Menntamálaráðuneyti gefur rangar upplýsingar um fornminjar
12.3.2013 | 17:03
Í fyrra lagði Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins fram fyrirspurn á Alþingi til menntamálráðuneytisins um íslenskar fornminjar í erlendum söfnum. Áhugi þingmannsins er ánægjulegur. Við erum mörg sem teljum að fágætir íslenskir forngripir, sem erlend ríki hafa t.d. lagt eign sína á, þó svo að Ísland sé ekki í lengur í ríkjasambandi við viðkomandi ríki, eigi aðeins heima á Íslandi. Líkneskjaskrínið hér að ofan, sem er frá 13. öld, er t.d. að finna í Þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn, en var upphaflega eign kirkjunnar á Keldum á Rangárvöllum. Auðvitað á þetta skrín að vera á Íslandi og hefur ekkert að gera í Kaupmannahöfn.
Spurning Unnar hljóðaði þannig:
Á ráðuneytið skrá yfir íslenskar fornminjar varðveittar á erlendri grund og ef svo er, hvaða munir og minjar eru á þeirri skrá?
Samkvæmt þjóðminjalögum, nr. 107/2001, sem enn eru í gildi, eru fornminjar annars vegar fornleifar og hins vegar forngripir. Þar sem fornleifar eru staðbundnar minjar eru engar íslenskar fornleifar til á erlendri grundu.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið sjálft á ekki skrá yfir forngripi sem varðveittir eru á erlendum söfnum en slík skrá er hins vegar til í menningarsögulega gagnagrunninum Sarpi, www.sarpur.is. Langflestir gripir eru varðveittir á Þjóðminjasafni Dana og til frekari upplýsingar má sjá á fylgiskjali lista sem tekinn er úr Sarpi yfir þá forngripi sem þar eru skráðir. Eitthvað er til af munum á öðrum söfnum, þó í mun minna mæli.
Menntamálaráðuneytið (Þjóðminjasafnið) gaf ónógar og rangar upplýsingar
Unnur Brá hefur því miður ekki fengið tæmandi svör frá Menntamálaráðuneytinu sem hlýtur að hafa ráðfært sig við starfsmenn Þjóðminjasafn Íslands.
Listi sá sem Unnur Brá hefur fengið í hendur í kjölfar fyrirspunar sinnar er alls ekki tæmandi. Fyrir utan fornleifar og forngripi í dönskum og sænskum söfnum, er þá að finna annars staðar í Danmörku, á Bretlandseyjum, Hollandi, Frakklandi, Noregi og víðar. Um marga þeirra gripa hefur verið ritað í Árbók hins íslenzka Fornleifafélags og annars staðar. En greinilega hefur enginn haft fyrir því að setja upplýsingarnar um þá í Sarp. Ég hef t.d. skrifað um einn íslenskan grip í erlendu safni í Árbókina (sjá hér). Það er áhyggjuefni að Þjóðminjasafnið hafi ekki gert góða skrá yfir íslenska forngripi og muni sem í erlendum söfnum.
Dýrabein voru flutt út af erlendum fornleifafræðingum í stórum stíl á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Fæstum þessara beina hefur verið skilað. Ég þekki til þess að stóru beinasafni frá Stóru-Borg undir Eyjafjöllum hafi verið fargað á öskuhaugum New York, m.a. vegna þess að umhverfisslys varð í byggingu þeirri þar sem stofnunin, sem var með beinin að láni, var. Ef einhver hefur áhuga á að rannsaka niðurstöður bandaríkjamannanna sem tóku að sér að rannsaka beinin, og lofuðu sömuleiðis að skila þeim, þá er það ekki hægt í öllum tilvikum.
Menntamálaráðuneytið segir réttilega í svari sínu til þingsmannsins, að engar íslenskar fornleifar findust á erlendri grund. Þetta er ekki alls kostar rétt. Til eru í söfnum á Norðurlöndunum heimildir og frumgögn um samnorrænar rannsóknir á fornleifum sem fóru fram á Íslandi. Þessi gögn eru heldur ekki talin upp í Sarpi.
Ekki get ég séð annað en að dýrabein þau sem fóru forgörðum í Nýju Jórvík á 9. áratug síðustu aldar séu forngripir samkvæmt þjóðminjalögum (sem nú heita Lög um menningarminjar) - og þess vegna tel ég víst að þingmanni hafi verið gefin röng svör og gegn betri vitund starfsmanna Þjóðminjasafnsins, en þar vinna enn menn sem aðstoðuðu við útflutning dýrabeina til rannsókna.
Sarpur tilheyrir þjóðinni en ekki starfsmönnum safnanna
Í bréfi sínu til Unnar Brár Konráðsdóttur nefnir Menntamálaráðherra Sarp, líkt og það sé einhver Mímisbrunnur. En það getur oft reynst ári erfitt að fá upplýsingar úr þeim brunni.
Í síðustu viku bað ég t.d. um upplýsingar um einn grip á Þjóðminjasafni Íslands. Gripurinn ber númerið Þjms. 635. Starfsmenn þar hafa alla möguleika til að svara um hæl, því þeir geta flett upp í Sarpi, gagnasafni sem Íslendingar hafa borgað fyrir með skattpeningum sínum. Svar við fyrirspurn minni um einn grip hef enn ekki borist, þó svo að starfsmennirnir séu með Sarp í tölvum sínum og gæti hæglega slegið Þjms. 635 inn, klippt og límt uppklýsingarnar í gagnagrunninum til mín um hæl.
Það er líklegast ekki nokkur vafi á því, að nú er kominn tími til að allir hafi aðgang að því sem þeir hafa borgað fyrir. Sarpur á ekki að vera einkaheimild stofnanna sem geta ekki einu sinni veitt réttar upplýsingar til þingmanna landsins.
Ég á ekki sem fornleifafræðingur að þurfa að bíða eftir upplýsingum úr Sarpi upp á geðþótta starfsmanna Þjóðminjasafnsins sem geta ekki einu sinni gert almennilega grein fyrir forngripum sem týnst hafa í tímans rás á Þjóðminjasafni, eða sýnum sem hafa horfið. Það er algjörlega óviðunandi.
Meginflokkur: Fornminjar | Aukaflokkar: Forngripir, Menning og listir | Breytt 13.3.2013 kl. 07:13 | Facebook
Athugasemdir
Hér er margt gripa. T.d. þessir kertastjakar:
http://collections.vam.ac.uk/item/O92828/pair-of-candelabrum-unknown/
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 12.3.2013 kl. 23:41
Þakka fyrir þetta Guðmundur. Það er mikið af íslenskum verðmætum á Victoria&Albert.
Íslendingar vildu handritin heim, en öðru er gleymt.
Ég mæli með því að menn lesi þessa grein eftir Guðmund Magnússon fyrrv. Þjóðminjavörð.
FORNLEIFUR, 13.3.2013 kl. 05:15
Við skulum einnig muna eftir því, að Þjóðminjasafn Dana, Nationalmuseet, veit ekki hvar sumir gripirnir sem sendir voru frá Íslandi á 19. öld eru niður komnir.
FORNLEIFUR, 13.3.2013 kl. 07:26
Ég tek undir þessi skrif. Þjóðminja safni svarar engum fyrir spurnum að neinu viti. Ég hef haft sambandi við forstöðumann og hann vísar á aðra og kolla f kolli.
Varðandi þa´hef ég reynt að fá myndi og upplýsingar um drykkjahornin sem voru í skálholti og voru svo að mestu send úr landi. Horns Ívars Holm það er sagt hafa rauðan stein (ruby) og kross í stæði steinsins. Ég fæ engar upplýsingar með þetta heldur. hvað er á seiði á þessu safni okkar. Þeir sína sígarettubréf sápu pakka og allskonar óþvera en ekki það sem skiptir máli.
Valdimar Samúelsson, 13.3.2013 kl. 11:25
Er eitthvað betra að safngripirnir liggi í geymslu hjá Þjóðminjasafninu - og séu aldrei til sýnis þar?
Vælið t.d. út af altarisklæðunum "íslensku" sem eru í Þjóðminjasafni Dana og eru þar mikilvægur þáttur í miðaldasýningu þeirra, er hlægilegt í ljósi þess að Þjóðminjasafnið á fjölda slíkra altarisklæða sem aldrei eru sýnd.
Torfi Kristján Stefánsson, 13.3.2013 kl. 11:37
Ég tek alveg undir þetta Torfi og ef Danir hefðu ekki tekið þetta og varveitt þá má guð vita hvað hefði orðið um þetta. Þú mátt taka þetta orð ''vælið'' það er engin að væla hér heldur að benda á staðreyndir. Upplýsingar eru ekki gefnar út á þjóðminjasafninu og ´það kostar að fá mynd að hlutum og ekki gefið. Það er líka mál að fá ekki að sjá þessa hluti og ég veit ekki betur en að flest af þessum fornminjum séu ekki til sýnis í Danmörku.
Valdimar Samúelsson, 13.3.2013 kl. 12:58
Torfi Kristján, engin altarisklæði íslensk eru til sýnis í Kaupmannahöfn.
FORNLEIFUR, 13.3.2013 kl. 12:59
Jæja? Ertu að snúa út úr eða ...?
Þar eru amk. þrenn altarisklæði, eitt frá Miklagarði með myndum af postulunum, annað frá Stafafelli með myndum af Maríu og Jesúbarninu ásamt tveimur postulanna og það þriðja frá Reykjahlíðarkirkju með þáttum úr sögu Maríu.
Lestu Önnu Þorbjörgu Þorgrímsdóttur: Kontext och koloniala uttryck. Isländska föremål utställda i Danmarks Nationalmuseum. Gautaborg Universitet 2003!
Torfi Kristján Stefánsson, 14.3.2013 kl. 18:36
Torfi Kristján, af hverju ertu svona æstur?
Miðaldasýningin á Nationalmuseet er t.d. lokuð nú vegna viðhalds og breytinga. Sýningunni sem Anna Þorbjörg hefur lýst í skólaritgerð sinni hefur að hluta til verið breytt. Síðast þegar ég skoðaði hana voru þeir gripir sem þú nefnir ekki þar.
Sjáðu svo hvernig AÞÞ skráði gripina á Nationalmuseet i Kaupmannahöfn í Sarp. Hún eignaði sér uppgötvun á forngripum sem ég fann í safninu rétt eftir 1980. Það eru léleg vinnubrögð og lúaleg. Sjá hér og hér.
FORNLEIFUR, 16.3.2013 kl. 11:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.