Var Mökkurkálfi Snorra Sturlusonar skyldur gólem gyðinga?

Fornleifur er hálfgjört nátttröll, og einn af þessum körlum sem er kominn á þann aldur er þeir telja sig nær alvitra og þurfi því ekki að hlusta á sér yngra fólk, og þaðan að síður að hafa áhuga á því sem það er að gera í fræðunum.

Þótt Leifur sé oft afar þurr á manninn og algjör sleggja þegar kemur að gangrýni á augljósa vit og rökleysu, þá hefur hann gaman að því að kynna sér hvað ungviðið skrifar og hugsar, þó það sé sjaldnast af nokkru viti. Ungviðinu hefur auðvitað alls ekki farið aftur. Það hefur miklu meiri möguleika en við sem erum handan við 50 ára múrinn höfðum á þeirra aldri. En ævintýramennska í fræðunum er greinilega aftur komin í tísku.

Einn af þeim ungu fræðimönnum sem vinna með fornan íslenskan menningararf er Richard Cole. Ritverk hans hef ég skrifað um áður (sjá hér). Þetta er greinilega upprennandi fræðimaður. Mér þykir mjög gaman að lesa það sem Richard Cole skrifar. Hann skrifar vel og á fallegri ensku, og er jafnframt stútfullur af nýjum hugmyndum sem engum, eða fáum, hefur dottið í hug að tengja saman vegna íhaldssemi í fræðunum. Á ég þar fyrst og fremst við íslenska sérfræðinga í rituðum arfi þjóðarinnar, sem alltaf virðast vera að skrifa um það sama. Er hugsandi að ekki sé hægt að mjólka meira úr júgrum hins ritaða þjóðararfs?

Um daginn fékk ég pata af þremur nýjum fræðigreinum eftir Cole, þar sem ég fylgist með fræðimennsku hans á Academia.edu

Ég hef nærlesið eina af hinum nýju greinum Coles sem hann kallar The French Connection, or Þórr versus the Golem og hana má lesa hér. Fjallar greinin um hugsanleg tengsl frásagna af Mökkurkálfa í Snorra Eddu við fyrirbærið golem (hér kallaður gólem) í Gyðingdómi:

Þannig er Mökkurkálfa lýst í Eddu:

"Þá gerðu jötnar mann á Grjóttúnagörðum af leiri, ok var hann níu rasta hár, en þriggja breiðr undir hönd, en ekki fengu þeir hjarta svá mikit, at honum sómði, fyrr en þeir tóku úr meri nökkurri, ok varð honum þar eigi stöðugt, þá er Þórr kom... Á aðra hlið [jötunsins Hrungnis] stóð leirjötunninn, er nefndr er Mökkurkálfi, ok var hann allhræddr. Svá er sagt, at hann meig, er hann sá Þór."

Richard Cole gerir því einnig skóna, að trémaður sá sem er lífgaður með mannshjarta og sendur til að drepa vandræðaskáld í Þorleifs þætti Jarlsskálds, sé einnig undir einhvers konar áhrifum frá gólemasögu gyðinga, eða réttara sagt úr sagnaheimi gyðinga.

"En nú er þar til að taka er Hákon jarl er, að honum batnaði hins mesta meinlætis en það segja sumir menn að hann yrði aldrei samur maður og áður og vildi jarl nú gjarna hefna Þorleifi þessar smánar ef hann gæti, heitir nú á fulltrúa sína, Þorgerði Hörgabrúði og Irpu systur hennar, að reka þann galdur út til Íslands að Þorleifi ynni að fullu og færir þeim miklar fórnir og gekk til fréttar. En er hann fékk þá frétt er honum líkaði lét hann taka einn rekabút og gera úr trémann og með fjölkynngi og atkvæðum jarls en tröllskap og fítonsanda þeirra systra lét hann drepa einn mann og taka úr hjartað og láta í þennan trémann og færðu síðan í föt og gáfu nafn og kölluðu Þorgarð og mögnuðu hann með svo miklum fjandans krafti að hann gekk og mælti við menn, komu honum síðan í skip og sendu hann út til Íslands þess erindis að drepa Þorleif jarlaskáld. Gyrti Hákon hann atgeir þeim er hann hafði tekið úr hofi þeirra systra og Hörgi hafði átt."

Margt er mjög áhugavert í grein Coles, en Cole segir hins vegar ekki nægilega vel þróunarsögu gólemsins i sagnaheimi gyðinga. Ýmsu er þar ábótavant. Tilgátan stendur á leirfótum.

Orðið golem (ft. golomim) kemur afar sjaldan fyrir í helgum ritum gyðinga. Í Sálmunum (139:16), kemur orðið galmi, (þ.e. góleminn minn) fyrir og er þýtt sem ómyndað efni;

Augu þín sáu mig,er ég enn var ómyndað efni,
ævidagar voru ákveðnir
og allir skráðir í bók þína,
áður en nokkur þeirra var til orðinn

Í Sálmunum er vitaskuld ekki verið að skrifa um leirrisa miðalda. Í Mishnah, munnlegum arfi Gyðingdóms kemur orðið fyrir sem skilgreining á ósiðmenntaðri persónu. Í nútíma hebresku (Ivrit) er orðið einnig notað um fólk sem er illa gefið eða hjálpalaust og í jiddísku er orðið goylem notað um fólk sem er klunnalegt, illa gefið og seint til skilning, sbr. orðið "vanskapaður" sem lengi var notað í Íslensku. Orðið kemur fyrir í Talmud, (Talmud eru skýringar og frásagnir byggðar á Torah, lögunum (Mósebókunum), nánar tiltekið í  hinum babýlonska Talmud (Bavli). Í Talmud er orðið notað til að lýsa því að Adam hennar Evu var upphaflega verið skapaður af guði sem gólem (sjá Sanhedrin (þingi) 38b í Talmud Bavli (hér á ensku): Adam var hnoðaður saman í formlaust hýði og var hann myndaður úr leir eða mold.

54451_1258941.jpg

Samkunduhúsið í Worms áður en nasistar eyðilögðu byggingarnar. Elsti hluti þeirra var frá 11. öld. Þarna veltu menn fyrir sér gólemum, en ekki til þess að búa þá til, heldur til að sýna fram á tilgangsleysi þess, þar sem slík sköpunarverk voru vanskapnaður og ekki Guðið þóknanlegur.

worms_synagogue_rubble_1258942.jpg

900 ára Guðshús rústir einar eftir eyðileggingu nasista. Trúleysið er systir eyðileggingarinnar.

Sumir fræðimenn telja að á miðöldum Evrópu hafi brot úr sköpunarsögunni Sefer Yetzirah í hinum babýlónska Talmud verið þaullesin af gyðingum til að reyna að skapa sér gólem. En það er þó algjörlega ósönnuð tilgáta, sem byggir á frásögum sem eru skráðar löngu eftir miðaldir!  Það er ekki fyrr en á 12. öld e. Kr. að fróðir menn telja, að eiginleg lýsing á því hvernig hægt er að búa  sér til eða vekja upp gólem hafi verið sett á bókfell.  En galli er á gjöf Njarðar, ef svo má að orði komast. Þá lýsingu er að finna í fyrsta hluta Sodei Rezyya (einnig kallað Sode Raza, Sefer Sode raze semukhim eða Sefer Sode razaya), sem kallaður var Sod Ma'aseh Bereshit (þ.e. leyndardómar sköpunarinnar). Það rit var sagt vera eftir rabbí Eleazar ben Judah ben Kalonymus (1165–1230) í Worms í Þýskalandi. En vandamálið er aftur á móti, að fráögn hans og ritið Sode Raza þekkist aðeins úr bókinni Sefer Razi'el ha-Gadol (Bók hins stóra [erkiengils] Raziels [Raziel þýðir leyndardómar Guðs]) sem fyrst kom út í Amsterdam árið 1701 (sjá hér). Segir útgefandi þess rits, að hann hafi lesið rit rabbí Eleazars frá Worms í frönsku riti sem hann kallar Images des Lettres de l'Alphabet, sem er hins vegar ekki til á okkar tímum - og hefur ugglaust aldrei verið til.

Í Þýskalandi og Mið-Evrópu á 17. öld fer að bera mjög á lýsingum á rabbínum sem skópu gólem, en elsta lýsingin sem til er af manni sem á að hafa framið slíkan verknað er þó ekki til frá því fyrr en um miðja 16. öld, er rabbíni og mikill kabbalisti og dulspekimeistari, Eliyahu Ba'al Shem (1550-1583) í Chelm (bæ suðaustur af Lublin í Póllandi nútímans) mun hafa reynt fyrir sér í þeim efnum.

Cole gleymir því miður að nefna Elías í Chelm, og sömuleiðis að aðeins eru sárafáar upplýsingar til um gólema og sköpun manna á gólemum frá því að orðið gólem er ritað í elstu ritum gyðingdóms fram á miðaldir í Þýskalandi.

Cole gleymir einnig að draga inn ákvæði Avodah Zarah samningsins í Talmud. Samningurinn fjallar um skurðgoðadýrkun (Avodah Zarah þýðir bókstaflega útlensk eða framandi dýrkun, þ.e. dýrkun hjáguða eða og skurðgoðadýrkun). Sköpun/gerð gólema er skýlaust brot á Avodah Zarah.

Læknirinn, heimspekingurinn, skáldið og rabbíinn Rambam (sem er skammstöfun á Rabbeinu Moshe Ben Maimon, þ.e. rabbí Móses Maimonsson; Hann er einnig kallaður ), sem upp var á 12. og 13. öld (1137-1204), skrifaði í einu rita sinna Moreh Nevukhim (sem þýðist best sem Leiðbeiningar fyrir ráðalausa; Hér er hægt er að skoða handrit frá 14. öld af þessu riti sem skrifað var í Barcelona og sem er varðveitt í Kaupmannahöfn) um Avodah Zarah. Rambam er mjög gagnrýninn á alls kyns skurðgoðadýrkun, helgimyndir og notkun þeirra í gyðingdómi.

Maimonides er að minna lesendur sína og samtímamenn á ákvæði Aodah Zarah og virðist jafnvel undir áhrifum frá Íslam í algjörri andúð sinni á skurðgoðadýrkun (sem við sjáum enn á okkar dögum í úrkynjuðu formi þegar ISIS brýtur og sprengir goð annarra trúarbragða), eða þegar Þorgeir Ljósvetningagoði kastaði  í fossinn. Þess vegna kemur spánskt fyrir sjónir, þegar Rambam kemur fyrir í rituðum heimildum í miðöldum í Mið-Evrópu, þar sem því er haldið fram að hann hafi búið til svo kallaða humunculi (smákarla) úr leir. Þarna er örugglega um misskilning 17. aldar manna, því ekkert slíkt hefur  Rambam skrifað um eða látið eftir sig. En við vitum hins vegar, að múslímskir heimspekingar og læknar og alkemistar veltu fyrir sér möguleikanum á því að skapa líf á ónáttúrulegan hátt, t.d. í glerflösku.  Hindurvitni 17. aldar spurðu ekki af heimildarýni. Sögur hjátrúarfullra gyðinga í Póllandi og Þýskalandi á 17. öld um kukl Rambams eru líklega ekkert annað en svar þeirra við mjög strangri afstöðu hins stóra rabbína til skurðgoðadýrkunar, sem "helgir" menn meðal gyðinga í Miðevrópu voru greinilega farnir að stunda á miðöldum.

Josef De Medigo

Hér skal einnig nefndur til sögunnar sefardíski rabbíninn, heimsspekingurinn, stjarnfræðingurinn, stærðfræðingurinn og tónlistafræðingurinn Jósef Solomo Qandia Delmedigo, einnig kallaður Joseph Salomo Del Medigo (1591-1655). Hann fæddist a eyjunni fögru Krít (ég hef eitt sinn skrifað litla grein þar sem honum bregður fyrir). Hann var m.a. læknir í Vilnu (Vilnius), rabbíni í Prag, Amsterdam, Hamborg og Glückstadt, þar sem Hallgrímur Pétursson dvaldist nokkrum árum síðar (sjá hér), Frankfurt am Main og í Prag, þar sem Del Medigo lést. Hann lærði stjarnfræði hjá Galileo di Galilei í Padua og lærði einnig við háskóla í Kaíró og Istambul. Í ritum sínum greini Jósef Del Medigo aldrei frá neinni gólem-hefð í sefardískum gyðingdómi, en nefnir í ritgerð sem varðveist hefur, hvernig sögur af gólemum séu algengar í Þýskalandi á hans dögum.

Richard Cole nefnir ekki Jósef Delmedigo í grein sinni, og þykir mér það furðu sæta. Delmedigo sýnir okkur nefnilega að gólemar, sem leirrisar, eru líklega sköpunarverk rabbína í Þýskalandi á miðöldum. Margt gæti frekar bent til þess að góleminn, leirrisi sá sem Cole er að hugsa um sem "ættingja" Mökkurkálfs, hafi í raun fyrst orðið til á miðöldum og eigi sér enga stoð eða uppruna í elstu ritum, bókum eða lögum gyðingdóms.  Við getum með góðri ástæðu leyft okkur að leika með þá hugmynd, að þegar gyðingar á miðöldum voru spurðir um hvað orðið gólem þýddi, þá hafi þeim verið svara vant, en svo leitað til germanskra og slavneskra ævintýra um leir- og drullukarla til að skýra betur hið dularfulla fyrirbæri gólem.

Ekki ætla ég þó alveg að útiloka að einhverjar sögur um miðaldagólem Evrópu hafi borist til Íslands frá Frakklandi eins og Cole vill halda, en þá hefði hann átt að segja lesendum sínum betur frá sögu gólema og t.d. að trékarlinn í Þorleifs þætti Jarlsskálds, (sem er varðveitt elst frá byrjun 14. aldar), sem einhver hefur gaukað að honum upplýsingum um. Trékarlinn var ekki kvenkyns vera eins og það fyrirbæri sem Cole segir skáldið Salomon Ibn Gabirol (réttu nafni Shelomo [Salomon] ben Yehuda ibn Gabirol) hafi skapað. Sagan af Ibn Gabirol sem skapaði kvenkyns veru er heldur ekki frá tímum Gabirols sjálfs, þ.e. fyrri hluta 11. aldar, heldur er það miklu seinni heimild sem orðið hafa til í Ashkenaz (Þýskalandi). Það er því afar ólíklegt að þeir Norðmenn sem voru við nám í St. Victor skólanum í París, og sem hugsanlega þekktu til verka og ljóða Ibn Gabirols á 13. öld hafi heyrt um gyðinglega sögur af manngerðum leirrisum, og hafi síðan sagt forvitnum forföður mínum, Snorra Sturlusyni, frá þeim, sem svo bjó til úr sögunni Mökkurkálfa. 

Mig grunar, að Cole verði að leggja aðeins betri rækt á tímasetningar og upprunaleika heimilda, sem og að reyna ekki að blanda saman sögulegum viðburðum og þjóðsögum frá mismunandi tímum án þess að hægt sé að sýna fram á bein tengsl þeirra.  Það er nær ómögulegt, að álykta að Snorri Sturluson hafi heyrt af gólem/mökkurrisum hjá mönnum í Noregi sem lærðu við St. Victorsskóla. Við vitum ekki hvort heimildir um gólem-gerð hafi verið til í St. Victor. Bók Eleazars ben Judah, sem nefnir einn slíkan, er aðeins til í handriti frá 1701. Og þó ibn Gabirol hafi verið þekktur meðal lærðra í París á 12. og 13. öld, er ekkert sem sýnir fram á franskir klerkar hafi verið að velta fyrir sér leirkarla eða drullukökugerð. Því miður, merde, eins og Frakkar segja!!

Ég held að við ættum ekki að leggja of mikið í þekkingu manna á Íslandi á Gyðingdómi á 12. og 13. öld. og allra síst að fara út í miklar vangaveltur a la Einar Pálsson eða í líkingu við Keltaþvaðrið sem tröllríður einnig fræðunum. Það er svo langsótt. Maðurinn fékk oft sömu hugmyndirnar á mismunandi stöðum á jörðinni, án þess að nokkur tengsl séu sjáanleg.  Það geta mannfræðingar og þjóðfræðingar frætt ykkur betur um en ég. Ég er bara fornleifatröll. Tröll voru t.d. víða til. Menn geta notað mikinn tíma til að finna einhver tengsl. En þegar Mökkurkálfi og spýtukarl eru heimfærðir á gólem verða menn að vera mjög vel að sér í gyðingdómi og sagnaheimi gyðinga, og finna sér mun fróðari rabbína sér til aðstoðar en Cole hefur fundið.

Ég kaupi því alls ekki tilgátu Richards Coles í grein hans The French Connection, or Þórr versus the Golem, þó hún sé mjög áhugaverð og vissulega skemmtileg. En hún stendur á leirfótum.

Hér býður Fornleifur að lokum í bíó. Myndin sem sýnd verður er Der Golem, wie er in die Welt kam, sem var gerð árið 1920 af Paul Wegener og Carl Boese; Lék Wegener sjálfur góleminn. Wegener gerði einnig Gólemmynd árið 1914 sem frumflutt var árið 1915. Sú kvikmynd er að mestu týnd, en hér má finna brot úr henni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband