Þá var stíll yfir heimsborginni við sundin blá

Löggan 1926Í sumar var ég staddur í tvær vikur á Íslandi með syni mínum. Eitt af því ljótasta sem ég sá, fyrir utan eyðileggingu arkitekta á miðbænum, voru lufsulegir verðir laganna.

Ég hafði boðið syni mínum á ágæta hamborgaraholu nærri húsakynnum RÚV, þar sem við höfðu borðað einu sinni áður árið 2017. Við vorum þar einir gestir fram að framreiðslu borgaranna, en allt í einu slengdust þar inn tveir lögreglumenn, ungir menn á besta aldri. Það hékk svo mikið af vopnum, verjum og drasli framan á þeim og um þá miðja, að halda mætti að þetta væru haldnir offituvanda. En þegar betur var að gáð, hékk þarna á þeim skammbyssa, rafbyssa, vasaljós, blýantur, teikniblokk, vídeómyndavél, kylfa, handjárn, hamar, sigð, skrúfujárn, töfrasproti og vitaskuld pínku sminktaska. Aumingja mennirnir sliguðust undan þessu, og því var kannski ekki nema vona að finna þá þarna étandi kolvetnis og fituríkt fæði í heimsborgaraholu Tómasar [ég tek fram að ég fæ ekki grænan eyri fyrir þessa auglýsingu].

En mikið hefði nú verið góður heimur, ef íslenska löggan hefði haldið frönsku pottlokunum frá 1926, þegar 7, 8 og 9 á stöðinni smæluðu framan í bandaríska kvikmyndagerðarmanninn og heimsferðalanginn Burton Holmes (1870-1958) í einni mynd í stuttmyndaröð hans Film Reels of Travel.

Í Austurstræti brosti löggan og þurfti ekki allt þetta ameríska aukadrasl sem löggan hefur hangandi utan á sér í dag. Hugsið ykkur ef löggurnar væru í svona múnderingu í Aðalstrætinu í dag og fengu sér í rólegheitunum sterkt kaffi og croissant, kannski patat frites á París og heilsuðu fólki með onnör og brostu keltnesku brosi. Er ekki hægt að macrónísera lögguliðið í næstu uppfærslu og gefa greyjunum betri frakka líkt og starfsbræðurnir báru árið 1926?

Síðar á 20. öldinni lagði löggan meira upp úr hæð manna en greind eins og kemur ljóslega fram á þessari ljósmynd sem þýskur nasisti, njósnari og flagari, Paul Burkert, tók í Reykjavík á 4. áratugnum og birti í bókinni Island, Erforscht, Erbaut, Erlebt (1936). En nú eru aðrir tímar...

Germönsk fífl10 árum síðar vou eintómir risar í löggunni, nema löreglustjórinn - hann var jafnan lítilfjörlegur nasisti: "Reykjaviks Polizeimannschaft. Der gröste 202 cm, der kleinste 196 cm."

Tourists in Rkv 1926Ferðamenn í Reykjavík 1926 á sætsýn á bestu rútunni í Reykjavík.

Horfið hér á kvikmynd Burton Holmes frá Reykjavík árið 1926. Mikið hefur breyst, ekki bara löggan. Síðla í myndinni er hægt að sjá Icelandic man to man wrestling sem glímumenn sýndu um borð á ferðamannaskipinu sumum ferðalöngum til mikillar ánægju. Það var víst næst því að komast á Café Babalú í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Áberandi hvað ungir sem aldnir voru illa tenntir. Flestir brostu þvingað með lokaðann munn. Aðeins eina stúlku sá eg þarna með sæmilega heilar tennur. Kannski voru það kandísinn og bolsíurnar og að þetta ver fyrir daga Colgate. Minnir samt að fína fólkið hafi burstað sig með kísildufti. Gæti samt verið misminni.

Sammála þér með þennan andlausa austurþýska arkítektúr í miðbænum. Hann er ónýtur fyrir mér og þarna fellur nánast aldrei sólarglæta nema rett í morngunsárið. Hafa þessir talentlausu kópiuarkítektar alveg frítt spil með þennan viðbjóð?

Ég er ekki endilega fanatískur gamalhusamaður, en mér finnst að borgir eigi að byggjast þannig að maður geti lesið byggingarsöguna eftir því sem utar dregur. Var í Bergen um daginn og sjarminn þar er alger andstæða þessa rembings í miðbænum. Hrein unun að skottast um skottegaten og bryggjuna. Þar fór eg á tonleika með rapparanum alias Kjartan Lauritzen systursyni mínum ásamt tíu þúsund mann við festinguna. Mikið var maður stoltur og ekki gerði það sjarma bæjarins minni, enda gleði í hverju hjarta. Reykjavík er grafhýsi í samanburði.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.9.2019 kl. 11:06

2 identicon

Það getur vel verið að tennur hafi verið slæmar hjá einhverjum, en ekki get ég ímyndað mér að fólk hafi almennt borðað sælgæti á þessum tíma. Að minnsta kosti ekki eins og nú á tímum, þegar allir eru að springa úr offitu

Gunnar S Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.9.2019 kl. 12:59

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ekki lagt síðan börn gátu valið milli þess að fá Pierpoint úr eða falskar tennur í fermingargjöf. Hef það eftir móður minni. Almenn tannburstun er tiltölulega ungt fyrirbrigði hér. ;)

Jón Steinar Ragnarsson, 11.9.2019 kl. 14:01

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Vera kann að þið hafið eitthvað rétt fyrir ykkur um tannhirðuna, en mér sýnist nú að blessuð víkingabörnin í Reykjaví hafi verið frekar vel tennt, jafnvel rauðhaus neðst. Líklegast hafa blessuð götubörnin öll verið úr Skuggahverfinu og því ekki fengið eins mikil sætindi og ríkra manna börn:Smæl 1 1926

smæl 2 1926

Smæl 3 1926

Smæl 4 1926

Smæl 5 1926

FORNLEIFUR, 13.9.2019 kl. 19:13

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Kannski fóru fullorðinstennurnar ekki að rotna alvarlega fyrr en um fermingu...

FORNLEIFUR, 13.9.2019 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband