Færsluflokkur: Bloggar

Hrekkjavöku 2020 þjófstartað á Kveik

Screenshot_2020-10-09 Menningar­verð­mæti og íslenskir vegir

Nokkrir "vinir" Fornleifs/Forngríms sendu honum hlekk í þátt á RÚV, sem KVEIKUR er kallaður. Ritstjórinn hefur sárasjaldan haft tíma til að horfa á þessa Sjónvarpsþætti. Sjá hér og hér .

Mig grunaði fyrst að þeir sem sendu mér hlekkinn hafi viljað drepa karlinn. Því svona hryllingsmynd, sem tekin er upp í dimmum og djúpum geymslum þjóðararfssafnara, getur valdið skynditappa og skjótum dauða hjá elstu mönnum hér á ritstjórn Fornleifs. Bara nafn þáttarins, Kveikur, getur sett ótta að heiðvirtustu safnamönnum.

Þessi þáttur Kveiks var að mati Fornleifs ein besta hryllingsmynd sem framleidd hefur verið á Íslandi og fær hún því sex skínandi Forngrímur, sjá neðst.

Fyrst í þættinum var talað um vegakerfið á Íslandi sem er sígilt vandamál og hryllingur á stórum köflum, en þó hálfgert kraftaverk miðað við stærð þjóðar og lengd vega. Geri aðrir betur þótt slæmt sé - og svo er alltaf hægt að aka hægar. Þið eruð ekki með í lélegri hraðaksturskvikmynd líkt og stundum mætti halda. Njótið útsýnisins og akið hægar! Það er álíka öryggi og að setja á sig sóttvarnagrímu.

Hins vegar var síðari hluti Kveiks enn hryllilegri en vandi veganna. Þjóðararfurinn er á heljarþröm. Það er vitaskuld sígild saga. Hvað á Fornleifur gamli að skrifa um, ef hann fuðrar upp eða flýtur út, og blekið rennur í stríðum straumi af skjölum sem maðkur kemst annars að?

Við að horfa á þáttinn og tilheyrandi frétt á RÚV, fékk maður á tilfinninguna að brennuvargurinn úr Klúbbnum væri á bak við næsta horn og að allir myndu núna þvo hendur sínar af mögulegum slysum við varðveislu þjóðararfsins í réttarhöldum eftir menningarlegt slys, þegar skjöl Tryggingarstofnunar fuðra upp í framtíðinni.

Ábyrgðin öll er vitaskuld hjá stjórnmálamönnunum, en ekki nema að litlu leyti starfsmönnum safna. En starfsmennirnir þora ekki að hrópa upp um vandann, því vinnan er í húfi.

Stjórnmálamenn eru margir brennuvargar með skemmdarfíkn sem búa til hættulega vegi. Stór hluti íslensku þjóðarinnar velur fólkið og hefur því ekki hinn minnsta áhuga á skjalaverki og skúfum safnanna, rokkum né kistlum Þjóðminjasafns. Málverk eru fyrir aðra -  eitthvað sem þeir kaupa í fermetratali til að betrekkja veggina heima hjá sér í kúlulánahöllunum við Svikaveg. Það pakk kaupir bara Kjarval og Erró eins og aðrir kaupa sér ost í matinn. Eitt sinn sá ég nýdæmdan Núpshlunkinn kaupa Kjarval fyrir slikk á uppboði í Kaupmannahöfn. Gaman væri að vita hvar sá arfur er nú niður kominn.

Upptökur með Stuðmönnum eru flestum mun verðmætari en eitt forpoka kuml úr Skagafirði. Þjóðin er því illa meðsek. Vill hún eiga betri söfn, þarf hún að borga hærri skatta eða fá minna í laun. Maður er eftir að sjá hvað gerist. Þangað til eiga Klúbbsbrennuvargar og hans líkir og afkomendur í þriðja lið náðuga daga á friðarstóli. - Kannski var þetta ekki góð samlíking, enda Klúbburinn lítill menningarstaður.

Ef "draslið" brennur, hvað á þá að sýna ferðamönnunum sem rísa upp úr Cóvinu. Halda menn að túristarnir, nútímasauðir Íslands, álpist til Íslands eingöngu til að skoða fjöll í rigningu, eða til að láta féfletta sig svo mjög að síðustu 5 dagarnir fari í að éta SS-pylsur?

Byggðarsafnið í Skógum hefur líka lengi verið ofarlega á lista flestra sem til Íslands koma. Söfn eru ávallt best í rigningu og af henni er og verður nóg á Íslandi. Hvar á að féflétta ferðamenn, íslenska sem og aðra?

Kveikur fær sem sagt Sexgrímu fyrir bestu hrekkjavökumynd ársins. Það er unaðslegt að sjá, hvernig nýjar hefðir ryðja sér til rúms á Fróni, þegar hinar eldri hverfa í brennum og vatnselg.

En hvernig það getur verið að kvikmynd frá Sovexportfilm (sjá efst) sé talin til þjóðarverðmæta Íslendinga? Það er mér algjörlegur óskiljanlegur hryllingur. Það er samt rosaflott auka-konfekt hjá Kveiksmönnum. Það verður víst að fínstilla áherslurnar hjá starfsmönnum safna sem draga fram sovétskt rauðkál á besta sendingatíma þegar ræða á um íslenska menningararf sem allar heimsins hættur steðja að.

Sexgrímur

 


Grímuleikur

Mask lille

Fornleifur breytir nafni sínu hér á forsíðunni. Fornleifur verður í einhvern tíma Forngrímur. Þetta er þó aðeins tímabundin útlitsbreyting meðan pestin er í hámarki. Skráningarnafn bloggsins verður sem fyrr Fornleifur, enda er það gegnumveirvarið nafn.

Forngrímur 8

Þetta er stálbundin járngríma sem Leifur hefur fengið sér til að koma á móts við óskir sóttvarnarlæknis. Þessi vörn kom því miður aðeins of seint, því doktor Þorgrímur Smit þurfti að sjá hvort ástandið á lesendum Fornleifs hefði batnað. Svo var heldur betur ekki. Fleiri og fleiri smitast af Fornleifi. Helsti áhættuhópurinn eru fróðleiksfíklar og þeir vilja einatt fróðleikinn beint í æð, óþynntan.

Gríman forna er mun öruggari veiruvörn en þær sem almennt eru í boði. Menn mega ekki halda að linkind leggist í Fornleif við breytinguna. Þetta er engin múlbinding, Leifur verður jafn beittur sem áður. Hér er nefnilega engin tilslökun gagnvart sýktu fólki. Gríman er með ábyggð og gagnrýn gleraugu og innbyggðar eyrnasíur. Fornleifur sér því allt, nú sem fyrr, og heyrir það sem hann vill.

Hornin á hjálminum eru bráðnauðsynleg fyrir blogg með allt á hornum sér. Fornleifur  var jafnvel að hugsa um að fara í bíltúr og veifa til smitaðra áhangenda sinna með grímuna á hausnum. Ritstjórinn tók sem betur fór af honum lyklavöldin. Það er alveg óþarfi að snýta þessari öruggu grímu framan í þá sem maður hefur um langt skeið haft hreðjatak á.

Skemmtun fyrir þá útvöldu sem náðu að lesa hingað er getraun dagsins: Hvaða gríma er þetta í raun og veru? Verðlaun fyrir rétt svör: Einangrun í 7 daga og skemmtiferð fyrir tvo í hreinsunareldinn í neðra.


Kontrafaktísk sumarkveðja Fornleifs

Pride 1907 d

Það var greinilega þetta ekki litla pride í mönnum árið 1907.


Ásjóna konungs

Christian VI c

Það verður víst aldrei hægt að halda því fram að ásjóna Kristjáns 6. Danakonungs hafi verið ígurfögur. Blessaður maðurinn var svo óheppinn að eiga föður, Friðrik 4. (sjá hér í tímaritinu Skalk;6, 2015) sem einnig var óvenju ófríður.

Friðrik 4. var afsprengi mjög svo skyldleikaræktaðrar fjölskyldu, Aldinborgaranna (Hustet Oldenburg). Kona Friðriks, var þýsk aðalskona, Louise af Mecklenburg-Güstrow, var einnig sæmilega heimaræktuð. Það varð því að fara eins og það fór með Kristján sjötta, sem sat á konungsstóli frá 1730 til 1746.

Ekki var drottning Kristjáns, Sophie Magdalene af Brandenburg-Kulmbach minna spes. Dönsku hallirnar voru þannig í hans stjórnartíð fullar af blúndum og háhæluðum skóm og fólki sem tiplaði um langa gangana og talaði bjagaða þýsku, ef það rak ekki úrkynjuð nef sín niður í kaffibollann - og það ekki fyrir slysni.

Mannseide detalje

Kóngur hélt sig mest heima, í og við hallir sínar, og sást sárasjaldan meðal fólsins. Þó er vitað að hann brá sér í skemmtiferð til Noregs. Hann fór í "fjallgöngu" líkt og tveir forfeður hans. Kona hans og tengdamóðir voru bornar í burðarstól upp á fjallið á Mannseidet. Á málverkinu neðst við þessa fræðslu má líklega sjá norskt landslag - en það getur líka í tilefni dagsins verið íslenskt, þó konungur hafi aldrei til Íslands komið - en það gæti málarinn hugsanlega hafa gert. 

800px-Christian_6 detalje

Ekki jók konungur á frægð sína er hann innleiddi vistarbandið í Danmörku árið 1733 eftir þrýsting frá síðgráðugum landaðlinum

Ljósmyndina efst tók ritstjóri Fornleifs í sumar í Frederiksborgarhöll í Hillerød Sjálandi, sem í dag hýsir Nationalhistorisk Museum. Þetta er vaxmynd sem geymd er þar í glerkassa. Mun hún hafa sýnt konunginn á mjög sanngjarnan hátt. Hann var með svokallaðan Habsborgara-kjálka, reyndar vægt tilfelli af honum. Habsborgarakjammi, lýsir sér miklu undirbiti og er hann ein af afleiðingum skyldleikaræktar meðal kóngafólks og aðals í Evrópu og víðar, sem ekki gat hugsað sér að kvænast niður fyrir sig og valdi í staðinn að leggjast á ungar frænkur sínar - ef frændurnir urðu ekki fyrir barðinu.

Já hann var það sem danir kalla arveligt belastet. Kristján 6. var einnig með furðulegt nef, langt mjótt og bogið, sem neðst endaði í eins konar goggi. Slík nef eru einnig afleiðing þeirrar eðalseðlunnar sem tíðkaðist í hærri lögum þjóðfélaganna fyrr á öldum.

Kristjáni 6. er lýst sem hlédrægum manni, jafnvel feimnum á stundum og óframfærnum. Hann var því ekkert líkur föður sínum hvað það varðar. Stundum er talað um hann sem þunglyndan og innhverfan. Hann var þó vel meðvitaður um vald sitt og efldi það með ýmsum ráðum. Hvað Ísland varðar var hann hjálendunni ekki  allt of mikið til ama. Hann var hreintrúarstefnumaður (píetisti) en píetisminn haslaði sér völl í lútherismanum á þeim tíma sem Kristján var uppi.

Á Íslandi hafði hreintrúarstefnan  m.a. í för með sér lögfestingu ferminga. Þær urðu frá og með 1736 skylda. En píetisminn í hans tíð varð einnig til þess að gleðin hvarf úr ríki konungs. Kristján lét banna allar skemmtanir á sunnudögum og  árið 1735 gaf hann út helgidagtilskipun þar sem kirkjusókn varð skylda. Gapastokkur beið þeirra sem brutu öll þessi helgilög.

Hallarbyggingar og önnur óþarfa eyðsla til lystisemda konungs tæmdi danska ríkiskassann (sem kóngsi stjórnaði að vild). Kristján konungur lagði því mikið kapp á að krefja tolla af öllum þeim sem sigldu um Eyrarsund, en þar fyrir utan stofnaði hann seðlabanka, Kurantbankann sem var forveri Nationalbanken (danska Seðlabankans). Framleiðsla á pappírspeningum hófst, og jókst mjög líkt og stundum gerist þegar verðbólga skapast og menn leika sér með núllin. Það má Íslendingum vera kunnugt.

Nær öll áðurgreind hegðun og afbrigðilegheit, nema fjallgöngur, gerir kónga óvinsæla eins og við vitum úr ævintýrum. Kristján barðist þó ekki við skrímsli á Fjöllum, svo vægi fjallgöngu hans var lítið. Ugglaust var hann með svima alla leiðina upp.

Christian_VI_med_tjener

Trúræknin rak hann vafalaust til þess að halda þræla.

Einhverja bónuspunkta fær Kristján með skúffukjammann þó hér í lokin fyrir að vera fyrsti danski einvaldurinn um langt skeið, sem ekki stóð í endalausum stríðsrekstri. Hann ætlaði sér reyndar í stríð við Svía árið 1743, en sá að sér er Rússar blönduðu sér í erfðamál sænsku krúnunnar.

Munið þó, að flagð er oft undir fögru skinni. En sjá, var hann ekki líka þrælahaldari, bölvaður? Niður með hann og brennum ásjónu hans að fyrirmynd band-arískrar hámenningar ...

800px-Christian_6


Frændi minn með hundakerruna

IMG_0713 sharp b

Faðir minn sagði mér nokkru sinnum af frænda sínum einum, sem hét Roiter (Royter) að eftirnafni og var úr móðuætt ömmu minnar sálugrar í Hollandi. Þessi frændi var fæddur á 19. öldinni en faðir minn hafði þó séð hann. Karl þessi var ekki alveg eins og fólk er flest, og því ef til vill miklu betri fyrir bragðið. Hann hafði ofan af fyrir sér af sölumennsku hvers konar, og fór um sveitir Hollands, norðarlega og seldi alls kyns varning sem hann ók með um þjóðvegina í hundakerru. Þess konar kerrur kalla Hollendingar Hondenkar.

Svo vel gekk þessi sölumennska að karlinn varð nokkuð auðugur en lifði sparlega. Hann fékk á einhverju stigi stóra medalíu, eða það sem á Íslandi var kallað ærulaunamedalía (á dönsku: Fortjenstmedalje), frá konungsvaldinu. Karlinn átti enga afkomendur og ég á því þessa medalíu í dag. Ég geymi hana vel til að minna mig auðmjúkan á hvaða kotungsliði ég er kominn af, þegar ég er ekki að monta mig af þeim sveitaómögum sem eru forfeður mínir á Íslandi fyrir utan kynóða munka, fáeinum prestsskratta og vergjarnar prófastsmaddömur, sem ég ræði sem minnst.

Þegar ég sá þessa mynd, laterna magica-glerskyggnu frá 10. áratug 19. aldar, til sölu um daginn á Kornvöllum á Englandi, hjá herra White sem selur mér laterna magica skyggnur, gat ég ekki á mér setið og gaf mér myndina í sextugs-afmælisgjöf. Maður verður aðeins sextugur einu sinni á ævinni.

Myndin sem er framleidd á England, er mjög vandlega lituð og sýnir ungan sölumann með kerru sem dregin var áfram af hundum. Sláninn sem rak þetta eyki seldi grænmeti í den Haag í Hollandi. Ekki get ég staðsett myndina nákvæmlega út frá bakgrunninum. Fólkið umhverfis grænmetisnjólann sýnist mér geta verið af gyðingaættum, enda var það ekki óalgengt að gyðingar í den Haag seldu grænmeti. Mér finnst pilturinn furðulíkur föður mínum á yngri árum. Það er því við hæfi að sýna ásjónu hans á svipuðum aldri á skólabekk í den Haag árið 1941, skömmu áður en hann var sendur til Fríslands. Til den Haag hafði fjölskyldan flust um 1935 frá Amsterdam.

Wim

Grænmetissláninn á myndinni sem ég keypti virðist nú ekki hafa hugann mikið við salatið eða blómkálið. Hann heldur á blekpenna (lindarpenna), sem hann virðist afar stoltur af.

IMG_0713  sharp detalje

Því verður við að bæta að hundakerrur voru ekki sjaldséðar í Hollandi og Belgíu, sér í lagi á Flandri og víðar - á 19. öld og langt fram á þá 20.

Líkast til eiga margir Hollendingar frændur og frænkur sem höfðu viðurværi af því að selja varning sem dreginn var um stræti og vegi af hundum. Það var ekki fyrr en 1963 að hundakerrur voru bannaðar með lögum í Hollandi, vegna krafna um dýravernd frá bónuðum gólfum ESB. Dráttarhundar urðu að leita sér að annarri vinnu.

Magic-Lantern-Glass-Slide-Photo-Children-Dog-Pulled

Hundar draga mjólk á Flandri. Laterna magica skyggna frá 1890-1900.

Mér þykir hundakerra nokkuð rómantískt fyrirbæri. Hver veit nema að maður fái sér slíka kerru og teymi fyrir henni tvo veglega hvutta og falbjóði íslenska menningu og skreið fyrir utan ESB hallirnar í Brussellu.

1-goat-cart-fox-photos

Þór Óðins-Jarðarson á að undirbúa för með Tanna 1 og Tanna 2 fyrir framan höll sína Bilskirni? Eða er þetta aðalsdrengur á Englandi?

Hér í lokin læt ég svo flakka ýmsar myndir af netinu af fólki sem áttu kerrur og vagna sem dregnir voru af hundum og geitum. Átti Öku-Þór ekki slíkan vagn sem hann ferðaðist í með hjálp geithafranna Tanngnjósturs og Tanngrisnirs? Kannski hefur Þór verið hollensk hugmynd eins og svo margt annað.

Netherlands-DOG-CART-Holland-Zeeland-Walcheren-Hondenkar-earlyÁ eyjunni Walcheren við landamæri Belgíu.

cbe37e8ac657871649e80506afefeb22-800

Belgian_dogs_trained_to_draw_quick-firing_guns

Belgískur hermaður með kanónuhunda; Líklega í smáskotaliðinu.

Mjólkurvagninn

Mjólkurvagninn í Belgíu um 1885.

06b5792bdc7122867abc7a55f2d0dd2c

Í Frakklandi voru menn alltaf með önnur kerfi. Þess ber að geta að þessi reiðmennska hefur enn ekki verið bönnuð í ESB.

 


Cassida sine cornibus

The-Yarm-Helmet-following-research-and-conservation

A distinguished professor from Durham has written an interesting article on a helmet.

Long time ago I stayed, without my horns, for two term as a visiting scholar in Durham, when the author, Professor Chris Caple, started working at the institute in Durham. I remember him only vaguely. Now he has come to the conclusion that a helmet from Yarn, which is on display in the Preston Park Museum in Great Britain is nothing less than "Viking" - see here.

It seems to me that the the Brits might suffer from some kind of aggression towards the good old Scandinavian horned helmet.

I (in irony) hew the following runes on the FB-wall of the Preston Park Museum with my axe, because i find a lot of confusion with regards to the origin of the helmet in the presentation of the Preston Park museum of the helmet.

O thou less horny one. Thee must knowest the the the answers to all your questions can bee found by reading between the lines of the honourable Icelandic Sagas and the less honourable Book of Settlement. That combined with the fine arte of interpretation DNA- sequencing of Modern Icelanders gives the clue. Like most of you know, the early Icelanders (specially those before the Landnam) where Norwegian men, who brought their favourite ewes with them to their newfound Island. In those olden days, the horne was well screwed into the all Icelandic shepherds. Eventually few of the shepherds missed the odd Norwegian girl for fun and for making more ga..happy shepherds. Since the shepherds were big shoppers they knew that the price for a lass in the Orkneys, Shetlands, Hebrides and Ireland was much lower than for original Norwegian blondes. However the Insular babes didn´t fancy them ´uge ´orns on the Icelandic boys. Due to the fancy of the British islanders the horn disappeared among the Viking Icelanders. The helmet you see before thou is the result of such an early cultural iconoclasm. Social outcast in Viking-land soon became known as "hornkerlingar" (horn-ladies).

dfasdfa

The de-horned helmet of Yarm, on exhibit in the Preston Park Museum, is probably the second "Viking helmet" which can be verified as "most likely Viking" by valid arguments rather than hard-core dating. The other one is the world famous Norwegian motor-bike con goggle helmet from Gjermundbu, which is a bad Norwegian spelling of Geirmundsbú. But is the Gjermundbu-helmet in an Anglo-Scandinavian fashion from the Viking-Age, or is it a 9th-11th century Anglo-Scandinavian helmet without accessories? It is really difficult to come to any conclusion by reading Caple´s article. The helmet is loose on the head

8jGX3Jh The Gjermundbu-helmet is also a classic Viking, or Anglo-Scandinavian - or is it as Saxon-tradition biker helmets with goggles? The article in Medieval Archaeology by Chris Caple does unfortunately doesn´t clarify essential aspects.

The next "Viking"-helmet we work on must be found on a skull, which can be radicarbon dated and DNA-sequensed as Viking, before we draw any conclusions about the helmet.

Archaeology is not fiction.

  Here one can view the helmet from different angles and below a modern Viking-weapon expert, archaeologist Philipp Roskoschinski, (Altertumswissenschaftler, Prähistorischer Archäologe) gives his assessment:

The Yarm Helmet

 


Gluggað í skjalasafn heiðraðrar fornleifanefndar - Anno 1996

Screenshot_2020-07-13 17917550(1)

Þegar ég sá myndina hér að ofan á tímarit.is um daginn, var mér af einhverjum ástæðum hugsað til setu okkar Bjarna F. Einarssonar í Fornleifanefnd um 1996. Þar sat einnig Þór Magnússon Þjóðminjavörður, en fyrir nefndinni sat lögfræðiprófessor, mjög formfastur maður, eins og lögfræðingum ber að vera - fyrir utan að þekkja reglurnar. 

Það var Páll Sigurðsson og Páll má ekki vamm sitt vita, og því til jarteina hefur einhver (og líklegast hann sjálfur) skrifað lengsta kafla um nokkurn mann, íslenskan, á Wikipediu.

En, eins og fornleifafæðingum, og ekki síst lögfræðingum sem ekki vita að það er fallið á silfur sem finnst í jörðu, getur lögfræðiprófessorum einnig orðið á í messunni. Eitt sinn, svo vitað sér, henti það Pál Sigurðsson, og skal sagt frá því hér.

Páll Sigurðsson kallaði til fundar í Forleifanefnd þann 22. júlí 1996 með ólöglega stuttum fyrirvara. Ég frétti aðeins af fundinum fyrir tilviljun. Þá voru menn ekki komnir með tölvupóstkerfi og þess háttar. Boðleiðin brást og hún brást hjá Þór Magnússyni. Hann gleymdi að segja mér frá fundi í nefndinni.

220px-Pall_Sigurdsson

Páll Sigurðsson vísaði mér ólöglega af fundi

Við upphaf fundar vísaði Páll mér af fundinum. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. En það kom fljótlega í ljós. Páll hafði greinilega ekki haft tíma til að lesa fundargerðina, sem Þór Magnússon hafði tekið saman, þó að síðarnefndi ætti ekkert með að gera það. Ég maldaði í móinn við Pál, en var þá skipað af yfirgefa fundarherbergið og fékk ekki að skýra mál mitt. Allt sem ég reyndi að segja við formanninn við dyr fundaherbergisins, sem einni var aðalkaffistofa safnsins, drukknaði í orðskrúð Páls, sem oft gat verið fjandi kúnstugt og "barokkt", ef hægt er að nota það orð fyrir málnotkun í íslensku máli. Sem dæmi má nefna að Páll svaraði oft mönnum og vísaði í "heiðruð" bréf þeirra. 

Það var hins vegar ekki heiðruð meðferð sem ég fékk frá þessum heiðvirða manni, heldur skagfirskur ruddaháttur sem þekktur er frá örófi alda þegar fautar í því héraði hafa brunað yfir lítilmagnana á hrossum sínum.

Páll hafði séð í fundarboði, sem hann hafði ekki haft fyrir því að nærlesa, að mál var á borði nefndarinnar varðandi eitthvað Miðhús. Hann ályktaði að um væri að ræða Miðhús við Egilsstaði, sem nokkur styr stóð út af á þeim tíma, sérstaklega heima hjá Þórarni Eldjárn.

Ég tel víst að hinir nefndarmennirnir hafi verið á sömu skoðun og Páll, því þeir gerðu engar athugasemdir við brottrekstur minn af fundi, og heldur ekki Bjarni Einarsson sem þó vissi betur en þeir sem ekki höfðu lesið fundarboð og málsgögn, enda fyrir löngu búið að ákveða að ég skyldi "tekinn af lífi" varðandi þetta margfræga silfurmál sem einnig tengdist miðhúsum. Glæpur minn var að vera sammála breskum sérfræðingi.

Prófessor Páll Sigurðsson ýtti mér bókstaflega út úr gátt fundarherbergi safnsins, og ég hundskaðist upp á skrifstofu mína í turni Þjóðminjasafnsins. Í góðu stuði skrifaði ég þegar harðort kvörtunarbréf vegna þess að mér var meinað að setja fund í nefnd sem ég var skipaður í. Bréfið sendi ég Menntamálaráðuneytinu og síðar fékk hin heiðvirða Fornleifanefnd einnig bréf dags. 29. júlí 1996. 

Hvort það var vegna mjög langra sumarleifa starfsmanna ráðuneytinu, fékk ég ekki svar þaðan fyrr en 9. september (sjá bréfið hér). Það kom frá gamalli skrifstofurottu ráðuneytisins, Árna Gunnarssyni, sem  ósjaldan var haukur í horni þegar forsvarsmenn Þjóðminjasafns óku útaf í fjármálum og öðrum málum. Árni Gunnarsson tjáði mér að prófessor Páll myndi svara mér. Takið eftir því að bréf Árna Gunnarssonar er dags. 9. september 1996 - en 9. September 1996 er einnig dagsetning á svari Páls til mín. Boðleiðin á milli Ráðuneytis og prófessors í lögfræði var greinilega hraðvirkari en svarviðleitni við doktorsræfil í fornleifafræði sem vissi, án þess að vera staðkunnugur, að Miðhús er mjög algengt nafn á kotum um land allt. 

Eins sjá má tók það málskreytingamanninn Pál Sigurðsson 11 línur að komast að merg málsins og niðurstaðan sem er furðu klaufalega er þessi:

... Sökum ónógrar staðkunnáttu minnar á Austurlandi hef ég þá ekki áttað mig á því að leyfisumsóknin mun ekki hafa beinst að rannsóknum á þeim bæ, sem málaferlin tengjast, heldur öðrum, samnefndum, sem einnig er á Fljótsdalshéraði en í öðru sveitarfélag. Hér er um mistök mín að ræða, sem ég ábyrgist að öllu leyti einn. Á þeim mistökum biðst ég velvirðingar. (Sjá bréfið í heild sinni hér).

Þetta var furðuleg niðurstaða í ljósi þess að Miðhús við Egilsstaði höfðu ekkert verið rædd í nefndinni.

Ég sætti mig vitaskuld aldrei við þessa afsökunarbeiðni. Hvaða erindi hann átti sem formaður í þessa nefnd var alltaf ofar mínu skilningi. Hann er einn af þessum skrýtnu köllum sem stjórnað er af mönnum með nábláar hendur  sem trúa því sem eðlilegum hlut að silfur finnist óáfallið í jörðu á Íslandi. Hvar annars staðar en á Íslandi?

Vanþekking Páls prófessors á Miðhúsum var líka merkileg, þegar tillit er tekið til að afi hans, Stefán Vagnsson hagyrðingur, fæddist á einum af mörgum þessara Miðhúsa, en það var á Miðhúsum í Blönduhlíð. Ekki er því hægt að kenna bláum krumlum um fávisku prófessorsins um staðarnöfn landsins. Maður bjóst við meiru, því um skeið var prófessor Páll líka ofarlega í stjórn Ferðafélagsins. 

Skömmu síðar þetta sama sumar 1996, óskaði Þór Magnússon ekki starfa minna á Þjóðminjasafni vegna opinberrar gagnrýni minnar á störf hans, til að mynda á óstjórn og framúrkeyrslur á ráðstöfunarfé stofnunarinnar. En fyrir slíkan utanvegaakstur var honum að lokum vikið úr starfi með mikilli skömm eins og frægt er orðið. Sjálfur hafði ég um vorið 1996 ákveðið að flytja úr landi. Kona mín fór fyrst með dóttur okkar nýfædda og ég fór síðar á árinu. Við settum síðan að í besta stað í Kaupmannahöfn í janúar 1997. Þar pakkaði ég skjöl mín varðandi Fornleifanefnd niður í kassa og skoðaði þau ekki að ráði aftur fyrr en hér um daginn. Ég gat ekki setið á mér og varð að deila sögunni af þessari valdbeitingu í dyragátt kaffistofu Þjóðminjasafns 22. júlí 1996. Hún er þó ekkert einsdæmi um dómgreindarleysi manna sem titla sig prófessora í íslenskum lögum.

Málsbætur til handa Páli Sigurðssyni áður en dómur fellur

Einu langar mig við að bæta, háheiðruðum Páli Sigurðssyni til málsbóta, þrátt fyrir svínslega meðferð hans á mér, og það á afmælisdegi mínum mínum. Páll var kominn í mikla ormagryfju þegar hann tók að sér stjórn Fornleifanefndar. Sumir fornleifafræðingar sem sátu í nefndinni notuðu hana óspart í sinn hag. Aðrir notuðu allan sinn tíma til kærumála, enda komið stríð um töglin og hagldirnar í þessum málum á Íslandi. Hér fáið þið eitt sýnishorn: Félag Íslenskra Fornleifafræðinga (FíF) nauðaði á þessum árum mikinn og barmaði sér. Félagsmenn sumir sem gengu í lið við bláu höndina og fengu hana nær upp í afturendann, kvörtuðu þá undan framgangi Bjarna F. Einarssonar í nefndinni. Félagsmenn þar útbjuggu þetta skjal og sendu Þór Magnússyni. Ef menn fletta yfir á bls. 2. sjá þeir afrit til Páls Sigurðssonar af bréfinu með miða Bjarna F. Einarssonar til Páls (þ.e. Bjarna með arabísku augnperlurnar).

Bjarnakæra1996

Bjarni, vinur minn, sá greinilega ástæðu til að greina Páli frá því að "varamaður minn í nefndinni hefði stutt ályktun FíF".

Ég man að ég hló þegar ég sá þetta, því mér var sannast sagna ekki vel kunnugt um hver var varamaður minn, og enginn samskipti hef ég haft við hann (hana?) um athæfi Bjarna sem sjálfskipaðan fornleifalögreglumann. Mest hló ég þó í einhvers konar angist, því mér varð ljóst að maður sem ég taldi til vina minn, var greinilega svona falskur.

Bjarni óð einnig í villu eins og oft áður og síðar. Varamaður minn í Fornleifanefnd var Margrét Hallgrímsdóttir sem ég hafði engin tengsl við, hvorki persónuleg né fagleg. En núverandi þjóðminjavörður hafði vitaskuld mörg horn í síðu Bjarna F. Einarssonar á óvenjulegri leið hennar í þær stjórnunarstöður sem hún sótti í. Það var ekkert leyndarmál. Horn hans stóðu einnig í síðu hennar. Það var þó ekkert sem ég lét mig varða, og kom ekkert starfi í Fornleifanefnd við - að því er ég held. En í klíkuveldinu Íslandi veit maður aldrei.

Líklegt tel ég að Bjarni Einarsson, með miður hreina samvisku sína í "Miðhúsaupphlaupinu" þ. 22. júlí 1996, hafi verið að reyna að koma því inn hjá lögfræðiprófessornum, að ég stæði á bak við gagnrýnina á sig meðal félagsmanna í FÍF. Ég hafði ekkert samband við það fólk.

Já, þannig eyddu menn tíma sínum og skattpeningum landsmanna árið 1996. Fróðleiksfúsir menn gætu vissulega spurt: Hefur nokkuð breyst síðan að ég sat rúmt ár í þessari nefnd? Svari þeir sem svara vilja.


Skoðanakönnun á Fornleifi

Kuifje en Congo

Takið þátt efst á vinstri dálkinum hér á Fornleifi

Hvaða orð mega helst heyra sögunni til þegar rætt er um þeldökkt fólk?

Eftir að ég birti grein um grafalvarlegt mál á blogginu Fornleifi hér um daginn (sjá hér), fletti ég yfir á nýja síðu á Tinna-veggjadagatali mínu (þið vitið hvað barnalegur ég er í anda). Ég var búinn að gleyma því að það var kominn júlí.  Tinna-myndin fyrir júlímánuð á vel við greinina á Fornleifi. Þótt Tinni hafi mikið verið gefin fyrir drengi, trúi ég því ekki upp á hann að hann hafi talað eins illa um svart fólk og hann talaði um konur. En sá sem skóp Tinna var greinilega með gömul rasistagleraugu sem voru algeng víðar en í Belgíu þegar hann var að alast upp.

Hvað finnst ykkur lesendur góðir? Eru orð eins og blökkumaður og þeldökkur of hlaðin til að við getum notað þau á 21. öld? Látið í ljós skoðun ykkar.  Ég er sjálfur farinn að vera í vafa um notkun þessara og annarra orða, eftir að ég fékk tölvupóst frá Íslendingi sem lítur á sig sem litaðan mann. Orð eins og svertingi, blökkumaður, þeldökkur, surtur, blámaður, og meira mætti telja upp, eru ekki lengur nauðsynleg, sér í legi ef þau særa fólk og ef þau eru einvörðungu notuð til að hæðast að fólki.

Hvað finnst ykkur?  - Takið vinsamlegast (nafnlaust) þátt í skoðanakönnuninni um nokkur orð.

Lesið ykkur til fræðslu sögu svarta mannsins neðar á vinstri spássíu Fornleifs.


Nú er það aftur svart ... og kannski tími til íhugunar

Negir Ásmundar

Nú eru miklir niðurbrotstímar. Í hinum velstæðari ríkjum jarðar ríkir eins konar aflátsæði sem kemur niður á fortíðinni. Allt gamalt sem er talið vera af hinu vonda hjá nútímadýrkendum er brotið og bramlað. Yfirvöld þjónkast við óskirnar og fjarlægja styttur. T.d. í BNA, þar sem nær væri að aðstoða sjúkt fólk í faraldrinum í stað þess að láta styttur angra sig. Bandaríkjamenn styðja greinilega illfyglið í Hvíta Húsinu á marga vegu.

Ungt fólk, sem fyrst og fremst dýrkar EGO sitt, og heldur sig vera bestu og fremstu verur mannkyns, vill brjóta niður allt sem minnir á gamlan tíma. Sjálfselskan hjá þessari illa upp öldu og naflapillandi kynslóð, leiðir til þess að hún telur að hún verði að brjóta niður styttur og fjarlægja orð og jafnvel skoðanir sem eru á öndverður við skoðanir þess sjálfs - til að bjarga heiminum. Þegar mikil vandamál hrjá íslenskt þjóðfélag, líkt og víða annars staðar, rís þessi sjálfselska kynslóð upp í örvinglan því hún hefur aldrei þekkt mótgang eða erfiði líkt og fyrri kynslóðir. COVID-19 hefur einnig sett ýmislegt í gang, sem þó ekki verður rætt hér.

Hræðsla mannsins - og ungviðisins - lýsir sér oft sem öfgar í eina eða aðra áttina.

Ungur maður hafði samband og vill að ég noti ekki orðið blökkumaður

Ungur Íslendingur hafði samband við mig í síðustu viku og bað mig um að fjarlægja orðið blökkumaður af bloggi mínu. Ég svaraði honum á eftirfarandi eins og sjá mér neðar. Ég skýrði út fyrir honum að hann væri víst að herja á rangan bæ ef hann leitaði manna sem nota orðið blökkumaður að staðaldri.

Eitt áður en þíð fáið að lesa svar mitt: Veit einhver, hvort "Svertingi" Hafnfirðinga nr. 2 (sem ég nefni í svari mínu) sé enn uppi við í skrúðgarði Hafnarfjarðar? Hann er glögglega dæmi um hafnfirskan rasisma og ætti því, ef hann er til, að setja hann á safn sem dæmi um birtingarmynd kynþáttahaturs Hafnfirðinga, sem er er þó ekkert gífurlegra en gengur og gerist á Íslandi. Svartir verða örugglega fyrir miklum fordómum á Íslandi, líkt og gyðingar, fólk frá Filippseyjum og Taílandi, og þegar maður sér augljóst kynþáttahatur fáeinna Pólverja og Litháa í garð annarra innflytjenda á Íslandi, og jafnvel Íslendinga sjálfra, er vitaskuld vandamál í landinu litla við heimsskautsbaug.

Hér kemur svo svarið. Nafn mannskins, sem sendi mér línu um orðið blökkumaður, hef ég fjarlægt og ég kalla hann N.N.. Best er að undirstrika að í því felast engin dulin skilaboð sem leyfilegt er að misskilja á nokkurn hátt.

Ágæti N.N.,

Ég þakka áhugaverðan póst, sem þú sendir mér í síðustu viku (25. júní sl.) Það gleður mig mikið að vita af því að yngra fólk en kjarnalesarinn er að stelast inn á hið sífellt unglega blogg Fornleif.

Póstur þinn undrar mig þó töluvert, ef tekið er tillit til þess að orðið blökkumaður kemur fyrir fjórum sinnum á bloggum mínum en óbeint (sem skýring og tilvitnun):

Tvisvar er ég með það, þegar ég skýri andstöðu manna við ýmis orð sem notuð eru um svart fólk; einu sinni kemur það fyrir í texta úr dagblaði sem ég vitna í og í fjórða skiptið á spássíu Fornleifs, þegar verið er að vitna í grein í eldra bloggi mínu (Hvað er í ísskápnum;https://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/356276/ ). Í þeirri grein fjallaði ég m.a. um styttu í Hellisgerði sem Hafnfirðingar kölluðu "svertingja". Gaflararnir gerðu það enn árið 2006, er ný stytta af svörtum manni var sett upp í garðinum (sjá Fjarðarpóstinum 2006 https://timarit.is/page/5812215?iabr=on#page/n7/mode/2up ). Svo mjög söknuðu Gaflararar (Hafnfirðingar) fyrstu "svertingjastyttunnar". Hvort búið er að rífa niður hina síðari birtingarmynd hins annálaða rasisma í Hafnarfirði, veit ég ekki?

En þú hlýtur að sjá, N.N., að þú hefur hoppað yfir gerðið þar sem það er lægst, þegar þú skrifa mér,  líkt og ég sé helsti notandi orðsins blökkumaður á Íslandi. Skoðaðu frekar notkun orðsins á rituðum fjölmiðlum á Íslandi eða. Menn verða  nefnilega að vita, hvert þeir eiga að beina spjótum sínum í baráttu við hatrið og fordómana.

Ert þú sjálfur svartur Íslendingur (afrískur Íslendingur) ? Afsakaðu svo nærgöngula spurningu.  Ef þú ert það sannanlega, má vera að ég íhugi að breyta orðalagi hjá mér nema þar sem um beina tilvitnun er að ræða (innan gæsalappa eða í skáskrift). Skilyrðið er að þú og aðrir svartir Íslendingar móðgist út af orðinu blökkumaður. En ég verð að fá betri rök frá þér en að tilsvarandi orð og blökkumaður sé ekki til um hvíta.

Orðið hvítingi er vissulega til, en það er þegar upptekið og stundum notað fyrir albínóa, en í því samhengi er orðið vissulega dálítið hjákátlegt. Þegar næpuhvítir og svínabelgsbleikir Íslendingar uppgötvuðu að til var fólk með annan húðlit en þorri Íslendinga er og var með, var enn ekki til nein krafa frá  svörtum mönnum um hvernig tala  ætti um útlit þeirra, enda svarti maðurinn í 99,9% allra tilfella þræll án nokkurra áhrifa í samfélögum þangað sem þeir voru oftast fluttir nauðugir. Sú krafa kom þó loks frá svörtu fólki, sem náttúrulega leiddist orðin nigger, negro og svo framvegis. Nú þekki ég ekki neinn íslenskan mann, svartan, sem hefur kvartað yfir orðinu blökkumaður. Það gæti verið að þetta hafi breyst, og að einhver svartur Íslendingur hafi gert athugasemd. Þess vegna hringdi ég í lögregluna á Höfuðborgarsvæðinu í þegar ég fékk póstinn þinn. Þar voru allir uppteknir, en símakonan komst að því hjá sérfræðingi að það væri ekki lögbrot sem varðaði t.d. við hegningarlög að nota orðið "blökkumaður", ef ekki væri fari niðrandi orðum um svarta menn.

Ég hef notað orðið blökkumaður í greinum á bloggum mínum tveimur um svarta menn á Íslandi, eins og ég skýri ofar,  - án þess að notkun þess sé á neinn hátt niðrandi (að mínu mati).

Ég geri mér grein fyrir því að orð eins og blakkur minni vitanlega nútímafólk á litaskilgreiningu dýra og þar gæti hnífurinn staði í kúnni.  En lýsingarorðið blakkur er af gamalli rót og sama orðið og black á ensku og af sama meiði og orðin blæc ("black, dark") í fornensku og sögnin að blika á norrænum málum; sem málsifjalega er skylt blakkaz (brennt) í frum-Germönsku og bhleg- (sem þýðir að brenna, skína, glimta og blika á frum-indóevrópsku; Og af sama meiði eru sagnorðin flagrare á latínu (að brenna, tendra, kynda eld) og "phlegein" (að brenna, svíða) á grísku.

Dags daglega nota ég sjálfur ekki orðið svertingi og orðið negri nota ég aðeins sjaldan vegna þess að sumt svart fólk, sem notar orð eins og nigger og nigga um sit sjálft, krefst þess að aðrir geri það ekki.

En þegar orð móðga, án þess að þau varði við hegningarlög ríkja, eigum við þá ekki bara að banna orðabækur eða brenna þær um leið og við brjótum niður styttur á sama hátt og með sama ofsa og liðsmenn ISIS, þegar þeir eru ekki að útrýma fólki? Þá þykir mér baráttan fyrir jafnrétti sökkva í djúpan og dimman hyl.

Það nú líka óumflýjanleg staðreynd að orðið blökkumaður stendur enn í öllum orðabókum íslenskum og lög "orðalögreglunnar" er, eins og allir vita, orðabókin = https://islex.arnastofnun.is/is/ord/6225/tungumal/DA ...

Eins og þú kannski veist hefur ekki fallið dómur yfir mönnum sem nota orðið blökkumaður. Ég hef heldur ekki séð yfirvöld nota ákvæði í lögum um hatursræðu gegn þeim fjölda manna sem á samfélagsmiðlum tjá sig um gyðinga á miður geðslegan hátt, sér í lagi þegar stríð blossa upp fyrir botni Miðjarðarhafs. Maður einn, Bobby Fischer, sem fékk heldur sérstakt dvalarleyfi og ríkisfang á Íslandi, var heldur aldrei sóttur til saka fyrir svæsið gyðingahatur sem hann dreifði um allan heim með hjálp japönsku konunnar sem erfði hans jarðnesku eigur. Bobby var tæknilega séð gyðingur, en hann afneitaði uppruna sínum og hataðist síðan  sjúklega út í gyðinga. EKKERT yfirvald á Íslandi aðhafðist nokkuð vegna brota Fischers á hegningarlögum, þegar hann var orðinn íslenskur ríkisborgari.

Orðið blökkumaður lýsir ekki, eitt og sér ef það er notað hlutlaust (ef það er þá hægt), hatri notenda orðsins á fólki með afrískan uppruna. En nú verð ég líka að minna á að ekki er fólk með afrískan uppruna allt svart. Ég get ekki skýrt fyrir þér af hverju ég er með niturbasa (DNA) í erfðamengi mínu sem gerir að verkum að það eru 5% líkur eru á því að ég eigi negra að forföður á síðustu 500 árum. Þessi svarti angi í mér kemur vafalaust úr ætt föður míns sem var frá Hollandi. Eins hvítur og ég er, er nær ótrúlegt að ég hafi átt svarta forfeður. Eitt sinn var ég á ferð með pabba á Ítalíu í hópferð þar sem flestir voru gyðingar frá Hollandi og tveir frá Súrínam. Það voru tvær konur frá Súrínam komnar vel yfir sextugt, dökkar á húð (svo þær myndu flokkast sem svartar konur), vel í holdum og með álíka stífhrokkið hár og faðir minn. Þær voru reyndar með skærblá augu. Þær horfðu alltaf svo hugfangnar á pabba, að ég unglingurinn var farinn að hafa áhyggjur á hrifningunni í bláu augum systranna. Eitt kvöld sátu þær við sama borð og við og yfir pastinu sögðu þær af þessu glápi sínu. Pabbi var að þeirra sögn "alveg eins og faðir þeirra" í útliti nema að faðir minn var hvítur en faðir þeirra var svartur maður, en blandaður.

En öll samúð mín í garð svarta mannsins og baráttu hans fær mig nú ekki til að hætta að nota orðið blökkumaður í því samhengi sem það var notað á 20. öld, t.d. um blökkumanninn í Hellisgerði, sem var rasísk stytta sem Hafnfirðingar og aðrir höfðu mikið yndi af og grétu sárt þegar hún hvarf. En ég tek þó ekki í mál að kalla hann "svertingja" líkt og helv. Gaflararnir gerðu svo seint sem árið 2006, þessir bévítis þorparar.

Fjardarpóstuinn 29.6.2006Mynd þessi birtist í frétt um "svertingjann í Hellisgerði", sem birtist í Fjarðarpóstinum 29. júní 2006.

Afsakaður orðabelginginn í mér, en málið er vitaskuld viðkvæmt. Of fá orð geta verið hættuleg því við lifum á tímum hálfsögulausra endurskoðunarsinna, sem virðast ekkert betra hafa við tímann að gera en að bregða fæti fyrir náungann með nútíma siðvendni, sem í raun er alveg eins og sama gamla siðvendnin. Ágætt er að benda fólki á að tímar eru breyttir og orð líka, en minni ástæða er til að gera það að einhvers konar sporti, líkt og margir gera, en þar er ég ekki að meina þig.

Með bestu kveðju,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

 

ATH. Innan við klukkustund frá því að ég sendi ungamanninum langloku mína, fékk ég stutt en laggott svar, sem gefur okkur hinum svínslituðu mörlöndum vafalaust góða ástæðu til að íhuga mjög vandlega orðaval okkar:

Já ég er svartur/litaður Íslendingur. Já ég móðgast yfir þessu orði. Fólk hefur kallað mig og mömmu mína allt frá afrikunegrum og apa til múlatta og þeldökkan. Mér svíður mest undan því að fjölmiðlum hérna finnst líka í lagi að nota niðrandi samheiti yfir litað fólk. 

Meira lesefni um vandamálið / Styttan efst ber heitið Negri og er eftir Ásmund Sveinsson. Sjá einnig greinar Fornleifs um sögu svarta mannsins á Ísland, sem og grein á hægri dálki um hvað íslensk mannfræði hefur verið að bauka með sögu svarta mannsins út frá blindri, en jafnframt barnalegri tröllatrú á DNA-rannsóknir.


Arabíuperlur með auga Allah - íslensk fornleifafræði er orðin að hjáfræði

S2

Hjáfræði er íslenska þýðingin á hugtakinu pseudoscience. Allir sjá á grísk-latneska hugtakinu að slík fræði geta ekki verið góð latína. Íslenska þýðingin finnst mér of væg. Réttara væri að kalla fyrirbærið gervivísindi eða gervifræði. En hvenær er hægt að skilgreina vísindi með hugtaki eins og hjáfræði? Það er vitaskuld mjög vandasamt verk.

Ég leyfir mér að taka gott dæmi um rannsókn þar ég er fullviss um að fornleifafræðin er komin í hjáfræðaflokkinn. Það er einnig hægt að lesa um aðrar rannsóknir undir flokknum Íslensk furðufornleifafræði og grillumannfræði á dálkinum hér til hægri. 

Stutt er síðan að nýtt fræðilegt hugtak kom inn í íslenska fornleifafræði. Það er orðið Stöð. Stöð hefur að frumkvæði dr. Bjarna F. Einarssonar fengið merkinguna "búsetustaður manna fyrir "hefðbundið" viðtekið og í stórum dráttum sannað landnám manna á Íslandi á seinni hluta 9. aldar.  Samkvæmt dr. Bjarna höfðust norrænir menn tímabundið við í stöðvum á Íslandi fyrir hið viðtekna landnám.

Bjarni telur sig haf rannsakað tvær slíkar stöðvar á Ísland, þar sem á að hafa farið fram einhvers konar fjarvinnsla þar sem voldugir menn sóttu hráefni og fóru með afurðirnar til "heimalands" síns (Noregs).

Þrátt fyrir að talað sé um veiðar á rostungi og önnur verðmæti hafsins, hefur ekki fundist svo mikið sem arða af rosmhvalstönn í "stöðvum" þeim sem nýlega hafa verið rannsakaðar og sem kallaðar hafa verið stöðvar af þeim sem rannsakar. Vinnslan fór greinilega fram án þess að úrgangur væri skilinn eftir.

Íslenskir stöðvartrúarmenn, sem eru fáir, hafa bent á að búsetan hafi verið stutt í stöðvunum. Menn birgðu sig upp af veiði sinni og fluttu hana síðan út til "móðurlandsins".  Reyndar bendir sumt til þess að þessar "útilegur" stórmanna í stöðvum á Íslandi, hafi nú lengst töluvert eftir að Stöð í Stöðvarfirði hefur verið rannsökuð. Í Vogi í Höfnum, þar sem Bjarni F. Einarsson telur sig hafa rannsakað "stöð", var hins vegar brotinn kvarnarsteinn í gólfi. Það bendir nú frekar til lengri búsetu, þar sem menn möluðu korn svo ótt að kvarnarsteinn brotnaði.S2sMynd 2 - Til vinstri perla sú se m Bjarni F. Einarsson telur vera frá Arabíu og sýna auga Allah. Hún er ekki frá Arabíu heldur búin til í Evrópu. Johan Callmer hefur flokkað hana til gerðar sem hann kallar sem B p / B316 (sjá neðar). Perlan til hægri er einnig fundin á Stöð í sumar. Hún er mjög líklega innflutt perla frá löndum Íslam.

Engar C-14 greiningar styðja almennilega við þá yfirlýsingar að "Stöðvar" séu frá því fyrir landnám um 870 e.Kr. Til undirbyggingar því að Stöng í Þjórsárdal hafi ekki farið í eyði fyrr en í byrjun 13. aldar, en ekki í eldgosi í Heklu árið 1104 (sem er nokkuð erfitt að hveða niður) voru greind hátt á þriðja tug C-14 sýna fyrir tilstuðlan þess sem þetta ritar. Þær voru meðal annarra sönnunargagna sem ótvírætt bendir til þess að Stöng hafi farið í eyði eftir aldamótin 1200. Því miður gefur lítill fjöldi C-14 greininga frá Stöð í Stöðvarfirði ekki góðan stuðning við landnám og stöðvarrekstur í Stöðvarfirði fyrir 870 e.Kr.  Ef menn ætla sér að kollvarpa landnámstíma á Íslandi verður það frekar gert með C-14 greiningum heldur en Auga Allah.

Það gerir gripasafnið heldur ekki. Reyndar eru menn ekki almennilega komnir niður í gólf eldri skálans á Stöð í Stöðvarfirði, sem á að vera skáli stöðvarinnar, en þangað til gólfið verður rannsakað eru engir gripir frá Stöð sem eru eldri en frá miðbiki 9. aldar. 

Spurningum um eðli "stöðvanna" á Íslandi láta þeir sem bera ábyrgð á stöðvarrannsóknum undir hattinn að svara. Dæmi um slíkar spurningar. Hvers vegna sóttu menn frá Noregi fisk og rosmhvalsafurðir alla leið til Íslands, þegar nóg var að slíku við strandlengju Noregs? Hvar eru leifar fiskvinnslunnar?

Hið alsjáandi auga Allah?

Svo er farið út í hjákátlegar tilgátusmíðar og bábiljur. Tökum dæmi: Nýlega fannst perla á Stöð í Stöðvarfirði. Á RÚV var sagt frá þessum fundi á eftirfarandi hátt (sjá hér bæði í texta og á myndbandinu:

„Þetta er augnaperla eða augnperla. Önnur slík sem finnst í Stöð. Það má ráða í hana að hún er upprunnin frá Arabíu eða úr múslímskum heimi og á henni eru augu. Þetta er auga Allah sem blasir þarna við. Þetta berst með verslunarleiðum frá Arabíu norður á bóginn og finnst í stórum dráttum alls staðar í Norður-Evrópu,“ segir dr. Bjarni."

Þótt allt arabísk falli vel að sörvi RÚV, er perlan mórauða með auganu ekki ættuð frá Arabíu eða múslímskum heimi. Glerið, sem notað var við gerð perlunnar, gæti þó hugsanlega upphaflega hafa borist frá fjarlægari löndum til Skandinavíu á 8.öld. Perlan er búin til á söguöld. Hvergi er þekkt fyrirbærið Auga-Allah perla og þegar Bjarni var spurður um það af ritstjóra Fornleifs, kom þetta delfíska svar í véfréttastíl, þótt það sé alveg klárt hvað Bjarni F. Einarsson sagði alþjóð á RÚV:

Sæll. Lang flestar perlurnar eru úr yngri skálanum. Sumar var erfitt að færa til hins yngri eða eldri og örfáar voru úr þeim eldri.
 
Hvergi hefur því verið haldið fram að heitið Auga-Allah-Perla sé til eða að það sé hugtak. Að augað á Augnperlunni sé auga Allah er allt annað mál.
Kv
 
Bjarni

Bjarni telur greinilega, sér og persónulega, en í einhvers konar hjátrú, að augað á perlunni sé auga Allah. Mönnum er í sjálfsvald sett, hvað þeir kalla auga Allah eða hvort þeir trúa á hann. En þessi aðferð, að búa til heiti á perlu, þannig að þorri manna heldur að perlan sé arabísk og af gerð sem kölluð er Auga Allah er hálfgert glóðarauga fyrir fornleifafræðina sem fræðigrein. 
 
Bjarni hefur áður sagt perlusögur. Árið  201.. hélt hann því fram að grænleit perla úr steini væri ættuð alla leið frá Indlandi og að steinninn kallaðist Kreolite. Engin slík steintegund er til (sjá dóm Fornleifs yfir þeirri furðuperlu frá Stöð hér).
 
Hverju slíkar lygasögur eiga að þjóna, er mér hulin ráðgáta. Ef Bjarni telur sig hafa sannanir fyrir landnámi fyrir þetta venjulega og klassíska á síðari hluta 9. aldar, þá vantar haldbæran rökstuðning. Hvar er hann?
 
RibeSJM_348_200283653_x783-1 b 2
 
 
Mynd 3 - Tvær perlur frá Ribe á Vestur Jótlandi, af sömu gerð og perlan frá Stöð sem ranglega er sögð vera arabísk og sýna "Auga Allah". Danir hafa lengið kallað augun blóma/sólar-mynstur.
 

Gerðarfræði og aldur "arabísku" perlunnar á Stöð

Fyrst skal jörðuð skyndiyfirlýsing Bjarna F. Einarssonar um að perlan mórauða með auganu sé Arabaísk eða frá  Íslömskum svæðum. Það er hún ekki.

Ég tek venjulega ekki að mér verktakaverkefni fyrir aðra fornleifafræðinga sem ekki eiga grundvallarrit um perlur, þó þeir séu búnir að finna um 130 í sömu rannsókninni. Ég geri hér hins vegar undanþágu, þar sem höfðingjabýli Bjarna á "Stöð" er glæsileg perla og vel upp grafin af einum besta uppgrafara á Íslandi; en fyrst og fremst vegna þess að ég hlakka til að sjá eldri skálann sem er undir þeim sem er frá 10. öld, sem Bjarni rannsakar nú. Ég hef enn ekkert séð bitastætt sem fær mig til að trúa því að á Stöð sé byggð löngu fyrir hefðbundið landnám.

Þær perlur sem Bjarni hefur sýnt umheiminum eru allar dæmigerðar fyrir perlusöfn frá 10. öld.

Ég fór í kassa uppi undir þaki og sótti þar ritgerð Johan Callmers frá 1979, sem ber heitið Trade Beads and Bead Trade in Scandinavia ca. 800-1000 A.D. Johan Callmer var prófessor í Umeå 1991 og síðar á Humbolt í Berlín. Doktorsritgerð hans frá Lundi keypti ég einu sinni á Historiska Museet i Stokkhólmi snemma á 9. áratugnum er ég heimsótti systur mína í Uppsölum.

Ég get upplýst með tilvísun í Callmer, að "Auga Allah-perlan" á Stöð ber flokkunarheitið B p - perla samkvæmt gerðarfræði Callmers.

Perlur af B p gerð eru (líkt og perlur af B c gerð búnar til í Vestur Evrópu og hafa ekki komið frá Arabíu eða svæðum þar sem Íslam hafði breiðst út til. Nánar tiltekið er perlan af gerðinni:

B p; B316

P p; B316, eru rauðbrúnar perlur með augum (Sjá bls. 88, 98, Plate 8 og Colour Plate II í Callmer (1977)). Hins vegar kalla Danir (t.d. fornleifafræðingar í Rípum/Ribe) þetta skreyti ekki augu, heldur sólar/blóma-mynstur.

IMG_20200628_0002 b

Eftir Callmer (1977), Plate 8.

B316O

Eftir Callmer (1977), Colour Plate II. Perlan í miðjunni ert skyldust perlunni á Stöð.

Tímasetningar á perlum frá 800-1000 e. Kr. eru mjög erfiðar og menn nota venjulega ekki tímatal Callmers á perlum sem afgerandi tímasetningaraðferð, enda mælir hann hvergi með því þegar hann vann meistaraverk sitt þar sem hann flokkaði perlurnar. En hann upplýsir að perlur í B p-flokki af þeirri gerð sem "Auga-Allah Perlan" hans Bjarna er af hafi komið fram á sjónarsviðið á 9. öld, fjölgað svo mjög á tímabilinu 845-915 (frá tímaskeiðum III-VII sem hann hefur sjálfur skilgreint. Perlum sem þessum fer síðan hríðfækkandi í aldursgreinanlegu samhengi fram til 950.

Hinar perlurnar sem Bjarni hefur fundið í sumar eru allar af gerð perla sem er algengar á 10. öld samkvæmt Callmer og öðrum viðurkenndum perlufræðingum Norðurlanda. Það bendir m.a. í þá átt að yngri skálinn, sem þær hafa fundist í , sé reistur þó nokkru eftir landnám um 870, þ.e. þetta gamla góða hefðbundna landnám, sem því miður hefur orðið alls konar hjáfræði að bráð.

Til að gleðja Stöðvar-fornleifafræðinga sem sjá allt í hyllingum í arabískri eyðimörk, vill svo vel til að perlan lengst til hægri í neðri röðinni á mynd Fornleifafræðistofunnar (Sjá efst) er niðurhlutuð (segmenteruð) perla með silfurþynnu. Þær voru fluttar inn til Evrópu sem verslunarvara í tonnatali á löngu tímabili frá löndum Íslams, m.a. Egyptalandi. Þær má stundum finna í mannvistarleifum allt fram til um 1100 e.Kr. Það verður að vera plásturinn á sárið og perlan í grjúpáninu nú þegar auga Allah er komið alveg í  pung austur á Stöðvarfirði.

Lesið fyrri greinar Fornleifs um rannsóknir á Stöð í Stöðvarfirði hérhér og hér.

Heimildir:

Callmer, Johan (1977). Trade Beads and Bead Trade in Scandinavia ca. 800-1000 A.D. (Í Acta Archaeologica Lundensia, Series In 40. Nr. 11) Lund, Bonn.

Callmer, Johan (1995). The Influx of Oriental Beads into Europe during the 8th Century AD. í M. Rasmussen, U. Lund Hansen & U. Näsman (Eds.). Glass, Beads: Cultural history, techology, experiment and analogy. Lejre: Historical Arcaeological Experimental Centre, 94-54.

Torben Sode & Claus Feveile (2002) Segmenterede metalfolierede glasperler og blæste hule galsperler med metalbelægning fra markedspladsen i Ribe. By, marsk og geest 14, 5-14  (s hér).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband