Færsluflokkur: Menning og listir

Framlengda gúrkan

Langa fornleifagúrkan

Fornleifagúrkan hefur nú fengið veglega framlengingu og það langt fram á haust. Að venju er gúrkan óæt, og full af rugli og vitleysu. Þó er ekki verið að rugla um stærsta klaustur í heimi nú, stuð fyrir landnám í Stöðvarfirði, eskimóakonur í klaustri, eða ólögulegan stein úr setlögum sem einhver hefur fengið að vita úr ævintýraheimi að sé forn kross.

Nei, nú ríður gúrkunni inn meinti kumlverji í Víkurgarði, sem fornleifafræðingar bera ábyrgð á, en hafa enn ekki svipt hulunni af. Kumlverjinn er greinilega orðinn að leynigesti sumarsins og Svavar Gestsson stjórnar ekki einu sinni gamninu.

Nú eru andans menn einnig farnir að leika fornleifafræðinga í ellinni, því ekki næst í Völu Flintstone Garðarsdóttur sem fann haugverjann.

Í Fréttablaðinu í dag fer Séra Þórir Stephensen í andaglas og er greinilega í beinu sambandi við Ingólf Arnarson. Lesið á bls. 8 í Fréttablaðinu. Þórir hefur þar eftir aflóga þjóðminjaverði að "kuml" í Víkurgarði geti ekki tilheyrt bæjarrústum sem fundist áður við Aðalstræti og Ingólfstorg. Ef rétt er haft eftir Þór Magnússyni, er fjarlægðin frá skálanum sem fannst í fyrra við Lækjargötu heppilegri fyrir kumlbúann í Víkurgarði. En síðan hvenær varð Þór Magnússon sérfræðingur í kumlum? Engin lög, og sjáanleg regla er til eða þekkt fyrir fjarlægð kumla frá bæ. Á maður sem ekki gat stjórnað fjármálum Þjóðminjasafns nú að vera dómari um slíkt?

Hvernig væri nú að dómbærir fornleifafræðingar, sem unnið hafa við rannsóknir á haugfé eða endurútgáfu á Kuml og Haugfé Eldjárns, en ekki prestar og lögleg gamalmenni, fái að sjá hvers kyns var í kumlinu. Kuml eru oftast miklu lengra frá bæjum en meint kuml í Víkurgarði er frá skálunum sem fundist hafa í Víkinni

Seiðkarl

Síra Þórir særir upp Ingólf Víking í baráttu sinni við hótelin. Rökleysa hans gæti í versta falli orðið vatn á myllu lögfræðinga hótelspekúlantanna. Það eru svo sem fordæmi fyrir því að dómstólar hafi gerst sérfræðingar í fornleifamálum. Ljósmynd úr Fréttablaðinu 11.10.2017. bls. 8.

Ef gripir hafa fundist í gröf í Víkurgarði, þarf það ekki nauðsynlega að þýða að sá sem greftraður hefur verið kristinn maður. Gripir, hnífar, skartgripir, talnabönd, krossar eða myntir hafa hafa fundist í kristnum gröfum við fornar kirkjur á Norðlöndum og öðrum svæðum. Stundum gleymdist að taka veraldlegar eigur af fólki þegar það var lagst til eilífrar hvílu fram að dómsdegi.

Sömuleiðis er hugsanlegt að menn hafi haldið lengur í hefðir og viljað hafa eitthvað af hinum gamla sið með og ekki fylgt boðum kirkjunnar um greftrun að í einu og öllu. Það sýnir aðeins vanþekkingu fornleifafræðinga, ef þeir álíta að persónulegir gripir fólks geti ekki á stundum endað með því í kristnum gröfum þegar kristinn siður hefur nýlega verið tekinn upp. Hafi hins vegar fundist fallegur þórshamar sem örugglega er hægt að segja að hafi verið lagður í gröf en ekki endað þar úr öðrum lögum, þá stöndum við frammi fyrir kumli og einstaklingi sem var "heiðinn". En hættum vangaveltunum.

Fornleifafræðingarnir í Víkurgarði verða að láta rök fylgja orðum sínum svo mark sé á takandi. Annars er alið á vitleysum í fjölmiðlum hjá auðtrúa og veikgeðja fólki.

Greinilegt er að goðsögnin um Ingólf er fjári seig, en megum við þessi heiðnu vera laus við vangaveltur kristmanns eða krossmanns í þessum efnum.

Vandamálin með hóflausar hótelbyggingar og siðleysi auðmanna á Íslandi er eitt. Landnámið í Reykjavík er allt annað. Þessi vandamál eru algjörlega óskyld, þó svo að Sigmundur Davíð hafi flutt Þjóðmenninguna með sér í forsætisráðuneytið og ætlað að gera Þjóðminjavörð að prófessor.

Bendi ég svo á grein mína um Víkurgarð hér á blogginu í gær.


Kirkjugarðspistill

Dómkirkjan Mackenzie

Svo allur dagurinn í dag fari ekki í fótboltamikilmennskukjaftæði og kosningageðklofa langar mig að benda mönnum á að lesa góða fréttaskýringu eftir Guðmund Magnússon fyrrv. settan þjóðminjavörð í Morgunblaðinu (bls. 15). Þar greinir Guðmundur frá þeim athugasemdum sem bárust við deiliskipulag vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar í Víkurgarði hinum forna.

Besta röksemdin fyrir því, að ekki sé mögulegt að byggja hótel á því svæði sem hinn forni kirkjugarður var á, er bann ríkistjórnar Íslands árið 1966 við að stækka hús og raska garðinum. Það bann var sett árið 1966. Það fylgir þó ekki sögunni, hvort ríkisstjórnin hafi þá vitað hve stór reiturinn var. En það skiptir sennilega engu máli. Það bann er enn í gildi nema að finnist skjal sem sýni að ákvörðunin hafi verið dregin til baka.

Allir heilvita menn þurfa ekki að heyra frekari rök. Ekkert hótel getur risið á þessum stað, ef farið er að landsins lögum. En það er nú farið að verða æ sjaldgæfara - líkt og þegar siðareglur á Íslandi virðast ekki gilda fyrir þá sem þær búa til.

Í fréttadálk við hliðina á skýringu Guðmundar Magnússonar er haft eftir síra Þóri Stephensen, að "kirkjugarðar séu bænastaðir" og að "helgi grafreita sé alþekkt í flestum trúarbrögðum og á öllum tímum." Vafalust er það rétt, nema það sem menn bera lík út á stikur og bíða þess að illfygli kroppi í sig leifarnar sem ekki fara til guðs/-a. Hrægammarnir sjá víst líka um að fljúga með sálina til guðanna. Það er því ekki bara á Íslandi að hrægammar eru taldir gera gagn.

IMG_8433

Ónákvæm rista af fyrstu dómkirkjunni í Reykjavík. Kirkjan var vígð var árið 1796. Teikningin birtist hugsanlega fyrst í dagblaðinu Daily Mirror í Lundúnum, en þessi rista er gerð eftir henni og birtist í hollenskri bók sem kom út árið 1848 og sem  langalangafi minn átti. Kirkja þessi, sem var mjög illa byggð, var rifin þegar núverandi dómkirkja var byggð árið 1848. Áður en þessi kirkja var reist var lítil kirkja í miðjum Víkurkirkjugarði. Hún var rifin árið 1789. Þessi mynd  er líklega gerð með hliðsjón af eldri ristu, líklega þeirri sem fremst er í þessari grein. Hún birtist í bók Georges Steuarts Mckenzies, Travels in the Island of Iceland, in the Year of 1810, sem út kom árið 1814.

Lítið fer nú fyrir þeirri helgi nú orðið t.d. í lútherskum löndum, t.d. Norðurlöndunum, þar sem heilu kirkjugarðarnir eru ruddir í burtu og leiði afhelguð og nýtt fyrir nýja "kúnna" þegar þeir deyja Drottni sínum.

"Character indelebilis" sem á Íslensku þýðir "óafmáanlegt kennileiti" er nú fyrst og frem kaþólska, sem meira segja kaþólikkar fylgja ekki að fullu. Því meðal kaþólikka ríkir tvískinnungurinn um grafarhelgi einnig. Meðal eingyðismanna framfylgja gyðingar einir helgi grafreita 100% með örfáum undantekningum. Þeir líta á grafreiti sína sem Beit Chaim, hús lífsins, að eilífu. Fólk sem tilheyrir öðrum trúarbrögðum í Evrópu hefur hins vegar verið iðið við að eyðileggja grafreiti gyðinga. Í Litáen vilja yfirvöld byggja mikla Evrópu-ráðstefnuhöll ofan á helsta grafreit gyðinga í Vilníus og brjóta þannig helgan grafarrétt gyðinga. En þeir keyptu sér afnot af á grafreitnum til eilífðarnóns. Litáar, sem margir eru kaþólikkar, vita greinilega ekki hvað character indelebilis er.

Reykjavík 1801Reykjavík sýnd á korti Ohlsens og Aanums. Dómkirkjan fyrri er lituð rauð efst á myndinni og merkt með sem númer 1. Víkurgarð sjá menn í sinni stærð árið 1801 á ljósgræna reitnum sem ber númerið 26. Þó hann virðist ekki stór þarna miðað við stærð frekar lítillar 1. dómkirkju er ekki útilokað að hann hafi verið stærri á fyrra stigi.

Character indelebilis var á Miðöldum fyrst og fremst kaþólska í reynd, og getur því vissulega átt við marga þá einstaklinga sem grafnir eru í Víkurgarði sem greftraðir voru fyrir siðbót. Samt finnst mér að íslenska þjóðkirkjan eða prestar hennar ættu nú síst að vera að gera sig að siðapostulum hvað varðar kirkjugarða og grafarhelgi, meðan þeir hafa til fjölda ára staðið í því að slétta kirkjugarða, þannig að íslenskir garða minna einna mest á kirkjgarða við bænahús ofsatrúarmanna á sléttum Bandaríkjanna. Með þeirri sléttunarherferð sem farið hefur fram með blessun fjölda biskupa og annarra innvígðra klíkukalla og kvenna á Ísland er í raun verið að trufla hinn heilaga grafarfrið. Character indelebilis er því ekki við lýði á Íslandi eins og sr. Þórir Stephensen álítur.

Þótt fornleifafræðingar hafi grafið í kirkjugarðinn og fjarlægt þaðan  bein, er ekkert því til fyrirstöðu  að þau verði grafin þar aftur að lokinni ítarlegri rannsókn á beinunum , sem yfirvöld verða að framfylgja hið fyrsta með tilheyrandi kostnaði. Þess var t.d. krafist í York á Englandi þar sem fannst grafreitur gyðinga frá miðöldum. Gyðingar mótmæltu strax rannsókninnir og truflun grafarfriðarins. Því var ekki sinnt og olli það miklu fjaðrafoki. Að lokum var beinunum komið aftur fyrir í gröfunum, en þau voru rannsökuð mjög ítarlega en ekki tókst að fá leyfi fyrir DNA-rannsóknum. Að kvöldi þess dags sem beinin voru aftur lög til hinstu legu, undir bílastæðahúsi sem þar átti að rísa, varð eldsvoði í Dómkirkjunni í Jórvík sem olli þó nokkrum skemmdum. Hafði breski fornleifafræðingur Philip Ratz það á orði að "þar hefðu sumir talið að hefnd gyðinganna í garðinu vegnar röskunar á friði þeirra hafi brotist út í ljósum logum ".

Sömuleiðis er frekar fyndið að sjá að á meðal andmælanda hótelbyggingarinnar er einn af helstu framleiðendum gervihúsa í "gömlum stíl", Hjörleifur Stefánsson. Í túristaklondæk miðborgar Reykjavíkur, þar sem annað hvert hús er hótel, eru til mörg slys eftir hann. Það eru húsaskrípi sem minna á endurgerðir húsa í DDR eftri Síðara stríð. Þjóðverjar endurreistu gjarna mjög groddalega það sem þeir áttu fyrir stríð. Íslendingar hafa nú byggt svo mörg gervifortíðarhús að halda mætti að hér hefði nýlega geisað borgarstyrjöld.

Sama hvað örlögum Reykjavíkur líður og nauðgun miðbæjarins. Þá er ekki hægt að fara fram hjá ákvörðun Ríkisstjórnarinnar frá 1966 sem bannar frekari byggingar í Víkurgarðsreit.

Þar fyrir utan verður að teljast eðlilegt að íslenskir arkitektar fari að nú að læra listræna sýn, æstetik, og fá auga fyrir sjónsköðum sem margar byggingar þeirra valda. Þessi hótelfjandi  sem sumir vilja troða niður við Austurvöll eins og of stórum Legó-kubbi sem ekki kemst fyrir, svo og aðrir hótelkassar sem er verið að reisa út um allan bæ, eru úr ALGJÖRU samhengi við það sem fyrir er.  Gervihús endurreisnar-Hjörleifs falla að minnsta kosti oft að heildarmynd bæjarins, en  glerhallirnar eru aðskotahlutir, sem er mjög sárt að sjá eyðileggja sál hins litla miðbæjar Reykjavíkur og jafnvel skyggja á útsýnið til Esju.

Svo er það Grágás

Að lokum langar ritstjórn Fornleifs að benda mönnum sem takast á um Víkurgarð, á þá staðreynd að Grágásarákvæði um flutning beina eiga víst einnig enn við að vissu marki þó smalar séu nú í ráðhúsi Reykjavíkur en ekki að grafa upp mannabein til flutnings, enda voru ekki til hótel eða japanskir ferðamenn þegar Kristinna Laga þáttur Grágásar var tekinn saman:

Þar er maður vill bein færa, og skal landeigandi kveðja til búa níu og húskarla þeirra, svo sem til skipsdráttar, að færa bein. Þeir skulu hafa með sér pála og rekur. Hann skal sjálfur fá húðir til að bera bein í, og eyki til að færa. Þá búa skal kveðja er næstir eru þeim stað er bein skal upp grafa, og hafa kvatt sjö nóttum fyrr enn til þarf að koma, eða meira mæli. Þeir skulu koma til í miðjan morgun. Búandi á að fara og húskarlar hans þeir er heilindi hafa til, allir nema smalamaður. Þeir skulu hefja gröft upp í kirkjugarði utanverðum, og leita svo beina sem þeir mundu fjár ef von væri í garðinum. Prestur er skyldur að fara til að vígja vatn og syngja yfir beinum, sá er bændur er til. Til þeirrar kirkju skal bein færa sem biskup lofar gröft að. Það er rétt hvort vill að gera eina gröf að beinum eða fleiri...(Byggt á Grágásarútgáfu Vilhjálms Finsens 1852). (sjá meira hér).

Deginum ljósara er, að gleymst hefur að stenkja vígðu vatni á beinin sem flutt voru úr Víkurgarði af fornleifafræðingum. - Hver skrambinn? Vonandi verður sá tæknilegi galli ekki til þess að hótelspekúlantar misnoti Grágás í röksemdafærslum sínum við borgaryfirvöld.

Nei, ætli það?? Peningarnir hafa þegar talað og Dagur Draumur er löngu orðinn að nátttrölli peningaaflanna eins og aðrir íslenskir vinstrismenn? Ég hugsa oft til græðginnar í þeim arkitektum sem teikna hús í gömlum stíl á þremur hæðum með tvöföldu gleri. Í höfði þeirra er listin að græða hærri öllum kúnstum. Ást þeirra á þeim dauðu er þó athyglisverð þegar haft er í huga að flestir eru þessir pótentátar algjörlega gvöðlausir svona dags daglega.


Ró á Austurvelli

Wood nr. 15 Fornleifur copyright

Númer 15 er fundin! Laterna magica skyggnumyndina hér að ofan, sem er handlituð, fann skyggnubirgir minn á Englandi nýlega í ruslakistu sinni. Sú kista reynist honum drjúg tekjulind, enda situr hann á miklum fjársjóð sá góði maður.

Myndin er úr röðinni góðu sem sem Riley Brothters og E.G.Wood framleiddu í samráði við menn á Íslandi og Skotlandi, og sem ég skrifaði um á Fornleifi fyrra í 10 köflum.

Myndin er af virðulegu þinghúsi okkar þar sem allt er nú í uppnámi nú vegna alls konar óra í sjóræningjum og æringjum. Einnig má sjá dómkirkju höfuðstaðarins. Þessi mynd var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og er t.d. þekkt á Þjóðminjasafni í tveimur gerðum (sjá hér ; Lpr-380 í lélegu ástandi.  Hina (Lpr-1152-9) er að finna í ljósmyndabók af ljósmyndastofu Sigfúsar Eymundssonar. Bókin lá frammi á stofunni og gátu viðskiptavinir pantað myndir úr henni. Margar myndir úr þessari ágætu bók sendi Sigfús líklega til þeirra sem framleiddu laterna magica skyggnur. Ljósmyndin er af Þjóðminjasafni sögð vera tekin 1882-1883.

Austurvöllur Sigfús

Nokkuð merkilegt er að ná í þetta og ég bíð eftir tveimur myndum til viðbótar, sem sagt verður frá við tækifæri á Fornleifi.

Drengurinn sem hallar sér upp að girðingunni við Austurvöll er Daníel Benedikt Daníelsson (1866-1933), sem var ættaður  norðan  úr Húnavatnssýslu. Hann var skráður sem smali á Þóroddstöðum í Staðarsókn um 1880. Miklu síðar gerðist hann bóndi í Brautarholti í Kjós. Starfaði einnig sem ljósmyndari, kaupmaður og veitingamaður á Selfossi og að lokum sem dyravörður í Stjórnarráðinu. Frægar eru Kleppsvísur í Speglinum sem fjalla um þegar hann reið sem sendill Hriflu-Jónasar með uppsagnarbréf handa Helga Tómassyni lækni á Kleppi (sjá hér).  Ef myndin hefur verið tekin 1882-83 hefur Daníel ekki verið eldri en 17-18 ára gamall.

Daniel Ben Danielsson

Myndin á skyggnunni hefur verið skorin aðeins þannig að ekki sést t.d. í styttuna af Bertel Thorvaldsen sem þá stóð á Austurvelli.

Mér þykir sjálfum afar gaman að sjá þessa mynd af Alþingishúsinu nýbyggðu. Langalangafi minn Sigurður Bjarnason sem fluttist úr Skagafirði vegna fátæktar (hann var það sem í dag er kallað flóttamaður) og sonur hans Þórður (sem unglingur) unnu báðir við byggingu Alþingishússins.

Alþingishúsið 1883 b

Þegar Sigfús tók þessa mynd stóð hann ekki langt frá hinum mjög svo umtalaða Víkurgarði sem allir vildu bjargað hafa. Þar telja fornleifafræðingar sig hugsanlega hafa fundið heiðnar grafir undir þeim kristnu. Ég leyfi mér að efast um það þar til ég sé sannfærandi sönnunargögn því til stuðnings.

Ég tel persónulega að með eins mikla byggð og nú hefur verið sýnt fram á í kvosinni á víkingaöld, hafi kuml landnámsmanna og afkomenda þeirra, sem ekki voru kristnir, verið ekki mjög langt undan. Ég leyfi mér að benda á mjög merka ljósmynd í fórum Ljósmyndasafns Þjóðminjasafnsins OKKAR, sem tekin var  árið 1868 og einnig af Sigfúsi Eymundssyni. Tel ég myndina sýna staðinn þar sem Ingólfur og hinir íbúarnir í Víkinni voru heygðir. Þarna á þúfunum (kumlunum) er löngu búið að byggja hús. En hver veit – í garði rússneska sendiráðsins eða aðeins sunnan við hann gæti verið að kuml fyrstu "víkinga" Víkur séu enn að finna undir reynitrjánum.

Reykjavík 1868

Þegar Hótel Kirkjugarði verður plantað niður í Víkurgarð - því menningarlegu peningavöldin, sem stjórna boginni nú, eru afhuguð menningu - ætla ég nú rétt að vona að hótelhaldarar verði þjóðlegir og hafi myndir í römmum af beinum úr garðinum og nærmyndir af holdsveikum í morgunverðarsalnum. Það er áhugavert fyrir ferðamenn að stúdera slíkt þegar þeir borða árbítinn, innifalinn eða óinnifalinn. Ég er til í að láta hóteleigendum í té litmynd af Austurvelli frá 1889! til að hafa yfir kaffivélinni, en það mun vitaskuld kosta þá dýrt.

Menning kostar nefnilega, en það er svo billegt að eyða henni.


Pavlova hittir Vilhjálm á Grand

Pavlova stolen of course

Pavlova er nafn á miklum eftirrétt sem Fornleifur fékk í fyrsta sinn á ævi sinni fyrir um tveimur árum síðan hjá íslensku vinafólki sem ég heimsótti í sumarhúsi hér í Danmörku.

Oft hafði ég áður heyrt um þennan desert og séð í breskum matreiðsluþáttum. Ég taldi víst að þetta væri gríðar gómsætur réttur, hlaðinn umframorku. Það reyndist rétt vera. Slíkir réttir henta eiginlega ekki ballettdönsurum, miklu frekar sjómönnum. Eftirrétturinn ber reyndar nafn frægra ballettdansmeyjar, Önnu Pavlovu (1881-1931), en ef ballettmær borða slíkan mat er dansferlinum væntanleg rústað eftir fyrstu skál. Þessi frægi desert samanstendur mest af sykri, eggjahvítu og rjóma. Það einasta sem hollusta er í eru berin, og þá helst jarðaber, sem stráð er ójafnri og ónískri hönd efst á pavlóvuna.

Margt er á huldu um þennan eftirrétt. Ástralir og Nýsjálendingar, sem áður fyrr þóttu afar óábyggilegar heimildir hafa rifist um það í áratugi, hver þjóðanna hafi fundið þennan rétt upp fyrstar. Báðar þjóðir vilja nefnilega eigna sér eftirrétt þennan sem hefur fengið mikla heimsútbreiðslu.

Báðum ber saman um að hann hafi verið búinn til til heiðurs Önnu Pavlóvu ballettdansmeyju, þegar hún heimsótti löndin tvö árið 1926. Og nú er desertinn væntanlega orðinn frægari en Pavlova sjálf. En í meðförum fornmatgæðinga vandast nú málin, því engar uppskriftir eða heimildir geta sannað tilurð þessa réttar árið 1926 og dagbækur dansarans svipta ekki hulunni af neinu, því þar er hann hvergi nefndur. Fyrstu uppskriftirnar að réttinum eru frá 4. áratugnum og voru prentaðar bæði á Nýja Sjálandi og í Ástralíu.

Chaplin et PavlovaHér verður ekki séð hver er eftirrétturinn eða forrétturinn. Bæði þekktu hins vegar lítið til föður síns.

Árið 1926 var reyndar gefin út í Ástralíu uppskrift að ávaxtahlaupi, fjarri ólíku þeirri Pavlóvu sem flestir tengja nafni ballettdansmeyjunnar. Svo halda aðrir því fram að þessi blessaði réttur sé bara kominn með innflytjendum frá Þýskalandi til landanna tveggja í neðra. Ekki ætla ég að skera úr um upprunann, því laktósaóþol mitt sem uppgötvaðist er ég var fimmtugur, sem og menningarvömbin fína, valdar því að ég verð að halda mig frá slíku lostæti nema í hófi. En góð er hún hún Pavlóva.

Jafn dularfullur og uppruni pavlóvukökunnar er, var uppruni Önnu Pavlovu dansstjörnu það einnig. Hún var dóttir fátækrar þvottakonu í Sankti Pétursborg sem ekki gat eða vildi gefa upp nafn föður barnsins. Dóttirin Anna fékk síðar nafn manns sem móðir hennar giftist og hét Pavlov að eftirnafni. Anna Pavlova andaðist úr lungabólgu í den Haag í Hollandi árið 1931, aðeins fimmtug að aldri (svo dans er kannski ekki eins hollur fyrir líkamann og oft er haldið fram). Minning hennar lifir enn í hinni girnilegu köku (sem menn geta brennt smá fitu við sjálfir að leita uppskriftinni fyrir). Þó er ég hræddur um að svitinn leki ekki af ykkur við leitina. Pavlóvurétturinn er nefnilega orðinn þekktari en dansmærin. En munið aðeins í hófi, annars verðið þið ekki deginum eldri en Anna Pavlova varð sjálf.

Anna Pavlov kemur til den Haag í Hollandi

Þess verður að geta að einn Íslendingur fékk tækifæri til að hitta Önnu Pavlóvu. Það var enginn annar en Vilhjálmur Finsen, einn af feðrum Morgunblaðsins. Eftir Morgunblaðsárin starfaði hann löngum sem blaðamaður í Noregi, þar sem hann stofnaði fjölskyldu. Árið 1927 kom Anna Pavlova til Oslóar og leyfi ég mér hér að birta frásögn Finsens sem út kom í fyrri ævisögu hans Alltaf á heimleið (1953).

Anna Pavlova

Í maímánuði 1927 kom ballettdansmærin Anna Pavlova til Oslóar í fylgd með 36 konum og körlum, það féll í minn hlut að taka á móti henni á járnbrautarstöðinni og eiga tal við hana fyrir „Oslo Aftenavis“.

Önnu Pavlovu hefur verið líkt við flamingó, sem líður eða svífur áfram fremur en gengur, og þessi lýsing áttir mjög vel við hana, því að hún var svo létt og yndisleg í hreyfingum, er hún leið fyrir slitinn stöðvarpallinn, grönn og mjóslegin, með dásamleg djúp svört augu í fölu andliti, að maður varð hálfhræddur um að hún mundi fljúga burt.

Á brautarstöðinni vildu hún ekkert segja við okkur blaðamennina, en hún bað okkur koma með sér upp á Grandhótelið, og þar átti ég viðtal við hana, á meðan teiknarinn teiknaði hana. 

„Hvernig hugsið þér til þess að sýna list yðar hér? Skandínavar eru sagðir svo kaldlyndir,“ sagði ég.

„Fólki, sem kemur fram á leiksviði,“ sagði frúin, „hættir til að halda, að það hafi ekki komizt í ákjósanlegt samband við áhorfendur, ef þeir láta ekki hrifningu sína óspart í ljós. Ég fyrir mitt leyti kann vel við þess konar áhorfendur, því að ég þekki ótt manna við að láta tilfinningar sínar í ljós. Það eru hinar þöglu bylgjur frá hjarta til hjarta, sem allt veltur á.“

Anna Pavlova2b

Teiknari Aftenavisen i Osló náði Pavlovu vel. Hún er með sama hattinn og í den Haag. Myndin birtist í bók Vilhjálms Finsens Alltaf á Heimleið, sem út kom árið 1953.

Ég spurði hana um álit hennar á nýtízkudansi.

„Mér er í rauninni vel við allt nýtt, en við verðum að virða hið gamla, siðvenjurnar. En nýtízkudansar, „black bottom“ og hinir, eru hræðilegir. Fólk lítur út ein og það væri vitskert, meðan það er að dansa. Dansinn virðist óheflaður, klunnalegur og trylltur.“

Orðum Pavlovu fylgdu hrífandi hreyfingar handa og axla, og svipur hinna djúpu augna og andlitsdrættirnir voru síbreytilegir. Hin eldsnöggu og leiftrandi hugbrigði hennar og hrífandi framkoma voru ógleymanleg. Ofurlítil handahreyfing varð svo mikilvæg og áhrifarík, að það var eins og hún svifi ein í rúminu. Það var ekki að ástæðulausu, að Pavlova var kölluð „geðþekkasta kona heimsins“.

Kvöldið eftir naut ég þeirrar ánægju að sjá hana dansa, og er það eitt fegursta, sem ég hef séð á ævinni.“

Vihjálmur Finsen, sem bráðnaði eins og klaki í Kenýa undan sjarma Önnu Pavlovu, greinir ekki frá neinum eftirrétti sem bar nafn hennar, enda hefur hann vart verið búinn að ná útbreiðslu alla leið til Noregs ári eftir að hann á að hafa orðið til. Í Noregi nútímans er hann hann hins vegar í hávegum hafður, löngu eftir að hann naut sem mestra hylli á Bretlandseyjum og í Danmörku á 8. Og 9. áratug 20. aldar.

Að minnsta kosti 667 uppskriftir munu vera til af Pavlóvu. Prófessor Helen Leach við háskólann í Otago á Nýja Sjálandi hefur safnað þeim saman úr 300 heimildum, og ber bókin heitið The Pavlova Story: A Slice of New Zealand‘s Culinary History. Helen Leach telur öruggt að pavlova eins og hún er best þekkt í dag sé fyrst lýst í riti á Nýja Sjálandi árið 1929, en að Ástralar hafi ekki skrifað neitt að viti um eftirréttinn fyrr en 1935.  

Núvitiðiþað. Ef þið fitnið getið þið dansað black bottom, Svartrass, dansinn sem Pavlovu var hugleikinn í Osló árið 1927.


Þýfi foreldra íslenskra landnámsmanna rænt á safni í Bergen

20819513_10154584367626755_7790838702937153905_o (2)

”Kæmpeskandale” er nú í uppsiglingu í Noregi. Menn spyrja sig af hverju Háskólasafnið í Björgvin var ekki betur varið en að þjófar gátu farið inn um glugga á 7. hæð hússins með því að fara upp á byggingapalla sem utan á húsinu eru vegna viðgerða á því. Þjófarnir gátu nokkuð auðveldlega komist inn á safnið inn um glugga á stigaturni byggingarinnar sem hýsir safnið - og út fóru þeir svo með þjóðargersemar Noregs. Þjófavarnarkerfið fór reyndar í gang tvisvar sinnum, en vaktmenn fyrirtækis úti í bæ, sem sjá um vöktun og eftirlitið sáu ekkert grunsamlegt og fóru jafnóðum af vettvangi. Greinilega eru ekki mikil not af slíkum fyrirtækjum þegar virkilega þarf á þeim að halda. Viðvörunarkerfin fara svo oft í gang vegna mistaka og tæknigalla, því þannig þéna fyrirtækin meira en umsamið er. En þegar virkilega þarf á þeim að halda, halda vaktmennirnir að það það sé "sama gamla bilunin" í kerfinu.

Þjófarnir rændu, að því er fréttir herma, meira en 245 gripum frá járnöld og víkingaöld, og þar á meðal gersemum úr sumum af helstu kumlum víkingaaldar í Noregi.

Norðmönnum hefur því greinilega ekki tekist að varðveita þann menningararf og þýfi sem forfeður Íslendinga stálu á Bretlandseyjum um 850 e.Kr. áður en haldið var til Íslands.

T.d. gersemar Vélaugar Hrappsdóttur sem heygð var í Gauseli á Rogalandi, /sjá ljósmynd af litlum hluta haugfjár hennar efst). Gröf hennar innihélt trogarfylli af illa fengnu en kristilegu írsku bling er bræður hennar og faðir höfðu rænt á Írlandi. Gudda er formóðir flestra bankaútrásarþjófanna á Íslandi. Sjá Íslendingabók til að sjá hugsanlega ættartengsl ykkar við Vélaugu eða írsku blingprinsessurnar sem bræður hennar börnuðu í Dyflini.

Á smettiskruddu Háskólasafnsins í Björgvin, má nú lesa þessa frekar aumu yfirlýsingu á ensku, því eins og Íslendingar búast Norðmenn við því að útlendingar séu á bak við öll misyndisverk :

ENGLISH: Monday morning, 13th of August, employees at the University Museum discovered that there had been a burglary at the Historical Museum. It looks like people have entered the seventh floor from the scaffolding outside the museum tower.

Several important objects from the Norwegian cultural heritage are missing. Irreplaceable pieces of history are gone. For a museum, there is hardly anything worse than have objects stolen.

Now we only have one wish; to get as many as possible of the stolen objects returned to us.
So we need people's help. In this group we will continuously post pictures of objects we miss.

You can post pictures of objects, ask questions, share things and discuss. Of course you can share photos from our album with others.

Do you know someone who may be interested in helping us? Invite them in by pressing "Add Friend".

Contact us here, by PM or email if you think you have found or seen parts of our common heritage.

Hjálpum nú frændum okkar ef einhver býður ykkur þýfið til kaups. Gripina má sjá hér að einhverjum hluta til, svo hægt sé að velja bestu gripina til að bjóða í. Hér er einnig áhugaverð frétt um málið.


Woody og ég á Amákri

Fornleifur og Woody Allen eru samanlagt langt yfir íslenskum fornleifaaldri. Friðaðir og friðlýstir og náttúruminjar að auki. Þess vegna tel ég mig hafa ærna ástæðu til að blogga um Woody. Hér verður þó ekkert ritað um Rosemary´s Baby eða annað sem gleður Íslendinga sem vilja drepa fólk sem þegar hefur verið dæmt eða hefur verið borið er ósönnuðum ásökunum. Leggist út í rennusteininn eða syndið í Skituvík Dr. Dags til að leita frétta af slíku. Þið munuð örugglega finna blóðugt bindi eða skitið blað við ykkar hæfi.

IMG_8160 bFoto. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2017.

Ég var svo heppinn hér um daginn að hljóta bestu afmælisgjöf sem ég hef fengið í langan tíma og það fyrirfram. Kona mín bauð mér fyrr í vikunni á tónleika með Woody Allen og Eddy Davis New Orleans Jazz Band. Hún hafði keypt sæti á besta stað í Amager Bio, þar sem Woody og félagar léku á Jazzhátíðinni í Kaupmannahöfn.

Woody and band

Foto. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Tónleikarnir voru frábærir, ég var í sæluvímu í að minnsta kosti tvo daga eftir tónleikana, og eins og ég skrifaði á FB mína: What an evening! Finally, I discovered that Woody is taller than I thought. He might not play like Benny Goodman, and even at times he plays like Elmer Fudd on the goose flute. But what a night. The guys in the band gave Jazz relief. They love what they are doing and everyone loves them. This was the best Birthday present (in advance) in ages. Kiss mmmah Irene.

Já maður verður svo sentímental þegar árin líða. Þið þekkið þetta. Hér deili ég með ykkur sneið af afmæliskökunni minni, fyrirfram (ég er alltaf að heiman á deginum) og nokkrar myndir sem ég tók á tónleikunum. 

Ég gat því miður ekki spurt Woody, hvort hann myndi taka upp næstu mynd sína á Íslandi … en ég tel það mjög sennilegt. Titillinn verður A Summer in Shitvik.


Dysnes, Dalvík og Dys

DMR-160516 2

Mjög ánægjulegt var í sl. mánuði að fylgjast í fréttum með rannsókn á kumlateignum við Dysnes í Eyjafirði. Það er enn án nokkurs vafa fundur sumarsins og skákar hann útstöðinni sem byggð hefur verið fyrir landnám í höfði dr. Bjarna F. Einarssonar.  Á Dysnesi voru rannsökuð bátskuml, því þar vilja hugaróramenn sem dreymir vota drauma um heimshitnun reisa alþjóðlega höfn þar sem Eyfirðingar geta gerst auðmjúkir þjónar þeirra sem sigla um ísfrí norðurhöf framtíðarinnar.

DMR-164262 2

Þótt fréttir væru fullar af kjaftæði, t.d þess hljóðandi að Dysnes væri eins og allir aðrir minjastaðir við ströndina, að fara á kaf eða brotna í sjó fram af öldugangi, er ljóst að þessi staður var alls ekki í neinni hættu af náttúrunnar völdum.

Eina hættan sem steðjaði að honum, áður en fornleifafræðingar fundu kumlateiginn, var græðgi manna sem sjá gull og græna skóga í hafnarstæði sem mun endanlega gera út af við allt líf í Eyjafirði.

Fréttinni af kumlunum sem voru í hættu var svarað fjálglega af pólitískum amlóða úr vinstrigrænum sem hrópaði í fjölmiðlum að fornleifafræðinga (les: sjálfseignar- og einkafyrirtækið Fornleifastofnun Íslands) vantaði 300.000.000 króna til að skrá allar strandminjar á Íslandi. Menn komast greinilega í einhverja vímu á sumrin. Ungstalínistinn úr VG, sem hefur látið sig heillast af fornleifabissness, vill láta ríkið gefa prívatfyrirtæki úti í bæ skitnar 300.000.000 til að hægt verði að reisa fullt af höfnum við heimskautabaug án þess að rekast á fornleifar. Já, þegar RÚV flytur aðeins fréttir af Pútín, Trump og örfáum gargandi vitlausum múslímum í gúrkutíðinni, kæta fornleifafræðingar fréttastofurblækur með hverri sensasjóninni á fætur annarri.

Kumblin á Dysnesi eru reyndar hinar áhugaverðustu fornleifar og verður spennandi að bíða þess hvað fæst úr frekari rannsókn á bátskumlunum, sem í æsingi leiksins urðu að skipakumblum hjá blaðamannasauðunum syðra. Kumlin minna mjög á kuml frá 9. og 10. öld í Norður Noregi, og á skosku eyjunum sem og í Sebbersund við Limafjörð í Danmörku.

DB83vLMXgAEZVVp

Ég skoðaði fallegar uppgraftarmyndir frá rannsókninni á Twitter-síðu Hildar Gestsdóttur sem ber sama nafn og varða ein forn sem vísaði mönnum leið yfir hálendið fyrir langalöngu. Beinakerling heitir síða nútímafornleifafræðingsins Hildar, og vísar víst til kunnáttu hennar í sjúkleika beina, en forðum bar varðan Beinakerling annað nafn sem var anus (í kvenkyns beygingu). Mig klæjaði í fingurna þegar ég sá myndirnar á anusi Hildar og gladdist yfir því hve miklu betur Hildur grefur en afi hennar hann Gísli frá Hala gerði. Ég minntist einnig Dalvíkurkumlanna sem fundust ekki langt fjarri fyrir 108 árum síðan og voru rannsökuð af danska liðsforingjanum og landkönnuðinum Daniel Bruun.

DCTNsTcXcAELYwr

Myndin efst á þessu bloggi sýnir burstadreng Daniels Bruuns, líklega strák frá Dalvík, sem hefur fengið heiðurinn að vinna við merkan fornleifagröft. Hann komst þó aldrei í blöðin. Nú var Bruun ekki fornleifafræðingur en kunni samt dável til verka og árangurinn af því þekkjum við frá frábærum verkum hans um Ísland og Grænland, þó hann sé kannski nú orðið þekktastur fyrir rannsóknir sínar í Suður-Túnis.

Svo skemmtilega vildi til að meðan Dysnes var rannsakað af kollegum mínum, komst ég sjálfur í lok júní í návígi við dysjar á nesi litlu um klukkustundarakstur frá Reykjavík. Ég var á ferð með góðum vini, konu minni og syni. Nesið að arna heitir einfaldlega Dys.

IMG_7806 (2)

Dys

Mér sýndist ég sjá að minnsta kosti fjögur kuml á staðnum og sex ef ég væri haldin ótemjandi ímyndunarafli "fóstru grænlensku kvennanna á Skriðu". Er ekki tilvalið að byggja höfn þarna við nesið? Jafnvel fríhöfn þar sem það besta sem Íslendingar eiga: súkkulaðirúsínur, Tommaborgarar og SS-pylsur verða seldar á uppsprengdu verði og opnaður verður almennilegur unisex hórukassi, Fjallkonan Fríð, svo þeir sem sigla um brædda póla geti létt á þungri pyngju sinni, áður en þeir eygja uppsveitir Vladivostok, Ósaka eða Shanghæ, eftir að þau bæli hafa farið undir ímyndunarvatn, og halda því áfram sem fyrst og fremst hefur drifið farmenn til dáða í aldanna rás.


Dellufornleifafræði í tímaritinu Sögu

konan_a_klukkunni (2)

Fyrir tæplega tveimur árum var hér á Fornleifi gagnrýnd afar viðvaningsleg túlkun á merkum grip fornum, sem enn er notaður í Helgafellskirkju. Það er kirkjuklukka frá 16. öld (á klukkunni er steypt árið 1547), en gagnrýni mín var sett fram í tengslum við klausturverkefni undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur prófessors við HÍ. Sjá meira í grein minni frá 2015 sem ber heitið Klausturrannsóknin undir smásjá Fornleifs.

Ég sendi í ágúst 2015 Steinunni grein mína og álit á hlekk í tölvupósti, en setti einnig hlekkinn á smettiskruddu klausturverkefnisins sem kallast afar furðulegu nafni á ensku, Monasticism in Iceland.

Ég fékk því miður engin viðbrögð frá Steinunni, hvorki svör á blogginu ellegar á Facebook. Greinilega trúir Steinunn ruglinu í sjálfri sér líkt og svo oft áður, því hún endurtók villurnar í greinarstúfi sem nýverið gaf út ásamt Völu Gunnarsdóttur í tímaritinu Sögu (LV:2017). Þar er hvergi minnst á gangrýni mína á túlkun hennar (sem reyndar var upphaflega kölluð uppgötvun nemanda hennar Völu Gunnarsdóttur) á klukkunni í Helgafellskirkju, sem höfundarnir skilgreina sem bjöllu.

Kirkjuklukkan nú sögð spænsk og sýna heilaga Barböru

Steinunn heldur að lítil mynd sem á klukkunni er, sem hún hefur ákveðið að sé spænsk og það án nokkurra haldbærra raka, sýni tengsl við Katrínu af Aragóníu en að dýrlingurinn á myndinni sé heilög Barbara.

... en fyrst var það Katrín (Catalina) af Aragon

Steinunn Kristjánsdóttir hélt hins vegar eftirfarandi fram árið 2015 á FB klaustursverkefnisins, sem einnig var til vonar og vara sett á FB Þjóðminjasafnsins: 

Aftur á móti virðist sem að konan á myndinni eigi að vera Catherine af Aragon sem var drottning á Englandi árin 1509-1533. Hún var gift Henry VIII, en blómið á myndinni er merki Tudor ættarinnar - Tudor rósin. Það sem líkist ávexti er granateplið frá Granada og er það skjaldarmerki ættar Catherine. Catherine var mjög vinsæl drottning meðal almennings á Englandi og var heittrúaður kaþólikki. Hún sýndi trú sína vel þegar hún neitaði að skilja við Henry VIII þegar hann hafði hug á að giftast Anne Boyelin. Að lokum afneitaði Henry völdum páfans á Englandi og fékk hjónabandinu við Catherine lýst sem ógildu.

Katrín af Aragóníu hefur aldrei hlotið helgi. Konan á myndinni á bjöllunni gat því á engan hátt verið Katrín þó Steinunn héldi því fyrst fram. Það var ekki fyrr en 2011 að leikari og uppistandari í Georgíu í Bandaríkjunum hafði samband við erkibiskup bandarískan og stakk upp á því að Katrín af Aragóníu yrði tekin í dýrlinga tölu. Maðurinn, sem var atvinnulaus leikari, var greinilega að vekja athygli á sjálfum sér frekar en Katrínu (sjá hér). Katrín af Aragóníu hefur aldrei borið geislabaug á neinum myndum af henni. Það hefðu Steinunn og Vala geta gengið úr skugga um án þess að vera hið minnsta menntaðar í miðaldafornleifafræði.

Í greininni í Sögu LV -1 2017 hefur sagan hins vegar umbreyst og þróast örlítið í meðförum óvenjufrjós ímyndunarafls Steinunnar, því nú heldur Steinunn því fram að dýrlingurinn á myndinni sé engin önnur en heilög Barbara. En Steinunn gleymir því, þó hún hafi sjálf fundið hollenska Barbörumynd úr pípuleir í brotum á Skriðuklaustri, að heilög Barbara var iðulega sýnd með pálmagrein í hægri hendi. Það fer nú lítið fyrir henni á myndinni á bjöllunni frá Helgafelli. Hvað varð af pálmagreininni Steinunn?

Granateplið í tengslum við Katrínu af Aragon.

Juan_de_Flandes_002

Höfundar greinarinnar um kirkjuklukkuna í Helgafellskirkju, Steinunn og Vala, héldu því upphaflega fram að granateplið sem sést á kirkjuklukkunni að Helgafelli sé hluti af ættarskildi ættar Katrínar. Enn er vaðið í villu. Þær gleyma einnig að nefna að Katrín var fyrst lofuð og gefin Artúri, bróður Hinriks VIII. Foreldrar Katrínar voru Ferdinand II af Aragoníu (Aragónía liggur á norðaustur-Spáni víðs fjarri Granada) og Ísabella (Elísabet 1) af Castillíu.

Eftir að herir þeirra hjóna höfðu endanlega ráðið niðurlögum á veldi Nasrid konunganna múslímsku (Imarat Gharnatah í Al-Andaluz sem stofnað var 1230 e.Kr.), tóku hjónin sér af og til búsetu í höllinni Alhambra.

Nafn borgarinnar og héraðsins umhverfis var ekki Granada á tímum Nasrid ættarinnar - heldur Gárnata (Karnatha) sem þýðir hæð útlendinganna á arabísku og vísar til þess að gyðingar, sem fyrir múslímunum voru ávallt útlendingar og óæðri músílmönum, bjuggu í miklum mæli á þeirri hæð sem borgríkið fær nafn sitt af. Borgin var reyndar einnig nefnd Gárnata al-Yahud á arabísku. Gyðingar í Granada, sem síðar flýðu í miklum mæli undan Ferdínandi og Ísabellu, m.a. til Portúgals og síðar til Hollands, voru rétt mátulega þolaðir af múslímum, því þekking þeirra, lærdómur og hagleikur kom sér vel fyrir hina múslímsku herfursta, sem keyptu sér það sem hugurinn girntist.

Granada var því aðeins hljóðmyndun af nafninu Gárnada. Ferdínand hinn kaþólski og Isabella spúsa hans, foreldrar Katrínu litlu og ófríðu, voru í furðu æðiskenndu gyðingahatri sínu eftir að múslímar höfðu verið hraktir á brott úr Gárnata. Þau hjónin gerði allt til að koma þeim í burtu og m.a. þess vegna varð Gárnata al-Yahud að Granada, fyrst og fremst með vísun til Maríu Meyjar og ávaxtar hennar Jesús, og táknaði granteplið la granada á trénu el granado, á myndmáli miðalda og endurreisnartímabilsins að María sé þunguð. Granateplið var einnig tákn eða allegoría fyrir kirkjuna sem safnar sama þeim sem trúa (með vísun til berjanna/fræjanna í fræbelgnum), og á síðmiðöldum er granateplið stundum sýnt í hendi Jesúbarnsins og táknar hið nýja líf sem fórnað er fyrir mannkynið. Hins vegar var granateplið aðeins lítill hluti af skjaldamerki ættar Katrínar árið 1492.

aragonhorenbout1

Katrín hljóp í spik sem hústrú Hinriks og fæddi honum engan karlkyns erfingja

Þess ber að geta að þegar Hinrik VIII var að reyna að losa sig við Katrínu, því hún gat ekki fætt honum annað en lífvana drengi og stúlkur en aðeins eina lifandi stúlku (Maríu). Karlstaulinn var einnig farinn að daðra við aðrar konur. Hann taldi að hjónabandið með Katrínu væri undir álögum og að bróðir hans Artúr hefði í raun átt samfarir við Katarínu og að hún hafi alls ekki verið hrein mey þegar Hinrik tók við henni og kvæntist.

Hinrik VIII leitaði m.a. ráða hjá sefardískum (spænskum) rabbínum búsettum í Modena á Ítalíu til að losast undan hjúskaparheitunum. Hann taldi gyðinga geta lagt til frumkristin rök fyrir því að hann fengi veittan skilnað. Í guðfræði Sefaradim-gyðinga var fjölkvæni leyft og skilnaður gerður auðveldari en hjá þýskum gyðingum. En hann gat ekki kallað til Englands gyðinga því þeir höfðu verið bannaðir þar í landi síðan 1290. Þess vegna lét hann kalla til Englands guðfræðing einn, kristnaðan gyðing Marco Raphael að nafni, til að færa sér þægileg rök úr lögmálið gyðinga. Hinrik útvegaði sér m.a. Talmúd til til að leita raka og vísdóms til að losa sig við Katrínu. Hann vissi greinilega hvað fór í taugarnar á Katrínu af Aragon og foreldrum hennar (sjá t.d. hér), sem voru meðal svæsnustu gyðingahatara, kaþólskra sem sögur fara af.

Ekki fór mikið fyrir granateplinu í skjaldamerki konungsættar spænsku. Faðir Ferdínands II var farin að kalla Granada hluta af spænska konungsríkinu árið 1475. En sigur þar var víst mest í munninum á kóngsa. Granateplið var þó ekki tekið upp sem merki Granada-ríkisins fyrr en eftir fullnaðarsigur sonarins yfir Nasrid konungunum. Þá var ávexti Maríu Meyjar, komið fyrir í skjaldamerki konungsættarinnar í mýflugumynd og reyndar fyrst á gullmynt, svo kölluðum exelentum /exelente de Granada), sem hafin var slátta á árið 1497. Hins vegar er það alrangt að granateplið hafi verið skjaldamerki ættar Katrínar líkt og Steinunn hélt upphaflega fram árið 2015.

2028605l

Granatepli á tveimur greinum var merki Granada eftir 1492 og sést fyrst neðst á hinum konunglega skildi á myntum frá 1497. Á Skjaldamerki Katrínar á Englandi, meðan að hún var drottning, fór sömuleiðis lítið fyrir granateplinu, sem upphaflega var kaþólskt tákn fyrir Jesús, barn Maríu meyjar.

2000px-Coat_of_Arms_of_Catherine_of_Aragon.svg

 

Myndin á Helgafellsklukkunni sýnir í raun Maríu mey

Ég taldi til margt í grein minni árið 2015 sem útilokar það algjörlega að konan á bjöllumyndinni sé Katrín af Aragon líkt og Steinunn hélt upphaflega fram. Það helsta er að konan á myndinni sem ég tel vera Maríu mey er með geislabaug. Hún er því helg kona. Rök mín fyrir því geta menn lesið í grein minni frá 2015, sem Steinunn afneitar. Ég tel einni ólíklegt að bjallan sýni heilaga Barböru.

En nú er Katrín, sem yfirmaður klaustursverkefnisins hélt upphaflega fram að væri á myndinni á klukkunni, orðin að Barböru í heimatilbúinni dýrlínatölu Steinunnar Kristjánsdóttur. Eitt af táknun (attribútum) Barböru er vissulega turn. Ef það er turn sem sést hægra megin við dýrlinginn en ekki gosbrunnurinn sem oft er sýndur á helgimyndum af hinum umlukta garði hortus conclusus, þá gleymir Steinunn því sem ég ritaði henni til hjálpar fyrir tveimur árum síðan: Táknrænn turn Davíðs konungs í Jerúsalem (Hebr. Mevo Dovid Melech) stendur einnig i hortus condlusus í miðaldamyndum af þessum forláta garði. Það er ekki bara Barbara sem sýnd er með turn. Stundum er turninn í garði Maríu sýndur sem gosbrunnur.

Áletrunin á bjöllunni H C sem Steinunn les sem H G stendur fyrir Hortus Conclusus (sjá grein mína frá 2015). En Steinunn telur það vera upphafsstafi klukkusteypumannsins - sem þá hefur kannski verið einhver Hector Gonzalez, því Steinunn hefur nú gert bjölluna spænska án nokkurra raka nema þeirra að ónafngreindur aðili á Englandi hafi haldið það.

Að bjallan sé spænsk eins og Steinunn lætur sér detta í hug í grein sinni í Sögu er út í hött. Íslendingar voru á engan hátt í verslunarsamböndum við Spánverja á 16. öld. Hlutir frá Spáni berast fyrst óbeint til Íslands á 17. öld. Ensk gæti bjallan verið, en engar hliðstæður eru til á Bretlandseyjum. Líklegast er að bjallan sé úr Niðurlöndum eða frá Þýskalandi, en ekki er hægt að útiloka Bretlandseyjar.

Í byrjun 16. aldar og um miðja öldinar voru majúsklar (stórir bókstafir á öllum bókstöfum orða í áletrunum (epigrafíu) aftur komnir í tísku. Bjallan var einmitt steypt á þeim tíma, árið 1547. Lag bjöllunnar minnir nokkuð á bjöllur frá því fyrir og um 1200. Slíkt lag kom aftur í tísku um tíma í Þýskalandi.

Í Þýskalandi hafði Lúther einnig gert bænina sem hefst á orðunum DA PACEM DOMINE IN DIEBVS NOSTRIS (sem er að finna á bjöllunni á Helgafelli) að sínum orðum og samdi m.a. sálm sem hann kallaði Verleih uns Frieden gnädiglich, sem byggir á þessari gömlu kaþólsku morgunbæn.

Tveir möguleikar eru hugsanlega fyrir því að prófessor við HÍ virði að vettugi athugasemdir frá kollega sem er sérmenntaður í kirkjufornleifafræði og miðaldafræðum, sem Steinunn er alls ekki.

Þeir eru að:

1) Steinunn hafi afhent Sögu greinarstúf sinn áður en að ég gagnrýndi skoðun hennar og sendi henni.

2) Hún virðir ekki þekkingu annarra og er enn á þeirri skoðun að hún hafi rétt fyrir sér um túlkun sína á kirkjuklukkunni á Helgafelli.

Það skiptir einu hvaða skýringu maður velur. Ritstjórn Sögu er til háborinnar skammar. Ritstjórarnir ættu að hafa fræðilegt bolmagn til að sjá að greinin inniheldur fjölmargar villur, vangaveltur og staðhæfingar í stað fræðilegra raka, og hefur greinin því takmarkað fræðilegt gildi. Ritstjórar eiga vitaskuld að kynna sér hvort aðrir hafi ritað um sama efni.

Tímaritið Saga virðist í einhverri fræðilegri lægð og getuleysinu er greinilega fagnað með því að setja greinarstúf með alvarlegum rangfærslum fremst í tímaritið og nota myndefnið fyrir greinina sem kápumynd. Myndin á kápunni er álíka óskýr og tilgátur Steinunnar. Ljósmyndirnar með greininni eru einnig í hræðilega bágum gæðum. Spyrja mætti, hvort að í tísku sé á Íslandi að hylla fáfræði og vitleysu, þar sem ógrunduð persónuleg skoðun háskólaprófessors með skáld í maganum sé meira virði en fræðileg rök undirbyggð með dæmum?

Höfundar greinarinnar í Sögu vitna í blogg á vefsíðu The Museum of London, þar sem Vala Gunnarsdóttir hefur sett inn fyrirspurn. Engin svör hafa borist Völu nema frá mér á þeirri síðu (Sjá hér).

Greinilegt er að mýtufornleifafræði á upp á pallborðið á Íslandi (sjá t.d. grein mína hér á undan um túlkun fornleifa í Stöðvarfirði). Það er líkast til tímanna tákn á Íslandi. Formóðir fílamannsins og fóstra eskimóakvennanna og annars rugls (sjá t.d. hér, hér, hér um alla tíð, hér, hér, hér og hér) hefur einnig hlotnast fálki með slaufu. Það er víst víðar verðbólga en í spilltum fjármálum Íslands eða ferðamannaplokkinu.

Leitið, og þér munuð finna...

Ef Steinunn Kristjánsdóttir hefði í raun og veru sökkt sér niður í fræðin í stað þess að vera á eintómu fjölmiðlatrippi með þvælukenndar tilgátur, hefði henni, fyrir ritun hneisulegrar greinar sinnar í Sögu, verið kunnugt um prýðisgóða fræðigrein eftir Hope Johnston:

CATHERINE OF ARAGON'S POMEGRANATE, REVISITED. Transactions of the Cambridge Bibliographical Society, Vol. 13, No. 2 (2005), pp. 153-173 (sjá  http://www.jstor.org/stable/41154945).

Þá hefði prófessorinn getgjarni vitað að rós og granatepli voru myndmál margs annars á 16. öld en hjónabands Arthúrs og Katrínar - eða síðar Hinriks og sömu Katrínar. Þessa grein ættu ritstjórar líka að hafa fundið og með henni getað bent Steinunni á villur hennar. Það fer greinilega lítið fyrir fræðilegri getu á Sögu. Kannski kannast ritstjórarnir ekki við Google?

2017-07-07 (1)

Við látum hér í lokin meistara Bob biðja fyrir okkur og hringja klukkum sínum fyrir fremsta grillufangara íslenskrar fornleifafræði. Henni er vitaskuld leyfilegt að svara fyrir sig. En hingað til hefur ekki verið neinn vilji hjá Steinunni að gera það nema þá á bak við tjöldin. Þögnin og yfirklór hefur hentað henni betur þegar yfirlýsingarnar í fjölmiðlunum reyndust vera dómadags rugl. En nú hefur hún hins vegar fengið tímabundið sérleyfi á ruglið í sér með grein í hinu virta tímariti Sögu. Það er allt annað og mun alvarlegra mál en að vera með delludreif í gúrkutíðinni á fjölmiðlum.

Bobbi á bjöllunni í Japan árið 1997. Þetta er einfaldlega ekki hægt að gagnrýna.

 

Sjá fyrri grein um efnið hér


Stephan G. Stephansson á Íslandi 1917

stephan_og_or_ur

Þann 16. júni sl. minntist RÚV þess að eitt hundrað ár voru liðin frá því að Stephan G. Stephansson, Fjallaskáldið, heimsótti Ísland í eina skiptið eftir að hann yfirgaf landið með foreldrum sínum og systkinum. Hann hélt t.d. ræðu í Reykjavík þann 17. júní, daginn eftir að hann kom til Reykjavíkur.

Það kom fram í fréttum Útvarps, byggt á merkum fræðilegum rannsóknum, að honum hafi verið boðið til landsins af Ungmennasambandi Íslands, Guðmundi Finnbogasyni og Ágústi H. Bjarnarsyni. Það er víst ekki allur sannleikurinn. Boðið hefur líklega aðeins náð til ferðakostnaðar og ferða Stephans um Ísland. Stephan G. var á Íslandi fram í október 2017. Í Reykjavík bjó skáldið hins vegar á venjulegu alþýðuheimili, heimili langafa míns Þórðar Sigurðssonar sjómanns. Hann bjó þá á Nönnugötu 1 b í Reykjavík (síðar á Bergstaðarstræti 50 a).

Þórður og Stephan voru systrasynir, og engu líkara var en að þeir væru bræður. Þórður var fæddur 1863, en Stephan 1853. Svo svipaðir voru þeir frændur í útliti að með ólíkindum þótti. Þórður var þó ekkert skáld og afar fámæltur maður og hlédrægur. Ég hef skrifað um Þórð langafa minn hér áður (sjá hér) fyrir það sem hann var vel að sér í, þótt mælskan væri kannski ekki hans sérgrein.

Ef einhver þekkir til ljósmyndar af móður Þórðar, Sigríði Hannesdóttur, sem fæddist á Reykjarhóli hjá Víðimýri árið 1824, þætti mér vænt um að fá af myndinni skán. Myndin af langafa mínum sem birtist í Sjómanninum hékk ávallt á vegg hjá ömmu minni og afa. En skömmu fyrir andlát ömmu, sem var elsta dóttir Þórðar, hefur hún lánað einhverjum í fjölskyldunni myndina og viðkomandi hefur aldrei skilað myndinni. Sá sem fékk myndina að láni er vinsamlegast beðinn um að skila henni til móður minnar hið fyrsta.


Lakkspjöld ástar og hjónabands

L1020492 b

I.  Inngangur

Enn freista menn þess að finna Gullskipið svonefnda á Skeiðarársandi, eða öllu heldur á Skaftafellsfjöru, þar sem skipið sökk nú að öllu heldur. Menn gefast oftast upp að lokum á vitleysunni og nú lítur út fyrir að síðasti hópur leitarmanna sé búinn að leggja árar sínar í bát.

Heimasíðu sjóræningjafyrirtækis, sem kallaðist eins og fyrirtækið Anno Domini 1667 og sem fékk leyfi frá Minjastofnun Íslands til vitleysu og ævintýramennsku, er að minnsta kosti búið að loka og læsa. Hætt er við að menn hafi rekist á lítið gull og væntanlega enga geimsteina. Minjastofnun gerir oft vísindamönnum erfitt fyrir að fá leyfi til rannsókna, jafnvel vegna duttlunga, vanþekkingar og pólitískra tenginga starfsmannanna, en stofnunin gefur hiklaust leyfi til að grafa upp loftkastala í svörtum söndum Sunnanlands. Og þegar vel liggur á er heimilað að leita hins heilaga grals á öræfum Íslands. Það er ekki laust við að íslensk þjóðminjalög séu enn ófullkomin, þrátt fyrir meira en 20 ára vinnu við að breyta þeim til batnaðar.

Eins og ég hef skrifað um áður, hefur „gullið“ úr Het Wapen van Amsterdam, einu af skipum Austurindíafélags Hollendinga, þegar fundist. Menn verða að sætta sig við það að annað gull finnist ekki, og að þeir hafi einfaldlega ekki verið læsir á þann menningararf sem skipið tilheyrir. Um það hef ég fjallað áður (sjá hér og hér).

Hér mun ég aftur á móti ég fjalla um helstu dýrgripina sem nær ugglaust eru úr skipinu. Þar á meðal eru hurðarspjöld og kistulok með lakkverki. Öðrum gripum sem tengjast hugsanlega Austurindíafarinu Het Wapen van Amsterdam geri ég svo skil síðar.

Íslendingar hirtu gripina úr Het Wapen van Amsterdam sem rak á fjörur þeirrar og endurnotuðu þessa fáséðu gripi af mikilli ánægju í kirkjum sínum. Annað sökk í sandinn, riðlaðist í sundur og um tíma brögðuðust sandormar af fínust karrýblöndu, sjófuglum til ómældrar ánægju. Er ekki laust við að sumir fuglar gargi enn "Karríkarríkarríkarrí". En gerumst nú ekki of skáldlegir á miðvikudegi og höldum okkur við efnið.

Um er að ræða:

1) Kistulok í Skógum

Kistulok, (sjá mynd efst) notað sem sálmaspjald, sem varðveitt er á Byggðasafninu í Skógum undir Eyjafjöllum og sem ber safnnúmerið R-1870. Það er komið í Skóga úr Eyvindarhólakirkju,  þar sem þar var notað sem sálmaspjald. Þar á undan hafði lokið/spjaldið verið notað sem altaristafla í Steinakirkju.

Lokinu er er lýst þannig á Sarpi :

Spjald með gylltu blómkeri, lakkerað, kínverskt eða austurlenskt, mun upphaflega " fulningsspjald" úr húsgagni, var lengi notað sem altaristafla í Steinakirkju, síðar sem númeraspjald í Eyvindarhólakirkju. Svipuð spjöld voru í nokkrum kirkjum í Skaftafellssýslu og kynnu að hafa borist hingað til lands með Austur-Indíafarinu, sem strandaði á Skeiðarársandi 1663 [Athugasemd Fornleifs: árstalið er rangt, skipið fórst 1667]. Afhent af sóknarnefnd Eyvindarhólakirkju.

Stærð: Stærð loksins var mæld af Andra Guðmundssyni starfsmanni Byggðasafnsins í Skógum þann 7.12.2015. Safngripurinn R-1870 er 72,2  cm að lengd, 2,1 cm að breidd og 51,2 cm að hæð.

Skógar E

Þess ber að geta að um miðbik 19. aldar mun einnig hafa verið til spjald, sem notað var sem sálmaspjald í kirkjunni að Dyrhólum í Mýrdal. Séra Gísli Brynjólfsson greinir frá því í grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1971 er Helgi biskup Thordersen vísiteraði kirkjuna að Dyrhólum árið 1848:

„Biskup telur, eins og venjulega, alla muni kirkjunnar. Um þá er ekkert sérstakt að segja. Fremur virðast þeir hafa verið fátæklegir. Biskup getur um „fornt og lakkerað slétt spjald, sem til forna var yfir altari en er nú brúkað til að kríta á númer og er ei heldur til annars hæft."  Þessi gripur hefur eflaust áskotnazt Dyrhólakirkju úr strönduðu skipi. Slíkt spjald er enn til í altarishurðinni í Kálfafellskirkju í Fljótshverfi.”

2) Spjald af hurð frá Höfðabrekku

Fig. 4

Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands

Spjald í hurð úr skáp sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands (Þjms. 11412/1932-122) og var áður í kirkju að Höfðabrekku í Mýrdal í V-Skaftafellssýslu.

Hurðarblaðinu er lýst á þennan hátt af Þjóðminjasafni á Sarpi:

Altarishurð, 58,5 cm að hæð og 39 cm að breidd, umgerðin úr rauðmáluðum furulistum, sem negldir eru með tveimur trénöglum í hverju horni. Listarnir eru 6,9 - 7,5 cm breiðir.  Járnlamir eru hægra megin á hurðinni, en læsingar útbúnaður enginn.  Fyllingin, sem er 44 x 24,5 cm að stærð, er úr furu, sem sjá má á bakhliðinni, en framan á er lakkað spjald með fínu austurlenzku, listskrautverki.  Grunnurinn er svartur, en uppdrátturinn er blómsturker, sem stendur á ferköntuðum reit ( borði?). Kerið er brúnflikrótt og dálítið upphleypt, 12,7 cm að hæð og 9.8 cm yfir um bolinn, útlínurnar gylltar og þannig eru einnig blóm þau öll, er upp ganga af kerinu.  Sum eru lögð með silfurlit, önnur gulls lit, ein/blaðka er brúnskýjótt eins og kerið, og efst í blómvendinum er stórt blóm með rauðum krónublöðum.  Allt er skrautverk þetta gert af hinum mesta hagleik og öryggi í handbragði. Verkið er líklega japanskt eða ef til vill austurindverskt, en ekki kínverskt.  Hugsanlegt er að gripur þessi sé úr dóti því er á land rak, er Austurindiafar braut fyrir Skeiðarársandi árið 1669 [Athugsemd Fornleifs: Þetta er rangt ártal og á að vitaskuld að vera 1667], sbr. Ísl. annála, það ár.  Úr Höfðabrekkukirkju.(Framan við bogageymslu).

Takið eftir notkuninni á orðinu dót í skráningu Þjóðminjasafns og sjá síðan skýringu sérfræðinga á því orði. Maður trúir því nú vart að grip sem þessum sé lýst sem dóti.

3) Spjald í hurð á altarisskáp í Kálfafellskirkju

Kálfafellsspjald lilleLjósmynd: Kristján Sveinsson

Hurðin er enn notuð í altarisskáp í Kálfafellskirkju í Fljótshverfi. Lakkmyndin á spjaldinu, sem er nú mjög illa farin og slitin, snýr nú inn í altarisskáp sem er frá 18. öld og sem  er undir altaristöflunni í kirkjunni, en taflan er greinilega frá 18 öld, þótt einhver hafi reynt að spyrða hana við 17. öldina. Spjaldið er svipað að stærð og hurðarblaðið frá Höfðabrekku, og með sams konar mynd og er á spjaldinu í Þjóðminjasafni og því sem hangir í Skógum (sjá neðar); það er blómsturvasa sem á er einfalt skreyti: Hjarta sem upp úr logar efst og sem tvær örvar stingast gegnum í kross að ofan.

Myndin og vinnan við vasann á spjaldinu en er greinileg unnið af sama listamanni og spjaldið frá Höfðabrekku. Lásinn/skráin sem upphaflega hefur ugglaust verið á kistu er japanskur. Hespa af japönskum kistulás hefur verið settur á utanverða altarisskápshurðin þegar lakkmyndin var látin snúa inn í skápinn innanverðan. Hvort það hefur gerst þegar kirkjan var máluð af Grétu Björnsson og eiginmanni hennar skal ósagt látið, en það þykir mér sennilegt. Spjaldsins er getið í vísitasíu árið 1714 og sneri þá fram.

Því miður hafði láðst að taka málband með í leiðangurinn til að skoða hurðina í janúar 2016 og verða mál að bíða betri tíma. Lakkmyndin á spjaldinu í Kálfabrekkukirkju er þó að sömu stærð og lakkmyndin frá Höfðabrekku og eru myndirnar spegilmyndir hverrar annarrar.

L1020585 c

Hespa af læsingu af japanskri kistu. Hespan hefur verið tekin af japönsku lásverki. Hægt er að sjá notkunina á henni á myndunum hér fyrir neðan. Hluti hennar, þ.e. spjaldið, var endurnotað sem skráarlauf þegar lakkspjaldið var sett í hurðarramman á altarisskápnum. Sænskættaða listakonan Gréta Björnsson (sem upphaflega hét Greta Agnes Margareta Erdmann) og eiginmaður hennar Jón Björnsson málarameistari máluðu skápshurðina eftir forskrift Önnu Jónsdóttur frá Moldgnúpi, sem og kirkjuna að innan í eins konar sænskum "horror vacuii-stíl" með tískulitum 8. áratugar 20. aldar. Hugsanlegt er að þau hafi sett gulllakk á hespuna og shellakk yfir það, þannig að bronshespan hafi varanlega, gyllta áferð. Hjónin Jón og Gréta skreyttu ófáar íslenskar kirkjur að innan. Ljósmynd Kristján Sveinsson.

Hespur á Namban b

Hér sést hvernig hespur eins og sú sem er á altarishurðinni að Kálfafelli, voru festar á lok kistla og skrína og var hlutinn af lásafyrirkomulaginu. Myndir þessar eru af netinu og hespurnar og lásarnir á Namban-lakkverki með perlumóðurskreyti frá lokum 16. aldar og byrjun þeirrar 17, listmunum sem Portúgalar sóttu mjög í. Namban var það heiti sem Japanar gáfu Portúgölum og þýðir Namban einfaldlega Suðrænir barbarar. Barbararnir höfðu þó sæmilega smekk og voru sólgnir í listiðnað Japana - og gátu borgað fyrir sig með með gulli sem þeir höfðu ruplað í Suður-Ameríku. Þessir lásar héldust þó áfram í notkun langt eftir 17. öldinni á kistum jafnt sem á kistlum og smærri skrínum. Myndir fundnar á veraldarvefnum.

II.  Rannsóknarferð á Gullskipsslóðir þann 23.janúar 2016

Laugardaginn 23. janúar 2016 svifu þrír þjóðlegir menn á besta aldri langt austur í sveitir í sænskum eðalvagni eins þeirra. Slíkur fararskjóti er vitanlega við hæfi þegar menn fara að vitja gulls og gersema úr Austurindíafarinu Het Wapen van Amsterdam, Skjaldamerki Amsterdamborgar. Samferðarmenn mínir eru oft miklar fræðilegar hjálparhellur fyrir ritstjóra Fornleifs.

Verðrið var með ólíkindum gott, enginn snjór á láglendi, sólskin upp úr hádegi og hlýtt. Fyrst var komið í Skóga, á Byggðasafnið í Skógum, þar sem á móti okkur tók einn helsti fornfræðingur þjóðarinnar, Þórður Tómasson sem og  starfsmaður safnsins í Skógum Andri Guðmundsson.  Við ljósmynduðum spjaldið/kistulokið með lakkverkinu sem þar er að finna og sem ég hef ósjaldan haft í huga síðan ég kom fyrst í Skógasafn er ég gróf þar sem ungur námsmaður öðrum efnilegum ungmennum undir stjórn Mjallar Snæsdóttur á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum.

skogarcollage

Hér má sjá efst yfirlýstan Einar Jónsson frá Skógum, Þórð Tómasson og Kristján Sveinsson, og í neðri röð Andra Guðmundsson með spjaldið góða úr Het Wapen van Amsterdam, síðan ritstjóra Fornleifs að bograr yfir lakkverkinu sem hann hafði ekki strokið síðan 1993 og að lokum unglambið Þórð Tómasson í Skógum. 23. Janúar 2016. Ljósmyndir Kristján Sveinsson og Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Við ræddum mikið og lengi við meistara Þórð sem þótti vitaskuld áhugavert að við hefðum gert okkur leið um miðjan vetur á safnið hans, sem hann hefur byggt upp með svo miklum myndabrag. 

Kristján við stýriðKomið var fram yfir hádegi er við héldum áfram uppfullir af fróðleik.  Áð var í Framnesi í Mýrdal í einstaklega fallegu sumarhúsi sem Einar Jónsson lögfræðingur og sagnfræðingur hefur byggt með öðrum, Einar var staðkunnugur leiðsögumaður okkar þremenninganna vísu í sænska Veltisvagninum. Þegar við höfðum borðað hádegisverð sem við höfðum tekið með okkur úr stórborginni og rætt við móðurbróður Einars, hinn kankvísa Siggeir Ásgeirsson í Framnesi, kom Kristján Sveinsson, sagnfræðingurinn prúði og bílstjóri okkar í ferðinni, okkur að Kálfafelli í Fljótshverfi. Þar hafði kirkjan verið skilin eftir opin fyrir okkur, þökk sé síra Ingólfi Hartvigssyni á Kirkjubæjarklaustri, sem því miður gat ekki heilsað upp á aðkomumenn vegna anna. Við gengum í kirkju og tókum margar myndir af altarisskápnum og héldum svo að Núpsstað þar sem við heimsóttum kirkjuna þar til að fá andlega blessun áður en við leituðum aftur á vit stórborgarinnar.

kalfafellskirkja

Kálfafellskirkja. Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

En maður lifir ekki á andlegu brauði einu saman. Á bakaleiðinni áðum við á nýju hóteli í Vík, þar sem ritstjórn Fornleifs bar mat á samferðamenn sína. Það var hin besta máltíð fyrir utan undarlegustu sósu sem ritstjóri Fornleifur hefur bragðað - Opal-sósu !? Hún var borin fram með ljúffengri lambakrónu. Ópalsósa er alvarlegt slys og sullumall í íslenskri matargerðarlist sem ætti að banna. Miklu nær væri fyrir hótel á slóðum Gullskipsins að bjóða upp á lambakjöt framreitt á indónesískan hátt og kalla réttinn t.d. Het Wapen van Amsterdam. Tillaga þessi er hér með til sölu.

Þegar til Reykjavíkur var komið, eyddum við kvöldstund með kaffi, te og meðlæti heima hjá Kristjáni Sveinssyni, sem dags daglega er starfsmaður hins háa Alþingis. Úti í rómagnaðri og magnesíumgulri Reykjavíkurnóttinni var farið að snjóa, en þríeykið ræddi afar ánægt um árangur ferðarinnar sem var mikill, þó ekki væru notaðir radarar, fisflugvélar, dýptarmælar, Ómar Ragnarsson eða annar álíka hátæknibúnaður – aðeins ljóskastari frá 1983 og myndavélar, ein þeirr óttarlegur garmur.

III.  Myndmálið á spjöldunum

Kálfafell samanburdur largeMyndmál lakkverksspjaldanna þriggja er það sama: Blómavasi, sem upphaflega virðist hafa átt að vera brúnleitur, jafnvel með skjaldbökuskeljaráferð. Hugsanlega var listamaðurinn að reyna að sýna japanskan bronsvasa. Vasinn stendur á litlum þrífæti sem sem hvílir á ferningi/plötu á borði. Blómin í vasanum eru greinilega sum austurlensk, en vel þekkjanleg (sjá neðar).

Spjöldin úr Höfðabrekkukirkju og Kálfafellskirkju eru nær eins að útliti og gerð og blómavasarnir á þeim nær nákvæm spegilmynd hvers annars. Spjaldið frá Höfðabrekku er nokkuð slitið þannig að litir og gylling hafa afmáðst. Hins vegar er spjaldið í altarisskápnum að Kálfabrekku mjög illa farið þar sem lakkið hefur sums staðar losnað frá undirlaginu og tréspjaldinu undir. Spjöldin gætur vel verið úr sama grip, skáp eða kistu. Þau eru örugglega ættuð frá sama verkstæðinu og eru að mínu mati gerð af sama handverksmanninum.

Spjaldið í Skógum er greinilega frá sama verkstæði og spjöldin frá Kálfafelli og Höfðabrekku, en gerð með annarri tækni og á helmingi þykkara spjald. Myndmálið er það sama og gert eftir nær sama skapalóni, en er aðeins gyllt en nær ekkert litað nema vasinn sjálfur. Gyllingin hefur máðst nokkuð af og ekki er ólíklegt að það hafi gerst þegar á strandstað. Hinn stóri sandpappír Íslands er ekki fínkornóttur við viðkvæma hluti eins og þennan.

Á blómavösunum (sem í verkinu Kirkjur Íslands eru svo þjóðlega kallaðir "jurtaker") ofarlega er skreyti: hjarta sem logar úr að ofan og sem tveimur örvum hefur verið skotið í gegnum í kross að ofan.

Skogar detail repaired

Afar erfitt reyndist að taka mynd af spjaldinu í Skógum vegna endurskins frá lakkinu og án einhvers apparats til að sía ljósið. Á þessari mynd af spjaldinu í Skógum, sem sýnir dýptina í myndverkinu nokkuð vel, hefur endurskin frá lampa verið fjarlægt með photosjoppu hægra megin við vasann. Ljósmynd Kristján Sveinsson.

hjartað

Vasi með logandi hjarta og örvum á spjaldinu í Kálfafellskirkju. Ljósmynd Kristján Sveinsson.

 

IV.  Uppruni og aldursgreining lakkspjaldanna sem talin eru vera úr Het Wapen van Amsterdam

Engin vafi leikur á því að lakkspjöldin þrjú eru japanskt verk og gerð af japönskum listamönnum á 17. öld. Þau eru annað hvort framleidd á eyjunni Kyushu í Japan eða í Macau í suður-Kína, þangað sem japanskir lakkverkslistamenn, kaþólskir, höfðu flúið vegna trúar sinnar frá Japan og héldu þar áfram að framleiða fyrir portúgalskan markað sem upphaflega hafði hafið innflutning á lakkverki til Evrópu á 16. öld.

Afar sennilegt má því telja að spjöldin séu reki úr Het Wapen van Amsterdam. Strönduð verslunarskip önnur frá VOC, Vereenigde Oostindische Campagnie, frá Hollandi þekkjum við ekki við Ísland frá þessum tím. Það álit manna að spjöldin séu komin úr skipinu virðist því engum vafa undirorpið.

Hugsanlega verður hægt að skera úr um, hvort spjöldin séu frá Japan eða Macau í Kína með efnagreiningum á lakki og undirlaginu undir lakkinu, og stendur til að sækja um leyfi til slíkra rannsókna sem gerðar verða af portúgölskum sérfræðingi í forvörslu sem vinnur að doktorsverkefni um lakkverkshúsgögn sem voru flutt frá Austur-Asíu til Portúgals.

V.  Aldursgreining

Aldursgreiningin á lakkspjöldunum sem nær örugglega rak í land á Íslandi árið 1667, er einnig hægt að byggja á samanburðarmyndefni á kínversku og japönsku útflutningspostulíni frá sama tíma.

Blómavasar áþekkir þeim sem skreyta vasana á lakkverksgripunum á Íslandi, var greinilega mjög hugleikin Portúgölum og síðar Hollendingum á 17. öldinni og er hann upphaflega skreyti sem kom fyrir á kínversku postulíni en síðar t.d. á fajansa frá Delft og öðrum borgum í Hollandi. Blómavasi á þremur litlum fótum með tígullaga stalli undir kemur oft fyrir á kínverskum og japönsku postulínsdiskum og skálum frá síðasta hluta 16. aldar og meira eða minna alla 17. öldina og er algengastir á leirtaui frá síðari hluta aldarinnar. Her skulu sýnd nokkur dæmi. Einn diskanna er evrópsk eftirlíking og gaman væri að sjá hvort einhver sér í fljótu bragði hver diskanna er þýskur.

Arita 1

 

Arita 2

VI.  Túlkun myndmálsins

Hollenskur listfræðingur, Christiaan Jörg að nafni, sem er vafalítið fremsti sérfræðingur heims í innfluttu lakkverki frá Japan og Kína til Portúgals og Niðurlanda, hefur aðstoðað mig við rannsóknir mínar á lakkverkinu sem rak á fjörur Íslands. Hann lagði upphaflega til að vegna skreytisins, hins logandi hjarta með örvum, að spjöldin væru gerð á Macau, þar sem hann taldi að hjartað væri hjarta Ágústínusar eða brennandi hjarta Krists eða Maríu meyjar, cor ardens, þ.e.a.s. kaþólskt tákn.

Við nánari athugun hefur þetta þó ekki reynst rétt tilgáta hjá Jörg. Logandi hjarta með örvum sem skotið hefur verið að ofan er miklu frekar algengt tákn hjónabands í Hollandi sem og á Ítalíu og í Portúgal á 17. öld. Fjöldi dæma um þetta tákn, eitt og sér ellegar í tengslum við annað tákn, vinarhandabandið eða hjónahandabandið, hefur fundist á mismunandi gripum í Hollandi sem eru frá sama tíma og óheillafleyið Het Wapen van Amsterdam.

Ef lakkverkið, sem varðveist hefur á Íslandi, hefur verið framleitt í Japan, er ekki víst að Japanir, sem voru mjög andsnúnir harðhentu kaþólsku trúboði og þreyttir á öfgafullri framkomu Portúgala á 16. og í byrjun 17. aldar hafi tengt þetta tákn trú.

Mun líklegra verður að teljast, að einhver sem vel var í álnum í Hollandi hefur pantað gripi frá Batavíu (Jakarta á Jövu) með þessu tákni á, til að færa hjónakornum í Hollandi að gjöf.

Hollenski fornleifafræðingurinn og leirkerjasérfræðingurinn Sebastiaan Ostkamp, sem er hafsjór að fróðleik um miðalda- og endurreisnarfræði, og að mínu mati einn fremsti sérfræðingur á því sviði, hefur sýnt fram á það í mjög áhugaverðri grein um táknmál hjónabands í hollenskri list, grein sem er afar áhugaverð fyrir evrópska listasögu og skilning á myndmáli hjónabandsins á 17. og 18. öld.

1-P1260860 b223574_449246045149325_1632337050_n

Handaband og brennandi hjarta. Tvö brot af diskum. Til vinstri er brot af ítölskum fajansadiski sem er jarðfundinn í Graft í Norður-Hollandi. Til hægri brot úr hollenskum fajansadisk sem er í eigu einkasafnara. Myndirnar er teknar af Sebastiaan Ostkamp hjá Terra Incognita í Amsterdam, sem vinsamlegast hefur sent mér þær.

Pyngja Rijksmuseum

Pyngja útsaumuð með gull og silfurþræði. Upphafsbókstafirnir M og S eru sitt hvoru megin við hjartað, en á hinni hliðinni eru bókstafirnir D og A og standa þeir fyrir Dirck Alewijn (1571-1637) sem giftist Mariu Schurman (1575-1621). Pyngjan er talin vera frá því um 1617-1620, en líklega eldri þar sem þau MS og DA gengu í hjónaband árið 1599. Þau voru ekki kaþólikkar. Rijksmuseum, Amsterdam (BK-NM-8327).

 

Fries Museum 1699 b

Það er ekki Maríumynd sem sést á þessu meni, né aftan á samkvæmt lýsingu safnsins sem varðveitir það. Hjartað (safnnúmer Z08959) er túlkað sem trúlofunargjöf frá 1600-1699 og er að finna í Fries Museum í Leuwaarden á Fríslandi (sjá frekar hér).

Annað tákn sem sést á gjöfum sem gefnar voru við brúðkaup í Hollandi, voru gripir með einmitt myndir af blómavösum; t.d. myndir af blómavösum á leirtaui, fajansa og postulíni. Svo allt ber að sama brunni.

Hið logandi hjarta, stundum ásamt handabandi hjóna eru tákn sem sett voru á alls kyns gjafir handa nývígðum hjónum. Lakkgripirnir sem rak á fjörur Íslands voru því vafalaust hlutar úr kistum, skápum eða álíka húsgögnum sem einhver Hollendingur sem var vel í álnum hafði pantað til til að gefa sem gjöf við brúhlaup.

imageproxy.aspx

Portúgalskur diskur frá því um 1660-1700, fundinn í jörðu í Hollandi árið 1982. Hann var gerður í Lissabon og fundinn við rannsóknir við göturnar Visserdijk-Van Bleiswijkstraat í Enkhuizen þar sem rannsóknir fóru fram 1994 og 2010. Huis van Hilde (8727-04). Hér fyrir neðan er ítalskur majolicadiskur fra lokum 16. aldar eða byrjun 20. aldar.

Majolica italian

VII.  Blómin í vasanum

"Segðu það með blómum", einkunnarorð Interflora-keðjunnar, þekkja allir rómantíkerar sem komnir eru á aldur. Japanir eru mikið fyrir blóm, og frá örófi alda hafa ákveðin blóm verið notuð sem tákn fyrir góða eiginleika og fagrar kenndir. Það er ekki laust við að flest blómanna í vösunum á lakkverkinu sem rak í land á Íslandi árið 1667 hafi verið valin til segja það sama og hjartað og örvarnar á vasanum: Þ.e. Til hamingju með brúðkaupið. Uppstilling blómanna er eins konar Ikebana blómaskreyting, sem er mikil list í Japan.

Ritstjóri Fornleifs er sannast sagna hvorki mikill grasafræðingur né blómaræktunarmaður. En karlinn telur sig þó með hjálp sér vísari fólks þekkja blómin á lakkspjöldunum. Flest blómin tákna ýmislegt sem tengist hjónabandi og árnaðaróskum við þann áfanga í lífi margra.

Blómin í vasanumÍris, Iris Sanguinea (Japönsk Iris)

Jap. Ayame.

Blómið táknar göfgi eða ættgöfgi, glæsileika sem og von og visku. Rauðleit eða írrauð íris var upphaflega aðeins til í Ameríkunum. Blómin á spjöldunum eiga að öllum líkindum að tákna purpurarauðar Írisar. Purpurarauður litur táknaði Meðal Japana visku og von en  tengist einnig göfgi eða ættgöfgi og glæsileika, von og visku.

Freyjulykill, Primula Sieboldii (Enska:Primrose).

Jap. Sakurasou

Sakurasou táknar ástarþrá eða langlífa ást.

Kirskuberjablóm, Prunus serrulata (Japanskt kirsuberjatré).

Jap. Sakura

Sakura táknar hjartafegurð.

Bóndarós,  Paeonia (ættin Paeoniaceae)

Jap. Botan

Á lakkspjöldunum þremur má sjá bóndarósir sem eru við það að springa út.

Bændarósin táknar m.a. velmegun, auð og góða auðnu. 

Bóndarósin var flutt frá Kína til Japan á 8. öld og ræktuð þar í klaustur- og hallargörðum fram til 1603 þegar farið er að rækta blómið víðar. Síðar á 19. og 20. öld voru peóníutré/-runnar fluttir út frá Yokohama í Japan til Evrópu og Ameríku.

Hugsanlega má einnig sjá eina staka fræblöðku af hlyn sem hefur verið stungið í blómaskreytingarnar í vösunum.

Japanskur hlynur, (Acer Palmatum).

Jap. Momiji.

Momiji táknar hendur barna og er þar átt við blöðin á hlyninum. Er tákn frjósemi og barnaauðs. Hlynurinn táknar einnig tímann í japanskri list.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 2017

Þakkir.

Höfundur þakkar sérlega Kristjáni Sveinssyni og Einari Jónssyni fyrir fylgdina á Gullskipsslóðir í janúar 2016. Þakkir færi ég einnig Christiaan Jörg, Sebastiaan Ostkamp, Mariu Joao Petisca og Jan van Campen fyrir veittar upplýsingar við ritun greinarinnar.

Greinin er tileinkuð föður mínum, sem ættaður var úr Amsturdammi og var sömuleiðis mikill áhugamaður um Austurlandaverslun og blómarækt. Hann hefði orðið 91 árs í gær hefði hann ekki fallið frá um aldur fram.

Nokkrar heimildir.

Duijn, Dieuwertje M., 2010: Het vondstmateriaal van de opgraving op het terrein van de Banketfabriek in Enkhuizen. Materiaalpracticum master archeologie en prehistorie, Universiteit Amsterdam

Impley, Oliver & C.J.A. Jörg 2005: Japanese Export Lacquer 1580-1850. Hotei Publishing. The Netherlands.

Jörg, C.J.A. 1983: Oosters porselein Delfts aardewerk. Wiselwerkingen. Uitgeverij Kemper Groningen.

Ostkamp, Sebastiaan 2004: Tortelduiven en vlammende harten; Huwelikssymbolen op zilver en aarewerk uit Alkmaar tussen 1575 en 1675. Vormen uit vuur 186/187, 2004/1-2 ;[Sérnúmer: De verbogen stad. 700 jaar Alkmaar onder de grond], 112-168.

Tómasson, Þórður 2011. Svipast um á söguslóðum. Skrudda 2011.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband