Færsluflokkur: Fornsögur
Var Mökkurkálfi Snorra Sturlusonar skyldur gólem gyðinga?
25.4.2015 | 18:04
Fornleifur er hálfgjört nátttröll, og einn af þessum körlum sem er kominn á þann aldur er þeir telja sig nær alvitra og þurfi því ekki að hlusta á sér yngra fólk, og þaðan að síður að hafa áhuga á því sem það er að gera í fræðunum.
Þótt Leifur sé oft afar þurr á manninn og algjör sleggja þegar kemur að gangrýni á augljósa vit og rökleysu, þá hefur hann gaman að því að kynna sér hvað ungviðið skrifar og hugsar, þó það sé sjaldnast af nokkru viti. Ungviðinu hefur auðvitað alls ekki farið aftur. Það hefur miklu meiri möguleika en við sem erum handan við 50 ára múrinn höfðum á þeirra aldri. En ævintýramennska í fræðunum er greinilega aftur komin í tísku.
Einn af þeim ungu fræðimönnum sem vinna með fornan íslenskan menningararf er Richard Cole. Ritverk hans hef ég skrifað um áður (sjá hér). Þetta er greinilega upprennandi fræðimaður. Mér þykir mjög gaman að lesa það sem Richard Cole skrifar. Hann skrifar vel og á fallegri ensku, og er jafnframt stútfullur af nýjum hugmyndum sem engum, eða fáum, hefur dottið í hug að tengja saman vegna íhaldssemi í fræðunum. Á ég þar fyrst og fremst við íslenska sérfræðinga í rituðum arfi þjóðarinnar, sem alltaf virðast vera að skrifa um það sama. Er hugsandi að ekki sé hægt að mjólka meira úr júgrum hins ritaða þjóðararfs?
Um daginn fékk ég pata af þremur nýjum fræðigreinum eftir Cole, þar sem ég fylgist með fræðimennsku hans á Academia.edu
Ég hef nærlesið eina af hinum nýju greinum Coles sem hann kallar The French Connection, or Þórr versus the Golem og hana má lesa hér. Fjallar greinin um hugsanleg tengsl frásagna af Mökkurkálfa í Snorra Eddu við fyrirbærið golem (hér kallaður gólem) í Gyðingdómi:
Þannig er Mökkurkálfa lýst í Eddu:
"Þá gerðu jötnar mann á Grjóttúnagörðum af leiri, ok var hann níu rasta hár, en þriggja breiðr undir hönd, en ekki fengu þeir hjarta svá mikit, at honum sómði, fyrr en þeir tóku úr meri nökkurri, ok varð honum þar eigi stöðugt, þá er Þórr kom... Á aðra hlið [jötunsins Hrungnis] stóð leirjötunninn, er nefndr er Mökkurkálfi, ok var hann allhræddr. Svá er sagt, at hann meig, er hann sá Þór."
Richard Cole gerir því einnig skóna, að trémaður sá sem er lífgaður með mannshjarta og sendur til að drepa vandræðaskáld í Þorleifs þætti Jarlsskálds, sé einnig undir einhvers konar áhrifum frá gólemasögu gyðinga, eða réttara sagt úr sagnaheimi gyðinga.
"En nú er þar til að taka er Hákon jarl er, að honum batnaði hins mesta meinlætis en það segja sumir menn að hann yrði aldrei samur maður og áður og vildi jarl nú gjarna hefna Þorleifi þessar smánar ef hann gæti, heitir nú á fulltrúa sína, Þorgerði Hörgabrúði og Irpu systur hennar, að reka þann galdur út til Íslands að Þorleifi ynni að fullu og færir þeim miklar fórnir og gekk til fréttar. En er hann fékk þá frétt er honum líkaði lét hann taka einn rekabút og gera úr trémann og með fjölkynngi og atkvæðum jarls en tröllskap og fítonsanda þeirra systra lét hann drepa einn mann og taka úr hjartað og láta í þennan trémann og færðu síðan í föt og gáfu nafn og kölluðu Þorgarð og mögnuðu hann með svo miklum fjandans krafti að hann gekk og mælti við menn, komu honum síðan í skip og sendu hann út til Íslands þess erindis að drepa Þorleif jarlaskáld. Gyrti Hákon hann atgeir þeim er hann hafði tekið úr hofi þeirra systra og Hörgi hafði átt."
Margt er mjög áhugavert í grein Coles, en Cole segir hins vegar ekki nægilega vel þróunarsögu gólemsins i sagnaheimi gyðinga. Ýmsu er þar ábótavant. Tilgátan stendur á leirfótum.
Orðið golem (ft. golomim) kemur afar sjaldan fyrir í helgum ritum gyðinga. Í Sálmunum (139:16), kemur orðið galmi, (þ.e. góleminn minn) fyrir og er þýtt sem ómyndað efni;
Augu þín sáu mig,er ég enn var ómyndað efni,
ævidagar voru ákveðnir
og allir skráðir í bók þína,
áður en nokkur þeirra var til orðinn
Í Sálmunum er vitaskuld ekki verið að skrifa um leirrisa miðalda. Í Mishnah, munnlegum arfi Gyðingdóms kemur orðið fyrir sem skilgreining á ósiðmenntaðri persónu. Í nútíma hebresku (Ivrit) er orðið einnig notað um fólk sem er illa gefið eða hjálpalaust og í jiddísku er orðið goylem notað um fólk sem er klunnalegt, illa gefið og seint til skilning, sbr. orðið "vanskapaður" sem lengi var notað í Íslensku. Orðið kemur fyrir í Talmud, (Talmud eru skýringar og frásagnir byggðar á Torah, lögunum (Mósebókunum), nánar tiltekið í hinum babýlonska Talmud (Bavli). Í Talmud er orðið notað til að lýsa því að Adam hennar Evu var upphaflega verið skapaður af guði sem gólem (sjá Sanhedrin (þingi) 38b í Talmud Bavli (hér á ensku): Adam var hnoðaður saman í formlaust hýði og var hann myndaður úr leir eða mold.
Samkunduhúsið í Worms áður en nasistar eyðilögðu byggingarnar. Elsti hluti þeirra var frá 11. öld. Þarna veltu menn fyrir sér gólemum, en ekki til þess að búa þá til, heldur til að sýna fram á tilgangsleysi þess, þar sem slík sköpunarverk voru vanskapnaður og ekki Guðið þóknanlegur.
900 ára Guðshús rústir einar eftir eyðileggingu nasista. Trúleysið er systir eyðileggingarinnar.
Sumir fræðimenn telja að á miðöldum Evrópu hafi brot úr sköpunarsögunni Sefer Yetzirah í hinum babýlónska Talmud verið þaullesin af gyðingum til að reyna að skapa sér gólem. En það er þó algjörlega ósönnuð tilgáta, sem byggir á frásögum sem eru skráðar löngu eftir miðaldir! Það er ekki fyrr en á 12. öld e. Kr. að fróðir menn telja, að eiginleg lýsing á því hvernig hægt er að búa sér til eða vekja upp gólem hafi verið sett á bókfell. En galli er á gjöf Njarðar, ef svo má að orði komast. Þá lýsingu er að finna í fyrsta hluta Sodei Rezyya (einnig kallað Sode Raza, Sefer Sode raze semukhim eða Sefer Sode razaya), sem kallaður var Sod Ma'aseh Bereshit (þ.e. leyndardómar sköpunarinnar). Það rit var sagt vera eftir rabbí Eleazar ben Judah ben Kalonymus (11651230) í Worms í Þýskalandi. En vandamálið er aftur á móti, að fráögn hans og ritið Sode Raza þekkist aðeins úr bókinni Sefer Razi'el ha-Gadol (Bók hins stóra [erkiengils] Raziels [Raziel þýðir leyndardómar Guðs]) sem fyrst kom út í Amsterdam árið 1701 (sjá hér). Segir útgefandi þess rits, að hann hafi lesið rit rabbí Eleazars frá Worms í frönsku riti sem hann kallar Images des Lettres de l'Alphabet, sem er hins vegar ekki til á okkar tímum - og hefur ugglaust aldrei verið til.
Í Þýskalandi og Mið-Evrópu á 17. öld fer að bera mjög á lýsingum á rabbínum sem skópu gólem, en elsta lýsingin sem til er af manni sem á að hafa framið slíkan verknað er þó ekki til frá því fyrr en um miðja 16. öld, er rabbíni og mikill kabbalisti og dulspekimeistari, Eliyahu Ba'al Shem (1550-1583) í Chelm (bæ suðaustur af Lublin í Póllandi nútímans) mun hafa reynt fyrir sér í þeim efnum.
Cole gleymir því miður að nefna Elías í Chelm, og sömuleiðis að aðeins eru sárafáar upplýsingar til um gólema og sköpun manna á gólemum frá því að orðið gólem er ritað í elstu ritum gyðingdóms fram á miðaldir í Þýskalandi.
Cole gleymir einnig að draga inn ákvæði Avodah Zarah samningsins í Talmud. Samningurinn fjallar um skurðgoðadýrkun (Avodah Zarah þýðir bókstaflega útlensk eða framandi dýrkun, þ.e. dýrkun hjáguða eða og skurðgoðadýrkun). Sköpun/gerð gólema er skýlaust brot á Avodah Zarah.
Læknirinn, heimspekingurinn, skáldið og rabbíinn Rambam (sem er skammstöfun á Rabbeinu Moshe Ben Maimon, þ.e. rabbí Móses Maimonsson; Hann er einnig kallaður ), sem upp var á 12. og 13. öld (1137-1204), skrifaði í einu rita sinna Moreh Nevukhim (sem þýðist best sem Leiðbeiningar fyrir ráðalausa; Hér er hægt er að skoða handrit frá 14. öld af þessu riti sem skrifað var í Barcelona og sem er varðveitt í Kaupmannahöfn) um Avodah Zarah. Rambam er mjög gagnrýninn á alls kyns skurðgoðadýrkun, helgimyndir og notkun þeirra í gyðingdómi.
Maimonides er að minna lesendur sína og samtímamenn á ákvæði Aodah Zarah og virðist jafnvel undir áhrifum frá Íslam í algjörri andúð sinni á skurðgoðadýrkun (sem við sjáum enn á okkar dögum í úrkynjuðu formi þegar ISIS brýtur og sprengir goð annarra trúarbragða), eða þegar Þorgeir Ljósvetningagoði kastaði í fossinn. Þess vegna kemur spánskt fyrir sjónir, þegar Rambam kemur fyrir í rituðum heimildum í miðöldum í Mið-Evrópu, þar sem því er haldið fram að hann hafi búið til svo kallaða humunculi (smákarla) úr leir. Þarna er örugglega um misskilning 17. aldar manna, því ekkert slíkt hefur Rambam skrifað um eða látið eftir sig. En við vitum hins vegar, að múslímskir heimspekingar og læknar og alkemistar veltu fyrir sér möguleikanum á því að skapa líf á ónáttúrulegan hátt, t.d. í glerflösku. Hindurvitni 17. aldar spurðu ekki af heimildarýni. Sögur hjátrúarfullra gyðinga í Póllandi og Þýskalandi á 17. öld um kukl Rambams eru líklega ekkert annað en svar þeirra við mjög strangri afstöðu hins stóra rabbína til skurðgoðadýrkunar, sem "helgir" menn meðal gyðinga í Miðevrópu voru greinilega farnir að stunda á miðöldum.
Hér skal einnig nefndur til sögunnar sefardíski rabbíninn, heimsspekingurinn, stjarnfræðingurinn, stærðfræðingurinn og tónlistafræðingurinn Jósef Solomo Qandia Delmedigo, einnig kallaður Joseph Salomo Del Medigo (1591-1655). Hann fæddist a eyjunni fögru Krít (ég hef eitt sinn skrifað litla grein þar sem honum bregður fyrir). Hann var m.a. læknir í Vilnu (Vilnius), rabbíni í Prag, Amsterdam, Hamborg og Glückstadt, þar sem Hallgrímur Pétursson dvaldist nokkrum árum síðar (sjá hér), Frankfurt am Main og í Prag, þar sem Del Medigo lést. Hann lærði stjarnfræði hjá Galileo di Galilei í Padua og lærði einnig við háskóla í Kaíró og Istambul. Í ritum sínum greini Jósef Del Medigo aldrei frá neinni gólem-hefð í sefardískum gyðingdómi, en nefnir í ritgerð sem varðveist hefur, hvernig sögur af gólemum séu algengar í Þýskalandi á hans dögum.
Richard Cole nefnir ekki Jósef Delmedigo í grein sinni, og þykir mér það furðu sæta. Delmedigo sýnir okkur nefnilega að gólemar, sem leirrisar, eru líklega sköpunarverk rabbína í Þýskalandi á miðöldum. Margt gæti frekar bent til þess að góleminn, leirrisi sá sem Cole er að hugsa um sem "ættingja" Mökkurkálfs, hafi í raun fyrst orðið til á miðöldum og eigi sér enga stoð eða uppruna í elstu ritum, bókum eða lögum gyðingdóms. Við getum með góðri ástæðu leyft okkur að leika með þá hugmynd, að þegar gyðingar á miðöldum voru spurðir um hvað orðið gólem þýddi, þá hafi þeim verið svara vant, en svo leitað til germanskra og slavneskra ævintýra um leir- og drullukarla til að skýra betur hið dularfulla fyrirbæri gólem.
Ekki ætla ég þó alveg að útiloka að einhverjar sögur um miðaldagólem Evrópu hafi borist til Íslands frá Frakklandi eins og Cole vill halda, en þá hefði hann átt að segja lesendum sínum betur frá sögu gólema og t.d. að trékarlinn í Þorleifs þætti Jarlsskálds, (sem er varðveitt elst frá byrjun 14. aldar), sem einhver hefur gaukað að honum upplýsingum um. Trékarlinn var ekki kvenkyns vera eins og það fyrirbæri sem Cole segir skáldið Salomon Ibn Gabirol (réttu nafni Shelomo [Salomon] ben Yehuda ibn Gabirol) hafi skapað. Sagan af Ibn Gabirol sem skapaði kvenkyns veru er heldur ekki frá tímum Gabirols sjálfs, þ.e. fyrri hluta 11. aldar, heldur er það miklu seinni heimild sem orðið hafa til í Ashkenaz (Þýskalandi). Það er því afar ólíklegt að þeir Norðmenn sem voru við nám í St. Victor skólanum í París, og sem hugsanlega þekktu til verka og ljóða Ibn Gabirols á 13. öld hafi heyrt um gyðinglega sögur af manngerðum leirrisum, og hafi síðan sagt forvitnum forföður mínum, Snorra Sturlusyni, frá þeim, sem svo bjó til úr sögunni Mökkurkálfa.
Mig grunar, að Cole verði að leggja aðeins betri rækt á tímasetningar og upprunaleika heimilda, sem og að reyna ekki að blanda saman sögulegum viðburðum og þjóðsögum frá mismunandi tímum án þess að hægt sé að sýna fram á bein tengsl þeirra. Það er nær ómögulegt, að álykta að Snorri Sturluson hafi heyrt af gólem/mökkurrisum hjá mönnum í Noregi sem lærðu við St. Victorsskóla. Við vitum ekki hvort heimildir um gólem-gerð hafi verið til í St. Victor. Bók Eleazars ben Judah, sem nefnir einn slíkan, er aðeins til í handriti frá 1701. Og þó ibn Gabirol hafi verið þekktur meðal lærðra í París á 12. og 13. öld, er ekkert sem sýnir fram á franskir klerkar hafi verið að velta fyrir sér leirkarla eða drullukökugerð. Því miður, merde, eins og Frakkar segja!!
Ég held að við ættum ekki að leggja of mikið í þekkingu manna á Íslandi á Gyðingdómi á 12. og 13. öld. og allra síst að fara út í miklar vangaveltur a la Einar Pálsson eða í líkingu við Keltaþvaðrið sem tröllríður einnig fræðunum. Það er svo langsótt. Maðurinn fékk oft sömu hugmyndirnar á mismunandi stöðum á jörðinni, án þess að nokkur tengsl séu sjáanleg. Það geta mannfræðingar og þjóðfræðingar frætt ykkur betur um en ég. Ég er bara fornleifatröll. Tröll voru t.d. víða til. Menn geta notað mikinn tíma til að finna einhver tengsl. En þegar Mökkurkálfi og spýtukarl eru heimfærðir á gólem verða menn að vera mjög vel að sér í gyðingdómi og sagnaheimi gyðinga, og finna sér mun fróðari rabbína sér til aðstoðar en Cole hefur fundið.
Ég kaupi því alls ekki tilgátu Richards Coles í grein hans The French Connection, or Þórr versus the Golem, þó hún sé mjög áhugaverð og vissulega skemmtileg. En hún stendur á leirfótum.
Hér býður Fornleifur að lokum í bíó. Myndin sem sýnd verður er Der Golem, wie er in die Welt kam, sem var gerð árið 1920 af Paul Wegener og Carl Boese; Lék Wegener sjálfur góleminn. Wegener gerði einnig Gólemmynd árið 1914 sem frumflutt var árið 1915. Sú kvikmynd er að mestu týnd, en hér má finna brot úr henni.
Fornsögur | Breytt 28.12.2020 kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú er hún Snorralaug jacuzzi
17.3.2015 | 13:57
Ég frétti í gær af prófessor einum í germönskum fræðum í Kaliforníu, sem bauð dönskum sagnfræðingi í heita pottinn við heimili sitt í Kaliforníu, eftir að hann hafð dílað við Danann um þýðingarátak. Danski sagnfræðingurinn, sem á heimili bæði í Danmörku og í BNA, hafði leiðrétt bandaríska prófessorinn lítillega á ráðstefnu og það þótti prófessornum hið besta mál og bauð Dananum að þýða bók sína nýútkomna yfir á dönsku, og bauð honum höfundalaun sín í Danmörku fyrir vinnuna.
Daninn hugsaði málið og tók svo tilboðinu. Hann sat sumarlangt og þýddi bókina, og þegar hann afhenti þýðinguna var bandaríski prófessorinn allt í einu farinn að tala um hálf höfundarlaun. Daninn hafði ekki haft rænu á því að gera skrifalegan samning við bandaríska prófessorinn og var miður sín yfir refshætti prófsa.
Danski sagnfræðinginn, kom í gær til mín í kaffi, því ekki hef ég neina Snorralaug með vindverkjum heima hjá mér, þar sem ég get boðið mönnum í soðningu líkt og bandaríski prófessorinn. Ég spurði danska sagnfræðinginn, hvaða forlag hefði gefið bókina út, því flest dönsk forlög gefa lítil laun eða engin í höfundarlaun, nema að maður sé því frægari höfundur. Danski sagnfræðingurinn nefndi forlagið og ég hváði og varð kjaftstopp, því forlag það sem hann nefndi, sem ekki er lengur til, borgaði aldrei nein höfundarlaun svo heitið getur, en gaf hins vegar út fræðirit sem stór forlög í Danmörku vildu ekki gefa út.
Snuðaður í heita pottinum
Daninn fékk ekkert fyrir sinn snúð og margra mánaða vinnu. Jacuzziförin var bara prump í bala. Bókin kom svo út á dönsku árið 1999, en þá var þýðandinn á titilsíðu sagður allt annar maður en danski sagnfræðingurinn. Daninn sá aldrei krónu eða mosagrænan dal.
Ég tel víst, að bandaríski prófessorinn hafi mætavel vitað að hann myndi ekki fá höfundarlaun í Danmörku. Forlagið sem bók hans var gefin út hjá, þekki ég af eigin reynslu, sem ritstjóri ársrits gyðinga sem gefið var út um tíma af því forlagi. Prófessorinn, vel vitandi að forlagið borgaði ekki höfundarlaun, lokkaði mann til að þýða bók sína og þýðingin birtist svo undir öðru nafni en þess manns sem þýddi meginþorra bókarinnar. Síðar upplýsti prófessorinn hinn rétta þýðanda sem hlunnfarinn var, að hann hefði sjálfur ekki fengið nein höfundarlaun í Danmörku.
Ég hefði örugglega skitið í heitan pott ameríska prófessorsins (sem nú er orðinn íslenskur borgari), eða eitthvað mun verra, hefði ég verið snuðaður á þennan ógeðfellda hátt.
Saga þessi varðar vissulega líka fornleifafræðinga á Íslandi. Munið alltaf að fá allt skriflega. Skjall prófessora er ekki neins virði nema að það komi á löggildum pappír. Þannig eru lögin líka stunduð í BNA.
Þetta jacuzzi er ekki kosher
og reyndar heldur ekki það sem sést á myndinni efst.
Fornsögur | Breytt 7.12.2022 kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rennur ítalskt blóð í æðum Grýlu?
17.12.2014 | 07:58
Hún er sig svo ófríð
að höfuðin ber hún þrjú,
þó er ekkert minna
en á miðaldra kú.
Þó svo að Grýla okkar hafi aldrei verið rómuð fyrir andlegan eða líkamlega fríðleika og séra Stefán Ólafsson í Vallanesi hafi m.a. lýst henni sem óvætti með þrjú höfuð og ýmsar aðrar lýtir á 17. öld, grunar Gvend að Grýla eigi lítið annað að sækja til tröllkonunnar Grýlu sem Snorri Sturluson lýsir á 12. öld, en sjálft nafnið.
Ég hef lengi velt því fyrir mér, hvort Grýla eigi ekki frekar ættir að rekja til Ítalíu og sé engin önnur en La Befana, jólakerling þeirra Ítala og margra annarra.
La Befana var samkvæmt þjóðsögunni kona sem fékk Vitringana þrjá í heimsókn nokkrum dögum fyrir fæðingu Jesúbarnsins. Vitringarnir báðu hana að vísa sér til vegar svo þeir gætu fundið Guðs son. Þeir hefðu séð stjörnu eina mjög bjarta á himni. Hún sagðist ekki vita hvar Jesúbarnið væri að finna. Þeir voru þreyttir svo hún leyfði þeim að gista eina nótt. Daginn eftir buðu Vitringarnir henni að slást í för með sér, en hún afþakkaði boðið með þeirri röksemd að hún hefði allt of mikið að gera, sér í lagi við húsverkin, alls kyns tiltektir og sópun. Síðar sá la Befana sárlega eftir þessari ákvörðun sinni og hóf að leita uppi vitringana og Jesús. Hún fann þá ekki og leitar þeirra enn þann dag í dag. Hvar sem hún fer gefur hún góðum og þægum börnum leikföng og karamellur, eða ávexti, meðan óþægu börnin fá aðeins kol í sokkinn, eða jafnvel lauk eða hvítlauk...og sum fá að kenna á vendinum.
Grýla Ítalíu líkist greinilega á margan hátt sonum sínum. Hún gefur kol í sokkinn, meðan Grýla sigar Jólakettinum á óþekk börn. Þessi fékk hvítlauk og aftur hvítlauk þegar hann var ungur.
Önnur þjóðsagan lýsir Befönu sem móður er missti drengbarn sem hún elskaði mjög hátt. Befana varð vitstola við barnsmissinn. Er hún heyrði að Jesús var í heiminn kominn, lagði hún land undir fót til að finna hann, í þeirri trú að hann væri sonur sinn. Loks fann hún Jesús og færði honum gjöf. Jesúbarnið á í staðinn hafa gefið La Befana gjöf og gerði hana að "móður" allra barna á Ítalíu.
Enn önnur sagan segir að la Befana hafi rekið vitringana þrjá á dyr, því hún var svo upptekin við að sópa og snurfusa. Hún var skapstór. Síðar uppgötvaði hún mikið stjörnuskyn á himni og lagði þá land undir fót til að leita Jesúbarnsins með sætabrauð og aðrar gjafir handa því. Hún tók einnig kústinn með til að hjálpa Maríu mey við hreingerningarnar. Hún fann þó aldrei Jesús og er enn að leita hans, og þess vegna gefur hún börnum enn gjafir í þeirri von að hún hafi fundið Jesúbarnið, vegna þess að Jesúsbarnið er að finna í sálum allra barna, eða þangað til fólk með einkarétt á sannleikann bannar þeim það og kallar það siðmennt.
La Befana
Enn ein sagan segir að la Befana ferðist um á vendi sínum og flengi alla með vendinum sem hana sjá á flugi, þar sem henni er ekki um gefið um að fólk og börn uppgötvaði að húni komi klofvega til byggða á kústinum.
Befana kemur til byggða fyrir Þrettándinn (6. janúar) sem var eins og allir vita opinber fæðingardagur Krists allt fram á 6. öld. Dagurinn er á Ítalíu einnig kallaður Festa della Befana. Þrettándinn, síðasti dagur jóla, hefur fangið gamalt grískt heiti hátíðar Epiphania og tengdist síðar Vitringunum þremur sem mættu í fjárhúsið í Betlehem. Kenna sumar þjóðir því enn daginn við Vitringana þrjá (sbr. Helligtrekonger í Danmörku og Driekoningen í Hollandi).
Af Epiphania er nafn Befönu dregið. Eldri mynd nafns hennar var Pefania.
Befana í heimsókn í bænum Adria nærri Feneyjum. Ekki er laust við að hún hafi tekið með sér karlinn sinn sem er dálítið lúðalegur. Kannski hafa þeir lesið bók Árna Björnssonar um Jólin og tekið upp Il "Leppaludo"?
Margt merkilegt hefur verið skrifað um Befönu, og telja ítalskir sérfræðingar með svipaða menntun og Árni okkar Björnsson, að rekja megi uppruna hennar allt aftur til steinaldar. Minna má það auðvitað ekki vera. Kenndu Ítalir ekki Kínverjum að búa til pasta?
Líkt og Befana, var Grýla okkar dugleg með vöndinn sinn (kústinn) og hún lét köttinn svarta? (kolin sem í dag á atómöld eru gefin með táknrænni lakkrískaramellu í sokkinn) nægja börnum sem höfðu verið óþekk:
Þannig hljóðaði margfræg jólasveinsvísa á Hornströndum á 19. öld
Jólasveinar ganga um gólf
og hafa staf í hendi.
Móðir þeirra sópar gólf
og strýkir þá með vendi.
Skarpan hafa þeir skólann undir hendi.
Ýmsar aðrar gerðir eru til af vísunni (sjá hér og hér), en Grýla er líkt og la Befana iðin við flengingar, hýðingar, tiltektir og sópun. La Befana sópaði samkvæmt þjóðsögunni dagana langa. Ef vitnað er í gamlar vísur um Befönu verður þetta enn augljósara. Befana býr nefnilega einnig í fjöllunum eins og Grýla:
Viene, viene la Befana
Vien dai monti a notte fonda
Come è stanca! la circonda
Neve e gelo e tramontana!
Viene, viene la Befana
Hér kemur, já hér kemur hún Befana
Úr fjöllunum ofan um miðja nátt
Þreytt og öll dúðuð upp, sjáið hana.
Í snjó, hrími og norðanátt!
Hér kemur, já hér kemur hún Befana.
Vitaskuld er margt annað ólíkt með Grýlu og La Befönu. La Befana átti til dæmis ekki jólasveina, en eins og við vitum eignast Ítalir ekki mörg börn. Þannig er það enn.
Auðvitað er ekki allt fundið upp á Íslandi, nema kannski vitleysan. Jólakötturinn er að öllum líkindum heldur ekki íslenskur og örugglega ekki sænskur eins og einn kyndugur kvisturinn í sænsku menningarmafíunni á Íslandi hélt einu sinni fram með jólaglampann í augum í Árbók hins íslenska fornleifafélags.
Uppruni jólasiðanna er líklega margslungnari en menn halda.
Ítalskir karlmenn og einstaka stjórnmálamenn munu víst margir óska sér einhvers í sokkinn frá þessari tötralega klæddu banka-Befönu, en flagð er víst oft undir fögru skinni. Hún ætti að flengja þá ærlega, og sumir hafa víst einmitt óskað sér þess fyrir jólin.
Fornsögur | Breytt 23.12.2021 kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tóti Royal
19.11.2014 | 09:58
Þórarinn Eldjárn Hallmælisskáld hefur nú flutt drápur góðar í höllum Möggu, Halla og Kalla. Hvenær fær Óli Íslandskóngur drápu frá Hallarmæri þessum? Óska ég útgáfu Íslendingasagnanna velgengi, þótt ýmislegt mætti setja út á í þýðingunum.
En ósköp er það neyðarlegt, að þessum útgáfum sé pakkað inn í kassa með mynd af kattarhaus úr norskri konungagröf, sem var tekin löngu áður en Ísland var numið árið 872 give and take. Var virkilega ekki hægt að fá ódýra mynd á Þjóðminja- safninu til að prýða þessa norrænu útgáfu? Þórarinn Royal hefði nú getað reddað því for old time's sake.
Ítarefni:
Fyrra níð mitt um dönsku drápuna til Möggu Tótu og kattarfjandann úr Osebergskipinu.
Fornsögur | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dræplingur og sögur bundnar inn í Oseberg
22.5.2014 | 08:20
Eigi vakti það mikla athygli í Danmörku, er Þórarinn Eldjárn flutti Þórhildi Danadrottningu og fornleifafræðingi dræpling í gær. Drottningu líkaði hins vegar vel og sagði "mange tak skal I ha´", en skildi samt ekki baun í bala.
Þórarinn er líka þekktur fyrir að yrkja níð, og ég tel mig hafa móttekið eitraðar vísur eftir hann sem sem mágur hans sendi á afar nútímalegan máta úr faxvél í Pósthússtræti forðum. Ég skemmti mér mikið yfir því og hef deilt þeirri sögu með lesendum mínum. Ég uppskar níðvísurnar vegna þess að ég var eitt sinn ráðinn að Þjóðminjasafni Íslands, og í fornleifanefnd í stað konu án lokaprófs í fornleifafræði. Faxskáldin vissu greinilega ekki að ég fékk silfurverðlaun Háskólans í Árósi árið 1986, en hafði ekki tíma til að taka við þeim úr höndum Danadrottningar á sal, því ég þurfti að flýta mér í uppgröft á Stöng í Þjórsárdal. Árið 1992, þegar ég fékk ph.d. titil hafði ég heldur ekki tíma til að hitta drottningu þar sem ég var aftur staddur í Þjórsárdal. Ég hef, til að bæta gráu ofan á svart, hafnað þriðja boðinu til að komast í návígi við Margréti Þórhildi, enda sjálfur af konungakyni í báðar ættir.
Nú fær Danadrottning lofkvæði, en er ekki einu sinni með almennilegt próf í fornleifafræði. Þó að drápan hafi ekki verið send henni á faxi, var það óttalegt apparat sem flutti henni kvæðið. Forðum kunnu skáldin þó að flytja kvæði sín með stíl - telja menn.
Eitt sinn var það siður, að konungar og drottningar færðu góðum skáldum gull og jafnvel skip. Þórarinn fékk ekkert slíkt hjá Þórhildi, ekki einu sinni baug úr íslensku silfri sem aldrei fellur á, enda slíkir góðmálmar sjaldfundnir í Danmörku. Tak skal I ha' er samt betra en ekkert þegar maður á tímum Ipads fær fimm bindi af Íslendingasögunum á nýrri dönsku og skýrri bundnar inn í brakandi gervileður. Íslendingasögurnar verða aldrei tímaskekkja, ef menn gera sér grein fyrir því að þær eru fyrst og fremst skáldskapur og góðar trivialbókmenntir.
Það vekur einnig athygli mína, að það sem áður voru kallaðir bútar af sögum, kallast nu totter á nútímadönsku, en ekki fragmenter eins og áður. Aumt þykir Fornleifi einnig og einber hottintottaháttur, að kassinn sem inniheldur Íslendingasögurnar á norsku, dönsku og sænsku sé skreyttur með mynd af ljónshöfði sem fannst í Osebergskipinu í Noregi, sem heygt var árið 834, löngu áður en norræn búseta hófst á Íslandi. Hafa menn aldrei heyrt af Þjóðminjasafninu? Þar réði faðir dræplingaskáldsins eitt sinn ríkjum, og þar er fullt af gripum sem sæmt hefðu sér betur sem skreyti á útgáfum Íslendingasagna en norskur kattarhaus.
Sjá frétt RÚV um dræplinginn: Hér og hér.
Fyrri færslur um Eldjárn: T.d. Hér og hér.
Fornsögur | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Drakúla á Þjóðminjasafninu
9.3.2014 | 23:45
Skömmu eftir að ég hóf störf á Þjóðminjasafninu í mars 1993 var haldin norræn kvikmyndahátíð í Reykjavík.
Ég hafði ekki tíma til að líta á hana, þar sem ég stóð í búferlaflutningum og var að koma mér fyrir í turni Þjóðminjasafnsins. Þjóðminjasafnið var lokað á mánudögum og er líklega enn. Ég var þennan morgun að koma út úr lyftu og að ganga inn í fornaldarsalinn fyrrverandi, sem var orðin nokkuð fornfálega sýning en ágæt miðað við aldur, þegar að ég sé eldra, mjög vel klætt fólk komið inn á gólf í anddyri safnsins. Aðeins lítill hluti ljósanna var kveiktur og ég sá ekki hvaða fólk þetta var til að byrja með, en er ég gekk nær þeim sá ég að þarna var kominn sjálfur Drakúla greifi og spúsa hans, þ.e.a.s leikarinn heimsþekkti Christopher Lee (f. 1922) og kona hans dönsk. Lee var dómari á norrænu kvikmynda-hátíðinni.
Úti var leiðindaveður og éljagangur, og þau hjónin höfðu gengið veðurbarinn frá Hótel Sögu til safnsins til að fræðast um íslenska menningu. Þá var gengið inn um annan enda en nú á safnahúsinu. Árni húsvörður hafði líkast ekki enn lokað dyrunum þegar hann var að skafa tröppurnar en hann kom einnig að Drakúlu þegar hann var búinn að koma frá sér verkfærum.
Frúin talaði við mig dönsku og var ánægð yfir því að ég gæti talað við hana á dönsku, en heldur óhress á mjög yfirvegaðan og aristókratískan hátt yfir því að safnið væri lokað. Ég ég bað þau að koma daginn eftir. Ég sé enn eftir því að hafa ekki boðið Drakúlu að skoða safnið í fylgd með mér. En ég var, man ég nú, upptekinn við að vinna verkefni sem tengdist sýningu íslenskra gripa í Bogasal sem höfðu verið á stórri víkingasýningu erlendis, en ég hafði skrifað sýningatexta um íslensku gripina fyrir þá sýningu.
En svona er maður stundum vitur eftirá og lítil blóðsuga í sér. Vona ég svo sannarleg að Drakúla hafi fyrirgefið mér þetta blóðleysi og skort á gestrisni í lok mars árið 1993. Annars er ég með blóðsugutryggingu, nóg af geirlauk og hælum sem reka má á bólakaf, og ef ég leita gæti verið að hentugur kross leyndist einhvers staðar ofan í skúffu uppi á háalofti.
Fornsögur | Breytt 10.3.2014 kl. 05:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Óð Snorri Sturluson líka í gyðingahatri?
20.11.2013 | 12:22
Á hinum síðustu og verstu tímum, þegar gyðingahatur hefur sjaldnast verið meira í Evrópu og "venjulegir" Íslendingar skrifa í umræðu á Smettiskruddu um umskurn, að gyðingar séu sjálfir að kalla yfir sig nýja helför, meðan enn aðrir segja fjálglega frá því að þeir hafi á ævi sinni "lent í ferlegum Gyðingi, sem beitti bæði slægð og kænsku til að græða á þeim sem öðrum, laug, sveik og stal og það..." (sjá athugasemdir þann 10. nóvember 2013 á snjáldurskinnu Ragnhildar Pálu, sem er mikill vinur gyðinga).
Þegar svo hræðilega er komið fyrir Íslendingum í ófétis hatrinu og fordómunum, er áhugavert að detta ofan á nýja fræðigrein um Snorra Sturluson og gyðinga. Ég hef sjálfur skrifað niðursoðna, en þó mest lesnu (og stolnu) sögu gyðinga á Íslandi (sjá hér), en hefi aldri rekist á neitt um að Snorri forfaðir minn, og okkar margra, eigi að hafa ritað um gyðinga eða gyðingdóm. Hann velti vissuleg fyrir sér þjóðum að sið fróðra samtíðarmanna sinna, sem vissu mest lítið um allt. En það er glænýtt fyrir mér að Snorri hefði verið að gangast upp í gyðingum. Hann nefnir gyðinga ekki einu sinni í Eddu sinni.
Ungur fræðimaður við Harvard/UCL, Richard Cole að nafni, hefur mikið velt fyrir sér frásögnum af gyðingum í fornbókmenntum Norðurlanda. Í nýrri grein (sem hér er í nýjustu gerð sinni frá 2017, en þessi grein var skrifuð á grundvelli "draft" gerðar. Richard hefur breytt grein sinni eitthvað) sem hann hefur ritað um gyðinga og Snorra Sturluson er margt á huldu og flest mjög tilgátukennt. Segir Cole reyndar sjálfur að hugmyndir sínar, sem eru vægast sagt frekar langsóttar, séu kannski "unpalatable". Ég verða að viðurkenna að mér þykir tilgáta Cole algjörlega óæt, þótt margt áhugavert sé hægt að lesa í grein þessa unga, áhugaverða fræðimanns sem ég fylgist með á Academia.edu.
Múspells synir voru synir jötunsins Múspells, sem samkvæmt Snorra áttu að ríða að Bifröst til að berjast við æsina við Ragnarökkur á Vígríðarvelli ásamt öðrum illfyglum eins og Surti, Fenrisúlfinum og Miðgarðsormi. Cole telur að Snorri lýsi Múspels sonum í Eddu sinni (ca. 1215) með minnum sem notuð voru til að lýsa gyðingum, sér í lagi svo kölluðum "rauðum gyðingum" í frásögnum af Antikristi. Telur Cole að Snorri sé að nota lýsingar af "Rauðu gyðingunum" þegar hann lýsir Múspells sonum. Samkvæmt miðaldahindurvitnum áttu þeir að búa í Kákasus, einangraðir mjög, og áttu þeir að koma á hinsta degi til að berjast við góð öfl og til að koma í veg fyrir ætlunarverk Krists.
Sér Cole margt líkt með lýsingum á rauðu gyðingum og sögum af Loka og af þursunum Múspellssonum. Segir hann að kenningin Muspellz synir hjá Snorra sé "halfrím" við kenninguna Ísræls synir sem er skilgreining sem gefin er á gyðingum í Stjórnahandriti (AM 226 and 228 folios) sem er samansafn frásagna úr Gamla Testamentinu og er frá 14. öld, en ekki þeirri 13. eins og Cole heldur fram. Vitnar Cole einnig til miðaldakvæðis sænsks og miðaldatréristu máli sínu til stuðnings. En Cole gleymir hins vegar að segja okkur að sænska miðaldakvæðið Konung Alexander, sem inniheldur frásögn af "rauðum júðum", er frá 1380 og tréristan sem han birtir mynd af í grein sinni er úr þýska ritinu Der Antichrist frá 1480. Elsti textinn sem nefnir rauðu gyðingana er handritið Der Jungere Titurel frá 1272 , og telur Cole að sagan þar af rauðgyðingunum geti byggt á miklu eldri heimildum. Engar sönnur eru þó færðar fyrir því eða í riti því sem Cole vitnar í eftir Andrew Colin Gow. The Red Jews. Antisemitism in an Apocalyptic Age 1200-1600. (Leiden: E.J. Brill, 1995). Mér þykir í hæsta máta ólíklegt að Snorri Sturluson (1179-1241) hafi verið búinn að ná sér í hugmyndir sem byrjuðu að gerjast eftir 1220 suður í Evrópu.
Þessa mynd notar Cole til að færa rök fyrir að lýsingar Snorra á Múspells sonum séu lánaðar af lýsingum miðaldaruglubókmennta um svokallaða "rauða júða". Myndin er hins vegar ekki frá tímum Snorra, heldur frá 1480.
Grein Coles er tilraun til tilgátu. Hann setur ekki fram nein óyggjandi sannindi um þekkingu Snorra Sturlusonar á gyðingum eða notkun hans á gyðingalýsingum þeim sem hann telur að Snorri heimfæri upp á aðra óvinsælar eða óferjandi fígúrur. Mér finnst Cole gera Snorra upp þekkingu á fræðum og kreddum sem alls ekki eru varðveittar frá tímum Snorra sjálfs.
Ekki ætla ég að útiloka, að Snorri hafi þekkt til gyðingahaturs. Hugsanlega hefur Snorri fengið að láni einhver hatursminni um illsku gyðinga til að heimfæra á þurs úr Múspellsheimum. En ef ekki liggja fyrir betri heimildir en þær sem Cole framreiðir, verður þetta í mesta lagi skemmtileg tilgáta og tómar vangaveltur.
Myndin efst er niðurlensk eða þýsk trérista á pappír frá ca. 1470, sem sýnir gyðinga ræða við Jóhannes skírara. Gyðingahatur, sem Cole sér bergmálast í lýsingum Snorra á Múspellssonum var vissulega í hæsta máti áþreifanlegt á miðöldum. Það voru sannarlega til illmenni á tímum Snorra. Mörg þeirra störfuðu innan kirkjunnar, sem eins og öfgaíslam í dag ól á og nærðist á hatri í garð annarra þjóða og trúarbragða.
Þessi mynd er frá sama tíma og Snorri var upp á sitt besta. Myndin (músið myndina til að stækka hana) er teiknuð af meinfýsnum munki í skattaskrá Norwichborgar árið 1233, og á henni er hæðst að gyðingum sem bjuggu á þeim tíma í borginni. Þeir voru greinilega hataðir á sama hátt og konan hataði gyðinga í athugasemd á smettiskruddu Ragnhildar Pálu um daginn.
Háðsmyndin er m.a. af Isaak syni Jurnetts, syni Eliabs. Hann er sýndur sem konungur með þrjú andlit. Í Norwich er reyndar enn til hús sem kallað er Music Hall, sem er talið vera afbökun á Moishe Hall, og telja sumir að húsið sé að grunni til það hús sem Isaak ben Jurnet bjó í á 13. öld. Ísak þessi var lánadrottinn Hinriks III Englandskonungs, svo og munka í Westminster sem hann saksótti fyrir skuldir, og einnig biskupsins af Norwich.
Moshe Mokke og kona hans Abigail eru einnig hædd á níðteikningunni. Moshe Mokke var dæmdur fyrir að slá mann og síðar hálshöggvin fyrir að höggva silfur. Hinrik III greiddi aldrei Ísak fé það sem hann skuldaði honum og setti á lög sem gerði gyðingum lífið mjög leitt. Það átti að heita að hann verndaði þá, en fyrir það lánuðu þeir honum á mjög góðum kjörum og greiddu stundum sjálfir fyrir með lífi sínu. (Hinrik III hef ég áður nefnt. Hann elskaði hvítabjörn sinn meira en gyðinga. Heinrekur III tjóðraði björninn í Tower of London og á tyllidögum fékk björninn að synda í Thamesá og veiða sér fisk. Henrý var mikill dýravinur og átti líka fíl sem dó líklega úr rauðvínsdrykkju).
Árið 1144 var gyðingum í borginni Norwich kennt um barnaníð og morð, þegar 12 ár drengur, Vilhjálmur að nafni, hvarf. Þótt aldrei hafi sannast að Villi litli hefði verið myrtur, og líklegra sé, að hann hafi verið grafinn lifandi af ættingjum sínum sem héldu að hann væri látinn, þá komu upp svipaðar ásakanir á hendur gyðingum á næstu árum víðs vegar um Bretland. Vilhjálmur var tekinn í dýrlinga tölu.
Líklegt er að beinagrindurnar 17 (þar af 11 af börnum) sem fornleifafræðingar fundu í brunni í Norwich (sjá hér) séu afleiðing múgæsingar sem greip um sig á Bretlandseyjum á 12. öld? Kannski töldu kirkjunnar menn, sem fengið höfðu fé að láni frá gyðingum, múgnum trú um að fólkið sem myrt var væri Múspells börn og því réttdræpt.
Gyðingahatur er enn notað til að hlaupa frá skuldum sínum, til að fyrra sig ábyrgð og til að kenna öðrum um allt sem miður fer. Það sannaðist er einn af pótentátunum sem settu Ísland á skuldamannabekk hér um árið ásakaði ásamt öðrum ýmsa gyðinga á Bretlandseyjum fyrir að reyna að ná í auðævi sín fyrir slikk (sjá hér, hér, hér , hér og hér).
Fornsögur | Breytt 26.12.2020 kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)