Torfhús í Hollandi

plaggenhut_nederlands-openlucht-museum.jpg

 

Margir Íslendingar skömmuðust sín mjög fyrir að hafa búið í torfhúsum. Sumir menn, sem fæddust á fyrri hluta 20. aldar og fyrr, hafa reyndar haft þá draumsýn að skálar að fornu hafi verið miklu merkilegri hús en síðari tíma gangna- og burstabæir, eða þá kotin sem þeir fæddust sumir sjálfir og ólust upp í, sótugir í fasi. Það er þjóðernisrómantík, sem hefur alið af sér sögufölsun og afskræmi eins og Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal, sem á ekkert skylt við síðasta skálann á Stöng í Þjórsárdal, sem eftirlíkingin á að sýna.

Ekki var "torfkofinn" fyrr yfirgefinn á Íslandi, en að einhver ruddist yfir hann með jarðýtu sem fengin var að láni úr vegavinnunni. Ég hef talað við gamlan mann sem ruddi niður rústum og torfbæjum í sveit þegar hann vann við vegavinnu. Það var kvöldvinna hjá honum. Hann fékk kaffi, stundum eitthvað sterkara, og gott bakkelsi fyrir greiðann. Karl Marx nefndi þessi híbýli Íslendinga og gerði lítið úr þeim í einhverju verka sinna. Íslenskir marxistar, sem hafa lesið Marx eins vel og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur, hafa því alltaf verið miklir áhugamenn um steinsteypu. Danska hugtakið "Beton-kommunist" er því nafn með réttu, þó það hafi orðið til að öðru tilefni.

Fornleifafræðingar telja vitaskuld enga skömm af torfhúsum enda rum við flest komin af fólki sem byggði sér slík hús. Íslendingar byggðu með því efni sem þeir höfðu aðgang að. En sökum skammar og annarra þátta eru þau fáu torfhús sem enn standa á Íslandi söfn eða hluti af söfnum. Hitt varð tímans tönn að bráð eða jarðýtunum.

plaggenhut2.jpg

Torfhús í Hollandi

Eftir þetta formálasteyputorf er best að koma sér að efninu.

Það kemur kannski á óvart að torfhús voru einnig þekkt, og búið í þeim fram á 20. öldina í öðru Evrópulandi en Íslandi og það í landi sem er eitt rótgrónasta ESB-landið í Evrópu. Fæstir Hollendingar vita reyndar, að í landi þeirra bjó fólk í frekar hrörlegum torfhúsum sem Hollendingar kölluðu plaggenhut (plaggenhuten í fleirtölu). Fólk sem bjó í slíkum húsum var fátækt fólk til sveita, og það þótti skömm af búa úr slíkum hreysum, líklega svipað og að búa í Höfðaborginni í Reykjavík. Þessi hús var að finna í nyrstu héruðum Hollands, Drendthe, Fríslandi og Overijssel.

oude_peel001.jpg

Ýmsar aðferðir voru við byggingar þessara hollensku torfhúsa. Stundum voru veggir úr eins konar torfhnauss, en torfið var ekki skorið af sömu list og á Íslandi. Þetta voru oftast kofar reistir í neyð og engin stórbýli. Stundum var gafl úr múrsteini eða timbri. Oftast var þekjan torfi lögð en brenndir þaksteinar voru undir að strá-/reyrmottur. Það var enginn stíll yfir þessu eins og stundum á Íslandi, enda torfið kannski eins gott alls staðar í Hollandi og það var á Íslandi. Langhús úr torfi voru líka reist á járnöld á Fríslandi og á Jótlandi og menn telja að torfhýsi hafi einnig verið til í Hollandi á miðöldum og síðar.

 

15372.jpg

Í dag eru Hollendingar farnir, í nostalgíu og náttúruæði, að byggja eitthvað í líkingu við plaggenhuten fyrri tíma. Þeir koma víst ekki nær náttúrunni en það, í landi þar sem hver fermetri hefur verið umturnaður af mönnum. Þessar eftirlíkingar er ekki eins óhrjálegar og hús fátæklinganna sem bjuggu í hollensku torfhúsunum forðum. Í dag má einnig finna þessi torfhús endurgerð á byggðasöfnum og sumir hafa búið sér til sumarhús í þessum fátæklega byggingarstíl Hollendinga, sem vart getur talist til gullaldar þeirra.

Hér fylgja nokkrar myndir af hollenskum torfhúsum, stækkið líka myndina efst, hún er í góðri upplausn:

veen5.jpg
 
westerhaar-villa_bruggink.jpg
Þetta hús höfðu eigendur kallað Westerhaar Villa. Ekki skorti kímnigáfuna þrátt fyrir fátæktina.
binnenkant_harkema_spitkeet.jpg
 
spitkeet_harkema.jpg
 
plaggenhut_van_j_van_dijk_pb_middendorp.jpg
 
resolve.jpg 

Þessi mynd sýnir örvingluð hjón í Suður-Hollandi sem hófu að byggja sér torfhýsi árið 1937, þegar þeim hafði verið varpað á götuna. Hollenskir lögregluþjónar koma að. Enn aðrir reistu sér þessi hús þó þeir væru komnir í góðar álnir og aðallega til að minnast æskuáranna. Fjölskyldan sem átti húsið hét Vis (sem þýðir fiskur).

minne-vis-plaggenhut.jpg

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mesta skömm sem til er, er þegar menn eins og á Íslandi snúa baki við forfeðurna og sleikja sér upp við ímyndaða flottræfla.  En þetta er ekki einungis vandamál á Íslandi, heldur í allri Evrópu, og sjálfsagt víðar.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 26.3.2014 kl. 09:30

2 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Ég er alinn upp í torfbæ sem ég kýs frekar að nefna burstabæ og hef aldrei skammast mín fyrir það frekar glaðst yfir því að hafa náð í þann anga Íslandsögunnar. Ég fékk að þá dýrmætu reynslu að hafa komið í þrjá mjög vandaða burstabæi, Stóradalsbæinn í svínavatnshreppi hinum forna, sem varð eldinum að bráð og var ég viðstaddur brunann, Tungunesbærinn var mjög stór og flottur í sömu sveit og Guðlaugsstaðabærinn einnig sömu sveit. Þetta voru allt glæsilegir bæir og vel við haldið enda svokölluð höfðingjasetur og góð efni. Á Guðlaugstöðum var ég leiddur að kör Páls Hannessonar bónda afa Hannesar Hólmssteins, af því að hann vildi fá fréttir, það var svo mikilvægt og skipti þá ekki máli hvort um væri að ræða drengstaula úr Reykjavík. Aðalatriðið var að fá einhverjar fréttir. Svo þegar ég var orðin bóndi á Syðri-Löngumýri, þá greip mig jarðýtuæði sem ég sé nú eftir og setti jarðýtu á gamalt hesthús og hrútakofa sem var alger óþarfi. Hefði verið miklu skemmtilegra að eiga rústirnar nú fyrir einhverja sem hefðu gaman að grafa upp. Vegghleðslan var svo vönduð. Rústir gamla bæjarins að Syðri- Löngumýri er það ég best veit heilar, En ég yfirgaf jörðina 1986 og var þá nýbúinn að hreinsa forláta brunn sem var milli fjóss og bæjar og þraut aldrei vatn í.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 26.3.2014 kl. 16:09

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég var eitt sumar 8 ára á syðri löngumýri og þar var tvíment í rúmunum í baðstofunni. Ég vissi reyndar um torfhúsin í Hollandi en kannski er það ekki merkilegt því líklega hefir ekki verið nægur viður á einhverju tímabili. Í Perú eru þeir svo sniðugir að þeir eru með moldar kubba og byggja flott hús úr þeim enn þann dag í dag.

Valdimar Samúelsson, 26.3.2014 kl. 21:46

4 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þakka ykkur Þorsteinn og Valdimar fyrir mjög skemmtilegar upplýsingar. Vonandi fæ ég eða kollegar mínir einhvern tíma styrk frá Sigmundir Davíð til þess að grafa upp Syðri-Löngumýri, og þá finnum við örugglega hvar hundarnir hafa legið grafnir.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.3.2014 kl. 22:53

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Vilhjálmur ég hefði nú frekar vilja styrk til að rannsaka kirkjuna á Rhode Island en slendingarnir hafa engan áhuga fyrir þeim möguleika að þeir hafi verið lengur en sögur segja.Munið nöfnin. Ísland til að fæla. grænland til að laða. Örvar Indjánna til að fæla.

Valdimar Samúelsson, 26.3.2014 kl. 23:13

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég vildi búa á Rhode Island og vera ríkur.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.3.2014 kl. 23:18

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Áður en ég og hann Vilhjálmur förum í háttinn (en við sofum saman eins og allir vita), langar mig að segja frá því að hann ætlar að kaupa tvær raðir í Evrulottóinu nk. laugardag, og vinna. Þá verður hægt að senda honum umsóknir um uppgreftri hér og þar og alls staðar. Hann kemur eins og óður grafhundur eða moldvarpa. Gott fyrir hann að komast dálítið út.

FORNLEIFUR, 26.3.2014 kl. 23:28

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Bjáni ertu Fornleifur, nú fara allir og kaupa miða, og svo drátturinn á föstudag en ekki á laugardag.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.3.2014 kl. 23:30

9 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Bjó ekki þekktur verkalýðsforingi í torfbæ,vestur á Grímsstaðaholti,? Ég man ekki nafn hans en það byrjaði á E, Eðvald,?, Ég þykist vita að þið munið það.

Helga Kristjánsdóttir, 26.3.2014 kl. 23:30

10 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Jú, Eðvard Jónsson bjó í torfbæ. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.3.2014 kl. 23:37

11 identicon

Ætli þið eigið ekki við Eðvarð Sigurðsson, Alþingismann og lengi formann Dagsbrúnar?

Sigurlaugur (IP-tala skráð) 26.3.2014 kl. 23:59

12 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Jú, mikið rétt Sigurlaugur, Edvarð Sigurðsson, og bærinn var kallaður Litla Brekka og rifinn árið 1980. Þeð var mikil skömm af því. Forleifur lét glepjast af því sem Ómar skrifaði http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1304337/ þegar bók Hjörleifs Stefánssonar um torfbæi kom út í fyrra. Ég er ekki búinn að lesa þá bók. En Hjörleifur er einn þeirra manna sem hafa haft nokkuð rómantíska og hástemmda sýn á torfbyggingum fornaldar og stundað óhóflega fegrun og stundum framið örlítið DDR-kennda viðgerðir á timburhúsum og þénað vel á því. Persóna Hjörleifs hefur líka verið fyrirferðamikil, og stundum fyrirferðarmeiri en húsin sem hann hefur haft umsón með viðgerðum á, og hefur hann um langan tíma eldað grátt við ákveðinn stjórnmálaflokk. Ég hlakka til að sjá bók hans, en hann hefur ekki sent mér hana.

Nú herma fréttir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé víst búinn að hafa húsadellu lengi, og er kominn með sér deild i í forsætisráðuneytinu, þar sem yfirmaðurinn er enginn annar en Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, sem er þekkt fyrir niðurskurð, brottvikningar  og niðurlagningu safna.  Greinilegt er á öllu að Simmi hafi fyrst og fremst áhuga á timburhúsaarfinum. Hvers má annars búast við af spýtukarli.

En ef hann er sannur ESB-andstæðingur hefði maður nú búist við meiru, svo sem fullan gang í fornleifarannsóknir og nokkrar torfbæjarannsóknir, rannsóknir á skipsflökum og verslunarsögu ... nei, það síðastnefnda er of ESB-kennt, svo í slíkt eru ekki gefnir styrkir á Íslandi, enda sita tvær óhæfar konur og stjórna minjavörslunni í landinu með Sigmundi. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 27.3.2014 kl. 06:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband