Anna María snýr aftur
4.5.2019 | 06:50
Málverk þessi munu brátt hanga í Faktorshúsinu á Ísafirði. Þau voru nýverið (29.4.2019) keypt á uppboði í Kaupmannahöfn. Myndin sýnir hjónin Önnu Maríu Benedictsen Meyer og Johan Ferdinand Meyer. Anna fæddist í Faktorshúsinu og snýr nú aftur í það 144 árum eftir dauða sinn. Hér verður saga hennar sögð í stórum dráttum:
Árið 1835 kom í heiminn lítil stúlka, í Faktorshúsinu vestur í Hæstakaupstað. Stúlkubarnið var skírt Anna María Benedictsen. Síðar á lífsleiðinni varð hún leikkona í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn og rithöfundur. Hún var góð vinkona og trúnaðarmaður H.C. Andersens. Jú, ekki vita þetta nú allir, en Anna María var líklega meðal frægari Íslendinga í Danmörku, en hefur aldrei hlotið verðskuldaða athygli á Íslandi líklega vegna þess að hún var bara kona og þar að auki ekki alíslensk, sem lengi þótti til vansa á Íslandi.
Nú þegar neyðist ég til að ættfæra Önnu Maríu. Það er nauðsynlegur siður á Íslandi, svo konur giftist ekki náfrændum og karlar kvænist ekki frænkum sínum. Þá verður allt fólk eins í framan. Faðir Önnu var Jens Jacob Benedictsen (1806-1842). Hann var íslenskur útgerðamaður, fyrst á Bíldudal en en síðar á Hæstakaupstað við Skutulsfjörð. Móðir Önnu Maríu var Anna Benedictssen (1811-1891), fædd Frahm í Kaupmannahöfn. Jens Jacob Benedictsen var sonur Boga Benedictsens (1771-1849) kaupmanns og fræðimanns, fæddist á Bíldudal þar sem faðir hans, Bogi, rak verslun um tíma. Eftir að Bogi Benedictsen var sestur í helgan stein að Staðarfelli í Dölum og hóf að stunda fræðimennsku að miklu kappi, tók Jens sonur hans við útgerðinni og rak verslun á Bíldudal. Árið 1828, þegar Jens var rétt rúmlega tvítugur, keypti hann verslunarréttindin í Hæstakaupstað með aðstoð fjölskyldu sinnar. Var Jens farsæll í viðskiptum og efldi útgerð við Ísafjarðardjúp til muna og kom sér upp litlum flota þilskipa og gerðist sterkur samkeppnisaðili norskra og danskra kaupmanna, sem fyrir voru á Ísafirði. Jens giftist Maríu, dóttur Jóhannesar Frahm Jensen frá Aabenraa á Suður-Jótlandi, sem hafði um langan aldur stundað siglingar til Íslands og verið í nánu samfloti við Boga Benedictsen.
Faktorshúsið á okkar dögum. Ljósmynd höfundur
Ungu hjónin Jens og Marie fluttu í norskt timburhús í Hæstakaupstað, svo kallað Faktorshús, sem enn stendur á Ísafirði. Það var friðað árið 1975 og hefur nýlega verið endurbætt og lagfært með miklum tilkostnaði af eigendum hússins, heiðurshjónunum Áslaugu Jensdóttur og Magnúsi Helga Alfreðssyni, sem síðar segir frá. Þess verður að geta að húsið var flutt í einingum frá Noregi árið 1787, árið sem einokun Dana var lögð formlega af á Íslandi. Húsið var síðan reist í Hæstakaupstað af norskum kaupmanni af hollenskum og dönskum ættum. Sá hét Herman Didrich Jansen (1723-99, mynd hér til vinstri). Jansen hafði hér verslunarútibú, og stundaði útflutning á fiski til Spánar og Ítalíu. Jansen er þó líklegast frægastur fyrir að vera afi tónskáldsins Edvards Griegs.
Viðskiptavit Jens Benedictsens olli því að hægt er með góðri samvisku að kalla hann fyrsta kapítalista Íslands. Hann og Marie eignuðust þrjú börn á Íslandi, en fluttu sig svo um set til Kaupmannahafnar að ósk Marie. Í Kaupmannahöfn eignuðust þau þrjú börn að auki. Þau áttu heimili sitt í Strandgade á Christianshavn í Kaupmannahöfn. Jens hélt áfram siglingum og verslun á Íslandi, en áhuga hans á fisksölu og sala á lambaskrokkum og skyri í Kaupmannahöfn, svo eitthvað sé nefnt, deildi frú Marie svo sannarlega ekki með honum. Að sögn fróðra manna hafði hún mikla ímugust á öllu sem íslenskt var, og þráði lífið í höfuðborginni. Sagan segir, að þegar Marie hélt veislur hafi hún í hvert sinn er Jens vildi blanda sér í umræður, sagt: Ti stille Jens, vi taler ikke om tran (Þegiðu Jens, við erum ekki að ræða um lýsi).
Sú hjónabandssæla varaði ekki við. Árið 1842, á einni sínum mörgu ferðum til Íslands, til að sækja þann varning sem hafði gert fjölskylduna nokkuð vel stæða á danskan mælikvarða, varð Jens að leita vars í Vestamannaeyjum í miklum stormi. Orðrómur var á kreiki um að danski sýslumaður í Eyjum, Johan Nikolai Abel (1794-1862), hefði myrt Jens. Aldrei var sá kvittur kveðinn niður eða sannreyndur fyrir dómsstólum.
Briggskipið Hekla var í eigu Jens Benedictsens. Hann sigldi á því í sinni síðustu för til Íslands. Myndin var seld á uppboði í Kaupmannahöfn árið 2007 og er nú í eigu félags á Fjóni. Mynd Aabenraa Antikvitetshandel 2007.
Marie bjó áfram í Kaupmannahöfn eftir dauða manns síns og hélt vaflaust veislur án fiskmetis. Nokkru síðar flutti hún með börnin og ásamt foreldrum sínum öldnum í Nyhavn 12 í hjarta Kaupmannahafnar. Það var þeim megin Nýhafnar er skip frá Íslandi lönduðu varningi sínum á 19. öld. Þar bjó fjölskyldan í hluta mikils og vandaðs húss, sem enn stendur og sem mikill glæsibragur er yfir.
Nyhavn 12 að kvöldi til fyrir allnokkrum árum. Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Leiklist og ópera
Anna María ólst nú upp í skarkala stórborgar danska ríkisins. Snemma hneigðist hugur hennar að listum. Marie móðir hennar var mjög gefin fyrir óperur og leikhús, sem hana hafði sárþráð í myrkrinu á Ísafirði.
Árið 1855 tók hún þrjár dætur sínar með í menningarreisu til Þýskalands til að fara í óperuhús. Þar hittu þau engan annan en H.C. Andersen, sem er til vitnis um þá ferð. Í einni af dagbókum sínum þann 19. júlí 1855 reit hann: Í Dresden, þar sem ég hitti ungfrú Benedichtsen frá Kaupmannahöfn, var farið í óperuna á hverju kvöldi, hún hafði í 14 daga hlustað á fleiri en allan vetrartímann heima.
14 árum síðar, þegar Anna María var orðin þekkt leik- og söngkona á fjölum Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn, hélt hún skáldinu lofræðu er hann sneri heim eftir langa dvöl erlendis. Hún flutti ljóð, lofgjörð um Andersen, þar sem hann var nefndur til sögunnar som den store Politiker, der havde forstaaet den store politiske Kunst at vinde: først Børnene, saa Moderen og saa Manden. Þessu skýrði Dagbladet frá þann 7. september 1869.
Einn af þeim sem heilluðust að leik- og söngkonunni Önnu Maríu Benedictsen, var Philip Ferdinand Meyer (1828-1887). Hann fæddist inn í gyðingafjölskyldu í bænum Nakskov á Lálandi. Foreldrar hans voru Jacob Joseph Meyer úrsmiður (1787-1848)og kona hans Jette (f. 1795), sem fædd var i Nakskov, af ættinni Levison. Jacob Josef kom frá Þýskalandi, nánar tiltekið borgarhlutanum Moisling við Lübeck. Honum voru veitt borgararéttindi í Nakskov árið 1812.
Philip Ferdinand var einn átta systkina. Þegar hann komst á fullorðinsár, hóf hann heildverslunarrekstur í Hamborg og Danmörku. Hann komst fljótt í álnir og þótt álitlegt mannsefni í Kaupmannahöfn er hann kvæntist Önnu Maríu Benedictsen árið 1855. Áður en það gerðist, hafði hann tekið kristna trú, svona til vonar og vara, og hét upp frá því formlega Johann Ferdinand Philip Meyer, en hann notaði mest nafnið Ferdinand. Hann fylgir nú ástkærri eiginkonu sinni til Íslands.
Anna María vann ekki lengi á Konunglega leikhúsinu. Hún blandaðist inn í illdeilur þar og tengdist stjórnanda leikhússins sem var rekinn. Eftir það átti hann hún ekki afturkvæmt þangað. Ferdinand efnaðist vel og hjónin reistu sér mikið og virðulegt hús á Friðriksbergi, við skemmtanargarðinn Alhambra.
Alhambravej 9 var eitt sinn virðulegt hús með miklum ávaxtagarði. Nú eru í því einhver braskfyrirtæki og eignina á banki á Jólandi.
Þar mun Anna María hafa sungið. Húsið er enn til, en er fyrir löngu umgirt af yngri og forljótum byggingum frá þeim tíma sem Frederiksberg breyttist líkt og Reykjavík gerir í dag, og ekki til hins betra. Í stað þess að syngja og leika á fjölum Hins konunglega leikhúss, hóf Anna María að rita greinar og ljóð, meðal annars undir dulnefninu Anna Rembrandt og Nemo.
Eftir það vitum við svo sem ekkert mikið um Önnu Mariu og mann hennar, annað, en að þau eignuðust 6 börn, m.a. soninn Aage Meyer Benedictsen (1868-1926), sem gerðist nokkuð frægur á sínum tíma bæði í Danmörku sem og í öðrum löndum. Saga hans er merkileg og hefur aðeins verið rakin lítillega hér á blogginu, en betri greinargerð um hann verður að bíða betri tíma. Ég hef flutt tvö erindi um Aage i Litháen á ráðstefnum sem hinn mikli Íslandsvinur og norrænufræðingur Svetlana Steponoviciene hefur staðið fyrir. Svetlana, sem er orðin öldruð nú, er formaður Félags til minningar um Aage Meyer Benedictsen. Aage Meyer Benedictsen var mjög annt um frelsi Litháa, dvaldi í landinu og skrifaði bók Et Folk, der vaagner (1895) / Awakening of a People (1924), um nauðsyn þess að Lithaugaland fengi frelsi.
Aage Meyer Benedictsen. Ljósmynd tekin af Johanne Frigast í Kalundborg. Myndin er í eigu safns háskólans í Vilnius.
Anna María var þegar farin að missa heilsuna á 7. áratug 19. aldar, og á ljósmynd, sem til er af henni frá 8. áratug aldarinnar, má sjá mjóslegna og heilsulitla konu, en þó er hægt að sjá að þar fer sama fallega konan með sama brosið og á málverkinu fremst í þessari grein.
Á ferð til lækninga í Stokkhólmi í lok árs 1874, andaðist Anna þar í borg aðeins 39 ára gömul og var það manni hennar og börnum mikill sorgardauði. Hver annar en H.C. Andersen ritaði um hana látna með miklum söknuði. Laugardaginn 2. janúar 1874 skrifaði hann sorgmæddur:
Benedictsen-Meyer er dáin í Stokkhólmi segja blöðin ....
Dagblaðið Berlingske Tidene hafði þetta að segja um Anne Marie:
Under et Ophold i Stockhom døde den 27de December f. M. Fru Maria Meyer, f. Benedictsen. Den Afdøde, der var født paa Island den 1ste Februar 1835, debuterede i sit 18de Aar paa det Kgl. Theater som Ragnhild i Svend Dyrings Huus og vakte allerede ved denne Debutrolle ikke ringe Forhaabninger; til Scenisk Virksomhed medbragte hun et i flere Henseender fordeelagtigt Ydre, en god Sangstemme og særlig en ualmindelig Begavelse og Dannelse, men hun optraadte i den vanskelige Tid, da der fra flere Sider arbejdedes mod J. L. Heiberg, og dennes store Interesse for hendes Talent foraarsagede hende mange Krænkelser i det 3 Aaar, hun offrede i Theatrets Tjeneste. Maria Meyer har til forskjellige Tider, 1857 og 1868, deels under Pseudonymet Anna Rembrandt, deels under eget Navn skrevet flere Eventyr og Noveller, ligesom de i sin Tid meget omtalte Breve fra og til en Skespillerinde, udgivne af Nemo, hidrører fra hendes Haand. Var hendes literaire Production vel væsentligt paa grund af hendes svagelige Helbred, ikke meget omfattende, vidner den dog om hendes fleersidige Dannelse og Talent, Rige Aandsevner og personlig Elskværdighed samlede om hende en stor Kreds af Venner, der med Veemod ville have modtaget Budskabet om hendes Tidlige Død.
Um málverkin sem brátt munu hanga í Faktorshúsinu
Nýverið tilkynnti mér einn af afkomendum Önnu Maríu, sem ég komst í samband við fyrir nokkrum árum, að hún hefði sett tvö málverk, sem fjölskyldan átti af hjónunum Önnu Maríu og Ferdinand Meyer, á uppboð hjá Bruun & Rasmussen í Kaupmannahöfn. Fyrir nokkrum árum hafði staðið til að ég myndi fá að skoða myndirnar og ljósmynda, en alvarleg veikindi mín um tíma komu m.a. í veg fyrir það.
Mér fannst tími til kominn að Anna María færi aftur Vestur, þar sem hún fæddist, og þegar ég frétti af uppboðinu, sem fór fram þann 29 apríl sl. á netinu, hafði ég þegar samband við Áslaugu í Faktorshúsinu og hvatti hana til að bjóða í verkin. Hún og Magnús maður hennar, sem á heiðurinn að einstaklega vel unnum smíðaviðgerðum á Faktorshúsinu, ákváðu að reyna við uppboðið.
Bæði mér og Áslaugu til mikillar furðu, var enginn áhugi á verkunum, og boð Áslaugar fékk enga mótbjóðendur. Það tryggði henni þessi fallegu málverk af íslensku leikkonunni, sem menn hafa vitað allt of lítið um, og eiginmanni hennar sem enn minna er vitað um, annað en að hann hafði fjári gott peningavit. Ég held að maðurinn hennar, hann Ferdinand hafi heldur ekkert á móti því að komast í hreina loftið á Íslandi.
Málverkin voru bæði máluð af kennara við Konunglegu akademíuna í Kaupmannahöfn, Christian Andreas Schleisner (1810-1882). Málverkið af Önnu Maríu var málað árið 1857 er hún var 22 ára gömul, en málverkið af eiginmanni hennar er dagssett árið 1868. Schleisner hlotnaðist prófessorsstaða við Akademíuna árið 1858.
Nú koma málverkin á næstu dögum til Íslands og verða til prýði í Faktorshúsinu, gestum þar til mikillar ánægju. Vona ég að fólk fari og kaupi sér kaffi og kökur hjá Áslaugu og Magnúsi í Faktorshúsinu og virði fyrir sér þessa frægu íslensku konu og líka manninn hennar.
Menning kemur svo sárasjaldan vestur á Firði, segja sumir. Ég er nú hræddur um að það sé að breytast, þó sumir hafi aldrei farið suður - en það gerði Anna María.
Málverkið af Önnu Maríu: 55x47 cm, olía á striga,
Málverkið af Ferdinand Meyer: 58x49 cm, olía á striga.
Kaupmannhöfn, 4. maí, 2019
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson ©
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1. maí
1.5.2019 | 16:05
Fornleifur og ritstjórinn óska lesendum sínum nær og fjær, gleðilegrar hátíðar á degi verkalýðsins. Það er ávallt að styttast í byltinguna, en líklega verður aldrei neitt úr henni vegna mannlegra galla eða heimsendis.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fornleifur er lesinn víðar en áður var talið
4.4.2019 | 13:42
Nú veit Fornleifur fyrir víst að neftóbaksfræði hans um íslenskt njósnakvendi eru lesin á flugvöllum í fjarlægum löndum. Njósnakvendið íslenska komst þó ekki með tærnar þar sem Mata Hari (mynd) var með háu hælana.
Síðastliðna nótt hafði prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson samband við ritstjóra Fornleifs í tölvupósti. Hann var staddur einhvers staðar í útlöndum á milli kennslustunda. Hann kallaði það smáræði, en margt smátt er stórt. Hann var með þær upplýsingar að "sér hefði verið sagt", að íslenska njósnakvendið, sem ég skrifaði um á aðventunni árið 2017, væri rangt feðruð af mér.
Sko, þessi tíðindi úr útlandinu glöddu mig vitaskuld mjög, því ég hef síðan 2017, þegar ég varpaðu fram spurningu til lesenda minna ætterni njósnakvendisins í Kaupmannahöfn, ekki fengið nein svör. Nú kom loks svar og það sýnir að auki, að menn eru að lesa Fornleif á alþjóðarflugvöllum í stórum stíl.
Reyndar "feðraði" ég sjálfur ekki konuna í grein minni 2017, en tók hrátt eftir fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, nafna mínum sem var Finsen að eftirnafni.
Vilhjálmur Finsen skrifaði svo nákvæmlega um íslenska konu í tygjum við nasista, að ég fékk lýsingarnar aðeins til að passa við eina konu, Lóló fegurðardís. Lóló var jafnaldra njósnakvendisins Guðrúnar hjá Vilhjálmi, hún var rauðhærð, dóttir útgerðarmanns, hún hafði verið í leiklistarnámi í Þýskalandi og fékkst aðeins við leiklist í Kaupmannahöfn. Hver gat þetta verið önnuð en Lóló?
Ég spurðu því í varkárni hvort njósnakvendið hjá Vilhjálmi Finsen væri Lóló sú sem giftist inn í Thorsættina (sjá hér). Ekki kom svarið fyrr en í nótt og það líklegast alla leið frá Suður-Ameríku og frá Hannesi Hólmsteini, sem hefur verið að vasast í neftóbaksfræði Fornleifs.
Hannes hafði heyrt, að njósnakvendið í Köben væri ekki Lóló heldur systir Guðmundar frá Miðdal. Þetta kom mér töluvert á óvart og fór ég að vasast í minnigargreinar um þær Guðrúnu Steinþóru, Sigríði Hjördísi, Karólínu (Líbu) cand.mag. og Ingu Valfríði (Snúllu) Einarsdætur. Ég útilokaði þegar Karólínu (f. 1912) og Ingu (f. 1918). Eftir að hafa ráðfært mig við sérfræðing um Guðmund frá Miðdal, sjálfan Illuga Jökulsson, taldi ég víst að það væri heldur ekki Guðrún, þó svo að njósnakvendið hefði verið kallað Guðrún hjá Vilhjálmi Finsen í minningarbók hans Enn á heimleið (1956)
Þá var aðeins eftir Sigríður Hjördís Einarsdóttir, og í því að mér varð það ljóst kom tölvupóstur frá Hannesi þar sem hann sat á flugvelli og var að fara út í flugvél til að losa meiri koltvísýring.
Hannes skrifaði áður en hann fór í flugvélina að upplýsingar sem staðfesti að njósnakvendið, sem Vilhjálmur Finsen kallaði Guðrúnu, hafi í raun heitið Sigríður Einarsdóttir frá Miðdal og það kæmi greinilega fram í nýrri útgáfu bókar Þórs Whiteheads á Styrjaldarævintýri Himmlers.
Ekki var frú Sigríður, sem Vilhjálmur Finsen gerði að innanstokkshlut hjá nasistanjósnurum í Kaupmannahöfn, rauðhærð - tja nema að hún hafi litað hár sitt rautt um tíma - líkt og Mata Hari gerði. Samkvæmt Vilhjálmi var njósnakvendið Guðrún fyrst í tygjum við þýskan njósnara árið 1938. Kannski gat Finsen ekki einu sinni farið rétt með ártöl. En í minningargrein um frú Sigríði frá Miðdal kemur fram að hún hafi gifst ekklinum Guðna Jónssyni (menntaskólakennara) sem þekktastur er fyrir útgáfur sínar á Íslendingasögunum. Þau létu pússa sig saman þ. 19. ágúst 1938.
Þór Whitehead birti gögn um að Sigríður Hjördís Einarsdóttir frá Miðdal væri njósnakvendið sem Vilhjálmur Finsen fabúleraði um sem rauðhærða leikkonu árið 1956.
Heldur hefur frú Sigríður verið kvikk í karlana, ef hún hefur vart yfirgefið þann þýska fyrr en hún var komið heim Íslands og lét látið pússa sig saman við Guðna Jónsson, ekkjumann með fimm börn.
Svona að dæma út frá myndinni af Sigríði, er mér nú næsta að halda að áhugi þýskra nasista á henni hafi nálgast hinn hræðilega glæp í þeirra herbúðum: Rassenschändung. Sigga er sýnilega dekkri á húð og hár en Mata Hari. En nú er hins vegar vitað það sem menn vissu ekki áður: Að Mata Hari var 100% Fríslendingur og ekki af indónesískum ættum eins og margir trúðu hér fyrr á árum.
Nú er ég líklegast búinn að fá svar við spurningu minni frá 2017, þegar mér datt út frá upplýsingum helst í hug rauðhærð fegurðardís. Lýsingar Finsens pössuðu best við hana Lóló. Enginn Thorsari hefur greinilega talið ástæðu til að leiðrétta það. Kannski lesa Thorsarar heldur ekki Fornleif eins fjálglega og prófessor Hannes.
En ef það var hún Sigga frá Miðdal sem lék sér í Kaupmannahöfn, frekar en einhver Gudda - og alls ekki Lóló - er mér alveg sama. Ég bið þó alla Thorsara velvirðingar á því að hafa yfirleitt látið mér detta þá í hug í ættartengslum við nasískt njósnakvendi.
Það sem skiptir máli er, að það sé farið rétt með; hafa það sem réttara reynist. En ef ekki er einu sinni hægt að treysta fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, lifum við á válegum tímum. - Hins vegar, ef sumir heimsfrægir sagnfræðingar treysta Gunnari M. Magnúss hvað varðar skoðanir á útlendingum á Íslandi - þá skammast ég mér ekkert fyrir að hafa trúað Vilhjálmi Finsen. Enn verra er ef menn hafa á einhvern hátt leyft sér að trúa Kurt Singer og verkum hans. Kurt Singer getur á engan hátt talist trúanlegur um eitt eða neitt í bókum sínum um njósnara.
Ég þarf hvorki lífsýni úr Siggu frá Miðdal né Lóló til staðfestingar, en bíð nú eftir sönnunargagni frá Hannesi Hólmsteini úr bók Þórs Whitehead, þar sem sannleikurinn um Siggu birtist samkvæmt HHG í annarri útgáfu Íslandsævintýris Himmlers en þeirri sem ég á. Ég á aðeins gulnað ljósrit af fyrstu útgáfunni.Önnur útgáfan var ekki til á flugvellinum þar sem Hannes var, svo hann gat ekki sent mér staðfestingu..
Legg ég að lokum til, að einhver íslenskur porn-director taki sig til og búi til ljósbláa stórmynd um íslenska njósnakvendið Helgu X frá Ydal og tengsl hennar við Þjóðverjann sem gekk jafnan í leðurkápu í Kaupmannahöfn og var með ljótt skylmingaör á (rass)kinninni.
Fornleifur segir mér nú, að sér hafi verið sagt, að búið sé að framleiða heila sjónvarpsþáttaröð um þetta njósnakvendi og það fyrir löngu síðan. Hér koma brot úr henni:
Íslenskir nasistar | Breytt 17.4.2019 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svartsýni á mánudegi
1.4.2019 | 21:16
Fornleifur er ýmislegt, en seint verður hann lastaður fyrir að vera rasisti - nema þá helst um helgar og á stórhátíðum.
Nýlega var honum gefið þetta sjaldgæfa, japanska plakat frá 3. áratug 20. aldar.
Er plakatið rasískt, kynnu einhverjir að spyrja? Það tel ég varla. Þetta er bara auglýsing fyrir andlitsfarða. Þess vegna er það komið upp á vegg í stofu Fornleifs, sem finnst gaman af svona fíflaskap.
Japanir á 3. áratug 20. aldar voru ekki vel að sér um líffræði svarta mannsins. Geishan og sá blakki (blackface) á veggspjaldinu, sem er ugglaust líkastur fílamanninum heitna á Skriðuklaustri, benda svo elskulega á hvort annað. Engu er líkara en að hún haldi um negrabassann og að boðskapur þeirra sé: "Ef þú getur notað farðann minn, og ég get notað farðann þinn - erum við öll eins, inn við beinið". Þannig á heimurinn að vera.
Er ég fékk plakatið að gjöf í síðustu viku, minntist ég auglýsinga frá 1929, sem ég eitt sá í japönsku dagblaði, Jiji Shimpo árið 1929, sem var að finna í kassa frá 19. öld sem mér var gefinn í afmælisgjöf á sl. ári.
Í Japan höfðu menn áhuga á jazzmúsík eins og fólk um allan heim. Ég veit ekki hvað menn kölluðu jazz í Japan, annað en ef til vill Jazz-u. En í gamalli þýsk-íslenzkri orðabók frá 1935 eftir Jón Ófeigsson er orðið Jazz þýtt sem HARKTÓNLIST. Hverjir voru rasistarnir?
Á þeim tíma sem plakatið er frá, voru revíuatriði með blackface-þáttum ekki óalgeng og gamanleikarar eins og Kenichi Enomoto, Yozo Hayashi and Yozo Hayashi, sem voru heimsfrægir í Japan, settu á sig farða og léku svarta menn í jazzrevíum stórborgarinnar Tókýo. Made in Japan og Japanir kópíera allt.
Allir sem hafa ferðast til Hong Kong eða Singapore vita að eitt þekktasta tannkrem álfunnar heitir Darlie. Áður en tannkremið fékk nafnið Darlie, var nafn þessa tannkrems Darkie. Fordómar gegn svörtu fólki fengu Asíumenn beint í æð frá Evrópumönnum. Hins vegar veit ég fyrir víst vegna kynna minna af kínverskum námsmönnum á Englandi á sínum tíma, að Kínverjum þykir svart fólk mjög ljótt, og öllu ljótara en hvíti maðurinn, og þá er nú ekki mikið sagt. Fegurð Kínverja getur nú líka verið misjöfn. En hverjum þykir sinn fugl fagur.
Fyrsti negrinn í Japan, Yasuke, kom með portúgölskum kaupmönnum til Eyjanna. Mjög skiptar skoðanir eru á því hvaðan hann kom í Afríku. Sumir segja að hann hafi verið frá núverandi Mósambík og aðrir telja að hann hafi verið frá Eþíópíu. En frá 17. öld fram til 20. aldar voru svertingjar sjaldséðir gestir í Japan. Á síðara hluta 18. aldar komu þó æ fleiri svartir menn til eyjanna. Þeir voru neðst í stéttarstiga þeirra sem þjónuðu heimsvaldasinnum, sem reyndu að festa klær hramma sinna í Japan.
Ætli Japan sé samt mikið verra, hvað varðar útlendingahræðslu eða rasisma, en aðrar menningarþjóðir sem halda til á tiltölulega einangruðu eyríki.
Hér er stutt heimildamynd um svarta íbúa í Japan í dag, og einnig er áhugavert fyrir þá sem áhuga hafa, og nenna því, að lesa vefsíðuna https://www.blacktokyo.com/ . Ef þið viljið hlusta á japanska jazz-samsuðu við japanska tónlist er hægt að mæla með því að hlusta á Koichi Sugii. Rats & Stars er söngsveit (borið fram "Lats and Stals" á japönsku) sem hefur lengi verið vinsæl hjá ákveðinni stétt Japana. Kannski ræða Japanir ekki eins mikið um pólitíska rétthugsun og eyþjóðin íslenska?
Gamlar myndir | Breytt 5.4.2022 kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gísla Gunnarssyni svarað
25.3.2019 | 16:03
Gísli Gunnarsson sagnfræðiprófessor (emeritus) er, þrátt fyrir latínubótina sem stagað er í afturendann á síðasta fasta starfstitli hans, alls ekki dauður úr öllum æðum. Í bókstaflegri meiningu þýddi emeritus aflóga, þegar Rómverjar notuðu þetta lýsingarorð einna mest um vinnuhesta og akuxa. Gísli hefur alltaf verið mikill vinnuhestur og engin gapuxi. Fylking sú sem fylgir Gísla á FB tilheyrir þó oft síðarnefndu tegundinni.
Til að halda sínum góðu, gráu sellum í sambandi og liðugum stundar Gísli mikla leikfimisæfingar á FB, og það mest um hásvartnættið; stundum svo mjög að óhollt má þykja. Þessar æfingar hans eru mun herskárri en t.d. Müllers-teygjur eða almennilega daglegur göngutúr sem Jóni Árnasyni þjóðsagnaþul var ráðlagt að stunda af sérfróðum Skota, þegar Skotinn sá hve visinn og aumur Jón var fyrir neðan mitti af endalausri setu yfir lygasögum.
Á FB sinni stundar Gísli þá æfingu heilsu sinni til bóta, að verja rétt Palestínumanna með því að vera plötusnúður og útsendingastjóri fyrir málstað Hamas og Fatah.
Gísli sendir í gríð og erg út greinar sem hann finnur á veraldarvefnum, og upp á síðkastið margar greinar um litla hópa gyðinglegra þverhausa sem eru á móti Ísraelsríki og hafa aðrar skoðanir á vanda Miðausturlanda en stór meirihluti gyðinga heimsins, bæði þeirra sem búa í Ísrael eða utan.
Það er í sjálfu sér ekki syndsamlegt að nota heilasellur sínar til þess að styðja baráttu sárhrjáðra manna sem Gísli vill að eignist vel vopnað ríki. Vandamálið hefst þegar hin hrjáða þjóð sýnir umheiminum, að hún kann ekki með þessi vopna að fara nema til þess að uppfylla heit sín um að útrýma nágranna sínum. Eins og margir Íslendingar, hefur Gísli valið sér Palestínumenn til að styðja sérstaklega, og reyndar fram yfir aðra hrjáða menn sem hafa þurft að þola miklu verri örlög en Palestínuarabar.
Gísli Gunnarsson bað mig á FB sinni í nótt, þegar ég svaf svefni hinna saklausu, um að skýra fyrir sér hvernig gangrýni á Ísraelsríki geti stundum talist til hreinræktaðs gyðingahaturs.
Þegar hann og heilasellurnar vakna í kvöld og hann hefur enn á ný leit að þriggja manna "samtökum "gyðinga sem hata Ísraelsríki - eða að grein eftir einhvern sem finnst bresku stjórnmálamennirnir Jeremy Corbyn og Ken Livingstone einstök gæðablóð, þá verður þetta svar tilbúið til lestrar fyrir hann. Þið lofið að vekja Gísla ekki af værum svefni fyrr en kl. 19 eða 20 að staðartíma út af þessu svari. Þær gráu í fólki sem er komið yfir fimmtugt þurfa nefnilega á nægri hvíld að halda, sérstaklega áður en haldið skal á Vesturbakkann eða til Gaza í huganum, meðan aðrir eru í Jerúsalem í draumum sínum.
Hvenær verður gagnrýni á Ísrael gyðingahatur?
Gagnrýni á Ísraelsríki á vitaskuld rétt á sér, en stundum væri málefnalegra að dreifa gangrýni sinni á ríki þar sem ástandið er miklu en í Ísrael og á friðsemdareyjunni Íslandi norður í Ballarhafi.
Gagnrýni á Ísraelsríki, Ísraelshatur og það sem sumir kalla antisíonismi, getur hins vegar auðveldlega snúist yfir í hreint gyðingahatur ef menn varast ekki orðaval sitt. En nú er orðaval einu sinni oftast nær birtingarmynd skoðana og tilfinninga manna. Hér skulu nefnd nokkur dæmi sem varða Gísla sjálfan í von um að það bæti skilning hans á því hvenær gagnrýni á Ísrael er orðin að gyðingahatri.
1) Gísli hefur um árabil bent á að núlifandi gyðingar séu flestir komnir af Khazörum, þjóð sem að hluta tók gyðingdóm um tíma. Þessa kenningu hefur Gísli tekið miklu ástfóstri við líkt og margir stuðningsmenn Palestínumanna - Hún sýnir þeim að nútímagyðingar séu ekki gyðingar í raun og veru og séu að mestu óskyldir þeim sem uppi voru á tímum Jesús frelsara sumar Íslendinga. Þrátt fyrir að allar nýjar DNA-rannsóknir sýni að það sé engin fótur fyrir þessari kenning (sem reyndar var upphaflega sett fram af gyðingi) og sem notuðu var grimmt af nasistum áður en stuðningsmenn Palestínuaraba fóru að nota hana. Þeir sem enn vitna í Kahzarakenninguna eru gyðingahatarar. Þeir reyna að útrýma tilvist gyðinga með því að segja að þeir séu ekki "ekta gyðingar". Eins lítilmótleg og ömurleg sem þessi óvísindalega samlíking er, þá er hún enn notuð á meðal þeirra sem safnast að Fjasbók Gísla sem flugur á mykjuskán, þegar hann skrifar um Palestínu. Gísli hefur þó sem betur fer nýlega gefið þessa dogmu um sagnaþjóðina Khazara upp á bátinn.
2) Margur maðurinn sem sækir í FB Gísla líkir Ísraelsríki í sífellu við Þýskalands nasismans og Ísraelsmenn og gyðinga við nasista, sem og Gaza við gettó. Þetta fólk, sem ég held stundum persónulega að sé léttkexruglað þegar að þegar að áhugamálið þeirra kemur, telur það málstað Palestínumanna til stuðnings að tala í sífellu um þjóðarmorð í Palestínu. Ef það er ekki kúlan í kanónunni, það eru gyðingar vændir um að stunda þjóðernishreinsanir. Þetta síðasta kemur einfaldlega til af því að fólk í Palestínuiðnaðinum hefur greinilega ekki andlega burði til að kynna sér skilgreiningu SÞ og annarra alþjóðlegra stofnanna á þjóðarmorði. Samlíkingar gyðinga/Gyðinga/Ísraelsmanna við böðla gyðinga í Evrópu er gyðingahatur. Það hefur fyrir löngu verið skilgreint og niðurneglt af sérfræðingum, bæði gyðingum og þeim sem ekki eru gyðingatrúar. Alþjóðlega samtök ganga einnig út frá því að þegar Ísraelsmönnum og gyðingum er líkt við nasista, þá sé það í raun svæsnasta gerð af gyðingahatri - þ.e. þegar fórnarlambinu er líkt við böðul sinn. Þetta gera margir á FB Gísla emirítus, sem gerðist sjálfskipaður gyðingafræðingur á Íslandi í ellinni.
Lækjartorg 2009. Táknin eru greinileg. Ekkert slys, aðeins hatur.
3) Ég get vel skilið að menn í hita átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs æstist í hvert sinn sem átök hefjast aftur á Gaza, en samlíkingar þeirra, sem maður sér Palestínumenn einnig nota, sem og afneitun á Helför Gyðingar og engum ósóma, er engum til gagns og síst af öllu Palestínumönnum. Herferð Gísla er í hæsta lagi æsingur aldraðs manns í cyberspace og ekkert annað. Hann hjálpar engum og fær ekki einu sinni verðlaunapening frá Hamas eins og Sveinn Rúnar hefur fengið. Gísli hefur ekki heldur ort: "Israel, Israel über alles" líkt og Sveinn Rúnar Hauksson gerði hér um árið. Með því að sætta sig við fólk komi við á FB sinni með gyðingahatri er Gísli meðsekur í gyðingahatrinu.
4) Gísli Gunnarsson hefur einnig gert sig sekan um aðra gerð af svæsnu gyðingahatri. Árið 2003 skrifaði undir undirskriftasöfnum í HÍ, (með fólki eins og Helgu Kress og Þorbirni Broddasyni, https://notendur.hi.is/~peturk/ISRAEL/askorun.htm ) þar sem hann hélt sig vera að styðja áskorun frá 187 ísraelskum prófessorum sem að sögn vöruðu við þjóðahreinsunum Ísraelsmanna á Palestínumönnum í skjóli Íraksstríðsins. Gísli og aðrir lærðir menn hoppuðu umsvifalaust á þetta gabb, sem ættað var frá einum af mörgum áróðursmiðstöðvum Palestínumanna. Enginn prófessor í Ísrael hafði sett nafn sitt undir slíka undirskrifasöfnun eða beðið kollega á Íslandi að vera með. Gísli og líkt þenkjandi fólk gleymdi í andrá öfganna, að það eru Palestínumenn sem sífellt tala um að ryðja Ísraelsríki í sjó fram og "myrða gyðinga hvar sem þá er að finna", en ekki öfugt. Það var hreinræktað gyðingahatur sem Gísli Gunnarsson skrifaði undir og hvatti til, er hann taldi öruggt að Ísraelsmenn myndu stunda þjóðarhreinsanir í skjóli Íraksstríðsins.
Læt ég þessar skýringar nægja hinum aldna og virðulega prófessor sem stundar leikfimisæfingar með gráu sellurnar sínum til stuðnings hinna hrjáðu Palestínuaraba, sem reyndar hírast í best vopnaða "gettói" sem sögur fara af. Svokölluð gangrýni í garð Ísraels getur mjög auðveldlega tekið á sig mynd hreinræktaðs gyðingahaturs og gerir það oft hjá lesendum Gísla á Facebók hans. Sjón er sögu ríkari. Svo er líka bíó fyrir Gísla. Þetta er líklegast "áróðursmynd" samkvæmt Gísla.
Where anti-Zionism crosses into anti-Semitism should also be obvious: dehumanizing or demonizing Jews and propagating the myth of their sinister omnipotence; accusing Jews of double loyalties as a means to suggest their national belonging is of lesser worth; denying the Jewish peoples right to self-determination; blaming through conflation all Jews for the policies of the Israeli government; pursuing the systematic Nazification of Israel; turning Zionism into a synonym of racism. Roger Cohen
Vísindavefsskandallinn
Gísli Gunnarsson komst heldur betur í sviðsljósið nýlega, þegar Merrill Kaplan ungur aðjúnkt í Iowa í Bandaríkjunum, sem dvalið hafði á Íslandi við vinnu á doktorsritgerð sinni benti á villur og meinlokur í skýringargrein Gísla á gyðingahatri á Vísindavefnum. Gísli gerði talsverða umbætur, enda jaðraði það sem hans skrifaði við gyðingahatur. Gísla vini mínum, og sjálfskipuðum verndara til 30 ára, má segja það til hróss að hann er ekki einn um ruglið og þekkingarleysið á því sem hann hefur verið spurður um á Vísindavefnum.
Eitt sinn var Guðrún Kvaran beðin um að skýra uppruna orðanna gyðings og júða en einnig skýra hvers vegna orðið júði er niðrandi? Í dönsku og þýsku eru notuð nauðalík orð um gyðinga sem ekki eru niðrandi. Guðrún Kvaran svaraði og sýndi þar með ljóslega fordóma sína og þar með algjöra vankunnáttu á því sem hún var spurð um:
"Neikvæða merkingin í júði á líklegast rætur að rekja til þess að gyðingar sem stunduðu viðskipti víða um heim á síðari öldum, þóttu erfiðir viðfangs, nískir okurkarlar og efnuðust oft vel. Þetta litu aðrir hornauga og farið var að nota jew, jøde, júði í neikvæðum tón um kaupsýslumenn af gyðingaættum. Hin neikvæða merking sem Jude fékk í Þýskalandi á árunum milli stríða og í síðari heimsstyrjöldinni er af öðrum toga og var tímabundin. Hún náði yfir allt fólk af gyðingaættum, ekki aðeins kaupsýslumenn".
Þarna blandar fræðimaður að hluta til orsökum og afleiðingum saman og sýnir algjört þekkingarleysi á því sem hún hún skrifar um. Rómverjar og kristin kirkja ólu á hatri gagnvart gyðingum og hvaða nafn sem þeir og aðrir notuðu, þá var það tengt neikvæðni í garð gyðinga og trúarbragða þeirra. Ástæðan fyrir því að gyðingar stunduðu lánastarfssemi er ekki skýrð af Guðrúnu Kvaran. Kirkjan lék aðalhlutverkið í því hve litla starfsmöguleika gyðingar höfðu. Guðrún gleymir því einnig að flestir sem hafa orðið fyrir illmæli með gyðinganafnbót eru ekki gyðingar, heldur okrarar sem kallaðir eru því ljótasta sem mönnum dettur í hug. Ég hef áður bent á þekkingarleysi Guðrúnar Kvaran (sjá hér) og læt þetta nægja nú. Gísli er svo sannarlega ekki einn á þessum furðulega hatursdalli HÍ.
Gyðingahatur nútímans er mikið vandamál á Íslandi. Sem betur fer hafa gyðingar búsettir á Íslandi aðeins orðið fyrir aðkasti í litlum mæli. Bílar þeirra hafa verið rispaðir og drullu kastað í hús þeirra og túlípanar hafa verið rifnir upp í görðum þeirra.
En ef menn hugsa sig ekki um og fara með offorsi í samlíkingum og hatursræðu í hvert skipti sem öryggið losnar á sprengjukösturum hryðjuverkasamtakanna Hamas (sem sumir Íslendingar skilgreina sem eins konar hjálpasveit skáta), þá sjáum oftar hroðalegt gyðingahatur á Íslandi í meintu hatri manna á hinum "vonda síonisma" Ísraelsríkis.
Bloggar | Breytt 28.3.2019 kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Veftímaritið Herðubreið stelur ljósmynd
5.3.2019 | 07:48
Viðbót 6.3.2019 - Herðubreið hefur nú birt nafn höfundar ljósmyndarinnar
31. janúar 2019 birtist smáklausa á Tímaritinu Herðubreið sem Karl Th. Birgisson er í forsvari fyrir. Klausan ber fyrirsögnina Einn í áhöfn og er eftir Úlfar Þormóðsson. Hún fjallar um þau örlög sem kapítalisminn hefur skapað, og sem veldur því að aðeins einn Íslendingur er í áhöfn á íslensku skipi. Nærvera Íslendings varnar því greinilega ekki að skip fái á sig brotsjó.
Til að myndskreyta klausuna gripu menn í Herðubreiðarlindum til vafasams myndastulds í anda verstu kapítalista. Þeir tóku hluta af ljósmynd sem ég hef tekið í Kaupmannahöfn og hef birt á tveimur blogga minna hér og hér á Fornleifi. Herðubreiðarmenn birtu hana án þess að nefna höfund ljósmyndarinnar.
Skjámynd af vefritinu Herðubreið
Ég hafði samband við Herðubreið og fékk tvö svör, nafnlaus:
"Sæll og og forláttu síðbúið svar. Nú leggjumst við í rannsóknir. Vitum ekki hvernig myndin komst í myndabankann okkar, en takk fyrir að láta vita." Og síðar: "Sæll Vilhjálmur. Með fullri virðingu fyrir fræðistörfum þínum, þá getum við ekki fallist á að myndin sé eftir þig, þar sem hún er hluti af auglýsingu frá Eimskipafélagi Íslands, eftir því sem við komumst næst. Endilega láttu vita ef við förum vill vegar."
Þar sem ég taldi mig hafa skýrt málið út fyrir Herðubreiðarritstjóranum, eða réttara sagt þeim huldumanni sem svaraði mér, að þeir mættu nota ljósmynd mína ef þeir birtu nafn mitt og greindu frá því hvar myndin sem þeir skáru birtist skrifaði ég fyrr í dag til "Herðubreiðaröræfa":
Sæl "Herðubreið"
Ég tók ljósmyndina af auglýsingu í 80 ára dagblaði sem varðveitt er í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn. Ég birti myndina á bloggum mínu í lágri upplausn, en hún hafði ekki verið uppi á borðum Íslendinga fyrr en að ég gerði henni skil.
Þar sem engin undirritar skilaboð "Tímaritsins Herðubreiðar" til mín undir nafni, get ég ekki tekið þessi svör ykkar alvarlega. En mér er full alvara og hinn nafnlausi maður sem svarar fyrir Herðubreið er að mínu mati óvenjulega kokhraustur þegar hann ver þjófnað á myndverki mínu.
Ljósmyndin, sama hve léleg hún er, er verk mitt. Ég miðlaði þessari 80 ára auglýsingu í morgunblaðinu Politiken til Íslendinga á bloggum mínum. Áður en það gerðist var auglýsingin ekki þekkt á Íslandi og var t.d. ekki með í bók um sögu Eimskipafélagsins. Veftímaritið Herðubreið tekur svo myndina og sker hana í búta og birtir einn bútinn án þess að minnast á höfund. Höfundar myndverka hafa rétt og ég er höfundurinn.
Vinsamlegast getið höfundar ljósmyndarinnar sem þið hafið notað. Nafn hans stendur fyrir neðan þessi svör.
Virðingarfyllst,
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Viðbót 6.3.2019 kl. 01.35 HERÐUBREIÐ hefur fyrir 10 mínútum síðan vinsamlegast fallist á ósk mína og merkt mynd mína mér (reyndar sést myndin ekki lengur, en það er tæknilegt atriði sem Herðubreiðarmenn verða að leysa). Myndin mun að sögn hafa verið notuð áður á Herðubreið. Ég þakka fyrir heiðarleg viðbrögð Herðubreiðar og verð að fara að vara mig á því að "stela" myndum frá öðrum. Við verðum öll að passa okkur og athuga hvað maður er að taka. Ég var ekki á höttunum eftir greiðslu, en stundum er það víst tilgangur manna.
Bloggar | Breytt 6.3.2019 kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Fyrir pönnukökubakara er jörðin oft fjári flöt
18.2.2019 | 08:44
Laugardaginn 16. febrúar hófst árleg vertíð nasista og þjóðernissinna sem þramma um götur Litháen, Lettlands og Eistlands í febrúar og mars, með fullu leyfi stjórnavalda landanna.
Sameiginlegt eiga þessar göngur allar, að minnast þjóðernishetja landsins. Svo vill til að meirihluti þeirra þjóðernishetja sem löndin gefa nú götunöfn og annan heiður, að þeir stunduðu morð á gyðingum landsins. Eðvald Hinriksson hefði væntanlega komist í þennan fríða hóp morðingja með götu eða búlevard, ef Eistlendingar hefðu ekki loks áttað sig á því að hann var einn af verstu eistnesku morðingjum gyðinga áður en Þjóðverja tóku yfir starf hans. Þýskir sættu sig ekki fyllilega við störf hans, þar sem hann rændi auðuga gyðinga áður en hann kom þeim fyrir kattarnerf - sem var verk sem Þjóðverjar höfðu ætlað fyrir sjálfa sig og enga aðra.
Meðan að götur og torg við botn Eystrasalt fá ný nöfn óyndismanna og gyðingamorðingja (og Íslands), horfa eftirlitsstofnanir Evrópu í mannréttindamálum á, án þess að gera nokkurn skapaðan hlut meðan nasistarnir ganga framhjá gluggum stofnana þeirra. Fyrir einni slíkri stofnun er okkar eigin Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hún er í forsæti hjá ODIHR, sem ekkert gerir til þess að hindra þá öfugþróun sem menn hafa séð í Eystrasaltsríkjunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen sl. 20 ár.
Reyndar sendi Ingibjörg Sólrún skilaboð til RÚV um daginn vegna viðtals sem átti að birtast við íslenska nasistakerlingu á botni hvítu ruslatunnunnar á Íslandi, sem bíður endurkomu Hitlers eftir að Ingibjörg og Sigmundur Davíð brugðust. Og svo var Ingibjörg Sólrún í vinnutíma að hnýtast í karlpunginn hann Jón Baldvin. Það er hins vegar meira einkamál falleraðs stjórnmálamanns gagnvar öðrum falleruðum stjórnmálamanni.
Ég skrifaði fyrir helgina stuttan pistil á ensku andfasísku vefsíðuna Defending History um aðgerðarleysi Ingibjargar Sólrúnar gangvart nasismanum í Eistlandi, Lettlandi, Lithaugalandi, og reyndar víðar á umsagnarsvæði hennar sem yfirmanns ODIHR.
En hugur Igibjargar er líklegast enn að aðstoða Palestínumenn við að útrýma Ísraelsríki sem mig grunað að hafi verið aðalætlunarverk hennar hefði hún komist í Öryggisráð SÞ á sínum tíma.
Fyrir meistarapönnukökubakara eins og Ingibjörgu eru jörðin oft heldur flöt.
Lesið:
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ágæt hryðjuverkavörn Minjastofnunar
12.2.2019 | 07:01
Nýjasta birtingarmynd minjavörslunnar á Íslandi er að flytja til styttur bæjarins. Þetta kemur fram í hasarfréttablaðinu DV. Minjavörður Ríkisins er enn einu sinni í vondum málum, en nú styður Minjasvið Fornleifs Stínu Stuð heils hugar.
Loks kom góð tillaga frá Minjastofnun, sem heil brú er í - og jafnframt framtíðalausn fyrir styttuskömmina af Skúla Magnússyni. Er ekki tilvalið að nota hana sem staðlaða, íslenska hryðjuverkavörn? Hún sýnir mann með ygglibrún, 1,5 metra herðabreidd og höku sem er líkust stuðara á Scania trukki. Það vill vitaskuld enginn túrhestur búa á hóteli þar sem slíkt ofurmenni gnæfir yfir þeim. "Bad people" pakk sem vill til Íslands mun taka næsta flug heim, ef svona styttum yrði komið fyrir í Leifsstöð. Hægt væri að selja Skúla til BNA, svo Trump hætti við reisa vegginn sinn.
Heimildir sýna reyndar, að Skúli fógeti hafi verið ræfilslega lítill, sköllóttur og álútur græðgiskarl - ekki ósvipaður þeim lítilmennum sem vilja breyta Íslandi í Hótel og fjallkonunni í innanhússportkonu og módel. Innréttingar Skúla voru náttúrulega heldur ekki ofan á Víkurgarði. Því verður að fagna að þessi hryllingur, sem tákna á athafnamanninn Skúla, verði í framtíðinni notuð sem slysavarnarverkfæri og hryðjuverkavörn.
Í staðinn væri hægt að setja styttur af beinagrindum, til að minnast kirkjugarðsins sem íslenska græðgin og meðalmennskan hraunaði yfir. Það gæti verið listaukandi fyrir ferðamennina sem á að mergsjúga og blóðmjólka á hótelinu. Myndirnar við þennan pistil er tvær tillögur sem borist hafa samkeppni Fornleifs fyrir minnismerki um beinin sem brott voru numin úr Víkurgarði.
Sendið endilega inn tillögur. Verðlaun verða nótt í svítu á Reykjavík Hotel Hilton on the Skeletons í Reykjavík, þegar það kemst í gagnið. Innifalið er beint útsýni inn í Alþingi Íslendinga. Selshljóð fyrirmenna eru innifalin í morgunverðinum. Vinningshafinn verður afhjúpaður 1. apríl 2019.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er mikið "stöð" á Stöðvarfirði.
11.2.2019 | 07:27
Vinur minn í fræðunum, Bjarni F. Einarsson, reynir nú að fá styrki til sumarvertíðarinnar austur á landi. Vona ég svo sannarlega, að það takist hjá Bjarna. Þó ég sé alls ekki á því að það sé stöð sem hann sé að rannsaka, eins og ég hef áður gert grein fyrir hér og hér (þegar Bjarni fann fornan skáta með hjálp fjölmiðla) , er örugglega mikið "stöð" hjá Bjarna svo ég tali tæpitungulausa málísku af þeim slóðum sem Bjarni grefur nú á . Nú hefur Bjarni í endalausri baráttunni við að fá fjármagn náð í auðtrúa þáttasmið á RÚV og sagt honum frá hugsmíðum sínum. Menn getað hlustað á það hér.
Bjarni talar í viðtalinu um Sama. Vitaskuld voru forfeður nútíma-Sama á meðal landnámsmanna á Íslandi og ekki bar "meðeim". Það kemur fram í ritheimildum og í samsetningu fornleifa ´á Íslandi. Beinamælingar Dr. Hans Christians Petersens, sem nú er prófessor við Syddansk Universitet. Niðurstöður Hans hef ég t.d. greint frá hér, hér og hér, sem og í fræðigreinum erlendis, sýna það tvímælalaust. Landnámsmenn á Íslandi eru einnig komnir af Sömum, og ekki í minna mæli en af fólki frá Bretlandseyjum, þótt tala fólks frá Bretlandseyjum hafi rokið upp úr öllu valdi vegna annmarka í rannsóknum á DNA nútíma-Íslendinga og genamengi þeirra til að segja til um uppruna landnámsfólks.
Þegar Bjarni fer hins vegar að ræða notkun glerhalls (chalcedony) og jaspis sem er dulkornótt afbrigði af kísil, SiO2, rétt eins og glerhallur (draugasteinn), og tinnan sem ekki er til á Íslandi. Bjarni telur að þessi afbrigði af kísil, sem og hrafntinna (sem er ókristallað kísilgler/rhýólít, þar sem hlutfall kísils er meira en 65-70% af þunga steinsins), hafi verið slegnar til og notaðar á sama hátt og tinnan erlendis, þá minnkar "stöðið" og "höndur" hleypur í forneifræðinginn sem þetta ritar.
Jaspismoli frá Stöð. Það var fínlegur skurður sem Samarnir eystra unnu við. Mynd af fésbók Fornleifastofunnar
Mjög auðvelt er að rannsaka, hvað steinar með ásláttarmerkjum hafa verið notaðir til að skera í, skrapa eða skafa. Íslenskir steinar sem kollega minn Bjarni telur að hafi verið slegnir til að búa til verkfæri ættu að sýna til hvers, ef þeir eru skoðaðir með rafeindasmásjá; Því ekki er aðeins hægt að sjá hvaða lífræn efni hefur verð skorin með meintum steinverkfærum á meintri steinöld Bjarna á stöðinni í Stöðvarfirði. Sömuleiðis er hægt að sjá hvaða lífrænt efni var skorið með tinnu eða málmi, með því að skoða amboðin undir smásjá. Ugglaust er einnig hægt að sjá það á íslenskum steintegundum sem eru "mjúkari" en erlend tinna. Í fræðunum heitir það að leita að merkjum eftir lífrænt efni á egg steinamboða, Diagnostic of Residues on Stone Tool Working Edges .
Hrafntinna, gjóskugler (Obsidian), er hins vegar og líklega harðari og einsleitari í uppbyggingu en venjuleg tinna, og því erfitt að sjá hvað hún hefur verið notuð til að skera í, skrapa eða skafa - en einhver merki hefur skurður í leður eða annan efnivið skilið eftir sig.
Þangað til sannanir á notkun íslenskra steina með meintum ásláttarmerkjum hafa verið birtar, hef ég aðeins eina vitræna skýringu. Steinarnir voru notaðir til að slá við við eldjárn til að fá neista. Eldjárn voru kveikjarar síns tíma og til að þeir virkuðu urðu menn að nota steina. Ég vona að einhver geti stutt Bjarna í að rannsaka þessa 300 steina sem hann telur hafa verið handleikna af frændum okkar Sömum.
Fræðsluefni um notkun eldjárns. Fornleifur biðst afsökunar á "tónlistinni". Kannski ætti Vísindavefur HÍ að velta fyrir sér að skýra notkun eldjárna, þó svo að hugsanlega sé hætta sé á málsókn frá Þórarni.
Ég hef manna mest stungið upp á samíska hluta Íslendinga, en við sjáum hann ekki að mínu mati með ásláttutækni þeirri sem Bjarni segist sjá í 300 steinum á Stöð í Stöðvarfirði. Bjarni verður að gera sér grein fyrir því að Samar voru á tímum landnáms á Íslandi orðnir mjög slungnir málmsmiðir. Af hverju hefðu forfeður okkar sem voru Samar, farið til Íslands, viljugir eða nauðugir, til að leika sér að tinnu, þegar þeir voru harla góðir málmsmiðir?
Önnur spurning sem Bjarni verður að svara til að tilgáta hans haldi vatni og vindi, er stóra spörninginn um hvað menn voru að skrapa, skafa og skera í með örsmáum íslenskum steinum. Eins og Bjarni F. Einarsson skilgreinir stöð, þá komu menn frá t.d. Noregi og sóttu auðlindir sem þeir fóru með til Noregs. Hvaða auðlindir í hafi og á landi höfðu menn ekki í og við strendur Noregs, sem þeir vildu frekar sækja til Íslands, og "láta Sama, sem fengu að koma með," sitja og nostra við skrap, skaf og skurð í risavöxnum langhúsum.
Skýringar óskast Bjarni F. Einarsson, áður en stöðið verður einum of geggjað. Skrapsamakenningu Bjarna F. Einarssonar verður að undirbyggja betur.
Sökum stærðar rústarinnar á Stöð sem Bjarni lýsir næstum því sem eins konar álveri, með mismunandi vinnslurýmum, þá tel ég hins vega mjög mikilvægt að hann hljóti góða styrki sem fyrst, svo hann verði ekki að grafa þarna fram á grafarbakkann.
Gefið Bjarna því styrk! Bjarni er listagóður fornleifafræðingur, þótt tilgáturugl hans gangi oft fram úr hófi. Óvenjuleg stærð eldri skálans í Stöðvarfirði er eitt og sér næg ástæða til veita vel í rannsóknina. Annars stöðvast gott og gegnt verkefni.
Fornleifar | Breytt s.d. kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
A short stocky man with white hair and a bulldog-like appearance
9.2.2019 | 08:36
Þannig lýsti New York Times Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra er hann kom til Bandaríkjanna þ. 13. mars 1949. Engu er líkara en að verið sé að lýsa Al Capone. Bjarni var aðeins 41 árs þegar myndin hér að ofan er tekin og var greinilega á engan hátt samkeppnisfær við nafna sinn í nútímastjórnmálum hvað varðar sex-appeal, enda ekki með internet. Útlit er ekki allt. Bjarni var annálaður gáfumaður og það trekkir konur meira en of lítil jakkasett, get ég upplýst af eigin reynslu.
Þessi ljósmynd er nú til í Fornleifssafni sem vex fiskur um hrygg. Halda mætti að Thor Thors sé að spyrja Bjarna, hvort bjúgun og smérið sé orðið ódýrara á Íslandi en áður var. Bjarni svarar í hugsunum mínum. "Éttann sjálfur".
Bjarni sagði hins vegar sannarlega eftirfarandi í ræðu er hann undirritaði varnarsamning Norðuratlandshafsbandalagsins í Washington þann 4. apríl 1949:
My people are unarmed and have been unarmed since the days of our Viking forefathers. We neither have nor can have an army But our country is, under certain circumstances, of vital importance for the safety of the North Atlantic area.
Þetta var líklega alveg rétt hjá Bjarna, en ekki er ritstjóri Fornleifs viss um að Bjarni fjarfrændi minn hafi verið eins hræddur við uppivöðslusemi nasista í Norður-Atlantshafi fyrir 1940 eins og hann var við kommúnistana árið 1949. Hann fór m.a. til Þýskaland árið 1939, líkt og margir Íslendingar, bæði aðdáendur 3. ríkisins og aðrir. Þá var hann prófessor í lögum, sem maður gat orðið mjög auðveldlega á þessum tíma, sér í lagi ef menn voru vel gefnir en samt próflausir. Bjarni var hugsanlega búinn að skrifa mikla lofræðu um Þýskaland eftir utanlandsferðina árið 1939, en hernám Breta hefur örugglega stöðvað öll áform Bjarna um birtingu á slíku efni. Þó talaði Bjarni um þessa ferð sína á fundum á Íslandi, en þær ræður eru líklega horfnar úr skjalasafni hans í Þjóðskjalasafni, sem fékk rosalegt General Motor make-over hér um árið.
Myndir segja vitaskuld margt, en þó ekki allt. Þegar Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra komst hann oft aðeins í opinberar utanlandsferðir vegna þess að velunnari Íslendinga, C.A.C. Brun ráðuneytisstjóri í Danska utanríkisráðuneytinu og fyrrum sendiráðsritari í Reykjavík, sá til þess að hann gleymdist ekki. Þetta gerðist til dæmis árið 1948 í janúar á ráðstefnu norrænna utanríkisráðherra. Brun reit í dagbók sína:
"Vi tog imod paa Bristol. Dagen igennem ordinært nordisk Udenrigsministermøde, Island inkluderet. Bjarni Benediktsson spiller, imidlertid som sædvanlig, en aldeles ynkelig Rolle..."
C.A.C. Brun bjóst við einhverju meira af embættismönnum unga lýðveldisins, sem hann hafði stutt manna mest í fæðingarhríðunum. Hann var hins vegar stórhrifinn af Thor Thors.
Vitaskuld er ekki hægt að búast við því, að ungt lýðveldi lítillar þjóðar hefði þjálfaða embættismenn og ráðuneyti eins og Danir höfðu þróað. En það samt mjög athyglisvert til þess að hugsa að bensíndælumaður úr Skagafirði sem leggur fyrir sig búktal og tilfallandi dýra- og mubluhljóð, telja sig enn gjaldgengan fulltrúa lýðveldisins á erlendum vettvangi. Þegar kona með BA próf og póstburðarreynslu í Kaupmannahöfn getur sest í æðstu embætti með cum laude vottorð frá fyrirmennum á Íslandi upp á vasann - eftir að hún reyndi ítrekað að komast í Öryggisráð SÞ með hjálp Assads og pönnukökubaksturs í New York - , er íslenska ríkið vissulega enn hálfgert bleyjubarn.
En í samanburði við manninn sem lét dæluna ganga á Klaustri og vinkonu Assads, var Bjarni Ben bara nokkuð klár pólitíkus. Blessuð sé minning hans.
Gamlar myndir og fróðleikur | Breytt 9.3.2025 kl. 05:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)