Meira um Ísfólkið

TEY0010003053

Margir muna kannski eftir Ísfólkinu, sem ég hef skrifað um hér á blogginu. Það var fjölleikahúshópur sem ferðaðist um Þýskaland og önnur lönd um miðjan 4. áratug síðustu aldar, og sögðust félagar í honum vera frá Íslandi. Þeir kölluðu sig Eismenchen von Islands hohem Norden. Síðla hausts árið 1936 móðgaði þessi hópur Eyþór Gunnarsson lækni með uppátækjum sínu. Hann fór á eina sýningu þeirra af forvitni til að sjá hvers kyns var og kvartaði síðar í viðeigandi ráðuneyti í Danmörku. Þar höfðu menn dálítið gaman af öllu saman.

Eins og margir vita, er hægt að stunda mikla fornleifafræði á netinu, án þess að fá leyfi hjá Minjastofnun, Þjóðminjasafni eða Sigmundi Davíð allsráðanda yfir öllu gömlu á Íslandi. Ég hef nýlega í algjöru leyfisleysi grafið upp ýmsar upplýsingar í Hollandi og annars staðar um þennan skringilega hóp í München.

To-Ya und die Eismenschen og Tom Jack (Karl Breu)

fe132beb77d6

Sýningarhópurinn Eismenschen, sem Eyþór Gunnarsson sá í München, voru líklega leifarnar af sýningarhópnum To-Ya und die Eismenschen, som hafði lagt Evrópu að fótum sér á 2. - 4. áratug 20. aldar. Á Englandi var hópurinn þekktur undir nafninu To-Ya and his Ice Family. Flokkurinn var stofnaður af albínóa, Karl Breu að nafni, sem fæddist 10. janúar 1884 (sumir telja 1876) í borginni Dubnany í Bæheimi, sem þá tilheyrði austuríska keisaradæminu, en tilheyrir í dag Tékklandi. Foreldrar Karls, sem voru glergerðarfólk eins og margir í Bæheimi, dóu þegar hann var ungur og var hann þá tekinn í fóstur af fjölskyldu móður sinnar í bænum Lenora.

Eiskönig

Karl Breu heillaðist ungur af sirkus og lífinu þar og réðst hann að einum slíkum sem trúður en fór fljótlega að stunda aðrar listir og stældi sjónhverfingarmeistarann Harry Houdini. Houdini var gyðingur (hét upphaflega Erik Weisz) og Breu albínói svo það kom út á eitt. Tók Breu sér listamannsnafnið Ískonungurinn (Eiskönig eða The Ice King), en notaði einnig nafnið Tom Jack í aðrar listir eins þegar hann leysti sig úr hnútum og hlekkjum líkt og Houdini. Tom Jack ferðaðist víða um Evrópu og í Lundúnum varð hann m.a. frægur er hann lét kasta sér í Thamesá frá Tower Bridge hlekkjuðum innan í tunnu. Sagan segir að þar hafi hurð skollið nærri hælum. Á hátindi frægðar sinnar var hann einnig þekktur fyrir sitt mikla, hvíta og hrokkna hár.

Tom Jack giftist albínóakonu sem kallaði sig Wally Paradise. Þau og börn þeirra tvö mynduðu flokkinn To-Ya und die Eismenschen ásamt öðrum albínóum og ýmsum öðrum sem brugðu sér í gervi hvítingja. Karl Breu lést í Beinstein í Þýskalandi árið 1953, en hans er enn minnst í Lenora í Tékklandi þar sem hann stofnaði sjóð fyrir fátæk börn.

Hér eru nokkrar myndir frá frægðarferli flokksins Eismenschen:

AB-1-H
To-Ya 2
To ya
AB-TO-YA-1
Eismenschen 2
Neðsta myndin er af hluta hópsins sem lék listir sínar í München haustið 1936. Karl Breu er ekki á myndinni.

Einstök plaköt í safni Jaap Best

Fyrirtækið Adolph Friedländers (1851-1904) í Hamborg sérhæfði sig í hönnun og prentun plakata fyrir skemmtistaði og sér í lagi sirkusa. Árið 1935 prentaði fyrirtæki hans, sem þá var rekið af sonum hans tveimur, myndir fyrir sirkushóp goðsögunnar Tom Jacks, Eismenschen. Þetta var rétt áður en nasistar tóku fyrirtækið af fjölskyldunni Friedländer sem voru gyðingar. Fyritækið A. Friedländers var þekkt fyrir prentun mjög vandaðra litógrafía. Allir sem vildu vera eitthvað í þeim heimi, hvort sem það var í Þýskalandi eða utan, létu prenta vönduð litógrafíuplaköt hjá Adoph Friedländer í Hamborg

Mikið safn slíkra plakata og prentmiða er að finna í safni Jaap Best, hollensk sirkusáhugmanns  sem safnaði sirkusminjum. Það var einmitt í því safni (sjá hér) að ég fann myndirnar af To Ya og Ísfjölskyldu hans. Í dag er safnið varðveitt í Teylers-safninu í Haarlem í Hollandi. Síðast þegar ég var þar, skoðaði ég safnið en uppgötvaði þá ekki frístundaíslendingana Tom Jack og Ísfólkið. En þar fann ég þessi skemmtilegu plaköt frá 1909 með Jóhannesi Jósefssyni sem síðar var kenndur var við Hótel Borg. Árið 1909 var hann greinilega glímukóngur heimsins og barðist frækilega í fornmannabúningi og með fálkamerkið á brjóstinu við illmenni gráa fyrir járnum. Þarna sýnist mér nú jafnvel að komið sé frumsniðið fyrir hinn eina sanna Superman.

TEY0010000535
TEY0010000572

"The boy who can throw you any moment het likes to". Safn Jaap Best, Teylers Museum.

Sú saga, sem sögð hefur verið hér, er vitanlega brot af sögu fínna og viðkvæmra þjóðernistilfinninga á Íslandi.

Það kemst enginn upp með það að leika íslenska albínóa nema að vera kærðir til yfirvaldsins. Þýskir listamenn sem halda að þeir geti leyft sér að gera hvað sem er, jafnvel sprautumála minnispunkta á landið okkar hreina, ættu bara að fara að vara sig... Þeir verða að lokum felldir með sniðglímu á lofti.

TEY0010003237
Þetta var greinilega kuldalegra atriði en blómagarðurinn í Reykjavík, í atriðinu Sonnenspiele, sem hópurinn sýndi í München árið 1936. Safn Jaap Best, Teylers Museum.
TEY0010003055
Ekki fara sögur af því að hópurinn hafi haldið mörgæsir. Líklegar er að þær hafi verið settar á plakatið til að lokka til áhorfendur (Friedländer 1935). Safn Jaap Best, Teylers Museum.
TEY0010003052
Ísfólk var greinilega blanda af góðu fólki frá Norður og Suðurpól, Grænlandi, Íslandi og Finnmörku, allt eftir hentugleika (Friedländer 1935). Safn Jaap Best, Teylers Museum.
TEY0010002038
Tom Jack brýst úr fjötrum, lögreglu allra landa til mikillar undrunar, á plakati frá Friedländer (1910). Safn Jaap Best, Teylers Museum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Hef ekki séð albinóa í mörg ár. Fá þeir ekki lengur að fæðast inn í heim okkar fullkomnu?

Ragnhildur Kolka, 17.6.2013 kl. 08:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband