Fornleifafræðingar ásakaðir um eyðileggingar
23.12.2014 | 11:09
Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur birtir í dag (23.12. 2014) athyglisverða og líkast til réttmæta skammarræðu á vinsælu bloggi sínu, þar sem hann segir frá röskun fornleifa að Gufuskálum, sem má rekja til slælegs frágang fornleifafræðinga á rústum sem þeir hafa verið að rannsaka þar á síðastliðnum árum.
Fornleifur gerði eftirfarandi athugasemdir við blogg Haralds, sem vitnaði í grein í Fréttablaðinu 22.12.2013 (bls. 2), en blogg Haralds skýrði málið enn frekar en Fréttablaðið. Hér er athugasemd mín:
Ekki held ég að meginþorri íslenskra fornleifafræðinga verðskuldi kaldar kveðjur þínar, Haraldur, hér á Þorláksmessu.
Rannsóknin að Gufuskálum er gerð af Fornleifastofnun Íslands, sem þrátt fyrir hið fína "opinbera nafn" er sjálfseignarfyrirtæki. Rannsóknin var unnin í samvinnu við NABO, sem eru samtök sem stofnuð voru af bandarískum fornleifafræðingi, Thomas H. McGovern, sem gengið hefur uppi með ofstopa í öðrum löndum en BNA, til að halda uppi deild sinni við CUNY. McGovern þessi skrifaði mér einu sinni og hótaði mér að sjá til þess að ég yrði útilokaður frá íslenskri fornleifafræði og að allir peningar frá Bandaríkjunum sem hefðu annars farið í rannsóknir á Íslandi yrðu sendir "to the Soviets". Þessi maður og lið hans byrjaði eitt sinn rannsóknir á Ströndum, án þess að hafa tilskilin leyfi til þess. Þá vann ég með honum, en ákvað þegar að hætta er ég uppgötvaði hvernig hluti rannsóknarliðsins hunsaði íslensk lög. Í kjölfarið fékk ég bréf, þar sem mér var hótað og þegar ég kom til starfa á Þjóðminjasafni Íslands árið 1993, sendi McGovern bréf til setts Þjóðminjavarðar Guðmundar Magnússonar, þar sem ég var illilega rægður.
Þess vegna undrar frágangurinn á rannsökuðum minjum að Gufuskálum mig ekki. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem NABO og Fornleifastofnun Íslands skilja minjar eftir sig í lamasessi og óvarðar, eftir að þeir hafa framið strandhögg fyrir fornleifa-bissness sinn.
Í skýrslu Fornleifastofnunar yfir skráningar á fornleifum að Gufuskálum, er vitaskuld ekki minnst á þetta rask.
Ljóst er að yfirvöld verða að grípa inn og láta aðra rannsaka á Gufuskálum til bjarga því sem bjargað verður.
Árið 2007 skrifaði ég einnig um aðfarir Fornleifastofnunar Íslands að fornleifum í Hringsdal við Arnarfjörð árið 2007. Lítið var gert, en eigendur fyrirtækisins Fornleifastofnunar Íslands æstu sig víst mikið út af gagnrýninni við alla aðra en mig, þó ég hefði afhjúpað slæleg vinnubrögð þeirra í grein sem ég kallaði Kumlarask.
Myndin efst er frá heimsókn fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Luis E. Arreaga, hjá fornleifafræðingum að Gufuskálum. Sendiherrann skrifaði þetta á blog sitt: The archeological dig at Gufuskálar is a great example of the longstanding partnership between American and Icelandic premiere scientific institutions (Sjá hér). Sendiherrann hefur vonandi ekki vitað af eyðileggingu og lögleysu þeirri sem á stundum hefur fylgt verkefnum NABO-hópsins og "premier institutions".
Meginflokkur: Eyðilegging fornleifa | Aukaflokkar: Fornleifar, Saga íslenskrar fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 15:29 | Facebook
Athugasemdir
Athyglisvert er svar Adolfs Friðrikssonar við blogg Haralds Sigurðssonar. Adolf stjórnaði rannsóknum í Hringsdal, sem greint er frá hér að ofan.
FORNLEIFUR, 23.12.2014 kl. 16:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.