Det ville som sagt være meget beklageligt for skandinavisk arkæologi...

Miðhús halsring

Eitt af þeim einkennilegustu málum sem upp hafa komið í fornleifafræði á Íslandi er málið sem spannst um Miðhúsasjóðinn. Það var sjóður gangsilfurs sem fannst óáfallinn í jörðu austur á landi árið 1980, svo hreinn að það vakti undran Kristjáns Eldjárns og annarra. Á síðasta tug 20. aldar hélt virtur breskur sérfræðingur því fram að sjóðurinn væri að miklum hluta til falsaður. Aðdragandinn að rannsókn hans verður lýst mjög ítarlega síðar hér á Fornleifi.

Þjóðminjasafnið, sem upphaflega hafði beðið um rannsókn Graham-Campbells og borgað fyrir hana, vildi ekki una niðurstöðu Graham-Campbells og pantaði því og keypti aðra rannsókn, annað mat á sjóðnum hjá Þjóðminjasafni Dana árið 1994. Þjóðminjasafn Dana, Nationalmuseet, sendi svo frá sér skýrslu árið 1995, þar sem meginniðurstaðan var sú að silfursjóðurinn væri ófalsaður, en lýst var miklum vafa um uppruna nokkurra gripa í sjóðnum. Danska skýrslan var ekki gerð almenningi aðgengileg, heldur var skrifuð íslensk skýrsla sem ekki var samróma þeirri dönsku.  

Fyrirfram gefnar skoðanir 

Fljótlega kom í ljós, að danski fornleifafræðingurinn Lars Jørgensen á Þjóðminjasafni Dana var með harla ákveðnar og fyrirfram gefnar skoðanir á rannsókn James Graham-Campbells, sem hann lýsti við þá tvo íslensku embættismenn, Lilju Árnadóttur á Þjóðminjasafni og Helga Þorláksson hjá Háskóla Íslands, sem bæði voru vanhæf til að standa að rannsókninni að mínu mati. Það kom í þeirra hlut að falast eftir rannsókn Þjóðminjasafns Dana. Lars Jørgensen skrifaði 17.11. 1994:

Det vil som sagt være yderst beklageligt for skandinavisk arkæologi, hvis Prof. Graham-Campbel  [sic] antagelser er korrekte. Nationalmuseet vil naturligvis derfor meget gerne medvirke til en afklaring af de pågældende tvivlsspørgsmål omkring dele af skattens ægthed.

Í þessum orðum Lars Jørgensens felst  greinilega sú upplýsing, að hann eða aðrir hafi lýst því yfir, áður enn að rannsóknin hófst, að það væri mjög miður, ef álit James Graham-Campbells væri rétt.

Þannig byrjar maður auðvitað ekki óvilhalla rannsókn og dæmir sig strax úr leik. Lars Jørgensen hefur  harðneitað að svara hvað hann meinti með þessum orðum sínum, þegar nýlega var leitað til hans um það. Þó svo að honum hafi verið gert ljóst að þessi orð hans hefði verið hægt að lesa í þeirri skýrslu sem lögð var fram á Íslandi, sem var reyndar ekki skýrsla hans.

Jørgenssen þekkir greinilega ekki stjórnsýslulög í Danmörku. Hann hefur einnig neitað að segja álit sitt á skoðun helsta sérfræðings Breta á efnagreiningum á fornu silfri, en dr. Susan Kruse lét þessa skoðun í ljós árið 1995. Dr. Kruse gaf ekki mikið fyrir rannsókn Þjóðminjasafns Dana.

Vonandi neita menn á Íslandi ekki að skýra orð Lars Jørgensens þegar til þeirra verður leitað. Greinilegt er, að hann var annað hvort að endurtaka skoðun þeirra sem báðu hann um rannsóknina, eða að láta í ljós og endurtaka mjög litaða skoðun sína, eða kannski yfirmanns síns Olafs Olsens þjóðminjavarðar, áður en óvilhöll rannsókn átti að fara fram.

Miðhús uppgröftur 1
Þór Magnússon finnur silfur á Miðhúsum árið 1980. Úr frétt á RÚV.

 

Rangfærslur í skýrslu Þjóðminjasafns

Þetta mun allt þurfa að koma fram. Hvað segir t.d. prófessor Helgi Þorláksson? Fór hann með, eða sendi, silfrið til Kaupmannahafnar vegna þess að hann taldi að það væri vandamál fyrir skandínavíska fornleifafræði ef James Graham-Campbell hefði hitt naglann á höfuðið? Það yrði mjög leitt fyrir íslensk fræði ef Helgi vildi ekki svara, en hann hefur nú þegar verið spurður. Hann er reyndar ekki fornleifafræðingur og vill kannski ekki svara vegna vankunnáttu. En aðferðafræðirnar í fornleifafræði og sagnfræði eru ekki svo frábrugðnar hverri annarri. Í hvorugri fræðigreininni taka menn að sér rannsókn á úrskurðarefni með eins fyrirfram ákveðnar skoðanir og Lars Jørgensen hafði á Miðhúsasjóðnum.

helgi-thorlaksLilja Árnalars-joergensen

Helgi, Lilja og Lars. Hvert þeirra taldi, að það væri mjög miður fyrir skandínavíska fornleifafræði, ef James Graham-Campbell hefði á réttu að standa?

Ætli þau hafi í dag sömu skoðun á aldri silfursins, þegar ljóst er að efnagreiningar Þjóðminjasafns Dana "on their own as they stand now could not prove that [it is Viking Age silver]" eins og dr. Susan Kruse skrifaði 1995. Þáverandi formaður Þjóðminjaráðs, Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður, hafði þegar í júní tekið undir þá ábendingu James Graham-Campbells, að Susan Kruse yrði fengin til að annast frekari rannsóknir á sjóðnum. Menntamálaráðuneytið vildi ekki taka afstöðu til tillögu Ólafs, en bætti við þann 12. september 1994:

"Ráðuneytið telur þó koma til álita að leita til sérfræðinga á Norðurlöndum, þar sem sjóðir af þessu tagi hafa verið ítarlega rannsakaðir."

Sjóðir frá Víkingaöld í Skandinavíu höfðu aldrei verið efnagreindir ítarlega í heild sinni árið 1994, og nú er komið í ljós að Lilja Árnadóttir hafði þegar haft samband við Lars Jørgensen í apríl 1994, heilum 6 mánuðum áður en formlega var haft samband við Olaf Olsen, þjóðminjavörð Dana, í október 1994. Annað er reyndar upplýst í skýrslu hennar og Helga um rannsóknina. Þar er ekki sagt frá því að Lilja Árnadóttir og Þjóðminjavörður voru þegar í apríl 1994 búin að ákveða að rannsókn færi fram á silfrinu í Kaupmannahöfn. Skýrslunni er því einfaldlega ekki hægt að treysta; Í henni er greint rangt frá rannsóknarferlinu.

Er ekki kominn tími til að biðja dr. Susan Kruse að rannsaka silfrið og láta sér í léttu rúmi liggja hvað einhver lögfræðingur í Menntamálaráðuneytinu heldur og telur um rannsóknir á silfri á Norðurlöndum? Þessari spurningu er hér með beint til Þjóðminjasafns Íslands og Menntamálaráðuneytisins.

Hér má lesa skýrslu Þjóðminjasafns Dana. Niðurhal pdf-skrár tekur talsverðan tíma.

Hér er skýrsla og Helga Þorlákssonar og Lilju Árnadóttur, þar sem ranglega er greint frá rannsóknarferlinu á silfursjóðnum frá Miðhúsum.

1993 er ekki 1989 

Þess ber einnig að geta að ranglega er í skýrslu Helga og Lilju greint frá áhuga mínum á silfrinu frá Miðhúsum. Sagt er að ég hafi hreyft við því árið 1993, er Guðmundur Magnússon var settur þjóðminjavörður í leyfi sem Þór Magnússon var settur í. 

Ég var þegar búinn að hafa samband við Þór Magnússon þjóðminjavörð árið 1989 um málið, sjá hér. Rannsóknarsagan í skýrslu sagnfræðiprófessorsins og þjóðfræðingsins er eins og fyrr segir fyrir neðan allar hellur. Áhugi minn og aðkoma að málinu var vísvitandi rengdur með skýrslu þeirra. Áhugavert væri að vita af hverju.

Virðingarfyllst,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Segir það sig ekki sjálft að ef silfursjóður finnst sem sagður er hafa legið í jörðu í árhundruð, en ekki hefur fallið á hann eða nein oxydering átt sér stað, að hann sé sannanlega falsaður? Hvað kemur fólki til að halda öðru fram? Kraftaverk?

Sé hann svo falsaður, þá er það efni í heilabrot af hverju einhver ákveður að sólunda góðu silfri til að blekkja fólk? Hvað er mótívið fyrir slíku? Er hægt að leiða einhverjum líkum að því og skoða betur aðdraganda þessa fundar og þá sem að honum komu.

Mér er það óskiljanlegt af hverju ekki hefur farið fram samanburðarrannsókn á málmfræðilegri samsetningu silfursins. Það mundi væntanlega taka af öll tvímæli. 

Kannski á þetta rætur í háskólanum sjálfum og akademísku költi innan þessarar, sennilega, lélegasta háskóla í víðri veröld.  Hann er jú rankaður ansi neðarlega, en ég held að hann sjé örugglega á botninum. Dreg ég þá ályktun ekki bara af þessu fagi. Kannski að við þyrftum enn eina rannsóknarnefnd til að kryfja það og hreinsa til í launaáskrifendum þessarar sólundunarstofnunnar.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.12.2011 kl. 16:50

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ef mig minnir rétt þá var þetta ekki arabískt silfur nema að litlu leiti. var ekki gerð rannsókn á umbúðunum ? Ef það kemst ekkert súrefni á silfri þá er ekki víst að það oxyterist. Ég fékk þessa skýrslu en var með getgátur um að þetta væri frá kyrrahafsströndinni en í bresku Columbíu eru fornar silfurnámur hjá Tlinkit? Indíánunum sem mig minnir rétt og þar kom það úr jörðinni sem víralengjur.. 

Valdimar Samúelsson, 19.12.2011 kl. 10:11

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Valdimar, engar myntir voru í sjóðnum, en hvort silfrið er smíðað úr arabískum peningum skal látið ósagt hér. Ég þekki ekki þessa indíána sem þú nefnir og held, satt best að segja, ekki að silfur frá Vesturheimi hafi verið á Íslandi á söguöld. Menn töldu að silfrið hefði kannski verið í öskju úr hvalskíðum í jörðu, en ekki þótti það sannað. Slík askja gæfi hins vegar varla það mikla vernd, að forsetar og fornleifafræðingar héldu að silfrið væri nýpússað.

Jón Valur, þú trúir ekki á kraftaverk. Hvað heldur þú að hafi gerst með silfrið? Mér hefur alltaf þótt skrítið hvernig höfundar dönsku skýrslan gefa sér ýmsa hluti um varðveisluna, án þess að hafa nokkuð í höndunum. Ég hef spurt Lars Jørgensen og Birgittu Hårdh um handtæk dæmi um sjóði sem finnast óáfallnir og sem nýpússaðir. Lars hefur neitað að svara, og Hårdh hefur ekki svarað. Ég hef svo sem spurt aðra sérfræðinga, en enginn þeirra taldi líkur á því að silfur fyndist óáfallið í jörðu eftir 1000 ár, nema ef súrefni og vatn hefði alls ekki komist að því .

FORNLEIFUR, 19.12.2011 kl. 16:09

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Já ég viðurkenni þetta og skrítið og að fá ekki svar á svona einfaldri spurningu. Það hljóta að vera einhver dæmi um þetta eða ég myndi ætla að það hafi fundist silfur áður hvað þá annarsstaðar í heiminum. Það væri hægt að láta efnagreina þetta silfur en það voru silfur fornar námur bæði í Michigan og svo vestan við Ameríku. Hvort þetta silfur hafi verið frá öðrum hvorum staðnum sínir og sannar að það hafa verið viðskipti við Norður Ameríku. Það þarf reyndar ekkert meira til að sanna viðskipti en að horfa á vörurnar sem komu í gegn um grænland eða beint en það eru vörur sem ekki finnast á grænlandi.  

Valdimar Samúelsson, 19.12.2011 kl. 17:18

5 identicon

Hmm... spurning um láta Kára i DeCode skoða málið, er hann ekki manna fróðastur um tengsl milli Islands og USA til forna.  Kvedja fra Vesturheimi.

Jakob Valsson (IP-tala skráð) 19.12.2011 kl. 17:37

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Jakob, nei ég held að Kári hjá deCode geti litlu bætt við það sem vitað er um silfursjóðinn í Miðhúsum, þótt hann telji sig hafa fundið "skrælingja" á Íslandi. Aðrir sérfræðingar segja að aðferðafræði Kára sé vafasöm.

Valdimar, áður en við förum alveg yfir í algjört Silverado, þá mun silfrið á Miðhúsum, ef mestur hluti þess er ekta eins og ályktað er í dönsku skýrslunni, vera frá því fyrir 1000 e. Kr. Ég þekki ekki mikið inn á indíánasilfur, en mér þykir ólíklegt að það hafi komið til Íslands fyrir 1000 e. Kr. Ég held ekki að hægt sé að sýna fram á uppruna gangsilfurs og tengja það við ákveðnar námur.

Efnagreining hefur reyndar farið fram á silfursjóðnum frá Miðhúsum, en gagnrýnin á hana frá helsta sérfræðingi Breta í silfurefnagreiningu, sem fyrir enga muni mátti koma nálægt sjóðnum frá Miðhúsum, er sú að ekki sé hægt að nota niðurstöðurnar frá Kaupmannahöfn til að segja neitt afgerandi um uppruna silfursins. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

FORNLEIFUR, 19.12.2011 kl. 23:25

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Jón Steinar, fyrirgefðu mér að ég kallaði þig Jón Val, hér ofar. Það er ekki sama Jón og séra Jón.

FORNLEIFUR, 19.12.2011 kl. 23:27

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég taldi þetta augljóslega vera mistök Villi og vona að ég líkist ekki svo leiðum.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.12.2011 kl. 23:02

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gleðilegar sóslstöður og takk fyrir allt gamalt og gott, súrt og sætt á liðnum árum. Ég ætlaði svo ekki að kalla þig Villa herra Fornleifur. Það sýnir að öllum getur orðið á.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.12.2011 kl. 23:05

10 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Chag Hanukkah Sameach, Herra Jón Steinar.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 22.12.2011 kl. 22:29

11 Smámynd: Snorri Hansson

FORNLEIFUR.

Það væri gott innlegg í málið að einhver kíkti á sjóðinn til þess að vita hvort fallið hefur eðlilega á silfrið þessi þrjátíu ár sem liðin eru frá fundi. Ég man eftir fréttum af þessum fundi, aðallega vegna ótrúlega margra besservissa sem tættu æruna hver af öðrum. En ósköp lítið af raunverulegum hlutlausum rannsóknum. Gæti verið að þetta „ekta norræna“ brota-silfur hafi verið látið liggja í tvo mánuði í úlfalda keytu? Gæti verið að heimasæta á Miðhúsum hafi viljað sína hvað hún væri dugleg og dundað við dýfa sjóðnum í BRAZZO? Gæti verið...............?

Snorri Hansson, 12.1.2012 kl. 11:26

12 Smámynd: FORNLEIFUR

Ég veit það ekki Snorri. Er úlfaldahland gott?

FORNLEIFUR, 12.1.2012 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband