Voru landnámsmenn hasshausar?
10.1.2013 | 12:04
Þótt mikilvæg jarðvegssýni hverfi á Þjóðminjasafni Íslands, eins og greint var frá í síðustu færslu, er gömlum jarðvegssýnum greinilega ekki fargað á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn. Þar hafa t.d. varðveist sýni frá sameiginlegum rannsóknum norskra og danskra fornleifafræðinga í Noregi á 5. og 6. áratug síðustu aldar.
Sýnin, sem tekin voru á Sosteli á Austur-Ögðum í Noregi (sjá mynd efst), hafa nú loks verið rannsökuð og sýna m.a. að í S-Noregi hafa menn haft frekar stórfelda ræktun á hampplöntum, cannabis sativa. Í jarðvegssýnunum hafa menn nú bæði fundið mikið magn af frjókornum hampplöntunnar. Ræktunin í Sosteli mun hafa verið einna mest á ákveðnu tímabili á 7. - 8. öld.
Var þannig umhorfs í Sosteli á Járnöld?
Hampplöntuna er, eins og menn vita, hægt að nýta á ýmsa vegu. Norskir fornleifafræðingar hafa þó ekki ímyndunarafl til annars en að álykta að kannabisplantan hafi verið ræktuð í Noregi en til framleiðslu á þráðum til vefnaðar líkt og línplantan (hör). En ekkert útilokar þó að það að seyði af plöntunum sem innihaldið hefur eitthvað af tetrahydrocannabinóli, sem gefur vímuástandið, hafi verið nýtt. Spurningin er bara hvað mikið plönturnar í Noregi inniheldur af efninu. Þess má geta í gröf drottningarinnar á Osebergskipinu frá fannst kannabisefni, og fræ hampplantna. Einnig hafa til dæmis fundist kannabisefni og fræ hampplöntunnar í meni sem fannst í gröf "víkings" eins í Póllandi (sjá hér).
Á Íslandi höfum í tungu okkar orð sem greinilega sýna í hvað hampurinn var notaður. Hempa, það er hempur presta og munka og yfirhafnir kvenna, hafa líklega verið úr fínlega ofnum hampi. Ef menn þekkja ekta póstoka, þá voru þeir lengi vel ofnir úr hampi (canvas). Um uppruna orðsins tel ég best að læra af dönsku orðabókinni.
Því meira sem ég hugsa út í efnið, því meira trúi ég því að landnámsmenn hljóta hafa verið stangarstífir af hassi við komuna til Íslands. Af hverju taka menn annars upp á því að sigla út í óvissuna til einhverrar fjarlægrar eyju út í Ballarhafi. Íturvaxnar hempukladdar pusher-drottningar eins og drottningin í Oseberg, sem talin er hafa verið af innflytjendaættum úr Austurlöndum, skaffaði væntanlega efnið. Þessi sérhæfða norska búgrein hefur síðan lagst af, væntanlegra vegna lélegra skilyrða til ræktunar á Íslandi. Eða allt þar til menn uppgötvuðu að hægt var að stunda stórfellda rækt á kannabis á fjórðu hæð í blokk. En kannski væri samt ástæða til að athuga hvort hampplantan hafi skilið eftir sig frjókorn á Íslandi fyrr á öldum.
Einu langar mig þó að bæta við, þó það geti verið til umræðu í nýútkominni grein um fund frjókornanna sem út er komin í norska tímaritinu Viking, sem ég er ekki búinn að sjá og hef enn ekki náð í.
Þegar ég athugaði hvernig frjókorn hampplöntunar líta út, sá ég að þau var nær alveg eins og frjókorn humals (humulus) og þetta hefur verið bent á áður (sjá hér). Ég er því ekki alveg viss um hvort ég trúi því lengur, að það sé frekar kannabis en humall sem ræktaður hefur verið fyrir 1300 árum í Sosteli í Noregi. Ekki fundust kannabis-fræ í Sosteli. Það verður að teljast með ólíkindum, þar sem fornleifafræðingarnir norsku álykta að frjókornin séu svo mörg á þessum stað vegna þess að plöntunum hafi verið varpað í mýri til að leysa plönturnar upp, svo hægt væri að brjóta niður trefjarnar í hampinum til framleiðslu þráðs.
Fræin finnast sem sagt ekki, en frjókornin er mörg. Catharine Jessen jarðfræðingur á Þjóðminjasafni Dana, sem greindi frjóin frá Sosteli, sagði mér, að magn frjókornanna, sem var óvenjumikið, bendir til þess að það hafi frekar verið kannabis en humall sem menn ræktuðu í Sosteli. Hið mikla magn frjókorna er aðeins hægt að skýra með því að plöntunum hafi verið kastað í mýrina til að verka hana. Humall er ekki verkaður á sama hátt og hampur og engar trefjar unnar úr honum. Jessen mun leita fræja cannabisplantnanna við áframhaldandi rannsóknir sínar á jarðvegssýnunum.
Nú er best að hampa þessu efni ekki meira en nauðsyn krefur. Kveikið í pípunni og komið með hugmyndir.
Ítarefni:
Michael P. Fleming1and Robert C. Clarke2 Physical evidence for the antiquity of Cannabis sativa L. http://www.druglibrary.org/olsen/hemp/iha/jiha5208.html
http://videnskab.dk/kultur-samfund/vikinger-dyrkede-hamp-i-norge
http://sciencenordic.com/norwegian-vikings-grew-hemp
Meginflokkur: Fornleifafræði | Aukaflokkar: Menning og listir, Fornleifar | Breytt 11.1.2013 kl. 06:28 | Facebook
Athugasemdir
Hampur er auðvitað þekkt nytjajurt um aldir í veröldinni til fata og tóggerðar (Hampiðjan). Er ekki frekar ólíklegt að Víkingarnir hafi notið vímunnar af plöntunni án þess að heimildir um slíkt megi finna í Íslendingasögunum?
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.1.2013 kl. 12:55
Sæll Gunnar,
Menn þekktu snemma fleiri en ein not fyrir þessaai plöntu. Nú er hún vissulega notuð til margs, meðal annars til klæðninga í bíla og í sultur, smjörlíki og bjór.
Ef fræ finnast í Sosteli, sem spíruðu, væri líklega hægt að mæla tetrahydrocannabinóls í þeim plöntum sem uxu þarna fyrir 1300 árum.
En til hvers fá vopnaðir menn kannabis-massa og fræ með sér í gröfina á 10. öld eins og pólski "víkingurinn" (Vendinn) sem nefndur er hér að ofan?
FORNLEIFUR, 10.1.2013 kl. 16:34
Er nú til kannabis bjór?
Það vantar í ríkið.
Ásgrímur Hartmannsson, 10.1.2013 kl. 21:40
Það held ég nú, en þori ekki að auglýsa slíkt frekar hér.
FORNLEIFUR, 11.1.2013 kl. 06:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.