Færsluflokkur: Gyðingar
Út skulu þeir...
5.2.2015 | 14:22
Margumtöluð kynþáttahyggja/útlendingahræðsla Framsóknar-flokksins á sér dálitla sögu, þótt hún sé líkast til ekki samhangandi:
Í nóvember 1938 skrifaði ríkisstjórn Hermanns Jónassonar til sendifulltrúa Íslands í Kaupmannahöfn, Sveins Björnssonar, og ítrekaði fyrri yfirlýsingar sínar: "Ríkisstjórnin principielt mótfallin að veita þýzkum Gyðingum dvalarleyfi Íslandi."
Hermann Jónasson hafði áður, í nóvember 1937, skýrt þetta út fyrir sendifulltrúa í sendiráði Dana í Reykjavík, C.A.C. Brun: "Island har altid før været et rent og nordisk Land, frit for Jøder, og de der er kommet ind de sidste Aar skal ud igen". Þessi ljósmynd var tekin í sendiráðinu við Hverfisgötu sama kvöldið og Hermann Jónasson (Framsókn) lýsti þessu yfir.
Lesið meira í bók minni Medaljens Bagside. Á vefsíðu forlagsins Vandkunsten er pdf-skrá með kaflanum sem segir frá afrekum Hermanns Jónassonar
Gyðingar | Breytt 6.2.2015 kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Spurning á 400 ára fæðingarafmæli Hallgríms
22.9.2014 | 07:08
Margrét Eggertsdóttir, einn helsti sérfræðingurinn á sviði starfs og lífs Hallgríms Péturssonar, hefur haldið því fram að það sé ekki að finna tangur né tetur af gyðingahatri í Passíusálmum hans. Hún hefur þó ekki sett fram nein haldbær rök fyrir því, utan að sveifla sérfræðingskortinu. Margrét er vitaskuld ekki gyðingur og leggur allt annað mat á illa orðræðu um gyðinga en gyðingar sjálfir, sem lesið hafa Passíusálmana og undrast það sem vel má kalla dýrkun þeirra og Hallgríms á Íslandi.
Hverjir aðrir en gyðingar hafa bestan skilning og dómgreind á því hvað gyðingahatur er? Þeir verða fyrir því hatri, og hafa orðið fyrir því síðan að frumkirkjan hóf að stunda skipuleg leiðindi og ofsóknir gegn þeim, ofsóknir sem leiddu til annars og verra og að lokum leiddi það af sér helförina og ofsóknir í garð Ísraelsríkis, sem til varð vegna afleiðinga hatursins í Evrópu og annars staðar.
Árið 2011 gagnrýndi Stofnun Símon Wiesenthals, SWC, dýrkun á Passíusálmunum á Íslandi, því stofnunin telur sálmana andgyðinglega. SWC freistaði þess að fá RÚV til að láta af árlegum lestri sálmanna. Margrét Eggertsdóttir sagði þá í raun rabbínum stofnunar Simon Wiesenthals, sem berjast gegn gyðingahatri, að þeir vissu ekki hvað gyðingahatur væri. Páll Magnússon útvarpsstjóri vitnaði í sérfræðiþekkingu hennar ákvörðun sinni til stuðnings. Passíusálmarnir verða lesnir um ókominn tíma á RÚV og eru jafnöruggur dagsskrárliður og hatur sumra fréttamanna RÚV í garð Ísraelsríkis. Á Íslandi vega orð Íslendinga meira en útlendinga og vitaskuld eru Íslendingar langtum meiri sérfræðingar í gyðingahatri en gyðingar. Þarf að spyrja að því?
En af hverju er þetta gyðingahatur í Passíusálmunum ekki að finna í þeim guðspjöllum sem Hallgrímur orti upp úr, eða telur Margrét bara að gyðingahatur sé óþarfa hársæri?
Fornleifur og fjöldi manna sem lesið hafa Passíusálma Hallgríms Péturssonar telja þá innihalda svæsið, guðfræðileg gyðingahatur (Anti-judaisma) 17. aldar, sem bæði er tímaskekkja og smekkleysa, sér í lagi ef sálmarnir eru taldir uppbyggilegir og jafnvel mikil list sem á erindi til fólks á 21. öld.
Til dæmis vekur það furðu manna erlendis, að dæmigert trúarlegt gyðingahatur 17. aldar, sem er mjög ríkt í Passíusálmunum, sé enn vinsælt og í hávegum haft á Íslandi á 21. öld. Menn undrast einnig að yfirlýstir guðleysingjar og trúleysingjar úr röðum íslenskra þingmanna og annarra stjórnmálamanna flykkjast í kirkjur fyrir páska til að lesa upp úr sálmunum (síðast hér). Helgislepjan er þá mikil, líkt og tvískinnungurinn. Þetta einkennilega trúaræði trúleysingjanna virðist reyndar vera bundið við Passíusálmana. Einhver fullnæging hlýtur að fylgja þessari fíkn yfirlýstra atheista eftir sálmalestri í kirkjum. Ég hef vitaskuld velt því fyrir mér, hvort það sé í raun gyðingahatrið í sálmunum um manninn sem þetta fólk trúir alls ekki á, sem gerir trúleysingja að sálmaáhugafólki?
Persónuleg lífsreynsla Hallgríms og gyðingahatur
Margrét Eggertsdóttir sagði um daginn við opnun nýrrar sýningar um Hallgrím á 400 ára afmælishátíð hans, að "persónuleg lífsreynsla Hallgríms skíni í gegnum margt af því sem hann hefur ort og gert."
Réttmæt þykir mér í því sambandi þessi spurning :
Hvaða lífsreynsla síra Hallgríms gerði það að verkum að hann er svo illur í orði gagnvart gyðingum, svo mikið að hvergi finnst annað eins í varðveittum trúarlegum kveðskap frá 17. öld?
Hér skal reynt að svara því:
Marteinn Lúther
Eins og allir vita ritaði Lúther, guðfræðingurinn með harðlífið, rætinn og sviksamlegan bækling um gyðinga Von den Jüden und i[h]ren Lügen sem út kom árið 1543. Hann bætti um betur og gaf sama ár út ritið Vom Schem Hamphoras und vom Geschlecht Christi, sem skreytt var með myndum af gyðingum í miður siðlegum atlotum við gyltu (sjá neðar), sem var vel þekkt minni úr kaþólskri list. Þrátt fyrir "siðbót" tók Lúther það versta upp úr kaþólskri "guðfræði".
Líkt og sumir Íslendingar hatast út í múslíma í dag og t.d. halal-slátrað kjöt þeirra, sagðist Lúther hafa borðað kosher mat, það er kjöt af gripum sem slátraðir voru schechíta (slátrað að hætti gyðinga), og hafa orðið illt af. Lúther taldi gyðinga hafa reynt að byrla sér eitur. Þau rit þar sem Lúther greindi frá þessu hatri sínu voru til í Kaupmannahöfn og hafa verið aðgengileg manni sem lærði til prests í Kaupmannahöfn. Þess ber einnig að geta að nasistar notuðust óspart við þessi rit Lúters sér til halds og gagns, og lúterska kirkjan hefur enn ekki beðist afsökunar á framferði sínu eins og t.d. sú kaþólska hefur verið að myndast við að gera. Í litlu lútersku landi á hjara veraldar þykir enn fínt að þylja andgyðinglega, lúterska sálma.
Sumir guðfræðingar lútersks siðar hafa afsakað þessi rit meistara síns með því að halda því fram að gyðingahatrið í Lúther hafi mest verið í nösunum á honum og hafi raun verið "hluti af stefnu hans gagnvart kaþólsku kirkjunni". Það er vitaskuld dómadags rugl. Bábiljan lifir sem sagt enn, og er varin af lúterskum trúfræðingum og líka kaþólskum. Þá er ekki að furða að menn dáist af Passíusálmunum, sem endurspegla andgyðinglega guðfræði Lúthers. En samt afneita "fræðimenn" og útvarpsstjóri Íslandi, og auðvitað Egill Helgason sá er allt veit, að það sé gyðingahatur í Passíusálmunum.
Gyðingahatur Lúthers, sem þjóðkirkja Íslendinga kennir sig við, hefur með sönnu mótað gyðingahatrið í Passíusálmunum. Hið trúarlega gyðingahatur voru helstu fordómar Norðurevrópumanna á 17. öld. Undantekningu var þó að finna í hluta samfélagsins í Hollandi.
Gyðingahatur var ríkt á tímum Hallgríms
Er Hallgrímur dvaldi í Kaupmannahöfn gekk bylgja af gyðingahatri yfir Danaveldi, fyrst og fremst ættuð úr Þýskalandi. Gyðingahatur var þó engin ný bóla, heldur löng hefð úr kaþólskum sið, sem Lúterstrúarmenn létu ekki af og gagnrýndu ekki. Gyðingahatrið var eins og elexír fyrir kristna trú á þessum tíma. Lúterskir biskupar Danmörku vildu fyrir enga muni leyfa gyðingum að setjast að í Danmörku þegar það kom til tals. Gyðingar voru hins vegar afar fáir í Danaveldi og þeir sem til Kaupmannahafnar komu og ætluðu sér að vera þar eða að halda til Íslands, var skipað að taka kristna trú. Það gerðist t.d. árið 1620 er Daniel Salomon, fátækur gyðingur frá Pólandi var skírður í Dómkirkju Kaupmannahafnar að viðstöddu margmenni og konungi. Síðar, árið 1625, fékk hann 6 ríkisdali frá konungi til að halda til Íslands. Þá hét hann ekki lengur Daniel, heldur Jóhannes Salómon.
Glückstadt
En leiðum hugann að veru Hallgríms í Danaveldi. Sagan segir, að áður en Brynjólfur Jónsson (síðar biskup) kom Hallgrími til náms við Frúarskóla í Kaupmannahöfn, hafi Hallgrímur hugsanlega verið járnsmíðasveinn bænum Glückstadt í Suður-Slésvík (Ekki Lukkuborg eins og sést hefur í ritum íslenskra sérfræðinga um Hallgrím; Lukkuborg eða Glücksburg er allt annar staður en Glückstadt).
Brynjólfur mun hafa heyrt Hallgrím bölva húsbónda sínum á íslensku. Portúgalskir gyðingar voru þá farnir að setjast að í Glückstadt, bæ sem Kristján 4. stofnaði árið 1616. Hugsast gæti að Hallgrímur hafi verið í vist hjá gyðingakaupmönnum sem hann bölvaði, eða verið nágranni þeirra, t.d. Samuel Jachja, sem einnig kallaði sig Albert Dionis (einnig Anis eða Denis og jafnvel Jan Didrichs; Portúgalskir Gyðingar notuðu oft mörg mismunandi nöfn allt fram á 20. öld; Þessi nafnafjöldi var oft til þæginda og til að koma í veg fyrir gyðingahatur), sem þekktur var fyrir myntfölsun og þrælaverslun og var einmitt beðinn um að setjast að í Danaveldi vegna þess, Samuel Jachja og auður hans og sá auður sem beindi til Glückstadts byggði bæinn upp. Hins vegar gæti Hallgrímur allt eins hafa verið vinnumaður Danans Hans Nansen, guðhrædds lúthertrúarmanns, sem settur var yfir Íslandsverslunina, Islandske Kompagni, sem frá 1628 hafði sínar bækistöðvar í Glückstadt. Auður Íslands var einnig notaður til byggingar bæjarins. Nansen var hins vegar einn versti arðræninginn sem "verslað" hefur á Íslandi í einokuninni. Hann varð síðar borgarstjóri Kaupmannahafnar, vellauðugur af viðskiptum sínum á Íslandi. Albert Dionis (Anis, Denis, Didrichs) setti ásamt öðrum gyðingum í Glückstadt einnig fjármagn í Íslandsverslunina og lagði til skip þegar fáir sigldu til Íslands.
Tíðarandinn var andgyðinglegur trúarlega séð, þó svo að konungur byði gyðingum fríhöfn í Glückstadt. Í Danmörku var öðrum en Lútherstrúarmönnum bannað að búa eða setjast að. Vinátta og gestrisni Kristjáns 4. við gyðinga af portúgölskum uppruna, sem hann leyfði að setjast að i Glückstadt kom sömuleiðis aðeins til af því að konungur sá sér fjárhagslegan ávinning í því. Hallgrímur gæti hafa kynnst gyðingahatrinu í bænum Glückstadt (ef upplýsingarnar í þjóðsögunni um veru hans þar eru réttar) og hann gæti einnig hafa kynnst því meðal guðfræðinganna sem kenndu honum í Frúarskóla í Kaupmannahöfn.
Það var ekkert í lífi Hallgríms, sem við þekkjum sem réttlætt getur hatrið í píslarlýsingum hans. Þetta hatur finnst, eins og áður segir, alls ekki í nýja Testamentinu nema ef það er túlkað á hatursfullan hátt, líkt og öfgamúslímar hafa túlkað Kóraninn til að myrða með honum og aflima fólk. Sálmarnir eru því afurð þess tíma sem Hallgrímur lifði á. Ef menn telja þann tíma eiga listrænt og siðferðilegt erindi við fólk á 21. öld, er kannski eitthvað mikið að í því landi sem slíkt gerist, eða hjá því fólki sem slíkt boðar. Þetta hatur var hluti af þeim tíma sem hann lifði á.
Passíubókmenntir 16. og 17. aldar
Fólk sem kallar sig sérfræðinga í lífi og verkum Hallgríms, og sem segir lífsreynslu hans hafa mótað list hans verða að kynna sér líf hans og tíðarandann í Danmörku og Glückstadt betur. Þeir verða að þekkja guðfræðilegt hatur kennara hans við Frúarskóla og hatrið í ritum Lúthers, hatrið í ritinu Soliloquia de passione Jesu Christi , píslarsögu eftir þýska skáldið Martin Moller (1547-1606) sjá hér, (Soliloquia de passione Jesu Christi ) sem greinilega hafa haft mikil áhrif á Hallgrím og sem var það sama og í Passíusálmum hans. Píslarsagan eftir Martein Moller, sem reyndar er ekki lesin upp í útvarpi í Þýskalandi, var gefin út á íslensku fram á miðja 18. öld í þýðingum Arngríms lærða og einnig Péturs Einarssonar lögréttumanns. Greinilegt er að eftirspurn hafi verið eftir slíkri afurð meðal Íslendinga í trúarhita 17. og 18. aldar.
Önnur íslensk skáld, sem uppi voru á sama tíma og Hallgrímur, voru ekki ekki eins hatrömm í garð gyðinga og hann. Jón Þorsteinsson prestur í Vestmannaeyjum, sem var veginn í Tyrkjaráninu skrifaði t.d. og fékk prentaða Genesis-sálma á Hólum, þar sem ekki var að finna snefil af illyrðum um gyðinga. Það hlýtur að hafa verið eitthvað í lífsreynslu Hallgríms sem gerði hann örðuvísi en t.d. Jón Píslarvott í Eyjum.
Meðan Passíónsbók Marteins Mollers er að mestu gleymd og grafin í Þýskalandi eru Íslendingar, og jafnvel örgustu trúleysingjar á hinu háa Alþingi, á kafi í dýrkun Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Þegar menn gera sér grein fyrir því að Hallgrímur var ekkert öðruvísi en samtími hans, sjá þeir kannski hatrið sem skín út úr sálmum hans.
Það er frekar frumstætt hatur 16. og 17. aldar sem ekkert erindi á til okkar á 21. öld frekar en hatursrit Marteins Lúthers, safarík passíón Mollers eða þá Öfgaíslam.
Gyðingar | Breytt 11.2.2021 kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Flogið hátt
27.3.2014 | 10:00
Grein þessi birtist árið 2008 í því ágæta riti Sagan Öll með titlinum "Flogið hátt lotið lágt".
Fimmtíu ár voru liðin síðastliðið sumar frá því að nokkuð sérstætt loftfar sást á sveimi yfir Íslandi. Þetta var mannaður loftbelgur og flug hans var hið fyrsta sem farið var á slíku fari yfir Íslandi. Flugferðin átti sér stað sunnudaginn 23. júní 1957 í tengslum við Flugdag sem Flugmálafélag Íslands hélt. Flugmálayfirvöld höfðu fengið tilboð um sýningu á loftbelgsflugi frá hollenskum hjónum, Jo og Nini Boesman, sem þá voru orðin heimsfræg fyrir lofbelgjaflug sín víða um lönd. Ákveðið var að bjóða hjónunum hingað og komu þau með lofbelginn Jules Verne, sem var nýkominn úr sinni fyrstu för. Lofbelgir þessa tíma voru gasbelgir, frábrugðnir þeim belgjum sem mest eru notaðir í dag, þar sem notast er við heitt loft sem er blásið inn í belginn með gasblásara. Reyndar var líka notast við heitt loft í fyrstu lofbelgina á 18. og 19. öld en oft tókst illa til og belgir áttu það til að hrapa til jarðar.
Lent við Korpúlfsstaði
Gasbelgur eins og Jules Verne var eins og stór blaðra fyllt með vetni. Vetnið í belginn fékkst á Íslandi í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Gasbelgir þessa tíma voru umvafðir sterku, stórmöskva neti sem tengdist burðarlínunum sem karfan hékk í. Þegar landfestar voru leystar og sandpokar tæmdir, steig belgurinn fullur af vetni til himins eins og lögmál gera ráð fyrir. Ef belgfarar vildu til jarðar töppuðu þeir hins vegar smám saman vetni af belgnum.
Flugbelgnum Jules Verne var flogið frá Reykjavíkurflugvelli og lent var á túninu við Korpúlfsstaði. Ekki var því um langa ferð að ræða. Mikilvægur þáttur við þetta flug var póstur sá sem mönnum bauðst að senda með belgnum. Áhugafólki um frímerki, sem var fleira þá en nú, bauðst að senda bréfkort eða ábyrgðarbréf með belgnum. Bréfin og kortin voru stimpluð með sérstökum stimplum, sem síðar skal vikið að. Þegar sérstöku pósthúsi ballónflugsins á Reykjavíkurflugvelli var lokað klukkan þrjú eftir hádegi og umslög og kort höfðu verið stimpluð, var þeim vandlega komið fyrir í 10 kg póstpoka sem var lokað og hann innsiglaður. Í honum voru 2.480 bréf samkvæmt frétt Morgunblaðsins tveimur dögum síðar.
Belgurinn flaug svo af stað í góðu veðri og sveif austur fyrir borgina með Boesman-hjónin prúðbúin undir flugsamfestingnum. Þegar loftbelgurinn lenti við Korpúlfsstaði var þar margmenni sem tók á móti belgnum og reyndi að hemja hann þegar hann lenti. Allt gekk vel í þessari fyrstu belgför á Íslandi. Póstritari frá Pósti og síma fór með póstsekkinn að pósthúsinu að Brúarlandi í Mosfellssveit og voru kort og bréf, sem hollensku hjónin höfðu haft milli fóta sinna í mjög lítilli körfu belgsins, stimpluð móttökustimpli, og aftur í Reykjavík áður en bréfin voru send móttakanda.
Hollendingarnir fljúgandi
Boesmann hjónin, Jo (1914-1976), sem einnig kallaði sig Jan, John og Johan og Nini (fædd Visscher, 1918, andaðist 2.júní 2009), höfðu bæði flogið síðan á fjórða áratugnum. Reyndar flaug Jo ekki mikið á stríðsárunum. Hann var gyðingur og þurfti því að fara í felur. Hann hafði fyrst flogið loftbelg árið 1934 og hún árið 1937. Eftir stríð giftust Jo og Nini og fóru hjónin víða og flugu mismunandi flugbelgjum í fjölda landa. Oft var flug þeirra fyrsta flugbelgsflug sem
Mynd 1. Loftbelgurinn Jules Verne tilbúinn til brottfarar á Reykjavíkurflugvelli. Sjóklæðagerðin og Belgjagerðin höfðu greinilega keypt sér góða auglýsingu á belgnum. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.
Mynd 2. Loftbelgurinn Jules Verne, með einkennisstafina OO-BGX, stígur til himins frá Reykjavíkurflugvelli. Belgurinn var búinn til í Belgíu hjá lofbelgjagerð Albert van den Bembdens og var fyrst skráður 31. maí 1957. Í körfunni standa Boesman hjónin prúðbúin að því virðist [Þetta er reyndar faðir minn heitinn sem boðið var í prufuferð með frú Nini Boesman]. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.
flogið var í þessum löndum. Þannig voru þau fyrst til að fljúga lofbelg yfir Grikklandi árið 1952, á Jamaíku 1953, í Súrínam 1955, Suður-Afríku 1958, í Ísrael og Írak árið 1959, Malí 1963, Pakistan 1964, Júgóslavíu 1967 og Marokkó 1968. Á ferli sínum sem kapteinar á belgjum, fóru þau því víða og gaf Jo Boesman út þrjár bækur um ævintýri sín og flugbelgjaflug t.d. Wij waren en de Wolken (Við vorum í skýjunum) og seinni útgáfa þeirrar bókar Luchtic Avontuur (Ævintýri í loftinu). Löngu eftir dauða hans var gefin út bókin Gedragen door de Wind (Á valdi vindsins) (1990) sem fjallar um 50 ára feril Nini Boesman, sem enn er á lífi. Bæði hjónin teljast til fremstu belgfara 20. aldarinnar.
Kaffiboð var munaður
Mér sem er höfundur þessarar greinar og fæddur þremur árum eftir að þetta fyrsta ballónflug átti sér stað, þótti ávallt gaman að heyra um og skoða myndir frá ballónfluginu árið 1957 í myndaalbúmi foreldra minna. Faðir minn hafði, sökum þess að hann var ættaður frá Hollandi, komist í samband við ballónfarana og lenti í því að greiða götu þeirra og uppvarta þá á ýmsan hátt og varð úr því nokkuð amstur, enda ævintýrafólk oft fyrirferðarmikið. Myndir þær sem fylgja þessari grein voru allar teknar af móður minni og föður. Eins og fram kemur var ballónförunum boðið í íslenskt kaffiboð með tertum, smákökum og öllu tilheyrandi. Í Hollandi þekktust ekki slík kaffiboð og -borð á þessum tíma. Allt var enn skammtað og Hollendingar voru lengi of fátækir eftir Síðari heimsstyrjöld til að leyfa sér slíkan munað. Kökurnar féllu greinilega flugbelgsförum í geð og var ein rjómaterta móður minnar skreytt með mynd af lofbelgnum.
Mynd 3. Frá vinstri sitja Jacques Deminent vinur og samstarfsmaður Boesman hjónanna í Haag, Jo Boesman, standandi er móðir höfundar sem býður kaffi og kökur og til hægri við hana situr Nini Boesman. Ein hnallþóran var skreytt með mynd af loftbelgnum Jules Verne. Ljósm. Vilhjálmur Vilhjálmsson.
Grunsamlegur Ballónpóstur
Hinn 8. febrúar 1958 skrifaði Jónas Hallgrímsson (1910-1975) forstöðumaður Manntalsskrifstofunnar í Reykjavík og frímerkjafræðingur einn af sínum mörgu frímerkjapistlum í Morgunblaðið. Fyrirsögn greinarinnar í þetta sinn var hins vegar aðeins frábrugðin því sem menn áttu að venjast í fáguðum frímerkjapistlum Jónasar: Íslenzkur ballón-póstur´ falsaður" stóð þar:
Þess hefur orði vart hjá bresku fyrirtæki, sem sérstaklega er þekkt vegna sölu alls konar flugfrímerkja og umslags sem send hafa verið með sérstökum flugferðum, að það hefur haft á boðstólum póstkort sem á er stimplað, að þau hafi verið send með loftbelg þeim, er hóf sig til flugs á Reykjavíkurflugvelli 23. júní 1953 og tók með sér takmarkað magn af pósti ... Verð þessara póstkorti hjá fyrirtæki þessu er aðeins 15 shillings, en vitað er að verð þeirra bréfa, sem send voru með loftbelgnum fór ört hækkandi skömmu eftir að flugið átti sér stað og hafa umslög þessi komist í allhátt verð og að undanförnu verið seld á 350 kr. stykkið. - Óneitanlega vakti það athygli manna, að komast að því hvernig þessu var háttað og skrifaði því safnari hér í bænum fyrirtæki þessu og bað um að senda sér eitt ballón" umslag, en fékk það svar, að umslög þau sem send voru með loftbelgnum væru ekki fáanleg, en í stað þess var honum sent póstkort það er hér birtist mynd af, en það sem það sem strax vakti athygli, var það að í fyrsta lagi var kortið stimplað með venjulegum Reykjavíkur stimpli og dagsetningin í honum - 26.6.1957 - en eins og áður segir var haldinn flugdagur Flugmálafélagsins 23. júní 1957."
Skrýtin póstkort
Ekki var nema von að Jónas frímerkjafræðingur hafi klórað sér í höfðinu þegar hann sá þessi skrýtnu póstkort. Til að fá stimpluð ábyrgðarbréf og póstkort á Reykjavíkurflugvelli þann 23. júní 1957 urðu menn að setja minnst 25 krónur á ábyrgðabréfið og 90 aura á póstkortin sín. Bréfin voru stimpluð með póststimpli Flugdags á Reykjavíkurflugvelli á framhlið en á bakhlið með póststimpli pósthúsanna á Brúarlandi og í Reykjavík.
Á framhlið bréfanna var einnig sérstakur sporöskjulaga stimpill lofbelgsfaranna, sem á stóð The Hague Balloon-Club Holland, on board of the freeballon Jules Verne", Ballooncomm[ander]. John Boesman." Á kortinu sem hægt var að kaupa í Lundúnum, var aðeins póststimpill pósthússins í Reykjavík með dagssetningunni 27.6. 1958, en engir stimplar á bakhlið eins og á bréfunum frá 23.júní. Á póstkortunum sem voru til sölu á 15 shillinga voru hvorki 25 kr. eða 90 aurar í frímerkjum. En þau báru hins vegar stimpil Jo Bosesmans, sem hafði verið notaður þann 23. júní, en þar fyrir utan var stimpill, sem á stendur: FLUG MALAFELAG ISLANDS: FIRST FLIGHT BY DUTCH BALLOON: Pilots: John & Nini Boesman, REYKJAVIK - 1957.
Mynd 4. Stimplar ballónflugsins. Hinn opinberi (neðst) og stimpill sem notaður var á fölsuð umslög sem seld voru í London. Báða stimplana stimpluðu Boesman-hjónin í gestabók í Reykjavík 26. júní 1957
Ef þessi grunsamlegu kort, sem Jónas Hallgrímsson bar réttilega brigður á eru skoðuð nánar, er augljóst að einhverjir hafa reynt að gera sér belgflugið að féþúfu með vafasömum hætti. Vafalaust voru það Boesmann hjónin sjálf. Póstkortin bera stimpil þeirra, sem þau ein höfðu undir höndum, og íslenskan á einum stimplanna bendir ekki til þess að Íslendingur hafi staðið að gerð þessara korta.
Alvarlegt mál
Þessi póstkort, sem enn eru á markaðnum, og sem valda því að menn erlendis og á veraldarvefnum telja ranglega að fyrsta flug loftbelgs á Íslandi hafi átt sér stað 26. júní 1957, en ekki þann 23. júní, bera oft myndir af þeim hjónum. Slík kort hafa vart verið til í miklum mæli á Íslandi og er því afar ólíklegt að aðrir en Boesman hjónin sjálf hafi verið að reyna að drýgja tekjurnar með minjagripasölu þessari.
Jónas Hallgrímsson hvatti árið 1958 yfirvöld til að rannsaka þessi dularfullu umslög og hann orðaði áskorun sína þannig: Það gefur því auga leið, að um alvarleg vörusvik er að ræða eða jafnvel fölsun á verðmætum og vil ég eindregið vara safnara við að kaupa ekki þessi póstkort þótt þeir hafi tækifæri til ...Vegna þessa atburðar, ættu þeir aðilar sem að þessu ballón" flugi stóðu, t.d. Flugmálafélag Íslands og póststjórnin, að taka þetta mál til rækilegrar rannsóknar og fá úr því skorið hvaðan þessi póstkort hafa borizt á frímerkjamarkað erlendis".
Ekki mun það hafa gerst svo kunnugt sé. Þetta mál var reyndar smámál miðað við frímerkjamisferlismálið sem kom upp árið 1960. Nokkrir starfsmenn Pósts og Síma urðu þá uppvísir að því að taka gömul frímerki í stórum stíl úr geymslum Póstsins. Það mál var, þótt alvarlegt væri, ekki aðalskandallinn á Íslandi árið 1960. SÍS málið svokallaða var í algleymingi og var það meira að vöxtum en rauður loftbelgur og nokkur umslög.
Mynd 5. Tveir menn halda á póstpokanum sem flogið var með í lofbelgnum. Pokinn innihélt umslög heiðvirðra póstáhugamanna og -safnara, sem sáu fram á skjótan gróða af umslögum sínum sem send voru með loftbelgnum. Á þessum tíma þótti frímerkjasöfnum hollt og gagnlegt tómstundargaman, sem menn brostu ekki að eins og oft er gert er í dag. Sumir gerðu sér þá grillu að frímerki ættu eftir að verða góð fjárfesting, sérstaklega örfá umslög sem höfðu verið send í fyrstu ferð lofbelgs á Íslandi. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.
Mynd 6. Starfsmaður Pósts og Síma heldur á innsigluðum poka með bréfum og kortum sem send voru með lofbelgnum. Árið 1960 var þessi og aðrir starfsmenn Pósts og staðnir að misferli með frímerki úr safni Póstsþjónustunnar. Hinir seku voru dæmdir í fangelsi og háar fjársektir fyrir að hafa stungið gömlum og fágætum frímerkjum, sem geymd voru í læstum skáp, í eigin frímerkjasöfn eða selt þau. Ljósm Erla Vilhelmsdóttir.
Mynd 7. Loftbelgurinn nýlentur á Korpúlfsstaðatúni. Nini Boesman situr i körfunni og til vinstri við hana standa Jacques Deminent og Jo Boesman. Maðurinn með hattinn er starfsmaður Pósts og Síma. Ljósmynd Erla Vilhelmsdóttir.
Minnisstæð för
Hvað sem líður misferli með umslög og frímerki flugdaginn árið 1957, var ferð Boesman-hjónanna þeim minnisstæð. Nini Boesman gefur litríka lýsingu af því sem gerðist á Íslandi í endurminningum sínum sem gefnar voru út. Hún greinir þar frá flugi belgsins á flugdeginum og segist hafa verið í lofbelgnum Marco Polo, sem er misminni. Hún lýsir aðdragandanum og ferðinni og vandamálum við að fylla belginn með vetni frá Gufunesi, því ekki voru til nægilega mörg gashylki í Gufunesi til að fylla hann í einni umferð.
Hún minnist þess að Agnar Kofoed Hansen flugmálastjóri hafi boðið þeim belgflugshjónum í flugferð í Cessnunni sinni til að sýna þeim landslagið fyrir flugferðina. Hún lýsir Reykjavík úr lofti sem stórri litríkri blikkdós, þar sem sum þökin voru máluð ljósblá, önnur rauð, gul eða græn. Fólk vinkaði til hennar frá svölum sínum og húsþökum og hrópaði eitthvað sem Nini Boesman túlkaði sem góða ferð".
Fúlskeggjaður villimaður
En eitthvað hafa minningar hennar verið komnar á loft 32 árum eftir flugið. Hún lýsir lendingunni og segið að það hafi fyrstur komið á vettvang maður, með langt og mikið skegg. Hún hélt að hér væri kominn einhver villimaður og vissi ekki hvað á sig stóð veðrið. Svo tók sá skeggjaði til máls og tilkynnti henni á fínni ensku, að hún væri lent í landi Þingvalla, þar sem Alþingi hefði verið stofnað árið 930. Sá skeggjaði hafði verið í Kína í áraraðir en var nú sestur í helgan stein sem bóndi og umsjónamaður lítillar kirkju.
Sá skeggjaði gæti hafa verið sr. Jóhann Hannesson síðar prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands (1910-1976), sem var þjóðgarðsvörður á þessum tíma. Hann hafði verið trúboði í Kína og var með snyrtilegt skegg, en var langt frá því að geta talist villimannlegur. Ætlunin hafði verið að reyna að komast til Þingvalla, en belgurinn komst ekki lengra en til Korpúlfsstaða, þar sem hann lenti heilu og höldnu eftir tveggja og hálfs tíma flug. Þar var þegar saman komið margmenni er belgurinn lenti. Nini Boeseman lýsir því svo hvernig hinn skeggjaði maður létti henni biðina þangað til að bílar komu aðvífandi. Fyrstur á staðinn var póstmeistarinn" sem spurði: hvar er pósturinn"? og frú Nini Boesman segist hafa hafið póstpokann sigursællega á loft og fengið rembingskoss fyrir af póstmeistaranum, sem spurði hvor að ekki væri allt í lagi um borð. Hann ku svo hafa dregið fram flösku af ákavíti og hellt á mannskapinn sem skálaði fyrir ferðinni. Svona er sagan auðvitað skemmtilegri, þótt margt af því sem frú Boesman man sé greinilega misminni eða hreinar ýkjur.
Hvað varð svo um belginn Jules Verne? Hann breytti um nafn eftir hentugleikum en gekk einatt undir gælunafninu Le Tomate, eða tómaturinn. Hann var tekinn af skrá árið 1973 og var þá kallaður Pirelli þar sem hann flaug fyrir samnefnt dekkjafyrirtæki.

Mynd 8. Loftbelgurinn nýlentur á Korpúlfsstaðatúni og margmenni tekur á móti honum. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.
TF-HOT
Löngu síðar, eða 1972, var mönnuðum lofbelg aftur flogið á Íslandi. Það gerði ungur maður sem á menntaskólaárum sínum í Hamrahlíð hafði gert tilraunir með lofbelgi og geimflaug. Geimflaugin fór reyndar hvergi, þar sem geimflugasmiðirnir höfðu ruglast á tommum og sentímetrum á breidd eldsneytistanks flaugarinnar. Holberg Másson, einn geimskotsmanna, sem flaug loftbelg á Sandskeiði árið 1972 keypti síðar almennilegan flugbelg frá Bretlandseyjum árið 1976 og flaug mikið með farþega sumarið 1976. Meðal annars gafst mönnum möguleiki á því að fara í loftferðir með loftbelgnum TF-HOT á útihátíð við Úlfljótsvatn. Belgurinn var heitaloftsbelgur og því mjög frábrugðinn belgnum Jules Verne sem flogið var hér sumarið 1957. Reyndar var breskur belgfari, Dunnington að nafni, um tíma búinn að ræna heiðrinum af Holberg Mássyni, en þóttist hann vera fyrsti maður sem flaug heitalofts loftbelg á Íslandi árið 1988.
Hassi smyglað með loftbelg
En ekki var önnur kynslóð loftbelgja á Íslandi laus við skandal frekar en sú fyrsta, en það mál var miklu alvarlegra en nokkur frímerki og fölsuð fyrstadagsumslög. Eigandi belgsins TF-HOT, Holberg Másson, sem einnig reyndi við heimsmet i lofbelgsflugi í Bandaríkjunum, smyglaði hassi með lofbelg sem hann flutti inn frá Bandaríkjunum til Íslands. Síðar, þegar þessi loftbelgsfari var búinn að afplána dóm sinn, varð hann fyrsti maðurinn á Íslandi til að tengjast tölvuneti og var reyndar líka frumkvöðull í pappírslausum viðskiptum fyrirtækja á Íslandi. Slíkar aðgerðir hafa síðan hafið sig í ólýsanlegar hæðir. Kannski eru miklu fleiri Íslendingar komnir í hörku belgflug án þess vita það. En ef menn eru í vímu í háloftunum er það vonandi frekar út af fegurð landsins en vegna kynlegra efna.
Síðastliðið sumar var flogið með lofbelg á norðanverðu landinu, til dæmis við hvalaskoðun, og þykir þetta greinilega ekkert nýmæli lengur. Sumarið 2002 var hér á landi svissneskur hópur frá verkfræðistofu með grænan belg sem þeir flugu um allt land (hægt er að skoða myndir þeirra á veraldarvefnum: http://www.inserto.ch/ballon/20022006/index.html# [Hlekkurinn er ekki lengur virkur], þar sem líka er hægt að lesa greinagerð þeirra um ferðina).
Eitt hinna löglegu "fyrstadagsumslaga" frá 23.6.1957. Geðþóttaákvörðun póstmeistara í Reykjavík réði því að flugpósturinn sem flaug í loftbelgnum yrðu að vera merktur sem ábyrgðarpóstur. Hér hefur sendandinn fengið Nini Boesman til að árita umslagið sem flaug með flugbelgnum.
Gyðingar | Breytt 9.2.2025 kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eimskipasaga
18.1.2014 | 10:25
Saga Eimskipafélags Íslands eftir Guðmund Magnússon kom aftur út í gær. Guðmundur, sem nú er aftur orðinn blaðamaður á Morgunblaðinu, var eitt sinn Þjóðminjavörður Íslands, og var einn af þeim betri í því starfi. Þessa grein, sem tengist Eimskipafélaginu og mörgum örðum skipafélögum, birti ég fyrst árið 2008, en birti hana hér aftur með afmæliskveðjum til skipafélagsins sem flutti bróðurpartinn af því sem faðir minn flutti til landsins meðan hann var heildsali um 35 ára skeið.
Ég man eftir ófáum ferðum mínum með föður mínum í Eimskipafélagshúsið, þar sem við fórum með gömlu lyftunni upp á stóra skrifstofu, þar sem faðir minn fékk pappíra sem voru stimplaðir og svo var farið í bankann og upp í Arnarhvál til að fá aðra stimpla og stundum líka á Tollpóststofuna til að fá enn fleiri stimpla. Svo var náð í vörur og ók Hallgrímur nokkur frá Sendibílastöðinni Þröstum fyrir föður minn. Hallgrímur var frændi Ólafs Ragnars Grímssonar. Hallgrímur keðjureykti London Docks vindlinga, sem ég "reykti" glaður óbeint þegar ég fékk að hjálpa til við að aka út vörum í verslanir. Í Eimskipafélagshúsinu fór ég líka stundum til rakarans sem þar var.
Ekki er ég viss um að Guðmundur Magnússon hafi þessa sögu frá 1940 með í bók sinni, þó hún varði lítillega Eimskipafélagið:
5. febrúar árið 1940 fór Valerie Neumann, 65 ára (f. 13.10. 1874) kona í Vín Austurríki, í sendiráð Dana í Vín og sótti um 14 daga landvistarleyfi í Danmörku, til þess að bíða þar eftir skipi til Íslands. Erindi hennar var sent til útlendingadeildar Ríkislögreglunnar í Kaupmannahöfn, sem hafði samband við skipafélög sem sigldu á Ísland.
Danska skipafélagið DFDS upplýsti, að ekki yrði siglt í bráð til Íslands, þar sem hætta væri á því að skip félagsins yrðu tekin af Bretum og færð til hafnar á Bretlandseyjum, sérstaklega ef "þýskir þegnar" væru um borð. Danska lögreglan fór annars með umsókn Valerie Neumann sem umsókn gyðings og færði hana inn í skýrslur sem Valeire Sara Neumann. Lögreglan gerði DFDS það ljóst að Valerie Neumann væri gyðingur frá Austurríki. Þýsk yfirvöld kröfðust þess að gyðingakonur bæru millinafnið Sara í skilríkjum sínum og karlar millinafnið Israel. Hún var líka afgreidd sem Valerie Sara Neumann í Danmörku.
Eimskipafélagið hf upplýsti, þegar mál Valerie Söru Neumann var borið undir það, að maður myndi gjarnan taka þýska ríkisborgara með á skipum sínum, ef þeir hefðu meðferðis vottorð frá breskum yfirvöldum. Eimskipafélagið vissi hins vegar vel að þýsk yfirvöld gáfu ekki út nein slík vottorð.
Danski lögreglufulltrúinn H. Krause, sem var nasisti og gyðingahatari, skrifaði í skýrslu sína um Valerie Neumann: "Það kom fram í máli félagsins að maður vildi helst vera laus við farþega sem kynnu að valda vandamálum eða seinkunum fyrir skipið".
Norðmenn neituðu líka Valerie Neumann um leyfi til að bíða eftir skipi til Íslands í Bergen.
Nokkrum mánuðum síðar, eftir að Valerie Neumann ítrekaði umsókn sína og einnig fjölskylda hennar á Íslandi, maður systudóttur hennar Viktor Ernst Johanns von Urbantschitsch (Urbancic) sem var búinn að kaupa handa henni farmiða, var aftur haft samband við Eimskipafélag Íslands í Kaupmannahöfn. (Í skjölum danska sendiráðsins í Reykjavík og danska utanríkisráðuneytins var Viktor sagður systusonur Valerie, en hið rétt er að Valerie var systir Alfreds Grünbaum föður Melittu Urbancic, konu Viktors).
Eimskipafélagið upplýsti þann 5. apríl 1940 að það hefði verið svo mikið "Vrøvl" og erfiðleikar með bresk yfirvöld, svo það væri ekki hægt að leyfa frú Neumann að sigla, nema að hún fengi bresk vottorð og gildandi íslenskt landgönguleyfi. Í lögregluskrýrslu Ríkislögreglunnar dönsku kemur þetta fram
"Islands Eimskipafjelag, Strandgade 35, forkl. at man ikke har noget egentligt Forbud mod at medtage en saaden Passager, selv om man for saa vidt helst er fri, da det ved et Par enkelte tidligere Lejligheder har vist sig, at man faar en del "Vrøvl go Ubehageligheder med de engelsek Kontrebandemyndigheder", ja endog kan risikere af samme Grund at blive ført til engelsk Kontrolhavn. - Man vil kun medtage den. pgl., hvis hun forinden har en officiel britisk Attest, som sikrer hende "frit Lejde", og naturligvis mod gyldigt islandsk Indrejsevisum."
Skrifstofa félagsins í Kaupmannahöfn upplýsti að siglt yrði þann 10. apríl og svo aftur 1. maí. Embættismaður við Ríkislögregluembættið, Troels Hoff, ákvað hins vegar sama dag, að Valerie Neumann fengi ekki leyfi til að dvelja í Danmörku.
Fjórum dögum síðar buðu Danir, svo að segja án nokkurrar mótspyrnu, þýsku herraþjóðina velkomna. Og já, ekki má gleyma því að Þjóðverjar, sem Íslendingar báru svo mikla virðingu fyrir, tóku Gullfoss traustataki í Kaupmannahöfn.
Valerie Neumann sat áfram í Vín og fjölskyldan á Íslandi var rukkuð um 31 íslenskar krónur fyrir símskeytakostnaði í bréfi dags. 28. nóvember 1940. Áður hafði danska forsætisráðuneytið minnt á þessa skuld í bréfi til Sendifulltrúa Íslands í Kaupmannahöfn.
Danir fengu peningana sína, eins og alltaf, og Eimskip losnaði við vandræði. Nasistar fengu Gullfoss og var skorsteinsmerki skipsins þeim líkast til að skapi.
Valerie Neumann var send í fangabúðirnar í Theresienstadt 21. eða 22. júlí 1942. Andlát hennar var skráð 9. ágúst 1944. Hvort hún hefur dáið þann dag eða verið send í útrýmingarbúðir, er óvíst.
Skömmu áður en Valerie andaðist höfðu nasistar búið til áróðurskvikmynd um ágæti þessara fangabúða í fyrir utan Prag. Í kvikmyndinni sést fólk í sparifötunum við ýmsa iðju. Flestir þeir sem þarna sjást voru sendir til útrýmingarbúðanna Auschwitz og Sobibor að loknum myndatökunum, m.a. kvikmyndagerðamaðurinn. Kvikmyndin sýnir gyðinga frá Austurríki, Hollandi, Danmörku, Austurríki og Tékkóslóvakíu.
Hér og hér eru tvö skeið úr áróðurskvikmyndinni frá Theresienstadt.
Viktor Urbancic, kona hans Melitta (f. Grünbaum) og fjölskylda í Reykjavík. Á flótta undan hakakrossinum varð annar slíkur, íslenskur, á vegi þeirra. Hefði Eimskipafélagið og aðrir aðilar verið sveigjanlegri, hefði frú Valerie Neumann, móðursystir Melittu, hugsanlega verið með þeim á myndinni. Móðir Melittu, Ilma, andaðist í Theresienstadt í janúar 1943.
Gyðingar | Breytt 27.1.2022 kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óð Snorri Sturluson líka í gyðingahatri?
20.11.2013 | 12:22
Á hinum síðustu og verstu tímum, þegar gyðingahatur hefur sjaldnast verið meira í Evrópu og "venjulegir" Íslendingar skrifa í umræðu á Smettiskruddu um umskurn, að gyðingar séu sjálfir að kalla yfir sig nýja helför, meðan enn aðrir segja fjálglega frá því að þeir hafi á ævi sinni "lent í ferlegum Gyðingi, sem beitti bæði slægð og kænsku til að græða á þeim sem öðrum, laug, sveik og stal og það..." (sjá athugasemdir þann 10. nóvember 2013 á snjáldurskinnu Ragnhildar Pálu, sem er mikill vinur gyðinga).
Þegar svo hræðilega er komið fyrir Íslendingum í ófétis hatrinu og fordómunum, er áhugavert að detta ofan á nýja fræðigrein um Snorra Sturluson og gyðinga. Ég hef sjálfur skrifað niðursoðna, en þó mest lesnu (og stolnu) sögu gyðinga á Íslandi (sjá hér), en hefi aldri rekist á neitt um að Snorri forfaðir minn, og okkar margra, eigi að hafa ritað um gyðinga eða gyðingdóm. Hann velti vissuleg fyrir sér þjóðum að sið fróðra samtíðarmanna sinna, sem vissu mest lítið um allt. En það er glænýtt fyrir mér að Snorri hefði verið að gangast upp í gyðingum. Hann nefnir gyðinga ekki einu sinni í Eddu sinni.
Ungur fræðimaður við Harvard/UCL, Richard Cole að nafni, hefur mikið velt fyrir sér frásögnum af gyðingum í fornbókmenntum Norðurlanda. Í nýrri grein (sem hér er í nýjustu gerð sinni frá 2017, en þessi grein var skrifuð á grundvelli "draft" gerðar. Richard hefur breytt grein sinni eitthvað) sem hann hefur ritað um gyðinga og Snorra Sturluson er margt á huldu og flest mjög tilgátukennt. Segir Cole reyndar sjálfur að hugmyndir sínar, sem eru vægast sagt frekar langsóttar, séu kannski "unpalatable". Ég verða að viðurkenna að mér þykir tilgáta Cole algjörlega óæt, þótt margt áhugavert sé hægt að lesa í grein þessa unga, áhugaverða fræðimanns sem ég fylgist með á Academia.edu.
Múspells synir voru synir jötunsins Múspells, sem samkvæmt Snorra áttu að ríða að Bifröst til að berjast við æsina við Ragnarökkur á Vígríðarvelli ásamt öðrum illfyglum eins og Surti, Fenrisúlfinum og Miðgarðsormi. Cole telur að Snorri lýsi Múspels sonum í Eddu sinni (ca. 1215) með minnum sem notuð voru til að lýsa gyðingum, sér í lagi svo kölluðum "rauðum gyðingum" í frásögnum af Antikristi. Telur Cole að Snorri sé að nota lýsingar af "Rauðu gyðingunum" þegar hann lýsir Múspells sonum. Samkvæmt miðaldahindurvitnum áttu þeir að búa í Kákasus, einangraðir mjög, og áttu þeir að koma á hinsta degi til að berjast við góð öfl og til að koma í veg fyrir ætlunarverk Krists.
Sér Cole margt líkt með lýsingum á rauðu gyðingum og sögum af Loka og af þursunum Múspellssonum. Segir hann að kenningin Muspellz synir hjá Snorra sé "halfrím" við kenninguna Ísræls synir sem er skilgreining sem gefin er á gyðingum í Stjórnahandriti (AM 226 and 228 folios) sem er samansafn frásagna úr Gamla Testamentinu og er frá 14. öld, en ekki þeirri 13. eins og Cole heldur fram. Vitnar Cole einnig til miðaldakvæðis sænsks og miðaldatréristu máli sínu til stuðnings. En Cole gleymir hins vegar að segja okkur að sænska miðaldakvæðið Konung Alexander, sem inniheldur frásögn af "rauðum júðum", er frá 1380 og tréristan sem han birtir mynd af í grein sinni er úr þýska ritinu Der Antichrist frá 1480. Elsti textinn sem nefnir rauðu gyðingana er handritið Der Jungere Titurel frá 1272 , og telur Cole að sagan þar af rauðgyðingunum geti byggt á miklu eldri heimildum. Engar sönnur eru þó færðar fyrir því eða í riti því sem Cole vitnar í eftir Andrew Colin Gow. The Red Jews. Antisemitism in an Apocalyptic Age 1200-1600. (Leiden: E.J. Brill, 1995). Mér þykir í hæsta máta ólíklegt að Snorri Sturluson (1179-1241) hafi verið búinn að ná sér í hugmyndir sem byrjuðu að gerjast eftir 1220 suður í Evrópu.
Þessa mynd notar Cole til að færa rök fyrir að lýsingar Snorra á Múspells sonum séu lánaðar af lýsingum miðaldaruglubókmennta um svokallaða "rauða júða". Myndin er hins vegar ekki frá tímum Snorra, heldur frá 1480.
Grein Coles er tilraun til tilgátu. Hann setur ekki fram nein óyggjandi sannindi um þekkingu Snorra Sturlusonar á gyðingum eða notkun hans á gyðingalýsingum þeim sem hann telur að Snorri heimfæri upp á aðra óvinsælar eða óferjandi fígúrur. Mér finnst Cole gera Snorra upp þekkingu á fræðum og kreddum sem alls ekki eru varðveittar frá tímum Snorra sjálfs.
Ekki ætla ég að útiloka, að Snorri hafi þekkt til gyðingahaturs. Hugsanlega hefur Snorri fengið að láni einhver hatursminni um illsku gyðinga til að heimfæra á þurs úr Múspellsheimum. En ef ekki liggja fyrir betri heimildir en þær sem Cole framreiðir, verður þetta í mesta lagi skemmtileg tilgáta og tómar vangaveltur.
Myndin efst er niðurlensk eða þýsk trérista á pappír frá ca. 1470, sem sýnir gyðinga ræða við Jóhannes skírara. Gyðingahatur, sem Cole sér bergmálast í lýsingum Snorra á Múspellssonum var vissulega í hæsta máti áþreifanlegt á miðöldum. Það voru sannarlega til illmenni á tímum Snorra. Mörg þeirra störfuðu innan kirkjunnar, sem eins og öfgaíslam í dag ól á og nærðist á hatri í garð annarra þjóða og trúarbragða.
Þessi mynd er frá sama tíma og Snorri var upp á sitt besta. Myndin (músið myndina til að stækka hana) er teiknuð af meinfýsnum munki í skattaskrá Norwichborgar árið 1233, og á henni er hæðst að gyðingum sem bjuggu á þeim tíma í borginni. Þeir voru greinilega hataðir á sama hátt og konan hataði gyðinga í athugasemd á smettiskruddu Ragnhildar Pálu um daginn.
Háðsmyndin er m.a. af Isaak syni Jurnetts, syni Eliabs. Hann er sýndur sem konungur með þrjú andlit. Í Norwich er reyndar enn til hús sem kallað er Music Hall, sem er talið vera afbökun á Moishe Hall, og telja sumir að húsið sé að grunni til það hús sem Isaak ben Jurnet bjó í á 13. öld. Ísak þessi var lánadrottinn Hinriks III Englandskonungs, svo og munka í Westminster sem hann saksótti fyrir skuldir, og einnig biskupsins af Norwich.
Moshe Mokke og kona hans Abigail eru einnig hædd á níðteikningunni. Moshe Mokke var dæmdur fyrir að slá mann og síðar hálshöggvin fyrir að höggva silfur. Hinrik III greiddi aldrei Ísak fé það sem hann skuldaði honum og setti á lög sem gerði gyðingum lífið mjög leitt. Það átti að heita að hann verndaði þá, en fyrir það lánuðu þeir honum á mjög góðum kjörum og greiddu stundum sjálfir fyrir með lífi sínu. (Hinrik III hef ég áður nefnt. Hann elskaði hvítabjörn sinn meira en gyðinga. Heinrekur III tjóðraði björninn í Tower of London og á tyllidögum fékk björninn að synda í Thamesá og veiða sér fisk. Henrý var mikill dýravinur og átti líka fíl sem dó líklega úr rauðvínsdrykkju).
Árið 1144 var gyðingum í borginni Norwich kennt um barnaníð og morð, þegar 12 ár drengur, Vilhjálmur að nafni, hvarf. Þótt aldrei hafi sannast að Villi litli hefði verið myrtur, og líklegra sé, að hann hafi verið grafinn lifandi af ættingjum sínum sem héldu að hann væri látinn, þá komu upp svipaðar ásakanir á hendur gyðingum á næstu árum víðs vegar um Bretland. Vilhjálmur var tekinn í dýrlinga tölu.
Líklegt er að beinagrindurnar 17 (þar af 11 af börnum) sem fornleifafræðingar fundu í brunni í Norwich (sjá hér) séu afleiðing múgæsingar sem greip um sig á Bretlandseyjum á 12. öld? Kannski töldu kirkjunnar menn, sem fengið höfðu fé að láni frá gyðingum, múgnum trú um að fólkið sem myrt var væri Múspells börn og því réttdræpt.
Gyðingahatur er enn notað til að hlaupa frá skuldum sínum, til að fyrra sig ábyrgð og til að kenna öðrum um allt sem miður fer. Það sannaðist er einn af pótentátunum sem settu Ísland á skuldamannabekk hér um árið ásakaði ásamt öðrum ýmsa gyðinga á Bretlandseyjum fyrir að reyna að ná í auðævi sín fyrir slikk (sjá hér, hér, hér , hér og hér).
Gyðingar | Breytt 26.12.2020 kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
"Þeir eru öfundsverðir sem afskektir eru"
11.10.2013 | 15:04
Nýverið renndi ég augum yfir ágæta B.A. ritgerð eftir ungan og upprennandi sagnfræðing, Óðin Melsteð.
Eins og mér er tamt, finn ég gjarnan villur og geri aðfinnslur ef ástæða er til. Ég setti mig því í samband við Óðinn og greindi honum frá því að í ágætum lista hans yfir erlenda tónlistarmenn á Íslandi í ritgerðinni hefði að mínu mati vantað tvo áhugaverða einstaklinga, sem ef til vill báru höfuð og herðar yfir flesta þá sem músíseruðu sig um Ísland á 20. öld.
Annan þeirra, dr. Dennis Zakal, hef ég ritað örlítið um á öðrum vettvangi. Hinn var öllu merkilegri og leitt er að hann hafi ekki haft lengri viðkomu á Íslandi en í þau tvö skipti sem hann heimsótti landið.
Hann hélt þrenna tónleika á Íslandi í apríl árið 1935 og fimm tónleika í október árið 1938. Hann hét Ignaz Friedman en upphaflega Soloman Isaac Freudman. Hann var fæddur Podgorze-hluta Krakow í Póllandi árið 1882 og sáu menn snemma að í honum bjó undrabarn við slaghörpuna.
Friedman var tvímælalaust snillingur og meðal fremstu túlkenda Chopins fyrr og síðar. Hlustun er sögu ríkari, klikkið hér inn á YouTube og njótið þessa snillings. Hlustið einnig á hann tala um Chopin hér.
Friedman bjó um tíma í Kaupmannahöfn, en ferðast víða um heiminn, allt til Íslands og Hawaii. Á Hawaii var hann baðaður blómum, en í Reykjavík ákvað úrval arískra pilta sem sáu framtíð sína með Hitler og Stórevrópu að sletta fúkyrðum um hann í öfundarkasti í málgagni sínu Íslandi.
Þegar Friedman kom fyrst til Reykjavíkur hafði hann með sér flygil frá Hornung & Møller í Kaupmannahöfn. Fyrir utan nasistana, sem voru lítilmenni, þó þeir yrðu síðar lögreglustjórar og seðlabankastjórar, voru allir á Íslandi í skýjunum af hrifningu yfir leik Friedmans. En mikið er stundum furðulegt hve vel menn með verkamannahendur og smiðsputta geta leikið.
Í merkisviðtali sem F tók við við Ignaz Friedman, og sem birtist í Morgunblaðinu þann 27. apríl 1935 kom þetta fram (sjá hér);
"Þeir eru öfundsverðir sem afskektir eru....
En eitt get jeg sagt ykkur, að þið eruð öfundsverðir hjer á Íslandi. Þið hafið enn sem komið er komist hjá mörgum þeim erfiðleikum, sem aðrar þjóðir hafa við að stríða. Og eins og nú horfir við í heiminum er gott að vera afskektur og hafa úthaf fyrir nágranna á alla vegu. - En meðal annarra orða, segir Ignaz Friedman. Jeg hefi heyrt að þið eigið hjer merkilegt þjóðminjasafn, þar sem m. a. er sýnishorn af gömlum vefnaði. Er slíkur vefnaður gerður hjer enn - og er hægt að fá hann? Og hvar eru merkustu handritin af sögunum ykkar?
Þegar blaðamaður Morgunblaðsins "F" og Páll Ísólfsson gengu á fund Friedmans á Hótel Borg, sat hann og las í símaskránni. Það var lengi siður gyðinga, því þeir gerða það oft þegar þeim var ljóst að á matseðlinum á Hótelum var svínaschnitzel í öll mál. Gyðingar leituðu hvorn annan uppi eða reyndu að kynna sér hvort í bænum væri gyðingasöfnuður.
Friedman var stoltur af gyðingdómi sínum og hann skilgreindi sjálfan sig sem gyðinglegan píanóleikara. Erfitt var að fá kennslu í Póllandi fyrir undrabarn af gyðingaættum vegna fordóma , en pólski píanókennarinn Leschetizky í Vín tók hann í tíma. Leschetizky hélt því fram, að þrír þættir gerðu menn að snillingi; Maður yrði að vera slavneskur, gyðingur og undrabarn. Lechetizky bætti því við, er hann heyrði Friedman í fyrsta sinn, að fyrir gyðing að vera ætti drengurinn að spila betur en hann gerði. Aðalsmaður nokkur í Vín bauðst til að borga fyrir alla menntun Friedmans ef hann kastaði trú sinni. Því svaraði móðir hans: "sonur minn er ekki til fals".
Blómum skrýddur Friedman á Hawaii
Eitt sinn var Friedman á hljómleikaför í Egyptalandi og ritaði fjölskyldu sinni: Svæðið sem við sjáum frá bátum okkar [á Níl], er sendið, þurrt og einstaklega leiðinlegt. Nú veit ég af hverju gyðingar ílentust hér aldrei. Skopskynið vantaði greinilega heldur ekki.
Friedman byggði sér snemma á 20. öldinni mikið hús í Bolzano á Ítalíu, sem hann kallaði Villa Friedman, þar sem hann bjó með konu sinni og dóttur, er hann var ekki á ferð og flugi um heiminn. Honum tókst að flýja til Ástralíu í stríðinu og þar andaðist hann helsjúkur árið 1948.
Alan Evans hefur skrifað bók um þennan merka mann, þar sem munu vera upplýsingar um hann á Íslandi. Barnabarn Friedmans, Nina Walder, hefur einnig skrifað bók um hann á frönsku sem út kom árið 2010. Sjá vefsíðu hennar til heiðurs Ignaz Friedman.
Gyðingar | Breytt 22.2.2022 kl. 07:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar Danmörk varð hluti af Stórþýskalandi
27.5.2013 | 10:22
Í ársgamalli bók sem ég keypti í Berlín um daginn, fann ég fljótlega ljóta villu sem ég trúi vart öðru en að Danir eigi erfitt með að kyngja. Þessi annars ágæta bók fjallar um fyrirbæri sem Þjóðverjar hafa meðal annars orðið þekktir fyrir að hneppa þjóðir í. Það er Zwangsarbeit, eða nauðungarvinna.
Bókin gefur gott yfirlit yfir þær hörmungar sem fólk í ýmis konar nauðungarvinnu þurfti að þola á tímum nasista. Í bókinni er einnig kort sem sýnir stjórnfyrirkomulag í Evrópu í síðara stríði. Á því er búið að gera Danmörku að hluta Stórþýskalands. Ég er búinn að setja gula ör inn á kortið sem bendir á þetta.
Hlýtur þetta ekki að vera fljótfærnisvilla? Kannski ekki. Kannski taka þýskir höfundar bókarinnar mið af nýjum straumum í danskri söguskoðun. Ný kynslóð danskra sagnfræðinga með Bo Lidegaard fremstan í flokki, telur að samvinnupólitík (Samarbejdspolitik) Dana í stríðinu, sem sumir kalla frekar Kollaborationspolitik, eða meðreiðarpólitík, hafi verið hin mesta blessun fyrir Dani. Danir voru í raun hluti af Stórþýskalandi, þó þeir væru það ekki á pappírnum.
Nýlega var tilkynnt um væntanlega útgáfu á bók Lidegaards um björgun Danskra gyðinga til Svíþjóðar árið 1943, sem koma á út með haustinu. Lidegaard telur og hefur þegar haldið fram, m.a. með því að útiloka skoðanir fjölda höfunda úr bókum sínum, að samvinnupólitík Dana hafi bjargað dönskum gyðingum. Það er náttúrulega hrein della (sjá hér). Samvinnupólitík Dana við Þjóðverja varð einmitt til þess að Danir gátu sent gyðinga úr landi á árunum 1940-43. Flest það fólk, þar á meðal börn, voru myrt í útrýminga- og fangabúðum nasista. Um Það má meðal annars lesa um í bók minni Medaljens Bagside.
Carol Janeway, talskona bókaútgáfu þeirrar sem gefa mun út bók Lidegaards í Bandaríkjunum, hefur látið hafa það eftir sér að ef Hollendingar og Frakkar hefðu stýrt sér gegnum stríðið eins og Danir, hefði stríðið ekki verið verið nándar nærri eins biturt og raun bar vitni (sjá hér). Allir áttu samkvæmt slíkri skoðun að stunda "sölu" á landbúnaðaafurðum til þýska hersins, svo hann gæti drepið fleiri. Þessi kolruglaða kona þýddi eitt sinni úr þýsku og gaf út endurminningar Svisslendings, sem skrifaði um raunir sínar á barnsaldri í gettóinu í Vilna (Vilnius) og í Auschwitz. Sá sagðist hafa heitið Binjamin Wilkomirski. Kauði var reyndar bara fjallaniðursetningur úr Sviss, en Kanar gleyptu auðvitað söguna, þangað til að svik komu upp um síðir og nú er bókin systurrit dagbóka Hitlers.
Það fer líklega vel á því að þýðandi "Wilkomirskis" sé útgáfustjóri á nýrri söguhreinsun Bo Lidegaards, sem nú starfar sem ritstjóri danska dagblaðsins Politiken.
Gyðingar | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Gyðingar í hverju húsi
14.2.2013 | 18:48
Árið 2004 birtist tímaritsgrein eftir mig sem bar heitið Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004. Greinin innihélt stutta og hraðlesna sögu gyðinga á Íslandi. Þar kom margt fram sem ekki hafði verið vitað eða birt áður, og annað var leiðrétt.
Fyrir útgáfu þessarar greinar hafði kaflinn um gyðinga í Íslandssögunni (hans Þórs Whitehead) mest fjallað um að Framsóknarmenn hafi verið verri við gyðingana en Sjálfstæðismenn - og það er nú alls ekkert víst. Grein mín var langt frá því að vera tæmandi ritgjörð og í henni voru reyndar nokkrar smávægilegar villur. Greinin hefur einnig fengið gífurlega lesningu á vefsíðu, þar sem hún var einnig gefin út. Hún kom síðar út í bók. Upphaflega kom hún reyndar út á dönsku í styttri gerð í ársriti sögufélags danskra gyðinga Rambam sem ég ritstýrði um tíma.
Gyðingahatur á Íslandi
Gyðingaþjóðin er svo forn, að hún telst til fornleifa, og þess vegna er við hæfi að skrifa um hana hér. Einnig þess vegan ætti fyrir löngu að vera búið að friða hana.
En öfgamenn á öllum "vængjum" vilja einatt eyðileggja það sem gamalt er, til að skapa það sem þeir kalla á öllum tungumálum "Dögun". Þeir vilja byrja með "hreint borð" og "frá grunni" (þeir eru fundamentalistar og róttækir), og hvað er þá verra en gamalt, gagnrýnið og gyðingar. Gyðingar hafa því með fornleifum, trúarbrögðum og öðru verið byltingarmönnum þyrnir í augum. Jafnvel Karl Marx hataði gyðinginn í sjálfum sér. Gyðingaþjóðin hefur verið svo lengi til, að sumir vilja ólmir útrýma henni og rétti hennar til að vera til. Það mun aldrei takast. Sannið til.
Á Íslandi hafa gyðingar alltaf verið svo fáir, að ekki fara sögur af skipulögðum gyðingaofsóknum - ja fyrir utan að gyðingar á Íslandi hafa upplifað að bílar þeirra voru eyðilagðir þegar stríð var í Miðausturlöndum. Þeir þurfa að horfa upp á að sjúklegur gyðingahatari fær að spreða galli sínu á Moggablogginu. Maður nokkur, Arnold Eisen, gyðingur frá Bandaríkjunum, gekk fyrir nokkrum árum með kippah, kollhúfu gyðinga í Reykjavík, og lenti í hremmingum. Hann skrifaði um það vefgrein í Ísrael sem Morgunblaðið greindi frá:
Skömmu síðar rákust Eisen og kærasta hans á hóp skólabarna á aldrinum 12-15 ára sem voru í skoðunarferð líkt og þau. "Ég stöðvaði bifreiðina og fór út til þess að taka mynd og sá einn drengjanna grípa um öxl félaga síns til þess að ná athygli hans og benda á höfuð sér og síðan á mig, segjandi eitthvað um kollhúfu gyðinga sem ég var með á höfðinu. Og þá var áhugi félagans vakinn, hann smellti saman hælunum og gerði Heil Hitlers-kveðju. Margir af krökkunum fóru að hlæja," Sjá hér .
Gyðingahatur á Íslandi er því miður staðreynd og það eykst fremur en hitt. Ég fletti aðeins veraldarvefnum árið 2006 og á einni kvöldstund safnaði ég þessu saman. Þar er meðal annars að finna athugasemd einhvers Rúnars Þórs, sem vildi segja ofangreindum Eisen til syndanna.
Á síðustu öld voru líka til nasistagerpi á Íslandi. Þeir þrömmuðu um og leituðu meira að segja að gyðingum til að hatast út í. Þeir fundu vitanlega fáa, þar sem afi Guðmundar Steingrímssonar hafði með öðrum fínum herrum lokað á gyðinga til Íslands. En í staðinn gerður þeir Thors-fjölskylduna að gyðingaígildi og kölluðu Ólaf Thors háæruverðugan rabbí. Þótt þeir fyndu fáa af ættbálki Abrahams, þá fundu þeir margir hverjir síðar feit embætti þegar þeir þroskuðust til höfuðsins. Einn varð t.d. lögreglustjóri og annar bankastjóri enda sagðist hann vera hagfræðingur þótt hann hefði aldrei lokið prófi í þeirri grein, þótt það standi á heimasíðu Alþingis, þar sem hann lét einnig taka til sín.
Á meðan sat t.d. mikið menntaður maður í gömlu húsi á Grettisgötunni. Hann var frá Þýskalandi, þaðan sem hann neyddist til að flýja til Íslands um þær mundir sem bankastjórinn fyrrnefndur var að læra nasistahagfræði við háskóla í Kiel. Áður en Ottó kom til Íslands hafði hann setið í fangabúðunum Buchenwald með bróður sínum, sem var myrtur þar árið 1938. Hinn hámenntaði gyðingur Ottó Arnaldur Magnússon þurfti hins vegar að hafa ofan fjölskyldu sinni með einkakennslu í málum og raungreinum sem og útgáfu á lausnarheftum á stærðfræðibókum skólanna. Hann var kærður til lögreglu fyrir útgáfu þessara hefta. Í Háskóla Íslands komu menn í veg fyrir að hann fengi vinnu við þann skóla.
Brennimerktir sem gyðingar
En einn helsti þáttur sögu gyðinga á Íslandi er að hún er uppfull af mönnum sem ekki voru gyðingar. Íslendingar hafa stundað "Jew branding", þeir hafa brennimerkt menn sem gyðinga eða talið þá vera það, ef þeir voru hið minnsta dökkir á brún eða brá, með hrokkið hár, stórt nef eða ríkir. Þess vegna fengu t.d. Thorsararnir stimpilinn.
Menn sem lesa þessa grein mína taka líklega eftir því, að ég nefni ekki á nafn fjölda manna sem Íslendingar hafa venjulega ályktað að væru gyðingar eða gyðingaættum. Það var heldur ekki ætlun mín með greininni að gera tæmandi úttekt af ættum með gyðingablóð í æðum sér. En þeir sem sumir menn söknuðu voru reyndar ekki gyðingar, eða af gyðingaættum. Róbert Abraham Ottósson söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar var tæknilega séð ekki gyðingur og hafi ætt hans ekki verið það síðan á 19 öld, en Hitler hefði nú líklega ekki verið á sama máli. Ég skrifa hins vegar ekki um íslenska gyðinga út frá sjónarhorni Hitlers og Nürnberglaganna.
Frá lokum 19. aldar og fram á 21. öld hefur hins vegar borið mikið á því að ýmsir íslenskir fræðaþulir hafi þóst vita að önnur hvor dönsk ætt á Íslandi væri komin af gyðingum. Svo er einfaldlega ekki. Sumir gerðu þetta af hatri í garð danskra kaupmanna, en aðrir, eins og Pétur Pétursson þulur, af miklum áhuga í garð gyðinga. Pétur var það sem skilgreinist sem fílósemít, og vildi þess vegna, að því er ég held, hafa sem flesta gyðinga á Íslandi.
***
Líklega vegna þess að grein mín um gyðinga á vefnum hefur mikið verið lesinn um heim allan og hefur jafnvel verið stolið úr henni án þess að menn geti heimilda, að menn eru enn að hafa samband við mig um meintan gyðinglegan uppruna sinn, eins og að ég sé einhver Judenexperte, en það kallaði maður sérfræðinga Sicherheitsdienst og Gestapo í gyðingum. Ég veiti ekki slíka "ættfræði"þjónustu.
Landsfrægir menn hafa í tveimur tilvikum haft samband við mig til að fá það á hreint, svona eitt skipti fyrir öll, hvort ákveðinn forfaðir þeirra hafi verið gyðingur. Svo var örugglega ekki. Ég held frekast að þeim hafi þótt það leitt en verið létt.
Hér skulu sagðar nokkrar sögur að röngum ættfærslum, illgjörnum sem og frekar saklausum eins og þeirri fyrstu:
Dóttir fiðlusnillingsins
Nýlega hafði samband mig kona sem var að rannsaka ætt eina á Íslandi. Taldi konan það mögulegt, að danskur maður, Julius Thornberg, tónlistamaður og gleymdur fiðlusnillingur, hafi átt dóttur með íslenskri konur eftir stutt ævintýri í byrjun 20 aldar. Með tiltölulega einföldum aðferðum heima í stofu minni fann ég að maðurinn var af sænskum ættum og að í honum rann ekkert gyðingablóð sem hafði verið bókfest. Annað kom einnig út úr stuttri leit minni. Maðurinn hafði verið giftur píanóleikara frá Noregi, þegar hann átti í þessu sambandi við saklausa stúlku frá Íslandi. Maður þessi var m.a. konsertmeistari í Amsterdam og fiðluleikari við stórar hljómsveitir í Varsjá, og skömmu eftir að óskilgetna dóttirin fæddist fluttist hann til Berlínar en var miklu síðar konsertmeistari í Kaupmannahöfn. Dóttir hans vann á Ríkisútvarpinu á Skúlagötunni, þegar ég var þar sendisveinn á sínum tíma. Er þetta ekki stórmerkileg fjölskyldusaga, svo ekki þurfi að blanda í hana gyðingakreddu?
Mér er eiginlega mest hugsað til afkomenda þessa fiðlara. Hvað gerðist t.d. ef þeir væru brennandi í hatri sínu á Ísrael? Þau gerðu kannski það sama og maður nokkur ættaður frá Skagaströnd, sem fyrir mörgum árum svínaði Ísraelsríki til í röksemdafærslu sinni fyrir sakleysi Eðvald Heitins Hinrikssonar gyðingamorðingja þegar út kom eistnesk skýrsla sem endanlega staðfesti glæpi Eðvald. Þannig rök taldi Baldvin Berndsen sig get komið með því hann upplýsti að hann væri kominn af gyðingi sem settist að á Skagaströnd (sjá hér) En Baldvin Berndsen hefur líklegast ekki lesið æviminningar forföður síns, Fritz Berndsens. Hann segir frá uppruna sínum í ævisögunni og hvernig hann hafði ungur verið shabbesgoy hjá gyðingum í Kaupmannahöfn og fengið fyrir það te og sykurbrauð. Sjá svar mitt til Baldvins Berndsen í grein í DV. Hvað er svo shabbesgoy? Það getið þið lesið um í grein minni í DV.
Julius Thornberg var vitanlega snoppufríður karl, en ekki var hann gyðingur fyrir 5 aura
Tierney og Harmitage
Góður vinur minn, hörkuklár íslenskur sagnfræðingur, sem er mikill áhugamaður um sögu gyðinga og ætti fyrir löngu að vera búinn að gangast undir gyðingdóm og hnífinn, hafði fyrir nokkrum árum síðan samband við mig og taldi sig hafa fundið nýja gyðinga" á Íslandi. Það voru fatakaupmennirnir William Tierney og mágur hans John Harmitage, og vildi hann vita hvað ég héldi um þessa uppgötvun sína. Mér þótti nú í fljótu bragði nafnið Tierney hljóma mjög kunnuglega og þó ég þekkti ekki í fljótu bragði nafnið Harmitage er nafnið Hermitage ekki óþekkt á Bretlandseyjum. Lítil athugun leiddi í ljós að þessir menn voru baptistar frá Leith á Skotlandi og var Tierney,outfitterí Bernards Street 49 í Leith, að sögn ættaður frá Frakklandi. Sögufélag gyðinga á Skotlandi kannaðist ekkert við neina gyðinga með þessi ættarnöfn á Skotlandi, enda var Tierney baptisti.
En hvað kom til að vinur minn sagnfræðingurinn og aðrir héldu að Tierney og Harmitage væru af ættbálki Salómons. Jú, sjáið nú til. Ritstjóri Þjóðólfs, Jón Ólafsson Alþingismaður, fékk lesendabréf, sem mér sýnist á stílnum að gæti verið skrifað af honum sjálfum. Þetta bréf" og svarið, sem þið getið lesið hér fyrir neðan, birtist í Þjóðólfi þann 22. ágúst 1882. Jón ritstjóri taldi sig vita hvers kyns þeir væru þeir menn sem seldu notuð föt á Íslandi og taldi öruggt að ef kólera og bólan kæmi aftur væri það með gyðingum sem seldu gamla larfa.
Nú voru þessi gyðingar" bara baptistar frá hafnarbænum Leith, en meira en 120 árum síðar þótti mönnum ástæða til að taka ættfræði íslensks gyðingahatara trúanlega. Skrítið?
Alberts þáttur Obenhaupts
Þrátt fyrir að ég nefni alls ekki kaupmanninn Albert Obenhaupt á nafn í greininni minni víðlesnu og margstolnu, fæ ég enn fyrirspurnir um uppruna hans með skírskotun til þess að menn haldi hann vera gyðing. Nú síðast frá manni sem skrifar sögu hestaútflutnings á Íslandi. Obenhaupt mun hafa flutt út gæðing til Danmerkur árið 1907 en tekið hann með sér til baka ári síðar, sem var auðvitað kolólöglegt.
Menn telja hann almennt gyðing og kemur það til vegna þess að Vilhjálmur Finsen, einn stofnenda Morgunblaðsins og síðar sendiherra, sem á Morgunblaðsárum sínum líkaði greinileg ekki við gyðinga, skrifaði um Obenhaupt í ævisögu sinni Alltaf á heimleið (1953). Finsen sagði hann vera gyðing og það ekki af betri endanum" og hélt áfram; Obenhaupt fór vitanlega að versla; kaufen und verkaufen" (kaupa og selja) er orðtak gyðinga, hvar sem þeir eru á hnettinum. Hann flutti með sér sýnishorn af allskonar varningi, leigði stóra íbúð [Finsen meinar væntanlega að hann hafi tekið íbúðina á leigu] í Thomsenshúsi, þar sem síðar var Hótel Hekla, og barst mikið á. Hann drakk nær ekkert sjálfur, en hann veitti meir en almennt gerðist í Reykjavík þá. Þegar kaupmenn komu að skoða sýnishornin, var þeim ævinlega boðið inn í stofu og flaskan þá dregin upp. Svo var farið að tala um Businessinn".
Menn hafa síðan áfram haldið því fram, að Albert Obenhaupt væri gyðingur og gekk reyndar um þverbak þegar blaðamaðurinn Jónína Leósdóttir, eiginkona Jóhönnu Sigurðardóttur, gerði það opinskátt að hann hefði heitið Obenhautt í grein í Helgarpóstinum árið 1987. Jónína hafði eftir Hannesi Johnson, syni Ólafs Johnson, sem keypti hús af Obenhaupt, að Obenhaupt hefði alls ekki verið Þjóðverji heldur rússneskur gyðingur. Það er rugl eins og allt annað um þennan ágæta mann. Hann var ekki gyðingur eða af gyðingaættum frekar en Bryndís Schram, sem gekk fyrir að vera það í Washington hér um árið, er hún var sendiherrafrú.
Albert Conrad Frederik Obenhaupt fæddist í Kaupmannahöfn þann 17.7. 1886 og þar var hann skírður. Hann var sonur verslunarmannsins Ludvigs Martin Heinrich Obenhaupts sem fæddist í Hamborg árið 1856. Móðir Alberts var Johanna Marie Sophia fædd Segeberg. Albert var því Dani af þýskum ættum og alls ekki gyðingur. Sonur hans einn dó á Íslandi og annar sonur Wolfgang Wilhelm var fermdur í Dómkirkjunni. Eftir 1930 var Albert Obenhaupt fluttur til Hamborgar, þar sem hann bjó og er skráður með útflutningsfyrirtæki (Export) firma fram til 1937, síðast á Pumpen 6, sem er fræg skrifstofubygging sem kölluð er Chilehaus og stendur enn.
Albert Obenhaupt var maðurinn sem reisti Villa Frida við Þingholtstræti 29 A., þar sem Borgarbókasafnið var einu sinni til húsa. Í húsinu, sem fékk nafn konu hans, Fridu (sem var fædd Berger), bjó Obenhaupt aldrei svo heita megi. Nýr eigandi, Ólafur Johnson kallaði húsið Esjuberg. Obenhaupt reisti nokkur önnur merk hús á Íslandsárum sínum.
Miklu síðar var Esjuberg, eins og kunnugt er, selt norska málarameistaranum og fjáróreiðumanninum Odd Nerdrum. Húsið hlaut svo þau ömurlegu örlög að lenda í loðnum höndunum á afkomenda dansks rennismiðs. Hún heitir Gyða Wernersdóttir (Sørensen/ rest assured, no Jews in that family) og var um tíma kennd við Milestone. Nú er búið að framkvæma skemmdaverk á þessu fallega húsi "gyðingsins" vegna ömurlegrar "fagurfræði" hins gráðuga nýrýka liðs á Íslandi.
Lengi vel hékk uppi mynd af Obenhaupt í stigagangi í Borgarbókasafninu. Mér virtist hann vera lítill, jafnvel dvergvaxinn, og dökkur á brún og brá. Menn hafa líklega ályktað sem svo að þar sem hann var dökkleitur þá hafi hann verið gyðingur. Er það er nokkuð fordómafull aðferð til að álykta um gyðinglegan uppruna fólks, ekki ósvipuð þeirri aðferð sem Ungverjar notuðu á sínum tíma. Þeir töldu alla sem rauðhærðir voru (og eru) vera gyðinga. Í Portúgal forðum þótti víst, að fyrir utan að borða ekki svínakjöt væru gyðingar, sem leyndust fyrir rannsóknarréttinum, ljósari en aðrir á húð. Vilhjálmur Finsen taldi víst að Obenhaupt auglýsti ekki í Morgunblaðinu þar sem hann var gyðingur. Það var líka lygi.
Pétur Pétursson heitinn þulur, og mikill áhugamaður um gyðinga á jákvæðan hátt, skrifaði um Obenhaupt fyrir nokkrum árum og hefur líklega líka verið með til að festa þessa farandsögu Finsens um Obenhaupt sem gyðing.
Frímúrarahús varð að húsi "gyðings"
Ísraelsmaður einn hafði eitt sinn samband við Icelandic Review. Hann hafði verið á Íslandi ásamt komu sinni og ritaði: Me and my wife spent two and a half weeks in Iceland in July 2007 and had a great time. I just wanted to ask a small question regarding the photo attached. It was taken in Hafnarstraeti or Austurstraeti in downtown Reykjavík. Since you don't have a synagogue in Reykjavík, do you know the story behind the Star of David on that building?
Rannsóknarblaðamaður Iceland Review rannsakaði málið og svaraði:
According to Snorri Freyr Hilmarsson, who is on the board of the House Preservation Society Torfusamtökin, the Star of David is on that building on Austurstraeti 9 (which currently houses the nightclub Rex) because it used to be a store owned by merchant Egill Jacobsen, who came from a Danish-Jewish family.
Egill Jacobsen, sem kom til Íslands árið 1902 og dó þar af slysförum árið 1926. Hann var vissulega ekki af gyðingaættum, en hann var mikill kaupmaður í Reykjavík. Jacobsen er mjög algengt ættarnafn í Danmörku, en ekki á meðal gyðinga. Stjarnan sem á húsinu er komin til af því að á efri hæð hússins var lengi vel Frímúrarasamkomusalur og Egill Jakobsen var einn af stofnendum þeirrar reglu á Íslandi. Frímúrar hafa lengi ímyndað sér, að þeir væru eins konar musterisriddarar og þar með verndarar musteris Salómons. Þess vegna hafa sumar deildir þeirra löngum notað Davíðsstjörnuna, Magen David, sem tákn. Líkt og sirkil og hornamál og múrskeið. Synir Egils voru þeir Úlfar og Haukur og þóttu þeir nefstórir og dökkir, ja jafnvel "gyðinglegir", en þeir sóttu það í múttu sína Soffíu Sigríði sem var upphaflega Helgadóttir, snikkara í Þingholtsstræti. Hún rak verslun Egils Jacobsen áfram eftir lát manns síns með miklum myndarbrag þangað til hún dó árið 1973. Hún var mikil sjálfstæðiskona og í stjórn Hvatar til margra ára, og það gerir ekki fólk að gyðingum heldur. Ég man vel eftir henni í versluninni þegar ég var barn, mjög kringluleitri broshýrri konu - frá Íslandi. Synir hennar og Egils, Úlfar og Haukur voru brúnir á brá og með feita putta og stórt nef. En það voru sko íslensk erfðaeinkenni.
Hvað varðar fréttina á vefsíðu Iceland Review og upplýsingu starfskrafts Torfusamtakanna um húsið í Austurstræti 9, er ég fyrir löngu búinn að leiðrétta hana við blaðamann Iceland Review, sem ekkert gerði. Hún móðgaðist einna helst. Lygin er nefnilega lygilega oft góð frétt á Íslandi.
Lokaorð
Íslendingar hér áður fyrr og fordómar, þar var víst óaðskiljanleg eining. Útlendingahræðsla og afdalaháttur varð til þess að flestir Íslendingar kynntust lítið ef nokkuð þeim útlendingsgreyjum sem komu til landsins til að freista gæfunnar. Ef eitthvað var, hófust samskiptin vegna öfundar í garð sumra þeirra. En voru menn að hafa fyrir því að spyrja þá um þeirra hagi og fjölskyldutengsl? Nei, Íslendingar höfðu eingöngu áhuga sínum eigin, fallegu og frábæru ættum. Svo var það lengi, og er kannski enn.
Útlendir menn voru oft stimplaðir sem það versta af öllu, þ.e. gyðingar. Stimpillinn þjónaði nefnilega tilgangi. Ef menn voru stimplaður sem sjálfur óvinurinn, hluti af þeirri þjóð illmenna sem Passíusálmarnir hafa um langan aldur kennt Íslendingum að hata, þá hafði maður gott verkfæri til að gera keppinaut í viðskiptum, iðn eða mennt erfitt fyrir. Maður kallaði hann bara júða, ásakaði hann um að bera pest og kóleru til Íslands og vera til vandræða. Maður var tilbúinn að senda gyðinga í klær nasista.
Ég óska svo landsmönnum gleði við lestur Passíusálmanna í ár og fallegrar dauðahátíðar, þar sem þið kossfestið gyðing árlega í heilagri slepju og kennið gyðingum á öllum tímum um glæpinn og kallið það svo trú og jafnvel mikla list.
Gyðingar | Breytt 14.8.2017 kl. 05:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Lea var myrt i Sobibor
31.8.2012 | 07:13
Lea Judith de la Penha frá Amsterdam í Hollandi varð aðeins 6 ára. Líf hennar var tekið af henni á hrottalegan hátt vegna haturs sem gýs öðru hvoru upp í Evrópu. Hún var myrt ásamt 165.000 öðrum trúsystkinum sínum í útrýmingarbúðunum í Sobibor í Suður-Póllandi. Talið er að um 200.000-250.000 manns, flest gyðingar, hafi verið myrtar í Sobibor á árunum 1942-43.
Nú hefur hópur fornleifafræðinga undir stjórn ísraelska fornleifafræðingsins Yoram Haimis rannsakað leifar helfararinnar í útrýmingarbúðunum í Sobibor. Þeir hafa meðal annars fundið lítið ferhyrnt merki úr áli, sem á hefur verið slegið nafn Leu Judith de la Penha. Lea litla hefur líklega borið þetta merki, eða taska hennar, er hún var flutt til Sobibor með foreldrum sínum.
Lea Judith de la Penha fæddist þann 11. maí árið 1937 í Amsterdam. Foreldrar hennar voru Judith de la Penha-Rodriques Parreira og David de la Penha. Þau voru flutt nauðug í gripavögnum frá Hollandi árið 1943 til Sobibor útrýmingarbúðanna í Suður-Póllandi. Þar voru Lea litla og foreldrar hennar myrt þann 9. júlí 1943.
De la Penha fjöskyldan var stór fölskylda í Hollandi fyrir 1940, en meirihluti meðlima hennar var myrtur í Helförinni. Eins og nafnið bendir til átti fjölskyldan ættir sínar að rekja til Portúgals og Spánar. Frá Portúgal flýðu gyðingar undan trúarofsóknum kaþólsku kirkjunnar og annarra yfirvalda á 16. og 17. öld, m.a. til Niðurlanda.
De la Penha fjölskyldan í heimsókn hjá kristnum vinum/ættingjum. Lea er fremst á myndinni.
Lea de la Penha endaði ævi sína í gasklefa í Sobibor eins og flestir aðrir gyðingar þar. Hún var ein 4300 gyðinga af portúgölskum uppruna í Hollandi sem myrtir voru í helförinni. 90% allra sefardískra gyðinga í Hollandi voru myrtar í Helförinni og 75% allra gyðinga Hollands, um 101.000 gyðingar frá Hollandi voru sendir til fanga- og útrýmingarbúða, 96.000 þeirra voru myrtir. 34,313 gyðingar frá Hollandi voru myrtir í Sobibor.
Á 17. Og 18. öld voru og urðu sumar af portúgölsku flóttafjölskyldunum meðal ríkustu fjölskyldna Hollands. Á 20. öld var de la Penha fjölskyldan ekki lengur meðal auðugra portúgalskra gyðingaætta Hollands og höfðu því meðlimir hennar gifst út fyrir hópinn, annað hvort gyðingum af þýskum og pólskum uppruna, eða kristnum hollendingum. Einn forfaðir flestra meðlima de la Penha ættarinnar var þó mjög ríkur á fé, en það var Josef de la Penha kaupmaður í Rotterdam, sem eignaðist Labrador. Vilhjálmur 3. af Óraníu, sem gerðist konungur Englands gaf Josef de la Penha Labrador árið 1697 fyrir veitta aðstoð. Gjafabréfið er enn til. Ýmsir afkomendur Josefs de la Penha hafa reynt að endurheimta Labrador, en án árangurs.
Sobibor 2001
Ég kom til Sobibor árið 2001 með hópi fræðimanna frá Dansk Center for Holocaust og Folkedrabsstudier (DCHF) í Kaupmannahöfn ásamt framhaldsskólakennurum. Við vorum á ferð um Pólland til að skoða útrýmingarbúðir og aðra staði sem tengjast sögu helfararinnar í Póllandi. Á DCFH vann ég í tvö ár og voru rannsóknir mínar á örlögum gyðinga í Danmörku m.a. til þess að DCHF var stofnað árið 2000.
Hópurinn, sem heimsótti Sobibor haustið 2001, sá hvernig pólskir fornleifafræðingar höfðu grafið á ýmsum stöðum í Sobibor, en nú er svæðið að mestu hulið furuskógi. Rannsókn, eða réttara sagt frágangur pólska fornleifafræðingsins Andrzej Kola við háskólann í Torun var að mínu mati vægast sagt ekki til mikils sóma og lítið hefur birst af niðurstöðum. Hann fann þó hluta fjöldagrafar sem var svo djúp að ekki var hægt að grafa dýpra niður í vegna grunnvatns. Talið er að gröfin hafi verið allt að 5 metra að djúp. Lík voru einnig brennd í Sobibor og í lok stríðsins voru lík grafin upp til að brenna þau. Vegna vangetu Kolas til að gefa út niðurstöður sínar hafa rannsóknri hans verið skotspónn sjúkra sála sem telja og vilja hald að helförin sé ein stór lygi og samsæri. Þess vegna er gott að heyra um þær mörgu niðurstöður sem rannsóknir undir stjórn Yoram Haimis hafa leitt í ljós. Hér er hægt að lesa grein eftir hann, þar sem hlutar fyrri niðurstaðna af rannsóknum í Sobibor eru lagðar fram.
Hola um 3,5 metra djúp, sem hefur innihaldið mikið magn af brunaleifum. Þarna rannsakaði fornleifafræðingurinn Andrzej Kola árið 2001. Samkvæmt einni grein eftir hann frá 2001 var þarna hús. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2001.
Bláa pílan sýnir gryfju þá sem ég ljósmyndaði árið 2001. Hún er kölluð "Building B", en þarna hefur varla verið nokkur bygging en mikið var af ösku, kolum og rusli sem hefur verið kastað í þessa gryfju.
Hópinum sem ég fylgdi til Sobibor árið 2001 var tjáð, að rannsóknunum Andrzej Kolas væri lokið, en ýmsir fundir höfðu verið skildir eftir á glámbekk, og ekki fyllt upp í nokkrar holur suður af þeim fjöldagröfum sem hann fann. Einn menntaskólakennari sem var í för með okkur hafði tekið brot úr öskju úr bakelíti, sem líklega er hollensk sem lá með öðrum fundum á kanti mikillar gryfju. Hann lét mig hafa brotið og ég geymi það enn. Ég reyndi lengi að hafa samband við pólska fornleifafræðinginn Kola sem stjórnaði rannsóknunum í Sobibor, en fékk aldrei svar. Nú mun ég hafa samband við Yoram Haimi til að koma gripnum í réttar hendur.
Svo talað sé um fórnarlömb
Þess má geta, að sá sem þetta ritar varð í Sobibor "fórnarlamb" mannýgra moskítóflugna, sem réðust á ökkla mína. Dóttir mín, Lea, hafði gefið mér í afmælisgjöf sokka með mynd af Andrési Önd á skaftinu, sem hún hafði fundið með móður sinni í Netto-verslun í Kaupmannahöfn. Ég var einmitt í þessum sokkum sem Lea gaf mér í Sobibor. Flugan sótti í Andrés Önd og stakk hann í sífellu og saug, en það var náhvítur ökklinn á mér sem varð fyrir barðinu á varginum en ekki öndin. Ég bólgnaði mjög illa upp um kvöldið og varð daginn eftir að leita mér læknis í Lublin, með fætur sem meira líktust fótum fíls en manns. Meðan ferðafélagar mínir fóru m.a. til Majdanek. Læknir nokkur á slysadeild spítala, sem var skammt frá Hóteli okkar. Hann sprautaði mig og gaf mér lyfseðil. Lyfin hjálpuðu strax og eftir tvo daga gat ég aftur gegnið í skóm. Eftir það kallaði ég lækni þennan sem hjálpaði mér Töframanninn frá Lublin.
Gyðingar | Breytt s.d. kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fréttir úr framboði
2.5.2012 | 16:21
Nýlega, er Ari Trausti Guðmundsson, hinn landsþekkti jarðfræðingur og fjölmiðlamaður boðaði forsetaframboð sitt, greindi ég svolítið frá ættum Ara í Þýskalandi. Þótt oft hafi loðað einhver nasistaára yfir Guðmundi frá Miðdal, föður Ara, vita kannski fæstir að lítið fer fyrir þýskum uppruna Ara. Forfeður hans í Þýskalandi voru að helmingi, ef ekki að meirihluta til, af gyðinglegum uppruna og höfðu síðustu kynslóðirnar verið kaupmenn í bænum Pasewalk í Pommern (Mecklenburg-Vorpommern).
Ég sá, að Egon nokkur Krüger, efnafræðingur og menntaskólakennari í DDR, og síðar áhugasagnfræðingur í sameinuðu Þýskalandi, hafði skrifað bók um gyðingana í Pasewalk. Ég tók mig til og keypti bókina sem kostaði aðeins 15 evrur. Hún er vel skrifuð og með virðingu fyrir efninu.
Í bókinni má lesa um kaupmennina í Sternberg-fjölskyldunni, pólsk-þýska forfeður Ara Trausta, m.a. Meyer Sternberg, sem fæddist í Obersitzko í Posen (nú Obrzycko) árið 1815, og telst mér það til að hann sé langalangafi Ara Trausta. Í Obersitzko voru fangabúðir á síðari heimsstyrjöld, sem heyrðu undir hinar illræmdu fangabúðir í Stutthof sem margir fangar frá Norðurlöndum lentu í.
Meyer þessi átti klæðaverslun við Am Marktplatz 28 í Pasewalk. Síðar fór Meyer einnig að versla með matvörur. Í auglýsingu árið 1868 bíður hann t.d. léttsaltaða síld af hollenskum sið Matjes-Hering empfing und empfhielt M. Sternberg. Salt auglýsti hann einnig eftir að einokun á salti var aflétt: Salz - Bei Aufhebung des Salzmonopols empfehle ich meinen geehrten Kunden von heute ab stets feinstes trockenes Crystall-Speise-Salz in Säcken von Netto 126 8/30 Pfd. Inhalt, sowie ausgewogen in jeder beliebigen Quantität, M. Sternberg. Allt var hægt að selja, t.d. svínafitu: Frisches ausgebratenes Schweinschmalz offerirt billigst M. Sternberg.
Saga Sternberg fjölskyldunnar í Pasewalk fyllir aðeins 3 blaðsíður af 203 blaðsíðum í bók Egon Krügers. Bókina Jüdisches Leben in Pasewalk; Familiengeschichten, Familienschicksale, Stolpersteine, er hægt að kaupa vefsíðu Schibri-Verlag (ISBN 978-3-86863-022-0). Þetta er hluti af sögu íslensks forsetaframbjóðanda og ekkert ómerkilegri en svo margt annað sem til boða stendur.
Hitler var líka í Pasewalk
Að lokum er einnig vert að minnast þess að bærinn Pasewalk var einnig hluti af geðveikislegri sögu Hitlers. Þangað var hann færður á sjúkrahús í lok fyrri heimstyrjaldar og var því lengi haldið fram að hann hefði verið þar vegna blindu sem orsakaðist af gaseitrun. Dr. Karl Kroner, læknir og gyðingur sem allranáðugast komst til Íslands fyrir bláan augnlit arískrar konu sinnar og smekk íslensks sendiráðsritara fyrir bláeygum þýskum konum, og sem reyndar var líka bláeygur, upplýsti leyniþjónustu Bandaríkjahers um "veikindi" Hitlers í Pasewalk, er Kroner var enn á Íslandi árið 1943 (aska hans er reyndar grafin í Fossvogskirkjugarði).
Karl Kroner í fyrri heimsstyrjöld, þegar hann hitti Hitler í Pasewalk. Sonur hans Klaus Erlendur (th) lést í Bandaríkjunum árið 2010.
Karl Kroner greindi leyniþjónustu Bandaríkjanna frá því sanna um sjúkdóm" og ímyndunarveiki Hitlers, eins og kemur fram í bók taugasérfræðingsins David Lewis-(Hodgson) um Hitler, sem ber heitið The man who invented Hitler (2004), sem og í bókinni Hitler in Pasewalk (2004) eftir Bernhard heitinn Horstmann. Sjá hér.
Hitler var einnig á spítala árið 1916. Hugsið ykkur, hvað hefði gerst ef hann hefði verið drepinn í stríðinu. Hjalti er annar frá hægri í efstu röð.
Gyðingar | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)