Færsluflokkur: Gamlar myndir frá Íslandi

Let it slide

23 small Fornleifur ©

Hann er seigur, skyggnumyndabirgir Fornleifs á Englandi. Nú er hann búinn að finna enn eina mynd úr röð Riley bræðra og E.G. Wood. Að þessu sinni er það skyggna númer 23. Myndin er handlituðuð og framleidd af o merkt fyrirtækinu E.G. Wood. (Sjá lista yfir myndir skyggnufyrirlestranna um Íslands sem Riley-bræður seldu fyrst, og síðar E.G. Wood).

Á kant skyggnunnar er límdur lítill miði sem á stendur 32403 Plain of Thingvellir og með penna hefur verið skrifar OXARA. Skyggnan er merkt með hringlaga miða sem á stendur talan 23, en sá miðið er á milli glerferninganna lík og miði sem sýnir að skyggnan er úr röðinni England to Iceland og neðst í vinstra horni skyggnunnar er merki E.G. Wood fyrirtækisins sem var til húsa við 1-2 Queen Street við Cheapside í Lundúnum.

Myndin er tekin ofan frá Almannagjá og yfir Þingvallabæinn. Í baksýn má sjá Ármannsfellið og það grillir í Lágafell. Ljósmyndarinn hefur  staðið upp á vesturbakka Almannagjár.

Eymundsson original

Myndin var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og var ein þeirra mynda sem er að finna í varðveittu albúmi sem fyrrum lá frammi á ljósmyndastofu Sigfúsar. Í því gátu gestir á stofunni skoðað Íslandsmyndir og pantað kópíur til minningar um Íslandsdvöl. Svarthvít pósitífa er til af myndinni á Þjóðminjasafni Íslands (Lpr-1152-11).

Framleiðandi skyggnunnar, E.G. Wood, hefur vegna þess að glerskyggnurnar voru réttur ferningur, í þessu tilfelli 8,2 x 8,2 sm. að stærð ekki getað birt myndir Sigfúsar í heild og hafa því valið að notast við hluta myndarinnar

Ljóst er nú orðið og fullvíst, að Þorlákur Johnson og Sigfús Eymundsson, sem um tíma var með Þorláki í skyggnumyndasýningunum (sjá hér og hér) hafa notast við þessar myndir Sigfúsar þegar Íslandslýsing Riley bræðra og E.G. Wood voru framleiddar.

23 England to Iceland FORNLEIFUR COPYRIGHT

Myndin af skyggnunni efst sýnir einna helst það sem fólk sá við sýningar á henni á 19. öld, en þessi mynd er tekin með ljósi úr báðum áttum og sýnir ekki þann lit sem myndin hafði uppi á vegg.

Þessi skyggna ásamt mynd nr. 24 (sjá hér) eru elstu "litljósmyndirnar" frá Þingvöllum. Reyndar handmálaðar. Furðu sætir hve vel konurnar sem störfuðu við að mála skyggnur hjá þessum fyrirtækjum hafa náð litunum á Þingvöllum. Tvennt gæti komið til greina. Þingvellir eru fullir af síbreytilegum, jarðrænum litum og því auðvelt að geta sér til um þá án þess að hafa verið á staðnum. En hugsanlega gæti hafa verið send handlitið kópía með frá Íslandi til að leiðbeina þeim sem unnu við litun ljósmyndanna. En um þetta vitum við ekkert enn sem komið er, en hugsast getur að það finnist ritaðar heimildir sem geti gefið frekari upplýsingar.

Til eru aðrar handlitaðar litskyggnur á Þjóðminjasafni frá 1898, sem eru þó nokkuð yngri  en myndirnar frá E.G. Wood í London.  Þær voru teknar af enskum ljósmyndara T. Throup og hafa verið gefnar Þjóðminjasafni af T. Nokkrum Throup. Hvort ljósmyndarinn er sami maður og gefandinn gefur Þjóðminjasafnið ekki upp. Þeim ljósmyndum fylgir handrit/skýringar í stílahefti (Sjá hér og hérna) en takmarkaðar upplýsingar eru veittar um myndirnar af Þjóðminjasafn. Ein mynda Throup er sýn frá Almannagjá að Þingvallabænum og er myndin tekin nokkru norðar en mynd Sigfúsar Eymundssonar.

Hér verður enn undirstrikað að Íslandsskyggnur Riley bræðra og E.G.Wood eru í dag afar sjaldgæfar. Enn sem komið er eru myndirnar í forngripasafni Fornleifs þær einu sem þekktar eru og hjá LUCERNA sem eru samtök háskóla, safna og sérfræðinga sem rannsaka og safna laterna magica skyggnum, hafa menn enn ekki enn komist yfir myndir úr þessum röðum sem hægt var að kaupa til sýninga í samkomuhúsum fyrirlestrum í lok 19. aldar og byrjun þeirra 20.

Með komu kvikmyndanna hvarf áhugi á skyggnumyndasýningum mjög skyndilega og skyggnumyndirnar lentu svo að segja í glatkistunni. Það er fyrst á síðustu 20 árum að menn hafa sýnt því áhuga að safna slíkum myndum og rannsaka sögu framleiðslu þeirra og sýninga á þeim.


Þrjú gos eftir hádegi

bertuch_vol_4_3b.jpg

Á upplýsingaöld og vel fram á 19. öld hungraði fólk í Evrópu eftir upplýsingum og myndum frá hinu framandi Íslandi. Oft gerðist það, sökum myndaleysis, að þeir sem sögðu frá Íslandi á einn eða annan hátt, tóku upp á því að skálda í eyðurnar. Listamenn voru fengnir til að búa til myndir frá Íslandi, sem soðnar voru upp úr því litla sem menn vissu og þekktu fyrir. Útkomurnar úr því gátu oft verið mjög spaugilegar.

bertuch.jpgÁrið 1795 hófst merkur þýskur bókaútgefandi í Weimar, Friedrich Johann Berduch að nafni (1747-1822, sjá mynd til vinstri), handa við að gefa út mikla ritröð sem var ætlað heldri manna börnum til fræðslu og uppbyggingar. Verkið bar heitið Bilderbuch für Kinder: enthaltend eine angenehme Sammlung von Thieren, Pflanzen, Früchten, Mineralien  etc., og kom verkið út í 12 bindum frá 1795-1830. Tvö bindanna komu út eftir dauða hans. Tólf binda fræðandi myndabók. Minna mátti það vitaskuld ekki vera í hinum þýska heimi.

Ísland, Íslendingar og íslensk náttúra voru tekin fyrir í tveimur bindanna, 4. bindi og (1802) og því 9. (1816).

Myndabækurnar voru mikið verk og vandað fyrir sinn tíma og myndir sumra þeirra voru handlitaðar. En galli var á gjöf Njarðar eins og fyrr segir þegar fjarlæg lönd voru til meðferðar, því oft lá ekki fyrir gott myndefni. Þá tóku frumkvöðlar upplýsingarinnar upp á því að miðla tilbúningi eins og þremur gosum.

bertuch_vol_4_5_b.jpg

Þrjú gos og lautarferð í Haukadal

Árið 1802 í fjórða bindi verksins birtist vandlega unnin koparstunga sem sýna á landslag á Íslandi. Fremst í myndinni er Geysir samkvæmt textanum og Hekla og annað eldfjall sést í bakgrunninum.

Skýringartextinn við myndina er ekki bara á þýsku (Der Geyser und Hekla auf Island), heldur einnig frönsku (Le Geyser et le Hecla en Islande), ensku (The Geyser and Heckla in Iceland) og ítölsku (Il Gyser ed il Monte Heckla nell' Islanda), ein blaðsíða fyrir hvert tungumál (sjá hér). Ætlunin var að heldrimannabörnin sem skoðuðu hinn framandi heim myndanna lærðu um leið þrjú erlend tungumál. Jawohl!

bertuch_vol_4_4_b_1298656.jpg

Eru þetta Íslendingar við "Geyser". Svona var þetta kannski þegar allir Íslendingar áttu hverinn. Þrjú gos á sama dagi er reyndar enn blautur draumur þeirra Íslendinga sem nú mata krókinn æði græðgislega og mergsjúga ferðamennskuna á hinu heillandi Íslandi.

Aðrar myndir frá Íslandi voru í 9. bindi þessarar frábæru myndabókar fyrir börn í tólf bindum og á fjórum tungumálum. Meira um þær í næstu upplýsingaaldargrein Fornleifs.

Myndin er úr einkasafni yngri og fríðari bróður Fornleifs.

V.Ö.V. febrúar 2017


Ísland á sýningu í París 1856-1857

1bhbnhi.jpg

Í nóvember 2014 var hér á Fornleifi greint frá sýningunni Musée Islandique, sem haldin var Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn 15. nóvember 2014 til og með 18. janúar 2015. Sýningin og öll vinna Ólafar Nordals listamanns við hana var með miklum ágætum.

Myndlistarverkefnið Musée Islandique eftir Ólöfu Nordal samanstendur af tveimur ljósmyndaröðum sem bera heitið Musée Islandique og Das Experiment Island. Verkin voru sýnd á Listasafni Íslands árið 2012, í Maison d´Art Bernard Anthonioz í París árið 2013 og í Nordatlantens Brygge, þar sem allt of fáir sáu þessa góðu sýningu, þótt gerð hennar á Íslandi hafi verið vel nokkuð vel sótt (1).

Líkt og fram kom í sýningarskrá hinnar frábæru konseptsýningar Ólafar Nordals, heillaðist Ólöf af mannfræðiáhuga 19. og 20. aldar eftir að hún rakst á gifsafsteypur af 19. aldar Íslendingum sem eru flestar varðveittar í frumgerð sinni á Musée de l´Homme í París, utan ein, sem er af Birni Gunnlaugssyni. Hún er varðveitt í afsteypu á Kanaríeyjum, nánar tiltekið á El Museo Canario í Las Palmas, þangað sem myndir var í eina tíð seld af Musée de l´Homme í París. Á sýningu Ólafar voru ljósmyndir, sem hún lét taka á Las Palmas og í París, af þeim afsteypum sem gerðar voru af Íslendingum árið 1856. Afsteypurnar voru af Íslendingum og Grænlendingum og gerðar að mönnum í för með franska prinsinum Jerome Napoleons prins (1822-1891)(2) í merkum vísindaleiðangri sem sumarið 1856 heimsótti meðal annarra landa Ísland og Grænland. Afrakstur þessa opinbera franska leiðangur var sýndur á opinberri sýningu í París þegar í árslok 1856. Sýningin fór fram í Palais-Royal í París. Miðað við hver fljótt var miðlað af söfnun leiðangursins hefði í þá daga sannarleg mátt bæta effectivité við einkunnarorðin Liberté, égalité, fraternité.

Myndir af sýningu árið 1856-57

Fyrir hreina tilviljun fann Fornleifur nýverið blaðsíðu úr franska tímaritinu L´Illustration, sem mér sýnist að hafi ekki komið fyrir augu almennings á Íslandi fyrr en nú. Ekki var greint frá þessari umfjöllun í tengslum við sýningar Ólafar Nordal. Ég uppgötvaði síðuna á netinu og keypti hana á stundinni af manni nokkrum í Frakklandi sem selur úrklippur úr gömlum blöðum og gamlar koparristur.

Fyrstu Íslandssýningunni, sem opnuð var þann 20. desember 1856 í París, voru gerð góð skil þann 10. janúar tímaritinu L´Illustration (bls. 21-22). Höfundurinn var maður er hét Laumé. Greinin bar yfirskriftina Expédition scientifique du prince Napoléon dan les mers du nord [Vísindaleiðangur prins Napóleons til norðurhafa]. Teiknaðar voru myndir á sýningunni og eftir þeim voru síðan gerðar koparstungur sem birtust í L´Illustration. Á einni myndanna má glögglega sjá sýningargripina frá Íslandi og Grænlandi.

Þessar myndir í L´Illustration, sem vantaði tvímælalaust á sýningu Ólafar Nordals, er hér með komið á framfæri. Það er aldrei um seinan. Gaman er að skoða koparristunar í L´Illustration og bera t.d. saman við þær afsteypur sem varðveist hafa á Þjóðminjasafni Kanaríeyja og á Musée de l´Homme.

Íslenskir líkamspartar og bækur

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar nærmyndir af stærstu koparristunni í greininni í L´Illustration í samanburði við þær afsteypur sem finna má á Kanaríeyjum og í París. Sýningin á gripunum frá Íslandi veturinn 1856-57 telst mér til að sé fyrsta sýningin þar sem Íslandi og Íslendingum voru gerð skil.

2bepjda.jpg

10349131_610015819105099_6465160320320399606_n.jpg

Þær voru þarna grænlensku konurnar í París 1856, þótt af einhverjum ástæðum hafi ekki  þótt við hæfi að hafa myndir af þeim frammi á sýningunni í Reykjavík árið 2012.

2cfvhtp.jpg

2dFornleifur.jpg

10295006_584889268284421_8837816064864614898_o.jpg

olofnordal-382x270.jpg

1857_and_now_fornleifur.jpg

Sýningin var heima hjá prinsinum

Hæg voru heimantökin fyrir Napóleon prins. Hann bjó sjálfur ásamt fjölskyldu sinni í höllinni þar sem sýningin á gripum úr leiðangrinum fór fram. Þá sem ekki þekkja vel til í París er hægt að upplýsa, að höllina Palais-Royal er hægt að finna gegnt Louvre-safninu og hýsir höllin í dag m.a. brot af af þjóðarbókhlöðu Frakka.

Á sýningunni í Palais Royale í París árið 1856-57 voru gripir frá öllum þeim löndum sem leiðangurinn hafði heimsótt, þ.e. Íslandi, Grænlandi og Svíþjóð og Færeyjum, Danmörku og Noregi; Ekki einvörðungu afsteypur af Íslendingum og Grænlendingum, heldur einnig mikið steinasafn og uppstoppuð dýr.

Nokkur skip sigldu með leiðangursmenn um Norðurhöfin, en móðurskipin tvö voru La Reine Hortense, sem var gufuskip, og Le Course. Prinsinn heimsótti einnig Jan Mayen og Spitzbergen og sömuleiðis var komið við í Færeyjum,Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Um ferðalagið er hægt að lesa í miklu verki sem fyrst kom út árið 1857 og sem bar titilinn: Voyage Dans Les Mers Du Nord A Bord De La Corvette La Reine Hortense. Höfundurinn var einn leiðangursmanna, einn af riturum Napóleons Prins sem kallaði sig Charles Edmond. Upphaflegt nafn hans var Edmund Franciszek Maurycy Chojecki og var hann ættaður frá Póllandi og talinn einn af fyrstu sósíalistanna í Frakklandi.

3b.jpg

Eins og sjá má hér á einni af koparstungunum sem birtust í L´Illustration þann 10. janúar árið 1857, þá hafa Napóleon prins og ferðafélagar hans einnig krækt sér í langspil, ekki ósvipað því hljóðfæri sem varðveitt er á safni í Brussel (sjá hér). Á Íslandi náðu þeir sér einnig í ask, útskorin tóbaks- og púðurhorn sem og reykjarpípu úr járni. Á annarri mynd má sjá silfurkrús íslenska "fyrir mjólk", grænlenska fiðlu!! og sænska könnu sem er fremst á myndinni.

Einnig höfðu leiðangursmenn með sér margar bækur og handrit frá Íslandi, sem sjást á koparristunni, þar sem þeim var raðað á borðin fyrir framan gifsafsteypurnar. Í greininni í L´Illustration er tekið fram að bækurnar sýni frekar en en glæsileika bókanna, háan aldur þeirra sem og hvernig Íslendingar héldu andlegu atgervi sínu við lestur uppbyggilegra bóka á hjara veraldar, þar sem allur gróður visnar en þar sem mannlegt atgervi hefur haldið áfram að blómstra og vaxa. Höfundur dáðist að því að í Reykjavík var lærður skóli, skóli, bókasafn, þrjú lærdómsfélög og prentsmiðja sem gaf út tvö blöð og prentaði bækur sem stóðust samanburð við það besta í enskri [sic] prentlist.(4)

5byzntd.jpg

4batpwn.jpgLeiðangursmönnum og prins Jerome Napoleon tókst sýnilega mjög léttilega að afklæða sumar íslenskar konur, ekki aðeins til að taka gifsafsteypur af kvið þeirra, stinnum eða lafandi brjóstum, rasskinnum og útstandandi nöflum. Aumingja mennirnir hafa hugsanlega aldrei séð neitt því líkt heima í Frakklandi.

Kannski hafa einhverjar af hinum viljugu, íslensku kvenmódelum þeirra skipt á spaðafaldsbúning þeim sem síðar var sýndur í París og einhverjum nútímalegri flíkum eftir nýjustu Parísartísku. Þannig er faldbúningnum lýst í þýðingu Vieuxsage, en svo er Fornleifur jafnan kallaður á æruverðugan hátt í París:

Í stuttu yfirliti í einu af síðustu tölublöðum okkar ræddum við um framandleika sumra búninga. Á meðal slíkra búninga er íslenski kvenbúningurinn, sem settur hefur verið á gínu, svo laglega að þar sem hún stendur í anddyri sýningarsalarins, er maður eðlilega reiðubúinn að heilsa henni sem væri hún lifandi persóna. Þessi búningur með sínum gífurlega glæsileika, samanstendur af lítilli húfu sem gerð er úr löngum vafningi af svörtu silki. Svartur klútur er um hálsinn sem hvílir á kraga úr flaueli sem er ísaumaður með gullþræði; Einnig er slá með stórum krækjum úr kopar utan yfir ríkulega ísaumað vesti. Um mittið er beltið sem á eru stórir hnappar [stokkar] með opnu verki og niður úr beltinu hangir löng keðja sem endar í hjarta [laufi] úr silfri. Þessi búningur er eina verðmæti fjölskyldunnar og gengur í arf frá móður til dóttur.(4)

1_c_fornleifur_enginn_annar.jpg

Hér má sjá einhvern nærsýnan franskan sjarmör heilsa íslensku maddömunni sem reynist þó vera næsta þögul og fýluleg gína sem stóð rétt innan við anddyri sýningarsalsins.

medaille.jpg

Napóleon prins var sjálfur örlátur á gjafir handa Íslendingum eins og má lesa hér í frábærri grein Kjartans Ólafssonar sagnfræðings í tímaritinu Sögu árið 1986, þar sem Kjartan kemur inn á ferð Napóleons og póltíska þýðingu hennar vegna áhuga Frakka á fiskveiðistöð á Dýrafirði og andstöðu Dana við þau áform. Færði Napóleon prins sumum mektarmönnum á Íslandi minningarpening með mynd af sjálfum sér og með áletrun sem vísaði í ferðina. Prinsinn skildi einnig eftir sig tvö stór málverk af sér og konu sinni í embættisbústað Stiftamtmannsins, og hafa þau málverk líkast til verið tekin traustataki af þjófóttum dönskum embættismönnum. Forleifur væri þakklátur fyrir upplýsingar um örlög málverkanna, sem upphaflega héngu um borð á einu skipa leiðangursins.

 

Neðanmálsgreinar og frekari upplýsingar:

(1) Minna þótti mér aftur á móti koma til greinar Gísla Pálssonar prófessors emeritus í mannfræði við Háskóla Íslands um Jens Pálsson (1926-2002) líkamsmannfræðing sem Gísli ritaði í tengslum við þann hluta sýningar Ólafar sem fékk heitið Das Experiment Island. Grein hans birtist í sýningaskránni með sýningunni. Ástæðuna fyrir skoðun minni á grein Gísla Pálssonar geta menn lesið í langri ádeilu minni hér.

(2) Vegna nokkurs ruglings sem gætt hefur hjá ýmsum íslenskum höfundum skal tekið fram, að sá Naflajón sem heimsótti Ísland með pompi og prakt árið 1856 hét fullu nafni Napoléon Joseph Charles Paul Bonaparte. Hann var fæddur í Trieste og bar m.a. titlana Prince Français, Count de Meudon, Count di Moncalieri ad personam og Þriðji Prince von Montfort. Frá og með 1848 var hann almennt kallaður Prince Napoléon en einnig Prince Jérôme Napoléon og jafnvel uppnefndur Plon-Plon, en þannig mun hann hafa borið fram ættarnafn sitt sem barn. Hann var bróðursonur Napóleons keisara. Naflajón Íslandsfari andaðist í Rómarborg.

napoleon_joseph_charles_paul_bonaparte_painting_1297276.jpg(3) Þannig var Prins Napóleón lýst í Þjóðólfi árið 1856 (sjá hér): Prins Napóleon er hár maður vexti og þrekinn vel að því skapi og hinn karlmannlegasti og höfðinglegasti maður, ljósleitur í andliti en dökkur á hár og dökkeygður og snareygður og mjög fagureygður, ennið mikið og frítt, þykkleitur nokkuð hið neðra um andlitið og mikill um kjálka sem keisarinn mikli var, föðurbróðir hans. Enda er hann að ásjónu og andlitslagi mjög líkur Napóleon hinum I. eftir því sem meistarinn Davíð hefur málað mynd hans, þá bestu sem til er af honum. Myndin hér til vinstri sýnir málverk að fituhlunknum Plon-Plon og að hann var ekki "þykkleitur hið neðra um andlitið", heldur með tvær undirhökur af keisaralegum vellifnaði. 

(4) Parmi les objets rapportés d´Islande, on remarque une magnifique collection de livres, moins remarquables par leur luxe que par leur ancienneté et les idées qu´ils éveeillent Comme le fait remarquer M. Paul de Saint-Victor, l´emotion s´empare de vous a la vue de ces vénérables Bibles qui ont été la force, le vitique, le trésor moral de leur froid désert. A cette extreme limite du mode habitable, la ou la vegétation elle-meme se raréfie et se meurt, l´intelligence humaine n´a pas cessé de murir et de fructifier. Reykjarik, la capital, possede un lycée, des ecoles, une bibliotheque, trois sociétés savantes et littéretaires, et une imprimerie dont les deux journaux et les publications récentes egalent les plus parfaits produits de la typographie anglaise.

(5) Dans le rapide apercu contenu dans un de nos derniers numéros, nous avans parlé de l´etrangeté de cartains costumes. Parmi ceux-ci se trove l´habillement d´une femme islandaise, monte sur mannequin, et si bien monté que, placé a l´entree de la galerie, on est naturellement porte a le saluer comme une personne animée. Ce costume, a la magnificence massive, se compose d´un petit bonnet de drap noir a longue frange de soie, d´une cravate noire autour du cou, retombant sur une collerette de velours brodé d´or, d´un manteau ourlé de larges agrafes de cuivre, encadrant le corsage richement galonné; la taille est serrée dans une ceinture incrustée de gros boutons ciselés, á laquelle pend une longue chaine terminée pa un caeur d´argent. Cet habit est a lui seul l´écrin de la famille, et il reste comme un héritage la mere leque a la fille.


Hin annálaða íslenska gestrisni árið 1909

img_3_1296155.jpg

Um leið og ég minni enn einu sinni á hina undurfögru Súkkulaði-Siggu, sem hægt er að kaupa á 50x70 sm stóru plakati af Fornleifi, greinir hér frá öðru en eldra chromo-korti, með uppfræðandi efni sem fylgdi matvöru iðnvæðingarþjóðfélagsins í stórborgum Evrópu í byrjun 20. aldar.

Merkið hér að ofan er 23 vetrum eldra en Súkkulaði-Sigga í pökkunum frá Chokolat Pupier i Saint Etienne. Merkið fylgdi pökkum með súpukrafti frá Liebig árið 1909. Eins og áður hefur verið greint frá á Fornleifi (sjá hér), gaf Liebig út tvær seríur með Íslandsmyndum sem Fornleifur á einnig á skattkamri sínum. Ofanstæð mynd, sem Fornleifur eignaðist nýlega í Frakklandi, tilheyrir þó ekki þeim seríum, heldur litríkri seríu sem kallaðist Jours d'été das l'extreme Nord, eða Sumardagar í hinu háa norðri. Undirtitillinn er La bienvenue aux voyaguers en Islande, sem útleggjast má: Útlendingar boðnir velkomnir á Íslandi.

Greinilegt er að franskt útibú Liebig kjötkraftsrisans í Þýskalandi hefur vantað upplýsingar frá Íslandi fyrir uppbyggilegt fræðsluefni um Ísland, og listamennirnir hafa ákveðið að skálda örlítið.

Heimasætan á Draumabakka kemur færandi hendi á móts við ferðalangana, með mjólk og brauð. Hún er einna helst líkust blöndu af barmastórri norskri, hollenskri, rússneskri og svissneskri heimasætu. Móðir hennar situr við mjaltir í túnfætinum og fjallasýnin er fögur. Ferðalangarnir taka ofan hattinn og háma í sig nýbakað brauðið og drekka volga mjólkina. Á hinum íslenska bóndabæ er vitaskuld allt mjög reisulegt og bærinn hlaðinn úr grjóti eins og síðar á nasistahofi Gunnars Gunnarsson að Skriðuklaustri. Ekkert torf er sjáanlegt eða útskeifar og skyldleikaræktaðar rollur. Fjallasýnin er glæsileg og vitaskuld er eldfjall og úr því rýkur örlítið. Ferðamannagos voru greinileg líka eftirsótt vara og þekkt árið 1909.

detail_liebig.jpg

Myndirnar á Liebig-kortunum sumarið 1909 voru ef til vill ekki mikil listaverk, en töluverð handavinna.

Myndin á þessu korti kraftaverkaverksmiðjunnar Leibig er næsta helst eins og einhver sætasta draumkunta fyrrverandi fornminjaráðherra á puttlingaferðalagi með Kim Jong-Un um Ísland. Sigmundur vildi, eins og menn muna, ekki aðeins endurreisa hús í endurreisnarstíl Framsóknarflokksins með aðstoð Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar, heldur einnig láta byggja almennilegan Selfossbæ með 60 metra langri miðaldastafkirkju og gapastokki. Hann skammaðist sín fyrir fortíðina og vildi búa til nýjar fornleifar.

Kannski hefði SDG verið ágætur draumsýnarmaður í súpukraftsverksmiðju? Hann var að minnsta kosti algjörlega misheppnaður sem yfirkokkur í stjórnmálum. Ætli Maggi eða Toro hafi ekki lausar stöður fyrir svo efnilegan súpudraumamann? Maður verður að vona það. Annars er alltaf hægt að setja upp Potemkin-tjöld í Norður Kóreu ef enginn áhugi er á Selfossi.


Ísland í töfralampanum: 10. hluti

fornleifur_copyright_england_to_iceland_38.jpg

Jæja ágætu gestir, nú er komið að síðasta hluta skuggamyndasýningar Fornleifs. Síðasta myndin af þeim sem Fornleifur keypti á Cornwall fyrr í ár verður sýnd og reifuð í dag.

Við vitum hvaða dag hún var tekin, hvar hún var tekin og hverjir tóku ljósmyndina - og við vitum sömuleiðis að þeir tóku tvær myndir af sama atburðinum. Þar fyrir utan vitum við hver framleiddi skuggamyndina. 

En það er líka mikinn annan fróðleik af finna í þessari mynd. Hún er t.d. merkilegt fyrir mig, sem á að hluta til ættir að rekja í Kjósina og sýnir hvernig fólk, sem ég er ekki kominn af, var sumt vel í álnum í Kjósinni á 19. öldunni, og lék sér þar á eins konar þjóðbúningatískusýningum meðan fátæklingarnir á landinu þurftu að flýja til Reykjavíkur eða Vesturheims. Myndin sýnir vel eina af dellunum sem Íslendingar fengu á þeim öldum sem þeir voru mest hrjáðir. Þeir fóru að hanna sér þjóðbúninga. Skrýtinn veruleikaflótti það. Körlum þykir nú alltaf gott að konan sé sæt og góð, þó svo að illa áraði. Mín tilgáta er sú að konur gefist einnig síður upp en menn í hörmungum og harðæri. En venjulega voru það karlar sem stóðu fyrir hönnun á kvenbúningnum.

from_f_ponzi_1995.jpg

Reynivellir í Kjós, 11. júní 1882

Þann 11. júní 1882 var enn Kristni í landinu og því fermt í kirkjunni að Reynivöllum í Kjós. Svo vel vildi til að tveir erlendir ferðalangar voru boðnir til kirkju. Þetta voru þeir Maitland James Burnett og Walter H. Trevelyan, efnamenn sem stunduðu stangaveiðar á Íslandi og ljósmynduðu þess á milli fólk og fyrirbæri (sjá hér ef þið hafið þegar gleymt, eða lesið hina ágætu bók Ponzis frá 1995 Ísland fyrir Aldamót).

Skuggamyndin hér að ofan var líklega tekin þegar fólk kom úr kirkju og stillti sér upp vestan og suðvestan við kirkjuna til að láta útlendingana eilífa sig.

Teknar voru tvær myndir

udsnit_fra_slide.jpg

Þegar skuggamynd númer 38 í syrpu Riley Bræðra í Bradford í Jórvíkurskíri var keypt af forngripasala fyrr á þessu ári, varð fljótlega ljóst að hún hafði verið framleidd af fyrirtækinu fljótlega eftir að hún var tekin árið 1882. Í sölulistum Riley Brothers var hún kölluð Coming from Church. Líklegast er að Burnett og Trevelyan hafa útvegað myndir sínar til þessarar framleiðslu, eða að Sigfús Eymundsson hafi framkallað myndir fyrir þá félaga, en síðan sjálfur séð um að setja mynd þeirra til framleiðslu í skuggamyndaröðunum sem hann lét útbúa með Þorvaldi Ó. Johnson (sjá hér). Enn annar möguleiki er vissulega sá að Sigfús hafi tekið myndirnar fyrir Burnett og Trevelyan að Reynivöllum, en um slíkt samtarf vitum við aftur á móti ekkert. 

udsnit_fra_ponzi.jpg

Við nánari samanburð á mynd Burnetts og Trevelyans frá fermingunni við mynd 38 í syrpu Riley Bræðra kemur í ljós að alls ekki er um sömu mynd að ræða, þó hún sé tekin af sama ljósmyndara og sama dag.

Þetta sést á ýmsu, en greinilegast þegar maður beinir sjónum að konunum fyrir framan kirkjuna við heysátuna fremst í myndinni. Þær eru allar á iði. Þegar myndin, sem birt er í bók Frank Ponzis er tekin stendur ung kona í dyrgættinni á kirkjunni. Á myndinni sem hefur verið notuð í skyggnu númer 38 er hún horfin úr gáttinni. Þess vegna má álykta að teknar hafi verið tvær glerplötur af fólkinu sem kom frá kirkju þann 11. júní 1882.

Tískusýning eftir messu

skautkonur.jpg

Konurnar á myndunum frá Reynivöllum eru mesta prýði myndanna. Flestir karlanna sjást ekki á skuggamyndinni, því þeir standa vestar en myndin nær, þar sem hún hefur verið klippt skorin til að passa á glerið í skuggamyndunum sem var 8,2 x 8,2 sm að stærð meðan að glerplöturnar voru ferhyrndar og lengri á einn veginn en hinn eins og gjarnt er um ferhyrninga.

konur_me_sjol_from_f_ponzi_1995.jpgÍ frekar svölum júnímánuði árið 1881 sveipuðu konur sig með innfluttum skoskum teppum eða stórum sjölum sem Bretar kalla rugs eða scarves þegar þau voru minni, en Danir kalla þessi teppi plaide eftir mynstrinu sem er áþekkt því sem ofið tartan-vaðmál skotapilsa hefur. Teppi þessi voru kölluð sjöl á Íslandi og seldust mikið á 9. og 10. áratug 19. aldar.

konur_me_teppi_from_f_ponzi_1995.jpg

spa_afaldur_from_f_ponzi_1995_1284720.jpgMjög athyglisvert er að skoða búninga kvennanna sem höfðu verið við guðsþjónustuna. Þær eru flestar klæddar í skautbúninga hannaða af Sigurði Guðmundssyni málara á árunnum 1858-60. Fjórar kvennanna eru hins vegar í 19. aldar faldbúningi með spaðafald og traf. Enn enn aðrar í upphlut eða peysufötum. Ein kvennanna í skautbúningi og ber skikkju eða slá bryddaða með hvítu skinni. Aðrar frúr bera ofin, köflótt teppi yfir herðarnar, líklega innflutt. Það var mjög kalt í veðri árið 1881-1882 samkvæmt heimildum, en ljóst er að konur í sveitum áttu enn ekki almennilegar kápur á þessum tíma líkt og karlar. Tvær konur eru hins vegar með með hekluð sjöl. Ein kvennanna lítur út fyrir að vera í kyrtli við skautið. Kyrtilinn hannaði Sigurður málari um 1870. Konan í kirtlinum er hugsanlega dóttir síra Þorkels Bjarnsonar á Reynivöllum. Hún eða systir hennar er í þessum kirtli á annarri ljósmynd þeirra Burnetts og Trevelyans sem er birt í hinni góðu bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót (1995).

Engin kvennanna er sjáanlega með garðahúfu/kjólhúfu (sjá hér). Slík húfa sést á mynd 13 í myndaröð Riley Bræðra frá Ísland. Hins vegar var einnig til mynd af konu í hátíðarbúningi, Woman in Holiday Dress, sem líklegast var skautbúningur. Sú mynd var númer 37 samkvæmt auglýsingum Riley Bræðra. Gæti hugsast að það hafi verið mynd af af prestsfrúnni að Reynivöllum, þar sem hún stóð ein við borð fyrir utan íbúðarhúsið að Reynivöllum (sjá mynd 95 í Ísland fyrir Aldamót).

Prestar og karlar

prestar_from_f_ponzi_1995.jpg

Karlarnir virðast miklu færri en kvenpeningurinn í kirkju þennan daginn. Kannski hafa þeir ekki haft eins mikla þörf á því að eilífast á ljósmynd og konurnar, og eigi eru þeir nú beint glæsilegir, karlarnir í Kjósinni

Mikið ber á að karlarnir séu með bowlerhatta sem hafa væntanlega komið í kaupstað frá Bretlandseyjum með teppunum sem konurnar keyptu sér sem sjöl. Greinilegt var að bresk eða réttara sagt skosk sveitatíska var að ryðja sér til rúms á Íslandi.   

Burnett og Trevelyan komu oft við á Reynivöllum og voru vel kunnugir endurreisnarprestinum og Alþingismanninum Þorkatli Bjarnasyni (1839-1902) sem þar bjó með fjölskyldu sinni. Burnett kom einnig sumarið 1886 að Trevelyan látnum og ljósmyndaði fjölskyldu prestsins í bak of fyrir. Prestsfrúin, Sigríður Þorkelsdóttir (1835-1912), átti þessi forláta sólgleraugu sem gjörsamlega skáka augnbúnaði Fornleifs.

Látum þetta ágæta fólk setja punktinn að sinni og ef menn vilja fræðast meira um Reynivelli á 19. öld, þá er ágætt að horfa á þessa litlu fræðslumynd og stórmerku um Reynivelli i Kjós byggða á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar af bænum. Það er Inga Lára Baldvinsdóttir forstöðumaður myndasafns Þjóðminjasafns Íslands sem segir frá. Síðan ættu menn að lesa bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót (1995). Þannig geta þeir fengið sér góða sýnisferð aftur á 19. öld.

_orvaldur_bjarnason_og_fjolskylda_b.jpg

Myndin er úr bókinni Ísland fyrir Aldamót eftir Frank heitin Ponzi. Ljósmynd Maitland James Burnett 1886.

Þakkir:

Þakkir færi ég vinum mínum sagnfræðingunum Kristjáni Sveinssyni, mag.art. og Einari Jónssyni úr Skógum, sem einnig er löglærður. Þeir eru báðir fyrrverandi sveitadrengir með annan fótinn á 19. öldinni. Ég þakka þeim viðræður og upplýsingar um myndirnar; Sér í lagi Einari Jónssyni fyrir að greina mér frá myndum Burnetts og Trevelyans frá Reynivöllum í Kjós í hinni góðu bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót. Þó að faðir minn hafi útvegað eina mynd í bókina entist honum ekki aldur til að sjá bókina útgefna, en ég náði loks í eintak hjá ágætum fornbókasala á Selfossi sem tók sér ríflega greiðslu fyrir hana, enda bókin orðin afar sjaldséð. Vonandi vill einhver standa í því að gefa hana aftur út.

thats_all_folks.gif

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ísland í töfralampanum 2. hluti

Ísland í töfralampanum 3. hluti

Ísland í töfralampanum 4. hluti

Ísland í töfralampanum 5. hluti

Ísland í töfralampanum 6. hluti

Ísland í töfralampanum 7. hluti

Ísland í töfralampanum 8. hluti

Ísland í töfralampanum 9. hluti

Þú varst að enda við að lesa Ísland í töfralampanum 10. hluta

lucerna_england_to_iceland.jpg

Titlar ljósmynda í syrpu Riley Bræðra frá Íslandi. Myndir með bláum bakgrunni hafa fundist, hinar ekki.


Ísland í töfralampanum: 7. hluti

26_bruera_rapids_fornleifur_copyright.jpg

Brúarárfossar voru líkt og í dag mjög vinsælt myndefni fyrir fyrstu ljósmyndarana á Íslandi. Útlendingar heilluðust einnig snemma af fossunum, einnig fyrir öld ljósmyndarinnar. Þeir voru því tilvaldir í landkynningarefni eins og skuggamyndir. Svo mikið hefur mönnum þótt koma til fegurðar fossanna, að tvær myndir af þeim, annars vegar af fossunum og hins vegar af brúnni, eru með í syrpu Riley Bræðra England to Iceland, sem Fornleifur keypti nýlega nokkrar myndir úr á Cornwall.

27_bruera_and_bridge_fornleifur_copyright.jpg

db_lanternist1_1282589.gifVafalaust er, að Sigfús Eymundsson er höfundur efri myndarinnar sem bar númer 26 í syrpu Riley Bræðra og kallast á ensku Bruera Rapids. Myndin er til í tveimur þurrnegatífu á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér og hér). Hin myndin sem er númer 27 og ber heitið Bruera and Bridge er mjög líklega einnig eftir hann.

Brúarárfossum voru þegar árið 1834 gerð skil af Frederik Theodor Kloss (sjá hér). Mynd Kloss kom seinna út prentuð sem litógrafía. Einnig er vel þekkt koparstunga Auguste Meyers frá 1838 í stórverki Gaimards: Voyage en Islande et au Groënland.

Meira er víst ekki hægt að teygja lopann um fossana og brýr á Brúará.

bruararfossar_meyer.jpg

Mynd Auguste Meyers af Brúarárfossum.

Fyrri kaflar í sögunni um fyrstu skuggamyndirnar frá Íslandi:

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ísland í töfralampanum 2. hluti

Ísland í töfralampanum 3. hluti

Ísland í töfralampanum 4. hluti

Ísland í töfralampanum 5. hluti

Ísland í töfralampanum 6. hluti


Ísland í töfralampanum: 6. hluti

_ingvellir_fornleifur_copyright_1282328.jpg

Fimm mismunandi ljósmyndir frá Þingvöllum og nágrenni þeirra voru upphaflega í skuggamyndasyrpunni England to Iceland, sem Fornleifur festi nýlega kaup á. Aðeins ein myndanna er þekkt og varðveitt í dag og ber hún númerið 24 og titilinn Parsonage and Church, eða prestsetur og kirkja. Myndin er af Þingvallabænum og kirkjunni og tekin úr suðri. Fólk stendur á tröppum bæjarins og á hlaðinu. Vikið skal að því síðar, en fyrst farið yfir byggingarsögu húsa Þingvöllum á 19. öld.

Litmynd frá 1882

Og nú er það heldur betur fínt. Fornleifur býður upp á skyggnumynd í lit. Myndin er vitaskuld handlituð, en segjast verður eins og er að litunin hefur heppnast mjög vel. Æfðar hendur og fínlegar hafa unnið þetta verk. Hinar myndirnar frá Þingvöllum í syrpunni voru með stafsetningu Bretanna, en þær hafa líklegar farið forgörðum:

20 Lake Þingvellavatn

21 Almanagga

22 Falls of Oxara

23 Plain of Thingvellir

Skuggamynd númer 24 var seld af E.G. Woods þegar fyrirtækið var til húsa á 74 Cheapside í Lundúnum. Samkvæmt rannsóknum LUCERNA-teymisins,sem áður hefur verið sagt frá, var fyrirtækið skráð á því heimilisfangi nokkuð lengi, eða á tímabilinu 1861-1898.

Myndin hefur nær örugglega verið keypt af Riley Brothers, sem upphaflega voru með hana í sinni syrpu um 1885-86. E.G. Wood hefur því framleitt sína mynd númer 24 eitthvað síðar en 1886. Eins og áður segir, kölluðu Riley Bræður syrpuna frá Íslandi England to Iceland, en E.G. Wood nefndi hana A travel to Iceland.

Nú vill svo til að sama ljósmyndin er til í þremur mismunandi svarthvítum pósitífum á Þjóðminjasafni Íslandi og er hún eignuð Sigfúsi Eymundssyni (sjá hér, hér og hér). 

_ingvellir_eymundsson_1867.jpg

Stereoskópi-mynd tekin af Sigfúsi Eymundsyni árið 1867.

elsta_myndirn_1282326.jpg

Mynd Jóns Christján Stephánssonar af Þingvallabænum. Þó myndin sé örugglega tekin af Jóni Stephánssyni, eignar Þjóðminjasafnið nákvæmlega sömu mynd Sigfúsi Eymundssyni (sjá hér). Furðulegt, ekki satt? Það er nokkuð mikið af rugli, þegar kemur að "myndum" Eymundssonar á Þjóðminjasafninu.

Svo vel vill til, að nokkrar ljósmyndir eru til af prestsetrinu að Þingvöllum frá síðari hluta 19. aldar, sem sýna okkur byggingasögu bæjarins á aldar. Elstu myndirnar er í eigu Þjóðminjasafns eru frá því fyrir 1882. Elst þeirra er stereóskópí-mynd Sigfúsar Eymundssonar frá árinu 1867 (sjá frekar hér).

Þar sést kirkjan sem vígð var árið 1859. Fyrir þann tíma var lítil torfkirkja á staðnum og upplýsir Þjóðminjasafnið að það hafi stungna mynd ættaða úr enska dagblaðinu Mirror af þeirri kirkju, mynd sem Hjálmar R. Bárðarson gaf safninu, en sem Hjálmar keypti af föður Fornleifs, sem safnaði erle dum dagblöðum með efni frá Íslandi frá 17. 18. og 19. öld. Hins vegar er myndin ekki upprunalega úr Mirror heldur líklegast úr frönsku riti frá 1836 eftir X. Marmier, sem einnig var gefið út á hollensku í Leskabinet; Mengelwerk tot Gezellig Onderhoud voor Beschaafde Kringe í Amsterdam árið 1837. Langalangafi minn Izzäk hélt það rit, og hefur það verið í eigu Fornleifs frá barnæsku.

ijslandse_kerk_1836_b.jpg

Þingvallakirkja 1836 eða fyrr.

Önnur ljósmyndanna var tekin 1871 af William Lord Watts.  þriðja ljósmyndin sem er eldri en 1882 var tekin af Jóni Christni Stephánssyni (en er einnig til í annarri kópíu og eignuð Sigfúsi Eymundssyni). 

watts.jpg

Mynd William Lord Watts. Hún var tekin árið 1871 .

Breytingarnar á Þingvallabænum árið 1882

Sjáið svo hvað gerist: Á myndinni efst, sem að öllu líkindum tekin sumarið 1883 og sem einnig er til í þremur pappírskópíum á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér, hér og hér) -  má sjá að burstabærinn sem sést á myndum Sigfúsar Eymundssonar (1867), Jóns Stephánssonar og Watts (1875) var rifinn.

Árið 1882 byggði s. Jens (Ólafur Páll) Pálsson tvö ný hús. Eitt þerra, sem er litað rauðbrúnt á skuggamyndinni myndinni efst var 5x10 metrar að stærð. Aftan við nýju húsin voru torfbyggingar, eldhús og búr. Er sr. Jens afhenti séra Jóni Thorsteinsson staðinn árið 1888 og flutti á Álftanes, var Jens talinn eigandi hins nýja húss. Framkvæmdin hafði ekki verið samþykkt af yfirvöldum og þau ekki tekið þátt í kostnaði.

trevelyan_og_burnett_1983_1282505.jpgMynd þessa tóku Burnett og Trevelyan þann 13. júlí árið 1883 (sjá þa meru bók: Frank Ponzi 1995: Ísland fyrir aldamót. Brennholt, bls. 109) Fornleif grunar að þeir Burnett og Trevelyan hafi einnig tekið myndina efst og setur það fram sem vinnutillögu. Síðar hér í syrpunni um elstu skuggamyndirnar frá Íslandi skal sýnt að Burnett og Trevelyan tóku stundum tvær myndir á sama staðnum.

Ofan á eitt húsa séra Jens var bætt við hæð árið 1906. Núverandi Þingvallabær var reistur á gamla bæjarstæðinu 1928, en sneru húsin í vestur. Til að byrja
með voru aðeins 3 burstir en tveimur nýjum var bætt við árið 1974.

_ingvellir_eymundsson_b.jpg

Þessa mynd tók Sigfús Eymundsson af Þingvallabænum. Hér er búið að spónklæða kirkjuþakið og eitt af þeim húsum sem séra Jens Pálsson byggði árið 1882 (sjá myndina efst til samanburðar). Einnig er komin blikkklæðning utan á eystra húsið og sömuleiðis vindfang á eystra húsið. Þjóðminjasafni upplýsir að þessi mynd sé frá 1886 og að þar sjáist sr. Jón Thorstensen ásamt heimilisfólki. Öllu líklegra er að framkvæmdirnar á húsunnum hafi farið fram síðla árs 1886 og að myndin sé frá því í fyrsta lagi frá árinu 1887, því Jens Pálssyni voru veittir Útskálar þ. 27. júlí 1886, en talið er að Jón Thorstensen hafi breytt húsunum.

jon_helgason_1892_1282481.jpg

Jón Helgason biskup teiknaði þessa mynd árið 1892

_ingvallabaer_ca_1925.jpg

Þingvallabærinn ca. 1925. Nýr turn var settur á kirkjuna vegna konungskomunnar árið 1907.

nr-76-thingvellir_cropped.jpg

Árin 1925-2016 í stórum dráttum

Árið 1925 var tekin mynd af Þingvallabænum, sem sýnir að önnur hæð var reist ofan á eystra húsið. Á eldri mynd sem tekin var og seld af Hans Petersen (sjá hér fyrir ofan), og sem er nokkuð eldri en nærmyndin, má einnig sjá þessa hækkun á íbúðarhúsinu.

Árið 1928 var svo nýr, nýrómantískur og klunnalegur Þingvallabær reistur úr steinsteypu að fyrirsögn Guðjóns Samúelssonar og var það gert fyrir Alþingishátíðina 1930, líklega því Íslendingar hér að þeir yrðu sér annars til skammar. Upphaflega var bærinn þrjár burstir, eins og sjá má á gamalli skyggnumynd, sem sett hefur verið út á veraldarvefinn, en árið 1974 var bætt við tveimur burstum við bygginguna og muna það orðið fáir og hefur bærinn nú verið friðlýstur með nýlegum viðbyggingum sínum. Sannast þar að Íslendingum líkar best við allt nýtt.

churchvicarage_thingvallir.jpg


Fólkið á litskyggnunni frá 1883.

_ingvellir_wood_1882_naermynd.jpg

Lítum örlítið hér í lok þessarar sýningar á mannfólkið á litmyndinni efst. Myndin var tekin árið 1883, og líklegast af félögunum Maitland James Burnett og Walter H. Trevelyan, þótt öðru sé haldið fram af Þjóðminjasafni Íslands. Nöfn vinnumannanna eru ekki þekkt. En í gættinni stendur séra Jens Ólafur Páll Pálsson (1851-1912, síðar prófastur og Alþingismaður, og kona hans Guðrún Sigríður Pétursdóttir Guðjohnsen, dóttir Péturs organista og Alþingismanns (fæðingarstaður hans er rangt upp gefinn á vefsíðu Alþingis). Barnið sem stendur með þeim hjónum á myndinni er líklega eitt af mörgum fósturbörnum þeirra prestshjóna. Jens er unglegur á myndinni og fínn í tauinu með pípuhatt, en frú Guðrún Sigríður bara í peysufötum. Jens fékk Útskálaprestakall árið 1886 í lok júlí og fluttu hjónin fljótlega eftir það þangað.

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ísland í töfralampanum 2. hluti

Ísland í töfralampanum 3. hluti

Ísland í töfralampanum 4. hluti

Ísland í töfralampanum 5. hluti


Ísland í töfralampanum: 4. hluti

13_miss_kjolhufa_copyright.jpg

Unga konan á myndinni hér fyrir ofan var rangleg talin norsk þar til fyrir skemmstu. Hún, eða öllu réttara myndin af henni, var til sölu sem hvert annað aflóga rusl á eBay, og hún var í söluefni dæmd til að vera Norsari, eða þar til Fornleifur fann hana og gerði henni hærra undir höfði.

Nú er sömuleiðis komið í ljós, að myndin er mjög sjaldgæf. Hún er ekki til í söfnum og þangað til að þetta eintak fannst var myndin af þessari hárfögru kona aðeins nefnd í sölulistum fyrir glerskyggnur með myndum frá Íslandi frá 19. öld.

Ekki er hægt að búast við að fáfróðir Bretar viti hvaðan háeðalborin íslensk kona kemur, þegar hún er nefnd til sögunnar sem "Woman wearing Hufa". Það stendur svart á hvítu á mjóum límmiða á kantinum á skyggnumyndinni. Það var einmitt titill skuggamyndar nr. 13 í syrpunni England to Iceland sem upphaflega kom út hjá Riley bræðrum í Bradford um miðbik 9. áratugar 19. aldar.

Fyrir utan húfuna góðu, ber búningur hennar og skreyti öll einkenni íslensk upphlutar. Hún, blessunin búlduleit, er á sauðskinnsskóm þar sem hún rakar á fullu á ljósmyndastofu í Reykjavík. Greinilegt er að þetta var hefðarpía úr bænum, því svona héldu ekta sveitakonur ekki á hrífu, þó svo að rakstur hafi ávallt tengst rómantík og lír. Væntanlega hafa útlendingar sem horfðu hugfangnir á syrpuna England to Iceland haldið að íslenskar konur trítluðu út á tún eða út í mýri í sparifötunum. Af þessu má einnig sjá að landkynningarstarfssemi hefur í árdaga sem síðar verið eintóm lygi og glansmyndagerð, eins og svo oft síðar. Fyrst komu vitaskuld Landnáma og Íslendingabók.

Þetta eintak af syrpunni England to Iceland af nr. 13. "Woman wearing Hufa" var selt af E.G. Wood í Lundúnum, sem á einhverju stigi keypti réttinn til að selja Íslandsskuggamyndir Riley Bræðra og kallaði hana A travel to Iceland. Eins og hægt er að lesa á miðanum í efra vinstra horninu var E.G. Wood til húsa á 1 & 2 Queen Street i Cheapside í London. Heimilisfangið gefur til kynna hvenær myndin hafi verið framleidd. Þetta var heimilisfangs E.G.Wood árin 1898-1900. Myndatakan, sem eignuð verður Sigfúsi Eymundssyni fór hins vegar fram í byrjun 9. áratugar 19. aldar og jafnvel fyrr.

13_miss_kjolhufa_detail.jpg

Garðahúfa einnig kölluð Kjólhúfa

Húfan sem konan ber, er heldur ekki hvaða húfa sem er. Þessi húfa kallast Garðahúfa en einnig kjólhúfa og eru nokkrar þeirra til á Þjóðminjasafni. Ein þeirra er nauðalík húfunni sem unga konan á myndinni er með. Þetta vissi Fornleifur ekki fyrr en nýlega, því greinilega hefur Garðahúfunni/kjólhúfunni ekki verið gert hátt undir höfði í yfirreið um sögu íslenskra Þjóðbúninga. Þetta höfuðfat íslenskra kvenna á 19. öld hefur heldur ekki ekki hlotið náð hjá hávirðulegri þjóðbúninganefnd, en formaður nefndarinnar Lilja Árnadóttir safnvörður á Þjóðminjasafni Íslands upplýsti Fornleif að garðahúfur og kjólhúfubúningur séu ekki "löglegur" þjóðbúningur.

Er eitthvað samsæri í gangi gegn þessu höfuðfati? Hér með stofnar Fornleifur vinafélag Garðahúfunnar/kjólhúfunnar í von um að þetta séríslenska höfuðfat, sem notað var á 19. öld, og hugsanlega fyrr, verði gert hærra undir höfði.

kjolhufa.jpg

Ein af nokkrum Garðahúfum/kjólhúfum á Þjóðminjasafni Íslands. Hún var skráð og varðveitt í Nordiska Museet i Stokkhólmi og hefur safnnúmerið NMs-38809/2008-5-130, en er nú (síðan 2008) í varanlegri varðveislu Þjóðminjasafns. Húfunni er lýst sem: "Kvenhúfa (kjólhúfa). Efni svart flujel. Gullvírsborði, 1,7 að br., efst og marglitur, rósofinn silkiborði næst, br. 2 cm. Tvöfaldur kross af þeim á kolli: (hér er teikning). Á jöðrum efst eru bryddingar, með rauðu silki innst og svörtu flujeli ytri: Baldýruð stjarna eða 5 blaða blóm er á hliðum efst. Silkiskúfar, grænir og rauðir að aptan og framan efst. L. 27, samanl., h. 16 í miðju, 9 við enda, br. um miðju 17,5 cm. Gefin af R.A. Fóðruð með hvítum striga." Þó það komi ekki fram í skráningu, held ég að þetta sé lýsing Matthíasar Þórðarsonar sem skráði íslenska gripi í Nordiska Museet.

Uppruni Garðahúfunnar/kjólhúfunnar eða "Tyrknesku húfunnar"

Uppruni Garðahúfunnar er einnig mjög á huldu. Í grein sem Daniel Bruun skrifaði í Eimreiðina árið 1905, er þetta upplýst um Garðahúfuna, og þar birtist einnig brot af sömu myndinni og notuð var í skuggamyndina hér að ofan: 

Sérstök tegund var »garðahúfan« eða »tyrkneska húfan« (22. og 23. mynd), sem óefað er mjög gömul á Íslandi. Hún minnir á fald þeirrar konu, er stendur framar á 1. mynd; en sú mynd er frá lokum 16. aldar. Jafnvel brúðir hafa borið slíkar húfur fram að 1868. Yfirleitt virðist smekk kvenna að hafa verið varið á þann hátt: Jafnhliða eftirsókninni eftir háa faldinum var og eftirsókn eftir fallega skreyttum húfum.

Hvaðan heitið tyrkneska húfan kemur, skrifar Daniel Bruun ekkert um.

gar_ahufa.jpgEin af garðahúfum þeim sem Daniel Bruun birtir myndir af í grein sinni í Eimreiðinni árið 1904.

Garðahúfunni/kjólhúfunni hefur svo um munar verið rutt út af síðum sögunnar. Getur hugsast að þessi húfa sé síðbúinn ættingi falda sem voru margs konar á Íslandi frá því á miðöldum? (Sjá hér). Mest af öllu líkist þessi húfa höfuðfati karla í Serbíu, sem kallast sajkaca. Sá hattur varð síðar betur þekktur í annarri gerð sem Titovka, og var slík húfa notuð af flokksmönnum Josip Broz Titos sem börðust vasklega gegn nasistum. Vitaskuld eru engin tengsl þarna á milli frekar en við svarta kjólhúfu Dorritar Moussaieff sem hún bar þegar hún heimsótti fyrrverandi páfa ásamt eiginmanni sínum (sjá hér).

Eins er víst að konan á myndinni er hálfgerð huldukona, og þæði Fornleifur allar upplýsingar um hana (þó ekki símanúmer hennar). Er hún formóðir einhvers í hinum gríðarstóra lesendaskara Fornleifs, þá hafi þeir vinsamlegast þegar samband við Fornleif, einn í einu. Fornleifur leyfir sér þó að detta í hug, að konan sé engin önnur en hin ævintýralega Sigríður E. Magnússon, kona Eiríks Magnússonar bókavarðar í Cambridge (sjá hér). Fornleif grunar að neðanstæð mynd Sigfúsar af konu í peysufötum með gítar sýni sömu konu og þá sem ber garðahúfuna á skuggamyndinni. Þá er nú ekki langt í að maður láti sér detta í hug að húfan hafi verið ein af mörgum hönnunarverkum hinnar litríku Siggu. Ekkert skal þó fullyrt, því svipaðar húfur þekkjast úr Flatey, Vopnafirði, Reykjavík og frá. Kannski var þetta höfuðfat algengara en við höldum.

gitar Sigga.jpg

Sigríður E. Magnússon á yngri árum? og á eldri árum.

sigga_rokk_1261148_1282246.jpg

Garðahúfan/Kjólhúfan er frægari en menn halda

Þó að æðstaráð þjóðbúninganefndar hafi stungið 5 tommu nálum í allar óskir um að garðahúfan/kjólhúfan sé löglegur hluti íslensks þjóðbúnings, þá var kjólhúfan nokkuð þekkt í þeim hluta Evrópu þar sem menn keyptu og notuðu súpukraft í matargerð sína. Súpukraftfyrirtækið Liebig hafði það fyrir sið að setja fræðsluefni á lítil spjöld í pakka eða við dósir með súpukrafti. Oft voru þetta litríkar myndasyrpur um lönd og þjóðir. Þýskur, sjálfmenntaður efnafræðingur Justus Freiherr von Liebig (1803-1873), hóf um miðja 19. öld að framleiða þurrkaðan kjötkraft með alls kyns "bætiefnum" til að bæta heilsu vina sinna sem hríðdrápust úr kóleru og alls kyns magakvillum (efnaeitrunum og geislun).

Kjohufa Liebig

Fullvinnsla á dýrahræjum fyrir súpukraft var fljótlega flutt til Uruguay og síðar til Argentínu, þar sem þýskir innflytjendur og nautgripahjarðir þeirra eyddu landgæðum með ofbeit svo Evrópubúar gætu fengið ódýrt, þurrkað kjötsoð. En þrátt fyrir meira eða minna ómeðvitaða landeyðingu var fyrirtæki Liebigs Fríherra í mun um að fræða fólkið sem keypti kraftinn í teningum (sem einnig gengu undir heitinu OXO) eða sem duft í dós. Þetta var því miklu menningarlegri kraftmiðstöð en t.d. Maggi og Knorr sem sérhvert mannsbarn á Íslandi þekkir og sem aldrei hefur nokkuð barn frætt. Frá og með 1875 og fram á 8. áratug 20. aldar sendi fyrirtækið Liebig/OXO frá sér um 11500 myndir á 15 tungumálum.

Tvær seríur með myndum með íslensku efni voru settar í pakka með kjötkrafti frá Liebig (sjá meira um þær síðar) og í einni þeirra var mynd sem grafin hafði verið eftir myndinni af konunni með kjólhúfuna sem upphaflega seld var í sem skuggamynd hjá Riley Brothers og E.G. Woods. Konan með hrífuna og Garðahúfuna var því með þekktari íslenskum konum áður en Björk sönglaði sig til frægðar og Vigdís varð forseti - og aldrei hafa þær stöllur sett svo mikið sem tána í súputeningapakka. Liebig syrpan með sex myndum sem Kjól-/Garðahúfu-konan birtist í kallaðist á þýsku Liebig Bilder Serie 846 "Island, das Land der Edda" og var fyrst gefin út árið 1911-1912. 

Manni leyfist líklega að spyrja: Hvers á þessi fræga garðahúfaeiginlega að gjalda, þá er hún ekki má teljast til búnaðs íslenskra þjóðbúninga?

kjolhufa_2.jpg

Fáni Dana, Rødgrød med fløde, var enn notaður á Íslandi þegar Garðahúfan var upp á sitt besta, en ekki er hún ættuð úr Danaveldi.

Höfundur myndarinnar og aldur

Myndasmiðurinn sem tók myndina af konunni með Garðahúfun var vafalaust Sigfús Eymundsson. Það er auðséð á handmálaða tjaldinu á bak við hana sem einnig  sést á nokkrum pappírskópíum eftir Sigfús sem varðveittar eru á Þjóðminjasafni Ísland, sem sjá má á Sarpi. (sjá t.d. hér, hér, hérhér og hér). Sá möguleiki er einnig fyrir hendi, að einhverjir hafi fengið stúdíó Sigfúss Eymundarsonar að láni, en þá mynd nafns síns notaðist hann lengi á ljósmyndir sínar.  Það verður ekki útilokað hér að aðrir hafi fengið að nota stúdíótjöld Sigfúsar - eða jafnvel að Sigfús hafi tekið myndir fyrir Burnett og Trevelyan (sjá 3. hluta).

Myndin hefur að öllum líkindum verið tekin í byrjun 9. áratug 19. aldar um 1881-83. Myndin er skömmu síðar nefnd í sölulistum Riley Bræðra og síðar í lista E.G. Woods.  

tjaldi_1282235.jpg

Undirskriftasöfnun til stuðnings Garðahúfunni/Kjólhúfunni

Þeir sem vilja hefja Garðahúfuna aftur til vegs og virðingar, líkt og þegar hún var stjarna á kjötkraftsmyndum, mega vinsamlegast setja nafn sitt hér í athugasemdirnar. Konur og menn og aðrir sem vilja sauma sér slíkar húfur geta ugglaust fengið frekari upplýsingar á Þjóðminjasafni Íslands. Skammt er í Gleðigöngur og hvað er meira tilvalið fyrir menn sem ganga í kjól en kjólhúfa. Skúfhúfan, skotthúfan, spaðafaldurinn, sér í lagi krókfaldurinn, skildahúfan, skarðhúfan og skautið ættu að fara að vara sig. Konur eru fyrir löngu farnar að að kasta skúfhúfunni. Það er orðinn löglegur réttur heimavinnandi karla að ganga með þessa hatta, líkt og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkurþorps sýndi okkur, en slík apparöt eru nú ef til vill einum of nýmóðins fyrir Fornleif. Setjum því brúna punktinn hér.

30522627.jpg

Auglýsing árið 1919 í Þjóðólfi. Aldrei tapaði neinn Garðahúfu.

Upplýsingar um garðahúfur/kjólhúfur á Þjóðminjasafni Íslands:

Þjms. 279  ; Kölluð garðahúfa
Þjms. 2052 ; Garðahúfa frá Hofi í Vopnafirði.
Þjms. 2457 ; Garðahúfa frá Reykjavík.
Þjms. 4509 ; Garðahúfa frá Reykhólum í Reykhólasveit.
Þjms. 4642 ; Skráð sem kjólhúfa. Frá Heydalsseli í Strandasýslu.
Þjms. 9206 ; Garðahúfa úr Flatey á Breiðafirði.
(Sjá mynd hér fyrir neðan).

gar_ahufa_2.jpg

Og loks sú sem var meðal gripanna sem komu frá Nordiska Museet 2008.
2008-5-130; Skráð sem kjólahúfa. Sjá mynd ofar

Þakkir fær Lilja Árnadóttir fyrir að veita upplýsingar um garðahúfur Þjóðminjasafns. Húfurnar hafa því miður ekki allar verið ljósmyndaðar enn, og þess vegna er ekki hægt að sýna þær hér.

Fyrri kaflar

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ísland í töfralampanum 2. hluti

Ísland í töfralampanum 3. hluti


Ísland í töfralampanum: 3. hluti

db_snuf1_1281913.gif

Sigga gamla tekur nú óðslega í nefið af einskærri gleði, því hér skal brátt hafin sýning á skuggamyndum frá Íslandi, sem framleiddar voru á seinni hluta 19. aldar á Bretlandseyjum. Síðast svo vitað sé voru myndirnar sýndar í Reykjavík af Þorláki Ó. Johnson á 19. öld. - Er nema von að Sigríður sé hamingjusöm?

Ritstjóri Fornleifs fann nýlega og keypti gamlar myndir af innfæddu eFlóamanni búsettum á Cornwall á Bretlandseyjum. eFlóinn (eBay) getur oft geymt áhugaverða gripi, þótt langt sé á milli dýrgripanna.

Skuggamyndirnar með íslensku efni, sem verður lýst hér á næstu dögum - og tveim þeirra þegar í þessum kafla (sjá neðar)- fundust fyrir algjöra tilviljun er höfundurinn var að leita að öðru efni með hjálp Google. Það er Fornleifi mikil ánægja að sýna fróðleiksfúsu fólki þessar merku skuggamyndir.

Þær glerskyggnur með Íslandsmyndum sem Þorlákur Ó. Johnson og Sigfús Eymundsson sýndu Reykvíkingum (sjá 2. hluta greinasafnsins um Ísland í töfralampanum), voru ugglaust fyrst og fremst framleiddar á Englandi. Við vitum að þangað sótti Þorlákur myndir sínar og væntanlega hafa hann og Sigfús, sem sýndi skuggamyndir með Johnson um tíma, verið milligöngumenn um að bresk fyrirtæki framleiddu myndaröðina England to Iceland sem í sölulistum var einnig kölluð From England to Iceland.

Hverjir tóku myndirnar ?

     Nokkrar myndanna hefur Sigfús Eymundsson sannanlega tekið, því við þekkjum þær úr ágætu safni með pappírsljósmyndum Sigfúsar sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands.

Aðrar myndanna í syrpunni England to Iceland hafa aftur á móti án nokkurs vafa verið teknar af efnamönnunum og veiðifélögunum Maitland James Burnett (1844-1918) og Walter H. Tevelyan (1840-1884) sem komu til að stunda stangaveiðar og til að ljósmynda landið á árunum 1882-84. Eftir veikindi og dauða Trevelyans árið 1884, kom Burnett einn til Íslands næstu árin, eða fram til ársins 1888. Báðir tóku þeir ljósmyndir á Íslandi að því er talið er.

sigfus_eymundsson.jpg

Sigfús Eymundsson, bóksali, útgefandi og myndasmiður. Sigfús rak fyrstu ljósmyndastofu Íslands frá árinu 1867.

Frank Ponzi gerði ferðum Burnetts og Trevelyans góð skil í bókinni Ísland fyrir aldamót (1995) og byggir hana á myndum og dagbókarbrotum sem hann fann og keypti á Bretlandseyjum.

Ponzi rakst hins vegar aldrei á skuggamyndir, þar sem notast hafði verið við sumar ljósmyndir Burnetts og Trevelyans. Sumar myndanna í syrpunni England to Iceland eru því skiljanlega ekki með í bók Ponzis og greinilegt er að Burnett og Trevelyan hafa í einhverjum tilvikum tekið fleiri en eina mynd á hverjum stað sem þeir heimsóttu. Vikið skal að því síðar. Einnig grunar mig, að Sigfús Eymundsson hafi verið þeim félögum innan handar við ljósmyndun.

Syrpan England to Iceland

     Myndasyrpa með titlinum England to Iceland var seld af tveimur fyrirtækjum á Englandi í lok 19. aldar. Annars vegar, og til að byrja með, af Riley Brothers í Bradford í Yorkshire á England en einnig frá og með ca. 1890 af Lundúnafyritækinu E.G. Woods (sjá síðar). Í sölulistum E.G. Woods var syrpan kölluð A visit to Iceland.

Þessar syrpur með myndum frá Ísland virðast mjög sjaldgæfar, því áður en Fornleifur fann fáeinar þeirra hjá forngripasalanum á Cornwall, voru engar myndir úr syrpunni lengur þekktar nema af lýsingum í sölulista Riley bræðra og E.G. Woods sem Lucerna, vefsvæði fyrir rannsóknir á Laterna Magica hefur birt. Að auki keypti ég tvær myndir úr enn annarri syrpu sem ber nafn Sigfús Eymundarsonar [sic], en þannig ritaði Sigfús oft nafn sitt á fyrri hluta ljósmyndaraferils síns.

Skyggnumyndirnar, sem nú eru komnar í leitirnar úr syrpunni England to Iceland/From England to Iceland, eru aðeins 12 að tölu og eru þær bæði framleiddar af Riley Bræðrum og E.G. Woods og því ekki allar framleiddar á sama tíma þó svo að þær hafi verið teknar á sama tíma og af sömu ljósmyndurunum. Hins vegar passa númer myndanna sem límd voru á glerplöturnar við efni myndanna eins og því var lýst í fyrstu auglýsingum Riley bræðra fyrir syrpuna frá Íslandi.

Syrpan er því langt frá því öll fundin/varðveitt. Upplýst er í fyrstu auglýsingum að í syrpu Riley Brothers, sem upphaflega var búin til á tímabilinu 1882-85, en líklegast árið 1883, hafi verið 48 myndir.

Af þeim glerskyggnum sem nú eru komnar í leitirnar eru flestar merktar með tölu og merki framleiðanda, og koma þær upplýsingar heim og saman við sölulista Riley bræðra sem er varðveittur frá 1887. Lýsingar á skuggamyndunum 48 í lista Riley bræðra passa við efni myndanna sem fundust nýlega á Cornwall, einnig þeirra sem framleiddar voru af E.G. Wood. Hugsanlegt er, að þegar Riley bræður hafa snúið sér að kvikmyndagerð eftir 1890 hafi þeir selt réttinn af Íslandssyrpunni, sem og mörgum öðrum skuggamyndum til annarra fyrirtækja í þeim iðnaði.

Sölulistum með upplýsingar um Laterna Magica skuggamyndir hefur verið safnað skipulega af rannsóknarteymi við nokkra háskóla í Evrópu, á Bretlandseyjum, Hollandi og Þýskalandi, sem hefur miðstöð við háskólann í Trier í Þýskalandi. Þar miðla menni vel af þekkingu sinni á vefsíðunni LUCERNA – the Magic Lantern Web Resource.

Fræðimenn á þessu sviði sem vinna saman að LUCERNA hafa skráð u milljón skyggnur og upplýsingar um þær.  Einn þeirra, Dr. Richard Crangle í Exeter, hefur verið hjálplegur höfundi þessarar greinar með upplýsingar sem leiddu til þessara skrifa.

merki_riley_brothers.jpg

Riley Brothers

    Reiley Brothes var fyrirtæki, sem í byrjun einbeitti sér að gerð skuggamynda, sölu þeirra og leigu, sem og sölu og leigu á sýningartækjum fyrir skuggamyndir. Fyrirtækið var stofnað árið 1884 í Bradford í Yorkshire eftir að ullarkaupmaðurinn Joseph Riley (1838-1926) hafði heillast af Laterna Magica sýningum. Riley hafði ungur aðhyllst meþódisma og með hjálp menntunarstefnu þeirra komist til metorða og í álnir.

joseph.jpgÁrið 1883 keypti Joseph Reiley (hér til vinstri á unga aldri) tæki og myndir handa tveimur sonum sínum Herbert og Willie Riley. Feðgarnir hófu fljótlega sýningar á myndum með trúarlegum og fræðilegum fyrirlestrum til að safna fé fyrir munaðarleysingjaheimili og samtökin Action for Children, sem er starfandi enn þann dag í dag.

Joseph sá verslunartækifæri í töfralampanum og stofnaði ásamt bróður sínum, Sam, fyrirtæki sem framleiddi skyggnur og sýningartæki. Fyrirtækið blómstraði og varð á fáeinum árum stærsta fyrirtæki á þessu sviði í heiminum. Fyrirtækið var rekið af bræðrunum Herbert og Willie undir yfirumsjón Josephs, en síðar árið 1894 hófu aðrir synir Josephs, Arnold og Bernard, einnig störf í fyrirtækinu. Árið 1894 stofnaði Herbert Riley útibú í New York og stjórnaði rekstri þar til dauðadags árið 1891.

Willie Riley, sem einnig var liðtækur rithöfundur, hélt aftur á móti til Parísar og komst þar í kynni við kvikmyndavél Lumiers. Fengu Riley bræður einkarétt á sölu Keneptoscopi-tækni Cecil Wrays árið 1896. Þetta voru tvenns konar tæki sem hægt var að sýna kvikmyndir með með því að setja aukabúnað á vel útbúna gaslýsta töfralampa þessa tíma. Riley bræður voru þannig einnig forgangsmenn í kvikmyndaheiminum og árið 1897 hófu Riley Brothers sölu á kvikmyndaupptökuvél og framleiðslu á 75 feta filmum. Allt fékk þó enda, því samkeppnin í kvikmyndageiranum í Bandaríkjunum var hörð. Fyrirtækið Riley Brothers hélt þó velli á Bretlandseyjum fram að síðara heimsstríði, þó í mýflugumynd undir lokin (sjá meira hér). 

Hið góða skip Camoens

3_fornleifur.jpg

Mynd nr. 3. Leith Harbour - England to Iceland. Riley Brothers. (Stærð allra skyggnanna er 8,2 x 8,2 sm).

   Allt hófst þetta með skyggnumyndunum og meðal hundruða syrpa sem Riley Brothers framleiddu var syrpan með myndum frá Íslandi: (From) England to Iceland. Innihald hennar var sem áður segir 48 myndir, og er vitað frá auglýsingum fyrirtækisins hvað þær sýndu. Margar þeirra, eða 14, sýndu ýmsa staði á Skotlandi.

Aðeins ein myndanna 14 frá Skotlandi í syrpunni (From) England to Iceland var hins vegar á meðal myndanna sem nýlega fundust hjá eFlóamanninum á Cornwall. Það er mynd nr. 3 í syrpunni, sem er líklegt að Burnett eða Trevelyan hafi tekið í ferðum sínum. Sýnir hún skip á höfninni í Leith og ber heitið Leith Harbour. Leith er hafnarborg Edinborgar á Skotlandi og fyrsta borgin sem ritstjóri Fornleifs leit augum í Evrópu í fyrstu utanlandsferð sinni árið 1970.

Skuggamynd númer 3 sýnir þó ekki skip það sem Burnett og Trevelyan sigldu jafnan á til Íslands. Það hét Camoens. Þegar Camoens sigldi ekki með farþega, m.a. fjölda Vesturfara, flutti skipið hross frá Íslandi í kola- og tinnámur á Bretlandseyjum, þar sem blessaðir hestarnir enduðu ævi sína á hræðilegan hátt. Hægt er að lesa ítarlega um voluð hrossin og þessa merku, bresku ferðalanga í fallegri bók Frank Ponzis, Ísland fyrir aldamót (1995), sem er þó að verða illfáanleg. Óskandi væri að hún kæmi út aftur.

39_fornleifur.jpg

Mynd nr. 39. Camoens in Ice -- Akureyri [eða öllu heldur í Trékyllisvík]. Riley Brothers.

Ein af síðustu myndunum í syrpunni England to Iceland var kölluð Camoens in Ice -- Akureyri. Hún var meðal myndanna sem Fornleifur fékk frá Cornwall fyrr á þessu ári og er tölusett sem nr. 39.

Það má þó teljast næsta öruggt að myndin sé ekki frá Akureyri eða Eyjafirði. Spurningin um fjörðinn sem myndin er tekin á var borin undir lesendur Fornleifs í gær. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur, sem er manna fróðastur um Strandir, áleit til að byrja með  að myndin væri tekin á Ingólfsfirði (sjá hér). Hann hafði þó samband við Guðmund Jónsson fyrrv. hreppstjóra í Munaðarnesi, sem þekkir einnig vel til á þessum slóðum, sérstaklega frá sjó, þó hann sé nú fluttur á Grundarfjörð. Guðmundur, taldi víst að myndin væri tekin í Trékyllisvík og tekur Haukur Jóhannesson heils hugar undir það. Haukur ritaði mér eftir að þessi grein hafði birst: "Ég er búinn að bera myndina undir Guðmund á Munaðarnesi. Hann segir að myndin sé tekin á Trékyllisvík og það er rétt þegar betur er að gáð. Skipið hefur verið undir bökkunum innan við Krossnes og það sést yfir Melavíkina og upp á Eyrarháls. Haugsfjall er á sínum stað og Eyrarfjall en hægra megin sést í Urðanesið undan Urðartindi milli Melavíkur og Norðurfjarðar.    Þetta er alveg örugg greining."

Fornleifur tekur einnig undir þetta og þakkar hér með Hauki og Guðmundi fyrir alla hjálpina í leit að hinu sanna um myndina af Camoens. Camoens var þarna í ísnum í Trékyllisvík og ekki á Akureyri eins og kaupendur myndanna fengu að vita árið 1887. Líklega er þessi mynd tekin á sama tíma og þessi mynd á pappír sem ég veit ekki hver tók, en líkast til voru það Burnett eða Trevelyan:

5780ea1645851307319ce06b40e0b308_1282159.jpg

 

Höfundur og sýningarstjóri: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (og Fornleifur)

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ísland í töfralampanum 2. hluti

 

db_hoedafs.gif

Fornleifur heldur áfram sýningum á Íslandsmyndum sínum innan skamms, en óskar lesendum sínum góðrar nætur, þegar þeir hafa loks komist í gegnum þennan hluta Íslandskynningarinnar frá 19. öld.


Ísland í töfralampanum: 1. hluti

magic-lantern.png

Inngangur og minningar

Nýverið var hér á Fornleifi greint frá fyrstu kvikmyndinni sem tekin var upp á Íslandi. Hún hefur því miður fallið nokkuð í gleymsku, enda  eru engin þekkt eintök af henni til. Við höfum þó lýsingar um efni hennar eftir kvikmyndatökumanninn.  

Nú heldur myndafornleifafræði Fornleifs áfram. Næstu daga býður Fornleifur lesendum sínum  upp á nokkrar myndasýningar og tilheyrandi fróðleik upp á gamla mátann. Það verða því miður ekki týndar íslenskar kvikmyndir heldur myndaskyggnur, einnig kallaðar skuggamyndir, sólmyndir eða  ljóskersmyndir. Fyrir þá sem ekki muna tímana tvenne, verð ég að skýra út fyrir ungu kynslóðinni. Myndunum var varpar upp á tjald eða vegg með hjálp ljóskastara/lampa, sem kallaður var Lanterna Magica, eða töfraljósker og töfralampi á íslensku.  

Engin þörf er hins vegar lengur á að sýna myndirnar á tjaldi með lampa, enda eru það skyggnurnar sem er hið bitastæða og þær er í dag meira að segja hægt að sýna á bloggi og gera þannig fleirum kleift að sjá myndir frá Íslandi 19. aldar.

Þetta verður fróðleikur um einu varðveittu Laterna Magica glerskyggnurnar frá 19. öld með myndum af fólki og náttúru Íslands. Fornleifur festi fyrir skömmu kaup á slíkum myndum á  Bretlandseyjum. Þær eru nokkuð einstakar og afar sjaldséðar. Sérfræðingar sem skráð hafa og fengist við að safna fræðslu- og ferðaskyggnum frá síðari hluta 19. aldar við háskóla á Bretlandseyjum og í Þýskalandi hafa aldrei séð svo gamlar skyggnur með myndum frá Íslandi. Áður en Fornleifur fann þær og keypti voru þær aðeins þekktar úr sölulistum, katalógum, frá fyrirtækjum á Bretlandseyjum sem framleiddu og seldu seldu slíkar skyggnur á síðari hluta 19. aldar.

Laterna Magica í Stykkishólmi árið 1966

Fæstir Íslendingar hafa líklega séð skyggnumyndir sýndar með laterna magica vél. En ég er nú svo gamall að hafa orðið vitni að sýningum með slíkri vél. Það var í Stykkishólmi árið 1966, þar sem ég dvaldi nokkrar vikur í sumarbúðum hjá kaþólskum nunnum  St. Franciskusreglunnar, sem þær ráku í samvinnu við Rauða Krossinn. Reglan reisti spítala í Stykkishólmi á árunum 1934-1936. St. Franciskussysturnar sáu að miklum hluta um rekstur á spítalanum allt fram til 2006 að spítalinn var seldur íslenska ríkinu. Klaustur er þar enn og síðar er komin önnur regla en St. Franciskusarreglan í klaustrið í Sykkishólmi, en það er önnur saga.

stykkisholmsspitali.jpgÁ efstu hæð spítalans í Stykkishólmi, eiginlega undir þakinu á hæð þar sem gluggarnir voru einungis mjóar rifur, gistu krakkar, kaþólskir og aðrir og tilheyrði ég síðastnefnda hópnum. Nunnurnar í Stykkishólmi voru hinar bestu konur, sem kunnu að annast börn. Öllum leið þar vel. Manni þótti vitaskuld skrítið að búa á spítala þar sem einnig var vistað fatlað fólk, andlega vanheilt og elliært.  Spítalinn var víst að hluta til útibú fyrir konur frá Kleppi eins og Ólafur P. Jónsson læknir lýsti í læknablaðinu árið 1960 (sjá hér og hér). Ólafur skrifaði "...hafa að jafnaði verið vistaðar hér frá 19 og upp í 23 konur á vegum Kleppsspítalans. Hin síðari ár hafa auk þess dvalið hér nokkrir fávitar."

Meðal krakkanna sem dvöldu í Stykkishólmi fóru miklar sögur af konu sem kölluð var Gauja gaul, sem átti það til að góla og garga. Ég sá hana aldrei, en við krakkarnir töldum okkur stundum heyra í henni, að því er við héldum. Þó alltaf væri mikið brýnt fyrir okkur að hlaupa ekki niður tröppurnar með látum, flýttum við okkur venjulega á tánum framhjá þeirri hæð þar sem hún dvaldist á, þegar við gengum niður tröppurnar á Spítalanum til að komast í matsal og tómstundasal á jarðhæð. Við mættum hins vegar stundum "fávitum" Ólafs læknis á ganginum og held ég að maður hafi líklega fyrr en flestir jafnaldra sinna lært sitthvað um veikleika mannkyns og að bera virðingu fyrir lítilmagnanaum við að dvelja hjá nunnunum í Hólminum.

Dvölin í Stykkishólmi var ævintýri líkust og nunnurnar, sem sumar voru menntaðar í uppfræðslu barna, áttu sem áður segir einnig töfralampa. Hann var af tiltölulega nýrri gerð, af síðustu tegund slíkra slíkra lampa sem framleiddir voru, fyrir utan ráðstjórnarríkin . Þetta var ekki skyggnumyndavél fyrir 35 mm "slætur" eða stærri glerskyggnur (6x6) sem einnig voru þá á markaðnum. Myndarúllum í lit og svarthvítu var rennt gegnum vélina með handafli. Sýningar úr þessari vél þóttu krökkunum mjög merkilegar, þó maður kæmi frá heimili með Kanasjónvarpið þar sem hægt var að horfa á teiknimyndir allan liðlanga laugardaga og stundum aðra daga líka.

Systur sem hétu Harriet, Lovísa og Henríetta, sumar hverjar frá Belgíu, svo og íslenskar konur sem unnu í sumarbúðunum, sýndu okkur þessar myndir fyrir háttinn í lok leiktíma á kvöldin og sögðu okkur sögur með þeim. Eins var horft á myndasyrpur úr töfralampanum þegar veður voru vond og ekki tilvalin til útiveru.

scan10009_a.jpg

Ekki á ég neinar ljósmyndir frá laterna magica myndasýningum nunnanna í Stykkishólmi, en hér er ég að vega salt, nýkominn í Stykkishólm vorið 1966. Ég sit þarna efst á saltinu, himnasendur fyrir framan kapelluna við St. Franciskusarspítala í Stykkishólmi. Vel var tekið á móti eina dökkhærða drengnum í Stykkishólmi það sumarið. Flestir drengjanna á þessari mynd voru úr þorpinu og vildu vera vinir manns vegna þess að ég var úr Reykjavík. Það var sjaldan að þeir sáu slíka villinga úr stórborginni. En fyrst og fremst var ég nú áhugaverður vegna þess að ég átti forláta sverð úr plasti með rómversku lagi. Sverðið kom ekki  með mér suður að lokinni 5 vikna dvöl. Eins og þið sjáið  á myndinni var höfðingi hinna ljóshærðu þegar búinn að semja frið við þann hrokkinhærða að sunnan fyrir rómverska brandinn. Líklega hef ég gefið heimamönnum sverðið að lokum fyrir vernd og vinsældir. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.

holmarar_me_sver_i.jpg

Ægir í Hólminum

Við smá eftirgrennslan á veraldarvefnum fann ég nafn á manni, Ægi Breiðfjörð Jóhannssyni, sem ég taldi líklegan til að vita eitthvað um sýningarvél nunnanna í Stykkishólmi. Ég hringdi nýlega snemma morguns í Ægi, en hann er umsjónamaður fasteigna á St. Franciskusspítala í Hólminum og bloggari á blogginu Gáð ofan í Glatkistuna. Ægir er einnig mikill áhugamaður um Camera Obscura(sjá hér).

Hann hefur líklega haldið að það vantaði rúm uppi á 3. hæð. Fljótlega kom í ljós að Ægir er mikill áhugamaður um Laterna Magica, því hann hefur í sínum fórum sýningarvél St. Franciskussystranna í Stykkishólmi og myndarúllur þeirra.

lanterna_magica_sth_2_1280682.jpg

Hér sést sýningarvélin í Stykkishólmi og lítið safn nunnanna af rúllum með myndasyrpum fyrir þessa vél. Ljósmynd Ægir Breiðfjörð Jóhannsson.

Ægir sendi mér góðfúslega mynd af sýningarvélinni og sömuleiðis af nokkrum af þeim rúllum sem sýndar voru í þessari vél. Ég taldi mig muna sýningar á rúllum með belgísku teiknimyndafígúrunum Strumpunum. Þar leiðrétti Ægir mig, því hann finnur aðeins i dag kvikmyndir með Strumpunum. Kvikmyndir voru líka sýndar í Stykkishólmi, en sjaldnar, því ég man að peran sprakk í kvikmyndsýningarvélinni meðan að ég var í Stykkishólmi. Kassinn með rúllunum á myndinni hér fyrir ofan inniheldur ýmis konar efni ættað frá Belgíu, og tel ég ljóst, að nunnurnar hafi ekki sýnt okkur allt. Ekki man ég t.d. eftir mjög safaríkri rúllu um heilaga Fatímu frá Portúgal, sem Ægir sendir mér mynd úr. Skyggnulýsingar með henni hafa nunnurnar unað sér við eftir að börnin voru farin að sofa. Það er kaþólskt hard-core og aðeins fyrir fullorðna.

Þarna var hann þá aftur kominn, töfralampi æsku minnar, sem enn var mér minnistæður eftir 50 ár. Tækið var af fínustu gerð frá Karl Leitz í Þýskalandi. Mér sýnist einna helst að að þetta sé Ernst Leitz Episcope af gerðinni Leitz/Leica Prado 500, með 200 mm Dimar linsu. Myndasyrpan hér fyrir neðan er gerð úr eftirmyndunum sem Ægir Breiðfjörð Jóhannsson hefur látið gera eftir rúllunum belgísku í Stykkishólmi. Mér telst til að rúllur þessar í Hólminum séu það sem menn koma næst Dauðahafsrúllunum í Hólminum.

myndir_i_stykkisholmi.jpg

myndir_ur_stykkisholmi_2.jpg

Ísland í töfralampanum 2. hluti


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband