Syndafall á Þjóðminjasafni
27.12.2019 | 10:17
Sumarið 1883 stundaði starfsmaður Forngripasafnsins í Reykjavík furðuleg forngripa(við)skipti með þjóðararfinn. Hann lét útsendara frá Nordiska Museet i Stokkhólmi hafa forláta brjóstkringlu frá 16. öld, sem hafði verið búningasilfur kvenna á Íslandi í aldaraðir. Brjóstkringlu þessa, sem sem er úr logagylltu silfri, fékk Nordiska Museet að því er virðist að gjöf þann 8. júlí 1883.
Árið 2008 fékk Þjóðminjasafnið brjóstkringluna aftur að láni í óákveðinn tíma og hefur hún nú hlotið safnanúmerið NMs-38867/2008-5-185. Það vekur hins vegar furðu að starfsmaður Þjóðminjasafnsins, sem fært hefur brjóstkringluna inn í Sarp, skráningarkerfi flestra safna á Íslandi, lætur þetta eftir sér hafa á Sarpi:
í skiptum fyrir R.A., 8.XII. Brjóstkringla. Efni silfur, gylt. Þverm. 6 cm. Sjá Afb. 2 - 3 , Pl. 3, 12 a - b. Fengin frá Forngrs. í skiptum af R.A., 8.XII.1883 kom hún.
Eitthvað virkar þetta eins og endasleppt ruglumbull. En með góðum vilja má ætla, að menn á Þjóðminjasafni viti á einhverju stigi ekki hvort brjóstkringlan hafi komið frá Svíþjóð, en þó er ég ekki viss, því mig grunar að starfsmaðurinn sem skrifar þessa þvælu kunni líklegast ekki setningarfræði og notkun spurningarmerkja. En kom kringan til Íslands? Það má vera eðlileg spurning miðað við allt þetta rugl á Sarpi.
Meðan að brjóstkringlan góða var í Svíþjóð, hafði enginn í Stokkhólmi burði til að rannsaka þennan grip eða uppruna hans, því ekki er hann íslenskur. Kringlan var aðeins skráð þar sem "smycken" frá Íslandi og upplýst er að Forngripasafnið hafi gefið hana Nordiska Museet.
Önnur kringla í "Endurlifnunarstíl"
Nú vill svo til að Forngripasafnið átti annan, sams konar grip og kringluna, sem gefin var til Stokkhólms. Hún ber númerið 2156 (sjá hér) og henni fylgir löng keðja; hvortveggja er logagyllt. Kringlunni þeirri í Forngripasafninu lýsti Sigurður Vigfússon á eftirfarandi hátt:
Hálsfesti úr silfri, algylt, l.um 135 cm., br. 6 mm., þ. 2 mm. Öll samfelld; kveiktir hlekkir, grannir, dálítið undnir, svo festin verður sljett; hún er svo sem tvöföld öll, samsett af tvennum hringum; kemur það glegst í ljós er undið er öfugt upp á hana. Á henni leikur lítill grafinn silfurlás, gyltur, með hring í, og í honum hangir kringlótt kinga, 5,9 cm. að þverm. og 48 gr. að þyngd, steypt úr silfri og gylt, með mjög upphleyptu verki beggja vegna og steyptri snúru umhverfis. Annars vegar er syndafallið, Adam og Eva standa hjá skilningstrjenu góðs og ills; Eva tekur ávöxt af trjenu og Adam heldur á öðrum. Ormurinn (djöfullinn) hringar sig um trjeð. Dýr merkurinnar (einhyrningur, uxi, svanur, hjörtur o.fl.) eru til beggja hliða. Yzt vinstra megin virðist vera Jahve og sendir frá sjer engil á flugi: en yzt hægra megin virðist engill(inn) reka Adam burtu; eru þær myndir miklu smærri en aðalmyndin. Trjeð er með mikilli krónu og fyrir neðan hana er letrað: MVLIER . DE - DIT. MIHI/ ET . COMEDI . - GE . 2. ( þ.e. konan gaf mjer og jeg át með. Genesis [1. bók Móse ] 2. [kap.]). Hins vegar er friðþægingin fyrir syndafall og syndir mannkynsins; Krossfesting Krists. Umhverfis Krist að ofan eru geislar í hálfhring. Sinn ræninginn er til hvorrar handar. María frá Magdölum krýpur við kross Krists og heldur um hann. Önnur kona ( María móðir Krists?) snýr sjer undan og gengur frá. Hermaður (Longinus) ætlar að stinga spjóti í síðu Krists; annar að brjóta með kylfu fótleggi annars ræningjanna. Höfuðsmaðurinn (Longinus) situr á hestsbaki hjá krossi Krists og hefur spjót sitt á lopti. Beggja vegna við krossana og milli þeirra er leturlína yfir þvera kinguna: MIS-ERERE. NO-BIS - DOMI-NE( þ.e. Miskunna oss drottinn ). Alt er þetta í endurlifnunarstýl og líklega frá 16.öld. Sennilega gjört í Þýzkalandi, í upphafi, að minsta kosti. - Festin (og kingan) er sögð að vera frá Jóni biskupi Arasyni, en seinast hefur átt hana Sigurður á Vatnsleysu (Jónsson) (S.V.).
Öll þessi fræðsla Sigurðar Vigfússonar var góð og blessuð, eins langt og hún náði, og Sigurður Vigfússon gerði sér eins og sannur síðendurlifnunarstílisti far um að fræðast, sem og upplýsa þá sem áttu þjóðararfinn. Mættu menn taka hann sér til fyrirmyndar, bæði í á Nordiska Museet og á Þjóðminjasafni nútímans.
Medalía en ekki brjóstkringla
Þó Sigurður Vigfússon hafi miðlað haldgóðum upplýsingum og komist nærri um flest hvað varðar "brjóstkringlu", og sem sögð var frá Jóni Biskupi Arasyni komin, hafði hann ekki aðgang af öllum þeim upplýsingum sem fólk hefur í dag, en sem sumir virðast þó ekki geta nýtt sér til gagns eða gamans.
Með örlítilli fyrirhöfn er fljótt hægt að komast að því að þær tvær "brjóstkringlur" sem varðveittust á Íslandi eru í raun medalíur, sem Jóhann fyrsti Friðrik hinn mikilfenglegi, kjörfursti af Saxlandi (Johann Friedrich der Großmütige von Sachsen;1532-1547) lét steypa (og ekki slá) einhvern tíma stuttu eftir árið 1535 - eða um það bil - eða að minnsta kosti áður en hann hrökk upp af vegna offitu og lystalifnaðs. Hann var mikill fylgisveinn Marteins Lúters og átu þeir kumpánar greinilega sams konar mat.
Lukas Cranach eilífaði Jóhann kjörfursta eins og kæfu í dós.
Medalíumeistarinn, eða listamaðurinn sem steypti medalíurnar, var Hans Reinhard inn eldri, sem starfaði á tímabilinu 1535 fram til 1568.
Nýlega var á uppboði í Vínarborg seld medalía af þeirri gerð, sem frekt og ríkt siðbótarfólk bar um hálsinn á Íslandi er það rændi og hlunnfór aðra. Medalían fór á 700 evrur (sjá hér).
Fornleifur vonar nú að Þjóðminjasafnið taki við sér og fari á árinu 2020 að skrá ókeypis upplýsingar um gripi safnsins sem Fornleifur hefur nú í allmörg ár miðlað hér á blogginu til almennings. Safnið verður vitaskuld að vitna í Fornleif og éta orðrétt eftir honum - Eða eins og ritað stendur ANTIQUUS DETID MIHI ET COMEDI og étið það!
Fornminjar | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stopp !! Fyrir alla muni
3.12.2019 | 16:42
"Hver er eiginlega tilgangurinn með sjónvarpsþáttunum Fyrir alla muni", spurði einn vina Fornleifs í gær? Honum var greinilega niðri fyrir vegna þess hve lélegir honum þóttu þættirnir, enda er hann smekkmaður á fortíð, sögu og menningu.
Ég leit því á efnið í þessum þáttum. Nú síðast var búinn til einskis nýtur þáttur með þessu annars ágæta nafni fyrir skattpeninga landsmanna - af fólki sem greinilega veit lítið, eða alls ekkert, um hvað það er að ræða eða fræða um.
Jafnvel þótt þáttarstjórnendur leiti til rótgróinna menningarstofnanna eftir upplýsingum, verða þáttastjórnendur því miður einskis vísari. Allur vísdómur virðist hafa flutt úr landi og jafnvel löngu fyrir hrun.
Í síðasta þætti Fyrir alla Muni (sjá hér) var fjallað um meðalgæða empire-mublu (sem mér sýnist að sé spónlögð). Hún er, að því að mér sýndist, frá miðbiki 19. aldar. Í þættinum er sögð saga af fólki í Breiðholti sem telur að þetta skúffedaríum hafi verið í eigu Skúla fógeta Magnússonar og að forfeður þeirra hafi náð í það í Viðeyjarstofu er hún vað að hruni komin snemma á 7. áratugnum.
Þátturinn byrjaði reyndar á því að ekið vestur í bæ. En viti menn, allt í einu var bíllinn kominn upp í Breiðholt. Jafn öfugsnúið var allt annað í þessum þætti.
Sams konar (eða álíka) mublu, chatol eða skatthol eins og það heitir nú á íslensku, er hægt er að fá fyrir slikk í Danmörku, þaðan sem mér sýnist að skattholið sé ættað. Skattholið var reyndar ekki sýnt sérstaklega vel í þættinum Fyrir alla muni. Mér sýnist skúffedaríið vera lagt með spón af eik eða afrísku mahóní.
Eigendurnir sem eiga kjallarann í Breiðholti sjá líklega ofsjónum fúlgur faldar í skúffedaríinu, fyrst þeir halda eða telja sér trú um að Skúli fógeti hafi setið við það. Í fjölskyldunni var ævinlega talað um skáp/púlt Skúla.
Greint var frá því í þættinum, að afkomendur eiganda skattholsins hafi leitað til eins af stjórnendum þáttarins til að finna kaupanda í útlandinu. Reyndar er mublan í Breiðholtinu, sem er sýnd mjög lítið og illa í þættinum, aðeins neðri hlutinn af skattholinu. Toppskápinn vantar. Það kom vitaskuld heldur ekki fram í þessu fræðsluefni á vegum RÚV, frekar en svo margt annað sem skipti máli við að leysa ráðgátuna sem sett var fram.
Stíllinn á skattholinu, einn og sér, sýnir það ljóslega að mublan er í empire (borið fram ampír) stíl og er hún frá miðbiki 19. aldar. Þess er ekki getið í þættinum. Danir framleiddu empire-mublur lengur en t.d. Frakkar, þannig að skattholið gæti hugsanlega verið frá síðari hlut 19. aldar (síð-empire).
Leitað til Þórs Magnússonar
Þó enginn starfsmanna fáliðaðs Þjóðminjasafns hafi haft burði til að fræða skransala og eina af þessum æsiblaðakonum sem vinna fyrir auglýsingatekjur RÚV, hefði ekki þurft að angra öldunginn og eftirlaunaþegann Þór Magnússon, þó hann sé sagður "vita allt", til að láta hann segja þjóðinni að þetta geti ekki verið mubla Skúla vegna þess að hann sá hana ekki í Viðey á 7. áratug síðustu aldar.
Rök Þórs voru æði furðuleg og alls ekki byggð á stílfræði húsgagnsins eða fræðilegu mati.
Þar sem Þór var viss um að hann hafði ekki séð skattholið í Viðey á 7. áratug síðustu aldar, þegar afkomendur stórbóndans Eggerts Briem Eiríkssonar fóru og sóttu skattholið, taldi Þór að þetta gæti ekki verið mubla Skúla. Furðulög rök það, en enn meiri furðu sætir að Þór beitir ekki fyrir sér mikilli þekkingu sinni og annálaðri og bendi einfaldlega á að mublan sé í empirestíl og geti því ekki verið frá tímum Skúla fógeta. Eitthvað viturlegra hefði vissulega getað hafa verið klippt út úr þættinum, því þáttagerðarmenn eru óprúttnir í viðleitni sinni við að "búa til góða sögu". Sannleikurinn er ekki alltaf besta sagan hjá fólki í þeim bransa.
Afkomendur Eggerts Briem Eiríksson, sem námu á brott mubluna í Viðeyjarstofu, gætu hæglega verið að segja sannleikann um hvernig þau náðu í húsgagn forfeðra sinna, því mublan er frá 19. öld og gæti því hafa verið ritpúlt Eggerts Briem eða jafnvel föður hans Eiríks biskupsritara.
Eeeen ekki áttu allir Íslendingar svona fínar mublur á 19. öld. Þeir sem ekki voru höfðingjar, illmenni og arðræningjar urðu að láta sér nægja að geyma sitt dót í smákistlum og rita sín bænabréf við ljósið frá grútarlampa á heimasmíðaðri fjöl.
Summa summarum er að skattholið í þættinum Fyrir alla muni hefur Skúli Magnússon hvorki setið við með bókhaldið sitt, né séð. Það geta allir fræðst um við einfalda leita að orðinu chatol (t.d. á dönsku) á netinu (leitið líka að myndum af chatol). Í leiðinni geta menn, sem ólmir vilja eignast "Skúlaskápa", litið á verð á álíka skattholum og séð að það er vafalítið lægra en innflutningskostnaður. Lítið fæst fyrir 19. aldar mublur þessa dagana. Kannski á það eftir að breytast.
Það verður að teljast stórfurðulegt, að verið sé að búa til heilan sjónvarpsþátt með kjánalegum spuna um eitthvað, sem auðveldasta mál hefði verið að ganga úr skugga um með leit á veraldarvefnum. Þá hefðu menn líklega einnig uppgötvað, að á mublunni í kjallaranum hjá Brímunum í Breiðholtinu vantar toppstykki, eins og það sem sjá má hér að ofan. Toppstykkið vantar greinilega líka í þættina sem Fornleifur leyfir sér að gagnrýna hér af sinni alþekktu grimmd.
Þjóð sem hendir
Íslenska þjóðin hefur flýtt sér svo mikið úr "helv..." fortíðinni, að fæstir þekkja vart stíl og smekk fólks fyrir 70-100 árum síðan eða fyrr. Nú er allt eins konar Ikea, nema menn teljist til Epal-elítufólks sem er svo vel í álnum og vitstola, að það kaupir það sem flott þykir á 100-200% hærra verði en það selst á í nágrannalöndunum. Íslendingar henda einnig manna mest í Evrópu á haugana.
Vanþekking íslenskra skransala í gegnum tíðina, á því sem þeir eru að selja, sýnir þetta líka mjög glögglega. Skransalar þurfa náttúrulega ekki að vita nokkurn skapaðan hlut, en það væri nú líklega til bóta ef lágmarksþekking væri fyrir hendir. En þegar sölumenn, sem eru að fara með "meint húsgögn" föður Reykjavíkur í sölu til útlanda, vita ekki neitt um það sem þeir taka að sér að selja, þá verða þeir fyrir alla muni að lesa sér betur til - og það hefur reyndar aldrei verið auðveldara. Lestrarkunnátta Íslendinga hefur aftur á móti aldrei verið verri.
Saga af skransala
Hér segir frá sölumennsku skransala eins í Reykjavík, sem hafði til sölu nokkuð kindugan róðukross, sem hann kynnti til sögunnar sem "rómverskan"; og geri aðrir betur. Það er kannski ekki í frásögur færandi, að skransala mannsins fór á hausinn og að hann er hinn sami Sigurður Helgi Pálmason (Gunnarssonar hljómlistamanns) sem sér um stjórn þáttanna Fyrir alla muni.
Áhugi þjóðar, sem af öllu hjarta fyrirlítur fortíðina, var ekki mikill á dýrkeyptu silfri skransalans, sem vildi selja flest sem gulls ígildi. Í dag er Sigurður Pálmason starfsmaður Myntsafns Seðlabankans, þegar hann er ekki að skýra út skran á RÚV með lítilli aðstoð frá stofnunum sem ætti að hafa vit á fortíðinni.
Róðukross samsettum úr hlutum frá mismunandi tíma, reyndi Safnaramiðstöðin að selja á 4,6 milljónir króna hér um árið. Hér má lesa fræðilegt álit á hinum heilaga krossi samsettum á síðari tímum óheiðarlegum. Kannski kemur þáttur um kross þennan í röðinni Fyrir alla muni og góð skýring á vel stæltum handleggjum Krists?
Fornleifur telur að sú ágæta kona, sem hlýtur brátt að verða útvarpsstjóri á RÚV, ætti að sýna sparnað í verki og velta starfsmönnum stofnunarinnar af makindalegri vindsæng Bjarna Ben og taka af þeim sólgleraugun. Síðan mætti skipa þeim að láta endursýna þættina Muni og Minjar, þótt það sé gamalt og sigið sjónvarpsefni (ja, vonandi er ekki búið að henda þeim þáttum á haugana). Fyrir mannsaldri síðan, reyndu Eldjárn og órykfallinn Þór Magnússon að minnsta kosti að miðla vitsmunum í þjóðina, Þeir fornólfarnir, Kristján og Þór, þurftu ekki að aka Miklubrautina vestur í bæ til að fara upp í Breiðholt til að fá gott "plott" í þættina sína.
Svo gerið það nú fyrir hann Fornleif að sökkva vindsængum RÚV í skítalæk í Fossvogi og látið svo hendur standa fram úr ermum. RÚV verður að geta gert betur fyrir allar auglýsingatekjurnar sem velta inn og sem ýmislegt græðgispakk á sólbekkjum lífsins vill fá fingurna í. En þættir, sem gerðir er líkt og menn gangi með tvöföld sólgleraugu í rökkri, eru kannski það sem menn vilja sjá til að láta ljúga sig stútfulla.
Forngripir | Breytt 9.12.2019 kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag verður boðið upp málverk hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen. Sá hluti uppboðsins, þar er seld eru málverk, hefst klukkan 16 að staðartíma í Kaupmannahöfn. Þá er klukkan þrjú og rok og rassgat í Reykjavík. Málverkið sem hér sést er númer 119 á uppboðsskrá.
Nú vill svo til að Bruun Rasmussen er með algjörlega ósvikna vöru frá Íslandi. Engin brögð eru í tafli og Ólafur forvörður og sjálfcertifíseraður falsarabani þarf líklega ekki að setja gæðastimpil sinn á málverkið.
Um er að ræða olíumálverk á striga sem er 40 x 58 sm að stærð, sem sýnir kot í nágrenni Reykjavíkur árið 1847. Þá var málarinn Carl Ludvig Petersen á ferð á Íslandi með öðrum og meiri meistara, Vilhelm Melbye. Carl Ludvig Petersen teiknaði fjölda skyssa og teikninga frá dvöl sinni. Ein teikninganna er varðveitt í Þjóðminjasafni og hinar í Listasafni Íslands (sjá hér).
Teikning sú sem Þjóðminjasafn Íslands varðveitir fyrir íslensku þjóðina, er af sama mótífinu (sama bæ) og málverkið sem selt verður síðar í dag. Málverkið hefur Carl Ludvig Petersen að öllum líkindum málað við heimkomuna til Danmerkur, því hún er tímasett til 1848.
Nærmynd. Mér datt eitt andartak í hug, að málverkið sýndi kot á Seltjarnarnesi.
Ánægjulegt væri ef annað hvort Þjóðminjasafn Íslands eða Listasafnið hnepptu þetta málverk, sem danska uppboðsfyrirtækið metur á 40.000 hvítþvegnjar, danskar krónur. Það verð er þó nokkuð í hærri kantinum að mínu mati miðað við "gæði" myndarinnar. En áksjónaríus Bruun Rasmussen hafa fyrir löngu fundið fyrir því að málverkafæð Íslendinga á 19. öldunni hækkar verð og eykur áhugann á slíkir metravöru hjá nýríkum svindlurum frá Íslandi sem betrekkja stofur sínar með menningu sem þeir hafa ekkert vit á. Líklegast þarf fyrirtækið á því að halda, eftir að annað hvert 20. aldarmálverk sem þeir hafa undir höndum reynist falsað samkvæmt Ólafi konservator.
Ég skoðaði málverkið í dag ásamt góðum vini mínum, hinum 79 ára meistara Erik Bing Henriques. Við ákváðum ekki að bjóða í myndina, til að gefa fátækum söfnum á Íslandi tækifæri til að ná í hana. Og hver vill annars nú orðið eiga nokkurt málverk frá Íslandi. Menn eiga á hættu að allt þaðan sé stolið, logið, snuðað eða svikið.
O TEMPORA! O MORES!
Gamlar myndir frá Íslandi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kaupmannahafnarmyndir Fornleifs
20.11.2019 | 11:20
Kaupmannahafnarbúar elska hina skítugu og subbulegu höfuðborg sína sem algjörlega hæfileikalausir arkitektar nútímans vinna skipulega við eyðileggingu á.
Á fésbókinni Gamle København, þar sem hægt er að fræðast mikið um Kaupmannahöfn liðinna tíma, setti ég um daginn enn eina ljósmynd af borginni. Myndin er varðveitt í ljósmyndasafni Fornleifs. Myndin hefur vakið mikla hrifningu og hefur hafa nú 600 manns "lækað" myndina. Hún sýnir ráðhúsið í Kaupmannahöfn í byrjun síðustu aldar.
Myndin af ráðhúsinu fær menn sig til að dreyma um betri tíma, með farsóttum, barnavinnu og án votts af velferðarþjóðfélagi.
Myndin er varðveitt á laterna magica skyggnumynd, sem tilheyrði safni skordýrafræðingsins Levi Walter Mengel (1864-1941), Bandaríkjamanns sem var með í leiðangri Robert Edwin Pearys árið 1891. Mengel var einnig í leiðangri til að leita að Peary árið 1992. Mengel skaust nefnilega "aðeins heim" í millitíðinni.
Levi Walter Mengel
Fyrir fáum árum fór safn eitt í Bandaríkjunum, sem Mengel byggði upp, í algjöru menningarleysi að selja skyggnusafn Mengels á uppboði. Safnstjóranum þótti greinilega ekkert varið í ljósmyndasafn Mengels og í Bandaríkjunum tíðkast það að selja ömmur sínar eins og við vitum. Hræðilega vont fólk (bad people).
Fornleifur náði því miður aðeins í nokkrar myndir frá Danmörku og Grænlandi úr þessu merka safni, myndir sem sumar eiga sér ekki hliðstæður. Myndina efst tók Mengel ekki sjálfur. Hún var gefin út af fyrirtækinu Underwood & Underwood í New York 1909 eða -10.
Þið getir séð fleiri Kaupmannahafnarmyndir Fornleifs með því að fara á þennan hlekk og klikka á hausmyndina af safnverði Fornleifs með pípuna. Líklega þarf maður að gerast félagi í Gamle København til að sjá myndirnar. Það er víst frekar auðfengið, og nokkrir Íslendingar eru þarna þegar eins og gráir og svarthvítir kettir.
Gamlar myndir | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eitt sinn var ek aurasál
12.11.2019 | 16:37
En það var heldur leiðinlegt áhugamál. Ég held að ég hafi gert upp á við alla drauma um að verða ríkur eins og Sir Jimbo Ratcliffe fursti í Þistil- og Vopnafirði. Það var þegar á 15. aldursári, enda var ég orðinn eins konar kommúnisti skömmu áður. Ef ég hefði látið mér nægja að gerast krati, ætti ég líklegast banka í dag. Engir hugsa eins kært um evrur eins og sannir kratar.
Ég gerði mér ungur grein fyrir því að ég var af fátæku fólki kominn, og sá ekki í hyllingum fyrir mér framtíð sem heildsali, líkt og faðir minn var. Hann setti þó mat á borðið og verslunin borgaði fyrir húsakynnin þar sem ég fékk að búa, þangað til alvara lífsins tók við. Ég er honum honum og vitaskuld móður minni þakklátur fyrir það.
Árið 1975 fór ég þó að leika mér með stórfé. Ég ákvað að hefja framleiðslu á mínum eigin seðlum. Það blundaði með mér einhvers konar Icesave-gúrú. Ég fór ekki hátt með áform mín, enda var heimaframleiðsla á seðlum lögbrot á Íslandi í þá daga, eins og það er reyndar í dag - þótt undarlegt megi virðast miðað við þróun siðleysis í íslensku þjóðfélagi á síðari tímum.
Ég ætlaði að gefa föður mínum seðilinn, því hann hafði óhemjulega gaman af peningum og seðlum, enda líka myntsafnari. Mig minnir að hann hafi sett seðilinn í skáp á skrifstofu sinni og aldrei gert honum hátt undir höfði eftir það.
Í haust skoðaði ég hvað lá innst í hornum gamals fataskáps í gamla herberginu mínu, sem ég formlega flutti úr um 1980. Þar fann ég rúllu og út úr henni dró ég stórfé sem ég hafði geymt til seinni nota.
Þúsundkall í yfirstærð var það sem ungir menn bjuggu til árið 1975, því hvorki áttu þeir tölvur né gemsa. En ég átti ágæta smásjá sem ég skoðaði iðamargt í. Ég lét mér þó nægja að skoða þúsundkallinn og teikna hann fríhendis, þegar ég hóf seðlaframleiðslu mína. Í dag teikna menn líklega platínukort eða álíka ófögnuð - eða ekki neitt.
Ef menn taka vel eftir, tók ég mér líka það bessaleyfi að setja nafn mitt á verðbólguseðilinn, líkt og ég væri seðlabankastjóri. Ég var reyndar alls endis ómenntaður, alveg eins og Davíð Ólafsson (sjá hér) seðlabankastjóri sem setti sómakært nafn sitt undir gott gengi íslensku krónunnar um árabil. Við sáum hvernig fór fyrir henni.
Ég get þó ekki neitað því að ég hef enn gaman af peningum/seðlum, helst þá er ég á þá, en það er orðið svo sjaldan, að ég er farin að halda að hægt sé að lifa á loftinu einu saman - eða reyndar konunni minni. Meðan hún sættir sig við það, er ég hólpinn.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skírteini lífsins
5.11.2019 | 14:32
Seinni partinn í september var ég í algjörri kurteisisheimssókn á Íslandi, þar sem ég fæ enn að búa hjá aldraðri móður minni.
Móðir mín var einn daginn með óþarfa áhyggjur og vangaveltur út af einhverri endurgreiðslu sem Tryggingastofnun krafðist vegna skekkju stofnunarinnar í útreikningum á ellilífeyri. Ég þekki ekkert á "kerfið" á Íslandi, enda mestmegnis utan allra kerfa, og hafði því ekki vit til að hjálpa henni - en bað hana að biðja systur mína um að skoða málið þegar hún kæmi heim úr sínu sumarleyfi.
Þegar við töluðum um þessar áhyggjur sá ég glitta í gamalt skírteini mitt úr Barnamúsíkskólanum undir öllu pappíraflóðinu sem veldur níræðri konunni svo miklu hugarangri. "Engu skal hent" virðist vera viðkvæðið hjá henni í dag andstætt því sem áður var, þegar hún henti helst öllu gamla konan. Einhver nostalgía virtist nú vera komin í mömmu á efri árum og hún var farin að nota skírteinið mitt sem bókamerki. "Þú mátt alveg taka það", sagði hún þegar hún sá að ég hafði margar minningar tengdar plastinu.
Ég man nefnilega þegar ég kom með ávísun til að borga ársgjaldið. Stefán Edelstein skólastjóri var á "kennarastofunni" með velyfirgreiddan skallann í tweedjakka með bótum á olnbogum og í rúllukragapeysu. Hann gekk oft með derhúfu með dúski á þeim tíma.
Þetta var allt eins og það hefði gerst í gær, en gerðist samt á efstu hæðinni í Iðnskólanum fyrir nærri hálfri öld. Skrifstofan var lítil og full af reykingasvælu. Stefán fór upp á upphækkunina við gluggann, þar sem skrifborð hans var; settist við ritvélina og pikkaði inn nafn mitt, heimilisfang og símanúmer á miða sem hann setti inn í plastið og færði mér það svo með pípuna í munnvikinu um leið og hann sagði: "Svakalegt nafn er þetta sem þú hefur, maður". Ég svaraði bara "já" eða jafnvel engu, enda hafði ég heyrt hve strangur Stefán var. Annars kunni ég vel að svara í stíl við "Veit ek vel, Sveinki", en tók ekki sjens í Stebba.
Aldregi var þetta Ausweis mitt notað til neins og það gulnaði bara í veski mínu til fjölda ára. Það gaf hvorki afslátt í verslunum né fyrirgreiðslu á flugvöllum eins og platínukort Hannesar Hólmsteins. Maður þurfti ekki að sýna þetta skírteini til að komast inn í skólann. En skírteini þurfti maður samt alltaf að hafa. Aginn lét ekki að sér hlæja.
Nýlega fór ég með skírteinið í heimssókn í Tónmenntaskóla Reykjavíkur við Lindargötu, sem er arftaki Barnamúsíkskólans. Ég var að reyna að hafa upp á kennsluefni í sambandi við hljóðfærasmíði barna í skólanum á sínum tíma (sjá hér), og sér í lagi vegna smíða nemanda á langspilum. Ég lofaði skólastjóranum að skrifa henni sem fyrst, en geri það loks í dag. Hún ætlaði að spyrjast fyrir um námsefnið fyrir langspilssmíðar. Ég sýndi henni skírteinið, sem var hætt að nota er hún var í skólanum töluvert síðar en ég. Hún trúið vart sínum eigin augum.
Í gær fór ég svo í skjalsafn Fornleifs gagngert til að finna afrit af prófskírteinum aðalritstjórans er hann var í Barnamúsíkskólanum og kemur þá í ljós að ég lauk hvorki meiru né minna en "Burtfararprófi í tónfræði og hljóðfræðaleik úr framhaldsdeild skólans". Þuríður Pálsdóttir og Stefán Eldjárn gáfu mér "ágætt", sem varð ekki betra, og svo fékk ég næstbestu einkunn "gott" fyrri píanóleik minn og mátti víst vel við una, maður sem níddist á Bach, Bartok, Beethoven, Brahms, Beatles, BB King, og Bí-bí og Blaka. Umsögnin fyrir hljóðfærið 1971-1972 var því: Framfarir hægar. Mætti æfa meira (sjá Ausweis HÉR). Ég tók þegar mið af því, enda ætlaði ég mér ekki að verða undirleikari fyrir eihverja kerlingu í gulum kjól og enn síður píanókennari. Ég sá bæði og heyrði hve leiðinlegt það var í Barnamúsíkskólanum.
Menntunin og burtfararprófið gaf mér hins vegar ákveðna innsýni í heim tónlistar. Ég hlusta mest, en skemmti stundum sjálfum mér með einleik í höfðinu, tek af og til aríur í baði eða trommusóló á potta og pönnur þegar ég syng ekki bakraddir með Björk í útvarpinu. Það er meira en nóg fyrir mig. Maður þarf ekkert skírteini upp á það.
Minningar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
"Stradivaríusinn" minn er kominn heim
2.11.2019 | 10:35
Í október var ég í nokkra daga með gömlum vinum í forláta íbúð í Charlottenburg í Berlínarborg. Áður en þeir komu, hafði ég setið á pólitísku skjalasafni Utanríkisráðuneytis Þýskalands (Politisches Archiv des Auswärtiges Amts) og grúskað fyrir grein sem ég ætla að skrifa með konu í París. Fyrir utan daga með góðum mat, tónleikum og leikhúsferð á Berliner Ensamble til að sjá hið djöfulgóða verk Baal eftir Berthold Brecht, var hápunktur ferðarinnar fyrir mig að annar fornvinanna kom með langspilið mitt góða sem ég smíðaði þegar ég var ungur (sjá hér).
Nýlega var smíðakennari á Þingeyri, Jón Sigurðsson að nafni, sem smíðar langspil, búinn að smíða verklega tösku fyrir mig undir hljóðfærið mitt, en kassinn var ekki tilbúinn þegar ég var á Íslandi í lok september.
Einn vina minna, Kristján, gerðist vinsamlegast burðardýr fyrir langspilið. Ég hafði vitaskuld miklar áhyggjur af meðferð hljóðfærisins og kassans í flugvél frá Íslandi til Berlínar. En ekkert var að óttast um það í höndum Kristjáns. Það fékk svo sannarlega einnig Sondermeðferð hjá flugfreyjunum Icelandairs. - Kristján þurfti ekki annað en að segja leyniorðið "LANGSPIL" og brosa á freyjurnar. Það þótti freyjunum mjög æsandi og kassinn fékk að dvelja á Saga-Class alla leið til Tegel Lufthafen. Hvort það var Kristján eða langspilið, sem hafði slík áhrif á freyjurnar, veit ég ekki, en það verður eiginlega að rannsaka það vísindalega sem allra fyrst. En Icelandair og flugfreyjum félagsins færi ég innilegustu þakkir fyrir fyrirgreiðsluna við Kristján - eða langspilið.
Saddir af Berlín fóru vinir mínir aftur í hámenningu Fósturjarðarinnar, en ég fór bara í rútu til Danmerkur. Ég er líklega dellukarl, því ég keypti sérsæti undir langspilið. Kassinn vakti athygli. Þó ekki meira en að svartur hasshundur, sem sleppt var inn í rútuna eftir komuna til Danmerkur, hafði ekki hinn minnsta áhuga á kassanum. Síðan hef ég í frístundum verið að dytta að hljóðfæri mínu, reyna mismunandi strengi og treina bogann sem ég keypti með mikilli ró og innhverfri íhugun í versluninni Sangitamiya í Reykjavík í september.
Þar fyrir utan hef ég horft á YouTube með upptökum af mismunandi ágætisfólki sem leikur á nýlega smíðuð langspil (þvílík áhugamál sem sumt fólk hefur!). Ég hef við það fullvissað mig um að rómað hljóðið í hljóðfæri mínu var engin ímyndun kunnugra manna. Langspilið, sem á sínum tíma var dæmt af kanadískum sérfræðingi sem hljómfegurstu gerð langspila landsins - hvorki meira né minna. En langspil hljóma ugglaust eins mismunandi og þau eru mörg.
Íslenskir harðlínukommar við minnismerki um Rósu Luxemburg í október 2019.
Ekki hélt ég neina tónleika í Berlín í þetta sinn, en sársé eiginlega eftir því að hafa ekki tekið Nallann á langspilið. Ég lokkaði félaga mína til að fara með mér og setja rósir við ána Spree, þar sem þýskir óþokkar köstuðu litlum en þéttvöxnum líkama Rósu Luxemburg í ána árið 1919. Ég er viss um að Rósa hefði ekkert haft á móti því - þ.e.a.s. að ég spilaði Nallann.
Kommarnir frá Íslandi minntust Rósu með bleikum rósum. Menn mega leggja í það hvaða merkingu sem þeir vilja.
Eftir heimkomuna frá Berlín hef ég farið í smábreytingar á langspilskassanum. Ég setti á hann aðrar spennur en upphaflega voru, sem og hornspeldi úr messing; keypti þar að auki gítarkassalás sem ég hef enn ekki skrúfað á. Ég mun einnig setja lamir á hann að innanverðu. Ætlunin var svo að setja sútuð laxaskinn á kassann allan, en þá frétti ég að sútarinn á Sauðárkróki hefði iðað í skinninu og væri því miður farinn á hausinn. Veit einhver, hvar nú er hægt að fá ódýr, sútuð laxaroð? Kann ekki einhver að blikka sútara fyrir mig - eða er nóg að segja bara "Langspil"?
Nú, æfingin skapar meistarann. Síðar leyfi ég ykkur kannski að heyra lag á Útlagann, sem þangað til hvílir í töskunni Roðleysu. En ég lofa engu.
Langspil | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Leirhausinn og Schütz eru nú hinir grunuðu
20.10.2019 | 06:43
Þegar leirhausar vistast á Þjóðminjasafni, eru þeir líkast til sjálfkrafa orðnir að efni hér á Fornleifi.
Eins og siðmenntað fólk veit, skal mikil aðgát höfði í nærveru leirhausa. En þegar menn fara að hugsa einum of mikið um þannig hausa, eða jafnvel eins og leirhausar, er nú ekki nema von að útkoman verði einhvers konar leirburður.
Það gerðist einmitt nýverið er listakonan Ólöf Nordal tjáði sig um þá skoðun sína, og það á besta útsendingartíma RÚV. Ólöf telur að tveir Leirfinnar hefðu verið í umferð á meðan að rannsókn Geirfinnsmálsins stóð yfir.
Líklegast var best að þær vangaveltur, sem greinilega byggja á alvarlegri sjónskekkju á listrænu auga, hafi ekki orðið til áður en margfræg skýrsla Starfshóps um um Guðmundar- og Geirfinnsmál kom út árið 2013.
Ef þessi dæmalaust ruglaða leirhausakenning Ólafar hefði hins vegar verið hnoðuð saman eitthvað fyrr, hefði hin leirkennda hugarsmíð líklega fengið byr undir báða vængi í hinni furðulegu skýrslu yfirvaldsins um Guðmunds- og Geirmundarmál frá 2013. Vafalítið hefði þá síendurtekið verið ritað um tvo hausa í skýrslunni frá 2013 og sú upplýsing höfð eftir "talsmanni Sævars" líkt og svo margt í því plaggi, sem síðar hefur orðið að heilögum sannleika.
Nú, þegar heil þjóð er búin að sýkna áður dæmda morðingja, er ég á því að leirhausinn verði ekki bara gleymdur í geymslum Þjóðminjasafns í silfruðum kassa, heldur sem allra fyrst settur til sýnis á flugvallarfæribandinu kostulega á safninu, íslenskri réttarvitund til lofs og ævarandi virðingar.
En er ekki annars nóg er nú komið af rugli í kringum "Leirfinn" heitinn, eingetna sköpun listakonunnar Ríkeyjar (Ingimundardóttur)? Ríkey skóp Leirfinn reyndar eftir rissum teiknara frá Keflavík (sem aldrei hafa verið sýndar opinberlega), en teiknarinn var beðinn var að teikna mann sem kom við í Hafnarbúðinni í Keflavík.
Leirhausinn er reyndar ekki stórt listaverk ef það skal notað sem hjálpargagn í morðmáli. Sannast sagna lítur enginn út eins og Leirfinnur, nema að hann sé eins óheppinn að fæðast eins og Magnús Leópoldsson. En Magnús er ekki einu sinnu líkur hinum kúkabrúna leirhaus sem óvart varð frægasta íslenska listaverkið á 8. áratug 20. aldar.
Nú orðið hugsar Leirfinnur fátt í geymslu Þjóðminjasafnsins suður í Hafnarfirði, enda hefur hann bráðskýra þjóð til að hugsa fyrir sig.
En greinilegt er að almennur skilningur á tilurð hans er afar lítill og frekar leirgerður. Því hefur til að mynda ítrekað verið haldið fram að leirstyttan hafi vísvitandi verið látin líkjast Magnúsi Leopoldssyni. sem síðar var handtekinn og haldið í Síðumúlafangelsinu í einangrun í 105 daga og fjórar klukkustundir. Teiknarinn úr Keflavík, Magnús Gíslason, hefur haldið því fram með algjörlega óundirbyggðum rökum að rannsóknarmenn hafi látið sig hafa ljósmynd af Magnúsi Leopoldssyni, sem fyrirmynd að teikningu, sem hann átti að gera af umræddum Leirfinni. Þessi ásökun hefur þó verið vísað til heimahúsanna af opinberum aðilum. Í skýrslu Láru V. Júlíusdóttur lögfræðings og setts saksóknara, sem Magnús Leópoldsson fékk í hendur árið 2003, sem m.a. fjallar um tilurð leirmyndarinnar, kemur glögglega fram að lögreglumenn ýttu alls ekki undir gerð myndarinnar með ljósmynd af Magnúsi. Þrátt fyrir þá vitneskju heldur goðsögnin um líkindi milli "Leirfinns" og Magnúss Leópoldssonar áfram að grassera á meðan að fólk getur ekki lesið sér til gagns.
Stundum er sagt að listamenn nái ekki eiginleikum þess sem þeir portrettera, og að sál listamannsins sjálfs fangist í andlitsmyndum hans af öðrum. Mér er næst að halda að hinn mikið umræddi Leirfinnur sé einfaldlega blanda af andliti Ríkeyjar Ingimundardóttur og Kristjáns Viðars Viðarssonar. Útkoman verður svona sirkabout eins og Magnús Leópoldsson, enda margir Íslendingar úr þessu sama steypumóti. Höfundur þessa pistils hefur kallað þessa íslensku "týpu" Hinn íslenska kubbahaus og er hann líklega afleiðing skyldleikaræktar og uppruna Íslendinga sem helst eru ættaðir úr Norður-Noregi. Það eru því margir "Leirfinnar" á ferli á Íslandi, t.d. sakamálafræðingurinn knái, Gísli H. Guðjónsson, sem var ungur rannsóknarlögreglumaður þegar Geirfinnsmálið var í algleymingi.
Ég leyfi mér auðmjúklega að benda á, að ef maður málaði afsteypu af leirhausnum með andlitslitum, verði útkoman ekki ósvipuð Kristjáni Viðari Júlíússyni (áður Viðarssyni) fyrrum sökudólgi. Skítabrúnleitir leirhausar eru einfaldlega ekki til þess fallnir að leita uppi illmenni á meðal Íslendinga - frekar en skjannahvítar marmarastyttur eru til þess fallnar að lýsa staðreyndum um útlit Forngrikkja eða Rómverja.
Leirburður séra Guðjóns Skarphéðinssonar
Jæja, nú yfir í aðeins aðra sálma -- Í fyrrnefndri skýrslu Starfshóps um Guðmunds- og Geirfinnsmál frá 2013 er mikið vitnað í nokkrar skýringar og útleggingar "umboðsmanns Sævars", sem byggja einvörðungu á frásögnum í skýrslu eftir Hlyn Þór heitinn Magnússon. Hlynur starfaði sem fangavörður í Síðumúlafangelsi á 8. áratug síðustu aldar, er Geirfinns og Guðmundarmálin voru í algleymingi.
Ásakanir í garð lögreglu og fangelsisyfirvalda varðandi meðferðina á Sævari Marínó Ciecielski, sem ekki komu fram í réttarhöldum og endurupptökubeiðni Sævars, koma fram í skýrslu Hlyns frá 1996. Í Skýrslu Starfhóps um Guðmundar og Geirfinnsmál frá 2013 eru þær frásagnir svo bornar fram á silfurfati af umboðsmanni Sævars, næsta orðnar að heilögum sannleika, án þess að nokkurn veginn sé hægt að sannreyna þær. Hvers konar vinnubrögð eru það eiginlega?
Stundum læðist að manni sá grunur að bráðnauðsynlegt hefði verið að fá Karl Schütz (sjá mynd efst með Gunnari Eyþórssyni og "Leirfinni") til landsins, og að hann hefði betur staldrað lengur við og haft eins og tug sagnfræðinga sér innan handar - þar sem íslenskir lögfræðingar geta víst ekki greint frumheimildir frá gróusögum (sbr. skýrlan frá 2013).
Hvernig hópurinn á bak við skýrsluna frá 2013 fer að því að fullvissa sig um að Hlynur Þór Magnússon hafi verið betra sannleiksvitni en aðrir menn, skil ég ekki. Hlynur brillerarði árið 2014 á bloggsíðu Illuga Jökulssonar með því að halda því fram að Karl Schütz hefði verið gamall Gestapómaður og nasisti - sem Schütz var reyndar ekki. Þetta hafði Hlynur keypt hrátt og ósoðið úr frásögn Guðjóns Skarphéðinssonar, sem þá var orðinn ólyginn preláti og sálusorgari á snærum íslensku Þjóðkirkjunnar og Drottins Guðs hins almáttuga.
Guðjón laug hins vegar vitleysunni áður í Óttar "Mayday" Sveinsson í DV (Sjá hér), þar sem síra Guðjón Skarphéðinsson hélt þessu fram við Óttar að Karl Schütz hefði verið illræmdur Gestapómaður, sem hvað hafa yfirheyrt og myrt skæruliða á Ítalíu. En það sanna í málinu er að sá Karl Schütz sem kom til Íslands var ekki Gestapo-maðurinn sem hét Karl Theodor Schütz sem brotið hafði af sér á Ítalíu og víðar. Áður, eða árið 2014 hefur sá er þetta ritar greint frá þessari gróusögudreifingu Hlyns Magnússonar og uppspuna úr pontu síra Guðjóns Skarphéðinssonar. Hlynur Magnússon baðst afsökunar á vammi sínu -- En engin slík beiðni heyrðist frá upphafsmanni lygasögunnar.
Nú vill síra Guðjón fá milljarða frá íslenska ríkinu og skattgreiðendum. Ég geri þar af leiðandi ráð fyrir því að séra Guðjón vilji hafa nóg á milli handanna þegar afkomendur Schütz koma og krefja hann skaðabóta fyrir að kalla föður þeirra, afa og langafa stríðsglæpamann á Ítalíu. Slíkur leirburður gæti orðið dýr fyrir Guðsmanninn, og því gott að hafa eitthvað á milli handanna þegar að því kemur - en að því kemur, og Íslendingar geta líka trúað því eins og öllu öðru. Líka þeir kjánar á hinu háa Alþingi sem nú vilja að þýsk yfirvöld í nútímanum svíni Karl Schütz enn meira til en þegar hefur gerst á Íslandi. Þeir höfðu nýlega samband við Þýsk yfirvöld og heimtuðu gögn um Karl Schütz byggða á fordómafullum forsendum sem gerjast hafa á Íslandi vanþekkingarinnar.
Hver svo sem ástæðan er fyrir hinni stóru "sannleiksþörf" Íslendinga, þá á ég erfitt með að skilja hana, þegar menn sjá ekki að leirhausinn á Þjóðminjasafninu, sem enn er ósýknaður, er fyrst og fremst líkur manni sem dæmdur var fyrir morð, glæp sem hann hefur verið sýknaður af; og að annar dæmdur morðingi, og síðar fullsýknaður öðlingur, fær óáreitt að stunda fólskufullar lygar í útlendingahatursstíl um rannsóknaraðila í máli sínu. Ef það vekur ekki einhverjar spurningar í hausum landa minna, er þar kannski meira af leir en ég bjóst við.
Dægurmál | Breytt 18.8.2022 kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Veislumáltíð Manfraks liðþjálfa
3.10.2019 | 08:10
Fyrir skömmu síðan sýndi Fornleifur lesendum sínum ljósmynd frá 1944, þar sem Bandarískur hermaður sást vera að kenna hermönnum að þekkja einkennisbúninga þýskra hermanna (sjá hér neðar).
Nú skal sýndur þýskur flugmaður sem var sýndur í dagblöðum víða um heim, stundum á forsíðu, eftir að hann hafði verið skotinn niður af Bandaríkjamönnum á Íslandi vorið 1943.
Ég keypti einu sinni fyrir slikk fréttaljósmynd bandaríska hersins af þessum manni manni. Myndin var upphaflega lent í myndasafni The Blue Network í New York sem er nú til fals og dreifist um heim allan. Ljósmyndin var tekin árið 1943 samkvæmt upplýsingum The Blue Network, sem festar hafa verið við myndina.
"Fritz" er með hægri handlegginn í fatla og sýnist fýldur, þó svo að borið hafinn verið fram veislumatur fyrir hann. Fanginn var ekki einu sinni byrjaður á kökunni. Maður missir líklegast matarlystina þegar "óvinurinn" er að sýna mann heimsfjölmiðlunum.
Hvort flugkappinn óheppni hefur í raun heitið Fritz er alls endis óvíst, en hann var hins vegar kynntur til sögunnar sem Sgt. Manfrak í þýska flughernum Luftwaffe. Manrak liðþjálfi var skotinn niður í Junker 88 flugvél sinni í júnímánuði árið 1943.
Myndin af Manfrak með veislumatinn fyrir framan sig, fór vítt og breitt í fljölda dagblaða Bandaríkjanna 1943-1944. Myndin birtist t.d. að hluta til í Circleville Herald í Circleville í Ohio þann 15. júní 1943 (sjá hér fyrir ofan) 18. júní sama ár ár birtist myndin t.d. í heild sinni í Daily News i New York og svo seint sem 9. mars 1944 í Lehi Free Press i Utah, og þannig mætti lengi telja.
Gamla góða Alþýðublaðið, lítið en laggott, birti myndina þann 29. júlí 1943 (sjá hér) og var eftirfarandi texti birtur með henni:
Fyrsti þýzki fanginn tekinn á Íslandi. Þetta er fyrsti þýzki fanginn, sem ameríski herinn hefir tekið á íslandi. Menn muna e. t. v. eftir því, er herstjórnin gaf út til- kynningu síðdegis á laugardegi fyrir nokkrum vikum, þar sem skýrt var frá því, að þýzk flugvél hefði flogið yfir Suðvesturland og verið skotin niður. Það var Junker 88" sprengjuflugvél, og þessi ungi Þjóðverji, Manfrak liðþjálfi, kastaði sér í fallhlíf úr henni, er amerískar orrustuflugvélar höfðu hitt hana og hún var tekin að hrapa. Manfrak liðþjálfi var tekinn til fanga af amerískum hermönnum og fluttur til aðalstöðva herstjórnarinnar. Þar var mynd þessi tekin, er hann var langt kominn með ríkulega máltíð, sem borin var fyrir hann, eins og myndin sýnir. Manfrak var, eins og sjá má, meiddur á handlegg. Hann ber heiðursmerki á brjóstinu. Það er mikil breyting, sem orðið hefir á högum hans: Stríðinu er lokið fyrir hann. (Myndi var tekin af ljósmyndurum hersins hér, en Associated Press sendi hana út, er leyft var að birta hana í Washington.
Bandaríski hermaðurinn sem stendur yfir hinum þýska Fahnenjunker (tignin sést af kragamerkinu) Manfrak er korporáll í Bandarískum hernum með tignarmerki sem sýnir að hann var Technician af fjórðu gráðu. Túlkar, skrifstofumenn og menn með of þykk gleraugu til að berjast voru oft með þá gráðu. Ef einhverjir unnu í aðalstöð Bandaríkjanna á Íslandi, sem sáu um yfirheyrslur og viðtöl við Þjóðverja, voru það gyðingar, sem margir hverjir töluðu eða skildu þýsku. Mönnum af "hreinum" þýskum ættum var ekki treyst í slíkar stöður.
Örlög Manfraks eftir stríð þekki ég ekki. Hann hefur væntanlega setið í fangelsi/fangabúðum Bandaríkjamanna eða Breta, og líklegast í Kanada, það sem eftir var stríðs. En engin með eftirnafnið Manfrak virðist t.d. hafa síma í Þýskalandi nútímans. Kannski dó ættin Manfrak út með flugmanninum á Íslandi? Annar möguleiki er að nafn hans hafi verið stafað rangt og að hann hafi heitið Mandrak, sem er algengt pólskt eftirnafn. Ellegar laug hann til nafns eða breytti nafni sínu þegar hann komst loks aftur til Þýskalands. Hann gat þó örugglega prísað sig sælan fyrir að stríðið endaði hjá honum vorið 1943 á Íslandi.
Fyrir stráka án meðkenndar, sem aðeins hafa áhuga á tindátum, flugvélum og dellu, eru hérna í lokin ókeypis upplýsingar um flugvél Manfraks. Líklega hafa verið 3-4 aðrir menn í áhöfn flugvélarinnar og sennilega hafa þeir ekki komist lífs af. Telja má næsta öruggt að flugvélin hafi flogið frá Noregi til Íslands. Líklegast er að Manfrak hafi verið liðsmaður í Luftflotte 5 / Reccon (kannski Fernaufklarungsgruppe 5), sem hafði aðsetur sitt í Noregi.
Ef einhver getur sagt Fornleifi meira um Manfrak, eða hvernig hann var skotinn niður á Íslandi, þætti Leifi vænt um allar upplýsingar, sem hægt er að skrifa í athugasemdir hér fyrir neðan.
Ljósmyndafornleifafræði | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Drengurinn í fjólubláu skyrtunni, París 1971
1.10.2019 | 15:23
Fornleifur gamli, sem er allt að einræður á þessu bloggi, hefur lengi hvatt einn ritstjóra þess til að birta hér gamla mynd af sér, þá er ritsjórinn var bæði ungur og fallegur. Fornleifur telur myndina kominn á aldur og telur hana vel geta talist til hálfgerðra fornleifa, enda verður myndin 50 ára eftir tæp tvö ár.
Taka verður fram að ritstjórinn er enn ungur í anda, en fallegur er hann nú ekki og heldur því hvergi fram - en kannski myndarlegur? Sem jarteikn fyrir því að ritstjórinn var eitt sinn fallegur og myndarlegri en hann er í dag, birtist hér mynd af honum nýkomnum á 11. aldursár, þar sem hann sat fyrir í París í lok ágústmánaðar 1971 - alveg eins og hann hefði aldrei gert annað.
Það var vitanlega fræg frönsk listakona, sem mér sýnist heita Nicole Ar... sem á frídegi sínum er hún var ekki að selja myndir á fínustu galleríum Parísar, sat á torginu í Montmartre og teiknaði þessa litkrítarmynd af drengnum frá Islande. Hún keðjureykti meðan að hún teiknaði mig. Mér skilst að kona þessi hafi orðið fræg fyrir að hafa teiknað hinn "Grátandi dreng" sem margfrægur er orðinn í eftirmyndagerðum. Ekki teiknaði hún þó tár á hvarma ritstjórans, en lagði natni sína í staðinn við freknurnar. Ég man að sjálf var hún í fjólublárri rúllukragapeysu, og hafði á orði samkvæmt frönskumælandi föður mínum, að ég hefði góðan smekk á lit. Skyrtan fjólubláa var aldrei beint minn smekkur. En hvað gerir maður ekki þegar maður er það sem Bretar kalla "a dedicated follower of fashion."
Sannast sagna var ég ekkert óánægður með myndina, þó ég gerði mér þá þegar grein fyrir því að Nicole A.. væri ekki stór listakona. Mér fannst hún reyndar ná hárinu vel og gera mig líkan Dýrðlingnum, Roger Moore, sem þekktastur var fyrir að hárið sat ávallt vel þó hann lenti í ryskingum við glæpahyski. En nú sé ég, að ég var miklu líkari Tony Curtis sem birtist á skjánum með Roger Moore árið 1971 í The Persuaders, og var sá myndaflokkur kallaður Fóstbræður á íslensku, sællar minningar.
Fyrir utan að franska listakonan eilífaði mig með stór saklaus hvolpaaugu, sem ég hafði nú aldrei haft (en slíkt selst betur), þá held ég barasta að myndin sé ekki mjög ósvipuð mér.
Annar listamaður spreytti sig fyrst á drengnum frá Íslandi. Hann var spænskur og teiknaði mig í roki og rigningu í ágústmánuði. Þar fór því miður enginn Picasso - Foreldrar mínir voru ekkert afar ánægð með þá mynd (sem var kolateikning) þar sem þeim fannst ég verða of dökkleitur á myndinni. Mér fannst ennið á mér vera of lágt. Amma mín í Hollandi fékk þá teikningu, og sem betur fer veit enginn hvar það "listaverk" er nú niður komið.
Menning og listir | Breytt 17.2.2020 kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)