Færsluflokkur: Menning og listir

Hvað fær maður fyrir silfur sitt ?

Mid 3 Þór Magnússon

Væntanlegar er í verslanir tveggja binda verk Þórs Magnússonar fyrrverandi Þjóðminjavarðar um silfur fyrr á öldum. Þetta verður örugglega kærkomin viðbót við það litla kver, Silfur í Þjóðminjasafni, sem Þór lét fara frá sér árið 1996 og gárungarnir héldu að væri afrakstur þess dæmalausa starfsleyfis sem hann var settur í á tvöföldum launum við að skrifa um silfur Íslands fyrir Iðnsögu Íslands.

ÞMSifur Í Þjóðminjasafni

Eftir þá vinnu og þar að auki langa vist á kvistinum á Þjóðminjasafninu, eftir að hann var settur af sem þjóðminjavörður fyrir að hafa litla sem enga yfirsýn yfir skotsilfur stofnunarinnar, kemur loks afraksturinn af silfurrannsóknum Þórs. Það gerir rit eins og þessa ritgjörð úrelta, en hún er eftir Ole Villumsen Krog, danskan kennara og áhugaljósmyndara, sem vegna áhuga síns á silfri og umgangs við det Royale hefur hlotnast næstum óraunverulegu titlar: Hendes Majestæt Dronningens sølvregistrator, Det kongelige Sølvkammers kurator, direktør i internationale relationer. En þessi með afbrigðum snobbaði Jóti, sem menn á Íslandi kölluðu jafnan Krókinn, er sá maður sem við getum þakkað fyrir að koma Þór á bragðið í silfurrannsóknunum. Þór var aðeins með einhvern minniháttarpappír í þjóðháttafræði upp á vasann er hann var gerður að Þjóðminjaverði, og hefur enga fína titla eins og Krog, þó hann sé mikill vinur ókrýndrar drottningar okkar, Vigdísar Finnboga. Á Krókurinn danski því bestar þakkir fyrir.

Eins gott og yfirlit yfir silfurmeistara íslenska í Kaupmannahöfn og smiði síðari alda og silfurstimpla verður ugglaust í bókinni, þá grunar Fornleif, að yfirlit Þórs yfir silfur á söguöld verði frekar handahófskennt, og ekki býst ég heldur við miklum fræðilegum viðbótum við silfur miðalda, sem Þór hefur veigrað sér að tjá sig og tala um er leikir hafa beðið hann að halda fyrirlestra. Fyrir fáeinum árum vildi hann ekki tjá sig um elstu kaleikana á Íslandi og miðað við það sem hann skrifaði fólki sem báðu hann um það, virtist sem hann hefði litla þekkingu á þeim. Ég tók að mér það verk og mun síðar í ár greina frá niðurstöðum mínum á þeim rannsóknum hér á blogginu.

Silfur finnst sjaldan í jörðu á Íslandi meðan gull hefur greinilega ekki verið grafið niður í sjóðum á Íslandi eins og í sumum nágrannalöndum okkar.

Margir hafa spurt mig hvað þeir fái fyrir sinn snúð á Þjóðminjasafninu eða úr ríkissjóði ef þeir finna fornan sjóð og skila honum til réttra aðila.

Ég svara nú ekki fyrir Þjóðminjasafnið eða hálftóman ríkiskassann, en bæti þó venjulega við að finnendur fái fyrst og fremst heiðurinn, og enn fremur að þeim sé borgað dagsverðið á silfri út frá þyngd sjóðsins og 10% af útreiknuðu heildarverð í ofanálag. Má vera að fundarlaunin hafi hækkað síðan þessi fundarlaun sem ég þekki voru við lýði. En undir öllum kringumstæðum ber að skila fornum sjóðum til Þjóðminjasafnsins um leið og þeir finnast, annars brjóta menn lög.

Menn þurfa ekkert að vera að pússa hann upp úr Goddard fægilegi eða neinu slíku nýmóðins drullumalli, þegar miklu betri mold finnst rétt við bæjardyrnar á Egilstöðum.

Óánægja með fundarlaun 

Menn hafa ekki alltaf verið ánægðir með fundarlaun sín, og skilur maður það á vissan hátt, en það verð sveiflast eftir kapítalístískum reglum sem sumir kapítalistar skilja ekki einu sinni sjálfir. 

Hér skal sagt frá greiðslum sem inntar voru af hendi fyrir margfrægan silfursjóð sem síðast fannst austur á landi árið 1980. Þó svo að yfirmenn fornleifamála þess tíma hafi svarið og sárt við lagt að allar upplýsingar hafi komið fram um fund sjóðs og sögu hans, er það nú ekki raunin og hefur t.d. verið bent á það hér. Þau gögn sem hér birtast í þessari grein sem þið lesið nú, voru ekki lögð fram við rannsóknir tengdum sjóðnum.

Finnendur silfursjóðsins á Miðhúsum spurðu fljótt eftir fundarlaunum og þau fengu þau einnig fljótt. Þeim var skipt á milli eiganda og finnanda. Hver þeirra fékk greiddar 107.828 kr. (Sjá hér og hér) fyrir myntbreytingu þá sem varð um áramótin 1980/81 er tvö núll voru fjarlægð aftan af krónunni. Þetta urðu því 10.782, 80 í 1981 krónum, sem voru auðvitað miklu meira virði en jafnmargar krónur í dag, en auðvitað ekki neinn happadrættisvinningur fyrir blessað fólkið sem fann þennan óáfallna sjóð. 

Fundarlaunin voru rífleg

Ég er þó hræddur um að silfurverðið hafi verið reiknað ríflega af þjóðminjaverði sem gaf 300 kr. fyrir grammið, sem hann sagði vera silfurverðið grammið, með 10% í ofanálag samkvæmt lögum. 

Silfurverð náði miklum hæðum á fyrri hluta árs 1980, og fór eitt sinn mest upp í 130 Bandaríkjadali únsan, en hélt sér, þegar það var mest virði, í tæpum 49 $. Þegar silfrið á Miðhúsum fannst var verðið aftur komið í mun eðlilegra horf, eða um 11 $ únsan, sem er um 0,388 $ á grammið. Samkvæmt sölugengi Bandaríkjadals á Íslandi þ. 16 september 1980 var dalurinn seldur á 513,10 kr., 0,388 dalir voru því rúmar 199 kr. 1. gramm af silfri samkvæmt heimsmarkaðsverði kostaði 199 kr. og með 10% uppbót hefði Þór Magnússon aðeins átt að greiða finnendum um 219 kr fyrir grammið: Sjóðurinn sem vegur 653,5 gr. hefði með 10% ábót átt að færa finnanda og landeiganda 130.046 kr. í aðra hönd (65.023 á sitt hvorn), en Þór Magnússon bætti við samanlagt 85.610 í fyrirmyntbreytingarkrónum, sem verður að teljast frekar rausnarlegt. Líklegt þykir mér að Þór hafi notast við heildsöluverð þess sterlingssilfurs sem selt var gullsmiðum á Íslandi.

Silfurverð árið 1980

Silfurverð 1980

Þar að auki fékk landeigandi greiddan fararkostnað til að fara frá Reykjavík þar sem hann var staddur er sjóðurinn fannst. Það gerðu 63.200 að auki. Þetta held ég að hafi verið verð á báðum leiðum. En reikningurinn sem sendur var dagsettur meira en mánuði eftir að ferðin var farin (sjá hér). Ekkert af þessu kom reyndar fram í skýrslum um silfursjóðinn, hvorki í Árbók hins Íslenzka Fornleifafélags né í skýrslu sem unnin var upp úr skýrslu Danska Þjóðminjasafnsins, sem fengið var til að rannsaka sjóðinn að hluta til þar sem menn sættu sig ekki við síðari niðurstöður rannsóknar bresks sérfræðings í víkingaaldarsilfri, Prófessors James Graham Campbells, á eðli sjóðsins.

Finnendur kvörtuðu enn í bréfi til Þjóðminjasafnsins árið 1995 yfir því hve lítið þeir fengu fyrir sjóðinn, er þeir höfðu verið spurðir um fundaraðstæður 1980. 

Eitt er víst að þau lög hvetja að okkar áliti ekki þá sem finna fornminjar til að láta yfirvöld vita um slíkan fund. Við myndum að minsta kosti hugsa okkur tvisvar um að tilkynna slíkan fund ef við findum svona sjóð í dag. Það er rétt að það komi fram, að það fyrsta sem Hlyn datt í hug þegar hann sá hvað þetta var að hér væri komið tilvalið smíðaefni, og því best að láta kyrrt lyggja. Við vissum ekki  í byrjun hver hvert við ættum að tilkynna þetta, (höfðum ekki einu sinni leitt hugan á því að svona gæti gerst) en það var Hilmar Bjarnason á Eskifirði sem hvatti okkur til að hringja í Þór Magnússon Þjóðminjavörð [sic].

Ég hefði líka hugsað mig tvisvar um að afhenda sjóð sem fundist hefði óáfallinn í jörðu. Slíkt er einstakt í sögunni.

Meira fengu svo finnendur fyrir sinn snúð löngu síðar eftir að Þjóðminjasafninu og mér hafði verið stefnt vegna vafa sem breskur sérfræðingur hafði látið í ljós og niðurstöðu Þjóðminjasafns Dana sem greindi frá þvi að hluti sjóðsins væri frá því eftir Iðnbyltingu eftir rannsókn sem Þjóðminjasafnið, Þjóðminjavörður (Guðmundur Magnússon) og Þjóðminjaráð létu breska sérfræðinginn James Graham Campbell framkvæma. 

Fundarlaunin á hreinu en margt er enn á huldu

Þjóðminjasafnið hefur til dæmis enn ekki tekið afstöðu til álits dr. Susan Kruse, fremsta sérfræðings Breta í efnagreiningum á silfrinu frá Miðhúsum. Kruse lýsti því yfir árið 1995 að efnagreining Þjóðminjasafns Dana væri til einskis nýt eins og hún var unnin og lögð fram, en því hefur Þjóðminjasöfnin í Kaupmanganhöfn og Reykjavík náttúrulega ekki viljað svara. Danska þjóðminjasafnið hefur þó margoft sagt og ritað að sjóðurinn sé ekki allur frá Víkingaöld.

Þeim tveimur aðilum var fengið það hlutverk að sjóða upp úr dönsku skýrslunni endanlega og ásættanlega skýrslu á íslensku, þar sem reyndar er vitnað rangt í skýrslu Danska Þjóðminjasafnsins. Danska skýrslan var gerð af fólki sem fékk ónógar upplýsingar. T.d. vissu þeir ekki að silfrið hafði fundist óáfallið í jörðu. Fornt silfur finnst ekki óáfallið í jörðu! Rannsóknarskýrsla, sem ekki upplýsir allt  og sem leynir öðru er náttúrulega ekki nein venjuleg rannsóknarskýrsla. Menn töluðu mikið um að sjóðurinn væri falsaður eftir að niðurstaða Breska sérfræðingsins var þekkt. En mér er öllu nær að halda að rannsóknarskýrsla íslensku nefndarinnar sé fölsun. Þeir sem skrifuðu hana mættu t.d. skýra út hvernig silfrið fannst óáfallið og hvað þeim þykir um skoðun Susan Kruse. Einn nefndarmanna, sem er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, vill ekki tjá sig og hefur vísað á Þjóðminjasafn Íslands. ´

Annar nefndarmanna, Lilja Árnadóttir, lét taka jarðvegssýni á Miðhúsum, en þeim hefur, þrátt fyrir að allt sem á Þjóðminjasafninu er sé skráð og varðveitt, verið hent. Þjóðminjasafnið neitar að gefa skýringar á því háttalagi. Barnabarn Jónasar frá Hriflu sem vinnur við Háskóla Íslands fékk líka mold frá Miðhúsum, en upplýsir ekkert. Við vitum því enn ekki hvort eitthvað var í jarðvegnum á Miðhúsum sem gerði að sjóðurinn fannst gljáandi í jörðu, svo óáfallið að Kristjáni Eldjárn þótti það lygilegt.

Miðhús Mogginn 2 sept 1980

Ég vona ekki, eftir þessa góðu auglýsingu mína fyrir silfurrit Þórs Magnússonar, að ég hafi nú latt menn til skila af sér fornu silfri og öðrum eðalmálmum til Þjóðminjasafnsins eins og lög gera ráð fyrir að menn geri. En nú líður reyndar langur tími á milli þess að slíkir fundir finnast, svo ekkert er í hættunni.

En gleymið nú ekki að sjá til þess að fallið hafi á silfrið sem þið finnið, svo einhverir ómerkilegir fræðingar fari ekki að spyrja óþarfa spurninga, t.d. um landeiganda sem lært hafði silfursmíðar í Svíþjóð og keypt málmsmíðaverkfæri til Eiðaskóla (sjá hér). Héraðsdómar dæma slík ummæli ómerk.

Myndin efst sýnir Þór Magnússon fyrrv. þjóðminjavörð leita að silfri á Miðhúsum árið 1980. Miðað við aðstæður og markaðsverð á silfri gerði Þór mjög vel við finnendur silfursins. Vonandi gerir hann silfrinu vel skil í bókum sínum tveimur, en eitthvað segir mér að hann ræði ekki silfursjóðinn á Miðhúsum eins náið og ég geri hér.

 

Mikilvæg neðanmálsathugasemd:

Gögn um Miðhúsasjóðinn sem hér birtast í pdf-skjölum, líkt og önnur skjöl sem áður hafa verið birt um þann sjóð hér á Fornleifi, gleymdist að birta eins og margt annað sem átti samkvæmt fyrirskipun ráðuneytis að birta í tengslum við rannsóknir á silfursjóðnum frá Miðhúsum árið 1995. Sú gleymska að mikilvæg gögn voru ekki birt, þó því væri lofað, var ekki vegna þess að pdf-ið hafði ekki verið fundið upp á þeim tíma. Það var vegna þess að skýrsla Þjóðminjasafns Íslands var ófullkomin og hlutdræg og innihélt þar að auki  vísvitandi rangfærslur. Skýrslan ber þar að auki vott um afar lélegan dönskuskilning þeirra sem skrifuðu hana. Meira um það síðar og t.d. mótsagnir um fundaraðstæður silfursjóðsins frá Miðhúsum.

583A[1] 

Takið eftir: Sunnudaginn 14. apríl (2013) kl. 14-16 er almenningi boðið að koma með eigin gripi í greiningu til sérfræðinga Þjóðminjasafnsins. Sérstök áhersla er lögð á silfurgripi að þessu sinni.

Greiningin er ókeypis en fólk er beðið að taka númer í afgreiðslu safnsins.


Rómardraumar

óskhyggja

Mikið er alltaf gaman að sjá áhuga manna á því sem kynni að finnast í Vatíkaninu, en um leið vanþekkingu þeirra á þeirri stofnun sem Archivum Secretum Apostolicum Vaticanum er. Kári Bjarnason íslenskufræðingur hlýtur þó að þekkja nokkuð til, því hann fékk styrk til mánaðar dvalar árið 1992 til að rannsaka Maríukvæði, en það hefur þó líklegast verið í bókasafni Vatíkansins.

Rómantísk er sú skoðun manna, að Íslendingar hafi í tíma og ótíma verið að senda Páfanum í Róm einkabréf. Ef slík bréf voru send, komust þau ekki alltaf á leiðarenda. En hver veit, fyrst ég fann prestsinnsiglisstimpill Jóns Arasonar í Kaupmannahöfn, þá er eins víst að hægt sé að finna bréf Jóns í Vatíkaninu. Varla mun nokkur maður sitja eins við í skjalasafni og Kári ef hann yrði sendur suður í Róm til að leita. La dolce vita Rómaborgar heillar hann ekki né truflar. Menntamálaráðuneytið myndi fá eitthvað fyrir gjaldeyrinn ef Kári yrði sendur, eða ekki neitt, því maður getur aldrei vitað hvað skjalasöfnin geyma.

Þó að skalasöfn Vatíkansins sé lokuð bók um upplýsingar um uppruna Kólumbusar og aðra þætti sögunnar, t.d. þá sem lúta að ofsóknum kirkjunnar á gyðingum, þá er ekki eins og skjalasafn Vatíkansins sé órannsakað. Þar fer fram mjög öflug rannsóknarstarfsemi og nú tölvuskráning, og tel ég víst að safnið hefði haft samband við Íslendinga, ef þeir finndu eitthvað bitastætt.

Reyndar eru um 84 hillukílómetrar í safninu og safnskráin telur um 35,000 bindi. En það sem líklega hefur einna helst valdið því að íslenskir fræðimenn hafa ekki ílenst á skjalasafni Vatíkansins er að Íslendingar eru ekki eins sleipir í latínu og þeir voru fyrr á tímum. Ég þekki ekki í svipinn neinn sagnfræðing, nema hugsanlega prófessor Sveinbjörn Rafnsson, sem kann eitthvað í latínu. Latína var ekki kennd almennilega í menntaskólum eftir að latínukennsla Teits Benediktssonar var skorin við nögl í MH. En áður en sá hræðilegi atburður átti sér stað naut ég góðs af kennslu hans og tók þar alla áfanga í latínu. Hef aldrei orðið samur maður eftir það, en því lofaði Teitur líka í fyrsta áfanganum.

Ef menn fá pening til að leita að nál í heystakk Vatíkansins, er inngangur skjalsafnsins við Porta de S. Anna í via di Porta Angelica. Allir fræðimenn með tilskylda menntun og reynslu af skjalarannsóknum geta sótt um aðgang. Þeir þurfa að hafa meðmælabréf frá viðurkenndri rannsóknarstofnun eða viðurkenndum fræðimanni á sviði sagnfræði eða líkra greina.

Í bókasafni Vatíkansins bar á tíma mikið á því að 8. boðorðið væri brotið. Þess vegna var þessum ágæta útbúnaði komið fyrir:

riaperturabibliotecavaticana


mbl.is Óþekkt gögn um Ísland í Páfagarði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Iceland, the greatest Smorgasbord ever

Smorgasbord  

Eitt sinn var til forláta veitingastaður á Broadway í New York, þangað sem norrænir menn og aðrir streymdu til að fá eitt annálaðasta Smorgasbord (Smörgåsbord/Smørrebrødsbord) sem sögur fara af.  Staðurinn bar auðvitað nafnið ICELAND, hafði þrjú show á hverju kvöldi og tvær hljómsveitir. Ekki var ýkt þegar því var haldið fram, að þetta væri stærsti næturklúbbur á Broadway.

Þarna var svaka bar, og í miðjum salnum blakti fáni Fullveldisins Íslands, og síðar lýðveldisins, yfir öllum herlegheitunum.

Iceland Restaurant 2
 
bakhlið

 

Nýlega rakst ég á auglýsingu sem myndin er af efst í einu blaði Dana í Bandaríkjunum í síðara stríði. Blaðið hét Nordlyset, og vildi ég vita hvernig stóð á því að veitingastaður á Broadway státaði af þessu fallega nafni. Ég er engu nær um eigendur, en ég veit að Michael Larsen, danskur maður, rak staðinn.

 

Bar Iceland

 

Barinn á Iceland

Nú er Iceland ekki lengur merkilegt land, og ekki þykir einu sinni ástæða að hafa almennilegan bandarískan ambassador á Íslandi. Smorgasborðið er ekki lengur það sem stjörnurnar á Broadway sóttu í, en líklegt tel ég þó að Harrison Ford myndi hafa þótt barinn á Iceland gjaldgengur. Hann er nú líka svo gamall, að hugsast gæti að hann hafi jafnvel setið þarna og borðað heilt smorgasbord.

Ef einhver man eftir þessum stað og getur deilt með okkur minningunum, eru þeir velkomnir að setja hér inn athugasemdir. Einhvern veginn hef ég þó á tilfinningunni, að ég hafi misst af þeirri kynslóð. Nú er það sushi og eitthvað enn fínna sem fær fólk til að dansa.

Fróðir menn telja að orðið smorgasm hafi orðið til þarna á 680 Broadway. Nú heitir þessi staður ROSELAND (sjá sömuleiðis hér). Þarna hélt Hillary Clinton, sem árangurslaust reyndi að hringja í Össur Skarphéðinsson, eitt sinni afmælisveislu sína og Björk kynnti plötu sína Biophilia á þessum stað árið 2011. Væri það ekki ágætt nafn í stað Íslands eftir allsherjargjaldþrot?

Roseland-front

Björk Iceland Roseland

Þessi grein var upphaflega birt á postdoc.blog.is árið 2010. Örlitlu hefur verið við hana bætt.

Ég keypti skömmu síðar í Bandaríkjunum sjaldgæf póstkort með myndum af smurbrauðborðinu á Iceland og barnum þar.


Skúrinn í Skálholti

Your image is loading...

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur nú lagt til, að leitað verði leiða til að færa furðubyggingu þá sem reis við Skálholtskirkju í fyrra mörgum til ama og landinu til athlægis. Sömuleiðis hefur leikmannastefna þjóðkirkjunnar, sem samanstendur af fulltrúum allra safnaða landsins, og er því voldugri en allir prestar, Guð og biskup til samans, samþykkt ályktun um að Þorláksbúð eigi að flytja og það fyrir 50 ára vígsluafmæli steinsteypudómkirkjunnar í Skálholti nú í sumar.

Þessu ber að fagna, þótt Árni Johnsen líti ekki á kofann sem sögufölsun, heldur sem afkvæmi sitt og jafnvel Guðs verk, nema hvortveggja sé. Telur hann að verið sé að leggja til að troða barninu upp í móðurkvið á ný. Ég get hugsað mér önnur göt sem þessu misfóstri væri hægt að troða upp í, en læt það eiga sig að nefna slíkt nú yfir hátíðirnar.

Fleiri holur eru á þessu ævintýri en Árni Johnsen en heilög leggöng. Ekki væri úr vegi að færa um leið þann ráðherra (Katrínu Jakobsdóttur) sem ber ábyrgð á þessu slysi og embættismann hennar (Kristínu H. Sigurðardóttur), fyrrverandi yfirmanns Fornleifaverndar Ríkisins og núverandi yfirmann Minjastofnunar Íslands. Hún braut þau lög sem hún átti að fylgja þegar hún lagði blessun sína yfir skemmdaverk á fornleifum. Það er bannað samkvæmt íslenskum lögum, sem nú heita Lög um menningarminjar, að byggja ofan á fornleifar. En Kristín Sigurðardóttir heldur óskundanum áfram, hún stendur nú í stórræðum, og ætlar að byggja fáránlega suðræna villu ofan á órannsökuðum rústum Stangar í Þjórsárdal. Til rannsókna þar er ekki hægt að fá svo mikið sem krónu, en yfirvöld eru greinilega meira en til í að hella peningum í ólöglegar framkvæmdir ofan á friðlýstum rústum.

rugl_3

Hvernig má vera að svona meðgönguslys séu möguleg á 21 öldinni? Því er ekki auðsvarað, en menningar- og minjaverndin er ekki betra en það fólk sem starfar við hana. Á Íslandi ríkir einnig víða menningarlegt smekkleysi og hagsmunarpot stjórnmálahöfðingja ræður alltof oft ferðinni - ekki Guðs hönd eins og Árni heldur, og alls ekki landsins lög eins og vera ber.

Færsla Þorláksbúðar er hins vegar álíka mikil vitleysa og bygging hennar. Miklu frekar á að leyfa mönnum að rífa það sem þeir byggðu í Skálholti og tína úr því það efni sem þeir vilja endurnýta, t.d. þakpappann, steypuna og plastið. Legg ég til vara til að kofinn verði fluttur heim að húsi Árna Johnsen á hans kostnað og að hann noti hann sem heimilishof eða bara sem bílskúr.


Langspil á Íslandi og í erlendum söfnum

Your image is loading...

Er bandaríski tónmenntafræðingurinn David G. Woods rannsakaði langspil og íslensku fiðluna árið 1981 skoðaði hann 21 eintök af langspilum í eigu safna og einstaklinga á Íslandi. Sum þeirra hljóðfæra sem hann skoðaði voru reyndar ekki sérlega gömul, nokkur meira að segja smíðuð á síðari hluta 20. aldar (sjá hér).

Hér verða sýnd og safnað saman upplýsingum um hljóðfæri sem flest eru smíðuð fyrir aldamótin 1900. Flest þeirra eru frá 19. öldinni en nokkur eru með vissu frá þeirri 18. 

Þetta er enn ekki tæmandi skrá, því ekki er búið að hafa samband við öll söfn sem eiga langspil og hugsanlega eru til hljóðfæri í eigu einstaklinga sem eru eldri en frá aldamótunum 1900. 

Mig langar þess vegna að biðja fólk, sem veit um gömul langspil sem ekki eru enn með í þessari skrá, að hafa samband við mig, sér í lagi ef langspil í þeirra eigu eru frá því fyrir aldamótin 1900. Fréttir af hljóðfæri Sigurðar Björnssonar á Húsavík, Guðrúnar Sveinsdóttur Reykjavík og Herdísar H. Oddsdóttur, Reykjavík væru t.d. vel þegnar.

Upplýsingarnar um þessi hljóðfæri, sem safnað verður saman hér, vonast ég að gagnist mönnum sem vilja smíða sér þetta merka hljóðfæri, annað hvort með bogadreginni hlið, eða langspil með beinar hliðar. Vonast ég til að menn hafi þá eitthvað annað en og einskis nýtar vefsíður og með hljóðfæri misjafnlega góðra spilimanna á YouTube sér til fyrirmyndar.

Í næstu færslu um langspilin verður greint frá heimildum um langspil á 20. og 21. öld.

 

Ísland

Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði

Siglufjörður langspil photo Jon Steinar Ragnarsson 2

IMG_1989_1200x800
Ljósm. Jón Steinar Ragnarsson
 

Þetta fagra hljóðfæri er erfðastykki Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts í Reykjavík, en hún hefur lánað það til Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði

Fyrsti eigandi þess, og jafnvel smiður, er talinn hafa verið Stefán Stefánsson bóndi á Heiði í Gönguskörðum (1828-1910), sem var langafi Guðrúnar. Sonur hans var Stefán Stefánsson (1863-1921), kennari við gagnfræðaskólann á Möðruvöllum og síðar skólameistari á Akureyri. Dóttir Stefáns skólameistara var Hulda, fyrrum skólastjóri húsmæðraskólans í Reykjavík og móðir Guðrúnar. Frá Heiði kom hljóðfærið að Möðruvöllum árið 1890.

IMG_1985_1200x800 b
Ljósm. Jón Steinar Ragnarsson

Að sögn Huldu Stefánsdóttur var það fyrsta verk Stefáns afa hennar á hverjum morgni að taka langspilið ofan af vegg og leika á það. Hann notaði vinstri þumalfingurinn á laglínustrenginn og gripbrettið, og var vinstri höndin sveigð yfir strengina. Boganum var haldið með hægri hendi og strokið yfir strengina nærri enda hljóðfærisins. Þetta langspil var notað til að læra sálmalög sem sungin voru á heimilinu en ekki var það notað við kirkjuathafnir.

Þetta fallega hljóðfæri hefur 4 strengi og eru tveir þeirra strendir úr sniglinum en þeir tveir sem lengst eru frá gripbrettinu eru styttri en meginstrengirnir og mislangir og eru festir með höldum sem skrúfaðar hafa verið í kassa hljóðfærisins. Þetta fyrirkomulag strengjanna er líklega ekki mjög frábrugðið því sem var á hljóðfæri sem John Baine einn af ferðafélögum Stanleys á Íslandi árið 1789 lýsti í dagbók sinni: When Mr. Stanley came on board, he shewed us an Icelandic Instrument of music called Langspiel. It is a frustrum of a rectangular pyramid 5½ in by 3 and 1 sq at the top. height 39 in with 6 Strings of thick brass wire the longest about 37 inches and the Shortest 12½ inches with stops like those of the Guitar .. (sjá frekar hér)

Í gripbrettið, háls og fót hafa verið innlagðar beinþynnur sem gegna hlutverki gripa og brúa. Hljóðopið er hringlaga með skreyti umhverfis. Erfitt er að átta sig á viðnum sem notaður hefur verið í kassann. David G. Woods taldi kassann vera smíðaðan úr furu, en það getur vart verið. Ef til vill er þetta viður ávaxtatrés, einna helst kirsuberjatré, en kannski reynir sem hefur verið litaður. Það er þó sagt með með miklum fyrirvara. Verð ég að fara norður á Siglufjörð til að sjá gripinn, áður en ég get slegið nokkru föstu um það.

 

Minjasafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni (Minjasafni Reykjavíkur) eru tvö langspil, eitt rauðmálað með bogadreginni hlið og hitt blámálað langspil með beinni hlið.

ÁBS 28 lille 

Ábs 28

Þetta langspil kom á safnið árið 1952. Það var í eigu Þorbjargar Bergmann (1875-1952). Þorbjörg safnaði gömlum gripum. Dóttir hennar Hulda Bergmann og eiginmaður hennar Einar Sveinsson afhentu safninu 399 gripi þegar Þorbjörg lést árið 1952. Ekkert er vitað um uppruna langspilsins. Það (stokkurinn) er 86 sm að lengd og rauðmálað. Það er með fætur á kraga og botni og er fóturinn á botninum brotinn. 

ÁBS 1316 lille
Ábs 136

Þetta fallega og litríka langspil var keypt til safnsins og er sagt vera smíðað eftir skagfirskri eftirmynd. Engar upplýsingar er um smið eða aldur. Gefandi er einnig óþekktur sem og koma langspilsins í safnið, en það var tölvuskráð þar árið 1993 löngu eftir að Lárus Sigurbjörnsson hafði upphaflega skráð það. Engar upplýsingar eru heldur um stærð. Líklega er þetta 20. aldar smíði, sem byggir á eldra hljóðfæri, en engu skal slegið föstu um það enn

Byggðasafn Skagfirðinga, Glaumbæ

Á byggðasafninu í Skagafirði hef ég séð langspil, en aldur þess þekki ég ekki enn. Beðið er eftir upplýsingum frá Byggðasafninu. 

Minjasafn Akureyrar

Tvö langspil tilheyra Minjasafni Akureyrar. Eitt í safninu sjálfur og annað í Davíðshúsi, en það langspil tilheyrði Davíð Stefánssyni skáldi. Langspilið í Davíðshúsi virðist mjög fornt. Samkvæmt upplýsingum safnsins er kassinn er 65 sm að lengd og snigillinn 20 sm. Kassinn er 10 x 10 sm neðst en 8,0 x 8,0 sm efst. Þetta hljóðfæri hefur upphaflega verð með 4 strengi, tvo sem strekktir voru efst í sniglinum og tveir styttri sem strekktir voru með stillingarpinnum neðst en festir á höld á kassanum.

Langspil MSA 2 3

Langspilið í sjálfu Minjasafninu er vandaðri smíð en langspilið í Davíðshúsið og líklegra yngra. Það er málað rautt og svart. Kassinn er 63,5 sm  og snigillinn 10 sm.  Kassinn er 10 x 6 sm neðst  og 5,3 x 5.5 efst, mjórri strengjamegin.

 Langspil MSA2 2 

Byggðasafn Árnesinga

Í Byggðasafni Árnesingar eru til tvö langspil með safnnúmerin 680 og 1326. Beðið er eftir fyllilegri upplýsingum um þau.

Árnessýsla 1326
1326

Eitt langspil safnsins ber númerið 1326 og svipar mjög til langspils á Musik/Teatermuseet í Stokkhólmi með safnnúmerið M1890 (sjá neðar).

 

Byggðasafnið Görðum, Akranesi

Akranes
1959/1077

Langspilið að Görðum hefur safnnúmer 1959/1077. Litlar sem engar upplýsingar eru til um upphaf og komu þessa langspils í byggðasafnið að Görðum. Aldursgreining þess er því ekki alveg örugg, en út frá lagi og tækni er líklegt að það sé smíðað á seinni hluta 19. aldar.

Mesta lengd: 86 sm; Hæð snigils: 17 sm; Breidd snigils efst: 4,2 sm: Breidd framhlið efst: 5,4 sm; Breidd framhlið við botn: 14 sm; Þykkt hliðar efst: 6,7 sm og neðst 9,1 sm.

 

Þjóðminjasafn Íslands

Þjóðminjasafnið á þrjú langspil af mismunandi gerðum. Beðið er eftir nánari upplýsingum um hljóðfærin. 

Eitt langspila safnsins, sem mjög svipar til hljóðfæris Stephensens fjölskyldunnar á Innra-Hólmi, sem Sir George Steuart Mackenzie fékk og lýsti í bók sinni um Íslandsför sína árið 1811 (hljóðfæri sem nú er kannski að finna í Edinburgh, sjá neðar), er skráð með safnnúmerið Þjms. 635 og upplýst er í aðfangabækur að það hafi verið gefið á Fornminjsafnið af Katrínu Þorvaldsdóttur árið 1868. Það mun vera Katrín Þorvaldsdóttir úr Hrappsey sem var kona Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara. Langspilið er ekki lengur til sýnis í Þjóðminjasafninu, heldur má sjá það í Tónlistarstofu Þjóðmenningarhússins.

Þjms 365

Þjms. 635

635b

Danmörk

Musikmuseet, København  

Er nú hluti  af Þjóðminjasafni Dana - Nationalmuseet.

Í Kaupmannahöfn er að finna fimm merk langspil og eina fiðlu íslenska. Allt mjög merkileg hljóðfæri. 

Ljósmyndir: Musikmuseet/Nationalmuseet.

D50_1

D 50
D50_6


Safnnúmer: D 50

Smiður: Óþekktur; Uppruni: Gefið safninu af Kammerådinde enkefrue Emilie Johnsson (f. Mayer). Sagt er í safnaskrá, að Emilie Johnson hafi verið ættuð frá Íslandi. Langspilið var sent frá Íslandi til South Kensington Museum (Hér er átt við Museum of Musical Instruments) í Lundúnum, en hafnar að óþekktum ástæðum í Kaupmannahöfn; Aldur:  Sennilegast miðbik 18. aldar; Lengd: 78,4 sm; Mesta breidd: 13 sm neðst og efst 5,8 sm: Mest þykkt hliðar neðst: 11.8 sm; Mesta þykkt hliðar efst: 8,2 sm; Hljóðop: Í laginu eins og einhvers konar Þórshamrar. Grip: Er úr tré og stillanlegt. Frekari upplýsingar hefur Fornleifur.

X13_3
X 13  - Frá Staðarhrauni

 

Safnnúmer: X 13; Saga: (áður N 117 í Þjóðminjasafni Dana í byrjun 20. aldar; Þar á undan (árið 1891) X 175; Smiður: Óþekktur; Uppruni: Staðarhraun í Mýrarsýslu; Aldur: Sennilegast miðbik 18. aldar; Lengd: 93,3 sm; Mesta breidd: 16,2 sm; Hljóðop: Í laginu eins og einhvers konar Þórshamrar; Grip: Upplýsingar hefur Fornleifur.

Anna Þórhallsdóttir söngkona lét smíða eftirlíkingu af þessu hljóðfæri, sem hún lék á. Eftirlíkingin var gerð um í lok 6. áratugar síðustu aldar af hljóðfærasmið í Kaupmannahöfn.

D68_1
D 68
D68_3
D 68
 

Safnnúmer: D 68

Mjög ónógar upplýsingar um skráningu og uppruna þessa langspils eru til í safninu. Svo virðist sem þær upplýsingar hafi týnst einhvers staðar frá því að hljóðfærið kom í safnið og þar til að safnvörður skoðar það og dæmir árið 1972. Þetta er tveggja strengja langspil

Efni: "Mahogni" samkvæmt skrásetjara safnsins og er það rangt; Smiður: Óþekktur; ; Uppruni: óþekktur; Aldur: Safnið telur langspilið smíðað um aldamótin 1900 Sennilegra er að hljóðfærið sé frá 19. öld. Langspil D 50 kom á safnið árið 1899 og er því líklegt að langspil D68 hafi komið litlu síðar og miðað við slit, er greinilegt að hljóðfærið er gamalt þegar það kemur á Musikmuseet í Kaupmannahöfn; Lengd: 78 sm; Lengd án snigils: 63,7; Breidd kassa efst: 6,7 sm; Mesta breidd: 18,4.; Þykkt hliða efst 4,9 sm; Þykkt hliða neðst: 5 sm; Hljóðop: Hjartalaga (hjarta á hvolfi); Grip: Upplýsingar hefur Fornleifur; Strengir: 2

D130_1 lille

D 130
D130_3

D 130

D130_4

Safnnúmer: D 130

Þriggja strengja hljóðfæri. Efni:   Smiður: Óþekktur; Uppruni: Hljóðfærið var keypt af skolebetjent Lyum, Larslejestræde 9 í Kaupmannahöfn, Sjálendingi sem hefur engin sjáanleg tengsl haft við Ísland; Aldur: Sennilegast fyrri hluti 19. aldar; Hljóðop: Hjartalaga; Lengd: 86,1 sm; Mesta breidd: 16,4 sm; Breidd kassa við snigil; 6,5 sm; Þykkt hliða efst og neðst: 5,2 sm: Lengd kassa: 37 sm; Grip: Upplýsingarnar hefur Fornleifur; Strengir: 3.

D165_1
D 165
 
D165_3

Safnnúmer:  D 165

Efni: Smiður: Óþekktur; Saga: Langspilið var keypt á Det Kgl. Assistenthus, sem var hið opinberlega
danska veðlánahús frá 1688-1974. Langspilið er keypt og kemur á safnið 22/1 1942; Aldur: 19 öld;
Lengd með snigli: 77,5 sm; Lengd kassa: 63,5 sm; Mesta breidd 15,3 sm; mesta breidd við snigil: 6.7 sm; Hljóðop: S-laga: Grip: Upplýsingar hefur Fornleifur.

Svíþjóð

Musik / Teater Museet, Stokkhólmi

Í Stokkhólmi er að finna 3 gömul langspil og eitt sem líklegast er frá 20. öld.

 

N35179%20Langspil
N34179

(Ljósm. Hans Skoglund)

Safnnúmer: N35179;

Smiður: Óþekktur; Aldur: Óþekktur, en sennilegast er hljóðfærið frá 19. öld. Langspilið kom árið 1882 á Nordiska Museet i Stokkhólmi;  Lengd: 83,5 sm; Strengir: Upphaflega 3.

N35180 Nordiska Museet d 

 
N35180 (Ljósm. Hans Skoglund)


N35180_1

Safnnúmer: N35180, upphaflega í Norsiska Museet, að láni þaðan;

Smiður: Óþekktur; Aldur: Óþekktur, sennilegast miðbik 19. aldar: Lengd: 97 sm; 3 strengir; Grip: Úr messingvír; Strengir: 3.
N38855 aN38866 Musik & Teatermuseet

N38855 (Ljósm. Hans Skoglund)

Safnnúmer: N38855, Upphaflega komið úr Nordiska Museet. Að láni þaðan;

Smiður: Óþekktur; Aldur: Óþekktur, sennilegast frá fyrri hluta 19. ald; Lengd: upplýsingar vantar; Strengir: Hafa upphaflega verið 3.


Í Musik / Teater Museet í Stokkhólmi er einnig að finna langspil, (M1890), sem búið var til á Íslandi og kom á Nordiska Museet árið 1934. Það er með einn streng (einn stillingarpinna) og hjartalaga hljóðopi. Ég tel mjög líklegt að þessi smíð sé frá 20. öldinni og að hugsanlega séu einhver tengsl á milli þessa hljóðfæris og hljóðfæris nr. 1326 á Byggðasafni Árnesinga (sjá ofar). En allar upplýsingar væru vel þegnar. Sjá hér.

M1890_3
M1890

Tækniteikningar af íslensku hljóðfærunum er hægt að kaupa í verslun Musik/Teater Museet.

 

Skotland

Edinburgh University
Collection of Historic Musical Instruments

Langspilið kom upphaflega í desember árið 1858 á the Edinburgh Museum of Science and Art. Það var upphaflega í eigu R.M Smith í Leith. Upphaflega fékk hljóðfærið og meðfylgjandi bogi safnnúmerin 3385 og 3386. Síðar lánað af Trustees of the National Museum of Scotland (NMS A301.26). Á miða á botninum stendur hins vegar "INDUSTRIAL MUSEUM / of Scotland /No. 301 26".

Edinburgh 2

Hljóðfærið var endurskráð þann 30.8.2011 með þessari lýsingu:

Technical description: Instrument built of pine, the soundboard and back overlapping the ribs by 3mm. There are 4 strings, one bowed and three drones, one of the drones possibly tuned an octave higher, going through a hook in the soundboard 468mm from the nut. The hitchpins are attached to the bottom of the instrument. The tuning pegs go into a scroll, similar to that on a hurdy gurdy, the bowed string peg of stained beech, an unoriginal drone peg of oak. Iron plate on the nut and bridge for the strings to run over. Sound-hole at the widest part of the soundboard, 40 diameter, marks on the soundboard to indicate that the rose was 48mm. Distance of frets to the nut 749, 666.5, 630, 564, 501.5, 473, 420.5, 374, 333.5, 316, 282.5, 252, 238, 211.5, 187.5, 168, 159.5. Repair History: Of
the three tuning-pegs present, one has an ivory button matching those on the scroll; the remaining two are presumably replacements.

Sjá frekar hér.

Verið er að rannsaka í Edinborg, hvort hljóðfærið geti verið sama hljóðfæri og Sir George Steuart Mackenzie fékk að gjöf á Íslandi árið 1810 (sjá hér), og að bæti hafi verið einum streng í það hljóðfæri.

 

Belgía

Musée des Instruments de Musique/

Muziekinstrumenten-museum

Það er : 4. deild Musées royaux d'Art et d'Histoire, Bruxelles | Koninklijke Musea voor Kunst en
Geschiedenis, Brussel.

1520_1 b Brussel

1520

Safnnúmer 1520, aldur óþekktur, en langspilið er eldra en 1883, en þá er hljóðfærið komið á safnið í Brussell. Lengd: 88,9 sm.

Langspil þetta er óneitanlega mjög líkt langspili því sem Mayer teiknaði í hlóðaeldhúsinu á Grímsstöðum á Fjöllum árið 1836.

Grimsstaðir langspil
 
Brussel langspil

Kanada

Candian Museum of Civilization

Canada langspil

Ljósm: © CMC/MCC, 69-62 Canadian Museum of Civilizations

"A 1962 survey by Kenneth Peacock of Icelandic settlement in Manitoba noted only one traditional instrument, the langspil, a narrow rectangular box about a metre long, fitted with two metal strings and frets. This instrument was made shortly after 1900 by a farmer south of Gimli. It is housed in the Canadian Museum of Civilization folk instrument collection." (Sjá hér). Hljóðfærið er tveggja strengja.

canada Gimli langspil

Skál !

NUBO rice Show
 

Ef þíð eigið svona skál, þá eruð þið svo sannarlega komin í álnir.

Nýverið seldist kínversk hrísgrjónaskál fyrir 274 milljónir íslenskra króna. Kannski hefði það ekki verið í frásögur færandi, ef fjölskyldan sem seldi skálina hefði ekki keypt hana á bílskúrstombólu fyrir 3 dollara fyrir 6 árum síðan. Fjölskyldan er enn að velta því fyrir sér hvort hún hefði fengið meira fyrir snúð hefði hún ekki sett skálina í uppþvottvélina.

Skálin er frá tíma Song keisaraættarinnar, sem var við völd í Kína frá 960-1279. Talið er að aðeins séu til tvær skálar af þessari gerð, svo nú er bara að leita í skápum og skúffum.

Kaupandi skálarinnar er Guiseppi Eskenazi, sem er einn fremsti safnari og seljandi kínverskra forngripa í heiminum. Hef ég i tvígang komið í verslanir hans til að skoða sýningar. Árið 1993 þótti fréttnæmt, að hann væri með tvo gripi í nýrri verslun sinni í Mayfair sem kostuðu meira en 1 milljón punda. Eftir að Kínverjar sýndu okkur hvernig hægt er að misnota Marxismann til að arðræna lýðinn, hefur verðlagið á kínversku postulíni rokið upp úr öllu valdi og Nubóar Kína kaupa inn í stórum stíl hjá Eskenazy í London.

Kannski sjá menn nú hvaða hrísgrjónaverð var sett á landið okkar af Kínverjum í spreng. Ísland er aðeins grjón í veislu Maó-kapítalistanna. 

Skál Ping

Heimildir um langspil fyrir aldamótin 1900

02663AH-B-045 D

Á síðari árum hefur blómstrað mikill áhugi á langspilinu, einu af tveimur þekktum hljóðfærum Íslendinga fyrr á öldum. Af því sem skrifað hefur verið á síðustu áratugum um langspilið, er grein David G. Woods í Árbók hins íslenska Fornleifafélags sennilega besta heimildin um langspil á Íslandi og sú áhugaverðasta. Ég bendi áhugasömu fólki á að lesa hana. Hún er þó alls ekki tæmandi heimildarsafn um langspilið. Woods rannsakaði fyrst og frem hljómgæði hljóðfæra en hér verður lögð meiri áhersla á elstu heimildir og að sýna elstu hljóðfærin.

Hér skal tekið saman það sem vitað er um langspil á Íslandi fyrir aldamótin 1900, bæði ritaðar heimildir teikningar og ljósmyndir.

Í næstu færslu um langspilið verður greint frá þeim hljóðfærum sem til eru í söfnum og einkaeign og voru smíðuð fyrir aldamótin 1900 - þó ekki hljóðfæri smíðuð úr krossvið.

Arngrímur Jónsson

Arngrímur lærði (1568-1648) nefnir ekki, eins og margir halda fram, langspil í bók sinni Anatome Blefkeniana  sem út kom á Hólum árið 1612 og ári síðar í Hamborg. Bókin var andsvar gegn falsi og lygum Ditmars Blefkens um Ísland og Íslendinga. Anna Þórhallsdóttir hin mikla áhugakona um langspilið skrifaði að Arngrímur hefði gert þessa athugasemd við lygar Blefkens:  Hvað sönglist og lagfræði snertir, hafa landar mínir verið svo vel að sér, að þeir hafa búið til hljóðfæri upp á eigin spýtur og tekizt vel. Taldist Önnu til að þarna gæti verið átt við langspil.

Anatome Blefkeniana

 

En upphaflegi textinn hljóðaði nú svona þegar ég fór að lesa hann:

Quoad Musicam et melodiam, non fuerunt adeo amusi nostri homines, quin instrumenta Symphoniaca ipsi artificiose facerent, et melodiam vel musicam, ut vocant, figurativam, recentiore memoria noverint.

Sem getur aðeins útlagst þannig:

Hvað varðar tónlist og sönglist, þá geta landar mínir, það er við vitum síðast til eins og það er orðað, ekki hafa verið án hljóðfæra, sem þeir hafa byggt listavel, eða án tónlistar eða söngs

I handriti að Íslensk-latnesku orðasafni (AM 433 1, fol. I-IX) Jóns Ólafssonar Grunnvíkings, sem tekið var saman á árunum ca. 1736-1772, kemur orðið Langspilsstrengur fyrir. Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur á Árnastofnun hefur vinsamlegast upplýst mig að í seðlum Jóns Ólafssonar við orðasafn hans komir orðið langspil fyrir (sjá athugasemd Rósu í athugasemdum neðst).

Á tveimur seðlum nefni Jón Ólafsson þau hljóðfæri sem hann þekkir á Íslandi. Á seðli sem á að bætast við flettiorðið "hljóðfæri" telur hann fyrst upp hljóðfæri sem þekkt eru í Danmörku og öðrum löndum og nefnir síðan þau sem algengust eru á Íslandi:„harpa et fidla. laang-spil, symphon, etc. it. Clavier, qvod etiam clavichordium vocant“ (AM 433 fol. V 1: 178r-v).
 
Á seðli, sem er viðbót við flettiorðið spil stendur: „Laang Spil, instrumentum musicum, fi dibus instruetum [!]. Danicè Langeleeg. Spectat ad hljood-færi, ut: fi dla, fjool, harpa, symphoon et clavier, aliis clavicordium. item Bumba; vesicam habens in fl atam. Loqvos enim de illis instrumentis tantum qvæ Islandis sunt familiari simi“ (AM 433 fol. VIII 2: 288r).

 

Kveðskapur á 18. öld 

Vísa Árna Böðvarssonar (1713-1776) á Ökrum á Mýrum tileinkuð Latínu Bjarna, Jónssyni (f. 1709), sem einnig var kallaður djöflabani. Bjarni Jónsson var bóndi og bjó á Knerri í Breiðuvík. Af Bjarna þessum eru einnig til þjóðsögur í safni Jóns Árnasonar.

Smiður bezti, vanur til veiða,

vistast hjá honum allar listir,

fiðlu, simfun, fer hann tíðum,

fiol, hörpu, langspil, gígju,

kirurgus er mörgum meiri

maður tryggur, vel ættaður,

orðsnotur, skáld, allvel lærður

Árni kveður um Jónsson Bjarna.

Jón Steingrímsson

Önnur 18. aldar heimild um íslenska langspilið er ævisaga séra Jóns prófasts Steingrímssonar (1728-1791) sem hann ritaði sjálfur á árunum 1784-1791. Í sögunni er tvisvar minnst á langspilsleik:

Hún [þ. e. Þórunn Hannesdóttir, síðar eiginkona höfundar] hafði mig og áður séð, er eg var í skóla [í Hólaskóla 1744-1750], því síra Sveinn [Jónsson, prestur á Knappsstöðum] og síra Pétur [Björnsson, prestur á Tjörn], skólabræður mínir, sem voru um hátíðir þar á klaustrinu,lokkuðu mig um ein jól að koma þangað að sjá stað og fólk og slá þar upp á langspil, er eg með list kunni, ásamt syngja með sér, hvar af klausturhaldari hafði stóra lyst á stundum. Þá eg í minni Setbergsferð, hvar um áður er getið, hafði næturstað á Bæ í Borgarfirði, sá eg þar snoturt langspil, er þar hékk, og þarverandi húsmóðir, Madame Þuríður Ásmundsdóttir átti og brúkaði. Hún, sem gera vildi mér alt til þénustu og afþreyingar, bauð mér það til að slá upp á það. Og þá eg það reyndi, gat eg það ei fyrir innvortis angursemi og hugsun til fyrri daga, hvað þá hún sá, tók hún sjálf að spila á það ein þau listilegustu lög, hvar við eg endurlifnaði við og fékk þar af sérleg rólegheit.

John Thomas Stanley 

Stanley

Enski ferðalangurinn og John Thomas Stanley barón af Alderley (1766-1850) stýrði leiðangri til Færeyja og Íslands árið 1789. Í ferð sinni um Ísland heimsótti Stanley og rannsakaði ýmsa þekkta staði og umhverfi þeirra. 28. ágúst 1789 var ritað í dagbók leiðangursins að Stanley hefði fundið íslenska hljóðfærið langspil (Þannig þýtt i grein D.G. Woods):

Þegar Stanley kom um borð í skip leiðangursins sýndi hann okkur íslenskt hljóðfæri, sem heitir langspil. Það er í lögun líkast stýfðum píramíða, 5 ½ þuml. sinnum 3 og 1 í toppinn, hæðin 39 þuml., með sex strengjum úr látúnsvír, hinn lengsti 37 og hinn stysti 12 ½ þumlungur festir líkt og gítarstrengir við grunn píramíðans, og leikið á þá með klunnalegum boga. Stanley lék á það, en naumast getur annað hljóð látið verr í eyrum en þau, sem úr því komu. [Hér vantar setningu hjá þeim sem þýddi]

(Upphaflegi textinn er þannig: When Mr. Stanley came on board, he shewed us an Icelandic Instrument of music called Langspiel. It is a frustrum of a rectangular pyramid 5½ in by 3 and 1 sq at the top. height 39 in with 6 Strings of thick brass wire the longest about 37 inches and the Shortest 12½ inches with stops like those of the Guitar -  The strings come over a Moulding at the base of the pyramid and are played upon by a clumsy Bow.  -  Mr. Stanley played upon it but nothing is more grating to the ear than the sounds it produced. It is it seems a very Ancient intrument, introducing here perhaps by the first Norwegian Colonists.

Erfitt er að átta sig á útliti þessa 6 strengja hljóðfæris, með mismunandi lengd strengja.

William Jackson Hooker

220px-William_Jackson_Hooker_by_Spiridione_Gambardella

Árið 1809 ferðaðist um Ísland ungur enskur grasafræðingur, William Jackson Hooker (1785-1865). Árið 1811 kom  út í Yarmouth bók hans Journal  [á 1. titilblaði stendur reyndar Recollections] of a Tour in Iceland in the Summer of 1809. Hooker, sem síðar varð forstöðumaður grasagarðsins fræga í Kew, lýsti með mikilli hrifningu heimsókn sinni að Innra-Hólmi nærri Akranesi, þar sem Magnús Stephensen bjó. Magnús var sem kunnugt er sonur Ólafs Stephensens og var hann lögmaður norðan lands og austan árið (1789), síðan settur landfógeti og árið 1800 og varð dómstjóri (háyfirdómari) í Landsyfirrétti, sem þá var nýstofnaður. Þar að auki bar hann titilinn Etatsráð (Etatsråd) sem var það sem Íslendingar komust næst aðalstign. Magnús bjó árið 1809 með fjölskyldu sinni að Innra-Hólmi við Hvalfjörð. Til er góð stutt íslensk endursögn á því sem Hooker sá á upplýsingarheimilinu að Innra-Hólmi í tímaritinu Brautinni árið 1928, en í bók Hookers sjálfs er lýsingar allar mjög langdregnar:

Segir Hooker, að þar sé ágætlega húsaður bær, enda búi þar maður sem sé háyfirdómari, og svo vel búinn að gáfum og lærdómi, að sómi myndi að honum í hverju þjóðfélagi sem væri. Alt benti til þrifnaðar, jafnvel útihúsin báru vott um smekk og snyrtimennsku. Var að vísu fylgt gamalli landsvenju i húsaskipun og byggingaefni. Mörg hús í röð hlaðin upp úr torfi og grjóti, en þó var svo frá öllu gengið, torfveggjunum og torfþökunum, að sannarlegt prúðmennskusnið var á. Útidyrnar voru málaðar og stórir gluggar á bænum. Var gengið inn löng göng alþiljuð, og með timburgólfi. Bókastofa húsbóndans var í meðallagi stórt herbergi, alsett bókum. Innar af því dagstofa, var hún blámáluð með gipsrósum á lofti. Var þar inni góður húsbúnaður líkur þvi er tíðkaðist á Englandi. Á veggjunum voru nokkrar litmyndir meðal annars af Napóleon Frakkakeisara og Nelson sigurvegaranum við Trafalgu. Strax er þeir voru seztir að, bar bóndinn fram hvítt vín og tvíbökur, og meðan beðið var til máltíðar sýndi húsbóndinn Hooker ýmsar fágætar og merkar bækur, og handrit um sögu landsins. Þar voru og bækur eftir merkustu rithöfunda, franska, þýzka, sænska og danska, og mikið af enskum skáldritum. Par að auki megnið af fornritum Grikkja og Rómverja. - Sönglistin var einnig í hávegum höfð á Innrahólmi. Stóð upp að vegg í dagstofunni stórt orgel, og þegar Hooker lét á sér skilja, að sig langaði til að heyra íslenskan söng, kom fjölskyldan inn, og söng fyrir hann nokkur sálmalög, en húsbóndinn lék undir á hljóðfærið. Einnig söng dóttir húsbóndans nokkra íslenzka og danska söngva, og lék undir á langspil. Um kl. 3 var sezt að miðdegi, var fram borin steik með sætu kirsuberjamauki og kálstöppu, en á eftir kom rauðvín, laufabrauð og kökur.

Hooker teiknaði eitt langspilanna eftir minni og birtist teikningin í bók hans um Íslandsförina árið 1811.

Langspil Hooker

Í bók Hookers var langspilið sýnt á haus

George Steuart Mackenzie

Sir George Steuart Mackenzie by WilliamGodwin

Sir Mackenzie (1780-1848) kom einnig við hjá Stephensen fjölskyldunni á Innra-Hólmi á reisu sinni árið 1810 sem hann greindi frá í mikilli bók sinni Travels on the Island of Iceland during the Summer of the Year MDCCCX, sem var gefin út árið 1811.  Mackenzie greinir svo frá langspilinu á bls. 146-47:

While busily engaged with our viands, our ears were all at once struck with musical sounds. Knives and forks were instantaneously laid down; and we gazed at each other in delight. Having heard nothing of the kind before in Iceland, except the miserable scraping of the fiddle in the Reikjavik ballroom, the pleasure we now derived from agreeable sounds and harmonious music, was very great. When our first surprise was over, and we could recollect ourselves, we thought that the music, which proceeded from an apartment above, was from a pianoforte; but we were told that it was an Icelandic instrument, called the Lang-spiel; and that the performers were the son and daughter of Mr Stephenson, whose proficiency upon this instrument was considered to be very great. The Lang-spiel, which was now brought down for our inspection, consists of a narrow wooden box, about three feet long, bulging at one end, were there is a soundhole,and termination at the end like a violin. It has three brass wires stretched along it, two of which are tuned to the same note, and one an octave lower. One of the two passes over little projections, with bits of wire on the upper part. These are so placed, that when the wire above them is pressed down by the thumbnail, the different notes are produced on drawing a bow across; and the other wires perform the same office as the drones of a bagpipe. In short, it is simply a monochord, with two additional strings, to form a sort of bass. When the instrument is near, it sounds rather harsh; but, from adjoining room, especially when the two are played together, as was the case when we first heard the music, the effect is very pleasing. The tunes we heard played were chiefly Danish and Norwegian. Mr Stephenson's daughter made me a present of her Lang-spiel,from which this description and the drawing were taken.

Við þessa frásögn er rista af langspilinu gerð af E. Mitchell.

 

Stanley Langspil
Stækkið myndina með því að smella á hana og berið saman við teikningu Hookers 

Eftir dóm um miður fallegan söng ungra stúlkna á Innra-Hólmi skrifar Mackenzie: Mr Stepenson's family is the only one in Iceland that be said to cultivate music at all.  He himself plays upon a chamber-organ, which he brought from Copenhagen a few years ago.

Innri-Hólmur 1789
 
Innri-Hólmur árið 1789. Vatnslitamynd eftir E. Dayes; Myndin teiknuð og vatnslituð eftir teikningum gerðum í leiðangri Stanelys á Íslandi árið 1789.

 

Auguste Étienne François Mayer

02663AH-B-045 b

Smellið á myndina til að stækka hana

Listamaðurinn Auguste Mayer (1805-1890)  ferðaðist með lækninum og náttúrfræðingnum Joseph Paul Gaimard (1796-1858) um Ísland árin 1835 og 36, og teiknaði af mikilli leikni það sem fyrir augun bar. Listaverk hans voru gefin út í þremur stórum bindum (Atlösum) sem fylgdu 11 binda ritröð um ferðir Gaimards til Íslands og Grænlands, sem bar heitið Voyage en Island et au Groënland. Ekki er í bókunum greint frá þeim "concert" sem frönsku ferðalangarnir upplifðu í hlóðaeldhúsinu á Grímstöðum á Fjöllum, en myndin sem birtist í öðrum atlas leiðangursins er steinprent (litógrafía) með lýsingunni: Un concert à Grimsstadir (Islande). Myndin er á við mörg langspil.

Benedikt Gröndal

Gröndal

Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1827-1907) verður að teljast með hér, þegar hann lýsir langspilsleik móður sinnar í Dægradvöl, bók sem út kom að honum látnum árið 1923 og var eins konar blogg þess tíma. Gröndal óð úr einu í annað. Kallinum þótti gaman að lífinu! Hann segir svo frá langspilinu í bókinni:

Um Langspil hjá Benedikt Gröndal: Dægradvöl (Afisaga Mín), Bókaverslun Ársæls Árnasonar , Rvík, Prentsmiðjan Gutenberg - MCMXXIII (bls. 40)

Einu sinni man jeg til at Bjarni Thararensen kom; jeg man eptir honum og sýndist mjer hann stærri en hann var í raun og veru, því að jeg var barn, en Bjarni bar sig hátt og ljet mikilmannlega; hann var á rauðum kjól, eðalmaður á hæð, baraxlaður og flatvaxinn; hann beiddi móður mína að spila á langspil, sem hún var ágætilega vel leikin í, og spilaði hún þá Lyt Elskede, ut", en Bjarni söng undir. Þetta hefur verið 1836 eða 7.; Þá voru Langspil alltíð á Alptanesi; í Mackenzies ferðabók er mynd af langspili með bumbu, alveg eins og móðir mín átti, með þrem strengjum, myndin er alveg rétt. Móðir mín var fræg fyrir þetta spil, hún ljek valsa og allskonar lög. Sum langspil voru ekki með bumbu, en einungis breiðari í þann endann sem hljóðopið var á og leikið var yfir; strengirnir voru þrír en nótur settar einungis á þann strenginn sem næstur manni var og hæst var stemdur. þar næst var strengur einni octövu lægri og svo bassinn. Í bók Ólafs Davíssonar um gátur og leiki og í Sunnanfara (nr. 6, 1893) er talað um langspil af töluverðum ókunnugleik (þar sendur og bls. 272 að M. St. hafi andast 1827) Ólafur ætlar að þau sjeu alíslenzk að uppruna,en þau eru sjálfsagt frá Noregi og heita (hjetu) "langeleg", "Langeleik" og "Langspel" (I. Aasen). Um langspil eru þessi vísa, líklega eptir Rósu;

"Netta fingur venur við
veifir slingur korða
hjartað stingur, fær ei frið,
fallega sýngur langspilið".

Vatnsenda Rósa

Það var Rósa Guðmundsdóttir (1795-1855) sem svo orti þannig um langspilið:

 

Hvort þetta var ort er Rósa var í þingum við Natan Ketilsson í Húnaþingi, eða síðar er hún bjó í Markúsarbúð undir Jökli (Snæfellsnesi), er ekki vitað, en falleg er vísan.

Ljósmyndir

Jón Goskall

Til eru tvær skemmtilegar ljósmyndir af mönnum sem leika á langspil. Ein er af Jóni Ásbjörnssyni (f. 1821), sem einatt var kallaður goskall. Jón var vinnumaður og bóndi víða í Borgarfirði og á sunnanverðu Snæfellsnesi en átti heima í Borgarnesi frá 1879 til dauðadags 1905. Myndina hefur Árni Thorsteinsson sennilega tekið (Úr ljósmyndasafni Þjóðminjasafns Íslands). Svo virðist sem Jóns leiki á langspil með bogadreginni hlið.

Klein Langspil 1898

Hin ljósmyndin var tekin einhvers staðar í Húnaþingi (Skagaströnd) af danska ljósmyndaranum Johannes Klein sem ferðaðist með Daniel Bruun um Ísland árið 1898. Bóndinn leikur á langspil með bogadreginni hlið (sem sumir kalla bumbu).


Stolnir gripir og rangar upplýsingar

Stolen from Iceland in NM Copenhagen

Í framhaldi af færslu minni í gær, sem fjallaði um algjört umkomuleysi og aumingjahátt íslenskrar minjavörslu og ráðuneyti hennar er Unnur Brá Konráðsdóttir bað menntamálaráðherra um svar um fornminjar frá Íslandi í erlendum söfnum, langar mig að upplýsa, að sumt þeirra gripa sem nú er að finna á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn var hreinlega stolið á Íslandi

Það á til dæmis við um ljósahjálminn (NM D 8073) úr Hvammskirkju (sjá t.d. hér) sem Daniel Bruun seldi Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn fyrir 300  krónur árið 1912. Það gat hann ekki samkvæmt íslenskum fornleifalögum frá 1907, sem sögðu til um að Forngripasafnið í Reykjavík hefði forkaupsrétt af öllum forngripum. Kapteinn Bruun rændi því forngripum á Íslandi og seldi Þjóðminjasafni Dana, sjálfum sér til vinnings.

Þegar þetta kom til umtals á milli mín, Olaf Olsens fyrrverandi þjóðminjavarðar og Þórs Magnússonar á þingi Þjóðminjavarða Norðurlandanna árið 1995, og ég sagði frá áformum Guðmundar Magnússonar setts þjóðminjavarðar að reyna að fá þennan og aðra gripi til Íslands, þá lýsti Þór Magnússon Guðmundi sem öfgamanni og taldi það af og frá að við ættum að biðja Dani um íslenska gripi í Kaupmannahöfn. Danski þjóðminjavörðurinn varð mjög undrandi á Þór, en vildi náttúrulega ekki missa íslensku gripina, þótt stolnir væru.

Svör Þjóðminjasafns Íslands eru fyrir neðan allar hellur

Ekki er var nóg með að þegar Unnur Brá Konráðsdóttir bað um upplýsingarnar, að hún fengi þær ónógar og aðeins það sem Matthías Þórðarson fyrrv. Þjóðminjavörður skráði þegar í byrjun 20. aldar(sjá hér). Nokkrir íslenskir gripir í Kaupmannahöfn fóru fram hjá Matthíasi og ég hef skrifað um þrjá þeirra í Árbók hins Íslenska Fornleifafélags árið 1984. Í skránni Sarpi er þess hvergi getið og þar tekur heiðurinn skrásetjarinn, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, en Matthías Þórðarson er sagður skrá hina gripina frá Íslandi í Sarpi. Matthías dó árið 1961, alllöngu áður en að Sarpur kom til.

Af hverju var ekki getið þess manns sem fann þá íslensku gripi sem Matthías fann ekki 70 árum fyrr?

innsigli Steinmóðs Ábóta
Ég uppgatvaði snemma á 9. áratug síðustu aldar, að á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn væru til innsigli Jóns Arasonar prests (síðar biskups) og Steinmóðs ábóta í Viðey, sem hér sést.
 

Maðurinn, sem ekki má nefna í Sarpi, og sem uppgötvaði gripi frá Íslandi í Kaupmannahöfn sem höfðu farið framhjá glöggu auga Matthíasar, þarf hins vegar að bíða í marga daga eftir því að fá upplýsingar um einn einasta grip í Sarpi, því starfsmenn þjóðminjasafnsins álíta greinilega Sarp sína einkaeign. En hugsanlega er þessi ófullkomna og greinilega mjög svo ranga skrá bara síðasta vígi stofnanakarlakerfisins, sem á Þjóðminjasafninu verður víst að kalla stofnanakerlingakerfi vegna kynjahlutfallsins þar.

Það myndi létta öllum vinnuna, ef Sarpur yrði gefinn frjáls. Þessi skrá, sama hve ófullkomin og full af rangfærslum hún er, er eign þjóðarinnar, en ekki ódugandi starfsmanna Þjóðminjasafns Íslands, sem geta ekki veitt þær upplýsingar sem þeim ber að veita, þótt það ætti ekki að vera mikið mál.

Þess ber að geta, að Margrét Hallgrímsdóttir var ekki að biðja um stolna ljósahjálminn eða aðra illa fengna gripi á Nationalmuseet í Kaupmannahöfn, þegar hún var þar um síðustu mánaðamót.


Menntamálaráðuneyti gefur rangar upplýsingar um fornminjar

Skrín
 

Í fyrra lagði Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins fram fyrirspurn á Alþingi til menntamálráðuneytisins um íslenskar fornminjar í erlendum söfnum. Áhugi þingmannsins er ánægjulegur. Við erum mörg sem teljum að fágætir íslenskir forngripir, sem erlend ríki hafa t.d. lagt eign sína á, þó svo að Ísland sé ekki í lengur í ríkjasambandi við viðkomandi ríki, eigi aðeins heima á Íslandi. Líkneskjaskrínið hér að ofan, sem er frá 13. öld, er t.d. að finna í Þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn, en var upphaflega eign kirkjunnar á Keldum á Rangárvöllum. Auðvitað á þetta skrín að vera á Íslandi og hefur ekkert að gera í Kaupmannahöfn.

Spurning Unnar hljóðaði þannig:

Á ráðuneytið skrá yfir íslenskar fornminjar varðveittar á erlendri grund og ef svo er, hvaða munir og minjar eru á þeirri skrá?

Ráðuneytið svaraði:

Samkvæmt þjóðminjalögum, nr. 107/2001, sem enn eru í gildi, eru fornminjar annars vegar fornleifar og hins vegar forngripir.  Þar sem fornleifar eru staðbundnar minjar eru engar íslenskar fornleifar til á erlendri grundu.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið sjálft á ekki skrá yfir forngripi sem varðveittir eru á erlendum söfnum en slík skrá er hins vegar til í menningarsögulega gagnagrunninum Sarpi, www.sarpur.is. Langflestir gripir eru varðveittir á Þjóðminjasafni Dana og til frekari upplýsingar má sjá á fylgiskjali lista sem tekinn er úr Sarpi yfir þá forngripi sem þar eru skráðir. Eitthvað er til af munum á öðrum söfnum, þó í mun minna mæli.

Menntamálaráðuneytið (Þjóðminjasafnið) gaf ónógar og rangar upplýsingar

Unnur Brá hefur því miður ekki fengið tæmandi svör frá Menntamálaráðuneytinu sem hlýtur að hafa ráðfært sig við starfsmenn Þjóðminjasafn Íslands.

Listi sá sem  Unnur Brá hefur fengið í hendur í kjölfar fyrirspunar sinnar er alls ekki tæmandi. Fyrir utan fornleifar og forngripi í dönskum og sænskum söfnum, er þá að finna annars staðar í Danmörku, á Bretlandseyjum, Hollandi, Frakklandi, Noregi og víðar. Um marga þeirra gripa hefur verið ritað í Árbók hins íslenzka Fornleifafélags og annars staðar. En greinilega hefur enginn haft fyrir því að setja upplýsingarnar um þá í Sarp. Ég hef t.d. skrifað um einn íslenskan grip í erlendu safni í Árbókina (sjá hér). Það er áhyggjuefni að Þjóðminjasafnið hafi ekki gert góða skrá yfir íslenska forngripi og muni sem í erlendum söfnum.

Dýrabein voru flutt út af erlendum fornleifafræðingum í stórum stíl á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Fæstum þessara beina hefur verið skilað. Ég þekki til þess að stóru beinasafni frá Stóru-Borg undir Eyjafjöllum hafi verið fargað á öskuhaugum New York, m.a. vegna þess að umhverfisslys varð í byggingu þeirri þar sem stofnunin, sem var með beinin að láni, var. Ef einhver hefur áhuga á að rannsaka niðurstöður bandaríkjamannanna sem tóku að sér að rannsaka beinin, og lofuðu sömuleiðis að skila þeim, þá er það ekki hægt í öllum tilvikum.

hunterc
Á Hunter College í New York fór mikið magn dýrabeina úr fornleifarannsóknum frá Íslandi forgörðum, þar sem í byggingunni varð alvalegt mengunarslys. Prófessor Thomas H. McGovern sem var ábyrgur fyrir rannsóknum á þeim beinum getur gefið yfirvöldum nánari upplýsingar um það eða aðstoðarmenn hans á Íslandi, Guðmundur Ólafsson og Mjöll Snæsdóttir sem í fjölda ára kölluðu sig fornleifafræðinga án þess að vera það.

 

Menntamálaráðuneytið segir réttilega í svari sínu til þingsmannsins, að engar íslenskar fornleifar findust á erlendri grund. Þetta er ekki alls kostar rétt. Til eru í söfnum á Norðurlöndunum heimildir og frumgögn um samnorrænar rannsóknir á fornleifum sem fóru fram á Íslandi. Þessi gögn eru heldur ekki talin upp í Sarpi.

Ekki get ég séð annað en að dýrabein þau sem fóru forgörðum í Nýju Jórvík á 9. áratug síðustu aldar séu forngripir samkvæmt þjóðminjalögum (sem nú heita Lög um menningarminjar) - og þess vegna tel ég víst að þingmanni  hafi verið gefin röng svör og gegn betri vitund starfsmanna Þjóðminjasafnsins, en þar vinna enn menn sem aðstoðuðu við útflutning dýrabeina til rannsókna.

Sarpur tilheyrir þjóðinni en ekki starfsmönnum safnanna

Í bréfi sínu til Unnar Brár Konráðsdóttur nefnir Menntamálaráðherra Sarp, líkt og það sé einhver Mímisbrunnur. En það getur oft reynst ári erfitt að fá upplýsingar úr þeim brunni.

Í síðustu viku bað ég t.d. um upplýsingar um einn grip á Þjóðminjasafni Íslands. Gripurinn ber númerið Þjms. 635. Starfsmenn þar hafa alla möguleika til að svara um hæl, því þeir geta flett upp í Sarpi, gagnasafni sem Íslendingar hafa borgað fyrir með skattpeningum sínum. Svar við fyrirspurn minni um einn grip hef enn ekki borist, þó svo að starfsmennirnir séu með Sarp í tölvum sínum og gæti hæglega slegið Þjms. 635 inn, klippt og límt uppklýsingarnar í gagnagrunninum til mín um hæl.

Það er líklegast ekki nokkur vafi á því, að nú er kominn tími til að allir hafi aðgang að því sem þeir hafa borgað fyrir. Sarpur á ekki að vera einkaheimild stofnanna sem geta ekki einu sinni veitt réttar upplýsingar til þingmanna landsins.

Ég á ekki sem fornleifafræðingur að þurfa að bíða eftir upplýsingum úr Sarpi upp á geðþótta starfsmanna Þjóðminjasafnsins sem geta ekki einu sinni gert almennilega grein fyrir forngripum sem týnst hafa í tímans rás á Þjóðminjasafni, eða sýnum sem hafa horfið. Það er algjörlega óviðunandi.

KronefraSydisland b
Ljósahjálmur í Þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn. Hjálmurinn er frá 15. öld og tilheyrði eitt sinn íslenskri kirkju. Nú er hann í geymslu danska safnsins engum til gagns.

»Allt út af einhverjum helvítis steini«

Kona í Perge

segir kona Íslendings, sem handtekinn var fyrir að hafa meintar fornminjar með í tösku sinni við brottför frá flugvellinum í Antalya á Tyrklandi sl. föstudag. Henni er vitanlega mikið niðri fyrir.

Reyndar eru svona dags daglega ekki seldar fornminjar á mörkuðunum við rústasvæðin í Perge og Aspendos, þar sem þau hjónin hljóta að hafa verið. Þetta hlýtur því að vera einhver stór misskilningur. Í Perge sitja oftast konur og selja perlur og leirmuni, og ef þær væru byrjaðar að selja ekta rómverskar styttur á 80€ væri líklega eftir því tekið.

Vill maður láta virða sín eigin lög, verður maður að virða lög í þeim löndum sem maður heimsækir.

Það hendir þó á stundum, að ferðamenn eyðileggi fornleifar eða taki með sér minjagripi sem þeir vita stundum ekki að eru fornleifar. Það eiga allir heilvita einstaklingar að vita, að maður á ekki að gera - jafnvel þeir sem koma frá löndum eins og Íslandi, þar sem Fornleifavernd og Minjastofnun leyfa byggingar hugarórabyggingar og suðrænar villur ofan á fornleifum og Þjóðminjasafnið týnir forngripum.

Upplýsingamiðill ferðamálayfirvalda í Tyrklandi www.goturkey.com, sem flestir lesa vitanlega ekki, vara menn einnig greinilega við því að kaupa fornleifar, og þar er fólki ráðlagt að hafa kvittanir á reiðum höndum fyrir kaupum á listmunum. Tyrkir hafa víst ekki enn gert sér grein fyrir því að ólæsi er líka mikið í öðrum löndum. Margir hafa víst lent í ströngu eftirliti Tyrkja á þessu sviði. Sjá hér

Í Tyrklandi er þjófnaður á fornleifum og ólögleg sala þeirra greinilega mikið vandamál, sem Tyrkir virðast helst vilja stöðva með því að stinga (blásaklausum) bláeygum útlendingum sem finna eða kaupa fornleifar í steininn. En það hendir einnig á stundum að útlendingarnir taka eitthvað með sér sem þeir finna og borga ekki fyrir.

Vonandi leysist úr máli Íslendingsins sem langaði í rómverska styttu fyrir 80 evrur, sem verður nú að teljast frekar ódýrt. En á Tyrklandi er fólk fátækara en Íslendingar í Svíþjóð. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband