Vel kemur oss nú refillinn inn góði
21.2.2021 | 06:57
Nú komu svo sannarlega gleðitíðindi fyrir okkur sem saumum mikið í og að.
Með einu klikki er hægt að fara suður í Normandí til að fá refill á fræðin með því að skoða Bayeaux-refilinn í smæstu smáatriðum.
Ég man þá tíð er ég keypti refilinn í 10 cm. hárri bók, sem var hins vegar 30 sm. breið, þar sem refillinn var allur samanbrotinn. Það þótti framför um 1980. Refillinn er í raun um 70 metrar að lengd, en í bókinni var hann nokkrir metrar.
Skoðið nú refilinn hér.
Þið sjáið svo efst að þær skemmtu sér stúlkurnar sem saumuðu refilinn, hvort sem það var nú á Englandi eða í klaustrinu Saint Florent de Saumur í Leirudal. Við skulum ekki spinna meira um það hér - en er þetta ekki Sir Roy af Chippendale í eigin persónu? Er nokkuð þessu líkt á Njálureflinum á Hvolsvelli?
Vilhjálmur fer til Bægisár/Bæjar (fr. Bayeaux/lat. Bagias)?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Íslenski nasistinn sem ferðaðist gegnum Síberíu - í huganum
16.2.2021 | 12:54
Hér um daginn, 11. febrúar 2021, birtist áhugaverð grein, en heldur stutt, í Morgunblaðinu. Þar var endursagt viðtal við Jóns Frímann Sigvaldason fyrrv. bílasmið í Garðabæ.
Árið 1979 hitti Jón, sem fæddur er 1929, af algjörri tilviljun, íslenska nasistann og Kínakaupmanninn Gunnar Guðmundsson (1917-2010) á hóteli í Guangzhou (Kanton).
Í Morgunblaðsgreininni, sem Stefán Gunnar Sveinsson blaðamaður ritar, segir Jón frá minningu sinni af fundi sem hann átti með Gunnari á hótelherbergi í Kanton, þar sem Gunnar vildi ólmur segja Jóni sögu sína.
Saga Gunnars er mjög flókin, og ekki allt það sem ritað hefur verið um Gunnar Guðmundsson alveg nógu nákvæmt. Hér skal bætt úr skák, svo grein í Mogga verði ekki með tímanum að sannleiksheimild um íslenska nasistann Gunnar Guðmundsson.
Það var ófrávíkjanlegur siður Gunnars Guðmundssonar að segja ósatt til um nær allt í fortíð sinni í þýskri þjónustu. Þess vegna er lítið hægt að fara í saumana á þeirri sögu sem hann sagði Jóni, því það sem sagt hefur verið um Gunnar í bókum er líka meira eða minna rangt eða logið.
Sú bók sem blaðamaður Morgunblaðsins vitnar í, Berlínarblús, er því marki brennd að höfundurinn hefur haft takmarkaðan aðgang að heimildum. Í því sem skrifað hefur verið um íslenska nasista vantar mikið af upplýsingum um Gunnar Guðmundsson í Danmörku. Í Ríkisskjalasafninu (Rigsarkivet) í Kaumpannahöfn skoðaði Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur, höfundur Berlínarblús, aðeins skýrslu danska Dómsmálaráðuneytisins nr. 1111 um Íslendinga sem unnu í þjónustu Þjóðverja í stríðinu, skýrslu sem mun einnig hafa verið send til Íslands.
Ljóst er sömuleiðis, að Gunnar Guðmundsson laug grimmt að fólki. Það var nánast alltaf siður manna sem ótilneyddir gengu til liðs við ógnarríki Hitlers og frömdu þar jafnvel glæpi. Gunnar Guðmundsson var ekki einn um að ljúga.
Oft voru þeir sem gengu í Waffen-SS ekki bestu börn heimsins, þjófar og loddarar, og það er engin ástæða til að fegra eða mæra minningu þeirra, en þessir óhamingjumenn, og ekki síst það þjóðfélags sem ól þá, eiga það þó skilið að rétt sé sagt frá, og það gerði hinn vel minnugi Jón Kr. Sigvaldason er hann tók nýlega á móti blaðamanni Morgunblaðsins á heimili sínu og sagði frá því er hann hitti Gunnar Guðmundsson í Kína fyrir tilviljun.
Ég talaði einnig við Gunnar Guðmundsson
Sjálfur hringdi ég í Gunnar Guðmundsson árið 2001, þegar ég vann á Dansk Center for Holocaust og Folkedrabsstudier.
Með hásri en jafnframt djúpri rödd reykingamannsins lét gamli nasistinn móðan mása, en mest af því sem hann sagði mér var helber lygi. Meðan að ég talaði við hann, sat ég með gögn um hann fyrir framan mig, m.a. dóma frá Danmörku og skjöl frá Englandi, þar sem breska leyniþjónustan tók saman það sem þeir fengu af upplýsingum um Gunnar, frá íslenskum njósnurum sem fangaðir höfðu verið á Íslandi. Ég vissi því að vart eitt aukatekið orð af því sem Gunnar Guðmundsson sagði mér var sannleikanum samkvæmt.
Lítilfjörleg gögn um Gunnar Guðmundsson hjá Bresku leyniþjónustum MI5 og MI6 hef ég lengi haft undir höndum og virðist blaðamaður Morgunblaðsins hafa komist yfir þau skjöl, enda þau nú aðgengileg öllum. Þau eru frekar lítils virði og eru fyrst og fremst, hvað Gunnar varðar - samantekt annarra og þriðju handa upplýsinga um Gunnar sem fengnar voru hjá Íslendingum sem handteknir voru fyrir njósnir á stríðsárunum. Ekki virðast Bretar hafa náð að yfirheyra Guðmund er hann var handsamaður í Kaupmannahöfn árið 1945.
* Ljósmyndin ofar er úr vegabréfi Gunnars (sjá efsts) sem gefið var út í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn þar þann 9. júní 1944. Þá var Gunnar nýgenginn í SS.
Þegar Gunnar Guðmundsson gerðist geðveikur
Nei, það er engin ástæða að fetta fingur út í minni Jóns Fr. Sigvaldasonar, sem blaðamaður Morgunblaðsins heimsótti. En í Kanton sagði Gunnar honum auðvitað ekki allan sannleikann um sig, frekar en mér 20 árum síðar í Kaupmannahöfn.
Gunnar Guðmundsson sagði ekki Jóni Fr. Sigvaldasyni frá því að hann gerðist skyndilega geðveikur í Kaupmannahöfn árið 1944. Mjög umdeildur danskur geðlæknir, sem taldi hann í fyrstu sýna einkenni geðsjúkdóms, komst síðar að þeirri niðurstöðu að allur krankleikinn væri leikur, uppgerð og uppspuni.
Fréttir af geðveiki Gunnars kom meira að segja út í ólöglega pressu Dana. Í fjölrituðu, leynilegu dreifibréfi kommúnista, sem var forveri danska dagblaðsins Information mátti svo lesa þetta :
/4.Novmeber1944.INFORMATION Nr.325.I.NORDISK NYHEDSTJENESTE Nr.29
Fredag Eftermiddag blev SS-Mand Gunnar Gudmundson, der gjorde Tjeneste i Vestre Fængsel, pludselig sindssyg, mens han opholdt sig paa Domhuset. Han blev indlagt paa Kommunehospitalets 6. Afdeling. Om det drejer sig om en organisk Sindssygdom eller om det er hans Oplevelser i Vestre Fængsel, der har ødelagt hans Nerver, vides selvfølgelig ikke, men det sidste maa anses for sandsynligt.
Þetta var reyndar ekki alveg rétt hjá leyniþjónustu andspyrnudeildar vinstrimanna í Danmörku. Gunnar hafði tekið æðiskast í ölæði og var handsamaður Huspetakler. Hann var tekinn fastur því hann var talinn hættulegur og hafði skotvopn undir höndum. Hann var fangelsaður í Vestre Fængsel en var aldrei fangavörður þar. Síðar var hann fluttur á spítala. Rétt er hins vegar að hann var orðinn meðlimur í SS á þessu stigi.
Áður en Gunnar Guðmundsson gekk til liðs við Waffen-SS þann 6. júni 1944, hafði hann verið liðsmaður Wehrmacht (þýska hersins) í Danmörku og unnið um tíma hjá Das Wachtkorps, á Station I (Höfuðbyggingu dönsku lögreglunnar í Kaupmanna. Í SS náði hann aldrei nema lægstu "tign", Schütze.
Einnig var haldið að hann hefði starfað hluta úr árunum 1942 og 1943 á Stelle Boysen sem stundaði viðskiptanjósnir und stjórn Bruno Boysen. Boysen var þjóðverji sem alist hafði upp í Vojens í Danmörku. Wehrmachtstelle Boysen var á Friðriksbergi og dulbúið sem inn- og útflutningsfyrirtæki. Aldrei var þó hægt að sanna að Gunnar Gunnarsson væri sá "Gudmundsson" sem var að finna á lista yfir starfsmenn Stelle Boysen
Gunnar sem njósnari Þjóðverja
Njósnastarfsemi Gunnars fyrir ferðina á Esju frá Petsamó í Finnlandi til Íslands frá Finnlandi í 1940 er heldur ekki hægt að staðfesta.
Gunnar hélt utan árið 1937, var munstraður á skip, en gekk í land í Kaupmannahöfn í byrjun 1938.
Upplýsingar um meintar njósnir Gunnars eftir að hann sneri aftur til Íslands koma frá íslenskum njósnurum sem komust í kynni Max Andreas Pelving (1895-1999), fyrrverandi danskan lögreglumann. Pelving hafði hrjáð gyðinga og aðra flóttamenn, þegar hann starfaði við útlendingalögreglu (Fremmedpolitiet/Tilsynet med Uldændinge) undir Dönsku Ríkislögreglunni (Statspolitiet - síðar Rigspolitiet). Pelving þessi var árið 1939 ásamt öðrum dæmdur í fangelsi fyrir njósnir í þjónustu erlends ríkis, nánar tiltekið fyrir Gestapo, sem og fyrir að hafa útvegað þjóðverjum upplýsingar um flóttamenn undan nasismanum sem höfðu fengið dvalarleyfi í Danmörku.
Pelving var síðar strax leystur úr haldi í apríl 1940, þegar Þjóðverjar réðust inn í Danmörku. Ljóst er að Gunnar þekkti ekkert til Pelvings á tímabilin 1937 þar til Þjóðverjar réðust á Danmörku 9. apríl 1940, enda Pelving lengst af í fangelsi.
Íslenskir njósnarar nasista, sem gengu til liðs við njósnaapparat þjóðverja í Danmörku, tengdu Gunnar við Pelving. Pelving hafði samskipti við Gunnar eftir að hann kom aftur til Kaupmannahafnar árið 1941 og aðstoðaði Pelving og þýska njósnaútsendara í Kaupmannahöfn við að leita uppi Íslendinga sem ætlun Þjóðverja var að senda til Íslands til að njósna. Pelving þótti góður á Íslendingana því hann var drykkjuhrútur og það voru margir Íslendinganna sem hann fékk á njósnatjansinn. Aðrir, þýskur höfuðsmaður, sá um að heimsækja íslenska stúdenta, sem einnig fengust sumir til að njósna, jafnvel sumir hálfólmir, og einn maður vegna þrýstings þar sem kynhneigð hans var notuð gegn honum.
Samstarfsmaður Gunnars Guðmundssonar nasista, Max Pelving. Hann særðist illa þegar danska andspyrnuhreyfingin sat fyrir honum í Kaupmannahöfn árið 1943. Hann var síðan falinn á Jótlandi, þar sem hann var um tíma illræmdur fangavörður í búðum nasista þar.
Ekkert í dönskum skjölum bendir til þess að Pelving hafi starfað með Gunnari árið 1940-1941, eftir að Þjóðverjar leystu hann úr fangelsinu þar sem hann sat inni fyrir að njósna fyrir þá - eða fram fram til þess tíma að Gunnar var meðal 258 farþega á Esjunni í Petsamóförinni til Íslands í október 1940.
Hins vegar sagði einn Íslensku njósnaranna sem handteknir voru af Bretum á Íslandi að Gunnar hefði verið handgenginn dönskum njósnara sem hét "PELVIN". Engin vissa er þó fyrir því að Gunnar Guðmundsson hafi verið sá njósnari sem haldið hefur verið fram að Bretar hafi fengu pata af að væri með Esjunni sem fór frá frá Petsamo 5. október 1940. Það er aðeins óundirbyggð ályktun íslensk sagnfræðings, sem er ósönnuð.
Gunnar Guðmundsson var ekki skráður fyrir upplýsingum um íslensk málefni í njósnakerfi Þjóðverja fyrr en hann kemur til Kaupmannahafnar 23. apríl 1941 eftir sína margslungnu ferð frá Íslandi, yfir hálfan heiminn að því er hann á stundum reyndi að telja fólki trú um. Þá fór hann um Hamborg, þar sem hann upplýsti leyniþjónustu þýska hersins um fjölda hermanna á Íslandi.
Hins vegar kom Íslendingur, annar en Gunnar, sem ætlað var að njósna, til Íslands með Esjunni frá Petsamó.
Gunnar var lýst sem óreglumanni og hann dæmdur fyrir fjárdrátt
Eitt að því sem Gunnar sagði ekki þeim sem á hann vildu heyra, var að hann átti alla tíð í vandamálum með Bakkus. Bæði sálfræðingaskjöl frá 1944 og 1945 sem og vinir hans Íslenskir sem Bretar yfirheyrðu á á Íslandi lýstu honum sem drykkfelldum mjög. Einn félaga hans í Kaupmannahöfn, sem sendur var til Íslands til að njósna, lýsti honum 1941 sem mjóslegnum manni, gulleitum á húð. Þessa lýsingu gaf njósnarinn Hjalti Björnsson sem var fangi Breta:
BJORNSSON described GUDMUNDSSON as a noted sponger, often drunk and borrowing money whenever he can.
Bretar tóku svo saman eftirfarandi lýsingu á Gunnari eftir yfirheyrslur á vini hans sem handsamaður var fyrir njósnir.
Gunnar komst einnig í kast við lögin eftir að hann sneri aftur til Kaupmannahafnar. Þann 8. desember 1942 var hann var dæmdur skilorðsbundnum fjögurra mánaða dómi fyrir fjárdrátt (og átta mánuði ef skilorð var brotið). Gunnar hafði svikið Íslending, sem vann í dönsku ráðuneyti, í viðskiptum með frímerki sem hann tók í umboðssölu. Gunnar stakk undan gróða (400 kr.) þótt samið hafi verið um 100 kr. greiðslu til Gunnar fyrir að miðla sölunni.
Nú eru kannski farnar að renna tvær grímur á þá sem hlustað hafa á sögur Gunnars eða trúað jólabókum sem segja lausaralega og illa frá ævintýrum hans.
Ferðin mikla frá Íslandi árið 1941
Í minningu Jóns Fr. Sigvaldasonar er að finna eina af mörgum ævintýralegum gerðum frásagna Gunnars Guðmundssonar um ferð Gunnars frá Íslandi til Danmerkur árið 1941, hálfu ári eftir að Gunnar kom til Íslands með Esjunni frá Petsamó. Hann sagði Jóni að hann hefði farið með skipi frá Íslandi til New York og þaðan til Sikileyjar, síðan upp gegnum Evrópu og til Kaupmannahafnar.
Önnur gerð, sem Gunnar grobbaði sig af, var að hann hefði farið frá New York til San Francisco og með skipi til Japans, síðan gegnum gjörvöll Sovétríkin og þaðan komist til Kaupmannahafnar. Þangað kom hann, eins og fyrr segir í apríl 1941. Í Danmörku var Gunnar einnig tvísaga við yfirvöld er hann var yfirheyrður eftir stríð. Sagði annars vegar frá ferðinni Ísland - New York, San Francisco, Japan - Spánn - og Danmörk, og hins vegar ferð sem hljóðaði upp á Ísland - New York - Spánn - Danmörk. Hvað er réttast af þessu munum við seint vita, því vegabréf Gunnars frá þessum tíma glataðist. Þegar ég hlustaði á Gunnar fékk ég Sovétríkja-gerðina í hausinn, sem mér þykir allraólíklegust. Ég reyndi að bora í hvaða borgir hann hafði farið um í Sovétríkjunum, en kom þar að algjörlega tómum kofanum hjá karli. Honum var hins vegar mjög umhugað að segja mér hversu miklar hörmungar og illmennsku hann hefði séð í Sovétinu og að "Rússarnir hefði ekkert verið betri en nasistar".
Atvinnuveitandi Gunnars staðfesti þann 30. nóvember 1942, at Gunnar hafi sagt sér að hann hafi farið frá Bandaríkjunum beint til Hamborgar og unnið þar í 5 mánuði, áður en hann birtist í Kaupmannahöfn.
Meint ferð Gunnars frá Íslandi yfir Sovétríkin til Danmörku árið 1942, sem lýst er í bókinni Berlínarblús, var vafalaust algjör tilbúningur. Í bókinni er sú ferðatilhögun m.a. runnin undan rifjum Björns Sv. Björnssonar (forsetasonar). Gunnar hafði þó einnig sagt söguna mönnum í Kaupmannahöfn, sem síðar komust á einn og annan hátt til Íslands til að njósna fyrir Þjóðverja, því sú gerð sögunnar kemur fram í yfirheyrslulýsingum yfir íslendinga sem teknir voru fyrir njósnir af Bretum. Björn Sv. Björnsson gæti einnig hæglega hafa heyrt af þeim upplýsingum síðar.
Líklegasta ferðin er að Gunnar hafi farið til Bandaríkjanna og að þaðan hafi hann komist til Evrópu, nánar tiltekið Spánar og Hamborgar. Sú gerð er einnig höfð eftir einum af vinum hans sem Bretar yfirheyrðu. Síberíuförin var að mínu mati tilbúningur, sem Danir sáu í gegnum; og það reiknaði Jón Fr. Sigvaldason, sem hafði heyrt þá gerð, einnig hárrétt út. Upplýsist það hér með blaðamanni Morgunblaðsins, sem vafalaust er eins og margir Sjálfstæðismenn alinn upp í þeirri leiðu möntru að Rússar hafi í engu verið betri en Þjóðverjar. Hverjir frelsuðu Auschwitz?
Hjálparhella Gunnars var SS-Untersturmführer Björn Sv. Björnsson, sonur fyrsta forseta lýðveldisins Íslands
Mörg andlit "sonar forsetans". Hann laug líka grimmt.
Af lýsingum geðlæknis í réttarhöldum gegn Gunnari, kemur greinilega í ljós, að menn töldu mögulegt að hann hafi af einhverjum ástæðum verið að gera sér upp geðveikina haustið 1944. Gunnar upplýsti, meðal annars við yfirheyrslur að honum líkaði hvorki dvölin í Waffen-SS né Þjóðverjar. Hann gerðist hræddur við að verða sendur á vígstöðvarnar.
En "sonur forsetans, sem einnig var prýðis lygari, "reddaði svo málum, enda maður sem dæmdi fólk til dauða í hjáverkum og lagðist á ungar konar, sem hann hafði skaffað íbúð - Jú gögn eru líka til um það (sjá hér til vinstri á spássíunni hjá Fornleifi).
Björn Sveinsson Björnsson, sem vann á áróðurs- og njósnamiðstöðinni SS Standarte "Kurt Eggers" (Kurt-Eggers Stelle) i Kaupmannahöfn kom Gunnari á þriggja mánaða áróðursfréttaritaranámskeið hjá SS. Það var sumarið og haustið 1944. En lítið varð um fréttamannastörf á frontinum,þar sem hann veiktist í Berlín.
Það var í leyfi haustið 1943, að Gunnar Guðmundsson gerðist hálfsturlaður. Hann var eftir fangelsis og spítalavist sendur til München, en þar ágerðist sjúkdómurinn og hann var því sendur aftur til Danmerkur í mars 1945 og rúinn SS-búningi sínum við komuna til Kaupmannahafnar. Hann upplýsti sjálfur að hann hefði fengið að halda skammbyssu sér til varnar, því Þjóðverjar sáu hvert stríðslukkan stefndi. Það leyfi kom fram í herbók hans (Soldbuch)sem dönsk lögregla sá árið 1945.
Gunnar fór því aldrei á neinar vígstöðvar og var aldrei í haldi Rússa, eins og hann laug að Jóni Fr. Sigvaldasyni ásamt fleirum.
Gunnar kvæntist heldur aldrei í Kína, líkt og hann laug að Jóni Kr. Sigvaldasyni og mörgum öðrum. Gunnar átti tvo syni með danskri konu Gerdu Marie Nielsen, (f. 1927) sem starfaði lengi sem læknaritari. Synir þeirra fæddust 1956 og 1963. Þeir héldu lengi uppi uppi fyrirtæki sem bar nafn Gunnars Guðmundssonar, og er það enn skráð á fyrirtækjaskrá 10 árum eftir dauða Gunnars, þó engin sé starfsemin. Einn son átti Gunnar Guðmundsson frá fyrra hjónabandi með íslenskri konu (Jóhönnu Lauru Hafstein, sem fæddist árið 1906), sem var 10 árum eldri en Gunnar. Sá sonur fæddist árið 1948 og var læknir í Reykjavík. En þegar hann tók upp á því að verða geðveikur (að mati geðlæknis) árið 1944, upplýsti hann danska lækna að hann hefði eignast barn árið 1938 utan hjónabands á Íslandi, hann gaf hvorki upplýsingar um móður barnsins né nafn þess. Á stríðárunum var hann í tygjum við íslenska konu í Kaupmannahöfn Önnu Norðfjörð, sem var nokkrum árum eldri en hann.
Nei, Jón Fr. Sigvaldason misminnti ekkert. Gunnar Guðmundsson raðlaug að Jóni. Nasistar lugu alltaf að fólki. Þegar menn skrifa um íslenska nasista ber margs að varast, því vefur lyganna getur verið fjári flókinn hjá þeim sem þjónuðu Hitler á einn eða annan hátt.
Gunnar fékk upphaflega 12 ára fangelsisdóm í Danmörku
Það vekur mesta undran mína, af hverju einhver á Íslandi stóð í því að reyna að bjarga Gunnari Guðmundssyni úr 12 ára fangelsi sem hann var dæmdur í af borgarrétti hér í Kaupmannahöfn árið 1945. Reyndar var dómurinn í undirrétti í hærri endanum, í samanburði við dóma sem aðrir hlutu fyrir sams konar brot. Dóminum var síðan breytt í eins árs dóm í júní 1946 og Gunnari sleppt. Gunnar fór til Íslands en mátti ekki snúa aftur til Danmerkur í 5 ár.
Danski lögfræðingurinn, er var með mál Gunnars, vann starf sitt mjög vel. Þegar í undirdómi hafi einn dómaranna andmælt dómnum og taldi sá dómari, að tveggja og hálfs ára fangelsi væri betur við hæfi miðað við upplýsingar sem rétturinn hefði undir höndum. Ómenntaðir dómsmenn voru hins vegar á því að 12 ára hentaði Gunnari. Sendiráð Íslands hjálpaði Gunnari lítið með yfirlýsingu sem þeir sendu áður en hann hann var dæmdur í 12 ára fangelsi, nema síður sé. 19. júní 1945 spurði íslenska sendiráðið hverjir möguleikarnir voru á því að hægt væri að fá hann leystan úr haldi. Gögn sem endurspegla þá fyrirspurn hljóta að vera til á Þjóðskjalasafni í Reykjavík. En 1946 lögðu dómarar áherslu á á það sem sendiráðið skrifaði þann 12. desember 1945 til dómsstólsins árið 1945:
"... En anden Sag er, at den Kendsgerning, at Tiltalte som Statsborger i andet Land i hvert Fald kun har stået i et meget løsere og mere midlertidigt Tilhørsforhold til Danmark end danske Statsborgere",
Að lokum var dómurinn léttur um 11 ár - vegna þess að lögð var áhersla á að Gunnar hefði verið Íslendingur - erlendur borgari í Danmörku. Hvort það var eina ástæðan til þess að Danir sýndu vægð, verður ekki dæmt um að sinni. Verið er að rannsaka það. Íslensk yfirvöld höfðu ýmis tök á Dönum, sem notuð voru. Mér hefur verið sagt að líklega hafi íslenska ríkið borgað málskostnað árið 1946, en ég hef enn engar afgerandi sannanir fyrir því. Líklega eru upplýsingar að finna um slíkt í Þjóðskalasafninu í Reykjavík.
Gunnar Guðmundsson framdi, að því er við vitum, enga stóralvarlega glæpi fyrir utan hjálp við að finna menn til njósnaleiðangra til Íslands. Ekki er hægt að útiloka að upphaflega harkan í fyrsta dómnum hafi endurspeglað persónulegt álit dómsmanna vegna endanlegra sambandsslita Íslands og Danmörku árið 1944, en það verður þó ekki lesið út úr skjölum.
Lokaorð til varnaðar
Ég furða mig alltaf á þeirri manngerð, sem kynslóð eftir kynslóð, hefur áhuga og jafnvel aðdáun á hernaði 3. Ríkisins, en sem hins vegar virðist ekki geta fengið sjálfa sig til að lesa bækur um öll fórnarlömb nasista og helstefnu þeirra og mannfyrirlitningu. Sumir rembast viða að líkja nasisma við kommúnisma. Hinn furðulegi áhugi á 3. ríkinu, SS-mönnum, morðingjum, vitorðsmönnum og meðreiðarsveinum þeirra um alla Evrópu og enn fjær, er sjúklegt fyrirbæri.
Þegar menn svo bjarga stríðsglæpamanni frá saksókn og fangelsisvist eða dæmdum nasistum frá fangelsisvist, líkt og íslensk yfirvöld hafa gert, er það og VERÐUR svartur blettur á sögu Íslendinga. Hann verður aldrei farlægður, ekki einu sinni með besta tjörueyði.
Ég hef haft fyrir sið, jafnhliða rannsóknum mínum á fórnarlömbum nasista, sem ég vinn enn að, að kynna mér niður í kjölinn hvers konar fólk nasistar voru, sér í lagi þeir sem Ísland ól. Lesið hér á vinstri spássíu Fornleifs sumt af því sem ég hef safnað í sarpinn um íslenska nasista. Þetta er aðeins lítið brot af því sem ég hefi undir höndum. Upplýsingum um íslenska nasista hef ég fyrst og fremst safnað til að leiðrétta ýmsar villur sem um þá hefur verið ritað á síðari árum. Af nógu er að taka, án þess að ég lýsi frati á bækur sem gefnar hafa verið út og sem fjalla um þessa ógæfulegu Íslendinga. Þeim bókum er þó um margt ábótavant. Ég geri engan mannamun eins og þær. Mér er sama, hvort nasistinn var lítill karl og fátækur, ellegar stórlax sem síðar gekk í Sjálfstæðisflokkinn.
Aðrir nasistar, líkt og t.d. rithöfundarnir Gunnar Gunnarsson og Guðmundur Kamban voru ekkert betri en saklausir sveitastrákar sem heilluðust af SS. Þannig er það nú. Við skulum ekki gera mannamun. Það er léleg sagnfræði.
Hvað lengi eigum við t.d. að sætta okkur að háttvirt Alþingi hafi rangfærslur um meðlimi þingsins í æviskrám þeirra á heimasíðu þingsins. Þar á ég við kaflann sem Alþingi hefur um Davíð Ólafsson. Miðað við hvað þar vantar má örugglega búast við því að Klausturbarsmálið verði falið af afrekaskrá brotamannanna í kynningu á þeim Alþingismönnum sem hlut áttu að máli í framtíðinni.
Nýlega greindi ég t.d. frá því hér á Fornleifi (sjá hér), að sonur Sveins Björnssonar, síðar forseta Ísland, sem var trúnaðarvinur Gunnars Guðmundssonar í Kaupmannahöfn, hefði dæmt fólk til dauða við störf sín í Kaupmannahöfn. Það hefur aldrei komið fram í neinum þeim útgefnu verkum sem hingað til hafa verið um íslenska nasista. En íslensk yfirvöld þekktu söguna, en völdu að halda henni leyndri. Í sömu grein sagði ég frá kynnum mínum af syni forsetans.
Ég vona að mér endist aldur til að segja nánar frá ýmsu því sem ég hef sankað að mér af upplýsingum um íslenska nasista. Að minnsta kosti hér á Fornleifi, þó ég hafi sannast sagna almennt ekki mikinn áhuga á SS-sjálfboðaliðum,meðreiðarsveinum, þrammandi þjóðverjum eða fylgismönnum og langtímaaðdáendum þeirra íslenskum. Ég er ekki nasistaveiðari, þó ég hafi öðru hvoru starfað fyrir Simon Wiesenthal stofnunina (Simon Wiesenthal Center), aðallega deildina í Jerúsalem. Ef maður kann ekki sögu fórnarlamba nasista skilur maður ekki óeðlið sem m.a. fékk nokkra Íslendinga til að þjóna Hitler og pótintátum hans, sem eyðilögðu Evrópu og líf svo margra íbúa álfunnar.
Svo við snúum aftur af Gunnari Guðmundssyni. Hann var aðeins lítið peð í þeim hildarleik og leið kannski meira fyrir mistök fyrr á ævi sinni en menn annars staðar á þjóðfélagsstiganum sem fengu jafnvel hæstu stöður í íslensku þjóðfélagi.
Íslenskir nasistar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Draumaráðningar í íslenskri minjavernd
2.2.2021 | 08:22
Ritstjórn Fornleifs, alveg eins og hún lagði sig í sófann, horfði á þáttinn Fyrir alla muni í Sjónvarpinu 31. janúar 2021 og hélt sig vera að dreyma (sjáið þáttinn í heild sinni hér meðan að það er hægt).
Þátturinn fjallaði um silfur Egils Skallagrímssonar og leitina að því meðal annars eftir draumsýn konu í Mosfellsbæ. En í rauninni sýndi þátturinn best getuleysi Minjastofnunar og hybris sumra fornleifafræðinga sem vita minna en þeir halda sjálfir að þeir geri.
Ég rauk strax til eftir að hafa séð þáttinn í sjónvarpinu og fann hér áhugaverða klausu úr einni af dagsskýrslum Minjaverndar Ríkisins 2019, því ég taldi mig áður hafa lesið um slíkar draumarannsóknir:
Berdreymin stúlka í Hafnarfirði hafði samband við Minjavernd Ríkisins og sagðist vita, hvar Gunnar hafði hoppað upp á nef sér í öllum herklæðum sínum. Stína sagði OK og vá! við fórum austur og grófum prufuholu (1x1 metra). Kiddi hoppaði ofan í holuna, en sá svo sem ekkert nema gjóskulag afar ógreinilegt, en þegar ég kom upp úr holunni dró sól fyrir ský og Stína sá að tvö fótarför voru í botni holunnar sem var svona 1.20 metrar að dýpt og mjókkað neðst. Við fundum þarna greinileg fótspor manns sem hafði tvístigið og jafnvel valhoppað. Hann var á einhverskona fornskóm með mynstri austrænu, stærð 41. Næsta dag, er við komu aftur í Hlíðina, hafði rignt um nóttina svo sporin sáust ekki lengur. Við flettum upp í Kuml og Haugfé en fundum ekkert um fótspor; Kiddi taldi sig hafa séð áletrun á fótsporinu, NOKI eða eitthvað sem gæti líkst því".
Til að eyða öllum misskilningi, þá er færslan hér að ofan skoplýsing - en þetta gæti vitaskuld vel hafa átt sér stað, því Minjastofnun Íslands, undir stjórn Kristínar Sigurðardóttur, rýkur út og grefur holur á kostnað skattborgaranna ef kerlingu í Mosfellsbæ dreymir silfur. Það er nú fest á filmu og væri við hæfi að stofnunin sendi ritstjórn Fornleifs skýrsluna yfir draumarannsóknina, því Egill er forfaðir okkar allra.
Ég held að það sé ekki aðeins okkur sem leikur forvitni á því hvernig draumafornleifafræði íslensk fer nákvæmlega fram.
Er ekkert stofnanaeftirlit á Íslandi hlýtur að vera spurningin sem vaknar?
Stofnun sem veitir þáttargerðarmönnum, sem eru að búa til alþýðlegan skemmtiþátt, leyfi til að leita að silfursjóðum með málmleitartæki, fer ekki að lögum. Það er svo ekki í fyrsta sinn að lög eru brotin af Minjastofnun Íslands. Stjórnsýslan í minjamálum er orðin einhvers konar geðþóttafyrirgreiðsla eins og svo margt annað í íslensku þjóðfélagi: Lög eru sett á Íslandi til að brjóta þau eða beygja að vild.
Nú eru íslenskir fornleifafræðingar farnir að trúa, en augsjáanlega mest á sjálfa sig.
Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur (á efstu mynd efst með Ray-Ban sólgleraugu), sem hinn sæmilega vantrúaði þáttastjórnendi (Viktoría Hermanns) tók viðtal við til að nálgast einhverja sérfræðiþekkingu, trúir að eigin sögn Egils-sögu sem áreiðanlegri heimild. Við því er lítið að gera, þegar að fyrir löngu síðan er komið í tísku meðal margra fornleifafræðinga á Íslandi að trúa ruglinu í sjálfum sér t.d. eskimóakonum á spítala á Íslandi og Allah-perlum í stórstöðvum austur á landi svo eitthvað sé nefnt.
Blind trú á ruglið í sjálfum manni og ástundun fræðakukls eru víst orðin grundvallaréttindi á okkar tímum. Vísindi og fræði, þar sem tilgátur krefjast sönnunar, áður en menn fara að tala um "kenningar sínar" með staðhæfingum og án þekkingar á því sem áður hefur verið rannsakað, hafa færst í vöxt á Íslandi. Og það ekki aðeins í fornleifafræði. Hvaða vísindi fær t.d. íslenska lækna til að setja órannsakaða plastbarka í helsjúkt fólk í samvinnu við einhvers konar pylsugerðarmeistara frá Ítalíu?
Við sjáum þessa miklu trú á "sjálfið" er Vala Garðarsdóttir, sem ég hefði annars ekki trúað slíkri trú upp á, færir eftirfarandi rök fyrir alþjóð í sjónvarpsþætti:
"Af hverju ætti hann [Jón Grunnvíkingur] að vita að Anslaf [sic] væri konunganafn Ólafs Kvaran. Það vissi enginn á 18. öldinni."
En hvernig veit Vala Garðarsdóttir það með vissu að enginn á 18. öldinni hefði ekki sett samasemmerki á milli "Anslafs" og Ólafs Kvaran? Að heyra svona staðhæfingu er eins og römm klípa í gamlan fræðilegan afturenda minn, svo óþægileg að staðhæfingunni verður þegar að andmæla - Því ekki er nóg með að einhverjir á 18. öld hafi vitað hver ANLAV var. Aðrir vissu það líka á þeirri 17. Svo situr íslenskur fornleifafræðingur fyrir utan Þjóðminjasafnið í sjónvarpsþætti og sýnir alþjóð að hann veit ekkert.
Hitt er svo annað mál að það voru Erlendur eða Jón sem tengja ANLAV-myntir við frásöguna í Eglu á silfurkistum Egils.
Nú er svo komið að það liggur við að maður nái í góðan miðil til að komast í beint samband við Jón Ólafsson Grunnvíking. Draugur hans mun víst enn halda sig í námunda við Sívalaturn í Kaupmannahöfn. Ég lofa samt engu, en læt ykkur vita ef ég rekst á Grunnavichensis afturgenginn. Ég mun svo sannarlega reka úr honum garnirnar um þessa Anslafs-mynt sem Erlendur bróðir hans sá árið 1725 og Jón ritaði um árið 1753.
En áður en ég kemst í beint samband við Jón handan við móðuna miklu, leyfi ég mér að benda á að Jón Ólafsson og bróðir hans Erlendur, sem um tíma var með honum í Kaupmannahöfn, gætu báðir hafa séð með eigin augum, ellegar lesið um myntir úr sláttu Ólafs Kvarans með áletruninni ANLAV. Einkamyntsöfn voru til á 18. öld í Danmörku og enduðu flest þeirra í Det Kongelige Møntkabinet sem var stofnað árið 1782.
Kristján Eldjárn, okkar mikli mentor, skrifar einnig eftirminnilega í neðanmálsgrein í doktorsritgerð sinni í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, Kuml og Haugfé, um meintan fund á mynt í Mosfellsdal sem Erlendur Ólafsson frá Grunnavík var heimildamaður fyrir:
Jóni Ólafssyni eða heimildamanni hans, sem var Erlendur bróðir hans, gat verið kunnugt um frásögn [Thomas] Bartholins [hins yngra] af írskum peningum með áletruninni ANLAF CVNUNG (Antiqvitatum Danicarum libri tres. Hafniæ MDCLXXXIX, P. 464) 1689 annaðhvort beint eða af tilvitnum Páls Vídalíns til hennar (Skýringar yfir fornyrði lögbókar, Reykjavík 1849, bls. 132); [Fornleifur skýring: Páll Vídalín (1667-1727) var höfundur] Ég þakka Jakob Benediktssyni fyrir að hafa bent mér á þessi rit.
Í stað þess að trúa Egils-sögu, leyfi ég mér að benda auðtrúa íslenskum fornleifafræðingum, sem í stundaræði í sjónvarpsþætti telja sig hafa höndlað sannleikann, að lesa Kuml og Haugfé (sem á margan hátt stendur fyrir sínu).
Hér er ljósmynd af bls. 464 í 2. bók Antiqvitatum eftir Thomas Bartholin hinn yngri (þess er átti Möðruvallabókarhandrit um tíma og gaf Árna Magnússyni það). Á þessari blaðsíðu greinir frá mynt með áletruninni ANLAF CVNVNC. Þetta er auðvitað allt á latínu og kemur því ekki að miklum notum á meðal íslenskra fornleifafræðinga, sem fæstir hafa lært latínu sér til gagns. Svo engum vafa sé undirorpið og fólk haldi ekki að kerlingarbækur á 21.öld séu trúanlegri en Páll Vídalín á 18. öld eru hér opna úr bók sem hann ritaði handrit að, en það var ekki gefið út fyrr en 1849. Stækkið með því að láta músina snerta myndina og lesið um vitneskju Vídalíns, á 18. öld, neðst á bls. 132 og efst á 133.
Þar sem mér heyrðist á þættinum Fyrir alla muni, að ekki væru menn alveg með það á hreinu hver ANLAF, eða Anslafr eins og Jón Grunnvíkingur kallar nafnið á mynt sem fundist mun hafa árið 1725 og hann skrifar um árið 1753 væri, þá er hér smávegis fróðleikur: Anlaf var einnig þekktur sem Amlaíb mac Sitric og var uppi á um 927 980. Hann var að hluta til af norskum ættum og hét upp á norrænu Óláfr Sigtryggsson (hinn rauði), en hann var einnig þekktur á gelísku sem Amlaíb Cuarán, eða Óláfr Kvaran. Hann var konungur á Norðimbrulandi og í Dyflinni, þótt Egils saga telji hann konung Skota.
Því verðu einnig fyrir alla muni að bæta við að annar konungar en Ólafur Kvaran notuðu fornensku myndina af nafninu Ólafur, ANLAF, á myntum sínum, t.d. sá konungur sem á norrænu kallast Óláfr Guðrøðsson, og sem einnig hefur verið kallaður Olav Gudfrithson af enskum - og upp á írsku Amlaíb mac Gofraid. Hann var hertogi/konungur í Dyflinni 924-939.
Myntin sem Jón Grunnvíkingur segir bróður sinn hafa séð árið 1825 og sem hann skrifar um eftir minni árið 1853 gæti einnig hafa tilheyrt allt öðrum ANLAF (Anslafri) en Ólafi Kvaran hinum rauða.
Úr sláttu Ólafs Kvarans (sem líka var ANLAF) og hér fyrir neðan slátta Ólafs Guðröðarsonar.
Fróðum mönnum í Kaupmannahöfn á 18. öld, t.d. Jóni Grunnvíkingi og Páli Vídalín uppi á Íslandi, treysti ég vel til þess að hafa gert sér fulla grein fyrir því að mynt sem ber áletrunina ANLAF CVNVNG, sem Jón gæti vel hafa lesið um hjá Thomas Bartholin jr. eða jafnvel sjálfur séð, væri úr sláttu Ólafs konungs Kvarans.
Bartholin hafði á 17. öldinni þegar tengt nafnið ANLAF Dyflinnarkonungum eins og þið og Vala Garðarsdóttir getið lesið hér að ofan. Ef menn hafa getað greint Dyflinnarkonunginn ANLAF á 17. öld hefur Jón, sem umleikis hafði handritaarf Íslendinga, vitað að þar var aðeins um tvo konunga að ræða.
Vala Garðarstóttir gerir að mínu mati lítið úr vitneskju fyrri tíma manna, og það vegna eiginvankunnáttu - en hún trúir greinilega frekar ruglinu í sjálfri sér? Þess konar trú er orðin reginvandamál í íslenskri fornleifafræði.
Ég er að verða of seinn í andaglas
Æi krakkar, nú er klukkan að verða margt. Ég þarfa að fara að hlaupa. Mér var nefnilega boðið ásamt þremur gömlum kollegum í mat og andaglas til að finna eitthvað annað gamalt og sem glittir í, t.d. hið heilaga Gral, sem einnig hefur verið leitað að á Íslandi, en án árangurs.
Mig langar í glasinu í kvöld að spyrja Njál á Bergþórshvoli um nokkur smáatriði í Njáls Sögu um hann og Gunnar. Ég mun lesa í bolla vina minna að íslenskum sið og segi sömuleiðis frá því víðar að íslensk minjayfirvöld geri berdreymnum stúlkum létt fyrir að fá leyfi til að leita að óáföllnu silfri sem þær fá pata af í heiftarlegum svefnleikjum sínum með stórum Víkingum að handan.
Á meðan eiga ekta fornleifafræðingar með próf upp á skeið, sköfu og skóflu í mestu erfiðleikum með að fá leyfi til að stinga niður reku. Látið ykkur dreyma elskurnar mínar. Sweet dreams!
Og hér eru að lokum áhugaverðar upplýsingar um draumaráðningar skyldi íslenska fornleifafræðinga fara að dreyma óáfallna silfursjóði. Munið svo gamalt húsráð Framsóknarflokksins og áfallna ættingja Framsóknarmanna í öðrum flokkum: Ef fallið er á silfrið, er það ekki íslenskt. Íhaldið ætti heldur ekkert að segja neitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Nordens ældste Pepsi-flaske
27.1.2021 | 10:30
Jeg er en af de mange stakler som bæller X dl. brunt sodavand om dagen. Det brune sukkervand pepper nemli´ mine hjerneceller op. Faktisk er alle mine indvolde også lysebrune på grund af mit ekstremt loyale forhold til det brune vand. Jeg kan, uden at reklamere for noget, afsløre at det brune vand jeg helst drikker hedder Zero. Jeg har været afhængig af den farligere version af drikken fra begyndelsen af 1960erne, eller siden mine forældre syntes det var sikkert nok til mig, sådan ca. ved 3-års alderen. Ved en helseindsats i 1990erne begyndte jeg at drikke Zero efter flere års afholdenhed fra Coca-Cola.
Jeg har aldrig været stor tilhænger af konkurrenten til Coca-Cola eller Coke Zero. Pepsi, som blev solgt i Island, længe, længe før drikken kom til Danmark i 1973, havde altid en afsmag, som gjorde at jeg ikke kunne drikke flasken op, eller jeg følte kvalme ved at drikke den. Det blev ikke bedre med Pepsi Max, som kom til Danmark i 1994. Jeg rører sandt at sige ikke Pepsi, med mindre Coca Cola Zero er udsolgt. Pepsi køber jeg kun i krisesituationer. Jeg ville ikke engang bruge drikken for at slukke en tilfældig brand i mit hår.
Selvom jeg ikke drikker Pepsi ejer jeg derimod den ældste Pepsi-flaske i Kongeriget Danmark. Den er fra 1943. Hvordan kan det stemme, spørg nogle af Coca-Cola vragene, hvis Pepsi først kom til Danmark i 1973 (og 1967 i Sverige, jaja jååå), da alle sagde Jolly til sin Cola??
Jo, det skal jeg fortælle jer. Da Island stadig var en del af det danske rigsfællesskab, fik islændingene Pepsi Cola udenom moderriget. Coca-Cola havde Saga-øen allerede fået inden da, og endda Skyr. Danmark var besat af Tysken, mens vi i Island var så heldige at blive "besatte" af briterne. Da amerikanerne afløste briterne i 1941-42 begyndte amerikanske kulturprodukter så stille og roligt at flyde ind i landet. Alle lyksalighederne som Danmark i den tyske kultur-sfære fik langt senere, kom i 1940erne til den frie ø mod nord.
Hot-dogen, helt uden den senere danske afarts tunge overbygning, kom til Island og blev skyllet ned med "Kók" (Coke) og Pepsi. Islandske kommunister var også helt med på noderene. Pendanten til Land og Folk, Þjóðviljinn (Folkets Vilje) skrev en review af drikken, da man opdagede at der var kommet en kæmpe reklame for den på en af Reykjavíks torve - og det lige under republik-festen i Island i juni 1944.
28. juni 1944, Þjóðviljinn
Pepsi-Cola
Byens beboere har lagt mærke til et moderne fænomen på Lækjartorg. I klokketårnet er der kommet en kolonormt stort billede af en flaske, så stor at en mand med et rimeligt syn kan se den hele vejen fra Arnarhóll (en høj 200 m fra torvet). Dette er en reklame for Pepsi-Cola, som er en udmærket læskedrik, amerikansk, ikke så forskellig fra Coca-Cola... men kan dog ikke påstå at denne store reklame er nogen forskønnelse af byen - og desuden unational, til trods for at den blev hængt op på republikkens fest (Island blev erklæret republik 17. juni 1944.
Ó.Þ.
Reklame for helsedrikken Pepsi i Morgunblaðið 1944
Det kan oplyses at rygtet hævder at det var gennem nærlæsning af Þjóðviljinn, at Kreml første gang hørte om Pepsis lyksaligheder. Drikken blev derfor efter Josef Stalins ønske serveret på Jalta-konferencen i februar 1945.
Da det første halve ton af Pepsi-masse kom til Island havde man et problem. Man havde hverken Pepsi-flasker eller en flaskefabrik for at producere dem. Det første halvandet år med Pepsi måtte man nøjes med genbrug af brune, grønne og blågrøn ølflasker fra Danmark.
Tak: Vladimir P., Moskva, får de varmeste tak for detaljerede oplysninger om Pepsi i Jalta 1945, samt senere.
Kommunismens begyndende fald i Soviet, men i 1942, da Coca-Cola kom til Island, havde drikken en indflydelse på hvorledes mænd mødes.
Forndrykkir | Breytt 12.5.2021 kl. 07:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Köttur úti í mýri setti upp á sér stýri úti er ævintýri
25.1.2021 | 09:20
Þann 17 janúar sl. horfði ég á þátt í röðinni Fyrir alla muni, sem var sýndur í Sjónvarpi. Þætti í þessari röð hef ég horft á áður og í sannleika sagt þótt frekar þunnur þrettándi. En þátturinn sem hér um er fjallað (sjá hann hér meðan að hægt verður) var reyndar aðeins betri en fyrri þættir í þessari röð hafa verið.
Í þetta sinn var fjallað var um stýrishjól úr skipi í eigu manns í Reykjavík. Eigandi stýrisins (rattsins), Ingi Ingason, er barnabarn Alberts Guðmundssonar knattspyrnumanns, ráðherra, sendiherra i Frakklandi m.m. Ingi hafði fengið þá sögu með sér úr föðurhúsum, er hann erfði hjólið, að það væri líklega úr Pourquoi Pas? sem fórst árið 1936 við Álftanes á Mýrum (en ekki á Álftanesi og Mýrum líkt og stendur í frásögn RÚV um þáttinn (sjá hér og skjámyndina hér neðar).
Skiltið á Pourquoi Pas? (hinu fjórða) með áletrunni ´Fyrir Heiðurinn og Föðrulandið´ fannst rekið á Álftanesi á Mýrum árið 1936 og sést það illa farið á ljósmyndinni efst.
Margir Íslendingar kunna mjög vel sögu skipsins og strandsins árið 1936. Þátturinn um meint stýri úr Pourquoi Pas? bætti þar litlu við. Þetta var mestmegnis þvaður um "stýri" sem Albert Guðmundsson hafði keypt sem "stýri úr skipi" sem stýrishjólið tilheyrði reyndar aldrei.
RUGLIÐ Á RÚV gerir það ekki endasleppt. Skjámynd af frétt RÚV um þáttinn. Er þetta hægt í efni sem er unnið til sýninga hjá RÚV? - þ.e. að "stranda á skerinu Hnokka út af Álftanesi og Mýrum uppi í Borgarfirði" ?? Einnig er gegnum nær allan þáttinn talað um stýrið á skipinu, sem er allt annar hlutur en stýrishjólið (eða rattið eins og sumir kölluðu það) Menntun á Íslandi stendur greinilega á lægra stigi en hér áður fyrr. Til að skýra út fyrir landkröbbum, þá er stýri það sem Englendingar kalla Rudder, Danir og norðmenn kalla Ror og Hollendingar kalla Roer. Á frönsku er orðið fyrir stýri Gouvernail (sem er komið úr latínu Gubernacula). Stýrishjól er hins vegar allt annar handleggur. Frakkar tala t.d um Barre de gouvernail eða bara Bateau. Þess má einnig geta að Frakkar, sem skrifa af vanefnum um skipsskaðann árið 1936, rugla Álftanesi á Mýrum við Álftanes í núverandi bæjarfélaginu Garðabæ.
Þessi fornleifafræðingur, sem að mestu heldur sig ofansjávar og fjarri fósturlandinu, horfði á þáttinn 17. janúar, og það þrátt fyrir óvægan dóm minn á fyrri þáttum, sem sumir hverjir voru hrein hörmung. En þótt þátturinn nú hafi verið nokkuð áhugaverður, voru efnistökin ekki nógu fræðileg. Það eina sem gnæfði yfir hálfgerða æsifréttamennsku þáttastjórnandanna voru vís orð Ragnars Edvardssonar fornleifafræðings, sem benti á að ef hlutur sé horfinn frá/úr upphaflegu samhengi sínu, væri oftast nokkuð erfitt að segja til um samhengið. Mér þótti samt nokkuð skondið að Ragnar var samt nokkuð heitur fyrir því að stýrið væri jafnvel úr Pourquoi-Pas?
Viðtali við konu um vel þekktan máf um borð á Pourquoi Pas? hefði nú eiginlega verið hægt að sleppa, ef þáttastjórnendur hefðu haft fyrir því að lesa t.d. bók Illuga Jökulssonar um skipið og endalok þess - kannski bara Laxness, þó svo hann hafi ekki verið ólyginn - eða leitað á Timarit.is eftir upplýsingum. Það er ekki nóg að senda bréf til Frakklands. Fólks sem fæst við að búa til skemmtiefni með fræðilegu ívafi, verða líka að eyða örlitlum tíma í lestur og smá grúsk.
Með mikilli fyrirhöfn (bréfaskriftum til Frakklands) var haft upp á tveimur ljósmyndum sem sýndu stýrishjólið í stýrishúsinu miðskips á Pourguoi Pas?, en þær voru teknar löngu fyrir 1936. Síðan bárust þáttarstjórnendum upplýsingar frá Frakklandi um að skip sem bar nafn Jean-Baptiste Charcot hefði verið byggt árið 1908. Það skip var síðar leigt út til Noregs og síðar framleigt til Íslands. Á Íslandi fór þetta skip í slipp, þar sem fóru fram á því miklar endurbætur. Líklegast má því telja að stýrið sem þátturinn var spunninn utan um hafi komið úr Jean-Baptiste Charcot, en ekki Pourguoi Pas?.
Charcot við stjórnvölin á Pourquoi Pas? árið 1910 við strendur Chile.
En ef haft hefði verið samband við ofansjávar-fornleifafræðinginn sem þetta ritar, hefði hann getað bent leitandi sálum á ljósmynd af aftara stýrishjólinu (sem var beint yfir aftara stýrinu og beintengt í það) á Pourquoi Pas?.
Áður en ég sá þáttinn um stýrishjólið þann 17.janúar 2021 var ég búinn að finna mynd af Jean-Baptiste Charcot við aftara stýrið um borð á Pourquoi Pas árið 1910 úti fyrir ströndum Chile. Myndin var tekin í Öðrum leiðangri Jean-Baptiste Charcot til Suðurskautslandsins á Pourquoi Pas? (4. skipinu með því nafni), en smíðum á því var lokið árið 1908. Það var einmitt sama skipið og fórst árið 1936 við Íslandsstrendur. Þó myndin sé ekki skýr, er ljóst að árið 1910 hafi aftara stýrishjólið á Pouguois Pas? heldur ekki verið það sama og það sem er í eigu Inga Ingasonar.
Af hverju fann þáttagerðarfólkið ekki þessa mynd? Hana er auðveldlega hægt að finna með hjálp Google og lágmarks frönskukunnáttu? Ef menn gera heimildaþætti, er Google hentugt hjálpartæki. Kannski treystu þáttastjórnendur ekki upplýsingum úr leitarvélinni margfrægu? Mig grunar að þau hafa breytt þættinum töluvert og klippt til, þegar þau fengu bréf frá fróðum mönnum í Frakklandi.
Það er auðvita mest gaman að gera sjónvarpsþætti og vera ekkert að eyða spennunni og skemmtun þegar í fyrsta hlutanum með sannindum. Sjónvarp og uppspuni eiga best saman. Spenna og skemmtun er það sem fólk vill fá - frekar en blákaldar og leiðinlegar staðreyndir. Ákveðinn fjöldi fólks í þjóðfélögum vill líka alltaf láta ljúga að sér. Kannski veiti ég einhverjum litlum hópi grúskkarla með sannleikann sem þráhyggju skemmtun og fullnægingu með því að benda á að einnig sé til mynd af aftara stýrishjólinu á Pourquoi Pas? og ekki bara ljósmyndir af fremra hjólinu, sem sýndar voru í þættinum af stýrinu miðskips. Svo getur restin látið ljúga að sér hverju sem vera vill.
Stýrishjól hafa oft gengið kaupum og sölum. 2. febrúar árið 1978 var hinn vel þekkti kaupahéðinn Magni R. Magnússon í Frímerkjasölunni að reyna að losa sig við stýrishjól með smáauglýsingu í Dagblaðinu. Um tíma voru seld á Íslandi "puntuhjól fyrir gervisjóara" sem aldrei höfðu migið í saltan sjó migið. Ætli Magni hafi selt einhverjum slíkt hjól í það skiptið, eða var hann með hjólið góða úr Slippnum?
Ég tók svo eftir því, að það var ekki bara ég sem hnaut um ýmsar vitleysur í þættinum um Pourquoi Pas. Á FB heiðursmannsins Jóns Viðars Jónssona voru áhugaverðar athugasemdir varðandi þáttinn. Ég vona að fólkið á bak við Fyrir alla muni, læri fyrir alla muni af þessari gagnrýni minnig og rausi og geri betur næst.
Þegar ég var í París í febrúar pestarárið 2020, vissi ég ekki enn að J. B. Charcot var borinn til hinstu hvílu í kirkjugarði neðst við Montmartre norðanvert, aðeins smáspöl frá íbúðinni sem ég var í efst á fjallinu. Næst geri ég kannski sjómanna´onnör í kirkjugarðinum, en ekki fyrir alla muni.
Myndirnar hér neðst, sem eru frá útför áhafnar Pourquoi Pas? (utan eins manns sem bjargaðist) og heiðursverði við skipshlið í Reykjavík, hafa ekki birst áður. Þær eru úr dagbók dansks diplómats sem var nýkomin til starfa á Íslandi, er Pourquoi Pas? fórst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Spurning varðandi Ruth Rubin
21.1.2021 | 08:07
Endurtekið efni: Hér er gamalt efni. Þennan greinarstúf birti ég árið 2008 á postdoc.blog.is
Annað var upp á teningnum fyrir fyrir u.þ.b. 16 árum, þegar farið var fram á rannsókn á máli meints stríðsglæpamanns á Íslandi sem hafði gerst íslenskur ríkisborgari eftir að hann strandaði hér á leið til Venezuela. Gömlum vitnisburði og skýrslum var til að byrja með hafnað sem KGB áróðri, t.d. af Morgunblaðinu, sem dældi út rógi um Simon Wiesenthal stofnunina. Lögfróðir menn, sem leitað var til, töluðu gegn betri vitund og rannsókn málsins var dregin á langinn. Maðurinn, Eðvald Hinriksson, var t.d. ásakaður um aðild að morði á ungri stúlku, Ruth Rubin, sem var í haldi lögreglusveitar þess sem hann var meðlimur í. Evald Mikson hét hann, þegar sveit sú sem hann var í hóf gyðingamorð. Sveitin byrjaði á morðunum áður en Þjóðverjar voru almennilega búnir að ná yfirráðum í Eistlandi.
Mikson dó drottni sínum rétt eftir að Íslensk yfirvöld tóku við sér og ákváðu að líta á ásakanirnar á hendur honum. Þrátt fyrir að honum hafi verið hlíft við rannsóknum og réttarhöldum, skilgreina eistnesk stjórnvöld hann nú sem stríðsglæpamann.
Forseti vor og utanríkisráðherra höfðu, þegar mál hins meinta stríðsglæpamanns var í gangi, ýmislegt til málanna að leggja. Hér og hér getið þið lesið hvernig málið leit út frá þeirra sjónarhorni. Leiðtogar Hizbollah áttu alla samúð Ólafs, eins og það kæmi eitthvað máli eistnesks stríðsglæpamanns við, og Ingibjörg víðförla var á því að gyðingar ættu engan einkarétt á helförinni eða þjáningu. Mun hún endurtaka það í Öryggisráði SÞ?
Algjör þögn virðist nú vera um mál stríðsglæpamannsins á Íslandi. Blaðamaður í fremstu röð, "sem þorði meðan aðrir þögðu" var næstum því búinn að missa vinnunna vegna þess að hann skrifaði um málið. Hann ætlaði að skrifa bók um efnið, en stendur nú í staðinn í því að skýra gjörðir yfirvalda í Kópavogi. Ég bíð eftir bókinni.
Af hverju fyllist íslenska þjóðin af hryllingi yfir barnamorði í Svíþjóð, þegar stór hluti hennar vill verja mann sem ásakaður var fyrir að hafa nauðgað stúlku og myrt?
Ég geri mér grein fyrir því að fjarlægðin í tíma og rúmi getur gert menn miskunnsamari gagnvart voðaverkum og sekt? Það, að hinn meinti stríðsglæpamaður var orðinn Íslendingur og átti syni sem voru duglegir íþróttamenn á heimsmælikvarða, hafði líka mikið að segja í sambandi við álit Íslendinga. Hann var "einn af okkur". Svo þekkist viðkvæðið: "Aðrir skulu ekki koma hér og segja okkur fyrir verkum". Það heyrðist nýlega þegar Íslendingur fékk sjö ár í steininum í Færeyjum fyrir aðild að kókaínsmygli. Hann hefði, samkvæmt lögfróðum Íslendingum eins og Brynjari Níelssyni og Sigurði Líndal, aðeins fengið innan við ár á Íslandi.
Það læðist að mér sá grunur að áhugi Íslendinga, og margra annarra, á fórnarlömbum og órétti stýrist t.d. af því hvaða þjóðflokkur hefur orðið fyrir órétti. Margir Íslendingar gráta frekar sænska stúlku en gyðingastúlku í Tallinn. Getur þetta verið rétt athugað hjá mér?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Var Sæmundur Fróði á gyðingaskóla í Þýskalandi?
29.12.2020 | 19:46
Grein þessi, sem örugglega er eftir að standa í hálsinum fræðimannaumhverfinu við Háskóla Íslands, eru viðbrögð, athugasemdir og viðbætur við merkilega og áhugaverða grein eftir prófessor við University College i London, Richard North. Greinin sem ber heitið ´Resident stranger: Sæmundr in the Ashkenaz´, mun brátt birtast í Strangers at the Gate: the (Un)welcome Movement of People and Ideas in the Medieval World, ed. by Simon C. Thomson, Leiden: Brill.
Mynd: Kisinn á steininum er Sæmundur Séní, heimilisfress í Odda á Rangárvöllum.
Höfundur texta: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, Ph.D.
Sæmundur Sigfússon á selnum (ca. 1056-1133) ætlar víst að gerast ári víðförull áður en menn sættast á hvar hann lagði stund á fræðin sem gerðu hann svo fádæma fróðan.
Sæmundur var þó aldregi í Svartaskóla í París eins og lengi var ætlað, því Sorbonne-háskóli var ekki enn til er Sæmundur var uppi. Eftir að mönnum varð það ljóst að hann var ekki í París, eins og þjóðsögur segja, eru tilgátusmíðar um staðsetningu lærdómssetursins þar sem Sæmundur sótti nám sitt orðnar nokkuð margar og sumar ærið ævintýralegar - jafnvel hlægilegar á stundum.
Erlendir menn, bókmennta og sagnfræðingar sem þora að sökkva sér niður í fornbókmenntaarf okkar Íslendinga (sem fyrir löngu eru orðinn alþjóðlegt allramannagagn), eru oft miklu frjórri í hugsun en margir Íslendingar sem leggja stund á sömu áhugamál/fræði (nema kannski helst Ármann Jakobsson). Bæði er þetta vegna þess að menn erlendis geta jafnvel verið fróðari Íslendingum og haft langtum víðari sjóndeildarhring en landinn. Einnig hanga erlendir fræðimenn ekki alltaf í sama farinu, líkt og sumir Íslendingar eiga til þegar þeir sýna því meiri áhuga hver ritaði söguna en hvort sagan geymdi aðrar nothæfar upplýsingar, sem miðaldaheimurinn var fullur af. Hins vegar er einnig hægt að leita of langt yfir skammt í tilgátusmíðamennskunni - og svo fara sumir menn að trúa á tilgátur sínar. Þeir hafa sumir tiltækan lofsöngskór af lærisveinum sem taka trúna á boðskapinn, sama hvað vitlaus hann er.
Leitin að skóla þeim sem Sæmundar gekk í er eitt af þessum séríslensku átistaáhugamálum. Nú eru útlenskir fræðaþulir farnir að leyfa sér að þora að vera með - hugsanlega vegna þess að kynjafræðin getur ekki umbreytt Sæmundi í kenjótta prestsmaddömu eða eitthvert álíka absúrdítet, þegar menn stunda þá fornu list að mjólka heimildir sem því miður eru ekki fyrir hendi og verða það aldrei.
Ritstjóri Fornleifs telur það þó vera fjandanum áhugaverðara að leita dauðaleit að nýjum upplýsingum, en að kýta um hver stóru karlanna hafi skrifað bókmenntirnar. Tilgátur geta leitt af sér aðrar tilgátur og upplýsingar og þannig geta menn stundum fundið "nýjan" og betri "sannleika". Menn verða bara að varast að trúa því ekki blint sem þeir sjálfir leggja til og blanda ekki saman hýpótesu og teóríu og syntesu.
Ég hef á Fornleifi rætt um frjó skrif ungs bókmenntafræðings sem heitir Richard Cole, sem nú kennir við háskólann í Árósum. Mér finnst gaman að lesa bókmenntafræði hans, enda maðurinn fjölfróður um annað en íslenska menningu. Hann hefur skoðað hugsanleg, og líka óhugsanleg, áhrif gyðinglegra fræða og rita á íslenskar bókmenntir til forna. Mér hefur orðið um og ó vegna greinar hans um andgyðingleg minni sem hann telur að sé að finna í skrifum Snorra Sturlusonar. Einnig telur hann að Mökkurkálfi Snorra sé gyðingleg minni sem Snorri hefur tekið láni. Ég er hvorugu sammála, enda enginn að ætlast til þess, og færði fyrir því rök því í tveimur greinum hér á Fornleifi. Lesið þær svo ég þurfi ekki að vífilengja hér (sjá hér og hér).
Nú, maður getur auðvitað lítið gert við því að erlendir fræðimenn sjái ljós og fái hugljómun við að grúska í íslenskum fornbókmenntir. Ása-Þór er nú t.d. orðinn gay, eftir að kynjafræðiáhugafólk kastaði sér yfir hann. Ég er ekki enn búinn að skilja af hverju Þór ætti að hafa vera hýr og kann ekki formúluna að slíkri röksemdafærslu.
Nýjasta brumið í hugleiðingum um dvöl Sæmundar erlendis slær öllu við. Þær hafa verið settar fram í grein sem ekki er formlega komin út, en von er á henni. Greinin hefur, eins og áður segir, þegar verið sett út á Academia.edu sem sá um að ég fékk hana með bjöllukalli um miðja aðfararnótt annars í jólum.
Eins og flestir sem fylgst hafa með Sæmundi áður en hann og þjóðsöguselurinn strönduðu í mýrinni í túnfæti Háskóla Íslands er tilgátuflóran um lærdómsetur það sem heimildir greina frá á Frakklandi, æði blómleg. Fyrrum og með Oddaverja annál í vinstri og þjóðsögur í hinni, töldu menn víst að hann hefði verið í Frakklandi og nánar tiltekið í háskólanum í Sorbonne. Þetta var fyrir þann tíma að heimildarýni fór að tíðkast á Íslandi. Sorbonne-háskóli var, eins og áður greinir, ekki til á tímum Sæmundar og engir aðrar háar menntastofnanir í Parísarborg. Síðar bentu menn á, að með Frakklandi meintu menn ekki Frakkland nútímans, heldur Frankóníu eða Franken sem er landsvæði vestur af Tékklandi í Þýskalandi nútímans. Aðrir hafa, og mig grunar vegna lélegrar landafræðiþekkingar, fært það svæði aðeins úr böndunum.
Nýlátinn kaþólskur prestur og fræðimaður í Stykkishólmi, Edward Booth að nafni, vildi staðsetja Sæmund í skóla í borginni Fulda í Franken, en hans fræðilega aðferð var miklu frekar "bókstafstrú" á tilgátuna um Franken í stað Frakklands, en "haldgóð" rök.
Nú hallast líklegast flest "átorítet" um Sæmund kölskaknapa á að með Frakklandi á 11. öld hafi menn átt við þær borgir sem lágu flestar við Vesturbakka Rínar, sjá staðsetningu á kortinu:
Sæmundur á meðal gyðinga í Ashkenaz?
Hér kem ég mér svo loks að nýju greininni um Sæmund. Hana las hana fyrst fyrir nokkrum náttum, þegar fjörleg heilastarfssemi mín á stundum yfirbugaði nætursvefn og ég varð að fara framúr til að grúska eða skrifa. Kerfið í Academia.edu,(þar sem einstaklega fróðir menn setja inn eftir sig boðskap og afurðir), er svo bandsett að það lætur mann vita sérstaklega ef maður er nefndur í tilvísun í nýrri í grein. Ég er hafður fyrir því í fyrstu neðanmálsgrein hjá North, að gyðingar hafi ekki komið til Íslands fyrr en seint og síðar meir, en svo svissar höfundurinn út á eftirfarandi hátt:
While there is no evidence that the Jews reached Iceland until the seventeenth century, it may be suggested that Sæmundr inn fróði (the learned) Sigfússon (1056-1133), priest of Oddi and Icelands first book-learned historian, lived as a stranger among them in Germany in the 1070s.
Hér getið þið svo lesið grein Norths ef þið viljið fræðast.
Greinin ber titilinn Resident stranger: Sæmundr in the Ashkenaz. Í stuttu máli telur Richard North prófessor við University College í London sig leiða góð rök að því að Sæmundur hafi ekki verið í neinum venjulegum klausturskóla. Hann telur líklegra að hann hafi verið á gyðinglegu fræðasetri í borg við fljótið Rín, þar sem það rennur gegnum Þýskaland í dag. Skólar við samkunduhús gyðinga voru kallaðar jeshivur (yeshiva þýðir seta á íslensku; staður það sem maður situr við lærdóm). North telur, út frá því fáa sem við vitum um Sæmund úr síðari heimildum en löngu týnd rit hans, aðeins til tvö atriði sem gæti bent til þess að Sæmundur hafi verið nemandi gyðings sem var meistari við gyðinglegan skóla. Annars vegar er það fjöldi beina í líkamanum, sem kemur fram í heimildum sem vitna í rit Sæmundar sem ekki eru til. Richard North ályktar að þar sem fjöldi beina mannslíkamanas í þessum íslensku heimildum kemst næst fjölda beina í trúarritum gyðinga, að þá sé líklegt að hann hafi lært í gyðinglegu umhverfi. Reyndar bendir hann á að sami fjöldi beina sem menn hafa eftir Sæmundi sé einnig þekktur úr síðari tíma heimildum sem vel gætu hafa verið þekktar á Íslandi.
Hitt atriðið sem Richard North telur benda til þess að Sæmundur hafi stúderað á meðal gyðinga, er frásögnin í Jóns sögu Hólabyskups ens helga um að Sæmundur hafi eftir ca. 10 ára dvöl sína erlendis fyrir 1078-79 misst niður móðurmálið og ekki lengur munað hvað skírnarnafn sitt, íslenskt, var. Sæmundur sagði Jóni Ögmundssyni (síðar Jóni biskup helgi) er Jón heimsótti Sæmund, að hann héti Kollur.
Í lok greinar Richard North, sem ráðfært hefur sig við sérfræðinga í gyðinglegum fræðum, sem er alltént betra en að að nota aðeins argumenta e silentio sem margir Íslendingar eru reyndar heimsmeistarar í, veltir hann út þeirri tilgátu að Kollur sé íslensk "afmyndun" á hebreska orðinu kol (sem þýðir allt). North telur ungan mann, sem að sögn hafði misst niður móðurmál sitt, hafi verið kallaður "kol" af skólafélögum og sínum og lærimeistara sínum; og að hann hafi kallað sig Koll (kollur í nefnifalli) er Jón Ögmundsson spurði hann til nafns. Jú, þetta gerist oft þegar höfundur eru orðnir bálskotnir í tilgátu sinni. Af hverju? North skýrir:
Could Kollr, Sæmundrs new name which is open to so many interpretations, be derived from Hebrew kol [all], for the student of the bible who wanted to know everything? The rest is universal history.
Með lærdómi sínum um stjörnur og galdra braut Sæmundur samning sinn við meistara sinn (sem því miður er ekki nefndur á nafn), og þeir Jón komust til Íslands.
Ekki er hér ætlunin að afskrifa tilgátu Richards North, þó hún færi okkur vart meira en fyrri tilgátur um Sæmund Fróða. Þó kol á hebresku þýði allt, er kol ekki þekkt sem gælunafn fyrir fólk sem var sólgið í fræði og grúsk. Lexikonheilar og grúskarar af guðs náð eru ekki "kol" eða "kollar" þótt kunningjar Richards North við Kings College í Lundúnum teljir að kollur hljómi eins og kol (allt) á hebresku. En maður sem misst hafði móðurmálið hefur vafalaust átt erfitt með því að ræða við Jón Ögmundsson og útskýra fyrir honum nýtt nafn sitt, nema að hann hafi gert það á latínu. En þá má með réttu spyrja: Var latína kennd í mörgum skólum gyðinga? Að illri nauðsyn hafa vel menntaðir gyðingar örugglega lært, eða réttara sagt þurft að lesa latínu. Latínu þurftu gyðingar sem aðrir að kunna til að standa í samskiptum við lærða sem leika, og þar sem afskipti yfirvalda voru alltaf mikil af gyðingum, hljóta þeir að hafa móttekið feiknin öll af opinberum bréfum á latínu, þegar þeim voru veitt leyfi til dvalar eða þegar þeir voru hraktir á braut eftir duttlungum latínulærðra.
Athugasemdir og viðbætur
Hér leyfi ég mér að benda Richard North, höfundi greinarinnar sem vitnar í mig í fyrstu tilvitnum, á frekari vísdóm. Vona ég að hann deili þessum fróðleiksmolum með prófessor Sacha Stern og júdaistanum Israel Stern á University College, sem og handritafræðingnum Stewart Brookes á Kings College, sem hjálpuðu honum með gyðinglegar skýringar í hluta greinarinnar.
Orðið kol á hebresku (sem = allt á íslensku) er ekki það eina sem hægt er að tengja Kollsnafni Sæmundar.
I) KOLONYMOS: Margar kynslóðir rabbína sem störfuðu í borgunum Mainz (sem í íslenskum heimildum var kölluð Meginsoborg (Lat. Mogontiagum), Worms og síðar Speyer (í Speyer var reyndar ekki komin nein sýnagóga meðan að Sæmundur var þar hugsanlega við nám) báru hið gríska nafn Kolonymos (sem á íslensku þýðir hið sanna nafn - og sem er grísk þýðing á shem tov á hebresku). Ætt þessi með hið hellenska nafn kom að því að best er vitað frá Lucca á Ítalíu og sumir upphaflega frá því svæði sem nú heitir Gaza. Löngum voru nemendur (sem kallaðir voru bochurs/Buchers á jiddísku sem þróaðist á þessum slóðum í Þýskalandi) við trúarlega skóla gyðinga, jeshivur (Flt. Heb.: Jeshivot) kenndir við lærimeistara sína eða ættir þeirra sem stofnuðu skóla þeirra sem oft báru nöfn ættarinnar. Hallast maður frekar að bæjum við Rín frekar en kaþólskum strangtrúarskóla í Fulda er nafn Sæmundar í náminu er rætt. Kollur, gæti alveg eins verið leitt af fyrst liðnum í nafni Kolonymos ættarinnar (sem einnig má bera fram sem kal) og verið bein vísun til að Kollur gengi á jeshivu einhvers Kolonymos/Kolonomus prestanna. Þetta er vitaskuld bara tilgáta mín, en engu fráleitari en að kol í Kollur sé það sama og allt á hebresku.
Afsteypa af skreyti sem talið er hafa verið í húsi Kolonymos ættarinnar í Mainz.
II) KOLLEL: Hugsanlega hefur fullveðja maður, sem Sæmundur var líklegast orðinn, þegar hann hverfur frá námi og skilgreinir sig sem Koll er Jón Ögmundsson vitjar hans, vart lengur ver ungnemandi á jeshivu. Þá hefur hann verið orðinn hluti af Kollel (ísl: samkunda) sem var jeshiva fyrir fullorðna fræðaþuli eða kvænta menn. Þar lærðu (lernuðu svo notuð sé ís-jíddíska) menn dagana langa og unnu lítt annað þar fyrir utan. Þeir voru í fullu fræðastarfi. Ég veit sannast sagna ekki, hvort Kollel voru til á tímum Sæmundar en tel það þó líklegt. Koller er þekkt eftirnafn meðal gyðinga og er vart dregið af Kohler, kolanámu eða kolagerðamanninum á þýsku, heldur af Kollel á hebresku. Koller var maður sem stundaði trúfræði á háu stigi á Kollel. Kannski leysir þetta kollgátuna?
III STJÖRNUSPEKI: Annað sem Richard North láist að minnast á í rannsókn sinni á því hrafli sem þrátt fyrir allt er til um Sæmund í síðari heimildum og þjóðsögum, er þekking Sæmundar á stjörnum og stjörnufræði.
Orðið fyrir himinngeyminn á hebresku er Chalal sem hljómar óneitanlega einnig eins og Kollel
Stjörnufræði voru stunduð af sefardískum rabbínum (frá Spáni og Norður-Afríku) sem farnir voru að kenna á fræðasetrum í Vestur-Ashkenaz þess tíma sem Sæmundur var uppi á, þ.e.a.s. í Þýskalandi og austasta hluta Nútíma-Frakklands, t.d. í Strasbourg, þar sem gyðingleg búseta mun hafa hafist um 1000. Astrolabium (pl. Astrolabia; Isl. Stjörnudiskar/Stjörnuskífur), sem margir gyðingar í Spáni og í Portúgal voru meistarar í að smíða, bárust til Frakklands og Rínardals og elstu byggða gyðinga þar. Kennsla í stjörnufræði var hins vegar harla ólíkleg austur í Fuldu þar sem séra Edward Booth vildi staðsetja Sæmund í náminu. Heimildir frá Fuldu geyma hins vegar ekkert bitastætt um kennslu í stjörnuspeki.
Hér sjáið þið síðu úr saltara Blönku eða Mjallar (Sp. Blanca) af Castilíu og Loðvíks IX. Handritið er frá því um 1220. Á lýsingunni í saltaranum má sjá fjölfræðinginn Abraham ben Ezra (1092-1167), útbúa samning með hjálp stjörnuskífu (Astrolabium) við tvo munka sem hafa rakað koll sinn (krúnu, Lat. Tonsura) meðan gyðingurinn ben Ezra ber kollhúfu. Abraham Ben Ezra var flæmdur frá Spáni árið 1140 og lifði alla ævi flökkulífi í Norður-Afríku, Palestínu, Sýrlandi, Ítalíu og á Englandi. Frá Englandi fór hann til Rúðuborgar í Normandí, áður en en hann settist að í ellinni í Suður-Frakklandi. Meðal margra rita hans um hin ólíklegustu málefni var handrit sem síðar hefur verið nefnt Keli ha-Nechoshet (bókstaflega á ísl: ritgerð um koparinn) og gerð stjörnuskífunnar. Ritið var snemma þýtt yfir á latínu. Ekki er ólíklegt að menn sem lærðu á stjörnur í skóla líkt og Sæmundur mun hafa gert samkvæmt varðveittum upplýsingum, hafi lært á stað þar sem kennd var notkun stjörnuskífunnar. Það gerðist helst hjá gyðingum búsettum við Rín og miklu frekar þar en hjá þeim sem bjuggu norðan og austan við Rín eða austar í Evrópu. Þeir síðastnefndu voru fyrst og fremst uppteknir af trúarlegum vangaveltum, en síður af stjörnuspeki.
Mikveh i Worms (efst) og neðst í Speyer
Lokaorð
Með þessum viðbótum mínum finnst mér grein Richards North um Sæmund í Ashkenaz ekkert vitlausari en svo margt annað sem ritað hefur verið um Sæmund Fróða. Það er að minnsta kosti gaman að greininni og hver veit, kannski var Sæmi Kolur ungur fræðimaður (koller) á kollel (háskóla) í Mainz? Það er svo gaman að láta sig dreyma. En varast ber að trúa því öllu.
Við endum í gamansömum tón, því fyrrnefndur fróðleikur er allt fúlasta alvara; Nú býst maður við því að Steinunn Kristjánsdóttir eða einhver annar fornleifafræðingur sem grefur prufuholur út um allt, fari næsta sumar að Odda og finni þar algjörlega óáfallið astrolabium, tefillin Sæmundar og jafnvel bút af lögmálsrúllu hans.
Líklegt má einnig teljast, að hellirinn sem byrjað var að rannsaka í Odda árið 2018 geymi mikveh (trúarlegt bað, laug) Sæmundar. Sæmundur hefur ekki lagt í að grafa sig lengra niður að grunnvatni eins og menn gerðu við böðin (hreinsunarlaugarnar) í Speyer, Worms, Köln og Friedberg (frá 13. öld; Friedberg liggur norðaustur af Frankfurt am Main). Um böðin skrifaði ég m.a. um í ritgerð um guðshús gyðinga á miðöldum (1986) sem var síðasta ritgerðin mín sem ég skrifaði um leið og ég vann með kandídatsritgerðina. En á þeim tíma datt manni sannast sagna ekki í hug að velta fyrir sér Sæmundi Fróða á vesturbakka Rínar. En eitt sinn fór hann yfir Rín og alla leið aftur heim til sín.
Marx Brider: Oy vey, Koller der shlemyel iz antlafn.
Vau?
Tsu Iseland, aoyf di tsurik fun a groys treife fish.
Ritdómur | Breytt 5.9.2021 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fundur ársins 2020 í Svíþjóð
17.12.2020 | 06:53
Í gær, er verið var að grafa fyrir klóakleiðslum í Ystad í Svíþjóð, fundu fornleifafræðingar sem þar fylgdust með framkvæmdum af gefnu tilefni, fornan stein með ristu af dýri. Fljótlega varð mönnum ljóst að þarna var kominn einn svo kallaðra Hunnestadssteina sem eru frá byrjun 11. aldar. Við þekkjum þá, þar sem þeir voru teiknaðir harla nákvæmlega fyrir verk Ole Worms, Monumenta Danica, sem prentað var árið 1643.
Fornleifafræðingarnir sem í gær voru á vaktinni í Ystad voru nú ekki betur að sér en svo að þeir telja sig hafa fundið mynd af úlfi, og er Fenrisúlfur nefndur í fréttaflutningi hér í morgunsárið. Myndin sýnir greinilega hjört sem færður hefur verið í stílinn. Þetta er greinilega kristið tákn, enda aðrir steinar í Hunnestad með kristnum táknum.
Hvernig má vera að steinar sem stóðu enn um miðja 17. öld týndust og eru að finnast aftur nú nærri fjórum öldum síðar. Á 18. öld þótti mönnum þetta forna og heiðna ekki eins merkilegt og Óla Worm í Kaupmannahöfn, sem taldi nokkra Íslendinga til góðra vina. Steinarnir voru notaðir í brúarsmíði og sem betur fer hafa þeir verið settir svo til heilir í brúna. Þrír steinanna fundust aftur á 19. öld og eru þeir til sýnis í forngripasafninu gamla, Kulturen, i Lundi.
Þessi forna danska arfleifð í núverandi Svíþjóð er einstakur fundur og eru steinarnir frá Hunnestad syðst í Svíþjóð sambærilegir við Jalangurssteinana (svo notuðu sé Eldjárnska), þó þeir segi kannski ekki eins mikla sögu og stærsti steinninn í Jelling.
Á koparristu í einu af meginverkum prófessors Ole Wors við Hafnarháskóla, Monumenta Danica í sex bindum, sér maður að það er vafalítið steinn sem hann tölusetti með 6, sem nú, 16.12.2020 er fundinn í klóakskurði í Ystad.
Ef ekki herjaði COVID-19 faraldurinn, væri þessi fornleifafræðingur líklega að hella upp á brúsann og smyrja sér samloku tilbúinn að leggja í hann til Svíþjóðar að skoða steininn í klóakrennunni í ferjubænum Ystad.
Steinninn góði sameinast vafalaust frændum sínum á Kulturen i Lundi og þangað mun ég fara þegar Svíar eru búnir að ná einhverjum tökum á austrænu græðgispestinni.
Svo er aldrei að vita; Kannski eru rúnir á steininum sem ekki voru skjalfestar árið 1643 af Worm og aðstoðarmanni hans.
Eins og lesendur Fornleifs vita, átti læknirinn og prófessorinn Worm marga íslenska vini og nemendur, sem hann hélt alla tíð góðu sambandi við, sjá hér og hér og í fleiri greinum sem þið finnið við leit.
Steinninn grafinn betur fram en á efstu myndinni. Mynd Axel Krogh Hansen fornleifafræðingur, Arkeologerna.
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Thor did not use a dysfunctional hammer
13.12.2020 | 14:52
I saw it coming: Me teaching the Norwegians some fundamental facts about the difference between a hammer and a cross.
In 1992 I wrote about the Icelandic artifacts for the catalogues of the Viking exhibitions in Paris, Berlin and Copenhagen in 1992 to 1993. The English version was entitled From Vikings to Crusaders. Among the artefacts from Iceland that I wrote about was as silver cross-shaped pendant from Foss in Iceland (see illustration at top of the article).
The Huse-cross
To my best of knowledge, I was the first archaeologist to point out the obvious relationship between the cross from Foss (Hrunamannaafréttur, S-Iceland; Þjms 6077) and a silver cross from Huse (Romedal, Hedmark/Innlandet fylke, Norway, C13216) Recently I became aware of a new find of a similar cross found at Nes in Ringsaker Kommune i Hedmark by a Danish metal detectorist, Ole Harpøth, (see article in Danish here) .
The Nes cross found by Ole Harpøth
Soon after the Kulturhistorisk Museum of the The University of Oslo informed me about still another cross found by a detectorist at Ven i Stange Kommune (C59393) of the same type as Mr. Harpøth´s metal-detector find and the cross from Huse.
The Ven-cross
Shortly thereafter learned that the Norwegian press has taken an interest in the hammer found by Ole Harpøth. But why calls something a hammer, when it looks like a cross?
I refuse to believe this growing group of now 4 cross-shaped artefacts are symbols for the Hammer of Thor. This is an obvious cross, with a cross-shaped opening in the middle (a diamond-shaped on the cross from Ven).
A hammer, where the handle protrudes over the socked hole (the eye) on top of the head of the hammer cannot be wedged (fixed). Such a cross-shaped hammer would plane and simple be dangerous to use. Every carpenter or smith knows that as a fact.
A Norse pre-Christian god like Thor (Þór), best for his deeds from 13th century records, would certainly not have flown around in his goat-cart battering giants with a dysfunctional cross-shaped hammer, even if Þór was gay like genderism has recently revealed. An expert hammer-hitter, gay, bisexual or straight, doesn´t use a hammer like that.
In any case other verified Thor´s hammer pendants (Þórshamrar), which in the medieval Icelandic literature was called Mjölnir, have no similarities with the three cross-pendants found in Norway and the cross from Foss. However, the confusion is great and the assumption that hammer pendants found in Scandinavia symbolize Mjölnir has been a subject to great scholarly dispute. Some scholars did not fancy the idea that the hammer-shaped pendants symbolized the Hammer of Thor. However, in 2014 after the discovery of the the runic-Thor´s Hammer found in Købelev on the Danish island of Lolland, there can hardly be more non-believers. It is so far the only pendant hammer-pendant bearing an inscription, which reads hmar x es = This is a hammer. Danish archaeologist Peter Pentz, of the National Museum in Copenhagen, in his well-known witty style, commented:
»Now we have it in writing, that what we believed were hammers in fact are hammers«.
Right on Peter!
Mjölnir from Købelev is a HAMMER.
Unfortunately non of the four cross pendants of the Foss/Innlandets fylkeskommune type (from Foss / Huse, Ven and Nes) have a runic inscription which states they are crosses. But come-on! A cross shaped object with a cross-shaped opening through the crossing of the arms. Can it be less clear? Not even the carpenter´s son, Jesus, most often connected to a cross, would hardly have approved of a tool like the alleged cross shaped hammers of 19th Century Norwegian art-historians. Dear Norwegians you cannot turn a cross into a hammer like you made Leifur Eiríksson (Leif the lucky Ericson) and Snorri Sturluson into Norwegians. Or like the Danes put it so nicely: Lad os lige slå det fast én gang for alle, with a proper hammer.
The crucifix of Saint Peter from Rauðnefsstaðir.The Crucifix was found by Icelandic poet and natural scientist, Jónas Hallgrímsson, in 1843. He donated it to the National Museum in Copenhagen, which turned it back to Iceland in 1930.
The archaeologists at the Cultural Section of Innlannet Fylke municipality (Kulturarvseksjonen ved Innlandet fylkeskommune) have as a preliminary assumption/suggestion pointed out that a simple lead cross pendant, found at Rauðnefsstaðir in Rangárvallarsýsla, S-Iceland, is of the same type as the Foss/Innlandet cross-pendant type. This is incorrect. The crucifis (not a cross) from Rauðnefsstaðir (wich by the way translates Rednose Farmstead) is a small, flat cross cast of lead and doesn´t have a cross-opening through the centre of the cross. Similar crosses have been found in Britain. However the crucifix-pendant from Rauðnefsstaðir is cast showing a man hanging upside down, which allegedly was the horrible fate of Saint Peter when he was crucified in Rome. It is a Saint Peter´s Crucifix. Quite possibly the four crosses of the Foss/Innlandet type can also be a St. Peter´s Cross (in theory). They might possibly have been some kind of a Saint Peter´s Key, in fact the Keys to Heaven, in an early Scandinavian version.
Vilhjálmur Örn Vilhjalmsson Ph.D. is the author of all but one article on the blog Fornleifur.
Bloggar | Breytt 14.12.2020 kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
The Chewish People
11.12.2020 | 19:10
SHALOM!
It´s a well known fact that the Israelis are the second most gum-chewing people in the world. The first time I was in Israel, I noticed this immediately. Everybody was chewing gum. Even some of de merst frummers vun de frum were chewing gum during their prayers at the Kotel (the Western Wall).
Probably many Israelis grew up with this gum (produced by Tamar in Tel Aviv) and trading the country cards in the packets. Some of them might possibly remember card #17 for Iceland (Island) from the late 1950s and how to say Shalom, Chever, Leitraot and Todah (Hi, Friend, Goodbye and Thanks)in Icelandic. The transcription of the Icelandic sound is as follows for those who know Icelandic, but remember to add a heavy and sexy Ivrit accent for the correct "erlie" 60s feeling:
Komit thér sælir (Komið Þér sælir)
Vínúr (Vinur)
Verit thér sælir (Verið Þér sælir)
Taq fýrír (takk fyrir)
Just as important: Remember to roll on the R in the back your mouth to make it very different to the frontal spitting Viking-R in Icelandic. And that´s what you get when you bring two very beautiful languages together.
Not to forget, chewing gum in Icelandic is called tyggjó or tyggigúmmí and in Jiddish it is keyen gam. Chew on that one.
Happy Hanukkah to all my friends.
Fornleifur, the proud owner of card #17
Komdu sæll, Vilhjálmur Örn, og gleðilegt sumar. Raunar sagði ég upp vinnu minni á Stöð 2 á sínum tíma vegna þess að þáverandi fréttastjóri [innskot Fornleifs: þetta var Ingvi Hrafn Jónsson] vildi að ég steinhætti öllum fréttaflutningi um Mikson-málið. Hann hafði áður látið klippa úr fréttum sem ég sendi að utan og ´kælt´ aðrar ofan í skúffu þar til aðrir fjölmiðlar hér á landi urðu á undan að flytja þær. - Það var forvitnilegt að sjá ljósmynd af Ruth litlu. Ég gleymi ekki þegar ég skoðaði frumgögnin um handtöku hennar og yfirheyrslu í þjóðskjalasafninu í Tallinn og barnslega undirskrift hennar á skjölunum sem áttu að gefa glæpsamlegu athæfi einhvers konar lögformlegan blæ. Hún var auðvitað drepin. Mig minnir að hún hafi verið 14 ára.
Þór Jónsson (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 21:26