Færsluflokkur: Ljósmyndafornleifafræði

Myndarlegir menn - töffarar fyrir sinn tíma

Þorvaldur og Vilhelm Copyright Kaldal--Fornleifur

Um þessa menn hef ég skrifað áður hér á blogginu og bendi fólki á að lesa það (sjá hér). Afi minn, Vilhelm [Árni Ingimar] Kristinsson, er þarna á myndinni. Hann er ungi maðurinn til hægri. Hávaxnari vinur hans og félagi til sjós hét Þorvaldur Ögmundsson. Hann tók út af skipi við austurströnd Bandaríkjanna og drukknaði fáeinum árum eftir að myndin var tekin.

Þrátt fyrir að ég hafi skrifað um myndina sem þjóðminjasafnið á og sent safninu upplýsingar um hana árið 2016, hafa menn það enn ekki fært upplýsingar mínar inn í skráningarkerfið á sarpur.is. Þar er enn lítið að finna um upplýsingar um myndina.

Ég fékk eiginlega helst á tilfinninguna að safnið tryði ekki upplýsingum mínum um að afi minn væri á myndinni; vegna þess að hún var tekin í Flensborgarskóla, þar sem afi minn stundaði ekki nám eins og ég upplýsti safnið skilmerkileg um. Hins vegar var skólameistarinn í Flensborg faðir Þorvalds vinar afa. Þorvaldur trassaði óskir föður síns, Ögmundar Sigurðssonar, um að hann færi menntaveginn. Þorvaldur fór í staðinn á sjóinn, sem var sá vegur sem hélt lífi í íslensku þjóðinni, sem ekki voru óðalsbændur.

Hann nýtti sér þann möguleika að fá teknar myndir af sér ásamt vini sínum þegar Kaldal kom og tók ljósmyndir af nemendum Flensborgarskóla, þar sem hvorugur þeirra stundaði nám. Vonandi skilur Þjóðminjasafnið þetta. Afi var eins og svo margir aðrir einfaldlega of fátækur til að geta lagt stund á nám, þó hann hefði gjarnan viljað það. Slíkt skilur sjálftökufólkið ekki í dag.

Þorvaldur og Vilhelm 2 Copyright Kaldal--Fornleifur

Síðastliðið haust, þegar ég leit eina kvöldstund í fjölmörg myndaalbúm móður minnar rakst ég á tvær aðrar myndir frá sömu upptökunni af Vilhelm afa og Þorvaldi í Flensborgarskóla, þar sem afi minn stundaði reyndar ekki nám, en þar sem myndin var nú samt tekin. Ég ljósmyndaði myndirnar sem móðir mín varðveitir. Myndir Þjóðminjasafnsins getið þið séð hér og hér.

Þjóðminjasafninu er því nú orðið alveg óhætt að bæta við og vitna í upplýsingar á Fornleifi á Sarpi og nefna afa minn, en ekki aðeins skrifa um skólastjórasoninn í Flensborgarskóla sem Jón Kaldal tók mynd af - með afa mínum. Afi minn var sonur verkamanns sem bar kolasekki við Reykjavíkurhöfn og varð loks undir einum slíkum sem féll niður á hann úr miklum stakki sem hrundi. Hann hálsbrotnaði. Enn er ekki finna nafn afa míns á Sarpi við þessa mynd, tveimur árum eftir að Þjóðminjasafnið fékk þær upplýsingar að hann væri á henni. Kannski hafa menn þar á bæ ekki áhuga á öðrum en heldri manna piltum? Ég tel það reyndar öruggt.

Ég geri mér vitaskuld grein fyrir því að það vinnur orðið svo fátt, sérmenntað starfsfólk á Þjóðminjasafninu. Þar vinna flestir nú orðið við einhvern krambúðarkassa, við gæslu, í fatahengi og kaffistofu (sjá hér), meðan að yfirmaðurinn gerir sér enn drauma um að verða prófessor án þess að hafa nokkuð fyrir því, annað en að vinna fyrir hið pólitíska viðundur Sigmund Davíð sem og í ígripavinnu við að reka fólk á öðrum stofnunum. Myndir segja svo margt (sjá hér), en þegar ljósmyndadeild Þjóðminjasafns Íslands er fyrirmunað að skrá upplýsingar um myndir sínar, þegar enn er til fólk sem getur sagt söguna, þá er illt í efni. Reyndar á þetta líka við um aðra muni en ljósmyndir. Þjóðminjasafnið er sannast sagna ekki orðið annað en frekar þreyttar sýningar sem engum breytingum taka og sem veita fjöldann allan af röngum upplýsingum.

Mig langar til gamans að upplýsa, að afi minn var með Þorvaldi á nokkru vertíðum á bátum og togurum frá Siglufirði. Afi þótti listakokkur og sinnti því starfi lengst af þegar hann var sjónum. Hann kom oft til Akureyrar, því honum þótti gott að fara á ball og á kaffihús. Gefinn var hann fyrir kökur, karlinn.


Let it slide

23 small Fornleifur ©

Hann er seigur, skyggnumyndabirgir Fornleifs á Englandi. Nú er hann búinn að finna enn eina mynd úr röð Riley bræðra og E.G. Wood. Að þessu sinni er það skyggna númer 23. Myndin er handlituðuð og framleidd af o merkt fyrirtækinu E.G. Wood. (Sjá lista yfir myndir skyggnufyrirlestranna um Íslands sem Riley-bræður seldu fyrst, og síðar E.G. Wood).

Á kant skyggnunnar er límdur lítill miði sem á stendur 32403 Plain of Thingvellir og með penna hefur verið skrifar OXARA. Skyggnan er merkt með hringlaga miða sem á stendur talan 23, en sá miðið er á milli glerferninganna lík og miði sem sýnir að skyggnan er úr röðinni England to Iceland og neðst í vinstra horni skyggnunnar er merki E.G. Wood fyrirtækisins sem var til húsa við 1-2 Queen Street við Cheapside í Lundúnum.

Myndin er tekin ofan frá Almannagjá og yfir Þingvallabæinn. Í baksýn má sjá Ármannsfellið og það grillir í Lágafell. Ljósmyndarinn hefur  staðið upp á vesturbakka Almannagjár.

Eymundsson original

Myndin var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og var ein þeirra mynda sem er að finna í varðveittu albúmi sem fyrrum lá frammi á ljósmyndastofu Sigfúsar. Í því gátu gestir á stofunni skoðað Íslandsmyndir og pantað kópíur til minningar um Íslandsdvöl. Svarthvít pósitífa er til af myndinni á Þjóðminjasafni Íslands (Lpr-1152-11).

Framleiðandi skyggnunnar, E.G. Wood, hefur vegna þess að glerskyggnurnar voru réttur ferningur, í þessu tilfelli 8,2 x 8,2 sm. að stærð ekki getað birt myndir Sigfúsar í heild og hafa því valið að notast við hluta myndarinnar

Ljóst er nú orðið og fullvíst, að Þorlákur Johnson og Sigfús Eymundsson, sem um tíma var með Þorláki í skyggnumyndasýningunum (sjá hér og hér) hafa notast við þessar myndir Sigfúsar þegar Íslandslýsing Riley bræðra og E.G. Wood voru framleiddar.

23 England to Iceland FORNLEIFUR COPYRIGHT

Myndin af skyggnunni efst sýnir einna helst það sem fólk sá við sýningar á henni á 19. öld, en þessi mynd er tekin með ljósi úr báðum áttum og sýnir ekki þann lit sem myndin hafði uppi á vegg.

Þessi skyggna ásamt mynd nr. 24 (sjá hér) eru elstu "litljósmyndirnar" frá Þingvöllum. Reyndar handmálaðar. Furðu sætir hve vel konurnar sem störfuðu við að mála skyggnur hjá þessum fyrirtækjum hafa náð litunum á Þingvöllum. Tvennt gæti komið til greina. Þingvellir eru fullir af síbreytilegum, jarðrænum litum og því auðvelt að geta sér til um þá án þess að hafa verið á staðnum. En hugsanlega gæti hafa verið send handlitið kópía með frá Íslandi til að leiðbeina þeim sem unnu við litun ljósmyndanna. En um þetta vitum við ekkert enn sem komið er, en hugsast getur að það finnist ritaðar heimildir sem geti gefið frekari upplýsingar.

Til eru aðrar handlitaðar litskyggnur á Þjóðminjasafni frá 1898, sem eru þó nokkuð yngri  en myndirnar frá E.G. Wood í London.  Þær voru teknar af enskum ljósmyndara T. Throup og hafa verið gefnar Þjóðminjasafni af T. Nokkrum Throup. Hvort ljósmyndarinn er sami maður og gefandinn gefur Þjóðminjasafnið ekki upp. Þeim ljósmyndum fylgir handrit/skýringar í stílahefti (Sjá hér og hérna) en takmarkaðar upplýsingar eru veittar um myndirnar af Þjóðminjasafn. Ein mynda Throup er sýn frá Almannagjá að Þingvallabænum og er myndin tekin nokkru norðar en mynd Sigfúsar Eymundssonar.

Hér verður enn undirstrikað að Íslandsskyggnur Riley bræðra og E.G.Wood eru í dag afar sjaldgæfar. Enn sem komið er eru myndirnar í forngripasafni Fornleifs þær einu sem þekktar eru og hjá LUCERNA sem eru samtök háskóla, safna og sérfræðinga sem rannsaka og safna laterna magica skyggnum, hafa menn enn ekki enn komist yfir myndir úr þessum röðum sem hægt var að kaupa til sýninga í samkomuhúsum fyrirlestrum í lok 19. aldar og byrjun þeirra 20.

Með komu kvikmyndanna hvarf áhugi á skyggnumyndasýningum mjög skyndilega og skyggnumyndirnar lentu svo að segja í glatkistunni. Það er fyrst á síðustu 20 árum að menn hafa sýnt því áhuga að safna slíkum myndum og rannsaka sögu framleiðslu þeirra og sýninga á þeim.


Ró á Austurvelli

Wood nr. 15 Fornleifur copyright

Númer 15 er fundin! Laterna magica skyggnumyndina hér að ofan, sem er handlituð, fann skyggnubirgir minn á Englandi nýlega í ruslakistu sinni. Sú kista reynist honum drjúg tekjulind, enda situr hann á miklum fjársjóð sá góði maður.

Myndin er úr röðinni góðu sem sem Riley Brothters og E.G.Wood framleiddu í samráði við menn á Íslandi og Skotlandi, og sem ég skrifaði um á Fornleifi fyrra í 10 köflum.

Myndin er af virðulegu þinghúsi okkar þar sem allt er nú í uppnámi nú vegna alls konar óra í sjóræningjum og æringjum. Einnig má sjá dómkirkju höfuðstaðarins. Þessi mynd var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og er t.d. þekkt á Þjóðminjasafni í tveimur gerðum (sjá hér ; Lpr-380 í lélegu ástandi.  Hina (Lpr-1152-9) er að finna í ljósmyndabók af ljósmyndastofu Sigfúsar Eymundssonar. Bókin lá frammi á stofunni og gátu viðskiptavinir pantað myndir úr henni. Margar myndir úr þessari ágætu bók sendi Sigfús líklega til þeirra sem framleiddu laterna magica skyggnur. Ljósmyndin er af Þjóðminjasafni sögð vera tekin 1882-1883.

Austurvöllur Sigfús

Nokkuð merkilegt er að ná í þetta og ég bíð eftir tveimur myndum til viðbótar, sem sagt verður frá við tækifæri á Fornleifi.

Drengurinn sem hallar sér upp að girðingunni við Austurvöll er Daníel Benedikt Daníelsson (1866-1933), sem var ættaður  norðan  úr Húnavatnssýslu. Hann var skráður sem smali á Þóroddstöðum í Staðarsókn um 1880. Miklu síðar gerðist hann bóndi í Brautarholti í Kjós. Starfaði einnig sem ljósmyndari, kaupmaður og veitingamaður á Selfossi og að lokum sem dyravörður í Stjórnarráðinu. Frægar eru Kleppsvísur í Speglinum sem fjalla um þegar hann reið sem sendill Hriflu-Jónasar með uppsagnarbréf handa Helga Tómassyni lækni á Kleppi (sjá hér).  Ef myndin hefur verið tekin 1882-83 hefur Daníel ekki verið eldri en 17-18 ára gamall.

Daniel Ben Danielsson

Myndin á skyggnunni hefur verið skorin aðeins þannig að ekki sést t.d. í styttuna af Bertel Thorvaldsen sem þá stóð á Austurvelli.

Mér þykir sjálfum afar gaman að sjá þessa mynd af Alþingishúsinu nýbyggðu. Langalangafi minn Sigurður Bjarnason sem fluttist úr Skagafirði vegna fátæktar (hann var það sem í dag er kallað flóttamaður) og sonur hans Þórður (sem unglingur) unnu báðir við byggingu Alþingishússins.

Alþingishúsið 1883 b

Þegar Sigfús tók þessa mynd stóð hann ekki langt frá hinum mjög svo umtalaða Víkurgarði sem allir vildu bjargað hafa. Þar telja fornleifafræðingar sig hugsanlega hafa fundið heiðnar grafir undir þeim kristnu. Ég leyfi mér að efast um það þar til ég sé sannfærandi sönnunargögn því til stuðnings.

Ég tel persónulega að með eins mikla byggð og nú hefur verið sýnt fram á í kvosinni á víkingaöld, hafi kuml landnámsmanna og afkomenda þeirra, sem ekki voru kristnir, verið ekki mjög langt undan. Ég leyfi mér að benda á mjög merka ljósmynd í fórum Ljósmyndasafns Þjóðminjasafnsins OKKAR, sem tekin var  árið 1868 og einnig af Sigfúsi Eymundssyni. Tel ég myndina sýna staðinn þar sem Ingólfur og hinir íbúarnir í Víkinni voru heygðir. Þarna á þúfunum (kumlunum) er löngu búið að byggja hús. En hver veit – í garði rússneska sendiráðsins eða aðeins sunnan við hann gæti verið að kuml fyrstu "víkinga" Víkur séu enn að finna undir reynitrjánum.

Reykjavík 1868

Þegar Hótel Kirkjugarði verður plantað niður í Víkurgarð - því menningarlegu peningavöldin, sem stjórna boginni nú, eru afhuguð menningu - ætla ég nú rétt að vona að hótelhaldarar verði þjóðlegir og hafi myndir í römmum af beinum úr garðinum og nærmyndir af holdsveikum í morgunverðarsalnum. Það er áhugavert fyrir ferðamenn að stúdera slíkt þegar þeir borða árbítinn, innifalinn eða óinnifalinn. Ég er til í að láta hóteleigendum í té litmynd af Austurvelli frá 1889! til að hafa yfir kaffivélinni, en það mun vitaskuld kosta þá dýrt.

Menning kostar nefnilega, en það er svo billegt að eyða henni.


Sofie með örið

img_6429_detail2

Lesendur Fornleifs tóku ef til vill eftir greinaröð sem hér birtist um fyrstu Íslandsmyndirnar sem sýndar voru með Laterna Magica ljóskösturum. Myndirnar eru í dag afar sjaldgæfar og sjaldséðar. Ef þið hafið ekki lesið um þessar myndir, hafið þið vissulega misst af stórviðburði. Nú vill svo vel til að Fornleifur selur ekki dýrt inn á almennings-fræðsluverkefni sín, enda drifinn áfram af þeirri hugsjón að ef eitthvað er að gefa skal því miðlað til allra sem vilja heyra og sjá. Hér getið þið lesið allar greinarnar um Íslandsseríu Riley bræðra frá ca. 1883.

Menn í skyggnumyndaiðnaði 19. aldar höfðu ekki aðeins áhuga á Íslandi. Grænland og íbúar þess voru einnig í uppáhaldi þegar Englendingar létu heillast af myndafræðslu áður en kvikmyndirnar komu til að vera.

Fyrr í ár keypti Fornleifur myndir úr annarri af skyggnumyndum frá 1889/90, sem eru álíka sjaldgæfar og myndirnar frá Íslandi. Þær eru allar handlitaðar. Nú rita ég grein fyrir tímarit í Danmörku um þessar myndir mínar sem voru öllu dýrari að eignast en myndirnar frá Íslandi – en að sama skapi áhugaverðari. Myndirnar eru  handlitaðar eftir leiðbeiningum frá þeim sem tóku myndirnar og hafa því verið framleiddar árið 1890 eða skömmu síðar.

Hér fá lesendur Fornleifs sýnishorn áður en myndirnar í hans eigu birtast erlendis. Myndin efst var tekin í Upernavik snemma í júnímánuði árið 1889. Með hjálp dagbókar leiðangursmanna þeirra sem tóku þessa og aðrar myndir á Grænlandi árið 1889 hef ég dundað mér við að komast að því hvað fólkið á myndunum heitir og leita annarra upplýsinga. Það hefur tekist vonum framar, því flestar kirkjubækur Grænlands eru á netinu og önnur þekkt ljósmyndasöfn frá Grænlandi eru betur aðgengileg en svipuð söfn á Íslandi.

Örið á augnbrúninni gefur vísbendingu

Fjórar fríðar heimasætur sátu fyrir í Upernavik árið 1889 í sínu fínasta pússi. Stúlkan sem sat fremst hét Sofie (f. 1876; Fullt nafn: Olava Sofie Emma Kleemann). Var hún dóttir þýsks manns sem settist að á Grænlandi og sem kvæntist hálfgrænlenskri konu, Agathe Willumsen. Ferðalangar þeir sem tóku myndina vissu ekki

Sofie og arret 2

Sofie Kleemann, síðar Karlsen, frá Upernavik í byrjun júní 1889. Ljósmynd í eigu Fornleifs.

hvað stúlkan hét. En það get get ég nú sagt með vissu vegna tveggja annarra mynda sem þekktar eru af henni. Ein var tekin af henni, foreldrum hennar og yngri systkinum af Dana sem hét Carl Hartvig Ryder árið 1887, en hin var tekin árið 1956 er hún var öldruð kona (80 ára) og orðin blind. Örið á hægri augnbrúninni hefur Sofie fengið á unga aldri. Það sést greinilega á glerskyggnunni frá 1889, og það er enn yfir auganu á myndinni frá 1956. Ljósmyndafornleifafræði getur verið skemmtileg grein.

Sofie 3

Sofie Karlsen í Upernavik árið 1956. Ljósmynd Jette Bang.

Arktisk Institut, Kaupmannahöfn.

 

Kleemann familie Upernavik

Sofie Kleemann lengst til hægri ásamt foreldrum sínum Heinrich og Agathe og yngri systkinum. Ljósmynd Carl Hartvig Ryder 1887.

Þakkað með handabandi

Leiðangursmenn, sem tóku myndir á Grænlandi árið 1889, höfðu verið á Íslandi árið 1887. Þar höfðu þeir einnig tekið ljósmyndir, sem enduðu hins vegar ekki sem myndir í skyggnuseríum. Búið var að framleiða slíka röð eins og ofar greinir. Leiðangursmenn höfðu búnað um borð á skipum sínum til að framkalla og sýna fólki myndir af því meðan það beið. Það gerðu þeir einnig á Grænlandi og greindu svo frá er þeir voru á verstöðinni og verslunarstaðnum í Nugssuak yst á samnefndu nesi norðan Discoeyju:

I photographed the Governor, his wife, and the chief Esquimaux, a fine looking fellow. I presented each with a copy, and here as in Iceland, I noticed that on receipt of a present the recipient shakes hands with the donor.


Nýjar fregnir af karlinum í strýtunni

karlinn_naermynd.jpg

strytukarl.jpg

Bergþóra Sigurðardóttir, sem er læknir á eftirlaunum og mikill áhugamaður um náttúru landsins, ritaði Fornleifi snemma í dag og gerði viðvart um mynd af sama manninum sem ritað var um hér á Leifi í febrúar á sl. ári.

Í merkilegri bók Tempest Andersons, Volcanic Studies in many Land frá 1903, sem Bergþóra hafði lesið, bregður sama rauðhærða manninum fyrir á mynd (sjá hér efst). Það er þó ekki sama myndin sem varðveitt hefur verið á safni í York, og sem skrifað var um hér á Fornleifi í fyrra.

Nú er sömuleiðis ljóst að upplýsingin við skuggamyndina sem varðveitt er í Jórvík er röng. Myndin getur á engan hátt hafa verið tekin nærri Laxamýri. Enda kemur fram í bók Andersons frá 1903, að ljósmyndin af rauðhærða karlinum í strýtunni sé tekin norðvestur af Mývatni.

Ég þakka Bergþóru Sigurðardóttur innilega fyrir upplýsingarnar. Vona ég svo að áhugasamt fólk leiti nú uppi þessar strýtur og hugsi út í það hver karlinn á myndinni hafi verið. Ef til vill var þetta vinnumaður séra Árna Jónssonar (1849-1916) á Skútustöðum sem einnig var í för með Tempest Anderson á þessum slóðum. Hvað hét karlinn í strýtunni? Allar ábendingar eru vel þegnar.

karl_i_strytu_2.jpg


Ísland í töfralampanum 1-10

 

Ísland í töfralampanum

LATERNA MAGICA ISLANDICA

Höfundur og sýningarstjórar: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (og Fornleifur)

 laterna_1.jpg

Samantekt af færslunum Ísland í Töfralampanum 1-10

Fornleifur 2016

 

1. kafli

magic-lantern.png

Inngangur og minningar

Nýverið var hér á Fornleifi greint frá fyrstu kvikmyndinni sem tekin var upp á Íslandi. Hún hefur því miður fallið nokkuð í gleymsku, enda  eru engin þekkt eintök af henni til. Við höfum þó lýsingar um efni hennar eftir kvikmyndatökumanninn.  

Nú heldur myndafornleifafræði Fornleifs áfram. Næstu daga býður Fornleifur lesendum sínum  upp á nokkrar myndasýningar og tilheyrandi fróðleik upp á gamla mátann. Það verða því miður ekki týndar íslenskar kvikmyndir heldur myndaskyggnur, einnig kallaðar skuggamyndir, sólmyndir eða  ljóskersmyndir. Fyrir þá sem ekki muna tímana tvenna, verð ég að skýra út fyrir ungu kynslóðinni. Myndunum var varpar upp á tjald eða vegg með hjálp ljóskastara/lampa, sem kallaður var Lanterna Magica, eða töfraljósker og töfralampi á íslensku.  

Engin þörf er hins vegar lengur á að sýna myndirnar á tjaldi með lampa, enda eru það skyggnurnar sem er hið bitastæða og þær er í dag meira að segja hægt að sýna á bloggi og gera þannig fleirum kleift að sjá myndir frá Íslandi 19. aldar.

Þetta verður fróðleikur um einu varðveittu Laterna Magica glerskyggnurnar frá 19. öld með myndum af fólki og náttúru Íslands. Fornleifur festi fyrir skömmu kaup á slíkum myndum á  Bretlandseyjum. Þær eru nokkuð einstakar og afar sjaldséðar. Sérfræðingar sem skráð hafa og fengist við að safna fræðslu- og ferðaskyggnum frá síðari hluta 19. aldar við háskóla á Bretlandseyjum og í Þýskalandi hafa aldrei séð svo gamlar skyggnur með myndum frá Íslandi. Áður en Fornleifur fann þær og keypti voru þær aðeins þekktar úr sölulistum, katalógum, frá fyrirtækjum á Bretlandseyjum sem framleiddu og seldu seldu slíkar skyggnur á síðari hluta 19. aldar.

Laterna Magica í Stykkishólmi árið 1966

Fæstir Íslendingar hafa líklega séð skyggnumyndir sýndar með laterna magica vél. En ég er nú svo gamall að hafa orðið vitni að sýningum með slíkri vél. Það var í Stykkishólmi árið 1966, þar sem ég dvaldi nokkrar vikur í sumarbúðum hjá kaþólskum nunnum  St. Franciskusreglunnar, sem þær ráku í samvinnu við Rauða Krossinn. Reglan reisti spítala í Stykkishólmi á árunum 1934-1936. St. Franciskussysturnar sáu að miklum hluta um rekstur á spítalanum allt fram til 2006 að spítalinn var seldur íslenska ríkinu. Klaustur er þar enn og síðar er komin önnur regla en St. Franciskusarreglan í klaustrið í Sykkishólmi, en það er önnur saga.

stykkisholmsspitali.jpgÁ efstu hæð spítalans í Stykkishólmi, eiginlega undir þakinu á hæð þar sem gluggarnir voru einungis mjóar rifur, gistu krakkar, kaþólskir og aðrir og tilheyrði ég síðastnefnda hópnum. Nunnurnar í Stykkishólmi voru hinar bestu konur, sem kunnu að annast börn. Öllum leið þar vel. Manni þótti vitaskuld skrítið að búa á spítala þar sem einnig var vistað fatlað fólk, andlega vanheilt og elliært.  Spítalinn var víst að hluta til útibú fyrir konur frá Kleppi eins og Ólafur P. Jónsson læknir lýsti í læknablaðinu árið 1960 (sjá hér og hér). Ólafur skrifaði "...hafa að jafnaði verið vistaðar hér frá 19 og upp í 23 konur á vegum Kleppsspítalans. Hin síðari ár hafa auk þess dvalið hér nokkrir fávitar."

Meðal krakkanna sem dvöldu í Stykkishólmi fóru miklar sögur af konu sem kölluð var Gauja gaul, sem átti það til að góla og garga. Ég sá hana aldrei, en við krakkarnir töldum okkur stundum heyra í henni, að því er við héldum. Þó alltaf væri mikið brýnt fyrir okkur að hlaupa ekki niður tröppurnar með látum, flýttum við okkur venjulega á tánum framhjá þeirri hæð þar sem hún dvaldist á, þegar við gengum niður tröppurnar á Spítalanum til að komast í matsal og tómstundasal á jarðhæð. Við mættum hins vegar stundum "fávitum" Ólafs læknis á ganginum og held ég að maður hafi líklega fyrr en flestir jafnaldra sinna lært sitthvað um veikleika mannkyns og að bera virðingu fyrir lítilmagnanaum við að dvelja hjá nunnunum í Hólminum.

Dvölin í Stykkishólmi var ævintýri líkust og nunnurnar, sem sumar voru menntaðar í uppfræðslu barna, áttu sem áður segir einnig töfralampa. Hann var af tiltölulega nýrri gerð, af síðustu tegund slíkra slíkra lampa sem framleiddir voru, fyrir utan ráðstjórnarríkin . Þetta var ekki skyggnumyndavél fyrir 35 mm 'slætur' eða stærri glerskyggnur (6x6) sem einnig voru þá á markaðnum. Myndarúllum í lit og svarthvítu var rennt gegnum vélina með handafli. Sýningar úr þessari vél þóttu krökkunum mjög merkilegar, þó maður kæmi frá heimili með Kanasjónvarpið þar sem hægt var að horfa á teiknimyndir allan liðlanga laugardaga og stundum aðra daga líka.

Systur sem hétu Harriet, Lovísa og Henríetta, sumar hverjar frá Belgíu, svo og íslenskar konur sem unnu í sumarbúðunum, sýndu okkur þessar myndir fyrir háttinn í lok leiktíma á kvöldin og sögðu okkur sögur með þeim. Eins var horft á myndasyrpur úr töfralampanum þegar veður voru vond og ekki tilvalin til útiveru.

scan10009_a.jpg

Ekki á ég neinar ljósmyndir frá laterna magica myndasýningum nunnanna í Stykkishólmi, en hér er ég að vega salt, nýkominn í Stykkishólm vorið 1966. Ég sit þarna efst á saltinu, himnasendur fyrir framan kapelluna við St. Franciskusarspítala í Stykkishólmi. Vel var tekið á móti eina dökkhærða drengnum í Stykkishólmi það sumarið. Flestir drengjanna á þessari mynd voru úr þorpinu og vildu vera vinir manns vegna þess að ég var úr Reykjavík. Það var sjaldan að þeir sáu slíka villinga úr stórborginni. En fyrst og fremst var ég nú áhugaverður vegna þess að ég átti forláta sverð úr plasti með rómversku lagi. Sverðið kom ekki  með mér suður að lokinni 5 vikna dvöl. Eins og þið sjáið  á myndinni var höfðingi hinna ljóshærðu þegar búinn að semja frið við þann hrokkinhærða að sunnan fyrir rómverska brandinn. Líklega hef ég gefið heimamönnum sverðið að lokum fyrir vernd og vinsældir. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir

holmarar_me_sver_i.jpg

Ægir í Hólminum

Við smá eftirgrennslan á veraldarvefnum fann ég nafn á manni, Ægi Breiðfjörð Jóhannssyni, sem ég taldi líklegan til að vita eitthvað um sýningarvél nunnanna í Stykkishólmi. Ég hringdi nýlega snemma morguns í Ægi, en hann er umsjónamaður fasteigna á St. Franciskusspítala í Hólminum og bloggari á blogginu Gáð ofan í Glatkistuna. Ægir er einnig mikill áhugamaður um Camera Obscura(sjá hér).

Hann hefur líklega haldið að það vantaði rúm uppi á 3. hæð. Fljótlega kom í ljós að Ægir er mikill áhugamaður um Laterna Magica, því hann hefur í sínum fórum sýningarvél St. Franciskussystranna í Stykkishólmi og myndarúllur þeirra.

lanterna_magica_sth_2_1280682.jpg

Hér sést sýningarvélin í Stykkishólmi og lítið safn nunnanna af rúllum með myndasyrpum fyrir þessa vél. Ljósmynd Ægir Breiðfjörð Jóhannsson.

Ægir sendi mér góðfúslega mynd af sýningarvélinni og sömuleiðis af nokkrum af þeim rúllum sem sýndar voru í þessari vél. Ég taldi mig muna sýningar á rúllum með belgísku teiknimyndafígúrunum Strumpunum. Þar leiðrétti Ægir mig, því hann finnur aðeins i dag kvikmyndir með Strumpunum. Kvikmyndir voru líka sýndar í Stykkishólmi, en sjaldnar, því ég man að peran sprakk í kvikmyndsýningarvélinni meðan að ég var í Stykkishólmi. Kassinn með rúllunum á myndinni hér fyrir ofan inniheldur ýmis konar efni ættað frá Belgíu, og tel ég ljóst, að nunnurnar hafi ekki sýnt okkur allt. Ekki man ég t.d. eftir mjög safaríkri rúllu um heilaga Fatímu frá Portúgal, sem Ægir sendir mér mynd úr. Skyggnulýsingar með henni hafa nunnurnar unað sér við eftir að börnin voru farin að sofa. Það er kaþólskt hard-core og aðeins fyrir fullorðna.

Þarna var hann þá aftur kominn, töfralampi æsku minnar, sem enn var mér minnistæður eftir 50 ár. Tækið var af fínustu gerð frá Karl Leitz í Þýskalandi. Mér sýnist einna helst að að þetta sé Ernst Leitz Episcope af gerðinni Leitz/Leica Prado 500, með 200 mm Dimar linsu. Myndasyrpan hér fyrir neðan er gerð úr eftirmyndunum sem Ægir Breiðfjörð Jóhannsson hefur látið gera eftir rúllunum belgísku í Stykkishólmi. Mér telst til að rúllur þessar í Hólminum séu það sem menn koma næst Dauðahafsrúllunum í Hólminum.

myndir_i_stykkisholmi.jpg

myndir_ur_stykkisholmi_2.jpg

 
2. kafli
 

db_hoedafnemen.gif

Sælt veri fólkið. Fornleifur bíóstjóri tekur ofan hattinn fyrir þeim sem nenna að lesa og fræðast. (Sjá 1. hluta þessarar vefgreinar hér).

Fáir vita líklega, að löngu að fyrir aldamótin 1900 fóru fram Íslandskynningar með hjálp Laterna Magica skuggmyndasýningavéla eða töfralampa. Það var þó ekki einungis erlendis að menn gátu séð Ísland úr lömpum. Reykvíkingar stóðu, að því er virðist, í biðröðum til að sjá skuggamyndir.

Myndasýningar með Íslandsmyndum hafa líklega hvatt einhverja útlendinga til Íslandsferða. En slíkar sýningar myndu væntanlega ná skammt gegn þeim apparötum og töfratækjum sem hafa valdið því að vart er á Íslandi nútímans hægt að þverfóta fyrir erlendum ferðamönnum, að ógleymdum amerískum óraunveruleikastjörnum sem látið hafa stækka á sér barminn og rasskinnar. Nú þykir víst mest virði að vita hvað "fylgjendur" rassstórra Ameríkana finnst um okkar volaða, en tvímælalaust frábæra, land.

Laterna Magica, í sem fæstum orðum

En hvað er Laterna Magica, eða töfralampi? Töfralampinn er talinn er hafa orðið til á 17. öld og var notaður vel fram á 20. öld. Hann er til í margs konar gerðum og stærðum. Venjulega samanstendur lampinn af eldföstum kassa eða öskju, þar sem í er settur ljósgjafi, kerti, olíulampi, gasljós og síðar rafmangspera. Einnig voru í kassanum speglar. Fyrir framan ljósgjafann inni í kassanum er brugðið eða rennt glerskyggnu, handmálaðri mynd, síðar ljósmyndum og jafnvel handlituðum  ljósmyndum. Linsa eða linsur sjá um að safna myndinni og henni er varpað upp á vegg eða tjald. Til að nota ekki of mikinn tíma í hinar tæknilegur hliðar og gerðir laterna magica skyggna og sýningavéla, sem eru mikil fræði og fróðleg, þykir mér viturlegast að benda mönnum á að lesa sér allt til um það á hollenskri vefsíðu, sem er sú besta í heimi um þetta fyrirbæri, fyrirrennara skyggnusýningavéla og kvikindasýningavélanna. Vefsíðan ber heitið de Luikerwaal og er síðan einnig á ágætri ensku. Henni er stjórnað af Henc R.A. de Roo, áhugamanni og safnara töfralampa og skyggna. 

kirchers_bog_1280887.jpgTöluverð skoðanaskipti hafa verið um hinn eiginlega upphafsmann þessarar uppfinningar. Þjóðverjanum og Jesúítanum Athanasius Kircher hefur lengi verið eignaður sá heiður, en nú má þykja alveg víst að hann hafi aldrei notað slíkt tæki. Hann lýsir Laterna Magica í bókinni Ars Magna Lucis et Umbrae sem út kom í Amsterdam með myndum árið 1671 (sjá mynd). Skýringar í bókinni sýndu að Kircher var rúinn skilningi á því hvernig töfralampinn virkaði. Hann fullvissaði menn þó á afar sannfærandi hátt, líkt og góðum jesúíta sæmir, um að apparatið væri ekki uppfinning djöfulsins og illra afla.

Aðrir höfðu lýst þessu tæki og notað það miklu fyrr en Kircher. Til dæmis danski fræðimaðurinn Thomas Walgenstein, sem sýndi myndir með Laterna Magica í Rómarborg árið 1665. Enn fyrri til var hollendingurinn Christiaan Huygens sem þegar árið 1659 hafði teiknað dæmigerða Laterna Magica sýningavél sem ekki var mjög frábrugðin þeim sem þekktust á 19. öld. (Sjá frekar hér).

Áður en eiginlegar ljósmyndir voru fundnar upp, voru allar laterna magica-skyggnur handmálaðar teikningar. Efni myndanna var fjölþætt og stundum var leikið á áhorfandann með einföldum sjóhverfingum þannig að fólki sýndist persónur eða hlutir á myndunum hreyfa sig.

db_hemelvaart2_1280719.gif

Laterna Magica varð vitaskuld mjög fljótt vinsælt leikfang í Vatíkaninu.

Þess vegna voru sýningar á Laterna myndum mjög vinsælar, eða allt þar til þær dóu drottni sínum, en bæði í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum voru þær lengi notaðar við kennslu og alls kyns áróðursstarfsemi, eða allt fram yfir 1970.

209390.jpg

Áður en að ljósmyndir voru færðar yfir á glerskyggnur, þekktust líka skyggnur með handmáluðum myndum af "íslenskum stöðum". Þessi mynd frá síðari hluta 19. aldar á að sýna Heklu. Myndin er greinilega undir sterkum áhrifum af mynd úr útgáfu af riti þjóðverjans Dithmars Blefkeníus Scheeps-togt na Ysland en Groenland, sem út kom árið 1608 í Leiden í Hollandi. 

blefkenius_b.jpg

Hrúturinn "Erlendur", sem er nú forystusauður í hjörð Fornleifs bónda (sjá hér), varð einnig að stjörnu á töfralampatímabilinu. Myndin er frá fyrri hluta 19. aldar og er handmáluð á gler. Hann er nú kominn í hrútakofa Fornleifs og líður vel.

erlendur_a_glerinu_c_1287499.jpghruturinn_erlendur.jpg

Laterna Magica sýningar í Reykjavík á 19. öld

Orðið skuggamynd, þ.e. í þýðingunni skyggna eða ljóskersmynd, kemur fyrst fyrir í íslensku máli árið 1861. Áður höfðu tvö nýyrði litið dagsins ljós: Ljósmynd árið 1852 og sólmynd árið 1854. Nútíminn sigldi nú hratt að Íslands ströndum.

Árið 1861 birtist þessi frétt í Íslendingi um turnreiðarhátíð í Berlín þar sem ­þýskir vopnabræður minntust Þriggja ára stríðsins eða 1. Slésvíkurstríðsins gegn Dönum á mjög hatursfullan hátt. Danir unnu það stríð:

Í Berlinni stóð slík hátíð fyrir skemmstu með hinum mesta veg og viðhöfn. Við leikinn í »Viktoríuleikhúsinu« var sunginn og sleginn hergöngusöngur »Sljesvíkur-Holtseta«; sló þá í óþrjótandi lófaskelli með heyrendum. Söngurinn var endurtekinn, en því næst sýndur í skuggamyndum bardagi Kílarstúdenta við Flensborg (1848), þar er margir af þeim fjellu eptir drengilega vörn. Þá stóð upp maður frá »Sljesvík-Holtsetu«, er barizt hafði móti Dönum, og mælti nokkur »hjartnæm« orð til þeirra, er við voru staddir. Af því, er þýzk blöð segja hjer um, má marka, eins og af öðru, hve rík hefndarfýsin og hatrið við Dani er meðal manna á Þýzkalandi.

Árið 1874 birtist auglýsing í blaðinu Víkverja. Hún hljóðaði svo:

„Til hagnaðar fyrir Sunnudagaskólann verða í Glasgow 1. mars sýndar skuggamyndir og nokkrar sjónhverfingar."

Hvort þarna hafa verið sýndar ljósmyndir eða handmálaðar myndir sem sögðu t.d. biblíusögur, er ekki víst. Stórhýsið Glasgow sem reist var árið 1863 af skoskum mönnum í Grjótaþorpinu við Vesturgötuna (en brann því miður árið 1903) hafði sal sem gat tekið allt að 200 manns í sæti. Margir Reykvíkingar gætu því hafa séð skuggamyndir á þessum árum. Líklegast tel ég að Sigfús Eymundsson hafi séð um þessar sýningar, en hann sýndi fyrstur Íslendinga myndir árið 1870.

glasgow1885.jpgStórhýsið Glasgow í Reykjavík. Ef til vill fyrsti staðurinn á Íslandi þar sem myndir voru sýndar með töfralampanum.

Þorlákur Ó. Johnson

Árið 1883 hélt Þorlákur Ó. Johnson kaupmaður (f. 1838), sem var lærður í verslunarfræðum á Skotlandi og í London, „panóramasýningar" á Hótel íslandi. Þorlákur hafði dvalið 17 ár erlendis og lengst af á Bretlandseyjum. Hann kynntist töfralampasýningum erlendis, og er hann sneri heim árið 1875, hóf hann slíkar sýningar með Sigfúsi Eymundssyni. Þess má geta, að Þorlákur var náfrændi Jóns Sigurðssonar. Síðar á skyggnusýningaferli sínum lauk hann jafnan sýningum og fyrirlestrum með mynd af þeim hjónum Jóni forseta og Ingibjörgu.

Á árunum 1883-1892 stóð Þorlákur fyrir skuggamyndasýningum sem hann nefndi einatt "skemmtanir fyrir fólkið". Hann bauð eitt sinn 400 börnum til slíkrar kvöldskemmtunar og gaf þeim mjólk, kökur og fleira. Þá héldu hinir velmegandi í Reykjavík, að hann væri af göflunum genginn. Þeir ríku á Íslandi tóku sér líkt og í dag væna sneið af kökunni áður en þeir fóru yfirleitt að hugsa um fátæklinga og börn. En í börnum voru góðir viðskiptavinir á töfralampasýningar Þorláks. Þorlákur var nú ekki eins vitlaus og burgeisarnir héldu.

Skemmtanalíf Reykvíkinga var að sögn fremur lítilfjörlegt á síðari hluta 19. aldar. Margar sögur fara af drykkjuskap meðal verkafólks og sjómanna - já og skálda og menntamanna. Þorlákur vildi vinna gegn þeirri eymd (um leið og hann flutti inn vín og whisky) og stofnaði ásamt Matthíasi Jochumssyni og öðrum góðum mönnum Sjómannaklúbbinn í október 1875, "hollan griðastað til menntunar og endurnæringar, þegar þeir væru í landi og annars hefðu lítinn þarflegan starfa með höndum". Þorlákur var sömuleiðis fyrstur Íslendinga til að auglýsa varning sinn í blöðunum. Myndasýningar sínar auglýsti hann einnig. Hann flutti t.d. inn "Eldspýturnar þægilegu og Þjóðfrelsis whisky fyrir fólkið". Þegar hann var ekki að kenna Vesturförum Lundúnaensku.

Ef Fornleifur hefði verið samtímamaður Þorláks hefði hann líklega verið nýjungagjarnari en hann er nú, og þegið glas af Þjóðfrelsiswhisky og tvær syrpur úr töfralampanum hjá Þorláki Ó. Johnson. Sjómannaklúbburinn varð hins vegar ekki langlífur, enda þóttu vín og whisky Þorláks betri skemmtun en "fjörið" í klúbbnum.

_orlakur_johnson_1280890.jpg

Skuggamyndakonungur Íslands, Þorlákur Ó. Johnson, á yngri árum.

Þorlákur hóf skuggamyndasýningar í samstarfi við Sigfús Eymundsson ljósmyndara, en Sigfús sýndi fyrstur manna svo vitað sé skuggamyndir á Íslandi. Það var árið 1870. Samvinna þeirra stóð ekki lengi, eða innan við ár, en Þorlákur hélt síðan áfram sýningum nokkur ár. Myndir Sigfúsar og annarra frá Íslandi voru hins vegar notaðar til gerðar myndasyrpa með ljósmyndum frá Íslandi, eins og fram kemur í síðari köflum þessa raðbloggs um Töfralampasýningar á Íslandi.

hotel_sland.jpg

Hótel Ísland (það fyrsta) var staðurinn þar sem "fólkið í Reykjavík", fór á Panórama-sýningar í salnum með lokunum fyrir gluggana. Loka þurfti fyrir stóra gluggana á Stóra Salnum til að hafa gott myrkur við sýningarnar. Myndin er rangt feðruð og aldursgreind af Þjóðminjasafninu en sauðakaupmaðurinn John Coghill sést á myndinni ásamt fríðu föruneyti.

1883 Skuggamyndasýningar Þorláks voru fyrst auglýstar í Ísafold þ. 19. desember 1883:

"Fyrir sveitamenn og aðra, er koma til Reykjavíkur um jólin og nýárið - ­ þá verða sýndar á Hótel Ísland fallegar skugga myndir eða Panorama ­ í allt 150 myndir  -­ bæði frá London -­ Ameríku -­ Edinborg - ­ Sviss -­ París -­ Ítalíu ­ Afríku og fleiri löndum."

Veturinn 1884 hélt Þorlákur nokkrar sýningar í félagi við Sigfús. Lúðvík Kristjánsson segir svo frá í bók sinni um Þorlák:

Veturinn 1884 hélt Þorlákur allmargar sýningar í félagi við Sigfús Eymundsson. Innlendu myndirnar, sem þeir sýndu voru frá ellefu stöðum á Suðvesturlandi, en auk þess allmargar úr Reykavík. Þá er Þorlákur frétti á sínum tím til Englands um stofnun Þjóðminjasafnsins, hafði hann látið þá ósk í ljós við Jón Sigurðsson, hve nauðsynlegt væri fyrir Íslendinga að eignast "fallegt Museum". Hann vildi vekja áhuga Reykvíkinga og annarra landsmanna á Þjóðminjasafninu, og í því skyni lét hann tala myndir af ýmsum munum þess til að kynna samkomugestum sínum safnið".

1884 Í Þjóðólfi þ. 15. nóvember 1884, sagði svo um sýningar Þorláks:

"Það eru skriðbyttumyndir með litum (landterna-magica-myndir) af fögrum mannaverkum, borgum, stórhýsum, einnig af viðburðum, sömuleiðis fagrar landslagsmyndir. Nokkrar myndir eru einlitar aðeins, og eru þær af innlendum byggingum eða landslagi ... Í vorum skemmtanalausa bæ er þetta fyrirtæki mjög þakkarvert og mun vafalaust fá aðsókn almennings eins og það á skilið."

1885 Í blaðinu Fréttir frá Íslandi  birtist í 11. árgangi þess árið 1885 grein sem bar titilinn Frá ýmsu, framförum og öðru. Þar mátti m.a. í lok greinarinnar lesa eftirfarandi klausu um skemmtanalífið í Reykjavík:

"Aðrar skemtanir voru litlar, aðrar enn það, að panórama-myndir voru sýndar þar, og helzt af útlendum mannvirkjum og stöðum og innlendum landstöðvum (sjá hér).

1890 Þorlákur sem ferðaðist að jafnaði einu sinni á ári til Englands. Þar náði hann 5036500a.jpgsér í myndasyrpur. Árið 1890 keypti hann litaða myndasyrpu um "Ferðir Stanley í gegnum hið myrka meginland Afríku". Á frummálinu hét syrpan, sem taldi 29 myndir, Stanley in Africa og var gefin út af York & Son í Lundúnum (syrpan er að hluta til varðveitt í dag sjá hér). Þorlákur flutti einnig skýringafyrirlestur um Henry Stanley og sömuleiðis lét hann yrkja og sérpenta kvæði um hetjudáð kappans, sem jafnan var sungið þegar myndirnar voru sýndar. Drápan var einnig skrautritað og sendi Guðbrandur hana til Stanleys sem þakkaði honum með því að senda af sér áritaða ljósmynd: Drápan hljóðar svo:

henry_stanley_1280767.jpg

5036473a.jpg

Stanley var aðalhetjan skuggafólksins í Reykjavík árið 1890. Svona sigli hann gegnum tjaldið inn í huga fólks á Hótel Íslandi í umboði Þorláks Ó. Johnson. Kannski hefur Þorlákur einnig boðið upp á Livingstone, get ég gert mér í hugarlund. Hér er mynd af seríu með honum. Svona gætu myndir Þorláks hafa litið út, þegar þær bárust frá Englandi.

liv_box04.jpg

Skemmtanir fyrir fólkið

1891 Víða var farið í þessum sýningum Þorláks. Í auglýsingu í Ísafold fyrir sýningar Þorláks árið 1891 má lesa:  

„Skemmtanir fyrir fólkið":..Vjer höfum farið í kring um hnöttinn . . . Vjer höfum komið og sjeð orustur og vígvelli í egipzka stríðinu . . . ferðast víðsvegar um vort söguríka og kæra föðurland . . . Og nú, kæru landar, opna jeg fyrir yður enn nýja veröld, með nýjum myndum..." Skugginn í speglinum Kenn mér.

Tilgangur Þorláks með myndasýningunum sínum var að skemmta og fræða, enda var það hugsunin á bak við framleiðslu þeirra á Bretlandseyjum. Þorlákur lýsti þessu einni í annarri auglýsingu þann 2. desember 1891:

"Víða um hinn menntaða heim er nú farið að sýna (eins og ég geri) myndir af borgum, löndum, listaverkum, merkum mönnum, dýrum o.fl. Er slíkt nú að fara mjöð í vöxt, einkum á Englandi, Frakklandi og í Ameríku. Í flestum landfræðifélögum og öðrum menntafélögum til fróðleiks og skemmtunar, þar sem iðulega eru haldnir fyrirlestrar um alls konar fróðleik. Eru slíkar fyrirlestrar um alls kyns fróðleik. Eru slíki fyrirlestrar skýrðir með skuggamyndum, er hlýtur að gera efnið bæði fróðlegra, skemmtilegra og minnisstæðara í hugum manna. Fæstir af oss hafa ráð á að ferðast um heiminn og sjá alla þess undrahluti, en flestir hafa ráð á að afla sér slíks fróðleiks fyrir fáeina aura með því að sækja slíkar myndasýningar. Ég hef nú um nokkur undanfarin ár flutt landa mína, er sótt hafa slíkar sýningar, víðs vegar ... ... Hver getur neitað því, að í þessu sé talsverður fróðleikur og það svo ódýr, að flestir geti veitt sér hann; að verja fáeinum stundum á hinum löngu vetrarkvöldum til slíks ferðalags borgar sig vel fyrir hvern þann, sem kann að meta þetta rétt. Og nú, kæru landar, opna ég fyrir yður enn nýja veröld með nýjum myndum, sem koma með Lauru og sem ég sýni í stóra salnum á Hótel Ísland. Föstud. og laugard. 4. og 5. des. kl 81/2.

Fyrst

Keisaradæmið Kína og Kínverjar, [21 mynd víðs vegar úr Kína og úr Þjóðlífi Kínverja.] Hinn frægi hershöfðingi, Gordon, ævi hans og lífsstarf. [12 myndir og þær víða að, þar sem Gordon hefur verið.] Enn fremur í undirbúningi nýjar myndir frá London og hin skemmtilega ferð frá London til Rómarborgar og ferðir til Egyptalands í gegnum Súesskurðinn til Kaíró. Hver sýning endar með tveimur myndum af Ölfusárbrúnni.

5048105a.jpg

Gordon allur. Þetta þótti Reykvíkingum örugglega merkilegt að sjá. Nokkrar myndir eru enn varðveittar úr álíka syrpu frá York & Son(sjá hér)

Nokkru áður eða 18. nóvember 1890 má lesa auglýsingu frá Þorláki:

Stór myndasýning af Íslandi. Hið stærsta myndasafn, sem nokkurn tíma hefur verið sýnt af landinu ... er ég með miklum kostnaði hef látið búa til - alls um 80 myndir."

Jólamyndir smáfólksins

Fyrir Jólin 1889 sýndi Þorlákur margar nýjar syrpur ætlaðar börnum eða smáfólkinu, eins og Þorlákur kallaði börn. Syrpurnar báru titla eins og Þrándur fer að veiða Björninn og þeirra hlægilegu aðfarir, Sólmundur gamli og Sesselja kelling hans að næturþeli að reyna að ná músinni sem hélt fyrir þeim vöku, Rakarinn og hundurinn hans Snati; Gvendur Ferðalangur, Hreiðrið hans Krumma og Tannpína. Þetta voru allt þýskar syrpur framleiddar af Wilhelm Busch.

Nú getur Fornleifur og þær barnalegu sálir sem lesa fræði hans séð það sem krakkar í Reykjavík horfðu á í Hótel Íslandi árið 1889. Upphaflega báru þessar syrpur þýska titla ein og Die wunderbare Bärenjagd, Die Maus, Der gewandte, kunstreiche Barbier und sein kluger Hund, Rabennest, (eða Raben-Nest) Der hohle Zahn

Það hefur nú verið eftir krökkunum í Reykjavík að hafa gaman að því að sjá rakara skera nefið af viðskiptavini sínu, og það rétt fyrir jólin.

650-skillfull-barber09.jpg

Um Jólin 1898 sýndi Þorlákur einnig börnunum það sem hann kallaði "hreyfanlega mynd" Ekki voru það kvikmyndir eins og við þekkjum þær síðar, heldur skuggamyndir með ýmsum búnaði á myndinni eða við útskiptingu á líkum myndu, þannig að út leit fyrir að hreyfing væri á myndinni. Hann sýndi hreyfanlega mynd sem hann kallaði Grímuball barnanna í Mansion House í London og Björgunarbátinn.

Þorlákur hætti sýningum sínum 1892. Heilsu hans fór hrakandi um það leyti og var þessi glaði maður að mestu óvinnufær vegna einhvers konar þunglyndis til dauðadags árið 1917.

Þær myndaskyggnur sem Fornleifur festi nýlega kaup á á Cornwall, sem eru úr tveimur syrpum eru að öllum líkindum sams konar (ef ekki sömu) myndir frá Íslandi og Þorlákur Ó. Johnson var að sýna Reykvíkingum á 9. áratug 19. aldar. Myndasyrpur með ljósmyndum frá Íslandi voru seldar af minnsta kosti tveimur fyrirtækjum á Bretlandseyjum á 9. og 10. áratug 19. aldar. Í næstu færslum verður saga skyggnanna sögð, mynd fyrir mynd. Því miður hafa ekki allar þeirra fundist enn. En hugsast getur að allar myndirnar frá Íslandssyrpunum komi einhvern daginn í leitirnar. Hægt er að biðja, vona og jafnvel leita.

Er nema von að Beinólfur á Þjófminjasafninu gleðjist? Við segjum ekki meira - að sinni. 3. hluti kemur þegar hann er lagstur í gröfina.

db_skelet_ani_1280714.gif

Höfundur og sýningarstjóri: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (og Fornleifur)

 
3. kafli
 

db_snuf1_1281913.gif

Sigga gamla tekur nú óðslega í nefið af einskærri gleði, því hér skal brátt hafin sýning á skuggamyndum frá Íslandi, sem framleiddar voru á seinni hluta 19. aldar á Bretlandseyjum. Síðast svo vitað sé voru myndirnar sýndar í Reykjavík af Þorláki Ó. Johnson á 19. öld. - Er nema von að Sigríður sé hamingjusöm?

Ritstjóri Fornleifs fann nýlega og keypti gamlar myndir af innfæddu eFlóamanni búsettum á Cornwall á Bretlandseyjum. eFlóinn (eBay) getur oft geymt áhugaverða gripi, þótt langt sé á milli dýrgripanna.

Skuggamyndirnar með íslensku efni, sem verður lýst hér á næstu dögum - og tveim þeirra þegar í þessum kafla (sjá neðar)- fundust fyrir algjöra tilviljun er höfundurinn var að leita að öðru efni með hjálp Google. Það er Fornleifi mikil ánægja að sýna fróðleiksfúsu fólki þessar merku skuggamyndir.

Þær glerskyggnur með Íslandsmyndum sem Þorlákur Ó. Johnson og Sigfús Eymundsson sýndu Reykvíkingum (sjá 2. hluta greinasafnsins um Ísland í töfralampanum), voru ugglaust fyrst og fremst framleiddar á Englandi. Við vitum að þangað sótti Þorlákur myndir sínar og væntanlega hafa hann og Sigfús, sem sýndi skuggamyndir með Johnson um tíma, verið milligöngumenn um að bresk fyrirtæki framleiddu myndaröðina England to Iceland sem í sölulistum var einnig kölluð From England to Iceland.

Hverjir tóku myndirnar ?

     Nokkrar myndanna hefur Sigfús Eymundsson sannanlega tekið, því við þekkjum þær úr ágætu safni með pappírsljósmyndum Sigfúsar sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands.

Aðrar myndanna í syrpunni England to Iceland hafa aftur á móti án nokkurs vafa verið teknar af efnamönnunum og veiðifélögunum Maitland James Burnett (1844-1918) og Walter H. Tevelyan (1840-1884) sem komu til að stunda stangaveiðar og til að ljósmynda landið á árunum 1882-84. Eftir veikindi og dauða Trevelyans árið 1884, kom Burnett einn til Íslands næstu árin, eða fram til ársins 1888. Báðir tóku þeir ljósmyndir á Íslandi að því er talið er.

sigfus_eymundsson.jpg

Sigfús Eymundsson, bóksali, útgefandi og myndasmiður. Sigfús rak fyrstu ljósmyndastofu Íslands frá árinu 1867.

Frank Ponzi gerði ferðum Burnetts og Trevelyans góð skil í bókinni Ísland fyrir aldamót (1995) og byggir hana á myndum og dagbókarbrotum sem hann fann og keypti á Bretlandseyjum.

Ponzi rakst hins vegar aldrei á skuggamyndir, þar sem notast hafði verið við sumar ljósmyndir Burnetts og Trevelyans. Sumar myndanna í syrpunni England to Iceland eru því skiljanlega ekki með í bók Ponzis og greinilegt er að Burnett og Trevelyan hafa í einhverjum tilvikum tekið fleiri en eina mynd á hverjum stað sem þeir heimsóttu. Vikið skal að því síðar. Einnig grunar mig, að Sigfús Eymundsson hafi verið þeim félögum innan handar við ljósmyndun.

Syrpan England to Iceland

     Myndasyrpa með titlinum England to Iceland var seld af tveimur fyrirtækjum á Englandi í lok 19. aldar. Annars vegar, og til að byrja með, af Riley Brothers í Bradford í Yorkshire á England en einnig frá og með ca. 1890 af Lundúnafyritækinu E.G. Woods (sjá síðar). Í sölulistum E.G. Woods var syrpan kölluð A visit to Iceland.

Þessar syrpur með myndum frá Ísland virðast mjög sjaldgæfar, því áður en Fornleifur fann fáeinar þeirra hjá forngripasalanum á Cornwall, voru engar myndir úr syrpunni lengur þekktar nema af lýsingum í sölulista Riley bræðra og E.G. Woods sem Lucerna, vefsvæði fyrir rannsóknir á Laterna Magica hefur birt. Að auki keypti ég tvær myndir úr enn annarri syrpu sem ber nafn Sigfús Eymundarsonar [sic], en þannig ritaði Sigfús oft nafn sitt á fyrri hluta ljósmyndaraferils síns.

Skyggnumyndirnar, sem nú eru komnar í leitirnar úr syrpunni England to Iceland/From England to Iceland, eru aðeins 12 að tölu og eru þær bæði framleiddar af Riley Bræðrum og E.G. Woods og því ekki allar framleiddar á sama tíma þó svo að þær hafi verið teknar á sama tíma og af sömu ljósmyndurunum. Hins vegar passa númer myndanna sem límd voru á glerplöturnar við efni myndanna eins og því var lýst í fyrstu auglýsingum Riley bræðra fyrir syrpuna frá Íslandi.

Syrpan er því langt frá því öll fundin/varðveitt. Upplýst er í fyrstu auglýsingum að í syrpu Riley Brothers, sem upphaflega var búin til á tímabilinu 1882-85, en líklegast árið 1883, hafi verið 48 myndir.

Af þeim glerskyggnum sem nú eru komnar í leitirnar eru flestar merktar með tölu og merki framleiðanda, og koma þær upplýsingar heim og saman við sölulista Riley bræðra sem er varðveittur frá 1887. Lýsingar á skuggamyndunum 48 í lista Riley bræðra passa við efni myndanna sem fundust nýlega á Cornwall, einnig þeirra sem framleiddar voru af E.G. Wood. Hugsanlegt er, að þegar Riley bræður hafa snúið sér að kvikmyndagerð eftir 1890 hafi þeir selt réttinn af Íslandssyrpunni, sem og mörgum öðrum skuggamyndum til annarra fyrirtækja í þeim iðnaði.

Sölulistum með upplýsingar um Laterna Magica skuggamyndir hefur verið safnað skipulega af rannsóknarteymi við nokkra háskóla í Evrópu, á Bretlandseyjum, Hollandi og Þýskalandi, sem hefur miðstöð við háskólann í Trier í Þýskalandi. Þar miðla menni vel af þekkingu sinni á vefsíðunni LUCERNA – the Magic Lantern Web Resource.

Fræðimenn á þessu sviði sem vinna saman að LUCERNA hafa skráð u milljón skyggnur og upplýsingar um þær.  Einn þeirra, Dr. Richard Crangle í Exeter, hefur verið hjálplegur höfundi þessarar greinar með upplýsingar sem leiddu til þessara skrifa.

merki_riley_brothers.jpg

Riley Brothers

    Reiley Brothes var fyrirtæki, sem í byrjun einbeitti sér að gerð skuggamynda, sölu þeirra og leigu, sem og sölu og leigu á sýningartækjum fyrir skuggamyndir. Fyrirtækið var stofnað árið 1884 í Bradford í Yorkshire eftir að ullarkaupmaðurinn Joseph Riley (1838-1926) hafði heillast af Laterna Magica sýningum. Riley hafði ungur aðhyllst meþódisma og með hjálp menntunarstefnu þeirra komist til metorða og í álnir.

joseph.jpgÁrið 1883 keypti Joseph Reiley (hér til vinstri á unga aldri) tæki og myndir handa tveimur sonum sínum Herbert og Willie Riley. Feðgarnir hófu fljótlega sýningar á myndum með trúarlegum og fræðilegum fyrirlestrum til að safna fé fyrir munaðarleysingjaheimili og samtökin Action for Children, sem er starfandi enn þann dag í dag.

Joseph sá verslunartækifæri í töfralampanum og stofnaði ásamt bróður sínum, Sam, fyrirtæki sem framleiddi skyggnur og sýningartæki. Fyrirtækið blómstraði og varð á fáeinum árum stærsta fyrirtæki á þessu sviði í heiminum. Fyrirtækið var rekið af bræðrunum Herbert og Willie undir yfirumsjón Josephs, en síðar árið 1894 hófu aðrir synir Josephs, Arnold og Bernard, einnig störf í fyrirtækinu. Árið 1894 stofnaði Herbert Riley útibú í New York og stjórnaði rekstri þar til dauðadags árið 1891.

Willie Riley, sem einnig var liðtækur rithöfundur, hélt aftur á móti til Parísar og komst þar í kynni við kvikmyndavél Lumiers. Fengu Riley bræður einkarétt á sölu Keneptoscopi-tækni Cecil Wrays árið 1896. Þetta voru tvenns konar tæki sem hægt var að sýna kvikmyndir með með því að setja aukabúnað á vel útbúna gaslýsta töfralampa þessa tíma. Riley bræður voru þannig einnig forgangsmenn í kvikmyndaheiminum og árið 1897 hófu Riley Brothers sölu á kvikmyndaupptökuvél og framleiðslu á 75 feta filmum. Allt fékk þó enda, því samkeppnin í kvikmyndageiranum í Bandaríkjunum var hörð. Fyrirtækið Riley Brothers hélt þó velli á Bretlandseyjum fram að síðara heimsstríði, þó í mýflugumynd undir lokin (sjá meira hér). 

Hið góða skip Camoens

3_fornleifur.jpg

Mynd nr. 3. Leith Harbour - England to Iceland. Riley Brothers. (Stærð allra skyggnanna er 8,2 x 8,2 sm).

   Allt hófst þetta með skyggnumyndunum og meðal hundruða syrpa sem Riley Brothers framleiddu var syrpan með myndum frá Íslandi: (From) England to Iceland. Innihald hennar var sem áður segir 48 myndir, og er vitað frá auglýsingum fyrirtækisins hvað þær sýndu. Margar þeirra, eða 14, sýndu ýmsa staði á Skotlandi.

Aðeins ein myndanna 14 frá Skotlandi í syrpunni (From) England to Iceland var hins vegar á meðal myndanna sem nýlega fundust hjá eFlóamanninum á Cornwall. Það er mynd nr. 3 í syrpunni, sem er líklegt að Burnett eða Trevelyan hafi tekið í ferðum sínum. Sýnir hún skip á höfninni í Leith og ber heitið Leith Harbour. Leith er hafnarborg Edinborgar á Skotlandi og fyrsta borgin sem ritstjóri Fornleifs leit augum í Evrópu í fyrstu utanlandsferð sinni árið 1970.

Skuggamynd númer 3 sýnir þó ekki skip það sem Burnett og Trevelyan sigldu jafnan á til Íslands. Það hét Camoens. Þegar Camoens sigldi ekki með farþega, m.a. fjölda Vesturfara, flutti skipið hross frá Íslandi í kola- og tinnámur á Bretlandseyjum, þar sem blessaðir hestarnir enduðu ævi sína á hræðilegan hátt. Hægt er að lesa ítarlega um voluð hrossin og þessa merku, bresku ferðalanga í fallegri bók Frank Ponzis, Ísland fyrir aldamót (1995), sem er þó að verða illfáanleg. Óskandi væri að hún kæmi út aftur.

39_fornleifur.jpg

Mynd nr. 39. Camoens in Ice -- Akureyri [eða öllu heldur í Trékyllisvík]. Riley Brothers.

Ein af síðustu myndunum í syrpunni England to Iceland var kölluð Camoens in Ice -- Akureyri. Hún var meðal myndanna sem Fornleifur fékk frá Cornwall fyrr á þessu ári og er tölusett sem nr. 39.

Það má þó teljast næsta öruggt að myndin sé ekki frá Akureyri eða Eyjafirði. Spurningin um fjörðinn sem myndin er tekin á var borin undir lesendur Fornleifs í gær. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur, sem er manna fróðastur um Strandir, áleit til að byrja með  að myndin væri tekin á Ingólfsfirði (sjá hér). Hann hafði þó samband við Guðmund Jónsson fyrrverandi hreppstjóra í Munaðarnesi, sem þekkir einnig vel til á þessum slóðum, sérstaklega frá sjó, þó hann sé nú fluttur á Grundarfjörð. Guðmundur, taldi víst að myndin væri tekin í Trékyllisvík og tekur Haukur Jóhannesson heils hugar undir það. Haukur ritaði mér eftir að þessi grein hafði birst: "Ég er búinn að bera myndina undir Guðmund á Munaðarnesi. Hann segir að myndin sé tekin á Trékyllisvík og það er rétt þegar betur er að gáð. Skipið hefur verið undir bökkunum innan við Krossnes og það sést yfir Melavíkina og upp á Eyrarháls. Haugsfjall er á sínum stað og Eyrarfjall en hægra megin sést í Urðanesið undan Urðartindi milli Melavíkur og Norðurfjarðar.    Þetta er alveg örugg greining."

Fornleifur tekur einnig undir þetta og þakkar hér með Hauki og Guðmundi fyrir alla hjálpina í leit að hinu sanna um myndina af Camoens. Camoens var þarna í ísnum í Trékyllisvík og ekki á Akureyri eins og kaupendur myndanna fengu að vita árið 1887. Líklega er þessi mynd tekin á sama tíma og þessi mynd á pappír sem ég veit ekki hver tók, en líkast til voru það Burnett eða Trevelyan:

5780ea1645851307319ce06b40e0b308_1282159.jpg

 

 

db_hoedafs.gif

Fornleifur heldur áfram sýningum á Íslandsmyndum sínum innan skamms, en óskar lesendum sínum góðrar nætur, þegar þeir hafa loks komist í gegnum þennan hluta Íslandskynningarinnar frá 19. öld.

 

4. kafli

13_miss_kjolhufa_copyright.jpg

Unga konan á myndinni hér fyrir ofan var rangleg talin norsk þar til fyrir skemmstu. Hún, eða öllu réttara myndin af henni, var til sölu sem hvert annað aflóga rusl á eBay, og hún var í söluefni dæmd til að vera Norsari, eða þar til Fornleifur fann hana og gerði henni hærra undir höfði.

Nú er sömuleiðis komið í ljós, að myndin er mjög sjaldgæf. Hún er ekki til í söfnum og þangað til að þetta eintak fannst var myndin af þessari hárfögru kona aðeins nefnd í sölulistum fyrir glerskyggnur með myndum frá Íslandi frá 19. öld.

Ekki er hægt að búast við að fáfróðir Bretar viti hvaðan háeðalborin íslensk kona kemur, þegar hún er nefnd til sögunnar sem "Woman wearing Hufa". Það stendur svart á hvítu á mjóum límmiða á kantinum á skyggnumyndinni. Það var einmitt titill skuggamyndar nr. 13 í syrpunni England to Iceland sem upphaflega kom út hjá Riley bræðrum í Bradford um miðbik 9. áratugar 19. aldar.

Fyrir utan húfuna góðu, ber búningur hennar og skreyti öll einkenni íslensk upphlutar. Hún, blessunin búlduleit, er á sauðskinnsskóm þar sem hún rakar á fullu á ljósmyndastofu í Reykjavík. Greinilegt er að þetta var hefðarpía úr bænum, því svona héldu ekta sveitakonur ekki á hrífu, þó svo að rakstur hafi ávallt tengst rómantík og lír. Væntanlega hafa útlendingar sem horfðu hugfangnir á syrpuna England to Iceland haldið að íslenskar konur trítluðu út á tún eða út í mýri í sparifötunum. Af þessu má einnig sjá að landkynningarstarfssemi hefur í árdaga sem síðar verið eintóm lygi og glansmyndagerð, eins og svo oft síðar. Fyrst komu vitaskuld Landnáma og Íslendingabók.

Þetta eintak af syrpunni England to Iceland af nr. 13. "Woman wearing Hufa" var selt af E.G. Wood í Lundúnum, sem á einhverju stigi keypti réttinn til að selja Íslandsskuggamyndir Riley Bræðra og kallaði hana A travel to Iceland. Eins og hægt er að lesa á miðanum í efra vinstra horninu var E.G. Wood til húsa á 1 & 2 Queen Street i Cheapside í London. Heimilisfangið gefur til kynna hvenær myndin hafi verið framleidd. Þetta var heimilisfangs E.G. Wood árin 1898-1900. Myndatakan, sem eignuð verður Sigfúsi Eymundssyni fór hins vegar fram í byrjun 9. áratugar 19. aldar og jafnvel fyrr.

13_miss_kjolhufa_detail.jpg

Garðahúfa einnig kölluð Kjólhúfa

Húfan sem konan ber, er heldur ekki hvaða húfa sem er. Þessi húfa kallast Garðahúfa en einnig kjólhúfa og eru nokkrar þeirra til á Þjóðminjasafni. Ein þeirra er nauðalík húfunni sem unga konan á myndinni er með. Þetta vissi Fornleifur ekki fyrr en nýlega, því greinilega hefur Garðahúfunni/kjólhúfunni ekki verið gert hátt undir höfði í yfirreið um sögu íslenskra Þjóðbúninga. Þetta höfuðfat íslenskra kvenna á 19. öld hefur heldur ekki ekki hlotið náð hjá hávirðulegri þjóðbúninganefnd, en formaður nefndarinnar Lilja Árnadóttir safnvörður á Þjóðminjasafni Íslands upplýsti Fornleif að garðahúfur og kjólhúfubúningur séu ekki "löglegur" þjóðbúningur.

Er eitthvað samsæri í gangi gegn þessu höfuðfati? Hér með stofnar Fornleifur vinafélag Garðahúfunnar/kjólhúfunnar í von um að þetta séríslenska höfuðfat, sem notað var á 19. öld, og hugsanlega fyrr, verði gert hærra undir höfði.

kjolhufa.jpg

Ein af nokkrum Garðahúfum/kjólhúfum á Þjóðminjasafni Íslands. Hún var skráð og varðveitt í Nordiska Museet i Stokkhólmi og hefur safnnúmerið NMs-38809/2008-5-130, en er nú (síðan 2008) í varanlegri varðveislu Þjóðminjasafns. Húfunni er lýst sem: "Kvenhúfa (kjólhúfa). Efni svart flujel. Gullvírsborði, 1,7 að br., efst og marglitur, rósofinn silkiborði næst, br. 2 cm. Tvöfaldur kross af þeim á kolli: (hér er teikning). Á jöðrum efst eru bryddingar, með rauðu silki innst og svörtu flujeli ytri: Baldýruð stjarna eða 5 blaða blóm er á hliðum efst. Silkiskúfar, grænir og rauðir að aptan og framan efst. L. 27, samanl., h. 16 í miðju, 9 við enda, br. um miðju 17,5 cm. Gefin af R.A. Fóðruð með hvítum striga." Þó það komi ekki fram í skráningu, held ég að þetta sé lýsing Matthíasar Þórðarsonar sem skráði íslenska gripi í Nordiska Museet.

Uppruni Garðahúfunnar/kjólhúfunnar eða "Tyrknesku húfunnar"

Uppruni Garðahúfunnar er einnig mjög á huldu. Í grein sem Daniel Bruun skrifaði í Eimreiðina árið 1905, er þetta upplýst um Garðahúfuna, og þar birtist einnig brot af sömu myndinni og notuð var í skuggamyndina hér að ofan: 

Sérstök tegund var »garðahúfan« eða »tyrkneska húfan« (22. og 23. mynd), sem óefað er mjög gömul á Íslandi. Hún minnir á fald þeirrar konu, er stendur framar á 1. mynd; en sú mynd er frá lokum 16. aldar. Jafnvel brúðir hafa borið slíkar húfur fram að 1868. Yfirleitt virðist smekk kvenna að hafa verið varið á þann hátt: Jafnhliða eftirsókninni eftir háa faldinum var og eftirsókn eftir fallega skreyttum húfum.

Hvaðan heitið tyrkneska húfan kemur, skrifar Daniel Bruun ekkert um.

gar_ahufa.jpgEin af garðahúfum þeim sem Daniel Bruun birtir myndir af í grein sinni í Eimreiðinni árið 1904.

Garðahúfunni/kjólhúfunni hefur svo um munar verið rutt út af síðum sögunnar. Getur hugsast að þessi húfa sé síðbúinn ættingi falda sem voru margs konar á Íslandi frá því á miðöldum? (Sjá hér). Mest af öllu líkist þessi húfa höfuðfati karla í Serbíu, sem kallast sajkaca. Sá hattur varð síðar betur þekktur í annarri gerð sem Titovka, og var slík húfa notuð af flokksmönnum Josip Broz Titos sem börðust vasklega gegn nasistum. Vitaskuld eru engin tengsl þarna á milli frekar en við svarta kjólhúfu Dorritar Moussaieff sem hún bar þegar hún heimsótti fyrrverandi páfa ásamt eiginmanni sínum (sjá hér).

Eins er víst að konan á myndinni er hálfgerð huldukona, og þæði Fornleifur allar upplýsingar um hana (þó ekki símanúmer hennar). Er hún formóðir einhvers í hinum gríðarstóra lesendaskara Fornleifs, þá hafi þeir vinsamlegast þegar samband við Fornleif, einn í einu. Fornleifur leyfir sér þó að detta í hug, að konan sé engin önnur en hin ævintýralega Sigríður E. Magnússon, kona Eiríks Magnússonar bókavarðar í Cambridge (sjá hér). Fornleif grunar að neðanstæð mynd Sigfúsar af konu í peysufötum með gítar sýni sömu konu og þá sem ber garðahúfuna á skuggamyndinni. Þá er nú ekki langt í að maður láti sér detta í hug að húfan hafi verið ein af mörgum hönnunarverkum hinnar litríku Siggu. Ekkert skal þó fullyrt, því svipaðar húfur þekkjast úr Flatey, Vopnafirði, Reykjavík og frá. Kannski var þetta höfuðfat algengara en við höldum.

gitar Sigga.jpg

Sigríður E. Magnússon á yngri árum? og á eldri árum.

sigga_rokk_1261148_1282246.jpg

Garðahúfan/Kjólhúfan er frægari en menn halda

Þó að æðstaráð þjóðbúninganefndar hafi stungið 5 tommu nálum í allar óskir um að garðahúfan/kjólhúfan sé löglegur hluti íslensks þjóðbúnings, þá var kjólhúfan nokkuð þekkt í þeim hluta Evrópu þar sem menn keyptu og notuðu súpukraft í matargerð sína. Súpukraftfyrirtækið Liebig hafði það fyrir sið að setja fræðsluefni á lítil spjöld í pakka eða við dósir með súpukrafti. Oft voru þetta litríkar myndasyrpur um lönd og þjóðir. Þýskur, sjálfmenntaður efnafræðingur Justus Freiherr von Liebig (1803-1873), hóf um miðja 19. öld að framleiða þurrkaðan kjötkraft með alls kyns "bætiefnum" til að bæta heilsu vina sinna sem hríðdrápust úr kóleru og alls kyns magakvillum (efnaeitrunum og geislun).

Kjohufa Liebig

Fullvinnsla á dýrahræjum fyrir súpukraft var fljótlega flutt til Uruguay og síðar til Argentínu, þar sem þýskir innflytjendur og nautgripahjarðir þeirra eyddu landgæðum með ofbeit svo Evrópubúar gætu fengið ódýrt, þurrkað kjötsoð. En þrátt fyrir meira eða minna ómeðvitaða landeyðingu var fyrirtæki Liebigs Fríherra í mun um að fræða fólkið sem keypti kraftinn í teningum (sem einnig gengu undir heitinu OXO) eða sem duft í dós. Þetta var því miklu menningarlegri kraftmiðstöð en t.d. Maggi og Knorr sem sérhvert mannsbarn á Íslandi þekkir og sem aldrei hefur nokkuð barn frætt. Frá og með 1875 og fram á 8. áratug 20. aldar sendi fyrirtækið Liebig/OXO frá sér um 11500 myndir á 15 tungumálum.

Tvær seríur með myndum með íslensku efni voru settar í pakka með kjötkrafti frá Liebig (sjá meira um þær síðar) og í einni þeirra var mynd sem grafin hafði verið eftir myndinni af konunni með kjólhúfuna sem upphaflega seld var í sem skuggamynd hjá Riley Brothers og E.G. Woods. Konan með hrífuna og Garðahúfuna var því með þekktari íslenskum konum áður en Björk sönglaði sig til frægðar og Vigdís varð forseti - og aldrei hafa þær stöllur sett svo mikið sem tána í súputeningapakka. Liebig syrpan með sex myndum sem Kjól-/Garðahúfu-konan birtist í kallaðist á þýsku Liebig Bilder Serie 846 "Island, das Land der Edda" og var fyrst gefin út árið 1911-1912. 

Manni leyfist líklega að spyrja: Hvers á þessi fræga garðahúfaeiginlega að gjalda, þá er hún ekki má teljast til búnaðs íslenskra þjóðbúninga?

kjolhufa_2.jpg

Fáni Dana, Rødgrød med fløde, var enn notaður á Íslandi þegar Garðahúfan var upp á sitt besta, en ekki er hún ættuð úr Danaveldi.

Höfundur myndarinnar og aldur

Myndasmiðurinn sem tók myndina af konunni með Garðahúfun var vafalaust Sigfús Eymundsson. Það er auðséð á handmálaða tjaldinu á bak við hana sem einnig  sést á nokkrum pappírskópíum eftir Sigfús sem varðveittar eru á Þjóðminjasafni Ísland, sem sjá má á Sarpi. (sjá t.d. hér, hér, hérhér og hér). Sá möguleiki er einnig fyrir hendi, að einhverjir hafi fengið stúdíó Sigfúss Eymundarsonar að láni, en þá mynd nafns síns notaðist hann lengi á ljósmyndir sínar.  Það verður ekki útilokað hér að aðrir hafi fengið að nota stúdíótjöld Sigfúsar - eða jafnvel að Sigfús hafi tekið myndir fyrir Burnett og Trevelyan (sjá 3. hluta).

Myndin hefur að öllum líkindum verið tekin í byrjun 9. áratug 19. aldar um 1881-83. Myndin er skömmu síðar nefnd í sölulistum Riley Bræðra og síðar í lista E.G. Woods.  

tjaldi_1282235.jpg

Undirskriftasöfnun til stuðnings Garðahúfunni/Kjólhúfunni

Þeir sem vilja hefja Garðahúfuna aftur til vegs og virðingar, líkt og þegar hún var stjarna á kjötkraftsmyndum, mega vinsamlegast setja nafn sitt hér í athugasemdirnar. Konur og menn og aðrir sem vilja sauma sér slíkar húfur geta ugglaust fengið frekari upplýsingar á Þjóðminjasafni Íslands. Skammt er í Gleðigöngur og hvað er meira tilvalið fyrir menn sem ganga í kjól en kjólhúfa. Skúfhúfan, skotthúfan, spaðafaldurinn, sér í lagi krókfaldurinn, skildahúfan, skarðhúfan og skautið ættu að fara að vara sig. Konur eru fyrir löngu farnar að að kasta skúfhúfunni. Það er orðinn löglegur réttur heimavinnandi karla að ganga með þessa hatta, líkt og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkurþorps sýndi okkur, en slík apparöt eru nú ef til vill einum of nýmóðins fyrir Fornleif. Setjum því brúna punktinn hér.

30522627.jpg

Auglýsing árið 1919 í Þjóðólfi. Aldrei tapaði neinn Garðahúfu.

Upplýsingar um garðahúfur/kjólhúfur á Þjóðminjasafni Íslands:

Þjms. 279  ; Kölluð garðahúfa
Þjms. 2052 ; Garðahúfa frá Hofi í Vopnafirði.
Þjms. 2457 ; Garðahúfa frá Reykjavík.
Þjms. 4509 ; Garðahúfa frá Reykhólum í Reykhólasveit.
Þjms. 4642 ; Skráð sem kjólhúfa. Frá Heydalsseli í Strandasýslu.
Þjms. 9206 ; Garðahúfa úr Flatey á Breiðafirði.
(Sjá mynd hér fyrir neðan).

gar_ahufa_2.jpg

Og loks sú sem var meðal gripanna sem komu frá Nordiska Museet 2008.
2008-5-130; Skráð sem kjólahúfa. Sjá mynd ofar

Þakkir fær Lilja Árnadóttir fyrir að veita upplýsingar um garðahúfur Þjóðminjasafns. Húfurnar hafa því miður ekki allar verið ljósmyndaðar enn, og þess vegna er ekki hægt að sýna þær hér.

 

5. kafli

19_england_to_iceland_fornleifur_copyright.jpg

db_smederij1.gifFornbíó Fornleifs hamrar járnið meðan það er heitt, en til þess þarf kol. Kolagrafir fornar eru ugglaust margar þar sem myndin hér fyrir ofan var tekin.

Hér birtist nefnilega 19. skuggamynd Riley Bræðra úr syrpunni England to Iceland. Hún ber heitið Guides and Ponies. Glerskyggnan ber merki Riley Bræðra efst i vinstra horni. Enginn getur því verið í vafa um ágæti og gæði þessarar myndar, svo ekki sé talað um landið fagra sem hún sýnir. Þar sem birki og reyniskógum var eytt með glórulausri ofbeit þegar fólk var ekki að að farast úr hor og sauðféð úr gaddi.

Myndin er tekin af meistara Sigfúsi Eymundssyni, nema að hann hafi framkallað hana fyrir aðra. Að minnsta kosti er sama myndin og á skuggamynd Riley Bræðra varðveitt á þurrnegatífu í Þjóðminjasafni Íslands (sjá neðar) og er tileinkuð Sigfúsi (sjá sömuleiðis hér og hér). Sú ljósmynd kom hins vegar úr safni Péturs Brynjólfssonar ljósmyndara, sem var barnungur þegar myndin var tekin, en það hefur verið um 1882-83.

mynd_eymundssonar_jms.jpg

Í Grafningi eða nærri Laugavatni?

Á myndinni má sjá fjóra karla, leiðsögumennina (Guides), sem bendir einhvern megin til þess að útlendingar gæti hafa verið með í för. Myndin sýnir einnig fjögur hross. Áð er við stórt og gamalt reynitré. Þjóðminjasafnið upplýsir að myndin sé tekin í Grafningi og að maður sjái líka á í bakgrunninum niðri á flatlendinu. Mér sýnist hins vegar að þetta séu aðeins voldugri vötn en á, og ímyndaði mér, áður en ég sá dóm Þjóðminjasafns fyrir þeirra mynd, að hún væri tekin nærri Laugavatni. Ef einhverjir geta skorið úr um það væru upplýsingar vel þegnar. Er myndin úr Grafningi eða úr nágrenni Laugavatns.

Reynirinn "í Grafningi" hélt líklegast áfram að vaxa og dafna, því í byrjun 20. aldar var tekin mynd reyni einum miklum (sjá hér). Myndina tók Magnús Ólafsson og á bakhlið hennar er ritað: 10 álna hátt Reyniviðartré í Grafningi. Ætli það pár sé nú ekki frekast ástæðan fyrir því að myndin af reyninum hér ofar í "brekkunni" er tileinkuð er Sigfúsi Eymundssyni og sögð úr Grafningi? En er þetta nú í raun og veru sama tréð og á myndunum tveimur hér ofar?  Hvar er þá fjallið í bakrunninum sem er á steríómynd Magnúsar Ólafsson, sem var tekin á tímabilinu 1905-1920?

magnus_lafsson_steroreynir.jpg

Spurningar vakna alltaf í Fornbíói Fornleifs. Maðurinn með tyrknesku húfuna (Sjá nánar um tyrkneska húfur á Íslandi í 4. hluta greinasafnsins um myndir úr syrpunni England to Iceland) virðist að dæma af flóttalegu augnaráðinu ekki vera með nein svör á reiðum hönum. Hvað með ykkur lesendur góðir? Þið eru nú flest nokkuð fróð um staðhætti.

Ég þakka ykkur svo enn og aftur fyrir komuna, en ef þið eruð með einhver læti í salnum, hagið ykkur eins og vitleysingar og hendið poppi eða pippi í sýningastjórann, þá hendir hann ykkur óhikað út. Bíóstjórar hafa mikil völd.

db_ogenturk1_1282286.gif

 

6. kafli

_ingvellir_fornleifur_copyright_1282328.jpg

Fimm mismunandi ljósmyndir frá Þingvöllum og nágrenni þeirra voru upphaflega í skuggamyndasyrpunni England to Iceland, sem Fornleifur festi nýlega kaup á. Aðeins ein myndanna er þekkt og varðveitt í dag og ber hún númerið 24 og titilinn Parsonage and Church, eða prestsetur og kirkja. Myndin er af Þingvallabænum og kirkjunni og tekin úr suðri. Fólk stendur á tröppum bæjarins og á hlaðinu. Vikið skal að því síðar, en fyrst farið yfir byggingarsögu húsa Þingvöllum á 19. öld.

Litmynd frá 1882

Og nú er það heldur betur fínt. Fornleifur býður upp á skyggnumynd í lit. Myndin er vitaskuld handlituð, en segjast verður eins og er að litunin hefur heppnast mjög vel. Æfðar hendur og fínlegar hafa unnið þetta verk. Hinar myndirnar frá Þingvöllum í syrpunni voru með stafsetningu Bretanna, en þær hafa líklegar farið forgörðum:

20 Lake Þingvellavatn

21 Almanagga

22 Falls of Oxara

23 Plain of Thingvellir

Skuggamynd númer 24 var seld af E.G. Woods þegar fyrirtækið var til húsa á 74 Cheapside í Lundúnum. Samkvæmt rannsóknum LUCERNA-teymisins,sem áður hefur verið sagt frá, var fyrirtækið skráð á því heimilisfangi nokkuð lengi, eða á tímabilinu 1861-1898.

Myndin hefur nær örugglega verið keypt af Riley Brothers, sem upphaflega voru með hana í sinni syrpu um 1885-86. E.G. Wood hefur því framleitt sína mynd númer 24 eitthvað síðar en 1886. Eins og áður segir, kölluðu Riley Bræður syrpuna frá Íslandi England to Iceland, en E.G. Wood nefndi hana A travel to Iceland.

Nú vill svo til að sama ljósmyndin er til í þremur mismunandi svarthvítum pósitífum á Þjóðminjasafni Íslandi og er hún eignuð Sigfúsi Eymundssyni (sjá hér, hér og hér). 

_ingvellir_eymundsson_1867.jpg

Stereoskópi-mynd tekin af Sigfúsi Eymundsyni árið 1867.

elsta_myndirn_1282326.jpg

Mynd Jóns Christján Stephánssonar af Þingvallabænum. Þó myndin sé örugglega tekin af Jóni Stephánssyni, eignar Þjóðminjasafnið nákvæmlega sömu mynd Sigfúsi Eymundssyni (sjá hér). Furðulegt, ekki satt? Það er nokkuð mikið af rugli, þegar kemur að "myndum" Eymundssonar á Þjóðminjasafninu.

Svo vel vill til, að nokkrar ljósmyndir eru til af prestsetrinu að Þingvöllum frá síðari hluta 19. aldar, sem sýna okkur byggingasögu bæjarins á aldar. Elstu myndirnar er í eigu Þjóðminjasafns eru frá því fyrir 1882. Elst þeirra er stereóskópí-mynd Sigfúsar Eymundssonar frá árinu 1867 (sjá frekar hér).

Þar sést kirkjan sem vígð var árið 1859. Fyrir þann tíma var lítil torfkirkja á staðnum og upplýsir Þjóðminjasafnið að það hafi stungna mynd ættaða úr enska dagblaðinu Mirror af þeirri kirkju, mynd sem Hjálmar R. Bárðarson gaf safninu, en sem Hjálmar keypti af föður Fornleifs, sem safnaði erle dum dagblöðum með efni frá Íslandi frá 17. 18. og 19. öld. Hins vegar er myndin ekki upprunalega úr Mirror heldur líklegast úr frönsku riti frá 1836 eftir X. Marmier, sem einnig var gefið út á hollensku í Leskabinet; Mengelwerk tot Gezellig Onderhoud voor Beschaafde Kringe í Amsterdam árið 1837. Langalangafi minn Izzäk hélt það rit, og hefur það verið í eigu Fornleifs frá barnæsku.

ijslandse_kerk_1836_b.jpg

Þingvallakirkja 1836 eða fyrr.

Önnur ljósmyndanna var tekin 1871 af William Lord Watts.  þriðja ljósmyndin sem er eldri en 1882 var tekin af Jóni Christni Stephánssyni (en er einnig til í annarri kópíu og eignuð Sigfúsi Eymundssyni). 

watts.jpg

Mynd William Lord Watts. Hún var tekin árið 1871 .

Breytingarnar á Þingvallabænum árið 1882

Sjáið svo hvað gerist: Á myndinni efst, sem að öllu líkindum tekin sumarið 1883 og sem einnig er til í þremur pappírskópíum á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér, hér og hér) -  má sjá að burstabærinn sem sést á myndum Sigfúsar Eymundssonar (1867), Jóns Stephánssonar og Watts (1875) var rifinn.

Árið 1882 byggði s. Jens (Ólafur Páll) Pálsson tvö ný hús. Eitt þerra, sem er litað rauðbrúnt á skuggamyndinni myndinni efst var 5x10 metrar að stærð. Aftan við nýju húsin voru torfbyggingar, eldhús og búr. Er sr. Jens afhenti séra Jóni Thorsteinsson staðinn árið 1888 og flutti á Álftanes, var Jens talinn eigandi hins nýja húss. Framkvæmdin hafði ekki verið samþykkt af yfirvöldum og þau ekki tekið þátt í kostnaði.

trevelyan_og_burnett_1983_1282505.jpgMynd þessa tóku Burnett og Trevelyan þann 13. júlí árið 1883 (sjá þa meru bók: Frank Ponzi 1995: Ísland fyrir aldamót. Brennholt, bls. 109) Fornleif grunar að þeir Burnett og Trevelyan hafi einnig tekið myndina efst og setur það fram sem vinnutillögu. Síðar hér í syrpunni um elstu skuggamyndirnar frá Íslandi skal sýnt að Burnett og Trevelyan tóku stundum tvær myndir á sama staðnum.

Ofan á eitt húsa séra Jens var bætt við hæð árið 1906. Núverandi Þingvallabær var reistur á gamla bæjarstæðinu 1928, en sneru húsin í vestur. Til að byrja
með voru aðeins 3 burstir en tveimur nýjum var bætt við árið 1974.

_ingvellir_eymundsson_b.jpg

Þessa mynd tók Sigfús Eymundsson af Þingvallabænum. Hér er búið að spónklæða kirkjuþakið og eitt af þeim húsum sem séra Jens Pálsson byggði árið 1882 (sjá myndina efst til samanburðar). Einnig er komin blikkklæðning utan á eystra húsið og sömuleiðis vindfang á eystra húsið. Þjóðminjasafni upplýsir að þessi mynd sé frá 1886 og að þar sjáist sr. Jón Thorstensen ásamt heimilisfólki. Öllu líklegra er að framkvæmdirnar á húsunnum hafi farið fram síðla árs 1886 og að myndin sé frá því í fyrsta lagi frá árinu 1887, því Jens Pálssyni voru veittir Útskálar þ. 27. júlí 1886, en talið er að Jón Thorstensen hafi breytt húsunum.

jon_helgason_1892_1282481.jpg

Jón Helgason biskup teiknaði þessa mynd árið 1892

_ingvallabaer_ca_1925.jpg

Þingvallabærinn ca. 1925. Nýr turn var settur á kirkjuna vegna konungskomunnar árið 1907.

nr-76-thingvellir_cropped.jpg

Árin 1925-2016 í stórum dráttum

Árið 1925 var tekin mynd af Þingvallabænum, sem sýnir að önnur hæð var reist ofan á eystra húsið. Á eldri mynd sem tekin var og seld af Hans Petersen (sjá hér fyrir ofan), og sem er nokkuð eldri en nærmyndin, má einnig sjá þessa hækkun á íbúðarhúsinu.

Árið 1928 var svo nýr, nýrómantískur og klunnalegur Þingvallabær reistur úr steinsteypu að fyrirsögn Guðjóns Samúelssonar og var það gert fyrir Alþingishátíðina 1930, líklega því Íslendingar hér að þeir yrðu sér annars til skammar. Upphaflega var bærinn þrjár burstir, eins og sjá má á gamalli skyggnumynd, sem sett hefur verið út á veraldarvefinn, en árið 1974 var bætt við tveimur burstum við bygginguna og muna það orðið fáir og hefur bærinn nú verið friðlýstur með nýlegum viðbyggingum sínum. Sannast þar að Íslendingum líkar best við allt nýtt.

churchvicarage_thingvallir.jpg


Fólkið á litskyggnunni frá 1883

_ingvellir_wood_1882_naermynd.jpg

Lítum örlítið hér í lok þessarar sýningar á mannfólkið á litmyndinni efst. Myndin var tekin árið 1883, og líklegast af félögunum Maitland James Burnett og Walter H. Trevelyan, þótt öðru sé haldið fram af Þjóðminjasafni Íslands. Nöfn vinnumannanna eru ekki þekkt. En í gættinni stendur séra Jens Ólafur Páll Pálsson (1851-1912, síðar prófastur og Alþingismaður, og kona hans Guðrún Sigríður Pétursdóttir Guðjohnsen, dóttir Péturs organista og Alþingismanns (fæðingarstaður hans er rangt upp gefinn á vefsíðu Alþingis). Barnið sem stendur með þeim hjónum á myndinni er líklega eitt af mörgum fósturbörnum þeirra prestshjóna. Jens er unglegur á myndinni og fínn í tauinu með pípuhatt, en frú Guðrún Sigríður bara í peysufötum. Jens fékk Útskálaprestakall árið 1886 í lok júlí og fluttu hjónin fljótlega eftir það þangað.

laterna_2.jpg 

7. kafli

 

26_bruera_rapids_fornleifur_copyright.jpg

Brúarárfossar voru líkt og í dag mjög vinsælt myndefni fyrir fyrstu ljósmyndarana á Íslandi. Útlendingar heilluðust einnig snemma af fossunum, einnig fyrir öld ljósmyndarinnar. Þeir voru því tilvaldir í landkynningarefni eins og skuggamyndir. Svo mikið hefur mönnum þótt koma til fegurðar fossanna, að tvær myndir af þeim, annars vegar af fossunum og hins vegar af brúnni, eru með í syrpu Riley Bræðra England to Iceland, sem Fornleifur keypti nýlega nokkrar myndir úr á Cornwall.

27_bruera_and_bridge_fornleifur_copyright.jpg

db_lanternist1_1282589.gifVafalaust er, að Sigfús Eymundsson er höfundur efri myndarinnar sem bar númer 26 í syrpu Riley Bræðra og kallast á ensku Bruera Rapids. Myndin er til í tveimur þurrnegatífu á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér og hér). Hin myndin sem er númer 27 og ber heitið Bruera and Bridge er mjög líklega einnig eftir hann.

Brúarárfossum voru þegar árið 1834 gerð skil af Frederik Theodor Kloss (sjá hér). Mynd Kloss kom seinna út prentuð sem litógrafía. Einnig er vel þekkt koparstunga Auguste Meyers frá 1838 í stórverki Gaimards: Voyage en Islande et au Groënland.

Meira er víst ekki hægt að teygja lopann um fossana og brýr á Brúará.

bruararfossar_meyer.jpg

Mynd Auguste Meyers af Brúarárfossum.

8. kafli

 

tumblr_ldsp84uliv1qfppz2o1_500.gif

Hverjar eru þetta með leyfi? Jú, Gugga, Vigga og Maddí gátu greinilega ekki setið á sér lengur og urðu að fara í bíó hjá Fornleifi. Þær voru í óþreyju og eftirvæntingu sinni farnar að bryðja bolsíurnar sínar blessaðar stúlkurnar, og jafnvel Gunna sem enn er ekki búin að fá sér nýjar tennur. Þær biðu á fortóinu í allan dag og keyptu meira að segja biletin fyrir viku síðan svo þær gætu setið á fremsta bekk. Svona er þessar sýningar hjá Fornleifi nú vinsælar, og ætti landsbyggðin einnig að fara að átta sig á því.

Hvað er meira spennandi og yndisaukandi fyrir stúlkur á viðkvæmum aldri en myndir af vatni og gusum - þar með talið Geysi og Gullfossi. Þær hafa hvort eð er ekki kattarvit á því hvort er betri sem forseti Íslands, falleraður seðlabankastjóri eða fráfallinn kaþólikki. Það er svo leiðinlegt og þær velta ekki svo heimsspekilegum þönkum fyrir sér. Þær vilja í bíó og hafa fjör.

httpwww_slides_uni-trier_desetindex_phpid_3000590.jpg

Geysir var ávallt vinsælasti túristatrekkjari Íslendinga, eða allt þar til að hann gerðist skindauður vegna of mikils grænsápuáts.

Engin ferðalýsing af Íslandi með virðingu fyrir sjálfri sér frá því á 17 öld fram á þá 20. var fullkomin nema að mynd væri með af Geysi í Haukadal. Fljótlega varð goshverinn vinsæll á skuggamyndum 19. aldar í syrpum um jarðfræði eða undur alheims. Útlendingar komu gagngert til Íslands til að berja þessa himnamigu íslensku þjóðarinnar augum.  

rb_england_to_iceland_28_fornleifur_copyright.jpg

England to Iceland 28, Riley Brothers. Þetta er sama mynd og mynd 31 (sjá neðar) en í stað litar á 31 hefur þessi mynd fengið handmálað tjald og karl vestan við það.

Þess vegna getur það engan undrað að heilar fjórar myndir hafi verið af Geysissvæðinu í Haukadal í myndasyrpu Riley Bræðra England to Iceland. Allir öfunduðu íslensku þjóðina af sjálfvirkum gosbrunnum.

Myndirnar af Geysi og Geysissvæðinu í syrpunni eru þessar:

28  Tourists' Tents at Geyser (framleidd  af Riley Brothers í Bradford).

29  Great Geyser (framleidd af Reiley Brothers í Bradford).

30  Strokr in Sulks.

31  Strokr in Action  (framleidd af E.G. Woods á 74 Cheapside í Lundúnum)

rb_england_to_iceland_29_geysir_copyright_fornleifur.jpg

England to Iceland 29, Riley Brothers

Því miður tilkynnist hér með að mynd 30 var ekki til á Cornwall þegar Fornleifur keypti þar myndir úr syrpunni England to Iceland fyrir skömmu. En sem bragarbót fá áhorfendur myndina af Strokki að gjósa (31) í lit og í "action". Njótið, því enn eru ekki þekktar aðrar skuggamyndir úr þessari frægu syrpu frá Íslandi. Þær gætu leynst uppi á einhverju lofti verður maður þó að vona, svo að allar myndirnar komi í ljós. 

Þess ber að geta, að mynd númer 29 er til á pappír á Þjóðminjasafninu og er eignuð Sigfúsi Eymundssyni. Fornleifur leyfir sér einnig að benda á að á mynd 28 sést tjald , sem hafa verið handmáluð á glerið ásamt manninum til hliðar við það.

Mynd 28 er í raun sama mynd og mynd númer 31. Tjaldið er af sömu gerð og tjald Rowleys veiðifélaga Burnetts (sjá fyrri kafla og Frank Ponzi 1995. Ísland fyrir aldamót, Brennholt; Bls. 143). Tjaldið er svo kallað "Kabúl-tjald". Fornleif grunar, að myndirnar frá Geysi hafi verið teknar af Burnett eða að Sigfús Eymundsson hafi verið honum innan handar við myndatökur í Haukadal. Myndirnar í syrpu Riley Bræðra virðast greinilega vera blanda af myndum Burnetts og Tevelyans og hins vegar Sigfúsar Eymundssonar.e_g_wood_england_to_iceland_31_-_edge_inscr_32411_strokr_in_action_b_fornleifur_copyrigth.jpg

Gullfoss

rb_england_to_iceland_32_gullfoss_fornleifur_copyright.jpg

Í dag verður vegna skyndilegrar ofhitnunar aukasýning hjá Fornleifi, áhorfendum að kostnaðarlausu. Töfralampinn hefur náð að kólna aðeins. 

Fyrst er mynd af Gullfoss úr syrpunni England to Iceland. Hún var tölusett sem mynd 32 og titilinn Gullfoss--upper. Einnig var önnur mynd í syrpunni af Gullfoss og bar hún vitaskuld titilinn Gullfoss -- lower og var númer 33. Þetta var greinilega allt mjög skipulegt. Því miður var Gullfoss--lower ekki lengur til þegar Fornleifur keypti skuggamyndirnar á Cornwall. Mynd 32 var framleidd í syrpunni England to Iceland af Riley Bræðrum frá Bradford og er myndin samkvæmt Þjóðminjasafninu tekin af Sigfúsi Eymundssyni og mun það örugglega rétt því safnið á þurrnegatífu með nákvæmlega sömu mynd.

Brúará viðbót

bruara_eymundsson-fornleifur_copyright.jpg

Brúará, mynd eftir Sigfús Eymundsson framleidd af E.G. Wood rétt fyrir aldamótin 1900.

Um daginn voru tvær skuggamyndir af Brúarfossum sýndar á Fornleifi (sjá hér). Fornleifur keypti reyndar þrjár myndir af Brúarárfossum á Cornwall. Sú mynd af Brúará sem ekki var sýnd um daginn verður sýnd hér í dag. Hún var úr syrpu þeirri sem E.G. Wood framleiddi og sem hann kallaði A travel to Iceland. Sú syrpa innihélt sama  myndefni- og sömu númer og syrpa Riley Bræðra, enda keypti E.G. Wood útgáfuréttinn af Reiley Bræðrum.

Þar sem skuggmyndafyrirtækið E.G. Wood notaðist við sama myndefni og númeraröð á myndefninu á Brúará, er rökrétt að álykta að þessi mynd hafi hjá E.G. Wood komið í stað myndarinnar nr. 27, sem Riley Bræður kölluðu Bruera and Bridge. Þessi mynd E.G. Wood er miklu betri en yfirretúsheruð mynd Riley Bræðra. Alltaf má gera betur.

Hitt er þó ef til vill áhugaverðara að á myndinni stendur: S. EYMUNDSSON MED EINKARJETTI. Það þarf því ekki að fara í grafgötur með það hver myndasmiðurinn var.

bruin_naermynd.jpg

 

 

9. kafli

 fornleifur_copyright_rb_england_to_iceland_34_hekla_1284058.jpg

Enginn landkynning um Ísland er fullkomin nema að frægasta fjall landsins, Hekla, sé haft með. "Edjafjolladjokel" er kannski orðið frægara í dag, en Hekla var sögufrægt fjall úti í hinum stóra heimi þegar á síðari hluta miðalda, og var með frægari fjöllum hins þekkta heims.

Sumir fræðimenn, t.d. Sigurður Þórarinsson, vildu jafnvel halda því fram að Hekla hefði þegar verið nefnt í kvæðum á fyrsta hluta 12. aldar. Svo var þó ekki. Sigurður hafði ekki fyrir því sjálfur að finna þetta ljóð, sem þá hafði nýlega gosið hvítri gjósku í byrjun 12. aldar (ntt árið 1104). En Hekla er ekki nefnd á nafn i þessum ljóði munks sem hét Benedeit. Askan er sögð svört og fjallið er við ströndina. Samt taldi Sigurður að höfundurinn væri að lýsa Heklu. Höfundurinn hefur þó hugsanlega heyrt um eldsumbrot á Íslandi, en það þarf alls ekki að vera Hekla sem þar kom við sögu. Furðulegt fræðimennska, en tímans tákn þegar Sigurður var upp á sitt besta. 

Líklega var það vafasamur heiður fjallsins síðar, þar sem fjallið var kynnt til sögunnar sem inngangur að helvíti, sem hélt Heklu á frægðartindinum meðal fjalla. Djöfullinn var svo mikilvægur fyrir kaþólikka, líkt og múslíma, að stundum var erfitt sjá hvort það var Kristur eða Djöfullinn sem var dýrkaður í þessum fjölmennustu höfuðtrúarbrögðum mannkynsins.

Með þessa djöfullegu tenginu Heklu var ekki komist hjá því að hafa Heklu með í fyrstu landkynningaskuggamyndunum sem sýndu Ísland í jafndjöfullegu apparati og Laterna Magica var. Páfastóll var svo hræddur við töfralampan á 17. öld að til tals kom að banna þetta djöflatæki. 

Ljósmyndin efst er með í syrpu Riley Bræðra í Bradford sem kom út um miðbik 9. áratugar 19. aldar. Þar er fjallið nefnt til sögunnar sem "Mount Heckla", bæði í auglýsingum og á miðanum sem límdur hefur verið á kant myndarinnar, Myndin er númer 34 í Íslandssyrpu Riley Bræðra. Ljósmyndari myndarinnar er ekki þekktur. Myndin sem er heldur dökk og drungaleg er ekki þekkt meðal mynda Sigfúsar Eymundssonar.

209390_1284062.jpg

Önnur skuggamynd af Heklu í heilmiklum ævintýraljóma var einnig þekkt í skuggamyndasýningum 19. aldar eins og áður hefur verið greint frá. Þessi ævintýramynd er í raun miklu betri til að lýsa "Heklu" þeirri sem Sigurður Þórarinsson taldi víst að minnst væri á í ljóði Benedeits munks, Navigationes sancti Brendani, sem er frá fyrsta fjórðungi 12. aldar. Hekla er þó hvergi nefnd í ljóðinu. Sigurður taldi einnig að Heklu væri óbeint lýst í Liber Miraculorum eftir Herbert af Clairvaux, sem er frá síðasta fjórðungi 12. aldar, n.t.t. í kafla sem kallast "De inferno Hyslandie", þar sem kemur fram að hraun eldfjallsins hafi  runnið í sjó fram. Menn voru enn að vitna í þessi 12. alda rit á 19. öld, þegar þau voru gefin út á prenti í fræðilegum útgáfum.

S. EYMUNDSON MED EINKARJETTI

Fornleifur keypti aðra Heklumynd, sem er úr syrpu E.G. Wood frá því um 1890 eða skömmu síðar. Hún er öllu betri að gæðum en myndin efst úr syrpu Riley Bræðra, þótt sú mynd sé samt mjög áhrifamikil og full af dularfullum drunga. 

fornleifur_copyright_hekla_eymundsson_e_g_wood_b.jpg

Myndin í syrpu E.G. Wood var tekin af Sigfúsi Eymundssyni. Maður er ekki í vafa um það, því hann merkir hana sér með þessari áletrun:

s_eymundsson_me_einkarjetti.jpg

Mynd þessi er til á Þjóðminjasafni Íslands á skyggnu og var hún þar til nýlega eignuð Árna G. Eylands og sögð vera frá 1920-30 (sjá hér)- sem er vitaskuld stórfurðuleg þegar Sigfús upplýsti menn að hann hefði tekið hana og var meira að segja fyrstur manna til að sýna einkaréttsyfirlýsingu á Íslandi á ljósmynd. Villan hefur nú verið leiðrétt af Þjóðminjasafni Íslands.  Myndin var einnig notuð til að sýna eldgos í Heklu árið 1847 á póstkorti. Kortið var prentað á fyrri hluta 20. aldar. Á þessu póstorti er nú einum of langt gengið í fölsun á upphafsrétti Sigfúsar Eymundarsonar og myndefninu sjálfu. Gosstrókur var tildæmis málaður inn á mynd Sigfúsar.

ibl255.jpg En hver hefur einkarétt á Heklu, nema hún sjálf? Hún gýs þegar hún þarf, en vissulega helst þegar helvíti þarf að ná sér í kaþólikka og aðra djöflatrúarmenn. Svo af nógu er að taka. Það er því ljóst að Hekla mun lengi enn hafa nægan brennivið.

lavagif2.gif

 

10. kafli

fornleifur_copyright_england_to_iceland_38.jpg

Jæja ágætu gestir, nú er komið að síðasta hluta skuggamyndasýningar Fornleifs. Síðasta myndin af þeim sem Fornleifur keypti á Cornwall fyrr í ár verður sýnd og reifuð í dag.

Við vitum hvaða dag hún var tekin, hvar hún var tekin og hverjir tóku ljósmyndina - og við vitum sömuleiðis að þeir tóku tvær myndir af sama atburðinum. Þar fyrir utan vitum við hver framleiddi skuggamyndina. 

En það er líka mikinn annan fróðleik af finna í þessari mynd. Hún er t.d. merkilegt fyrir mig, sem á að hluta til ættir að rekja í Kjósina og sýnir hvernig fólk, sem ég er ekki kominn af, var sumt vel í álnum í Kjósinni á 19. öldunni, og lék sér þar á eins konar þjóðbúningatískusýningum meðan fátæklingarnir á landinu þurftu að flýja til Reykjavíkur eða Vesturheims. Myndin sýnir vel eina af dellunum sem Íslendingar fengu á þeim öldum sem þeir voru mest hrjáðir. Þeir fóru að hanna sér þjóðbúninga. Skrýtinn veruleikaflótti það. Körlum þykir nú alltaf gott að konan sé sæt og góð, þó svo að illa áraði. Mín tilgáta er sú að konur gefist einnig síður upp en menn í hörmungum og harðæri. En venjulega voru það karlar sem stóðu fyrir hönnun á kvenbúningnum.

from_f_ponzi_1995.jpg

Reynivellir í Kjós, 11. júní 1882

Þann 11. júní 1882 var enn Kristni í landinu og því fermt í kirkjunni að Reynivöllum í Kjós. Svo vel vildi til að tveir erlendir ferðalangar voru boðnir til kirkju. Þetta voru þeir Maitland James Burnett og Walter H. Trevelyan, efnamenn sem stunduðu stangaveiðar á Íslandi og ljósmynduðu þess á milli fólk og fyrirbæri (sjá hér ef þið hafið þegar gleymt, eða lesið hina ágætu bók Ponzis frá 1995 Ísland fyrir Aldamót).

Skuggamyndin hér að ofan var líklega tekin þegar fólk kom úr kirkju og stillti sér upp vestan og suðvestan við kirkjuna til að láta útlendingana eilífa sig.

Teknar voru tvær myndir

udsnit_fra_slide.jpg

Þegar skuggamynd númer 38 í syrpu Riley Bræðra í Bradford í Jórvíkurskíri var keypt af forngripasala fyrr á þessu ári, varð fljótlega ljóst að hún hafði verið framleidd af fyrirtækinu fljótlega eftir að hún var tekin árið 1882. Í sölulistum Riley Brothers var hún kölluð Coming from Church. Líklegast er að Burnett og Trevelyan hafa útvegað myndir sínar til þessarar framleiðslu, eða að Sigfús Eymundsson hafi framkallað myndir fyrir þá félaga, en síðan sjálfur séð um að setja mynd þeirra til framleiðslu í skuggamyndaröðunum sem hann lét útbúa með Þorvaldi Ó. Johnson (sjá hér). Enn annar möguleiki er vissulega sá að Sigfús hafi tekið myndirnar fyrir Burnett og Trevelyan að Reynivöllum, en um slíkt samtarf vitum við aftur á móti ekkert. 

udsnit_fra_ponzi.jpg

Við nánari samanburð á mynd Burnetts og Trevelyans frá fermingunni við mynd 38 í syrpu Riley Bræðra kemur í ljós að alls ekki er um sömu mynd að ræða, þó hún sé tekin af sama ljósmyndara og sama dag.

Þetta sést á ýmsu, en greinilegast þegar maður beinir sjónum að konunum fyrir framan kirkjuna við heysátuna fremst í myndinni. Þær eru allar á iði. Þegar myndin, sem birt er í bók Frank Ponzis er tekin stendur ung kona í dyrgættinni á kirkjunni. Á myndinni sem hefur verið notuð í skyggnu númer 38 er hún horfin úr gáttinni. Þess vegna má álykta að teknar hafi verið tvær glerplötur af fólkinu sem kom frá kirkju þann 11. júní 1882.

Tískusýning eftir messu

skautkonur.jpg

Konurnar á myndunum frá Reynivöllum eru mesta prýði myndanna. Flestir karlanna sjást ekki á skuggamyndinni, því þeir standa vestar en myndin nær, þar sem hún hefur verið klippt skorin til að passa á glerið í skuggamyndunum sem var 8,2 x 8,2 sm að stærð meðan að glerplöturnar voru ferhyrndar og lengri á einn veginn en hinn eins og gjarnt er um ferhyrninga.

konur_me_sjol_from_f_ponzi_1995.jpgÍ frekar svölum júnímánuði árið 1881 sveipuðu konur sig með innfluttum skoskum teppum eða stórum sjölum sem Bretar kalla rugs eða scarves þegar þau voru minni, en Danir kalla þessi teppi plaide eftir mynstrinu sem er áþekkt því sem ofið tartan-vaðmál skotapilsa hefur. Teppi þessi voru kölluð sjöl á Íslandi og seldust mikið á 9. og 10. áratug 19. aldar.

konur_me_teppi_from_f_ponzi_1995.jpg

spa_afaldur_from_f_ponzi_1995_1284720.jpgMjög athyglisvert er að skoða búninga kvennanna sem höfðu verið við guðsþjónustuna. Þær eru flestar klæddar í skautbúninga hannaða af Sigurði Guðmundssyni málara á árunnum 1858-60. Fjórar kvennanna eru hins vegar í 19. aldar faldbúningi með spaðafald og traf. Enn enn aðrar í upphlut eða peysufötum. Ein kvennanna í skautbúningi og ber skikkju eða slá bryddaða með hvítu skinni. Aðrar frúr bera ofin, köflótt teppi yfir herðarnar, líklega innflutt. Það var mjög kalt í veðri árið 1881-1882 samkvæmt heimildum, en ljóst er að konur í sveitum áttu enn ekki almennilegar kápur á þessum tíma líkt og karlar. Tvær konur eru hins vegar með með hekluð sjöl. Ein kvennanna lítur út fyrir að vera í kyrtli við skautið. Kyrtilinn hannaði Sigurður málari um 1870. Konan í kirtlinum er hugsanlega dóttir síra Þorkels Bjarnsonar á Reynivöllum. Hún eða systir hennar er í þessum kirtli á annarri ljósmynd þeirra Burnetts og Trevelyans sem er birt í hinni góðu bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót (1995).

Engin kvennanna er sjáanlega með garðahúfu/kjólhúfu (sjá hér). Slík húfa sést á mynd 13 í myndaröð Riley Bræðra frá Ísland. Hins vegar var einnig til mynd af konu í hátíðarbúningi, Woman in Holiday Dress, sem líklegast var skautbúningur. Sú mynd var númer 37 samkvæmt auglýsingum Riley Bræðra. Gæti hugsast að það hafi verið mynd af af prestsfrúnni að Reynivöllum, þar sem hún stóð ein við borð fyrir utan íbúðarhúsið að Reynivöllum (sjá mynd 95 í Ísland fyrir Aldamót).

Prestar og karlar

prestar_from_f_ponzi_1995.jpg

Karlarnir virðast miklu færri en kvenpeningurinn í kirkju þennan daginn. Kannski hafa þeir ekki haft eins mikla þörf á því að eilífast á ljósmynd og konurnar, og eigi eru þeir nú beint glæsilegir, karlarnir í Kjósinni

Mikið ber á að karlarnir séu með bowlerhatta sem hafa væntanlega komið í kaupstað frá Bretlandseyjum með teppunum sem konurnar keyptu sér sem sjöl. Greinilegt var að bresk eða réttara sagt skosk sveitatíska var að ryðja sér til rúms á Íslandi.   

Burnett og Trevelyan komu oft við á Reynivöllum og voru vel kunnugir endurreisnarprestinum og Alþingismanninum Þorkatli Bjarnasyni (1839-1902) sem þar bjó með fjölskyldu sinni. Burnett kom einnig sumarið 1886 að Trevelyan látnum og ljósmyndaði fjölskyldu prestsins í bak of fyrir. Prestsfrúin, Sigríður Þorkelsdóttir (1835-1912), átti þessi forláta sólgleraugu sem gjörsamlega skáka augnbúnaði Fornleifs.

Látum þetta ágæta fólk setja punktinn að sinni og ef menn vilja fræðast meira um Reynivelli á 19. öld, þá er ágætt að horfa á þessa litlu fræðslumynd og stórmerku um Reynivelli i Kjós byggða á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar af bænum. Það er Inga Lára Baldvinsdóttir forstöðumaður myndasafns Þjóðminjasafns Íslands sem segir frá. Síðan ættu menn að lesa bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót (1995). Þannig geta þeir fengið sér góða sýnisferð aftur á 19. öld.

_orvaldur_bjarnason_og_fjolskylda_b.jpg

Myndin er úr bókinni Ísland fyrir Aldamót eftir Frank heitin Ponzi. Ljósmynd Maitland James Burnett 1886.

Þakkir:

Þakkir færi ég vinum mínum sagnfræðingunum Kristjáni Sveinssyni, mag.art. og Einari Jónssyni úr Skógum, sem einnig er löglærður. Þeir eru báðir fyrrverandi sveitadrengir með annan fótinn á 19. öldinni. Ég þakka þeim viðræður og upplýsingar um myndirnar; Sér í lagi Einari Jónssyni fyrir að greina mér frá myndum Burnetts og Trevelyans frá Reynivöllum í Kjós í hinni góðu bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót. Þó að faðir minn hafi útvegað eina mynd í bókina entist honum ekki aldur til að sjá bókina útgefna, en ég náði loks í eintak hjá ágætum fornbókasala á Selfossi sem tók sér ríflega greiðslu fyrir hana, enda bókin orðin afar sjaldséð. Vonandi vill einhver standa í því að gefa hana aftur út.

Sömuleiðis bestu þakkir til Dr Richard Crangle, Developer, Lucerna Magic Lantern Web Resource Exeter, U.K. sem miðlaði af upplýsingum af því sem Lucerna hefur safnað um Íslandsmyndum Riley bræðra og E.G. Woods. Starfsmenn Lucerna vefsins höfðu þó aldrei áður en þessir kaflar voru birtir sé nokkrar af myndunum úr Íslandssyrpunum.

thats_all_folks.gif

 lucerna_england_to_iceland.jpg

Titlar ljósmynda í syrpu Riley Bræðra frá Íslandi. Myndir með bláum bakgrunni hafa fundist, hinar ekki.


Ísland í töfralampanum: 10. hluti

fornleifur_copyright_england_to_iceland_38.jpg

Jæja ágætu gestir, nú er komið að síðasta hluta skuggamyndasýningar Fornleifs. Síðasta myndin af þeim sem Fornleifur keypti á Cornwall fyrr í ár verður sýnd og reifuð í dag.

Við vitum hvaða dag hún var tekin, hvar hún var tekin og hverjir tóku ljósmyndina - og við vitum sömuleiðis að þeir tóku tvær myndir af sama atburðinum. Þar fyrir utan vitum við hver framleiddi skuggamyndina. 

En það er líka mikinn annan fróðleik af finna í þessari mynd. Hún er t.d. merkilegt fyrir mig, sem á að hluta til ættir að rekja í Kjósina og sýnir hvernig fólk, sem ég er ekki kominn af, var sumt vel í álnum í Kjósinni á 19. öldunni, og lék sér þar á eins konar þjóðbúningatískusýningum meðan fátæklingarnir á landinu þurftu að flýja til Reykjavíkur eða Vesturheims. Myndin sýnir vel eina af dellunum sem Íslendingar fengu á þeim öldum sem þeir voru mest hrjáðir. Þeir fóru að hanna sér þjóðbúninga. Skrýtinn veruleikaflótti það. Körlum þykir nú alltaf gott að konan sé sæt og góð, þó svo að illa áraði. Mín tilgáta er sú að konur gefist einnig síður upp en menn í hörmungum og harðæri. En venjulega voru það karlar sem stóðu fyrir hönnun á kvenbúningnum.

from_f_ponzi_1995.jpg

Reynivellir í Kjós, 11. júní 1882

Þann 11. júní 1882 var enn Kristni í landinu og því fermt í kirkjunni að Reynivöllum í Kjós. Svo vel vildi til að tveir erlendir ferðalangar voru boðnir til kirkju. Þetta voru þeir Maitland James Burnett og Walter H. Trevelyan, efnamenn sem stunduðu stangaveiðar á Íslandi og ljósmynduðu þess á milli fólk og fyrirbæri (sjá hér ef þið hafið þegar gleymt, eða lesið hina ágætu bók Ponzis frá 1995 Ísland fyrir Aldamót).

Skuggamyndin hér að ofan var líklega tekin þegar fólk kom úr kirkju og stillti sér upp vestan og suðvestan við kirkjuna til að láta útlendingana eilífa sig.

Teknar voru tvær myndir

udsnit_fra_slide.jpg

Þegar skuggamynd númer 38 í syrpu Riley Bræðra í Bradford í Jórvíkurskíri var keypt af forngripasala fyrr á þessu ári, varð fljótlega ljóst að hún hafði verið framleidd af fyrirtækinu fljótlega eftir að hún var tekin árið 1882. Í sölulistum Riley Brothers var hún kölluð Coming from Church. Líklegast er að Burnett og Trevelyan hafa útvegað myndir sínar til þessarar framleiðslu, eða að Sigfús Eymundsson hafi framkallað myndir fyrir þá félaga, en síðan sjálfur séð um að setja mynd þeirra til framleiðslu í skuggamyndaröðunum sem hann lét útbúa með Þorvaldi Ó. Johnson (sjá hér). Enn annar möguleiki er vissulega sá að Sigfús hafi tekið myndirnar fyrir Burnett og Trevelyan að Reynivöllum, en um slíkt samtarf vitum við aftur á móti ekkert. 

udsnit_fra_ponzi.jpg

Við nánari samanburð á mynd Burnetts og Trevelyans frá fermingunni við mynd 38 í syrpu Riley Bræðra kemur í ljós að alls ekki er um sömu mynd að ræða, þó hún sé tekin af sama ljósmyndara og sama dag.

Þetta sést á ýmsu, en greinilegast þegar maður beinir sjónum að konunum fyrir framan kirkjuna við heysátuna fremst í myndinni. Þær eru allar á iði. Þegar myndin, sem birt er í bók Frank Ponzis er tekin stendur ung kona í dyrgættinni á kirkjunni. Á myndinni sem hefur verið notuð í skyggnu númer 38 er hún horfin úr gáttinni. Þess vegna má álykta að teknar hafi verið tvær glerplötur af fólkinu sem kom frá kirkju þann 11. júní 1882.

Tískusýning eftir messu

skautkonur.jpg

Konurnar á myndunum frá Reynivöllum eru mesta prýði myndanna. Flestir karlanna sjást ekki á skuggamyndinni, því þeir standa vestar en myndin nær, þar sem hún hefur verið klippt skorin til að passa á glerið í skuggamyndunum sem var 8,2 x 8,2 sm að stærð meðan að glerplöturnar voru ferhyrndar og lengri á einn veginn en hinn eins og gjarnt er um ferhyrninga.

konur_me_sjol_from_f_ponzi_1995.jpgÍ frekar svölum júnímánuði árið 1881 sveipuðu konur sig með innfluttum skoskum teppum eða stórum sjölum sem Bretar kalla rugs eða scarves þegar þau voru minni, en Danir kalla þessi teppi plaide eftir mynstrinu sem er áþekkt því sem ofið tartan-vaðmál skotapilsa hefur. Teppi þessi voru kölluð sjöl á Íslandi og seldust mikið á 9. og 10. áratug 19. aldar.

konur_me_teppi_from_f_ponzi_1995.jpg

spa_afaldur_from_f_ponzi_1995_1284720.jpgMjög athyglisvert er að skoða búninga kvennanna sem höfðu verið við guðsþjónustuna. Þær eru flestar klæddar í skautbúninga hannaða af Sigurði Guðmundssyni málara á árunnum 1858-60. Fjórar kvennanna eru hins vegar í 19. aldar faldbúningi með spaðafald og traf. Enn enn aðrar í upphlut eða peysufötum. Ein kvennanna í skautbúningi og ber skikkju eða slá bryddaða með hvítu skinni. Aðrar frúr bera ofin, köflótt teppi yfir herðarnar, líklega innflutt. Það var mjög kalt í veðri árið 1881-1882 samkvæmt heimildum, en ljóst er að konur í sveitum áttu enn ekki almennilegar kápur á þessum tíma líkt og karlar. Tvær konur eru hins vegar með með hekluð sjöl. Ein kvennanna lítur út fyrir að vera í kyrtli við skautið. Kyrtilinn hannaði Sigurður málari um 1870. Konan í kirtlinum er hugsanlega dóttir síra Þorkels Bjarnsonar á Reynivöllum. Hún eða systir hennar er í þessum kirtli á annarri ljósmynd þeirra Burnetts og Trevelyans sem er birt í hinni góðu bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót (1995).

Engin kvennanna er sjáanlega með garðahúfu/kjólhúfu (sjá hér). Slík húfa sést á mynd 13 í myndaröð Riley Bræðra frá Ísland. Hins vegar var einnig til mynd af konu í hátíðarbúningi, Woman in Holiday Dress, sem líklegast var skautbúningur. Sú mynd var númer 37 samkvæmt auglýsingum Riley Bræðra. Gæti hugsast að það hafi verið mynd af af prestsfrúnni að Reynivöllum, þar sem hún stóð ein við borð fyrir utan íbúðarhúsið að Reynivöllum (sjá mynd 95 í Ísland fyrir Aldamót).

Prestar og karlar

prestar_from_f_ponzi_1995.jpg

Karlarnir virðast miklu færri en kvenpeningurinn í kirkju þennan daginn. Kannski hafa þeir ekki haft eins mikla þörf á því að eilífast á ljósmynd og konurnar, og eigi eru þeir nú beint glæsilegir, karlarnir í Kjósinni

Mikið ber á að karlarnir séu með bowlerhatta sem hafa væntanlega komið í kaupstað frá Bretlandseyjum með teppunum sem konurnar keyptu sér sem sjöl. Greinilegt var að bresk eða réttara sagt skosk sveitatíska var að ryðja sér til rúms á Íslandi.   

Burnett og Trevelyan komu oft við á Reynivöllum og voru vel kunnugir endurreisnarprestinum og Alþingismanninum Þorkatli Bjarnasyni (1839-1902) sem þar bjó með fjölskyldu sinni. Burnett kom einnig sumarið 1886 að Trevelyan látnum og ljósmyndaði fjölskyldu prestsins í bak of fyrir. Prestsfrúin, Sigríður Þorkelsdóttir (1835-1912), átti þessi forláta sólgleraugu sem gjörsamlega skáka augnbúnaði Fornleifs.

Látum þetta ágæta fólk setja punktinn að sinni og ef menn vilja fræðast meira um Reynivelli á 19. öld, þá er ágætt að horfa á þessa litlu fræðslumynd og stórmerku um Reynivelli i Kjós byggða á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar af bænum. Það er Inga Lára Baldvinsdóttir forstöðumaður myndasafns Þjóðminjasafns Íslands sem segir frá. Síðan ættu menn að lesa bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót (1995). Þannig geta þeir fengið sér góða sýnisferð aftur á 19. öld.

_orvaldur_bjarnason_og_fjolskylda_b.jpg

Myndin er úr bókinni Ísland fyrir Aldamót eftir Frank heitin Ponzi. Ljósmynd Maitland James Burnett 1886.

Þakkir:

Þakkir færi ég vinum mínum sagnfræðingunum Kristjáni Sveinssyni, mag.art. og Einari Jónssyni úr Skógum, sem einnig er löglærður. Þeir eru báðir fyrrverandi sveitadrengir með annan fótinn á 19. öldinni. Ég þakka þeim viðræður og upplýsingar um myndirnar; Sér í lagi Einari Jónssyni fyrir að greina mér frá myndum Burnetts og Trevelyans frá Reynivöllum í Kjós í hinni góðu bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót. Þó að faðir minn hafi útvegað eina mynd í bókina entist honum ekki aldur til að sjá bókina útgefna, en ég náði loks í eintak hjá ágætum fornbókasala á Selfossi sem tók sér ríflega greiðslu fyrir hana, enda bókin orðin afar sjaldséð. Vonandi vill einhver standa í því að gefa hana aftur út.

thats_all_folks.gif

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ísland í töfralampanum 2. hluti

Ísland í töfralampanum 3. hluti

Ísland í töfralampanum 4. hluti

Ísland í töfralampanum 5. hluti

Ísland í töfralampanum 6. hluti

Ísland í töfralampanum 7. hluti

Ísland í töfralampanum 8. hluti

Ísland í töfralampanum 9. hluti

Þú varst að enda við að lesa Ísland í töfralampanum 10. hluta

lucerna_england_to_iceland.jpg

Titlar ljósmynda í syrpu Riley Bræðra frá Íslandi. Myndir með bláum bakgrunni hafa fundist, hinar ekki.


Ísland í töfralampanum: 9. hluti

fornleifur_copyright_rb_england_to_iceland_34_hekla_1284058.jpg

Enginn landkynning um Ísland er fullkomin nema að frægasta fjall landsins, Hekla, sé haft með. "Edjafjolladjokel" er kannski orðið frægara í dag, en Hekla var sögufrægt fjall úti í hinum stóra heimi þegar á síðari hluta miðalda, og var með frægari fjöllum hins þekkta heims.

Sumir fræðimenn, t.d. Sigurður Þórarinsson, vildu jafnvel halda því fram að Hekla hefði þegar verið nefnt í kvæðum á fyrsta hluta 12. aldar. Svo var þó ekki. Sigurður hafði ekki fyrir því sjálfur að finna þetta ljóð, sem þá hafði nýlega gosið hvítri gjósku í byrjun 12. aldar (ntt árið 1104). En Hekla er ekki nefnd á nafn i þessum ljóði munks sem hét Benedeit. Askan er sögð svört og fjallið er við ströndina. Samt taldi Sigurður að höfundurinn væri að lýsa Heklu. Höfundurinn hefur þó hugsanlega heyrt um eldsumbrot á Íslandi, en það þarf alls ekki að vera Hekla sem þar kom við sögu. Furðulegt fræðimennska, en tímans tákn þegar Sigurður var upp á sitt besta. 

Líklega var það vafasamur heiður fjallsins síðar, þar sem fjallið var kynnt til sögunnar sem inngangur að helvíti, sem hélt Heklu á frægðartindinum meðal fjalla. Djöfullinn var svo mikilvægur fyrir kaþólikka, líkt og múslíma, að stundum var erfitt sjá hvort það var Kristur eða Djöfullinn sem var dýrkaður í þessum fjölmennustu höfuðtrúarbrögðum mannkynsins.

Með þessa djöfullegu tenginu Heklu var ekki komist hjá því að hafa Heklu með í fyrstu landkynningaskuggamyndunum sem sýndu Ísland í jafndjöfullegu apparati og Laterna Magica var. Páfastóll var svo hræddur við töframpan á 17. öld að til tals kom að banna þetta djöflatæki. 

Ljósmyndin efst er með í syrpu Riley Bræðra í Bradford sem kom út um miðbik 9. áratugar 19. aldar. Þar er fjallið nefnt til sögunnar sem "Mount Heckla", bæði í auglýsingum og á miðanum sem límdur hefur verið á kant myndarinnar, Myndin er númer 34 í Íslandssyrpu Riley Bræðra. Ljósmyndari myndarinnar er ekki þekktur. Myndin sem er heldur dökk og drungaleg er ekki þekkt meðal mynda Sigfúsar Eymundssonar.

209390_1284062.jpg

Önnur skuggamynd af Heklu í heilmiklum ævintýraljóma var einnig þekkt í skuggamyndasýningum 19. aldar eins og áður hefur verið greint frá. Þessi ævintýramynd er í raun miklu betri til að lýsa "Heklu" þeirri sem Sigurður Þórarinsson taldi víst að minnst væri á í ljóði Benedeits munks, Navigationes sancti Brendani, sem er frá fyrsta fjórðungi 12. aldar. Hekla er þó hvergi nefnd í ljóðinu. Sigurður taldi einnig að Heklu væri óbeint lýst í Liber Miraculorum eftir Herbert af Clairvaux, sem er frá síðasta fjórðungi 12. aldar, n.t.t. í kafla sem kallast "De inferno Hyslandie", þar sem kemur fram að hraun eldfjallsins hafi  runnið í sjó fram. Menn voru enn að vitna í þessi 12. alda rit á 19. öld, þegar þau voru gefin út á prenti í fræðilegum útgáfum.

S. EYMUNDSON MED EINKARJETTI

Fornleifur keypti aðra Heklumynd, sem er úr syrpu E.G. Wood frá því um 1890 eða skömmu síðar. Hún er öllu betri að gæðum en myndin efst úr syrpu Riley Bræðra, þótt sú mynd sé samt mjög áhrifamikil og full af dularfullum drunga. 

fornleifur_copyright_hekla_eymundsson_e_g_wood_b.jpg

Myndin í syrpu E.G. Wood var tekin af Sigfúsi Eymundssyni. Maður er ekki í vafa um það, því hann merkir hana sér með þessari áletrun:

s_eymundsson_me_einkarjetti.jpg

Mynd þessi er til á Þjóðminjasafni Íslands á skyggnu og var hún þar til nýlega eignuð Árna G. Eylands og sögð vera frá 1920-30 (sjá hér)- sem er vitaskuld stórfurðuleg þegar Sigfús upplýsti menn að hann hefði tekið hana og var meira að segja fyrstur manna til að sýna einkaréttsyfirlýsingu á Íslandi á ljósmynd. Villan hefur nú verið leiðrétt af Þjóðminjasafni Íslands.  Myndin var einnig notuð til að sýna eldgos í Heklu árið 1847 á póstkorti. Kortið var prentð á fyrri hluta 20. aldar. Á þessu póstorti er nú einum of langt gengið í fölsun á upphafsrétti Sigfúsar Eymundarsonar og myndefninu sjálfu. Gosstrókur var tildæmis málaður inn á mynd Sigfúsar.

ibl255.jpg En hver hefur einkarétt á Heklu, nema hún sjálf? Hún gýs þegar hún þarf, en vissulega helst þegar helvíti þarf að ná sér í kaþólikka og aðra djöflatrúarmenn. Svo af nógu er að taka. Það er því ljóst að Hekla mun lengi enn hafa nægan brennivið.

lavagif2.gif

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ísland í töfralampanum 2. hluti

Ísland í töfralampanum 3. hluti

Ísland í töfralampanum 4. hluti

Ísland í töfralampanum 5. hluti

Ísland í töfralampanum 6. hluti

Ísland í töfralampanum 7. hluti

Ísland í töfralampanum 8. hluti

 


Ísland í töfralampanum: 8. hluti

tumblr_ldsp84uliv1qfppz2o1_500.gif

Hverjar eru þetta með leyfi? Jú, Gugga, Vigga og Maddí gátu greinilega ekki setið á sér lengur og urðu að fara í bíó hjá Fornleifi. Þær voru í óþreyju og eftirvæntingu sinni farnar að bryðja bolsíurnar sínar blessaðar stúlkurnar, og jafnvel Gunna sem enn er ekki búin að fá sér nýjar tennur. Þær biðu á fortóinu í allan dag og keyptu meira að segja biletin fyrir viku síðan svo þær gætu setið á fremsta bekk. Svona er þessar sýningar hjá Fornleifi nú vinsælar, og ætti landsbyggðin einnig að fara að átta sig á því.

Hvað er meira spennandi og yndisaukandi fyrir stúlkur á viðkvæmum aldri en myndir af vatni og gusum - þar með talið Geysi og Gullfossi. Þær hafa hvort eð er ekki kattarvit á því hvort er betri sem forseti Íslands, falleraður seðlabankastjóri eða fráfallinn kaþólikki. Það er svo leiðinlegt og þær velta ekki svo heimsspekilegum þönkum fyrir sér. Þær vilja í bíó og hafa fjör.

httpwww_slides_uni-trier_desetindex_phpid_3000590.jpg

Geysir var ávallt vinsælasti túristatrekkjari Íslendinga, eða allt þar til að hann gerðist skindauður vegna of mikils grænsápuáts.

Engin ferðalýsing af Íslandi með virðingu fyrir sjálfri sér frá því á 17 öld fram á þá 20. var fullkomin nema að mynd væri með af Geysi í Haukadal. Fljótlega varð goshverinn vinsæll á skuggamyndum 19. aldar í syrpum um jarðfræði eða undur alheims. Útlendingar komu gagngert til Íslands til að berja þessa himnamigu íslensku þjóðarinnar augum.  

rb_england_to_iceland_28_fornleifur_copyright.jpg

England to Iceland 28, Riley Brothers. Þetta er sama mynd og mynd 31 (sjá neðar) en í stað litar á 31 hefur þessi mynd fengið handmálað tjald og karl vestan við það.

Þess vegna getur það engan undrað að heilar fjórar myndir hafi verið af Geysissvæðinu í Haukadal í myndasyrpu Riley Bræðra England to Iceland. Allir öfunduðu íslensku þjóðina af sjálfvirkum gosbrunnum.

Myndirnar af Geysi og Geysissvæðinu í syrpunni eru þessar:

28  Tourists' Tents at Geyser (framleidd  af Riley Brothers í Bradford).

29  Great Geyser (framleidd af Reiley Brothers í Bradford).

30  Strokr in Sulks.

31  Strokr in Action  (framleidd af E.G. Woods á 74 Cheapside í Lundúnum)

rb_england_to_iceland_29_geysir_copyright_fornleifur.jpg

England to Iceland 29, Riley Brothers

Því miður tilkynnist hér með að mynd 30 var ekki til á Cornwall þegar Fornleifur keypti þar myndir úr syrpunni England to Iceland fyrir skömmu. En sem bragarbót fá áhorfendur myndina af Strokki að gjósa (31) í lit og í "action". Njótið, því enn eru ekki þekktar aðrar skuggamyndir úr þessari frægu syrpu frá Íslandi. Þær gætu leynst uppi á einhverju lofti verður maður þó að vona, svo að allar myndirnar komi í ljós. 

Þess ber að geta, að mynd númer 29 er til á pappír á Þjóðminjasafninu og er eignuð Sigfúsi Eymundssyni. Fornleifur leyfir sér einnig að benda á að á mynd 28 sést tjald , sem hafa verið handmáluð á glerið ásamt manninum til hliðar við það.

Mynd 28 er í raun sama mynd og mynd númer 31. Tjaldið er af sömu gerð og tjald Rowleys veiðifélaga Burnetts (sjá fyrri kafla og Frank Ponzi 1995. Ísland fyrir aldamót, Brennholt; Bls. 143). Tjaldið er svo kallað "Kabúl-tjald". Fornleif grunar, að myndirnar frá Geysi hafi verið teknar af Burnett eða að Sigfús Eymundsson hafi verið honum innan handar við myndatökur í Haukadal. Myndirnar í syrpu Riley Bræðra virðast greinilega vera blanda af myndum Burnetts og Tevelyans og hins vegar Sigfúsar Eymundssonar.e_g_wood_england_to_iceland_31_-_edge_inscr_32411_strokr_in_action_b_fornleifur_copyrigth.jpg

Gullfoss

rb_england_to_iceland_32_gullfoss_fornleifur_copyright.jpg

Í dag verður vegna skyndilegrar ofhitnunar aukasýning hjá Fornleifi, áhorfendum að kostnaðarlausu. Töfralampinn hefur náð að kólna aðeins. 

Fyrst er mynd af Gullfoss úr syrpunni England to Iceland. Hún var tölusett sem mynd 32 og titilinn Gullfoss--upper. Einnig var önnur mynd í syrpunni af Gullfoss og bar hún vitaskuld titilinn Gullfoss -- lower og var númer 33. Þetta var greinilega allt mjög skipulegt. Því miður var Gullfoss--lower ekki lengur til þegar Fornleifur keypti skuggamyndirnar á Cornwall. Mynd 32 var framleidd í syrpunni England to Iceland af Riley Bræðrum frá Bradford og er myndin samkvæmt Þjóðminjasafninu tekin af Sigfúsi Eymundssyni og mun það örugglega rétt því safnið á þurrnegatífu með nákvæmlega sömu mynd.

Brúará viðbót

bruara_eymundsson-fornleifur_copyright.jpg

Brúará, mynd eftir Sigfús Eymundsson framleidd af E.G. Wood rétt fyrir aldamótin 1900.

Um daginn voru tvær skuggamyndir af Brúarfossum sýndar á Fornleifi (sjá hér). Fornleifur keypti reyndar þrjár myndir af Brúarárfossum á Cornwall. Sú mynd af Brúará sem ekki var sýnd um daginn verður sýnd hér í dag. Hún var úr syrpu þeirri sem E.G. Wood framleiddi og sem hann kallaði A travel to Iceland. Sú syrpa innihélt sama  myndefni- og sömu númer og syrpa Riley Bræðra, enda keypti E.G. Wood útgáfuréttinn af Reiley Bræðrum.

Þar sem skuggmyndafyrirtækið E.G. Wood notaðist við sama myndefni og númeraröð á myndefninu á Brúará, er rökrétt að álykta að þessi mynd hafi hjá E.G. Wood komið í stað myndarinnar nr. 27, sem Riley Bræður kölluðu Bruera and Bridge. Þessi mynd E.G. Wood er miklu betri en yfirretúsheruð mynd Riley Bræðra. Alltaf má gera betur.

Hitt er þó ef til vill áhugaverðara að á myndinni stendur: S. EYMUNDSSON MED EINKARJETTI. Það þarf því ekki að fara í grafgötur með það hver myndasmiðurinn var.

bruin_naermynd.jpg

Fyrri kaflar

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ísland í töfralampanum 2. hluti

Ísland í töfralampanum 3. hluti

Ísland í töfralampanum 4. hluti

Ísland í töfralampanum 5. hluti

Ísland í töfralampanum 6. hluti

Ísland í töfralampanum 7. hluti


Ísland í töfralampanum: 7. hluti

26_bruera_rapids_fornleifur_copyright.jpg

Brúarárfossar voru líkt og í dag mjög vinsælt myndefni fyrir fyrstu ljósmyndarana á Íslandi. Útlendingar heilluðust einnig snemma af fossunum, einnig fyrir öld ljósmyndarinnar. Þeir voru því tilvaldir í landkynningarefni eins og skuggamyndir. Svo mikið hefur mönnum þótt koma til fegurðar fossanna, að tvær myndir af þeim, annars vegar af fossunum og hins vegar af brúnni, eru með í syrpu Riley Bræðra England to Iceland, sem Fornleifur keypti nýlega nokkrar myndir úr á Cornwall.

27_bruera_and_bridge_fornleifur_copyright.jpg

db_lanternist1_1282589.gifVafalaust er, að Sigfús Eymundsson er höfundur efri myndarinnar sem bar númer 26 í syrpu Riley Bræðra og kallast á ensku Bruera Rapids. Myndin er til í tveimur þurrnegatífu á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér og hér). Hin myndin sem er númer 27 og ber heitið Bruera and Bridge er mjög líklega einnig eftir hann.

Brúarárfossum voru þegar árið 1834 gerð skil af Frederik Theodor Kloss (sjá hér). Mynd Kloss kom seinna út prentuð sem litógrafía. Einnig er vel þekkt koparstunga Auguste Meyers frá 1838 í stórverki Gaimards: Voyage en Islande et au Groënland.

Meira er víst ekki hægt að teygja lopann um fossana og brýr á Brúará.

bruararfossar_meyer.jpg

Mynd Auguste Meyers af Brúarárfossum.

Fyrri kaflar í sögunni um fyrstu skuggamyndirnar frá Íslandi:

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ísland í töfralampanum 2. hluti

Ísland í töfralampanum 3. hluti

Ísland í töfralampanum 4. hluti

Ísland í töfralampanum 5. hluti

Ísland í töfralampanum 6. hluti


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband