem komu til Íslands í öndverðu hefðu verið ættaðar frá Bretlandseyjum og hefðu ekki á neinn hátt verið skyldar "norskum" mönnum sínum. Með öðrum orðum sagt, áttum við nú að trúa því að kynhungraðir norskir karlar hefðu allir sem einn brugðið sér í einhvers konar kynlífsferð til Bretlandseyja til að ná sér í konur, sem þeir drógu svo með sér til Íslands, stundum sem ambáttir en einnig af eigin og frjálsum vilja. Síðan hófu þeir að framleiða Íslendinga.

Með þessari kenningu Agnars Helgasonar um kynlífstúrismann innbyggðan í hið heilaga Landnám, fundu menn sem voru haldnir miklu keltafári til endurreisnar. Ferðir til Dyflinnar og Glasgow færðust aftur í aukana. Á sumum varð hárið aftur rautt og menn fóru að spila keltneska tónlist á öldurhúsum Reykjavíkur. Lopapeysuvíkingar urðu nú æ óvinsælli og þegar Jón Páll sprakk undir lóðunum var The Icelandic Viking, risavaxinn, misloðinn og skyldleikaræktaður maður með offituvandamál, nærri bráðkvaddur þar sem hann var upphaflega skapaður: Á auglýsingastofunum í Reykjavík. Íslendingar brugðu sér nú á Hálandaleikana og í á Keflavíkurflugvelli heyrði mann stundum ölóða íslendingar segja frændum sínum á Bretlandseyjum frá þessum örugga skyldleika sem nú hefði verið staðfestur í rannsóknarstofum eins af "óskabörnum" íslensku þjóðarinnar. Keltnesk mynstur sáust nú á lopapeysum. Menn töluðu um að nú væri kominn tími til að hætta við alla skandínavískukennslu í skólum og hefja kennslu í River dance og haggisgerð í staðinn.

Niðurstaða Agnars og teymis hans hefur vakið mikla athygli á Íslandi sem og erlendis. DeCode gat selt sig með þessari niðurstöðu og sjónvarpsefni frá Skandinavíu hvarf að mestu hjá RÚV. Hinn íslenski Kelti varð staðreynd. Allir töldu sig vita betur en t.d. þessi fornleifafræðingur, sem reyndi að benda mönnum á að ekkert í fornleifafræðinni eða hefðbundinni líkamsmannfræði gæti bent til þess sem Agnar og félagar hans héldu fram. DNA var framtíðin og það lá stundum við að menn héldu því að hin nýja, fagra veröld væri komin. Prófessor Gísli Pálson afreiddi alla aðra líkamsmannfræði nema DNA, sem nasisma.

Örfáir einstaklingar drógu eindregna niðurstöðu Agnars mjög í vafa og menn spurðu sig mjög hvert gott samanburðarefni Agnars var. Nær engar rannsóknir á erfðaefni einstaklinga frá þeim tíma sem landnámið átti sér stað var notað til samanburðar við hvatberana í frumum núlifandi Íslendinga.

Erika Hagelberg kemur til sögunnar

Nú er komin ný rannsókn, sem bráðvantaði, þegar kenningunni um keltnesku kynlífsþræla norsku víkinganna var fyrst sett fram. Prófessor Erika Hagelberg í Osló, sem mig minnir að hafi alist upp á Kúbu, hefur ásamt samstarfsfólki sínu rannsakað erfðaefni í beinum einstaklinga í gröfum í Noregi frá síðari hluta járnaldar og víkingaöld (söguöld). Með stærra samanburðarefni en Agnar hafði ásamt niðurstöðum hans, sem hann hefur látið í té, er nú ljóst að tilgátan eða réttara sagt alhæfingin um mikinn fjölda kvenna frá Bretlandseyjum meðal landnámsmann á Íslandi er fallin. Erika Hagelberg kom eitt sinn á ráðstefnu í Reykjavík sem Tannlæknafélagið bauð til, þar sem ég hélt einnig erindi. Það var árið 1995, löngu áður en Agnar var farinn að vinna með DNA. Þá varaði Hagelberg einmitt við ofurtrú á DNA rannsóknum og greindi frá hættum við mengun sýna af fornu DNA.

Með tilkomu rannsóknar Eriku Hagelbergs eru Landnáma og aðrar elstu ritheimildir okkar aftur orðnar áhugaverðar heimildir, skoði maður upplýsingar um uppruna landnámsmanna í þeim tölfræðilega. Það er auðvita ekki eina aðferðin frekar en DNA rannsóknir.

Niðurstöður Eriku Hagelberg (lesið einnig um þær hér í alþýðlegri skýringu) koma einnig mátulega heim og saman við niðurstöður Dr. Hans Christian Petersens, sem i samvinnu við mig rannsakaði og mældi elstu mannabeinin á Íslandi sem varðveitt eru á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér og hér). Mælingar á hlutföllum útlimabeina elstu Íslendinganna sýna í samanburði við mælingar á öðrum þjóðum frá þessum tímum, að landnámsmenn voru fyrst og fremst frá Noregi. 10-15% voru frá Bretlandseyjum og um það 10-15% voru að einhverju leyti og á stundum mjög svipaðir Sömum, frumbyggjum Skandinavíu.

Það ber að fagna rannsóknum Eriku Hagelberg og samstarfsmanna hennar. Þær er gott dæmi um hve skjótt veður geta skipast í lofti í erfðavísindunum. Aðalvandi þessarar greinar hefur lengi verið að menn hafa slegið of stórmannlega út tilgátum miðað við hvað litlar upplýsingar, lélega tölfræði og magurt samanburðarefni þeir höfðu undir höndum.

Nú þegar grein Agnars hefur verið gjaldfelld, og raðgreiningar hans orðnar lítils virði, er hinn káti íslenski Kelti á ný mestmegnis ímyndunarveiki misrauðhærðra manna og þeirra sem sem hafa gaman af að hlusta á Dubliners og að drekka Guinness á krá, kalla börnin sín Melkorku, Brján, Patrek eða Brendan eða eru í Whiskeyklúbbi og "draga" í keltapilsi (Kilti) án nærfata og horfa síðan á gamla skoska sjónvarpsþætti með Taggart þar sem hann tautaði í sífellu "mudder". En mikið er ég viss um, að mestur hluti slíkra Brjána og Helga Keltasona séu í raun afturhaldssamir Norðmenn innst inni við beinið.

melkorka-litil.jpg

Melkorka In Memoriam: Þannig sjá sumir Íslendingar hina konunglegu ambátt, Melkorku, sem nefnd er í Laxdælu. Mér finnst þessi vaxmynd af henni líkust norskri freyju með plokkaðar augnabrýr á botoxi. Flestar írskar konur eru dökkhærðar, jafnvel svarthærðar og grána fyrir þrítugt. Ég hef alltaf haldið að þær sem væru ljóshærðar og rauðhærðar á Írlandi væru afkomendur norrænna manna sem settust að á Írlandi. En hin rauðhærða stereótypa er vinsæl. Það er skrýtið þetta ör sem maður sér á hálsi Vax-Melkorku. Var hún viðbeinsbrotin blessunin, eða er þetta merki eftir kynlífsok norrænna fauta?

Ég er margoft búinn að lýsa gagnrýni skoðun minni og vantrú minni á tilgátu Agnars Helgasonar um kvenlegginn á Íslandi hér á Fornleifi. Síðast gerði ég það hér í nýlegri og forlangri grein sem var hörð gagnrýni á yfirreið Gísla Pálssonar félagsmannfræðings um ranghala íslenskrar líkamsmannfræði. Gísli hélt því ranglega og afar óheiðarlega fram, að íslensk líkamsmannfræði á 20. öld væri eins og hún lagði sig aukaafurð nasismans (þjóðernisstefnu). Það er einfaldlega ekki rétt. Hinn íslenski Kelti og DNA rannsóknirnar nútímans, þar sem menn álykta stórt án samanburðarefnis, er miklu frekar afurð öfgaþjóðernishyggju, ef nokkuð er.

Agnar Helgason, sem einnig hefur verið nemandi og samstarfsmaður Gísla Pálssonar, verður nú að skýra fyrir Íslendingum þann mun sem er á niðurstöðu hans og Eriku Hagelbergs. Það er mikill munur á, en vitaskuld er ekki við Agnar einn að sakast, þegar hann fór að telja öllum trú um að hinar fögru íslensku konur væru gelískar gellur. Hann vinnur með unga fræðigrein sem þróast mjög hratt og rannsókn og samanburður hans er barn síns tíma. Hann hafði svo að segja ekkert bitastætt samanburðarefni við rannsókn sína á nútímaíslending. Erfðaefni nútímaþjóðar er heldur ekki það besta til að rannsaka uppruna þjóða. Erfðaefni úr beinum frá fyrri tímum verður að rannsaka til að fá rétta mynd. Rannsókn Hagelbergs er örugglega heldur ekki það síðasta sem sagt verður um samsetningu landnámsmanna, en hún er skref í rétta átt.

paske_ya-hagelberg200_1252235.jpg

Hér má hlusta á Eriku Hagelberg flytja áhugaverðan fyrirlestur um þróun rannsókna á fornu DNA. Fyrir rúmum áratug varð Erika enn og aftur fræg sem konan sem sökkti Kon-Tiki. Hún sýndi með rannsókn á erfðaefni fram á að tilgátur Thors Heyerdals um uppruna fólks í Suður-Ameríku og á Páskaeyjum, ættu ekki við rök að styðjast.

Kristján Eldjárn hafði mikla óbeit á Kelta- og Írafári sumra Íslendinga. Hann hefði orðið ánægður að heyra um niðurstöður Hagelbergs og samstarfsmanna hennar. Eldjárn var mikill andstæðingur Íra- og Keltafársins meðal sumra manna á Íslandi, enda sá hann vitanlega að fornleifar studdu ekkert slíka þanka og tilgátur.  Brekán, grjúpán, Kjaran og Brekkan og önnur orð með "gelískar" rætur gætu hæglega hafa komið með þrælum sem Íslendingar náðu sér í á þrælamörkuðum Dyflinnar. Þeir einstaklingar sem þar fengust skýra hugsanlega ýmsa þætti sem má sjá í erfðamengi Íslendinga og við mælingar hlutfalla í útlimabeinum manna. Þeir þættir eru þó ekki nægilega afgerandi til þess að halda því fram að formæður Íslendinga hafi verið írskar og skoskar lassies. Það var tálsýn.
sassy_lassie_adult_costume.jpg

Good bye you sassy, Icelandic Landnam-Lassie


Rennur ítalskt blóð í æðum Grýlu?

la-befana_1251339.jpg

Hún er sig svo ófríð
að höfuðin ber hún þrjú,
þó er ekkert minna
en á miðaldra kú.

Þó svo að Grýla okkar hafi aldrei verið rómuð fyrir andlegan eða líkamlega fríðleika og séra Stefán Ólafsson í Vallanesi hafi m.a. lýst henni sem óvætti með þrjú höfuð og ýmsar aðrar lýtir á 17. öld, grunar Gvend að Grýla eigi lítið annað að sækja til tröllkonunnar Grýlu sem Snorri Sturluson lýsir á 12. öld, en sjálft nafnið.

Ég hef lengi velt því fyrir mér, hvort Grýla eigi ekki frekar ættir að rekja til Ítalíu og sé engin önnur en La Befana, jólakerling þeirra Ítala og margra annarra.

La Befana var samkvæmt þjóðsögunni kona sem fékk Vitringana þrjá í heimsókn nokkrum dögum fyrir fæðingu Jesúbarnsins. Vitringarnir báðu hana að vísa sér til vegar svo þeir gætu fundið Guðs son. Þeir hefðu séð stjörnu eina mjög bjarta á himni. Hún sagðist ekki vita hvar Jesúbarnið væri að finna. Þeir voru þreyttir svo hún leyfði þeim að gista eina nótt. Daginn eftir buðu Vitringarnir henni að slást í för með sér, en hún afþakkaði boðið með þeirri röksemd að hún hefði allt of mikið að gera, sér í lagi við húsverkin, alls kyns tiltektir og sópun. Síðar sá la Befana sárlega eftir þessari ákvörðun sinni og hóf að leita uppi vitringana og Jesús. Hún fann þá ekki og leitar þeirra enn þann dag í dag. Hvar sem hún fer gefur hún góðum og þægum börnum leikföng og karamellur, eða ávexti, meðan óþægu börnin fá aðeins kol í sokkinn, eða jafnvel lauk eða hvítlauk...og sum fá að kenna á vendinum.

befana_gubbio_1251344.jpg

Grýla Ítalíu líkist greinilega á margan hátt sonum sínum. Hún gefur kol í sokkinn, meðan Grýla sigar Jólakettinum á óþekk börn. Þessi fékk hvítlauk og aftur hvítlauk þegar hann var ungur.

Önnur þjóðsagan lýsir Befönu sem móður er missti drengbarn sem hún elskaði mjög hátt. Befana varð vitstola við barnsmissinn. Er hún heyrði að Jesús var í heiminn kominn, lagði hún land undir fót til að finna hann, í þeirri trú að hann væri sonur sinn. Loks fann hún Jesús og færði honum gjöf. Jesúbarnið á í staðinn hafa gefið La Befana gjöf og gerði hana að "móður" allra barna á Ítalíu.

Enn önnur sagan segir að la Befana hafi rekið vitringana þrjá á dyr, því hún var svo upptekin við að sópa og snurfusa. Hún var skapstór. Síðar uppgötvaði hún mikið stjörnuskyn á himni og lagði þá land undir fót til að leita Jesúbarnsins með sætabrauð og aðrar gjafir handa því. Hún tók einnig kústinn með til að hjálpa Maríu mey við hreingerningarnar. Hún fann þó aldrei Jesús og er enn að leita hans, og þess vegna gefur hún börnum enn gjafir í þeirri von að hún hafi fundið Jesúbarnið, vegna þess að Jesúsbarnið er að finna í sálum allra barna, eða þangað til fólk með einkarétt á sannleikann bannar þeim það og kallar það siðmennt.

befana.jpg

La Befana

Enn ein sagan segir að la Befana ferðist um á vendi sínum og flengi alla með vendinum sem hana sjá á flugi, þar sem henni er ekki um gefið um að fólk og börn uppgötvaði að húni komi klofvega til byggða á kústinum.

Befana kemur til byggða fyrir Þrettándinn (6. janúar) sem var eins og allir vita opinber fæðingardagur Krists allt fram á 6. öld. Dagurinn er á Ítalíu einnig kallaður Festa della Befana. Þrettándinn, síðasti dagur jóla, hefur fangið gamalt grískt heiti hátíðar Epiphania og tengdist síðar Vitringunum þremur sem mættu í fjárhúsið í Betlehem. Kenna sumar þjóðir því enn daginn við Vitringana þrjá (sbr. Helligtrekonger í Danmörku og Driekoningen í Hollandi).

Af Epiphania er nafn Befönu dregið. Eldri mynd nafns hennar var Pefania.

bottrighe-il-coro-voci-del-delta-di-taglio-di-po-intervenuto-alla-festa-della-befana-5.jpg

Befana í heimsókn í bænum Adria nærri Feneyjum. Ekki er laust við að hún hafi tekið með sér karlinn sinn sem er dálítið lúðalegur. Kannski hafa þeir lesið bók Árna Björnssonar um Jólin og tekið upp Il "Leppaludo"?

Margt merkilegt hefur verið skrifað um Befönu, og telja ítalskir sérfræðingar með svipaða menntun og Árni okkar Björnsson, að rekja megi uppruna hennar allt aftur til steinaldar. Minna má það auðvitað ekki vera. Kenndu Ítalir ekki Kínverjum að búa til pasta?

Líkt og Befana, var Grýla okkar dugleg með vöndinn sinn (kústinn) og hún lét köttinn svarta? (kolin sem í dag á atómöld eru gefin með táknrænni lakkrískaramellu í sokkinn) nægja börnum sem höfðu verið óþekk:

Þannig hljóðaði margfræg jólasveinsvísa á Hornströndum á 19. öld

Jólasveinar ganga um gólf

og hafa staf í hendi.

Móðir þeirra sópar gólf

og strýkir þá með vendi.

Skarpan hafa þeir skólann undir hendi.

Ýmsar aðrar gerðir eru til af vísunni (sjá hér og hér), en Grýla er líkt og la Befana iðin við flengingar, hýðingar, tiltektir og sópun. La Befana sópaði samkvæmt þjóðsögunni dagana langa. Ef vitnað er í gamlar vísur um Befönu verður þetta enn augljósara. Befana býr nefnilega einnig í fjöllunum eins og Grýla:

Viene, viene la Befana
Vien dai monti a notte fonda
Come è stanca! la circonda
Neve e gelo e tramontana!
Viene, viene la Befana

Hér kemur, já hér kemur hún Befana
Úr fjöllunum ofan um miðja nátt
Þreytt og öll dúðuð upp, sjáið hana.
Í snjó, hrími og norðanátt!
Hér kemur, já hér kemur hún Befana.

Vitaskuld er margt annað ólíkt með Grýlu og La Befönu. La Befana átti til dæmis ekki jólasveina, en eins og við vitum eignast Ítalir ekki mörg börn. Þannig er það enn.

Auðvitað er ekki allt fundið upp á Íslandi, nema kannski vitleysan. Jólakötturinn er að öllum líkindum heldur ekki íslenskur og örugglega ekki sænskur eins og einn kyndugur kvisturinn í sænsku menningarmafíunni á Íslandi hélt einu sinni fram með jólaglampann í augum í Árbók hins íslenska fornleifafélags.

Uppruni jólasiðanna er líklega margslungnari en menn halda.

befana-copia.jpg

Ítalskir karlmenn og einstaka stjórnmálamenn munu víst margir óska sér einhvers í sokkinn frá þessari tötralega klæddu banka-Befönu, en flagð er víst oft undir fögru skinni. Hún ætti að flengja þá ærlega, og sumir hafa víst einmitt óskað sér þess fyrir jólin.


Tapað fé og fundið

_rihyrndur_hrutur_b.jpg

Þríhyrndur, íslenskur hrútur birtist skyndilega í Frakklandi á síðari hluta 18. aldar. Nánar tiltekið um 1760. Talið er að hann hafi lamb að aldri hlaupið í franskt skip landmælingamanna og siglt utan og forframast; jafnvel orðið forystusauður í Frakklandi.

Hann endaði því miður sína þríhyrndu ævi sem ragout í Bastillunni, enda hafði hann allt á hornum sér.

Einum fremsta náttúrufræðingi Frakklands, greifanum Georges-Louis Leclerc, comte du Buffon, þótti hinn íslenski Móri svo föngulegur að hann lét eilífa hann á mynd og birti í stórverki sínu um dýrafræði í fjölda binda: "Histoire naturelle, générale et particulière" (1749-1788). Var það í fyrsta sinn sem íslenski sauðasvipurinn birtist á bók. Síðar birtust eftirmyndir af honum í öðrum ritum, frönskum, enskum og þýskum.

Tel ég víst að hrútur þessi hafi verið ættaður af Skagaströnd og hafi svarað nafninu Erlendur. Gamansamur og gáfulegur glampinn í augum skepnunnar gæti bent til þess, enda er fyndnasta fé landsins ættað af Skagaströnd.

Þess ber að geta, að haft hefur verið samband við fornleifaráðuneytið og forystusauð þess til að freista þess að bjarga þeim þríhyrnda úr útlegðinni. Sigmundur Davíð var stuttur í spuna og kærir sig kollóttan um þennan vanskapnað og taldi hann of útlenskan fyrir sinn smekk. Líklega er bannað að flytja inn slíka forframaða dilka vegna smithættu sem gæti valdið hruni í stofni heimalninga og sparðatínslumanna.

Þeir sem enn kynnu að sakna þríhyrnda Móra eru beðnir að hafa samband við Fornleif eða Hollande yfirhafnarstjóra, og vera hvorki loðnir í máli né teygja lopann um of.


Þjóðum líka þínir haukar (1. hluti)

tapet_3_1250642.jpg

Allvaldr, dýrkask út með Serkjum
innan lands af mildi þinni.
Þjóðum líka þínir haukar
þaðra allt með Blálands jaðri.
Víða hrjóta veglig mæti
vægðarlaust af yðrum frægðum.
Hollar prýða heiminn allan
hnossir þínar, mærðar tínir.

Þannig orti Sturla Þórðarson (1214-1284) lögsögumaður og skáld mjög fleðulega í hrynhendu sinni til Hákons konung gamla Hákonarson (1204-1263). Hans bestu haukar voru íslenskir og gaf Hákon einnig öðrum konungum Íslandsfálka í tækifærisgjafir, jafnvel sultaninum í Túnis á Blálandi (Afríku). Íslenskir fálkar þóttu fyrir utan að vera einstaklega góðir veiðifálkar (geirfálkar) og bera af í fegurð.

tapet_2.jpg

Íslandsfálkinn, (einnig nefndur valur, geirfálki, fjörsungur, forseti og gollungur), er annálaður fugl. Við þekkjum hann öll af gömlu skjaldamerki Íslands, af fálkaorðunni, og hugleikinn er hann ákveðnum stjórnmálasamtökum, knattspyrnuliði , sem og þjófum sem stundað hafa eggjatöku á Íslandi um langan aldur.

 

Íslandsfálkinn (Falco rusticolus islandicus) er ein deilitegund fálka, náskyldur hvítfálkanum (Falco rusticolus candidans), sem m.a. verpir á Grænlandi en á stundum á Íslandi, þar sem hann hefur blandað geði við íslenska fálka. Samkvæmt Skúla fógeta var það þannig að á stundum voru einstaka ungar í hreiðrum hvítari en íslenskir fálkar. Munu "flugfálkar" frá Grænlandi hafa borið ábyrgð á því ástandi, sem ekki þótti leitt, því miklu hærra verð fékkst á miðöldum fyrir hvítan fálka en þau afbrigði sem grárri voru. (Hér má til dæmis lesa meira um dýrafræðilega atriði). En hér í áframhaldinu skal grafið dýpra í sögu íslenska fálkans að hætti Fornleifs.

Útflutningur eða höfðingjasleikjuháttur?

Við vitum lítið um útflutning á fálkum frá Íslandi frá því að land var numið og sumir segja fyrr, þar til á 12. öld. En voru fálkar aðeins gefnir sem konungagjafir, eða var útflutningurinn stórtækari? Tillaga Einars Eyjólfssonar Þveræings, sem stakk upp á því á Alþingi að senda fálka til Ólafs Konungs Haraldssonar hins helga(995-1030) sem seildist eftir Grímsey, gæti bent til þess að menn hafi verið farnir að flytja út fálka frá Íslandi löngu fyrir 12. öld. Það gera líka ákvæði Grágásar um að menn megi ekki veiða fálka á jörðum annarra manna. Slíkt bann var reyndar líka við veiðum á gæs og álftum.

Fyrsta örugga heimildin sem við höfum um íslenska fálka er hins vegar skrif Giraldus Cambrensis, öðru nafni Gerald de Berry (frá Wales), sem í riti sínu Topographia Hibernica (frá því um 1185) upplýsir þetta: Haec terra girofalcones et accipitres grandes et generosos gigmit et mittit/Þetta land gefur og sendir okkur stóra og gjöfula veiði fálka og hauka.

Árið 1223 og 1225 sendir fyrrnefndur Hákon gamli, sem þá var ungur maður á konungsstóli, Heinreki III Englandskonungi fálka. Fyrst fékk Heinrekur 6 fugla en í síðari sendingunni voru þeir 13 talsins, þar af 3 hvítir. Í bréfum kemur fram, að Hákon haf sent menn sína fyrir tveimur árum til Íslands til þess að veiða þar fugla handa Heinreki konungi. Hafi menn þessir orðið að þola ótrúlegt hungur og kulda í íshafinu, og séu þeir nýlega komnir aftur með fugla þá, sem þeir hafi veitt. Hákon biður Hinrik að taka á móti þessum fálkum með sömu vinsemd og þeir væru gefnir og bætir við í bréfi sínu - og nú upp með latínuorðabækurnar: si aliquam hujusmodi cuam habueritis, sicut pater vester et predcessores vestri habuerunt, qui aves Islandiccas carias quam aurum et argenum amplexari dicebantur. Þeir sem eikki eiga latínuorðabækur geta atað músinni blítt á textann og þá birtist þýðingin: "Ef þér metið þetta á líkan máta og faðir yðar og fyrirrennarar gerðu það, en um þá hefur sagt verið að þeir teldu íslenska fugla dýrmætari en en gull og silfur". Þessi upplýsing gæti bent til þess að fálkar hefðu borist frá Íslandi til Noregs og þaðan til annarra landa í langan tíma og verið sumum Íslendingum góð tekjulind, þegar norskir veiðimenn konungs voru þá ekki að stunda ólöglegar veiðar í landinu eins og þær sem Hákon lýsti fyrir Heinreki konungi. Það er ekki rétt sem sumir íslenskir sagnaþulir, t.d. Árni Óla, hafa haldið fram, að Hákon konungur hafi sent fálkaveiðimennina til Íslands þegar hann var konungur Íslands. Það varð hann ekki fyrr en einu ári áður en hann dó árið 1263, ári eftir að Gamli sáttmáli varð til. Fálkaveiði Hákons á Íslandi átti sér hins vegar stað á 3. ártug 13. aldar.

vatican_1249461.jpg

Úr De Arte Venendi cum Avibus, fálkabók Friðriks 2.

Friðrik II Þýskalandskeisari (d. 1250) og jafnframt konungur Jórsala og Sikileyjar var einnig hrifinn af íslenskum fálkum og ritaði um þá lofsorðum í bók sinni De Arte Venandi cum Avibus, "Listin að veiða með fuglum". Í handriti Friðriks, sem ritað var á Sikiley og myndskreytt, er greint frá íslenskum fálum sem bestum allra fugla/sunt meliores omnibus aliis. Friðrik II náði sér einnig í önnur dýr af Norðurslóðum eins og kunnugt er, t.d. Hvítabjörn. Einn slíkan fékk hann að gjöf árið 1230 og hann gaf sultaninum af Egyptalandi Malik al-Kamil (sem var Kúrdi) björn. Hann var líklega sá sami sem Serklendingur sem Sturla Þórðarson orti um í dróttkvæði sínu handa Hákoni gamla. Dýrið kom til Damaskus árið 1233 eða 1234 samkvæmt annálaritaranum Kitab al-Wafi, sem einnig var þekktur sem Safadi. Fyrir hvítabjörninn fékk Friðrik keisarinn gíraffa. Sultaninn á Egyptalandi hafði einnig í byrjun 13. aldar fengið forláta skinn af hvítabjörnum samkvæmt annálaritaranum og ljóskáldinu Ibn Said al Maghribi. Makalaus var þessi áhugi á dýrum meðal heldri manna fortíðarinnar. Heinrekur III Englandskonungur sem einnig fékk Íslandsfálka átti líka hvítabjörn samkvæmt heimildum góðum og mun sem Hákon Noregskonungur hafa gefið honum björninn. Björn og fálki hét konungspakkinn í þá daga.  Heinrekur III tjóðraði björninn í Tower of London og á tyllidögum fékk björninn að synda í Thamesá og veiða sér fisk (hlekkur). Henry var mikill "dýravinur" og átti líka fíl.

kupa_pals_1250643.jpg

Páll Biskup Jónsson í Skálholti (d. 1211) (sjá mynd t.v.) mun einnig hafa verið ötull við að senda fálka til vina sinna erlendis, t.d. erkibiskupsins í Niðarósi.

Eftir að Íslendingar glopruðu frelsi sínu í hendur norskra konunga, má sjá af ritheimildum að eftirspurnin eftir fálkum hélt áfram að vera mikil. Jónsbókarákvæði endurspegla það líka: Konungur má láta veiða vali á hvers manns jörðu, er hann vill ok leggja verð eptir, utan á kirkjueignum. Var lengi deilt um þetta og annað sem auðtrúa Íslendingar misstu í hendur konungsvalds, en endanlega var þessum lögum þröngvað upp á íslenska landsölumenn og aðra minnst megandi árið 1277.

Síðan þagnar fálkasaga Íslendinga um tíma eins og svo margt annað sem tínst hefur og gloprast niður, og ekkert heyrist af Íslandsfálkum fyrr en í tollaskjölum í bænum Kings Lynn í Norfolk árið 1518: pro uno Geffaucon cust xii d./fyrir einn veiðifálka 12 d. tollur). Þetta þýðir þó ekki að fálkar hafi ekki verið útflutningsvara frá Íslandi eins og fyrr og síðar.

Líkur hér fyrsta hluta fálkasögu Fornleifs.

Nokkrar heimildir:

Árni Óla 1967. Fálkahúsið og Fálkaverslun Koungs. Lesbók Morgunblaðsins 42. tbl. 19.11.1967, bls. 6-7;12.

Björn Þórðarson 1924: Íslenzkir fálkar og fálkaveiðar fyrrum. Iðunn VIII, 4, bls. 266-295. (Sjá hér).

KL: Kulturhistorisk Leksikon for Nordisk Middelalder, bd. 4: Falkar, dálkur 142-154.

Handritið: Pal. lat. 1071: Friðrik II (1194-1250): De Arte Venandi cum Avibus ca. 1258-1266. Biblioteca Apostolica Vaticana. (Sjá hér).

Vilhjálmur Þ. Gíslason 1947: Bessastaðir; Þættir úr sögu höfuðbóls. Bókaútgáfan Norðri Akureyri.

 
Örlítill fróðleikur um fornleifafræði fálkaveiða og fálkahalds á miðöldum: hér og hér.
falenbuch_friederich_ii.jpgMynd úr fálkabók Friðriks 2.
Tvær efstu myndirnar sýna fálkaveiðar á Bayeaux reflinum sem saumaður var af nunnum á Englandi fyrir Odo biskup í Bayeaux sem var bróðir Vilhjálms sigursæla. Refillinn er nú varðveittur í Bayeaux í Frakklandi.

Tóti Royal

kattarsogur_1249730.jpg

Þórarinn Eldjárn Hallmælisskáld hefur nú flutt drápur góðar í höllum Möggu, Halla og Kalla. Hvenær fær Óli Íslandskóngur drápu frá Hallarmæri þessum? Óska ég útgáfu Íslendingasagnanna velgengi, þótt ýmislegt mætti setja út á í þýðingunum.

En ósköp er það neyðarlegt, að þessum útgáfum sé pakkað inn í kassa með mynd af kattarhaus úr norskri konungagröf, sem var tekin löngu áður en Ísland var numið árið 872 give and take. Var virkilega ekki hægt að fá ódýra mynd á Þjóðminja- safninu til að prýða þessa norrænu útgáfu? Þórarinn Royal hefði nú getað reddað því for old time's sake.

Ítarefni:

Fyrra níð mitt um dönsku drápuna til Möggu Tótu og kattarfjandann úr Osebergskipinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband