Laxness leiðréttur - ókeypis jólabók

LAXNESS

 

 LEIÐRÉTTUR

 

Eftir Vilhjálm Örn Vilhjálmsson

Laxness Lei´´

 

1

 

Ísland vex alltaf í augum Íslendinga

Untitled-TrueColor-01

Stundum þarf að snúa sjónaukum Íslendinga alveg við til að fá sæmilega raunhæfa mynd af íslenskri atburðarrás, og á þann hátt minnka þær hæðir og ofurstærð sem skoðanir, umræða og mat nær oft á Íslandi - og það ósjaldan vegna þjóðernisrembu, naflaskoðunar eða minnimáttarkenndar hjá stórum hluta landsmanna. 

Ég talaði einu sinni við hollenska konu prófessors á Bretlandseyjum, sem stundaði norræn fræði. Hún kvartaði við mig að fyrra bragði yfir Íslendingum sem henni fannst ekki getað talað um neitt annað en sjálfa sig. Hún gladdist þegar ég sagðist vera á sömu skoðun og hún. Henni hafði einu sinni verið boðið í veislu Íslenska sendiráðinu, eða voru það snittur og hanastél. Það var henni "óþolandi", því Íslendingarnir vildu um ekkert annað tala en Ísland og Íslendinga. Það hvarflaði að henni að þetta gæti verið vegna þess að Íslendingar væru ekki enn nógu miklir heimsborgarar, en svo uppgötvaði hún loks að meinið var eintóm sjálfsánægja.

Eru Íslendingar ekki enn orðnir sjálfstætt fólk?

Undarleg rimma fer nú fram í Morgunblaðinu milli Björns Bjarnasonar og Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Síðast svaraði Björn á bloggi sínu (sjá hér). En bæði gætu þau grætt töluvert á því að fá sérkennslu í heimildarýni.

Rimma þessi, sem nú fjallar orðið um smáatriði í bók Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur - inn heilaga Halldór Laxness - er erkigott dæmi um þann þjóðarsjúkdóm Íslendinga, þegar þeir sjá sjálfa sig í miðri hringiðu heimsstjórnmálanna, við borð heimsfrægra manna, og jafnvel sleikjandi sig upp við prófessora á kennarastofu í Oxford hér um árið. Annað orð yfir þetta er veruleikafirring. Menn hringsóluðu og bökuðu pönnukökur til að komast í Öryggisráð SÞ og heimsóttu eitt sumar morðingjann Assad á Sýrlandi í þeim tilgangi. Æðið er ekki enn farið af mönnum, því sá sem nú situr í hásæti utanríkisráðuneytisins ætlar víst að leika sama leikinn og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem ætlaði sér að leysa allar deilur fyrir botni Miðjarðarhafs og koma þannig á heimsfriði.

Eiginnöfnin Björk og jafnvel Vigdís, svo og hugtakið Saga eru í raun einu íslensku orðin sem menn láta sig varða úti heimi. Sumir klæmast þó á Eyjafjallajoke´l.

Allir aðrir en Björk og Vigdís eru einungis "heimsfrægir" á Íslandi og Höfði-House er timburkofi í jaðri iðnaðarhverfis, nema í höfði Íslendinga. Þar breyttist heimssagan, ef dæma má út frá skoðun sumra Íslendinga. Höfði var þó aldrei annað en sviðsmynd heimssögunnar og að litlu leyti: Þetta var bara hús þar sem áfangafundur var haldinn í roki og rigningu. En á Ísland varð hvíta húsið að höll friðar. Hvergi nema á Íslandi leikur þetta hús annað eins hlutverk.

Svo, now it´s Laxness again.

laxness desk

Vissulega var Laxness mikill rithöfundur. Hann hlaut fjandakornið Nóbelsverðlaunin.

En þar fyrir utan er þekking umheimsins á þessum manni afar takmörkuð. Dræm sala á bók Halldórs Guðmundssonar um Laxness í Danmörku sýnir það á vissan hátt. 800 bls. doðrantur um íslenskt skáld á 20. öld verður aldrei metsölubók í landi þar sem sumt fólk er enn ólæst og einkum á eigin sögu.

Já, rimma Björns og Ólínu er harla hjákátleg:

Ólína hefur skrifar og gefið út ritgerð sem ber hinn mikla titil Spegill fyrir Skuggabaldur: Atvinnubann og misbeiting valds. Þótt Ólína fari ansi víða í bók sinni, en mest úr einu í annað, þannig að oft úr verði margar hálfkveðnar vísur, er bókin fyrst og fremst pólitísk ádeila frekar en heimildarit, þó að í henni sé að finna heimildaskrá.

Ádeila á Sjálfstæðisflokkinn, sem og aðra fyrirgreiðsluflokka, eiga vitaskuld fullan rétt á sér. Pólitík á Íslandi var lengi því marki brennd að hún var á öllum sviðum hreinræktuð sveitastjórnarpólitík, og var pólitík Sjálfstæðisflokksins engin undantekning á því allt fram á 9. áratug 20. aldar, þar sem flokkurinn var allra flokka lengst við völd og gat komið sínum fyrir og otað sínum tota, sem er hins vegar afar forn íslenskur siður þeirra sem völdin hafa.

Við getum fárast yfir því í dag, nú þegar við erum orðin svo góð og siðmenntuð, en maður þarf að vera sæmilega söguljós til að gera sér ekki grein fyrir því að aðrir flokkar stunduðu einnig sama leik og Íhaldið. Reyndar var það Sjálfstæðisflokkurinn sem braut út af venju og fór á tímabili að ráða alls kyns villinga með hættulegar stjórnmálaskoðanir í stöður, þó þeir væru langt frá því að vera verkfæri flokksins og þaðan að síður starfi sínu vaxnir.

En þegar Ólína svissar yfir Laxnessológíu í kveri sínu verða menn að fara að vara sig. Ólína tínir til tilgátuna um að Laxness hafi verið settur á kaldan klaka af bókaforlaginu sem gefið hafði út bók hans Sjálfstætt Fólk í Bandaríkjunum; og á Bjarni Ben að hafa staðið á bak við að Atómstöðin kæmi ekki út. Þess vegna er Björn Bjarnason væntanlega kominn á vaktina - til að vernda heiður pabba síns, en einnig til að leiðrétta leiðar villur hjá Ólínu.

Ólína dregur fram tvö bréf sem áður hafa verið nefnd af Ingu Dóru Björnsdóttur og af Halldóri Guðmundssyni. Bréfin sýna áhuga Bjarna Bens á því að fá upplýsingar um dollaratekjur Laxness af bókinni til að sýna Íslendingum að þetta sósíalíska skáld stingi undan skatti.

Inga Dóra Björnsdóttir kemst að þeirri makalausu niðurstöðu, að bréf Bjarna og aðgerðir stjórnvalda í BNA hafi valdið því að FBI setti pressu á Alfred A. Knopf forlagið í New York, þannig að það ákvað ekki að birta Atómstöðina í kjölfarið á "metsölubókinni" Independent People. Samkvæmt þessari Gróusagnfræði, sem stenst ekki skoðun, átti J. Edgar Hoover að hafa þrýst á forlagið til þess að úthýsa Laxness og það vegna stjórnmálaskoðana hans.

Í danskri útgáfu Laxness-bókar Halldórs Guðmundssonar, þar sem ég gegndi því merka hlutverki að fá hugmynd að hönnum kápu bókarinn (sjá hér) og sjá um lista yfir ritverk Laxness, kemur greinilega fram, að haft var samband við J. Edgar Hoover.

Þar sem ég á ekki íslenska gerð Laxness-bókar Halldórs Guðmundssonar, leyfi ég mér að hafa eftir honum á dönsku, það sem hann skrifar um bréfaskrifin þar sem Bjarni Ben vildi með hjálp Trimble sendiherra BNA á Íslandi fá upplýsingar um dollarareikninga Laxness í utanríkisráðuneytinu í Washington, svo hægt væri að væna stuðningsmann íslenskra sósíalista um græðgi og skattsvik. Halldór Guðmundsson ritar:

Trimbles overordnede i Washington reagerede med forsigtighed på hans iver, men udenrigsministeriet sendte dog hans anmodning videre til FBI, og i september 1947 skrev dens chef, J. Edgar Hoover, til sine medarbejdere i New York, om man ikke diskret kunne undersøge Knops betalinger til Laxness. Det blev ikke til noget, men State Department skrev til skattemyndighederne om efteråret, og de blev bedt om at undersøge Alfred Knopfs indbetalinger. I november var Trimble blevet temmelig utålmodig, og han skrev i et telegram til USA, at det hastede for den islandske udenrigsminister at få oplysningerne "i lyset af de intensiverede angreb, som Laxness retter mod regeringen for dens USA-venlige kurs og på grund af den mulighed, at det formentlig er Laxness som finansierer Den Patriotiske Forening [skýring Fornleifs: Þjóðvarnarfélagið], som atter har påbegyndt sin virksomhed." Men han fik det svar, at der ikke var blevet overført penge fra Knopf til Laxness i 1946, at man man måtte vente et helt år, før der forelå en opgørelse for 1947, og at der ikke ville blive gjort mere ved sagen foreløbig. Derved blev undersøgelsen foreløbig lagt på hylden.

Síðar, eða í mars 1948 komst William Trimble loks í upplýsingar hjá skattayfirvöldum Vestanhafs sem sýndu að Laxness hefði fengið greiðslu frá Knopf, 24.000 dali, en einnig kom greinilega í ljós að 21.000 dalir af þeirri greiðslu væru enn inni á reikningi Laxness í banka á Manhattan. Laxness hafði því ekki borgað fyrir kommúnistaáróður með fjármagni fyrir útgáfu Sjálfstæðs fólks í Bandaríkjunum eins og Sjálfstæðismenn ímynduðu sér. Og þetta var vel fyrir daga ásakana um Rússagull.

Laxness greiddi líka skatta

Í maí 1946 sendi bandaríska utanríkisráðuneytið William Trimble aftur afar neikvæðar fréttir. Laxness, eða útgáfufyrirtæki hans, höfðu greinilega greitt alla nauðsynlega skatta í BNA af tekjum hans. En skatturinn þarf ekki að hafa verið nema smáupphæð miða við prósentustig skatta á Íslandi í dag og þá.

17_-_Bjarni_r__ir_vi__Eisenhower_yfirhersh_f_ingja_NATO__ri__1951_-_Lj_smyndari_P_tur_Thomsen_-_Einkaskjalasafn_Bjarna_BenediktssonarBjarni Benediktsson með Eisenhower sem staldraði við á Íslandi veturinn 1951. Danskur sendiherra, samtímamaður hans, bar honum afar illa söguna og taldi manninn treggáfaðan afturhaldssegg, en aðrir eins og amma mín, sem var með honum í barnaskóla, þar sem menntun flestra kvenna stöðvaðist á þeim tíma, töldu hann til dýrlinga, því hann var svo "gáfaður" og "rétti alltaf upp báðar hendur" þegar kennarinn spurði um eitthvað. Hvernig hann fékk þá flugu í hausinn, að Laxness borgaði fyrir starfsemi sósíalista á Íslandi, verður seint svarað - en það lýsir ekki gáfulegri rökhugsun.

Herferð Bjarna Ben og vina hans misheppnaðist algjörlega. Stærð, frægð og eðli skáldsins hafði vaxið þessum mönnum mjög svo í augum.

Og þegar allt kom til alls var Laxness heldur aldrei strangur hugsjónamaður. Hann vildi eins og allir njóta þeirra ávaxta sem hann hafði ræktað með vinnu sinni og list. Við sjáum t.d. á ferðalagi hans til Berlínar árið 1936, að hann fór þá ferð fyrst og fremst til að bjarga tekjum sínum, ekki vegna þess að banna ætti bækur hans vegna meint illmælis hans um Þýskaland eins og haldið hefur verið fram síðar og af Laxness sjálfum. Laxness átti í erfiðleikum að fá tekjur sínar frá Þýskalandi, því fyrirtækið, sem gaf verk hans út. hafði að mestu verið í eigu gyðinga, og á þau hafði verið sett höft (sjá hér). Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni má segja til hróss, að hann kom þeim ferðaupplýsingum að í einni af bókum sínu um Laxness (eftir að hafa séð upplýsingarnar á fyrrnefndu bloggi mínu. Hins vegar hafði Halldór Guðmundsson ekki upp á því, og er hann með afar furðulega og óundirbyggða skýringu á samningum Laxness við dönsk og þýsk útgáfufyrirtæki.

knopf

 

Merki Alfred A. Knopf útgáfunnar.

Ólína Þorvarðardóttir notar einstaklega ógagnrýnin skrif dr. Ingu Dóru Björnsdóttur í Kaliforníu, sem heldur því fram að Independent People í útgáfu Forlagsins Alfred A. Knopf hafi verið metsölubók og að viðleitni Bjarna Ben hafi verið að sýna að skáldið borgaði fyrir "kommúnistaáróður" á Íslandi úr eign vasa og að hann hafi sannfært J. Edgar Hoovers um að koma í vef fyrir að hafi Atómstöðin kæmi út hjá Alfred A. Knopf í BNA . 

Höfum það sem réttara reynist: Bókin Independent People, þýðingin á Sjálfstæðu Fólki, var valin Book of the Month Club sem var bókaklúbbur sem var stofnaður af auglýsingafyrirtæki. Bækur mánaðarins hjá Book of the Month Club voru valdar mánaðarlega af frekar fámennu dómarapaneli. Bókin var talin líkleg til sölu, en það var mat dómaranna en ekki kaupenda. Bókin Independent People í bandarískri útgáfunni frá 1946 var því aldrei metsölubók. Harla léleg sagnfræði hjá Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur.

Bréfaskrif Bjarna Bens, sem leitaði eftir upplýsingum um auðæfi Laxness sem hann taldi öll fara í "kommúnistaáróður", voru aðeins rotinnboruleg afskipti íslensk stjórnmálamanns, sem ofmetnast hafði í stöðu sinni. En þau ollu því ekki að Alfred L. Knopf var neyddur til þess að gefa ekki út Atómstöðina, líkt og Ólína apar upp eftir Ingu Dóru Björnsdóttur. Sjálfstætt fólk var einfaldlega aldrei metsölubók í Bandaríkjunum. Íslenska skáldið hafði vaxið í augum manna. Hann borgaði fyrir stjórnmálaáróður af tekjum sínum og menn töldu greinilega lengi að sú ásökun tengdist því að menn reyndu að koma í veg fyrir útgáfu bóka hans.

En vitleysan fær svo vængi eins og má sjá hér.

new-knopf

Blanche og Alfred Knopf. Kannski líkaði henni ekki stíll Laxness og kom þannig í veg fyrir að Atómstöðin yrði gefin út. Engin heimild er til fyrir því að J. Edgar Hoover hafi beitt þrýstingi á Knopf-hjónin.

Þess ber einnig að geta, að allsráðandi útgáfudómari A.L. Knopf var kona hans, Blanche (fædd Wolf). Hún bar betra skynbragð á bókmenntir en Alfred. Alfred hafði fyrst og fremst peningavit. Vitað er að FBI reyndi að hafa afskipti af bókavali Blanche Knopf, en oftast kom það fyrir ekki. Hún andaðist árið 1966. Þegar eiginmaðurinn andaðist á 9. áratug síðustu aldar, voru afskipti FBI borin undir son þeirra Alfred Knopf jr.

Þegar Knopf jr. heyrði að FBI og illfyglið og gyðingahatarinn Hoover hefði haldið skrá  um fyrirtæki foreldra sinna, og haft það undir eftirliti, sagði hann þetta um föður sinn:

"He was the quintessential capitalist, but he published anybody he thought was worth publishing. He paid no attention to what their politics were."(heimild)

Má vera að slíkt sé erfitt að skilja í landi þar sem klíkuskapur og ætterni hefur lengi verið það mikilvægasta til að rísa til metorða. Vera kann að vegna þessa klíkusamfélags hafi Björk, Vigdís og Saga verið það eina sem komst á spjöld sögunnar í raun, jú og ef til vill hann Snorri "norski". Og þess ber að geta að Laxness er ekki nefndur á nafn í Knopf-skrá Hoovers. Heimurinn er nefnilega stór og Íslendingar fyrst og fremst merkilegastir heima hjá sjálfum sér.

Íslendingar eru samt ágætasta þjóð og upp til hópa gott fólk, en misjafn sauður er oft í sömu hjörð, eins og alls staðar á byggðu bóli.

800px-Director_Hoover_1940_Office

Mér finnst persónulega mjög lítill munur á annars vegar því fasíska Loyality check sem J. Edgar Hoover beitti gegn þeim sem grunaðir voru um kommúnisma eða fyrir að vera "andstæðingar ríkisins", og hins vegar á þeirri áráttu Íslendinga að setja menn á pólitískan bás og byggja það aðeins á einhverju óundirbyggðu kjaftæði í þorpi á hjara veraldar. John Edgar Hoover hefði líklega orðið góður og gegn Íslendingur í framvarðarsveit sama hvaða flokks sem væri við stjórnvölin.

Þjónslund sumra manna er hafin yfir hugsjónir. Kjölturakkaeðlið er því miður bara sumu fólki í blóð borið.

sigurdur_thorarinsson

Sjálfstæðisflokkurinn kom vitaskuld einnig upp kerfi um tíma, sem satt best að segja líktist mest stjórnkerfi í Austur-Evrópuríkjum, sem þeir hræddust sjálfir einna mest fyrir utan allar veislurnar sem þeir sóttu í rússneska sendiráðinu.

Flokkurinn, eða lögregluyfirvöld á stjórnartímabili flokksins, lögðust svo lágt að láta rannsaka íslenska menntamenn í erlendum löndum. T.d. höfðu einhverjir í "íslensku leyniþjónustunni" sem suma menn hefur svo sem dreymt um endurreisn á síðari árum, samband við Säpo í Svíþjóð. Bað  eitthvert yfirvald á Íslandi sænsku leyniþjónustuna um að fylgjast með Íslendingum - t.d. stjórnmálalega algjörlega meinlausum manni eins og Sigurði Þórarinssyni. Meira um það fyrir jólin. Og já það tókst ekki að brenna allt í ruslatunnu eins þeirra lítilmenna sem stunduðu þá þjónustu að njósna um landsmenn sína fyrir valdamenn. Sagan af rannsókninni á Sigurði er ekki með í ágætri bók Guðna forseta, Óvinir Ríkisins, en hefði sæmt sér vel í henni; svo lesendur Fornleifs geta farið að hlakka til jólanna. Þau verða vafalaust rauð í ár.

Kalda stríðið var mjög sjúkt tímabil og því verður ekki neitað af sagnfræðingum Sjálfstæðisflokksins, að saga flokksins var ekki fögur á þeim tíma. Björn Bjarnason verður að kyngja því - nema að hann hafi eitthvað að fela.


2

 

Þegar draumur Laxness um Hollywood brast (endanlega) - Opið bréf til Halldórs Guðmundssonar og Björns Bjarnasonar

 Stórlax í Hollywood

Vegna greinar Halldórs Guðmundssonar í Morgunblaðinu í dag (25.11.2020), og reyndar líka vegna skrifa Björns Bjarnasonar á bloggi hans í dag, þar sem hann nefnir sömu heimildir og ég nefndi um daginn á Fornleifi fyrstur manna í "laxnessológískri" grein minni, sendi ég hér opið bréf. Morgunblaðið má gjarna birta það á prentuðum síðum sínum.

vegna greinar Halldórs Guðmundssonar í Morgunblaðinu í dag 25.11. 2020, langar mig vinsamlegast í þessu bréfi (sem er opið bréf) að benda honum á tvær greinar sem ég skrifaði á bloggum mínum sl. helgi. Lesa má þau hér og hér

Þegar ég á sínum tíma las bók þína, Halldór, um Laxness, fékk ég á tilfinninguna að þú hefðir fyrst talið bréfin varðandi skattamál Laxness vera eldheitt efni, en að þú hefðir svo að einhverjum ástæðum orðið að temja trú þína, því smátt og smátt gegnum þrjá staði í bókinni dregur þú úr eftirvæntingunni um hvað var að gerast í BNA varðandi bréfin um skattagreiðslur Laxness af Sjálfstæðu Fólki í útgáfu Alfred A. Knopf.

Ég man ekki eftir því að þú hafir haldið því fram að Atómstöðin hafi ekki verið gefin út í BNA vegna íhlutunar íhaldsins - en það er einmitt það sem ritdeila Ólínu og Björns fjallar um. Þú hlýtur að sjá það. Menn mega ekki láta pólitískan rétttrúnað sinn skyggja á kjarna málsins í sagnfræði. En það er greinilega mjög erfitt á Íslandi í báðum herbúðum þegar báðar dýrka og tilbiðja Laxness sem sannleiksvitni.

Reyndar má ekki gleyma því að árið 1955 féll dómur í Hæstarétti yfir Halldóri Laxness sem dæmdur var til að greiða aukaskatta við þær gjaldeyrisgreiðslur sem hann hafði fengið. En sem hinn sanni "laumukapítalisti" sem hann var og hafði alltaf verið, hafði Laxness reynt að stinga fé undan skatti og þrálátlega neitað að borga.

Tiltæk gögn sem deiluaðilar, Ólína og Björn, nota á afar mismunandi hátt, benda ekki til þess að íhaldið hafi komið því til leiðar að Sjálfstætt fólk yrði ekki gefið út í Bandaríkjunum, þótt Bjarni Ben hafi verið að reyna að sýna að Laxness borgaði ekki skatta. Það síðarnefnda mistókst. Þetta var vitaskuld stórpólitískt mál - á Íslandi.

En ekkert bendir til þess að Laxness hafi verið vandamál fyrir FBI, þegar þeir voru með fyrirtækið Alfred A. Knopf undir smásjánni líkt og Björn Bjarnason bendir á í dag líkt og ég gerði um sl. helgi. Ég er ekki í vafa um að sá áhugi hafi fyrst og fremst verið vegna rótgróins gyðingahaturs Johns Edgars Hoovers, frekar en bókmenntalegs áhuga á höfundi eins og Laxness, sem Kanar "digguðu" bara ekki á árunum eftir stríð.

Karlar eins og Hoover veðjuðu eins og margir Íslendingar frekar á Hitler og hötuðu gyðinga í öllum gerðum meira en hinn "mikla bjargvætt" Þýskalands.

Þið sem skrifið um Laxness, sem leyfishafar eða í algjöru óleyfi, verðið að skilja, að Sjálfstætt fólk var aldrei metsölubók í BNA, þó sú kredda hafi verið langlíf. Hún var tilnefnd sem Book of the Month, af samnefndu auglýsingafyrirtæki. Sérfræðingar þess sáu vitaskuld eitthvað í Laxness, en ótíndur lýðurinn þar vestra, sem bókmenntamennirnir vildu selja bækur, vildi helst kúreka, klám og krimma og var mestmegnis í bíó að horfa á dansfífl sem dönsuðu í regninu í París.

Ég leyfi mér hér að vitna í mikilvægi Laxness fyrir íslenska vinstrimenn, þar til hann lét snúast út af glæpum Stalíns:

Kjartan Ólafsson hefur í bók sinni Draumar og Veruleiki skrifað:

Í samfylkingarbaráttu íslenskra kommúnista á árunum 1935–1938 var Halldór Kiljan hvarvetna í fremstu víglínu. Hann var þar enginn aukaleikari enda þótt hann vildi vera óháður og væri því ekki í flokknum. Sigra sína á þessum árum átti Kommúnistaflokkurinn engum manni fremur að þakka en Halldóri Kiljan, nema ef vera skyldi Einari Olgeirssyni.“ 

Þefinn af því fann Bjarni Ben og flokkur hans einnig og því var farið í skattaárásina gegn Laxness, sem loks lauk í Hæstarétti árið 1955. Kjartan hefur svo eftir Laxness sjálfum úr Skáldatíma um að hann:  „ hafi fyrrum verið haldinn ofsatrú á kommúnismann, trú sem hvorki tók tillit til skilningarvitanna né skynseminnar" Kjartan bætir við: „Það eru stór orð.“ En líkast til eru þau rétt, þó við lítum á allt úr bakspeglinum. Hin frjálsu öfl forlaga í BNA voru ekki til í Sovétríkjunum og möluðu því heldur ekki gull niður í vasa stórskálds Íslendinga í Moskvu eða Léníngrað. Hvað var upplag Laxness í Stalín-Rússlandi kæru landar?

William C. Trimble, leikfélagi Bjarna Ben í skattaatinu gegn Laxness, var furðuleg "stærð", og sannarlega mikill kommúnistabani. Hann lét t.d. BNA kaupa fisk frá Íslandi, svo fiskurinn væri ekki seldur til Sovétríkjanna. Þeirri áætlun greindi hann danska diplómatnum C.A.C. Brun frá eftir stríð. C.A.C. Brun er líklegast hægt að kalla fæðingalækni íslenska lýðveldisins, þó sagnfræðingur íhaldsins á þessu tímabili þekki ekki danskar heimildir og hafi því aldrei minnst á Brun, sem stýrði áliti State Department á Íslendingum. Síðar meir voru Rússar stórir bjargvættir íslenskra fisksala með Sjálfstæðisflokksskýrteini, svo vart hefur fisksöluhjálp Bandaríkjanna sem Trimble stóð fyrir varað lengi. Mig grunar að Trimble hafi einnig átt hlut á máli þegar Thor Thors tókst að fá metverð fyrir alla íslenska síld í BNA árið 1944 (sjá hér). 

Ég hef beðið Ólínu og Björn að skjótast til Austin í Texas, þegar færi gefst, og skoða heimildir um viðskipti Alfred A. Knopfs við Laxness. Ég legg til að þú farir með þeim í ferðina, sem eins konar málamiðlari, og jafnvel Hannes Hólmsteinn líka, og að þið skoðið þetta öll saman í rólegheitum. [Þetta var skrifað í nóvember 2020; fólkið fór ekki í ferðina eins og kom fram í síðara köflum fróbókarinnar]

Halldór Guðmundsson greinir frá því í grein sinni í dag að Alfred Knopf hafi gefið þá skýringu að hann hefði ekki haft lesenda á erlend tungumál til að ritrýna höfund eins og Laxness.

Gæti verið, að BNA hafi ekki verið tilvalinn ritvöllur stórhöfundar eins og Laxness? Laxness meikaði það heldur ekki í Hollywood (sjá mynd efst), enda snjallir handritahöfundar (margir hverjir gyðingar) búnir að nýta sér öll atvinnutækifærið í bernsku kvikmyndaiðnaðarins á láglaunasvæði í Suður-Kaliforníu með dugnaði og bókmenntalegri færni. Kannski var Laxness ekki einu sinni heimsborgari - nema á Íslandi, þó bók eins og Sjálfstætt fólk sé mikil perla. Hún átti einfaldlega ekki ekki upp á pallborðið í Bandaríkjunum og var aldrei metsölubók.  

Eftir rannsóknarmennsku ykkar í Austin, getið þið hoppað í laugina við hótelið og fengið ykkur hanastél og kannski sent mér skeyti um árangurinn. Ég kemst ekki með, en tek þó fram að meðal bestu vina minna eru líka nokkrir Bandaríkjamenn.

Með bestu kveðjum til Halldórs Guðmundssonar og Björns Bjarnasonar,


Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Danmörku

P.s. erfiðleikar Laxness í sambandi við örlög gyðinga komu óneitanlega upp í huga mér þegar ég skrifa þessa grein. Ollu ósigrar Laxness í Hollywood og hjá Alfred A. Knopf eftirfarandi, hinni mjög svo ankannalegu afstöðu sem kemur fram hjá honum í Þjóðviljanum - eða voru þetta bara almennar skoðanir sósíalista á morðæðinu í Evrópu dikteraðar frá Moskvu? Mér er spurn.

Halldór skrifaði í Parísarbréfi sínu í Þjóðviljanum árið, þ. 31. október 1948:

Morðingi Evrópu dró þessa umkomulausu flóttamenn sína hér uppi vorið 1940 [við hernám Frakklands]. Ég atti nokkra kunningja í hópi þeirra. Þeir voru pólskir. Mér er sagt að þeir hafi verið drepnir. Þeir hafa sjálfsagt verið fluttir austur til fángabúðanna í Ásvits (Oswiekim, Auschwitz) þar sem Hitler lét myrða fimm milljónir kommúnista og grunaðra kommúnista á árunum 1940-1945, jú og auðvitað „gyðínga“.

3

 

Bútar fyrir Halldór og Hannes I - Fyrirspurnin frá Puerto Rico, fyrri hluti

 Laxness Tímamynd

Hér í sumar mun ritstjórn Fornleifs af og til skemmta sér í djúpum bókmenntahugleiðingum.

Það gerist afar sjaldan, enda ritstjórnin öll lítið gefin fyrir alls kyns uppspuna og lygaverk. Aftur á móti verður grafið frekar djúpt fyrir fornleifafræðing og hjálparkokka hans, myndu sumir ætla. Lagi eftir lagi verður flett úr gleymsku fortíðarinnar með undirristuspöðum og teskeiðum eins og fornleifafræðinga er siður. 

Að þessu sinni skal eigi grafið í eitthvað ómerkilegt kotbýli á afdal. Ég leyfi mér að grafa í eitt helgasta vé landsins, meginstöð íslenskrar menningar, sjálfan Laxness, enda þarf ég engin leyfi eins og Halldór og Hannes. Hér verður þó ekki krufið og krukkað í leyfisleysi eins og Hannes gerði.

Ég ætla að vona að útvarðasveit HÍ í gúmmísellum hvalbeinsturna sinna, eða enn síður hlerunardeild afturhaldsboru íhaldsins, fari ekki úr límingunni, þó ég bæti ýmsu við upplýsingar bíógrafara Laxness - þeirra Halldórs með leyfið og Hannesar hins leyfislausa. Stór verk þeirra standa fyllilega fyrir sínu, hvert á sinn hátt, en ýmislegt vantar upp á eins og oft gerist, og þá er nú gott að að hafa fornleifafræðinga til að grafa dýpra. Ég mun bæta við nokkrum bútum, sem bókmenntafræðingar kalla svo (fragmenter/totter í Danmörku), og heimilda skal svo sannarlega getið.

Ritstjóri Fornleifs viðurkennir strax og fúslega, að hann er enginn Laxness-alfræðingur líkt og sumir landar hans. Hann hefir aldregi lesið Laxness spjaldanna á milli eða upphátt fyrir konuna sína í rúminu á kvöldin. Hann er ekki einn af þessum mönnum sem telja sig vita hvað Laxness hugsaði. Ég er ekki einu sinni með rykfallinn Laxness uppi í hillu við hliðina á Íslendingasögum líkt og margir góðir Íslendingar.

Einnig má taka til, að sumt það sem ég hef lesið eftir Laxness finnst mér sannast sagna harla leiðinlegt og afar misjafnt að gæðum. En vitaskuld verðskuldaði karlinn Nóbelinn sinn, svo ekki sé minnst á þjóðina sem hann lýsti.

Ég hef fengið gögn í hendurnar sem bæta örlitlu við söguna sem menn reyna að steypa saman um Laxness, og ég reyni að segja frá þeim af auðmýkt.

Fyrirspurn frá Puerto Rico

Fyrsti búturinn - ja kannski er þetta væn sneið af þjóðlegri brauðtertu - fjallar um beiðni sem H.K. Laxness barst snemma árs 1974, vegnar frægðar sinnar. Þá hafði samband við Laxness maður, búsettur suður á Puerto Rico. Karl sá hét Earl Parker Hanson (1899-1978).

Hanson var eins konar heimsborgari; Bandaríkjamaður ættaður frá Danmörku, fæddur í Berlín en ólst upp í Milwaukee í Wisconsin. Afi hans og amma höfðuð flust til Vesturheims, nánar tiltekið á flatneskjur Wisconsinfylkis. Sonur þeirra Albert Hanson (f. 1864) fæddist í Korsør á Vestur-Sjálandi, áður en fjölskyldan flutti yfir Atlantsála. Móðir Earls, Adelaide (Lida) Erika Fernanda Siboni (f. 1870), var komin af ítölskum óperusöngvara sem sungið hafði sig inn í hjörtu Kaupmannahafnarbúa kringum 1800.

Víkingnum í Albert Hansen (Hanson) dauðleiddist í borubænum Milwaukee og hann strauk á 22. ári til Danmerkur, þar sem hann kvæntist áðurgreindri Lidu Siboni. Albert leiddist reyndar líka í Danmörku, þar sem hann var við verkfræðinám. Að því loknu flutti hann til Berlínar þar sem hann var uppfinningarmaður - þar leiddist honum líka. Í Berlín fæddist þeim Hanson-hjónum sonur, sem skírður var Earl Parker Hanson. Og það var svo maðurinn sem skrifaði Laxness bréf árið 1974.

Eerlie in Transformation

Earl Parker Hanson póserar á forsíðu bókar sinnar um Puerto Rico.

Síma-Hanson

Áður en Laxness kemst að, verður að geta þess, að bæði Albert Hanson og sonur hans höfðu gert stopp á Íslandi.

Albert hafði sjarmað heldri manna stúlkur upp úr sauðskinnsskónum þegar hann dvaldi hér í átta mánuði árið 1885. Var hann að sögn sonarins, Earls, sem getur auðvitað hafa logið því, kallaður "Fallegi Hanson" af íslenskum kvenpeningi.

Eftir að hafa lokið verkfræðinámi í Kaupmannahöfn, og nýfluttur Berlínar, lét Albert sig dreyma um að snúa til Íslands á vit ævintýranna. Það rættist líka eins og oftast hjá ævintýramönnum. Skrifaði hann á undan sér til ráðamanna og spurði, hvort áhugi væri á ritsímavæðingu í landinu. Menn sýndu því lítinn áhuga vegna fjármagnsleysis. Albert fór því sjálfur til Íslands og "mældi fyrir símanum á eigin kostnað" eins og sonur hans greindi frá í Tímanum árið 1977 .

Síðar kom Albert aftur upp til Íslands og mældi meira og leiddist ekki, þökk sé stúlkunum. En þegar loks kom að því að Íslendingar fylltust meiri áhuga á sæstrengjum en þegar Bjørnstjerne Bjørnson hafði nefnt þá fyrst við Íslendinga, gat Albert Hanson ekki tekið verkið að sér á Íslandi en danskt fyrirtæki mun það hafa notað teikningar hans. Nánar má lesa um fyrstu áratugi rit- og talsímans á Íslandi í Andvara í janúar 1905, þar sem lítillega er minnst á hlut Hansons í að koma til landsins besta hjálpartæki íslendinga, fyrr og síðar, fyrir orðróm, kjaftagang og slúður.

Sonur Alberts, Earl Parker Hanson, sá er ritaði Laxness bréf, árið 1974, var einnig nokkuð merkilegur karl. Hann hafði mikla útþrá, líkt og danskir og ítalskir forfeður hans, og dauðleiddist í Milwaukee eins og nágrannastúlkunni Goldu Mabovitch. En hún kemur hér ekkert við sögu. Var bara sett hér inn til að æsa sumt fólk upp. Hún varð síðar forsætisráðherra Ísraelsríkis.

10558966566Earl fór sjálfur til Íslands á 3. áratug aldarinnar, þar sem hann ferðaðist um með syni konu sem "Fallegi Hanson" hafði sjarmað á Íslandi. Sá piltur kenndi honum blautar, íslenskar drykkjuvísur. Earl kunni þær enn og söng fyrir blaðamann Tímans árið 1977, er hann heimsótti Ísland ásamt konu sinni.

Hanson hafði þekkt Vilhjálm Stefánsson persónulega og skrifaði ævisögu hans. Það gladdi Íslendinga svo mikið að Earl Parker Hanson fékk fálkaorðu fyrir árið 1953. Annars starfaði hann lengst af fyrir Bandaríkjastjórn og sem ráðunautur í Líberíu í Afríku, í Puerto Rico og í Kanada. Ef ekki væri fyrir þessa grein, hefði hann líklega alveg gleymst eftir nokkur ár.

Aftur að efninu

Nú var ég nærri búinn að gleyma mér í ættfræðihrauni um Íslandsvininn Earl Hanson.

Erindi Earls við Laxness, sem ekki má gleyma, var bókmenntalegs eðlis. Hanson vildi fá stuðning Laxness til að hafa áhrif á Nóbelsnefndina í Stokkhólmi. Hann vildi láta hana gefa brasilíska skáldinu og kommúnistanum Jorge Amado (1912-2004) verðlaunin 1974. Amado var í miklu uppáhaldi hjá Hanson og mörgum öðrum. Laxness þekkti t.d. Amado.

Earl Hansen hefur einhvern tíma snemma árs 1974 haft það á orði við rektor háskólans á Puerto Rico, Arturo Morales Corrión,  hve gott skáld honum þætti Amado. Rektorinn skrifaði Hanson og sagði það prýðisgóða hugmynd að bjóða honum til Puerto Rico til að kynna Amado fyrir eyjaskeggjum (sjá hér).

Earl 1977Hanson (myndin hér til vinstri var tekin af ljósmyndara Tímans, er Hanson heimsótti Ísland haustið 1977) rauk þá strax til og ritaði til forlags sem gefið hafði út eina af bókum hans sjálfs. Það var sama forlag og löngu áður hafði gefið út Sjálfstætt fólk í Bandaríkjunum - Alfred A. Knopf Inc. Það var mikill hamur í Hanson, sem var nýrisinn upp úr veikindum. Hann bað Alfred Knopf um heimilisfang Amados. Forlag Alfred A. Knopfs hafði nýverið gefið út eina af bókum Amados.

Einkaritari Alfred A. Knopfs, Gretchen Bloch, kona af gyðingaættum, eins og það heitir á íslensku, sem gekk jafnan með kattargleraugu, sendi Hanson heimilisfang Amados um hæl, því þá seldist bók Amados víst ekkert sérstaklega vel í Bandaríkjunum, jafnvel verr en Indipendent People Laxness hér um árið.

Þar sem Hanson líkaði svo vel við skrif Amados, stakk Gretchen Bloch upp á því í bréfi sínu, að Hanson hafi samband við Nóbelsnefndina í Stokkhólmi og mælti með Amado til bókmenntaverðlaunanna (sjá hér) - og það gerði Hanson þegar í stað þann 7. febrúar 1974 (Sjá hér).

SteinbeckHanson bætti um betur og ritaði einnig John Steinbeck (sjá hér), sem sýnir að Hansom hafi ef til vill orðið Elli kellingu að bráð í nýyfirstaðinni sjúkdómslegu sinni. John Steinbeck gekk nefnilega í gegnum sáluhliðið á himnum árið 1968. Steinbeck svaraði því ekki erindi Hansons eftir hefðbundnum leiðum.

Hanson sendir þvínæst Laxness línu, enda nefnir hann Laxness í bréfi sínu til Nóbelsverðlaunanefndarinnar. Hann biður Knopf um heimilisfang Laxness, en ritari Knopfs sagðist ekki getað hjálpað honum með það, þar sem forlagið hefði ekkert samband við Laxness lengur.

Earl dó hins vegar ekki ráðalaus og ritaði Laxness, Reykjavík, Iceland utan á bréf sitt til Laxness, enda kominn af dönsku gáfufólki. Og viti menn, Laxness fékk bréfið, því þá vissu  allir Íslendingar með lágmarksgreind hvar hann bjó og að hann ætti hvítan Jagúar, sem var næsti bær við Rolls Royce.

Sko - takk Illugi J. fyrir þetta frábæra stílbragð - bútinn með bréfaskiptum Hansons við Laxness fá þeir Halldór og Hannes ekki fyrr en í næstu færslu, eftir svona tvo daga, sirkabát. Þeir mega vitna í þessa búta mína í endurútgáfum sínum á ævisögum Laxness, ef þeir gera það kórrétt. Fjölskylda Laxness má líka hlaða þessu niður í leyfisleysi.

Ég er hins vegar enn í vafa um, hvort turnbúar HÍ megi lesa þessar heitu fréttir. Æi jú. Þeim verður vart meint af því, en þeir verða að sækja um sérstakt leyfi í þríriti og leggja við bólusetningarvottorð á skrifstofu rektors, þegar hann kemur úr sumarfríi.

 

4

 

Bútar fyrir Halldór og Hannes I - síðari hluti - Bölvun Nóbelsins

1955_Halldor_tekur_vi_nobelsverlaunum

Earl Parker Hanson, hélt áfram sjálfskipaðri baráttu sinni fyrir Nóbelsverðlaunum til handa Jorge Amado (1912-2001) em byrjað var að greina frá í greininni hér á undan. Hann ritaði Halldóri Laxness bréf dags. 18. febrúar 1974 (sjá hér).

Hanson komst sömuleiðis í samband við Amado, en Jorge sá ekki fram á að geta komist í bráð til Puerto Rico, þar sem hann var byrjaður á nýrri bók og hefði því nógu að sinna. Þeir skiptust á fleiri bréfum og Amado þakkaði Hanson innilega fyrir hugulsemina og meðmælin til Nóbelsverðlaunanna. 

Jorge Amado

Jorge Amado 1912-2001

John heitinn Steinbeck svaraði Hanson skiljanlega aldrei, en sem betur fór var Earl Hanson ekki alveg húmorlaus, því hann skýrði Amado frá því að hann hefði sent Steinbeck bréf en ekki vitað að hann væri látinn: Hanson batt því síðustu vonarstrengi sína við Halldór Laxness, Reykjavík, Iceland.

Hanson barst loks svar frá Laxness, sem var ódagssett. Hanson átti greinlega ljósritunarvél, eða hafði góðan aðgang að einni slíkri. Hann skellti bréfi Laxness beint í ljósritunarvélina og sendi áfram til Amados og annarra.

Hér má sjá það sem Laxness ritaði Hanson (sjá einnig hér)

Laxness til Hanson

Fyrir utan allt vol Laxness um hve mikla bölvan Nóbelinn hafði fært honum, með hrunda markaði í BNA í kjölfarið - sem auðvitað er einhvers konar hótfyndni og skáldskapur að hluta til, þó stundum meini menn það innst inni sem þeir væla um í bréfum til ókunnugra manna - þá er athyglisvert að Halldór Laxness taki upp á því hafa njósnir af möguleikum Amados fyrir Hanson:

I will be in Stockholm in a forthnight or so, and having some annuated acquaintances ("old chums") in this academy, I will go and find out if Amado has chances. I have your address and I will write you about it.

Laxness gerði sér vitaskuld ekki grein fyrir því að Hanson var óður notandi ljósritunarvélar og sendi bréf Laxness út og suður og áfram til Amados og Alfred Knopfs í New York. 

Laxness I think was always an odd kind of fellow

nobelsverlaunin

 Bölvuð verðlaunin sem "eyðilögðu" Laxness í Bandaríkjunum, fyrir utan lausasilfrið.

Hanson furðaði sig mjög á sorgarsögu Laxness um afleiðingar Nóbelverðlaunanna. Því svaraði Knopf, en á hann voru runnar tvær grímur, og sóttvarnargríma, því hann var hættur að láta Gretchen Bloch ritara sinn svara bréfum Hansons:

Dear Mr. Hanson:

Many thanks for you kind letter of March twenty-seventh. Laxness I think was always an odd kind of fellow, and his letter doesn´t really surprice me. The truth of course is -- and I am quite cetain this is so-- than the only book of his which had any sale to speak of in the English langueage was "Independent People", and this did credit to the taste of American readers at any rate, because Indeed my suspicion (and if I find this is a mistaken one I´ll say so in a postscript) is that only "Independent People" was published over here (Sjá hér).

Kannski fór Laxness bitrum orðum um söluhrun sitt og kennir Nóbelnum um. En metsölubókakjaftæðið um Sjálfstætt fólk  Laxness í BNA sem grasseraði á Íslandi vegna þess að bókin var útnefnd sem "Book of the Month" af eigin forlagi (sjá hér og í síðari grein hér á Fornleifi), var alíslensk ímyndun.

Book of the Month var aldrei mælihvarði á hve vel bækur seldust í Bandaríkjunum. Nokkrir fagurkerar á bókmenntir völdu bækur sem þeim þótti varið í og útnefndu sem Book of the Month. Smekkur hins venjulega Kana var hins vegar oft langt frá skinbragði og gildismati nokkurra listavina, sem margir hverjir voru bornir og barnsfæddir í Evrópu en ekki í BNA.

Hansson rauk beint í ljósritunarvélina og sendi Dr. Austregésilo de Athayde, Presidente de Academia Brasileira de Letras línu og greindi þ. 18. apríl að Laxness hefði lofað að hafa njósnir af því hvaða möguleika Amado hefði í Nóbelinn. Og bölvun ljósritunarvélar Hansons var einnig dreift til Amado sjálfs, sem fékk ljósrit af bréfi Laxness með bréfi sem sömuleiðis var sent frá Puerto Rico þ. 18. apríl (Sjá bréfið hér).

Hinn mikla bréfaskriftaþörf Hansons þann 18. apríl 1974 ætlaði engan enda að taka. Nixon og Watergate-hneykslið var ofarlega í hugum manna og greinilega einnig í huga Hansons þegar hann skrifaði Knopf í næsta sinn. Í leiðinni leitaði einhvers umboðsaðila sem gæti farið í gegnum handrit að ævisögu sem hann var að skrifa, eða ætlaði sér að skrifa, sem hann var að þreifa fyrir sér um hjá Knopf. Hanson ritaðir:

I was happy to see your name among those who are actively pushing for Tricky Dickie´s impeachment. The younger of my two sons, David who is a professor of Political Science in Western Michigan University, is having a wonderful time, organizing anti-Nixon movements. As a proud Papa I take personal credit for the Republican defeats in that state, including the most recent one. I know that David was there pitching. Now that he has committed the worst possible of political sins -- that of castin a smirch on the GOP -- his impeachment seems nearer. Every Republican member of the Congress will have to vote for it except those who are sold out to the same people who bought Nixon and who, like the President, are no longer their own men, capable of acting according to their personal judgments. 

Here´s for the Swedish Academy showing good judgement in its next award for literature!

"Little men in black pyjama[s]" - hvaða fordómar voru þetta hjá HKL?

Laxness tók við þessu hressa og hápólitíska áliti Hansons og fór með bréfið með sér til útlanda. Fyrst var hann í Svíþjóð, en skrifar bréfið í Kaupmannahöfn (Sjá hér) þar sem hann var gestur á Hotel 3 Falke, (nú Scandic Falconer) í Falconer Centret á Friðriksbergi).

Dear Mr. Hanson:

    From "usually relibale sources" in Stock-

holm I gathered that Sara Lidman was almost unanimously

in favor as this year´s  Nobel Laureate, one more score

for North Vietnam, as this wonderful authoress practically

gave up writing for years because of her devotion to the

cause of "the little men in black pyjama". Some years,

especially if too much leaks out too early about the Aca-

demy´s choice, they would change their minds in middle

stream and pick another man, but I understand that Amado

is not in focus now.

 I am going to Germany now and hope to be in Iceland in the

middle of May. Let us see you both if you are around with

Mrs. Hanson, preferably after Midsummer.

                                    With kind regards,

                                    Halldór Laxness

Laxness hafði mörgum árum áður skrifað um Lidmann (1923-2004) til Auðar konu sinnar. Hver birti það bréf með leyfi, eins og konan í Vesturbænum spurði gjarnan í gamla daga?

Sara Lidmann

Halldór Laxness var greinilega lítt hrifinn af drengjakollum á konum. Me too. Þær verða svo aulalegar eins og karlar með þá hártísku, nema að við séum að tala um hina sönnu, bónuðu skalla.

Jú, Halldór Guðmundsson segir einmitt frá fundi þeirra Lidmanns og Laxness í bók sinni um Laxness og vitnar í bréf skáldsins til Auðar. Lýsti Laxness Söru sem snoðklipptri bóndakonu upp í sveit, en lét síðan eitthvert djevítis karlrembuálit á Lidmann flakka í pistlinum til Auðar, sem ég er ekkert að hafa eftir, því ég er ekki með leyfi fyrir slíku. - En ég er viss um að í dag myndu einhverjir hrópa "Metoo" á torgum við karlpungaskrifum Nóbelsskáldsins íslenska um snoðklipptar konur.

Álit Laxness á Lidmann, sem hann var að nefna við Hanson á Puerto Rico, var ef til vill keimlíkt áliti Alfreds Knopfs á Laxness (ef "A odd kind of fellow" er haft í huga), eða álit Laxness á Þórbergi Þórðarsyni sem hann sletti sem hinstu kveðju í minningargrein um meistara Þórberg, en í góðu. Þá var hægt að hafa skoðanir án þess að fólk trylltist á "samfélagsmiðlum". Laxness ritaði:

... Við héldum áfram að vera vinir í fjarska eftir fall Unuhúss, og á þá vináttu brá ekki skugga þó hann væri sá maður sem mér hefur fundist einna óskiljanlegast saman settur allra sem ég hef kynst; og honum áreiðanlega sýnst hið sama um mig...

Þarna er kannski kominn innsti kjarninn í þessum fyrstu bútum mínum um Laxness handa Hannesi og Halldóri.

Who the hell´s Sara Lidman?

Hanson setti strax bréf Laxness og önnur bréf í ljósritunarvélina góðu á Puerto Rico og sendi þau síðan umsvifaflaust (9.5.1974) til Alfred Abraham Knopfs í New York. Hanson spurði m.a.:

Do you know Sara Lidman? Have you perhaps published her? I am ashamed that I know nothing about her but, offhand, she sounds to me like a good potential bet as a Knopf author. Just in case you are interested in going after her -- and in case she writes in Danish or Norwegian, I may even try for the job of translating her.

Alfred-A-Knopf

Alfred A. Knopf eldri: "Laxness I think was always an odd kind of fellow." Þar höfum við það. Í síðari greinum gröfum við aðeins í það álit. Var það FBI, Hoover og Bjarna Ben að kenna? Eða var það bara persónulegt og bókmenntalegt álit útgefanda?

Knopf svaraði um hæl í bréfi dags. 14. maí:

Dear Mr. Hanson:

    Many thanks for yours of May ninth. Laxness´ letter seems to border on the indiscreet. At any rate, I have never seen the Prize awarded to anyone who was rumored ´way in advance to be the most likely recipient.

I am sorry that I have never heard of Sara Lidman, much less published her.  We are setting about trying to find out what we can  [find] out about her.

Alfred A. Knopf bað þarnæst trúfastann ritara sinn, Gretchen Bloch, um að senda eftirfarandi upplýsingar þann 24. maí:

    "Mr. Knopf asked me to drop you a line to report that we still have not found anyone who knws anything about or has heard of Sara Lidman. And the current "Books in Print" does not list any titles of hers available in the English language.

Just for the Hell of it

Leið nú og beið. Íslendingar héldu upp á Landnámið árið 874, um sumarið, því þá var samsæriskenningin um landnám fyrir landnám og stórstöðvar útrásarvíkinga austur á landi og í Vestmannaeyjum ekki búin að ná hreðjataki á nokkrum fornleifafræðingum sem ekki hafa lært heimilda og lágmarks sjálfsgagnrýni.

Hinn ritóði Earl Parker Hanson, sem átti ljósritunarvél en sem greinilega bráðvantaði blogg eins og þau sem sumir óðir menn hafa í dag, skrifaði grein sem birtist í blaðinu San Juan Star (1. ágúst 1974) um plön sín um að um hefja Jorge Amado til skýjanna.

Hanson var líklegast farinn að lyppast allur í Nóbelshugleiðingum sínum en skrifaði Knopf samt línu þann 2. ágúst 1974 með hjálögðu ljósriti af grein sinni í því ágæta blaði San Juan Star. Bréfið birti ég hér í heild sinni (sjá einnig hér). 

EH 2. august 1974

Eins og helmingur allra Bandaríkjamanna - eða 48% þeirra - var Hanson hallur undir samsæriskenningar. Hann var farinn að hallast að því að Halldór væri að skemmta sjálfum sér á kostnað þeirra Knopfs - JUST FOR THE HELL OF IT.

Útgefandinn Alfred A. Knopf, sem sumir Íslendingar telja að hafi ekki þorað að gefa út Atómstöðina í Bandaríkjunum vegna þess að FBI, J. Edgar Hoover, Bjarni Ben og aðrir álíka skuggalegir karkterar beittu sér gegn Laxness og sjálfskipaðri hirð hans á Íslandi - og það þrátt fyrir meinta, gífurlega velgengni Sjálfstæðs Fólks í Bandaríkjunum - svaraði 6. ágúst 1974.

Knopf var enn að hugsa um Söru Lidman. Hann var líklega að hugsa um mögulega metsölubók, sem hann gæti loks grætt eitthvað á, ef vera kynni að vísbending Laxness væri sönn. Halldór Laxness var hinsvegar afgreiddur sem æringi uppi á Íslandi, sem skemmti sér með því að senda mönnum "hagnýtan brandara":

Dear Mr. Hanson

We have been able to learn nothing about Sara Lidman. However, I would´t put inventing her beyond Laxness

Þar með lýkur þessum allra fyrsta búti í tveimur bitum handa Halldóri Guðmundssyni og Hannesi Hólmsteini. Aðrir bútar og bitlingar koma brátt. Ég vona að æviriturum Laxness, með og án leyfa, hafi þótt þetta nokkuð fræðandi.

Prívat og persónulega finnst mér uppátæki Laxness gagnvart Íslandsvininum Earl drepfyndið. Laxness hefur hækkað töluvert í verði í einkaverðhöll minni.

Nóbelskálið hafði kannski flóknari húmor en margir gera sér grein fyrir. Honum þótti gaman að segja sögur, annars staðar en á bók, og greinilega líka að ýta orðrómi um sjálfan sig og aðra úr vör. Við vitum, að þegar Laxness skrifaði ýmis ævisögubrot sín, var sannleikurinn ekki endilega leiðarljósið. Ég held ekki að nokkuð skáld geti greint á milli fakta og fíktjónar, og allra síst í sjálfsævisögum. Þess vegna eru ævisögur um skáld ósköp ónákvæmar bókmenntir, sama hvort þær eru ritaðar af þeim sjálfum, eða af öðrum - með leyfi eða án þess.

Einnig tel ég mig sjá, að Halldór Laxness hafi verið þreyttur af fólki sem spígsporaði og bukkaði í kringum hann eins og gaggandi hænur. Líklega var hann að niðurlotum kominn vegna snobbliðs, sem fannst það eiga hann, og sem gerði sér ekki grein fyrir því að rithöfundar hafa lítinn tíma ... þeir eru að skrifa til að lifa á því. Fólk sem bað um meðmælabréf til Nóbelsverðlauna-nefndarinnar í Stokkhólmi átti skilið sérmeðferð hjá spaugfyglinu Kiljan. En kannski skjátlast mér.

Laxlecheln

Lok

Ef einhver hefur verið að velta því fyrir sér, hver fékk Nóbelsverðlaunin fyrir bókmenntir árið 1974, og eyðilagði þar með alla sölu á bókum sínum í BNA til frambúðar, þá var það hvorki Amado né Lidmann. Verðlaununum var deilt á milli tveggja vænna heimalninga, Eyvind Johnson og Harry Martinson. Var nokkurn tíma gefið eitthvað út eftir þá ágætu menn hjá íslensku bókmenntaþjóðinni? Sænska mafían hlýtur að vita allt um það. Líkast til veit enginn enn hverjir þeir Johnson og Martinson eru. En þeir hljóma óneitanlega eins og lélegt sænskt bóluefni.


 

5

 

 

Bútar fyrir Halldór og Hannes II - Kapítalisti í Bandaríkjunum og kommúnisti á Íslandi

Lax til Knopfs 12 april 1946

Skattamál Halldórs Laxness hafa verið mikið á milli tannanna á ýmsum mönnum, sem allt vita um Laxness og lesa uppúr honum fyrir konuna sína (og karlinn) í rúminu á kvöldin.

Til er fólk á Íslandi sem heldur að reynt hafi verið að grafa undan Halldóri Laxness vegna tekna hans í Bandaríkjunum. Um það hef ég ritað áður (sjá hér) og hér skal bætt örlitlu við það, áður en tekið verður á þeirri meinloku sem fær fólk til að ímynda sér að Sjálfstæðismenn, með Bjarna Ben í fararbroddi, og með hjálp FBI og J. Edgar Hoovers hafi valdið hruni á sölu bóka Laxness í Bandaríkjunum.

Skáld þurfa að lifa á hæfileikum sínum eins og annað listafólk.  Áður en Independent People hafði verið gefin út og fékk töluverða sölu (en ekki metsölu eins og margir ímynda sér á Íslandi), óskaði "sósíalistinn" Laxness eftir því við forlag sitt í BNA, Alfred A. Knopf, að honum yrði greidd fyrir sinn snúð í dölum á reikning á Manhattan.

Kemur ykkur það á óvart? Hann ætlaði sér að eyða þeim peningum í BNA, og líkast til hefur hann greitt alla tilskylda skatta af þessari innistæðu sinni í BNA, eins og fram kemur í fyrrgreindri grein minni. Ekkert hankí pankí, bara eðlileg fyrirsjónarsemi fyrir sínum eigin högum og fjölskyldu sinnar. Halldór var ósköp venjulegur, ráðdeildarsamur maður.

Hér birtist í fyrsta sinn á Íslandi bréf Laxness til forlags síns í Bandaríkjunum, dagsett 12. apríl 1946. Í bréfinu biður hann forleggjarann um að ganga frá greiðslum til sín á "bankabók" sína í Bandaríkjunum.

Lax til Knopfs 12 4 1946

Fornleifur gróf djúpt og Fornleifur fann. Og er nú ekki við hæfi að láta systur Andrésar syngja um Romm og kók og Yankee dollar, sem kom á markaðinn árið 1945 (leggið við hlustir hér).

 

6

 

Bútar fyrir Halldór og Hannes III - Fyrri hluti - Laxness hafnað í Bandaríkjunum

Laxness mynd send til AAKnopfs c

Á Íslandi búa ýmsar skrítnar skrúfur, sem hafa sjálfsálit í miklum mæli. Íslendingar þjást einnig á heimsvísu. Í landinu býr nefnilega fólk sem á það til að líkja örlögum sínum við Krist á krossinum og örlögum íbúa Vestfjarða við gyðinga í gasklefum Auschwitz, svo eitthvað sé nefnt. Menn gera þetta í þeirri trú að enginn sé að hlusta á rausið í þeim úti í heimi.

Á meðal íslenskra kvenna, sem oftast nær eru miklu nærri jörðinni og minna ímyndunarveikar en karlpeningur landsins, má finna nokkrar undantekningar frá reglunni. T.d. konur sem telja sig eiga meiri rétt á opinberum stöðum en aðrir vegna litningasamsetningar sinnar. - Stöðum sem þær fá svo ekki einhverra hluta vegna, en oftast vegna þess að þær eru mun hæfileikarýrri en einhverjir karlpungar. Slíkar konur hafa meira að segja farið út í það að líkja hræðilegum örlögum sínum við örlög Nóbelsskáldsins íslenska, er bækur hans tóku upp á því að hætta að seljast í Bandaríkjunum. Já, nú er ég farinn að tala um bók Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, Spegill fyrir Skuggabaldur: Atvinnubann og misbeiting valds (2020) (sjá frekar hér og hér við tækifæri).

IMG_1937 b

Laxness-örlög, American Style

Ólína K. Þorvarðardóttir skýrir "örlög" sín, og meinta valdbeitingu "valdhafa" gegn sér, í bók sinni, sem skráð var sem kvenréttindabaráttubókmenntir í jólabókasnjóflóðinu í fyrra (2020). Hvernig fór hún að því:

Er Ólína hefur lokið við að tengja örlög aumingja Andra Snæs Magnasonar, sem að hennar sögn er ekki fyrsti og sjálfsagt ekki heldur síðasti rithöfundurinn sem valdhafar bregða fyrir fæti vegna skoðana og málflutnings, vindur Ólína sér í að finna samlíkingar milli meintrar níðslu valdhafa gegn sér og þess, hvernig fæti var brugðið fyrir Nóbelsskáldið Laxness. Þá sást vel í jólaskammdeginu, að samsærisheilinn er álíka stór í Íslendingum og hann er í sumum Ameríkönum, þó svo að sumir haldi því fram að allt vont komi frá Bandaríkjunum Norður-Ameríku.

Nú er þessi hugljómun ekki eingetið afkvæmi í höfði Ólínu. Hún vitnar beint í dóttur Halldórs Laxness, Guðnýu, sem í Kastljósi Sjónvarpsins árið 2007 hélt því fram að Bjarni Benediktsson hafi lagt stein í götu Halldórs Laxness "sem varð til þess að honum reyndist illmögulegt að gefa út bækur sínar í Bandaríkjunum".

Í síðari Kastljósaþætti var þessari vinnutillögu, án minnsta votts af heimildum, varpað fram á ný, og því haldið fram að bækur Laxness hefðu hætt að seljast í Bandaríkjunum laust eftir miðbik síðustu aldar, vegna þess að Bjarni Benediktsson hefði gengið á fund sendiherra Bandaríkjanna í Reykjavík og leitast þar við að "eyðileggja mannorð" Halldórs í Bandaríkjunum. Ástæðan var að sögn Atómstöðin og innihald þess verks, sem menn gáfu út í Danmörku með semingi, undir titlinum Organistens Hus.

Fyrir þá sem enn telja að Atómstöðin hafi aldrei komið út í Bandaríkjunum, verður að upplýsast, að hún kom að lokum út hjá DIGIT Book árið 1961, en seldist afar dræmt, nema ef til vill í bókaverslun Snæbjarnar og M&M.

Atom Station 1961

Menn geta keypt sér bók Ólínu Þorvarðardóttur, eða fengið hana að láni, ef þeir vilja lesa um samsæriskenningu hennar og annarra (bls. 152-156), þar sem haldið er fram án nokkurra röksemda, að "ástæðan" fyrir "eyðileggingu Bjarna Bens á mannorði Halldórs" sé "Atómstöðin sem kom út árið 1948" og pólitískt innihald þeirrar bókar.

Það er á furðanlegan hátt skýrt með bréfaskrifum um skattamál Laxness sem áttu sér stað á árinu 1947, sem og gögnum sem birtast hjá Halldóri Guðmundssyni og sem tekin voru úr samhengi.  Þjóðfræðingurinn Ólína er greinilega ekki sleip í heimildarýni, þegar hún blandar tveimur málum óskyldum saman. Fyrirspurnir um skattamál Laxness tengjast ekki innihaldi bókar hans Atómstöðvarinnar. Verra er, að ég verð einnig að álykta að heimildarýni Halldórs Guðmundssonar, viðurkennds ævisöguritara Laxness, sé heldur ekki upp á marga fiska, þegar hann reynir að selja samsæriskenningar. Það er ljótur blettur á annars frekar góðu verki hans.

Hugsanlega má finna gögn um skattamál Laxness hjá skattayfirvöldum í Bandaríkjunum og jafnvel eitthvað í skjölum FBI, þegar þau opnast betur. Hins vegar kemur ekkert fram í skjölum útgáfufyrirtækisins Alfred A. Knopf sem bent getur til þess að skattamál, FBI eða Bjarni Ben hafi haft áhrif á dræma sölu Laxness í Bandaríkjunum. Tilgátan sem Ólína Þorvarðardóttir nýtir sér til að hnýta saman sögu Laxness við meinta höfnun á sér í opinbera stöðu, er sannast sagna kjánaleg samsæriskenning. Það er alveg hægt að nefna fólk sem misst hefur stöður, eða af stöðum á Íslandi fyrir furðulegustu sakir, ósanngjarnar og jafnvel glæpsamlegar. Mál Ólínu er einfaldlega ekki af þeim toga. Hún Ólína er ekki enn komin í sama flokk og Laxness.

Hrunadans Laxness í BNA

Ef þú, lesandi góður, hefur lesið fyrstu bútana mína helgaða ævisöguriturum Laxness, Þeim Halldóri og Hannesi, búta, en þið finnið hér til vinstri á spássíunni í nýrri vefbók sem verður til þessa dagan (sjá hér og hér fyrri grein mína um efnið hér), þá vitið þið nú þegar, að Halldór Kiljan Laxness gerði sér sjálfur fyllilega grein fyrir því hvernig lá á "hruni" á sölu bókar hans hans Independent People (1945) í Bandaríkjunum. Laxness hafði þó sjálfur húmor til að gera grín að því.

Hruninu á Laxness í BNA réðu markaðslögmál og smekkur Bandaríkjamanna. Í bréfi sín til Earl Parker Hansons (sem greint var frá hér) kemur skoðun Laxness fram, þótt bréfið sé á spaugsömum nótum:

Laxness til Hanson

Þar fyrir utan eru til haldgóðar heimildir, sem Halldór og Hannes misstu af með leyfi eða án, sem skilja engan mann eftir í vafa um, af hverju forlagið Alfred A. Knopf gaf ekki Laxness út aftur eftir Sjálfstætt fólk (Lesið næsta kafla, stútfullan af heimildum um það)

Sjálfstætt fólk var í fyrsta lagi enginn metsölubók, þrátt fyrir að hún hafi verið valin sem Bók Mánaðarins (um fyrritækið). Í skjalasafni forlagsins Alfred A. Knopf er hægt að finna haldgóðar upplýsingar um það hvernig Halldór Laxness féll svo fljótt af stjörnuhimnum í Bandaríkjunum.

Bókaútgáfan Alfred A. Knopf var mjög vel rekin eining. Eigandinn sá um fjármálin og hann rak fyrirtæki á þeim forsendum að bækur sem hann gaf út myndu skila hagnaði og helst góðum hagnaði, svo hann gæti haldið áfram að gefa út misgóðar bækur, sem einnig urðu að skila töluvörðum arði. Alfred var var ekki í góðgerðastarfsemi, eins og sumir íslenskir útgefendur, sem vegna slægrar fjármálastjórnar hafa margir hverjir flosnað upp úr útgáfubransanum fyrir aldur fram.

Þó svo að kona Knopfs, Blanche Wolf Knopf, hafi öll verið að vilja gerð til að gefa út erlenda höfunda og óþekkta, sem hinn venjulegi Kani skildi ekki bofs í, þá neyddust þó hjón til þess að meirihluti bóka þeirra væru eftir bandaríska höfunda eða úr hinum enskumælandi heimi. Þannig var eftirspurnin í gósenlandi kapítalismans.

Til þess að meta verk, bókmenntalega og markaðslega, höfðu þau heilan her af góðu fólki sem gat lesið og dæmt fyrir þau bækur, sem mælt var með því að þau gæfu út.

Knopf fékk fjölmargar bækur Laxness, til að dæma þær til hugsanlegrar útgáfu. Bækurnar voru sendar bæði af Laxness sjálfum, Íslendingum erlendis, forlagi Laxness á Bretlandseyjum sem ekki sá sér fært, fjárhagslega að gefa hann út nema með hjálp  Bandaríkjamarkaðs (Alfred A. Knopfs)

Flestir þeir dómar sem ritrýnar A. Knopfs gáfu Laxness eftir Sjálfstætt fólk, nægðu ekki til þess að Alfred E. Knopf legði í að gefa verkin út. Þau var annað hvort dæmt fjárhagslega ófýsilegt, eða að ritdómarar töldu að bækurnar myndu ekki höfða til smekks hins venjulega, bandaríska Jóns, sem mun heita Joe.

Í næsta bút, kafla 8 í þessari fríbók um Laxness sem er að verða til, kafla sem þið fáið eftir um það bil tvo daga eða svo (ég þarf líka að hafa tíma til að stunda sjóbrettin mín og listaverkasöfnunina), leyfi ég Íslendingum í fyrsta sinn að lesa álit ritdómara Alfred E. Knopfs í New York. Sjón er sögu ríkari.

Vissulega voru það hvorki Bjarni Ben, J. Edgar Hoover eða vondir íhaldsmenn á Íslandi sem brugðu fyrir Laxness fætinum, vegna skoðana hans. Laxness gerði sér sjálfur grein fyrir, að Nóbelsverðlaun þýddu ekki metsölu. Metsala var hins vegar takmark bandarískra útgefanda - og smekkur Bandaríkjamanna var öðruvísi en smekkur Íslendinga. Allt er hægt að skýra án samsæriskenninga - nema kannski stöðuveitingar til íslenskra kvenna.

Mikill er máttur Kanans

Samlíkingar manna á sjálfum sér við Halldór Laxness, vegna þess að þeir ímynda sér að áhugaleysi Vesturheims á honum hafi orðið til út af skattamáli og illkvittni, eru makalausar. Sú skoðun að vondir menn hafi sett skófluna undir Laxness á Íslandi og í Bandaríkjunum, í samfloti við eitt helsta illmenni BNA, J. Edgar Hoover, virðist út frá heimildum sem ævisöguritarar Laxness hafa ekki vitað um,eru  algjörlega út í hött.

Sjálfhverfan í slíkum vangaveltum er í raun óhemjuleg. En því miður vinnur samsærisheilinn í Íslendingum oft í fjórða gír. Hann er sannast sagna rauðglóandi alla daga. Þetta er siður sem á rót í gamalli, íslenskri alþýðuhefð, þar sem menn álykta að allt vont komi að utan, sérstaklega útlendingar. Ofan á bætist að íslenskur sósíalismi er orðinn að furðulegri blöndu öfundar og illkvittni sem fólk hefur erft frá ættmóður sinni Gróu á Leiti.

Svo er öllu vafið saman við séríslenska pólitík, sem enn er með hreppabrag og á hrossakaupastiginu. Stundum nær hún ómældum hæðum vitleysunnar er skyldleikaaldir umboðsmenn nokkurra kjósenda gaula ofurölvi á börum í Reykjavík, þegar þeim langar að ríða eða níðast á minni máttar. Lengra en það hefur heillaþjóðin víst ekki náð. En eitt gott kemur greinilega eins og himnasending frá Bandaríkjunum fyrir konur sem lesa í kaffibolla til að skýra örlögin, og það er samsæriskenningin. Smáborgaralegur Jeppi og 5 lítrar af kók skaga einnig upp í öll þessi fríðindi að Vestan. En blandan sem úr þessu hefur orðið, er kannski ekki sú besta fyrir litla þjóð sem Íslendinga, nema að þjóðin geri sér grein fyrir því að það sem verður til í túninu heima er oft hin versta hrákasmíð.

Lesið hvernig Halldóri Laxness var hafnað í Bandaríkjunum. Næsti kafli í fríbókinni um Laxness hér á Fornleifi, er á sama stað, eftir tæpa tvo daga. Hellið upp á gott og sterkt kaffi fyrir lesturinn. Lesning og skilningur eru góðri samsæriskenningu betri.

 

7

 

 

Bútar fyrir Halldór og Hannes III, annar hluti - Þeir sem dæmdu Laxness úr leik í Bandaríkjunum

ERZXNGwWoAEHdck

Hér verður í fyrsta sinn á Íslandi svipt hulunni af því hvernig Bandaríkjamarkaður slátraði gullkálfi Íslands, Nóbelsskáldinu Halldóri Laxness.

Ef menn halda enn að brögð hafi verið í tafli og að Íhaldið, og sér í lagi heildsalar hafi haft beina línu til FBI og CIA, vona ég að þessir bútur geri fólki ljóst að þeir þankar eru ímyndun ein og yfirskin.

Eins og fyrr segir, lét Alfred A. Knopf sérfrótt fólk lesa bækur sem hann fékk á ýmsum tungumálum frá höfundum, umboðsmönnum eða útgefendum í löndum utan Bandaríkjanna. Bækur Laxness sem Knopf fékk í hendur höfðu áður komið út á þýsku, dönsku og sænsku. Knopf fann sér bókmenntasinnað eða bókmenntalært fólk, sem gat lesið þessi tungumál. Þeim var ætlað að skrifa stutta greinagerð og fylla út hjálagt eyðublað, sem síðar var skilað á skrifstofu Knopfs í New York.

Knopf, tók þetta fólk alvarlega, enda var hann í bókaframleiðslu, sem varð að skila arði. Þó Laxness væri gefinn út í DDR í 70.000 eintökum, þá voru bækurnar þar prentaðar á verri pappír en klósettpappírinn var í Bandaríkjunum. Pappírinn í DDR gulnaði á nokkrum mánuðum og eftir nokkur ár voru bækurnar farnar að leysast upp á köntum.

Íslenska viðhafnarútgáfan, sem við fengum á 7. áratugnum, með gullpjátri og kili úr leðri á ómerkilegustu bækur, var alíslenskt fyrirbæri. Bandarískar bækur fjölluðu um sölu, fyrir útgefandann. Áhugasamur bókmenntaráðunautur í Greifswald eða Berlín réði engu um söluna, fyrr en hann hafði sent röksemdir sínar í þríriti til skrifstofu sem stjórnaði því sem Austur-Þjóðverjar lásu í frítíma sínum. Menn þurftu rautt ljós á allt austan Tjalds. Þannig var því ekki háttað í Bandaríkjunum, þó svo að sumir Íslendingar í endalausu hatri sínu á Könum, komist ekki yfir að það er munur á frelsi og ánauð.

Í þessum bút/kafla fríbókar Fornleifs um Laxness má lesa dóma Ameríku á Laxness frá 1945 fram til 1958; Í síðari kafla má lesa meira um seinni hafnanir sem hann fékk:

001_Knop_9781101875735_art_r1-797x1024

Skrípamynd af Alfred Knopf 1948 í The New Yorker Magazine. Laxness sést ekki í bókahillunni, þó vel sé að gáð.

1945: Sjálfstætt fólk

Hér getið þið lesið dóm tveggja ritrýna Knopfs á Sjálfstæðu Fólki (Independent People), einu bókinni sem Alfred A. Knopf gaf út eftir Laxness. Ritrýnarnir voru þau May Davies Martinet, sem sjálf var rithöfundur, og B. Smith (Bernhard Smith), sem var yfirlýstur Marxisti og af gyðingaættum. Lesið ritdóminn sjálf. Lestur er sögu ríkari. 

En til að hjálpa þeim sem ekki geta lesið á gagnrýninn hátt, eða þeim sem aðeins spá í bolla, ber að nefna að May Davies Martenet var hrifin af bókinni, þó hún spáði henni ekki mikilli sölu í BNA:

The first portions of it are related, both in mood and style, to the Laxdale and other Great sagas. If publication should be undertaken I recommen that a little further work done here and there on the translation; also that certain referencers to old Norse customs and to Icelandic literature be explained or clarified so that a genereal public who is not familiar with this background may not be "put off".

Bernard Smith var að mestu sammála en bætti við:

B. Smith text

Samt sem áður tók Knopf sjans á Laxness, og með örlítilli aðstoð frá fyrirtækinu Book of the Month "bústaði" hann söluna örlítið, eins og það heitir.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Heppni Laxness virtist hafa snúist eftir 1945.

1946: Salka Valka

Salka Valka var send (Roy) Wilson nokkrum Follet til að ritrýna. Follett var þekktur fræðimaður og rithöfundur, en hugsanlega enn þekktari fyrir að vera faðir Barböru Follett, ungs rithöfundar og undrabarns, sem ekki var ósvipuð Veru Illugadóttur í útliti. En Barbara þessi hvarf á dularfullan hátt árið 1939, aðeins 25 ára gömul.

Wilson Follet hafnaði bókinni með þessum orðum:

Photos of Barbara - Farksolia Follett á unga aldri

The story has terrific power in many scenes and episodes, but as far as I am concerned it does not compose into anything but a mighty chaos of effects. We should probably have published it had it come our way before Independent People: after I.P., it seems crude, inchoate, and experimental. The tranlation is better than average but no masterpiece. I think you will have to seek addvice. I am afraid I am just congenitally repelled by imaginative literature that (like this and Feike Feikema) is all power an no balance.  WF 6/19/46

Hér er hægt að lesa allan ritdóminn, og Alfred A. Knopf gaf ekki út bókina.

1947: Hafnað er Heimsljósi, Fegurð Himinsins og Höll Sumarlandsins

Árið 1947 bárust Knopf danskar útgáfur á nokkrum bókum Laxness um Ólaf Kárason. Það sem ritrýnirinn H. Weinstock (Herbert Weinstock 1905-1971), sem fyrst og fremst var tónlistarritstjóri hjá Knopf,var beðinn um að lesa Verdens Lys (1937), Himlens Skønhed (1941) og Sommerlandets Slot (1938), allar gefnar út af forlaginu S. Hasselbalch í Kaupmannahöfn. Weinstock fékk einnig senda enska þýðingu á fyrstu 6 köflum Hallar Sumarlandsins. 

Herbert_Weinstock_by_Lotte_JacobiEkki veit ég, hvort illa lá á Weinstock, eða að hann var á einhverjum andlegum túr, en persónulega er ég mjög hrifinn af Ljósi Heimsins, og skil alls ekki ritdóm hanns. Hvar Weinstock lærði dönsku hef ég ekki hugmynd um.

Í fljótu bragði sýnist það einnig undarlegt að biðja tónlistarýni, tónskáld og höfund bóka um fræg tónsáld að lesa verk Laxness- En hinum samkynhneigða Weinstock var margt til lista lagt og hann talinn ágætur höfundur bóka um fræg tónskáld. Samkvæmt Gróu á Wikivaka var Weinstock among the very few relatively uncloseted gay men in New York publishing in the 1940s. Það var samt ekki ástæðan fyrir dómi hans.

Gyðingar og samkynhneigðir voru heldur ekki valdir að falli Laxness í BNA.

Þið getið lesið dóm Weinstocks í heild sinni hér. Herbert Weinstock skrifaði m.a. stutt og laggott:

I cannot resist adding that I think we ought not to waste time over this.

H.W.

1948: Íslandsklukkunni hafnað og einnig árið 1951

Í lok árs 1948 barst Alfred A. Knopf eintak af Íslandsklukkunni fra umboðsmanni Laxness á Manhattan. Heiðurinn að lesa sænska þýðingu á bókinni fékk rithöfundur, Eugene Gay-Tifft, sem skrifaði greinagóða 12 blaðsíðna úttekt á verkinu, sem hann taldi að ætti að kalla The Stolen Bell á ensku (sjá ritdóminn í heild sinni hér).

Eugene Gay-Tifft var beggja blands í ritdómi sínum, enda þótti honum trílógían ekki eins merkilegt verk og Salka Valka eða Sjálfstætt fólk. Gay Tifft komst meðal að þessari niðurstöðu á þar til gerðu eyðublaði sem fylgdi umsögn hans við spurningunni: G. Is this a book you would yourself want to buy, own and read, if you saw it announced by anothter publisher?  Say very briefly why. Gay-Tifft svaraði:

Yes, indeed! I have read Laxness´ "Salka Valka" and "Independent People", was greatly impressed by these and would want to possess a further item by this author.

Gay Tefft G

En hvað varðar vinsældir bókarinnar var hann í vafa. Við lið D. eyðublaðinu var hann spurður hver mörg eintök hann teldi að bókin myndi seljast í, Hann svaraði:

This woud depend largely upon the Promotion. Certainy it is not a work which the American public would instantly go for. But neither is it one the book clubs would refuse to concider

Gay Tefft sala

 

Svo mörg voru þau orð, og FBI og Bjarni Ben höfðu engin áhrif þar heldur.

Robert Pick 1899-1878Árið 1951 barst Alfred A. Knopf þýsk þýðing á Íslandsklukkunni, sem maður að nafni R. Pick las (dr. Robert Pick f. 1898 í Vín; Kom sem flóttamaður til BNA árið 1940; d í New York 1978; myndin hér til vinstri er af honum á gamals aldri) las. Hann var greinilega ekki að tvínóna við hlutina og var í litlum vafa (sjá hér). Pick ritaði:

The admittedly short look I took into the German translation of Islands Klocka (see Mr. Eugene Gay-Tifft´s report 12/16/48) doesn´t tempt me to advise you to re-open this case.

1955: Gerplu hafnað

Árið 1955, snemma árs, barst sænsk þýðing Gerplu frá Allen & Unwin, útgefanda Laxness á Englandi. Unwin, hinn mikli vinur Laxness, var í vafa um hvort hann gæti gefið út bókina án hjálpar bandaríska markaðsins. 

lamm_alfhild_1926_largeLestur bókarinnar kom í hlut Mrs. Alfhild Huebsch (1887-1982), sem fæddist inn í auðuga fjölskyldu í Stokkhólmi. Hún var eiginkona þekkts forleggjara í Bandaríkjunum, Benjamin W. Huebsch.

Frú Alfhild hafnaði bókinni, en hafði þó á þeimi dómi sínum ýmsa varnagla:

I recommend rejection of the book, but I do so with hesitation and reluctance, for it is a work of many merits. It will no doubt be a good, if not a best seller in the Scandinavian countries, but its appeal to the American public is likely to be limited. Laxness is of cause (sic) a great writer; some other books of his may be a better gamble.

Huebch text

Hér má lesa dóm Alfhild Huebsch i heild sinni.

1957: Ungfrúin og Góða húsið - hafnað

AhmanSvíi, Sven Åhman að nafni, sem var meðlimur vel þekktrar fjölskyldu í Gautaborg í Svíþjóð (móðirin hét Cohen að eftirnafni), var fenginn til að ritrýna Ungfrúna í sænskri þýðingu, Den Goda Fröken och Huset. Forlagið, sem gaf út bókina í Svíþjóð, Raben & Sjögren, sendi bókina til Alfred A. Knopfs.

 

 

Åhman ritar m.a.:

Ahlman text

Åhman hafnaði því ekki bókinni, en það gerði annar mikilvægur starfsmaður Alfred A. Knopfs, nánar tiltekið sá sem setur bókstafina sína undir, BWK, Það var hún Blanche Wolf Knopf, eiginkona Alfred A. Knopfs. Hún var á annarri skoðun en fagurkerarnir í þetta sinn. Ekki var álitið eins mikið á Nóbelsverðlaununum í bókmenntum  þá og það var eftir að verða síðar.

Annað verður víst ekki ályktað. Sjá dóm Åhmans hér.

1958: Gerplu hafnað á nýjan leik

Snemma árs 1958 barst Alfred A. Knopf eintak af Happy Warriers (Gerplu) í útgáfu Methuen & Co í Lundúnum. Ásamt bókinni sendi útgáfufyrirtækið greinargerð upp á sex blaðsíður um þýðingu bókarinnar. Methuen vildi freista þess að auka sölu bókarinnar með því að setja hana á markað í Bandaríkjunum í samvinnu með við Alfred A. Knopf.

HR, sem ég þekki engin deili á, was not impressed. Hann komst að þessari niðurstöðu:

It is evident to me that this would be the wrong book to bring Laxness before the American public again.

Lesið ritdóminn í heild sinni hér.

Screenshot 2021-07-08 at 06-01-42 Mrs Knopf, Invisible TastemakerÞannig var það nú. Í þessum skjölum sem birtast í þessum kafla, sem í dag eru varðveitt á Harry Ransom Center við Háskólann í Houston Texas, í sjalasafni Alfred A. Knopfs Inc., frá þeim tíma sem skipti máli (því eldra skjalasafn fyrirtækisins er varðveitt í New York) er ekkert sem bendir til þess að frægð og frami Laxness hafi verið stöðvaður af rýtingum pólitískra andstæðinga Laxness á Íslandi, ellegar af FBI og J. Edgar Hoover. Það síðastnefnda eru hugarórar Íslendinga sem hafa farið á flug líkt og fólk sem sem telur að fallegustu konurnar og sterkustu mennirnir komi frá Íslandi. Fyrsta atriðið er einhverju leyti rétt, en íslenskir karlar hafa engan styrk, því í þá vantar blendingsþróttinn.

Nóbelinn hafði heldur enginn áhrif á afhroð það sem Laxness varð fyrir í BNA, líkt og Laxness stakk síðar upp á í glettni (sjá hér) við boðflennur í lífi hans.

Hjónin Alfred og Blance Knopf ráku viðskipti. Viðskiptavit þeirra krafðist af þeim að þau yrðu að fá arð af viðskiptum sínum. Alfred hafði í raun lítið vit á bókmenntum, en það hafði Blance og einnig mikið viðskiptavit. Alfred lét oft þau orð falla að Blanche væri sál fyrirtækisins (the soul of the firm)(Sjá hér). Hjónin voru einnig prívat í einhvers konar samkeppni eða viðskiptasamsambandi sem ekki rúmaði mikla ást að því er virðist á lýsingum á löngu sambandi þeirra. Lífstíllinn var einnig flottur á þeim hjónum og það kostaði sinn skilding.

Laxness didn´t make´m money, tel ég að sé ágæt lokaorð fyrir Laxness-ævintýrið í Bandaríkjunum. Nóbelsverðlaun skiptu engu máli í Bandaríkjunum fyrr en löngu síðar, þegar það seldi að klína þeirri upplýsingur á rykbindið.

Ef eitthvað varð Laxness "að falli" í Bandaríkjunum, þá var það beinhörð stefna hjónanna Alfreds og Blanche Knopf í viðskiptum. Bókaútgáfa í BNA er og var 90% beinhörð viðskipti með stóru Vaffi og aðeins 10% hugsjónastefna, eða jafnvel enn minna.ct-prj-blanche-knopf-lady-with-the-borzoi-20160405

«Hvað með eina Laxness, Blanche mín?» - «Hættu þessu rugli og láttu ekki eins og fífl, Alfred»

deeping

Laxness komst aldrei á risaskilti Knopfs.

Beitti J. Edgar Hoover sér persónulega?

Nú, ef J. Edgar Hoover beitti sér persónulega í skattamáli Laxness, líkt og Halldór Guðmundsson hélt fram við mig í tölvupósti þann 25. nóvember 2020,:

"Hoover beitti sér persónulega í málinu, það sýna gögn sem ég fékk eftir útgáfu bókarinnar."

þá hafði það engin áhrif á höfnun á bókum Laxness hjá forlaginu Alfred A. Knopf. Skattamál á Íslandi hafði ekkert að gera með áhuga forlagsins á Laxness.

Halldór Guðmundsson greindi frá því í grein í fyrra, að Alfred Knopf hafi gefið þá skýringu að hann hefði ekki haft lesendur á erlend tungumál til að ritrýna höfund eins og Laxness.  Gott væri að fá þá skýringu Knopfs hjá Halldóri, í ljósi þess að það sem kemur fram í skjalasafni fyrirtækis sem varðveist hefur,  bendir til alls annars. Alfred A. Knopf lét marga lesa bækur Laxness og jafnvel fleiri en einn lesa sömu bókina.

Það væri áhugavert að sjá þau gögn sem Halldór Guðmundsson hefur.

Heimildir

M.a.

Harry Ransom Center, The University of Texas at Austin: Alfred A. Knopf, Inc.; Records 1873-1996 (bulk 1945-1980), Subseries E. Rejection Sheets: 1948-59; Box 1130 / Rejections.

 

8

 

 

Bútur fyrir Halldór einan - Halldór lyftir leynd af 6 skjölum sinna um FBI og Laxness

index

Nú færist sko aldeilis fjör í fríbók Fornleifs um Halldór Kiljan Laxness.

Er Halldór Guðmundsson sá fríbókina sem er í byggingu á Fornleifi, tók hann þegar mjög vel í óskir mínar um að fá að sjá skjöl sem varða það sem hann og aðrir telja aðför að frama Laxness í Bandaríkjunum - skjöl sem hann hafði reyndar ekki ekki höndum við útgáfu bókar sinnar um Laxness á íslensku og síðar á dönsku. 

Ég þakka Halldóri innilega fyrir skjölin (send 9. júlí 2021). Þau eru reyndar ekki mörg. Þið getið rannsakað þau sjálf og lesið, án þess að sjá samsæriskenningar eða lesa milli línanna:

hér (2. júlí 1947)

hér (5. sept 1947)

hér (19. sept 1947)

hér (1948)

hér (1957) og

hér (1959)

Halldór fullvissar mig um að hann eigi enn til kassafylli af slíkum skjölum. Þau mikilvægu skjöl verður vitaskuld að birta sem fyrst, svo kalda stríðið haldi ekki endalaust áfram á Íslandi.

Ég sé hins vegar, í fljótu bragði, akkúrat ekki einn einasta stafkrók í þeim skjölum sem Halldór hefur sent mér, sem fjallar um ásetning íslenskra íhaldsmanna eða FBI um að stöðva bækur eða sölu Laxness í Bandaríkjunum. Það finn ég heldur ekki í gögnum Alfred A. Knopf Inc. Það er víst heldur ekki kenning Halldórs Guðmundssonar sjálfs, en henni hefur þó verið mikið fleygt af t.d. Guðnýju Laxness og Ólínu Þorvarðardóttur, sem og í íslenskum fjölmiðlum.

Aftur á móti er tilvísun til Bjarna Benediktssonar, Mr. Benediktsson, í einu bréfanna (sjá hér) þar sem kemur fram að hann sé búinn að koma þeirri flugu inn hjá William C. Trimble sendiherra Bandaríkjanna, að allar tekjur Laxness af sölu bóka hans í Bandaríkjunum fari beint í starfssemi Kommúnista á Íslandi.

Trimble þaut beint með þetta í J. Edgar Hoover. En eins og glögglega kemur fram í bréfum Trimbles til FBI, þá lofaði Laxness sannarlega íslenskum listamannalaunum sínum árið 1947 sem verðlaunum fyrir þann sem skrifaði bestu ritgerðina í ritgerðasamkeppni Landvarnar. Landvörn var þó ekki neinn venjulegur kommúnistaflokkur, þótt sumir félagar hefðu verið meðlimir í Sósíalistaflokknum gamla. 

Það er þó vitanlega stórfurðulegt, að Bjarni Benediktsson og Trimble haldi að íslenskur listamaður sé svo mikill hugsjónamaður, að hann gefi einum versta smansafni  útlendingahatara á Íslandi, fyrr og síðar, alla peningana sína. 

Í kalda stríðinu var ímyndunaraflið álíka heitt og samskipin voru köld og stirð. Menn bjuggu til sögur til að hlýja sér við við hjárðeldinn. Sjaldan hefur reyndar eins miklu verið logið eins og á þeim árum á Íslandi. Íslenskir meðreiðarsveinar stórveldanna lærðu fljótt þess eðalslist kalda stríðsins.

Eins og Halldór Guðmundsson veit, og getur séð á skjalinu sem ég birti hér, þá var Laxness ekkert að fela áætlanir sín sínar gagnvart forlaginu sem gaf Sjálfstætt Fólk út í BNA, eða hvað hann ætlaði sér að gera með aurana sína fyrir Independent People. Hann vildi værsogú fá þær á reikning í Bandaríkjunum. Það er ekki beint meintur vilji til að koma hýrunni beint til kommúnistanna á Íslandi.

Árið 1948, þegar FBI komst í gögn skattayfirvalda í BNA, var meginþorri fjármagnsins enn á reikningi hans í Bandaríkjunum eins og lesa má um hér. Það hefur vitanlega sýnt FBI, að Laxness var alls ekki að fóðra Kommúnista á Íslandi með tekjum sínum í BNA, líkt og haldið hafði verið fram af Mr. Benediktsson og Trimble á Íslandi.

Ef Laxness hefur selt 480.000 eintök af Independent People, þá þénaði hann meira en skitna 24.000 $

Eitt, sem er afar furðulegt í bréfum þeim sem ég hef fengið í hendur frá Halldóri Guðmundssyni, er talan 480.000 eintök sem menn á Íslandi, eða Trimble, telja að Laxness hafi selt af Independent People i BNA.

Það passar á engan hátt við að að Laxness hafi í allt fengið 24.000 dali í sinn hlut fyrir sölu bókarinnar eins og forlaget Alfred A. Knopf upplýsti. Þá hefur hann heldur betur verið hlunnfarinn.  Mann grunar, að kannski hafi tala seldra bóka frekar verið 48.000 eintök. Hvort 48.000 eintök eða 480.000 eintök voru það sem sem Alfred A. Knopf skrifaði um sem "... the only book of his which had any sale to speak of in the English langueage" til Earl Parkers Hansons (sjá hér) veit ég ekki. En ég hallast að 48.000 eintökum af bók sem ekki leystist upp eins og bækur Halldórs sem prentaðar voru í 70.000 eintökum í DDR.

Bókin var seld á 3 dali úr verslun (með álagningu etc).
3 $ x 480.000 mínus kostnaður, þá segir það sig sjálft, að 24.000 dalir eru mjög lág höfundalaun. Við verðum við að minnast orða Knopfs í bréfi til Hansons, í stað þess að hugsa í jöfnu kaldastríðsprédíkanta sem skiptu mannkyninu á Íslandi í hermangara og Rússagullsviðtakenda.

Sala á um 48.000 eintökum, sem gæti verið það sem gefur 24.000 dali í höfundalaun, er ekki sérlega góð sala og ekki nógu góð til að Knopf hafði áhuga á að halda áfram með bækur sem ekki gæfu meira í aðra hönd.

Knopf hafði einfaldlega betri höfunda á bás.

Mig grunar að Bjarni Ben og Trimble hafi bætt núlli við alveg óvart þegar þeir fóru að hnýsast í tekjur Laxness. Ég held líka að við sjáum vonleysið í orðum Laxness, þegar hann gerið grín af því að salan á bókum hans hafi rokið í BNA eftir Nóbelinn. Það var engin sala! Hún var löngu rokin. Draumurinn um Ameríku var brostinn á ný.

Annað sé ég ekki, í því sem þú Halldór sendi mér í gær, 9. júlí 2021, varði sölu bóka Halldórs Laxness eða tilraunir til að granda útgáfu á verkum hans þar til frambúðar. Það þarf mjög frjótt ímyndunaraflt til að komast að því að samsærið hafi náð lengra en til tekna sem menn héldu að rynnu til kommanna.

Í tveimur bréfum frá síðari hluta 6. áratugarins kemur fram að kommúnistinn Halldór Laxness sé væntanlegur til Bandaríkjanna. Það er heldur ekkert óeðlilegt við þau bréf, enda búið að klína kommúnistastimpli á Laxness. Það var fylgst með mönnum sem höfðu þann stimpil. Menn komust sumir ekkit til BNA ef þeir upplýstu á löngum spurningarlistum bandarískra yfirvalda að þeir hefði tekið þátt í starfi kommúnista eða sósíalista. En bréfin tvö frá 6. áratugnum í kassa Halldórs Guðmundssonar varð ekki sölu á bókum Laxness.

Félagsskapurinn Landvörn, sem var m.a. stofnaður gegn hersetu og útlendingum. Félagið hafði í sínum röðum félagsmenn sem bæði gátu hafa verið sósíalistar, ellegar að þeir voru meðal þróttmestu gyðingahatara landsins á yngri árum. Nú var Landvörn, sem nefnd er í einu bréfanna, ekki neinn dæmigerðu kommúnistaflokkur. Hann var andvígur hersetu. Einn meðlimanna, Sigurbjörn Einarsson hafði verið nokkuð svæsinn gyðingahatari og anti-sósíalisti í menntaskóla (sjá hér eða í bókinni Antisemtism in the North).

Fleiri gögn verða birt í fríbók Fornleifs um Laxness

Kafli 8 er ekki lokakafli Fríbókar Fornleifs um Laxness. Svei mér nei.

Hér á Fornleifi birti ég í næstu viku gögn varðandi tengsl Alfred A. Knopf Inc. við Book of the Month bókaklúbbinn, sem krafðist þess að fá að stytta Independent People, ef þeir ættu að gefa bókinni stuðning sinn. Skilningur þeirra sem hafa skrifað um "örlög" Laxness í Bandaríkjunum, verður hugsanlega meiri eftir að hafa lesið um það.

Nú, kannski er líka meira bitastætt í þeim fulla pappakassa sem Halldór er með af ljósritum frá FBI, því hann sendi mér aðeins lítið brot. Í því broti sem Halldór sendi hér beint inn í nýjan 8. kafla fríbókarinnar, er einfaldlega ekkert sem sýnir að FBI hafi stoppað frama Laxness.

Skjölin sýna að bandarískur sendiherra á Íslandi (Trimble), alræmdur kommúnistabani, sem eitt sinn sagði dönskum diplómat hafa boðist til að láta BNA kaupa allar fiskafurðir af Íslendingum, svo þjóðin væri ekki að selja fiskinn "to the Soviets", ályktaði fyrir atbeinan Bjarna Ben, að rithöfundur á Íslandi gæfi allar tekjur sínar til kommúnista. Ja, ekki er öll vitleysan eins. - Nema hvað að freðfiskurinn fór í tonnatali á markað í BNA og varð að lokum góð afurð. Það gerðist þegar Bandaríkjamarkaður krafðist kosherhreinlætis fyrir framleiðsluna á Ísland, enda voru flestar fiskæturnar af sama uppruna og Alfred og Blanche Knopf og flestir þeirra sem lásu bækur Laxness fyrir þau hjónin, meira að segja Åhlman frá Svíþjóð (sem var Cantor í móðurætt). Þetta vissu menn ekki á Íslandi, og er það fyrir bestu, því annars hefði gyðingum ef til vill verið kennt um endalok Laxness í BNA. 

Laxness skrifaði einnig miklu síðar til Knopfs, þegar allur áhugi á honum var horfinn hjá Alfred A. Knopf í Bandaríkjunum, að hann teldi að það væri kominn tími til að fyrirtækið gæfi út "nýjan Laxness". En sú útgáfa átti sér ekki stað eins og við vitum.

Einnig er klárt mál, að Knopf hefði alls ekki farið út í kostnað og vinnu við að láta fjölda manns ritrýna bækur Laxness (sjá 7. kafla hér á vinstri dálkinum), ef hann hefur haft fyrirskipun frá FBI um að jarða Laxness. Bækur Laxness fóru í sama ferli og aðrar bækur hjá forlaginu. Laxness átti einfaldlega ekki við smekk Bandaríkjamanna. 

Átómstöðin

Atómstöðin, sem sumir menn á Íslandi telja að menn hafi vísvitandi reynt að stöðva, kom reyndar aldrei til lestrar hjá Knopf, ekki einu sinni í við síðari tilraun breskra forlags Laxness Allen & Unwin Publishers sem og Methuen & Co,  og síðar árið 1969, hefur umboðsmaður Laxness í Bandaríkjunum einnig samband vegna Skáldatíma. Þeir vildu allir fá Alfred A. Knopf Inc.  il liðs við sig, því þeir sáu ekki fram á að geta gefið bækur Laxness út einir síns liðs.

En svarið sem þeir fengu sýnir alls ekki pólitískar ástæður fyrir höfnun; rugli eins t.d. og að Laxness gefi tekjur sínum kommúnistum á Íslandi. Maður segir bara eins og Kaninn: "Come on, maður".  Furðulegt er að menn trúi enn slíkum Kaldastríðshugarórum á 21. öld.

Eitt ber þó að nefna: Í mínum gögnum sé ég að Blanche Knopf skrifar í lok árs 1960 til John Cullens hjá Methuen & Co. í London varðandi Atómstöðina og aðrar bækur. Cullens sá sér ekki fært að gefa bækurnar út, nema með hjálp Bandaríkjamarkaðar. Blanche Knopf var til í að vera með í útgáfu á Paradísarheimt, en hvað varðar Atómstöðina svaraði hún Cullens:

"... THE ATOM STATION I think we had better bow out of. We thought and thought and had reports, etc. , and I doubt that we can get away with it".

Látum ekki glepjast út af því sem hún skrifar, þótt fnykur af Hoover, Trimble og Bjarna Benediktssyni berist kannski gegnum tvírætt orðalagið. Það þarf ekki að hafa verið nein pólitísk pressa á Blanche. Engar skýrslur um Atómstöðina eru varðveittar í skjalasafni bókaútgáfunnar. Bókin var greinilega aldrei lesin af ritrýnum forlagsins.

Kannski var Atómstöðin pólitískt vandamál, eins og hún var það óbeint í Danmörku, en gott skjalasafn Alfred A. Knopf Inc. sýnir ekkert um það. 5 Skjöl Halldórs Guðmundssonar, sem hann sendi mér í gær, gera það því miður ekki.

Kannski eru fleiru og betri gögn í pappakassa Halldórs? En þau verður að lesa í ljósi þess sem við vitum um starfssemi Alfred A. Knopf Inc. Fyrirtækið las bækur Laxness frá 1945-1969. Menn hefðu ekki lagst í kostnað við slíkt, ef FBI bannaði bækur Laxness.

Reynum að komast úr Kaldastríðstuðinu. 2021 er prýðisár til þess.

Gyðinghatur FBI

BN-XY683_walker_GR_20180322095030

Einnig væri vel við hæfi í þráhyggjunni, að gera sér grein fyrir því að J. Edgar Hoover var gyðingahatari af fyrstu gráðu og FBI lýsti því yfir opinberlega að 50-60% allra kommúnista í Bandaríkjunum væru gyðingar (sjá hér). Hins vegar þorði FBI aldrei að vasast gegn bókaútgáfum í eigu gyðinga í Bandaríkjunum.

Þess ber einnig að minnast, að sonur Knopf-hjónanna og alnafni eigandans, sem sjálfur endaði sem stjórnandi annarrar bókaútgáfu, sagði það af og frá að FBI hefði haft afskipti af starfssemi foreldra sinna.

ca-times.brightspotcdn.comEr Knopf jr. (Alfref A. Knopf, 1918-2009; mynd til vinstri) heyrði, að því væri haldið fram að FBI og illfyglið og gyðingahatarinn Hoover hefði haldið skrá um fyrirtæki foreldra sinna, og haft það undir eftirliti, sagði hann þetta um föður sinn:

He was the quintessential capitalist, but he published anybody he thought was worth publishing. He paid no attention to what their politics were.(sjá hér)

En vitaskuld trúa Íslendingar ekki gyðingi, frekar en J. Edgar Hoover, þegar allt kemur til alls. En Halldór verður að kíkja í pappakassann sinn til að finna  skrá FBI um Alfred A. Knopf, ef hann vill andmæla syni Knopf-hjónanna eða færa betri rök fyrir því að FBI hafi vasast í annað en skattamál Laxness.

 

9

 

Laxness rís í háum hæðum á Ámakri, bútur fyrir alla

bd-bd1902350-12-webÚti á Ámakri, einhvers staðar nærri þeim stað sem týndi fulltrúinn Teodor Amsted sprengdi sig kannski í loft upp út af lífleiða einum saman, eru einhverjir steypukapítalistar búnir að reisa leigukassa við götu sem fengið hefur nafnið Halldór Laxness vej.

Hús þessi eru í orðsins fyllstu merkingu hreinir kassar, af þeirri gerð kynlausra fjölbýlishúsa sem rísa um gjörvalla Evrópu. Þeir eru kúkabrúnir að utan og skannahvítir að innan. Sumum líður vel í þessum geldu híbýlum, en arkitektinum sem teiknaði þessi ósköp líður betur á bankareikningnum sínum en flestum.

Næsta gata við Laxness Vej er C.F. Møller Allé, sem hefur fengið nafn eftir dönskum arkitekt sem byggði háskólann í Árósum eftir að hafa orðið fyrir áhrifum af byggingastíl háskóla Mussolinis, Sapienzia, eftir af hafa séð myndir af skólanum í Róm á póstkorti. Møller valdi hins vegar súlnainnganginn sem er á Sapienzia frá og telst því ekki til meðreiðarsveina fasista í Danmörku. Þýska setuliðið í Árósum var vitaskuld stórhrifið af Hælamussólíni-stíl bygginga Møllers og komu sér fyrir í þeim, og verðandi stúdentagarður varð að höfuðstöðvum Gestapo í borginni.

Halldorhus

Halldórhus er rómað ... fyrir verðlagið. En menn byggja ekki hús lengur fyrir hugsjónina eina. Það gilda sömu lögmál og þegar bandarísk forlög gefa út bækur. Framtakið verður að borga sig.

Við breiðstræti C.F. Møllers, stendur mikill brúnn kassi, sem fengið hefur nafnið Laxness Hus. Annað hús, ekki alllangt frá, hefur fengið nafnið Organistens Hus. Það síðarnefnda leiðir hugann til þess tíma er maður lék sér með Legokubba. Þegar einhver Ella var búinn að byggja hefðbundna blokk úr rauðum kubbum, kom fífl með hornös og sköpunagáfu og setti hvítan kassa skakkt ofan á fínu blokkina. Ella fór að gráta.

Eins og Íslendinga einir vita, fór bókarheitið "Atomstationen" í taugarnar á þeim sem gáfu út Atómstöðina í Danmörku, og þær taugar er hægt að reka beina leið upp í danskt ráðuneyti sem enn lét sér annt um Ísland. Bókin fékk titilinn Organistens Hus. Með slíkum titli móðguðu Danir engan í Nató í fimbulkulda Kalda Stríðsins.

Það furðulega hefur gerst, að þegar Organistens hus, fékk hvíta kubbinn ofan á 5 fyrstu hæðirnar, eins og krakkar gera með Legokubbum, líta þessar tvær byggingar út eins og alvöru kjarnorkuver, sem Danir hafa alltaf sagt Nej Tak við.

csm_Atomkraft_nej_tak_50a39ed027

Atomkraft Nej Tak merkið í Árósum

Það er svo spurning, hvort menn hafa þurft að fá leyfi til að leggja nafn Laxness við hégóma eins og skítabrún hús í Legóstíl vissulega eru. Ég ætla nú að vona að afkomendur Laxness hafi séð til þess að danskir kapítalistar, sem aldrei hafa lesið stakt orð í Laxness, hafi fengið leyfi og greitt ríflega fyrir nöfn og tilvísanir.

Ég hringdi og spurði blaðafulltrúa félagsins, sem leigir íbúðir út á Laxness vej og i Laxnesshus og Organistens Hus á C.F. Møller Alle, hvort einhverjir Íslendingar hafi komið nærri þessu nýja hverfi með Laxness-nöfnum. Voru einhverjir hugmyndasmiðir frá Fróni til dæmis? En svo mun ekki hafa verið. Það var bæjarfélagið á Amager sem ákvað nafnið Halldór Laxness vej, en byggingarfélagið Bellakvarter lét það nafn hafa áhrif á sig, þegar reist var Laxnesshus og Organistens Hus við næstu götu.

Mér sýnist heldur ekki að Íslendingar hafi verið viðstaddir reisugillið á Laxnesshus árið 2018. Mér var t.d. aldrei boðið, þótt merkilegur sé. Í móttökunni fengu menn grjúpán í brauði og Jolly Cola í plastglasi og virtust hinir ánægðustu með kostinn.

MG_4784_web-1024x683

Vonandi býr mjög sjálfstætt fólk í þessari nýju kassabyggð sem andar að sér krabbameinsvaldandi morgunloftinu frá flugvellinum í Kastrup. Byggingarnar gefur kassaformi Gljúfrasteins ekkert eftir að arkitektónískri fegurð.

Vonandi eru leigjendurnir einnig nógu vel efnaðir til að geta greitt húsaleiguhækkunina, færi svo að Laxness Inc. uppi á gjósandi Djöflaeyjunni fari í mál vegna notkunar á Regtrademarkinu Laxness og það með aðstoð vildarvina í gúmmíklefum Háskóla Íslands. Leiguverðið fyrir rétt rúmlega 100 m2 íbúð þarna í Laxness-hverfinu, á algjörri flatneskju Ámakurs, eru tæpar 18.000 krónur danskar á mánuði. Það eru bara skitnar 350.000 ISK - takk fyrir - utan ýmislegs annars sem gerir lífið þolanlegt. Græðgin er einnig við völd í Danmörku, þó þetta sé ekki mikið dýrara en margt annað.

Loksins gaf Laxness-nafnið eitthvað af sér, eftir að Nóbelinn gerði Halldór að þurftarmanni uppi í Mosfellssveit (og á Fálkagötunni). Og væri ekki tilvalið að opna krá í kjallaranum á húsunum á Ámakri, sem heitir Jónas. Það er ágætur spítali þarna nærri ef einhverjum hlekkist á í lyftunni og lærbrýtur sig til mergjar.

 

10

 

Bútur fyrir Hannes alveg sér á báti - Gamli hundamaðurinn að Gljúfrasteini

Laxness

Árið 1972 vakti hundaást íslenska Nóbelsskáldsins mikla athygli á vesturströnd Bandaríkjanna og jafnvel víðar. Í Malibú var vart talað um nokkuð annað í marga daga.

Það lá við að hann yrði tekinn í sátt í landinu sem virtist hata hann svo mikið.

Þá skrifaði vel þekktur blaðamaður, Joe Alex Morris jr. að nafni, nokkra pistla frá Íslandi í Los Angeles Times, t.d. þann sem birtist hér í heild sinni en einnig í öðrum miðlum. Greinarkornið eftir Morris fjallar um baráttu hundaeigenda á Íslandi fyrir því að halda hunda í bæjum og borgum. Þarna stendur m.a.:

Halldor Laxness, Icelands´ Nobel Prize-winning poet, compared the campaign against dog owners with the Nazi persecution of the Jews. ...

 

Lansing_State_Journal_Sun__Jul_23__1972_ 2

Tel ég víst að hundum í Bandaríkjunum hafa verið hundsama um að frétta að þessum mikla mann- og hundaréttindafrömuði Íslands, sem sumir telja að hafi verið rúinn miklum frama í Bandaríkjunum vegna lummuverka vondra manna.

Laxness skrifaði eftirfarandi klausu í grein sem hann kallaði Frá gömlum hundamanni. Hún birtist í einu helsta baráttublaði hundavina á Íslandi, Morgunblaðinu, 16. desember 1970 (sjá greinina í heild sinni hér).

I Rússlandi og Þýskalandi er svokallaður antísemítismi eða gyðíngahatur landlægt og er gamall og nýr siður hjá þessum þjóðumskipuleggja blóðbað á gyðingum ef eitthvað geingur úrskeiðis hjá þeim. Pogrom svokölluð (at í gyðíngum) voru meðöl þessara þjóða við geðbilun sem grasséraði i þeim sjálfum. Um gyðínga voru sagðar sögur líkar þeim sem sagðar eru á Íslandi á dögum um hunda. Það er til dæmis aldagömul viska í Rússlandi og Þýskalandi að gyðíngar hafi fyrir sið að éta börn á páskunum. í miðri heimsstyrjöldinni síðari höfðu rússar og þjóðverjar fróðlega samvinnu um skjóta 32 þúsund varnarlausa gyðínga, mestan part konur, börn og gamalmenni, hjá Baby Jar, gilskorníngi fyrir utan Kíev 29.—30. september 1941. Þeir hjálpuðust síðan að því að fela líkin í gilinu. En líkin fundust og þessi „hundamorð" urðu sú hetjudáð rússneskra og þýskra herja sem lifir leingst úr styrjöldinni 1939—1945. En hvers vegna gamlar konur? Og hvers vegna gyðínga? — Jú það er einfaldlega vegna þess að hér er um ræða minnihlutahópa sem menn vona að séu svo alls vesalir að það sé óhætt ráðast á þá, þeir muni ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Nú er heitið á lögreglustjórann okkar hérna í Reykjavík vinna samskonar frægðarverk á okkar ferfættu vinum; og einsog fyrri daginn í þeirri von að þar sé vesall hópur fyrir, sem ekki muni bera hönd fyrir höfuð sér. Hvað sem lögreglustjórinn í Reykjavík kann vilja í þessu máli, þá tel ég ekki líklegtlögregluliðinu í Reykjavík, sem samanstendur af heilbrigðum alþýðumönnum, venjulegum íslendíngum, verði otað fram til að gánga í hús borgaranna og draga út þaðan besta vin fjölskyldunnar í blóðsúthellíngskyni. Þessi skoðun mín styðst við reynslu sem ég hef af mannúðlegum og skilníngsríkum hugsunarhætti þessara manna í samkiftum við mig vegna hunda minna gegnum ári

Það skilst, en venst ekki

Hundar í Bandaríkjunum skildu reyndar ekki bofs í þessu. En það gera gyðingar um allan heim hins vegar.

Hverjum halda Íslendingar að líki að lesa greinar um  Nóbelsskáld frá Íslandi, sem telur sig til neyddan að líkja baráttu kjölturakkafélagsskaps á Íslandi við mannréttindabaráttu, og sem líkir banni á hundaeign í borg við ofsóknir nasista gegn gyðingum? Gyðingum líkar það ekki, hvorki  þeim "útvöldu" sem sem brugðið hafa út af bókinni og halda hund(a), og jafnvel þeim sem frekar eru með kött eða tígrisdýr heima hjá sér.

Nú er það reyndar svo, að Laxness virðist hafa haft mikið lag á því að taka gyðinga í gíslingu í því sem hann var að rausa um. Fyrir nokkrum árum kom út ágæt bók eftir Snorra G. Bergsson sagnfræðin, mikinn vin Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Ég skrifaði mjög lofsamlegan ritdóm um bók Snorra og hrósaði honum fyrir að nefna klausu sem  Laxness ritaði í Parísarbréfi sínu í Þjóðviljanum, þ. 31. október 1948, og að segja að það jaðraði við gyðingahatur. Laxness skrifaði:

Evrópa dró þessa umkomulausu flóttamenn sína hér uppi vorið 1940 [við hernám Frakklands]. Ég atti nokkra kunningja í hópi þeirra. Þeir voru pólskir. Mér er sagt að þeir hafi verið drepnir. Þeir hafa sjálfsagt verið fluttir austur til fángabúðanna í Ásvits (Oswiekim, Auschwitz) þar sem Hitler lét myrða fimm milljónir kommúnista og grunaðra kommúnista á árunum 1940-1945, jú og auðvitað „gyðínga“.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, einn af þremur ævisöguhöfundum Laxness, rauk þá ýlfrandi í fljótfærni sinni í Moggann, Pressuna og á Moggablogg, lyfti upp hægri löppinni og pissaði stórar yfirlýsingar á hina og þessa veggi um að ég hefði ásakað Laxness um að hafa verið  gyðingahatari. Þetta lýsir eðli manna sem sitja í fínum öfgafélagsskap eins og Mont Pelerin Society, sem telur ýmsa gyðingahatara.

Ég svaraði Hannesi fullum hálsi á blogginu Fornleifi, og það var ekkert mjálm. Ég benti honum á að það væri náinn vinur hans, Snorri G. Bergsson, sem hefði gefið slíkt í skyn (sjá hér) en ekki ég.  Ég skrifaði síðan um þessi furðulegu viðbrögð Hannesar í grein um gyðingahatur á Íslandi sem birtist í greinasafninu Antisemtism in the North  (sjá hér og grein mín hér).

Nú er enn dulítill hundur í mér hvað varðar þetta mál. Ég sætti mig náttúrulega alls ekki við að menn líki ofsóknum gegn gyðingum á 20. öld, sem halda áfram á 21 öld, við bann á hundahaldi á Íslandi; og enn síður við að Nóbelsskáld hafi líkt banni við hundahaldi á Íslandi við pogrom (gyðingaofsóknir í Austur-Evrópu).

Ég var ásakaður um að hafa vænt sjálft Nóbelskáldið um gyðingahatur, vegna þess að ég mælti með góðri bók eftir íslenskan sagnfræðing. Ásökunin kom frá manni manni sem rómað hefur stjórnarstefnu í Chile í tíð Augustos Pinochets, og sem tekið hefur þátt í samstarfi hægriflokka í Evrópu, sem lagt hafa blessun sína yfir þann hvítþvott á sögu nokkurra þjóða í Evrópu , sem nú eru farnar að mæra gyðingamorðingja, sér í lagi vegna þess að gyðingamorðingjarnir voru síðar í andspyrnu við Sovétríkin, þegar þessi lönd lentu austan járntjaldsins og óbótamennirnir komnir undir verndarvæng Bandaríkjanna og Kanada - þegar hann skrifa ekki þrjár bækur um Laxness í óþökk fjölskyldu hans. Minnið er ekki bara halastýfð á Íslandi.

Þess má geta, að eftir að Halldór Laxness líkti "baráttu gegn hundaeigendum". Það fékk Árna Bergmann til að skrifa í síðasta Þjóðviljann fyrir jólin 1970 (19.12.1970), það er skrifa þurfti:

Pólitísk heimska eða blinda eða fölsun kemur einatt skýrast fram í ruglingi: að bera saman það sem er ósambærilegt. Eins og til dæmis Gyðingamorð og hundastríð hér í Reykjavík.

856550

Þá æsti sig til pennavíga eins fáséður gripur og borgaralega sinnaður bókmenntasérfræðingur. Það var Jóhann heitinn Hjálmarsson. Hann skrifaði afar háðunglega um Árna Bergmann og einnig Austra (Magnús Kjartansson), en Magnús hafði einnig sýnt þann siðferðilega styrk að gagnrýna Laxness fyrir kjánalegar yfirlýsingarnar um hunda og gyðinga í Morgunblaðinu (sjá grein Magnúsar Kjartanssonar/Austra í Frá Degi til Dags ). Jóhann Hjálmarsson afgreiddi það á þann hátt er sýnir að menn beittu pennum sínum sem sverðum og ritvélum sem hríðskotabyssum úr skotgröfum kaldastríðspólitíkurinnar í Reykjavík. Ég var því miður ekki farinn að kaupa Þjóðviljann þá. Jóhann Hjálmarsson skrifaði þetta í Moggann:

Deilurnar um hundahald kallar hann „einstakt góðgæti" , og svipað orðalag viðhefur hann þegar hann minnist með eftirsjá þeirrar sælu, sem hann varð njótandi í Víetnam, en þar kynntist hann hundum, sem voru „með svipað holdafar og aligrísir og kjötið af þeim ljúffengt með ívið sætum keim" . Afendurminningum Austra verður reyndar ljóst hvað þarf til skrifa dálka eins og Frá degi til dags í Þjóðviljanum. Víetnam hefur sannarlega orðhonum namminamm í fleiri en einum skilningi.

Já ojbarasta, hærra kemst pólitíkin líklegast aldrei á Íslandi en í þvílíkum hundingjahætti.

Og hvað varðar Joe Alex Morris, sem kom við á Íslandi til að skrifa um hitt og þetta, en varð frægastur fyrir klausu um hundaat á götum Reykjavíkur, þá fór hann sjálfur í hundana blessaður maðurinn.  Hann var við störf í Íran, þegar hann var drepinn eins og lausagöngurakki af byltingarverði Khomeinis árið 1979, þá er árþúsundagömul írönsk menning fór beina leið í hundana og jafnvel til helvítis. Annað kom í staðinn sem sumir Íslendingar keppast við að róma og mæra, enda er gyðingum gjarnan líkt við hunda í Íran - og er svo enn.

Í Sjöstafakverinu ritaði Laxness:

... eingin jarðskepna hefur jafn augljósa meðvitund um syndina og hundur."

Ef Laxness hefði þekkt lítillega til gyðingdóms, þá hefði hann vitað að gyðingar voru eins vissir um syndina í hundunum og hann sjálfur. Að fornu voru hundar aldrei vinsæl dýr á meðal gyðinga. Þess má að lokum geta að hjónin Alfred og Blanche Knopf höfðu mikið dálæti á hundum.

Hvað varðar Joe Alex Morris, sem kom við á Íslandi til að skrifa um hitt og þetta, en varð frægastur fyrir klausu um hundaat á götum Reykjavíkur, þá fór hann sjálfur í hundana blessaður maðurinn.  Hann var við störf í Íran, þegar hann var drepinn eins og lausagöngurakki af byltingarverði Khomeinis árið 1979, þá er árþúsundagömul írönsk menning fór beina leið í hundana og jafnvel til helvítis. Annað kom í staðinn sem sumir Íslendingar keppast við að róma og mæra, enda er gyðingum gjarnan líkt við hunda í Íran - og er svo enn.
screenshot_2021-07-11_at_10-36-35_gljufrasteinn_laxness_museum_-_eingin_jar_nesk_skepna_hefur_jafn_augljosa_me_vitu

 

 

11

 

Var hægt að stytta Laxness? - bútur og bréf fyrir Halldór Guðmundsson

 BOMCScherman

Nei, þetta er ekki hann Halldór Laxness. Maðurinn á málverkinu hét Harry Sherman (1887-1969). Hann auðgaðist vel á bókaklúbbnum The Book of the Month, sem hann stofnaði árið 1926.

Sherman var vafalaust sá sem þénaði best á útgáfu Sjálfstæðs Fólks í Bandaríkjunum.

Shermann var sonur fátækra gyðinga sem sest höfðu að í Kanada, en endaði ungur á barnaheimili fyrir fátæka í Bandaríkjunum eftir að foreldrar hans skildu.

Harry Sherman varð heimsþekktur fyrir að stofna bókaklúbb, sem byggði á þeirri visku að fólk keypti frekar bækur sem það hefði lesið ritdóm eða umsögn um. Það var gömul hefð í dagblöðum gyðinga að skrifa ritdóma og vann Sherman við slíkt blað á unga aldri. Góð umsögn klúbbsins um Independent People, sem oftast var skrifuð af starfsfólki klúbbsins í landsþekkt blöð, seldi bókina vel, en hún varð aldrei sú metsölubók sem sumir vonuðu að hún yrði, og sumir menn á Íslandi ímynduðu sér að hún væri - vegna þess að þeim langaði að bregða fæti fyrir yfirlýstan sósíalista sem gekk vel.

Í greinagóðri bók Halldórs Guðmundssonar um Laxness eru nokkrar leiðar villur varðandi sölu bókarinnar hjá The Book of the Month Club, sem hægt er að finna, vilji maður vera smásmugulegur. En villur þessar eru samt afar bagalegar og því mikilvægt að sinna þeim.

Halldór Guðmundsson heldur því fram, að það hafi komið til tals að gefa Independent People út sem bók mánaðarins hjá Bókaklúbbnum Book of the Month Club (sjá meira um bókaklúbbinn), þá hafi Laxness verið því andvígur að bókin yrði stytt. Það er algjör misskilningur hjá Halldóri Guðmundssyni.

1. bréf

Óskir um styttingu tilkynnti Alfred A. Knopf Halldóri Laxness í bréfi dags. 25. mars 1946, með afriti af greinargerð eins elsta ritrýnis Book of the Month Club, en það var rithöfundurinn Dorothy Canfield (1879-1958).

800

Dorothy Canfield við störf sín

Hvað varðar yfirlýsingu Halldórs Guðmundssonar um að Laxness hafi verið andvígur styttingu á Independent People, er nú ljóst að Halldór Guðmundsson hafði ekki undir höndum skeyti frá Laxness til Knopfs dags. 10. apríl 1946, þar sem Laxness skrifar mjög skýrt að hann leyfi styttingar í samráði við sig:

NLT KNOPF NEWYORK BOOK CLUB FREE TO CUT THOUGH NOT WITHOUT CONSULTING ME ABOUT FINAL TEXT STOP LETTER FOLLOWS  

LAXNESS

Laxness wire

Það þurfti samt aldrei að bera neina styttingar undir Laxness. Í bréfi til Halldórs Laxness dags. 15. apríl 1946 (sjá hér), greinir Alfred A. Knopf frá því að bókin verði ekki stytt þrátt fyrir allt. Knopf sendi sömuleiðis skeyti (sjá mynd hér fyrir neðan) til að tilkynna Laxness þá ákvörðun, að fallið hefði verið frá því að stytta Sjálfstætt Fólk í útgáfu fyrir Bandaríkjamarkað.

Knopf Wire 15.4.1946

Alfred A. Knopf var sniðugur karl, sem kom í veg fyrir styttingar, því hann var búinn að láta prenta að minnsta kosti 7500 eintök af bókinni óstyttri, eintök sem höfðu verið send til Englands í sölu, og átti Laxness að fá 5 eintök af þeim, en hann fékk þau aldrei þaðan.

Útgáfa, öðruvísi en sú sem Book of the Month gæfi út, stytt til að græða sem mest, hefur greinilega latt Harry Sherman eiganda Book of the Month Club við það að framfylgja þeim tillögum um styttingar sem komu frá Dorothy Canfield 21. mars 1946. Í bréfi hennar var reyndar aðeins talað um mjög smávægilegar styttingar og lítilvægar (sjá bréf Canfield í heild sinni hér). 

Svona getur gerst þegar heimildavinnu er ábótavant.

2. bréf

Mererith WoodAnnað bréf, sem Halldór Guðmundsson hafði heldur ekki er hann skrifaði stórverk sitt um Laxness, ritaði Alfred A. Knopf einnig. Það var dagsett 15. apríl 1946 (sjá hér). Það sýnir að hann lagði út mikla fjármuni í að koma Independent People í sölu hjá The Book of the Month Club. Hann skrifar (hr.) Meredith Wood bandarískum bókmenntaráðunaut af gyðingaættum (1896-1974; mynd t.v.) hjá fyrirtækinu The Book of the Month, sem Knopf hafði haft fund með ásamt Harry Sherman eiganda og stofnanda bókaklúbbsins, til að minna Wood á fyrra samkomulag sem ekki yrði horfið frá. Af öllu að dæma hafði Wood gerst gráðugur og vildi meira.

Dear Meredith

I return your aggreement of April 10th for INDEPENDENT PEOPLE by Halldor Laxness, as I explained to Harry [Sherman] over the telephone, you both insisted when you were up here that in our first caple to the English publishers who control the American market in this book, we state that the minimum guarantee would be one hundred and twenty thousand dollars. I do not care myself about this, but having passed the word on to England to that effect, Harry aggrees with me, and I am sure you will too, that we must stick to it.  Otherwise the aggreement seems to be entirely in order.

Það er því mögulegt, að Alfred A. Knopf hafi grætt afar lítið, ef þá nokkuð, með því að leggja meistaraverkið Independent People inn hjá The Book of the Month Club með 120.000 dala tryggingu.

3. bréfið

Halldór Guðmundsson nefnir enn eitt bréf frá Knopf í lok marsmánaðar 1946. Hann nefnir ekki dagsetninguna nákvæmar en það, en bréfið var skrifað 25. mars 1946.

Halldór Guðmundsson tekur úr bréfinu (sjá allt bréfið hér) klausu og umritar hana, svo mjög, að það sem í raun er skrifað á ensku af Knopf, kemst ranglega til skila í íslenskri og danskri útgáfu bókar hans.

Knopf til Laxness 25.4.1946

Í bréfinu frá 25. mars 1946 stendur ekki að "það muni verða settar 60.000 dalir inn á reikning Stanley Unwins í New York" eins og Halldór Guðmundsson heldur fram. Það sem stendur er:

... It also means that as payment for these four hundred thousand copies the sum of sixty thousand will, in due course, be paid to Mr. Unwin´s New York agent. 

Maður verður að muna eftir orðunum "in due course" sem Halldór gleymir, þar sem hann trúir því að bókin hafi selst eins mikið og menn dreymdi um. Menn gera ekki upp fyrr en verki er lokið. Setningin lýsir ekki staðreynd, heldur möguleika. Í danskri útgáfu bókar Halldórs hljóðar þetta svo í rangri þýðingu og umritun sem góðir sagnfræðingar myndu aldrei gútera:

Det betød et oplag på mindst 400.000 eksemplarer, fortæller Knopf, og at der ville blive sat 60.000 dollars ind på Stanley Unwins forlagskonto i New York.

En bókin var aldrei seld í 400.000 eintökum, og því var hlutur Laxness aðeins 24.000 dalir þegar upp var staðið, eins og vitað er. Unwin hefur því varla fengið 60.000 dali fyrir sinn snúð þegar upp var staðið.

Eins og áður hefur verið sýnt, var það líklegast smekkur manna í BNA sem olli því að salan varð ekki sú sem menn höfðu vonast eftir, og hún tók fyrst við sér löngur síðar, er Independent People var aftur gefin út.

En hrun Laxness í Ameríku var ekki vegna póltíkur eins og Halldór Guðmundsson telur. Knopf setti svo sannarlega fólk í að lesa bækur Laxness. Hann var veginn inn í bandarískan bókmenntasmekk, en of léttvægur fundinn - nema að það hafi verið vegna þessa að hann var ekki nógu léttvægur fyrir Bandaríkjamarkað. Knopf lét sig dreyma, en draumar manna og áætlanir rætast ekki alltaf eins og kunnugt er.

Það er nú líklegast aðalástæðan fyrir því, en ekki pólitík á Íslandi, að Alfred A. Knopf var ekki fjálgur í að gefa Laxness út aftur. Eftir að hafa lagt 120.000 dali í tryggingu fyrir útgáfu bókarinnar hjá The Book of the Month Club, hefur Alfred A. Knopf ekki haft mikla löngun að gefa út fleiri bækur eftir Laxness en Independent People. En við vitum þó að hann lagði í kostnað við að láta margt fólk lesa aðrar bækur hans í tímans rás, eins og lesa má í 7. kafla þessarar fríbókar.

Það verður að teljast langsóttara en nokkru sinni fyrr, að pólítískt samsæri (sannað skattamálabras Bjarna Ben og Trimbles sendiherra BNA á Íslandi) hafi átt nokkurn þátt í því hvernig fór fyrir vinsældum Laxness í Bandaríkjunum.

Heimurinn er einfaldlega helvíti harður.


 

12

 

Þegar fjöður varð að kjúklingabúi

The Deesert News Salt Lacke City 24 7 1946

Brakandi "sala", eða öllu heldur lestur, er nú á fríbók Fornleifs um brostna drauma Laxness eftir að Independent People varð ekki Best-seller í BNA - nema í höfði íhaldsmanna á Íslandi. Mér er tjáð að mikið sé talað um bókina í heitu pottunum og á dekkjaverkstæðum út um allt land. Bók eins og þessi lendir aldrei í klónum á skattinum vegna öfundar og lítilsvirðingar sjálfskipaðrar "elítu" á Ísland, því af henni eru engar tekjur, að minnsta kosti ekki beinar - og ekki einu sinni 3 $. Þó fríbókin sé hápólitísk, lendir hún heldur aldrei í meðferð hjá sérdeild FBI, því þeir þekkja mig þegar og eru alltaf mjög vingjarnlegir og hjálplegir þegar ég þarf á þeim að halda.

Hannes Gissurarson hefur skrifað um niðurstöður fríbókarinnar á Conservative, vefriti sem ég, rótgróinn sósíalisti í biblíulegum skilningi (sósíalisti án öfga og annarra vopna en penna (tölvu)), þekkti ekki einu sinni af umtali.

Í ummæli Hannesar á Conservative, sem furðuðu mig fyrir að vera afar vinsamleg í minn garð, þó ég hafi ábótaskammað Hannes í fríbókinni, og Halldór G. enn meira en Hannes, vitnaði Björn Bjarnason fyrrv. ráðherra og sambloggari Fornleifs á útopnunni á Moggablogginu í grein einhvers fræðimanns niðursettum í Danmörku.

Ex-minister Björn gerir sér hins vegar ekki grein fyrir því að ég er bara bloggari eins og hann, hjá Dabba á Hádegismóum.

Rússagullsreikningi og Hermangaraalgebru beitt á BNA-hýru Halldórs Laxness árið 1946

En nú yfir í náskylda hluti. Á Íslandi velta menn því enn fyrir sér hve miklir peningar 24.000 $ voru árið 1946, og hvers mikils virði þeir aurar væru í dag.

24.000 dalir voru ritlaun og tekjur sem Halldór Laxness fékk fyrir Independent People árið 1946 í Bandaríkjunum, er hann bað um að ritlaunin væru greidd inn á bankareikning hans þar.

Þeir dollarar fóru aldrei yfir á reikninga "kommúnista" á Íslandi, gagnstætt því sem sumir menn á Íslandi ímynduðu sér að þeir myndu/hefðu. Nokkrum árum síðar, hafði þessi upphæð Laxness minnkað niður í 21.000 dali. Einhverju hefur Laxness því eytt, eða skattar hafa verið greiddir af innistæðunni í BNA.

Einn þeirra íslensku höfunda, sem sérhæft hefur sig í Laxness, hefur skemmt sér við að reikna út hvað Rússagullið sem kom til Íslands líkt og margra annarra landa væri mikils virði í nútímakrónum.

Grein Hannesar Gissurarsonar í ritinu Vísbending sumarið 2015, er aðferðafræðilegt experíment, sem ég er ekki fullviss um að hafi svo mikið upp á sig, þegar maður reiknar Rússagull út frá gengis, verðlags og kaupmáttárþróun í Bandaríkjunum og færir það yfir á Ísland án þess að skoða verðbólguþróun og aðra þætti á Íslandi. En Hannes komst að því að greiðslur frá Sovétríkjunum frá 1940-1972 hafi numið 3.5 milljörðum Bandaríkjadala. Ja, eeri hermangarar betur ef það er rétt.

Ef reikningsaðferð Hannesar er notuð á tekjur Laxness í BNA af Independent People, þá kemur margt spennandi í ljós.

Independent People var seld á 3 dali úr verslun í Bandaríkjunum. Ef sú upphæð er sett inn í reiknivél fyrir verðþróun í BNA myndi bókin kosta 41,80 dali í dag. Árið 2015 þegar Hannes var að reikna Rússagullið hefði Independent People kostað 36,5 dali. Já, Trump og kapítalisminn juku verðbólguna, ef einhver er í vafa um það. Það varð miklu dýrara að kaupa sér bók eða mat, meðan hann var við völd.

3 $ væru 5192 ISK eða t.d. 263 DKK að núvirði. Bókarverð almennt er því ekkert óeðlilegt í dag, enda eru það ekki bækur og lestur sem valda mestri verðbólgu. Þótt sumir vilji að við hættum að lesa þær, því of mikil bókleg vitneskja raskar greinilega ró sumra manna.

Nú héldu Bjarni Ben og bandaríski sendiherrann í Reykjavík, að Laxness hefði selt 480.000 eintök af Independent People. Sú tala virðist gripin úr lausu lofti, ef hún er þá ekki villa sem varð til, þegar 48.000 eintök urðu að 480.000 eintökum í bréfum manna til FBI (Sjá 8. kafla).

En reiknum nú okkur til gamans á Rússagullsreiknivélinni góðu, hvað Laxness hefði grætt, ef hann hefði selt 480.000 eintök af bók sinni. Þá hefði brúttógróðinn orðið 1.440.000 dalir, sem vitanlega verður að draga frá kostnað, söluskatt (VAT/Vaskur var ekki til í BNA), t.d. 20%, sem örugglega er tala í hærri kantinum. Þá var gróðinn af bókinni 1.152.000 Bandaríkjadalir.  Ef sú tala er sett í reiknivélina sem Hannes notaði á Rússagullið, hefði Alfred A. Knopf grætt 16.050.963 í nútímadollurum. Þá hefði Laxness vel geta bætt verulega við Rússagullið á Íslandi, án þess að líða illa í pyngjunni og kvarta undan lélegum listamannalaunum. - En þannig var þetta bara ekki.

Bókin seldist líkast til í 48.000 eintökum á 3 dali hver bók - sem gera 144.000 dali árið 1946. En samkvæmt Rússagullsreiknivélinni hans Hannesar Hólmsteins, sem einnig er hægt að nota á tekjur hermangara, ef einhver hefur áhuga á þeim - þá hefði það gefið 2.006.370 dali á dags gengi og með óskhyggjunni og óbifandi bjartsýni.

144.000 dalir að frádregnum 20% kostnaði gefa 115.200 dali  -   24.000 dalir (tekjur Laxness) af þeirri upphæð eru ca. 21% af heildatekjum af bókinni. Hluti af því hefur líklega verið svokölluð retail royalties (ca. 10-15%). 

Þannig gengur dæmið betur upp, en með sölutölunni 480.000 eintökum eða 500.000, sem var einhver Rússagullstala og Kaldstríðshýstería, sem annað hvort varð til í höfðinu á Bjarna heitnum Ben eða vegna ásláttarvillu einkaritara William C. Trimbils í Bandaríska sendiráðinu í Reykjavík. Hann var víst heimsk blondína.

Menn dreymdi um að selja 500.000 eintök af bókinni hjá The Book of the Month Club, en það gerðist aldrei, nema að bækurnar væru eftir betri og frægari höfunda - og bókaklúbburinn seldi líka nóg af þeim.

Laxness var bara peð, nema á Íslandi. Hann var ef til vill of góður fyrir hinn stóra, rotna heim - eins og sumir myndu segja. Heimurinn á eftir að uppgötva Laxness - einhvern tíman - í kaldhæðni sagt. Menn ættu að fara að fletta því orði upp.

Laxness The Pittsburgh Press 1 Sept 1946

Laxness i Pittsburgh Press 1. september 1946. Teikningin var gerð eftir ljósmynd sem Laxness sendi af sjálfum sér þar sem hann sat í Hljómskálagarðinum í Reykjavík (sjá kafla 6).

En þó það sé orðið nokkuð víst, að ljótt brall Bjarna Benediktssonar og Williams C. Trimbles hafi ekki verið það sem rústaði frama Laxness í Bandaríkjunum, voru aðgerðir þeirra mjög lítilmannlegar og andkristilegar, að atast svona í ungum rithöfundi sem þurfti að byggja þak yfir höfuðið og sjá fyrir fjölskyldu.

Ýtti Laxness undir óvild og óopinbera skattarannsókn?

Ef til vill var Laxness sjálfur einum of kokhraustur í yfirlýsingum um tekjur sínar og lífsviðurværi á Íslandi, því í Bandaríkjunum gátu menn lesið neðanstæða klausu sem birtist í fjölda umsagna í bandarískum blöðum er Independent People kom út.

Gætu þessar yfirlýsingar hafa espað mann og annan upp á Íslandi í að halda að Laxness væri farinn að þéna svo vel í hinni stóru Ameríku og að hann væri því í stakk búinn fjárhagslega að neita að taka á móti árlegum launum úr íslenska ríkiskassanum (listamannalaunum). Þessi tilkynning birtist í fjölda dagblaða í Bandaríkjunum. Hér er hún í dálki Edwin Seawer og Robin McKown, Reading & Writing í The Clinton (Illinois) Journal and Public, bls. 3 þann 24. ágúst 1946.

The Clinton Illinois Journal and Public 24 August 1946

Íslendingar og rökræða

Á Íslandi var Halldór Laxness hins vegar búinn að ánafna listamannalaununum til fyrstu verðlauna í ritgerðarsamkeppni Landvarnar, sem var andamerískur þjóðernissinnaflokkur með félaga úr gamla sósíalistaflokknum. --

En skáld segja svo mikið; Það er kallað "að skálda" eða "að skálda eitthvað upp". Það er reyndar mikil furða hvað mikið menn trúa á slíkt á Íslandi, og eiga um leið erfitt með rök. Þetta vissi Halldór Laxness vel þegar hann skrifaði um Íslendinga og rök í Innansveitarkróníku:

Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með þvi að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.

Skemmtileg athugasemd og örugglega nokkuð rétt. Íslendingum er margt betur gefið en rökræða. Sjálfur gat Halldór verið hinn mesti uppnámsmaður og uppvægur yfir ýmsu. T.d. hundabanni í Reykjavík (sjá 10. kafla) sem hann líkti við gyðingahatur. Hver veit hvernig honum hefði farnast í nútímanum, þar sem allt er fullt af klofkróníkum og kynórum?


 

13

 

Myndir frá einum besta degi í lífi Halldórs Laxness

IMG_20210722_0002 D

Fríbók eins og þessi sem þið lesið hér í boði Fornleifs, og sem mestmegnis fjallar um brostna drauma Laxness í Bandaríkjunum, er hlaðin af skjölum sem verða að fylgja slíkum útgáfum, með og án leyfis.

Myndir eru líka bráðnauðsynlegar. En þar sem Laxness "brá sér ekki bara", eins og menn gera í dag, til Bandaríkjanna þegar salan gekk sem best þar í landi árið 1946, þá eru engar myndir til af því sælutímabili í lífi hans er hann þénaði á tá og fingri, en fékk aðeins skitna 24000 dali fyrir sölu á yfir 400.000 þúsundum eintaka. Menn sem ímynda sér að kapítalisminn sé svo vondur, hjakka einum of mikið í sama farinu. Hann er hreinn daumur.  

Nýverið, í stað þess að kaupa bók, var sendisveinn Fornleifs Inc. að skoða gamlar myndir á netinu og keypti nokkrar hjá kóngulóarmanni af íslenskum ættum sem er með launverslun á Lettlandi. Köngulóin kaupir gamlar blaðaljósmyndir og selur mönnum sem elska söguna of mikið.

Myndirnar sem senditíkin festi kaup á höfðu á sínum tíma verið í eigu Svenska Dagbladet. Blaðið, sem er víst enn til, hefur losað sig við þær, vonandi eftir að hafa tekið af þeim skánir. En þar sem nútímafólk stelur bara myndum af netinu og Laxness er vart lengur talinn vera líklegur til einhvers MeToo skandala þá hafa allar gamlar myndir af Laxness á Svenska Dagbladet, nema sundskýlumyndir, verið látnar flakka frá Svenska Dagbladet.

Menn hafa líklegast aldrei heyrt um ljósmyndasýningu í bók, en slíkt er einmitt hægt í fríbókum. Hér eru þrjár áhugaverðar myndir af Laxness sem teknar voru í Stokkhólmi árið 1955.

Laxness og aðrir verðlaunahafar 1955 (efst): Hér sjáið þið Halldór með öðrum verðlaunahöfum árið 1955. Frá vinstri má sjá Halldór, Svíann Hugo Theorell (1903-1982) sem fékk verðlaunin í læknisfræði; þvínæst Bandaríkjamanninn Vincent du Vigneaut (1901-1978) sem hlaut verðlaunin í efnafræði; næstan  Bandaríkjamanninn Willis Lamb (1913-2008), sem hlaut verðlaunin í eðlisfræði og loks Bandaríkjamanninn Polykarp Kusch (1911-1993) sem deildi verðlaununum í eðlisfræði með Willis Lamb.

IMG_20210722_0008 C

Laxness skoðar verðlaunaskjalið ásamt Hugo Theorell: Theprell fékk Nóbelinn fyrir afrek í læknisfræði. Þeir dást að verðlaunaskjali Laxness. 

1-1

Laxness skemmtir sænskum konum: Hér situr Laxness við háborð í ráðhúsi Stokkhólms, með merkiskonunni Ainu Erlander (1902-1990), sem var vel menntaður stærð og efnafræðingur frá Lundi, sér við hægri hönd. Aina var eiginkona sænska forsætisráðherrans Tage Erlanders, og er kannski mest þekkt fyrir að hafa stofnað hjálparsamtök fyrir stríðshrjáð börn Þýskalands, eftir að Svíþjóð gerði heldur lítið fyrir börn sem voru ofsótt af Hitler.

IMG_20210722_0006 D

Við vinstri hönd Laxness situr sænska prinsessan Margaretha (f. 1934) sem í dag heitir Mrs. Ambler og býr nærri Oxford. Greinilegt er, að Laxness hefur áhuga kvennanna allan, enda var hann fyndinn maður.


 

14

 

Poets, Essayists and Novelists - Laxness sem formaður PEN á Íslandi skáldaði um ferð sína til Buenos Aires

PEN

Á skjalasafni vestan hafs og suður í Austin í Texas, þar sem kýrrassar voru eitt sinn meira í hávegum hafðir en frumbyggjar Ameríku, eru til merk skjöl sem tengjast Halldóri Laxness.

Mikið af því sem hefur verið framreitt hér á blogginu Fornleifi í júlí 2021 í fríbókinni um Halldór Laxness á Fornleifi er ættað úr skjala og bókasafni við háskólann í Austin, sem ber nafn Harry Ransoms, Harry Ransom Center.  

Skjöl útgáfufyrirtækisins Alfred A. Knopf, frá ákveðnu tímabili, eru geymd í þessu merka skjalasafni, sem veitti mér fyrstum Íslendinga aðgang að skjölum um Halldór Laxness í safni Knopfs, meðan safnið var harðlæst almenningi vegna COVID 19 pestarinnar.

Einn af skjalaflokkunum, sem notaðir eru hér í fríbók Fornleifs um Halldór Laxness, ber heitið Knopf Records, Box 49,4. Það inniheldur skjöl um þátttöku Íslands í PEN International (sem upphaflega hét Poets, Essayists and Novelists eða The PEN Club en var síðar kallað The P.E.N., An International Association of Writers) Samtökin voru stofnuð árið 1921. Á íslensku hefur sambandið lengstum verið kallað Alþjóða Rithöfundasambandið en nú orðið tala menn mest um PEN-Iceland. Ég hef heyrt, að þegar samtökin voru að reyna að búa sér til vefsíðu datt mönnum í hug lénið pen.is, en það var þegar upptekið hjá einhverjum dónum.

Annars hafa PEN lengst að verið alþjóðleg samstöðusamtök ritfærra manna sem telja klúbba vera sér til gangs. Í þessum klúbbum mótmæla þeir út í loftið þegar illa settur kollega þeirra er pyntaður eða drepinn fyrir skoðanir sínar í merkum fautaríkjum eins og t.d. "sósíalista"paradísinni Kína og nýja í Stór-Tyrklandi, meðan að aðrir ritfærir menn, sem jafnvel eru líka meðlimir í PEN eru á spena hjá Kína og vildarvinir Tyrklands og hrauna þar sérstaklega yfir eina þjóð, sem nú er sjálfri kennt um örlög sín á 20. öld, þegar stór hluti Evrópu rottaði sig saman undir forystulandi fasismans til að útrýma þeim sem Evrópa hafði jagað í og svínað á allt frá því að sonur snikkara í Jerúsalem, sem ekki finnst í neinu manntali, var útnefndur sem frelsari germanskra fauta úr dimmum skógum Evrópu og ævintýraprinsa sem vildu drepa trúleysingja við botn Miðjarðarhafs undir krossmarkinu. 

Af hverju skjöl varðandi Íslandsdeild PEN frá tímabilinu 1929  til 1950 hafa endað á Harry Ransom Center i Austin, Texas veit ég ekki nákvæmlega. Ísland var lengi hluti af Vesturevrópudeild Alþjóða rithöfundasambandsins / PEN í London. Flest bréfanna eru afrit af bréfum til og frá Íslandsdeildinni til Hermon Ouds sem var forseti PEN sambandsins með aðsetur í London.

Hugsast getur, að Blanche Knopf hafi verið virk í starfi PEN, og fengið afrit af bréfum sambandsins í Lundúnadeildinni til að hafa fulla yfirsýn yfir allt sem gerðist. Þannig var hún bara hún Blanche Knopf. Hún var nefnilega að hjálpa rithöfundum af þeirri þjóð sem Evrópa ákvað að ofsækja - sem hún sjálf og maður hennar tilheyrðu, og sem H. Laxness uppi á Íslandi talaði síðar um í sömu andrá og þegar hann æsti sig í Mogganum út af banni við hundahaldi í Reykjavík (sjá 10. kafla fríbókarinnar um Laxness).

Formaður PEN-deildarinnar á Íslandi, Halldór Laxness, sem varði rétt ofsóttra rithöfunda á PEN þinginu í Buenos Aires árið 1936, líkti mestu ofsóknum gegn einum minnihlutahópi á 20. öld við andstyggilega stefnu Reykjavíkurborgar gegn seppum og slefandi kjölturökkum árið 1970.

Laxness og PEN

Það er von að einhver sé farinn að spyrja sig, hvað Laxness komi PEN við, fyrst ævisöguritarar skáldsins hafi ekki tekið á þeim heiðurstitli hans.

Laxness fór á PEN ráðstefnu í Buenos Aires árið 1936 og Fornleifur hefur skrifað um það áður, eftir að hann fór í bíó haustið 2017. Halldór Guðmundsson greinir frá því í bók sinni um Laxness, að Halldór hafi hitt Stefan Zweig, er þeir sigldu til Argentínu. Myndin, sem ég sá árið 2017, fjallaði einmitt um Zweig (sjá hér). 

Laxness og frú Inga fóru í Ágúst 1936 til Lundúna, bjuggu á Great Northern Hotel við St. Pancras járnbrautastöðina og sigldu með British Mail farþegaskipinu Highland Brigade til Buenos Aires.

Annars skrifar Halldór Guðmundsson ekki aukatekinn stafkrók um að Laxness hafi verið tekið að sér að vera formaður Íslandsdeildar PEN og er það afar furðulegt.

Forsetar PEN deildanna eru mikilsmetandi menn. En Halldór Guðmundsson minnist vitaskuld á "ferðafélaga" Laxness um borð á Highland Brigade, manninn sem Laxness segir frá í endurminningum sínum, heimsfrægt skál sem sagði Halldóri að hann ætlaði að flýja til Íslands í næsta stríði og hírast á kvistherbergi í Reykjavík; manninn sem Laxness ræddi við á leiðinni til Buenos Aires. Maður er nefndur Stefan Zweig.

Síðasti tangóinn í Buenos Aires og Zweig

450px-Alcantara_à_Rio_by_Kenneth_Shoesmith

Það er aðeins eitt lítið vandamál í þeirri frásögu Laxness sem Halldór Guðmundsson hefur eftir honum (með leyfi): Laxness og Inga sigldu á skipi Royal British Male, Highland Brigade (sjá nafn Laxness á farðegalsista Highlands Brigade þann 15. ágúst 1936 hér), meðan að Stefan Zweig sigldi á Alcantara frá Southhampton (sjá mynd hér ofar; Sjá farþegalista útlendingaeftirlitsins breska hér) þann 8. ágúst 1936.

Allt sem þeirra fór á milli á leiðinni til Buenos Aires er alfarið hugarburður Halldór Laxness og skáldskapur. Hvort þetta er einsdæmi, eða hvort við megum búast við meiri skáldskap af þessu tagi úr smiðju Laxness, veit ég ekki, en ég mæli með því að menn fari aftur og mun betur niður í kjölinn í ævilýsingum Laxness sjálfs og minningarbrotum. Það er greinilega engin sagnfræði. 

Við þessu er ekkert annað að segja en: Laxness var nátúrulega skáld - eða þannig fór um showferð þá.

Royal-Mail-Lines-Highland-Brigade-Chieftain-etc

RMV-Highland Brigade sem Halldór Laxness og Inga kona hans sigldu á til Buenos Aires. Stefan Zweig var ekki á þessu skipi með Laxness, eins og Halldór hélt fram í æviþáttum sínum. Skjöl í National Archives i Kew staðfesta það; sjá hér og hér.

stefan-zweig-1936

Herr Laxness, wer ist Sie? - Zweig á leið til Buenos Aires á skipinu Alcantara. Þar um borð var enginn Herr Laxness.

Halldór Laxness virðist hafa tekið við formannstitli Íslandsdeildar PEN árið 1929 af Jóni Leifs tónskáldi, sem einnig taldi sig færan penna. Jón Leifs notaði sér PEN fyrst og fremst til að ota sínum tota og 2-3 mönnum á Íslandi að auki, meðal annars Gunnari Gunnarssyni, sem síðar lýsti blessun sinni yfir innlimum Austurríkis Zweigs í Þýskaland Hitlers áður en hann gekk síðan á fund Hitlers árið 1940 í stað þess að sinna haustverkum á búgarði sínum austur á Héraði.

Jón Leifs hafði einfaldlega of mikið að gera til að sinna PEN málefnum á Íslandi, sem virðist mest hafa gengið út að finna einhverja til að taka á móti sérstökum, en vel stæðum konum, frá Bretlandseyjum sem vildu ferðast til Sögueyjunnar í norðri til að sjá hvar Gunnar skokkaði um. Laxness tók vel á móti slíkum ferðalöngum ef hann hafði tíma.

Screenshot 2021-07-28 at 06-49-55 #100PENMembers No 17 Hermon OuldEn Halldór hafði greinilega ósköp lítinn tíma til að sinna þessum fína selskap, og nefnir það í nær öllum bréfum sínum til Hermon Oulds forseta PEN sambandsins í Lundúnum. Hermon Ould (1885-1951) var einstakur maður, sem hafði meira gaman af að skrifa til fólks en að vera rithöfundur. Hann er annálaður fyrir fórnfús störf sín fyrir PEN, eins og lesa má um hér.

Rétt fyrir jólin 1935 skrifaði Laxness enn eina ferðina og afsakar slóðaháttinn í sér varðandi PEN-málefni með fámenni og smæð Íslendinga og mikilli útiveru íslenskra skálda í útlöndum. En hann er þá greinilega sjálfur farinn að beina radarnum suður til Argentína árið eftir, þar sem hann ætlaði að styðja lítilmagnann, eftir að hann rukkaði ritlaun sín í tvígagn í Þýskalandi (sjá hér), þó hann ljúgi því í endurminningum, að hann hafi aðeins farið eina ferð til Þýskalands árið 1936.

 

Laxness to Oud 13 Decemer 1935

Laxness og þýðandinn Erwin Magnus

Í Þýskalandi talaði Laxness greinilega ekki sem sannur PEN-meðlimur, máli hins ofsótta þýðanda verks síns, flóttamannsins og gyðingsins Siegmund Erwin Magnus (1881-1947) sem ásamt mjög góðri hjálp annarrar konu sinnar, Elnu Nathansen, sem var dönsk, hafði þýtt Sjálfstætt fólk yfir á þýsku. Bókin fékk titilinn Der Freisasse.

Erwin Magnus notaði dulnafnið Eleonore Voeltzel þegar bókin kom út í Leipzig / Wien / Berlin 1936, meðal annar vegna þess að Erwin Magnus hafði ekki starfsleyfi í Danmörku í útlegð sinni, líkt og flestir gyðingar sem forðuðu sér á flatneskjuna í Kaupmannahöfn.  Laxness mun svo hafa skýrt nasistum frá því að þýðandinn væri gyðingur frá Þýskalandi.  

Erwin Magnus starb am 31. März 1947 in Kopenhagen – weitgehend verarmt

er það sem umheimurinn veit um endalok Siegmund Erwin Magnus, sem ekki hafði tök á því að kría út peninga sína í Nasí-Þýskalandi eins og Halldór Laxness sem fór tvær ferðir þangað.

Erwin Magnus

Erwin Magnus þýðandi Sjálfstæðs fólks, sem aldrei fékk full laun fyrir vinnu sína.

Eitt af því fáa sem Laxness gerði fyrir PEN var að grennslast fyrir um hagi þýska rithöfundarins og sósíaldemókratans Alberts Daudistels (1890-1955) og konu hans Edith Daudistel Lazarus sem var danskættaður gyðingur. Ég hitti eitt sinn frænda hennar á flugvelli á Krít fyrir mörgum árum síðan og útvegaði honum síðar ýmsar upplýsingar um hagi Edith og manns hennar, meðal annars frá föður mínum sem kynntist frú Edith. Laxness skrifaði eftirfarandi til PEN um hagi Daudistel-hjónanna á Íslandi:

Daudistel

Albert Daudistel

My dear Mr. Ould:

Thanks for you two letter, Mr. Albert Daudistel and his wife were at my apartment the other day and I daresay there are not many German refugés having such a happy time as they. They have never had a shade of trouble with autoritites here, on the contrary, they have been receiving a montly subsidy of about £10 from the Icelandic government for years now. Besides, Mrs. Daudistel makes "Icelandic souvenirs" for the garrison people and this is getting quite a source of income to her now. They have had good friends here from the first, people who were willing to help them and pull the wires for them. They are well clad and look happy.

(22. apríl 1942).

daudistel i udl2 - Kopi

Edith Daudistel Lazarus, áður en hún lifði á því að gera hreint í Reykjavík.

Ef tekið er mið að því að afi Halldórs Guðmundsson, nafni hans Stefánsson, rithöfundur, var einn að þeim sem aðstoðuðu Daudistel-hjónin á Íslandi - ásamt t.d. Birni Franzsyni (íslenskum kommúnista sem líkti gyðingi við nasista í Þjóðviljanum sjá hér), þá er mjög miður að Halldór Guðmundsson hafi misst af vitnisburði Laxness um þau hjón.

En Auður Laxness sagði ungum, þýskum fræðimanni sömu sögu af Daudistel og ég hafði heyrt föður minn og Ottó Arnald Ottósson (Otto Weg) segja um Daudistel. Hann var að öllum líkindum algjör hústyrann sem aldrei veitti Edith sjö dagana sæla á Íslandi. Sósíalismi og kvenréttindi fóru ekki endilega saman á þeim tíma.

PEN-Iceland þarf víst að fara að endurrita sögu sína og nú þýðir enginn skáldskapur eða rangar tilvitnanir, jafnvel þó að Halldór Laxness hafi verið formaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið hefur mér ætíð þótt HKL leiðinlegur.

En gætir þú sagt söguna um þegar stórveldin mútuðu " fyrsta forseta lýðveldissins " með einni milljón dollara?

Ég veit þú kannt söguna.

Heiðar Þór Leifsson (IP-tala skráð) 19.11.2021 kl. 22:56

2 Smámynd: FORNLEIFUR

 Þekki ekki þá sögu. Þú ættir að skrifa um hana Heiðar. HKL var aldrei leiðinlegur. Hluti þjóðarinnar sem hann skrifaði um  er það kannski.

FORNLEIFUR, 21.11.2021 kl. 05:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband