Nýir tímar, breyttir siðir

Artifacts-From-The-Silver-007
 

Nýverið bárust mér drög að Leiðbeiningum um umhirðu forngripa. Skjal þetta er upprunnið á Þjóðminjasafni Íslands. Það lýsir óskum safnsins, á 150 ára afmæli sínu, um hvað gera skal við jarðfundna forngripi úr fornleifarannsóknum, sem allir eiga að varðveitast á Þjóðminjasafni Íslands, nema ef annað sé tilgreint og ákveðið.

Ég fékk þessa umsögn frá félagi sem ég er meðlimur í, Forleifafræðingafélagi Íslands, sem er eitt af tveimur félögum fornleifafræðinga á Íslandi. Ég fékk skjalið harla seint, finnst mér, því það á að ræða um það á morgun (29.1.2013), og félagið á að skila áliti til Þjóðminjasafns þann 1. febrúar nk.

Í fljótu bragði sýnast mér drögin vera ágæt, þótt vanda mætti íslenskuna og varast endurtekningar. Nú á 21. öld verðum við að lúta fremstu kröfum um frágang á fornleifum og syndir forfeðranna má ekki endurtaka.

Mér er óneitanlega hugsað til frágangsins á ýmsu því sem ég sá koma til Þjóðminjasafnsins þegar ég vann þar frá 1993 til 1996. Ég uppfyllti langt frá þær reglur sem nú er ætlunin að setja, þegar ég afhenti fornleifar úr rannsóknum sem ég stýrði, en ég gerði það eftir bestu getu og vitund. Það gerði líka Mjöll Snæsdóttir, er hún afhenti þjóðminjasafni Íslands merka forngripi sem fundist höfðu við fornleifarannsóknir á Stóru-Borg sem fóru fram í fjölda ára undir hennar stjórn og á vegum Þjóðminjafans Íslands. Því miður hefur mikið magn forngripa þaðan eyðilagst á Þjóðminjasafninu,  eftir að þeir voru afhentir þangað. Þar var um tíma enginn forvörður og þegar þeir hófu loks störf var skaðinn skeður. Það var menningarsögulegt stórslys.

Ég afhenti kassa af járngripum til forvörslu á Þjóðminjasafni íslands árið 1984, í þar til gerðum fundakössum sem ég hafði fengið afhenta af forvörðum Þjóðminjasafns Íslands, þar sem mér hafði verið lofuð forvarsla á gripunum. Þegar ég hóf þar störf árið 1993, kom í ljós að járngripirnir sem fundust á Stöng árið 1984 lágu allir undir skemmdum. Ekkert hafði verið gert síðan 1984. Árið 1984 var einn forvarða Þjóðminjasafnsins Kristín Sigurðardóttir, nýútnefndur forstöðumaður Minjaverndar Ríkisins.

Gripir sem finnast sýningarhæfir 

Stundum er maður bara svo heppinn, að forngripir finnast svo að segja forvarðir.  Það gerðist t.d. á Miðhúsum árið 1980. Silfrið, sem fannst þar, var óáfallið og forverðir þurftu aðeins að bursta óhreinindi af gripunum. Kristján Eldjárn var mjög undrandi yfir þessari ótrúlegu varðveislu og spurðu finnendur í þaula út í það. Þór Magnússon Þjóðminjavörður hefði örugglega fallið á prófinu ef hann hefði afhent silfursjóðinn á Þjóðminjasafnið í dag, ef hann hefði gert það eins og hann gerði þá. Samkvæmt ströngustu reglu Þjóðminjasafnsins nú, hefði hann alls ekki mátt setja sjóðinn í plastpoka ofan í stresstösku sína eins og hann gerði samkvæmt því sem hann upplýsti. En hvað á maður að halda þegar maður finnur óáfallið silfur. Hvað á maður yfirleitt að gera þegar maður finnur óáfallið silfur í jörðu á Íslandi? Hingað til hefur það þótt við hæfi að stinga höfðinu í sandinn í stað þess að spyrja spurninga.

Skýringar á því hvað gjöra skal ef maður finnur ááfallið silfur í jörðu vantar tilfinnanlega í nýjar leiðbeiningar Þjóðminjasafns Íslands. Er ekki ósköp eðlilegt að hafa allan varann á, ef það sem gerðist árið 1980 á Miðhúsum gerðist aftur. Ég hef því beðið félag mitt að beina þeim breytingartillögum til Þjóðminjasafns, að upplýst verði hvað gera skuli finni maður óáfallið silfur í jörðu.

Eyðublöð fyrir afhenta gripi og sýni 

Hvað varðar eyðublað yfir afhenta gripi og sýni sem Þjóðminjaafnið sendi einnig fagfélögum fornleifafræðinga í nóvember sl., þykir mér það vera til sóma. En ég hafði samt búist við einhverju öðru en einfaldri Excellskrá. Í því sambandi leyfi ég mér vinsamlegast að benda á, að jarðvegssýni sem þjóðminjasafnið lét taka af jarðvegi á Miðhúsum árið 1994 eru nú týnd - ekki til - og ekki skráð inn í safnið. Excell var reyndar til á þeim tíma er sýnin voru tekin og er því engin afsökun fyrir því að sýni sem Þjóðminjasafnið lét taka séu horfin. Týndu jarðvegssýnin, sem voru frá Miðhúsum í Eiðaþinghá, höfðu aldrei verið rannsökuð. Grunur leikur á því, að það hafi verið notað sem pottamold á Þjóðminjasafni Íslands, en ekkert finnst heldur um það á skrá eða skjölum. Einn fremsti sérfræðingur safnsins um silfur, þjóðfræðingurinn Lilja Árnadóttir vill þó ekki enn tjá sig um málið.

Vitandi af slíku hvarfi, getum við fornleifafræðingar nokkuð fullvissað okkur um, að Þjóðminjasafnið varðveiti það sem afhent er til safnsins? Getur safnið yfirleitt kastað því á glæ sem það safnar, án þess að stafkrókur sé til um það á safninu? Samkvæmt nýjustu yfirlýsingum þjóðminjavarðar á 150 ára afmæli safnsins er það hægt, án nokkurra frekari skýringa.

Safn verður aldrei betra en það fólk sem vinnur þar.

Dæmi um nýlega og nokkuð athyglisverða forvörslu 

Á síðasta ári greindi ég frá fundi silfurbaugs í svonefndum Alþingisreit í Reykjavík. Á vefsíðu Þjóðminjasafns er einnig greint frá þessum fundi . Í myndasögu Þjóðminjasafni er fyrst sýnd mynd af því er ungur fornleifafræðingur er að grafa fram gripinn í felti.

Forleifauppgroftur-a-Althingisreit

Tekin hefur verið ákvörðun um að halda áfram uppgreftri á forvörsluverkstæði Þjóðminjasafns Íslands, og þess vegna hefur gripurinn verið tekinn upp með undirliggjandi mold, svo hægt væri að halda áfram nákvæmri rannsókn á honum. Svo sýnir Þjóðminjasafnið tvær myndir af moldarkögglinum sem starfsmenn safnsins tóku með sér í hús og bætir við þessari upplýsingu:

"Myndir sem sýna annars vegar moldarkökkinn og svo hins vegar þegar búið er að hreinsa lausa mold ofan af honum, áður en armbaugurinn var losaður úr honum. (Ljósm: Sandra Sif Einarsdóttir)."
armbaugur-2armbaugur-3

Takið hins vegar eftir því hvernig gripurinn leit út áður en hann var tekinn upp sem "preparat". Var mikill jarðvegur ofan á honum þá? Nei, ekki samkvæmt þeim ljósmyndum sem hafa birst í fjölmiðlum.

Einnig má glögglega sjá á báðum myndunum, að köggullinn hefur brotnað eftir að hann var tekinn upp og færður á Þjóðminjasafnið, og er það greinilega vegna þess að preparatið hefur ekki verið styrkt með gifsi, eins og tíðkast t.d. hér í Danmörku og á flestum öðrum stöðum í heiminum - nema á Þjóðminjasafni Íslands.

Röntgenmynd af kögglinum sýnir að gripurinn hefur greinileg brotnað þar sem köggullinn hefur brotnað.

Armbaugur Alþingi
Efst í þessari færslu má sjá armbauga af sömu tegund og sá hringur sem fannst í Reykjavík. Þeir fundust á Bretlandseyjum og eru frá því um 900 e.Kr.
Hér gleymdi forvörður Þjóðminjasafnsins að steypa sýnið í gifs. Líklegast brotnaði hann þess vegna, en gripurinn er í dag límdur saman.  Sjáið hér varðveisluna á silfri í Reykjavík. Hún er greinilega allt öðruvísi en fyrir Austan þar sem silfur finnst óáfallið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er viðfangsefni ókunnugt mér, en áhugavert er að lesa lýsingu þína á hvað gerist við uppgröft á t.d. málmmunum og hvað gera skuli til að minnka likur á slíku. Spurningin sem vaknar er hvort forsvaranlegt sé að stunda uppgröft á Íslandi á meðan ekki er til staðar aðilar sem stundað getað forvörslu í Þjóðminjasafni? Svona ef frá er talinn uppgröftur á stöðum sem eru að hverfa vegna sjávarrofs o.sv.frv.?

Ingimundur (IP-tala skráð) 29.1.2013 kl. 08:15

2 identicon

Sæll Vilhjálmur

Ég vildi benda þér að verklagsreglurnar voru settar upp á heimasíðu FFÍ 27. desember 2012, sjá hér http://fornleifafraedingafelagid.wordpress.com/2012/12/27/verklagsreglur-fra-thjodminjasafni-islands/ og á Fésbókarsíðu félagsins sama dag. Minnt hefur verið á reglurnar nokkrum sinnu á FB síðan þá.

Reglurnar voru einnig stuttlega til umfjöllunar á aðalfundi félagsins líkt og sást í aðalfundarboði sem sent var á félagsmenn, sjá hér http://fornleifafraedingafelagid.wordpress.com/2012/12/27/adalfundur-fornleifafraedingafelags-islands-2012/

Kveðja,

Albína

Albína Hulda Pálsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2013 kl. 10:10

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þakka þér fyrir þessa upplýsingar Albína. Ég verð að viðurkenna að langt er orðið síðan að ég hef farið inn á heimasíðu FFÍ. Ég er svo ónýtur að fara inn á FB. Er búinn að reikna að ég muni nota 1/10 af því sem eftir er ævinnar til þess, ef ég væri eins vel "tengdur" og aðrir. Get notað þann tíma til annars. Ég verð að viðurkenna að ég nota heldur ekki SMS. Finnst það vera taugaveiklunareinkenni. Er nokkur furða að maður kallar þetta blogg Fornleif.

Ég er hins vegar búinn að koma skoðun minni opinberlega til skila og bíð eftir svörum frá Þjóðminjasafni Íslands.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 29.1.2013 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband