Quisling ráðlagði Hitler að hertaka Ísland

Vidkun_Quisling_Adolf_Hitler

Bæði Gunnar Gunnarsson og Guðmundur Kamban voru meðlimir í "nasistamenningar-samkundunni" Nordische Gesellschaft. Verndari þess félagsskapar var Alfred Rosenberg einn helsti hugmyndafræðingur nasista í gyðingahatrinu sem á endanum leiddi til helfararinnar.

gunnar_hittir_hitler_1a_lille_1172715

Gunnar Gunnarsson kemur af fundi hjá Hitler árið 1940. Með honum er böðull gyðinga í Eystrasaltslöndunum Hinrich Lohse, kallaður Slátrarinn frá Riga. Hann var í mörg ár einn nánasti samstarfsmaður Rosenbergs í að æsa upp gyðingahatrið í Þýskalandi. 

Ekki er hægt að sýkna nokkurn þann sem var meðlimur í Nordische Gesellschaft af gyðingahatri eða nasisma. Það reynir þó Sveinn Einarsson í nýrri bók sinni um Kamban, sem var einnig merkilegt skáld og kalkúnasérfræðingur, en sem rýrði arfleifð sína með nánum tengslum sínum við nasismann. Sveinn Einarsson notar ekki allar tiltækar heimildir til að gera lífi Kambans fyllileg skil. Það verður að teljast vafasöm sagnfræði og rýrir það annars gott verk Sveins til muna.

Fyrir nokkrum dögum voru dagbókarbrot (lausblöðungar) Alfreds Rosenbergs sem "týndust" eftir Nürnberg-réttarhöldin sett á netið af U.S. Holocaust Memorial Museum (USHMM) í Washington. Rosenberg var í þeim réttarhöldum dæmdur til dauða og hengdur í árið 1946. Lengi var vitað að Robert Kempner, einn saksóknara Bandaríkjamanna við Nürnberg-réttarhöldin, fékk leyfi til að taka meginþorra dagbókablaða Rosenbergs með sér heim til rannsókna að réttarhöldunum liðnum.

Robert Kempner 

Róbert Kempner var gyðingarættar og fæddur í Þýskalandi. Hann var fjarskyldur Alfred Kempner, flóttamanni sem var hrakinn frá Íslandi. 

Eftir lát Kempners voru þessar heimildir geymdar af einum af riturum Kempner, en lentu að lokum hjá óferjandi bandarískum prófessor sem reyndi að koma dagbókarbrotunum og öðru efni í verð. NSA og FBI komust á sporið, en nú er þessi heimild komin á viðeigandi safn og aðgengileg öllum.

Quisling and Rosenberg

Rosenberg og Quisling árið 1942. Þeir kynntust fyrst um miðbik árs 1939.

Dagbækur Rosenbergs eru hins vegar hvorki merkilegar né lýsa þær heldur merkilegum manni. Alfred Rosenberg var gróðrarstía gyðingahaturs og heltekinn af samsæris-kenningum um Rotschild og Hambro. Þar að auki er hatur hans á kaþólsku kirkjunni sjúklegt og minnir um margt á það frumstæða og nærri trúarofstækislega hatur sem sumir Íslendingar sýna trúarbrögðum. Sjálfsálitið hjá þessum samsærisheila og áróðursmeistara vantaði heldur ekki.

Alfred Rosenberg hélt sig líka vera pottinn og pönnuna í ýmsum málum, ef trúa má dagbókum hans. Sérstaklega hafði hann þá skoðun að hann hefði eitthvað um málefni Noregs að segja. Þetta var m.a. vegna þess að einn náinn samstarfsmaður hans til margra ára Hans Draeger, sem einnig var góður vinur Kambans og Gunnars Gunnarssonar (sjá hér), var mikill áhugamaður um Noreg. H G. var sömuleiðis mikill vinur Quislings. Dagbókarbrotin sýna, að þegar Noreg bar á góma, var Rosenberg allur á lofti.

Þann. 19. september 1939 skrifar hann í dagbók sína:

"Fyrsta áfanganum af fyrirhugaðri Noregsaðgerð er lokið. Þann 15. tók Foringinn á móti Quisling og Hagelin og skrifstofustjóra mínum Scheidt. Ég lá veikur með fótinn og gat ekki farið með. Um kvöldið komu þeir til að sjá mig - mjög ánægðir. Foringinn hafði fyrst talað í 20 mínútur: hann vildi vitaskuld helst að Skandinavía yrði hlutlaus, en hann gæti aldrei þolað að Englendingar mynd t.d. koma til Narvik . Þá las hann minnispunkta Quislings: Þörf er fyrir stórgermanskt samband. Q. lýsti svo hinu ólöglega ástandi í Norska Ríkinu eftir 10.1.40, sem marxistar og gyðinglegum demókratar höfðu valdið. Björgun Noregs var á sama tíma afgerandi fyrir D. í afgerandi baráttu hans gegn Englandi.

Q. kom til baka  mjög ánægður.  -  þann 17. (?) kallaði Foringinn herrana enn einu sinni til sín og talaði í 1 klukkustund um allt málið, þar sem hann lagði áherslu á að ósk hans væri að Norska ríkið yrði áfram hlutlaust.  Hann spurði þá: Hr. Staatsrat Q.  ef Þér leitið til mín um hjálp, þá vitið þér að E [nglendingar] munu. lýsa stríði á hendur yður ? Q.: Já , ég veit það og reikna með því að viðskipti Noregs leggist niður þess vegna Í lok samtalsins, sem  Scheidt skrásetti nákvæmlega, spurði Q.: Herra Ríkiskanslari, hafi ég skilið yður rétt, viljið Þér hjálpa okkur? Foringinn : Já , ég geri það.

Q. ók rólegur og glaður heim í bílnum og skyndilega sagði hann við Scheidt : Ég geri mér grein fyrir því að það ert til einhvers konar örlög. Fyrir ýmsum hef ég hef kynnt hugsanir mínar; og það gekk ekki beinlínis fram. Og nú er allt í einu, á afgerandi stundu , mun okkur verða hjálpað.

Í öðru viðtali  Q. [við foringjann] afhenti hann viðhefta greinargerð um hernaðarlegt mikilvægi Færeyja, Íslands og Grænlands, sem Foringinn las af áhuga án þess að taka afstöðu". Sjá nánar hér

Ég er búinn að spyrjast fyrir um, hvort að skjal Quislings um t.d. Ísland hafi enn legið viðheft dagbókarblöðin þegar þau komu á USHMM í Washington fyrr á árinu, en það er ekki nefnt í tengslum við afskriftina af textanum.

Vart getur talist líklegt að Quisling hafi fært Hitler nýjar hugmyndir með þessu plaggi sínu, en það er aldrei að vita, og gaman væri að fá að lesa það sem hann færði Foringja sínum.

Í september 1941 lýsti Vidkun Quisling því yfir að hann tryði því að Þýskaland myndi hertaka Bretland og Bandaríkin og að Noregur fengi aftur lendur sínar Ísland og Grænland.

Alfred Rosenberg og Arabar í Palestínu

Nazi Palesine
Mynd sem sýnir fána sem Palestínuarabar höfðu láta útbúa
 

Rosenberg var ekki yfir sig hrifinn af aröbum eða múslímum yfirleitt, en það breyttist eftir 1939 frá því að hann skrifar um þá í sumum ritlingum sínum.  Árið 1939 var hann hins vegar farinn að sjá þá sem mögulega meðreiðarsveina nasismans gegn gyðingum. Um miðjan maímánuð 1939 skrifaði hann:

"Leiðtogi Araba í Palestínu heimsótti mig; menn þekkja alls staðar verk mín. [Hann spurði] hvort við vildum ekki hjálpa siðferðislega. Kannski." Sjá frekar hér

Stórmúftinn í Jerúsalem, Amin Al Husseini, hafði samkvæmt þessu lesið annað en Kóraninn og var á kafi í gyðingahatursbókum Rosenbergs. Síðar voru stórmúftinn og Rosenberg eftir að hittast og síðast á andgyðinglegri ráðstefnu sem Hitler bað Rosenberg um að halda í Berlín þann 15.  júní 1944. Þetta stefnumót Rosenbergs og Amin Al Husseinis árið 1939 staðfestir það sem áður var vitað. Trúarlegur leiðtogi Araba í Palestínu vildi ólmur hjálpa til við að útrýma gyðingum. Arabar og aðrir á undan þeim höfðu hrakið gyðinga í burtu úr landi sínu og vildu með öllum ráðum koma í veg fyrir að þeir snéru fleiri til baka til síns gamla lands. Leiðtogar svokallaðra Palestínuaraba tóku einnig beint og óbeint þátt í helförinni gegn gyðingum. Sú helför heldur áfram og eru hjá mörgum hluti af trúarbrögðum og hugsjón margra vinstri manna.

GrandMufti-and-Bosnian-Muslim-Nazi-Troops

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þu ert nu meiri sauðurinn. Eg er alveg viss um það að þu heldur að orðið gyðingur se heilagt og þess vegna se þer heimilt að ala a hatri gegn muslimum og aröbum með lygum og þvættingi. Það ma segja að það finnist korn sannleikans i skrifunum, en tulkun þin a malunum er þer til skammar. Þvi það ber vott um kynþattahatur, sem þu afsakar með þvi að þu sert gyðingavinur.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 26.12.2013 kl. 09:26

2 identicon

Góð grein hjá þér!

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.12.2013 kl. 09:27

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vissulega voru Quislingurinn og Rosenberg sjúklegar nazistabullur.

Og tengsl Rosenbergs voru ótvíræð við stórmúftann, þann er Arafat dáði.

En gerði aðild eða tengsl Gunnars Gunnarssonar og Guðmundar Kamban við Nordische Gesellschaft (Norræna félagið) í Þýzkalandi þá sjálfkrafa að nazistum? Hvernig þá? Gerði þá seta dr. Jabobs Benediktssonar í bókmenntaráði Máls og menningar hann að stalínista? Þarf ekki að leiða með einhverjum skýrari rökum og beinni en þessum líkur að því, að þessir þrír framúrskarandi einstaklingar hafi aðhyllzt hugmyndafræði alræðishyggjukerfanna?

PS. En hatur Rosenbergs á kaþólskunni segir ekki lítið. Kaþólikkar Rínarhéraðanna og víðar í Þýzkalandi, menn eins og Josef Ratzinger, síðar páfi, og fjölskylda hans og frændur Hinriks H. Frehen, síðar Reykjavíkurbiskups, voru einna sízt allra í Þriðja ríkinu fylgismenn austurríska afvegaleiðandans og glæpaliðs hans.

Jón Valur Jensson, 26.12.2013 kl. 10:25

4 identicon

" .............. sjúklegt og minnir um margt á það frumstæða og nærri trúarofstækislega hatur sem sumir Íslendingar sýna trúarbrögðum."

Hefurðu einhver tilgreind dæmi um þetta meinta ofstæki sumra Íslendinga varðandi trúarbrögð?

Ertu þá að tala um trúleysingja sem sýni trúarbrögðum ofstæki, eða að t.d. kristinn Íslendingur sé með ofstæki gagnvart múslímum? 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.12.2013 kl. 13:23

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Afneitaðu ekki staðreyndum, Bjarni.

Og hann sagði "sumir", ekki margir. En sumir eru þannig.

Jón Valur Jensson, 26.12.2013 kl. 16:36

6 Smámynd: Kristján Þorgeir Magnússon

Það að hertaka ekki Ísland, voru trúlega með mestu herfræðilegum mistökum Hitlers.  Hann hefði getað lokað Atlantshafinu fyrir bandamönnum.  Trúlega væri þá töluð þýzka a.m.k. frá Látrabjargi suður um norður-Afríku og austur til Vladivostok.  Heimsmyndin væri allt önnur í dag, ef þýzki herinn hefði flætt inn í Ísland

Kristján Þorgeir Magnússon, 26.12.2013 kl. 16:46

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, Stjáni, þá væri miklu fremur töluð hér þýzka.

Það er eins gott, að þetta gekk ekki fram.

Jón Valur Jensson, 26.12.2013 kl. 20:44

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Operation Ikarus" sýnir að Þjóðverjum var í lófa lagið að taka Ísland haustið 1940 og rassskella breska setuliðið. Að vísu hefðu þeir orðið að nota önnur skip en Scharnhorst og Gneisenau en í staðinn gátu komið Admiral Shearer og Prinz Eugen.

Forsendan fyrir töku landsins var hin sama og í Noregi, að ná yfirburða yfirráðum yfir landinu og hafinu umhverfis það á fyrsta degi.

Ég reifaði á fundi Churchill félagsins í haust drög að kvikmyndahandriti, sem ég er að breyta í bók um þetta efni.

Hún nefnist "Emmy, stríðið og jökullinn"  og fjallar um það hvernig Þjóðverjar gátu þetta með því að notfæra sér náttúrugert flugvallarstæði norðan við Brúarjökul sem nú er næst stærsti alþjóðlega viðurkenndi flugvöllur landins með möguleika fyrir lendingar flugvéla á borð við Fokker F50, Lockheed Hercules og Boeing C-17.

Þetta hefði breytt gangi stríðsins verulega og gert úrslit þess tvísýnni, og ég reifa það eftir bestu getu og heimildum í þessu verki mínu sem fellur undir skilgreininguna "alternate history".

Á fyrirlestrinum var ég spurður, hvort ég hefði ráðið í hvaða menn Hitler hefði sett við valda á Íslandi við töku landsins 6. október 1940.

Ég svarað því til að að svo stöddu hefði ég ekki treyst mér til þess og auk þess væri afar hæpið að gera tilraun til þess að birta niðurstöðu sem væri líkleg og verjandi.

Engin gögn liggja fyrir sem gefa vísbendingar um það hvernig þetta hefði farið og hverjir hefðu valist til starfa fyrir foringjann eða verið fúsir til að gegna þeim.

Það hefðu allt eins getað orðið einhverjir sem okkur sést yfir að hefðu getað átt það til að seilast til þess að vinna þau verk og fylla þær stöður, sem nasistar þurftu að manna, bæði innlendir menn og erlendir.

Að svo komnu máli fyndist mér það auk þess bæði ósanngjarnt og rangt gagnvart látnum mönnum og afkomendum þeirra að vera með neinar getsakir með ekki bitastæðari gögn í höndum.

Ég læt mér nægja að fjalla um Agnar Koefoed-Hansen og þýsku vísindakonuna Emmy Todmann, sem er höfuðpersóna verksins.

Úrlausnarefni þessa verks míns hafa reynst vera nógu krefjandi og flókin án þess að fara að bæta við hugsanlegum þætti fleiri Íslendinga eða Þjóðverja í yfirráðum Þjóðverja yfir Íslandi.

Ómar Ragnarsson, 26.12.2013 kl. 21:08

9 Smámynd: Kristján Þorgeir Magnússon

Jón Valur, eins og ég reyndar sagði væri hér þá töluð þýzka.  Sammála þér í því að gott var að sú varð ekki raunin.

Kristján Þorgeir Magnússon, 27.12.2013 kl. 02:06

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Afsakaðu fljótfærni þreytts manns, Kristján!

Jón Valur Jensson, 27.12.2013 kl. 09:03

11 identicon

Alltaf sama fimbulfambið á Ómari:

Í þetta sinn tekst honum að rugla breskum fótboltakappa, Shearer, saman við þýskan flotaforingja, Admiral Scheer, og skipi nefndu eftir honum. 

Og með svona vinnubrögðum stefnir hann ótrauður inn á fræðimennskuvettvanginn. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort einhver nennir að elta uppi endaleysurnar í þessari væntanlegu "heimildamynd".


Björn Jónsson (IP-tala skráð) 29.12.2013 kl. 14:44

12 Smámynd: FORNLEIFUR

Björn, það verður fróðlegt að sjá hvað Ómar Ragnarsson hefur til málanna að leggja. Stundum sjá "ekki sérfræðingar" hlutina með öðrum augum sem opna augu þeirra sem eru "sérfræðingar" og sem ekki sáu augljósa hluti.

Operation Ikarus er eitt af þessum kontrafaktísku sagnfræðimýtum sem menn vaða í án þess að nokkrar heimildir séu til. Ég er hræddur um að skrif sænska sagnfræðingsins Carl-Axell Gemzell, furðulegur karl sem lengi kenndi við Hafnarháskóla, hafi aldrei verið hátt skrifuð af þýskum sérfræðingum, en Gemzell fékk doktorsnafnbót út á Unternehmen Ikarus, þar sem meira byggði á vangaveltum en heimildum. Ég er er hræddur um að tilgáta hans sé fallinn nú, þegar í ljós er komið að Quisling hafi veifað pappír fram í Hitler með hugmyndum um hertöku Íslands árið 1939, löngu áður en en herforingjar Hitlers hugsuðu slíkt plott.

Lendingarstaðurinn norðan Brúarjökuls er líka eldra dæmi og kemur ekkert hugsanlegu "Operation Ikarus við". Þjóðverjar voru farnir að skoða það kringum 1936, hugsanlega með hernað framtíðarinnar í huga. En enginn gögn eru til því til stuðnings. Ég hef skoðað ýmislegt í gögnum utanríkisþjónustunnar í Kaupmannahöfn og vissulega höfðu Danir áhyggjur af áhuga Þjóðverja á flugvallamálum á Íslandi.

FORNLEIFUR, 29.12.2013 kl. 15:27

13 Smámynd: FORNLEIFUR

Jón Valur, þýzka er það ekki forn mynd af þýska? Verra er þegar menn tala um týsku eða jafnvel þýzku en meina tísku. Hér er grein um tísku.

FORNLEIFUR, 29.12.2013 kl. 16:13

14 Smámynd: FORNLEIFUR

Kristján, ég hugsa ekki út í þann "missi". Er harðánægður með Bretana og Bandaríkjamenn, sem er líklega það besta sem rekið gat á strendur Íslendinga á Þessum árum.

FORNLEIFUR, 29.12.2013 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband