Ísland í töfralampanum: 8. hluti
3.6.2016 | 17:45
Hverjar eru þetta með leyfi? Jú, Gugga, Vigga og Maddí gátu greinilega ekki setið á sér lengur og urðu að fara í bíó hjá Fornleifi. Þær voru í óþreyju og eftirvæntingu sinni farnar að bryðja bolsíurnar sínar blessaðar stúlkurnar, og jafnvel Gunna sem enn er ekki búin að fá sér nýjar tennur. Þær biðu á fortóinu í allan dag og keyptu meira að segja biletin fyrir viku síðan svo þær gætu setið á fremsta bekk. Svona er þessar sýningar hjá Fornleifi nú vinsælar, og ætti landsbyggðin einnig að fara að átta sig á því.
Hvað er meira spennandi og yndisaukandi fyrir stúlkur á viðkvæmum aldri en myndir af vatni og gusum - þar með talið Geysi og Gullfossi. Þær hafa hvort eð er ekki kattarvit á því hvort er betri sem forseti Íslands, falleraður seðlabankastjóri eða fráfallinn kaþólikki. Það er svo leiðinlegt og þær velta ekki svo heimsspekilegum þönkum fyrir sér. Þær vilja í bíó og hafa fjör.
Geysir var ávallt vinsælasti túristatrekkjari Íslendinga, eða allt þar til að hann gerðist skindauður vegna of mikils grænsápuáts.
Engin ferðalýsing af Íslandi með virðingu fyrir sjálfri sér frá því á 17 öld fram á þá 20. var fullkomin nema að mynd væri með af Geysi í Haukadal. Fljótlega varð goshverinn vinsæll á skuggamyndum 19. aldar í syrpum um jarðfræði eða undur alheims. Útlendingar komu gagngert til Íslands til að berja þessa himnamigu íslensku þjóðarinnar augum.
England to Iceland 28, Riley Brothers. Þetta er sama mynd og mynd 31 (sjá neðar) en í stað litar á 31 hefur þessi mynd fengið handmálað tjald og karl vestan við það.
Þess vegna getur það engan undrað að heilar fjórar myndir hafi verið af Geysissvæðinu í Haukadal í myndasyrpu Riley Bræðra England to Iceland. Allir öfunduðu íslensku þjóðina af sjálfvirkum gosbrunnum.
Myndirnar af Geysi og Geysissvæðinu í syrpunni eru þessar:
28 Tourists' Tents at Geyser (framleidd af Riley Brothers í Bradford).
29 Great Geyser (framleidd af Reiley Brothers í Bradford).
30 Strokr in Sulks.
31 Strokr in Action (framleidd af E.G. Woods á 74 Cheapside í Lundúnum)
England to Iceland 29, Riley Brothers
Því miður tilkynnist hér með að mynd 30 var ekki til á Cornwall þegar Fornleifur keypti þar myndir úr syrpunni England to Iceland fyrir skömmu. En sem bragarbót fá áhorfendur myndina af Strokki að gjósa (31) í lit og í "action". Njótið, því enn eru ekki þekktar aðrar skuggamyndir úr þessari frægu syrpu frá Íslandi. Þær gætu leynst uppi á einhverju lofti verður maður þó að vona, svo að allar myndirnar komi í ljós.
Þess ber að geta, að mynd númer 29 er til á pappír á Þjóðminjasafninu og er eignuð Sigfúsi Eymundssyni. Fornleifur leyfir sér einnig að benda á að á mynd 28 sést tjald , sem hafa verið handmáluð á glerið ásamt manninum til hliðar við það.
Mynd 28 er í raun sama mynd og mynd númer 31. Tjaldið er af sömu gerð og tjald Rowleys veiðifélaga Burnetts (sjá fyrri kafla og Frank Ponzi 1995. Ísland fyrir aldamót, Brennholt; Bls. 143). Tjaldið er svo kallað "Kabúl-tjald". Fornleif grunar, að myndirnar frá Geysi hafi verið teknar af Burnett eða að Sigfús Eymundsson hafi verið honum innan handar við myndatökur í Haukadal. Myndirnar í syrpu Riley Bræðra virðast greinilega vera blanda af myndum Burnetts og Tevelyans og hins vegar Sigfúsar Eymundssonar.
Gullfoss
Í dag verður vegna skyndilegrar ofhitnunar aukasýning hjá Fornleifi, áhorfendum að kostnaðarlausu. Töfralampinn hefur náð að kólna aðeins.
Fyrst er mynd af Gullfoss úr syrpunni England to Iceland. Hún var tölusett sem mynd 32 og titilinn Gullfoss--upper. Einnig var önnur mynd í syrpunni af Gullfoss og bar hún vitaskuld titilinn Gullfoss -- lower og var númer 33. Þetta var greinilega allt mjög skipulegt. Því miður var Gullfoss--lower ekki lengur til þegar Fornleifur keypti skuggamyndirnar á Cornwall. Mynd 32 var framleidd í syrpunni England to Iceland af Riley Bræðrum frá Bradford og er myndin samkvæmt Þjóðminjasafninu tekin af Sigfúsi Eymundssyni og mun það örugglega rétt því safnið á þurrnegatífu með nákvæmlega sömu mynd.
Brúará viðbót
Brúará, mynd eftir Sigfús Eymundsson framleidd af E.G. Wood rétt fyrir aldamótin 1900.
Um daginn voru tvær skuggamyndir af Brúarfossum sýndar á Fornleifi (sjá hér). Fornleifur keypti reyndar þrjár myndir af Brúarárfossum á Cornwall. Sú mynd af Brúará sem ekki var sýnd um daginn verður sýnd hér í dag. Hún var úr syrpu þeirri sem E.G. Wood framleiddi og sem hann kallaði A travel to Iceland. Sú syrpa innihélt sama myndefni- og sömu númer og syrpa Riley Bræðra, enda keypti E.G. Wood útgáfuréttinn af Reiley Bræðrum.
Þar sem skuggmyndafyrirtækið E.G. Wood notaðist við sama myndefni og númeraröð á myndefninu á Brúará, er rökrétt að álykta að þessi mynd hafi hjá E.G. Wood komið í stað myndarinnar nr. 27, sem Riley Bræður kölluðu Bruera and Bridge. Þessi mynd E.G. Wood er miklu betri en yfirretúsheruð mynd Riley Bræðra. Alltaf má gera betur.
Hitt er þó ef til vill áhugaverðara að á myndinni stendur: S. EYMUNDSSON MED EINKARJETTI. Það þarf því ekki að fara í grafgötur með það hver myndasmiðurinn var.
Fyrri kaflar
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ísland í töfralampanum 4. hluti
Ísland í töfralampanum 5. hluti
Ísland í töfralampanum 6. hluti
Ísland í töfralampanum 7. hluti
Meginflokkur: Ljósmyndafornleifafræði | Aukaflokkur: Menning og listir | Breytt 14.5.2021 kl. 10:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.