Færsluflokkur: Gamlar myndir frá Íslandi
Íslandskvikmynd Franz Antons Nöggeraths hins yngri 1901
29.3.2016 | 09:59
Er ekki hreint bölvanlegt til þess að hugsa, að fyrsta kvikmyndin sem tekin var á Íslandi árið 1901 sé nú týnd og tröllum gefin? Kvikmyndin hefur að minnsta kosti enn ekki fundist. Lengi töldu menn að kvikmynd frá konungskomunni árið 1907 (sjá hér) væri fyrsta kvikmyndin sem tekin var á Íslandi. Síðar kom í ljós að árið áður hafði verið tekin kvikmynd sem sýndi slökkvilið Reykjavíkur við æfingar. Miklu síðar upplýsti Eggert Þór heitinn Bernharðsson okkur fyrstur um elstu kvikmyndir útlendinga á Íslandi í Lesbókargrein. Eggert skrifaði m.a.:
"Sumir útlendinganna komu jafnvel gagngert í þeim tilgangi að kvikmynda á Íslandi. Svo var t.d. árið 1901, en þá kom maður að nafni M [Leiðrétting Fornleifs: Rétt fornöfn eru Franz Anton]. Noggerath [Rétt eftirnafn er Nöggerath], útsendari breska myndasýningarfélagsins Gibbons and Co. í Lundúnum. Hlutverk hans var að taka myndir sem félagið ætlaði sér að sýna víðs vegar um heim með fyrirlestrum um einstakar myndir. Ætlunin var að ná myndum af fossaföllum, hveragosum, vinnubrögðum, íþróttum o.fl., en þó sérstaklega af hvalveiðum Norðmanna við landið. Tökumaðurinn kom hins vegar of seint til þess að geta tekið myndir af þeim veiðiskap. Einnig var hann full seint á ferð til þess að geta tekið myndir af ferðamannaflokkum. Það þótti miður því slíkar myndir voru taldar geta haft mikla þýðingu í þá átt að draga útlendinga að landinu enda voru lifandi myndir sagðar eitt öflugasta meðalið til þess að vekja athygli þeirra á Íslandi, náttúrufegurð þess, sögu og þjóðlífi. "
Í Þjóðólfi var þannig 20. september 1901 greint frá komu Nöggeraths (mynd til vinstri) á þennan hátt: Það er enginn efi á því, að væru slíkar myndasýningar frá Íslandi haldnar almennt og víðs vegar um heim, myndu þær stórum geta stuðlað að því, að ferðamannastraumurinn til landsins ykist, og gæti þá verið umtalsmál, að landsmenn sjálfir styddu að því á einhvern hátt, að myndir af þessu tagi gætu komið fram sem fjölhæfilegastar og best valdar. (Sjá hér). Og ef menn halda að ferðamannaástríðan í nútímanum sé ný af nálinni, þá skjátlast þeim illilega.
Sá sem tók Íslandskvikmyndina árið 1901 hét Franz Anton Nöggerath yngri (1880-1947). Hann var af þýskum ættum. Faðir hans og alnafni (1859-1908), sjá ljósmynd hér neðar, fæddist í Noordrijn-Westfalen í Þýskalandi, en fluttist ungur til Hollands með fjölskyldu sína og tók þar þátt í skemmtanaiðnaðinum í den Haag og síðar í Amsterdam. Nöggerath eldri átti og rak t.d. revíuleikhúsið Flora í Amstelstraat í Amsterdam, þar hófust fyrstu kvikmyndasýningarnar í Hollandi árið 1896, þar sem hin dularfulla Madame Olinka, sem ættuð var frá Póllandi, sýndi kvikmynd í október 1896.
Nöggerath eldri sá þegar hvaða möguleikar kvikmyndin gat gefið og komst í samband við Warwick Trading Company í London og gerðist árið 1897 umboðsmaður þeirra í Hollandi, Danmörku og Noregi. Hann flutti inn sýningarvélar og tæki til kvikmyndagerðar, og lét gera fyrstu kvikmyndina í Hollandi. Í september 1898 fékk hann enskan tökumann frá Warwick Trading Company i London og lók upp ásamt honum mynd af herlegheitunum kringum krýningu Wilhelmínu drottningar (sjá hér og hér). Sýning myndarinnar varð fastur liður í öllum revíusýningum á Flora til margra ára. Nöggerath tók einnig aðrar myndir fyrir aldamótin 1900 og eru sumar þeirra enn til. Leikhúsið Flora brann til kaldra kola árið 1902, en þá hóf Nöggerath eldri að sýna kvikmyndir í Bioscope-Theater í Amsterdam, sem var fyrsti salurinn sem gagngert var byggður til kvikmyndasýninga í Hollandi.
Franz Anton Nöggerath yngri var sendur til náms í kvikmyndagerð á Bretlandseyjum. Vitað er að hann tók kvikmynd sem fjallaði um 80 ára afmæli Viktoríu drottningar í Windsor árið 1899 og vann við gerð kvikmyndarinnar The Great Millionaire árið 1901, áður en hann hélt til Íslands til að gera Íslandskvikmynd sína. Anton yfirtók bíóiðnað föður síns að honum látum, og áður en yfir lauk voru kvikmyndahús fjölskyldunnar orðin mörg nokkrum borgum Hollands. Bróðir Franz Antons jr., Theodor að nafni (1882-1961), starfaði einnig lengi vel sem kvikmyndatökumaður.
Þar sem myndin með slökkviliðinu í Reykjavík fannst hér um árið, verður það að teljast fræðilegur möguleiki, sem reyndar eru ávallt litlir á Íslandi, að kvikmynd Franz Antons Nöggeraths, sem hann tók á Íslandi sumarið 1901, finnist. Það yrði örugglega saga til næsta bæjar - að minnsta kosti til Hafnarfjarðar, þar sem kvikmyndasafn Íslands er til húsa. Á vefsíðu þess safns er ekki að finna eitt einasta orð um Nöggerath. En það verður kannski að teljast eðlilegt, þar sem enginn hefur séð myndina nýlega.
Þökk sé hollenska kvikmyndasögusérfræðingnum Ivo Blom, þá þekkjum við sögu Nöggeraths og þó nokkuð um kvikmynd þá sem hann tók á Íslandi sumarið 1901. Blom hefur m.a. gefið út grein sem hann kallar The First Cameraman in Iceland; Travel Film and Travel Literature (sjá hér), þar sem hann greinir frá fjórum greinum sem Nöggerath yngri birti árið 1918, í apríl og maí, um ferð sína til Íslands sumarið 1901. Greinar Nöggeraths birtust í hollensku fagblaði um kvikmyndir, sem kallað var De Kinematograaf. Nöggerath hélt til Íslands á breskum togara, Nile frá Hull. Hann kom til landsins í september og líklega of seint til að hitta fyrir þá ferðamenn sem hann langaði að kvikmynda á Íslandi, þar sem þeir spókuðu sig á Þingvöllum og við Geysi, sem Nöggerath hafði lesið sér ítarlega til um. Nöggerath sótti heim ýmsa staði á Íslandi.
Þannig greinir Nöggerath frá Geysi í Haukadal í íslenskri þýðingu:
Við létum nærri því lífið sökum forvitni okkar. Í því að við vorum að kvikmynda gíginn og miðju hans, heyrðum við skyndilega hræðilegan skruðning, og leiðsögumaðurinn minn hrópaði, 'Fljótt, í burtu héðan'. Ég bar myndavél mína á herðunum, og við hlupum eins hratt og við gátum og björguðum okkur tímanlega. En allt í einu þaut Geysir upp aftur af fullum krafti, og gaus; við höfðum ekki horfið of fljótt af vettvangi. Þannig eru hætturnar sem verða á vegi kvikmyndatökumanna ....En ég hafði náð markmiði mínu: Hinn mikli Geysir hafði verið kvikmyndaður!
Þingvellir fengu ekki eins háa einkunn hjá Nöggerath:
Kirkjan á Þingvölum var sú aumasta af þeim kirkjum sem við höfðum heimsótt áður á Íslandi; fyrir utan kirkjuna í Krísuvík. Kirkjan er mjög lítil, mjög óhrein og gólfið illa lagt hrjúfum hraunhellum ... Þingvellir hafa hlotið frægð fyrir að vera staðurinn þar sem þing og aðrar samkomur Íslendinga fóru fram forðum daga. Fáar minjar hafa hins vegar varðveist sem sýna þann stað sem var svo mikilvægur fyrir sögu Íslands.
Hekla olli einnig Nöggerath vonbrigðum. Halda mætti að hann hafi viljað fá túristagos:
Þegar við komum til Heklu, varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Fjallið var friðsælt og hljóðlaust. Ég fékk þegar þá tilfinningu að ferð mín hefði verið til einskis. Þegar ég klifraði upp að tindi Heklu með myndavél mína, var snjór það eina sem sjá mátti í gíg fjallsins. Við tjölduðum nærri fjallinu, og næsta dag héldum við áfram ferð okkar án þess hafa séð nokkuð fréttnæmt.
Kvikmynd Nöggeraths frá Íslandi var í apríl 1902 fáanleg til sýninga hjá kvikmyndafélaginu Warwick Trading Company. Myndinni fylgdu þessar yfirskriftir:
Hauling the Nets and Landing the Catch on an Iceland Trawler; Fun on an Iceland Trawler, Landing and Cleaning of a Catch on an Iceland Trawler, C!eaning the Fish and Landing a Shark, Gathering Sheep, Women Cleaning Fish for Curing and Women Washing Clothes in Hot Wells.
Í myndinni var sena, þar sem íslenskir sjómenn spúluðu hvern annan til þess að losna við slor og hreistur. Samkvæmt minningum Nöggeraths árið 1918 höfðu áhorfendur einstaklega gaman af þeim hluta myndarinnar og að sögn hans seldist fjöldi eintaka af myndinni.
Við getum látið okkur dreyma um að þessir vatnsleikir íslenskra sjómanna séu einhvers staðar til og að þeir hafi ekki fuðrað upp.
Ítarefni:
Ivo Blom 1999. 'Chapters from the Life of a Camera-Operator: The Recollections of Anton Nbggerath-Filming News and Non-Fiction, 1897-1908'. Film History, 3 (1999), pp. 262-81. [Minningar Nöggeraths voru upphaflega birtar í Hollenska fagblaðinu De Kinematograaf. Greinar Nöggeraths um Ísland birtust í eftirfarandi tölublöðum De Kinematograaf: 9 (12 Apríl 1918); 10 (19 Apríl 1918);11(26 Apríl 1918); 12 (3 Maí 1918)].
Ivo Blom 2007. The First Cameraman In Iceland: Travel Film and Travel Literature, in: Laraine Porter/ Briony Dixon (eds.), Picture Perfect. Landscape, Place and Travel in British Cinema before 1930 (Exeter: The Exeter Press 2007), pp. 68-81.
Kvikmyndagerð á Íslandi; grein á Wikipedia ; Bók um elstu bíóin í Hollandi; Sjá einnig hér;
Grein á bloggi Ivo Bloms árið 2010; Grein um Nöggerath yngri á vef kvikmyndasafns Hollands.
Ath.
Myndin efst er gerð til gamans og skreytingar samansett úr breskri Laterna Magica skyggnu frá 9. áratug 19. aldar og kvikmyndatökumyndamanni sem leikur í einni af myndum meistara Charlie Chaplins frá 1914. Þetta er því ekki mynd af Franz Anton Nöggerath við tökur í Haukadal.
Ljósmyndirnar af Þingvallabænum, Heklu og Geysi síðar í greininni eru úr tveimur mismunandi röðum af glerskyggnum sem gefnar voru út á Englandi með ljósmyndum mismunandi ljósmyndara á 9. og 10 áratug 19. aldar. Fornleifur festi nýlega kaup á þessum og fleirum mjög sjaldgæfu skyggnum sem helstu sérfræðingar og safnarar Laterna Magica skyggna þekktu aðeins úr söluskrám fyrir skyggnurnar. Sagt verður meira af þeim von bráðar.
Franz Anton Nöggerath jr. til hægri við tökur í Þrándheimi í Noregi árið 1906 er Hákon konungur var krýndur.
Gamlar myndir frá Íslandi | Breytt 18.4.2021 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Karlinn í strýtunni
29.2.2016 | 18:18
Eftir a þessi færsla var rituð skýrðust málin, fyrst hér og staðsetning strýtunnar var loks upplýst hér með hjálp góðra manna
Árið 1890 ferðaðist á Íslandi vellauðugur breskur læknir, Tempest Anderson að nafni (1846-1913). Anderson var mikil áhugamaður um eldfjöll og eldvirkni. Ferð hans til Íslands sumarið 1890 var upphafið að fjölda ferða hans til eldstöðva um allan heim, þangað sem Anderson fór til að sjá eldgos, hveri og hraun og til að ljósmynda þau fyrirbæri.
Hann kom aftur til Íslands árið 1893 og i ljósmyndaði hann þá þennan mann sem smeygt hafði sér niður í hraunstrýtu eina sérkennilega nærri Laxamýri í Mývatnssveit. Ljósmyndin er varðveitt sem glerskyggna.
Ég veit ekki hvar þessi strýta er, eða hver maðurinn var, og þætti vænt um ef frótt fólk gæti gefið mér fleiri upplýsingar um það.
Myndin er varðveitt á Yorkshire Museum á Englandi, sem á fleiri myndaskyggnur Andersons.
Menn brostu ekki mikið á myndum árið 1893, en greinilegt er að gáski er í augum karlsins sem fór niður í strýtuna, og ekki laust við að hann hafi orðið mývarginum að bráð. Hægra augnlokið virðist bólgið. Þetta er greinilega rauðhærður maður, og kannski þekktur Þingeyingur.
Gamlar myndir frá Íslandi | Breytt 24.2.2022 kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vindmyllur sem duttu mér í hug
30.1.2016 | 08:40
Hér um daginn var ég staddur í Reykjavík og gekk upp Bankastræti eftir góðan kaffisopa á Café París, og fyrr um kvöldið frábæra tónleika í Sinfóníunni með Mahler, Sibelius og Leifs, sem mér hafði verið boðið á.
Þegar ég gekk upp Bankastrætið með vini mínum, stöldruðum við aðeins í rokinu við Þingholtsstræti 1, þar sem veitingastaðurinn Caruso var lengi til húsa. Nú er þar einhver túristapizzubúlla. En áður fyrr, eða fyrir 115 árum síðan, stóð þar ennþá á baklóðinni stór og vegleg mylla, dönsk af hollenskri gerð.
Myllur voru eitt sinn tvær í Reykjavík, byggðar af sama manninum, stórkaup-manninum P.C. Knudtzon (1789-1864). Önnur þeirra var var reist árið 1830 við Hólavelli (Suðurgötu 20) en hin á horni Bakarastígs, (nú Bankastræti) og Þingholtsstrætis árið 1847. Var sú síðarnefnda kölluð hollenska myllan. Í myllunum var malað rúgmél. Þegar hætt var að flytja inn mjöl til mölunar misstu myllurnar gildi sitt. Hólavallamyllan var rifin um 1880 og hollenska myllan árið 1902. Árið 1892 keypti Jón Þórðarson kaupmaður lóðina, lét rífa timburhús sem þar var við mylluna og reisti þar forláta hús úr grágrýti, Þingholtsstræti 1, húsið sem ég kom við fyrr í vikunni. Þá var mér hugsað til myllunnar.
Hér sést hollenska myllan um það leyti sem dagar hennar voru taldir. Myndin er úr safni Daniel Bruuns og er varðveitt á Nationalmuseet í Kaupmannahöfn.
Ég á eintak af The Illustrated London News frá 29. október 1881. Þar birtist mynd (stungan efst) af hollensku myllunni í Reykjavík. Í tilheyrandi frétt mátti lesa þessar vangaveltur:
Afar merkilegt þykir mér að lesa, að fólk hafi búið í gömlu myllunni við Bakarastíg, ef það er rétt. Fróðlegt þætti mér líka að vita hvaða manneskjur bjuggu í myllunni, ef einhver kann deili á þeim.
Árið áður en fréttin og teikningin af myllunni í Reykjavík birtist í The Illustrated London News á sömu síðu og fréttir af trúarlegum dómstólum í Kaíró, hafði Hólavallamyllan verið rifin, svo hún er ekki nefnd í klausu blaðamannsins. Hins vegar þekkjum við tvö málverk Jóns Helgasonar biskups af myllunni, sem hann hefur þó málað eftir minni því hann var á 14. ári þegar hún var rifin. Hann málaði myndir sínar af Hólavöllum árin 1910 og 1915. Ýmsar aðrar teikningar og málverk sýna mylluna í Bakarabrekku; sjá t.d. hér.
Mynd Borgarsögusafn Reykjavíkur, tekin af Sarpi.
Þegar árið 1860 var þessi stereoskópmynd tekin við Hólavallamylluna af J. Tenison Wood. Ugglaust er þetta elsta ljósmynd af myllu á Íslandi. Heimild: Ljósmyndarar á Íslandi eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur. JPV útgáfan. Reykjavík 2001.
Aðrar vindmyllur voru þekktar á Íslandi á 19. öld. Vitaskuld litla myllan í Vigur, sem enn stendur og svipuð mylla en stærri á Eskifirði sem Auguste Étienne François Mayer sem var með Gaimard á Íslandi gerði fræga á tveimur koparstungum sínum. Því hefur einnig verið haldið fram að á Íslandi hafi verið þekktar 42 vindmyllur (sjá hér). Ég hef þó ekki séð neitt því til góðs stuðnings. Líklegt þykir mér að einhver Jón Kíghósti hafi komið að tilgátusmíð þeirri. Tveir útlendingar, með takmarkaða þekkingu á menningarsögu Íslands hafa skrifað mest um myllur Íslands.
Ef menn lesa frönsku og hafa áhuga á að lesa um myllur og kvarnasteina á Íslandi er hér ritgerð eftir Anouchku Hrdy sem ég á erfitt með að sætta mig við, því hún gerir sér t.d. ekki grein fyrir menningartengslum við Danmörku og áhrifum hefða í myllugerð frá Danmörku. Eins eru margar villur eru í ritgerðinni sem hún sækir m.a. í grein A.J. Beenhakkers frá 1976, sem hún vitnar mikið í. Eins hefði mademoiselle Hrdy ekki veitt af þekkingu á fornleifafræði, áður en hún kastaði sér út í þessa ritgerðarsmíð.
Myllan á Kastellet í Kaupmannahöfn er af nákvæmlega sömu gerð og Bakarabrekkumyllan. Þessi vindmylla var reist 1846. Aldamótaárið 1900 var aðeins starfrækt ein vindmylla í Kaupmannahöfn, sú sem sést hér á myndinni. Fæð vindmylla í Kaupmannahöfn kom til af sömu ástæðum og á Íslandi.
Gamlar myndir frá Íslandi | Breytt 5.7.2019 kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dummheit ist: Glauben, genug zu wissen
2.1.2016 | 18:25
Þegar útlendingar voru fáir á Íslandi, sáu sumir Íslendingar gyðinga í hverju horni. Þó gyðingar væru löngum ekki velkomnir á Íslandi, frekar en flóttafólk í dag, töldu margir Íslendingar sig snemma vita hverjir væri gyðingur og hverjir ekki. Íslendingar vissu þannig allt um alla, jafnvel þó þeir töluðu ekki við útlendingana - og það hefur greinileg ekkert breyst að því er ég best fæ séð.
"Gyðingurinn" Tierney
Þannig kom t.d. til landsins á seinni hluta 19. aldar kaupmaður frá Leith á Skotlandi sem Tierney hét sem seldi Íslendingum gamla garma. Tierney þessi var baptisti, en á hann var strax settur gyðingastimpill. Menn töldu víst að engir aðrir en gyðingar seldu fátæklingum "gömul pestarföt" frá Evrópu. Ég sagði frá þessum manni á bloggi árið 2013 og öðrum sem fengu gyðingastimpilinn á Íslandi, og hef nú frétt að hinn mikli maður Thor Jensen hafi verið bölvanlega við "gyðinginn" Tierney og að Tierney sé afgreiddur sem gyðingur í sögu Borgarness. Fróðari menn hafa einnig sett gyðingastimpilinn á Thor Jensen, þótt albróðir hans Alfred Jensen Raavad í Danmörku (sjá hér og hér) hafi verið gyðingahatari og afkomendur systkina hans hafi barist fyrir Danmörku í SS. Alfred Jensen hefði einnig verið liðtækur í hirð núverandi forsætisráðherra Íslands í að teikna hús í gömlum stíl til að friðþægja þjóðernisminnimáttarkenndina í sumum Íslendingum.
Hriflu-Jónas hittir Anítu sumarið 1934
Einn helsti forsvarsmaður hreinnar, íslenskrar menningar var Jónas frá Hriflu. Hann vildi líkt og Hermann Jónasson, flokksbróðir hans, helst hafa hér hreint og skyldleikaræktað blóð. Líklega hefur hann heldur ekkert skinbragð borið á "óvininn" þótt hann stæði við hliðina á honum. Reyndar veit ég þó ekki til þess að Jónas hafi látið út úr sér óyrði um gyðinga, líkt og ýmsir aðrir menn á Íslandi gerðu á 4. áratug síðustu aldar - og síðar.
Á myndinni hér fyrir ofan, (sem má stækka til muna ef menn kunna það), má sjá Jónas með föngulegri konu, sem heimsótti Ísland árið 1934. Kona þessi var fædd í Rúmeníu árið 1902 og hét Anita Joachim (síðar Anita Joachim-Daniel).
Anita var gyðingur. Hún vann sem blaðamaður í Þýskalandi fyrir stríð og var á ferð á Íslandi fyrir Associated Press ásamt hinum heimsfræga hollenska blaðaljósmyndara Wim van de Poll sem tók frábærar myndir á Íslandi sem nú má sjá á vef Þjóðskalasafns Hollands í den Haag.
Mogginn eys af eitri sínu haustið 1934
Líklega hefur Hriflu-Jónasi þótt unga konan æði fönguleg og ekkert haft á móti því að vera eilífaður með henni fyrir framan Héraðskólann að Laugarvatni. Nokkrum mánuðum síðar þótti hins vegar ritstjóra Morgunblaðsins það við hæfi að líkja Framsóknarmönnum við gyðinga og ritaði þessi leiðindi í leiðara blaðsins þann 25. október: "
"Oftast er málið sett þannig fram, að þeir, sem orðið hafa fyrir ,,grimdaræði nazistanna" sjeu dýrðlingar einir, sem ekkert hafi til saka unnið annað en það að vera af öðrum þjóðflokki en nazista-,,böðlarnir". Nú er það vitað að þýska þjóðin stendur í fremstu röð um mentun og alla menningu. Þess vegna verður Gyðingahatur þeirra mönnum algerlega óskiljanlegt, ef því er trúað að hinir ofsóttu hafi ekkert til saka unnið. Hjer er ekki tilætlunin að bera blak af þýskum stjórnvöldum hvorki fyrir meðferðina á Gyðingum nje á pólítískum andstæðingum sínum. En hafa þá Gyðingarnir í Þýskalandi ekkert unnið til saka? Jú, þeir væru öflug hagsmunaklíka í landinu, ríki í ríkinu, ,,aðskotadýr, nokkurskonar ,,setulið", sem hafði lag á að ota sínum tota altaf og alstaðar þar sem feitt var á stykkinu Hatrið á þjóðflokknum stafar af því, að einstakir menn af Gyðingaætt höfðu misbeitt á ýmsan hátt þeirri aðstöðu, sem þjóðfélagið veitti þeim. Það er í rauninni hatrið á klíkuskapnum, sem hjer er orðið að þjóðhatri."
Fyndið, þegar maður hugsar út í eðli Sjálfstæðisflokksins. Ritstjóri Morgunblaðsins árið 1934 lauk þessari frumstæðu haturstölu sinni með þessum orðum:
,,Þýska Gyðingahatrið er sprottið af því, að einstaki menn þess þjóðflokks, þóttu hafa rangt við í leiknum. - Það er erfitt að fyrirbyggja það, að andúðin snúist til öfga, ef því fer fram að ranglátir menn og óþjóðhollir vaða uppi í þjóðfjelögunum. Og í því efni skiftir það engu máli, hvort þeir eru ættaðir frá Jerúsalem eða Hriflu." (Sjá hér).
Skyldi það vera svo að íslenska íhaldið hafi alltaf verið verstu gyðingahatararnir á Íslandi?
Heimskonan Anita borðar afdaladesertinn skyr. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Anitu með Guðmundi Finnbogasyni og Jóni Leifs á Þjóðminjasafninu í Safnahúsinu við Hverfisgötu (nú Þjóðmenningarhúsinu). Vart hefur maður séð glæsilegri mynd úr gamla Safnahúsinu.
Dummheit ist: Glauben, genug zu wissen
Anita blessunin flýði tímanlega til Bandaríkjanna, því líkt og vitgrannir vinstri menn og öfgamúslímar gera gyðingum lífið leitt í dag, þá hamaðist Hitler í þeim á þeim árum. Í Bandaríkjunum hélt hún áfram ritstörfum þar til hún andaðist í því stóra landi möguleikanna árið 1978 - Hún ritaði og gaf út fjölda ferðabóka í ritröðinni "I am going to" sem komu út á ensku og sumar á þýsku í Basel í Sviss. Á seinni árum hefur hún, þökk sé veraldarvefnum, orðið þekkt fyrir þessa fleygu setningu, mottói sem ég hef lengi fylgt: "Dummheit ist nicht: wenig wissen. Auch nicht: wenig wissen wollen. Dummheit ist: glauben, genug zu wissen."
Þegar greint var frá myndum Wim van de Poll á hinni ágætu vefsíðu Lemúrnum og einnig Reykjavík.com árið 2012 hefðu blaðmennirnir nú mátt fylgja ofangreindu mottói Anítu. Myndir hollensk listaljósmyndara heilla Íslendinga því þeir sjá Íslendinga, en þeim er djöfuls sama um útlendingana sem á mörgum myndanna voru. Þannig hefur "What do you think about Iceland-afstaða Íslendinga alltaf verið. Ekkert bitastætt var því skrifað um Anitu Joachim eða Wim de Poll þegar fólk komst fyrst í myndirnar frá frá heimssókn þeirra á Íslandi árið 2012.
Til dæmis er þessi mynd af stúlku lýst svona á Reykjavik.com af breskri konu sem lítur á málið úr sínum sínum þrönga menningarkassa: "I wonder what this young lady pictured below was listening to; perhaps it was the golden age classic My Baby Just Cares for Me by Ted Weems and his Orchestra. We may never know, but it does make for a cracking soundtrack to go with these fabulous photos!"
Stúlkan á myndinni kallaði sjálfa sig Daisy og var ekki hætishót íslensk og gæti alveg eins hafa verið að hlusta á þýska eða danska slagara á ferðagrammófóninum frekar en eittvað engilsaxneskt raul.
Fyrst þegar þýskur rithöfundur, Anne Siegel, las um ferðir de Polls og Anitu Joachim til Íslands, var farið aðeins dýpra í efnið en pennar Lemúrsins, en Siegel er hins vegar fyrirmunað að greina frá uppruna Anitu Joachims líkt og hún í athyglisverðri skáldsögu sinni um þýskar konur á Íslandi eftir stríð fer kringum það eins og köttur um heitan grautinn af hverju þær þýsku komu yfirleitt til Íslands. Mætti halda að þær hafi allar verið að leita að afdalarómantík. Það er enn óskrifuð saga og fer í gröfina með þeim flestum ef fjölskyldur þeirra kunna ekki því betri deili á forsögu þýsku mæðranna og ættingja þeirra í gamla landinu sem rústaði Evrópu. Íslendingar hafa líklegast miklu frekar áhuga á því hvað þeim fannst um Ísland, frekar en að vilja vita einhver deili á þeim.
Ach so, þar sannast aftur gæði orða Anitu: Dummheit ist: Glauben, genug zu wissen.
Blessuð sé minning Anitu Joachim-Daniels! Hún vissi sko sínu viti.
Anita Joachim og Willem van de Poll á Íslandi.
Meistari Willem van de Poll (1895-1970) var að taka mynd af þér, án þess að þú vissir af því. Hún verður birt hér að neðan í athugasemdum, nema að þú hafir verið að lesa bloggið mitt nakin/nakinn.
Gamlar myndir frá Íslandi | Breytt 6.11.2019 kl. 07:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fyrstu trúarsamkomur gyðinga á Íslandi
21.3.2015 | 16:44
Nú er hlaupið sport í að byggja hof ásatrúarmanna og moskur múslíma. Samkunduhús gyðinga vantar - en það mun koma - og á bæjarins bestu lóð. Lóðin mun vitanlega ekki kosta neitt, og peningarnir koma, en ekki er gott að vita hvaðan. Gyðinga- hatrið er þegar til staðar, svo menn geta sparað við sig svínsblóð og hausa.
Fyrir langa löngu skrifaði ég í DV um fyrstu trúarlegu samkomu gyðinga á Íslandi. Hún var haldin í Gúttó í Reykjavík árið 1940. (Sjá það sem ég hef áður skrifað um þann atburð hér, hér, hér og hér).
Í Gúttó söfnuðust saman flóttamenn af gyðingaættum frá Austurríki og Þýskaland. Þeir höfðu allra náðugast fengið landvistarleyfi á Íslandi, og héldu Jom Kippur, Friðþægingardaginn, hátíðlegan með breskum hermönnum sem voru gyðingar. Enginn rabbíni kom með Bretum til Íslands. Kom það því m.a. í hlut kantors (forsöngvara), Alfred Cohen frá Leeds (sem síðar breytti um nafn og hét Alf Conway og settist að í Kanada) að stjórna fyrstu trúarhátíð gyðinga á Íslandi. Alfred Cohen sést á myndinni hér fyrir neðan. Efst er hópmynd sem Sigurður Guðmundsson ljósmyndari tók af þáttakendum í Jom Kippur guðsþjónustunni 1940 og á litlu myndinni er Harry Schwab, sem ég þekkti og Bernhard Wallis frá Sheffield.
Þegar Bandaríkjamenn leystu Breta smám saman af hólmi 1941-1942, komu einnig margir gyðingar með Bandaríkjaher. Bandarísk heryfirvöld sinntu betur trúarminnihlutum herdeilda sinna en Bretar, og hingað komu prestar hinna ýmsu kirkjudeilda, sem í hernum eru kallaðir chaplains, og einnig rabbínarnir. Sumir af prestum kaþólikka og annarra kristinna kirkjudeilda komu til landsins til lengri dvalar, en rabbínarnir dvöldu aðeins stuttan tíma í senn og var flogið eða siglt með andans menn til Íslands skömmu fyrir helstu hátíðir gyðinga.
Breskir og bandarískir hermenn af gyðingaættum fyrir utan Gamla Iðnaðarskólann í Vonarstræti á Rosh Hashanah (Nýárshátíðinni) haustið 1941, nánar tiltekið 22. september 1941. Myndin er úr safni Philips Bortnicks, sem er maðurinn með loðhúfuna og loðkragann sem stendur við hlið hávaxins yfirmanns sem var herlæknir í Bandaríkjaher. Philip Bortnick hvílir hægri hönd sína á Breta sem hét Alvin Miller. Ýmsir bresku hermannanna á þessari mynd tóku einnig þátt í Jom Kippur samkomunni árið 1940. Tvo þeirra talaði ég við áður en þeir fóru yfir móðuna miklu.
Þó svo að enginn væri rabbíni væri alla jafnan einhver til að leiða bænahald bandarísku gyðinganna. Hermenn Bandaríkjanna á Reykjavíkursvæðinu, sem voru gyðingar, komu saman á ýmsum stöðum. Fyrst með Bretum í gamla Iðnaðarskólanum 1941, líklegast í Baðstofunni, útskornum gildaskála Iðnaðarmannafélagsins (sem reyndar eyðilagðist í bruna árið 1986, en baðstofan var endurbyggð eftir teikningum og myndum).
Einnig voru haldnar guðsþjónustur, shabbatsbænir, í bragga í Camp Laugarnes, sem kallaður var Men's Recreation Hut. Camp Laugarnes var norðaustan við Kirkjusand umhverfis Holdsveikraspítalann sem Bretar tóku í notkun sem herspítala. í Camp Laugarnes var haldin vikuleg guðsþjónusta kl. 19.30 á föstudögum og var það auglýst í The White Falcon:
"Jewish Faith. The Jewish Service will be held each Friday in the Men's Recreation Hut, Camp Laugarnes, at 1930 hrs."
Þegar Bandaríkjamenn voru komnir með meira lið, voru guðsþjónustur haldnar víðar, og t.d. í Elliðaárvogi Camp Baldurshaga. Um þann stað var ort:
Dear old Baldurshagi,
Oh! what a hell of a dump.
Rocks and hills all craggy,
Stulkas to slap on the rump.
If we ever leave here,
Our thoughts will wander once more,
Thoughts of building Montezuma,
On Iceland´s chilly shore.
Tekið skal fram að gyðingar slógu mikið í rassinn á íslenskum stúlkum, en einnig fóru fram shabbatbænir í spítalakampi sem var staðsettur i Ásum við Helgafell í Mosfellssveit. Þar má enn sjá stóra vatnstanka og rústir sjúkrahússins, sem gekk undir nafninu 208th general Hospital og árið 1942 var haldin samkoma í kampi sem lá við Reykjavíkurflugvöll.
Fyrsti rabbíninn sem stýrði trúarlegri athöfn á Íslandi, svo vitað sé, kom þannig á vegum Bandaríkjahers haustið 1942. Hann hét Júlíus Amos Leibert og var nokkuð merkilegur karl sem stóð fyrir nútímalegan gyðingdóm. Í næstu færslu Fornleifs verður lítillega sagt frá rabbí Leibert.
Mynd: Kantorinn Benjamin Rubenfeld (Bandaríkjaher) hámar hér í sig matzot (hin ósýrðu brauð) á Pesach Seder í Reykjavík 1942 (1. apríl 1942). Mig grunar að Sederinn hafi farið fram á Hótel Borg.
Gamlar myndir frá Íslandi | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Flogið hátt
27.3.2014 | 10:00
Grein þessi birtist árið 2008 í því ágæta riti Sagan Öll meðtitlinum "Flogið hátt lotið lágt".
Fimmtíu ár voru liðin síðastliðið sumar frá því að nokkuð sérstætt loftfar sást á sveimi yfir Íslandi. Þetta var mannaður loftbelgur og flug hans var hið fyrsta sem farið var á slíku fari yfir Íslandi. Flugferðin átti sér stað sunnudaginn 23. júní 1957 í tengslum við Flugdag sem Flugmálafélag Íslands hélt. Flugmálayfirvöld höfðu fengið tilboð um sýningu á loftbelgsflugi frá hollenskum hjónum, Jo og Nini Boesman, sem þá voru orðin heimsfræg fyrir lofbelgjaflug sín víða um lönd. Ákveðið var að bjóða hjónunum hingað og komu þau með lofbelginn Jules Verne, sem var nýkominn úr sinni fyrstu för. Lofbelgir þessa tíma voru gasbelgir, frábrugðnir þeim belgjum sem mest eru notaðir í dag, þar sem notast er við heitt loft sem er blásið inn í belginn með gasblásara. Reyndar var líka notast við heitt loft í fyrstu lofbelgina á 18. og 19. öld en oft tókst illa til og belgir áttu það til að hrapa til jarðar.
Lent við Korpúlfsstaði
Gasbelgur eins og Jules Verne var eins og stór blaðra fyllt með vetni. Vetnið í belginn fékkst á Íslandi í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Gasbelgir þessa tíma voru umvafðir sterku, stórmöskva neti sem tengdist burðarlínunum sem karfan hékk í. Þegar landfestar voru leystar og sandpokar tæmdir, steig belgurinn fullur af vetni til himins eins og lögmál gera ráð fyrir. Ef belgfarar vildu til jarðar töppuðu þeir hins vegar smám saman vetni af belgnum.
Flugbelgnum Jules Verne var flogið frá Reykjavíkurflugvelli og lent var á túninu við Korpúlfsstaði. Ekki var því um langa ferð að ræða. Mikilvægur þáttur við þetta flug var póstur sá sem mönnum bauðst að senda með belgnum. Áhugafólki um frímerki, sem var fleira þá en nú, bauðst að senda bréfkort eða ábyrgðarbréf með belgnum. Bréfin og kortin voru stimpluð með sérstökum stimplum, sem síðar skal vikið að. Þegar sérstöku pósthúsi ballónflugsins á Reykjavíkurflugvelli var lokað klukkan þrjú eftir hádegi og umslög og kort höfðu verið stimpluð, var þeim vandlega komið fyrir í 10 kg póstpoka sem var lokað og hann innsiglaður. Í honum voru 2.480 bréf samkvæmt frétt Morgunblaðsins tveimur dögum síðar.
Belgurinn flaug svo af stað í góðu veðri og sveif austur fyrir borgina með Boesman-hjónin prúðbúin undir flugsamfestingnum. Þegar loftbelgurinn lenti við Korpúlfsstaði var þar margmenni sem tók á móti belgnum og reyndi að hemja hann þegar hann lenti. Allt gekk vel í þessari fyrstu belgför á Íslandi. Póstritari frá Pósti og síma fór með póstsekkinn að pósthúsinu að Brúarlandi í Mosfellssveit og voru kort og bréf, sem hollensku hjónin höfðu haft milli fóta sinna í mjög lítilli körfu belgsins, stimpluð móttökustimpli, og aftur í Reykjavík áður en bréfin voru send móttakanda.
Hollendingarnir fljúgandi
Boesmann hjónin, Jo (1914-1976), sem einnig kallaði sig Jan, John og Johan og Nini (fædd Visscher, 1918, andaðist 2.júní 2009), höfðu bæði flogið síðan á fjórða áratugnum. Reyndar flaug Jo ekki mikið á stríðsárunum. Hann var gyðingur og þurfti því að fara í felur. Hann hafði fyrst flogið loftbelg árið 1934 og hún árið 1937. Eftir stríð giftust Jo og Nini og fóru hjónin víða og flugu mismunandi flugbelgjum í fjölda landa. Oft var flug þeirra fyrsta flugbelgsflug sem
Mynd 1. Loftbelgurinn Jules Verne tilbúinn til brottfarar á Reykjavíkurflugvelli. Sjóklæðagerðin og Belgjagerðin höfðu greinilega keypt sér góða auglýsingu á belgnum. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.
Mynd 2. Loftbelgurinn Jules Verne, með einkennisstafina OO-BGX, stígur til himins frá Reykjavíkurflugvelli. Belgurinn var búinn til í Belgíu hjá lofbelgjagerð Albert van den Bembdens og var fyrst skráður 31. maí 1957. Í körfunni standa Boesman hjónin prúðbúin að því virðist [Þetta er reyndar faðir minn heitinn sem boðið var í prufuferð með frú Nini Boesman]. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.
flogið var í þessum löndum. Þannig voru þau fyrst til að fljúga lofbelg yfir Grikklandi árið 1952, á Jamaíku 1953, í Súrínam 1955, Suður-Afríku 1958, í Ísrael og Írak árið 1959, Malí 1963, Pakistan 1964, Júgóslavíu 1967 og Marokkó 1968. Á ferli sínum sem kapteinar á belgjum, fóru þau því víða og gaf Jo Boesman út þrjár bækur um ævintýri sín og flugbelgjaflug t.d. Wij waren en de Wolken (Við vorum í skýjunum) og seinni útgáfa þeirrar bókar Luchtic Avontuur (Ævintýri í loftinu). Löngu eftir dauða hans var gefin út bókin Gedragen door de Wind (Á valdi vindsins) (1990) sem fjallar um 50 ára feril Nini Boesman, sem enn er á lífi. Bæði hjónin teljast til fremstu belgfara 20. aldarinnar.
Kaffiboð var munaður
Mér sem er höfundur þessarar greinar og fæddur þremur árum eftir að þetta fyrsta ballónflug átti sér stað, þótti ávallt gaman að heyra um og skoða myndir frá ballónfluginu árið 1957 í myndaalbúmi foreldra minna. Faðir minn hafði, sökum þess að hann var ættaður frá Hollandi, komist í samband við ballónfarana og lenti í því að greiða götu þeirra og uppvarta þá á ýmsan hátt og varð úr því nokkuð amstur, enda ævintýrafólk oft fyrirferðarmikið. Myndir þær sem fylgja þessari grein voru allar teknar af móður minni og föður. Eins og fram kemur var ballónförunum boðið í íslenskt kaffiboð með tertum, smákökum og öllu tilheyrandi. Í Hollandi þekktust ekki slík kaffiboð og -borð á þessum tíma. Allt var enn skammtað og Hollendingar voru lengi of fátækir eftir Síðari heimsstyrjöld til að leyfa sér slíkan munað. Kökurnar féllu greinilega flugbelgsförum í geð og var ein rjómaterta móður minnar skreytt með mynd af lofbelgnum.
Mynd 3. Frá vinstri sitja Jacques Deminent vinur og samstarfsmaður Boesman hjónanna í Haag, Jo Boesman, standandi er móðir höfundar sem býður kaffi og kökur og til hægri við hana situr Nini Boesman. Ein hnallþóran var skreytt með mynd af loftbelgnum Jules Verne. Ljósm. Vilhjálmur Vilhjálmsson.
Grunsamlegur Ballónpóstur
Hinn 8. febrúar 1958 skrifaði Jónas Hallgrímsson (1910-1975) forstöðumaður Manntalsskrifstofunnar í Reykjavík og frímerkjafræðingur einn af sínum mörgu frímerkjapistlum í Morgunblaðið. Fyrirsögn greinarinnar í þetta sinn var hins vegar aðeins frábrugðin því sem menn áttu að venjast í fáguðum frímerkjapistlum Jónasar: Íslenzkur ballón-póstur´ falsaður" stóð þar:
Þess hefur orði vart hjá bresku fyrirtæki, sem sérstaklega er þekkt vegna sölu alls konar flugfrímerkja og umslags sem send hafa verið með sérstökum flugferðum, að það hefur haft á boðstólum póstkort sem á er stimplað, að þau hafi verið send með loftbelg þeim, er hóf sig til flugs á Reykjavíkurflugvelli 23. júní 1953 og tók með sér takmarkað magn af pósti ... Verð þessara póstkorti hjá fyrirtæki þessu er aðeins 15 shillings, en vitað er að verð þeirra bréfa, sem send voru með loftbelgnum fór ört hækkandi skömmu eftir að flugið átti sér stað og hafa umslög þessi komist í allhátt verð og að undanförnu verið seld á 350 kr. stykkið. - Óneitanlega vakti það athygli manna, að komast að því hvernig þessu var háttað og skrifaði því safnari hér í bænum fyrirtæki þessu og bað um að senda sér eitt ballón" umslag, en fékk það svar, að umslög þau sem send voru með loftbelgnum væru ekki fáanleg, en í stað þess var honum sent póstkort það er hér birtist mynd af, en það sem það sem strax vakti athygli, var það að í fyrsta lagi var kortið stimplað með venjulegum Reykjavíkur stimpli og dagsetningin í honum - 26.6.1957 - en eins og áður segir var haldinn flugdagur Flugmálafélagsins 23. júní 1957."
Skrýtin póstkort
Ekki var nema von að Jónas frímerkjafræðingur hafi klórað sér í höfðinu þegar hann sá þessi skrýtnu póstkort. Til að fá stimpluð ábyrgðarbréf og póstkort á Reykjavíkurflugvelli þann 23. júní 1957 urðu menn að setja minnst 25 krónur á ábyrgðabréfið og 90 aura á póstkortin sín. Bréfin voru stimpluð með póststimpli Flugdags á Reykjavíkurflugvelli á framhlið en á bakhlið með póststimpli pósthúsanna á Brúarlandi og í Reykjavík.
Á framhlið bréfanna var einnig sérstakur sporöskjulaga stimpill lofbelgsfaranna, sem á stóð The Hague Balloon-Club Holland, on board of the freeballon Jules Verne", Ballooncomm[ander]. John Boesman." Á kortinu sem hægt var að kaupa í Lundúnum, var aðeins póststimpill pósthússins í Reykjavík með dagssetningunni 27.6. 1958, en engir stimplar á bakhlið eins og á bréfunum frá 23.júní. Á póstkortunum sem voru til sölu á 15 shillinga voru hvorki 25 kr. eða 90 aurar í frímerkjum. En þau báru hins vegar stimpil Jo Bosesmans, sem hafði verið notaður þann 23. júní, en þar fyrir utan var stimpill, sem á stendur: FLUG MALAFELAG ISLANDS: FIRST FLIGHT BY DUTCH BALLOON: Pilots: John & Nini Boesman, REYKJAVIK - 1957.
Mynd 4. Stimplar ballónflugsins. Hinn opinberi (neðst) og stimpill sem notaður var á fölsuð umslög sem seld voru í London. Báða stimplana stimpluðu Boesman-hjónin í gestabók í Reykjavík 26. júní 1957
Ef þessi grunsamlegu kort, sem Jónas Hallgrímsson bar réttilega brigður á eru skoðuð nánar, er augljóst að einhverjir hafa reynt að gera sér belgflugið að féþúfu með vafasömum hætti. Vafalaust voru það Boesmann hjónin sjálf. Póstkortin bera stimpil þeirra, sem þau ein höfðu undir höndum, og íslenskan á einum stimplanna bendir ekki til þess að Íslendingur hafi staðið að gerð þessara korta.
Alvarlegt mál
Þessi póstkort, sem enn eru á markaðnum, og sem valda því að menn erlendis og á veraldarvefnum telja ranglega að fyrsta flug loftbelgs á Íslandi hafi átt sér stað 26. júní 1957, en ekki þann 23. júní, bera oft myndir af þeim hjónum. Slík kort hafa vart verið til í miklum mæli á Íslandi og er því afar ólíklegt að aðrir en Boesman hjónin sjálf hafi verið að reyna að drýgja tekjurnar með minjagripasölu þessari.
Jónas Hallgrímsson hvatti árið 1958 yfirvöld til að rannsaka þessi dularfullu umslög og hann orðaði áskorun sína þannig: Það gefur því auga leið, að um alvarleg vörusvik er að ræða eða jafnvel fölsun á verðmætum og vil ég eindregið vara safnara við að kaupa ekki þessi póstkort þótt þeir hafi tækifæri til ...Vegna þessa atburðar, ættu þeir aðilar sem að þessu ballón" flugi stóðu, t.d. Flugmálafélag Íslands og póststjórnin, að taka þetta mál til rækilegrar rannsóknar og fá úr því skorið hvaðan þessi póstkort hafa borizt á frímerkjamarkað erlendis".
Ekki mun það hafa gerst svo kunnugt sé. Þetta mál var reyndar smámál miðað við frímerkjamisferlismálið sem kom upp árið 1960. Nokkrir starfsmenn Pósts og Síma urðu þá uppvísir að því að taka gömul frímerki í stórum stíl úr geymslum Póstsins. Það mál var, þótt alvarlegt væri, ekki aðalskandallinn á Íslandi árið 1960. SÍS málið svokallaða var í algleymingi og var það meira að vöxtum en rauður loftbelgur og nokkur umslög.
Mynd 5. Tveir menn halda á póstpokanum sem flogið var með í lofbelgnum. Pokinn innihélt umslög heiðvirðra póstáhugamanna og -safnara, sem sáu fram á skjótan gróða af umslögum sínum sem send voru með loftbelgnum. Á þessum tíma þótti frímerkjasöfnum hollt og gagnlegt tómstundargaman, sem menn brostu ekki að eins og oft er gert er í dag. Sumir gerðu sér þá grillu að frímerki ættu eftir að verða góð fjárfesting, sérstaklega örfá umslög sem höfðu verið send í fyrstu ferð lofbelgs á Íslandi. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.
Mynd 6. Starfsmaður Pósts og Síma heldur á innsigluðum poka með bréfum og kortum sem send voru með lofbelgnum. Árið 1960 var þessi og aðrir starfsmenn Pósts og staðnir að misferli með frímerki úr safni Póstsþjónustunnar. Hinir seku voru dæmdir í fangelsi og háar fjársektir fyrir að hafa stungið gömlum og fágætum frímerkjum, sem geymd voru í læstum skáp, í eigin frímerkjasöfn eða selt þau. Ljósm Erla Vilhelmsdóttir.
Mynd 7. Loftbelgurinn nýlentur á Korpúlfsstaðatúni. Nini Boesman situr i körfunni og til vinstri við hana standa Jacques Deminent og Jo Boesman. Maðurinn með hattinn er starfsmaður Pósts og Síma. Ljósmynd Erla Vilhelmsdóttir.
Minnisstæð för
Hvað sem líður misferli með umslög og frímerki flugdaginn árið 1957, var ferð Boesman-hjónanna þeim minnisstæð. Nini Boesman gefur litríka lýsingu af því sem gerðist á Íslandi í endurminningum sínum sem gefnar voru út. Hún greinir þar frá flugi belgsins á flugdeginum og segist hafa verið í lofbelgnum Marco Polo, sem er misminni. Hún lýsir aðdragandanum og ferðinni og vandamálum við að fylla belginn með vetni frá Gufunesi, því ekki voru til nægilega mörg gashylki í Gufunesi til að fylla hann í einni umferð.
Hún minnist þess að Agnar Kofoed Hansen flugmálastjóri hafi boðið þeim belgflugshjónum í flugferð í Cessnunni sinni til að sýna þeim landslagið fyrir flugferðina. Hún lýsir Reykjavík úr lofti sem stórri litríkri blikkdós, þar sem sum þökin voru máluð ljósblá, önnur rauð, gul eða græn. Fólk vinkaði til hennar frá svölum sínum og húsþökum og hrópaði eitthvað sem Nini Boesman túlkaði sem góða ferð".
Fúlskeggjaður villimaður
En eitthvað hafa minningar hennar verið komnar á loft 32 árum eftir flugið. Hún lýsir lendingunni og segið að það hafi fyrstur komið á vettvang maður, með langt og mikið skegg. Hún hélt að hér væri kominn einhver villimaður og vissi ekki hvað á sig stóð veðrið. Svo tók sá skeggjaði til máls og tilkynnti henni á fínni ensku, að hún væri lent í landi Þingvalla, þar sem Alþingi hefði verið stofnað árið 930. Sá skeggjaði hafði verið í Kína í áraraðir en var nú sestur í helgan stein sem bóndi og umsjónamaður lítillar kirkju.
Sá skeggjaði gæti hafa verið sr. Jóhann Hannesson síðar prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands (1910-1976), sem var þjóðgarðsvörður á þessum tíma. Hann hafði verið trúboði í Kína og var með snyrtilegt skegg, en var langt frá því að geta talist villimannlegur. Ætlunin hafði verið að reyna að komast til Þingvalla, en belgurinn komst ekki lengra en til Korpúlfsstaða, þar sem hann lenti heilu og höldnu eftir tveggja og hálfs tíma flug. Þar var þegar saman komið margmenni er belgurinn lenti. Nini Boeseman lýsir því svo hvernig hinn skeggjaði maður létti henni biðina þangað til að bílar komu aðvífandi. Fyrstur á staðinn var póstmeistarinn" sem spurði: hvar er pósturinn"? og frú Nini Boesman segist hafa hafið póstpokann sigursællega á loft og fengið rembingskoss fyrir af póstmeistaranum, sem spurði hvor að ekki væri allt í lagi um borð. Hann ku svo hafa dregið fram flösku af ákavíti og hellt á mannskapinn sem skálaði fyrir ferðinni. Svona er sagan auðvitað skemmtilegri, þótt margt af því sem frú Boesman man sé greinilega misminni eða hreinar ýkjur.
Hvað varð svo um belginn Jules Verne? Hann breytti um nafn eftir hentugleikum en gekk einatt undir gælunafninu Le Tomate, eða tómaturinn. Hann var tekinn af skrá árið 1973 og var þá kallaður Pirelli þar sem hann flaug fyrir samnefnt dekkjafyrirtæki.
Mynd 8. Loftbelgurinn nýlentur á Korpúlfsstaðatúni og margmenni tekur á móti honum. Ljósm. Erla Vilhelmsdóttir.
TF-HOT
Löngu síðar, eða 1972, var mönnuðum lofbelg aftur flogið á Íslandi. Það gerði ungur maður sem á menntaskólaárum sínum í Hamrahlíð hafði gert tilraunir með lofbelgi og geimflaug. Geimflaugin fór reyndar hvergi, þar sem geimflugasmiðirnir höfðu ruglast á tommum og sentímetrum á breidd eldsneytistanks flaugarinnar. Holberg Másson, einn geimskotsmanna, sem flaug loftbelg á Sandskeiði árið 1972 keypti síðar almennilegan flugbelg frá Bretlandseyjum árið 1976 og flaug mikið með farþega sumarið 1976. Meðal annars gafst mönnum möguleiki á því að fara í loftferðir með loftbelgnum TF-HOT á útihátíð við Úlfljótsvatn. Belgurinn var heitaloftsbelgur og því mjög frábrugðinn belgnum Jules Verne sem flogið var hér sumarið 1957. Reyndar var breskur belgfari, Dunnington að nafni, um tíma búinn að ræna heiðrinum af Holberg Mássyni, en þóttist hann vera fyrsti maður sem flaug heitalofts loftbelg á Íslandi árið 1988.
Hassi smyglað með loftbelg
En ekki var önnur kynslóð loftbelgja á Íslandi laus við skandal frekar en sú fyrsta, en það mál var miklu alvarlegra en nokkur frímerki og fölsuð fyrstadagsumslög. Eigandi belgsins TF-HOT, Holberg Másson, sem einnig reyndi við heimsmet i lofbelgsflugi í Bandaríkjunum, smyglaði hassi með lofbelg sem hann flutti inn frá Bandaríkjunum til Íslands. Síðar, þegar þessi loftbelgsfari var búinn að afplána dóm sinn, varð hann fyrsti maðurinn á Íslandi til að tengjast tölvuneti og var reyndar líka frumkvöðull í pappírslausum viðskiptum fyrirtækja á Íslandi. Slíkar aðgerðir hafa síðan hafið sig í ólýsanlegar hæðir. Kannski eru miklu fleiri Íslendingar komnir í hörku belgflug án þess vita það. En ef menn eru í vímu í háloftunum er það vonandi frekar út af fegurð landsins en vegna kynlegra efna.
Síðastliðið sumar var flogið með lofbelg á norðanverðu landinu, til dæmis við hvalaskoðun, og þykir þetta greinilega ekkert nýmæli lengur. Sumarið 2002 var hér á landi svissneskur hópur frá verkfræðistofu með grænan belg sem þeir flugu um allt land (hægt er að skoða myndir þeirra á veraldarvefnum: http://www.inserto.ch/ballon/20022006/index.html# [Hlekkurinn er ekki lengur virkur], þar sem líka er hægt að lesa greinagerð þeirra um ferðina).
Eitt hinna löglegu "fyrstadagsumslaga" frá 23.6.1957. Geðþóttaákvörðun póstmeistara í Reykjavík réði því að flugpósturinn sem flaug í loftbelgnum yrðu að vera frímerkt sem ábyrgðarpóstur. Hér hefur sendandinn fengið Nini Boesman til að árita umslagið sem flaug með flugbelgnum.
Gamlar myndir frá Íslandi | Breytt 17.7.2022 kl. 05:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimildir um langspil fyrir aldamótin 1900
23.3.2013 | 07:08
Á síðari árum hefur blómstrað mikill áhugi á langspilinu, einu af tveimur þekktum hljóðfærum Íslendinga fyrr á öldum. Af því sem skrifað hefur verið á síðustu áratugum um langspilið, er grein David G. Woods í Árbók hins íslenska Fornleifafélags sennilega besta heimildin um langspil á Íslandi og sú áhugaverðasta. Ég bendi áhugasömu fólki á að lesa hana. Hún er þó alls ekki tæmandi heimildarsafn um langspilið. Woods rannsakaði fyrst og frem hljómgæði hljóðfæra en hér verður lögð meiri áhersla á elstu heimildir og að sýna elstu hljóðfærin.
Hér skal tekið saman það sem vitað er um langspil á Íslandi fyrir aldamótin 1900, bæði ritaðar heimildir teikningar og ljósmyndir.
Í næstu færslu um langspilið verður greint frá þeim hljóðfærum sem til eru í söfnum og einkaeign og voru smíðuð fyrir aldamótin 1900 - þó ekki hljóðfæri smíðuð úr krossvið.
Arngrímur Jónsson
Arngrímur lærði (1568-1648) nefnir ekki, eins og margir halda fram, langspil í bók sinni Anatome Blefkeniana sem út kom á Hólum árið 1612 og ári síðar í Hamborg. Bókin var andsvar gegn falsi og lygum Ditmars Blefkens um Ísland og Íslendinga. Anna Þórhallsdóttir hin mikla áhugakona um langspilið skrifaði að Arngrímur hefði gert þessa athugasemd við lygar Blefkens: Hvað sönglist og lagfræði snertir, hafa landar mínir verið svo vel að sér, að þeir hafa búið til hljóðfæri upp á eigin spýtur og tekizt vel. Taldist Önnu til að þarna gæti verið átt við langspil.
En upphaflegi textinn hljóðaði nú svona þegar ég fór að lesa hann:
Quoad Musicam et melodiam, non fuerunt adeo amusi nostri homines, quin instrumenta Symphoniaca ipsi artificiose facerent, et melodiam vel musicam, ut vocant, figurativam, recentiore memoria noverint.
Sem getur aðeins útlagst þannig:
Hvað varðar tónlist og sönglist, þá geta landar mínir, það er við vitum síðast til eins og það er orðað, ekki hafa verið án hljóðfæra, sem þeir hafa byggt listavel, eða án tónlistar eða söngs
I handriti að Íslensk-latnesku orðasafni (AM 433 1, fol. I-IX) Jóns Ólafssonar Grunnvíkings, sem tekið var saman á árunum ca. 1736-1772, kemur orðið Langspilsstrengur fyrir. Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur á Árnastofnun hefur vinsamlegast upplýst mig að í seðlum Jóns Ólafssonar við orðasafn hans komir orðið langspil fyrir (sjá athugasemd Rósu í athugasemdum neðst).
Kveðskapur á 18. öld
Vísa Árna Böðvarssonar (1713-1776) á Ökrum á Mýrum tileinkuð Latínu Bjarna, Jónssyni (f. 1709), sem einnig var kallaður djöflabani. Bjarni Jónsson var bóndi og bjó á Knerri í Breiðuvík. Af Bjarna þessum eru einnig til þjóðsögur í safni Jóns Árnasonar.
Smiður bezti, vanur til veiða,
vistast hjá honum allar listir,
fiðlu, simfun, fer hann tíðum,
fiol, hörpu, langspil, gígju,
kirurgus er mörgum meiri
maður tryggur, vel ættaður,
orðsnotur, skáld, allvel lærður
Árni kveður um Jónsson Bjarna.
Jón Steingrímsson
Önnur 18. aldar heimild um íslenska langspilið er ævisaga séra Jóns prófasts Steingrímssonar (1728-1791) sem hann ritaði sjálfur á árunum 1784-1791. Í sögunni er tvisvar minnst á langspilsleik:
Hún [þ. e. Þórunn Hannesdóttir, síðar eiginkona höfundar] hafði mig og áður séð, er eg var í skóla [í Hólaskóla 1744-1750], því síra Sveinn [Jónsson, prestur á Knappsstöðum] og síra Pétur [Björnsson, prestur á Tjörn], skólabræður mínir, sem voru um hátíðir þar á klaustrinu,lokkuðu mig um ein jól að koma þangað að sjá stað og fólk og slá þar upp á langspil, er eg með list kunni, ásamt syngja með sér, hvar af klausturhaldari hafði stóra lyst á stundum. Þá eg í minni Setbergsferð, hvar um áður er getið, hafði næturstað á Bæ í Borgarfirði, sá eg þar snoturt langspil, er þar hékk, og þarverandi húsmóðir, Madame Þuríður Ásmundsdóttir átti og brúkaði. Hún, sem gera vildi mér alt til þénustu og afþreyingar, bauð mér það til að slá upp á það. Og þá eg það reyndi, gat eg það ei fyrir innvortis angursemi og hugsun til fyrri daga, hvað þá hún sá, tók hún sjálf að spila á það ein þau listilegustu lög, hvar við eg endurlifnaði við og fékk þar af sérleg rólegheit.
John Thomas Stanley
Enski ferðalangurinn og John Thomas Stanley barón af Alderley (1766-1850) stýrði leiðangri til Færeyja og Íslands árið 1789. Í ferð sinni um Ísland heimsótti Stanley og rannsakaði ýmsa þekkta staði og umhverfi þeirra. 28. ágúst 1789 var ritað í dagbók leiðangursins að Stanley hefði fundið íslenska hljóðfærið langspil (Þannig þýtt i grein D.G. Woods):
Þegar Stanley kom um borð í skip leiðangursins sýndi hann okkur íslenskt hljóðfæri, sem heitir langspil. Það er í lögun líkast stýfðum píramíða, 5 ½ þuml. sinnum 3 og 1 í toppinn, hæðin 39 þuml., með sex strengjum úr látúnsvír, hinn lengsti 37 og hinn stysti 12 ½ þumlungur festir líkt og gítarstrengir við grunn píramíðans, og leikið á þá með klunnalegum boga. Stanley lék á það, en naumast getur annað hljóð látið verr í eyrum en þau, sem úr því komu. [Hér vantar setningu hjá þeim sem þýddi]
(Upphaflegi textinn er þannig: When Mr. Stanley came on board, he shewed us an Icelandic Instrument of music called Langspiel. It is a frustrum of a rectangular pyramid 5½ in by 3 and 1 sq at the top. height 39 in with 6 Strings of thick brass wire the longest about 37 inches and the Shortest 12½ inches with stops like those of the Guitar - The strings come over a Moulding at the base of the pyramid and are played upon by a clumsy Bow. - Mr. Stanley played upon it but nothing is more grating to the ear than the sounds it produced. It is it seems a very Ancient intrument, introducing here perhaps by the first Norwegian Colonists.
Erfitt er að átta sig á útliti þessa 6 strengja hljóðfæris, með mismunandi lengd strengja.
William Jackson Hooker
Árið 1809 ferðaðist um Ísland ungur enskur grasafræðingur, William Jackson Hooker (1785-1865). Árið 1811 kom út í Yarmouth bók hans Journal [á 1. titilblaði stendur reyndar Recollections] of a Tour in Iceland in the Summer of 1809. Hooker, sem síðar varð forstöðumaður grasagarðsins fræga í Kew, lýsti með mikilli hrifningu heimsókn sinni að Innra-Hólmi nærri Akranesi, þar sem Magnús Stephensen bjó. Magnús var sem kunnugt er sonur Ólafs Stephensens og var hann lögmaður norðan lands og austan árið (1789), síðan settur landfógeti og árið 1800 og varð dómstjóri (háyfirdómari) í Landsyfirrétti, sem þá var nýstofnaður. Þar að auki bar hann titilinn Etatsráð (Etatsråd) sem var það sem Íslendingar komust næst aðalstign. Magnús bjó árið 1809 með fjölskyldu sinni að Innra-Hólmi við Hvalfjörð. Til er góð stutt íslensk endursögn á því sem Hooker sá á upplýsingarheimilinu að Innra-Hólmi í tímaritinu Brautinni árið 1928, en í bók Hookers sjálfs er lýsingar allar mjög langdregnar:
Segir Hooker, að þar sé ágætlega húsaður bær, enda búi þar maður sem sé háyfirdómari, og svo vel búinn að gáfum og lærdómi, að sómi myndi að honum í hverju þjóðfélagi sem væri. Alt benti til þrifnaðar, jafnvel útihúsin báru vott um smekk og snyrtimennsku. Var að vísu fylgt gamalli landsvenju i húsaskipun og byggingaefni. Mörg hús í röð hlaðin upp úr torfi og grjóti, en þó var svo frá öllu gengið, torfveggjunum og torfþökunum, að sannarlegt prúðmennskusnið var á. Útidyrnar voru málaðar og stórir gluggar á bænum. Var gengið inn löng göng alþiljuð, og með timburgólfi. Bókastofa húsbóndans var í meðallagi stórt herbergi, alsett bókum. Innar af því dagstofa, var hún blámáluð með gipsrósum á lofti. Var þar inni góður húsbúnaður líkur þvi er tíðkaðist á Englandi. Á veggjunum voru nokkrar litmyndir meðal annars af Napóleon Frakkakeisara og Nelson sigurvegaranum við Trafalgu. Strax er þeir voru seztir að, bar bóndinn fram hvítt vín og tvíbökur, og meðan beðið var til máltíðar sýndi húsbóndinn Hooker ýmsar fágætar og merkar bækur, og handrit um sögu landsins. Þar voru og bækur eftir merkustu rithöfunda, franska, þýzka, sænska og danska, og mikið af enskum skáldritum. Par að auki megnið af fornritum Grikkja og Rómverja. - Sönglistin var einnig í hávegum höfð á Innrahólmi. Stóð upp að vegg í dagstofunni stórt orgel, og þegar Hooker lét á sér skilja, að sig langaði til að heyra íslenskan söng, kom fjölskyldan inn, og söng fyrir hann nokkur sálmalög, en húsbóndinn lék undir á hljóðfærið. Einnig söng dóttir húsbóndans nokkra íslenzka og danska söngva, og lék undir á langspil. Um kl. 3 var sezt að miðdegi, var fram borin steik með sætu kirsuberjamauki og kálstöppu, en á eftir kom rauðvín, laufabrauð og kökur.
Hooker teiknaði eitt langspilanna eftir minni og birtist teikningin í bók hans um Íslandsförina árið 1811.
Í bók Hookers var langspilið sýnt á haus
George Steuart Mackenzie
Sir Mackenzie (1780-1848) kom einnig við hjá Stephensen fjölskyldunni á Innra-Hólmi á reisu sinni árið 1810 sem hann greindi frá í mikilli bók sinni Travels on the Island of Iceland during the Summer of the Year MDCCCX, sem var gefin út árið 1811. Mackenzie greinir svo frá langspilinu á bls. 146-47:
While busily engaged with our viands, our ears were all at once struck with musical sounds. Knives and forks were instantaneously laid down; and we gazed at each other in delight. Having heard nothing of the kind before in Iceland, except the miserable scraping of the fiddle in the Reikjavik ballroom, the pleasure we now derived from agreeable sounds and harmonious music, was very great. When our first surprise was over, and we could recollect ourselves, we thought that the music, which proceeded from an apartment above, was from a pianoforte; but we were told that it was an Icelandic instrument, called the Lang-spiel; and that the performers were the son and daughter of Mr Stephenson, whose proficiency upon this instrument was considered to be very great. The Lang-spiel, which was now brought down for our inspection, consists of a narrow wooden box, about three feet long, bulging at one end, were there is a soundhole,and termination at the end like a violin. It has three brass wires stretched along it, two of which are tuned to the same note, and one an octave lower. One of the two passes over little projections, with bits of wire on the upper part. These are so placed, that when the wire above them is pressed down by the thumbnail, the different notes are produced on drawing a bow across; and the other wires perform the same office as the drones of a bagpipe. In short, it is simply a monochord, with two additional strings, to form a sort of bass. When the instrument is near, it sounds rather harsh; but, from adjoining room, especially when the two are played together, as was the case when we first heard the music, the effect is very pleasing. The tunes we heard played were chiefly Danish and Norwegian. Mr Stephenson's daughter made me a present of her Lang-spiel,from which this description and the drawing were taken.
Við þessa frásögn er rista af langspilinu gerð af E. Mitchell.
Eftir dóm um miður fallegan söng ungra stúlkna á Innra-Hólmi skrifar Mackenzie: Mr Stepenson's family is the only one in Iceland that be said to cultivate music at all. He himself plays upon a chamber-organ, which he brought from Copenhagen a few years ago.
Auguste Étienne François Mayer
Smellið á myndina til að stækka hana
Listamaðurinn Auguste Mayer (1805-1890) ferðaðist með lækninum og náttúrfræðingnum Joseph Paul Gaimard (1796-1858) um Ísland árin 1835 og 36, og teiknaði af mikilli leikni það sem fyrir augun bar. Listaverk hans voru gefin út í þremur stórum bindum (Atlösum) sem fylgdu 11 binda ritröð um ferðir Gaimards til Íslands og Grænlands, sem bar heitið Voyage en Island et au Groënland. Ekki er í bókunum greint frá þeim "concert" sem frönsku ferðalangarnir upplifðu í hlóðaeldhúsinu á Grímstöðum á Fjöllum, en myndin sem birtist í öðrum atlas leiðangursins er steinprent (litógrafía) með lýsingunni: Un concert à Grimsstadir (Islande). Myndin er á við mörg langspil.
Benedikt Gröndal
Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1827-1907) verður að teljast með hér, þegar hann lýsir langspilsleik móður sinnar í Dægradvöl, bók sem út kom að honum látnum árið 1923 og var eins konar blogg þess tíma. Gröndal óð úr einu í annað. Kallinum þótti gaman að lífinu! Hann segir svo frá langspilinu í bókinni:
Um Langspil hjá Benedikt Gröndal: Dægradvöl (Afisaga Mín), Bókaverslun Ársæls Árnasonar , Rvík, Prentsmiðjan Gutenberg - MCMXXIII (bls. 40)
Einu sinni man jeg til at Bjarni Thararensen kom; jeg man eptir honum og sýndist mjer hann stærri en hann var í raun og veru, því að jeg var barn, en Bjarni bar sig hátt og ljet mikilmannlega; hann var á rauðum kjól, eðalmaður á hæð, baraxlaður og flatvaxinn; hann beiddi móður mína að spila á langspil, sem hún var ágætilega vel leikin í, og spilaði hún þá Lyt Elskede, ut", en Bjarni söng undir. Þetta hefur verið 1836 eða 7.; Þá voru Langspil alltíð á Alptanesi; í Mackenzies ferðabók er mynd af langspili með bumbu, alveg eins og móðir mín átti, með þrem strengjum, myndin er alveg rétt. Móðir mín var fræg fyrir þetta spil, hún ljek valsa og allskonar lög. Sum langspil voru ekki með bumbu, en einungis breiðari í þann endann sem hljóðopið var á og leikið var yfir; strengirnir voru þrír en nótur settar einungis á þann strenginn sem næstur manni var og hæst var stemdur. þar næst var strengur einni octövu lægri og svo bassinn. Í bók Ólafs Davíssonar um gátur og leiki og í Sunnanfara (nr. 6, 1893) er talað um langspil af töluverðum ókunnugleik (þar sendur og bls. 272 að M. St. hafi andast 1827) Ólafur ætlar að þau sjeu alíslenzk að uppruna,en þau eru sjálfsagt frá Noregi og heita (hjetu) "langeleg", "Langeleik" og "Langspel" (I. Aasen). Um langspil eru þessi vísa, líklega eptir Rósu;
"Netta fingur venur við
veifir slingur korða
hjartað stingur, fær ei frið,
fallega sýngur langspilið".
Vatnsenda Rósa
Það var Rósa Guðmundsdóttir (1795-1855) sem svo orti þannig um langspilið:
Hvort þetta var ort er Rósa var í þingum við Natan Ketilsson í Húnaþingi, eða síðar er hún bjó í Markúsarbúð undir Jökli (Snæfellsnesi), er ekki vitað, en falleg er vísan.
Ljósmyndir
Til eru tvær skemmtilegar ljósmyndir af mönnum sem leika á langspil. Ein er af Jóni Ásbjörnssyni (f. 1821), sem einatt var kallaður goskall. Jón var vinnumaður og bóndi víða í Borgarfirði og á sunnanverðu Snæfellsnesi en átti heima í Borgarnesi frá 1879 til dauðadags 1905. Myndina hefur Árni Thorsteinsson sennilega tekið (Úr ljósmyndasafni Þjóðminjasafns Íslands). Svo virðist sem Jóns leiki á langspil með bogadreginni hlið.
Hin ljósmyndin var tekin einhvers staðar í Húnaþingi (Skagaströnd) af danska ljósmyndaranum Johannes Klein sem ferðaðist með Daniel Bruun um Ísland árið 1898. Bóndinn leikur á langspil með bogadreginni hlið (sem sumir kalla bumbu).
Gamlar myndir frá Íslandi | Breytt 31.1.2021 kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Furðumyndir frá 18. öld á Listasafni Íslands: Síðari hluti
24.11.2012 | 10:00
Ottó barón Reedtz-Thott á Gavnø hefur verið svo vingjarnlegur að upplýsa mig, að ekki hangi lengur á veggjum hallar hans verk úr furðumyndaröð þeirri sem sýnir Ísland, og sem upphaflega var eign forföður hans Otto Thotts. 24 verkanna voru gefin Íslendingum árið 1928 (sjá fyrri færslu), en myndirnar voru upphaflega 32 að tölu árið 1785, er gerður var listi yfir málverkasafn Thotts. Baróninn upplýsir í tölvubréfi dags. 20.11. 2012, að árið 1930 hafi verið haldið uppboð á lélegum verkum úr safni góssins á Gavnø, en þar á meðal voru ekki neinar myndir sem gætu hafa verið 8 myndir úr Íslandsmyndaröðinni. Líklegt er því, að myndirnar 8, sem vantar, hafi verið orðnar svo lélegar árið 1928, að menn hafi annað hvort ekki viljað gefa Íslendingum þær, eða að þær hafi verið komnar í glatkistuna miklu fyrr.
Við getum þó leyft okkur að vona, að einhver sé enn með átta svipaðar myndir á veggjum sínum. Myndin hér að ofan sem er ein hinna 24 í Listasafni Íslands, er harla illa farin sökum einhvers konar skemmdarverks eða slyss. Kannski fór verr fyrir þeim síðustu átta en þessari mynd.
Tilgáta um listamanninn: Sæmundur Hólm
Hvað Ólafur Ingi Jónsson byggir fyrrnefndar hugmyndir sínar um hollenskan uppruna og aldursgreiningu til lok 17. aldar á, fyrir utan það litla sem hann sagði í véfréttastíl í fyrrgreindum útvarpsþætti, get ég ekki alveg gert mér grein fyrir.
Greinilega var málarinn, sem bar ábyrgð á þessum málverkum, enginn Rembrandt. En samt eru atriði í málverkunum sem benda til að listamaðurinn hafi lært málaralist og handverk sitt. Þau atriði sem ég taldi til í síðustu færslu tel ég benda til þess að myndirnar hafi orðið til á seinni hluta 18. aldar en ekki á 17. öld eins og Ólafur forvörður heldur.
Sömuleiðis tel ég ekki lokum fyrir það skotið, að líta sér aðeins nær en til Hollands. Hvað með að Íslendingur, búsettur erlendis hafi málað þessi furðuverk? Er það óþarflega glannalegt á þessum síðustu ESB-tímum.
Kristján Sveinsson sagnfræðingur varpaði reyndar fram þeirri spurningu, er ég ræddi nýverið við hann um furðuverkin á Listasafni Íslands, án þess að hafa séð myndirnar, að Sæmund Magnússon Hólm (1749-1821) væri kannski listamaðurinn. Sæmundur var fyrsti Íslendingurinn sem við vitum að hafi stundað nám á listaskóla.
Sæmundur Magnússon fæddist að Hólmaseli á Meðallandi árið 1749, sonur hjónanna Guðmunds Magnússonar og Guðleifar Sæmundsdóttur. Sæmundur gekk í Skálholtsskóla og var um tíma djákni á Kirkjubæjarklaustri. Hann hélt síðan til Hafnar árið 1774 og bjó þar og nam við kröpp kjör fram til 1789 er hann fékk brauð að Helgafelli og Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi.
Hann lærði til prests í Kaupmannahöfn en lauk sömuleiðis öllum deildum Konunglegu Akademíunnar og sumum með ágætum, fékk meðal annars medalíur, verðlaun og konunglegt leyfi til að framleiða gljápappír, (pappír með glansáferð), sem hann segist hafa fundið upp. Þann pappír hefði ég gaman af að sjá, ef einhver ætti snifsi af honum. Sjálfur orti Sæmundur eftirfarandi línur um verlaun þau sem honum áskotnuðust í Kaupmannahöfn.
Medalíur fimm eg fjekk
forþjent verkin standa;
teikningin til gæða gekk
gjörði eg reynslu vanda.
Uppfinninga rækta eg ráð
raun skal vitni bera.
Ríkis fjekk um lög og láð
leyfi að fabrikera.
Margt er til eftir Sæmund, en engin þekkt ólíumálverk
Þótt ekki séu þekkt nein olíumálverk eftir Sæmund Hólm, þekkjum við þó nokkuð af mannamyndum sem hann teiknaði með rauðkrít, nokkrar koparstungur, sem og þó nokkrar teikningar í handritum, stafagerðabækur og ýmis konar kort og yfirlitsmyndir.
Sannast sagna þykir mér, líkt og mörgum samtímamönum Sæmundar, hann ekki sýna mikinn listamann, til að mynda í andlitskrítarmyndum sínum. Hann átti í stökustu erfiðleikum með hlutföll á milli líkama og höfuðs og dýpt og gullinsnið lærði hann aldrei. Hann gat ekki teiknað persónur með mikilli snilld. Myndirnar hér að neðan, m.a. af grasafræðiprófessornum Erik Viborg, sem nú eru varðveitt í Friðriksborgarhöll, mynd sem hann vann til verðlauna fyrir, sýnir fólk með stór höfuð og litla búka. Medalíur og verðlaun sem Sæmundi hlotnaðist, má miklu frekar líta á sem stuðning við efnalitla listanema á þessum tímum. Rauðkrítarteikningar Sæmundar voru að minnsta kosti ekki mikil list.
Tengsl Sæmundar við Otto Thott
Það er helst tvennt sem tengt getur Sæmund Hólm við Ottó barón Thott.
1)
Í fyrsta lagi eignaðist Thott handrit sem Sæmundur hafði skrifað og myndskreytt, sem nú er að finna í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, þangað sem þau voru gefin eftir dauða Thotts.
2)
Í öðru lagi stundaði Sæmundur myndlistanám í næsta húsi við heimili Otto Thotts í Kaupmannahöfn, Det Thottske Palæ, sem nú hýsir sendiráð Frakka í Kaupmannahöfn. Höllin var seld Frökkum árð 1930. Ef Sæmundur hefur kynnst baróninum sem keypti af honum handrit, hefur ekki verið langt að fara fyrir Sæmund, ef hann hefur fengið aðgang að hluta bókasafns baróns, sem einnig var hýst í Thottsku höllinni í Kaupmannahöfn.
Ef við lítum á handrit þau sem Thott keypti eða fékk af Sæmundi, er margt áhugavert að finna. Thott var maður upplýsingarinnar og átti hann stærsta bókasafn af handritum og smábæklingum í Evrópu sem flokkast getað sem upplýsingabókmenntir. Það sem hann hefur fengið frá Sæmundi, eða með hans hendi, var einnig af þeim toga. En áhugi á list var einnig ástæðan til að handrit eftir Sæmund komust í eigu Thotts. Thott hefur einhvern veginn eignast nokkuð sérstakt handrið sem Sæmundur skrifaði og myndskreytti á Hafnarárum sínum. Þetta er sambrotshandrit með eftirmyndum af teikningum eftir meintan biskup "G.H.lin.... "sem áttu að fyrirfinnast í kórvegg innanverðum í kirkjunni að Sólheimum í Vesturs-Skaftafellssýslu; Þetta eru fimm teiknaðar helgimyndir sem sýna kafla úr sögu Jesús Krists og sem Sæmundur skrifar/afritar að hafi verið teiknaðar anno Domini 1414 (MCCCCXIV). Vandamálið er hins vegar það, að myndirnar sverja sig í ætt við koparstungur niðurlenskar, eða þýskar. frá 16. öld. Textinn undir myndinni í hverjum ramma er eintómt rugl, fyrir utan orðið Jesús, en í lokarammanum er skýring Sæmundar og neðst er árstalið 1414 og upplýst að G.H.lin... hafi teiknað á Lúsíudag í Föstu að Dyrhólum. Ekki er mér kunnugt um, hvort vísitasíur frá Sólheimakirkju á 17 og 18. öld lýsi slíku verki í kirkjunni, og er verið að rannsaka það. Mér er reyndar nær að halda, að Sæmundur hafið uppdiktað þetta listaverk og selt Thott baróni. Eðli myndanna og stíllinn benda ekki til fyrri hluta 15. aldar.
Ef handritið með Sólheimabílætunum, sem Sæmundur hefur teiknað, og ef til vill selt Thott baróni, er einhvers konar blekking (já, hér er ég kominn í spor forvarðarins og gruna menn um græsku), þá er komin ærin ástæða til að ætla að Sæmundir kunni einnig að hafa verið fær um að mála furðumálverk af stöðum í heimalandi sínu, til dæmis sem einhvers konar æfingau í námi sínu, og hafi svo tekið upp því að selja þær Otto Thott, sem tók við öllu "gömlu" og hafði ráð á því að borga vel fyrir.
Maður getur ímyndað sér, að kennari Sæmundar í listunum hafi ef til vil beðið hann um að mála eitthvað eftir minninu frá Íslandi, og þar sem hann hefur vart gert víðreist nema um suðurhluta landsins og ekki þekkt aðra landshluta vel, hafi hann farið út það í að búa til þessar skemmtilegu fantasíur.
Það er þó einnig ýmislegt í málverkunum 24, sem sýnir skyldleika við önnur verk, teikningar Sæmundar, sem gefur ástæðu til að álykta að hann gæti hugsast að vera listamaðurinn sem málaði myndirnar 24, þó það verði vart sannað nema með öðrum aðferðum en samanburði einum. Ýmislegt í myndunum gefur einnig ástæðu til að ætla, að listamaðurinn hafi verið ýmsu kunnugur á Íslandi. Hér skal það helst talið upp:
Karlahattar
Á málverkunum 24 á Listasafni Íslands er hattatíska karla með sama lagi og hattar í mörgum verkum Sæmundar, reyndar sláandi líkir. Dæmi:
Mynd af manni með einhvers konar fuglaháf eða snöru í bjargi í Vestmannaeyjum. Úr handriti Sæmundar Hólms um Vestmannaeyjar (NKS 1677 4to) sem er varðveitt er á Konunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn.
Úr handritinu Sæmundar um uppfinningu hans, nokkuð furðulega fiskveiðamaskínu sem er varðveitt á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn (Kall 628a 4to). Handritið, sem eru auðlesið, og tilheyrandi myndir verða birt í heild sinni á Fornleifi innan skamms.
Maður á einu af málverkunum 24 og menn í svipuðum fötum og úr handriti Sæmundar um veiðimaskínuna. Myndin fyrir neðan er úr sama handriti.
Fjallastafur?
Hallar karlinn sér fram á fjallastaf?
Gott ef ekki er hægt að sjá Erkiskaftfellskan fjallastaf (broddstaf), sem einn karlanna á myndinni hallar sér fram á. Slíkan staf hefði Sæmundur nú þekkt úr heimahögum sínum og jafnvel notað. Slíkir stafir og af þessari lengd eru til á söfnum, t.d. í Skógum, þar sem Þórður fornfræðingur Tómasson sýnir oft þeim sem heimsækja hann staf með járnhring á og minnir um leið til gamans á frásögn Landnámu af því hvernig landnámsmaðurinn Loðmundur gamli á Sólheimum kom í veg fyrir flóð á byggð í jökulhlaupi með staf sem á lék hringur. Er þetta sem við sjáum á myndinni rammíslenskur broddstafur? Ef svo er, hefur sá sem málað hefur myndirnar haft töluverða þekkingu á Íslandi og Íslendingum.
Kortagerð og staðarlýsingar Sæmundar
Sæmundur fékkst nokkuð við gerð korta og perspektíva (prospekta, eins og það var kallað upp á dönsku), og er nokkuð að því varðveitt í Kaupmannahöfn. Á einni þeirra teikninga sem sýna Dyrfjöll í fuglasýn, eru fjöllin eru mjög ýkt ekki ósvipað því sem maður sér á málverkunum 24. Hvaða fyrirmynd Sæmundur hefur haft fyrir Dyrfjallamynd sinni væri áhugavert að vita, en líklega hefur hann teiknað þetta eftir teikningum skipstjóra sem skissað hafa strandlínuna þar eystra.
Eftir Sæmund liggja nokkur handrit og teikningar á Konunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn. Í þeim og í teikningu af Ólafsvík frá 1785, sem er varðveitt á safninu á Frederiksborg, er ýmislegt sem sver sig í ætt við þá fantasíu í landslaginu sem sést á málverkunum 24 á Listasafni Íslands. Myndin af Ólafsvík sýnir Ennið í yfirgengilegri stærð. Myndin er lituð pennateikning og er teiknuð í Kaupmannahöfn áður en Sæmundur fluttist aftur til Ísland. Ólíklegt er að Sæmundur Hólm hafi nokkru sinni komið á Snæfellsnes áður en hann hélt til Hafnar til að stunda nám. Það sýnir myndin á vissan hátt. Árið 1799 kom síðan út ný mynd Sæmundar af Ólafsvík í riti Jacobs Severin Plums Íslandskaupmanns, Historien om min Handel paa Island: mine Søereiser og Hendelser i Anledning af Islands almindelige Ansøgning til Kongen om udvidede Handelsfriheder m.v. Sú mynd, sem er koparstunga eftir teikningu Sæmundar, er allt öðru vísi en sú fyrri Ólafsvíkurmynd sem Sæmundur teiknar á Hafnarárum sínum, en hún sýnir einnig nýja kunnáttu Sæmundar á staðarháttum í Ólafsvík, en þá hafði hann verið verið prestur í 10 ár í næstu sveit. Þetta sýnir, að Sæmundur gat hæglega "skáldað" landslagsmyndir.
Ólafvík í tveimur gerðum eftir Sæmund Hólm. Neðri myndin, sem er koparstunga eftir óþekktri teikningu Sæmundar, er öllu nákvæmari en sú efri. Myndin hefur t.d. birst í bók Árna Björnssonar og Halldórs Jónsonar: Gamlar Þjóðlífsmyndir (1982).
Her fyrir ofan má sjá nálastungu sem gerð var eftir mynd Hólms fyrir ferðabók Olaviusar (1776) af Uxahver í Reykjahverfi, sem hætti að gjósa árið 1872. Myndin sýnir hver sem ekki er ólíkur þeim gusum og geysum sem maður sér á málverkunum sem komu til Íslands árið 1928. Fyrir neðan er upphaflega teikning Sæmundar sem er varðveitt í Konunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn.
Árið 1720 komu út frásagnir hollenska kapteinsins Gornelis Gijsbertsz. Zorgdragers, ritaðar af Abraham Moubach, sem mest fjallaði um hvalveiðar og Grænlandútgerð Hollendinga, efni sem Sæmundur hafði mikinn áhuga á og eftir hann liggja tvö handrit með myndum af hvölum og selum. Zorgdrager kom við á Íslandi árið 1699 og hitti þar danskan kaupmann á Goswijk, sem er hollensk hljóðritun á Húsavík. Kaupmaðurinn sagði hollensku ferðalögnunum frá goshver, líklega við Námaskarð. Þangað fóru Hollendingarnir. Eins og gengur á ferðalögum urðu þeir svangir. Bundu þeir kindalæri í snæri og suðu í hvernum. Í bókinni er koparstunga sem sýnir þessa matreiðslu Zorgdragers og félaga. Zorgdrager sagði síðan Abraham Moubach, að hann hafi haldið til haga vel soðnu stykki af kjötinu og farið með það á nærliggjandi sveitabæ eða kofa og hafi fengið þar mjólk að drekka, en annars hefði menn hans drukkið kælt vatnið úr hvernum. Koparstungan í bók Zorgdragers er greinilega ekki gerð af listamanni sem hafði verið í för með Zorgdrager. En minnir ekki hverinn í bók Zorgdragers á hver Sæmundar?
Uppfinningarmaðurinn Sæmundur Hólm
Sæmundur var fyrir utan að vera myndlistamaður, uppfinningarmaður, eins og fyrrnefndur gljápappír hans gefur til kynna. Hann velti mikið fyrir sér landsins gæðum eins og lærðum manni í miðri upplýsingaöld bar skylda til. Eftir hann liggur á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn myndskreytt handrit sem hann kallaði Nogle Tanker om Fiske og Laxe Fangsten (Kall 628 b 4to). Það er Sæmundur með tillögu og teikningu af eins konar brú úr tré sem byggð er á nokkuð vafasaman hátt út í vatn til að auðvelda mismunandi netaveiði á laxi. Á Skýringamyndum hans fyrir machinuna, sem hann kallar svo, og sem ég læt fylgja hér, má sjá hvernig smíða má og nota slíka brú til mismunandi veiða. Á myndunum er menn einmitt klæddir á sama hátt og karlar á furðumálverkunum 24 sem komu til Íslands árið 1928.
Sæmundur var mikill kopíisti og í einu handrita hans, sem varðveitt eru á Konunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn, er að finna gott dæmi um það. Hann hefur tekið upp á því að teikna Vestmannaeyjaskip (Tólfæring?) eftir eldri mynd af Vestmannaeyjaskipi, sem síra Gizur Pétursson teiknaði árið 1704 (sjá hér).
Sæmundur hefur einhvern veginn komist í teikningu Gizurar og gert sína útgáfu. Takið eftir körlunum um borð. Fyrir utan að vera í nákvæmlega sömu stellingum og sjómennirnir á mynd séra Gizurar Péturssonar, þá eru þeir með sams konar hatta og sömu hattana og allir karlar á myndunum furðulegu á Listasafni Íslands. Eftir að Sæmundur teiknaði handritið með þessari mynd, voru allir karlar hans á myndum með svona hatta, sem voru reyndar frekar gamaldags í lok 18. aldar nema á meðal, presta, gyðinga, bænda og hermanna sumra landa.
Lokaorð
Ég tel ekki ólíklegt, að Sæmundur hafi í fljótheitum málað 32 lítil málverk af Íslandi, sem hann þekkti ekki sérstaklega vel áður en hann hélt til náms í Kaupmannahöfn. Þetta tel ég að Sæmundur hafi gert til að drýgja tekjur sínar og til að svala fróðleiksþorsta greifans. Slíkt telst ekki til falsana í þeim dúr sem Ólafur Ingi flettir ofan af. Ég tel að Sæmudur hafi helst notast við þær lýsingar sem hann gat fundið í bókum. Við sjáum slíkt t.d. í litaðri pennateikninu hans af Ólafsvík og Enninu frá 1785.
Ef Ólafur Ingi Jónsson forvörður á Listasafni Íslands greinir ekki betur frá niðurstöðum sínum og enduraldursgreiningum sem hann setti fram i sjónvarpsfréttum og útvarpsþætti, verð ég að álíta að forverðinum sem "eyðilagði" fermetrasöfn á veggjum fjölda nýríkra íslenskra "málverkasafnara" hafi í þetta sinn orðið á í messunni. En kannski hefur Ólafur samt eitthvað í handraðanum, einhver tæknileg atriði sem væri vert að fá skoðun og rannsókn á í Hollandi, fyrst hann heldur að málverkin séu ættuð þaðan. Það tel ég persónulega fjarstæðu. Handbragð myndanna er að mínu mati ekki hollenskt frekar en danskt. Af ofangreindum rökum fram settum, er ég vantrúaður á að myndirnar séu frá lokum 17. aldar eða að þær séu hollenskar, alla vega þar til sýnt verður fram á eitthvað annað og merkilegra.
Allar upplýsingar eru vel þegnar sagði Ólafur forvörður, og hér á Fornleifi, hafa menn getað lesið um tilgátu mína (Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar fornleifafræðings) í tveimur hlutum. Ég undirstrika orðið tilgáta. Nú má Ólafur svara og forverja sig, ef hann þorir.
Tilgáta mín um Sæmund, sem Kristján Sveinsson sagnfræðingur plantaði í mig með því að nefna Sæmund á "skæptali", tel ég engu verri en Hollendingakenning forvarðarins á Listasafni Íslands. Hollenskir listfræðingar, sem ég hef sýnt myndirnar, eru ekki á því að þær séu hollenskar, svona í fljótu bragði.
Gamlar myndir frá Íslandi | Breytt 3.9.2019 kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Furðumyndir frá 18. öld á Listasafni Íslands : Fyrri hluti
18.11.2012 | 18:00
Nýlega var frétt í Sjónvarpi/RÚV (29.10.2012), og skömmu áður viðtal á RÚV (25.10.2012), þar sem talað var við Ólaf Inga Jónsson forvörð á Listasafni Íslands, sem sagði frá kenningum sínum.
Ólafur, sem orðið hefur hvað frægastur fyrir að gera þriðja hvert íslenskt listaverk frá 20. öld að fölsuðum fermetrafjárfestingum á veggjum nýríkra labbakúta á Íslandi, hélt því fram að 24 málverk sem gefin voru Íslendingum árið 1928 af dönskum baróni væru hollensk og frá lokum 17. aldar.
Ólafur gerði þannig málverk, sem hingað til höfðu verið talin frá síðari hluta 18. aldar, eitt hundrað árum eldri. Hann bætti um betur og gerði þau hollensk á einni kvöldstund á besta tíma í sjónvarpinu og á Rás 1, því öllu er trúað sem þar er sagt, eða svona hér um bil.
Ég tel þó að litlar líkur séu á því að Ólafur forvörður hafi rétt fyrir sér í þetta sinn og vona ekki að röksemdafærslur hans í fölsunarmálunum frægu hafi verið í sama dúr og það sem ég heyrði í ríkisfjölmiðlinum um furðumálverkin 24.
Ég set í þessari grein minni, sem verður í tveimur löngum hlutum, fram aðra tilgátu og undirbyggi hana einnig. Í síðari hlutanum greini ég frá þeim manni sem ég tel líklegastan til að hafa málað þessi undarlegu verk, sem ég er ekki í vafa um að hafi orðið til í Danmörku á árunum 1776-1789.
Gjöf frá Kjeld Thor Tage Otto Reedtz-Thott
Árið 1928 bárust Listasafni Íslands, sem þá var enn deild í Þjóðminjasafni Íslands, að gjöf 24 fremur einkennileg landslagsmálverk sem sýna eiga Ísland. Málverkin höfðu verið í eigu Reedtz-Thotts aðalsættarinnar og voru myndirnar gefnar úr dánarbúi K. Th. T. O. Reedtz-Thotts eða Kjeld Thor Tage Otto Reedtz-Thott (1839-1923), eins og hann hét fullu nafni. Hann var lénsbarón og fyrrum forsætisráðherra (konseilpræsident eins og það hét þá) og utanríkisráðherra Dana, nokkuð merkilegur karl ef dæma má út frá dönskum alfræðiritum og sögubókum.
Kjeld Thor Tage Otto Reedtz-Thott gefandi myndanna
Eftir að lénsbarón Kjeld Thor Tage Otto andaðist, voru þessi málverk, sem eru öll um 35 x 48 sm að stærð ánöfnuð Íslandi. Hér eru nokkur dæmi sem lesendur geta notið (númerin eru hvorki þau sem máluð hafa verið á verkin né safnnúmer á Listasafni Íslands):
1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14
Almannagjá, trúi þeir sem vilja
Eyjafallajökull, samkvæmt áletruninni, sem er frá 18. öld.
Hnappafellsjökull. Hver hefði látið sér detta það í hug?
Spurst fyrir um sögu málverkanna
Áður en ganað er út í tilgátur um eðli og aldur myndanna er við hæfi að kanna eigendasögu þeirra, en það hefur enginn gert á Listasafni Íslands.
Á óðalssetri Reedtz-Thott ættarinnar á Gavnø (Gaunø) á Suður-Sjálandi og á stóru listasafni ættaróðalsins, spurðist ég árið 2009 fyrir um, hvort að einhverjar heimildir væru til um þessar myndir í eigu ættarinnar. En ekki höfðu menn í höllinni tök á því að upplýsa um það. Enginn vissi neitt. Þar vissu menn ekki einu sinni að málverk úr eigu ættarinnar hefðu verið gefin til Íslands árið 1928. Á Gavnø komu menn af sams konar furðufjöllum og málverkin sýna okkur.
Nýlega komst ég í samband við doktorsnema við Statens Museum for Kunst, Jesper Svenningsen að nafni, sem er einmitt að rannsaka dönsk einkalistasöfn á fyrri öldum. Hann gat upplýst mig um að til er listi frá 1785 sem listmálarinn C.A. Lorentzens gerði yfir málverkasöfnin á Gaunø og Lindervold, sem nú er að finna á Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn. Í 2. bók þess lista stendur, að hangið hafi "Paa anden Etage, i første Kammer ved Opgangen" "16 Islandske Vuer" og í "Hjørnesalen ud til Haugen" yderligere "16 Islandske Vuer". Það er að segja 16 yfirlitsmyndir frá Íslandi í fyrsta herbergi við stigaganginn á annarri hæð og 16 að auki í hornsalnum við hólinn.
Númerin í hægra horninu neðst á myndunum 24 á Íslandi eru einnig þau sömu og númerin í lista Lorenzens.
Matthías Þórðarson taldi myndirnar vera frá lokum 18. aldar
Þegar myndirnar voru fyrst gefnar af erfingjum Kjeld Thor Tage Otto Reedtz-Thott árið 1928, ályktaði hinn mjög svo glöggi maður Matthías Þórðarson, sem þá var þjóðminjavörður, að myndirnar hefðu verið málaðar á síðasta hluta 18. aldar eða um 1780. Ekki þótti mér það í fljótu bragði ólíklegt, þegar ég sá þessar myndir fyrst.
Á 18. öldinni bjó lénsgreifinn Otto Thott (1703-1785) á Gavnø, og safnaði meðal annars listaverkum og merkum bókum og handritum, þar á meðal íslenskum handritum. Bókasafn hans taldi um 120.000 bindi. Runnu fágæt handrit og 6159 bækur prentaðar fyrir 1531 eftir hans dag (árið 1789) til Konunglega einkabókasafnsins í Kaupmannahöfn og keypti konungur þar að auki 60.000 bóka Thotts lénsgreifa.
Otto Thott, safnarinn mikli á Gavnø
Á Gavnø mun í dag vera að finna stærsta einkasafn málverka frá fyrri öldum, um 1000 verk, þar á meðal málverk eftir meistara eins og Rubens, svo og samtímaeftirmyndir eftir málverkum heimsfrægra listamanna. En að sögn Jespers Svenningsens á Statens Museum for Kunst er langt á milli gæðaverka í höllinni. Otto Thott keypti stórt inn en hafði sannast sagna ekki mikið vit á því sem hann keypti.
Ljóst má vera, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá 1785, að Íslandsmyndirnar, sem gefnar voru til Íslands árið 1928, voru upphaflega í eigu stórsafnarans Otto Thotts og að þær voru upphaflega 32 að tölu.
Bíð ég nú eftir svari núverandi baróns, sem einnig heitir Otto, um hvort mögulegt sé að Gavnøhöll geymi enn 8 furðuverk, sem sé einhvers staðar að finna í salarkynnum barónssetursins.
Þess ber einnig að geta Kjeld Thor Tage Otto sem andaðist 1923 var vitaskuld ekki sonur Otto Thotts lénsgreifa og safnara, þó svo að Ólafur Ingi forvörður hafi haldið því fram í fyrrnefndu viðtali.
Fyrirmyndir og áhrif
Málverkin 24 eru afar einkennileg, og hafa menn því talið það víst að sá sem málaði þau hafi aldrei til Íslandsála komið.
Hann, eða hún, hefur hins vegar greinilega haft aðgang að bókum, ferðalýsingum með myndum og landakortum frá 17. og 18. öld, jafnvel útgáfur af falsriti Ditmar Blefkens um Ísland: Sheeps-togt Ysland en Groenland gedaan door Dithmar Blefkenius in ´t Jaar 1563. Leyden 1706.
Mynd af Heklu (við sjóinn). Berið saman við sumar af myndunum 24, sem ég hef gefið númerin 1 og 8 hér að ofan. Myndina er að finna í hollenskri útgáfu (frá 1706) af riti þýska lygamarðarins Didthmars Blefkeníusar (Blefken), (sem upphaflega kom út árið 1609) um ferð til Íslands sem hann sagðist hafa farið árið 1563. Myndin er frá byrjun 18. aldar. Það rit taka menn enn nærri sér á Íslandi, enda allt í því lygar og uppspuni. Arngrími lærða og öðrum tókst ekki almennilega að andmæla ruglinu í Blefken og því var rit Blefkens að koma út allt fram á 18. öld, og greinilega tóku margir það trúanlega, nema Íslendingar, sem vissu náttúrulega betur.
Ætli málarinn hafi ekki einnig orðið fyrir áhrifum af landakorti Olaus Magnusar af Íslandi og bók hans Historia de Gentibus Septentrialibus sem i fyrsta sinn kom út árið 1555, þegar hann málaði þríhnjúkana í málverkunum númer 4, 5 og 6 hér að ofan? Hjá Olaus Magnúsi er einmitt hægt að sá fjöllin Heklu, Mons Crucis (Krossfjall) og eitthvert þriðja fjall teiknað á svipaðan hátt.
"Listamaðurinn" sem málaði verkin 24 hefur síðan látið ímyndunaraflið sjá um afganginn í ævintýraheimi hugsýnar sinnar. Mikið er af strýtumynduðum fjöllum og einkennilegum nöfnum eins og fjallinu Rauðamel (sjá efst í færslunni) og "Sukkertopperne". Nafnið Sukkertoppen þekkjum við einnig frá fjalli á Grænlandi, sem reyndar svipar nokkuð til sykurstrýtu.
Málverk þessi geta vart skilgreinst sem "fínlist", en eiga miklu frekar heima í flokknum curiosa, þótt greinilegt sé þó að listamaðurinn sé skólaður. Þau minna mest á verk leiklistatjaldsmálara eða þeirra sem máluðu myndir á alþýðuhúsgögn. Þetta eru fantasíulandslög, sem voru ekki óþekkt fyrirbæri frá og með 17. öld og jafnvel fyrr í evrópskri list.
Fangamark Kristjáns konungs sjöunda
Aftan á einu málverkanna er samkvæmt Ólafi Inga stimpill (öllu heldur brennimark) með fangamarki Kristjáns sjöunda Danakonungs. En ætli Kristján Konungur, sem var geðsjúkur og hugsanlega geðklofi, hafi átt þessar myndir á einhverju stigi? Hann var við völd frá 1766 til 1808, og var frægastur fyrir að flakka á milli öldurhúsa Kaupmannahafnar í fylgd þýskrar portkonu sem kölluð var stígvélaða Katrín, ef hann var ekki að giftast 16 ára gamalli frænku sinni til að fullkomna skyldleikaræktina. Kristján Konungur VII, eins ruglaður og hann var, hafði ekki mikinn áhuga á fögrum listum og menningu og safnaði ekki málverkum. En nú hef ég ekki séð þetta fangamark konungs, svo ég veit ekki hvort um hann er að ræða. Stendur ekki frekar OT (Otto Thott)? Otto Thott merkti reyndar ekki bækur sínar með fangamarki (monogrammi) en hann merkti myndir sínar. En ef fangamarkið er í raun Kristjáns 7. er það kannski dágóð vísbending um að myndirnar séu í raun frá hans tíma, en þó ekki óyggjandi sönnun þess.
Skip, fánar og bókstafir
Hér skal upp talið sitt lítið af hverju af því sem ég tel útiloka að myndirnar 24 séu málaðar í Hollandi í lok 17. aldar.
Nokkrar myndanna sýna skip og báta. Þar má m.a. greina skip þau sem kallast heokers (húkkertur), sem Hollendingar hönnuðu fyrst og þróuðu í lok 17. aldar, en sem ekki urðu algengar fyrr en á 18. öld, og voru notaðar í mjög mörgum gerðum og stærðum fram á þá 19. Ekki tel ég líklegt að málari í Hollandi hafi málað 18. aldar skip á 17. öld. Á málverkunum í Listasafni Íslands má sjá mismunandi húkkertur, 1-3 mastra.
Yslandsvarder, Íslandsfar, húkkerta. Koparstungan sem var gerð af G. Groenewegen árið 1789 (G. Groenewegen, Verzameling van Vier en Tachtig Stuks Hollandsche Schepen, Rotterdam 1789).
Tvímöstruð húkkerta. Sjómennirnir um borð eru málaðir óþarflega stórir.
Einmmöstruð húkkerta
Textinn, sem málaður hefur verið á myndirnar í hægri hornin efst, er ekki hollenska heldur danska og hann er ekki ritaður með stafagerð sem notuð var á 17. öld. Gæti það verið vegna þess að upplýsingarnar hafi verið málaðar á síðar en málverkin voru máluð?
Ég tel þó líklegra að þessar myndir hafi verið merktar um leið og þær voru málaðar. Lorentzen, sá er skráði þær árið 1785, er ekki í vafa er hann kallar þær Vuer fra Island. Hann gat lesið að myndirnar væru frá Íslandi. Textinn er skrifaður með 18. aldar skrift á dönsku. Ef myndirnar eru frá 17. öld, líkt og Ólafur Ingi heldur, og áletranirnar eru málaðar á síðari hluta 18. aldar, þá er spurningin, hver hafi getað gefið upplýsingar um nöfn íslenska jökla, fjöll og t.d. Almannagjá á 18. öld fyrir ómerktar myndir frá 17. öld?
Fánar á skipum eru heldur ekki hollenskir, svo sýnilegt sé, en sjaldan hef ég séð málverk hollensk af skipum frá 17. öld, þar sem hollenski þríliti fáninn er ekki við hún. Hollendingar voru jafn stoltir af konungsfána sínum þá, eins og þeir eru af Oraníufánanum í dag á knattspyrnuvellinum, sem og hinum forljóta ESB-fána, en áhuginn á ESB fánanum er þó farinn að dala nokkuð eins og skiljanlegt er.
Eins vekur athygli, að sá sem málað hefur myndirnar 24, hefur ekki málað eitt einasta tré eða hríslu (nokkrar hríslur eru á þrítindunum á mynd 4 og á ás fyrir ofan húsið á mynd 9 hér að ofan). Það útilokar að mínu mati erlendan mann sem komið hefur til Íslands, og sérstaklega Hollending, sem aldrei hefur komið til Íslands.
Uppruninn
Mér þykir, meðal annars vegna ofangreindra raka, ólíklegt að málverkin séu hollensk frekar en t.d. dönsk og gef lítið í einkunn fyrir þær tilhæfulausu yfirlýsingar um list Dana á 17. og 18. öld sem Ólafur kom með í útvarpsviðtalinu
En þegar á 17. öld stunduðu þekktir hollenskir málarar, sem og málarar í öðrum löndum, reyndar margir þá list að mála landslag og staði sem þeir höfðu aldregi augum borið. Til gamans má nefna sem dæmi málarann Cornelis de Man (1621-1706) frá Delft, sem árið 1639 málaði gífurlega áhugavert málverk af hvalveiðistöð í íshafinu, Een Nederlandse trankokerij in de Noordliijke Ijssee, sem í dag hangir á Rijksmuseum í Amsterdam. Málverkið á að sýna hvalveiðistöð hollenska hvalveiðasambandsins Noordse Compagnie (sem starfaði 1614-1648) á Smeerenburg á Spitzbergen, og sýnir í senn hvalveiðar, hvalskurð, lýsisbrennslu og lýsiskaupmenn. Fjallasýnina á Smeerenburgh á Spitzbergen er þó ekki hægt að þekkja á myndinni, en eldfjallinu Beerenberg á Jan Mayen hefur verið komið fyrir í í ýktri stærð bakgrunninum, en fjallið lítur svona út á myndinni.
Beerenbergh Willem Bleaus á Jan Mayen setti Kornelis de Man í bakgrunn myndar sem sýna átti Smeerenburg á Spitzbergen. Berið fjallið saman við fjallið sem Jan Bleau kortagerðamaðurteiknaði áratugi fyrr.
Allt á mynd Cornelis de Man er málað eftir fyrirmyndum, nálastungum og tréristum annarra og t.d. landakorti Willems Bleaus af Jan Mayen frá 1620-30, en allt annað á málverki de Mans byggir á góðu ímyndunarafli hans og ef til vill upplýsingum sem hann hefur fengið frá hvalveiðimönnum og lýsisbræðslukörlum. De Man kom nefnilega aldrei til Jan Mayens og það sem hann málaði var hvorki Spitzbergen né Jan Mayen, en samt dálítið að hvoru. Sama á ugglaust við um myndirnar af Íslandi sem gefnar voru Listasafni Íslands árið 1928. Þær eru eins og áður segir ekki málaðar af neinum meistara, en höfundur hefur haft hliðsjón af eldra myndefni úr ferðalýsingum og af kortum Willem Bleaus og Abrahams Orteliusar og jafnvel ristum úr bók Olaus Magnusar um þjóðir norðursins frá 1555 og Íslandskorti hans frá 1539.
En eins og áður greinir tel ég þó ekki að leita þurfi uppruna myndanna í Hollandi á 17. öld.
*
Í öðrum hluta þessarar greinar, (sem birtist brátt), set ég fram tilgátu mína um hver hafi málað myndirnar 24, sem upphaflega voru 32. Sú færsla fjallar um að menn geti stundum þurft að líta sér aðeins nær.
Gamlar myndir frá Íslandi | Breytt 3.9.2019 kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hverasoðning
3.2.2012 | 13:16
Í gömlum, erlendum ferðabókum sem fjalla um Ísland að öllu eða einhverju leyti, hefur mátt finna skemmtilegar myndir af nokkuð sérstæðri matreiðslu sem menn stunduðu á Íslandi á 17. og 18. öld.
Árið 1720 komu út frásagnir hollenska kapteinsins Gornelis Gijsbertsz. Zorgdragers, ritaðar af Abraham Moubach, sem mest fjallaði um hvalveiðar og Grænlandútgerð Hollendinga. Zorgdrager kom við á Íslandi árið 1699 og hitti þar danskan kaupmann á Goswijk, sem er hollensk hljóðritun á Húsavík. Kaupmaðurinn sagði hollensku ferðalögnunum frá goshver, líklega við Námaskarð. Þangað fóru Hollendingarnir. Eins og gengur á ferðalögum urðu þeir svangir. Bundu þeir kindalæri í snæri og suðu í hvernum. Í bókinni er koparstunga sem sýnir þessa matreiðslu Zorgdragers og félaga. Zorgdrager sagði síðan Abraham Moubach, að hann hafi haldið til haga vel soðnu stykki af kjötinu og farið með það á nærliggjandi sveitabæ eða kofa og hafi fengið þar mjólk að drekka, en annars hefði menn hans drukkið kælt vatnið úr hvernum. Koparstungan í bók Zorgdragers er greinilega ekki gerð af listamanni sem hafði verið í för með Zorgdrager.
Önnur mynd af svipuðum toga birtist í bresku riti sem fyrst kom út árið 1802 í London. Bókin ber heitið Geography illustrated on A Popular Plan; for the Use of Schools and Young Persons, sýnir The boiling Springs af GIESAR with a distant View of Mount HEELA. Koparstungan sýnir Íslendinga á eins konar lautarferð við við Geysi í Haukadal, og er fólkið að sjóða eitthvað í katli yfir vellandi hver. Einn karlmaður á myndinni heldur á fiski og Geysir og Hekla gjósa sínu fegursta í bakgrunninum. Bókin þar sem myndin birtist er eftir Sir Richard Phillipseða séra J. Goldsmith, sem var eitt af fjöllmörgum höfundnöfnum Phillips sem var mjög öflugur í útgáfustarfssemi og stjórnmálum á fyrri hluta 19. aldar.
Ekki er mér kunnugt um hvaðan Philips hefur náð í myndina, eða hvort hún hafi verið teiknuð sérstaklega fyrir þessa landafræði hans, en mig grunar að hluti af henni hafi verið fengin "að láni" úr fyrsta bindi bókar síra John Trusler, The Habitable World Descirbed; Or the Present State of the People in all Parts of the Globe, from North to South: Showing The Situation, Extent, Climate, Productions, Animals, &c. of the different Kingdoms and States; Including all the new Discoveries: etc. & etc. Part I., London 1788. Þar birtist mynd in hér fyrir neðan, og hef ég fjallað um hana áður:
Ítarefni:
ZORGDRAGER, CORNELLIS GIJSBERTSZ. 1720: Bloeijende opkomst der aloude en hedendaagsche groenlandsche visschery. War in met eene geoeffende ervaarenheit de geheele omslag deezer visschery beschreeven, en wat daar in dient waargenomen, naaukeurig verhandelt wordt. Uitgebreid met eene korte historische beschryving der Noordere gewesten, woornamentlyk Groenlandt, Yslandt, Spitsbergen, Nova Zembla, Jan Mayen Eilandt, de Straat Davis, en al `t aanmerklykste in de ontdekking deezer landen, en in de visschery voorgevallen. Met byvoeging van de walvischvangst, in haare hoedanigheden, behandelingen, `t scheepsleeven en gedrag beschouwt. Door Abraham Moubach.
Hægt er að lesa bókina hér
Ég sé að enn er hægt er að kaupa bókina (aðra útgáfu á hollensku frá 1727) á 30.000 norskar á fornbókasölu í Osló - og þýska útgáfu frá 1723 á 50.000 danskar krónur ef einhver hefur áhuga.
Hér má lesa um athafnamanninn, Sir Richard Phillips, sem m.a. var Sheriff í London
Gamlar myndir frá Íslandi | Breytt 4.2.2012 kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)