Gyðingar í hverju húsi
14.2.2013 | 18:48
Árið 2004 birtist tímaritsgrein eftir mig sem bar heitið Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004. Greinin innihélt stutta og hraðlesna sögu gyðinga á Íslandi. Þar kom margt fram sem ekki hafði verið vitað eða birt áður, og annað var leiðrétt.
Fyrir útgáfu þessarar greinar hafði kaflinn um gyðinga í Íslandssögunni (hans Þórs Whitehead) mest fjallað um að Framsóknarmenn hafi verið verri við gyðingana en Sjálfstæðismenn - og það er nú alls ekkert víst. Grein mín var langt frá því að vera tæmandi ritgjörð og í henni voru reyndar nokkrar smávægilegar villur. Greinin hefur einnig fengið gífurlega lesningu á vefsíðu, þar sem hún var einnig gefin út. Hún kom síðar út í bók. Upphaflega kom hún reyndar út á dönsku í styttri gerð í ársriti sögufélags danskra gyðinga Rambam sem ég ritstýrði um tíma.
Gyðingahatur á Íslandi
Gyðingaþjóðin er svo forn, að hún telst til fornleifa, og þess vegna er við hæfi að skrifa um hana hér. Einnig þess vegan ætti fyrir löngu að vera búið að friða hana.
En öfgamenn á öllum "vængjum" vilja einatt eyðileggja það sem gamalt er, til að skapa það sem þeir kalla á öllum tungumálum "Dögun". Þeir vilja byrja með "hreint borð" og "frá grunni" (þeir eru fundamentalistar og róttækir), og hvað er þá verra en gamalt, gagnrýnið og gyðingar. Gyðingar hafa því með fornleifum, trúarbrögðum og öðru verið byltingarmönnum þyrnir í augum. Jafnvel Karl Marx hataði gyðinginn í sjálfum sér. Gyðingaþjóðin hefur verið svo lengi til, að sumir vilja ólmir útrýma henni og rétti hennar til að vera til. Það mun aldrei takast. Sannið til.
Á Íslandi hafa gyðingar alltaf verið svo fáir, að ekki fara sögur af skipulögðum gyðingaofsóknum - ja fyrir utan að gyðingar á Íslandi hafa upplifað að bílar þeirra voru eyðilagðir þegar stríð var í Miðausturlöndum. Þeir þurfa að horfa upp á að sjúklegur gyðingahatari fær að spreða galli sínu á Moggablogginu. Maður nokkur, Arnold Eisen, gyðingur frá Bandaríkjunum, gekk fyrir nokkrum árum með kippah, kollhúfu gyðinga í Reykjavík, og lenti í hremmingum. Hann skrifaði um það vefgrein í Ísrael sem Morgunblaðið greindi frá:
Skömmu síðar rákust Eisen og kærasta hans á hóp skólabarna á aldrinum 12-15 ára sem voru í skoðunarferð líkt og þau. "Ég stöðvaði bifreiðina og fór út til þess að taka mynd og sá einn drengjanna grípa um öxl félaga síns til þess að ná athygli hans og benda á höfuð sér og síðan á mig, segjandi eitthvað um kollhúfu gyðinga sem ég var með á höfðinu. Og þá var áhugi félagans vakinn, hann smellti saman hælunum og gerði Heil Hitlers-kveðju. Margir af krökkunum fóru að hlæja," Sjá hér .
Gyðingahatur á Íslandi er því miður staðreynd og það eykst fremur en hitt. Ég fletti aðeins veraldarvefnum árið 2006 og á einni kvöldstund safnaði ég þessu saman. Þar er meðal annars að finna athugasemd einhvers Rúnars Þórs, sem vildi segja ofangreindum Eisen til syndanna.
Á síðustu öld voru líka til nasistagerpi á Íslandi. Þeir þrömmuðu um og leituðu meira að segja að gyðingum til að hatast út í. Þeir fundu vitanlega fáa, þar sem afi Guðmundar Steingrímssonar hafði með öðrum fínum herrum lokað á gyðinga til Íslands. En í staðinn gerður þeir Thors-fjölskylduna að gyðingaígildi og kölluðu Ólaf Thors háæruverðugan rabbí. Þótt þeir fyndu fáa af ættbálki Abrahams, þá fundu þeir margir hverjir síðar feit embætti þegar þeir þroskuðust til höfuðsins. Einn varð t.d. lögreglustjóri og annar bankastjóri enda sagðist hann vera hagfræðingur þótt hann hefði aldrei lokið prófi í þeirri grein, þótt það standi á heimasíðu Alþingis, þar sem hann lét einnig taka til sín.
Á meðan sat t.d. mikið menntaður maður í gömlu húsi á Grettisgötunni. Hann var frá Þýskalandi, þaðan sem hann neyddist til að flýja til Íslands um þær mundir sem bankastjórinn fyrrnefndur var að læra nasistahagfræði við háskóla í Kiel. Áður en Ottó kom til Íslands hafði hann setið í fangabúðunum Buchenwald með bróður sínum, sem var myrtur þar árið 1938. Hinn hámenntaði gyðingur Ottó Arnaldur Magnússon þurfti hins vegar að hafa ofan fjölskyldu sinni með einkakennslu í málum og raungreinum sem og útgáfu á lausnarheftum á stærðfræðibókum skólanna. Hann var kærður til lögreglu fyrir útgáfu þessara hefta. Í Háskóla Íslands komu menn í veg fyrir að hann fengi vinnu við þann skóla.
Brennimerktir sem gyðingar
En einn helsti þáttur sögu gyðinga á Íslandi er að hún er uppfull af mönnum sem ekki voru gyðingar. Íslendingar hafa stundað "Jew branding", þeir hafa brennimerkt menn sem gyðinga eða talið þá vera það, ef þeir voru hið minnsta dökkir á brún eða brá, með hrokkið hár, stórt nef eða ríkir. Þess vegna fengu t.d. Thorsararnir stimpilinn.
Menn sem lesa þessa grein mína taka líklega eftir því, að ég nefni ekki á nafn fjölda manna sem Íslendingar hafa venjulega ályktað að væru gyðingar eða gyðingaættum. Það var heldur ekki ætlun mín með greininni að gera tæmandi úttekt af ættum með gyðingablóð í æðum sér. En þeir sem sumir menn söknuðu voru reyndar ekki gyðingar, eða af gyðingaættum. Róbert Abraham Ottósson söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar var tæknilega séð ekki gyðingur og hafi ætt hans ekki verið það síðan á 19 öld, en Hitler hefði nú líklega ekki verið á sama máli. Ég skrifa hins vegar ekki um íslenska gyðinga út frá sjónarhorni Hitlers og Nürnberglaganna.
Frá lokum 19. aldar og fram á 21. öld hefur hins vegar borið mikið á því að ýmsir íslenskir fræðaþulir hafi þóst vita að önnur hvor dönsk ætt á Íslandi væri komin af gyðingum. Svo er einfaldlega ekki. Sumir gerðu þetta af hatri í garð danskra kaupmanna, en aðrir, eins og Pétur Pétursson þulur, af miklum áhuga í garð gyðinga. Pétur var það sem skilgreinist sem fílósemít, og vildi þess vegna, að því er ég held, hafa sem flesta gyðinga á Íslandi.
***
Líklega vegna þess að grein mín um gyðinga á vefnum hefur mikið verið lesinn um heim allan og hefur jafnvel verið stolið úr henni án þess að menn geti heimilda, að menn eru enn að hafa samband við mig um meintan gyðinglegan uppruna sinn, eins og að ég sé einhver Judenexperte, en það kallaði maður sérfræðinga Sicherheitsdienst og Gestapo í gyðingum. Ég veiti ekki slíka "ættfræði"þjónustu.
Landsfrægir menn hafa í tveimur tilvikum haft samband við mig til að fá það á hreint, svona eitt skipti fyrir öll, hvort ákveðinn forfaðir þeirra hafi verið gyðingur. Svo var örugglega ekki. Ég held frekast að þeim hafi þótt það leitt en verið létt.
Hér skulu sagðar nokkrar sögur að röngum ættfærslum, illgjörnum sem og frekar saklausum eins og þeirri fyrstu:
Dóttir fiðlusnillingsins
Nýlega hafði samband mig kona sem var að rannsaka ætt eina á Íslandi. Taldi konan það mögulegt, að danskur maður, Julius Thornberg, tónlistamaður og gleymdur fiðlusnillingur, hafi átt dóttur með íslenskri konur eftir stutt ævintýri í byrjun 20 aldar. Með tiltölulega einföldum aðferðum heima í stofu minni fann ég að maðurinn var af sænskum ættum og að í honum rann ekkert gyðingablóð sem hafði verið bókfest. Annað kom einnig út úr stuttri leit minni. Maðurinn hafði verið giftur píanóleikara frá Noregi, þegar hann átti í þessu sambandi við saklausa stúlku frá Íslandi. Maður þessi var m.a. konsertmeistari í Amsterdam og fiðluleikari við stórar hljómsveitir í Varsjá, og skömmu eftir að óskilgetna dóttirin fæddist fluttist hann til Berlínar en var miklu síðar konsertmeistari í Kaupmannahöfn. Dóttir hans vann á Ríkisútvarpinu á Skúlagötunni, þegar ég var þar sendisveinn á sínum tíma. Er þetta ekki stórmerkileg fjölskyldusaga, svo ekki þurfi að blanda í hana gyðingakreddu?
Mér er eiginlega mest hugsað til afkomenda þessa fiðlara. Hvað gerðist t.d. ef þeir væru brennandi í hatri sínu á Ísrael? Þau gerðu kannski það sama og maður nokkur ættaður frá Skagaströnd, sem fyrir mörgum árum svínaði Ísraelsríki til í röksemdafærslu sinni fyrir sakleysi Eðvald Heitins Hinrikssonar gyðingamorðingja þegar út kom eistnesk skýrsla sem endanlega staðfesti glæpi Eðvald. Þannig rök taldi Baldvin Berndsen sig get komið með því hann upplýsti að hann væri kominn af gyðingi sem settist að á Skagaströnd (sjá hér) En Baldvin Berndsen hefur líklegast ekki lesið æviminningar forföður síns, Fritz Berndsens. Hann segir frá uppruna sínum í ævisögunni og hvernig hann hafði ungur verið shabbesgoy hjá gyðingum í Kaupmannahöfn og fengið fyrir það te og sykurbrauð. Sjá svar mitt til Baldvins Berndsen í grein í DV. Hvað er svo shabbesgoy? Það getið þið lesið um í grein minni í DV.
Julius Thornberg var vitanlega snoppufríður karl, en ekki var hann gyðingur fyrir 5 aura
Tierney og Harmitage
Góður vinur minn, hörkuklár íslenskur sagnfræðingur, sem er mikill áhugamaður um sögu gyðinga og ætti fyrir löngu að vera búinn að gangast undir gyðingdóm og hnífinn, hafði fyrir nokkrum árum síðan samband við mig og taldi sig hafa fundið nýja gyðinga" á Íslandi. Það voru fatakaupmennirnir William Tierney og mágur hans John Harmitage, og vildi hann vita hvað ég héldi um þessa uppgötvun sína. Mér þótti nú í fljótu bragði nafnið Tierney hljóma mjög kunnuglega og þó ég þekkti ekki í fljótu bragði nafnið Harmitage er nafnið Hermitage ekki óþekkt á Bretlandseyjum. Lítil athugun leiddi í ljós að þessir menn voru baptistar frá Leith á Skotlandi og var Tierney,outfitterí Bernards Street 49 í Leith, að sögn ættaður frá Frakklandi. Sögufélag gyðinga á Skotlandi kannaðist ekkert við neina gyðinga með þessi ættarnöfn á Skotlandi, enda var Tierney baptisti.
En hvað kom til að vinur minn sagnfræðingurinn og aðrir héldu að Tierney og Harmitage væru af ættbálki Salómons. Jú, sjáið nú til. Ritstjóri Þjóðólfs, Jón Ólafsson Alþingismaður, fékk lesendabréf, sem mér sýnist á stílnum að gæti verið skrifað af honum sjálfum. Þetta bréf" og svarið, sem þið getið lesið hér fyrir neðan, birtist í Þjóðólfi þann 22. ágúst 1882. Jón ritstjóri taldi sig vita hvers kyns þeir væru þeir menn sem seldu notuð föt á Íslandi og taldi öruggt að ef kólera og bólan kæmi aftur væri það með gyðingum sem seldu gamla larfa.
Nú voru þessi gyðingar" bara baptistar frá hafnarbænum Leith, en meira en 120 árum síðar þótti mönnum ástæða til að taka ættfræði íslensks gyðingahatara trúanlega. Skrítið?
Alberts þáttur Obenhaupts
Þrátt fyrir að ég nefni alls ekki kaupmanninn Albert Obenhaupt á nafn í greininni minni víðlesnu og margstolnu, fæ ég enn fyrirspurnir um uppruna hans með skírskotun til þess að menn haldi hann vera gyðing. Nú síðast frá manni sem skrifar sögu hestaútflutnings á Íslandi. Obenhaupt mun hafa flutt út gæðing til Danmerkur árið 1907 en tekið hann með sér til baka ári síðar, sem var auðvitað kolólöglegt.
Menn telja hann almennt gyðing og kemur það til vegna þess að Vilhjálmur Finsen, einn stofnenda Morgunblaðsins og síðar sendiherra, sem á Morgunblaðsárum sínum líkaði greinileg ekki við gyðinga, skrifaði um Obenhaupt í ævisögu sinni Alltaf á heimleið (1953). Finsen sagði hann vera gyðing og það ekki af betri endanum" og hélt áfram; Obenhaupt fór vitanlega að versla; kaufen und verkaufen" (kaupa og selja) er orðtak gyðinga, hvar sem þeir eru á hnettinum. Hann flutti með sér sýnishorn af allskonar varningi, leigði stóra íbúð [Finsen meinar væntanlega að hann hafi tekið íbúðina á leigu] í Thomsenshúsi, þar sem síðar var Hótel Hekla, og barst mikið á. Hann drakk nær ekkert sjálfur, en hann veitti meir en almennt gerðist í Reykjavík þá. Þegar kaupmenn komu að skoða sýnishornin, var þeim ævinlega boðið inn í stofu og flaskan þá dregin upp. Svo var farið að tala um Businessinn".
Menn hafa síðan áfram haldið því fram, að Albert Obenhaupt væri gyðingur og gekk reyndar um þverbak þegar blaðamaðurinn Jónína Leósdóttir, eiginkona Jóhönnu Sigurðardóttur, gerði það opinskátt að hann hefði heitið Obenhautt í grein í Helgarpóstinum árið 1987. Jónína hafði eftir Hannesi Johnson, syni Ólafs Johnson, sem keypti hús af Obenhaupt, að Obenhaupt hefði alls ekki verið Þjóðverji heldur rússneskur gyðingur. Það er rugl eins og allt annað um þennan ágæta mann. Hann var ekki gyðingur eða af gyðingaættum frekar en Bryndís Schram, sem gekk fyrir að vera það í Washington hér um árið, er hún var sendiherrafrú.
Albert Conrad Frederik Obenhaupt fæddist í Kaupmannahöfn þann 17.7. 1886 og þar var hann skírður. Hann var sonur verslunarmannsins Ludvigs Martin Heinrich Obenhaupts sem fæddist í Hamborg árið 1856. Móðir Alberts var Johanna Marie Sophia fædd Segeberg. Albert var því Dani af þýskum ættum og alls ekki gyðingur. Sonur hans einn dó á Íslandi og annar sonur Wolfgang Wilhelm var fermdur í Dómkirkjunni. Eftir 1930 var Albert Obenhaupt fluttur til Hamborgar, þar sem hann bjó og er skráður með útflutningsfyrirtæki (Export) firma fram til 1937, síðast á Pumpen 6, sem er fræg skrifstofubygging sem kölluð er Chilehaus og stendur enn.
Albert Obenhaupt var maðurinn sem reisti Villa Frida við Þingholtstræti 29 A., þar sem Borgarbókasafnið var einu sinni til húsa. Í húsinu, sem fékk nafn konu hans, Fridu (sem var fædd Berger), bjó Obenhaupt aldrei svo heita megi. Nýr eigandi, Ólafur Johnson kallaði húsið Esjuberg. Obenhaupt reisti nokkur önnur merk hús á Íslandsárum sínum.
Miklu síðar var Esjuberg, eins og kunnugt er, selt norska málarameistaranum og fjáróreiðumanninum Odd Nerdrum. Húsið hlaut svo þau ömurlegu örlög að lenda í loðnum höndunum á afkomenda dansks rennismiðs. Hún heitir Gyða Wernersdóttir (Sørensen/ rest assured, no Jews in that family) og var um tíma kennd við Milestone. Nú er búið að framkvæma skemmdaverk á þessu fallega húsi "gyðingsins" vegna ömurlegrar "fagurfræði" hins gráðuga nýrýka liðs á Íslandi.
Lengi vel hékk uppi mynd af Obenhaupt í stigagangi í Borgarbókasafninu. Mér virtist hann vera lítill, jafnvel dvergvaxinn, og dökkur á brún og brá. Menn hafa líklega ályktað sem svo að þar sem hann var dökkleitur þá hafi hann verið gyðingur. Er það er nokkuð fordómafull aðferð til að álykta um gyðinglegan uppruna fólks, ekki ósvipuð þeirri aðferð sem Ungverjar notuðu á sínum tíma. Þeir töldu alla sem rauðhærðir voru (og eru) vera gyðinga. Í Portúgal forðum þótti víst, að fyrir utan að borða ekki svínakjöt væru gyðingar, sem leyndust fyrir rannsóknarréttinum, ljósari en aðrir á húð. Vilhjálmur Finsen taldi víst að Obenhaupt auglýsti ekki í Morgunblaðinu þar sem hann var gyðingur. Það var líka lygi.
Pétur Pétursson heitinn þulur, og mikill áhugamaður um gyðinga á jákvæðan hátt, skrifaði um Obenhaupt fyrir nokkrum árum og hefur líklega líka verið með til að festa þessa farandsögu Finsens um Obenhaupt sem gyðing.
Frímúrarahús varð að húsi "gyðings"
Ísraelsmaður einn hafði eitt sinn samband við Icelandic Review. Hann hafði verið á Íslandi ásamt komu sinni og ritaði: Me and my wife spent two and a half weeks in Iceland in July 2007 and had a great time. I just wanted to ask a small question regarding the photo attached. It was taken in Hafnarstraeti or Austurstraeti in downtown Reykjavík. Since you don't have a synagogue in Reykjavík, do you know the story behind the Star of David on that building?
Rannsóknarblaðamaður Iceland Review rannsakaði málið og svaraði:
According to Snorri Freyr Hilmarsson, who is on the board of the House Preservation Society Torfusamtökin, the Star of David is on that building on Austurstraeti 9 (which currently houses the nightclub Rex) because it used to be a store owned by merchant Egill Jacobsen, who came from a Danish-Jewish family.
Egill Jacobsen, sem kom til Íslands árið 1902 og dó þar af slysförum árið 1926. Hann var vissulega ekki af gyðingaættum, en hann var mikill kaupmaður í Reykjavík. Jacobsen er mjög algengt ættarnafn í Danmörku, en ekki á meðal gyðinga. Stjarnan sem á húsinu er komin til af því að á efri hæð hússins var lengi vel Frímúrarasamkomusalur og Egill Jakobsen var einn af stofnendum þeirrar reglu á Íslandi. Frímúrar hafa lengi ímyndað sér, að þeir væru eins konar musterisriddarar og þar með verndarar musteris Salómons. Þess vegna hafa sumar deildir þeirra löngum notað Davíðsstjörnuna, Magen David, sem tákn. Líkt og sirkil og hornamál og múrskeið. Synir Egils voru þeir Úlfar og Haukur og þóttu þeir nefstórir og dökkir, ja jafnvel "gyðinglegir", en þeir sóttu það í múttu sína Soffíu Sigríði sem var upphaflega Helgadóttir, snikkara í Þingholtsstræti. Hún rak verslun Egils Jacobsen áfram eftir lát manns síns með miklum myndarbrag þangað til hún dó árið 1973. Hún var mikil sjálfstæðiskona og í stjórn Hvatar til margra ára, og það gerir ekki fólk að gyðingum heldur. Ég man vel eftir henni í versluninni þegar ég var barn, mjög kringluleitri broshýrri konu - frá Íslandi. Synir hennar og Egils, Úlfar og Haukur voru brúnir á brá og með feita putta og stórt nef. En það voru sko íslensk erfðaeinkenni.
Hvað varðar fréttina á vefsíðu Iceland Review og upplýsingu starfskrafts Torfusamtakanna um húsið í Austurstræti 9, er ég fyrir löngu búinn að leiðrétta hana við blaðamann Iceland Review, sem ekkert gerði. Hún móðgaðist einna helst. Lygin er nefnilega lygilega oft góð frétt á Íslandi.
Lokaorð
Íslendingar hér áður fyrr og fordómar, þar var víst óaðskiljanleg eining. Útlendingahræðsla og afdalaháttur varð til þess að flestir Íslendingar kynntust lítið ef nokkuð þeim útlendingsgreyjum sem komu til landsins til að freista gæfunnar. Ef eitthvað var, hófust samskiptin vegna öfundar í garð sumra þeirra. En voru menn að hafa fyrir því að spyrja þá um þeirra hagi og fjölskyldutengsl? Nei, Íslendingar höfðu eingöngu áhuga sínum eigin, fallegu og frábæru ættum. Svo var það lengi, og er kannski enn.
Útlendir menn voru oft stimplaðir sem það versta af öllu, þ.e. gyðingar. Stimpillinn þjónaði nefnilega tilgangi. Ef menn voru stimplaður sem sjálfur óvinurinn, hluti af þeirri þjóð illmenna sem Passíusálmarnir hafa um langan aldur kennt Íslendingum að hata, þá hafði maður gott verkfæri til að gera keppinaut í viðskiptum, iðn eða mennt erfitt fyrir. Maður kallaði hann bara júða, ásakaði hann um að bera pest og kóleru til Íslands og vera til vandræða. Maður var tilbúinn að senda gyðinga í klær nasista.
Ég óska svo landsmönnum gleði við lestur Passíusálmanna í ár og fallegrar dauðahátíðar, þar sem þið kossfestið gyðing árlega í heilagri slepju og kennið gyðingum á öllum tímum um glæpinn og kallið það svo trú og jafnvel mikla list.
Meginflokkur: Gyðingar | Aukaflokkar: Fornþjóðir, Menning og listir, Sagnfræði | Breytt 14.8.2017 kl. 05:36 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert nú meiri rannsóknarkarlinn og leiðréttarinn, doktor minn.
En virkilega gaman að þessari samantekt þinni, sem ég renndi vel í gegnum, þótt letrið sé ofursmátt.
Hitt er alrangt hjá þér þarna í endinum, að Passíusálmarnir hafi "um langan aldur kennt Íslendingum að hata." Þar geristu mýthusmiður, vinur.
Jón Valur Jensson, 15.2.2013 kl. 01:26
Nei, ég er eiginlega mest viss um þetta síðasta.
FORNLEIFUR, 15.2.2013 kl. 01:29
sem venjulegur íslendingur ég viss um að enginn almennur Gyðingahatur sé hérna. en gott er að sjá söguna og þetta er bara flott grein
Rafn Guðmundsson, 15.2.2013 kl. 01:49
Sammála Rafni -- ekki þér, dottore!
Jón Valur Jensson, 15.2.2013 kl. 02:02
Ég veit vel Jón Valur, að þér þykir afar vænt um Passíusálmana. Það breytir því ekki að þúsundir manna um heim allan hafa heyrt um innihald þeirra og halda sig þess vegna frá Íslandi.
Það hefur ekki mikið breyst á Íslandi síðan ég fann þann ósóma sem er lýst hér á vefnum árið 2004. Ef eitthvað er, er munnlegt og skriflegt gyðingahatur orðið meira. Fyrir grein í síðasta tölublaði Reykjavík Grapevine þurfti miklar sannfæringar og fortölur til að fá vin minn Michael Levin til að tjá sig með mynd.
Kristnir og múslímar hafa þakkað Gyðingdómi fyrir "lánið", með því að gera gyðinga annars vegar að morðingjum Krists, og hins vegar að öpum og svínum í Íslam. Við getur líka nefnt hvað mörg mannslíf það hatur hefur tekið. Meðan þessi mein eru í Kristni og Íslam, fá þessi trúarbrögð aldrei frið í sálina. Hatrið í garð gyðinga verður alltaf landlægt.
Ég lifi það af, að menn séu ekki sammála mér.
FORNLEIFUR, 15.2.2013 kl. 09:42
Er þetta ekki ósköp einfalt mál, Vilhjálmur? Rómverjar létu krossfesta Krist, en undir miklum þrýstingi frá faríseum og einkum æðstu prestum Gyðinga, sem og upphlaupsmönnum á þeirra bandi sem söfnuðust saman til að krefjast krossfestingar hans, en að brotamaðurinn Barrabas skyldi látinn laus í staðinn! Það er hins vegar engin ástæða til að hafa andúð á síðari alda Gyðingum og hefur aldrei verið. Hafa Gyðingar ekki liðið miklu meira en margar aðrar þjóðir í gegnum söguna?
Jón Valur Jensson, 17.2.2013 kl. 00:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.