Færsluflokkur: Málverk

Nú er það svart maður

african-presence-02.jpg

Málverk frá miðöldum, endurreisnartímanum og verk hollenskra gullaldarmeistara sem sýna þeldökkt fólk hafa alltaf heillað mig gífurlega mikið.  Ég hef einnig skrifað örsögu negra á Íslandi (sjá hér, hér og hér), sem fór í fínu taugarnar á forpokuðum Íslendingum sem telja það ljótt að skrifa svartur og negri, en notar sjálft pempíuleg orð eins og þeldökkur yfir þann hluta mannkyns sem Íslendingar hafa löngum kallað ýmist blámenn, svarta, svertingja eða negra.

2012-2014 var haldin merkileg sýning í Walters listasafninu í Baltimore, þar sem sýnd var list, þar sem svartir menn koma við sögu. Sýningin bar heitið Revealing the African Presence in Renaissance Europe.

Sérfræðingarnir í Baltimore vissu af lítt þekktu málverki á listasafni milljónamærings í Portúgal (Museu Berado/sem mestmegnis er nýlistasafn) sem þeir fengu lánað til sýningarinnar. Mikið hefur verið síðan rætt og talað um þetta málverk. Málverkið, sem talið er vera eftir hollenskan málara, er málað á árunum 1570-80 og sýnir götulíf við Chafariz d´el Rey (við Konungsbrunn) í Alfama hverfinu í Lissabon. Myndina fyrir ofan er hægt að stækka.

Alfama, eða réttara sagt Alhama-hverfið, var lengi fjölþjóðadeigla og nafnið sjálft er t.d. arabískt. Á 16. öld bjuggu í hverfinu margir gyðingar. Í dag er þarna allt öðruvísi umhorfs en á 16. öld, því hverfið eyðilagðist mjög í jarðskjálftanum mikla í Lissabon árið 1755.

blacks_and_jews_16th.jpg

Lögregla Lissabongyðinga (með rauða hatta) handsama þræl sem hlaupið hefur á brott

african-presence-02b.jpg
Svartur þræll dansar við hvíta þjónustupíu, meðan svartur vörður ríður hjá.

Málverkið sýnir vissulega marga negra, sem flestir voru væntanlega húsþrælar og þjónar. Það sem listfræðingarnir í Baltimore gerðu sér hins vegar ekki grein fyrir, en sérfræðingur einn í sögu gyðinga benti á, var að annar minnihlutahópur var einnig ríkulega til staðar á myndinni, þ.e. gyðingarnir, sem voru oft vel stæðir kaupmenn (sem tóku beint og óbeint þátt í þrælaversluninni). Síðustu gyðingarnir, sem ekki beygðu sig á bálkesti Rannsóknarréttarins, voru flestir flæmdir frá Portúgal nokkrum áratugum síðar en þetta málverk var málað. Þeir flýðu til Niðurlanda, Ítalíu, Grikklands og víðar og er margt gott fólk komið af þeim sem og og negrunum.

Myndin sýnir fjörugan dag við brunninn, þar sem þjónar og þrælar, vatnsberar, sækja sér vatn. Það er líf og fjör  í tuskunum. Fólk dansar og daðrar meðan yfirvaldið, og þar með talið gyðingalögreglan sækir þræla sem ekki var treystandi eða höfðu farið á fyllerí. Meira að segja má sjá svartan lögreglumann ríðandi svörtum hesti, líklega á vegum kirkjunnar eða einhvers greifa. Skoðið og látið heillast.

Svona málverk er einfaldlega á við ferð aftur í tímann.

african-presence-02c.jpg

Ljóst er að Dom Aharon de Castro y Costa ætlaði sér ekki kristinn mann fyrir Leu sína, sama hvað það kosta þyrfti. Aharon mundar byssu sína. Stækkið til að sjá dramaið.

Fornleifur mælir með: Áhugaverðu bloggi Dr. Miröndu Kaufmanns sagnfræðings.

Fyrri færsla Fornleifs um negralistfræði: Negrinn á fjölinni

 

african-presence-02d.jpg
Hvað þessi þeldökki maður gerði til að verðskulda svona meðferð ætla ég mér ekki að velta mikið fyrir mér, en hann hefur kannski orðið dálítið "fresh" við brunninn.

Hvalasaga - 2. hluti

abraham_storck_-_walvisvangst.jpg

Ýmis konar heimildir um hvalveiðar fyrri alda á Norðurslóðum eru til. Nú fleygir fornleifafræðinni fram og fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið á Spitsbergen, Íslandi og Nýfundnalandi veita okkur haf af upplýsingum sem ekki voru áður þekktar. 

Á okkar tímum má finna öfgafyllstu hvalavinina á meðal Hollendinga. Um tíma hélt ég að annar hver Hollendingur væri annað hvort öfgafullur ESB sinni eða haldinn enn öfgafyllri hvalaþrá. Fyrr á öldum voru Hollendingar aftur á móti ein stórtækasta hvalveiðiþjóð í heiminum. Þess vegna er til margar heimildir um iðnvæddar hvalveiðar Hollendinga, og sumar ritheimildir um það efni eru enn órannsakaðar. Hugsanlega kann eitt og annað að finnast þar um hvalveiðar við Íslands. Við Íslendingar höfum varðveitt annála frá 17. öld sem upplýsa um upphaf þessara mikilvægu veiða við Ísland, en nú bæta frábærar fornleifarannsóknir í eyðurnar.  Enn hafa ekki fundist leifar eftir hvalveiðiútgerðir Baska við Íslandsstrendur, en það er aðeins tímaspursmál, hvenær slíkar minjar finnast.

Hvalveiðar og lýsi í list 

Eitt skemmtilegasta heimildasafn um hvalveiðar á 17. og 18. öld er að finna í alls kyns myndefni, sér í lagi frá Hollandi, hvort sem það eru málverk, prentverk, teikningar eða annað. Áhugi Hollendinga á hval var gríðarlegur, eins og öllu sem þeir sáu arð í á gullöld sinni á tíma hollenska lýðveldisins. 

Myndirnar sýndu mikilvægan iðnað, sem gaf af sér mikilvæga vörur, t.d. hvalalýsið, sem notað var til götulýsinga og vinnslu á brennisteini til púðurgerðar. Dýrasta lýsið var hins vegar höfuðlýsi, einnig kallaður hvalsauki. Það var unnið úr fitu úr höfði búrhvala og annarra hvala. Hvalsaukinn varð fljótandi við 37°C en storknaði við 29 °. Talið er að þessi olía stýri flothæfni hvala.  Fyrrum óðu menn í villu um eðli olíunnar og töldu hana vera sæði, þar sem hún þótti minna á sæði karla og var kalla spermaceti (dregir af sperma og ceti, sem er latneskt orð fyrir hvali). Úr stórum búrhval gátu menn fengið um 3-5 tonn af þessari merku olíu, sem var notuð í snyrtivörur smyrsl, kerti og margt annað.

Ríkir útgerðamenn í hollenskum bæjum þar sem hvalaútgerðin hafði heimahöfn létu útbúa fyrir sig skápa með myndum af hvalveiðum. Húsgaflar hvalveiðiskipstjóra voru skreyttir með lagmyndum af hvalveiðum og ýmsir smærri gripir voru skreyttir með myndum af hvalveiðum. Hvalskíði voru notuð í alls kyns vöru, t.d. regnhlífar, en einnig í ramma utan um myndir, í öskjur og mismunandi heimilisiðnað.
a0860b66c3e6adb72300c76295b330d8266ec1d9.jpg
Lágmynd af húsgafli sem varðveitt er á Fries Scheepvaart Museum.
 

Skoði maður málverk og myndir af hvalveiðum Hollendinga á 17. öld, er oft hægt að finna hafsjó af upplýsingum, þó svo að myndirnar hafi ekki verið málaðar af mönnum sem sjálfir ferðuðust til Spitsbergen, Jan Mayen, Grænlands og Íslands. Áður hef ég greint frá málverki Cornelis de Man af Smeerenburg (sem yfir á íslensku er hægt að þýða Spikbær) á Spitsbergen (sjá enn fremur hér). Þar er mikið um að vera og stórir brennsluofnar í notkun. Leifar af ofnum í líkingu við þá sem sjást á málverkinu hafa ekki verið rannsakaðir á Spitsbergen, og hafa ekki fundist. Prentmyndir (ristur) annarra listamanna myndir sýna ef til vill raunsærri mynd af vinnu við hvalinn í landi og ofna sem líkjast meira þeim sem rannsakaðir hafa verið, t.d. á Strákatanga og á Spitsbergen. Þeir eru af sömu stærð (sjá fyrri færslu). Listamaðurinn de Man hefur líklega sett spikofna eins og hann þekkti þá frá Hollandi inn á mynd sína, eins og svo margt annað.

lysisbrae_sla.jpg
Myndin er af korti Thomas Edge af Spitsbergen, sem hann kallar Grænland fyrir misskilning, sem kom út í bókinni Purchas His Pilgrimes/Hakluytus Posthumus eftir Samuel Purcahs (London 1625. Sjá kortið hér.
 
walvisvangst_bij_de_kust_van_spitsbergen_-_dutch_whalers_near_spitsbergen_abraham_storck_1690_detail.jpg

Málverk eftir Abraham Storck. á Rijksmuseum het Zuiderzeemuseum, Enkhuizen. Klikkið nokkrum sinnum með músinni á myndina til að sjá smáatriðin.

Tvö málverk Abrahams Storcks (1644-1708) sýna úrval að því sem gerist við hvalveiðar og hvalavinnslu á norðurslóðum. Þó að allt sem á myndunum sjáist sé ekki nákvæmt, eru þær frábær heimild, jafnvel þó svo að listamaðurinn hafi aldrei sett færu á Spitsbergen. Hann hafði heimildarmenn, og notaðist við teikningar annarra listamanna og safaríkar frásögur hvalveiðimanna sjálfra. 

abraham_storck_-_walvisvangst_detail.jpg
Skoðið þennan hluta málverksins efst, og klikkið á myndina til að skoða smáatrið.  Er þetta er miklu skemmtilegra en sjóræningjamynd? Málverkið tilheyrir Rijksmuseum í Amsterdam.

 

Föt hvalveiðimanna

Gaman er bera saman hinar mismunandi heimildir um hvalveiðar á 17. öld. Skoðar maður til dæmis vel föt og flíkur hvalveiðimanna á málverkum hollenskrar gullaldar, er ævintýri líkast að sjá þau föt sem fundust við fornleifarannsóknir á gröfum hvalveiðimanna á Smeerenburg. Stækkar maður brotið úr mynd Abrahams Storcks hér fyrir ofan mætti halda að þarna væru þeir komnir sem létust við störf sín þegar þeir dvöldu á Spitsbergen. 

dutch_pants_spitsbergen_2.jpg
 
img_0004.jpg
Húfur hvalveiðimanna á Spitsbergen frá 17. og fyrri hluta 18. aldar.

 

Tengd efni:

Hvalasaga - 1. hluti

Hvít Jól

Kaptajn, Købmand og Helligmand

Allen die willen naar Island gaan


Þingsályktunartillaga fyrir þá sem veggfóðra með Kjarval?

louvre.jpg

Nýverið var sett fram þingsályktunartillaga http://www.althingi.is/altext/143/s/0499.html sem er ætlað að stefna stigu við málverkafölsunum.

Gott og vel. Ég þurfti ekki að lesa tillöguna lengi til að sjá, að hún ber fyrst og fremst hag þeirra fyrir brjósti sem hafa látið snuða sig með því að kaupa fölsuð málverk.  Á annarri blaðsíðu tillögunnar kemur þessi setning eins og skrattinn úr sauðaleggnum, en hún skýrir nú margt:

"Nokkrir einstaklingar urðu og fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna kaupa á fölsuðum myndverkum. Þessari þingsályktunartillögu er stefnt gegn slíkum svikum og því leggja flutningsmenn áherslu á að embætti sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, taki þátt í þeirri vinnu sem tillagan mælir fyrir um."

Einn af þeim sem ber fram tillöguna er Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir og fjármálasérfræðingur. Það leitar vissulega að manni sú spurning, hvort Vilhjálmur hafi talist til þeirra mörgu vel stæðu Íslendinga sem ekkert vit höfðu á list, en sem  keyptu hana í metravís í góðærinu til að betrekkja stofuveggina hjá sér.  Ég læt spurningunni ósvarað, því mér finnst tillagan öll full af ósvöruðum spurningum.

Eins finnast mér kjánar, sem í einhverjum snobbeffekt keyptu allt sem þá langaði í, án þess að hafa nokkurt vit á því sem þeir keyptu, sjálfir bera ábyrgð á slíkum mistökum. Slíkir einstaklingar eru ekki listasöfn. Aðalatriðið er að listasöfn landsins séu ekki að sýna falsaðan menningararf, alveg sama hvað hann er gamall.  

Þessu er t.d. haldið fram í þingsályktunartillögunni:

" Ótvírætt virðist að á 10. áratug síðustu aldar hafi talsverður fjöldi falsaðra myndverka verið í umferð á Íslandi og gengið þar kaupum og sölum. Hefur verið sett fram sú tilgáta af fagmanni, sem þekkir vel til íslenskrar myndlistar og myndlistarmarkaðarins hér, að allt að 900 fölsuð myndverk (málverk og teikningar) muni hafa verið á sveimi hérlendis á þessum tíma."

Ég tel víst að fagmaðurinn sem nefndur er hér sé Ólafur Ingi Jónsson forvörður (sjá hér og hér). Þó svo að ég trúi því fastlega að fölsuð málverk hafi verið í umferð og sannanir séu fyrir því, þá hef ég því miður enn ekki séð neitt birt á riti eftir Ólaf, t.d. ítarlegar rannsóknir hans, sem rennt get stoðum undir þá skoðun hans að 900 fölsuð myndverk hafi verið á sveimi.

Mér þykir einfaldlega ekki nægilega undirbyggð hin fræðilega hlið þessarar þingsályktunartillögu, sem mest ber keim af því, að þeir sem keypt hafa svikna list vilji fá hið opinbera til að setja gæðastimpla á verkin. Að mínu mati á slíkt aðeins við um verk í opinberri eigu. Ríkisbubbarnir, sem jafnvel höfðu Kjarval á klósettinu heima hjá sér, verða sjálfir að bera ábyrgð á gerðum sínum og fjárfestingum.

00-intro.jpg

 

Hins vegar er það hlutverk lögregluyfirvalda og hugsanlega nefndar sérfræðinga að rannsaka mál sem koma upp um falsanir. Meira er ekki hægt að gera. Og svo mætti Ólafur forvörður birta rannsóknir sínar, svo fólk í kaupshugleiðingum geti hugsanlega varað sig, ef það hefur aðeins peningavit en enga þekkingu á list eða annarri menningu.

Lokaorð tillögunnar eru: "Hin mikla áhersla á þekktan og ósvikinn uppruna menningarminja er tiltölulega ný í sögunni en nýtur engu síður víðtækrar viðurkenningar sem ein af höfuðforsendum þess að slíkar minjar þyki tækar til varðveislu. Skal í því sambandi nefnt að Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, gerir það að ófrávíkjanlegri kröfu fyrir því að menningarminjar fái sæti á heimsminjaskrá að þær séu ófalsaðar og sömu kröfu gera lista- og minjasöfn á Vesturlöndum til safnkosts síns."

Þetta er greinilega skrifað af einhverjum, sem ekkert þekkir til heimsminja (ég hélt nú annars að Katrín Jakobsdóttir vissi meira í sinn haus). Heimsminjaskrá telja ekki einstök málverk eða einstaka gripi. Heimsminjar, menningarlegar eða náttúruminjar, eru heildir. Vissulega verða söfn að gera þá kröfu að safnkostur þeirra sé ófalsaður. En á Íslandi hefur það því miður ekki talist nauðsynlegt. Þrátt fyrir að fleiri rannsóknir og álit sérfræðinga sýni að það séu falsaðir gripir í silfursjóði í Þjóðminjasafni Íslands, heldur safnið áfram að sýna sjóðinn sem silfursjóð frá Víkingaöld, eins og ekkert hafi í skorist, jafnvel þrátt fyrir alvarleg vandamál í danskri skýrslu um sjóðinn og þrátt fyrir sérfræðiálit í nýlegri útgáfu með greinum frá Víkingaráðstefnunni sem haldin var á Íslandi sumarið 2011.

Í einni af bókum langalangafa míns sáluga, Iszëks, sem ég nefndi um daginn, fann ég þessa frábæru mynd frá Louvre frá miðri 18. öld sem er efst í þessari grein. Einu sinni var sumt af því sem þar fór fram ekki talið til falsanna. Þarna voru menn bara að kópíera. Síðar uppgötvuðu óprúttnir náungar að hægt var að plata peninga út úr þeim sem vildu eiga da Vinci, Gainsborough eða jafnvel Kjarval. Þetta er spurning um framboð og eftirspurn. Því fleiri vitleysingar, því betri sala.

Elsta málverkið af skreið

32690368761_5ef38085d8_o

Maðurinn sem hér heldur á skreiðinni er Jan Jeliszoon eða Jan Gilliszoon Valckenier, eins og hann kallaði sig einnig. Hansakaupmenn og Danir kölluðu hann Johann Valkner. Jan fæddist í bænum Kampen á Norður-Hollandi árið 1522. Með honum á málverkinu er fjölskylda hans lífs og liðin. Frúin hans föl hét María Tengnagel, en saman áttu þau 9 börn. Tveir drengir, sem dóu sem kornabörn, eru sýndir í hvítum kirtlum. Jan Valckenier andaðist árið 1592.

Afi Jans Valckeniers hafði verið fálkahaldari greifa nokkurs í héraðinu Brabant (sem er í suðurhluta konungsríkisins Hollands í dag) og af þeirri iðju fékk þessi fjölskylda nafn sitt. Út frá honum er komin mikil ætt kaupmanna og er hús ættarinnar enn til í Amsterdam.

Detalje
433px-Klov33
Hús Valckenier ættarinnar í Amsterdam, afkomenda Íslandskaupmannsins Jans Gillissonar. Húsið hét upphaflega Het Gulden Heck, þ.e. Gyllti Djöfullin.

Þessi fasmikli maður var mikill kaupahéðinn eins og margir Amsterdambúar. Það vissu danskir konungar á 16. og 17. öld mætavel. Danska krúnan átti í endalausu stríði við Svía og þurfti alltaf á fjármagni að halda. Jan lánaði Friðriki II peninga og kóngur þakkaði fyrir sig með því að gefa Jan réttinn til að versla með fisk í Bergen, svo og til að stunda verslun og kaupmennsku á Íslandi og í Færeyjum.

Verslun með Íslandsfisk færði erlendum kaupmönnum eins og Jan Gilliszoon mikið í aðra hönd. Skreið frá Íslandi, þó að hún hafi lengi verið verið talin lélegri en skreið frá Noregi, var arðsöm vara. Kveldúlfur Þórólfsson, faðir Skallagríms (og afi Egils ef einhver kannast við hann), mun samkvæmt Eglu hafa flutt skreið frá Hálogalandi til Englands. Þetta var aðalútflutningsvara Íslendinga í aldaraðir. Um miðja 16. öldina var verið að flytja skreið og votsaltaðan fisk frá Íslandi alla leið suður til Kanaríeyja og Madeira, og voru þar á ferðinni hollenskir kaupmenn, sem sóttu t.d. fiskinn á Snæfellsnesi og við Breiðafjörð.

Kaupmaðurinn Adriaen Pauwels í Rotterdam seldi t.d. árið 1657 20.000 pund af íslenskri skreið til Pedro Flaemuels kaupmanns í Teneriffa

Hvort þetta er léleg Íslandsskreið sem Jan Valckenier heldur á, eða einn af þessum þorskum sem hefur norsku að móðurmáli, er óvíst. Færeysk var skreiðin varla, því ekki þekktu færeyskir fræðingar og þýskur "sérfræðingur" Fornleifastofnunnar Íslands þennan handhafa verslunar á eyjunum þegar nýlega var rituð grein um verslun útlendra manna í Færeyjum (sjá hér). Skreiðin var að minnsta kosti boðleg forfeðrum ESBlinga í dag, og komust þeir mjög snemma á bragðið og berjast nú út af minnsta tittlingi sem í sjónum syndir. 

Bakgrunnurinn á málverkinu af Valckenier fjölskyldunni á að sýna Bergen (Björgvin), þar sem Valckenier bjó um tíma. Jan Valckenier heldur á skreið, einu eintaki af því sem Hollendingar kölluðu stokvis, og í hinni hendinni heldur hann á leyfisbréfi danska konungsins Friðriks II til að stunda verslun í Noregi, Færeyjum og á Íslandi.

Þetta mun, að því er ég best veit, vera elsta málverk sem til er af skreið. Smellið 2-3 sinnum með músinni á myndina til að stækka hana (gæðin eru því miður ekki góð). Málverkið tilheyrir Rijksmuseum í Amsterdam, en hefur lengi hangið að láni í sýningum borgaminjasafns Amsterdam. Hvort það er uppivið í augnablikinu veit ég ekki.

Enn sækjast útlendingar í íslenskan fisk. Þeir eru, eins og menn vita vel, ólmir í hann og héldu víst um tíma að þeir fengju hann framreiddan upp á silfurdisk af auðmjúkum, íslenskum krataþjónum í ESB. Nú eru þeir draumar brostnir og þeir eru með einhverja stæla. Ástandi er farið að minna dálítið á fyrri aldir, þar sem þeir börðust á banaspjót út af þeim gula.

Íslendingar framleiða nú og flytja út rúm 18 þúsund tonn af skreið á ári. Verðmætið á þeirri afurð árið 2012 nam um níu milljörðum íslenskra króna. Það munar um minna.

Norsk eða íslensk skreið?

Þótt íslendingar hafi fram eftir öldum verið að merja skreið með sleggjum eins og steinaldarmenn, þá kunnu menn suður í Evrópu að framreiða þennan herramannsmat. Skreiðin er klofin og hryggurinn fjarlægður. Fiskurinn er settur útvötnum í saltvatni í viku. Þar sýgur fiskurinn í sig vatnið og verður hvítur og fallegur. Ítalir kunna enn að elda skreið á annan hátt en Afríkumenn. Eitt sinn  fékk ég í Napoli skreið, sem sögð var norsk. Hún hafði verið lögð í vatnsbað, og var borin fram í tómatsósu soðinni á lauk, lárviðarlaufi og ólífum, sem og með bökuðum kartöflum. Það er með betri soðningu sem ég fengið. Það var sama hvaða hvítvín var borið fram með þeim rétti. Allt vín verður gott með slíkum herramannsmat.

Einu sinni þótti skreið góð vara, þótt Íslendingar hafi aldrei skilið það og hafi setið og barið skreiðina með steinsleggjum gegnum aldirnar. Nú er einungis stefnt að því að koma skreiðinni illa unninni til Nígeríu, þar sem hún er mauksoðin með banönum og öðru sem ég kann ekki að nefna.

Norðmenn kunna hins vegar að selja þessa góðu vöru og þannig og flokka Norðmenn sína bestu skreið:

Sorting categories - First Class Lofoten Cod

Ragno, 60 cm over

WM, Westre Magro 50/60 (thin Westre), 50-60 cm

WM, Westre Magro 60/80 (thin Westre), 60-80 cm

WDM, Westre Demi Magro 60/80 (semi-thin Westre), 60-80 cm

WDM, Westre Demi Magro 50/60 (semi-thin Westre), 50-60 cm

GP, Grand Premiere, 60-80 cm

WC, Westre Courant (ordinary Westre), 75-80 fish per 50 kg

WP, Westre Piccolo (small Westre), 100-120 fish per 50 kg

WA, Westre Ancona, 75-80 per 50 kg

HO, Hollender (ordinary Dutch), 58-60 fish per 50 kg

BR, Bremer, 50-55 fish per 50 kg

Lub, 40-45 fish per 50 kg

Á vefsíðu Norwegian Fishery Village Museum skrifa þeir: 

No other country can compete with this way of conserving good food. Many have tried, none have been too successful - like Iceland, for instance, who completed their final trial year in 1992.

http://www.lofoten-info.no/nfmuseum/history/stockfsh.htm

Ekki veit ég hvaða plokkara Norsarar eru að sletta á okkur þarna, en montið hafa Íslendingar greinileg fengið frá Noregi.

Við kunnum enn ekki að auglýsa góða vöru og fara vel með fisk. En hugsið ykkur þegar farið verður af framleiða "Grindavico Demi Courant, Sec du Sec, 80 cm", eða "Grand Amsterdammer de Rif", Premiere Stocca 60-90 cm", og því ekki " Langanes Septentrionale Grande Giallo di Islanda" og " Islandico Superiore", svo ekki sé talað um "Quota Maximo Bianca di duocente miglia dei Norte". Hægt væri að opna safn eins og Norðmenn hafa, "Museu dello Stoccafisso", og besta fiskinn ætti að kalla "Come gli 77 Pesce di Cristo" í stað "Lagos magos" sem nú er seldur.

Það er greinilega ekki verið að hugsa um gæðin á fiskinum sem sést á myndinni hér fyrir neðan.

Fiskur á bíl er verri en fiskur í kös
Illa er farið með skreið á Íslandi, enda er henni bara hent suður til Afríku

8. getraun Fornleifs

getraun 8

 

Nú verður aftur brugðið á leik og spurt um forna hluti og gulnaða.

Vissuð þið að getraunir setja í sumu fólki í gang sams konar ferli og hjá spilafíklum? Sel þetta ekki dýrara en ég keypti. Þess vegna er ég ekki með neinn vinning í þessari getraun, nema heiðurinn. Hann er ávallt sætur og eldist aldrei. Ég ætla ekki að leiða lesendur bloggsins út í neinar ógöngur.

Ykkur veikgeðja getraunafólki er hér með sýndur lítill bútur af málverki. Spurningarnar eru:

1) Á hverju heldur höndin á myndinni?

2) Hverjum tilheyrir höndin?

3) Á hvaða tíma var eigandi handarinnar uppi?


Sendiherrann

Sendiherrann

Þessi reffilegi músílmann hét Abd el-Ouahed ben Messaoud bin Mohammed Anoun og var sendiherra Marokkó við ensku hirðina árið 1600. Hann dvaldi aðeins sex mánuði á Englandi en hafði þó tíma til að sitja fyrir.

Eins og stendur á málverkinu var Abd el-Ouahed 42 ár þegar hann sat fyrir. Málverkið er varðveitt í safni háskólans í Birmingham. Það er málað á eikarborð og er verkið nokkuð stórt, 113 sm að lengd og 87,6 sm að breidd.

Abd el-Ouahed var sendimaður Muley Hamets konungs af Fez og Marokkó við hirð Elísabetu I. Marokkómenn vildu um aldamótin 1600 aðstoða enska flotann við að ráðast inn í Spán, en Elísabet I lét nú ekki verða að því.

Sumir telja að Shakespeare hafi byggt sögupersónuna Óþelló (Othello) á þessum manni, þó það sé nú frekar ólíklegt. Ekki er þó útilokað að Shakespeare hafi séð sendiherrann. Hið ljósa litarhaft sendiherrans minnir þó lítið á dökka húð márans eins og Shakespeare hugsaði sér hann. Vegna mikilla vangavelta manna um uppruna Shakespeares var eitt sinn búinn til brandari um að hann hafi verið múslími og heitið Sheikh Zubair.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband