Starf án vinnu. Hvað er nú það??
26.2.2016 | 18:00
Fyrir um rúmum 20 árum síðan brostu margir íslenskir fornleifafræðingar þegar einn starfbræðra þeirra var á erlendri grund titlaður Reichsarchäologe. Þótti þetta nokkuð fyrirferðarmikill titill miðað við störf mannsins og minna örlítið á 3. Ríkið sáluga.
Reichs-fornleifafræðinginum þótti þetta hins vegar alls ekki fyndið sjálfum, því hann varði þetta með því að segja að titill hans væri State Archaeologist á ensku. Það var reyndar titill sem prófessor einn í New York hafði gefið honum. Síðar kom í ljós að maðurinn sem bar þennan næsta fasíska titil, "Fornleifavörður Ríkisins", var ekki með neina gráðu í fornleifafræði og fékk hann hana löngu síðar með því að afhenda skráningarskýrslu með botninn í Borgarfirði, svo lögleg fil.kand. gráða frá Svíþjóð væri í höfn með milligöngu fyrrverandi þjóðminjavarðar.
Ríkisfornleifafræðingurinn, sem hafði mjög mikið á sinni könnu,starfaði á Þjóðminjasafni Íslands og er þar reyndar innanstokksmunur enn, þó styttist í ellilífeyrinn. Hann starfaði reyndar einn með öll minja-, fornleifa- og skráningarmál sem nú á að sameina undir einhvers konar "Stór-Þjóðminjasafn" við fyrirhugaða sameiningu Þjóðminjasafns og Minjastofnunar. Hann var því ef til vill vel að titli sínum kominn og þurfti að vinna.
En nú fáum við Prófessor Þjóðminjavörð án kennsluskyldu
En græðgi fólks í titla og nafnbætur á Þjóðminjasafni Íslands hefur þó ekkert minnkað, enda eru fæstir starfsmenn þar mikil "akademískir pappírar". Ritaður hefur verið nýr samningur (í janúarlok 2016) milli Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands, sem Fornleifur hefur fengið sendan frá ónafngreindum aðila úti í bæ á Íslandi. Samningurinn bíður þess að verða undirritaður, en fréttir herma að það verði á næstu dögum. Svo við getum hæglega óskað Þjóðminjaverði Ríkisins til hamingju með prófessorsnafnbótina án vinnuskyldu.
Í samningi þeim sem Fornleifur fékk sendan og sem stendur til að undirrita segir greinilega í 9. kafla:
- Starfstengsl starfsmannamál
Þjóðminjavörður gegnir akademísku gestastarfi við háskóladeild án kennsluskyldu í samræmi við hæfnismat, sbr. verklagsreglur um akademísk gestastörf við Háskóla Íslands.
Þetta þýðir að Þjóðminjavörður getur verið t.d. prófessor án þess að kenna og gera nokkurn skapaðan hlut annað en að stjórna öllum þjóðminjamálum á Íslandi á sínum fasta vinnustað. Þannig getur það gengið í hæsta lagi 5 ár í senn, en hún getur þá eins og ekkert sé sótt um titilinn aftur.
Það er nú ekki dónalegt: "Gestastarf" án þess að starfa. Um Reglur um gestastörf við HÍ má lesa hér. Þetta eru greinilega mjög teygjanlegar. Ég hef aldrei séð neitt slíkt í öðrum löndum.
Hvers konar spilling er í gangi? Ef menn hafa lesið Fornleif um daginn (hér og hér), þá sjá þeir hve karlinn getur verið sannspár um hina votu drauma þjóðminjavarðar. Fornleifafræði gæti hæglega orðið heiðursdoktor, jafnvel gestaprófessor, í femínistískri sálarfræði við HÍ.
Ekki dreymdi Fornleif þó fyrir því að svo mikil andúð væri gegn þessari sameiningu og samningi, að fólk færi að senda honum samninginn óundirritaðan. Kollegar mínir á Íslandi eru í losti. Það fylgdi sendingunni sú upplýsing, að samningurinn yrði undirritaður næstkomandi mánudag, 29. febrúar 2016. 2016 er svo sannarlega ár Stórþjóðminjavarðar.
Núverandi þjóðminjavörður hefur greinilega haft prófessor í maganum mjög lengi. Ef Ísland væri eðlilegt land, væru þessi áform dauðfætt barn hennar. En eins og innviðir stjórnsýslu á Íslandi eru, verður þetta örugglega að veruleika.
Fólk með skitin kandídatspróf frá HÍ geta orðið prófessorar án þess að kenna, meðan hinn siðmenntaði heimur krefst sem lágmarks doktorsprófs þegar fólki eru veittar prófessorstöður. En hver sagði að Ísland væri í hinum siðmenntaða heimi? Ekki var það Fornleifur.
Hvað finnst ykkur? Ætlið þið ekki að fá ykkur gestastarf án þess að gera nokkuð? Algjör lúxus, en jafnframt tær spilling!
Mynd efst: Hér dreymir Margréti Hallgrímsdóttur ef til vill um prófessorstitil, sem hægt er að skreyta sig með, líkt og Idi Amin sagðist vera Englandsdrottning. Lög og reglugerðir í Úganda voru útbúin þannig að Idi Amin gæti orðið drottning. Ekki ósvipað því þegar fólk getur kallað sig prófessor, án þess að hafa akademíska burði til þess og vinna ekki fyrir titlinum. Ég skil ekkert í Margréti að stefna ekki bara beint á Bessastaði.
Meginflokkur: Þjóðminjasafn Íslands | Aukaflokkar: Menning og listir, Spaugilegt | Breytt 30.3.2016 kl. 07:16 | Facebook
Athugasemdir
Vilhjálmur, er þetta ekki Margrét HALLGRÍMSDÓTTIR þjóðminjavörður á myndinni? M. Hermanns-Auðardóttir er líka fornleifafr. Hún rannsakaði fornleifar í Vestmanneyjum og áleit þær talsvert eldri en frá 9.öld.
Ingibjörg (IP-tala skráð) 27.2.2016 kl. 13:58
Sæl Ingibjörg, við tölum um Margréti HALLGRÍMSDÓTTUR þjóðminjavörð.
Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður kallar sig við hátíðleg tækifæri fornleifafræðing en er aðeins með MA próf frá HÍ í sögu. Reyndar var Kristján Eldjárn einnig með doktorspróf í sögu en Þór Magnússon var með lægstu gráðu í fornleifafræði, svo nú er kannski kominn tími til að ekta fornleifafræðingur taki við þessari valdamiklu stöðu í stað sagnfræðinga og ómenntaðra manna. Þá hefur Margrét Hallgríms mulið vel undir hann/hana. En það er vissulega alls ekki ætlun hennar.
Margrét Hermanns-Auðardóttir er hins vegar vel menntaður fornleifafræðingur með doktorsgráðu frá Umeå Svíþjóð. Út frá "femínistísku" sjónarhorni sem ég hef vitaskuld ekki sem karlfauskur á besta aldri, þá hefur mér alltaf þótt undarlegt hvernig kvenfornleifafræðingar á Íslandi hafa skitið Margréti Hermanns-Auðardóttur út, fyrirlitið og baktalað (en það var hefð), svo ekki sé talað um karlremburnar. Hefðu menn viljað besta "kvenmanninn" í stöðuna, þá hefðu menn á sínum tíma valið Margréti Hermanns í stöðu Þjóðminjavarðar. En á Íslandi er engin virðing í hinum akademíska heimi. Ættarveldið hefur ráðið þegar konur fengu störf við Háskóla á Íslandi og jafnvel kynórar karla í HÍ. Bestu, og hæfustu konunum hefur alltaf verið úthýst.
Margrét Hallgrímsd. er aðeins komin þangað sem hún er með hjálp eins prófessors í HÍ, frekju og vitanlegra góðra tengsla við konur í flestum stjórnmálaflokkum. Henni virðist hafa tekist sú list, að fullvissa alla flokka um að hún sé úr þeirra röðum - en hún er fyrst og fremst Framsóknardrós. Það er ekki akademískur grunnur að mínu mati að stjórnmálamenn velji fólk í stöður. En hvað veit ég? Ég er bara karl.
FORNLEIFUR, 27.2.2016 kl. 19:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.