Bloggfærslur mánaðarins, desember 2017
Faðir Árna var gyðingur. Er það nú orðið eitthvað leyndarmál?
27.12.2017 | 09:14
Í gær var fluttur áhugaverður þáttur á RÚV (hlustið hér). Ég hafði mikla ánægju af að hlusta á þáttinn. En eitt furðaði mig og fannst vanta í frásögnina.
Þegar þáttagerðamaðurinn, Viktoría Hermannsdóttir fór fyrst út með leit sína að syni Roderick Donald Balsams, skrifaði ég athugasemd á FB hennar og í Iceland Review (Sjá athugasemd mína þar). Athugasemd mín á FB Viktoríu í september er hins vegar horfin.
Athugasemd mín hjá Viktoríu var einvörðungu sú, að ég sendi henni dánartilkynningu varðandi Balsam , þar sem fram kemur að hann var gyðingur - sem í raun skiptir þó minnstu máli. Ég man að Viktoría "lækaði" sendinguna.
En af hverju hvarf þessi upplýsing sem ég setti á FB Regínu sem og við þessa frétt http://www.ruv.is/frett/halfbrodirinn-hugsanlega-fundinn, þar sem ég gerði líka athugasemd sem nú er farin en eftir stendur þetta:
Jú, þetta var vissulega góður þáttur samt sem áður, en stórfurðulegt að uppruni manns, ætt hans og störf hans séu algjörlega þöguð í hel í útvarpsþætti um leit að syni þessa manns.
Stórfurðulegt. Ég óska Árna Jóni Árnasyni, hinum týnda syni, alls hins besta með nýfundinni fjölskyldu sinni. Af hverju Viktoría fjarlægði athugasemdir þeirra sem hún leitaði aðstoðar hjá (þjóðinni) mun líklega verða leyndarmál Viktoríu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jólakort Fornleifs til Íslendinga
23.12.2017 | 13:26
Ágætu lesendur Fornleifs og sérstakir vinir ritstjórans, nær og fjær sem og Forseti Íslands, frúin og öll börnin. Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári.
Þakka samskiptin, lesturinn og áhugann á árinu sem er að líða. Jólagripurinn úr einkasafni Forleifs er franskur. Hátíðarkort frá 1911 sem stórverslunin Le Bon Marché lét hanna.
Glaðlegir ísbirnir bruna á skíðum og hlaupa á snjóþrúgum fram hjá snjóhúsi alsælla íbúa norðurslóða. Þetta hefur Gaston litla og Heloise systur hans nú þótt skemmtilegt fyrir 106 árum síðan. Þau áttu ekki Ipad og PlayStation.
Eitt sinn var með mér í bekk drengur sem hét Björn. Hann var góður skíðamaður, og er líklega enn. Við kölluðum hann Ísbjörn. Þegar hann átti afmæli sagði faðir hans gjarnan "viltu ís Björn", og allir hlógu dátt - en það er allt önnur saga.
Borðið yfir ykkur og sýnið hið mesta óhóf yfir hátíðirnar líkt og biskupinn yfir Íslandi í launamálum sínum - Ég er viss um að litla barnið í Betlehem fíli það alveg í botn og líka Grýla. Henni þykja feitir Íslendingar góðir og sérstaklega biskupar.
Við verðum að hafa varann á, og vona ég með Brigitte Bardot að árið verði ekki eintómur barningur eins og sá sem sjá má hér á vörukorti sem kaupendur kjötkrafts Liebigs voru innvígðir í villimennsku selveiðimanna á norðurslóðum í lok 19. aldar. Kortið er einnig í eigu Fornleifs og er furðanlega sjaldgæft, því mæður hentu þessu korti venjulega í kamínuna í stað þess að gefa börnum sínum það þegar eldað var casseoulet. Þetta kort mun hafa verið í eigu drengs í Bordeaux sem síðar varð lögreglumaður Vichy-stjórnarinnar og enn síðar hershöfðingi í Alsír. Kortið kom honum að góðum notum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Thorsaraviðbætur - giftist íslenskt njósnakvendi Thorsara?
12.12.2017 | 18:00
Ævisöguritun er ein strembnasta list sem sögur fara af. Þeir sem skrifa ævisögur geta átt von á því að móðga stóran hóp fólks sem þótti meira til mannsins sem ritað er um koma en það sem höfundur ævisögunnar dregur fram. Aðrir sögumenn verða hins vegar ástfangnir af aðalpersónunni og skrifa helgirit. Vandamálið fyrir höfunda sem skrifa á tímalaunum eða sem verktakar fyrir fjölskyldur sem vilja eignast ævisögu um löngu látinn ættingja vorkenni ég hreinlega. Það getur ekki verið skemmtileg iðja nema ef einstaklingurinn sem skrifað um hafi ekki verið barnanna bestur og helst hálfgerður bófi. Engla og ættarljós hlýtur að vera mjög leiðinlegt að skrifa um. Slíkt fólk er litlaust og um það á að rita helgisögur með jarðteiknalista aftast.
Guðmundur Magnússon er orðinn einn helsti ævi- og ættasöguritari landsins og hefur farist það mjög vel úr hendi. Hann er með þeim bestu í þessari vandmeðförnu list. Hann er nú með bók í um Eggert Claessen hátt á sölulistum fyrir jólin, og margfræg er bók hans um Thorsarana sem kom út hér um árið og sem ég hef haft mikla ánægju af að lesa. Bókin er það sem menn kalla eye-opener.
Þótt ég fari aðeins niður í eyður og skalla á Thorsarabókinni, ber ekki að líta á það sem gagnrýni, heldur sem viðbætur við verk sem stendur vel undir nafni.
George Lincoln Rockwell um Ísland og "gyðingana tvo" á Íslandi
Torsararnir munu hafa valdið sögumanni sínum Guðmundi nokkrum höfuðverk, því þegar upp var staðið líkaði ekki öllum Thorsörum sem greiddu fyrir verkið við það sem skrifað stóð, og var þar fyrst og fremst kaflinn um bandaríska nasistann Rockwell sem fór fyrir brjóstið á velefnuðum Thorsörum sem héldu Guðmundi uppi meðan hann skrifaði um afrek forfeðra þeirra.
Er nema von að menn vilji sem minnst heyra um hundsbrund eins og George Lincoln Rockwell, sem sló konuna sína og var hið mesta fúlmenni sem rekið hefur á fjörur Íslands. Árið 1961 lýsti þessi ógeðfelldi maður eftirfarandi kom fram í viðtali við hann í ögrandi vikublaði sem kallað var Realist, og vitnaði fjöldi blaða í Bandaríkjunum í þetta viðtal vikurnar á eftir:
"... What about the murder of six million Jews and those gas ovens? Rockwell claims they were built AFTER the war, by Jew, of course- "just like they put on their Hollywood movies." Yet, says the leader, he has evidence of millions of "traitors" in this country, and when he comes to power "we will bring them berfore the juries. And if they´re convicted, we´ll gas ´em."
Rockwell, 43, claims to have a great silent following in this country and around the world. He expects the first Nazi governmen in, of all places, Iceland within four to five years. "Our best information is that there are only two Jews in Iceland." He predicts he will be elected govenor of Virginia in 1964 and president of the United States in 1972."
Ekki veit ég hvort Guðmundur Magnússon ritaði svo náið um þennan tengdason Thorsaranna, að þetta hafi verið með, en fyrst upplag bókar hans var að sögn hafnað og nýtt var prentað það sem Rockwell-meinið var minna áberandi í sögu Thors-ættarinnar.
Hann var ekki beint óskadraumur tengdamömmu auminginn hann Rockwell.
Þó svo að bók Guðmundar hafi komið út og hann haldið því fram, með tilvísun til þess er þetta skrifar, að Thorsarar væru nú örugglega ekki af gyðingaættum, héldu menn áfram að halda því fram. Enn sést því fleygt að ástæðan fyrir því að Thor Thors hafi viðurkennt Ísraelsríkis árið 1948 hafi verið vegna ættartengsla við gyðinga. Engin ættartengsl við gyðinga er að finna meðal Thorsara og "útlit" það sem menn tengdu meintum gyðingauppruna Thorsaranna er að öllu leyti komið úr rammíslenskri ætt íslenskrar eiginkonu Thors Jensens.
Bróðir Thors Jensens, gyðingahatarinn Alfred J Raavad
Guðmundur Magnússon leitaði við skrif bókar sinnar um Thorsararna til mín vegna þeirra þrálátu farandsögu að Thor Jensens hefði verið af gyðingum komminn. Ég leitaði til ýmissa sérfræðinga í Danmörku til að ganga úr skugga um þetta og Guðmundur vitnaði í mig um að þessi mýta væri fjarstæða. Því hef ég ekki fallið ofan af síðan. Hins vegar kynnti ég síðar hér á Fornleifi kynnti til sögunnar áður ókunnan, eldri bróður Thors Jensens, sem um tíma var merkur arkitekt vestan Atlantsála, en einnig hinn argasti gyðingahatari. Hann hét Alfred Jensen Raavad (einnig skrifað Råvad; 1848-1933 - Sjá mynd hér til vinstri).
Hér á Fornleifi birtust tvær greinar um karlinn (hér og hér) og m.a. var greint frá tengslum hans við flokk í Danmörku sem kallaður var Foreningen til Fremmedelementers Begrænsning , en nafninu var síðar breytt í Dansker Ligaen sem hafði lítið annað á stefnuskrá sinni en hatur og illindi út í gyðinga.
Eftir uppljóstrunina um gyðingahatarann sem var bróðir Thors Jensens, mætti halda að frændgarður Thorsaranna væri orðinn það sem Þjóðverjar kalla svo lýsandi "salonfähig".
Nei, aldeilis ekki. Eins og í öllum góðum ættum, sem stórar ættarsögur eru skrifaðar um, er alltaf eitthvað kusk á hvítflibbanum og ryk sem gleymst hefur undir gólfteppunum.
Eftir þetta langa og ertandi forspil erum við loks komin að söguhetjunni í þessari frásögn, henni Lóló.
Lóló eða "Guðrún" ?
Lóló, eða Ólafía Jónsdóttir (12.10. 1919-29.5.1993) var einnig tengdadóttir Thorsaranna, gift inn í hina merku fjölskyldu líkt og vitleysingurinn Rockwell, sem menn káluðu að lokum í Bandaríkjunum eins og óðum hundi - sem hann og var.
Lóló var hins vegar hið mesta ljós, Reykjavíkurmær og dóttir mikils útgerðarmanns Jóns Ólafsson forstjóra Alliance, sem kosinn var á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1937, en lést því miður áður en hann gat tekið sér setu þar. Lóló var að því er við best vitum mjög greind stúlka og lauk stúdentsprófi aðeins 17 vetra. Lóló/Ólafía Guðlaug er þó varla nefnd í bók Guðmundar Magnússonar um Thorsaranna, nema að Thor Guðmundsson Hallgrímsson (dóttursonur Thors Jensens) kvæntist henni árið 1942.
En það hefði nú mátt nefna að hún Lóló var líka bráðhugguleg og margt til lista lagt, og hún var meira að segja fyrsta fegurðardrottningin sem kosin var á Íslandi en það var sumarið 1939. En það var nú ef til vill frekar aum keppni því keppendur sem sætari voru en Lóló og tilheyrðu sauðgrárri alþýðunni máttu ekki vera með í keppninni. Fyrsta fegurðarkeppnin í Reykjavík var aðeins fyrir betri-borgaradætur og fór fram í Vikunni. Hugmyndin um yfirburðafríðleika íslenskra kvenna er því ekki alveg ný á nálinni. Bregðum niður í greininni Fríðustu dætur Íslands sem birtist í Vikunni árið 1939:
Það er mál þeirra manna, sem víða hafa farið, og margar konur séð, að hvergi geti fegurri konur en á voru landi, Íslandi. Og þetta er ekki skrum, því að íslenzka stúlkan er hvort tveggja í senn: fagurlimuð og andlitsfríð. En þar við bætist sú sjaldgæfa gjöf guða, er þær hafa í ríkari mæli en nokkrar stallsystur þeirra, er í öðrum þjóðlöndum lifa, þá náðargjöf, sem á flestum Evrópu-málum nefnist: charmé. Það orð er einnig vel skiljanleg íslenzka í Reykjavík. Glæsileiki hennar á sjaldnast skilt við fágaðan kvenleika yfirstéttarkvenfólks erlendis, en er runninn frá öðrum og heilbrigðari rótum.
Auk þessa er íslenzka stúlkan yfirleitt blátt áfram í fasi, svo að stundum getur valdið misskilningi í bili. Glæsileiki hennar á sjaldnast skilt við fágaðan kvenleika yfirstéttarkvenfólks erlendis, en er runninn frá öðrum og heilbrigðari rótum. Fyrir tæpum mannsaldri vorum við Íslendingar nær einvörðungu bændaþjóð, og það á allfrumstæðu stigi, tæknilega séð. Bókmenningu áttum við næga, og það, sem henni fylgdi, en á þessari öld, og einkum síðustu 20 árin hafa Íslendingar breytt mjög um viðhorf og lífsvenjur, og það svo, að halda mætti, að þeir hefðu stokkið yfir aldir, eða eins og greindur maður komst að orði: Að Íslendingar hefðu stigið úr hjólbörunum beint upp í flugvélina. Af þessu hefir eðlilega leitt ýmsan glundroða og flaustur í þjóðfélaginu, þótt betur hafi farið, en ætla mætti. Það má slá því föstu, að sá hluti þjóðarinnar, sem bezt hefir runnið þetta skeið, séu íslenzku stúlkurnar. Hver skyldi trúa því, er hann lítur yfir danssal, fullskipaðan ungum, íslenzkum meyjum, að þær væru dætur kotunga og fátækra fiskimanna í ótal ættliðu, og eigi allar þeirra hafi slitið barnsskónum við aðgerðir á fiski, línubeitingar, við smalamennsku og votaband. Í þeim sal myndi ókunnugum ganga illa að segja fyrir um það, hverjar stúlkurnar væru af alþýðu komnar, og hverjar af hinni svokölluðu yfirstétt, og skilur hér í þjóðfélagslegu tilliti mjög á milli þeirra og stallsystranna erlendis.
Hánorrænt njósnakvendi?
Svo er nú það. Aldrei hefur vantað lofið á hina íslensku konu. jafnvel þegar menn voru "að stíga úr hjólbörunum upp í flugvélina" eins og Vikupenninn komst svo faglega að orði. Þegar Lóló hafði verið kosinn (sjá hér) var þetta einnig prentað í Vikunni:
Og vestur eftir Austurstræti trítlar hin unga fegurðardrottning Íslands, léttstíg og hvöt í spori eins og æskan. Hún er hánorræn að yfirlitum, 117 pund að þyngd, 169 sentimetrar á hæð, notar skó nr. 36 og hefir gulbjart, náttúruliðað hár og perluhvítar, fagrar og sterklegar tennur. Vonandi bítur hún ekki frá sér með þessum gullfallegu tönnum!
Menn gátu kosið á milli nokkurra ungra kvenna sem myndir voru birtar af en þær voru ekki nefndar á nafn, svo líklega verðum við að viðurkenna að hlutleysi var þó einhvers staðar til staðar í þessari keppni. Lóló er nr. 3, en mér þykir nú nr. 1 vera fallegust. Nr. 2 er nú alveg eins og hryssa, ef ég má segja mitt álit, og miklu líkari njósnakvendi en Lóló.
Eins og síðar kom fram í Vikunni hafði Lóló haldið ung til listanáms í Þýskalandi. Í þá átt hafði hugur hennar snemma beygst. Hún dvaldi í um tvö ár í München og lærði leiklist, en um þennan kafla sögu hennar er lítið skrifað í minningargreinum um hana í Morgunblaðinu þegar hún andaðist árið 1993.
Hér er Lóló nr. 3 í kynningu á keppendum í fegurðarsamkeppni sem Vikan stóð fyrir (sjá hér og hér).
Ekki var það nú ástæðan fyrir því að Fornleifur fékk áhuga á Lóló. Það var hins vegar safarík frásögn Vilhjálms Finsens eins af fyrstu ritstjórum Morgunblaðsins og síðar sendiherra í öðru bindi endurminninga sinna sem hann kallaði Enn á heimleið. og sem út kom hjá Almenna Bókafélaginu árið 1956. Þar greinir Vilhjálmur frá ungri íslenskri konu sem komin er úr leiklistanámi í München og fer síðan með miklum pilsaþeytingi í heimi nasistanjósnara í Kaupmannahöfn.
Hvort saga Vilhjálms Finsens er alsönn er ég ekki dómbær á, en það sem hann ritar að konan sem hann kallar "Guðrúnu" hafði verið í München og að hún hafi kynnt sig í Kaupmannahöfn sem dóttur manns sem "ætti hluta af íslenzka fiskiflotanum", getur vart verið um aðra konu að ræða en Ólafíu Jónsdóttur, Jóns Ólafssonar í Alliance, sem um tíma var talið ganga næst Kveldúlfi Thorsaranna á velmektarárum þessara íslensku stórfyrirtækja.
Vilhjálmur Finsen gefur í skyn í bók sinn sem kom út árið árið 1956, að unga leikkonan sem hafði alið manninn í Þýskalandi nasismans hafi leikið sér nokkuð óvarlega með háttsettum þýskum nasistum og njósnurum í Kaupmannahöfn og að það hafi komið til tals að hún væri með í njósnaleiðöngrum. Vilhjálmur skrifaði að Horst Pflugk-Harttung, sem kom ásamt bróður sínum Heinz að morði Rósu Luxemburg og Karl Libeknecht árið 1919 í Berlín, hafi reynst "Guðrúnu" sem leiðarljós í Kaupmannahöfn. Allt sem ég hef lesið um Horst Pfugk Hartung í dönskum dómskjölum sýnir mér að hann hafi verið hið argasta illmenni.
Nú er orðið fjandanum erfiðara að ná í ævisögu Vilhjálms Finsens. Það er eins og hún hafi lent á skipulagðri bókabrennu, því svo sjaldgæf er hún orðin. Ég náði samt loks í slitið eintak sem Lestrafélag Skeiðahrepps hafði fargað og sem var komið í sölu hjá fornbókasala einum á Selfossi sem oft bjargar manni með það sem manni er vant um. Læt ég hér fylgja síður þær sem Vilhjálmur Finsen skrifaði um "Guðrúnu" sem hafði svo æði náin kynni af toppnasistum og njósnurum í Kaupmannahöfn.
Nú veit ég ekki, hvar Vilhjálmur Finsen keypti ölið, en læt samt flakka frásögu Finsens, sem þið getið lesið hér, í von um að sú frásaga verði leiðrétt, eða að betri eða réttari upplýsingar fáist um konuna sem gerði nasistana í Kaupmannahöfn svo helvíti "geil". Enginn amaðist út í þessa lýsingu Finsens sendiherra á "Guðrúnu" njósnakvendinu í Kaupmannahöfn, er bók hans Enn á heimleið kom út árið 1956.
Þess bera að geta að Horst von Pflugk-Harttung, njósnaleiðtoginn sem nefndur er af Finsen, var í Danmörku undir því yfirskini að hann væri blaðamaður en hann hélt um njósnahring sm kallaður var Auslandsspionage Nord. Pflugk-Hartungg sem var dæmdur af Dönum í fangelsi fyrir njósnir árið 1938, en leystur úr haldi er Þjóðverjar þrömmuðu inn í Danmörku árið 1940. Hann stjórnaði tugum njósnara, þýskum, dönskum, sumum háttsettum embættismönnum, og íslendingum. Ég hef t.d. skrifað um hann hér. Paul Burkert, sem Finsen kallar Burchardt, á hin íslenska "Guðrúnu" að hafa verið tygjum við. Burkert var slyngur að laða fólk að sér, og því hefur verið lýst svo af Thor Whitehead, að Kristján Eldjárn hafi haft þó nokkuð mikil afskipti af manninum, áður en danski arkitektinn og fornleifafræðingurinn Aage Roussell, sem rannsakaði Stöng í Þjórsárdal á undan mér, bannaði Eldjárni það. Í Danmörku vissu menn vel hvað fyrirhugaður fornleifaleiðangur Þjóðverja á Íslandi gekk út á.
Blaðsíða í skýrslu frá yfirheyrslum bandaríska flotans á Pflugk-Harttung í Arizona eftir stríðið (1945), þangað sem hann hafði verið fluttur sem fangi frá Frakklandi út í eyðimörk. Í Arizona viðurkenndi hann að hafa sjálfur drepið Karl Liebknecht árið 1919. Yfirmaður "Guðrúnar" njósnakvendis í Kaupmannahöfn var því ótíndur morðingi og hryðjuverkamaður. Burkert, viðhald "Guðrúnar" útgerðamannsdóttur, var hins vegar að öllum líkindum tekinn af lífi af Rússum fyrir glæpi í fangabúðum nasista.
Ég bar söguna um Lóló undir Guðmund Magnússon höfund bókarinnar um Thorsarana áður en ég birti þessa grein sem þið nú lesið. Guðmundur kannaðist ekki við sögu Vilhjálms Finsens af dóttur eins helsta útgerðamannsins í Reykjavík, konu sem um tíma átti í tygjum við nasistanjósnara í Danmörku næstum því barnung að aldri.
Ef það var ekki fegurðardísin Lóló, hver var þá konan, sem átti einn helsta útgerðamanninn á Íslandi fyrir föður og sem lærði um skeið í München og sem tilbúin var í tuskið með nasistum samkvæmt Vilhjálmi Finsen?
Hér lýkur nú sögunni af nasistadraugum Thorsfjölskyldunnar. Allar frekari upplýsingar væru vel þegnar. Í minningargrein um Ólafíu Guðlaugu Jónsdóttur Hallgrímsson árið 1993 í Morgunblaðinu er þannig ritað að allt hafi bent til þess að menn hafi óskað sér að minningar um veru Lóló í Þýskalandi og Danmörku yrðu látnar óhreyfðar í öskustó síðari heimsstyrjaldar:
Lóló hafði góðar námsgáfur og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík aðeins 17 ára gömul. Hún fór síðan til München til listnáms, en seinni heimsstyrjöldin batt enda á þá drauma. Hún kom heim skömmu áður en stríðið hófst og hvarf ekki til náms að nýju. Flest allt, sem hún hafði gert í listnáminu þar, varð eftir í Þýskalandi og varð eldi og eyðingu að bráð.
VIÐBÓT:
á fyrrihluta árs 2019 hélt Hannes Hólmsteinn Gissurarson því fram í tölvupósti til mín, að íslenska konan sem var með Burkert hafi verið Sigríður Hjördís Einarsdóttir frá Miðdal (systir Guðmundar frá Miðdal). Mjög margt í frásögn Kurt Singers og Vilhjálms Finsens tel ég að stangist á við þá niðurstöðu og hef ég greint frá þeirri skoðun minni hér. Hannes hefur enn ekki fært mér heimildir sem geta rennt stoðum undir skoðun hans.
Íslenskir nasistar | Breytt 7.9.2019 kl. 06:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hannes Hólmsteinn á hálum ís
10.12.2017 | 19:02
Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor við Háskóla Íslands hefur í Morgunblaðinu og í Pressunni birt greinarkorn sem hann kallar Var Laxness gyðingahatari? Þar heldur hann því fram að ég hafi skrifað að Halldór Laxness hafi verið gyðingahatari, hér á blogginu í ritdómi mínum bók Snorra G. Bergssonar sagnfræðings, Erlendur Landhornalýður?, sem Almenna Bókafélagið notar nú til að selja bókina.
Því fer fjarri að ég hef skrifað um Laxness líkt og Hannes heldur fram. Hef ég því beðið Hannes Hólmstein að draga aftur orð sín sem hann hélt fram í greinum í Morgunblaðinu og Pressunni og biðja mig þar afsökunar. En áður en hann gerir það langar mig að fræða almenning um málið.
Hannes vitnar í ósmekklegt orðagjálfur Laxness sem ég tíndi fram í ritdómi mínum. Texta Laxness er að finna í bók Snorra G. Bergssonar. Ég skrifaði eftirfarandi í bókadómi mínum og bar undir Snorra, svo Snorri lenti ekki hvorki í vandræðum með mistúlkun á verki hans né hlyti ámæli frá árvökulum ættingjum Nóbelsskáldsins:
Annað markvert í bókinni, og þar er margt, er að Snorri gefur sterklega í skyn að höfuðskáld þjóðarinnar og nóbelsverðlaunahafi, Halldór Laxness hafa verið gyðingahatari og hefur fundið texta þar sem hann talar af óvirðingu um fórnarlömb nasista og jafnaði gyðingaofsóknum við hundahatur. Af hverju voru Hannes (sem ég finn því miður ekki í nafnaskrá bókar Snorra) og Halldór ekki með það í bókum sínum? Halldór skrifaði í Parísarbréfi sínu í Þjóðviljanum árið, þ. 31. október 1948:
Evrópu dró þessa umkomulausu flóttamenn sína hér uppi vorið 1940 [við hernám Frakklands]. Ég atti nokkra kunningja í hópi þeirra. Þeir voru pólskir. Mér er sagt að þeir hafi verið drepnir. Þeir hafa sjálfsagt verið fluttir austur til fángabúðanna í Ásvits (Oswiekim, Auschwitz) þar sem Hitler lét myrða fimm milljónir kommúnista og grunaðra kommúnista á árunum 1940-1945, jú og auðvitað gyðínga.
Ég tel að greining Snorra á þessum ósóma í Laxness sé fullkomlega hárrétt. Ég er þakklátur Snorra fyrir að hafa þorað að minnast á þetta, en ég tel að afgreiðsla Laxness á veru sinni í Berlín 1936 hafi einnig sýnt hugarfar hans í garð gyðinga, fólks sem hann kynntist ekki neitt. Ég skrifaði um þær, m.a. hér og fékk Hannes Hólmsteinn það m.a. að láni í aðra bók sína um Laxness.
Í gær, þegar ég á uppgötvaði að Hannes var einnig með dylgjur sínar um mig í Mogganum og Pressunni á Facebook sinni, bað ég hann til að byrja með um að draga orð sín til baka. En miðað við svör hans í tölvupósti, tel ég að Hannes haldi sig hafinn yfir eðlilega heimildavinnu, kunni kannski ekki að vitna rétt í heimildir eða lesi texta of flausturslega. Hann heldur því fram að ég hafi kallað Laxness gyðingahatara en Hannes getur ekkert bent á máli sínu til stuðnings. Það þykja mér skítleg vinnubrögð.
Það er mjög alvarlegt mál fyrir þá stofnun (HÍ) sem hann vinnur fyrir, að prófessorar hennar séu að brennimerkja saklaust fólk úti í bæ. Ef HHG heldur að hann geti komist upp með það veður hann í villu.
Það sem Laxness sagði um gyðinga á ýmsum stigum ævi sinnar var mjög ógeðfellt. Ég hef þó aldrei kallað hann gyðingahatara, einfaldlega vegna þess ég veit að allt yrði vitlaust í okkar litla landi þar sem aldrei hefur mátt segja alla sannleikann.
Ég hef ekki leyft mér að dæma Laxness sem gyðingahatara út frá því sem hann skrifaði, því sami óþverrinn valt upp úr svo mörgum mönnum af hans kynslóð.
En sama kynslóð myrti hins vegar 6 milljónir gyðinga!
Mig grunar reyndar að HHG sé að snapa sér ódýr stig eftir alla gagnrýnina sem hann fékk fyrir nokkrum árum fyrir slaka vinnu sína með gögn Laxness í tengslum við bækur sínar Halldór, Kiljan og Laxness.
Furðuleg ummæli Laxness um gyðinga dæma sig svo sjálf. Dæmin um þau eru mörg t.d. í góðri bók Snorra Bergssonar, Erlendur Landshornalýður?, sem ég hvet menn til að kaupa og lesa.
Laxness skrifaði reyndar meira ljótt um gyðinga sem Hannes virðist ekki kannast við, því hann fjallar ekki um það í bókum sínum um Laxness. Heldur ekki Halldór Guðmundsson í sinni opinberu og "sannhelgu" bók sinni um skáldið. Er það ekki furðulegt?
Hannes setur fram óundirbyggða lygi ættaða frá Laxness
Hannes tekur í grein sinni, þar sem hann brennimerkir mig, aðeins eitt dæmi sem á að sýna á hve gott Nóbelskáldið var gyðingum. Hannes skrifar:
Í þessu sambandi verður þó að sýna hinu stóryrta skáldi sanngirni. Rösklega hálfu ári eftir að Laxness setti þessa vitleysu saman var hann á Púshkín-hátíð í Moskvu. Hann skrapp þá einn daginn í Tretjakov-safnið og átti tal við forstöðumanninn, sem kvaðst ekki hafa á veggjum myndir eftir Chagall. Rússneskur almenningur væri ekki hrifinn af Chagall, því að hann væri meiri gyðingur en Rússi. Laxness gagnrýndi þetta dæmi um gyðingaandúð vægum orðum í Þánkabrotum frá Moskvu í Tímariti Máls og menningar 1949. Vakti gagnrýni Laxness mikla athygli, jafnt á Íslandi og öðrum Norðurlöndum.
Hér bregst Hannesi aftur bogalistin, með því að trúa á skáldskap. Má það vel vera, að Laxness hafi komið við í Tretyakov listasafninu í Moskvu, en hann greinir ekki frá nafni forstöðumannsins sem á að hafa hreykt sér af því að verk eftir Chagall hafi verið fjarlægð vegna þess að þau væru máluð af gyðingi. Að slík hafi verið gert fer reyndar víðs fjarri. Verk Chagall í Tretyakov-safninu voru mjög mörg og héngu þau flest alla tíð í sölum safnsins - einnig árið 1973 þegar stórsýning á verkum Chagalls var haldin í safninu og listamanninum var boðið á hana í eigin persónu.
Hér geta menn lesið grein sem JTA (Jewish Telegraphic Agency) sendi út um sýninguna í Moskvu árið 1973. Hannes Hólmsteinn Gissurarson veður í villu um verk Chagalls því hann trúir blint á rithöfund. Verk Chagalls voru aldrei bönnuð í Sovétríkjunum. Þau voru hins vegar bönnuð í Þýskalandi nasismans. Á því er mikill munur og má Hannes varast að setja sífellt samasemmerki á milli Sovétríkjanna og Þýskalands nasismans. Þau voru slæm ríki, hver á sinn hátt, en að líkja helförinni við aðrar morðöldur eru siðleysi.
Ógnir sovétsins, morðin, hungrið og Gúlögin voru afleiðingar misheppnaðrar hugmyndafræði og mannlegrar grimmdar, en nasisminn sem var það sama þróaðist lík í skipulega útrýmingu á einum minnihlutahóp, sem í árhundruð hafði verið á milli tannanna á Evrópumönnum.
Við megum heldur ekki gleyma því að Laxness var skáld og hann skáldaði. Við getum því heldur ekki notað Laxness sem áreiðanlega sagnfræðilega heimild líkt og sumir gera. Ég hef t.d. sýnt fram á að laug um veru sína í Berlín árið 1936 og fékk Hannes að nota það í einum af bókum sínum. Laxness var ekki sagnfræðingur, en hann talaði afar illa um gyðinga, eins og ég, Snorri G. Bergsson og aðrir hafa bent á.
Hannes er meðlimur í evrópskum samtökum sem gera lítið úr helförinni - samkvæmt virtum alþjóðasamtökum gyðinga
þessari fyrirsögn skal ég gjarna bera ábyrgð á, því ég hef skrifað um þátttöku HHG á vafasamari ráðstefnu sem alþjóðleg gyðingasamtök lýsa vanþóknun sinni á (sjá hér). Fund þann sem fjallað er um í grein minni er ekkert einsdæmi fyrir Hannes. Hann var nýlega á fundi í Vilnius sem hann sagði frá á FB sinni. Þar hélt hann því fram að sveitir kommúnista hefðu drepið sígauna skipulega í Litháen og að þetta hafi komið fram á ráðstefnunni í Vilnius. Þegar ráðstefna þessi býður ekki helstu sérfræðingum í sögu Romafólksins og Sintifólks í Litháen, er ekki nema von að sagan brenglist. Í landinu í dag búa um 2500 sígaunar. Um 500 þeirra búa í hreysahverfi sem þeir sjálfir kalla Taboras en Litháar Parubanka. Hverfið er við flugvöllinn í Vilnius og er þyrnir í augum yfirvalda. Hér má lesa um Romaþjóðina í Taboras. Forfeður Romafólksins í Litháen kom flest fyrir 1940 frá Úkraínu og Moldavíu. Hér er hægt að lesa, hvernig litháisk yfirvöld koma fram við Rómafólkið í dag.
Rússar gerðu sígaunum aldrei mein á þann hátt sem Hannes heldur fram án nokkurra sannana máli sínu til stuðnings. Niðurlæging á Romafólki er hins vegar töluverð í Litháen nútímans eins og má lesa um hér eða hér. Hannes Hólmsteinn ætti að kynna sér söguna betur áður en hann dreifir lygi frá vafasömum samtökum öfgaþjóðernissinna.
Ísland hefur stutt verkefni sem eiga að bæta aðstæður sígauna í Litháen, sem frændur okkar Norðmenn greiða að mestu, og svo kemur Hannes Hólmsteinn Gissurarson með falsfréttir af gyðingamorðum Sovétríkjanna í Litháen frá Vilnius, landinu þar sem Þjóðverjar myrtu 195.000 gyðinga með dyggri aðstoð heimamann; Landi Lithauganna þar sem yfirvöld afneita mjög virku hlutverki í Litháa morðsveitum helfararinnar og reisa í gríð og erg styttur af morðingjum gyðinga ef þeir gefa ekki götum og stofnunum sínum nafn gyðingamorðingjanna; Landinu þar sem fólk er ofsótt fyrir að gagnrýna stjórnvöld, ef það hefur gagnrýnt hyllingar nútímayfirvalda í Vilnius á morðingjum gyðinga í síðara stríði. Þeir eru dýrkaðir sem "frelsishetjur" vegna þess að þeir börðust gegn Rússum.
Ekki ætla ég að kalla Hannes gyðingahatara frekar en Laxness, því ég veit að það er Hannes alls ekki. Hannes hins vegar frægur fyrir að koma sér á mannamót og kennarastofurnar fyrrum, en því miður umgengst hann af og til einnig sjálfviljugur furðulega ósiðlegt fólk sem gerir lítið úr fórnarlömbum gyðingafjöldamorða Litháa. Vona ég að Hannes jái að sér hið fyrsta og bíð ég nú eftir afsökunarbeiðni frá Hannesi.
Hannes faðmar Halldór um það leiti sem skítleg "pogrom" menningarelítunnar í HÍ gegn Hannesi hófust.
Fleiri dæmi um "stóryrði" Laxness um gyðinga.
Fyrir utan öll dæmin um fúkyrði Nóbelsskáldsins sem finna má í bók Snorra G. Bergssonar Erlendur Landshornalýður? skal hér nefna að Laxnes ritaði eftirfarandi þvaður í Alþýðubókina (1929):
Segjum það bara eins og er. Skáldið kunni sig ekki og sýnir okkur klárlega að gyðingafordómar grasseruðu jafnt meðal nasista og sósíalista á Íslandi.
Hannes með mjög hötuðum gyðingi. Eitt sinn sá ég mynd af honum á töflu jarðvísindamanns H.Í. sem var hreint gyðingahatur. Ég á við mynd af Friedman.
Sanngirni?
Prófessor Hannes biður í grein sinni, sem ég skrifa hér um, um að nútíminn sýni þeim sem sýndu þessa fordóma sanngirni.
Nei, það verða að vera takmörk fyrir svokallaðri sanngirni segi ég, því margir sem breiddu út gyðingafordóma á 20. öld á dylgjukenndan hátt, útataðan í minnimáttarkennd og öfund, voru meðsekir í stærsta þjóðarmorði 20. aldar.
Bloggar | Breytt 11.7.2021 kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Síðbúnar árnaðaróskir til kollega míns
8.12.2017 | 10:46
Nýverið gerðist Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur gömul, ef kalla má 70 ára fólk gamlingja. Sjötugir eru að minnsta kosti lögleg gamalmenni. Biðst ég afsökunar á dómhörku minni og orðavalinu ef það fer fyrir brjóstin á einhverjum. Ég er t.d. aðeins 57 ára að aldri, en fyrir skemmstu var ég kallaður "gamli". Þótti mér það eins og klipið væri í rassinn á mér og var það fjári sárt. Því undir ellimerkjum mínum, einstaka krabbameinsæxli og stirðum liðum er ég vitaskuld rokkandi únglíngur.
Óska ég Guðrúnu, sem ég vann einu sinni með í nokkra daga í Reykholti, til hamingju með að geta nú sinnt öðrum málum en fornleifum í ellinni og gefið sig þannig að fullu að baráttumálum sínum og hobbýum í London, þar sem hún hefur búið mjög lengi.
Ekki vissi ég fyrr en nýlega að Guðrún hefði önnur áhugamál en fornleifar og aftur fornleifar.
Hún, og sér í lagi eiginmaður hennar prófessor Robert Boyce (hjá London School of Economics), hafa lengi verið stuðningsfólk BDS-samtakanna. Það eru samtök sem vilja kippa fótunum undan Ísraelsríki með því að kaupa ekki þaðan vörur. Oft má þekkja þetta fólk í verslunum, þar sem það stendur með stækkunargler yfir annarri hverri vöru til að sjá hvort þau finni nafn Ísraels á vörunni. Ef það finnst setur það upp vandlætingarsvip og hendir vörunni frá sér sem væri hún eitur.
Þessi samtök og önnur svipuð hafa með árunum orðið svo hatrömm á meðal ákveðins hóps háskólafólks á Bretlandseyjum, að áróður þess og athafnir hafa verið flokkaðar sem hreint gyðingahatur af yfirvöldum.
Svo svæsið getur þetta stuðningsfólk Palestínuaraba verið í málstað sínum, að núverandi ríkisstjórn Englands bað háskóla í landinu um að kynna lagalega skilgreiningu breskra yfirvalda á gyðingahatri, hatri sem varðar við lög. Jo Johnson háskólaráðherra bað háskólana um að fara að lögum og sjá til þess að samtök innan háskólanna sem hefðu horn í síðu Ísraelsríkis færu ekki yfir strikið og sýndu varkárni í orðavali sínu svo það endaði ekki í eintómri hatursorðræðu/gyðingahatri. Þetta fór fyrir brjóstið á mörgum hatursmönnum Ísraelsríkis, meðal annar tengdasyni Íslands Robert Boyce prófessor emeritus, sem löngum hefur verið einn svæsnasti stuðningsmaður við að útiloka háskólasamvinnu við Ísrael. Boyce hefur í greinum sem lesa má á netinu notað mjög óakademískar röksemdir til að koma skoðunum sínum á framfæri. Boyce var einn þeirra sem ærðist við ákvörðun Jo Johnsons og undirritaði yfirlýsingu sem má lesa hér í The Guardian
Guðrún fær gyðinglega súkkulaðimús
Í byrjun september í ár var haldin fjögurra daga Ísraelskynning í Roundhouse leikhúsinu í Camden í Lundúnum. Þessi kynning fékk hið næstum hrædda nafn TLV in LND sem er stytting á Tel Aviv in London. Fyrir utan fólk sem sótti þessa kynningu af opnum hug, eða vegna þess að það er einfaldlega gyðingar, kom einnig annað fólk með aðra dagsskrá á svæðið. BDS-samtökin sem vilja veita Ísraelsríki skráveifu með því að stöðva allan innflutning frá Ísrael mætti með mótmælaskilti sín og borða og létu sumir nokkuð illa.
Þekktur meistarakokkur frá Tel Aviv, Shaul ben Aderet, sem var kominn til heimsborgarinnar til að kynna ísraelska matargerðalist, brá á það gamla ráð að bjóða "óvinum" sínum mat. Hann gekk út á meðal hatursmanna Ísraelsríkis og bauð þeim súkkulaðimús úr ísraelsku súkkulaði, kosher og frá landinu helga.
Svo við víkjum aftur að afmælisbarninu Guðrúnu. Hún er greinileg búin að finna sér áhugamál í ellinni. Hún borðar öllum stundum ísraelska súkkulaðimús.
Er hún frétti af því að slík mús myndi vera á boðstólum við Roundhouse-leikhúsið í Camden, fór hún strax á staðinn. Í leiðinni ætlaði hún að mótmæla tilvist Ísraelsríkis. Heimsfrægur ljósmyndari var einnig staddur fyrir framan Roundhouse og eilífaði þá stund er Shaul ben Aderet bauð Guðrúnu súkkulaðimús (sjá hér). Guðrún heldur svo sannarlega á glasi með girnilegum ísraelskum eftirrétt og hún brosir sínu breiðasta eins og köttur sem veitt hefur mús. En ekki fylgdi sögunni eða myndinni sem birtist á forsíðu Jerusalem Post, hvort hún hafi innbirt þennan rammísraelska eftirrétt.
Á annari mynd sem var tekin nokkrum dögum síðar í september, virðist Guðrún enn halda á glasi. Hvort það er glasið með súkkulaðimúsinni gyðinglegu eður ei, er ég þó ekki viss um. En hver veit? Ég spyr Mossad hvað var í glasinu, við tækifæri.
Menn hafa misjafnar skoðanir. Það ber að virða. Ég borða t.d. matvörur frá Kína og Indónesíu þó mannréttindi séu þar fótum troðin, og hef líklega án þess að vita það étið döðlur frá Íran þó fólk sé hengt í döðlupálmunum. Ég hef meira að segja átt breskan bíl skömmu eftir síðasta þorskastríð og komið til Þýskalands, þrátt fyrir allt. Ég geri mér grein fyrir því, að án hugvits frá Ísrael myndi ég ekki eiga almennilega tölvu. Ég sé ekki heiminn í svart-hvítri útsendingu og það er miklu betra fyrir sálartetrið. Hatur er svo hippalegt og lummó.
Fyrir utan að óska Guðrúnu Sveinbjarnardóttur með 70 árin, langar mig að óska henni til hamingju með að hafa sporðrennt ísraelska eftirréttinum í London. Batnandi fólki er best að lifa.
Stórt SHALOM!
Mannréttindi | Breytt 8.12.2024 kl. 08:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Besti díll Íslendinga fyrr og síðar
6.12.2017 | 16:26
Árið 2007 kom út öndvegisverkið Silfur Hafsins - Gull Íslands í þremur stórum bindum og meðal margra höfunda þess var enginn annar en núverandi forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson.
Verkið var m.a. kynnt og selt með þessum orðum: Síldin hefur snert líf nær allra Íslendinga á liðnum öldum, með einum eða öðrum hætti, þess vegna kemur saga síldarinnar okkur öllum við.
Þetta er vitaskuld hverju orði sannara, og auðurinn sem fylgdi síldinni var hlutfallslega mestur miðað við önnur auðæfi sem staldrað hafa við á Íslandi, eða úr öðru arðbæru framtaki en fiskveiðum og útgerð. Síldin var það sem menn auðguðust mest á í þau nær 1150 ár sem þeir hafa þraukað á þessari merkilegu eyju okkar.
Hitt er svo annað mál að fæstir Íslendingar eru miklir síldarunnendur og matreiða hana helst með því að drekkja henni í sykurleðju og ediki.
Thor Thors seldi alla íslensku síldina árið 1944 - 250.000 dalir urðu að 962.500 dölum
Besta síldarsala Íslendinga fyrr eða síðar er þó nokkuð frábrugðinn hefðbundnu síldasöluferli eins og við þekkjum það best frá síldarárunum fyrir stríð, eða síðar þegar síldin kom aftur eftir 1955 eftir stutta, ca. 10 ára fjarvist.
Sú sala kom til þökk sé viðskiptakunnáttu og útsjónarsemi eins merkasta sonar Thors Jensens athafnamanns. Eftir að Ísland lýsti yfir sjálfstæði sínu árið 1944 var Thor Thors ræðismaður í New York útnefndur sendiherra Íslands í Washington. Síldarsalan hófst í raun, þegar hann sem sendiherra greiddi 250.000 Bandaríkjadali til UNRRA sem var hjálparstofnun Sameinuðu Þjóðanna sem var ætlað að aðstoða stríðshrjáða eftir síðari heimsstyrjöld.
Aðkomu Thor Thors að þessari frábæru síldarsölu er því miður ekki að finna stakt orð um í bókinni Silfur Hafsins og sætir það furðu í ljósi þess að íslensk dagblöð greindu þó nokkuð frá sölunni (sjá heimildir neðst).
Í stórverkinu Silfur Hafsins segir svo á bls. 22 í 2. bindi frá síldarsölunni árið 1944:
Árið 1944 flutti Síldarútvegsnefnd enga síld út en samlag saltenda sem hafði ráðið 84% síldarinnar fékk löggildingu til útflutnings og síðar fékk Samvinnufélag Ísfirðinga einnig slíka löggildingu. Aðeins voru saltaðar rúmlega 33 þúsund tunnur norðanlands og 1800 tunnur syðra. Öll síldin var seld Hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna sem tók til starfa 1943 þótt samtökin sjálf væru ekki stofnuð fyrr en tveim árum síðar.
Einnig er í 2. bindi Silfurs Hafsins, í kafla eftir Hrein Ragnarsson og Hjört Gíslason, rekið hvernig síldarsöltun dróst saman á meðan á síðari heimsstyrjöld stóð, sökum þess að ekki var unnt að koma síldinni á framfæri í helstu markaðslöndum vegna ófriðarins. Varð t.d. allnokkuð af saltsíld sem átti að fara á markað í Svíþjóð innlyksa á Íslandi og var hún að endingu notuð í skepnufóður.
Af þeim sökum má telja það mjög frækið afrek Thor Thors að selja síld sem var veidd við Ísland árið 1944 og 1945. Góðmennska Thors við heiminn hjálpaði þar mjög til.
Frásögn af þessari sölu síldar til UNRRA er einnig heldur endasleppt í hinu mikla þriggja binda verki um Íslandssíldina. Um leið og Thor Thors greiddi 250.000 dali í tveimur áföngum til UNRRA, fyrst 50.000 og síðar, eða þann 13. október 1944, ekki meira né minna en 200.000 dali, gerði hann kaup við yfirmann UNRRA í New York Herbert H. Lehman. UNRRA bauðst til að kaupa síld af Íslendingum og var það að einhverju leyti vegna þess að hið litla land í Norðri sýndi svo góðan lit og greiddi fyrst allra gjöld sín til UNRRA. Til gamans má geta þess að Kanada greiddi 77.000.000 dala til hjálparstarfs UNRRA árið 1944, en greiddu þá upphæða í smábitum.
Sannleikann um það sem gerðist í þessu síldarsölumáli er kannski nærtækast að finna í Morgunblaðinu í grein eftir Óskar Halldórsson útgerðarmann á Siglufirði, sem var fyrirmynd Laxness að Íslands-Bersa. Í stuttu máli skýrði Ólafur sölumálin árið 1944 þannig:
Margir síldarverkendur voru óánægðir með störf ríkisrekinnar Síldarútvegsnefndar, sem þeim þótti ekki standa sig í stykkinu við að finna og tryggja markaði erlendis - í miðju stríðinu. Stofnuðu þessir óánægðu framleiðundur, sem réðu 86 prósentum af síldarmagninu sem var landað, félag vorið 1944, sem bar heitið Sölusamlag síldarframleiðenda. Settu þeir Síldarútvegsnefnd nærri því út á þekju. Félagið nýja, sem átti lögheimili á Siglufirði, opnaði skrifstofu og hugðist ganga í stórræði, sem ríkisbáknið og skrifstofublækur þess gátu ekki leyst. Ætlaði félagið að senda mann til Ameríku til að freista þess að selja íslenska síld en varð of seint fyrir og bað því umboðsmenn Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) í Bandaríkjunum um að sjá um sölu síldarinnar í Ameríku fyrir sig. Það reyndist hins vegar harla erfitt og greindu menn þá fljótt að þeir gátu lítið betur gert en Síldarútvegsnefndin.
Áður en reyndi alvarlega á sölumennsku SÍS á síld í Bandaríkjunum árið 1944, tókst Thor Thors, mestmegnis að eigin frumkvæði, en að nafninu til í umboði samningarnefndar utanríkisviðskipta, að koma allri saltsíld veiddri árið 1944 í verð.
Það er vitaskuld athyglisvert, að athafnamenn á Íslandi hugsuðu um peninga meðan fólk í Evrópu hugsaði líkast til allflest um að halda lífi. En það var nú einu sinni heppni Íslendinga að vera nægilega langt frá darraðardansinum og verða þess aðnjótandi að Bretar sóttu okkur heim árið 1940 í stað Þjóðverjam og vera leystir af hólmi af Bandaríkjamönnum.
Þá launaði sig greiðavirknin við greiðslu gjalda til UNRRA og UNRRA keypti íslensku síldina á sama verði og hún hafði verið seld hæstbjóðanda árið 1943.
Venjul. saltsíld US $ 22.50 tunnan
Cutsíld.......... 25.00
Sykursíld........ 27.50
Matjessíld ....... 27.50
Kryddsíld ........ 31.00
UNRRA sendi út fréttatilkynningu í október 1944 um greiðslu Íslendinga til UNRRA, en ekki fylgdi þó sögunni að síldarkaup UNRRA hefðu fylgt í kjölfarið.
Það fréttu Íslendingar aftur á móti frá Thor Thors. Þær fréttir birtust síðar á árinu er Morgunblaðið og Þjóðviljinn greindu frá því, meðan að blöð eins og Verkamaðurinn og Mjölnir á Siglufirði skýrðu kaup UNRRA á nokkuð furðulegan hátt og vildu eigna sósíalistum og kommúnistum hugmyndina uað kaupum UNRRA á íslenskri síld. Það var algjör fjarstæða enda Verkamaðurinn og Mjölnir ekki víðlesnir bleðlar í New York og fréttir af fyrirspurnartímum á Alþingi ekki aðgengilegir í BNA. Menn voru ósköp einfaldlega spældir yfir því að Thorsari bjargaði þjóðarbúinu árið 1947. Hann hafði þó hauk í horni í bandarísku utanríkisþjónustunni.
Ef það er rétt, sem haldið er fram í Silfri Hafsins árið 2007, að seldar hafi verið um það bil 35.000 tunnur af saltsíld til UNRRA og að meðalverð hinna mismunandi tegunda, 27,50 dollarar fyrir tunnuna, sé notað sem samnefnari, tókst Thors að selja nær óseljanlega íslenska síld fyrir 962.500 dali til UNRRA fyrir að vera svo skilvirkur við greiðslur til UNRRA. Skilvirkni og áhugi borgar sig nefnilega ávallt.
Thor sá sér leik á borði fyrir Ísland að þéna á hjálparstarfi til nauðstaddra. Það er ekkert nýtt og er þekkt úr ótal samhengjum síðan. Um langt skeið hafa Danir vart sýnt góðmennsku að neinu tagi, nema ef þeir hafa af því verulegan ágóða. Verra var það í síðara stríði þegar Danir höfðu nána samvinnu við Þjóðverja og öll stríðsárin voru eitt stórt sölupartý hjá frændum okkar. Danskar matvörur voru iðulega á borðum morðingjanna sem myrtu 6 milljónir gyðinga í stríðinu. Tak Danmark!
En íslenskur fiskur, fullur af D-vítamíni og hollri fitu, sem og corned beef (nautakjötskæfa) frá Suðurameríku, var aftur á móti það sem margir fangar og fórnarlömb nasista fengu að borða þegar þeir höfðu náð sér eftir frelsunina árið 1945. Margir gyðingar sem lifðu af útrýmingarbúðir og fangabúðir nasista hugsuðu oft með lotningu til íslensku síldarinnar og nautaspaðsins sem þeir fengu með frelsinu. Maður einn í Ísrael sagði mér eitt sinn frá þessu fæði sínu um tíma af mikilli ánægju.
Ungur gyðingadrengur sem bjargað var af bandamönnum. Sá litli naut vafalaust góðs af íslenskri síld og argentínskri nautakæfu þegar hann losnaði út úr Buchenwald-búðunum.
Áður óþekkt ljósmynd kemur í leitirnar
Myndin efst sýnir þá stund er lýðveldið Ísland færði sína fyrstu "fórn" til alþjóðasamfélagsins í nauð. Myndin, sem er blaðaljósmynd, en virðist samkvæmt Newspapers.com aldrei hafa birst í nokkru blaði í Bandaríkjunum.
Fornleifur keypti nýlega frummyndina í Bandaríkjunum. Hún er tekin þann 13. október 1944 er Thor Thors sendiherra Íslands í Washington færði framkvæmdastjóra UNRRA ávísun upp á 200.000 Bandaríkjadali til starfsemi UNRRA. Meðfylgjandi texti fylgdi myndinni:
W 739870........................ NEW YORK BUREAU
NEW REPUBLIC FIRST TO PAY UNRRA EXPENSES WASHINGTON, D.C. -- THE MINISTER FORM ICELAND´S FIRST REPUBLIC, MR: THOR THORS (RIGHT), PRESENTS A CHECK FOR $200,000 TO DIRECTOR GENERAL HERBERT H. LEHMAN COMPLETING ICELAND´S OPERATING CONTRIBUTION TO UNRRA. THIS NEW REPUBLIC WAS THE FIRST MEMBER COUNTRY OF THE UNITED NATIONS TO MAKE A PAYMENT TO UNRRA. ON JANUARY 14, THE GOVENMENT OF ICELAND PRESENTED UNRRA WITH A CHECK OF $50,000 TOWARDS OPERATING EXPENCES AND SUBSEQUENTLY MADE PAYMENT IN FULL FOR ITS SHARE OF ADMINISTRATIVE EXPENSES.
BU MGS LON CAN
CREDIT LINE. (ACME.) 10/13/44 (RM)
Eftir-þankar um síld handa hrjáðum þjóðum
Sú saga sem hér hefur verið sögð af sölu síldar til neyðarhjálparstarfs árið 1943 er nokkuð frábrugðin því hjálparstarfi sem fram fer sums staðar í heiminum í dag, þótt enn græði margir á eymd annarra.
UNRRA var skammlíft framtak og þar sligaði spilling , einkum í þeirri deild sem sá um starfið í Asíu, sem og stjórnleysi líkt og hjá mörgum stofnunum SÞ, enda greinilega ekki eins mikill áhugi á að hjálpa gyðingum og öðrum flóttamönnum í Evrópu á sama hátt og sú hjálp sem nú hefur verið veitt Palestínuaröbum í tæpa 7 áratugi gegnum UNRWA, en það er allt önnur saga og fjallar hún ekki um að auðgast á eymd annarra, heldur hvernig hjálparstarf getur orðið að iðnaði með spillingu og hryðjuverkamennsku í ofanálag.
Ef markaðir á Gaza, sem eru stútfullir af vörum keyptum fyrir styrktar- og gjafafé, eru rannsakaðir, finnur maður óendanleg mikinn mat, en ef til vill vekur það ekki furðu þegar haft er í huga að að Plestínumenn eru helsta gæluverkefni SÞ. Á blómlegum mörkuðum Gasa finnur maður þó ekki saltsíld frá Íslandi eða corned beef, og 80 % allra sem þar búa eru með sykursýki á alvarlegu stigi. Hjálp til nauðstaddra getur því miður farið úr böndunum þegar ákveðinn hópur er umbunaður á kostnað allra annarra sem kryddað er með hatri í garð annars ríkis. UNRWA hefur nú starfað í 68 ár án þess að nokkur helför hafi átt sér stað. UNRRA starfaði hins vegar aðeins í nokkur ár og átti að hjálpa öllum hrjáðum, hmt gyðingum, en var formlega lokað árið 1949. Erum við að horfa á misjafnar áherslur, eða er hatur margra "sameinaðra þjóða" í garð gyðinga einfaldlega endalaust?
Á Íslandi er það hatur mjög rammt hjá mörgum, en helst á meðal barna og barnabarna íslenskra nasista og vel efnaðra sveitamanna sem heilluðust að þýskri menningu. Kannski erfist þetta einkennilega hatur? Hóflausar greiðslur til UNRWA, eða t.d. hið glæpsamlega milljarðaflæði til SÞ sem m.a. endaði í vösum hryðjuverkasamtaka þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var að reyna að koma Íslandi í Öryggisráð SÞ til þess eins að taka þátt í einhljóma haturskórnum gagnvart Ísrael. Slík fjárlát leiða ekki til viðskiptabitlinga fyrir Ísland, heldur aðeins til fljótari aðstoðar við hryðjuverkasamtök og skálmöld í heiminum.
Ekki er ég að mæla með því að hjálparstarf sé háð viðskiptahagsmunum sem skapast geta er styrjöldum lýkur. En er eðlilegt að lítil þjóð sem vart hefur aðra auðlind en fiskinn umhverfis landið þeirra, og hefur ekki ráð á almennilegu heilbrigðiskerfi og þjónustu við aldraða sé að greiða stórfé til Palestínuaraba, sem virðast auðgast langum meira en Íslendingar á því að heyja stríð? Menn geta svarað því fyrir sjálfa sig. Fornleifur óskar sannast sagna ekki eftir því að fá heimsóknir öfgakenndra barna og barnabarna íslenskra nasista, og þaðan af síður ruglaðra sósíalista sem telja stuðning við árásir á vestræn þjóðfélög og lýðræði vera sniðuga lausn á vanda heimsins.
Gyðingar í Austur-Evrópu og víðar hafa ávallt lifað á saltsíld, sem var ódýr matur fyrir fátæklinga Evrópu. Enn kaupa gyðingar síld frá Íslandi, kannski með það í huga að íslensk síld bjargaði mörgum þeirra sem lifðu af helförina.
Myndin hér neðst er úr verkinu Silfur Hafsins - Gull Íslands frá 2007 og sýnir heittrúaðan gyðing frá Bandaríkjunum að blessa síld í plasttunnum á Neskaupsstað. Kona hans horfir á. Ég get mælt með blessaðri síld frá Íslandi, sem ég hef borða mikið af í Ísrael og eitt sinn var með boðið í dýrindis, íslenska þorskhnakka í mötuneyti Bar Ilan háskólans utan við Tel Aviv. Þegar ég spurði kokkana hvaðan fiskurinn væri upprunninn sýndu þeir mér pakkningarnar. Þar var kominn íslenskur fiskur í umbúðum fyrir Bandaríkjamarkað.
Blessaða síldin í Ísrael er ekki eyðilögð af sykri eins og pækilsíldin og gaffalbitarnir sem seldir eru á Íslandi. Hér um árið var framleiðslan á íslenskum gaffalbitunum til Rússa svo léleg, að síldin gerjaðist í of miklum sykri og leystist hreinlega upp í lélegri olíu sem notuð var til að hella á dósirnar. Rússarnir fundu lítið annað en lýsi og hreistur í dósunum og kvörtuðu sáran. Síldin þeirra var vitaskuld ekki blessuð í bak og fyrir.
Kannski væri ráð fyrir Íslendinga að minnka sykurmagnið í krydd- og lauksíld sinni og blessa hana til reynslu. Þegar meiri sykur er í kryddsíld en í gosdrykkjum er vitaskuld eitthvað mikið að þeim sem borða slíka sykursíld og allir kostir síldarinnar foknir út í veður og vind í allri sykureðjunni.
Ljósm. Ágúst Blöndal Björnsson.
Ýmsar áhugaverðar heimildir um síldarsöluna til UNRRA:
Morgunblaðið laugardaginn 4.11. 1944
Þjóðviljinn þriðjudaginn 7. 11. 1944
Mjölnir á Siglufirði miðvikudaginn 11.11.1944
Verkamaðurinn laugardaginn 18.11.1944
Morgunblaðið sunnudaginn 31.12.1944
Sagnfræði | Breytt 26.11.2020 kl. 06:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)