Illugi ritskoðar sögu Sovétríkjanna
22.1.2013 | 12:55
Illugi Jökulsson blaðamaður hefur í áraraðir verið ötull við að gera heimssöguna áhugaverða og aðgengilega venjulegu fólki. Á hann mikið lof skilið fyrir það, þótt oft sé sagan hjá honum í hraðsoðnu skyndibitaformi. Sagnfræðileg nákvæmni er kannski ekki í öllum tilvikum sterkasta hlið Illuga. Þótt efnið sem hann skrifar um sé fyrir almenning og það sé yfirborðskennt, er þó engin ástæða til að hliðra til sannleikanum eða slaka á heimildarýni og nákvæmni. Sérstaklega ekki þegar saga Sovétsins sáluga er sögð. Sovétríkin teljast nú til fornleifa, en sárin, sem stjórnkerfið þar olli, gróa seint.
Um þessar mundir skrifar Illugi á Pressunni röð stuttra greina undir samnefninu Illugi í útlöndum. Í gær birti hann samansuðu, sem maður hefur svo sem ansi oft lesið og séð í meðförum margra annarra, en greinin fjallaði um myndafölsun í Sovétinu og endurritun og ritskoðun sögunnar. Íkonografía Sovétríkjanna er á margan hátt álíka áhugavert rannsóknarefni og helgimyndalærdómur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.
Í grein sinni verður Illuga illilega á í messunni og gerir sig sekan um álíka athæfi og Stalín og kumpánar viðhöfðu, þegar þeir strokuðu menn út af myndum og máluðu yfir atburði á málverkum, og fjarlægðu þá úr sögunni eða rægðu þá í svaðið. Hver kannast ekki við það andbyltingalega athæfi að setja glerbrot í smjör alþýðunnar. Menn voru meira að segja ásakaðir um slíkt á Íslandi.
Illugi sýnir okkur mynd eftir stórmálarann Vladimir Serov frá 1947 (sjá efst), sem sýnir, að sögn Illuga, Lenín lýsa yfir stofnun Sovétríkjanna. Fyrir aftan hann standa Stalín, Felix Dzerzhinsky (sem Illugi kallar Drzinzinsky) og Yakov Sverdlov. Illugi greinir síðan frá því, að listamaðurinn Serov hafi síðar málað aftur sama myndefnið, eftir að Stalín féll frá árið 1953, og sett nokkra velútitekna verkamenn í stað samverkamanna Leníns. Illugi ritar: En 1953 dó Stalín og nokkrum árum seinna var skorin upp herör gegn arfleifð hans og persónudýrkuninni sem hafði fylgt honum. Þá málaði Vladimir Serov mynd sína upp á nýtt og tók nú út Stalín, Drzinsinsky og Sverdlov og setti þrjá almenna verkamenn í staðinn.
Rauðliðar og verkamenn í stað Stalíns, gyðings og pólverja. Vladimir Serov 1962
Illugi gleymir hins vegar að segja okkur, að endurskoðun Serovs, sem hann sýnir okkur sem dæmi um pólitískar hreinsanir í list, er ekki máluð fyrr en 1962, og að áður en hann málaði hana málaði hann áfram eftir fall Stalíns (1955) sama mótíf, þar sem sem Sverdlov og Dzerzhinsky standa bak við Lenín. Á verkinu frá 1955 er Stalín reyndar horfinn. Illugi fer því með staðlausa stafi.
Mynd eftir Vladimir Serov 1955. Þarna standa Sverdlov og Dzerzhinsky enn.
Nikita Khrushchev var eins og gamalt fólk veit við völd frá 1955 til 1964. Í hans tíð byrjaði Stalín smám saman að hverfa úr helgimyndalist kommanna og smátt og smátt hurfu líka gyðingar eins og Yakov Sverdlov og "Pólverjar" eins og Dzerzhinsky af hinum sósíalrellístísku íkonunum. Gyðingahatrið á tímum Khruchchevs var ekki minna en á tímum keisarans, Leníns eða Stalíns. "Fagrar" hugsýnir eins og kommúnismi Sovétríkjanna breytti engu í þeim efnum. Í dag er jafnvel talið að Yakov Sverdlov, sem upphaflega hét Jeshua-Solomon Moishevich Sverdlov, hafi verið barinn til bana af verkamönnum í Oryol árið 1919 eingöngu vegna þess að hann var gyðingur. Til að koma í veg fyrir frekari andgyðinglega múgæsingu laug flokksforystan um afdrif hans og sagt að hann hafi dáið í flensu árið 1918. En finnst Illuga þá ekki skrítið að Sverdlov sé á málverki frá 1947, sem á að sýna stofnun Sovétríkjanna? Sovétríkin voru, síðast þegar ég vissi, stofnuð árið 1922.
Sverdlov leggur á ráðin. Hann var barinn til bana árið 1919 og fjarlægður af helgimyndum Sovétríkjanna árið 1962
Felix Dzerzhinsky
Hinn blóði drifni böðull Felix Dzerzhinsky, sem einnig var fjarlægður af málverkum Serovs, var af pólskum aðalsættum. Hann féll ekki opinberlega í ónáð fyrr en 1991 (enda ekki gyðingur), þegar risstór stytta af honum úr járni árið 1958, sem kölluð var Járn Felix, var rifinn niður þar sem hún stóð fyrir framan höfuðstöðvar KGB. Dzerzhinzky var einn stofnanda og yfirmaður Cheka, sem var illræmd deild í kommúnistaflokkunum sem barðist gegn andbyltingaröflum og skemmdarverkum.
Checka samsvaraði Gestapo nasista. Síðar varð þessi illræmda stofnum kölluð GPU (Ríkislögreglan) sem var deild í NKVD, sem var forveri KGB. Felix Dzerzhinsky dó úr hjartaáfalli árið 1926 og Stalín hóf hann þá upp til skýjanna. Árið 1991 réðst frelsishungrandi alþýðan á hina risastóru styttu af Felix fyrir framan KGB höfuðstöðvarnar í Moskvu og þar á meðal fólk sem taldi að „Járn Felix" hefði verið gyðingur. Gyðingum var alltaf kennt um allt í Sovétríkjunum eins og menn muna kannski, og er svo oft enn í Rússlandi Pútíns. Í fyrra (2012) tilkynntu yfirvöld í Moskvu, að gert verði við laskaða styttuna af Járn Felix, en enn er ekki komin tilkynning um hvort og hvar á að reisa minnisvarðann um þennan forvera Pútíns í rússneska byltingarmorðæðinu.
Felix Dzerzhinsky féll loks árið 1991 sem persónugerfingur illsku og útrýminga sem áttu sér mestmegnis stað eftir að hann var allur
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Sagnfræði, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:15 | Facebook
Athugasemdir
Þessi árátta Rússa að fjarlægja fólk af myndum er oft bara tengd pólitík en það er öðru nær. Svona myndafölsun var mjög algeng í mörgum öðru samhengjum líka. T.d. má nefna tengdaföður móðursystur minnar, danskan lækni sem starfaði lengi í Mongólíu uns útlendingafóbía yfirvalda hrakti hann á brott. Hann skildi við sína dönsku konu og giftist innfæddri og eftir það voru bæði fyrri kona hans og sonur þeirra (síðar eiginmaður frænku) fjarlægð af mynd sem birtist þar stundum í blöðum og víðar. Einhvers staðar á ég báðar útgáfurnar í fórum mínum.
Matthías (IP-tala skráð) 22.1.2013 kl. 14:09
Mjög áhugavert Matthías. Mongólarnir lærðu eitthvað af þessum listum í Sovétríkjunum, en forfeður þeirra notuðu eins og þekkt er þá aðferð að fjarlægja höfuð frá bol, áður en ljósmyndir og dagblöð komu þangað.
Þekkta tíðkaðist svo sem líka í ríkjum vestur-Evrópu, þegar þau voru á lægra þróunarstigi.
Listin að svara ekki fólki og útiloka það með þögninni er skylt þessum aðferðum.
FORNLEIFUR, 22.1.2013 kl. 14:49
Er ekki búið að fótósjoppa þig út úr sögu þjóðminjasafnsins fyrir að finnast silfrið hreint?
Jón Steinar Ragnarsson, 23.1.2013 kl. 03:07
Ætli það ekki Jón Steinar, um daginn fékk ég tölvupóst frá þjóðminjaverði þar sem hún skrifaði: Þakka þér fyrir erindi þitt og hlý orð í garð Þjóðminjasafnsins nú þegar nær 150 ár eru liðin frá stofnun þess. Ég hafði sent henni þessa færslu http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1272169/ um gripi sem týnst hafa á safninu, ásamt fyrirspurn um allt annað (starf á þjóðminjasafninu):
Ég svaraði, að gangrýni mín á fyrri tíð á safninu væri vitaskuld ekki beint gegn Þjóðminjasafninu eins og því er stýrt í dag.
Í ár kemur svo loks út bók Þórs Magnússonar um silfur á Íslandi, og haldnir verða að minnsta kosti tveir fyrirlestra um silfur á Þjóðminjasafninu á 150 ára afmælinu. Ég efa að menn komi þar inn á Miðhúsasjóðinn. Þór Magnússon afgreiddi hann árið 1996 sem gangsilfur frá víkingaöld, þó svo að í honum væri gripur sem ekki gæti hafa orðið til fyrr en eftir að iðnbyltingin hófst.
En til þess er nú Fornleifur, m.a., Hann þorir þegar aðrir þegja.
FORNLEIFUR, 23.1.2013 kl. 06:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.