Færsluflokkur: Mannfræði

Landnámskonur Íslands voru ekki kynlífsþrælar frá Bretlandseyjum!

dyflinarvitleysan.jpg

Nýjar rannsóknir Eriku Hagelberg prófessors í Osló og samstarfshóps hennar sýna greinilega, að íslenskar landnámskonur voru ekki sóttar af norskum körlum til Bretlandseyja, gagnstætt því sem DNA rannsóknir á vegum Íslenskrar Erfðagreiningar (deCODE) hafa talið okkur trú um í 14 ár (sjá hér). 

Hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var leit af þjóðar- og /þjóðernisímynd, sem féll að kröfunni um fullveldi og sambandsslit frá Danmörku. Hinn íslenski "Kelti" varð þess vegna til á 20. öld sem hluti af þjóðarbyggingu (nation building) Íslendinga. Sumir fundu hjá sér þörf til að skapa þjóðarímynd og þjóðerni sem var allur öðruvísi en það sem maður sá í Skandínavíu, og sér í lagi Danmörku. Þannig var leitað til frásagna af írskum konungaafkomendum í Íslendingasögum og öðrum heimildum. Í stað norrænna konunga var nú reynt að skýra nýfundin séreinkenni Íslendinga með áhrifum frá landnámsmönnum af göfugum ættum sem jafnvel voru konungabörn frá Írlandi, þótt þeir hefðu komið sem þrælar og ambáttir til Íslands.

heim_til_dublin_1252228.jpg

Árið 1993 buðu Samvinnuferðir-Landsýn Íslendingum heim til Dublin.

Með uppblómstrun þjóðrembulíkamsmannfræði 20. aldar jókst þessi áhugi til muna. Vantrúaðri menn kölluðu þetta Kelta- eða Írafár. Þeir sem töldu sig hafa séð ljósið hófu dauðaleit að hinum íslenska Kelta. Blóðflokkafræðin reyndist í árdaga geta bent til uppruna Íslendinga á Bretlandseyjum, frekar en í Skandínavíu. Allar slíkar vangaveltur voru loks skotnar niður. Það varð mörgum manninum erfitt að kyngja, og áfram héldu þeir hörðustu að leita "keltneskra", gelískra og írskra áhrifa frá Bretlandseyjum í fornbókmenntum okkar. Mestur hluti slíkra fræða var raus og langsóttur andskoti. Gætu minni í frásögnum, nöfn og annað vera áhrif sem alveg eins gætu hafa borist til landsins á tólftu öld frekar en á þeirri tíundu.

Sumir rauðhærðir menn á Íslandi töldu sig vera ekta "Kelta", þótt rauða hárið á Írlandi og í Skotlandi sé óalgengara en t.d. á Jótlandi og Noregi, og hefur að öllum líkindum að ákveðnu marki skilið eftir sig lit á Bretlandseyjum vegna veru norrænna manna þar á síðasta hluta Járnaldar. Rautt hár er reyndar ekki bara erfðaþáttur. En rauða hárið tóku menn mjög alvarlega. Einstaka menn snerust til kaþólskrar trúar vegna litarhafts síns og nýfundins skyldleika við írska konunga. Eitt sinn heyrði ég frásögn af íslenskum lækni, sem lifði sig svo innilega inn í gelískt eðli sitt að hann réðst á búfræðing og líffræðing á veitingastað í Reykjavík, vegna þess eins að líffræðingurinn hafði leyft sér í grein að benda á að val gæti hafa orðið í blóðflokkakerfinu ABO á Íslandi í tengslum við farsóttir, þannig að O blóðflokkurinn, sem lengi var tengdur "keltakenningum", hafi orðið algengur, þar sem fólk með A og AB blóðflokka dó frekar í ákveðnum farsóttum sem herjuðu á Íslandi. "Írski" Íslendingurinn var á síðasta áratug 20. aldar nærri því að syngja sitt síðasta vers.

En þá kom Kári O'Clone Stefánsson og deCODE til sögunnar. Ein af þessu ósögulegum staðreyndum. Þó svo að greindustu líffræðingar Íslands væru í upphafi margir mjög gagnrýnir á Íslenska Erfðagreiningu, þá lokkaði fjármagn, frægð sem meðhöfundaréttur að innihaldslausum greinum suma unga menn og lélega tölfræðinga inn í hirð Kára Stefánssonar. Einn þeirra var Agnar Helgason. Ég kynntist Agnari lítillega árið 1998 þegar við sóttum báðir mannfræðiráðstefnu í Kaupmannahöfn og héldum þar báðir erindi, og var hann ekki svo lítið gagnrýninn á keltafárið í íslenskum mannfræðirannsóknum. Skömmu síðar (2001) birti hann hins vegar, ásamt öðrum, greinar þar sem niðurstaða samanburðarrannsóknar á erfðamengi núlifandi Íslendinga var borðið saman við þær upplýsingar sem menn höfðu safnað annars staðar.

"Iceland goes Mitochondrial"

Það voru sér í lagi niðurstöður á hvatberum (mitókondríum) Íslendinga, sem vöktu athygli. Agnar Helgason og Kári Stefánsson, sem eru báðir menn afar norrænir að útliti og atgervi, svo notuð séu fornar og ófræðilegar skilgreiningar, töldu nú víst, að flestar konur sem komu til Íslands í öndverðu hefðu verið ættaðar frá Bretlandseyjum og hefðu ekki á neinn hátt verið skyldar "norskum" mönnum sínum. Með öðrum orðum sagt, áttum við nú að trúa því að kynhungraðir norskir karlar hefðu allir sem einn brugðið sér í einhvers konar kynlífsferð til Bretlandseyja til að ná sér í konur, sem þeir drógu svo með sér til Íslands, stundum sem ambáttir en einnig af eigin og frjálsum vilja. Síðan hófu þeir að framleiða Íslendinga.

Með þessari kenningu Agnars Helgasonar um kynlífstúrismann innbyggðan í hið heilaga Landnám, fundu menn sem voru haldnir miklu keltafári til endurreisnar. Ferðir til Dyflinnar og Glasgow færðust aftur í aukana. Á sumum varð hárið aftur rautt og menn fóru að spila keltneska tónlist á öldurhúsum Reykjavíkur. Lopapeysuvíkingar urðu nú æ óvinsælli og þegar Jón Páll sprakk undir lóðunum var The Icelandic Viking, risavaxinn, misloðinn og skyldleikaræktaður maður með offituvandamál, nærri bráðkvaddur þar sem hann var upphaflega skapaður: Á auglýsingastofunum í Reykjavík. Íslendingar brugðu sér nú á Hálandaleikana og í á Keflavíkurflugvelli heyrði mann stundum ölóða íslendingar segja frændum sínum á Bretlandseyjum frá þessum örugga skyldleika sem nú hefði verið staðfestur í rannsóknarstofum eins af "óskabörnum" íslensku þjóðarinnar. Keltnesk mynstur sáust nú á lopapeysum. Menn töluðu um að nú væri kominn tími til að hætta við alla skandínavískukennslu í skólum og hefja kennslu í River dance og haggisgerð í staðinn.

Niðurstaða Agnars og teymis hans hefur vakið mikla athygli á Íslandi sem og erlendis. DeCode gat selt sig með þessari niðurstöðu og sjónvarpsefni frá Skandinavíu hvarf að mestu hjá RÚV. Hinn íslenski Kelti varð staðreynd. Allir töldu sig vita betur en t.d. þessi fornleifafræðingur, sem reyndi að benda mönnum á að ekkert í fornleifafræðinni eða hefðbundinni líkamsmannfræði gæti bent til þess sem Agnar og félagar hans héldu fram. DNA var framtíðin og það lá stundum við að menn héldu því að hin nýja, fagra veröld væri komin. Prófessor Gísli Pálson afreiddi alla aðra líkamsmannfræði nema DNA, sem nasisma.

Örfáir einstaklingar drógu eindregna niðurstöðu Agnars mjög í vafa og menn spurðu sig mjög hvert gott samanburðarefni Agnars var. Nær engar rannsóknir á erfðaefni einstaklinga frá þeim tíma sem landnámið átti sér stað var notað til samanburðar við hvatberana í frumum núlifandi Íslendinga.

Erika Hagelberg kemur til sögunnar

Nú er komin ný rannsókn, sem bráðvantaði, þegar kenningunni um keltnesku kynlífsþræla norsku víkinganna var fyrst sett fram. Prófessor Erika Hagelberg í Osló, sem mig minnir að hafi alist upp á Kúbu, hefur ásamt samstarfsfólki sínu rannsakað erfðaefni í beinum einstaklinga í gröfum í Noregi frá síðari hluta járnaldar og víkingaöld (söguöld). Með stærra samanburðarefni en Agnar hafði ásamt niðurstöðum hans, sem hann hefur látið í té, er nú ljóst að tilgátan eða réttara sagt alhæfingin um mikinn fjölda kvenna frá Bretlandseyjum meðal landnámsmann á Íslandi er fallin. Erika Hagelberg kom eitt sinn á ráðstefnu í Reykjavík sem Tannlæknafélagið bauð til, þar sem ég hélt einnig erindi. Það var árið 1995, löngu áður en Agnar var farinn að vinna með DNA. Þá varaði Hagelberg einmitt við ofurtrú á DNA rannsóknum og greindi frá hættum við mengun sýna af fornu DNA.

Með tilkomu rannsóknar Eriku Hagelbergs eru Landnáma og aðrar elstu ritheimildir okkar aftur orðnar áhugaverðar heimildir, skoði maður upplýsingar um uppruna landnámsmanna í þeim tölfræðilega. Það er auðvita ekki eina aðferðin frekar en DNA rannsóknir.

Niðurstöður Eriku Hagelberg (lesið einnig um þær hér í alþýðlegri skýringu) koma einnig mátulega heim og saman við niðurstöður Dr. Hans Christian Petersens, sem i samvinnu við mig rannsakaði og mældi elstu mannabeinin á Íslandi sem varðveitt eru á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér og hér). Mælingar á hlutföllum útlimabeina elstu Íslendinganna sýna í samanburði við mælingar á öðrum þjóðum frá þessum tímum, að landnámsmenn voru fyrst og fremst frá Noregi. 10-15% voru frá Bretlandseyjum og um það 10-15% voru að einhverju leyti og á stundum mjög svipaðir Sömum, frumbyggjum Skandinavíu.

Það ber að fagna rannsóknum Eriku Hagelberg og samstarfsmanna hennar. Þær er gott dæmi um hve skjótt veður geta skipast í lofti í erfðavísindunum. Aðalvandi þessarar greinar hefur lengi verið að menn hafa slegið of stórmannlega út tilgátum miðað við hvað litlar upplýsingar, lélega tölfræði og magurt samanburðarefni þeir höfðu undir höndum.

Nú þegar grein Agnars hefur verið gjaldfelld, og raðgreiningar hans orðnar lítils virði, er hinn káti íslenski Kelti á ný mestmegnis ímyndunarveiki misrauðhærðra manna og þeirra sem sem hafa gaman af að hlusta á Dubliners og að drekka Guinness á krá, kalla börnin sín Melkorku, Brján, Patrek eða Brendan eða eru í Whiskeyklúbbi og "draga" í keltapilsi (Kilti) án nærfata og horfa síðan á gamla skoska sjónvarpsþætti með Taggart þar sem hann tautaði í sífellu "mudder". En mikið er ég viss um, að mestur hluti slíkra Brjána og Helga Keltasona séu í raun afturhaldssamir Norðmenn innst inni við beinið.

melkorka-litil.jpg

Melkorka In Memoriam: Þannig sjá sumir Íslendingar hina konunglegu ambátt, Melkorku, sem nefnd er í Laxdælu. Mér finnst þessi vaxmynd af henni líkust norskri freyju með plokkaðar augnabrýr á botoxi. Flestar írskar konur eru dökkhærðar, jafnvel svarthærðar og grána fyrir þrítugt. Ég hef alltaf haldið að þær sem væru ljóshærðar og rauðhærðar á Írlandi væru afkomendur norrænna manna sem settust að á Írlandi. En hin rauðhærða stereótypa er vinsæl. Það er skrýtið þetta ör sem maður sér á hálsi Vax-Melkorku. Var hún viðbeinsbrotin blessunin, eða er þetta merki eftir kynlífsok norrænna fauta?

Ég er margoft búinn að lýsa gagnrýni skoðun minni og vantrú minni á tilgátu Agnars Helgasonar um kvenlegginn á Íslandi hér á Fornleifi. Síðast gerði ég það hér í nýlegri og forlangri grein sem var hörð gagnrýni á yfirreið Gísla Pálssonar félagsmannfræðings um ranghala íslenskrar líkamsmannfræði. Gísli hélt því ranglega og afar óheiðarlega fram, að íslensk líkamsmannfræði á 20. öld væri eins og hún lagði sig aukaafurð nasismans (þjóðernisstefnu). Það er einfaldlega ekki rétt. Hinn íslenski Kelti og DNA rannsóknirnar nútímans, þar sem menn álykta stórt án samanburðarefnis, er miklu frekar afurð öfgaþjóðernishyggju, ef nokkuð er.

Agnar Helgason, sem einnig hefur verið nemandi og samstarfsmaður Gísla Pálssonar, verður nú að skýra fyrir Íslendingum þann mun sem er á niðurstöðu hans og Eriku Hagelbergs. Það er mikill munur á, en vitaskuld er ekki við Agnar einn að sakast, þegar hann fór að telja öllum trú um að hinar fögru íslensku konur væru gelískar gellur. Hann vinnur með unga fræðigrein sem þróast mjög hratt og rannsókn og samanburður hans er barn síns tíma. Hann hafði svo að segja ekkert bitastætt samanburðarefni við rannsókn sína á nútímaíslending. Erfðaefni nútímaþjóðar er heldur ekki það besta til að rannsaka uppruna þjóða. Erfðaefni úr beinum frá fyrri tímum verður að rannsaka til að fá rétta mynd. Rannsókn Hagelbergs er örugglega heldur ekki það síðasta sem sagt verður um samsetningu landnámsmanna, en hún er skref í rétta átt.

paske_ya-hagelberg200_1252235.jpg

Hér má hlusta á Eriku Hagelberg flytja áhugaverðan fyrirlestur um þróun rannsókna á fornu DNA. Fyrir rúmum áratug varð Erika enn og aftur fræg sem konan sem sökkti Kon-Tiki. Hún sýndi með rannsókn á erfðaefni fram á að tilgátur Thors Heyerdals um uppruna fólks í Suður-Ameríku og á Páskaeyjum, ættu ekki við rök að styðjast.

Kristján Eldjárn hafði mikla óbeit á Kelta- og Írafári sumra Íslendinga. Hann hefði orðið ánægður að heyra um niðurstöður Hagelbergs og samstarfsmanna hennar. Eldjárn var mikill andstæðingur Íra- og Keltafársins meðal sumra manna á Íslandi, enda sá hann vitanlega að fornleifar studdu ekkert slíka þanka og tilgátur.  Brekán, grjúpán, Kjaran og Brekkan og önnur orð með "gelískar" rætur gætu hæglega hafa komið með þrælum sem Íslendingar náðu sér í á þrælamörkuðum Dyflinnar. Þeir einstaklingar sem þar fengust skýra hugsanlega ýmsa þætti sem má sjá í erfðamengi Íslendinga og við mælingar hlutfalla í útlimabeinum manna. Þeir þættir eru þó ekki nægilega afgerandi til þess að halda því fram að formæður Íslendinga hafi verið írskar og skoskar lassies. Það var tálsýn.
sassy_lassie_adult_costume.jpg

Good bye you sassy, Icelandic Landnam-Lassie


Mannfræðin er furðuleg grein, enda er maðurinn furðuskepna

hond_bjorns.jpg

Í dag, 15. nóvember 2014,opnaði í Kaupmannahöfn, nánar tiltekið á Nordatlantens Brygge, hin frábæra ljósmynda- og konceptlistsýning Museé Islandique, sem einnig var haldin fyrir fáeinum árum í Reykjavík, líkt og hinn framandi titill gæti ef til vill gefið til kynna.

Sýndar eru ljósmyndir, sem Ólöf Nordal listakona lét taka, af safni afsteypna sem gerðar voru af Íslendingum árið 1856. Ólöf uppgötvaði að þær væru til á El Museo Canario í Las Palmas á Gran Kanaríeyju, þangað sem þær höfðu í eina tíð verið keyptar af Musée de l´Homme í París. 

800px-bjorn_gunnlaugsson_by_sigur_ur_malari_1249575.jpg

Dannebrogmaðurinn og stærðfræðingurinn með barnshjartað, Björn Gunnlaugsson, eins og Sigurður Guðmundsson málari sá hann árið 1959, og eins hann leit út er afsteypa var gerð af fasi hans árið 1856. Stór og þunglamaleg hönd Björns sést efst.

x400x400_olofnordal_bjorngunlassen_282_29_jpg_pagespeed_ic_rfkpazlga2_1249537.jpg

Björn Gunnlaugsson (1788-1876) í sólbaði í Las Palmas. Ljósmynd Gunnar Karlsson.

Afsteypurnar, sem voru gerðar árið 1856, voru teknar af mönnum í leiðangri Jérômes prins Napoleons, sem sótti landið heim. Jérôme var bróðursonur Naflajóns keisara. Afsteypa af að minnsta kosti einum Íslendingi hafði einnig verið gerð fyrir 1856, eða árið 1839, af leiðangri Gaimards til Íslands árið 1839. Hún er varðveitt á Mannfræðisafninu í París.

olofnordal_bjarnijonsson.jpg

Bjarni Jónsson (Johnsen) rektor Lærða skólans (1809-1868). Ekki er laust við að það sé einhver Framsóknarsvipur á Bjarna, því fyrir utan rauða hárið er Bjarni ekki ósvipaður Guðna Ágústssyni stjórnmálamanni með hausverk í bland við Halldór Jónatansson fyrrverandi forstjóra Landsvirkjunar. Eða kannski eru Íslendingar bara einsleitur massi?

Á sýningunni eru einnig ljósmyndir af uppstillingum Ólafar af ýmsu rannsóknarefni sem Jens heitinn Ó.P. Pálsson (1926-2002) líkamsmannfræðingur lét eftir sig er hann lést i Þýskalandi árið 2002, og sem nú er varðveitt er í Háskóla Íslands. Ég missti af sýningunni í Reykjavík, og sá hana í fyrsta sinn í gær, þar sem mér hafði verið boðið til opinberrar opnunar sýningarinnar fyrir sérstaklega mikilvæga gesti.

Þetta er frábær sýning, sem ég mæli með að allir sjái, ef þeir eru staddir í Kaupmannahöfn eða nágrenni, eða ætla að skella sér í jólainnkaupin til Kaupmannahafnar.

Ljósmyndirnar eru líklegast áhrifameiri og dramatískari en ef frummyndirnar hefðu verið til sýnis í sýningaskápum. "Touch" listamannsins í ljósmyndunum færir áhorfandann nær viðfangsefninu en glerkassi safnamannsins og hinn upphaflegi gripur inni í honum.

Á sýningunni í Kaupmannahöfn, eru umfram sýninguna í Reykjavík, 3 ljósmyndir af 5 Grænlendingum sem aðstoðarmenn Napóleons prins gerðu eftir að þeir höfðu yfirgefið Ísland og komu við á Grænlandi. Mér þykja þær "myndir" fallegri en Íslendingamyndirnar, líkast til vegna þess að frumafsteypurnar eru litaðar og að Grænlendingarnir eru kannski fallegra fólk í mínum augum en Íslendingarnir sem afsteyptir voru.

Sýningunni í Reykjavík, og nú Kaupmannahöfn, fylgir áhugavert hefti, þar sem Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur skrifar mjög góða grein þar sem tekið er á viðfangsefninu út frá listfræðilegu sjónarhorni.

Grein Gísla Pálssonar um líkamsmannfræði

Sömuleiðis er í sýningarskránni grein eftir Gísla Pálsson mannfræðiprófessor við Háskóla Íslands, sem einnig birtist í lengri gerð í límariti Máls og Menningar árið 2012. Hún er frekar lauslegt yfirlit yfir líkamsmannfræði á Íslandi.

Í grein Gísla er því gert skóna, að íslensk líkamsmannfræði hafi haft tengsl við Þýskalands nasismans og eru í því sambandi nefndir til sögunnar Jens Pálsson og Eiður Kvaran.

Eiður Kvaran, sem ég hef ritað um hér á Fornleifi (sjá hér), og sem ég veit ef til vill meira um men flestir aðrir sem hafa verið að skrifa um hann, var vissulega nasisti, en hann var ekki líkamsmannfræðingur (hvorki það sem sumir kalla physical anthropolgist eða antropometríker), jafnvel þótt hann hefði sótt einhverja kúrsa hjá dularfullum "vísindamönnum" við þýska háskóla. Doktorsritgerð Kvarans var einnig afar léleg sagnfræðileg úttekt á íslenskum miðaldaritum, líklega meira í stíl við vangaveltur sem maður sér oft í nútíma menningarmannfræði, ef nokkuð skal segja.

Jens Pálsson vann vissulega með fólki sem hafði á yngri árum starfaði við háskóla í Þriðja ríkinu og stundaði kynþáttarannsóknir að hætti nasista, kynbótafræði, kynþáttafræði (Rassenkunde) og jafnvel rannsóknir á líkamsleifum fórnarlamba nasista úr fanga- og útrýmingarbúðum. Þar með sagt er ekki hægt að tengja Jens við nasisma. Margir aðrir en nasistar stunduðu sams konar rannsóknir og Jens Ó.P. Pálsson. Antropometría,(mælingar á lifandi fólki) Jens Pálssonar voru fræði sem voru samt miklu eldri en nasisminn í Þýskalandi, og engan þarf a furða að nasistar hafi heillast af henni. Með flokkun á fólki var komið tilvalið verkfæri til að lýsa þeim "óæðri kynstofnum" sem nasistar kenndu um ófarir Þjóðverja og hinna svo kölluðu "aría". En ekki er mér kunnugt um að Jens Ó.P. Pálsson hafi stundað neitt slíkt.

visindastofnun_islands.jpg

Brot úr ævistarfi Jens Ó.P. Pálssonar. Nærmynd af einni ljósmyndanna á sýningu Ólafar Nordal.

Greinin sem gleymdist

Mér til mikillar furðu sá ég strax, að prófessor Gísli Pálsson hefur í mjög götóttri yfirreið sinni yfir íslenska líkamsmannfræði, sem hann gefur mest lítið fyrir og stimplar allar rannsóknir á sviði antrópómetríu, sem eins konar nasisma og þjóðernisrembing, misst af riti, sem þannig er skráð á Gegni: +

Populations of the Nordic countries Human population biology from the present to the Mesolithic : proceedings of the Second Seminar of Nordic Physical Anthropology Lund 1990 / editors Elisabeth Iregren, Rune Liljekvist ; scientific advisors Jesper L. Boldsen, Elisabeth Iregren, Berit J. Sellevold ; [front drawing by Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson]. Lund : University of Lund, Institute of Archaeology and the Historical Museum, [1993].

Ég gaf Þjóðarbókhlöðu þetta rit og Þjóðminjasafni Íslands, þar sem ég starfaði á tímabili. En nú virðist sem það sé nú aðeins til á Þjóðminjasafninu en sé tröllum gefið í Þjóðarbókhlöðunni. Líklega var það svo mikið lesið af stúdentum að það eyddist upp að kili. Fyrir utan gamanmynd eftir mig á forsíðu bókarinnar, er reyndar lærð grein eftir mig í bókinni, sem hafði áhrif á feril Jens Ó.P. Pálssonar. Þessa grein mína hefur Gísli Pálsson því miður ekki þekkt.

Fyrsta opinbera gagnrýnin á íslenska líkamsmannfræði

Ég var fyrsti íslendingurinn sem opinberlega gagnrýndi Jens Ólaf Pál Pálsson (sjá hér). Þá sjaldan að hann hélt fyrirlestur komu fáir og hlustuðu, en í Lundi árið 1990 var 200 manna hópur. Okkur, tveimur Íslendingunum, hafði báðum veið boðið á ráðstefnuna í Lundi en hvorugur vissi að hinn myndi mæta. Ég var með gagnrýninn fyrirlestur, sem m.a. fjallaði um rannsóknir Jens, en Jens var með sömu tugguna sem hann hafði oft flutt á þýsku, en nú hélt hann fyrirlesturinn á eins konar ensku.

Áður en Jens hélt fyrirlestur sinn talaði ég við hann í fyrsta skipti. Ég þekkti hann aðeins af umtali fornleifafræðings sem ég vann fyrir. Hún lýsti Jens með glettnum sögum sem afar sérstæðum manni. Vissulega var hann það. En að mínu mati en íslensku þjóðfélagi og akademísku umhverfi fyrri tíma til hróss að það hafði "bás" fyrir menn eins og Jens, þó svo að fæstir vissu hvað hann væri að bauka, því ekki gaf Jens mikið út af greinum eða bókakyns. Það kom þó verulega á óvart að hann fékk prófessorsnafnbót árið 1995.

Jens flutti fyrirlestur sinn í Lundi og það var í einu orði sagt, slys.

Allt sem úr lagi gat farið, fór úr lagi. Myndaskyggnur, sem hann hafði með sér í Lundi, snéru rangt, komu í rangri röð ellegar voru svo ógreinilegar að enginn hafði ánægju af. Þar að auki átti fólk erfitt með að skilja allt sem Jens sagði vegna meðfædds málgalla hans. Til að kóróna allt, mismælti hann sig mikið í enskunni og ruglaðist á síðum og hafði týnt blaðsíðum i fyrirlestri sínum. Hann fór einnig fram yfir tíma sinn og bað um að fá að halda lokaorð síðar um daginn. Í salnum í Lundi voru menn farnir að flissa og ganga út.

Svo kom kaffihlé og ég fór til Jens og talaði við hann og aðrir komu þar að og spurðu nokkuð efins um þessa "kynstofna" í Noregi sem Jens heimfærði yfir á "týpur" á Íslandi. Jens taldi engan vafa á þessu og benti á, að hann hefði fundið allar "fenótýpur" á Íslandi í Noregi og á Bretlandseyjum. Svo benti hann á mig og tjáði sig um að hann gæti bent á hvaðan ég væri ættaður í Noregi. Þá hlógu menn. Og ég spurðu háðskur:"getur þú sagt mér hvar góssið mitt í Noregi er, því ég mun gera tilkall til þess við norsku krúnuna?" en bætti við spurningunni um hvort allir sem væru af sömu "týpu" og ég  í Noregi ættu föður frá Hollandi, sem ætti víða ættir að rekja eins og faðir minn. Þeir sem stóðu og töluðu þarna við okkur hlógu dátt. Hvort Jens varð leiður yfir þessu "fræðilega" afhroði í kaffihléinu, eða að hann hafi drabbast niður eftir að að hafa hlustað á fyrirlestur minn sem ég flutti síðar um morguninn, veit ég ekki.

Ég kom inn á tilgangsleysi rannsókna eins og þeirra sem Jens stundaði, án þess að tengja það beint við nasisma og Þýskaland eins og aðrir hafa gert á mjög ómaklegan hátt. Jens lét sig hverfa af ráðstefnunni. Síðar um kvöldið tjáði Elisabet Iregren mannfræðingur, einn af umsjónamönnum ráðstefnunnar, mér að Jens hefði farið á hótel sitt og hefði drukkið. Hafði hann hringt i hana og verið í öngum sínum yfir fyrirlestri mínum, sem hann vildi svara í ráðstefnuritinu. Hún taldi það af og frá og bað hann um að senda sinn fyrirlestur. Ég varð leiður yfir því að heyra þetta og bauðst til að tala við Jens, en Iregren sagði mér ekki að hafa neinar áhyggjur. Jens sást ekki meira á ráðstefnunni, kom ekki á galla-kvöldverðinn í forngripasafninu Kulturen og sendi aldrei ritstjórum fyrirlestur sinn eða grein.

Jens, sá ég tvisvar sinnum í Reykjavík eftir þetta. Eitt sinn gengum við báðir á gangbraut við Suðurgötuna. Ég var að fara heim til mín á Neshagann. Þegar ég sé Jens, bý ég mig undir að kasta kveðju á hann. Þá snýr hann skyndilega af leið svona 5 metrum áður en við mætumst og nánast hleypur rakleitt þvert yfir götuna. Ég sá greinilega að Jens vildi ekkert af mér vita, og taldi best að láta hann þá lönd og leið. Annað skipti sneri hann upp á súluna í Björnsbakaríi á Hringbrautinni er ég reyndi að heilsa honum. Hann mundi greinilega eftir minni "týpu".

En á gagnrýni Gísla Pálssonar rétt á sér?

to_be_or_not_to_be.jpg

Það leiðist mér, þegar stórlax í samfélagsmannfræðinni í HÍ eins og Gísli Pálsson er, setur Jens Ó.P. Pálsson í sama bát og gamla nasista og skrifar:

"Mestalla tuttugustu öld, frá fyrstu rannsóknum Guðmundar Hannessonar og Eiðs S. Kvarans til loka ferils Jens Ó. P. Pálssonar, höfðu tengslin við Þýskaland sterk áhrif á líkamsmannfræði Íslendinga".

Þetta er of djúpt í árina tekið. Það rétta er, að Jens var að vinna við "rannsóknir" sem voru af svipuðum meiði og þær rannsóknir sem stundaðar voru í Þýskalandi nasismans. Jens er alls ekki hægt að spyrða við nasisma, þótt hann hafi unnið með Ilse Schwidetzky (1906-1997) sem hafði verið í hirð Egon Freiherr von Eickstedt sem var einn af þekktari kynþáttaspekúlöntum Hitler-Þýskalands. Hann gaf út tímaritið Zeitschrift für Rassenkunde. Því apparati kom Jens ekkert nálægt og ekkert úr mannvalskjaftæði þeirra fræða birtist í því litla sem Jens gaf út um ævina.

Maður fær á tilfinninguna að þjóðfélagsmannfræðingurinn Gísli Pálsson sé ekki alveg á þvi hvað líkamsmannfræði sé. Enn er stunduð líkamsmannfræði, sér í lagi mælingar á beinum, sem eru mun öruggari heimild um uppruna þjóða og þjóðflokkadreifingu en DNA-rannsóknir. Gísli heldur þessu fram í enskri gerð greinar sinnar:

"With the emergence of genetics in the 1940s, and the new genetics from the 1960s (Gísli Pálsson 2007), bones and and texts are more or less obsolete as a subject of study, doomed to give way to DNA (Sommer 2008). Only DNA, som say will permit researchers to grapple in any useful way with the history of humans. However, while the methods and theories of genetics and biological anthropology have proved productive and opened new perspectives, it is probable that, like older methods, they too will undergo change - not least in view of growing criticism of gene-centered discourse."

Þó síðasta vangaveltan í þessari setningu sé réttmæt, spyr maður sig hvað Gísli Pálsson hafi verið? Mælingar á fornum beinum (Ostemetría) hafa verið, og eru enn stundaðar, og veita miklar upplýsingar. DNA-niðurstöðum er hins vegar andmælt fáeinum árum eftir að "stórtíðindi" eru tilkynnt. Maður hefur ekki við að fylgjast með DNA-kenningum sem reynast rugl og misskilningur þegar upp er staðið.

Gísli afgreiðir mælingar á beinum sem liðna tíð. Hann minnir mig á bandaríska konu sem bandarískir kollegar mínir sögðu mér frá, sem alltaf stóð upp á ráðstefnum beinasérfræðinga og hrópaði "racist !", er hún heyrði að menn mældu bein, sama hvort það voru bein manna eða dýra. Líklega er Gísli bara of einangraður í menntaumhverfi sínu á Íslandi, þar sem enginn hefur stundað neitt á milli þeirrar "Dürkheimsku", "socialstrúkúralístísku" mannfræði sem hann vinnur með, og því litla sem Jens Pálsson áorkaði í úreldum og ónothæfum fræðum sínum.

gisli_palsson_madurinn_sem_stal_sjalfum_ser.jpg

Að halda því fram, sem Gísli Pálsson gerir, að fyrir hefði verið einhver sérstakur áhugi allra líkamsmannfræðinga á hreinleika Íslendinga og að halda að öll þessi mannbótastefna i líkamsmannfræðinni hafi átt rætur að rekja til Þýskalands er hreinn kjánaskapur, fáfræði og fordómar.

Kristian Emil Schreiner i Noregi, og síðar læknirinn Tage Kemp í Danmörku, eða Anders Retzius í Svíþjóð, voru allt vísindamenn sem höfðu sömu áhugamálin, sem var etnósentrísk mannfræði og "rassenkunde!. Þetta áhugamál, oftast með innbyggðan rasisma, var tímans tákn. Inn í þetta blandaðist gjarna mannhreinsunarstefna/mannkynbætur (eugenik). Í dag, þegar menn mæla útlimbein og bera þau saman við bein annarra manna, eru þeir ekki að reyna að sýna fram á gæði ákveðinna þjóða fram yfir aðrar. Þetta veit Gísli vonandi.

Ef menn hafa áhuga á að sjá hve heltekið samfélag menntamanna gat orðið af þeim ófögnuði get menn lesið stutt yfirlit yfir stofnun þá sem kölluð var Statens Institut för Rasbiologi í Svíþjóð.

Var Jens Pálsson gyðingahatari?

Það tel ég ólíklegt, en hann var haldinn sömu fordómum og margir Íslendingar eru enn í garð gyðinga. Í viðtali við Vikuna árið 1966, segir hann:

Einhvern veginn fannst mér Arabar og Gyðingar leiðinlegir þarna [Kaliforníu]. Þeir gátu aldrei á sárs höfði setið hvar sem þeir komu saman. Það var eins og þeir sæju aldrei önnur vandamál í heiminum en þeirra eigin. Ég minnti þá stundum á sameiginlegan uppruna en þeir urðu kindarlegir við. Um Gyðinga eina vil ég annars segja það að flestir þeirra sem ég hef kynnzt hafa verið ljóngáfaðir menn og lifandi í andanum en með vissri tortryggni og viðkvæmni skapa þeir vegg í kringum sig eins og ýmsir menn.

Já, margur heldur mig sig. Íslendingar eru t.d. heimsmeistarar í sjálfsmeðaumkvun og hafa á síðari tímum óspart líkt óförum sínum við Auschwitz og aðra álíka staði. Munið þið 2008? Ég man líka hegðan Jens gangvart mér. Hvekktur var hann, en gyðingahatari og nasisti? Varla. Hann var kynlegur kvistur í hinum akademíska heimi.

DNA-rannsóknir og The Brave new World?

Hins vegar leyfi ég mér að halda því fram, að vissar yfirlýsingar úr DNA rannsóknum nútímans á Íslandi og hin staurblinda umræða um hvort Íslendingar voru frá Bretlandseyjum eða Skandínavíu, sé álíka út í hött og nasísk misnotkun líkamsmannfræðinnar, þó svo að menn séu ekki að fegra "stofninn" nema í því auglýsingasjónarmiði þar sem básúnað er að íslendingar henti vel til rannsókna sem leyst gæti allan vanda sem herjar á þjóðir heims.

Íslendingurinn er orðinn að "guðinum" sem lokar öskju Pandóru. DNA á líka samkvæmt nýlegum íslenskum rannsóknum að sýna, að kvenþjóðin á Íslandi í öndverðu hafi fyrst og fremst komið frá Bretlandseyjum og karlar frá Skandinavíu. Það eru vafasamar niðurstöður og vart tel ég að þær munu standast með áframhaldandi rannsóknum. DNA-heimurinn mjög hverfull, ef menn hafa ekki enn tekið eftir því.

Að rannsaka erfðamengi Nútímaíslendinga til að tjá sig um uppruna þeirra er langtum langsóttari leið en að mæla hlutföll í t.d. lengd útlimabeina elstu Íslendinganna sem varðveitt eru í Þjóðminjasafninu.

Dr. Hans Christian Petersen (f. 1959) mældi í samstarfi við mig elstu bein á Þjóðminjasafni árið 1993. Hans, sem er virtur líffræðingur og líffræðitölfræðingur (biostatistiker) í Danmörku. Hann er prófessor við Syddansk Universitet (SDU) í Óðinsvéum. Í rannsókn sinni á Íslandi á varðveittum beinum elstu Íslendinganna í kumlum og grafreitum, sýndi hann fram á að flestir einstaklingarnir ættu ættir að rekja til Skandinavíu/Noregs (sjá hér).

Hans Christian Petersen sá með samanburðarmælingum sínum ákveðna prósentu fólks sem hlaut að koma frá Bretlandseyjum, bæði á meðal karla og kvenna. Hann færði einnig að því gild rök, að Íslendingar í öndverðu hafi verið blandaðir frumbyggjum Skandinavíu, Sömum. Mítókondríið (hvatberar??) í Íslendingum í dag sannar á engan hátt uppruna formæðra þeirra á Bretlandseyjum. Mælingar á útlimabeinum formæðra þeirra sýna hins vegar glögglega að ca. 15. % þeirra mælast líkt og konur á Bretlandseyjum á sama tíma. Þetta hlusta þeir DNA-sérfræðingar sem fóru á spenann hjá deCode/Íslenskri Erfðargreiningu ekki ár, eftir að hafa í upphafi "DNA-byltingarinnar" á Íslandi fyrst gagnrýnt fyrirtækið og framsetningu þess í DNA-sölumennskunni.

Enginn vafi leikur á að Samar, eða fólk blandað þeim, settust að á Íslandi, en samt hefur engum af fræðimönnunum fyrir og eftir hinn meinta "þýska tíma" í íslenskri líkamsmannfræði, dottið í hug að Samar væru meðal á þeirra. Þeir sem unnu með ritaða arfinn útilokuð þó ekkert um slíkt, enda er greint frá sömum og afkomendum þeira í Íslendingasögum.

Þjóðflutningamannfræðin í auglýsingaefni DNA-sölumannsins Kára Stefánssonar hefur heldur ekki gert ráð fyrir Sömum. Hverju veldur? Aðferðafræðileg skekkja, eða sú óniðurbrjótanlega skoðun margra kynslóða íslenskra fræðimanna að annað hvort séu þeir og þjóðin komnir af konungum í Noregi, eða konungum á Írlandi?

Samar, sem Svíinn Retzius niðurlægði, urðu fórnarlömb þessarar þjóðrembumannfræði í Noregi og Svíðþjóð. Með hjálp "líffræðilegra raka" svo sem að Samar væru ekki langhöfðar, voru þeir taldir óæðri Stórsvíum. Skyldu tilgátur Retziusar enn gerjast á meðal íslenskra fræðimanna, sem geta greinilega ekki hugsað sér að frumbyggjar Skandinavíu hafi verið á meðal landnámsmanna? Þeir finna ekkert DNA sem bendir til þess, en hafa þeir leita að því?  Eins og allir sem hafa flett sögubókum vita, þá er DNA-ið á landnámsöld ekki það sama og í dag. Viðkoma annarra en þeirra sem námu land, hlýtur að vera töluverð. Til þess eins að þjóðin úrkynjist ekki þarf meira en 3% "nýtt blóð" í einangraðn stofn manna. Á vondum degi dettur manni í hug að það hafi ekki alveg tekist, en ég tel þó svo vera.

Við vitum af öllum þeim hópum útlendinga sem höfðu samband við Íslendinga í gegnum aldirnar, og kannski sér í lagi við íslenskar konur. Þær bættu kynstofninn í frístundum sínum og hjáverkum, því þær sáu kannski hvert stefndi með afdalahátt og skyldleikaræktina.

LENGI LIFI ÍSLENSKA KONAN,

þótt menn hafi misskilið hvatberana í henni.


Samískur uppruni Íslendinga - með getraun

Hvaða kona b 

Árið 1993 sótti ég ásamt mannfræðingnum og tölfræðingnum dr. Hans Christian Petersen, sem nú starfar sem lektor við Syddansk Universitet í Óðinsvéum, um byrjunarstyrk til norræns sjóðs, NOS-H (Nordisk samarbejdsnævn for Humanistisk Forskning). Um styrkinn sóttum við að rannsaka elstu beinagrindurnar á Þjóðminjasafni Íslands. Sumarið 1993 mældi Hans Christian Petersen og kona hans beinin á Þjóðminjasafni Íslands og margar merkar niðurstöður fengust við þær mælingar. Voru niðurstöðurnar sendar sjóðsstjórn í skýrslu í von um frekari styrk, því niðurstöðurnar voru bæði mjög góðar og merkilegar.

Vegna einhverrar öfundar og ónota íslensks fornleifafræðings sem þekkti stjórnarmann í sjóðsstjórn NOS-H, fékk rannsóknin ekki fé til frekari rannsókna. Síðar fór fornleifafræðingurinn, sem beitti sér svo lítilmótlega, í einhverjar mannfræðirannsóknir, sem aldrei urðu að neinu vegna samvinnuörðugleika.

Mjög merkar niðurstöður fengust hins vegar af mælingum Hans Christians Petersens á Íslandi árið 1993 og leyfi ég hér með fólki að lesa þær. Þær staðfestu ýmislegt sem ég hafði leyft mér að benda á í þessari grein Ástæðan fyrir birtingu skýrslunnar er að um daginn leitaði ungur fornleifafræðinemi við háskólann í Tromsø norður í Þrumu, til mín og spurði um örvaroddinn klofna sem ég hef greint frá, og meira að segja í tvígang. Lofaði ég honum að birta skýrsluna frá mannfræðirannsókninni á Íslandi árið 1993, en tel víst að öðrum þyki skýrslan fróðleg.

Meginniðurstaða Hans Christians Petersen, sem einnig gerði úttekt á annarri vitneskju um uppruna Íslendinga, er að fólk sem settist að á Íslandi var af mjög mismunandi uppruna. Greinilegt er t.d. að Íslendingar eru komnir af fólki sem var blandað Sömum, líkt og þeim svipaði einnig mjög til fólks á Bretlandseyjum eða Íra sem uppi voru á sama tíma, en þorri landnámsmanna var þó af "norrænum" stofni úr Noregi. Meginniðurstaðan er þó svo, að elstu Íslendingarnir eru ekki sem heild, eða hlutar þeirra, alveg eins og neinn annar hópur á sama tíma á þeim svæðum sem liggja í námunda við landið.

Eins og má sjá má á meðfylgjandi  myndum af veðurbörðum og útiteknum Sömum sem teknar voru af leiðangursmönnum Rolands Napoléon Bonaparte, 6. prinsins af Canino og Musignano (1858-1924), sem var barnabarn bróður Nablajóns keisara, til Norður Noregs  árið 1884, virðast Samar þess tíma vera mjög fjölbreyttur (blandaður / heterogeneous) hópur, líkt og Íslendingar hinir fyrstu voru greinilega í upphafi samkvæmt niðurstöðum Hans Christians Petersen. Sumir þeirra bera rússnesk nöfn sem benda til blöndunar við Sama eða Skoltsama austan landamæranna við Rússland. Sérstakur er hann Anders Andersen Anto sem líklega var dvergvaxinn fyrir utan að vera hrokkinhærður. Já margt er manninn lagt.

Anders Andersen AntoAnders Andersen Anto 2 

Ljósmyndir er mjög auðveldlega hægt að misnota sem vísindaleg gögn, en af myndinni að dæma virðist Anders Andersens Anto einna helst af afrísku bergi brotinn. En erum við það ekki öll í byrjun? Í útliti þessa manns árið 1884 er ekki neitt sem við getum ályktað um uppruna Sama og jafnvel þótt mælanleg einkenni negra hafi fundist í einstaka einstaklingi á Íslandi við mælingar Hans Christians á fornum beinum, þá skýrir það líklega ekkert annað en Jazzáhuga sumra Íslendinga. Mælingar geta líka sýnt undantekningar. Alnafni Anders, Anders Andersen Anto (nr. 50 í myndaröð Bónaparts prins), og kannski frændi, líkist hins vegar skagfirskum bónda.

Anders Andersen Anto annar

Anders Andersen Anto (nr. 50)

Hvaðan er konan?

Efst á þessu bloggi hef ég sett mynd af konu, sem ég bið fólk að segja mér upprunann á. Þetta er hættulegur leikur og ég tek fram að slíkar myndagetraunir eru alls endis ófræðilegar, líkt og þegar menn rannsaka DNA úr nútímafólki til að segja til um upprunann. Eina trausta leiðin er sú sem Hans Christian Petersen notaði, þ.e. að nota mælingar á beinum fólks frá sama tímabili í sögunni og gleyma því jafnframt ekki að umhverfisþættir geta breytt útliti fólks og stærð mjög fljótt.

Gaman væri nú að vita, hvort lesendur mínir geti sagt mér hvaðan konan á myndinni efst er ættuð. Og hugsanlega vilja einhverjir finna Samann í sjálfum sér og senda mér myndir sem kannski sýna svart á hvítu, eða í lit, að þið líkist frændum okkar Sömunum, frumbyggjum Skandínavíu. Þá sem með réttu eiga olíuna undan ströndum Noregs, ef fara skal út í tæknileg atriði.

Hér koma svo nokkrar myndir af Norskum sömum sem ljósmyndaðir voru í leiðangri Bónaparts árið 1884.

Mena AbrahamsenEllen Andersdatter Labba

Mena Abrahamsen og Ellen Andersen Labba 

Nicolas NielsenKaren Mikelsdatter

Nicolas Nielsen og Karen Mikelsdatter

Ivar SamuelsenOle Olsen Niki

Ivar Samuelsen og Ole Olsen Niki

Hendrick Martissen KyrreOffa Dimitrowitch

Hendrich Martissen Kyrre og Offa Dimitrowitch

13695_std

Hægt er að stækka allar myndirnar með því að klikka á þær.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband