Gullnæla frá Skipholti

Nælan frá Skipholti

Nælu þessa afhenti Jóhann Briem prófastur í Hruna Forngripasafninu árið 1870. Lítið segir Sigurður Guðmundsson málari um hana í safnskrá Þjóðminjasafnsins  nema að hún hafi lengi verið í eigu langfeðga í Skipholti í Hrunamannahreppi og er hún metin til 5 ríkisdala.

Mjög vönduð smíð er á nælunni sem ber safnnúmerið Þjms. 803. Hún er rúmir 2 sm að ummáli þar sem það er mest og 2 mm þar sem hún er þykkust. Mikið gull er því ekki í gripnum. Nælan er samsett af tveimur vængjuðum drekum, sem mynda hring með bolnum. Þeir snúa saman hausunum að ásnum sem þornið leikur á, en vinda hins vegar hölum saman, og enda þeir í höggormshausum. Út frá stíl og verklagi er sennilegast að nælan sé frá 12. öld eða byrjun þerrar 13.

Slík drekadýr voru í goðsögnum Forn-Grikkja og í furðudýrafræði (Bestiarium) miðalda kölluð Amphisbaena, sem þýðir að þau gátu jafnauðveldlega gengið fram og aftur. Þetta voru hin verstu dýr, hvorki fugl né fiskur, en skaðlaus ef þau horfðust í augu hvort við annað eða í spegil.

Amphisbaena
Amphisbaena

Einhver máttur hefur eflaust verið eignaður nælunni. Furðudýr, drekar, rándýr, púkar og djöflar voru oft á skreytingum á dyrabúnaði kirkna um alla Evrópu á miðöldum. Vafalaust var tilgangurinn með því sú hugsum að með illu megi illt út reka. Stórir dyrahringir úr bronsi, sem eru alveg eins í laginu og nælan frá Skipholti  hafa verið á kirkjuhurðum í Noregi (t.d. í Norderhov og Hjartdal í Þelamörk) og vonandi bægt illum vættum frá söfnuðunum.

Annar miðaldahlutur úr gulli, forláta vafningshringur (Þjms. 804) með áletrunina Halldor(a) jons. Dotter innan í, hefur einnig fundist í Skipholti. Vera kann að í Skipholti hafi í einhvern tíman verið ríkir bændur þar sem tveir fegurstu skartgripir íslenskra miðalda hafa varðveist þar. Þess má geta að Jón bróðið Fjalla-Eyvindar bjó í Skipholti um miðja 18. öld.

Gullhlutirnir frá Skipholti eru meðal fárra gripa úr gulli sem varðveist hafa frá fyrri öldum á Íslandi. Skíragull er ekki oft nefnt í fornbókmenntum okkar Íslendinga. Enn sjaldnar finnst það á forngripum. Þá er það oftast sem logagylling á hlutum úr bronsi. Aðeins hefur fundist einn gripur úr hreinu gulli frá söguöld og er það lítill hnappur úr gullþráðum sem fannst í kumli.

Ef verðmæti gulls er tekið sem mælikvarði á efnahag og afkomu, er auðvelt að álykta að á Íslandi hafi þjóðfélagsskipan verið öðruvísi á landnámsöld en ráða mætti af sumum Íslendinga sögum. Raunsæ túlkun á ritheimildum, sem og á efnislegri menningu fyrstu landnemanna segir sömu sögu. Íslendingar voru bændur sem leituðu betri afkomu hér en í heimasveitum sínum í Noregi og á Bretlandseyjum þar sem bújarðir voru vandfengnar. Þeir tóku með sér búsmala sinn, mismunandi menningu, hefðir og reynslu, sem aðlöguðust misjafnlega fljótt aðstæðum á Íslandi.

Sumir þættir hinnar upphaflegu menningar og efnahags hafa heldur aldrei breyst að ráði. Menn héldu tryggð við sauðféð, sem reyndist lífseigara en t.d. nautpeningur og var sauðaeign því miklu hagkvæmari en akuryrkja. Sauðkindin varð því gull landsmanna. Aðra kosti eygðu menn ekki fyrr en seint og síðar meir.

Gull og gildir sjóðir voru vafalaust lítils virði fyrir efnahag eyjarskeggja, sem byggðu nær allt á landbúnaði. Ef til vill hafa einstaka menn þó lumað á digurri sjóðum, eins og þeim sem er greint frá í rituðum heimildum miðalda. Tilgangur fornleifafræðinga er ekki aðeins að leita að þeim, heldur að gefa sem gleggsta mynd af þeirri þjóðfélagsgerð og efnahag sem ríkti, út frá þekkingu sem við höfum í nútímanum.

Grein þessi birtist fyrst í bókinni Gersemar og Þarfaþing (1994), bók sem Þjóðminjasafn Íslands gaf út á 130 ára afmæli safnsins og sem Árni Björnsson ritstýrði. Örlitlar viðbætur hafa verið gerðar við grein mína hér.

Ljósmyndina efst hefur Ívar Brynjólfsson tekið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Mikið, kannski mest allt það litla gull og silfur, sem hér var að finna á miðöldum hefur væntanlega borist með landnámsmönnum. Þótt sögurnar af ránum víkingja séu vafalaust ýktar bæði af Íslendingum og fórnarlömbum þeirra á Bretlandseyjum og víðar verður ekki fram hjá því litið að þeir höfðu farið ránshendi um hina kristnu Norður- Evrópu og ekki hlíft kirkjum eða klaustrum, þar sem einna mest von var eðalmálma. Landnámsmenn áttu stór hafskip, sem þá sem nú voru stóreignir og voru margir engir ölmusumenn, þótt nú sé í tísku að líta svo á. Eftir þjóðveldisöld hefur örugglega afar lítið borist hingað af góðmálmum. Í staðinn komu vöruskipti, gjarnan með smjör eða vaðmál.

Vilhjálmur Eyþórsson, 1.10.2011 kl. 20:32

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Sammála Vilhjálmur, og ekki hefur gullið heldur verið mikið í upphafi, en það sem hefur komið hefur verið rækilega endurnýtt. Endurnýtingu kunnu menn fyrr á öldum, enda neyddust þeir til þess. Eitthvað hefur þó borist af gulli á fárra manna hendur á 15. og 16. öldinni.

FORNLEIFUR, 2.10.2011 kl. 06:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband