Hin annálaða íslenska gestrisni árið 1909

img_3_1296155.jpg

Um leið og ég minni enn einu sinni á hina undurfögru Súkkulaði-Siggu, sem hægt er að kaupa á 50x70 sm stóru plakati af Fornleifi, greinir hér frá öðru en eldra chromo-korti, með uppfræðandi efni sem fylgdi matvöru iðnvæðingarþjóðfélagsins í stórborgum Evrópu í byrjun 20. aldar.

Merkið hér að ofan er 23 vetrum eldra en Súkkulaði-Sigga í pökkunum frá Chokolat Pupier i Saint Etienne. Merkið fylgdi pökkum með súpukrafti frá Liebig árið 1909. Eins og áður hefur verið greint frá á Fornleifi (sjá hér), gaf Liebig út tvær seríur með Íslandsmyndum sem Fornleifur á einnig á skattkamri sínum. Ofanstæð mynd, sem Fornleifur eignaðist nýlega í Frakklandi, tilheyrir þó ekki þeim seríum, heldur litríkri seríu sem kallaðist Jours d'été das l'extreme Nord, eða Sumardagar í hinu háa norðri. Undirtitillinn er La bienvenue aux voyaguers en Islande, sem útleggjast má: Útlendingar boðnir velkomnir á Íslandi.

Greinilegt er að franskt útibú Liebig kjötkraftsrisans í Þýskalandi hefur vantað upplýsingar frá Íslandi fyrir uppbyggilegt fræðsluefni um Ísland, og listamennirnir hafa ákveðið að skálda örlítið.

Heimasætan á Draumabakka kemur færandi hendi á móts við ferðalangana, með mjólk og brauð. Hún er einna helst líkust blöndu af barmastórri norskri, hollenskri, rússneskri og svissneskri heimasætu. Móðir hennar situr við mjaltir í túnfætinum og fjallasýnin er fögur. Ferðalangarnir taka ofan hattinn og háma í sig nýbakað brauðið og drekka volga mjólkina. Á hinum íslenska bóndabæ er vitaskuld allt mjög reisulegt og bærinn hlaðinn úr grjóti eins og síðar á nasistahofi Gunnars Gunnarsson að Skriðuklaustri. Ekkert torf er sjáanlegt eða útskeifar og skyldleikaræktaðar rollur. Fjallasýnin er glæsileg og vitaskuld er eldfjall og úr því rýkur örlítið. Ferðamannagos voru greinileg líka eftirsótt vara og þekkt árið 1909.

detail_liebig.jpg

Myndirnar á Liebig-kortunum sumarið 1909 voru ef til vill ekki mikil listaverk, en töluverð handavinna.

Myndin á þessu korti kraftaverkaverksmiðjunnar Leibig er næsta helst eins og einhver sætasta draumkunta fyrrverandi fornminjaráðherra á puttlingaferðalagi með Kim Jong-Un um Ísland. Sigmundur vildi, eins og menn muna, ekki aðeins endurreisa hús í endurreisnarstíl Framsóknarflokksins með aðstoð Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar, heldur einnig láta byggja almennilegan Selfossbæ með 60 metra langri miðaldastafkirkju og gapastokki. Hann skammaðist sín fyrir fortíðina og vildi búa til nýjar fornleifar.

Kannski hefði SDG verið ágætur draumsýnarmaður í súpukraftsverksmiðju? Hann var að minnsta kosti algjörlega misheppnaður sem yfirkokkur í stjórnmálum. Ætli Maggi eða Toro hafi ekki lausar stöður fyrir svo efnilegan súpudraumamann? Maður verður að vona það. Annars er alltaf hægt að setja upp Potemkin-tjöld í Norður Kóreu ef enginn áhugi er á Selfossi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband